Lárus Kristmundsson á Brunnastöðum hafði upplýst að hann hefði eitt sinn gengið fram á fallegt fjárskjól ofan skógræktargirðingarinnar vestan Krýsuvíkurvegar, sunnan við Brundtorfur (Brunatorfur/Brunntorfur). Framan við það væri krosshleðsla.
Þann 8. apríl 2004 var gengið upp fyrir girðinguna og litið yfir hraunið. Það virtist óvinnandi vegur að finna þarna nokkurn skapaðan hlut – hraunhólar, hæðir, lægðir og runnagróður um allt. Ef leita ætti svæðið allt væri það ca. viku vinna fyrir tvo menn. En um leið og húfan var sett upp tók derið 45 gráðu kipp réttsælis og stefni í vestur. Höfuðið var rétt af í húfunni og derið síðan elt inn í hraunið. Og viti menn (og að sjálfsögðu konur). Framundan, á tiltölulega sléttu mosahrauni, birtist lítið jarðfall. Ofan í því voru hlaðnir gangar í Y frekar en í X, sbr. meðfylgjandi mynd. Þeir skiptust niður í sitthvort hellisopið. Fyrir innan voru rúmgóðir fjárhellar. Hleðslur voru inni í þeim nyrðri.
Skammt sunnan við hellana liggur Stórhöfðastígur upp hraunið. Hann er varðaður frá Krýsuvíkurveginum áleiðis upp að Fjallinu eina. Þarna umhverfis eru fallegir grónir hraunbollar. Varða er á hraunhól skammt norðvestar. Hún er greinilega vegvísir að hellunum. Allnokkru norðvestar er Þorbjarnarstaðafjárborgin. Hellarnir eru í landi Straums svo þarna gætu hafa verið sauðahellar Þorbjarnarstaðafólksins í tengslum við borgina. Greinilegt er að ekkert hefur verið gengið um svæðið og hleðslurnar hafa alveg fengið að vera í friði, enda erfitt að koma auga á þær.
Skv. örnefnaskrá Þorbjarnastaða mun skúti þessi vera fjárskjól, nefnt Brundtorfuhellir í Brundtorfuskjóli.
Þann 15. nóvember 2007 var enn og aftur lagt af stað frá Krýsuvíkurvegi móts við Bláfjallavegsafleggjara í leit að Brundtorfuhelli og Brundtorfuskjóli líkt og getið hafði verið um í örnefnaskrá fyrir Þorbjarnarstaði. FERLIR skoðaði skjólið fyrst fyrir u.þ.b. 20 árum og síðan hellinn fyrir 7 árum og aftur þann 8. apríl 2004, líkt og að framan greinir. Hlaðin er gata að hellisopinu (-opunum), en hún greinist síðan til sitt hvorrar handar, að sitt hvoru opinu.
Nú var ætlunin, enn og aftur, að leita að skjólinu, skoða og taka hnit á það. Einnig á að reyna að finna aftur Brundtorfuskjólið, mikla hleðslu fyrir slútandi skúta, ekki ólíkt Brenniseli.
Leitin að Brundtorfuhelli tók 11 mínútur. Tíminn var því notaður til að leita að Brundtorfuskjólinu, en erfiðið bar ekki árangur að þessu sinni. Það gekk þó betur næsta sinnið (sjá einnig Þorbjarnarstaðaborg (Fjárborgin).
Í Brunntorfum eru a.m.k. fjögur fjárskjól.
Frábært veður.