Tag Archive for: Einar Benediktsson

Höfði

Gils Guðmundsson ritstjóri hefur tekið saman mikið verk um þjóðskáldið og að hafnamanninn Einar Benediktsson, og nefnist bók hans „Væringinn mikli – ævi og örlög Einars Benediktssonar„.
Margt hefur verið skrifað um þennan stórbrotna og fjölhæfa jöfur orða og athafna, sem oft var langt á undan samtíð sinni. Hér er því víða leitað fanga til að fá sem fyllsta mynd af þeim Islendingi sem var stærri í sniðum en flestir samtíðarmenn hans. Væringinn mikli var skáld og framkvæmdamaður, draumóramaður og ofurhugi, og Gils rekur sögu hans ítarlega frá bernsku til æviloka. Þar ríkti aldrei lognkyrrð. Nokkrir kaflar úr bókinni fara hér á eftir.
einar ben ungur„… Þetta ár og hið næsta keyrði um þverbak hjá Benedikt Sveinssyni. Þegar hér var komið sögu var hann einatt á ferð og flugi og staðnæmdist vart heima hjá sér stundinni lengur. Eirðarleysi, drykkjuskapur og önnur óregla einkenndi allt hans framferði. Hann fór hvað eftir annað til útlanda, ýmist út af málaferlum sínum eða í sambandi við ýmis stórvirki, sem hann hafði á prjónunum. Meðal þeirra má nefna öflun fjár til að hefja blaðaútgáfu og prentsmiðjurekstur, draumsýnir um stórfelld verslunarviðskipti við Norðmenn og miklar samgöngubætur á sjó, kostaðar af norsku fé. Þegar heim kom, lagði hann upp í langa leiðangra innanlands til að safna liði og fjárstyrk til stuðnings áformum sínum og baráttumálum. Og þess á milli sat hann langtímum saman í Reykjavík. Allar voru þessar hugdettur og fyrirætlanir meiri eða minni skýjaborgir, með lítil tengsl við raunveruleikann. Meðan þessu fór fram mátti húsfreyja Benedikts hins vegar sitja með börn sín ung að Elliðavatni, við þröngan fjárhag og búskap í algerri upplausn. Eins og fyrr segir mun hún á sínum tíma hafa verið algerlega mótfallin því að flytja úr höfuðstaðnum og taka að sér búsforráð í sveit. Fara af því sögur, að hún hafi alla tíð verið óánægð á Elliðavatni. Kom þar margt til, erfíðleikar í samskiptum við vinnufólk, þröngur efnahagur er á leið, en þó öðru fremur hátterni húsbóndans. Loks kom þar, að þolinmæði Katrinar var með öllu þrotin. Vorið 1*72, eftir 13 ára hjónaband, flytur hún frá Elliðavatni til Reykjavíkur, og krefst jafnframt skilnaðar.
Einar Benediktsson um sextugt. Þá mun Benedikt hafa verið lagður af stað í enn eina utanferðina. Katrín Einarsdóttir var nú þritug og komin langt á leið að síðasta barni þeirra hjóna. Leitaði hún fyrst skjóls hjá Þorbjörgu ljósmóður mágkonu sinni, systur Benedikts. Þar ól hún sveinbarn í júlímánuði, og hlaut það nafnið Ólafur Sveinar Haukur. Ekki varð dvöl Katrínar löng hjá Þorbjörgu. Munu þær mágkonur ekki alls kostar hafa átt skap saman þegar til lengdar lét. Settist Katrín að í næsta húsi, Litla Holti, og bjó þar í nokkur ár. Að Elliðavatni kom hún aldrei eftir þetta.
einar ben ungur IIÍ skilnaðarmáli þeirra hjóna leitaði prestur sátta, svo sem lög gerðu ráð fyrir. En í stað þess að málið færi síðan fyrir sáttanefnd var haldinn sáttafundur hjá Hilmari Finsen stiftamtmanni. Fór hann fram 14. desember 1872, og var þar ákvörðun tekin um skilnað Katrínar og Benedikts að borði og sæng og svofellt samkomulag gert milli þeirra: Sátt var reynd milli þeirra hjóna til framhalds hjónabandssambúðar en árángurslaust og bæði óskuðu hjónabandssambúð slitið. Með tilliti til fjárskipta með þeim tjáðust þau vera ásátt um meðfylgjandi skilmála; að maðurinn taki við búi þeirra með öllum skuldum, sem á því hvíla, og að maðurinn skuldbindur sig tií að borga henni 15 ríkisdali mánaðarlega frá 1. október þessa árs, að borga fyrsta dag hvers mánaðar um separations tímann, samt um sama tíma að leggja henni kýrfóður af heyi árlega hér á staðnum. Af sameiginlegum börnum hjónanna verða tvö hin elstu hjá manninum, hin tvö hjá konunni. Þegar þessir atburðir gerðust, var Einar Benediktsson á áttunda aldursári. Steingrímur J. Þorsteinsson segir: Það lætur að líkum, að uppeldisáhrif þau, sem Einar Benediktsson bjó við á Elliðavatni fyrsta áratug ævi sinnar, hafa engan veginn verið eins og best yrði á kosið, Vegna heimilisóreiðunnar átti Einar meiri mök en ella hefði orðið við vinnufólkið, misjafnt eins og gengur, og hlýddi mjög á tal þess og sögur, sem voru ekki allar fallnar til barnafræðslu. Sagði Einar eitt sinn á elliárum sínum, er honum varð tilrætt um orðbragð þessara fóstra sinna. „Heldurðu .að þetta hafi haft góð áhrif á mig? Eg, sem var allur eitt skilningarvit!“ Um eitt af hjúum föður síns á Elliðavatni orti Einar fyrstu vísuna sem til er eftir hann. Þá hefur hann að líkindum verið átta ára gamall. Jósep hét einn vinnumanna Benedikts, hinn mesti matmaður. Um hann kvað Einar: Jósep er og hundur hans hungraðir að vana, seggur þessi sunnan lands segist kominn að bana.
ellidavatn-991Síðasta vetur Katrínar á Elliðavatni var Jón Ólafsson skáld og ritstjóri þar til heimilis. Var hann þá nýkominn úr vist sinni í Noregi, en þangað hafði hann flúið vegna málaferlanna út af Íslendingabrag. Nú var Benedikt efst í huga að koma upp prentsmiðju á Elliðavatni og stofna blað. Skyldi Jón vera ritstjóri eða meðritstjóri við blaðið. Jafnframt var Jóni falið að veita börnum þeirra Benedikts og Katrínar tilsögn. Varð hann fyrsti kennari Einars, og samkvæmt kirkjubókum var Einar orðinn læs um jólaleytið 1871, þá sjö ára gamall.
Árið eftir að Katrín hvarf að heiman, kom Benedikt Einari fyrir hjá Grími Thomsen á Bessastöðum og Jakobínu konu hans. Dvaldist hann þar árlangt, enda mun heimilið á Elliðavatni þá hafa verið í algerri upplausn. í húsvitjunarbók Garðaprestakalls er talinn að Bessastöðum 1873 „Einar Benediktsson, tökupiltur, 9 ára, búinn“ (þ.e. að læra kverið)., Á Bessastöðum var Einari haldið strangt til vinnu, og hefur honum brugðið við eftir sjálfræðið á Elliðavatni. Einar þótti rumlatur, og fann vinnufólk á Bessastöðum að því við hann. Þá orti Einar: Vont er fólkið við mig hér, að vilja ekki lofa mér að lúra dálítið lengur. Fara skal á fætur samt, forlaganna þiggja skammt eins og duginn drengur. Grímur bóndi og skáld var strangur húsbóndi og hirtingasamur. Eftir Bessastaðadvölina lá Einari hlýrra orð til frú Jakobínu en Gríms. Öðrum þræði hafa þau hjón komið fram við Einar fremur sem fósturson en tökubarn, létu hann jafnan matast með gestum er þá bar að garði, svo og þegar boð voru haldin. Virti Einar það við Grím æ síðan.
… Nú hófst námsferill Einars Benediktssonar. Undir skóla lærði hann einkum hjá séra Guttormi Vigfússyni á Svalbarði í Þistilfírði, síðar presti á Stöð í Stöðvarfirði, ágætum latínumanni. Einar var heilsuveill í æsku, og á Svalbarði veiktist hann hastarléga og lá vetrarlangt og fram á surnar. Upp frá því var hann aldrei heilsuhraustur. Bæði var hann veill fyrir brjósti og gekk með sullaveiki, sem hann losnaði að líkindum aldrei við til fulls. Á efri árum nefndi Einar þessi veikindi sín við Svein Benediktsson framkvæmdastjóra.
einar ben á sextugsaldriSveinn segir: Einar ræddi nokkrum sinnum um sullaveiki, sem hann hefði sýkst af á bernskuskeiði á Elliðavatni. Kenndi hann um sóðaskap vinnufólksins eftir að foreldrar hans skildu. Sagði hann að hundar hefðu verið látnir sleikja askana, eins og þá mun ekki hafa verið óalgengt hér á landi. Af þessum sökum hafði hann sýkst af sullaveiki og liðið miklar þjáningar og átt við langvarandi vanheilsu að stríða af hennar völdum. Man ég að hann sagði, að hann gengi enn með steingerða sulli. Vorið 1878 var Einar fermdur í Húsavíkurkirkju. Við það tækifæri er honum gefinn þessi vitnisburður í prestþjónustubók: „Les, kann og skilur ágætlega og hegðar sér dável.“
Ýmsar sögur eru til, sem lýsa samúð Einars og hjálpsemi við fátækt fólk og minni háttar, bæði frá æsku hans og fullorðinsárum. Eftirminnileg er sagan sem Jakobína Jósíasdóttir segir frá fermingu Einars: Síðustu dagana fyrir fermingu dvaldist Einar um kyrrt á Húsavík, þar sem hann hafði verið til spurninga. Dreng einn úr Vilpu, koti sunnarlega í þorpinu, vantaði fermingarföt, enda var fólk hans bláfátækt. Einar átti spariföt og hafði auk þess fengið ný föt fyrir ferminguna. Hafði hann fermingarfötin með sér, en sparifötin voru heima á Héðinshöfða. Einar bauð drengnum að lána honum spariföt sín til fermingarinnar, og skyldi sýslumannsfólkið færa honum þau, er það kæmi til kirkju á fermingardaginn. En það var stundum seint fyrir, og svo fór í þetta sinn. Þverneitar Einar þá að ganga til kirkju, meðan faðir sinn sé ókominn, og ber ekki öðru við. Var nú ekki um annað að ræða en bíða, þar sem sýslumannssonurinn átti í hlut. Stóð Einar heima við prestssetrið hjá drengnum úr Vilpu, þangað til sást til ferða Héðinshöfðafólks með fötin. Einar varð æfur við föður sinn fyrir seinlætið.
Þrátt fyrir veikindi Einars í æsku, var hann fjörmikill og gerðist snemma einráður og áræðinn. Sýnir það atburður sá sem nú skal frá sagt. Haustið 1879 sendir Benedikt Einar son sinn fjórtán ára gamlan með áríðandi bréf til Akureyrar. Hafði ekki verið á annað minnst en Einar kæmi austur aftur að loknu erindi og læsi heima næsta vetur undir skóla. Á Akureyri hitti Einar nokkra pilta, sem voru á förum suður til náms og biðu strandferðaskipsins Diönu.
einar ben um sextugtEinar grípur nú áköf löngun til að slást í hópinn, en til þess sér hann engin ráð, síst fjárhagsleg. Þá vill svo til að hann mætir á götu á Akureyri Tryggva Gunnarssyni, góðkunningja fóður síns. Ber hann þegar upp vandkvæði sín við Tryggva, og kveður fjárskort hamla því að hann komist suður í skólann. Tryggvi kveðst geta bætt eitthvað úr þessu og lánar Einari ríflega fyrir farinu suður. Hefur Einar nú enga vafninga, skrifar föður sínum, siglir suður með piltum, fer til Þorbjargar föðursystur sinnar, gengur undir inntökupróf, stenst það með prýði og sest þegar í fyrsta bekk Latínuskólans. Skömmu síðar skrifar Benedikt Tryggva Gunnarssyni, og er í senn undrandi og stoltur yfir uppátæki sonar síns. Þakkar hann Tryggva lánið til „Einsa litla“ og segir síðan: Víst var um það, að ég hafði eigi ætlað honum að fara í skólann í þetta sinn, mest vegna þess að ég treysti ekki heilsu hans, en hann lá í allan fyrri vetur og fram á sumar. En nú hefur drengurinn ráðist í þetta, og þú getur því nærri, að ég er þér þakklátur fyrir hjálpina – að hverju sem hún verður honum.
Á fyrstu árum hinnar nýju aldar fór efnahagur Einars Benediktssonar verulega batnandi. Enda þótt Benedikt faðir hans hefði oft verið í peningaþröng og mesta basli, kom í ljós við skipti eftir hann látinn að eignir dánarbúsins voru töluverðar. Komu til skipta samtals rúmar 37 þúsund krónur eða 9300 krónur í hlut hvers hinna fjögurra erfingja. Einar erfði nokkrar jarðir eftir föður sinn, Elliðavatn, Korpúlfsstaði o.fl. Jafnframt“ fór hann nú að sækjast eftir að kaupa jarðir, fyrst aðallega vegna veiðiréttinda, en hann hafði löngum hinn mesta ahuga fyrir veiðiskap. En brátt tóku jarðakaupin ekki síður að beinast að öflun vatnsréttinda með virkjanir í huga, sem síðar verður frá greint.
einar ben-112Á þessum árum aflaði Einar tekna með margvíslegum hætti. Málflutningsstörfin við Landsyfirréttinn voru að vísu ekki mjög ábatasöm, en lögfræðileg og viðskiptaleg ráðgjöf ýmiss konar gaf drjúgt af sér og fasteignaviðskiptin voru veruleg tekjulind. Um skeið runnu og til Einars umtalsverðir fjármunir frá Marconifélaginu í Lundúnum fyrir ýmsan erindrekstur í þess þágu. Sagði Einar frá því síðar, að árstekjur sínar á þessu skeiði hefðu komist upp í 25 þúsund krónur, en það voru þreföld eða fjórföld embættismannslaun. Eitt árið kærði hann útsvar sitt til hækkunar, þar eð hann leit svo á að of lágt útsvar rýrði álit sitt sem fjármálamanns! Til er skemmtileg frásögn af fasteignaviðskiptum Einars. Ber hún það með sér að hann var bæði framsýnn og ráðhollur, þegar ungur og vaskur athafnamaður átti í hlut. Thor Jensen segir þessa sögu í minningabók sinni. Hann hafði árið 1901 stofnað verslun í Reykjavík í gamla biskipshúsinu við Pósthússtræti. Húsið var á besta stað í bænum, en engan veginn nógu stórt og hentugt fyrir nýtísku verslun. – Thor Jensen segir: Einar Benediktsson var á þessum árum málafærslumaður í Reykjavík. Við höfðum kynnst á ferðalögum og fallið sérlega vel á með okkur. Var gaman að ræða við hann um framfaramál og framtíð íslands. Einar kom nú til mín og bauð mér til kaups gamla pósthúsið, sem var eign dánarbús Óla Finsens póstmeistara, en Einar annaðist sölu á eignum þess. Sagði Einar, að ,jafn stórhuga maður þyrfti meira olnbogarúm handa fyrirtæki sínu“. Féllst ég á þetta og keypti gamla pósthúsið af honum fyrir 15 þúsund krónur. Þetta var mjög hentugt, þar eð það var næsta hús fyrir. sunnan verslun mína, og því fylgdi mikil og góð lóð. Á heimleið úr utanfór sumarið 1903 hitti Einar Eggert Claessen, sem var á heimleið að nýloknu lögfræðiprófi. Leist Einari vel á hinn unga mann og tókst með þeim vinátta sem entist ævilangt. Bað Einar Claessen nú að taka við málflutningsstörfum sínum við Landsyfírréttinn og réðst það með þeim. Gegndi Einar þeim ekki eftir þetta, þótt hann segði starfinu fyrst lausu árið eftir.
Störf Einars höfðu verið ákaflega erilsöm um sinn og reynt mjög á hann, enda heilsan aldrei sterk. Hann þráði ekki hvað síst að fá betra næði til að gefa sig sem mest að skáldskap sínum. Hann vildi komast í fast og ekki of annasamt embætti, þar sem hann gæti skapað sér og vaxandi fjölskyldu framtíðarheimili.
valgerdur kona einarsHaustið 1904 losnaði sýslumannsembættið í Rangárvallasýslu, það hið sama og Einar hafði sótt um en ekki hlotið tíu árum áður. Ákvað Einar að sækja, þótt ósýnt væri um árangur, þar eð hann átti lítilli stjórnarhylli að fagna. Hannes Hafstein, skáldbróðir Einars, var nú orðinn ráðherra og fór með veitingavaldið. Gekk Einar á fund ráðherra. – Valgerður Benediktsson segir: Einar dáðist alla tíð mjög mikið að Hannesi Hafstein bæði sem skáldi og glæsimenni, en vegna mismunandi stjórnmálaskoðana var kunningsskapur þeirra mjög kulnaður um þessar mundir. Hannes tók umsókn Einars fálega í fyrstu og lét í ljós við hann það hugboð sitt, að nú mundi Einar fyrir alvöru ætla að fara að gefa sig að stjórnmálum, er hann væri orðinn sýslumaður, og komast á þing og vinna á móti sér. Einar svaraði því til, að hann mundi að vísu alltaf láta í ljós skoðanir sínar á þjóðmálum, er honum þætti ástæður til, en til þingsetu hugsaði hann ekki. Lét Hannes sér þetta vel líka og veitti Einari sýsluna.
Þjóðsagnapersóna, Skúli Skúlason, síðar ritstjóri, prestssonur í Odda á Rangárvöllum, var 14 ára unglingur þegar Einar kom austur. Hann hefur skrifað skemmtilegar minningar frá þessum tíma. Birfust þær í Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 1964. Þar segir: Einar var orðinn að þjóðsagnapersónu áður en hann kom í héraðið og það álit færðist í aukana þessi fáu ár er hann var þar og enn meir eftir það. Og ég tel efamál, hvort nokkur þjóðsagnapersóna hafi verið eins umrædd í sýslunni.
Allir könnuðust við nafnið. Þetta er skáld og hafði gefið út sögur og kvæði og þýtt „Pétur Gaut“ og selt hvert eintak á hundrað krónur! Hann hafði ort magnað draugakvæði um síra Odd í Miklabæ, en margir héldu því fram, að mest af kveðskap hans væri „hálfgert hnoð, sem enginn skildi“. Og svo hafði hann gefið út blað og stofnað stjórnmálaflokk. Hvernig átti svona maður að geta verið sýslumaður? Og ofan á allt þetta var nýi sýslumaðurinn „þjóðhættulegur braskari“, sem á skömmum tíma mundi setja sýsluna á hausinn og alla Rangæinga á rassinn nema þá, sem voru á honum áður. En hugkvæmur var hann, mannskrattinn. Hann hafði selt jarð skjálfta. Hver veit nema hann gæti selt Heklugos líka? Og þá hlypi kannski á snærið fyrir Rapgæingum. Skeggræðendunum kom saman um, að andvirðið ætti að renna í sýslusjóð og notast til brúargerðar í sýslunni… Það var mikið glæsimenni, sem komið var í sýslumannsembættið. Ég hugsa, að aldrei hafi Einar Benediktsson verið fríðari sýnum en um þær mundir og glæsilegri í allri framkomu. Ég man að hann var í sútuðum leðurjakka þegar hann kom fyrst að Odda, en slíka flík hafði ég aldrei séð á nokkrum manni nema Hvítárvallabaróninum. Og eigi síður var konan hans, Valgerður, glæsileg. Hún var svo tignarleg, að þjóðsagan var búin að segja manni að Einar hefði látið gera faldbúning handa henni og farið með hana til London og „sýnt hana þar fyrir peninga“. Það væri gaman að vita, hvort þetta var fyrirboði fegurðarsamkeppna nútímans?
hlin johnsonSamskipa Einari utan um haustið var Guðmundur Hlíðdal, síðar póst- og símamálastjóri. Hann hafði um vorið komið heim til Islands að loknu prófi í rafmagnsverkfræði í Þýskalandi. Um sumarið hafði hann birt í landvarnarblaðinu Ingólfi grein, sem hann nefndi Notkun fossanna. Þar galt hann mönnum varhug við að selja útlendingum fossa fyrir smánarverð og án allra skilyrða, en hvatti til að leigja eða jafnvel selja þeim fossa, ef upp úr því sprytti iðnaður, sem orðið gæti okkur til hagnaðar. Þyrfti að búa svo um hnúta í samningum, að landeigendur hlytu sæmilegan hagnað af, er til framkvæmda kæmi, en full umráð fossanna á ný, yrðu þeir ekki virkjaðir innan hóflegs tíma.
Einari hafði getist vel að grein þessari og haft samband við höfundinn eftir birtingu hennar. Kynntust þeir nú nánar á ferðinni utan og fór vel á með þeim. Einar stóð stutt við í Edinborg, þar sem hann kom fjölskyldu sinni fyrir, en hélt til Kaupmannahafnar. Þar hitti hann Guðmund Hlíðdal og fékk hann til að koma með sér til Kristianiu í því skyni að takast á hendur vatnsorkumælingar fyrir fossafélög, sem þar skyldi stofna. Þangað fóru þeir nú saman. Löngu síðar lýsti Guðmundur Hlíðdal dvölinni í Noregi þessa haustdaga. Segir hann svo frá, að mörg kvöld hafi þeir félagar setið í dýrlegum veislum norskra fjáraflamanna og lögfræðinga, þar sem Einar naut sín ákaflega vel og var miðdepill hvers samkvæmis. Hann var alger bindindismaður þennan tíma í Kristianiu, að sögn Guðmundar, enda þótt allt flyti í hinum dýrustu vínum. Milli veisluhaldanna voru fundir haldnir með þessum fésýslumönnum þar sem Einar lýsti fossafli Íslands fyrir þeim og beitti óspart einstæðum frásagnatöfrum sínum. Flest var stórt í sniðum í frásögn hans, en óhjákvæmilegt var að viðurkenna, að margt væri enn lítt rannsakað, svo sem fallhæð fossa. Með orðfimi reyndi Einar að forðast fullyrðingar, svo sem að nefna nákvæmar tölur, en dró þó hvergi úr.
hlin johnson IIHlín kemur til sögu í febrúarmánuði 1927 kom nýr gestur á heimili Einars Benediktssonar og Valgerðar konu hans að Þrúðvangi í Reykjavík og drakk kaffisopa með þeim hjónum. Gesturinn var kona, Hlín Johnson að nafni. Þannig stóð á gestkomunni að konan hafði hitt Val, elsta son skáldsins, á samkomu í Reykjavík. Hlín var ættuð frá Sandhaugum í Bárðardal, og hafði faðir hennar, Jón Eldon Erlendsson frá Garði í Kelduhverfi, verið skrifari Benedikts Sveinssonar á Héðinshöfða um tveggja ára skeið, þega Einar var um fermingaraldur. Bar hann æ síðan hlýjan hug til þessa skrifara föður síns.
Valur sagði nú föður sínum frá því, að hann hefði hitt þessa þingeysku konu, og kynni hún mörg ljóð hans utan að og væri ákafur aðdáandi þeirra. Bað Einar þá son sinn að koma kveðju til dóttur Jóns Eldons, og bjóða henni að heimsækja sig í Þrúðvang.
Hlín Johnson stóð á fimmtugu þegar hún fékk boðin um að ganga inn fyrir dyr Einars Benediktssonar. Hún hafði aðeins einu sinni séð hann áður, þá innan við fermingu, en kvaðst aldrei hafa getað gleymt honum. Hann var þá með föður sínum á þjóðmálafundi á Ljósavatni, ungur og fríður.
herd-221Í viðtali við Matthías Johannessen komst Hlín svo að orði: Ást mín á honum hefur haldist frá því ég heyrði fyrsta ljóðið eftir hann, tólf ára gömul, íslandsljóð. Það birtist í einhverju blaðinu, líklega Sunnanfara, sem var sendur norður eins og hver annar pappír. Og þegar fóstri minn las ljóðið, stökk ég á fætur og hrópaði: „Svona hefur enginn kveðið áður!“ En ég var skömmuð fyrir að þykjast hafa vit á skáldskap, og það var reynt að þagga niður í mér og líklega hefur það tekist, en ég sagði satt! Og nú hefur Hlín Johnson fengið boð um það, að koma á fund skáldsins. Hún segir: Eg fór upp í Þrúðvang, og um leið og augu okkar mættust, var eins og við hefðum þekkst alla ævi. Ekki fer það á milli mála, að næstu árin eftir skilnaðinn við Valgerði voru Einari erfið á marga lund. Jónas Jónsson fer svofelldum orðum um skáldið á þessu tímabili: Þegar fokið var í flest skjól um fjárafla tók hann sér til hressingar að neyta áfengis meira en góðu hófi gegndi. Var hann þá um stund heimilislaus og án nokkurs verulegs stuðnings frá frændum og vinum. Gátu höfuðstaðarbúar stundum séð þá sorgarsjón að höfuðskáld þjóðarinnar, sem auk þess hafði um langt skeið verið mest glæsimenni á landinu, við hlið Hannesar Hafsteins, ráfaði einmana um götur bæjarins, fátæklega búinn og undir áhrifum áfengis.
Á þessum tímum einsemdar og erfiðleika kynnist Einar lífsreyndri og viljasterkri konu, sem hafði dáðst að honum og unnað ljóðum hans allt frá ungum aldri. Hann fann þar athvarf og skjól.
En hverjar voru tilfinningar konunnar, sem nú fyrst tók að umgangast draumaprinsinn, og sá með opnum augum jafnt veikar sem sterkar hliðar hans? Einar var nú orðinn 63 ára, stoltur maður en bitur og kominn sár og móður af vígvelli lífsins. Varð hún ekki fyrir vonbrigðum? Matthías Johannessen spyr Hlín Johnson hálfníræða um samband þeirra Einars:
— Þetta var ást, Hlín.
— Sú eina ást, sem ég hef þekkt, og miklu meira en það… Fyrir það er ég þakklát alla tíð.
— En hvernig er hægt að elska mann gegnum kvæði?
— Það er ósköp einfalt. Maður elskar sálina, sem birtist í ljóðunum. Og svo þegar ég kynntist henni, varð ég ekki fyrir vonbrigðum, þvert á móti, því sjálfur var hann jafnvel stærri en verk hans. Að vísu átti hann það til að vera ruddalegur og nota stór orð, ef hann bragðaði vín eða talaði um pólitík, en það kom mér ekki við, því ég var ekki pólitísk.“

Heimild:
-Morgunblaðið 16. desember 1990, bls. 20-21.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Herdísarvík

Í októbermánuði 2024 eru 160 ár liðin frá fæðingardegi Einars skálds Benediktssonar.

Herdíarvíkurgata

Herdísarvíkurgata.

Eftirfarandi er úr grein Konráðs Bjarnason um Einar Benediktsson í Herdísarvík. Hún birtist í Lesbók Morgunblaðsins 9. okt. 1999.
“Höfundur hefur þá sérstöðu að hafa verið í vist um tíma hjá Hlín Johnson og Einari skáldi Benediktssyni á fyrsta ári þeirra í Herdísarvík. Með unglingnum úr Selvoginum og skáldinu tókust góð kynni og stundum fór skáldið á flug. Herdísarvík átti Einar sjálfur, hafði keypt jörðina 1910 og voru þrír Norðmenn með honum í kaupunum. Höfundur átti á árinu 1934 þau Hlín og Einar að húsbændum. Þá átti Einar enn höfuðbólið Krýsuvík í Gullbringusýslu. Jarðir þessar áttu merka og litríka sögu.

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson.

Einar skál Benediktsson er sagður hafa keypt Krýsuvík og Herdísarvík af Jóni Magnússyni 1908 ásamt Arnemann skartgripasala í Osló. Skömmu síðar fer fram sala og endurkaup milli sömu aðila. Við allsherjarmanntal 1910 er eftirfarandi bókað: “Krýsuvík ábúandi Jón Magnússon. Eigandi fyrrverandi sýslumaður Einar Benediktsson og 3 Norðmenn”. Einar virðist frá upphafi hafa verið eigandi að Herdísarvík. En það er ekki fyrr en 13. desember 1928 sem Einar skáld kaupir báðar jarðirnar í Krýsuvík af Arnemann fyrir 30 þúsundir króna.

Þórarinn flytur alfarinn frá Herdísarvík til Reykjavíkur á vordögum 1927. Næsti ábúandi þar varð Ólafur Þorvaldsson frá Ási við Hafnarfjörð.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

Þegar Ólafur fær vitneskju um að Herdísarvík sé laus til ábúðar fer hann á fund jarðareigandans, Einars, sem þá er í Reykjavík, og semst með þeim um 5 ára ábúð í Herdísarvík eða til 1932. Ólafur var þá með fullnægjandi búsetu að Sveinskoti í Hvaleyrarhverfi. Hann kom þangað ári áður frá 6 ára búsetu að Stakkhamri í Miklaholtshreppi með 200 fjár. Ólafur kaupir útigangsær Þórarins með lömbum og selur sauðfé sitt að vestan.
Ólafur rekur útigangsfjárbú sitt í Herdísarvík frá haustdögum 1927 með vinnumanni sínum til vordaga 1928 að hann kemur þangað með fjölskylduna. Búskapur hans hefur verið farsæll í 5 ár þegar hann er enn ófarinn án framlenginga ábúðar eftir fardaga 1932. En um fyrrihluta júlímánaðar kemur eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Johnson, til búsetu þar. En Ólafur naut velvildar jarðeiganda og hélt búsetu fram að fardögum 1933, en með verulega aðþrengdu húsrými í gamla bænum þar til hús Einars skálds yrði fullbyggt. Hann varð að flytja sig í norðurbaðstofuna, svefnstað vinnufólksins.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Á bílum var fært að sumri í þurrkatíð frá Hrauni í Ölfusi og út í Selvog vegna þess að árið 1931 breikkuðu Selvogsmenn með handverkfærum hestagötuna frá Hlíðarenda og færðu hana frá Hlíðarendahelli með stefnu á Selvogsheiði. Gamla leiðin lá um aldir niður Djúpadalahraun. Þess vegna koms drossía á þurrum júlídegi niður að Miðvogstúngarði.
Fararstjórinn, þéttur á velli með erlent yfirbragð, sté fyrstur út og kynnti sig sem Óskar Clausen. Hann væri kominn í Selvog með skáldið Einar Benediktsson og æskti leiðsagnar að höfðubólinu Nesi. Það með steig höfuðskáld þjóðarinnar ásamt föruneyti út úr bifreiðinni. Var þá fullljóst að ekki var ofsagt það sem áður var heyrt um glæsimennið Einar skáld. Hann var mikill á velli, með hæstu mönnum, höfðinglegur í fasi og frakkaklæddur.

Herdísarvík

Einar og Hlín.

Eftir fylgdi kápuklædd kona og drengur nær fermingu. Þau fengu góðar móttökur og gistingu hjá Guðmundi bónda Jónssyni, sem þá var fjárríkastur á landinu. Hann flutti Einar skáld og fjölskyldu næsta dg áhestum til Herdísarvíkur.
Nokkrum dögum eftir komu Einars skálds og Hlínar til Herdisarvíkur verður ljóst að hún var tímabær í vel skipulagrðri framkvæmdaáætlun sem gengur upp með því að nógur mannskapur var kominn á vettvang til uppskipunar á varningi miklum úr strandferðaskipinu Skaftfellingi. Hann fór svo nærri landi sem mest hann mátti svo stutt yrði með flutning á opnum bátum í lendingarvör. Gekk greiðlega að koma farmi skipsins í land.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Mest fór fyrir tilsniðunum húsagerðarvið, sem var einnig í tilgerðum einingum ásamt stórum þilplötum til kæðningar innanhúss og þakjárni. Einnig var þar mikil eldavél ásamt miðstöðvarofnum tengdum henni. Húsgögn og fyrirferðarmikið bókasafn skáldsins, mjölmeti til langs tíma og eldneytisbirgðir. Flutningur að sjávarkambi til síns staðar fylgdi fast á eftir.
Sigurður Haldórsson, yfirsmiður, hafði veg og vanda af gerð hússins og úttekt efnis. Sala á búslóð og málverkum skáldisns gekk til innréttingar ásamt sparifé Hlínar. Óskráður gefandi timburefnis var Sveinn Magnús Sveinsson, forstjóri Völundar og tengdarsonur prófessors Haraldar Níelssonar. Haraldur var prestur í Laugarnesspítala og hjá ekkju hans átti Einar skáld húsnæðisathvarf 1930.

Herdísarvík

Herdísarvík- gamli bærinn nær.

Húsi skáldsins var valinn staður við norðurtúngarð. Bændur og smiðir úr Selvogi komu til liðs við yfirsmið. Grunnur var lagður og hús reist á 6 vikna tíma og fullbúið 8. september 1932. Samtímis flytja Einar skáld og Hlín þar inn. Húsið er búið þeim þægindum sem staðhættir leyfa. Það með hefur Ólafur og fjölskylda endurheimt allt húsrými gamla bæjarins.
Hlín, hin mikla húsfreyja innanhúss, hefur einnig allt framkvæmdavald utanhúss í Herdísarvík. Selvogsmönnum er ljúft að vinna fyrir hana aðkallandi verk. Þeir eru komnir á vettvang þegar hún þurfti á starfskröftum þeirra að halda.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Eins og áður sagði hélt Ólafur búsetu fram að fardögum 1933. En þegar gamli bærinn er orðinn mannlaus lætur Hlín taka niður þök hans og innréttingar og flytja til endurnýjunar á húsum þeim er stóðu vestur af húsi skáldsins og austast byggja byggja þeir upp veggjatóft í sömu stærð og fremri baðstofu gamla bæjar. Margir menn vinna það þrekvirki að bera í heilulagi skarðsúðarþekjuna og leggja niður á veggsyllu hinnar nýju tóftar sem verður alþiljað hús ásamt anddyri með risi. Gömlu rúmin er þar uppsett meðfram veggjum og þar verður notaleg vistarvera fyrir þá sem eru í vinnumennsku fyrir húsbændur í Herdísarvík.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Á sunnudegi í marsmánuði 1934 erum við 6 manns úr Selvogi lent á opnu vélskipi á ládauðum sjó við Helluna í gömlu vörinni undan Gerðinu í Herdísarvík. Hlín býður okkur til stofu. Skáldið situr í miklum leðurstól og hlýðir á söng. Hann er vel klæddur, rís á fætur við komu okkar og er sýnt að stórpersónuleiki hans er enn í fullu gildi. Hann tekur okkur með ljúfmennsku, býður okkur sæti og að hlusta á messulok. Hann er fyrstur í Selvogi að eignast útvarpsviðtæki, sem þá var mikið tækniundur. Hlín ber inn góðgerðir og skáldið gengur um gólf.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Á vordögum 1034 er ég kominn til tvisvar hjá húsbændum Herdísarvíkur, sem bera eindæma prersónuleika. Hlín var fædd 16. Nóvember 1976 í Bárðardal í Lundarbrekkusókn, dóttir Arnfríðar Guðrúnar Sigurðardóttur og Jóns Erlendssonar, skálds og alþingismanns að Garði í Kelduhverfi.
Á vordögum 1934 ber það til tíðinda að búskapur hefur lagst af á höfðubólinu Krýsuvík og útbýlum þess, þar með Nýjabæ. Eigandinn, Einar skáld, situr að búi sínu í Herdísarvík og framkvæmdarstjóri hans, Hlín Johnson, fær það viðfangsefni hvernig nýta megi hin gamalrónu tún. Henni verður efst í huga búdrýgindi af heysölu til þéttbýlis þegar hún bjó að Innrahólmi á Akranesi.

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

Ef það yrði endurtekið þurfti að gera akfæran veg frá Ísólfsskála til Krýsuvíkur. Hún fær vitkeskju um möguleika þess hjá manni er vel þekkti leið þessa. Hún gerir hann að verkstjóra vegagerðarinnar sem felst í því að breikka gamla veginn. Verkið reyndist erfiðast í Ögmundarhrauni en eftir það má þræða að mestu leyti melfláka til Krýsuvíkur. Hlín auglýsir eftir mönnum og velur úr stórum hópi tvo dugnaðarlega Arnfirðinga. Þeir komu til Herdísarvíkur og eru þar nokkra daga, einkum við að koma niður grænmeti í kálgarða. Þeir fara svo þaðan með verkstjóra sínum til vegagerðarinnar og verða þar oftast fjórir saman. Þeir hafa vagn og hest og vinna með skólfum og haka. Arnfirðingar komu aftur til Herdísarvíkur. Vegargerðarmönnum Hlínar tókst að koma á bílfærum vegi til Krýsuvíkur í þann mund sem túnsláttur í Nýjabæ er tímabær laust fyrir lok júlimánaðar. (Sjá einnig um vegaframkvæmdina (Hlínarveginn) í frásögn Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála).

Herdísarvík

Hlín Johnson og vinnufólk í Herdísarvík.

Baðstofuhús Nýjabæjar er fyrir skömmu yfirgefið og þokkaleg vistarvera þeirra vegagerðarmanna sem nú ganga til heyskapar á velsprottnu túni. Um fyrri hluta septembermánaðar eru tún Krýsuvíkur fullsprottin. Ganga þá sömu heyskapamenn til verks þar að viðbættum tveimur sláttumönnum frá Grindavík. Í Nýjabæ er aðsetur heyskaparmanna og afbragðs ráðskona sér um matreiðslu. Fullþurrkað hey er flutt frá Krýsuvík með vörubílum. Um arðsemi er ekki kunnugt en framkvæmdastjóri jarðeiganda, Hlín, fór með sigur að hólmi.

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson – andlitsmynd
Ásmundur Sveinsson.

Er kom að heimatúnslætti að Herdísarvík sló ég með orfi og ljá en Hlín rakaði og saman unnum við að heyþurrkun og bindingu þess. Gott var að vinna fyrir og með Hlín sem ávallt ávarpaði mig með orðunum “gæskur”. Hún sagði mér frá harðri lífsreynslu sinni þegar hún bjó í Kanada og varð að reka nautgripi langar leiðir til vatns þega frost náði 40 gráðum. Og hún sagði mér frá yndilegum dögum þegar hún átti heima í Buenos Aires í Argentínu þar sem stórbændur voru svo gestrisnir að gera ráð fyrir umframmat daglega vegna gesta. Margir Evrópumenn misnotuðu þess rausn og urðu að iðjuleysingum.

Einar svaf vel út, en var oftast kominn á fætur uppábúinn um ellefuleytið. Hlín bar honum hádegismat í aðalstofu, sem var léttur og fábrotinn og miðaðist við heilsufar. Skáldið drakk hvorki kaffi né te en matnum fylgdi eitt til tvö staup af léttu víni, sem geymt var í 30 lítra glerkeri í litlu búri.

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson.

Hlín distileraði það og deyfði niður í Spánarvínsstyrk og bragðbætti það með ýmsu jurtum. Þar stóð kanna á borði og lítil staup tiltæk handa skáldinu til vínneyslu samkvæmt læknisráði. Aldrei gekk skáldið þar inn en var neytandi fyrir milligöngu annarra.

Skáldið, sem hafði í einför glímt við fyrirbærið mannlíf í litríkri orðgnótt, var nú að ganga inn í einsemd mannlegrar hrörnunar með skuggum og skúraskini.
Hugstæðustu samskipti mín við skáldið í Herdísarvík áttu sér stað að kvöldi dags. Jón Eldon er ekki heima og Hlín er nýgengin út til að mjólka kýr sínar og ég er á leið út úr húsinu þegar Einar kemur úr aðalstofu og spyr hvort ég geti náð í staup fryrir sig. Ég hika, því þetta var ekki í mínum verkahring. Einar les hugsanir og segir: “Þú getur treyst því að hér fer allt að mínum vilja.” Ég fór snarlega í búrið góða og kom aftur með vel fullt staup í stofu Einars sem dreypir á vel og endurheimtir stórpersónuleika sinn.

Höfði

Stytta af Einar Benediktssyni við Höfða.

Einar skáld svaraði þeim er spurðu hann um andhverfu milli lífs og ljóðaspeki hans: „Þegar ég orti var ég með viti, en þegar ég lifði var ég vitlaus. Í mér búa tveir menn; annar er séntilmaður, en hinn er dóni. Þeir talast aldrei við“.

Tveimur árum síðar hefur skáldinu hrörnað svo að hann getur trauðla svarað spurningum nema með einsatkvæðisorðum.
Vist minni lauk í Herdísarvík við septembermánaðarlok en rétt áður varð ég meðreiðarmaður Hlínar til Hafnarfjarðar eftir veginum upp Selstíg og yfir Grindarskörð. Hlín átti þá erindi við bankastjóra og marga fyrirmenn.“

Lesbók Morgunblaðsins 9. okt. 1999 – Konráð Bjarnason, frá Þorkelsgerði í Selvogi.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Höfði

Illugi Jökulsson tók eftirfarandi saman um Einar Benediktsson. Frásögnin birtist í Vísi árið 1980:
„Einar Benediktsson hefur alla tíð verið umdeildur, jafnt sem skáld og sem manneskja. Nú, 40 árum eftir dauða sinn, er honum enn í lófa lagið að vekja upp heitar deilur og óvægnar, rétt eins og meðan hann var í fullu fjöri. Aldrei verður honum borið á brýn að hafa verið meðalmenni, hversu sem mönnum þykir annars til um hann.
Einar-25Einar Benediktsson fæddist á Elliðavatni 31. október 1864, af merku foreldri. Faðir hans var Benedikt Sveinsson, dómari í Landsyfirréttinum og skörungur í stjórnmálum, og móðir hans Katrín Einarsdóttir. Þau skildu er Einar var barn að aldri og bjó Einar lengst af hjá föður sínum. Hann varð síðan stúdent frá lærða skóla Reykjavíkur 1884 og sigldi til Kaupmannahafnar til náms í lögfræði. Námsferill hans varð slitróttur vegna veikinda og lauk hann ekki námi fyrr en árið 1892.
Vegna ýmissa áhugamála hans utan lögfræðinnar og svo talsverðrar hneigðar til að njóta lystisemda Hafnarlífsins náði hann aðeins 2. einkunn og kom honum það í koll síðar er hann fór að leita embættis. Telur Sigurður Nordal það hafa haft sín áhrif á örlög hans. Síðan segir Sigurður: „Eins og að líkum lætur, kom Einar til Reykjavíkur haustið 1894 með tvær hendur tómar. Faðir hans hafði gert vel að kosta hann til náms og var ekki aflögufær fram yfir það, enda Einar kominn á þann aldur, að honum var ætlandi að sjá sér farboða. En höfuðstaðurinn var líka fátækur og allt annað en vænlegur vettvangur embættislausum lögfræðingi. Var fram að þessu eins dæmi að nokkur lögfræðingur reyndi að draga fram lífið í Reykjavík án málaflutningsréttinda við yfirréttinn, eða nokkurrar fastar stöðu, eins og Einar færðist í fang. Hann sótti um ýmis sýslumannsembætti árangurslaust en fékk loks málflutningsréttindin 1898, eftir fjögurra ára dvöl í Reykjavík.
Vitað er, að Einar fór, undir eins og hann var kominn til Reykjavíkur, að fást við þau lögfræðistörf, sem honum var heimilt að stunda og munu hafa verið fábreytt og lítt févænleg, en auk þess kaup og sölu fasteigna. Annars fara meiri sögur af öðrum störfum hans en brauðstritinu. Samt er haft eftir honum, að árstekjur hans á Reykjavíkurárunum hafi komist upp í 25 þúsund krónur. Þetta var þá mikið fé, eins og ráða má af því, að 1902 seldi Einar stórhýsið í Glasgow fyrir einmitt þessa upphæð og árslaun ráðherra íslands, frá 1904, voru alls 12000 kr. En jafnvel þótt þessi sögusögn um tekjur Einars kunni að vera eitthvað orðum aukin, er áreiðanlegt, að síðari ár sín í Reykjavík hafði hann allgóð fjárráð og fór ekki dult með. Þegar hann kvæntist, 1899, stofnaði hann ríkmannlegt heimili eftir því sem þá gerðist hér á landi. Hann fór í kostnaðarsöm ferðalög, bæði utan lands og innan, ýmist einn eða með konu sína, og barst yfirleitt allmikið á. Það var því alls ekki til þess að bæta afkomu sína, sem hann sótti um Rangárvallasýslu 1904 og fékk veitingu fyrir henni. Enda lét hann þá svo um mælt, að embættislaunin væru sér ekki meira en hæfilegir vasapeningar“.
Einar-26Nú er nauðsynlegt að fara býsna fljótt yfir sögu. Einar var umsvifamikill í Rangárvallasýslu en lét af sýslumannsembættinu þegar árið 1907, vegna þess að hann meiddist fæti og þoldi því ekki þau miklu ferðalög á hestum sem embættinu voru nauðsynleg. Hann fluttist því aftur til Reykjavíkur sem á þessum árum var ört vaxandi bær og var það mjög að skapi Einars sem hugði á stórar framkvæmdir. Sigurður Nordal segir: „Ekki er að efa, að hann hafi ætlað sér að bera þar ríflegri hlut frá borði en tiltök voru hér heima. En hitt er jafnvíst, að nú hugsaði hann um annað og meira: að færa Íslendingum heim í garð það stórfé, sem eitt gat dugað þjóðinni til viðreisnar. Aðstaða til að hrinda þessu áleiðis var allt of óhæg með búsetu á Íslandi. Einar fluttist þegar haustið 1907 til Edinborgar og átti síðan fjórtán ár lengstum heimili erlendis“.
Nú er þess að geta að Einar gat lítils stuðnings vænst af valdsmönnum á Íslandi. Hann hafði litla stjórnarhylli og hafði snemma vakiö tortryggni og fjandskap þegar fyrsti orðrómur gekk um fossakaup hans. Flýtti Alþingi sér þá að gera ráðstafanir til að takmarka leigu og sölu fallvatna. Þó hann hefði einatt mikið fé umleikis var fjárhagur hans ekki traustari en svo að áföll fyrirtækja hans snertu hann illa. Nordal segir: „Hann átti sér í rauninni ekki annan bakhjall en trúna á stórfellda framtíðarmöguleika Íslands, gáfur sinar og persónutöfra“.
Einar Benediktsson mæddist í mörgu. Hann hugði á stórframkvæmdir en lítið eða ekkert tókst honum. Hann stóð í blaðamennsku um tíma og kostaði ýmis blöð, hann drap niður fæti í pólitík og tók upp merki föður síns í baráttunni gegn Valtýskunni, og telja má hann einn aðalstofnanda Landvarnarflokksins. Hann barðist ötulega fyrir sjálfstæði en mun þó hvorki hafa verið skilnaðar- né lýðveldissinni og þótti nokkuð til um sinn kóng. Þá vildi hann beita sér fyrir því að Íslendingar tækju upp loftskeytatækni Marconis og fékk stuðning til þess erlendis frá. Að vísu varð Stóra norræna ritsímafélagið ofan á en Sigurður Nordal telur að öll þessi umsvif og trúnaður sá og rausn, sem hið auðuga Marconifélag sýndi honum, hafi átt sinn þátt í því að koma róti á hann, sannfæra hann um, hverju hann gæti orkað einn síns liðs, og ýta svo undir hann að leggja á tæpari vöð.
Valgerdur-25Efalítið er Einar Benediktsson einna kunnastur nú fyrir fossamálið en linnulaust frá 1906 til 1925 reyndi hann að vekja athygli Íslendinga á þeim möguleikum sem í vatnsorkunni fælust og sýndi þar stórhug svo undrum sætir. Hann vildi hefja orkuframleiðslu úr fallvötnunum og var árið 1914 stofnað hlutafélagið Titan til virkjunar Þjórsár. Það var gert í samvinnu við Norðmenn og var fyrirtæki þetta þvílíkrar stærðar að erfitt er að henda reiður á, jafnvel nú. Ýmissa orsaka vegna fóru öll þessi tröllauknu áform út um þúfur, m.a. vegna kreppu sem skall á í Noregi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Voru það ekki fyrstu vonbrigði Einars, né hin síðustu. Loks stóð svo Einar um margra ára skeið í allslags fyrirtækjamakki við Breta, hann leitaði að gulli hér á landi og vildi leggja Grænland undir íslensk yfirráð. Alls staðar var sama sagan: Vonbrigði. Enda má leiða að því rök að hreint og klárt fjármálavit Einars hafi ekki verib nándar nærri ámóta og hugsjónir hans. Eins og gefur að skilja fjallar bók Sigurðar Nordals að miklu leyti um kvæði Einars, enda þau líklega óbrotgjarnasti minnisvarðinn um hann. Um þau eru ekki tök á að margræða hér. En gefum nú Sigurði Nordal seint og um síðir orðið:
„Einar Benediktsson kvæntist árið 1899, þá tæplega hálffertugur, en Valgerður kona hans réttra átján ára. Einar og Valgerður eignuðust sex börn og lifðu fimm þeirra föður sinn.
Frú Valgerður var glæsileg kona og sómdi sér vel við hlið manns síns. Þótt Einar væri umhyggjusamur heimilisfaðir, var staða hennar oft allerfið vegna tíðra búferlaflutninga og mikilla fjarvista húsbóndans. Annars ferðuðust þau hjónin líka talsvert saman, og á utanvistarárunum komu þau stundum með alla fjölskylduna heim til Íslands.
Um áramótin 1921-22, þegar telja má að Einar væri alkominn heim, settist hann að í Þrúðvangi við Laufásveg en það hús átti tengdamóðir hans. Þar stóð heimilið nokkur ár með miklum brag rausnar og híbýlaprýði. En smám saman tóku hagir Einars að þrengjast, og þegar tengdamóðir hans þurfti sjálf á húsi sínu að halda haustið 1927, urðu þau Valgerður í bili að flytjast í lítið leiguhúsnæði. Þau fóru bæði til Noregs undir árslokin, og varð Valgerður þar eftir, þegar Einar hvarf heim til Íslands. Voru þau þá skilin að samvistum, þótt lögskilnaður þeirra væri ekki gerður fyrr en síðar.
Katrin-25Frá 1928 til- 1930 var Einar áfram í Reykjavík og bjó við heldur órífleg kjör. En nú var komin til sögu sú kona, sem átti eftir að verða stoð hans og stytta til æviloka, frú Hlín Johnson. Hún hafði um fermingaraldur heyrt og séð Einar Benediktsson fyrir norðan, hann jafnan síðan verið henni hugfólgnari en aðrir menn og skáldskapur hans að sama skapi. En þau hittust ekki að máli fyrr en því nær 40 árum síðar. Þá hafði Hlín átt mikil örlög, verið gift og eignast átta börn, misst mann sinn, dvalist nokkur ár í Kanada, tekið sér ferð á hendur til Argentínu og unnið fyrir sér og börnum sínum af óbilandi kjarki og dugnaði. En upp úr 1930 voru þau uppkomin, og frá þeim tíma helgaði hún Einari líf sitt og starf.
Í árslok 1930 fóru þau Einar og Hlín utan, alla leið suður til Túnis, og komu úr því ferðalagi vorið 1932. Þá réb Einar því, að þau settust að á hinu forna stórbýli, Herdísarvik, sem ásamt Krýsuvík, var eignarjörð hans. Þar komu þau sér upp litlu og vistlegu húsi og höfðu nokkurn búskap. Þó að Einari væri á seinustu Reykjavíkurárum sínum stundum svo fátt skotsilfurs, að hann seldi smám saman þær bækur sínar, sem honum var ekki fast í hendi með, átti hann lengi nokkrar fasteignir, og kom það honum í góðar þarfir síðar. Árið 1935 gaf Einar Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, bækur sínar og húsgögn til minningar um föður sinn.
Herdísarvík var á þessum tíma mjög afskekkt, langt til næstu bæja og vegir þangað ógreiðfærir.
Fyrstu ár sín í Herdísarvík kom Einar stöku sinnum til Reykjavíkur, og um sjötugsafmæli sitt fór hann síðustu utanför sína, til Hafnar, og var þá enn hinn ernasti. En eftir þetta fór kröftum hans smáhnignandi, án þess að hann þjáðist né legðist rúmfastur. Mátti heita, að dauðinn, sem honum hafði staðið svo mikill beygur af á fyrri árum, sýndi skáldinu það tillæti að nálgast hægt og hljóðlega. Hann andaðist 12. janúar 1940, liðlega hálfáttræður.“

Heimild:
-Vísir 12. apríl 1980, bls. 4-5.

Herdísarvík

Herdísarvík – yngri bærinn.

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson fæddist 1864 á Elliðavatni, og var sonur Benedikts Sveinssonar sýslumanns og alþingismanns.

Börn á hestbaki

Einar gekk til mennta, varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1884, fór þá til Kaupmannahafnar til náms og lauk lögfræðinámi við Hafnarháskóla 1892. Hann var sýslumaður Rangæinga 1904-1906. En síðan gerðist hann umsvifamikill fésýslumaður og bjó erlendis til 1921. Hann var áfram langdvölum erlendis fram til 1932, þá settist hann að í Herdísarvík á Reykjanesi, þrotinn að kröftum, og dó þar 1940.
Árið 1897 voru í fyrsta sinn haldnar kappreiðar í Reykjavík, sem heimildir eru til um. Á þessum kappreiðum sigraði grár hestur sem Fálki hét og var frá Fljótsdal í Fljótshlíð, og var hann í eigu Einars Benediktssonar. Seinna sagði eiginkona hans frá því að Einar hafi ort ljóðið „Fákar“ til þessa hests, enda þótti Einari þessi hestur einna tilkomumestur af öllum gæðingum sem hann hafði átt.

Þetta er eitt magnaðasta kvæði um hesta sem ort hefur verið á íslensku, og um leið dæmigert fyrir kveðskap Einars, hljómmikið, langt og kröftugt. Hér birtist fyrsta og síðasta erindi kvæðisins.

Í morgunljómann er lagt af stað.
Allt logar af dýrð, svo vítt sem er séð.
Sléttan, hún opnast sem óskrifað blað,
þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð.
– Menn og hestar á hásumardegi
í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi
með nesti við bogann og bikar með.
Betra á dauðlegi heimurinn eigi.

– Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
og hleyptu á burt undir loftsins þök.
Hýstu aldrei þinn harm. Það er bezt.
Að heiman, út, ef þú berst í vök.
Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist,
ei böl, sem ei þaggast, ei lund, sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.

Heimild:
-www.sogusetur.is

Reiðmenn

Hlemmur

Í Morgunblaðinu 1981 skrifar Gunnar M. Magnússon „Hundrað ára minningu Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará„:

„Séra Björn Halldórsson, hinn kunni klerkur og sálmaskáld, bjó í Laufási við Eyjafjörð. Hann var fæddur 1823. Kona hans var Sigríður Einarsdóttir frá Saltvík á Tjörnesi, fædd 1819. Þeirra börn voru Vilhjálmur, fæddur 1846, Svava, fædd 1854, og Þórhallur, fæddur 1855.

Vilhjálmur Bjarnason

Vilhjálmur ólst að mestu upp hjá afa sínum, séra Halldóri Bjarnasyni, prófasti á Sauðanesi.
Sextán ára að aldri hóf hann smíðanám hjá Tryggva Gunnarssyni, timburmeistara á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Að námi loknu, tók hann upp tvíþætt störf: stundaði smíðar á veturna, en hóf ræktunarstörf að vorinu og stjórnaði búi foreldra sinna að sumrinu. Þótti þá þegar sýnt, að hinn ungi prestssonur væri afbragð annarra manna, þrekmikill, kappsamur til hvers konar starfa, logandi af fjöri, opinn fyrir framförum, góðgjarn og óádeilinn og lagði hverju góðu máli lið.
Rúmlega tvítugur að aldri sigldi Vilhjálmur til Danmerkur, dvaldist árlangt í Kaupmannahöfn og lagði stund á málaraiðn. Þegar heim kom, tók hann að stunda þess iðn til jafns við fyrri störf og málaði nokkrar kirkjur á Norðurlandi, ein þeirra var Grímseyjarkirkja.
Árið 1872 gekk Vilhjálmur að eiga Sigríði Þorláksdóttur prests á Skútustöðum Jónssonar. Hún var fædd 1853. Nokkru síðar keypti séra Björn jörðina Kaupang í Eyjafirði og ungu hjónin fluttust þangað. Vilhjálmur hætti nú að mestu störfum út á við, en einbeitti atorku sinni að búi sínu og heimili. Hann tók að byggja uþp á jörðinni, smíðaði allstórt timburhús og vönduð peningshús, stækkaði tún og hóf töðufall til muna.

Rauðará

Rauðará um 1900 – hús Shiederbergs.

Vilhjálmur var fjörmaður og lagði oft saman nótt með degi, einkum við vorverk og heyannir. Á þeim árum sló hann dagsláttuna á rúmum sex klukkustundum, og þótti ekki heiglum hent að leika það eftir honum. Hann komst brátt í röð fremstu og gildustu bænda við Eyjafjörð og hlotnaðist sú viðurkenning að fá verðlaun úr heiðurssjóði Kristjáns konungs IX.
En mitt í þessum blóma skeði sá atburður að hjónin í Kaupangi seldu eigur sínar og fluttust úr héraðinu. Í stað þess að berast með straumnum til Vesturheims, héldu þau með fjórum börnum sínum suður að Kollafirði og settust þar að á Rauðará, örreytiskoti austan Reykjavíkur. Börn þeirra voru Þóra, Halldór, Laufey og Þorlákur.

Rauðará

Rauðará um 1950. Holdveikraspítalinn á Laugarnesi fjær.

Rauðará var fornt býli, en hvorki stórt né nytjagott. Reykjavík varð snemma stórbýli og bendir allt til þess, að á 10. öld hafi hún verið eitt af stærstu höfuðbólum landsins.
Í lýsingu Árna Magnússonar og Páls Vídalíns í jarðabók frá árinu 1703 segir að á Rauðará hafi verið fimm kýr, ein kvíga veturgömul, sex ær, fimm sauðir veturgamlir, tvö lömb og eitt hross. Engjar voru engar, en torfrista, stunga og móskurður nægjanlegur í heimalandi. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil. Hrognkelsafjara lítil mjög. Skelfiskafjara næstum engin. Murukjarna, bjöllur og þess konar má finna, ef vill. Heimræði er árið um kring, en langræði mikið. Kvaðir eru þó ýmsar og á þessari litlu og kostarýru jörð: Mannslán um vertíð, dagslættir tveir til Viðeyjar. Hríshestar tveir heim til Bessastaða. Hestlán einn dag til að flytja Viðeyjar-eldiviðartorf af þerrivelli til skips. Skipaferðir, þegar Bessastaðamenn kalla. Heyhestur einn til fálkanna, síðan þeir sigldu í Hólminn. Og þó var ekki allt upptalið.

Rauðará

Rauðará.

Það var vorið 1893 að Vilhjálmur Bjarnarson keypti þessa jörð af Schierbeck landlækni fyrir 4500 krónur. Vilhjálmur var þá 47 ára að aldri og Sigríður, kona hans, stóð á fertugu.
Jörðinni fylgdi landsvæði, um 30 dagsláttur alls, en mestur hluti þess var óræktaður, nema túnið, sem í bestu nýtingu gaf af sér eitt hundrað hesta eða tæplega það. Kringum túnskikann voru mýradrög og fúafen, en annars staðar blásinn melur eða klapparholt.

Rauðará

Rauðará – Árið 1891 reisti Hans J. G. Schierbeck landlæknir steinhlaðið hús á jörðinni. Árið 1908 reif Vilhjálmur Bjarnarson niður gamla íbúðarhúsið og reisti nýtt í þess stað.“ – Húsaskrá Borgarsögusafns. Sjá má gamla bæinn á Rauðará v.m.

Lítið steinhús var á Rauðará, þegar Vilhjálmur og Sigríður settust þar að. Bakvið það var gamall bær og fornfálegur.
Goshóll var norðan við túnið, þar var grásteinsnáma. Þar sat löngum Magnús steinsmiður og klauf grjót í legsteina. Fyrir neðan Goshól var Gvendarbrunnur. Þar var grjótruðningur, er líktist dys. Ágætt drykkjarvatn spratt þar upp. Mótak átti Rauðará austur í mýri, þar sem nú er Nóatún.
Rauðará
Af hlaðinu á Rauðará sá stök og smá býli í átt til bæjarins. Leiðin ofan úr sveitum til Reykjavíkur lá talsvert sunnar, en annar vegur frá bænum lá með sjónum inn að Rauðará og Laugarnesi. Þessi stígur fyrir ofan fjöruna var kallaður ástarbrautin. Þar var fáförult „inn á Hlemm“. En Hlemmur var brúin á Rauðarárlæknum, þar sem hann fellur til sjávar. Þessi lækur átti upptök sín í dýjadrögum inn við Kringlumýri. Þar seytluðu vætlurnar í vesturátt. Og í drögunum norðan Öskjuhlíðar sameinuðust þær öðrum vætlum og mynduðu svolítinn læk, þegar dró niður í Norðurmýrina. Þaðan hallaði svo til fjarðarins. Þar heitir nú Hlemmtorg.

Greinarhöfundur hefur áður skrifað um Rauðarárævintýrið. Verður hér birt orðrétt lýsing úr þeim skrifum: „Bóndinn á Rauðará varð þess brátt áskynja, að hér þurfti víða höndum til að taka. Hann var kominn í nýtt landnám, stóð í þýfðu túni, sem teygði skækla út í óræktina, og þegar til kom, var jörðin ekki nema smáskák, miðað við það land, sem hann hafði áður fórnað kröftum sínum. Hann greip torfristuljáinn hverju sinni, er tóm gafst til, og tók að slétta þúfurnar í túninu. Linnti hann ekki, fyrr en túnið var orðið slétt til allra átta, svo langt sem það náði. Þá tók hann að færa túnið út, eftir því sem föng voru á, vakti upp grjót og sléttaði yfir, en hlóð vallarfarið úr hnullungunum. Hann sótti mold langar leiðir í hjólbörum og myndaði jarðveg, þar sem þunnt var á klöppunum. Og forarfen ræsti hann fram og fyllti upp. Hann sýndi að hann var jarðræktarmaður, svo að þess voru fá dæmi, vann sem ungur væri og var sífellt með ný verkefni á prjónunum. Þannig stækkaði túnið ár frá ári, en jafnframt fann hann nauðsyn þess að fá meira olnbogarúm. Þar í kring var landinu skipt í stykki, sem ýmsir embættismenn í Reykjavík áttu. Þar austur af Rauðará var Hagastykki, síðan Jónsjenssonarstykki, og enn austar var jarðarskikinn Fúlatjörn.

Einar Benediktsson

Schierbeck landlæknir átti Rauðará, svo sem fyrr er sagt frá, Jón Jensson yfirdómari átti vitanlega Jónsjenssonarstykkið, og Halldór Danielsson átti Fúlutjörn.
Svo komu aðrir menningarfrömuðir og menntamenn til að fala þessi stykki. Þannig var það til dæmis með lögfræðinginn Einar Benediktsson skáld. Hann langaði til að eignast Fúlutjörn og bað bæjarfógetann að selja sér skikann. Þetta ætlaði bæjarfógetinn að gera. Þegar samningarnir um þetta voru tilbúnir, svo að ekki var eftir annað en að skrifa undir, segir Einar: – Þetta er eiginlega afleitt nafn, það verður að slá af verði á jörð með svona ljótu nafni.
Halldór Danielsson þykktist við af þessari athugasemd, og mælti: – Jæja, þá skulum við láta það vera að/skrifa undir. Og þar við sat.
Þetta atvik varð til þess, að Halldór bæjarfógeti bauð Vilhjálmi á Rauðará Fúlutjörn til kaups. Vilhjálmur hugsaði sig ekki lengi um og festi samstundis kaup á jarðarpartinum.
Börnum Vilhjálms fór líkt og Einari Benediktssyni. Þeim þótti nafnið óviðfeldið og tóku að kalla þennan nýja landauka Lækjarbakka. En Vilhjálmur var á öðru máli.
– Mér þykir nú eins vænt um að kalla það Fúlutjörn, sagði hann, – því að einmitt fyrir nafnið fékk ég landið.

Rauðará
Bóndinn á Rauðará lét ekki þar við sitja með jarðarkaupin. Allmikið erfðafestuland festi hann sér til viðbótar og fékk sér það mælt út hjá bæjarstjórn. Þar að auki keypti hann slægnaland upp við Elliðavatn, og færði nýræktina út jafnt og þétt.“
Vilhjálmur bóndi átti því láni að fagna, að öll fjölskylda hans var honum samhent við búskapinn. Þó ber einkum að nefna Þorlák, son hans. Hann hafði frá unga aldri fyrir norðan verið þátttakandi í búskapnum á Kaldbak og var rúmlega tvítugur að aldri, þegar fjölskyldan fluttist að Rauðará. Upp úr aldamótunum voru börnin komin á manndómsár og héldu sínar leiðir út í lífið. Þóra, sem var elst barnanna, fluttist norður og giftist Stefáni Jónssyni á Munkaþverá í Eyjafirði, Halldór fór utan og lærði búfræði, varð síðar skólastjóri á Hvanneyri. Hann var kvæntur Svövu Þórhallsdóttur, frændkonu sinni, Laufey giftist Guðmundi Finnbogasyni, landsbókaverði, og Þorlákur kvæntist eftir lát föður síns, árið 1919, og gekk að eiga Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Árnessýslu.

Rauðará

Rauðará – Ljósmyndin er af námunni fyrir norðan Sjómannaskólan árið 1944, þar var Grjótnám Reykjavíkur.
Hús á þessum stað tilheyrði líklega Grjótnámi Reykjavíkur, í húsaskrá er hús skráð við Suðurlandsbraut/Laugarveg. Það var byggt 1926 og hefur verið rifið fyrir 1956. Var þar sem nú er Skipholt 33.
Náman í Rauðaárholti varð síðar eign bæjarins og árið 1923 voru um 60 manns í atvinnubótavinnu í grjótnáminu. Sama ár var keypt ný grjótmulningsvél á vegum bæjarins (Grjótnám Reykjavíkur) og var hún staðsett í námunni. Námunni var síðan lokað árið 1945 og voru þá vélarnar fluttar í nýja námu við Elliðaárvog.

Þorlákur var hinn efnilegasti maður, skýr og greinagóður, hneigður til rannsókna og áhugasamur við ræktunar- og önnur búnaðarmál. Hann vann með föður sínum að öllum framkvæmdum og tók snemma að skrifa hjá sér athuganir um líf húsdýranna og draga þar af lærdóma um búnaðinn. Hann leitaðist við að finna á hvern hátt væri hagkvæmast að nytja bústofninn. Birti hann skýrslur um þetta í Búnaðarritinu.
Upp úr aldamótunum sendi Vilhjálmur Þorlák son sinn í landbúnaðarskóla í Danmörku.
Þegar Þorlákur kom heim að námi loknu, tók hann við bústjórn á Rauðará. Haft var eftir Vilhjálmi, að sá námskostnaður hefði komið inn á einu ári. – Kýrnar bættu því meira við sig, sem betur var kunnað með þær að fara, sagði hann. Búskapur þeirra feðga á Rauðará hafði snemma vakið athygli. Áður var litið á Rauðará sem kot, en innan fárra ára var þarna risið stórbýli. Rauðarármjólkin varð fræg sem mesta kostamjólk, auk þess tóku Rauðarárkýrnar að setja mjólkurmet, hvert af öðru. Búgarðurinn, sem þarna hafði risið, varð einnig stolt Reykjavíkur.
RauðaráBæjarbúar áttu nú kost á meiri og betri mjólk en áður tíðkaðist, og litið var með virðingu til mannsins, sem þarna hafði sáð og uppskorið. Hann fékk nú öðru sinni opinbera viðurkenningu fyrir störf sín, að þessu sinni verðlaun úr Ræktunarsjóði.
Árið 1908 var lokið við að reisa mikið og vandað íveruhús á Rauðará. Þaðan mátti líta yfir fagurgræna túnbreiðuna til allra átta, — 35 dagsláttur, sem ræktaðar höfðu verið til viðbótar við gamla túnið, mest sáð sléttur og einnig matjurtagarðar. Heyskapur á heimatúni hafði sexfaldast á fyrsta áratugnum, var nú 5—600 hestar, kýrnar voru orðnar tuttugu eða rúmlega það, hestar fimm og allmargt sauðfjár.
Vilhjálmur Bjarnarson lést árið 1912, 66 ára að aldri, en Sigríður, kona hans, andaðist 1933, áttræð að aldri.
Á leiði þeirra hjóna voru settir bautasteinar úr Rauðarárlandi.
Þorlákur V. BjarnarÞorlákur hafði nú alla búsforustu í sínum höndum. Tvö systkini hans voru farin af heimilinu, en Laufey var enn heima. Auk þess var á heimilinu Theódór, hálfbróðir hans og Anna Nordal. Bjó Þorlákur með móður sinni, þar til hann kvæntist árið 1919 Sigrúnu Sigurðardóttur frá Flóagafli í Sandvíkurhreppi. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Þorkelsdóttir og Sigurður Þorsteinsson bóndi, síðar fasteignasali í Reykjavík. Systkini Sigrúnar voru Árni fríkirkjuprestur, Ásgeir skipstjóri, Þorkell vélstjóri, Sigurður Ingi, lengi sveitarstjóri á Selfossi og Steinunn, búsett í Reykjavík.
Sigrún var glæsileg stúlka. Hún var fædd 1896, og þegar hún tók við búsforráðum á Rauðará reyndist hún mikil húsfreyja á alla lund. Þau bjuggu með myndarbrag og héldu uppi heiðri Óðalsins. En í þeirra tíð tók borgin mjög að sækja að Rauðará. Byggðin færðist hröðum skrefum inn og austur, og þar kom, að Reykjavík tók að heimta skika jarðarinnar undir götur og hús. Og mitt í þessari ásókn féll Þorlákur í valinn, langt fyrir aldur fram, árið 1932, fimmtíu og eins árs að aldri.
Sigrún S. BjarnarÞau Sigrún og Þorlákur eignuðust fjögur börn. Elstur var Vilhjálmur, sem fluttist vestur um haf og gerðist umsjónarmaður Fiske-safnsins við Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki. Hann er kvæntur Dóru Eiríksson, vesturíslenskri konu. Annað barn þeirra Sigrúnar og Þorláks var Ingibjörg, er giftist Jóni K. Hafstein tannlækni. Hún lést 1959.
Þriðji í röðinni er Þorsteinn, sem er kvæntur Elfu Thoroddsen, og yngst barnanna er Sigríður Aðalbjörg, gift Sigurði H. Egilssyni stórkaupmanni.
Sigrún hélt uppi búskapnum af dugnaði og kom börnum sínum til mennta.
„En borgin hélt áfram hinni miskunnarlausu sókn að Rauðará.
Að lokum var jörðin umkringd, og um stund stóð húsið eins og einmana vin í eyðimörk.“ Fólkið varð að flýja. Sigrún fluttist að Laugabrekku, sem er nokkru austar við Suðurlandsbraut. Þar bjó hún með Þorsteini syni sínum til ársins 1966, er þau létu af búskap og fluttust vestur á Kvisthaga. Sigrún lést 10. ágúst 1979.
Þorlákur Bjarnar var fæddur 10. desember 1881. Og í dag minnumst við hundrað ára afmælisdags þessa íðilmennis.
Og borgin þrengdi sér nær og nær, þrýsti loks að hjartarótunum, skóf burtu hina glæsilegu viðreisn aldamótaáranna, nagaði hverja rót, eins og hungrað dýr.
Hula tímans og skurn borgarinnar liggur nú yfir gömlu Rauðará.“

Rauðará.
Í Óðni 1909 er einnig fjallað um Vilhjálm og Sigríði:  „Vorið 1893 kaupir Vilhjálmur Rauðará við Reykjavík af Schierbeck landlækni, fyrir 4500 kr. Í kaupinu var lítið steinhús til íbúðar. Erfðafestulandið var fast að því 30 dagsláttur, en minstur hluti ræktaður og heyfengur ekki 100 hestar.
Nú hefur Vilhjálmur 20 kýr á Rauðará, eða fleiri, og hesta. Allmikið erfðafestuland hefur hann keypt til viðbótar og fengið mælt sjer hjá bæjarstjórn. Slægnaland á hann og uppi á Elliðavatni. Heyskapur heima er orðinn 5—600 hestar. Hann mun hafa sljettað hjer syðra einar 35 dagsláttur; mest er það sáðsljettur hin síðari ár. Nytina í sumar bætti hann við 3 dagsláttum. Nú er Þorlákur sonur hans fyrir búinu. Hann gekk fyrir 8 árum síðan á landbúnaðarskóla í Danmörku, og segir Vilhjálmur, að sá námskostnaður hafi komið inn á einu ári. Kýrnar bættu það við sig, er betur var kunnað með að fara. Þorlákur hefur um allmörg ár sett í Búnaðarritið fóður- og mjólkurskýrslur frá Rauðará, og sýna þær að kýrnar hafa gert gott gagn. Alt er það af aflafje á Rauðará, að Vilhjálmur hefur reisl hið mikla og vandaða íveruhús sitt, sem myndin er af hjer í blaðinu. Það var reist sumarið 1908. Öll eru húsin virt 28,000 kr. Alt er það dropinn úr kúnum. Nú mun það rjett samhljóða dómur og reynsla þeirra hjer í bæ, sem stundað hafa kúarækt með nýju og nýju fólki hvert árið, að vart hafi svarað kostnaði, og er það ljóst dæmi þess, hvaða munur er á því að kunna með að fara og ekki.
Rauðará
Búnaðarmálaritgerð á Vilhjálmur í 18. ári Búnaðarritsins: »Nýir siðir með nýjum tímum«, og þótti greinin bæði viturleg og stórhuga.
Sá, sem þetta ritar, spurði Vilhjálm, hverju hann þakkaði það, að honum hefur búnast svo vel um dagana. Hann hugsaði sig dálítið um, og sagði ekki annað en það: »Jeg hef tímt að bera á«.
Vilhjáhnur ljek sjer að því í Kaupangi á yngri árum að slá dagsláttuna í túni á 6 klukkustundum, svo var kappið og fjörið.
Heldur leiddi Vilhjálmur hjá sjer almenn mál. En margir leituðu ráða og liðs hjá honum. Og varla var annar bóndi vinsælli í Eyjafirði. Eldri dóttir þeirra hjóna, Þóra, er gift Stefáni bónda Jónssyni á Munka-Þverá í Eyjafirði. Laufey er kennari í Reykjavík. Elstur sona hans er Halldór skólastjóri á Hvanneyri.“

Rauðará

Rauðará – Myndin sýnisr bílinn Re-24 og prúðbúið fólk á ferð, árið 1924, á bak við er Gasstöðin og nær er Laugavegur og brú yfir Rauðarárlæk; „Hlemmur“.

Í Heimsmynd 1990 segir frá „Stórbóndanum á Rauðará og syninum á Hvanneyri„: „Þá er komið að bróður Þórhalls Bjarnarsonar biskup og afkomendum hans sem ekki hafa verið taldir upp til þessa. Hann var Vilhjálmur Bjarnarson (1845-1912) bóndi á Rauðará í Reykjavík. Vilhjálmur lærði smíðar hjá Tryggva Gunnarssyni, síðar bankastjóra, og koma þar til enn ein tengsl Laufásfjölskyldunnar við þann merka mann. Hann sigldi til Kaupmannahafnar og lærði þar einnig málun og málaði nokkrar kirkjur nyrðra eftir að hann kom heim. Sumarið 1872 kvæntist Vilhjálmur Sigríði, dóttur Þorláks prests á Skútustöðum Jónssonar, en hann var einn hinna þekktu Reykjahlíðarsystkina sem Reykjahlíðarætt er talin frá. Fimm árum síðar reistu þau bú í Kaupangi í Eyjafirði og fékk hann þá verðlaun fyrir búnaðarframkvæmdir.
Vilhjálmur keypti Rauðará í útjaðri Reykjavíkur árið 1893 og gerði það að stórbýli á íslenskan mælikvarða, rétt eins og Þórhallur biskup, bróðir hans, Laufás. Hin glæstu hús á Rauðará stóðu þar sem nú er Frímúrarahöll við Borgartún, rétt við endann á Rauðarárstíg.
Rauðará
Vilhjálmur og Sigríður áttu fjögur börn en auk þeirra átti Vilhjálmur eitt utan hjónabands. Elstur var fyrrnefndur Halldór Vilhjálmsson (1875-1936) skólastjóri á Hvanneyri. Hann var búnaðarfræðingur frá Landbúnaðarskólanum í Kaupmannahöfn, en skólastjóri og jafnframt stórbóndi á Hvanneyri 1907 til dauðadags. Halldór gerði miklar kröfur til sín og nemenda sinna en kjörorð hans var: „Hollur er heimafenginn baggi“. Þess vegna voru nægtir matar í búrunum á Hvanneyri. Sagt var um skólastjórann að hann ætti viðkvæma lund undir harðri skel. Kona hans var Svava Þórhallsdóttir, frænka hans, eins og áður sagði.“

Í bókinni „Strand Jamestown“ segir Halldór Svavarsson frá því að „timbrið úr Jamestown hafi einnig verið notað í brýr, en mismikill metnaður var í smíði þeirra eins og gengur. Þannig voru plankar lagðir yfir Rauðará, svo að brúin líktist í raun eins konar hlemmi. Upp frá því var sú brú kölluð Hlemmurinn. Það heiti festist í hugum Reykvíkinga og er það nú eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur, samanber Hlemmtorg“.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 273. tbl. 12.12.1981, Hundrað ára minning Þorláks V. Bjarnar, síðasta bóndans á Rauðará eftir Gunnar M Magnúss, bls. 50-51.
-Óðinn, 4. tbl. 01.07.1909, Vilhjálmur Bjarnason, bls. 25-26.
-Heimsmynd, 4. tbl. 01.05.1990, Stórbóndinn á Rauðará og sonurinn á Hvanneyri, bls. 95-96.
-Hamar, jólablað des. 2021 – Hús í Hafnarfirði byggð úr timbri strandaðs skips – Halldór Svavarsson (Strand Jamestown), bls. 6.
Rauðará