Á Laugarnesi í Reykjavík er skilti. Yfirskriftin á skiltinu er; „Velkomin á Laugarnes„.
Á skiltinu má lesa eftirfarandi texta: „Laugarnes er ein af útivistarperlum Reykjavíkur. Hér er eina náttúrumyndaða fjaran sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi. Fjaran er mikilvæg fyrir fuglalíf, þar sem á svæðinu verpa nokkrar fuglategundir.
Menningarlandslagið í Laugarnesi hefur mótast af búsetu í margar aldir og hver kynslóð hefur markað sín spor í landið.
Búið er í fjórum húsum á svæðinu auk þess sem Listasafn Sigurjóns Ólafssonar er starfrækt hér.
Hernámið
Breski herinn gekk á land í Reykjavík þann 10. maí 1940. Hann lagði undir sig ýmsar byggingar fyrir starfsemi sína auk þess sem reistar voru tjaldbúðir víðsvegar um bæinn.
Síðar voru reistir hermannaskálar eða svokallaðir braggar á vegum hernámsliðsins. Í Reykjavík risu um 80 braggahverfi sem hýstu um 12.000 hermenn. Eitt þeirra var hér vestast á Laugarnesi, Laugarneskampur.
Árið 1941 tók síðan bandaríska seturliðið við Laugarneskampi sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum.
Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns.
Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganum bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans.“
Skammt frá skiltinu er annað upplýsingaskilti um fyrrum holdveikraspítalann á Lauganesi – sjá HÉR.