Í kynningu bókar Daniels Bruun; “Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár“, segir m.a.:
„Daniel Bruun hefur skynjað að hann varð hér vitni að einstæðri þjóðfélagsbreytingu, með þjóð sem hafði staðið nánast í sömu sporunum hvað snerti verkhætti í 1000 ár. Hér var þjóðfélag að ganga úr álögum, ef svo má segja, kasta af sér miðaldaham.
Og þá kom mér í hug orð gamla bóndans, sem sagði við ungan arftaka sinn: Milli mín og þín eru þúsund ár, en milli mín og Egils Skallagrímssonar eru aðeins fáein ár.”
Svo fórust Þór Magnússyni, þjóðminjaverði, m.a. orð er hann opnaði sýningu um þjóðfræðinginn og fornleifafræðinginn Daniel Bruun í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands í síðasta mánuði. Tilefni sýningarinnar var útkoma bókarinnar Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár – frá landnámi til loka 19. aldar eftir Bruun í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. í bókinni, sem kom fyrst út á dönsku um síðustu aldamót, eru á áttunda hundrað teikningar og ljósmyndir eftir höfundinn, en Daniel Bruun var einn af brautryðjendum í rannsóknum menningarminja á Íslandi. Grípum aftur niður í erindi Þórs Magnússonar, en hann ritar einnig formála að bókinni, sem bókaforlagið Örn og Örlygur gefur út.
„Daniel Bruun var einn mikilvirkasti og merkasti rannsakandi hins gamla íslenska þjóðfélags fyrir daga hinnar miklu þjóðfélagsbyltingar… Hann hafði á fyrri árum fengist við fornleifarannsóknir á Grænlandi og síðan beindist áhugi hans að Íslandi.
Hann ferðaðist um ísland ásamt fylgdarmönnum sínum, um byggð og óbyggð, kannaði landið en kannaði ekki síst þjóðlífið, hið gamla, íslenska þjóðlíf, sem hann sá manna bezt að var þá óðum að þoka fyrir nýjum þjóðfélagsháttum. – Gömlu torfbæirnir þokuðu fyrir timburhúsum og jafnvel steinhúsum í sveit og bæ, seljabúskapur var því nær alveg horfinn, hestakerrur fóru að koma til sögu og menn þurftu þá ekki lengur að hefja allar byrðar á klakk, og jafnvel sá hilla undir bílaöld með sinni ómældu breytingu. Gufuskip voru að komast í eigu landsmanna og fyrsti vélbáturinn var tekinn í notkun um aldamótin. Farið var að smíða brýr á vatnsmestu fljótin og leggja vagnvegi þar sem áður voru aðeins hestagötur…
Daniel Bruun heillaðist fyrst af fornleifafræðinni og fyrstu rannsóknir hans hérlendis beindust einkum að uppgreftri fornrústa, hofa og hörga, sem menn töldu svo vera, rústa af bæjum og öðrum mannvirkjum, sem tengdust landnáms- og söguöld. En það sést glöggt að brátt beindist áhugi hans ekki sízt að því þjóðlífi, sem þá gat enn að líta en var senn að kveðja, og hann virðist þá hafa einbeitt sér að því að skrá og skýra frá mannlífinu í landinu eins og það var þá… Og hér á sýningunni má einkum sjá ljósmyndir og teikningar og vatnslitamyndir þeirra Daniels Bruun og Johannesar Klein auk mynda annarra ljósmynda, sem Daniel Bruun hefur aflað á ferðum sínum. En allt beindist þetta að sama marki, að bjarga og varðveita heimildir um þetta fornlega þjóðfélag á hjara heims, sem hafði að geyma svo mörg einkenni járnaldar í Evrópu, sem þá var þar löngu um garð gengin.
Er við litumst um hér á sýningunni sjáum við hvarvetna hvernig áhugasvið Daniels Bruun birtist. Og við getum ekki annað en heillast af því sem honum varð starsýnast á og vildi festa á filmu fyrir eftirkomendur okkar… Maður verður meira en lítið snortinn við að virða fyrir sér myndir eins og t.d. af þeim nafnkennda klerki sr. Þorvaldi á Melstað stíga á bak blesótta klárnum sínum, eða Eggert í Helguhvammi spila á langspilið sitt, Indriða bónda í Gilhaga fara yfir Svartá með hund sinn á lendinni á klárnum eða myndina af mjaltastúlkunni Svanfríði Jóhannesdóttur í Bárðardal, sem gengur heim af stöðli með mjólkurföturnar í grind, en sú mynd prýðir bæði auglýsingamyndsýningarinnar og hlífðarhylki bókarinnar…
Mér hefur alltaf fundist, frá því ég sá þessa mynd fyrst, að hér hafi ljósmyndarinn hitt á það augnablik óskastundarinnar eins og Sigurður Sigurðsson segir í kvæði sínu: Sól, stattu kyrr… Hér segir Daniel Bruun: “Andartak, stattu kyrrt. – Og þar með er það orðið eilíft.”
Flestir Íslendingar, sem útivistum og ferðalögum unna og eitthvað hafa lesið um þau efni, munu kannast vel við Daniel Bruun höfuðsmann, sem oft og mörgum sinnum hefir ferðast um hér á landi og skrifað margar gagnlegar og góðar bækur um ferðalög á íslandi og náttúru þess. Hann lést að heimili sínu í Hellerup í Danmörku á þessu hausti, 75 ára að aldri.
Daniel Bruun var mjög víðförull maður. Strax á unga aldri ferðaðist hann til Afríku og skrifaði síðar bók um þá ferð, er hann nefndi »Algier og Sahara«. Eftir að hafa ferðast víða um suðurlönd, hneigðist hugur hans norður á bóginn og fór hann síðan margar ferðir til Íslands og Grænlands og virðist, eftir bókum hans að dæma, að hin norðlægari lönd hafi síst hrifið hann minna en hin suðlægari. Helstu bækurnar, sem hann hefir ritað um ferðir sínar á norðurhveli jarðar, eru: »Det höjeNord«, »Erik den röde«, »Turistruter paa Island« og »Fortidsminder og Nutidshjem paa Island«.
Daniel Bruun var maður vel menntaður og fer saman í öllum hans frásögum fróðleikur og fagurt mál. Einnig var hann ágætur teiknari og eru flestar ferðabækur hans prýddar teikningum eftir hann sjálfan.
Það þarf ekki lengi að lesa bækur Bruun’s til þess að finna, hve hlýtt honum var til íslensku þjóðarinnar og hve mikil ítök náttúra landsins átti í huga hans og hjarta.
Eitt sinn mættust þeir Bruun og F. W. Howell í óbyggðum uppi. Þeir slógu upp tjöldum sínum og dvöldu saman næturlangt. Í bók sinni »Det höje Nord«, lýsir Bruun þessum samvistum þeirra þannig: »Það leið á kvöldið. Samferðamennirnir voru þreyttir og gengu til hvíldar í tjald sitt. En við Howell sátum lengi í tjaldi hans og ræddum um þetta dýrlega land, þar sem sjóndeildarhringurinn virtist óendanlega langt í burtu. —
Þetta land, sem við elskum báðir, því þar nutum við frjálsir og glaðir hinnar mikilfenglegu náttúru þess. Við skiptumst á lýsingum af landfræðilegum staðháttum. Howell var Englendingur. Hann hafði yndi af að ferðast hér á landi og kom hingað sumar eftir sumar. Hann var djarfur og athugull ferðamaður og fór til ýmissa þeirra staða hér á landi, sem menn höfðu sjaldan eða aldrei komið á áður.
Hann fór t. d. fyrstur manna (ásamt tveim Englendingum og tveim Íslendingum) yfir Langjökul (1899), á svipuðum stað og skátarnir fóru í sumar, Svo sorglega tókst til, að eitt sinn, er Howell, ásamt fylgdarmönnum sínum, var á ferð í Skagafirði (sumarið 1901) drukknaði hann í á einni, er þeir ætluðu að ríða yfir. Fylgdarmenn hans voru búnir að finna vaðið á ánni, og voru um það bil að leggja í hana með baggahestana, þá leggur Howell i ána á hesti sínum, en mun hafa farið litið eitt afvega, svo straumurinn hrifsaði bæði hestinn og manninn, og náðist ekki í Howeli, fyr en hann var látinn.
Hinar mörgu lýsingar, sem Daniel Bruun hefir skrifað um íslenska fjallvegi þykja bæði glöggar og réttar og koma enn að góðu gagni innlendum og erlendum ferðamönnum. Hann hefir og gert uppdrátt af Íslandi, sem var gefinn út árið 1913 með styrk úr landssjóði Íslands.
Bruun þótti maður viðkynningargóður og hefir eflaust eignast marga vini hér á landi. Hans hefir þó ekkert verið getið hér á prenti, svo teljandi sje, síðan hann lést, en vel virðist það eiga við, að eitthvert hinna íslensku tímarita birti nú frásögn um ævistörf hans.
Ég hefi að eins kynst Daniel Bruun í gegnum bækur hans og svo mun um fjölda Íslendinga. Eftir þá viðkynningu munu allir sammála um, að við andlát hans hafi fallið í valinn óvenju þrekmikill, drenglyndur og gáfaður máður, sem okkur Íslendingum ber að minnast með þakklæti fyrir það, sem hann hefir fyrir okkur gert.
Árið 1929 var hann gerður að heiðursfélaga í Ferðafélagi Íslands.
Daniel Bruun lætur eftir sig ekkju og tvo uppkomna syni, Frantz og Erling að nafni.
Hermaðurinn, Daniel Bruun, var ungur liðsforingi í danska hernum, fornleifafræðingur og rithöfundur. Hann fæddist 27. janúar 1856 í Asmild-klaustri nálægt Viborg á Jótlandi. Faðir hans var þar grósseigandi og mikilsmetinn maður.
Bruun var alinn upp við ósnortna heiðanáttúru og naut hann mikils frjálsræðis í æsku. Hann var að eigin sögn óstýrilátur og hafði lítinn áhuga á skólabókarlærdómi en var haldinn sterkri útþrá og ævintýralöngun. Hann var stuttan tíma við nám í latínuskólanum í Viborg en réðst í siglingu 16 ára gamall. Komst hann í sinni fyrstu ferð allt suður til Höfðaborgar í Suður-Afríku.
Síðan fékkst hann við eitt og annað þangað til hann settist í liðsforingaskólann danska. Hann varð lautinant í hernum 1879 og gegndi þar ýmsum störfum og varð höfuðsmaður er tímar liðu. Hann lét ekki af herþjónustu fyrr en 1918 en þá hafði hann verið sjálfboðaliði á styrjaldarárunum 1914 til 1918. Á sínum herþjónustuárum fór Bruun ýmsa hliðarkróka eins og í rannsóknarferðir til Grænlands og íslands, var í tvö ár í Útlendingahersveitinni frönsku í Alsír, fór rannsóknarferðir til afskekktustu svæða Túnis og Mansjúríu og var stríðsfréttaritari Berlingske Tidende í Mansjúríu í stríðinu milli Rússa og Japana 1904.
Frá því á unga aldri vakti fornleifafræðin áhuga hans og allt það sem henni við kom. Hann hefur sennilega erft þennan áhuga frá föður sínum því sá hafði mikinn hug á fornleifarannsóknum. Þá spilaði líka inní að í héraðinu kringum Viborg voru sífellt að finnast fornleifar frá fornsögulegum tíma. Með því öllu fylgdist Bruun og var hann skipaður eftirlitsmaður með öllu slíku af hálfu Þjóðminjasafnsins danska, þegar hann gegndi störfum fyrir her og lögreglu. Aldrei nam hann fornleifafræðin í háskóla en hann las allt sem hann náði í um fræðin og varð hinn lærðasti á fornleifasviðinu. Fornleifafræðin beindi hug hans til Grænlands og þangað ferðaðist hann, fyrst 1894 um Eystri byggð og seinna um Vestri byggð 1903. Á Grænlandi er margt minja frá Íslendingabyggðinni fornu en í ferðum sínum kannaði Bruun fjölda bæjarrústa í hinum fornu byggðum Grænlendinga og vann aðallega við rannsóknir á húsagerð þeirra. Bruun varð brautryðjandi í fornleifarannsóknum á Grænlandi.
Upphaf rannsókna Bruuns á Íslandi er rakið til rannsókna hans á Grænlandi 1894. Á Grænlandi heppnaðist honum að finna hvernig fornbýlin hefðu verið gerð, byggingarlag og húsaskipan og byggingarefni og tókst honum einnig að finna marga hina fornu kirkjustaði og leiða rök að hvar hin fornu höfuðból Brattahlíð og Garðar hefðu verið. Fundir Bruuns á Grænlandi vöktu athygli í Danmörku og hann afréð að sækja um rannsóknarstyrk til dönsku stjórnarinnar svo hann mætti kanna fornleifar á Íslandi því þar voru enn til bæir af sömu gerð og voru fyrir mörg hundruð árum og rústir eyðibýla frá fornöld. Margt þóttist hann geta fundið í Noregi og í Færeyjum, en á Íslandi mest.
Það var sumarið 1896, sem Bruun fór fyrstu ferð sína til Íslands. Fór hann víða um land, en skoðaði fátt til hlítar heldur undirbjó hann jarðveginn undir framhaldsrannsóknir. Verkefnið var stærra en hann hafði búist við í fyrstu því það snerist ekki eingöngu um fornleifakönnun heldur einnig um könnun á húsagerð seinni alda og síðasta hluta 19. aldarinnar og rekja eftir því þróunarsögu húsagerðar á Íslandi. Húsunum tengdust ótalmörg atriði menningarsögunnar, búskaparhættir, mataræði, ferðalög og klæðnaður og ýmislegt fleira.
Eina farartækið í þá daga var hesturinn og með tilliti til þess og að landið var vega- og brúarlaust að mestu, vekur það furðu manna hve víða Bruun fór hverju sinni. Íslendingar vissu naumast hvað vegur var og segir Bruun á einum stað af konu einni, sem fór um nýlagðan veg yfir flóasund. Lét kerling illa af ferð sinni, hesturinn hafði legið á kviði hvað eftir annað og hún varla komist leiðar sinnar og svo spurði hún til hvers garðurinn væri, sem lá með fram veginum. Þessi garður, sem kerling átti við, var nýi vegurinn en hún hafði riðið eftir brautarskurð. Seyðisfjörður var fyrsti viðkomustaður Bruuns á Íslandi en á meðan hann dvaldist þar gekk hann um og teiknaði umhverfið.
Fyrsta landferð Bruuns var frá Húsavík til Mývatns og var þá fylgdarmaður hans Guðmundur nokkur Magnússon. Bruun leist ekki betur en svo á manninn að hann lét hann fara þegar þeir komu á Akureyri. Það er misjafnt hvað Bruun þykir um Íslendinga ef marka má fyrstu dagbók hans af íslandi. Hann hefur miklar mætur á einstökum mönnum. Þannig er Stefán Stefánsson kennari á Möðruvöllum „glæsilegur ungur maður, hagsýnn og vísindamaður í senn,” séra Árni á Skútustöðum, „geðfelldur og gáfaður”, bændurnir Björn og Páll á Hofstöðum við Mývatn „hjálpsamir og elskulegir menn”. Það voru þó ekki allir sem fengu þessar ágætiseinkunnir hjá Bruun og er að sjá sem aðrir hafi reynst honum verr. Bruun skrifar: „Margir Íslendingar eru furðulegur skríll, ruddalegir og ryðjast inn á mann feimnislaust, blístara, hrækja allt í kringum sig, en gestrisnir eru þeir við alla, og allir virðast jafnir í þeirra augum, fylgdarmaðurinn jafnt og fararstjórinn.” Þegar leið á átti hið gagnstæða eftir að verða uppi á teningnum þegar Bruun ræðir um Íslendinga en ef hann hefði ekki komið oftar til Íslands hefðu Íslendingar setið uppi með þennan dóm.
Bruun fór víða um landið í sinni fyrstu ferð. Hann ferðaðist mikið um Suðurlandið og austur með. Kom á Þingvelli, í Skálholt og á Reyki á Skeiðum og hafði m.a. náttstað á Stóra-Núpi. Þar bjó séra Valdimar Briem en hann var vinur Björns M. Ólsens rektors sem var Bruun samferða. Það fóru fram fjörugar samræður þetta kvöld á Stóra-Núpi á skrifstofu prestsins og að þeim loknum fóru menn að sofa. Rétt áður er þeir festu svefn ræddu þeir félagarnir um hvað það væri gott og notalegt að dveljast í íslensku torfbæjunum. Síðan sofnuðu þeir í næturkyrrðinni grunlausir um að áður en mánuðinum lyki hefðu jarðskjálftar lagt setrið í rúst og svift fólkið húsaskjóli.
Frá Stóra-Núpi hélt Bruun einn síns liðs inn í Þjórsárdalinn og gisti þar að Ásólfsstöðum. Hann segir svo frá: „Fólkið var að heyskap en stúlkur mjólkuðu ær í kvíum. Ekki brást íslenska gestrisnin hér fremur en annars staðar, einu áhyggjur húsfreyju og bónda virtust vera þær, að þau gætu ekki látið fara nógu vel um okkur.
Allt var hreint og snoturt innanhúss eins og á öllum þeim stöðum sem ég hefi komið á í þessum sveitum. En til dæmis um hve fábrotið lífið er í sveitunum má geta þess, að sonur bóndans, fullorðinn maður, hafði aldrei smakkað te, fyrr en hann drakk það hjá okkur um kvöldið.”
Ferðaðist Bruun víðar um Suðurlandið en ferðalýsingu sinni lýkur hann með eggjan til Dana um að leggja fram skerf til fjársöfnunar þeirrar, sem þegar var hafin undir vernd konungs til hjálpar á landskjálftasvæðunum.
Það var ári seinna, á Þingvöllum 25. júlí 1897, að Daniel Bruun og fylgdarlið hófu aðra Íslandsferð sína. Nú var hann með fasta áætlun og var hún liður í kerfisbundnum rannsóknum, sem ríkisstjórnin danska og Carlsberg-sjóðurinn höfðu veitt styrk til. Var ætlunin á þessu sumri að kanna nokkra elstu bæina og skipan þeirra, bæði norðan lands og sunnan og fá úr því skorið hvort munur hefði verið á húsagerð eftir landshlutum. Á Þingvöllum þennan júlídag voru samankomnir fimm menn, með tuttugu og sex hesta, þrjú tjöld með tveimur ferðabeddum og rúmum átján ferðakoffortum, fullum af nesti og öðrum ferðabúnaði.
Leiðangursmenn voru auk Bruuns þeir Fonnesbech-Wulff riddarakapteinn, Magnús Vigfússon aðalfylgdarmaður, Jóhann Zoega og Páll Guðmundsson aðstoðarmenn. Þeir ætluðu yfir Kjöl. Þeir komu við á Hruna þar sem Brynjólfur Jónsson á Minna-Núpi og Snorri Jónsson frá Hörgsholti slógust í för með þeim. Bruun þótti Brynjólfur mest líkjast hetju úr fornsögunum, með ljóst skegg sitt þar sem hann kom riðandi fót fyrir fót að Hruna. „Þessi gamli fátæki bóndamaður, iðjusamur og þaulkunnugur fornsögu Íslands gladdist mjög af að hitta mann, sem honum var kunnugt um að kunni vel að meta rannsóknir hans, og augu hans ljómuðu af ánægju.” Og seinna segir Bruun: „Fornleifafélagið kostar ferðalög hans, kemur hann á hverju hausti heim með verulegan árangur, svo er skarpari athugunargáfu hans og framúrskarandi áreiðanleik fyrir að þakka.” Og ekki líst Bruun verr á Snorra Jónsson. „Hann er lítill vexti, sköllóttur með ljóst alskegg og ljómandi, hvöss augu og hlær hjartanlega. Hann er í einu orði sagt skínandi maður, og augu hans ljóma, þegar hann segist vilja koma með okkur og honum verður tíðrætt um árnar, vöðin og tóttirnar. Hann hefur farið á öræfin 40 sinnum, og allir, sem leggja leiðir sínar þangað inn eftir vilja fá Snorra með sér.”
Fyrsta ágúst voru leiðangursmenn komnir að Tungufelli og þaðan var haldið á fjöllin að morgni. Fjórða ágúst höfðu þeir grafið í tóttirnar á Þórarinsstöðum og Laugarhvammi og í Tjarnarkoti við Hvítárvatn, þar sem nú er sæluhús Ferðafélags Íslands. Fimmta ágúst skrifar Bruun í dagbók sína: „Rigning og hvassviðri, svo að við lá að tjöldin fykju, en við festum þau niður með skóflunum. Ég leit í Íslendingatjaldið. Brynjólfur sat og réri í gráðið. Honum var vel heitt.” „Hér er gott að vera, ó hversu gott,” sagði hann. Við höfðum grafið allan daginn og Brynjólfur gamli hafði ekki vikið frá greftrinum, þessi góði, gamli maður. Honum til óblandinnar ánægju fundum við eldstæði í þeirri tótt, sem hann hafði haldið áður að væri eldhús. Honum var létt í skapi, þar sem hann stjáklaði um í regnkápu sinni við hugsunina um að hann hefði lifað ágætan dag. Augu hins fátæka, ljúfa öldungs ljóma af ástúð, mildi og þakklátssemi, hverju sinni sem ég ræði við hann um rannsóknir hans, en þær eru í sannleika sagt góðar. Að loknum máltíðum staulast hann til mín við staf sinn, til að þakka mér fyrir matinn, enda þótt ég hafi beðið hann að spara sér það ómak.”
Lýsing Bruuns á samferðamanni sínum Brynjólfi og fleirum gefa nokkuð góða mynd af anda þeim, sem hefur ríkt í ferðum Bruuns og hvað honum þótti um þá, sem hann kynntist að ráði. Gekk þessi hin fyrri Kjalarferð Bruuns óhappalaust. Kom hann og fylgdarlið á Akureyri 21. ágúst en þaðan lá leið þeirra austur um Þingeyjarsýslu þar sem Bruun kannaði rústir fremst í Bárðardal.
Síðan hélt Bruun og lið hans að Öskju en þeir sáu þar ekkert fyrir þoku svo þeir fóru þaðan snarlega en þegar þeir komu niður úr fjöllunum var bjart og besta veður og gekk þeim greiðlega að finna rústirnar í Hrauntungu, sem Bruun hafði heyrt að væru þar og grófu þeir í þeim. Bruun fór Sprengisand suður en á þessum tímum var ekki óalgengt að nokkur uggur væri í mönnum við að leggja á sandinn einkum ef veðurútlit var ótryggt og nokkurt afrek þótti að fara þessa leið. Það var lengstum fimm til sex gráðu frost á leiðinni suður Sprengisand og nóttina sem þeir gistu við Dalsá var tíu stiga gaddur.
Komu þeir til Reykjavíkur 6. september. Bruun var ánægður með árangur þessarar ferðar um Ísland. Tvisvar hafði hann farið þvert yfir hálendið, skoðað margar fornrústir og séð að engu verulegu munaði á húsaskipan sunnan lands og norðan og að sú skipan að reisa bæjarhúsin um göng í miðju var ekki til í fornöld. Það er önnur ferð Bruuns yfir Kjöl, sem þeir Ísfilmmenn ætla að kvikmynda í sumar.
Þá ferð fór hann 1898 og fór hann þá suður Kjöl. Að ríða suður yfir Kjöl var aðalferð hans þetta sumar. Honum hafði orðið ljóst sumarið áður að mikil samgöngubót væri að því, ef leiðin suður Kjöl væri greinilega merkt og auðsær væri sá tímasparnaður að fara þá leið milli landsfjórðunga hjá því að fara þjóðveginn um Holtavörðuheiði. Þá var honum einnig ljóst að margt væri skoðunarvert fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi og að ferðamannastraumur til Íslands gæti orðið landinu nokkur tekjulind, en vel varðaður vegur yfir Kjöl væri álitleg ferðamannaleið. Því var það að loknum fornleifarannsóknum Bruuns 1898 að hann ræddi við Pál Briem amtmann en hann þekktist boð Bruuns um að hafa tilsjón með að Kjölur yrði varðaður.
Í för með Bruun þetta sumar var danskur málari, Johannes Klein að nafni en hans hlutverk var að mála og teikna, en auk þess var hann snjall ljósmyndari. Svo var það 12. ágúst, sem leiðangursmenn komu saman með hesta og farangur að Gilhaga í Skagafirði. Um ferðina skrifaði Bruun rit, sem hann nefndi „Tværs over Kelen” og er hin fyrsta eiginlega leiðarlýsing hans frá Íslandi. Samferðamönnum sínum lýsir Bruun svona: „Fyrstan skal telja Magnús Vigfússon, sem sér fyrir öllu. Hann er ungur maður frá Reykjavík og fyrirmynd allra fylgdarmanna. Ekkert er honum léttara en að stjórna hesti, og hann fer auðveldlega með heilan flokk af klyfjahestum. Hann talar dönsku reiprennandi, er afbragðs matsveinn, lipur rakari og fimur framreiðslumaður. Auk þess er hann hógvær maður, háttvís og síviljugur.
Á vetrum bindur hann bækur, er veitingaþjónn, baðvörður eða hvað sem býðst af vinnu. En á sumrin er hann fyrst í essinu sínu, þegar ferðamennirnir koma til landsins og ævintýrin blasa við. Ég get ekki hrósað honum nógsamlega eftir að hann hefir verið fylgdarmaður minn tvö sumur, og ég mæli með honum við alla ferðamenn, en einkum þó þá, sem vilja fara Kjalveg, því að hann þekkir Magnús öllum mönnum fremur.
Úr Reykjavík var einnig Ámundi Ámundason, kyrrlátur og rólyndur maður, sem hafði allt í röð og reglu og ætíð var hægt að treysta. Þá var og Böðvar Bjarnason, prestaskólastúdent frá Reykhólum, ágætur maður. Ég réð hann heima hjá sér, aðallega sem túlk. Það er ekki óvanalegt, að íslenskir stúdentar ráði sig til allskonar starfa á sumrin, til að afla sér fjár til að standast námskostnaðinn á vetrum. Þeir eru í kaupavinnu, fylgdarmenn með ferðamönnum, og raunar taka hvaða vinnu sem býðst. Þeir þykjast ekki of fínir til að vinna erfiðisvinnu, og er það mjög geðfelldur þáttur í fari þeirra. Enn koma til tveir menn, sem fylgdu okkur suður yfir fjöllin. Annar þeirra var sjötugur bóndi, Indriði að nafni, frá næsta bæ við Gilhaga, traustur, gamall maður, en þótt hann væri tekinn að gefa sig hikaði hann ekki við að gerast fylgdarmaður okkar, þegar ég lýsti því fyrir honum, hversu mikilvægt það væri fyrir mig að njóta aðstoðar hans og kunnugleika, til að merkja leiðina yfir öræfin, sem hann þekkti öllum mönnum betur. Tengdasonur hans, Magnús bóndi í Gilhaga, kom einnig með honum, svo að Indriði yrði ekki einn á ferðinni á heimleiðinni.”
Ferðin hófst 13. ágúst. Upp úr Gilhagadalnum var haldið upp á hásléttuna og lá leiðin til vesturs upp á Litlasand. Fyrsta áin sem þeir fóru yfir var Svartá. Þar sá Bruun í fyrsta sinn hvernig menn reiddu hunda sína yfir vatnsföll. Indriði kallaði á hund sinn, sem stökk þegar í stað upp á lend hestsins og þannig náðu þeir þrír, maður, hundur og hestur, yfir ána. Þeir áðu hjá sæluhúsinu við Aðalmannsvatn. Um nóttina sváfu þeir sunnan við Ströngukvísl en komu að Blöndu eftir tveggja tíma reið þann 14. ágúst. Þar kom í hlut Indriða og tengdasonar hans að finna vað og tókst þeim það vandræðalítið. Bruun og Klein riðu síðan upp á Rjúpnafell og Indriði fór með lestina til Hveravalla, þar sem þeir tjölduðu.
Þeir merktu alla leiðina vandlega með smávörðum og einkum vöðin á ánum en árið eftir voru hlaðnar varanlegar vörður undir umsjón Magnúsar Vigfússonar. Það var dvalið í tvo daga á Hveravöllum. Skoðaðar voru minjar um dvöl Fjalla-Eyvindar, kofatóttina og hverinn, sem hann sauð mat sinn í. Þá skoðuðu þeir og gamla tótt, sem verið gat af sæluhúsi eða útilegumannakofa, eða jafnvel hús frá landnámsöld þegar Þjóðólfur hinn hvinverski hafði vetursetu á Kili. Þó vörðu þeir mestum tíma sínum í að kanna hraunið og merkja leiðina frá Dúfufelli að Kjalfelli. Í hrauninu fundu þeir nokkrar vörður, sem sönnuðu að þar hefði verið farið fyrrum. Við sumar vörðurnar voru bein og komust þeir seinna að því að þau mundu vera úr fé Reynistaðarbræðra, sem fórst þar á Kili, sem kunnugt er. „Indriða vöknaði um augu, þegar hann sá beinin og varð um leið hugsað til þeirrar harmsögu, er þarna hafði gerst,” skrifar Bruun.
Á Hveravöllum skildu Gilhagamenn við Brunu. Kvöddust þeir með virktum og var Bruun þeim innilega þakklátur fyrir fylgdina og aðstoðina. 16. ágúst var lagt af stað á ný suður til byggða. Þeir fóru vestan við Kjalhraun og komu við í Þjófadölum. Þeir lentu í sandroki en er lengra dró suður gekk á með regn- og slydduéljum. Næsta dag fóru þeir niður með Hvítá en ætlunin var að ríða hana á svonefndu Skagfirðingavaði. Þeir fundu vaðið eftir nokkrar árangurslausar tilraunir en það liggur í krókum milli hólma og eyra og reyndist engan veginn hættulaust. Ekkert mátti út af bera svo að allt færi ekki á kaf í sandbleytu. Magnús hrökk af baki þegar hestur hans festi framfæturna í sandbleytunni. Hann náði sér og hestinum þó upp, en sökk í sandinn upp að öxlum í þeim umbrotum. Bruun barst litlu neðar út af vaðinu í miðri ánni og fór þar á hrokasund. Magnús reið honum þegar til hjálpar og náðu þeir við svo búið á bakkann hinu megin. Þar gistu þeir um nóttina.
Daginn eftir komu þeir að Gullfossi og Geysi og þaðan riðu þeir til Þingvalla og gistu þar. Vígja átti Valhöll daginn eftir. Þegar vígslan fór fram var ekki flaggað dönskum fána heldur fálkamerkinu íslenska. Sárnaði Brunn það mjög og þótti það óvirðing við Danmörk. Reið hann þaðan í fússi. Spunnust af þessu einhver blaðaskrif og fóru einhverjir óvirðingarorðum um Bruun en aðrir skrifuðu afsökunargreinar og tóku upp hanskann fyrir Bruun. Ditlev Thomsen konsúll skrifaði Daniel Bruun afsökunarbréf fyrir hönd íslenska ferðafélagsins, sem hann veitti forstöðu. Varð ekki meira úr því máli.
Eins og áður sagði fór Bruun alls 13 ferðir um landið og er ógjörningur að geta þeirra allra í stuttri blaðagrein. Við skulum ljúka þessu á orðum hans sjálfs sem er að finna í endurminningabók hans. Þannig fer hann orðum um ævistarf sitt: „Þegar ég horfi til baka og renni huganum yfir atburði langrar ævi hlýt ég að viðurkenna með þakklæti, að mér hefir auðnast að lifa í samræmi við eðlisfar mitt og hæfileika, en á hinn bóginn verð ég að játa að það leið mjög langur tími, þangað til ég vegna óstöðugs skaplyndis míns fann þær brautir, sem mér var áskapað að fara eftir. Ég sé það nú, að hefði ég frá upphafi kunnað að einbeita mér að einhverju einu áhugaefna minna, gæti ég ef til vill hafa unnið meira og leyst verk mitt betur af hendi, en raun hefir á orðið, t.d. sem fornfræðingur, stríðssagnaritari, rithöfundur eða hermaður, en þetta varð allt eins konar „skæruhernaður”. En hvað um það, ég hefi fengið fullnægju við að starfa á þessum mörgu og ólíku sviðum, sem hugur minn stóð til, og vonandi unnið einhver þau verk, sem hafa gildi bæði í nútímanum og framtíðinni. Ég hugsa þá fremur öðru til rannsókna minna á Færeyjum, Íslandi og Grænlandi.”
— Samantekt Arnaldur Indriðason.
Heimildir:
-Þjóðlíf – Bókakynning (01.11.1987), Örn og Örlygur; Daniel Bruun – Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, bls. 9-11.
-Úti – 1. tölublað (15.12.1931), bls. 6 og 26.
-Morgunblaðið – 145. tölublað – II (04.07.1982), Daniel Bruun, “Hermaður, fornleifafrœðingur og rithöfundur”, bls. 45, 46, 52 og 53.