Tag Archive for: Brundtorfuhellir

Brunntorfur

Lárus Kristmundsson á Brunnastöðum hafði upplýst að hann hefði eitt sinn gengið fram á fallegt fjárskjól ofan skógræktargirðingarinnar vestan Krýsuvíkurvegar, sunnan við Brundtorfur (Brunatorfur/Brunntorfur). Framan við það væri krosshleðsla.

Brunntorfur

Brundtorfufjárskjól.

Þann 8. apríl 2004 var gengið upp fyrir girðinguna og litið yfir hraunið. Það virtist óvinnandi vegur að finna þarna nokkurn skapaðan hlut – hraunhólar, hæðir, lægðir og runnagróður um allt. Ef leita ætti svæðið allt væri það ca. viku vinna fyrir tvo menn. En um leið og húfan var sett upp tók derið 45 gráðu kipp réttsælis og stefni í vestur. Höfuðið var rétt af í húfunni og derið síðan elt inn í hraunið. Og viti menn (og að sjálfsögðu konur). Framundan, á tiltölulega sléttu mosahrauni, birtist lítið jarðfall. Ofan í því voru hlaðnir gangar í Y frekar en í X, sbr. meðfylgjandi mynd. Þeir skiptust niður í sitthvort hellisopið. Fyrir innan voru rúmgóðir fjárhellar. Hleðslur voru inni í þeim nyrðri.
Skammt sunnan við hellana liggur Stórhöfðastígur upp hraunið. Hann er varðaður frá Krýsuvíkurveginum áleiðis upp að Fjallinu eina. Þarna umhverfis eru fallegir grónir hraunbollar. Varða er á hraunhól skammt norðvestar. Hún er greinilega vegvísir að hellunum. Allnokkru norðvestar er Þorbjarnarstaðafjárborgin. Hellarnir Brundtorfuhellireru í landi Straums svo þarna gætu hafa verið sauðahellar Þorbjarnarstaðafólksins í tengslum við borgina. Greinilegt er að ekkert hefur verið gengið um svæðið og hleðslurnar hafa alveg fengið að vera í friði, enda erfitt að koma auga á þær.
Skv. örnefnaskrá Þorbjarnastaða mun skúti þessi vera fjárskjól, nefnt Brundtorfuhellir í Brundtorfuskjóli.
Þann 
15. nóvember 2007 var enn og aftur lagt af stað frá Krýsuvíkurvegi móts við Bláfjallavegsafleggjara í leit að Brundtorfuhelli og Brundtorfuskjóli líkt og getið hafði verið um í örnefnaskrá fyrir Þorbjarnarstaði. FERLIR skoðaði skjólið fyrst fyrir u.þ.b. 20 árum og síðan hellinn fyrir 7 árum og aftur þann 8. apríl 2004, líkt og að framan greinir. Hlaðin er gata að hellisopinu (-opunum), en hún greinist síðan til sitt hvorrar handar, að sitt hvoru opinu.
Nú var ætlunin, enn og aftur, að leita að skjólinu, skoða og taka hnit á það. Einnig á að reyna að finna aftur Brundtorfuskjólið, mikla hleðslu fyrir slútandi skúta, ekki ólíkt Brenniseli.
Leitin að Brundtorfuhelli tók 11 mínútur. Tíminn var því notaður til að leita að Brundtorfuskjólinu, en erfiðið bar ekki árangur að þessu sinni. Það gekk þó betur næsta sinnið (sjá einnig Þorbjarnarstaðaborg (Fjárborgin).
Í Brunntorfum eru a.m.k. fjögur fjárskjól.
Frábært veður.

Brunntorfur

Fjárskjólið í Brunntorfum.

 

Brunntorfuskjól

Hrauntungustíg var fylgt suður Selhraun frá Krýsuvíkurvegi, inn í malargryfjur sunnan Brennu og síðan handan þeirra inn í Hrauntungu. Þar var litið á fyrirhlaðið skjól, en síðan gengið áfram til suðurs um Háabruna upp að Þorbjarnarstaðarfjárborginni norðan við Brunntorfur (Brundtorfur – tilhleypingastaður).

Hrauntungur

Hraunkarl við Hrauntungu.

Hrauntungustígur sést vel í sléttu helluhrauninu vestan Krýsuvíkurvegar. Varða er á hraunhól við jaðar malargryfjunnar. Stígurinn hefur verið fjarlægður í gryfjunum, en við suðurjaðar þeirra má sjá vörðu. Frá henni liggur stígurinn áfram inn í Hrauntungu, kjarri vaxinn hólma inni í vesturjarðri Kapelluhrauns. Tungan, sem er á milli Efri-hellra og Þorbjarnarstaðarborgarinnar, hefur verið skjólgóð og beitarvæn. Inni í henni austanverðri er fyrirhleðsla fyrir skúta. Erfitt er að koma auga á opið vegna þess að birkihríslur hylja það að mestu. Lítil varða er á hólnum ofan við opið. Skjólið, sem var smalaskjól, nefnist Hrauntunguhellir og er í hraunhól skammt norðan við nyrstu hrauntunguna úr Brunanum, en svæðið er nefnt eftir tveimur slíkum tungum vestur út frá meginhrauninu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum.
Brunanum var fylgt áfram til suðurs. Hver hraunkynjamyndin tók við af annarri.
Þorbjarnarstaðarborgin er efst í Háabrunanum. Hún er heilleg og fallega hlaðin. Það munu hafa verið börn hjónanna á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, sem hlóðu hana um aldarmótin 1900. Börnin voru 11, samhent og dugleg til allra verka. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að topphlaða borgina, líkt og Djúpudalaborgina í Selvogi, en hætt hafi verið við það.

Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnastöðum hefur þekkt til byggingarlags hennar því hann var ættaður frá Guðnabæ í Selvogi. Kona kans var Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, hreppsstjóra á Setbergi.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Ofarlega í Brundtorfum eru Brundtorfuhellar (Brunntorfuhellir), lágreistir, en þóttu hæfa vel til að hýsa hrúta Hraunamanna og Hvaleyeringa um fengitímann þegar hleypt var til ánna.
Gengið var til baka norður brunann skammt austar. Fylgt var refaslóð þar sem hún lá í gegnum mosahraunið áleiðis að fiskitrönunum austan Krýsuvíkurvegar. Rebbi hefur greinilega fetað slóðina þarna lengi.
Þegar komið var norður fyrir Rallykrossbrautina virtist gamall maður sitja þar á steini. Þegar komið var nær sást hversu steinrunninn hann var.
Kapelluhraunið er talið hafa runnið um 1151, á sama tíma og Ögmundarhraun og Afstapahraun. Öll hraunin eru talin hafa komið úr sömu gossprungunni, u.þ.b. 50 km langri, er náði frá suðurströndinni austan Ísólfsskála að Helgafelli ofan við Hafnarfjörð.

Brunntorfuskjól

Brunntorfuskjól.