Tag Archive for: Brennisteinsnám

Brennisteinsnámur

Um er að ræða skýrslu um sögu brennisteinsnáms á Reykjanesskaganum frá upphafi, byggt á munnlegum sem og skráðum heimildum, auk ítrekaðra vettvagnsrannsókna.
brennisteinsnam-221Skýrslunni fylgir heildstæð  fornleifaskráning af öllum minjum á þremur megin brennisteins-námusvæðum; Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Öll námusvæðin, sem að öllum líkindum hafa verið notuð meira og minna af og til frá því á 12. öld, hafa að geyma mannvistarleifar frá mismunandi tímum. Mikilvægt er að skrá allar minjar á svæðunum svo áætla megi sögulegt samhengi þeirra og ákveða varðveislu þeirra.
Þrjár fornleifaskráningar hafa áður verið gerðar á Krýsuvíkurnámu-svæðunum, en þær hafa verið mjög ónákvæmar.
Skýrslunni er ætlað að bæta úr framangreindu. Markmið hennar er, eins ávallt þegar FERLIRstilgangurinn er annars vegar; að skrá, miðla og varðveita.
Skýrslan, sem er á annað hundrað blaðsíður, verður ekki gerð aðgengileg á netinu, en verður dreift til valinna aðila er hagsmuna hafa að gæta á svæðunum, s.s. HÉR.
Eftir sem áður ber að hafa í huga, að fenginni reynslu, að sérhver fornleifaskráning er – og getur aldrei orðið – endanleg.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

 

Seltún

Ferðinni var heitið að Seltúni í Krýsuvík með það fyrir augum að skoða svæðið m.t.t. hugsanlegra sýnilegra minja (tófta).
Áður höfðu fundist seltóftir og hringlaga gerði austarlega á túninu. Ljóst er Selstaðanþó að þarna var brennisteinsnám um nokkurt skeið, bæði af hálfu Krýsuvíkurbænda og útlendinga. Tóftir húsa eru neðan undir Baðstofu (sjá meira HÉR) og því ættu að vera sambærilegar minjar við Seltún nálægt Hveradal þar sem brennisteinn var jafnframt numin á sama tíma. Ljóst er af skrifum Ole Henchels um brennisteinsmannvirki í Krýsuvík 1776 að þau voru nokkur, en höfðu verið látin drabbast niður. Brennissteinsvinnslan var síðan tekin upp að nýju í námunum og þá hafa væntanlega verið byggð ný hús og önnur mannvirki. Leifar þeirra ættu að sjást þrátt fyrir margbreytileika landsins.
Til gamans má geta þess að Seltúns- og Hveradalssvæðið er eitt fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins, en minjanna þar umleikis er hvergi getið (árið 2009), hvorki hinnar fornu þjóðleiðar um Ketilsstíg, selstöðunnar í Túninu né brennisteinshúsanna.
HringlagaTil að gera langa sögu stutta má geta þess að við leitina fundust tvö hús úr torfi og grjóti norðan við Seltún, auk hestagerðis, og ein lítil ferningslaga tóft vestan við það. Áður en þessum minjum verður lýst nánar er ástæða til að rifja upp annan fróðleik um efnið á öðrum FERLIRssíðum (ekki síst til að koma að fallegum myndum af svæðinu).
„Brennisteinn var unninn í Krýsuvík á 18. og 19. öld. Frægar eru ljósmyndir í ensku 19. aldar blaði er sýndu „arðvænlega“ vinnslu náttúruauðlinda á svæðinu. Á þeim sáust miklir hraukar brennisteins og allt virtist í fullum gangi. Tilgangurinn með myndunum var m.a. að selja enskum hlutabréf í námuvinnslufélaginu.
TóftÞeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unninn brennisteinn í Krýsuvík. Til er uppdráttur af námuvinnslusvæðinu frá þessum tíma. „Hverasvæðinu er skipt í tvö svæði. Annað heitir „Heimanáman“, þar sem brennisteinninn er. Það er sunnar, nær Krýsuvíkurbæ og sjónum. Hitt svæðið liggur norðar, uppi í fjöllunum. Þar eru hverirnir flestir, og eru fjórir þeirra mestir. Við mældum einn þeirra, sem bláleirsgrautur sýður í. Í honum beygja menn tré og gyrði. Hann er 6 álna djúpur. Annar hverinn er mjög nýr. Hann var til veturinn 1754 -1755 í miklum landskjálfta, og héldu þeir, sem þá voru staddir þar í brennisteinskofunum, að þeir mundu hrynja.“
TóftBrennisteinssvæðin voru tvö; annars vegar í Baðstofu (Heimanámar) milli Hettu og Hatts og hins vegar við Seltún. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Þeir seldu síðan námuréttindin fyrir peninga og þótti það í frásögu færandi. Upphæðin var þó lítil miðað við mögulegan ávinning.
Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: „Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum í nytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu.“

Gerði

Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq. brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.
TóftManntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.
KetilsstígurLandamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní sama ár. Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Kostnaðurinn við brennisteinsvinnsluna varð þó of mikill og var því einungis unnin brennisteinn þar í tvö sumur eftir að JWB keypti námurnar. Síðan tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson. Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877. Þeir nýttu námurnar árið 1876. Þeir stofnuðu m.a. „Brennisteinsfélag Krýsuvíkur“ og reyndu sem fyrr sagði að selja hlutabréf í námuvinnslunni til Englendinga.

Þil

Á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar og æ erfiðara var að ná í hann. Grafa þurfti og bora eftir brennisteininum með mikilli fyrirhöfn. Hreinsa þurfti afurðirnar, safna saman, þurrka, móta og flytja. Settar voru upp nokkra kvíar úr tréþiljum í lækjarfarveginn og í þær safnað vatni. Í þeim var brennisteinninn þveginn áður en hann var færður upp í stóra hrauka á svæðið sem nú er bílastæði.
Á stríðstímum var brennisteinninn „gullsígildi“, en á friðartímum svaraði vinnsla hans varla kostnaði.
Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins.
Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir. Enn þann dag í dag má sjá leifar námuvinnslunnar, en fáir veita þeim athygli.
Í bók II er skýrsla Ole Henchels um brennisteinsnámur á Íslandi og hreinsun brennisteins, 30. janúar 1776. Í henni lýsir Ole m.a. leir og brennisteini í Krýsuvíkurfjalli og hvernig vatnsborð Kleifarvatns hafði lækkað eftir landskjálfta, „trúlega eftir að sprunga hafi opnazt í vatnsbotninum“.

 

Nýrri„Hjá syðstu námunum rétt við fjallsræturnar var fyrsta hreinsunarstöðin reist, en þar sem ekkert eldsneyti var þar að hafa, var hún flutt og sett niður fjórðung mílu frá bænum, en þar er mótekja góð. Síðan var hún flutt heim undir bæinn, því að mönnum þótti léttara að flytja brennisteininn þangað niður eftir en að flytja eldsneytið upp eftir að fyrsta stöðvarhúsinu. Heima við bæinn er einnig léttara að ná í vatn, því að lækur með góðu vatni rennur þar framhjá.
Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði tekin upp brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo að allt verður að gera að nýju, ein og þar hefði aldrei fraið fram brennisteinsvinnsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar.

Eldri

Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Það hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna búsettur og hafði unnið við brennisteins-vinnsluna. Síðan hefði kaupmaðurinn í Grindavík, sem er einungis 2 1/2 mílu í burtu þaðan, getað farið til Krýsuvíkur eini sinni á sumri til þess að líta eftir, að umsjónin væri sómasamlega rækt. Þá hefði ekki þurft nema smávegis aðgerðir, þegar vinnslan yrði upp tekin á nýjan leik…
Bóndinn í Krýsuvík vissi ekki nema af einum stað öðrum, þar sem brennisteinn fyndist. Er hann 2 1/2 mílu í norðaustur þaðan. Síðast meðan unnið var í Krýsuvík að brennisteinsnámi, sótti hann þangað allan þann brennistein, sem þar var að fá, á 50 hesta, og hefur það þá verið nálægt 80 ættum. Ekki vissi hann, hvort brennisteinn hefði skapazt þar síðan, og væri það vert athugunar.
TóftEf til þess skyldi koma, að brennisteinsvinnsla yrði hafin hér að nýju, þá mundi stofnkostnaðurinn verða allmikill, eins og þegar hefur verið bent á. En ég þori að fullyrða, að þetta er kleift, ef hagsýni er gætti. Í fyrsta lagi verður að taka brennisteininn með hinni mestu varkárni. Þá verður og að fara skynsamlega að við hreinsunina og ætti fyrst að þvo hrábrennisteininn. Með þeim hætti hygg ég, að mætti ekki aðeins spara mikið lýsi, heldur einnig yrði brennisteinninn betri en ella. Hversu þessu yrði bezt fyrir komið, skal ég lýsa, þegar ég síðar lýsi þeim aðferðum, sem nú eru notaðar við hreinsun brennisteins í hreinsistöðinni á Húsavík.

Brennisteinn

Í Krýsuvík er brennisteinninn hreinni og betri en á Norðurlandi. Það þarf ekki heldur að flytja hann óhreinsaðan langar leiðir eftir vondum vegum, svo að framleiðslukostnaðurinn verður minni en á Húsavík. Hins vegar verður að kannast við það, að frá Krýsuvík þarf að flytja brennisteininn hreinsaðan 6 mílna leið til Hólmshafnar, en þaðan er hann fluttur út. En Grindavíkurhöfn er aðeins 2 1/2 mílu frá Krýsuvík og allgóður vegur þar á milli. Ef brennisteinsvinnslan yrði upp tekin, verða starfsmenn verzlunarinnar að skera úr því, hvort muni vera ódýrara, að flytja brennisteininn á hestum til Grindavíkur og þaðan á bátum til Básendahafnar, þar er ekki er siglt á grindavíkurhöfn, eða flytja hann á hestum alla leið í Hólminn eða til Hafnarfjarðar. En þeir geta gert það betur en ég, því þeir hafa fyrrum haft umsjá með flutningunum og vita, hvað þeir hafa kostað. Þeir ættu einnig að geta reiknað nokkurn veginn, hvað flutningskostnaðurinn yrði, eins og ég hef stungið upp á, og er þá létt að bera það saman, hvor leiðin reyndist ódýrari, og að velja hana að sjálfsögðu.
En þegar nú þar að auki nokkrar smáskútur eru gerðar út til fiskveiða við Ísland, gætu þær tekið brennisteininn á Grindavíkurhöfn, og þá er flutningurinn á landi mjög stuttur.
Hins vegar get ég ekki heitið því, að unnt sé að stunda brennisteinsnám í Krýsuvík um langt skeið í einu, þar eð námurnar eru allar á einum stað og ná ekki yfir sérlega stórt svæði. Þegar brennisteinninn hefur verið tekin úr þeim í 3-4 ár, mun þurfa að hvíla þær um jafnlangan tíma, nema menn yrðu svo heppnir að finna þar kaldar námur, sem hægt væri að vinna meðan brennisteinn myndaðist á ný í lifandi námunum, en ekki er hægt að gera því skóna með nokkurri vissu.
BrennisteinnEn ef ekki sýnist tiltækilegt að hefja brennisteinsvinnslu í Krýsuvík að þessu athuguðu, virðist mér samt, svo að námurnar liggi ekki þar engum til gagns, að rétt væri að lofa bændum þeim, er þar búa, að hreinsa brennisteininn, gegn því að þeir afhendi hann verzluninni og fengju erfiði sitt og fyrirhöfn goldið eftir landsvenju. Verzlunin mundi að vísu ekki græða mikið á þessu, en hafa þó nokkurn ágóða.
Þá rannsakaði ég, eins og mér var boðið, hvort jarðhitinn væri nokkurs staðar svo mikill, að unnt væri að nota hann til brennisteins-hreinsunarinnar. En hann reyndist mér hvergi meiri en svo, að kvikasilfrið kæmist í suðumark. Hann er þannig með öllu ónógur til að bræða með brennisteinn eða eima hann, þegar hann er í föstu formi.

Fegurð

En þó að hitinn væri nægur, þá er jarðveguinn of laus til þess, að hægt sé að koma þar fyrir húsi eða nokkrum tækjum til að handsama hitann, því að þar er hvorki hægt að ganga né standa án þess að hætta sé á, að maður sökkvi í leðjuna, og varð ég oft fyrir því að vaða jörðina upp í hné.
Dagana 18. – 19 júlí fór ég um fjöllin, sem liggja suðvestur frá Kelifarvatni og fram hjá brennisteinsnámunum og beygja síðan í suðaustur til sjávar. Svipaðist ég þar um eftir kalki, sem mér datt í hug, að kynni að finnast þar, af því að kalk er algeng bergtegund í öðrum löndum. En hversu vel sem ég leitaði, fann ég hvergi nokkrun kalkvott, því að hvarvetna þar, sem égf fór eða sá yfir, var enga aðra bergtegund að sjá en sandstein þann, sem áður hefur verið lýst.“

Krýsuvík

Af framangreindum tóftum má ætla að torfhúsin tvö hafi verið verkfæra- og vinnufatageymslur. Norðan þeirra er slétt flöt, líklega eftir stórt tjald. Sunnan tóftanna er gerði. Þar hefur væntanlega verið ferhyrnd girðing til að geyma hesta þá er fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar. Tófin ferhyrnda sunnar gæti hafa verið undir kamar, enda spölkorn frá námuvinnslusvæðinu.
Leifar af tréþili neðan við Hveradal eru vissulega síðustu leifar brennisteins-vinnslunnar. Þó mætti ætla, af járnnöglum að dæma, að þar væri um nýrra mannvirki að ræða, en ef grannt er skoðað má sjá að eldri naglar Bretanna hafa rygað í gegn, en nýrri verið settir í staðinn. Líklegt má telja að þar hafi einhverjir verið að verki er talið hafa að brennisteinsnámið myndi ganga í endurnýjun lífdaga, enga gnæð af honum enn af að taka.
Segja má að fegurð Krýsuvíkur núdagsins gefi gærdeginum lítið eftir – ef grannt er skoðað…
Gengið var yfir í Austurengi. Á þeirri leið var m.a. gengið fram á óþekkta selstöðu, sem sagt verður frá síðar.
Eins og fram kom í upphafi var ætlunin að leita að og finna hugsanlegar mannvistarleifar brennisteinsnámsins í Hveradal/Seltúni. Jón Haltalín vildi nefna námusvæðið Ketilsstígsnámu – og ekki að ástæðulausu. Í raun má segja að um nokkur hverasvæði sé að ræða austan í Sveifluhálsi, hvort sem átt  er við Baðstofusvæðið eða Seltúnssvæðið.

Heimild:
-Ólafur Olavius – Ferðabók II og II, Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði, Bókfellsútgáfan, 1964, bls. 272-274 (II).
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm
-Sveinn Þórðarson, 1998.
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar – 1978, bls. 178-179 II.
-Afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu 1848-1862. (Gull. og Kjós. XIX, 3).
-Afsal Erlends Jónssonar á Brunnastöðum til P.C. Knudtzon, dags. 12.8.1838, á Krýsuvík með sex hjáleigum, Stóra-Nýjabæ, Litla-Nýjabæ, Norðurkoti, Suðurkoti, Austurhúsum og Vesturhúsum, og tveimur nýlendum, Vigdísarvöllum og Garðshorni. (Afs. og veðm. Gull. & Kjós. A, nr. 97).
-Þinglýsingar varðandi námarétt í Krýsuvík, dags. 20.6.1849.

Seltún

Seltún – hverasvæði.

Baðstofa

Eftirfarandi skrif um brennisteinsnámur í Krýsuvík og víðar í landnámi Ingólfs birtust í „Ný félagsrit“ árið 1885. Höfundur er J.H. (Jón Hjaltalín). Frásögnin lýsir vel jarðfræði og skoðun Jóns á brennisteinsnámum á svæðinu.
Brennisteinn„Eg fór fyrst, eins og ráð var fyrir gjört og stjórnin hafði lagt fyrir, til Krýsuvíkur. Leið mín lá, sem þú veizt, um Hafnarfjarðar-kaupstað, og því gafst mér þá þegar tækifæri á að skoða móbergið (Palagonif) í Fossvogi og Hafnarfjarðar-steininn (Havnefjordit) fyrir ofan Hafnarfjörð. Hin fyrsta af þessum steinategundum er fyrst fundin af barúni von Waltcrshausen og hefir prófessor Bunsen sagt svo, að hann þæktist sannfærður um, að þetta væri hin elzta steinategund á landi hér, og mundi hún hafa myndað grundvöll landsins áður því skaut úr sjó. Eg skal á sínum tíma geta þessa nákvæmlegar, en hér vil eg að eins taka það fram, að undireins og eg fór að skoða móbergið í Fossvogi, varð það ljóst fyrir mér, að þessa hina sömu steintegund hefi eg séð í uppvexti mínum víða um land, og jafnan nærri sjáfarmáli, en sjaldnar upp til fjalla. Steintegund þessi er saman sett af tinnusýru (Silicia) kalki, álúnsjörð, tveimur lútar söltum (Natron og Kalí) og hérumbil 14 hundruðustu pörtum af járnryði.

Brennisteinn

Hafnarfjarðar-steinninn er nokkurskonar Feldspat’s-tegund, sem etazráb Forchhammer fyrstur manna hefir prófað; finnst steintegund þessi ekki neinstaðar, að menn viti, nema hér á landi, en eptir lýsíngu ýmsra steinategunda í Suðurameríku þykir mér líklegt, að mjög líkur steinn finnist sumstaðar í Andesfjöllum.
Mörg holt, sem liggja í suðurátt frá Hafnarfirði, eru saman sett af þessari steintegund, og er steinninn allvíða dáindis glæsilegur. Sumstaðar sá eg í honum smá-æðar af gulamálmsjárni (Chromjerri) og hér og hvar smá-eitla af brennisteins-kopar og brennisteinsjárni. Hraunategundirnar við Hafnarfjörð voru og mjög athugaverðar, og er ein þeirra frábærlega fögur og fáséð, og hana vil eg á voru máli kalla gulasteinshraun (Olivin-Lava), því hún hefir í sér fjölda af gulasteinum, en svo nefni eg stein þann, er steinafræðingar kalla Olivin eða Chrysolith, og er steinn þessi, þegar hann er með fegursta móti og nógu stór, talinn með gimsteinategundum; en til þess honum geti borið það nafn, þarf hann að vera gallalaus, eigi alllítill og vel myndaður (krystalliseret).
BrennisteinnÞegar eg fór úr Hafnarfirði lá ferð mín yfir holtin fyrir sunnan fjörðinn, og yfir þann svo kallaða almenníng, sem ekki er annað en stallagrjótshraun (Trap-lava), en í mörgu mjög ólíkt hraununum fyrir sunnan og norðan fjörðinn. Vegurinn yfir holt og hraun þessi var býsna ógreiður, en þó sá eg, að við hann mátti gjöra með nokkurri fyrirhöfn, svo hann yrði allgreiður þegar ekki er farið nema lestagáng, og það fullyrti fylgdarmaður minn, sem var gagnkunnugur veginum, að með hérumbil 40 dala kostnaði mætti gjöra nógu góban lestaveg úr Krýsuvík í Hafnarfjörð.
LitadýrðEg kom að áliðnum degi að brennisteins-námunum við Krýsuvík, eptir hérumbil 5 tíma reið frá Hafnarfirði. Sú fyrsta náma, sem fyrir mér varð, var hin svokallaða „Baðstofunáma*, sem til aðgreiníngar frá nöfnu sinni, er liggur nokkuð sunnar, kallast „Baðstofunáman nyrðri“; hún er, eins og 
Henchel segir frá, hérumbil 180 álna laung og víðast hvar 40 álna breið, og gengur þannig að breidd og lengd næst Hlíðarnámu við Reykjahlíð. Náma þessi er einka rík af brennisteinsjörð, sem vestan til í henni myndar stóran búnguvaxinn hól. Brennisteinninn er og víða hreinn, og sumstaðar er lagið svo þykkt, að það nemur 12 þumlúngum, einkum þar sem steinar eða þúfur hafa verið brennisteinsgufunni til skjóls. Menn sjá af þessu, að Jónas heitinn Hallgrímsson hafði rétt að mæla, þegar hann sagði, að auka mætti brennisteininn í námunum með því, að byrgja yfir þær á laglegan hátt; hefi eg og jafnan haft þá sömu ímyndan, áður en eg sá námurnar, og er stór skaði að þetta hefir ekki verið við haft við námurnar nyrðra, á meðan tími var til og þær voru í blóma sínum. Allir brennisteinskatlarnir — svo kalla eg dældir eða holur þær er brennisteinninn myndast í — voru mjög heitir allstaðar í Krýsuvík, bæði í nyrðri Baðstofunámunni og í hinum, er nú skal nefna.
BrennisteinnVestari Baðstofunáman liggur í suðvestur frá þeirri námu, er nú var um getið. Hún er nokkuð minni en sú hin norðlægari, hérumbil 60 faðma laung og 8—10 faðma breið. Brennisteinsmoldin í þessari námu er mikið minni en í þeirri fyrst-töldu, en sjálfur brennisteinninn í kötlunum er þó eins hreinn, og álíka þykkur víðast hvar, sem í hinni. Það eru nú þessar tvær námur, sem menn alltaf hafa verið að skýrskota til, þegar talað hefir verið um brennisteininn við Krýsuvík, og ekki er það að sjá á ritgjörð Henchels, að þar sé fleiri en þessar tvær námur; sýnir það ljósast, hvað mikið far menn hafa gjört sér um brennisteininn á Islandi, því eg fann allnærri þessum alkunnu námum fjórar nýjar, sem eg hefi gefið nöfn, og eru þær þessar:
Engjafjallsnáma, hérumbil 40 faðma laung og 20 faðma breið.
BrennisteinnKetilstígsnáma, 18 faðma laung og hérumbil 9 faðma breið, með 10 brennisteinskötlum.
Hveradalsnáma, 26 faðma laung og 16 faðma breið.
Hattfjallsnáma, með 6 brennisteinskötlum, og hér að auk 2 stórir brennisteinskatlar norðvestanvert í Hettufjalli.
Allar þessar námur liggja í sama höfuðfjalli, en örnefnin eru tekin af tindum og hnúkum þeim, sem í fjallgarðinum eru. Mér þykir ekki ólíklegt, að nokkrar af þessum námum sé komnar upp á seinni tímum, en þó eru sumar af þeim auðsjáanlega eldri, og að vísu eins gamlar og Baðstofunámurnar, en athugaleysi manna hefir gjört, að þær hafa allt híngað til verið ókunnar.

Brennisteinn

Þegar útlendir náttúrufræðíngar ferðast hér um land, hvort heldur Danir eða aðrir, svo fara þeir gjarnast sem leiðir liggja, og hafa aðeins mann með sér sem ratar veginn. Slíkir menn eru ekki vanir að gánga í kletta, eða fara yfir klúngur og fyrnindi, og þeir þykjast gjarnan gjöra vel ef þeir geta fundið það, sem eldri ferðabækurnar vísa þeim á. Þeir eru vanir að rita hjá sér úr ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna, það helzta af því sem þar er um getið, og fara að mestu eptir þessara og annara fyrri náttúruskoðara ávísun. Hér við bætist nú, að flestir af slíkum ferðamönnum eru svo ókunnir fólki og máli landsins, að þeir geta ekkert spurt sig fyrir til hlítar, og höggva svo jafnan ofan í sama farið, þareð þeir að mestu leyti einúngis finna það, sem eldri ferðamenn fundu áður. Af þessum rökum verður það skiljanlegt, að slíkir menn hver eptir annan nú um lángan aldur hafa farið yfir Krýsuvíkur land og aldrei fundið þar nema 2 námur, þó þar í raun og veru sé 6 eða jafnvel 7, ef menn telja námuna norðan í Hettufjalli, sem vel má, þar hún liggur í sömu landareign.
Til að geta fengið sem nákvæmasta skýrslu, bæði um Krýsuvíkur landareign, og líka um veginn millum Hafnarfjarðar og brennisteinsnámanna við Krýsuvík, tók eg með mér gagnkunnugan ferðamann, Guðmund Guðmundsson frá Setbergi við Hafnarfjörð. Hann var ötull og öruggur ferbamaður, og gagnkunnugur í Krýsuvík, því þar hafði hann verið nokkur ár. Hann er og mjög kunnugur námunum, því þegar störkaupmaður Knudtzon var að fást við brennisteininn þaðan hérna um árið, þá gróf og flutti þessi sami Guðmundur brennisteininn fyrir hann.

Engifjallsnáman

Eptir sögusögn Guðmundar voru námur þessar nú, þegar eg skoðabi þær, í fullt svo góðu standi, eða jafnvel betra, en þegar Knudtzon lét flytja úr þeim, en á meðan hann hafii þær mun ekki hafa verið tekið meir en úr þeim tveimur er þá voru alþekktar, og þó voru á hverju ári í 2 ár fluttar úr þeim sex kaupfarslestir á ári hverju. Eg veit ekki með vissu, á hverjum árum þetta hefir verið, því það fer tvennum sögunum um það. Barún Sartorius von Walterskausen segir það hafi verið á árunum 1839 og 1840, en þeir hérna segja það hafi verið nokkrum árum áður. Að brennisteinninn var tekinn og fluttur, og það sem svaraði rúmum 6 lestum á hverju ári, er áreiðanlegt, en hvort það hefir verið 1839 og 40 eða fyrri læt eg ósagt.
Nyrðri BaðstofunámanBanín S. von Waltershausen talar um, að „PaIagonítinn“ finnist í Krýsuvíkurfjöllum. Eg get ekki verið honum samdóma í þessu með öllu, því mér sýndust þau fjöll að mestu samansett af blendíngi „Tuft), stallagrjóti og járnstallasteini (Trapeisenerts), eða réttara sagt mjög járniblöndnum „Trapp,“ þó þar fyndist og „Palagonít.“ Eg er hræddur um, að barúninn víða hafi blandað saman „palagonítnum“ og járnsteininum, því í fyrsta áliti líkjast þeir nokkuð hvor öðrum. En svo eru að öðru leyti ýmsar steinategundir í Krýsuvíkurfjöllunum járni meingaðar, að eg skil ekki annað, en að úr þeim mætti bræða mikið járn, ef laglega væri að farið, og svo mjög eru þeir segulmagnaðir, að þeir snúa leiðarsteininum (Compas), þegar þeir eru bornir að honum (það er og alkunnugt, að Trapp-járnmálmur) finnst helzt í hinum nýjari eldlöndum, og vel mundu forfeður vorir hafa getab notað hann við rauðablástur sinn, hefðu þeir þekkt hann.

Vestari Baðstofunáman

Þess er getið á seinni tímum meðal steinafræðínga, að etazráb Forchhammer hafi uppgötvað kopar eða eir-málm í steinum þeim, er hann hefir fengið frá Krýsuvík, og kallar hann eirstein þenna Krysuviyit. Segir hann svo, að sá steinn líkist eirmálmi þeim, er finnst í Ural-fjöllum, og kallaður er Brochantit og hefir í sér 70 hundruðustu parta af eiri. Eg sá að vísu steinategund þessa við námurnar í Krýsuvík, en ekki er þar svo mikið af honum, að það mundi einhlítt til eirbræðslu; þó er eg ekki fjarri því, að nokkurt gagn mætti af honum hafa, þegar brennisteinsnámurnar verða réttilega meðhöndlaðar. Þegar eg var búinn að skoða námurnar, fór eg að grennslast eptir, hvort ekki mundi vera mótak í grennd við þær, og fekk eg bóndann, sem nú býr í Krýsuvík, til að vísa mér á mótak það, er væri í landareigninni og næst lægi námunum. Hann gjörði sem eg beiddi, og kom það þá bráðum upp, að þar er bæði mikið og gott mótak rétt neðan undir fjalli því, er námurnar liggja í.

Eirsteinn

Skoðaði eg móinn, og er það einhver sá ágætasti mór sem eg hefi séð hér á landi; er og þar til slík óþrjótandi gnægð af honum, að ekki er að óttast að menn yrðu eldiviðarlausir, þó eima þyrfti hálfu meiri brennistein en þann, en finnst í öllum Krýsuvíkurfjöllum, því bæði er það, að mýrin, sem mótakið liggur í, er ákaflega víðlend, enda liggur mórinn sjálfur 10 til 14 páltorfur niður. Mógrafirnar liggja ekki lengra en svari rúmum 1000 föðmum frá námunum, svo ekki þarf að verða örðugleiki eða mikill kostnaðarauki að eldsneytis-aðflutníngunum, ef ráðlega er á haldið, þegar unnið verður í námunum. Mér þykir þetta mikið góður kostur við Krýsuvíkurnámur, og það er næstum óskiljanlegt, hvernig nokkur heilvita maður hefir viljað taka það fyrir sig, að flytja óhreinsaðan brennistein til Hafnarfjarðar, þegar gnægð eldsneytis, til að bræða eða eima hann við, er rétt við sjálfar námurnar; sýnir þetta, ásamt öðru, hve ófimlega mönnum tekst, þegar rétta þekkíng vantar, og hefir það verið almennt á landi hér og víðar í Danaríkjum, að því hafa mörg fyrirtæki fyrirfarizt, að byrjunin og framhaldið hafa verið með litlu ráfði gjörð.

Litadýrð námanna felst ekki bara í gula litnum

Á þennan hátt hafa brennisteinsnámurnar og „saltverkin“ hér á landi, ásamt mörgu öðru, liðið undir lok, því endirinn hefir orðið að samsvara upphafinu.
Þegar eg var búinn að skoða Krýsuvíkurnámurnar, sem mér þókti hlýða, lagði eg leið mína niður í Trölladýngjur, því svo höfðu sumir mælt, að þar mundu finnast brennisteinsnámur, og drógu það til, að þar væru margir hverír. Þetta varð samt sem áður ónýtisferð fyrir mér því eg fann þar engan brennistein, þó nóg sé þar af vatnshverunum, því ekki þykir mer það teljanda, þó hér og hvar við vatnshveri kunni að finnast ofur þunn brennisteins-skán, sem að öllu samanlögðu kynni að verða nokkrar merkur. Slíkur samtíníngur út um allt land gæti aldrei orðið til neins liðs, þegar fara ætti að safna brennisteini sem vöru. Trölladýngjur eru að öðru leyti fagurt eldfjall, og úr þeim hefir komið mikill hluti hrauna þeirra, er liggja um Suðurnes. Sjálft er fjallið samsett af stallagrjóti, þussabergi og móbergi, og efst finnst býsna mikið af vikurhrauni, en ekki gat eg fundið þar vikurkol, er brúkanleg væri.

Hengillinn

Svo var fyrir lagt í erindisbrefi mínu, að eg skyldi fara frá Krýsuvík upp í Henglafjöll, og Ieita þar að brennisteini, því þar höfðu þeir Jónas og Steenstrup átt að finna brennisteinsnámur nokkrar, þegar þeir ferðuðust hér um land. Fylgbarmaður minn, sá er áður var um getið, var ættaður úr Grafníngi; hafði hann upp-alizt þar, og var því mjög kunnugur þessum fjöllum; hann kvaðst ekkert geta sagt um þetta efni, en réði mér til að tala við Jón á Elliðavatni og Guðmund, fyrrum bónda á Reykjum í Ölfusi, því hann mundi mjög kunnugur Henglinum, þar hann hefði opt farið þángað til að skjóta hreindýr. Eg gjörði nú svo, og hafði viðtal við báða þessa menn, sem bæði eru mjög greindir og líka gagnkunnugir flestum suðurfjöllum.
Jón á Vatni kvaðst hafa heyrt, að brennisteinn væri í Henglinum, en ekki vissi hann gjörla hvar það væri, þó þókti honum mestur grunur á Sleggjubeinsdölunum, en hann spurði mig, því eg færi ekki út í Brennisteinsfjöll, því það segði margir, að þar væri brennisteinn, og líka vissi hann, að brennisteinn fyndist á Hverahlíð. Guðmundur var samhljóða Jóni í þessu, og kvaðst hafa beztu von um Hverahlíð því þar hefði hann sé brennistein, og líka vissi hann til, að mikið væri af hverum sunnanvert í Henglinum.

Brennisteinn

Eptir þessara manna ávísun lagði eg nú leið mína upp í Hengilinn, og nam fyrst staðar í Sleggjubeinsdölum; þar fann eg jafnskjótt tvær brennisteinsnámur; önnur þeirra, sem liggur neðst, er 60 álna laung og 18 álna breið; hin, sem liggur nokkuð hærra í fjallinu, er 40 álna laung og 16 álna breið; í báðum þessum námum er góður brennisteinn og nægur hiti, einkum í þeirri efri, sem lítur út til að vera nýmynduð. Dalir þeir, sem námur þessar liggja í, eru vestanvert í Henglinum; þeir eru grasgefnir og má sjá upp í þá þegar maður ríður að sunnan yfir Bolavelli, og eru þeir á vinstri hönd þegar riðið er neðan að upp í Hellisskarð. Ekki fann eg neinstaðar fleiri námur í grennd við þær, er nú var getið, og leitaði eg þó vandlega, bæði norðvestan og vestan til í fjallinu. Eg reið þá norður fyrir Hengilinn og hafði hann á hægri hönd og komum við þá að einstigi nokkru, er Dyravegur heitir, og mátti skammt þar frá sjá yfir allt fjallið að austanverðu, en hvergi sást þar heldur líkindi til brennisteinsnáma. Þá reið eg ofan að Nesjavöllum, því svo var mér sagt, að bóndinn þar ætti land sunnanvert í Henglinum, og þókti mér því líkur til, að hann mundi geta sagt mér, hvort nokkrar námur fyndist í landi hans. Bóndinn, sem nú býr á Nesjavöllum, heitir Grímur, skytta góð, röskur maður og góður drengur; eg bað hann fylgja mér upp í fjallið og tók hann vel undir, og var þó mjög liðið á dag, en við vissum að við mundum vel geta notað nóttina, því veður var bjart og blíðviðri hið fegursta.

Í Hveragili

Við fundum þegar skammt frá garði bónda eina brennisteinsnámu, og var hún allgóð, en þó ekki mjög stór. Lengra upp í fjallinu og nokkru sunnar liggja 3 gil eða dældir, og voru brennisteinsnámur í þeim öllum. Lítur svo út, sem námur þessar hafi myndazt á seinni tímum og sé nú í vexti, því ekki hafa brennisteinslögin enn náð töluverðri þykkt í allflestum af þeim. Hitinn í þeim og brennisteinsgufan eru þó svo megn, að hvergi hefi eg séð það eins hér á landi; þykir mér mjög að líkindum að þær kunni að vera upp sprottnar við seinustu eldgosin, sem nú um fullan mannsaldur hafa gengið hér um suðurkjálka landsins, og mun eg síðar, þá er eg hefi sagt frá námunum fyrir norðan, tala um þau rök, er lúta að því.
BrennisteinnHvað nú Henglafjöllum viðvíkur, þá er það að segja, að bæði eru þau falleg og líka mjög grasgefin að sunnanverðu. þau eru að mestu leyti mynduð af þussabergi, og hafa aðeins að norðaustanverðu stallasteinslög, og víða má sjá í þeim uppskotna veggi (Gangé) af stublagrjóti, sem flestallir liggja frá suðaustri til norðvesturs, og er það almennast á landi hér, að stuðlabergsveggir liggja á þenna hátt, eins og barún von Waltershausen hefir frá skýrt. Sunnan og suðaustan í Henglinum er graslendi eitthvert hið bezta, er eg hefi sé á fjöllum uppi, og er það allvíða fjalldrapa og víði vaxið. Mótak finnst og sunnanvert í fjallinu, upp undan Grafníngshálsi, en hvorki er það nærri eins mikið eða gott sem það, er um var getið við Krýsuvík; þó hygg eg það vera notanda til brennisteinshreinsunar, því ekki þarf vandaðan eða hitamikinn eldivið til þess.“
Í frásögn Jóns vantar lýsingar hans á mannvirkjum er notuð voru áður við brennisteinsvinnsluna í Krýsuvík, bæði við Seltún og Baðstofu. Þar voru hús er hýstu námumenn sem og ofnar, hreinsunarbúnaður o.fl. Ekki minnist hann á Seltúnsnámuna, en nefnir hana Ketilsstígsnámuna. Þá minnist hann hvorki á Köldunámur né Leynihver vestan í Sveifluhálsi eða Hverinn eina, en á öllum þessum stöðum hefði mátt finna brennistein. Smá meira um brennisteininn HÉR.

Heimild:
-Ný félagsrit – 12. árg. 1885  – Jón Hjaltalín – II. FJÖGUR BRÉF FRÁ ÍSLANDI TIL JÓNS SIGURDSSONAR – FYRSTA BRÉF.Brennisteinn

Brennisteinsfjöll

Tvennt er það sem tengist sýnilegum minjum sem ekki hefur áður verið sett í samhengi við brennisteinsnám í Krýsuvík.
Það er annars vegar minjar ofan við svonefnda Blesaflöt norðan Badst-1Kleifarvatns (milli Vatnshlíðar-horns og Sveifluhálsar) og hins vegar tvær tóftir úr torfi og grjóti skammt norðaustan við námuvinnslusvæðið við Seltún. Minjanna er hvorki getið í fornleifaskráningum né örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík. Þá er þriggja tófta sunnan við Baðstofu ekki heldur getið í fornleifaskráningum en sagt er frá þeim í lýsingum ferðamanna. Miklar líkur eru á að þar sé um að ræða kofa þá sem t.d. Ole Henchel lýsir í ritgerð sinni 1775.  Framangreindar minjar við Baðstofu eru sennilega frá 16. öld og minjarnar við Seltún frá svipuðum tíma. Aðrar minjar við Seltún og ofan við Blesaflöt eru sennilega 19. öld. Óvíst er um aldur „selsminja” neðan við Seltún, en ætla má að þær geti jafnvel verið eldri en frá 16. öld.
Þá kemur fram í heimildum að brennisteinsvinnsla í Brennisteinsfjöllum væri undir það síðasta Selt-1eftirsóknaverðari en í Krýsuvík vegna þess að “um styttri vegarlengd” væri að ræða.  Að fenginni reynslu, eftir að hafa farið fótgangandi frá Hafnarfirði á báða staðina og til baka, virtist samt sem áður styttra til Krýsuvíkur. Þegar vegarlengdirnar voru mældar kom hins vegar í ljós að rúmir 29 km voru til Krýsuvíkur eftir Undirhlíðavegi og um Ketilsstíg að Seltúnsnámunum, en rúmir 22 km voru í Breinnisteinsfjallanámur um Selvogs-götu, Grindarskörð og suður með Draugahlíðum í Námuhvamm.
Í fyrstu unnu Krýsuvíkur-bændur sjálfir brennistein úr námunum, en Dana-konungur tók þær yfir á 16. öld. Bændur unnu fyrst um sinn eftir sem áður sjálfir brennisteininn og seldu konungshollum aðilum, en fljótlega komst námuvinnlan í hendur einstaklinga og síðar erlendra félaga.
Brennnam-1Skipuleg vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir áður en tók að halla undan fæti. Framangreind hús voru reist og undir lokin voru þar reist fyrstu bárujárnshús á Íslandi. Enn þann dag í dag má sjá leifar þessa síðskeiðs námuvinnslunnar, en fáir veita þeim athygli. Vegna þess hversu námusvæðinu í Krýsuvík hefur verið raskað, enda í alfaraleið og vinsæll ferðamannastaður, er námusvæðið í Brennisteinsfjöllum þeim mun mikil-vægara til rannsókna og varðveislu sem eina óraskaða brennisteinsnáman á Suðurlandi og jafnvel best varðveitta náman á landinu öllu.
Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum hafa verið nær algerlega óhreyfðar síðan þær voru í notkun seint á 19. öld (1883-1885). Ástæðan fyrir góðri varðveislu er hversu óaðgengilegar þær eru og utan alfaraleiða. Eina smávægilega raskið á svæðinu er af mannavöldum síðusta áratuginn. Á heildina litið er svæðið þrátt fyrir það vel varðveitt sýnishorn af ákveðinni verkmenningu sem stunduð var í afar takmarkaðan tíma. Svæðið er vel afmarkað og því auðvelt að varðveita það sem heild.

Heimild m.a.:
-Ólafur Olavius.

Seltún

Námuhús Brennisteinsfélagsins við Seltúnsbarð.

Baðstofa nefnist fjall ofan við Gestsstaðavatn, norðaustan Hettu og sunnan Hatts.
Fjallið dregur Badstofutoft-1nafn sitt af „tveimur burstum líkt og á baðstofu væru“. Neðan og umleikis Baðstofu eru Baðstofuhverir, gamlar brennisteinsnámur. Frá þeim lá námustígur að geymsluhúsunum í Hveradölum. Enn má sjá þar tóftir húsanna þótt þeim hafi lítill gaumur verið gefinn í seinni tíð.
Ole Henchel ferðaðist m.a. um Krýsuvík árið 1775 og skrifaði skýrslu um ferðina. Þar getur hann um hús er tilheyrðu brennisteinsvinnslunni neðan undir Baðstofu.
„Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði upp tekin brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo allt verður að gera að nýju, eins og hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Þar hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna bústetur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna…“
Badstofutoft-2Á staðnum má enn greina þrjár framangreindra tófta.
Á „
Baðstofuvikukvöldi“ í Saltfisksetrinu í gærkveldi fjallaði fulltrúi FERLIRs um „Byggð og brennistein“ í Krýsuvík allt frá 12. öld. Þar kom m.a. fram að framangreindra minja væri ekki getið í fornleifaskráningu af svæðinu, en til stendur að setja upp stærðarinnar borstæði nákvæmlega á þessum stað. Enginn virðist vakandi fyrir hugsanlegri eyðileggingu minjanna, hvorki í bæjarstjórnum Hafnarfjarðar né Grindavíkur og ekki heldur hjá Fornleifavernd ríkisins…
Ríkið tók land Krýsuvíkur, sem er í umdæmi Grindavíkur, eignarnámi 1939. Árið 1942 fékk Hafnarfjörður svæðið sunnan Kleifarvatns til takmarkaðra afnota, þ.m.t. brennisteinsnámusvæðin.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns (t.h.).

 

Brennisteinsnám

Brennisteinsfjöll draga nafn sitt af brennisteinssvæði því sem áður var unninn úr brennisteinn. Enn má sjá þar leifar námunnar sem og minjar eftir námumennina. Einnig á leið þeirra til og frá námusvæðinu, s.s. undir Kerlingarskarði við Grindarskörð (norðar) eða Bollaskörð, eins og þau voru einnig nefnd. Nefndir bollar eru ofan skarðanna þriggja, sem jafnan voru fær um hlíðarnarnar. Þverskarð er syðst þeirra.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar gengið er áleiðis upp í Kerlingarskarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman – og væri þar enn ef einhver hefði ekki séð einhvern verðmæti í honum og/eða notagildi.
Ofan skarðsins blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum þar. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna.

Brennisteinsnámur

Ofninn í brennisteinsnámunum.

Þegar haldið er inn í brennissteinsnámurnar sunnan í Brennisteinsfjöllum er þægilegast að halda til suðurs vestan Draugahlíða, yfir litlar gígaþústir, framhjá útdauðu hverasvæði á vinstri hönd og síðan suður eftir miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónar stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.
Þegar gengið er á ská niður gróna hlíð má fljótlega sjá nokkuð stóra tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni.
Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hefur hrunið yfir ofninn, en með því að skafa jarðveginn ofan af kemur hann í ljós.

Brennisteinsnámur

Tóft brennisteinsmanna í Námuhvammi.

Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fyrst fluttur út frá Íslandi á 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“
Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Brennisteinsnám

Tóft húss námumanna undir Kerlingarskarði.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. síðan tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.”

Selvogsgata

Gata um Kerlingarskarð.

Þar með lauk áhuga manna á brennisteinsvinnslu hér á landi. Eftir standa námusvæðin, þ.á.m. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík, um þennan sérstaka þátt í atvinnu- og útflutningssögu landsins. Líkt og ofninn, námurnar og minjar námumanna eru enn sýnilegar í Brennisteinsfjöllum má enn sjá minjar brennisteinsnámsins við Seltún og í Baðstofu í Krýsuvík – ef vel er að gáð. Vonandi ber landsmönnum gæfa til að varðveita þessi svæði – þrátt fyrir stóriðju og „knýjandi“ orkuþörf, sem verður óþörf innan skammrar fram framtíðar.
Augljóst þykir að landsmenn hafa þörf fyrir nútímaþægindi, s.s. rafmagn. Stóriðja er hins vegar tilbúin skammtímahagvaxtarvon. Þessi skammtímahagvaxtarvon er líklegasta og greiðasta leiðin að eyðileggingu hinnar ómetanlegu náttúru og hins óafturkræfa umhverfis til lengri tíma litið.
Landsfólk þarf að gera þá kröfu til stjórnmálamanna, am.k. þeirra, sem vænta má að hafi eitthvert vit í kollinum (hvort sem um er að ræða karla eða konur), að þeir gefi sér tíma, afli nauðsynlegra upplýsinga, meti síðan valkosti og taki „réttmæta“ ákvörðun, líkt og dómarar þurfa að gera í „mannefnalegum“ málum. Það er „kýrskýrt“ (GÁS) að hinum síðastnefndu hefur oftlega mistekist að lesa skynsamlega út úr raunverulegu meginmáli einstakra viðfangsefna þeirra (kannski vegna tímaleysis eða „færibandslegra, kerfis-, laga- eða reglugerðalegra krafna“ (forskrifta)) og niðurstöðurnar verið eftir því. Ákvörðunar um náttúruna og umhverfið má aldrei vega með sama viðmiði.
Auðvitað er niðurlagið raunamædd ræða – en nauðsynleg áminning samt sem áður. Staðreyndir segja að meðan 80% fólks er sama um hvað sem er (nema sjálft sig) er 20% fólks hugsandi um hið sama (um annað en sjálft sig).
Framangreint niðurlag er ekki gagnrýni eða vanmat – einungis „föðurleg“ ábending til nálægrar framtíðar (og hefur vonandi skapað rými fyrir enn eina upplýsandi ljósmynd/uppdrátt).

Heimildir m.a.:
-http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html
-Saga Hafnarfjarðar.

Brennisteinsnám

Gata á námusvæðinu.