Búri

Eftirfarandi umfjöllun birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember 2006 – í tilefni af útgáfu stórvirkisins “Íslenskir hellar” eftir Björn Hróarsson.

BúriÞað þarf varla að taka það fram að Björn Hróarsson er fremsti hellakönnuður landsins. Undanfarin 25 ár hefur hann leitað að hellum með félögum sínum, skoðað þekkta hella, safnað efni og undirbúið útkomu þessa mikla rits, sem nú birtist lesendum. Hann hefur ferðast um landið þvert og endilangt í frístundum sínum og varið ómældum tíma í rannsóknir og ljósmyndun á “undirheimum” Íslands.

“Það er hvorki hægt að skoða, virða, nýta né vernda heim sem ekki er vitað um,” segir Björn Hróarsson , jarð- og hellafræðingur og höfundur Íslenskra hella, tveggja binda bókar um samnefnt fyrirbæri. Með bókinni leitast hann við að kynna þjóðinni undirheima Íslands í máli og myndum.

Fátt gleður áhugamenn um hella meira en að uppgötva nýja undirheima. Í fyrra bindi Íslenskra hella segir Björn frá leiðangri sínum og fylgdarfólks á síðasta ári í hellinn Búra, sem reyndist ekki allur þar sem hann var séður.

Búri

Búri er einn af mestu og mikilfenglegustu hraunhellum jarðar þótt hann væri í þrettán ár aðeins talinn um 40 metra langur. Það var 13. júní 1992 að Guðmundur Brynjar Þorsteinsson fann og heimsótti niðurfallið sem Búri gengur út frá. Upp frá niðurfallinu gengur um 40 metra langur og mjög hruninn hellir en til suðurs varnaði stórgrýti allri för. Jafn reyndum hellamanni og Guðmundi Brynjari þótti ekki mikið til koma enda grunlaus um að hafa sett í þann stóra. Nefndi hann hellinn.

Það var síðan 10. september 1994 að Guðmundur Brynjar heimsótti Búra á ný og tók til við að forfæra grjót syðst í niðurfallinu. Eftir nokkrar klukkustundir var komin töluverð gjóta en ekki árennileg, þröng og laust grjót allt um kring. Þar sem Guðmundur Brynjar var einn á ferð lét hann staðar numið en holan kallaði þó til hans á stundum. Sumarið eftir kom hann að gjótu sinni á ný og hafði útbúið prik til að stinga myndavél niður í gjótuna og smellti af tveim ljósmyndum. Örlögin höguðu því svo að báðar myndirnar mistókust.

Hellafiðringur gerir vart við sig
Föstudaginn 6. maí 2005 gerði hellafiðringurinn vart við sig hjá Birni, eins og svo oft þegar frídagar eru framundan. Þessi tilfinning að komast frá skrifborðinu, út á og undir hraunbreiðurnar tók völdin og nú héldu Birni engin bönd. Helgina framundan skyldi nota til hellarannsókna. Búri var einn þeirra hella sem Björn hafði ekki komið í en vildi heimsækja þótt lítill væri til að lýsa í þessari bók. Hringt var í Guðmund Brynjar og spurst fyrir um Búra og óskað eftir fylgd daginn eftir. Guðmundur Brynjar var hins vegar upptekinn en í lok samtalsins nefndi hann grjóttilfærslur sínar syðst í niðurfallinu og gjótuna sem enn beið könnunar. Mátti heyra að Guðmundur Brynjar batt vonir við að þar undir leyndist eitthvað frásagnarvert.
Björn hafði næst samband við Ómar Smára Ármannsson hjá gönguhópnum Ferli og spurðist fyrir um dagskrá Búrimorgundagsins. Reyndist hún óráðin en eftir söguna um ókönnuðu holuna í Búra var ákveðið hvert stefna skyldi daginn eftir.

Stórt hraun og litlir menn
Klukkan tíu að morgni laugardagsins 7. maí var haldið út á Leitahraun að leita niðurfallsins sem Búri gengur út frá. Hraunið reyndist stórt en mennirnir litlir og eftir tveggja tíma göngu hafði niðurfallið ekki fundist svo stefnan var tekin á Gjögur, Fjallsendahelli og Árnahelli. Eftir þá heimsókn var haldið til baka, Björn tók sig þá út úr hópnum og tveim klukkustundum síðar gekk hann fram á niðurfall Búra og hóaði í ferðafélagana.
Búri reyndist, eins og Guðmundur Brynjar hafði lýst honum, nokkuð stór um sig en mikið hruninn og um 30 metra langur. Ljóst var samt að um mikla hraunrás hafði verið að ræða, allt að tíu metrar voru milli hellisveggja og lofthæðin um sjö metrar þar sem mest er.

Þá var farið syðst í niðurfallið og fljótlega fannst holan sem Guðmundur Brynjar hafði búið til með grjótburði ellefu árum áður. Eftir að hafa fjarlægt nokkuð af grjóti til viðbótar renndi Björn sér ofan í þrönga dimma og kalda holuna á vit ævintýranna. Við blasti mikill salur og í honum tignarlegar ísmyndanir. Nokkuð sem Guðmundur Brynjar hefði fest á filmu áratug áður hefðu myndirnar heppnast. Hátt í tíu metra lofthæð er í íssalnum og yfir tíu metrar milli veggja, glæsileg veröld. Björn fetaði sig yfir ísinn og upp mikla grjótbrekku handan hennar. Þar, um 100 metra innan við opið, virtust öll sund lokuð í fyrstu enda hellirinn mikið hruninn.
Urð og grjót, upp og niður
BúriBjörn tók nú til við sömu iðju og Guðmundur Brynjar forðum, að forfæra grjót. Um stundarfjórðungi síðar tróð hann sér niður um gjótu þá sem hann hafði búið til og áfram hélt hellirinn. Ekkert er skemmtilegra en vera einn í helli sem enginn hefur áður í komið og enginn veit hvað hefur að geyma. Þrátt fyrir stórgrýti og torfærur miklar greikkaði Björn sporið og hljóp við fót. Tvær þrengingar töfðu för en síðan hækkaði til lofts og hellirinn varð stærri og stærri. Urð og grjót, upp og niður, út og suður, æstur hugur. Þegar komið var nokkur hundruð metra inn í hellinn tóku við miklar hvelfingar. Á annan tug metra var á milli lóðréttra hellisveggja og einnig yfir 10 metrar til lofts. Aftur þrengdist hellirinn og stækkaði svo á ný og engan endi að finna. Þegar Björn var kominn eitthvað yfir 500 metra inn í hellinn fór hann að hafa áhyggjur af samferðafólki sínu eða var öllu heldur farinn að hafa áhyggjur af þeim áhyggjum sem það myndi hafa af sér.
BúriÁfram var þó haldið en þegar Björn gerði sér grein fyrir því að stærð hellisins væri slík að ólíklega myndi finnast botn í bráð ákvað hann að snúa við. Aðeins eitt vasaljós var með í för og hugurinn hafði borið Björn lengra inn í undirdjúpin en skynsamlegt var. Þótt vont sé að snúa frá hálfkláruðu verki varð hann að láta sig hafa það enda ótækt að valda samferðafólkinu frekari áhyggjum. Hægar var farið yfir til baka og betur kíkt í kringum sig. Ljóst var að um mjög merkan hellafund var að ræða. Eftir að hafa lent í vandræðum með að finna leiðina til baka, gjótuna þröngu þar sem grjótið hafði verið forfært, komst Björn þó í íssalinn á ný og út undir bert loft, þreyttur en kátur.
Eftir hellaferðina fór Björn til Þorlákshafnar, heimsótti Guðmund Brynjar og búralegur lýsti hann hellinum sem Guðmundur Brynjar hafði fundið þrettán árum áður án þess að vita af því.

Glæsileikinn með ólíkindum
BúriSunnudaginn 8. maí 2005 var aftur haldið í Búra. Saman í för voru Albert Ólafsson, Björn Hróarsson, Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir, Jóhanna Guðmundsdóttir, Ómar Smári Ármannsson og Viktor Guðmundsson. Íssalurinn skartaði sínu fegursta sem daginn áður og undruðust hellafararnir stærð og mikilfengleika hellisins. Þegar gengið hafði verið nokkuð á aðra klukkustund var komið að “indjánanum” eða stærðar steini sem tyllir sér milli gólfs og loft og hefur lögun ekki ósvipaða og fjöður. Á þessum stað sneri Björn við daginn áður. Aðeins um hundrað metrum innar tók við upprunalegt gólf og á löngum köflum er hellirinn ekkert hruninn og allur hinn glæsilegasti. Gífurlegar hvelfingar eru í honum og aðeins örfáir hraunrásarhellar hér á landi sambærilegir að stærð. Þótt einstaka hrun sé í hellinum á þessum kafla verður hann sífellt heillegri eftir því sem innar dregur og veggir hans ótrúlega glæsilegir. Enn innar tók við gífurleg hvelfing en síðan snarlækkar til lofts og frá þessari hvelfingu halda göngin áfram en lofthæðin er “aðeins” fjórir til fimm metrar. Glæsileikinn er hins vegar með ólíkindum og allt stráheilt þótt allir Suðurlandsskjálftar í um 5000 ár hafi látið þarna til sín taka. Í rásinni er fallegur hraunfoss, nærri mannhæðar hár.

Á vit ævintýranna
Enn kom hellirinn á óvart og nú sem aldrei fyrr. Þegar komið var á að giska rúman kílómetra inn stóðu hellamenn á gati. Því betur ekki alveg í bókstaflegri merkingu en þótt þakþykktin sé örugglega mikil og þótt hæð hellisins sé um ellefu metrar skammt frá þessum stað blasti nú við mikill svelgur. Hann er alveg lóðréttur, um 5 metrar í þvermál og 17 metra djúpur. Niðri í undirdjúpunum, þess vegna á um 50 metra dýpi í hrauninu, mátti glögglega sjá hvar hellirinn heldur áfram – á vit ævintýranna. Engin lína eða sigtæki voru með í för auk þess sem farið var að draga af mannskapnum enda ekkert áhlaupaverk að koma sér á þennan stað og morgunljóst að annan daginn í röð þyrfti að snúa frá hellinum án þess að hafa farið hann á enda.
Búri Svelgurinn er með miklum hrauntaumum og hinn glæsilegasti og á sér ekki hliðstæðu í öðrum hraunhelli á Íslandi.

Svelgurinn vekur margar spurningar sem enn er ósvarað. Ljóst var að þótt hellirinn væri ekki fullkannaður og enginn vissi hvert hann lægi eða hvað hann hefði að geyma þá var hann samt sem áður einn stærsti og merkilegasti hraunhellir á Íslandi. Ferðin til baka gekk vel en það voru þreyttir hellafarar sem upp komu.

Laugardaginn 21. maí var haldið í Búra á ný með það að markmiði að fara niður hraunfossinn innst í hellinum og kanna hvað þar væri undir. Leiðangursmenn voru Ásbjörn Hagalín Pétursson, Björn Hróarsson, Daði Hrannar Aðalsteinsson, Guðmundur Brynjar Þorsteinsson og Pétur Ásbjörnsson yfirklifrari. Vegna klifurbúnaðar og þess að hellafararnir bjuggust allt eins við langri hellaferð voru þungar byrðar á baki. Þrátt fyrir það hröðuðu menn sér inn hellinn og að svelgnum mikla. Innarlega í hellinum sést víða hvar hrun er þakið hrauni. Greinilegt er að töluvert hrun hefur átt sér stað í hellinum meðan þar var enn hraunrennsli. Síðan hefur hækkað í hraunánni og hún húðað stórgrýtið. Eru steinarnir með því þynnri hraunhúð því ofar sem þeir eru og ólíklegt að þeir hafi lengi verið á kafi. Líklegra er að rennslið niður hellinn hafi lent í teppu skamma stund og þá hækkað svo í hraunánni að hún náði að húða grjótið. Er þetta enn eitt dæmið um að hrun í hellum á sér yfirleitt stað skömmu eftir að þeir myndast en eftir það hrynur lítið eða ekkert.

Búri Við svelginn hófu þeir feðgar, Pétur og Ásbjörn, að undirbúa ferðalagið niður hraunfossinn. Sprungur eru nokkrar og því auðvelt að koma fyrir festingum og ekki leið á löngu þar til línan lá traust niður á botn svelgsins. Björn Hróarsson fór fyrstur fram af brúninni og lét sig síga til botns utan á glæsilegum hraunfossinum. Ekki var hann raunar kominn langt þegar Pétur Ásbjörnsson kallaði á eftir honum: “Gaman að hafa kynnst þér!” Birni varð ljóst áður en botni var náð að svelgurinn væri dýpri en menn höfðu áætlað ofan frá. Mæling gaf síðan til kynna að hraunfossinn er um 17 metra hár. Lofthæðin í svelgnum er því rétt um 20 metrar. Fóru nú félagarnir niður í svelginn einn af öðrum og er þetta náttúruundur hið ótrúlegasta, hvar og hvernig sem á það er litið. Fara má undir veggi svelgsins, gegnt fossinum, og upp stórgrýtisbrekku fáeina metra en ekki fannst leið áfram eftir rásinni.
Vel má vera að þarna mætti með réttum áhöldum færa til grjót og finna leiðina áfram en það tókst ekki að þessu sinni. Þar sem leiðin lokast inn frá svelgnum eru um fimm metrar niður á neðsta hluta svelgsins en þar hefur hraunið greinilega haldið áfram niður og þá líklega þaðan áfram eftir hellisrás. Hver hún er, hvar hún er og hvort hún er enn til staðar er hins vegar óvíst með öllu. Vel gekk að klifra upp fossinn, taka saman klifurdótið og arka út hellinn.

Búri kortlagður
BúriHellaferðin tók rúmar sex klukkustundir og enn kom Búri á óvart.
Búri var kortlagður 17. og 18. júní 2005. Þeir Björn Hróarsson og Guðmundur Brynjar Þorsteinsson fengu til liðs við sig fimm þaulreynda breska hellamenn til verksins, Ed Waters, Hayley Clark, James Begley, Phil Collett og Phil Wharton. Kortið er meðfylgjandi og reyndist hellirinn 980 metrar á lengd. Enn eru þó ókönnuð göng út frá hellinum en þau eru í um 8 metra hæð frá gólfi og er eftir að klifra þangað.

“Íslenskir hellar” eftir Björn Hróarsson er 674 blaðsíður í tveimur bindum og prýdd fjölda ljósmynda, sem flestar eru teknar af höfundi. Útgefandi er Vaka-Helgafell – Edda útgáfa 2006.

Í eftirmála tiltekur Björn þá aðila er styrktu hann til verksins. Umhverfisráðuneytið íslenska lagði t.a.m. eitt hundrað þúsund krónur. Umhverfisráðherra fékk í viðurkenningaskyni “fyrsta eintak bókarinnar” afhent við formlega athöfn. Með því fékk ráðuneytið fjórðung af styrknum endurgreiddan.
Ef ráðuneyti umhverfismála hefði einhvern snefil af sómatilfinningu eða yfirlýst opinber markmið um framþróun í umhverfismálum myndi fulltrúi þess, jafnvel ráðherrann sjálfur, verðlauna þetta mikla verk með sérstöku fjárframlagi (a.m.k. einni milljón króna) – og þætti engum mikið. Hið mikla bókmenntaverk er vel þess virði, enda hefur hvergi í veröldinni verið gefið út rit um alla þekka hella heils lands líkt og hér um ræðir.

Það þarf nú varla að taka það fram að Búri er á Reykjanesskaganum.

Úr bókinni