Færslur

Þorgautsdys

Í uppgraftarskýrslu um “Dysjar hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi“, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Útdráttur

Dysjar hinn adæmdu

Forsíða “Dysja hinna dæmdu II”.

Grafið var í meinta dys, Þorgautsdys/Þorgarðsdys, á Arnarnesi í Garðabæ í júlí 2019. Uppgröfturinn var hluti af rannsóknarverkefninu “Dysjar hinna dæmdu”. Markmið uppgraftarins var að ganga úr skugga um hvort um dys væri að ræða. Eftir að grjóthrúgan var afhjúpuð og grafnar í hana fjórar könnunarholur sem náðu niður á jökulruðning var ljóst að í henni voru engar mannsvistarleifar. Því var ályktað að ekki væri um dys að ræða heldur geti grjóthrúgan hafa verið landamerki eða orðið til við túnhreinsun og að þjóðsaga hafi spunnist út frá henni.

Forsaga rannsóknar
“Markmið verkefnisins er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi frá 1550–1830 hérlendis. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Með því að grafa upp suma þeirra má varpa frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Loks verða aftökurnar settar í sögulegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta. Dysin sem hér er fjallað um hefur ýmist verið kölluð Þorgarðsdys og Þorgautsdys en talið var að þar væri dysjaður afbrotamaður sem tekinn var af lífi á Kópavogsþingi.

Þorgautsdys

Þorgautsdys – loftmynd.

Dysin er nefnd í Landamerkjalýsingu fyrir þjóðjörðinni Arnarnesi í Garðahreppi sem Gísli Sigurðsson skráði. Þar er einnig vitnað í Landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar segir: „Inn með Nesinu að norðan liggur að því Kópavogur. Inn með nesinu eru nokkrir stórir steinar í fjörunni, nefnast Bæjarsteinar, af hverju sem það nú er. Nokkru þar fyrir innan, spöl uppi í holtinu, er Gvendarbrunnur, lind sem Guðmundur biskup góði á að hafa vígt. Frá brunninum rennur Brunnlækurinn til sjávar. Þar enn innar með fjöru er svo Arnarneskot, Arnarnes gamla eða Arnarnes litla. Ofan til við það er dys, nefnist Þorgautsdys. Þar var réttaður þjófur, og gekk hann mjög aftur og var lengi á ferli í Seltjarnar- og Álftaneshreppum.“

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

Gísli telur að Þorgautur, sá sem dysin hefur gjarnan verið kennd við, hafi verið þjófur sem var réttaður. Nafnið Þorgautur kemur þó hvorki fram í Alþingisbókum né Annálum Íslands 1400-1800 í tengslum við aftökur. Hins vegar er vitað að fjölda dauðadóma, fyrir hin ýmsu brot, var framfylgt á Kópavogsþingi og því ekki ólíklegt að dysjar sakamanna sé að finna á þessu svæði. Ekki langt frá dysinni sem hér um ræðir gróf Guðmundur Ólafsson upp svokallaða Hjónadys árið 1988 og fann þar beinagrindur karls og konu sem greinilega höfðu verið tekin af lífi (Guðmundur Ólafsson 1996). Raunar eru fleiri meintar dysjar afbrotamanna í Kópavogi og nefnir Gísli Sigurðsson tvær dysjar auk Þorgautsdysjar, þ.e. Kulhesdys og Þormóðsdys: „Þarna liggur um holtið Hafnarfjarðarvegurinn. Á háholtinu vestan hans er stór þúfa, og liggur alfaraleiðin rétt hjá. Hér er Þormóðsleiði eða Þormóðsdys. Enn vestar er svo Kulhesleiði eða Kulhesdys. Þormóður var dæmdur á Kópavogsþingi til lífláts fyrir þjófnað, en Kulhes, þýzkur maður, dæmdur þar fyrir mannvíg. Vó mann, íslenzkan, á Bessastöðum.“
Þorgautsdys
Í grein sinni “Nokkrar Kópavogsminjar”, sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1929, tekur Matthías Þórðarson Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen tali árið 1926 en hún var fædd árið 1855 í Kópavogi og uppalin þar til 19 ára aldurs (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 29).

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Þuríður nefnir áðurnefnda dys og kennir hana við mann að nafni Þorgarður sem getið er um í þjóðsögum. Matthías veltir fleiri tilgátum fyrir sér en telur í öllu falli líklegast að hún sé dys afbrotamanns: „Neðar [en Kulhesdys], á norðanverðum hálsinum. Kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388-91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá að sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaksmál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita.“ (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 30).
Þorgautsdys/Þorgarðsdys er auk þess skráð í skýrslunni Fornleifaskráning Arnarnes í Garðabæ frá árinu 2018 eftir Ragnheiði Traustadóttur. Þar er oft vitnað í báðar fyrrnefndar ummfjallanir. Í skráningarskýrslunni eftir Ragnheiði segir einnig að Guðmundur Ólafsson hafi skráð staðinn árið 1983 fyrir Þjóðminjasafn Íslands og talið að um Þorgarðsdys væri að ræða. Skýrsla um skráningu Guðmundar var aldrei gefin út en gögnin nýttust við skráninguna árið 2018. Ragnheiður skráði Þorgautsdys/Þorgarðsdys sem dys eða legstað og sagði hana líklegri til að vera dys en hinar tvær, Þormóðsdys og Kulhesdys, vegna þess að staðsetning þeirra í fyrri skráningu virðist vera tóft og fuglaþúfa.”

Niðurstaða
Þorgautsdys
“Eftir að komist var niður á jökulruðning í öllum fjórum holunum sem grafnar voru í grjóthrúguna, án þess að leifar dysjaðrar manneskju hefðu fundist, var áætlað að hér væri ekki um dys að ræða. Þrátt fyrir að það hafi verið örlítil vonbrigði er það áhugaverð útkoma.

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v.

Þessi grjóthrúga hefur verið talin vera dys síðan vel fyrir aldamótin 1900, ef marka má frásögn Þuríðar Guðmundsdóttur Matthíansen: “Vert er að nefna það að fyrir nokkrum árum síðan var lagður hjólastígur yfir Arnarneshæðina og niður í Kópavog en hann var sveigður fram hjá dysinni. Ef til vill getur þessi grjóthrúga hafa myndast eftir túnhreinsun og út frá henni spunnist þjóðsaga um Þorgaut/Þorgarð. Venjan var að landamerki eins og vörður væru nálægt þjóðleiðum og að ferðalangar bættu við grjóti í þær á leið sinni fram hjá. Það sama átti við um dysjar sem hafðar voru nálægt alfaraleið til áminningar og viðvörunar. Því getur verið að upphaflega hafi hrúgan verið landamerki eða myndast eftir túnhreinsun og síðan hafi steinum verið bætt á af ferðalöngum árum saman og þannig orðið til þessi stóra sennilega hrúga.”
[Framangreind niðurstaða þarf ekki að koma svo mikið á óvart; nánast engin kum eða dysjar, sem getið er í lýsingum Íslandsbyggðar hvað fyrrum landnámsmenn varðar, hafa átt við rök að styðjast hingað til].

Heimild:
-Dysjar Hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi, Reykjavík 2019.

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

 

 

 

 

 

 

 

Lækjarbotnar

Í rannsókn á “Dysjum hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum“, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Rannsókn

Hallberuhellir

Forsíða rannsóknarinnar um Hallberulelli.

Þann 7. ágúst 2019 fór fram rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnalandi. Í hellinum er talið að Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haldið til um tíma en þau voru tekin af lífi á Öxarárþingi árið 1677 fyrir útileguþjófnað og hórdómsbrot. Rannsóknin á hellinum er þáttur í verkefninu Dysjar hinna dæmdu sem miðar að því að afla upplýsinga um einstaklinga sem teknir voru af lífi á Íslandi á árunum 1550 til 1830, bæði með tilliti til brota þeirra og dóma en einnig til bakgrunns þeirra, samfélagsstöðu og búsetu. Tilgangur rannsóknarinnar á Hallberuhelli er að varpa ljósi á aðstæður og lifnaðarhætti einstaklinga sem lifðu á flakki hér á landi og hlutu síðar dauðarefsingu fyrir þjófnað og fleiri brot. Rannsóknin á hellinum fólst fyrst og fremst í úttekt á innréttingu hans og voru gólf og veggir hans því ljósmyndaðir og teiknaðir en auk þess var gerður prufuskurður í gólf hellisins og þaðan tekin sýni.

Forsaga rannsóknar
Hallberuhellir
“Á Íslandi fóru fram um 240 aftökur á tæplega þremur öldum, frá siðaskiptum, þegar rétturinn til refsinga færðist úr höndum kirkjunnar til veraldlegra valdhafa, til ársins 1830 þegar síðustu dauðadómunum var framfylgt hér á landi. Dauðadómar féllu fyrst og fremst fyrir morð, galdra, þjófnað, dulsmál og blóðskömm.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – hellisopið.

Árið 2018 hófst vinna við rannsóknarverkefnið “Dysjar hinna dæmdu” en markmið þess er að varpa ljósi á dauðadæmda einstaklinga á íslenskri árnýöld með tilliti til brota þeirra og dómsmeðferðar sem og félagslegs bakgrunns þeirra, kyns, aldurs, stöðu, fjölskyldurhags og búsetu. Rannsóknarverkefni þetta hefur leitt í ljós að dauðadómar á Íslandi féllu oftar fyrir þjófnað en nokkra aðra tegund brota og fleiri en 70 þjófar voru teknir af lífi á árunum 1584–1758. Svo virðist sem að flestir þessara þjófa hafi verið heimilislausir einstaklingar sem lifðu á flakki og stálu sér til viðurværis. Rannsóknin á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, þar sem talið er að útilegufólkið Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haft aðsetur á síðari hluta 17. aldar, er liður í áðurgreindu verkefni en tilgangur hennar er að kanna aðstæður og lífshætti flakkara og dæmdra afbrotamanna.
HallberuhellirMargrétar Símonardóttur og Eyvindar Jónssonar er getið í fjölmörgum rituðum heimildum og eru mál þeirra gjarnan kölluð Eyvindarmál hin fyrri til þess að greina þau frá málum Fjalla-Eyvindar og Höllu sem lögðust út tæpri öld síðar (Ólafur Briem 1983, bls. 28).
Í annálum kemur fram að Margrét og Eyvindur, sem var þá þegar giftur annari konu, hafi tekið saman og hlaupið úr Ölfusi. Fyrst um sinn munu þau hafa haldið til vestur undir Snæfellsjökli (Fitjaannáll, bls. 427; Hestsannáll, bls. 512). Síðar földu þau sig í helli sunnan við Örfiriseyjarsel sem Árni Magnússon nefnir Hraunhelli en hefur á síðari árum verið kenndur við Hallberu Jónsdóttur sem bjó á Lækjarbotnum á síðari hluta 19. aldar (Árni Magnússon, bls. 60; ferlir.is). Þann 20. október 1677, þegar Margrét og Eyvindur höfðu legið úti í meira en tvö ár, voru þau handtekin við Hallberuhelli og þýfi þeirra, sem samanstóð af nautakjöti og öðrum hlutum, gert upptækt (Alþingisbækur VII, bls. 403 – 405).

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Á Bakkárholtsþingi þá um haustið voru Margrét og Eyvindur dæmd sek um hórdómsbrot með barneign, burthlaup úr héraði sem og foröktun sakramentis og heilagrar aflausnar. Í þetta sinn sluppu þau við dauðadóm en áttu að hljóta þrjár húðlátsrefsingar hvort um sig. Í dómsskjalinu kemur þó fram að sýslumaðurinn, Jón Vigfússon, mætti milda dóm Margrétar ef honum sýndist „vegna hennar nú sýnilegra vesalburða.“ Degi síðar var fyrsta refsingin lögð á þau. Eftir að hafa tekið út allar refsingarnar voru fangarnir svo sendir til Kjalarnessýslu þar sem þjófnaðarmál þeirra var tekið fyrir en samkvæmt lögum átti að dæma í slíkum málum í þeirri sýslu sem þjófnaðurinn fór fram (ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu 0000 GA/1-2-1).

Engidalur

Engidalur – bæli.

Á Kópavogsþingi voru Margrét og Eyvindur dæmd til líkamlegrar refsingar fyrir þjófnað en eftir að hafa staðið hana og meðtekið sakrament í Skálholtsdómkirkju voru þau aðskilin og tók eiginkona Eyvindar, Ingiríður, hann aftur til hjónabands. Refsingin dugði þó skammt því „þessar vandræðapersónur“ tóku fljótt upp útilegusamvistir á ný og fundust saman í rekkju í hreysi undir bjargskúta við Ölfusvatn með þýfi sitt. Voru þau fangelsuð á heimili valdsmannsins Stórólfshvoli og svo færð í járnum á Öxarárþing þar sem þau voru dæmd til dauða fyrir ítrekuð hórdómsbrot og útileguþjófnað. Þann 3. júlí 1678 var dauðadómnum framfylgt og eftir að hafa meðtekið kristilegar fortölur „til sannrar viðurkenningar, huggunar og trúarstyrkingar í herrans Kristí blessaðri forþénustu” var Eyvindur Jónsson hálshöggvinn en Margréti Símonardóttur drekkt – allt samkvæmt fyrirmælum Stóradóms (Alþingisbækur VII, bls. 403–405).
HallberuhellirEkki er vitað hversu lengi nákvæmlega Margrét og Eyvindur dvöldu í Hallberuhelli, þar sem þau voru handtekin, þann 20. október 1677. Hallberuhellir virðist þrátt fyrir allt ekki alslæmur felustaður; á þessum tíma var enginn bær nálægt hellinum en hann lá þó sennilega ekki algjörlega úr alfaraleið því rétt vestan við hann er talið að Örfirisey hafi átt sel átti til ársins 1799. Hugsanlega nýttu Margrét og Eyvindur sér þetta og stálu fé seljanna til viðurværis.

Viðeyjarsel

Viðeyjar (Örfiriseyjar-) Bessastaðasel).

Sem áður segir rak Örfirisey sel á Lækjarbotnum til ársins 1799. Árið 1868 fékk Þorsteinn Þorsteinsson svo nýbýlaleyfi fyrir landinu og lét Hallberu Jónsdóttur, sem Hallberuhellir er kenndur við, helming jarðarinnar. Á fyrri hluta 20. aldar gaf Guðmundur H. Sigurðsson, sem þá var bóndi að Lækjarbotnum, Skátasambandi Reykjavíkur land á jörðinni. Síðan þá hefur verið starfræktur skátaskáli á Lækjarbotnum (ferlir.is; gardbuar.com).
Fornleifarannsókn hefur ekki áður farið fram í Hallberuhelli en í rannsókn á seljum í Reykjavík, þar sem fjallað er um Örfiriseyjarsel, er hellirinn merktur á kort og hann er því ekki óþekktur. Hellirinn hefur auk þess verið nefndur í ferðahandbókum, t.a.m. í Árbók Ferðafélag Íslands (Egill J. Stardal 1985).”

Niðurstöður

Lækjarbotnar

Hellisopið.

“Sagnir af útilegumönnum eru gjarnar sveipaðar dulúðlegum og þjóðsagnakenndum blæ. Mál Fjalla-Eyvindar og Höllu er sennilega eitt besta dæmi þess. Sem áður segir var útilega og flakk þó raunveruleiki fjölda einstaklinga á íslenskri árnýöld og Eyvindarmálin tvö eru engan veginn einstök. Því er ekki ólíklegt að mannvistarleifar eftir útileguþjófa finnist í hellum þótt sjaldan sé minnst á það í hellarannsóknum.

Lækarbotnar

Lækjarbotnar – Hallberuhellir.

Hallberuhellir er hraunhellir og er hvelfing hans því náttúrusmíð. Þó eru hlutar hellisins greinilega manngerðir; við hellismunnann hefur grjóti verið hlaðið og set hafa verið útbúin upp við norðurvegginn þar sem hægt er að tylla sér og horfa út um hellismunnann. Þó er eftitt að ákvarða hvenær innréttingarnar voru gerðar í hellinum og ekki hægt að fullyrða að þær séu frá tíma Margrétar og Eyvindar. Raunar fannst ekkert í hellinum sem beint var hægt að rekja til dvalar Margrétar og Eyvindar enda voru þar hvorki gripir né jarðlög sem unnt var að aldursgreina. Áhugavert væri þó að framkvæma skordýra- og/eða frjókornagreiningar á jarðvegssýnunum sem tekin voru og í framhaldinu og m.a. nýta þær til kolefnisaldursgreininga.”

Hallberuhellir

Hallberuhellir – teikning.

[FERLIRsfélögum er þrátt fyrir allt framangreint ómögulegt að skilja hvers vegna umræddur hellir hefur fengið nafngiftina “Hallberuhellir” í  framangreindri rannsókn!?]. Með fullri virðinu fyrir nefndri Margréti, ætti skjólið það arna, fremur að draga nafn sitt af þeirri “mætri” manneskju. Öll höfum við þurft að takast á við misjafnar aðstæður um lífsins skeið; stundum tekst vel til, stundum ekki. Ef ekki tekst vel til, er og hefur alltaf verið til fólk hér á landi, og jafnvel utan þess, sem er tilbúið að dæma, hvernig til tókst – að þess mati…

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, Reykjavík 2019.

Lækjarbotnar

Hellirinn í Lækjarbotnum.

 

Aftaka

Í áfangaskýrslu um “Dysjar hinna dæmdu” frá árinu 2018, segir m.a.:

Inngangur

Dysjar hinna dæmdu

Forsíða áfangaskýrslunnar um “dysjar hinna dæmdu”.

“Skömmu eftir siðaskiptin færðist réttur til refsinga frá kirkju til veraldlegra valdhafa. Var þá farið í ríkara mæli en nokkru sinni fyrr að beita líkamlegum refsingum fyrir hvers kyns afbrot. Nýjum lagabálki, Stóradómi, var einnig bætt við gildandi lög en dæmt var eftir honum í siðferðisbrotamálum. Fólk var einkum tekið af lífi fyrir fimm flokka brota. Það var fyrir blóðskömm, dulsmál, morð, þjófnað og galdra en einnig fyrir iðkun kaþólskrar trúar. Fyrsta dómsúrskurði um dauðarefsingu var raunar ekki fullnægt hérlendis fyrr en seint á 16. öld. Árið 1551 voru aftur á móti fimm karlmenn teknir af lífi án dóms og laga í trúarbragðastríði því sem ríkti vegna siðaskiptanna. Frá 1582 urðu aftökur síðan nær árlegur viðburður og allt til ársins 1792 en þá fækkaði þeim verulega aftur. Síðasta aftakan fór svo fram árið 1830 eftir 25 ára langt hlé en dauðarefsingar voru ekki afnumdar úr íslenskum lögum fyrr en árið 1928.”
Það verður að segjast eins og er að stundum ferst fólki ekki fyrir er kemur að uppgreftri hinna dauðu.

Markmið rannsóknarinnar

Kuml

Kuml.

“Markmiðið með rannsókninni sem hér er sagt frá er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi hérlendis frá 1551–1830. Nöfn þeirra, brot og dómar verða skráð en einnig verður bakgrunnur þeirra kannaður með tilliti til stöðu, fjölskylduhags og búsetu. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Stefnt er að því að grafa upp sumar dysjanna svo varpa megi frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Auk þess verða aftökurnar settar í sögulegt og félagslegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta, og tilraun gerð til þess að greina bakgrunn líflátinna og um leið ástæður brotanna. Athugað verður hvort brotum hafi fjölgað í hallærum og sömuleiðis hvort greina megi breytingar í viðhorfi til þeirra á tímabilinu. Loks verður stétt böðla könnuð.

Rannsóknin mun byggja á kenningum um efnismenningu og undirsáta (e. subaltern) en einnig póst-marxisma og femínisma.
Dysjar hinna fordæmdu
Hugmyndafræðileg mótun stétta og stéttskiptingar, kynbundið misrétti og möguleikar undirsáta til að hafa áhrif á ríkjandi viðmið verða þannig í forgrunni (sjá t.d. Spivak 1988; Therborn 1999; 2013; Young 2003).

Kuml

Kuml.

Gert er ráð fyrir að rannsóknin standi yfir í að minnsta kosti fimm ár en hún hófst í maí árið 2018. Vinnan þetta fyrsta ár fólst að miklu leyti í að taka saman heimildir um dauðarefsingar á Íslandi og að gera gagnagrunn yfir þá einstaklinga sem teknir voru af lífi. Nær gagnagrunnurinn yfir öll þau mál sem getið er um í Annálum Íslands 1400–1800 auk örfárra annarra mála sem fundust fyrir tilviljun meðan á vinnslu hans stóð. Listinn yfir þær aftökur sem hér fóru fram er vafalaust ekki tæmandi, því eftir er að fara markvisst yfir héraðsdómsbækur og þjóðsögur, auk þess sem Alþingisbækurnar voru aðeins lesnar að hluta. Við gerð gagnagrunnsins var fyrst og fremst litið til dauðadóma sem var framfylgt.

Kuml

Kuml.

Dæmi þess að dauðadómar væru mildaðir af konungi eru mörg, sér í lagi frá síðari hluta 18. aldar og nær listinn ekki yfir slík mál. Hins vegar voru dauðadæmdir einstaklingar sem létust áður en aftaka þeirra fór fram skráðir enda má ætla að dauðadómum þessara einstaklinga hefði verið framfylgt hefðu þeir lifað. Þá eru talin með tilvik þar sem ekki er vitað hvort dauðadómi var fylgt eftir eða ekki. Farnar voru vettvangsferðir til fjarkannana eða uppgraftar á samtals átta aftökustaði sumarið 2018 og verður sagt nánar frá þeim hér á eftir. Eins voru stakir beinafundir kannaðir en fara þarf betur yfir þá staði þar sem óútskýrð mannabein hafa fundist. Loks var farið yfir þá uppgrefti sem hafa verið gerðir á dysjum dauðadæmdra.

Um líflátsdóma og aftökur á Íslandi
Dysjar hinna dæmdu
Elstu ákvæði um dauðarefsingar er að finna í Járnsíðu frá 1281 og litlu síðar í Jónsbók en heimildir um aftökur fyrir siðaskipti eru þó fáar. Og enda þótt ákvæði um dauðarefsingar hafi verið til í íslenskum lögum allt frá 13. öld og þeim framfylgt að vissu marki, mörkuðu siðaskiptin – líkt og fyrr getur – upphaf hrinu dauðarefsinga sem lauk seint á 18. öld.

Drekkingahylur

Drekkingarhylur, málað á staðnum á Þingvöllum. Höfundur er Guðlaugur Jón Bjarnason.

Við siðaskiptin var iðkun kaþólskrar trúar bönnuð og fólki refsað fyrir slík brot. Stærsta breytingin varð hins vegar þegar Danakonungur fyrirskipaði með bréfi rituðu árið 1554 að sýslumenn skyldu taka við afgreiðslu dóma vegna hvers kyns afbrota í stað kirkjuvaldsins. Um leið var kristniréttur Árna biskups frá 1275 afnuminn (DI XIV, bls. 271–276; Már Jónsson 1993, bls. 90–93). Eftir það var dæmt til dauða hérlendis fyrir alla þá fimm flokka brota sem nefndir eru hér að framan. Það er raunar ekki fyrr en Stóridómur var innleiddur í landslög árið 1564 að dæmt var til dauða fyrir ýmis siðferðisbrot, eins og til dæmis blóðskömm en það var samræði var haft í náinni frændsemi og fyrir þriðja hórdómsbrot. Átti að drekkja konum en hálshöggva menn fyrir slík brot (DI XIV, bls. 271-276).

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Stóridómur tók reyndar ekki á hinum svokölluðu dulsmálum, þ.e. þegar leynt var farið með fæðingu barns og því fargað. Hins vegar var getið um dauðarefsingu fyrir slík brot í dönskum lögum og var lengi vel dæmt eftir þeim hérlendis þó aðferðir við aftökur væru frekar í takt við ákvæði Stóradóms (Már Jónsson, 2000). Karlar voru því nærri alltaf hálshöggnir og konum oftast drekkt þótt að í sumum tilfellum hafi þær einnig verið höggnar á háls; Ingibjörg Jónsdóttir var til að mynda hálshöggvin fyrir dulsmál árið 1792. Þá gætti áhrifa siðaskiptanna ekki síst í galdramálum þegar kom að dauðadómum. Ýmis konar hvítagaldur sem kaþólska kirkjan hafði réttlætt töldu siðskiptamenn hættulegan og þeir sem fundnir voru sekir um kukl og meðferð galdrastafa voru brenndir á báli (Sigurlaugur Brynleifsson, 1976).
Af samantektinni, sem hér hefur verið gerð yfir dauðadóma, sést glögglega að karlar sem dæmdir voru fyrir morð voru nær alltaf hálshöggnir og sumir pyntaðir að auki.

Þingvellir

Þingvellir – Drekkingarhylur.

Fyrir dauða sinn árið 1596 var svo dæmi sé tekið Axlar-Björn limmarinn með sleggjum og árið 1752 var Kjöseyrar-Jón klipinn fjórum sinnum með glóandi töngum áður en hægri hönd hans og loks höfuð var höggvið af og sett á stöng öðrum til viðvörunar. Eitt dæmi er þess að manni væri drekkt fyrir morð. Hann hét Ögmundur Þorkelsson og hafði sjálfur drekkt syni sínum. Ýmsum aðferðum var beitt við aftöku á konum sem dæmdar voru fyrir morð en líkt og í tilfelli Ögmundar virðist stundum gilda nokkurs konar „auga-fyrir-auga” lögmál. Guðrún Þorsteinsdóttir var til að mynda brennd á báli árið 1608 fyrir að hafa brennt barn í grautarkatli norður í Þingeyjarþingi og árið 1706 var Kristínu Björnsdóttur drekkt en hún hafði sjálf drekkt 6 vetra gamalli dóttur sinni.

Að aftöku lokinni var fólk oftast dysjað á aftökustað, ýmist í gjótum eða í grunnum gröfum sem huldar voru grjóti. Svo virðist þó sem að þeir sem voru hengdir hafi verið látnir hanga í gálganum þar til reipin slitnuðu. Það kemur fram í þjóðsögum en laus bein hafa einnig fundist ofanjarðar við gálgakletta eða gálgagil (sjá t.d. Íslenskar þjóðsögur 1945, bls. 232).

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Eins voru höfuð þeirra sem voru hálshöggnir alla jafna sett á stöng við dysina og látin vera þar þangað til þau féllu sjálf til jarðar. Í einu tilviki er vitað til þess að höfuð tveggja líflátinna í sama máli hafi verið grafin á aftökustað skömmu eftir aftökuna en talið er að sveitungar þeirra hafi gert það þar sem þeim ofbauð meðferðin á líkunum. Um var að ræða síðustu aftöku á Íslandi (Sigrún Huld Þorgrímsdóttir 2005). Þá eru að minnsta kosti tvö dæmi um að líflátnir hafi fengið greftrun í kirkjugarði eða við kirkjugarð – án helgiathafnar. Það voru þær Katrín Þorvarðsdóttir sem tekin var af lífi 1703 og Ingibjörg Sölvadóttir 1758 (Vallannáll, bls. 350; Ölfusvatnsannáll, bls. 46; Már Jónsson 2000, bls. 254).
Fimm dysjar dauðadæmdra hafa verið grafnar upp en auk þess hafa mannabein fundist á stöku aftökustað, einkum þá þar sem fólk var hengt. Hefur sumum þeirra verið skilað til Þjóðminjasafns en ekki öllum.

Gagnagrunnur yfir dauðadóma
Dysjar hinna dæmdu
Þegar gagnagrunnurinn lá fyrir sumarið 2018 var gerð samantekt um aldur og kyn dauðadæmdra, hvar þeir bjuggu og hver staða þeirra var. Þá var kannað í hvaða sýslum var dæmt og hvar aftökustaðirnir voru innan þeirra. Loks var tíðni brota af hverri gerð skoðuð og skoðað hvort samhengi var á milli þeirra og aðstæðna í samfélaginu. Ekki vannst tími þetta fyrsta ár rannsóknarinnar til að skoða bakgrunn böðla á Íslandi eða kanna afdrif barna og annarra afkomenda dauðadæmdra. Það verður gert síðar.

Stakkavík

Stakkavík – Gálgar.

Samantektin á aftökum nær yfir 235 einstaklinga; 69 konur og 166 karla. Aðeins tókst að áætla aldur 112 einstaklinga sem dæmdir voru til dauða en af þeim var sá yngsti 14 ára og sá elsti 80 ára. Algengasta aldursbilið var 35–39.
Oftast féllu dauðadómar fyrir þjófnað, af þeim fimm gerðum brota sem dæmt var til dauða fyrir (morð, blóðskömm, dulsmál og galdra, auk þjófnaðar). Athygli vekur líka að aftökur fyrir þjófnað fóru eingöngu fram á 174 ára tímabili, frá 1584 til 1758, á meðan tekið var af lífi fyrir flest önnur brot allt tímabilið frá 1551–1830. Aftökur vegna galdra skera sig einnig úr fyrir þetta en þær fóru fram á enn styttra tímabili, frá 1625–1685, enda yfirleitt talað um galdrafár í því sambandi.
Hlutföll kynja í þessum tveimur flokkum er sömuleiðis áberandi ójöfn. Alls voru 75 einstaklingar hengdir fyrir stuld og af þeim voru tvær konur. Aðeins ein kona þó var í hópi þeirra 22 einstaklinga sem brenndir voru fyrir galdra. Karlmenn voru raunar einnig í meirihluta í morðmálum; 27 karlar hlutu dauðarefsingu fyrir morð en sex konur. Dauðadæmdar konur eru hins vegar áberandi fleiri en karlar í flokkum siðferðisbrota. Í annálum er getið um 34 konur sem teknar voru af lífi fyrir dulsmál en sex þeirra voru líka dæmdar fyrir blóðskömm. Ellefu karlar voru hálshöggnir fyrir dulsmál og voru sex þar af um leið dæmdir fyrir blóðskömm.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Kynjaskipting þeirra sem einungis hlutu dauðarefsingu fyrir blóðskömm er raunar nokkuð jöfn; 26 konur misstu lífið fyrir slík brot en 23 karlar.
Algengasti aftökustaðurinn voru Þingvellir en að minnsta kosti 72 einstaklingar voru teknir af lífi þar nær allt tímabilið sem hér um ræðir. Undantekningin er flokkur þjófa en þeir voru nær eingöngu teknir af lífi á á Alþingi tímabilið 1678 til 1703 og aðeins einn eftir það, árið 1726.

Kópavogsdysjar

Vettvangur Kópavogsdysja.

Einnig var algengt af aftökur færu fram á Kópavogsþingstað og í nágrenni við hann, í Elliðaá, á Bessastöðum og í Garðahrauni sunnan Bessastaða. Í Gullbringusýslu allri voru 22 teknir af lífi fyrir alla flokka brota. Dæmi um aðra algenga aftökustaði er Laugarbrekkuþing á Snæfellnesi þar sem ekki færri en fimm voru teknir af lífi og Gálgagil í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Reyndar fóru fram aftökur víðast hvar um landið. Að Norður-Þingeyjarsýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Skaftafellssýslum frátöldum voru skráðar aftökur í öllum sýslum.
Athygli vekur að tíðni aftaka milli ára var mjög breytileg og á vissum tímabilum má greina bylgjur í aftökum og því væri áhugavert er að skoða þessar bylgjur út frá sögulegu og félagslegu samhengi. Á það ekki aðeins við um galdra og þjófnað en augljós er fylgni milli fjölda aftaka fyrir þjófnað og verðurfars en ljóst er að þjófar voru oftast nær heimilislausir einstaklingar sem stálu sér til matar.

Hannes Finnsson

Hannes Finnsson, biskup.

Hannes Finnsson skrifaði um hallæri: „Á árunum 1627–1641 gekk Hvítivetur harðast að, féll þá margt fólk, svo og í bólunni 1635.“ Engin hallæri voru næstu 30 árin en undir lok 17. aldar geisuðu langvarandi stórharðindi og mannfækkun. Um árin 1697–1701 skrifar hann: „Hallæri, svo og rán og þjófnaður gekk fram úr máta, en breytir til hins betra 1702.” Á fyrri hluta 18. aldar tilféllu engin hallæri en árið 1751 byrjuðu mikil harðindi sem náðu hámarki 1757. Á þessum tímabilum eru aftökur á þjófum áberandi margar og mannfækkun sömuleiðis Þeir Íslendingar sem teknir voru af lífi komu alls staðar af á landinu. Hægt var að finna búsetustað flestra þeirra við aftöku, nema síst þegar þjófar áttu í hlut enda voru margir þeirra heimilislausir flakkarar.

Lokaorð

Þingvellir

Þingvellir – Gálgaklettur.

Samantektin sem hér er sagt frá sýnir að hérlendis var samtals nærri 240 dauðadómum framfylgt fyrir alls fimm flokka brota frá 1550 til 1830 er síðasta aftakan fór fram í landinu. Raunar fóru flestar aftökurnar fram á um tveggja alda tímabili sem stóð frá 1582–1792.

Þingvellir

Í kirkjugarðinum á Þingvöllum.

Áberandi margir eru dauðadómar fyrir þjófnað en allt í allt voru 75 þjófar teknir af lífi á Íslandi og aðeins á 174 árum, sá fyrsti árið 1584 en síðasti árið 1758.
Það voru vissulega vonbrigði fyrir leitarfólk að finna engar dysjar á þeim þremur stöðum þar sem grafið var. En leit verður haldið áfram og aðrar dysjar sem þó sáust ofan jarðar á öðrum stöðum verða skoðaðar nánar síðar.”
[Þrátt fyrir allt framangreint í þessari annars “ágætu” rannsókn má þó með engu móti sjá að í gagnagrunninum framangreinda sé getið hinna fjölmörgu kumla á vestanverðum Reykjanesskaganum, hvorki í Höfnum, Garði, á Vatnsleysuströnd, við Álftanes né í Kjós, en á þeim nánast öllum hafa áður bæði farið fram opinberar rannsóknir og uppgreftir.]

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – áfangaskýrsla 2018, Reykjavík 2018.
-https://notendur.hi.is/sjk/DYS_2018.pdf
-https://ferlir.is/kuml-i-gardi/

Þingvellir

Gengið um aftökustaði Þingvalla með Árna Björnssyni 2008.