Tag Archive for: Búri

Búri

Eftirfarandi umfjöllun birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember 2006 – í tilefni af útgáfu stórvirkisins „Íslenskir hellar“ eftir Björn Hróarsson.

BúriÞað þarf varla að taka það fram að Björn Hróarsson er fremsti hellakönnuður landsins. Undanfarin 25 ár hefur hann leitað að hellum með félögum sínum, skoðað þekkta hella, safnað efni og undirbúið útkomu þessa mikla rits, sem nú birtist lesendum. Hann hefur ferðast um landið þvert og endilangt í frístundum sínum og varið ómældum tíma í rannsóknir og ljósmyndun á „undirheimum“ Íslands.

„Það er hvorki hægt að skoða, virða, nýta né vernda heim sem ekki er vitað um,“ segir Björn Hróarsson , jarð- og hellafræðingur og höfundur Íslenskra hella, tveggja binda bókar um samnefnt fyrirbæri. Með bókinni leitast hann við að kynna þjóðinni undirheima Íslands í máli og myndum.

Fátt gleður áhugamenn um hella meira en að uppgötva nýja undirheima. Í fyrra bindi Íslenskra hella segir Björn frá leiðangri sínum og fylgdarfólks á síðasta ári í hellinn Búra, sem reyndist ekki allur þar sem hann var séður.

Búri

Búri er einn af mestu og mikilfenglegustu hraunhellum jarðar þótt hann væri í þrettán ár aðeins talinn um 40 metra langur. Það var 13. júní 1992 að Guðmundur Brynjar Þorsteinsson fann og heimsótti niðurfallið sem Búri gengur út frá. Upp frá niðurfallinu gengur um 40 metra langur og mjög hruninn hellir en til suðurs varnaði stórgrýti allri för. Jafn reyndum hellamanni og Guðmundi Brynjari þótti ekki mikið til koma enda grunlaus um að hafa sett í þann stóra. Nefndi hann hellinn.

Það var síðan 10. september 1994 að Guðmundur Brynjar heimsótti Búra á ný og tók til við að forfæra grjót syðst í niðurfallinu. Eftir nokkrar klukkustundir var komin töluverð gjóta en ekki árennileg, þröng og laust grjót allt um kring. Þar sem Guðmundur Brynjar var einn á ferð lét hann staðar numið en holan kallaði þó til hans á stundum. Sumarið eftir kom hann að gjótu sinni á ný og hafði útbúið prik til að stinga myndavél niður í gjótuna og smellti af tveim ljósmyndum. Örlögin höguðu því svo að báðar myndirnar mistókust.

Hellafiðringur gerir vart við sig
Föstudaginn 6. maí 2005 gerði hellafiðringurinn vart við sig hjá Birni, eins og svo oft þegar frídagar eru framundan. Þessi tilfinning að komast frá skrifborðinu, út á og undir hraunbreiðurnar tók völdin og nú héldu Birni engin bönd. Helgina framundan skyldi nota til hellarannsókna. Búri var einn þeirra hella sem Björn hafði ekki komið í en vildi heimsækja þótt lítill væri til að lýsa í þessari bók. Hringt var í Guðmund Brynjar og spurst fyrir um Búra og óskað eftir fylgd daginn eftir. Guðmundur Brynjar var hins vegar upptekinn en í lok samtalsins nefndi hann grjóttilfærslur sínar syðst í niðurfallinu og gjótuna sem enn beið könnunar. Mátti heyra að Guðmundur Brynjar batt vonir við að þar undir leyndist eitthvað frásagnarvert.
Björn hafði næst samband við Ómar Smára Ármannsson hjá gönguhópnum Ferli og spurðist fyrir um dagskrá Búrimorgundagsins. Reyndist hún óráðin en eftir söguna um ókönnuðu holuna í Búra var ákveðið hvert stefna skyldi daginn eftir.

Stórt hraun og litlir menn
Klukkan tíu að morgni laugardagsins 7. maí var haldið út á Leitahraun að leita niðurfallsins sem Búri gengur út frá. Hraunið reyndist stórt en mennirnir litlir og eftir tveggja tíma göngu hafði niðurfallið ekki fundist svo stefnan var tekin á Gjögur, Fjallsendahelli og Árnahelli. Eftir þá heimsókn var haldið til baka, Björn tók sig þá út úr hópnum og tveim klukkustundum síðar gekk hann fram á niðurfall Búra og hóaði í ferðafélagana.
Búri reyndist, eins og Guðmundur Brynjar hafði lýst honum, nokkuð stór um sig en mikið hruninn og um 30 metra langur. Ljóst var samt að um mikla hraunrás hafði verið að ræða, allt að tíu metrar voru milli hellisveggja og lofthæðin um sjö metrar þar sem mest er.

Þá var farið syðst í niðurfallið og fljótlega fannst holan sem Guðmundur Brynjar hafði búið til með grjótburði ellefu árum áður. Eftir að hafa fjarlægt nokkuð af grjóti til viðbótar renndi Björn sér ofan í þrönga dimma og kalda holuna á vit ævintýranna. Við blasti mikill salur og í honum tignarlegar ísmyndanir. Nokkuð sem Guðmundur Brynjar hefði fest á filmu áratug áður hefðu myndirnar heppnast. Hátt í tíu metra lofthæð er í íssalnum og yfir tíu metrar milli veggja, glæsileg veröld. Björn fetaði sig yfir ísinn og upp mikla grjótbrekku handan hennar. Þar, um 100 metra innan við opið, virtust öll sund lokuð í fyrstu enda hellirinn mikið hruninn.
Urð og grjót, upp og niður
BúriBjörn tók nú til við sömu iðju og Guðmundur Brynjar forðum, að forfæra grjót. Um stundarfjórðungi síðar tróð hann sér niður um gjótu þá sem hann hafði búið til og áfram hélt hellirinn. Ekkert er skemmtilegra en vera einn í helli sem enginn hefur áður í komið og enginn veit hvað hefur að geyma. Þrátt fyrir stórgrýti og torfærur miklar greikkaði Björn sporið og hljóp við fót. Tvær þrengingar töfðu för en síðan hækkaði til lofts og hellirinn varð stærri og stærri. Urð og grjót, upp og niður, út og suður, æstur hugur. Þegar komið var nokkur hundruð metra inn í hellinn tóku við miklar hvelfingar. Á annan tug metra var á milli lóðréttra hellisveggja og einnig yfir 10 metrar til lofts. Aftur þrengdist hellirinn og stækkaði svo á ný og engan endi að finna. Þegar Björn var kominn eitthvað yfir 500 metra inn í hellinn fór hann að hafa áhyggjur af samferðafólki sínu eða var öllu heldur farinn að hafa áhyggjur af þeim áhyggjum sem það myndi hafa af sér.
BúriÁfram var þó haldið en þegar Björn gerði sér grein fyrir því að stærð hellisins væri slík að ólíklega myndi finnast botn í bráð ákvað hann að snúa við. Aðeins eitt vasaljós var með í för og hugurinn hafði borið Björn lengra inn í undirdjúpin en skynsamlegt var. Þótt vont sé að snúa frá hálfkláruðu verki varð hann að láta sig hafa það enda ótækt að valda samferðafólkinu frekari áhyggjum. Hægar var farið yfir til baka og betur kíkt í kringum sig. Ljóst var að um mjög merkan hellafund var að ræða. Eftir að hafa lent í vandræðum með að finna leiðina til baka, gjótuna þröngu þar sem grjótið hafði verið forfært, komst Björn þó í íssalinn á ný og út undir bert loft, þreyttur en kátur.
Eftir hellaferðina fór Björn til Þorlákshafnar, heimsótti Guðmund Brynjar og búralegur lýsti hann hellinum sem Guðmundur Brynjar hafði fundið þrettán árum áður án þess að vita af því.

Glæsileikinn með ólíkindum
BúriSunnudaginn 8. maí 2005 var aftur haldið í Búra. Saman í för voru Albert Ólafsson, Björn Hróarsson, Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir, Jóhanna Guðmundsdóttir, Ómar Smári Ármannsson og Viktor Guðmundsson. Íssalurinn skartaði sínu fegursta sem daginn áður og undruðust hellafararnir stærð og mikilfengleika hellisins. Þegar gengið hafði verið nokkuð á aðra klukkustund var komið að „indjánanum“ eða stærðar steini sem tyllir sér milli gólfs og loft og hefur lögun ekki ósvipaða og fjöður. Á þessum stað sneri Björn við daginn áður. Aðeins um hundrað metrum innar tók við upprunalegt gólf og á löngum köflum er hellirinn ekkert hruninn og allur hinn glæsilegasti. Gífurlegar hvelfingar eru í honum og aðeins örfáir hraunrásarhellar hér á landi sambærilegir að stærð. Þótt einstaka hrun sé í hellinum á þessum kafla verður hann sífellt heillegri eftir því sem innar dregur og veggir hans ótrúlega glæsilegir. Enn innar tók við gífurleg hvelfing en síðan snarlækkar til lofts og frá þessari hvelfingu halda göngin áfram en lofthæðin er „aðeins“ fjórir til fimm metrar. Glæsileikinn er hins vegar með ólíkindum og allt stráheilt þótt allir Suðurlandsskjálftar í um 5000 ár hafi látið þarna til sín taka. Í rásinni er fallegur hraunfoss, nærri mannhæðar hár.

Á vit ævintýranna
Enn kom hellirinn á óvart og nú sem aldrei fyrr. Þegar komið var á að giska rúman kílómetra inn stóðu hellamenn á gati. Því betur ekki alveg í bókstaflegri merkingu en þótt þakþykktin sé örugglega mikil og þótt hæð hellisins sé um ellefu metrar skammt frá þessum stað blasti nú við mikill svelgur. Hann er alveg lóðréttur, um 5 metrar í þvermál og 17 metra djúpur. Niðri í undirdjúpunum, þess vegna á um 50 metra dýpi í hrauninu, mátti glögglega sjá hvar hellirinn heldur áfram – á vit ævintýranna. Engin lína eða sigtæki voru með í för auk þess sem farið var að draga af mannskapnum enda ekkert áhlaupaverk að koma sér á þennan stað og morgunljóst að annan daginn í röð þyrfti að snúa frá hellinum án þess að hafa farið hann á enda.
Búri Svelgurinn er með miklum hrauntaumum og hinn glæsilegasti og á sér ekki hliðstæðu í öðrum hraunhelli á Íslandi.

Svelgurinn vekur margar spurningar sem enn er ósvarað. Ljóst var að þótt hellirinn væri ekki fullkannaður og enginn vissi hvert hann lægi eða hvað hann hefði að geyma þá var hann samt sem áður einn stærsti og merkilegasti hraunhellir á Íslandi. Ferðin til baka gekk vel en það voru þreyttir hellafarar sem upp komu.

Laugardaginn 21. maí var haldið í Búra á ný með það að markmiði að fara niður hraunfossinn innst í hellinum og kanna hvað þar væri undir. Leiðangursmenn voru Ásbjörn Hagalín Pétursson, Björn Hróarsson, Daði Hrannar Aðalsteinsson, Guðmundur Brynjar Þorsteinsson og Pétur Ásbjörnsson yfirklifrari. Vegna klifurbúnaðar og þess að hellafararnir bjuggust allt eins við langri hellaferð voru þungar byrðar á baki. Þrátt fyrir það hröðuðu menn sér inn hellinn og að svelgnum mikla. Innarlega í hellinum sést víða hvar hrun er þakið hrauni. Greinilegt er að töluvert hrun hefur átt sér stað í hellinum meðan þar var enn hraunrennsli. Síðan hefur hækkað í hraunánni og hún húðað stórgrýtið. Eru steinarnir með því þynnri hraunhúð því ofar sem þeir eru og ólíklegt að þeir hafi lengi verið á kafi. Líklegra er að rennslið niður hellinn hafi lent í teppu skamma stund og þá hækkað svo í hraunánni að hún náði að húða grjótið. Er þetta enn eitt dæmið um að hrun í hellum á sér yfirleitt stað skömmu eftir að þeir myndast en eftir það hrynur lítið eða ekkert.

Búri Við svelginn hófu þeir feðgar, Pétur og Ásbjörn, að undirbúa ferðalagið niður hraunfossinn. Sprungur eru nokkrar og því auðvelt að koma fyrir festingum og ekki leið á löngu þar til línan lá traust niður á botn svelgsins. Björn Hróarsson fór fyrstur fram af brúninni og lét sig síga til botns utan á glæsilegum hraunfossinum. Ekki var hann raunar kominn langt þegar Pétur Ásbjörnsson kallaði á eftir honum: „Gaman að hafa kynnst þér!“ Birni varð ljóst áður en botni var náð að svelgurinn væri dýpri en menn höfðu áætlað ofan frá. Mæling gaf síðan til kynna að hraunfossinn er um 17 metra hár. Lofthæðin í svelgnum er því rétt um 20 metrar. Fóru nú félagarnir niður í svelginn einn af öðrum og er þetta náttúruundur hið ótrúlegasta, hvar og hvernig sem á það er litið. Fara má undir veggi svelgsins, gegnt fossinum, og upp stórgrýtisbrekku fáeina metra en ekki fannst leið áfram eftir rásinni.
Vel má vera að þarna mætti með réttum áhöldum færa til grjót og finna leiðina áfram en það tókst ekki að þessu sinni. Þar sem leiðin lokast inn frá svelgnum eru um fimm metrar niður á neðsta hluta svelgsins en þar hefur hraunið greinilega haldið áfram niður og þá líklega þaðan áfram eftir hellisrás. Hver hún er, hvar hún er og hvort hún er enn til staðar er hins vegar óvíst með öllu. Vel gekk að klifra upp fossinn, taka saman klifurdótið og arka út hellinn.

Búri kortlagður
BúriHellaferðin tók rúmar sex klukkustundir og enn kom Búri á óvart.
Búri var kortlagður 17. og 18. júní 2005. Þeir Björn Hróarsson og Guðmundur Brynjar Þorsteinsson fengu til liðs við sig fimm þaulreynda breska hellamenn til verksins, Ed Waters, Hayley Clark, James Begley, Phil Collett og Phil Wharton. Kortið er meðfylgjandi og reyndist hellirinn 980 metrar á lengd. Enn eru þó ókönnuð göng út frá hellinum en þau eru í um 8 metra hæð frá gólfi og er eftir að klifra þangað.

„Íslenskir hellar“ eftir Björn Hróarsson er 674 blaðsíður í tveimur bindum og prýdd fjölda ljósmynda, sem flestar eru teknar af höfundi. Útgefandi er Vaka-Helgafell – Edda útgáfa 2006.

Í eftirmála tiltekur Björn þá aðila er styrktu hann til verksins. Umhverfisráðuneytið íslenska lagði t.a.m. eitt hundrað þúsund krónur. Umhverfisráðherra fékk í viðurkenningaskyni „fyrsta eintak bókarinnar“ afhent við formlega athöfn. Með því fékk ráðuneytið fjórðung af styrknum endurgreiddan.
Ef ráðuneyti umhverfismála hefði einhvern snefil af sómatilfinningu eða yfirlýst opinber markmið um framþróun í umhverfismálum myndi fulltrúi þess, jafnvel ráðherrann sjálfur, verðlauna þetta mikla verk með sérstöku fjárframlagi (a.m.k. einni milljón króna) – og þætti engum mikið. Hið mikla bókmenntaverk er vel þess virði, enda hefur hvergi í veröldinni verið gefið út rit um alla þekka hella heils lands líkt og hér um ræðir.

Það þarf nú varla að taka það fram að Búri er á Reykjanesskaganum.

Úr bókinni

Búri
Hraunhellar eru rásir sem hraunbráðin rann eftir og tæmdust síðan.
Hraun renna ýmist í tiltölulega grunnum farvegum, svokölluðum hrauntröðum, nærri yfirborði hraunsins eða bráðin rennur neðanjarðar og leitar niður í óstorknaðan hluta hraunsins og sameinast honum. Við þetta lyftist yfirborð hraunsins og það getur þykknað verulega á stóru svæði auk þess sem svonefndir „troðhólar“ myndast. Þessa sér til dæmis víða stað meðfram Keflavíkurveginum.

Búri

Búri – svelgurinn.

Surtshellir í Hallmundarhrauni í Mýrasýslu er stærsti íslenski hellirinn. Surtshellir er einnig lengsti hellir á Íslandi um 1.970 metra langur. Í beinu framhaldi af Surtshelli til norðausturs er Stefánshellir en lokað er á milli hellanna vegna hruns. Samtals eru þeir 3.500 metrar á lengd. Þessi háttur, að hraunkvikan „troðist inn í“ hinn bráðna hluta hraunsins líkt og vatn í belg, er sennilega mun algengari en hinn fyrrnefndi, einkum þegar um rúmmálsmikil hraun er að ræða.Þegar hraun rennur eftir hrauntröð myndast þegar í stað storkin skán á yfirborði þess. Þegar skánin þykknar getur hún orðið að föstu þaki yfir hraunrásinni sem helst stöðugt þótt lækki í hraunstraumnum undir. Hraunhellar eru sem sagt rennslisrásir eða „pípur“ sem hafa tæmst að meira eða minna leyti.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is

Ferlir

Jarðmyndanir í hellinum Ferlir.

Búri
Þá var lagt af stað í Búra, enn og aftur. Að þessu sinni var tilgangurinn að þjálfa og undirbúa nýliða til að takast á við væntanlega hellaferð í Goðahraun. Aflóga vegstikur voru gripnar upp á leiðinni. Framlag Vegagerðarinnar til undirheimanna. Ætlunin var færa stikurnar í endurnýjun lífdaga, þ.e. nota þær til merkinga í Búra.
Gengið um fordyri BúraEkið var eftir slóða upp á Búrfell. Fálki tók sig á loft og fleytti vangdýfur til vesturs. Tignarleg sjón. Afturendaleifar á hæsta steini benda til þess að hann eigi sér makahreiður í björgunum neðanverðum. Frá efstu brún Búrfells var fetuð gata norðvestan og niður með fellinu að Ólafskarðsvegi, gengið þvert yfir hann að jarðfallinu, sem geymir op hellisins.
Annars ósnertur mosinn umhverfis geymdi spor þriggja manna – engin spor lágu til baka.
Bakpokar voru geymdir upploftis, hundar bundnir og allt skilið eftir, sem ekki var beinlínis þörf fyrir. Mittismál allra þátttakaenda uppfylltu ströng skilyrði áframhaldsins.
Búraopið er slíkt að skilyrða þarf að gæta; fætur niður, hægri handleggurinn niður og sá vinstri upp, snúningur og niðurdráttur. Með því lagi einu er hægt að komast niður í ískjallarann; fordyri Búra. Þar neðan við var sett upp stika með glitmerki Sparisjóðs Reykjavíkur. Sérstakur styrkur af hans hálfu var afþakkaður vegna áhugaleysis um að koma nýjungum á framfæri við viðskiptavini sína, þ.e. pappírslaus greiðsluseðlaviðskipti í gegnum rafnrænan heimabanka samviskusamlegra viðskiptavina hans. Þörf áminning í myrkrinu.
Gengið um hrunhluta BúraFordyrið klikkar aldrei. Þrátt fyrir að dagar grýlukertanna væru taldir þetta sumarið stóðu klakadrílin enn undir nafni. Leiðin var fetuð milli þeirra – og upp hrunið að handan. Þegar inn fyrir þrengingu þar var komið hélt gangan áfram ofan á fyrrum loftum hins víðganga Búra; þrenging, gengið niður á við, upp á við, þrenging og haldið niður á við. Þarna var sett stika, enda hefur reynslan sýnt að ekki er alltaf auðvelt að finna þröng opið í bakaleiðinni. Úr þeirri áttinni hverfur það í skriðu. Stika var sett við þrenginguna til að koma í veg fyrir að beinagrindur kunni að finnast þar í framtíðinni.
Haldið til vinstri og niður á við. Í bakaleiðinni gleymist þessi sýn gjarnan – því þá þarf að fara til hægri og upp á við. Allt slíkt er mikilvægt að leggja á minnið þegar gengið er um hellarásir. Búrarásin er tiltölulega auðveld, enda ekki um aðrar leiðir að velja, en rétt að nýta  tækifærið til að þjálfa nauðvirkileg neðanjarðarskilningarvitin.
Hér í frá, líkt og áður, þarf að gæta vel að því hvar stigið er niður. Ennisljósin eru nauðsynleg í Búra sem og handlukt að auki.
Búri - að endinguEftir allnokkurt ferðalag um jafnfallið hraun úr loftum er komið að sléttum gólffleti. Lofthæðin er um 20 metrar og breiddin um 12 metrar. Héðan er hægt að fara með veggjum og ganga þvert milli þeirra á sléttu gófinu. Framundan er ein myndarlegasta hraunrás norðan Alpafjalla; jafnsléttir veggir, brúnleitir, alsettir smáum“gaseggjum“. Þá lækkar rásin í tvennum skilningi; annars vegar lækkar lofthæðin og hins vegar lækkar gólfið. Lítill haunfoss er á skilunum. Frá honum er stutt að Svelgnum, um 18 metra djúpum hyl innst í rásinni. Lengra verður ekki farið að sinni án sigbúnaðar. Sjá má leifar festinga sem Björn Hróarsson og félagar notuðu þegar þeir sigu fyrstir manna í Svelginn (sjá stórvirkið „Íslenskir hellar“ eftir BH). Rautt glitmerki Hellarannsóknarfélagsins er við mörkin til marks um endimörk rásarinnar. Stiku var bætt um betur.
Ferðin inn eftir þessari tæplega kílómetralangri hraunrás hafði tekið u.þ.b. 30 mínútur. Ferðin til baka tók svipaðan tíma, með staldri við áhugaverðar hraunmyndanir, þökk sé fyrrum vegstikunum.
Sá, sem ætlar að ferðast um Búra, ætti að gefa sér a.m.k. 3 klst til þeirrar ferðar. Bæði þarf að fara mjög varlega í hrunum, sem varða 3/4 rásarinnar, og þá er að mörgu að hyggja á leiðinni. Góður ljósabúnaður er því og nauðsynlegur.
Þegar komið var upp úr rásinni barst söngur lóunnar á móti þátttakendum, heitkennt sumarloftið og vindurinn hafði þegar lagst til hvílu þetta kvöldið. FRÁBÆRT.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín.

Búri

Búri.

Búri

Fyrir tólf árum [skrifað 2005] byrjaði Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, svæðisfulltrúi Hellarannsóknarfélags Íslands á Suðurlandi, að líta eftir hugsanlegum helli á svæði því, sem Búri fannst síðan á. Hann leit inn í hraunrásina og skoðaði hann vel og vandlega, en ekki var að sjá að framhald væri á hraunrásinni sem þar var og virtist hafa lofað svo góðu.

Búri

Búri – Bibbi í fyrsta sinni í hellinum.

Hann gafst þó ekki upp eins og góðra hellamanna er siður, forfærði grjót í öðrum enda hans og við það opnaðist þröngt gat niður í kjallara. Guðmundur var einn við þessa iðju sína svo honum fannst ráðlegast að fara ekki niður að svo komnu máli. Það var líka skynsamlegt hjá Guðmundi.

Og svo leið og beið. Það var ekki fyrr en í maímánuði 2005 að HERFÍsfulltrúinn Björn Hróarsson með FERLIRsfélaga á hælunum lét sig síga niður um gatið – og sjá, niðri var hvelfing með miklum ís- og klakamyndunum. En Björn staðnæmdist ekki við dýrðina, enda öllu vanur, heldur hélt áfram og frumskoðaði hluta af Búra.

Búri

Búri kannaður fyrsta sinni.

Nú var verið að fara aðra ferð í Búra. Í för var Guðmundur Brynjar, sá sem hafði fundið hellinn á sínum tíma.

Haldið var niður um þröngt opið og síðan niður eftir hellinum.  Búri er mikill hellir. Mikið hrun er í honum og fara þurfti tvisvar í gegnum þröng op áður en komið var í meira rými. Smám saman fóru hliðar, loft og jafnvel gólf upprunarlegu rásarinnar að koma í ljós. Þá tók hver hvelfingin við af annarri. Lofthæð var um 20 metrar og breidd á milli veggja var um 12 metrar. Ekki var mögulegt að taka ljósmyndir í gímaldinu til að sýna stærð þess. Það þarf að gera með viðeigandi búnaði. Myndir með venjulegri vél urðu einungis svartar. Flassið náði ekki milli veggja.

Búri

Búri – svelgurinn.

Þegar neðar dró varð rásin algerlega heil og ein sú stærsta og fallegasta í hraunhelli á Íslandi. Haldið var enn niður á við eftir litlum gófum hraunfossi og síðan gengið um sali, sem myndu prýða hvaða konungshöll úti í hinum um stóra heimi. Þá lækkaði rásin, en var alltaf um tveggja mannhæða há til lofts og víð til beggja veggja. Eftir allnokkra göngu í bugðum og beygjum gapti hyldjúpur svelgur við framundan. Lengra varð ekki komist að sinni. Dýpið á svelgnum er um þrettán metrar. Á botni hans er rauðleitt slétt gólf og langir separ niður úr loftinu. Niðri virðist vera hringiða hraunsstrauma og rásir inn undir bergið. Hvað þar er niðri veit enginn, en staðurinn, aðkoman og dýpið á hellinum lofar mjög góðu. Líklegt má telja að þarna séu heilar rásir, algerlega ókannaðar. Þær geta legið hvert á land sem er. [Svelgurinn var kannaður síðar, en ekki var þá hægt að komast áfram inn úr honum þá leiðina. Aðstæður lofa þó góðu.]

Búri

Búri.

Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.

Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur.

Búri

Búri – opið.

Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.
Í flæðigosum verða engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella. Allir stærstu hellar landsins hafa orðið til með þessum hætti.
Frábært veður (annars skiptir það litlu máli þegar inni í hella er komið).
Ferðin tók 5 klst og 5 mín. Gangan um Búra tók um 4 klst og 4 mín.

Í anddyri Búra

Búri

Gengið var í fylgd fulltrúa HERFÍs um Leitarhraun ofan við Hlíðarendahjalla. Markmiðið var að leita að opinu á Búra, en í leiðinni var ætlunin að skoða opið á Árnahelli, Gjögrinu og Fjallsendahelli.

Búri

Í Búra.

Leitarhraunið kom úr Leitinu utan undir Bláfjöllum fyrir um 4300 árum síðan. Þar er stór gígur. Hraun úr honum rann bæði til suðurs og norðurs. M.a. er hluti hraunsins í Elliðaárhólma úr honum sem og hraunið sem Þorlákshöfn stendur á
Gjögrið er stór niðurfall, sem Gjögurhraun er nefnt eftir. Arnarhreiðrið er m.a. í því hrauni. En þótt niðurfallið virðist stórt er hellirinn það ekki að sama skapi. Hins vegar er geysilega falleg hraunmyndun í honum. Fallegur rauður flór kemur út undan berginu inni í hellinum og steypist fram af lágri brún. Myndar hraunið þar myndarlegan hraunfoss. Farvegurinn hefur leitað niður undir hraunið og sést bláleitt gapið vel. Hægt er að komast inn í niðurfallið undir steinbrú úr grónu jarðfalli við hlið Fjallsendahellis.

Fjallsendahellir

Fjallsendahellir.

Fjallsendahellir liggur hægra megin inn úr jarðfallinu. Rásin liggur um 100 metra í boga upp í gegnum hraunið. Efra gatið er í í 89 metra beinni sjónlínu norðan við neðra opið. Þegar skammt er komið er inn í Fjallsendahelli er hlaðinn veggur þvert fyrir hellinn. Hefur hann líklega verið hlaðinn til að koma í veg fyrir að fé leitaði lengra upp í hann, en skv. örnefnalýsingum fyrir Hlíðarenda var hellirinn notaður sem fjárskjól. Neðsti hluti hans er nokkuð sléttur.

Efra opið er nokkuð djúpt, en hægt er að komast inn í það í gegnum jarðfall skammt ofar.

Gjögur

Í Gjögra.

Haldið var upp að opi Árnahellis. Hellirinn sjálfur er lokaður með járnhlera. Reynt var að grennslast fyrir um hugsanlegt aðgengi annars staðar um jarðfallið, en hún reyndist árangurslaus, að þessu sinni a.m.k.
Þá var haldið á ný upp Leitarhraun og reynt að hafa uppi á opi Búra. Björn Hróarsson hafði séð jarðfallið á loftmynd, en Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, formaður suðurdeildar HERFÍs, hafði kíkt á aðstæður og forfært grjót úr syðri hluta hans. Við það hafi komið í ljós illkleift og óráðið op niður á við.

Búri

Björn Hróarsson í Búra fyrsta sinni.

Efri hluti Búra er um 50 metra langur. Hann er um 7 metra hár, um 9 metra breiður. Hrun er í þessum hluta, en víða má sjá fallega rauðleit hraunlögin, sem svo lítið haldreipi reyndist vera í. Við athugun virðist vera kjallari undir rásinni, en það mun verða fjandanum erfiðara að komast þangað niður.
Í nerði hlutanum er gatið, sem Guðmundur Brynjar fann. Eftir að hafa forfært svolítið grjót frá opinu skellti Björn sér niður í hellagallanum. Ekki leið nema sekúndubrot frá því að hann hvarf sjónum efrimanna að fagnaðarhljóð heyrðust undir niðri. Björn var greinilega kominn í feitt.

FERLIRsfélagar fylgdu í kjölfarið. Þegar niður var komið blasti við mikil hvelfing, fimmtíu metra löng, fimmtán metra há og um tuttugu metra breið.

Búri

Búri.

Klakamyndanirnar í hvelfingunni voru engum líkar. Mannhæðahá klakastykki þöktu gólf og um fimm metra löng grýlukerti héngu niður úr loftum. Ef álfabyggð væri til þá hlyti hún að líta svona út. Allar tiltækar myndavélar voru rifnar á á loft og flassblossar lýstu upp hellinn, líkt og um dagsbirtu væri að ræða þarna niðri í hyldjúpunum.

Björn hvarf lengra niður rásina – og var lengi í burtu. Þegar hann kom aftur eftir drjúga stund svaraði hann spurningum einungis á þann veg að hellirinn væri ókannaður.

Búri

Í Búra.

Björn hefur hingað til þótt orðvar maður í lýsingum sínum á nýfundum hellum svo treysta má því að af svörunum megi ráða fullvissu þess að þarna kynni eitthvað áhugavert að leynast. Ekki er óvarlegt að álykta að í Búra kunni að leynast svör við spurningum, sem menn hafa hingað til ekki kunnað að spyrja.
Þessi ferð lýsir vel fjölbreytni FERLIRsferða, óvæntum mætingum og sannfæringunni um fjölbreytnina, sem landið hefur upp á að bjóða.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Gjögur

Í Gjögra.

Búri

Fyrir tólf árum [skráð 2005] byrjaði Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, svæðisfulltrúi Hellarannsóknarfélags Íslands á Suðurlandi, að líta eftir hugsanlegum helli á svæði því, sem Búri fannst síðan á. Hann leit inn í hraunrás mikils jarðfalls og skoðaði hann það vel og vandlega, bæði til norðurs og suðurs, en ekki var að sjá að framhald væri á hraunrásinni sem þar var og virtist hafa lofað góðu. Hann gafst þó ekki upp eins og góðra hellamanna er siður, forfærði grjót í syðri enda jarðfallsins og við það opnaðist þröngt gat niður í kjallara.
GuðmundurGuðmundur var einn við þessa iðju sína svo honum fannst ráðlegast að fara ekki niður að svo komnu máli. Það var líka skynsamlegt hjá Guðmundi. Guðmundur hafði myndavél meðferðis, teygði sig eins langt niður og honum var unnt – og smellti af. Enga fyrirstöðu var að sjá á myndinni þegar filman hafði verið framkölluð.
Og svo leið og beið. Það var hins vegar ekki fyrr en í maímánuði 2005 að HERFÍsfulltrúinn Björn Hróarsson með FERLIRsfélaga á hælunum lét sig síga niður um þrönga gatið – og sjá, niðri var heljarinnar hvelfing með miklum ís- og klakamyndunum. Á meðan aðrir dáðust að dýrðinni hélt Björn för sinni áfram inn rásina, enda öllu vanur. Hann hélt áfram og frumskoðaði Búra að hluta. Í kjölfar þeirrar FERLIRsferðar var birt eftirfarandi leiðarlýsing á vefsíðunni:
„Gengið var í fylgd fulltrúa HERFÍs um Leitarhraun ofan við Hlíðarendahjalla. Markmiðið var að leita að opinu á Búra, en í leiðinni var ætlunin að skoða opið á Árnahelli, Gjögrinu og Fjallsendahelli.Björn Hróarsson - fyrstu niður eftir frumopnun
Leitarhraunið kom úr Leitinu utan undir Bláfjöllum fyrir um 4300 árum síðan. Þar er stór gígur. Hraun úr honum rann bæði til suðurs og norðurs. M.a. er hluti hraunsins í Elliðaárhólma úr honum sem og hraunið sem Þorlákshöfn stendur á. Þar í er Gjögrið – stór niðurfall, sem Gjögurhraun er nefnt eftir. Arnarhreiðrið er einnig í því hrauni. Sá hellir hefur verið gerður aðgengilegur að tilstuðlan HERFÍSfélaga og stuðningi góðra manna og félaga. Þótt niðurfallið í Gjögrið virðist stórt er hellirinn sá ekki að sama skapi stór. Hins vegar er geysilega falleg hraunmyndun í honum. Fallegur rauður flór kemur út undan berginu inni í hellinum og steypist fram af lágri brún. Myndar hraunið þar myndarlegan hraunfoss. Farvegurinn hefur leitað niður undir hraunið og sést bláleitt gapið vel. Hægt er að komast inn í niðurfallið undir steinbrú úr grónu jarðfalli við hlið Fjallsendahellis.
Fjallsendahellir liggur hægra megin inn úr jarðfallinu. Rásin liggur um 100 metra í boga upp í gegnum hraunið. Efra gatið er í í 89 metra beinni sjónlínu norðan við neðra opið. Þegar skammt er komið er inn í Fjallsendahelli er hlaðinn veggur þvert fyrir hellinn. Hefur hann líklega verið hlaðinn til að koma í veg fyrir að fé leitaði lengra upp í hann, en skv. örnefnalýsingum fyrir Hlíðarenda var hellirinn notaður sem fjárskjól. Neðsti hluti hans er nokkuð sléttur.
Efra opið er nokkuð djúpt, en hægt er að komast inn í það í gegnum jarðfall skammt ofar.
Haldið var upp að opi Árnahellis. Hellirinn sjálfur er lokaður með járnhlera. Reynt var að grennslast fyrir um hugsanlegt aðgengi annars staðar um jarðfallið, en hún reyndist árangurslaus, að þessu sinni a.m.k. Síðar var gerð hin ágætasta FERLIRsferð í Árnahelli með HERFÍs þar sem dropsteina- og hraunstráabreiðurnar voru barðar augum. Í þeirri ferð óx skilningurinn á mikilvægi þess að loka hellum með viðkvæmum og einstökum jarðfræðimyndunum.
BúriÞá var haldið á ný upp Leitarhraun og reynt að hafa uppi á opi Búra. Björn Hróarsson hafði séð jarðfallið á loftmynd, en Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, formaður suðurdeildar HERFÍs, hafði kíkt á aðstæður og forfært grjót úr syðri hluta hans[, sem fyrr sagði í inngangi]. Við það hafi komið í ljós illkleift og óráðið op niður á við.
Efri hluti hraunrásar Búra [í nefndu jarðfalli] reyndist vera um 50 metra langur. Hann er um 7 metra hár, um 9 metra breiður [sjá efstu myndina]. Hrun er í þessum hluta, en víða má sjá fallega rauðleit hraunlögin, sem svo lítið haldreipi reyndist vera í. Við athugun virðist vera kjallari undir rásinni, en það mun verða fjandanum erfiðara að komast þangað niður. [Gerð var þó tilraun til þess í annarri FERLIRsferð og tókst þá að opna gat niður í hraunrás. Í henni er grjót, sem þarf að forfæra. Það verkefni bíður betri tíma].
Í neðri hluta rásarinnar er gatið, sem Guðmundur Brynjar fann. Eftir að hafa forfært svolítið meira grjót frá opinu skellti Björn sér niður líkt og slanga í hellagallanum. Ekki leið nema sekúndubrot frá því að hann hvarf sjónum efrimanna að fagnaðarhljóð heyrðust undir niðri. Björn var greinilega kominn í feitt.
FERLIRsfélagar fylgdu í kjölfarið, hver á fætur öðrum. Þegar niður var komið blasti við mikil hvelfing, fimmtíu metra löng, fimmtán metra há og um tuttugu metra breið. Klakamyndanirnar í hvelfingunni þetta vorið voru engum líkar. Mannhæðahá klakastykki þöktu gólf og um fimm metra löng grýlukerti héngu niður úr loftum. Ef álfabyggð væri til þá hlyti hún að líta svona út. Allar tiltækar myndavélar voru rifnar á á loft og flassblossar lýstu upp hellinn. Um stund var líkt og um dagsbirtu væri að ræða þarna niðri í hyldjúpunum.
Björn hvarf lengra niður rásina – og var lengi í burtu. Þegar hann kom aftur svaraði hann spurningum einungis á þann veg að hellirinn væri ókannaður. Björn hefur hingað til þótt orðvar maður í lýsingum sínum á nýfundum hellum svo af tilsvörunum mátti ráða fullvissu þess að þarna kynni eitthvað miklu áhugaverðara að leynast. Ekki er óvarlegt að álykta að í Búra kunni að leynast svör við spurningum, sem menn hafa hingað til ekki kunnað að spyrja.

Myndun í Búra

Þessi ferð lýsti vel fjölbreytni FERLIRsferða, óvæntum mætingum væntinga og sannfæringunni um fjölbreytileika íslenskrar náttúru, sem landið hefur upp á að bjóða.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.“
Nú þurfti að fara aðra ferð í Búra. Í för var Guðmundur Brynjar, sá sem hafði fundið hellinn á sínum tíma.
Haldið var með snúningi niður um þröngt opið og síðan niður eftir hellinum.  Búri er mikill hellir. Mikið hrun er í honum og fara þurfti tvisvar í gegnum þröng op áður en komið var í meira rými. Smám saman fóru hliðar, loft og jafnvel gólf upprunarlegu rásarinnar að koma í ljós. Þá tók hver hvelfingin við af annarri. Lofthæð var um 20 metrar og breidd á milli veggja var um 12 metrar. Ekki var mögulegt að taka ljósmyndir í gímaldinu til að sýna stærð þess. Flassljósið dó hreinlega út í víðáttumyrkrinu. Það þarf að gera með viðeigandi búnaði. Myndir með venjulegri vél urðu þarna einungis svartar. Flassið náði ekki einus sinni milli veggja.
Svelgur innst í BúraÞegar neðar dró varð rásin algerlega heil og ein sú stærsta og fallegasta í hraunhelli á Íslandi. Haldið var enn niður á við eftir litlum gófum hraunfossi og síðan gengið um sali, sem myndu prýða hvaða konungshöll úti í hinum um stóra heimi. Þá lækkaði rásin, en var alltaf um tveggja mannhæða há til lofts og víð til beggja veggja. Eftir göngu í bugðum og beygjum gapti hyldjúpur svelgur við framundan. Lengra varð ekki komist að sinni. Dýpið á svelgnum er um þrettán metrar. Á botni hans er rauðleitt slétt gólf og langir separ niður úr loftinu. Niðri virðist vera hringiða hraunsstrauma og rásir inn undir bergið. Hvað þar er niðri veit enginn, en staðurinn, aðkoman og dýpið á hellinum lofar mjög góðu. Líklegt má telja að þarna séu heilar rásir, algerlega ókannaðar. Þær geta legið hvert á land sem er. [Björn fór síðar með leiðangur í hellinn þar sem sigið var niður í svelginn og hann kannaður.

Búri - á bakaleiðinni

Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.
Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur. Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.
Í flæðigosum verða engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella. Allir stærstu hellar landsins hafa orðið til með þessum hætti.
Frábært veður (annars skiptir það litlu máli þegar inni í hella er komið). Ferðin tók 5 klst og 5 mín. Gangan um Búra tók um 4 klst og 4 mín.
Sjá meira um ferðalagið og nýrri uppötvanir í Búra í stórvirki Björns Hróarssonar; Íslenskir hellar – 2006 (sjá meira HÉR).
Sjá MYNDIR.
Í Búra

Árnahellir

Í Dagblaðiðinu Vísi árið 2002 er fjallað um friðlýsingu „Árnahellis“ í Ölfusi.

„Árnahellir í Ölfusi friðlýstur:

Árnahellir

Í Árnahelli.

„Einstakar dropasteinsmyndanir á heimsvísu – segir Árni B. Stefánsson sem fann hellinn fyrir 17 árum. Umhverfisráðherra undirritaði í gær friðlýsingu Árnahellis í Leitarhrauni í Ölfusi. Árnahellir er annar hellir landsins sem er friðlýstur með sérstakri friðlýsingu. Árni B. Stefánsson augnlæknir fann hellinn 1985.
Hann er um 150 metra langur og liggur á 20 metra dýpi, breidd hans er um 10 metrar en lágt er til lofts. Það sem gerir hellinn merkan eru mikilfenglegar dropasteinsmyndanir í gólfi hans, allt að metri á hæð og um 7 cm í þvermál. Þétt hraunstrá eru úr lofti hellisins, mislöng, sum um 60 cm löng. Með friðlýsingu hellisins eru ferðir um hann takmarkaðar nema með leyfi Náttúruverndar ríkisins.

Árnahellir

Í Árnahelli.

Hellinum var lokað með hlera árið 1995 til að takmarka aðgengi í hann vegna sérstöðu hans og viðkvæmra myndana. Þröngt er að komast í hann, þarf að fara niður bratta skriðu og niður um þröngt op í aðalhellinn. Þegar þangað kemur ber fyrir augu framandi veröld sem myndaðist fyrir um 4.600 árum og hefur fengið að vera að mestu ósnortin síðan. Leitarhraun, sem hellirinn er í, rennur í sjó fram í Ölfusi en er sama hraun og rennur niður Elliðaárdalinn í Reykjavík og þar í sjó fram.“

Árnahelli

FERLIRsfélagar framan við op Árnahellis.

Árni B. Stefánsson, sem segist hafa „fundið“ hellinn, sagði við undirritunina að hann hefði lengi haft áhuga fyrir því að finna hella. Hann sagðist hafa notað loftmyndir til að hjálpa sér við leitina og það hefði leitt hann að þessum helli árið 1985.

Árnahellir

Í Árnahelli.

Árni sagði hellinn einstakan á heimsvísu, hann hefði notið þess að umgangur um hann hefði enginn verið og því hefðu myndanirnar í honum varðveist svo vel. Hann sagðist hafa haft hljótt um hann eftir fundinn en hann hefði spurst út og eftir að dropasteinn fannst í göngunum í hellinn og dropasteinar inni í honum hefðu verið farnir að láta á sjá hefði þurft að gripa til þess neyðarúrræðis að loka honum.“ -NH

Árnahellir

Árnahellir – friðlýsingarkort.

Staðreyndin er hins vegar allt önnur. Einungis einvala hellaáhugafólk lagði á sig á þessum tíma að skoða hella sem  „Árnahelli“. Hellirinn hafði þá þegar verið þekktur af heimafólki í Ölfusi um langa tíð. Eitthvert þeirra gæti mögulega hafa brotið einn eða annan „dropastein“ af mörgum ferðum sínum inn í hellinn. Allt annað var væmnissíki ráðandi hellaáhugamanna í HERFÍ (Hellarannsóknarfélagi Íslands). Aðrir en hellaáhugaskoðunarfólk bjuggu ekki yfir búnaði á þeim tíma til að leggja út í sérstaka og nákvæma hellaskoðun. Ráðherrann hafði því verið blekktur til friðlýsingarinnar, líkt og gildir um svo margar aðrar slíkar, sem á eftir komu…

Auglýsing um friðlýsingu Árnahellis í Leitahrauni var dags. 25. júlí 2002.

Árnahellir

Í Árnahelli.

Í auglýsingunni segir m.a.: „Að tillögu [Umhverfisstofnunar] og Hellarannsóknafélags Ísland og með samþykki sveitarstjórnar Ölfus hefur umhverfisráðherra ákveðið að friðlýsa hraunhellinn Árnahelli í Leitahrauni sem náttúruvætti í samræmi við 2. tl., 53. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda hellinn og einstæðar jarðmyndanir sem í hellinum eru.
Hellirinn er í flokki örfárra hella á jörðinni sem skarta jafn glæsilegum og ósnortnum hraunmyndunum og er náttúrufyrirbæri á heimsvísu.
Umferð um hellinn er eingöngu heimil með sérstöku leyfi Náttúruverndar ríkisins eða þess sem hefur umsjón með náttúruvættinu í umboði stofnunarinnar.“

Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 169. tbl. 26.07.2002, Árnahellir í Ölfusi friðlýstur – Einatkar dropasteinsmyndanir á heimsvísu, bls. 2.
arnahellir_591_2002.pdf (ust.is)

Árnahellir

Árnahellir – greinin.

Tag Archive for: Búri