Í Lesbók Morgunblaðsins 1955 fjallar Árni Óla um Garðakirkju á Álftanesi, sem “Bráðum fer að rísa úr rústum“:
“Garðar á Álftanesi eru ekki taldir með landnámsjörðum, en þó mun hafa verið sett byggð þar þegar á landnámsöld. Jörðin er í landnámi Ásbjarnar Özzurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og eftir því sem næst verður komizt, hét sá Þjóstarr, er þar bjó fyrstur. Hann var kvæntur Iðunni dóttur Molda-Gnúps, landnámsmanns í Grindavík, og er talið að þau hafi átt þrjá sonu. Einn þeirra var Þorkell, er fór einhver fyrstur manna hér á landi alla leið suður til Miklagarðs, dvaldist þar nokkur ár og var „handgenginrt Garðskonunginum.”
Annar sonur Þjóstars var Þormóður, er bjó að Görðum eftir föður sinn. Hann var kvæntur Þuríði dóttur Avangurs hins írska, er fyrstur byggði að Botni í Hvalfirði, og smíðaði sér haffært skip úr skógi þeim er þar var þá. Getið er tveggja barna þeirra Þormóðar, Barkar er átti Hallvöru dóttur Odda Ýrarsonar, og Jórunnar. — Landnáma segir frá því, að þeir Illugi rauði og Hólm-Starri hafi haft skifti á jörðum, konum og lausafé. Sigríður kona Illuga hengdi sig þá í hofinu á Hofstöðum í Reykholtsdal, „því að hún vildi ekki mannakaupið”. Ekki er getið um konu Starra, en líklega hefur hann tekið hana aftur þegar þannig fór um Sigríði, því að upp úr þessu fekk Illugi Jórunnar frá Görðum.
Um þessar mundir bjó i Vælugerði í Flóa sá maður er Öra hét. Svo er sagt að eftir ráðum Marðar gígju hafi hann orðið sekur þannig að hann skyldi falla óheilagur fyrir sonum Önundar bílds, nema í Vælugerði og örskotshelgi við landeign sína. Einu sinni rak Örn naut úr landi sínu og var þá veginn, og héldu allir að hann hefði fallið óheilagur. En Þorleifur neisti bróðir hans, keypti af Þormóði Þjóstarssyni í Görðum, er þá var nýkominn út á Eyrarbakka, að hann helgaði Örn. „Þormóður skaut þá skot svo langt af handboga, að fall Arnar varð í örskotshelgi hans”.
Má á þessu sjá, að Þormóður hefur verið íþróttamaður og nafnkunnur bogmaður. Synir Þjóstars hafa því þegar gert garðinn frægan, þótt ekki fari af þeim neinar sögur.
Og allt frá þeim tíma hafa Garðar verið merkur staður. Kirkja hefur sennilega verið reist þar skömmu eftir kristnitöku. Var hún helguð Pétri postula og er til skrá um presta þar síðan 1284. Þar var í gamla kirkjugarðinum svonefndur „vökumaður”. Var það trú hér á landi um eitt skeið, að sá, sem fyrstur væri grafinn í kirkjugarði, rotnaði ekki, heldur héldi stöðugt vörð um garðinn. Segir sagan, að eitt sinn er verið var að taka gröf í útnorðurhorni kirkjugarðsins, áður en hann væri færður inn”, þá var komið niður á rauðklæddan mann, órotinn, og skipaði prestur að byrgja gröfina þegar. Þetta hefur átt að vera einhver fornmaður í litklæðum, og hann vakir enn yfir kirkjunni, sem nú er líka utangarðs.
Torfkirkja var í Görðum öld fram af öld. En um miðja fyrri öld er komin þar timburkirkia. Hún entist illa og var orðin óhæf til messugerðar 1878. Þá var Þórarinn Böðvarsson prestur að Görðum. Hann vildi að söfnuðurinn tæki að sér kirkjuna og flytti hana til Hafnarfjarðar, en þar var þá meginhluti safnaðarins. Sóknarnefndin mun ekki hafa treyst sér til þessa, og varð það því úr, að ný kirkja var reist að Görðum og var hún hlaðin úr steini.
Þykir mér líklegt að notað hafi verið kalk úr Esjunni til þess að líma grjótið saman. Var kalkbrennslan í Reykjavík þá í fullum gangi, og þeir munu hafa verið vel kunnugir Egill Egilsen forstjóri kalkbrennslunnar og séra Þórarinn Böðvarsson. Kirkja þessi var reist árið 1879. Þótti hún merkilegt hús.
Þegar kom fram yfir aldamótin var farið að tala um það í fullri alvöru að reisa nýja kirkju í Hafnarfirði, og var séra Jens Pálsson því mjög fylgjandi. Hann átti þá 2500 kr. hjá kirkjunni, en bauðst til þess að láta þá skuld falla niður, ef söfnuðurinn vildi taka kirkjuna að sér og reisa nýtt guðshús í Hafnarfirði. Varð það svo úr, að með samningi gerðum 6. marz 1910, afhenti hann sóknarnefnd Garðakirkju til umsjónar og fjárhalds, og með þessum samningi gaf hann eftir skuld kirkjunnar við sig.
Eigi varð þó úr því þá þegar að farið væri að reisa kirkju í Hafnarfirði. En það sem reið baggamuninn í því efni var stofnun fríkirkjusafnaðar í Hafnarfirði veturinn 1913, og að hafin var bygging fríkirkju þar þegar á sama ári. Þá vildi þjóðkirkjusöfnuðurinn ekki láta sitt eftir liggja og reisti þar kirkju árið eftir. Var þá ákveðið að leggja Garðakirkiu niður og flvtja gripi hennar í nýju kirkjuna.
Þykir rétt að birta hér skrá yfir þá gripi, er Hafnarfjarðarkirkja fekk hjá Garðakirkju: Altaristafla (olíumálverk af upprisu Krists), harmoníum, skírnarfontur úr nýsilfri á tréfæti, tvö sálmanúmeraspjöld með tölum, 16 kerta ljósahjálmur úr látúni, 8 kerta ljósahiálmur kominn frá dómkirkjunni í Reykjavík, 6 kerta ljósahjálmur, 4 kerta glertalnahjálmur, tvær þríarmaðar ljósliljur úr látúni, 9 þríarmaðar ljósaliliur frá dómkirkjunni í Reykjavík, þrennir altarisstjakar og fvlgdu þeim tvö kertahvlki úr piátri, kirkjukaleikur úr silfri með patínu úr sama efni, oblátudósir úr nýsilfri, lítill þjónustukaleikur úr nýsilfri með tréhylki, lítill gamall þjónustukaleikur úr tini o. fl.
Auk þessa voru öll altarisklæði, gömul og ný, og ennfremur graftól.
Inni í kirkjunni að Görðum voru 8 minningarspjöld á veggjum. Þau voru ekki flutt til Hafnarfjarðar, heldur í Þjóðminjasafnið og eru nú geymd þar. (Á safninu er einnig fjöldi gripa frá Garðakirkju).
Seinasta guðsþjónusta var haldin í Garðakirkju 23. sunnudag eftir trinitatis 1914 (15. nóvember), en þjóðkirkjuna nýju í Hafnarfirði vígði Þórhallur Bjarnarson biskup 20. desember sama ár. Kom nú til orða að selja Garðakirkju til þess að afla fjár vegna kirkjubyggingarinnar, en það fórst þó fyrir.
Stóð nú Garðakirkja auð og hrörnaði óðum, svo að blöskraði öllum þeim, sem báru hlýjan hug til hennar. Og árið 1916 bundust 10 menn samtökum um að bjarga kirkjunni. Það voru þeir: Ágúst Flygenring kaupmaður, Carl Proopé kaupmaður, Chr. Zimsen umboðsmaður, Einar Þorgilsson kaupmaður, Gunnar Egilsson skipamiðlari, Jes Zimsen kaupmaður, Jón Einarsson verkstjóri, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason verkstjóri og Þórarinn Egilsson útgerðarmaður. Eru þeir nú allir látnir, nema hinn síðastnefndi. Einhver viðgerð fór nú fram á gömlu kirkjunni, en dugði lítt.
Tímans tönn gnagaði viði kirkjunnar jafnt og þétt, þótt lítið bæri á. Seinast var svo komið, að menn óttuðust að turninn mundi hrynja. Þá var hann rifinn, þakið tekið af og allt rifið úr kirkjunni innan veggja. Síðan hefur steintóttin staðið þarna gnapandi um langa hríð, en hún hefur látið furðu lítið á sjá. Vindar hafa gnauðað á henni, regnið hefur lamið hana, frost og snjór hafa kreist hana köldum greipum, en hún stóðst allt þetta. Má á því sjá hve vel hefur verið gengið frá veggjunum. Eru þeir og snilldar vel hlaðnir, og skyldi steinninn hafa verið límdur með kalki úr Esjunni, þá þarf engan að undra þótt kirkjurústin hafi staðið af sér öll veðraáhlaup um mörg ár, því að það kalk hefur reynzt óbilandi. Sama sumarið og Garðakirkja var reist, var reist steinhús í Reykjavík og límt með Esjukalki. Það stendur enn í Lækjargötu og sér ekki nein ellimörk á því, enda þótt það sé 75 ára gamalt. Eins hefði kirkjan getað staðið enn hnarreist og tíguleg, ef henni hefði verið sómi sýndur.
Þótt marga tæki það sárt hvernig fór um Garðakirkju, þá var eins og örlög hennar væri orpin þögn og hyldist í einhverri móðu. Það var engu líkara en að Hverfisdraugarnir sem séra Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum, setti niður í Stíflishólum á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Garða fyrir tvö hundruð árum, hefði losnað og villtu nú mönnum sýn hálfu meir en þeir höfðu áður gert. Það var eins og aðalsöfnuðurinn, sem nú átti heima í Hafnarfirði, gæti ekki séð út að Görðum. En öldruðu fólki úr Garðahverfinu, sem fór til kirkju inn í Hafnarfjörð, vöknaði jafnan um augu er það gekk fram hjá rústum Garðakirkju.
Nú er niðurlægingar tímabil gömlu Garðakirkjunnar senn á enda. Hún verður bráðum færð í sinn fyrra búning.
Árið 1053 var Kvenfélag Garðahrepps stofnað, og á stofnfundi þess var þegar rætt um, að eitt af því sem félagið ætti að beitast fyrir, væri að reisa Garðakirkju úr rústum. Síðan hafa 60 samhuga konur unnið að þessu í kyrrþey.
Og þar sem konurnar leggjast á sveif, á við gamla vísan: Fram skal ganga haukur núna hvort hann vill eður ei. Hér mun og svo fara. Það er eins og sérstök blessun hafi fylgt þessu máli. Fjöldi manna, sem ber hlýjan hug til Garðakirkju, en hafði gleymt henni, hefur nú vaknað við, er konurnar voru komnar á stað, og ýmist lagt fram fé, eða lofað fé til viðreisnar kirkjunni. Aðrir munu á eftir koma. Og sóknarnefndin hefur þegar afhent félaginu kirkjurústina til eignar. Konurnar hafa fengið sérfróða menn til þess að athuga veggina til þess að ganga úr skugga um, að þeir sé enn svo sterkir að forsvaranlegt sé að byggja ofan á þá. Og veggirnir hafa staðizt prófið.
Verður nú brátt hafizt handa um að gera við veggina og koma þaki á kirkjuna. Er það ætlan Kvenfélagsins að gera kirkjuna aftur sem allra líkasta því er hún var áður, meðan hún var ein af snotrustu og merkilegustu kirkjum landsins. En þegar því er lokið er það annarra en Kvenfélagsins að ákveða hvort hún skuli gerð að sóknarkirkju aftur.
Margar minningar eru bundnar við Garða, og sú ekki sízt, að þar fæddist Jón biskup Vídalín árið 1666. Finnst mönnum ekki eðlilegt að kirkja ætti að vera einmitt á þeim stað, þar sem áhrifamesti kennimaður Íslands fæddist?
Garðakirkja var upphaflega helguð Pétri postula, þeim mikla kennimanni frumkristninnar. Nú þegar hún rís af grunni aftur, þá mætti hún vel heita Vídalínskirkja.” -Á.Ó.
Í Fálkanum 1961 fjallar Sv.S um “Nútíma krossfara á Álftanesi” og endurbyggingu Garðakirkju:
“Fálkinn heimsækir hóp erlendra sjáffboðaliða sem vinna í sumar vii að byggja upp Garðakirkju á Álftanesi.
Þeir, sem að undanförnu hafa átt leið fram Garðaholtið, hafa vafalaust tekið eftir framkvæmdum, sem nú eru hafnar við hina gömlu Garðakirkju. Þarna vinnur flokkur fólks frá fjórum löndum, og flest er fólkið komið langt að. Og þau sem þarna vinna, gera það ekki vegna vonarinnar um jarðneskan auð. Allt eru þetta sjálfboðaliðar, en fá húsaskjól og mat í samkomuhúsinu á Garðaholti.
Þegar við fórum þarna suðureftir fyrir nokkrum dögum, var heldur kalt í veðri, en vinnufólkið stóð snöggklætt við mokstur og akstur og það ríkti áhugi og starfsgleði. Stúlkurnar voru í meirihluta. Þær kepptust við að moka möl í hjólbörur, sem piltarnir óku, og í því að okkur bar að kom Hermann Ragnars danskennari, með fullar hjólbörur á fleygiferð, ók upp mjóan planka inn í kirkjuna og kom að vörmu spori með tómar börurnar út aftur. Meðan mokað var í börurnar hans, notuðum við tímann til spjalls.
—Hér vinnum við tuttugu og níu að viðgerð á kirkjunni, sagði Hermann, og þetta er fólk úr ýmsum áttum, fimmtán Bandaríkjamenn, sex Englendingar, einn frá Kanada, og svo erum við sjö Íslendingar.
— Hver kostar ferðir fólksins hingað?
— Hver og einn kostar sig sjálfur og margir eru komnir langt að. Bandaríkjafólkið hafði t. d. ekki sézt fyrr en í New York. Sama er að segja um Bretana. Þeir þekktust ekki fyrr en í ferðinni. Við, sem hér erum, búum öll í samkomuhúsinu hér á Garðaholti meðan á þessu stendur. Dagurinn er skipulagður, vinna og hvíldarstundir og alls vinnum við sjö tíma á dag. Fólkið, sem hér vinnur, er allt mótmælendatrúar, og ekki í neinum sértrúarflokki þar utan. Mér virðist það gera sér far um að fara eftir boðskap kristinnar trúar og hafa mjög heilbrigðar skoðanir.
Það er glatt og kátt, eins og æskufólki er lagið, og syngur og dansar á kvöldvökunum, sem við höfum öðru hverju.
Þetta sagði Hermann, og þá voru hjólbörurnar orðnar fullar og ekki til setu boðið. Ein stúlkanna, sem mokaði í hjá honum, er kona prests, sem gegnir líku starfi hjá æskulýðsráði kirkjusamtaka vestan hafs, og séra Bragi Friðriksson hér. Þetta var broshýr ung kona, frú Bash að nafni. Þau hjónin búa í Minneapolis. Þau ferðast mikið, sagði hún, og í fyrrasumar var maðurinn hennar lengst af í Noregi með vinnuflokk. Hún sagðist hafa mjög gaman af að dvelja hér og vinna við gömlu kirkjuna, — margháttað samstarf og svo hafði hún farið niður í Hafnarfjörð 17. júní, á þjóðhátíðina.
— Ég hélt, að landið væri allt hraun og grjót, því þegar við komum af flugvellinum, fórum við yfir svo hrjóstrugt land. En svo er þetta allt öðruvísi, og ég er hrifin af landinu.
Lengra varð samtalið við prestsfrúna ekki, því að hár og grannur Breti, Richard að nafni, kom með sínar hjólbörur tómar, og stúlkurnar tóku til við moksturinn.
— Hvernig komuð þið Bretarnir hingað til lands?
— Við komum með skipi, Gullfossi. Uss, það var ljóta ferðalagið. Maður gubbaði allan tímann.
— Þú ert kannske ekki laus við sjóriðuna ennþá?
— Ég var alveg voðalega veikur. Hugsaðu þér það, að þegar við sáum Ísland rísa úr sæ, þá ruggaði það, – eða svo fannst mér.
— Eru nokkrar svona kirkjur í þínu heimalandi?
— Það held ég ekki, sagði Richard og varð hugsi. Það er annars skrítið hvernig þið byggið hús hérna á Íslandi, allt úr steinsteypu. Hvers vegna gerið þið það?
— Úr hverju ættum við annars að byggja?
— Úr múrsteini, auðvitað.
— Það er ekki nógu sterkt, og hús eins og þið byggið í Englandi, eru köld.
— Hvernig datt þér annars í hug að fara til Íslands í fríinu?
— Ég hef lesið dálítið um Ísland. Las t. d. stríðssögu Churchills og sitthvað í blöðum og tímaritum.
Við vesturgafl Garðakirkju var hópur manna að grafa. Þar á að byggja turn, og undir honum á að vera kyndiklefi.
Þar stóð Gary með skóflu í hönd og kunni auðsjáanlega tökin á því, sem hann var að gera.
— Ég á heima í Norður-Dakota, pabbi er bóndi og ég vinn alltaf heima á sumrin, milli þess sem ég er í skóla.
Gary vissi talsvert um Ísland áður en hann kom, og hafði m. a. gert tilraun til að hitta Richard Beck áður en hann lagði upp í ferðina. Eftir að hafa unnið um tíma við Garðakirkju, ætlaði Gary ásamt okkrum öðrum úr hópnum, til Norðurlanda, þar sem hann á ættingja, og það sama er að segja um Georg Engdahl frá Spokane í Washington ríki. Þeir eru báðir um tvítugt og þykir gaman að ferðinni.
— Ég bjóst við að eiga í erfiðleikum með að sofna á kvöldin í allri þessari birtu, sagði George, en svo er maður þreyttur eftir dagsverkið og þetta gengur bara vel. Þetta er annars undarlegt, að líta út klukkan ellefu á kvöldin, og það er næstum því sólskin. Það er varla að maður trúi sínum eigin augum.
Uppi á vinnupalli við suðurhlið kirkjunnar sátu fjórar stúlkur og losuðu gamla og lausa múrhúðun. Ragna Jónsdóttir sat á endanum og hamraði svo, að grjótið flaug í allar áttir.
— Þú ert þó ekki að brjóta niður kirkjuna?
— Hún verður bara betri á eftir.
— Er gaman að vinna hérna?
— Já, mér finnst það alveg stórfínt. Maður æfist svo vel í enskunni innan um alla þessa útlendinga. Þetta er líka gott fólk og góður andi.
— Ert þú í skóla?
— Já, í verknáminu.
— Hvað ertu gömul?
— Sextán, rétt bráðum.
— Hefurðu ekki reynt að kenna þeim íslenzku?
— Jú, þau geta sagt allt nema rababari!
Næst Rögnu sat Jane, átján ára, frá London.
— Ert þú lofthrædd þarna uppi?
— Ekkert að ráði. Þetta er ekki svo hátt.
— Komst þú með Gullfossi?
— Já, og var sjóveik.
— Hvað ætlið þið frá Englandi að vera hér lengi?
— Vitum það ekki nákvæmlega, líklega mánuð.
Og svo kom röðin að Myrna Hall. Hún er frá Seattle á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna, 23 ára og barnakennari að atvinnu.
— Þú ert kannske til í að hætta kennslunni og leggja fyrir þig byggingavinnu eftir þetta?
— Þetta er ágætt, en ég fer varla í það heima.
— Ætlar þú áfram til Norðurlanda?
— Já, auðvitað. Ég á fullt þar af frændfólki. Pabbi er sænskur og mamma norsk.
Við austurgaflinn voru nokkrra stúlkur að vinna. Þær hreinsuðu mosann, sem vaxið hafði upp á vegginn.
Rosin, nítján ára, frá Suður-Wales í Englandi, sagðist ekkert hafa verið sjóveik á Gullfossi, enda þetta ekki hennar fyrsta sjóferð. Rosin hefur ferðazt víða með foreldrum sínum, m. a. verið á Ítalíu, Hollandi og Frakklandi. Hún sagðist vera ákveðin í að fara norður, og þá helzt að Mývatni.
Ekki sagðist hún hafa vitað mikið um Ísland áður en hún kom hingað, en þó hafði verið mikið skrifað um landið meðan stóð á „Þorskastríðinu”.
— Ég hef alltaf verið löt að læra landafræði í skólanum, það er miklu betri landafræði að ferðast og sjá þetta sjálf, heldur en að lesa leiðinlegar bækur.
Sally Timmel frá Oconomowac í Wisconsin var næst Rosin í slagnum við mosann.
— Hvað þýðir nafnið á bænum þínum?
— Það veit ég ekki, þetta er Indíánamál.
— Hvenær datt þér í hug að fara til Íslands?
— Ég var ákveðin í að komast til Evrópu, og því þá ekki að byrja á Íslandi. Ég ætla að ferðast hérna um og mig langar til að sjá hverina.
— Þú hefur auðvitað haldið að við byggjum hér í snjóhúsum og kirkjan, sem þú ætlaðir að vinna við, væri úr ís?
— Nei, svo slæmt var það ekki, sagði Sally og hló við.
Rétt í þessu kom piltur hlaupandi ofan frá samkomuhúsinu, og mér datt í hug, að hann hefði sofnað eftir matinn og orðið of seinn. Það kom hins vegar í ljós, að Bob hafði verið í uppvaskinu.
— Er gaman að vinna í eldhúsinu?
— Nei, miklu betra að vinna úti.
– Verður þú lengi hér á landi?
— Nei, ekki mjög lengi. Ég er í skóla og verð að fara heim og nota síðari hluta skólafrísins til að vinna fyrir peningum til vetrarins.
Bob hafði, eins og fleiri, heyrt um Mývatn og um heitu gjána, þar sem maður getur farið niður í jörðina og synt í volgu vatninu. Hann sagðist iðka sund og knattleik í frístundunum og að sér þætti mjög gaman að vera hér í þessum vinnuflokki.
Séra Bragi Friðriksson, sem stjórnar framkvæmdum við Garðakirkju, sagði frá tildrögum þess, að þessi útlendu ungmenni komu hingað til uppbyggingarstarfsins.
Bragi sagðist hafa kynnzt starfsemi æskulýðsráða vestan hafs og hafa kynnzt nokkrum framámönnum mótmælendasafnaða í Bandaríkjunum og Kanada. Nú væri hafið margháttað samstarf í þessum efnum milli stofnana beggja megin hafsins og koma Bandaríkjamannanna og eins Bretanna, væri einn þáttur þess.
Séra Bragi sagði, að vinnan við kirkjuna gengi mjög vel og þetta væri úrvalsfólk. Þá sagði hann, að auk þessara sex Breta, væru hér nokkrir aðrir, sem ynnu sumarlangt, m. a. tveir við skátaskólann á Úlfrjótsvatni og einn við drengjabúðirnar í Reykholti.
Áður en langt líður, verður lagður nýr vegur að Garðakirkju. Hún mun nú á ný komast til þess vegs og virðingar, sem hún naut fram til ársins 1912, en þá var Hafnarfjarðarkirkja vígð, og eftir það var Garðakirkja lítið notuð.
Fyrir nokkru síðan var ekki annað fyrirsjáanlegt, en að þessi gamla kirkja yrði eyðileggingunni að bráð.
Er ég kvaddi þennan alþjóðlega vinnuflokk og hélt á braut, hljómuðu hamarshöggin og glaðværir hlátrar fólksins.
Hér áður fyrr fóru krossferðariddarar um lönd, brennandi og drepandi. Hér voru hins vegar krossfarar, sem komnir voru um langan veg til að byggja upp.” – Sv. S.
Í Morgunblaðinu 22. mars 1966 er sagt frá endurvígslu Garðakirkju undir fyrirsögninni: “Meistara Jóns minnzt um land allt á sunnudag – Garðakirkja á Álftanesi endurvígð í tilefni þriggja aldar minningar hans“.
“Meistara Jóns Vídalíns var minnzt með guðsþjónustu í öllum kirkjum landsins sl. sunnudag, en 300 ár eru liðin frá fæðingu hins mikla kennimanns og ræðuskörungs. Þá var minningarathöfn í hátíðasal Háskólans síðar um daginn. Flutti dr. Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor þar erindi um Vidalin og guðfræðistúdentar sungu undir stjórn dr. Róberts A. Ottóssonar. Kl. 9 um kvöldið var haldin hátíð í Skálholtskirkju, sem helguð var minningu Vídalins. Biskup Íslands, hr. Sigurbjörn Einarsson, endurvígði Garðakirkju á Álftanesi þennan dag í tilefni þriggja aldar minningar meistarans.
Mikið fjölmenni var við endurvígslu Garðakirkju á Álftanesi. Voru þar viðstaddir éllefu prestar Kjalarnessprófastsdæmis, auk fyrrverandi biskups, Ásmundar Guðmundssonar. Gengu prestar og biskupar í skrúðgöngu til kirkjunnar ásamt sóknarnefnd. Vígsluvottar voru sr. Garðar Þorsteinsson sóknarpresturinn, sr. Björn Jónsson úr Keflavík, sr. Kristinn Stefánsson og sr. Bjarni Sigurðsson Mosfelli. Fyrir altari þjónuðu biskupinn og sr. Garðar Þorsteinsson. Eftir vígsluathöfnina hélt formaður sóknarnefndar, Óttar Proppé, ræðu í félagsheimili sveitarinnar á Garðaholti, og rakti bygginga sögu kirkjunnar.
Garðakirkja á Álftanesi var byggð árið 1879, að tilhlutan sr. Þórarins Böðvarssonar. Var hún þá með veglegustu kirkjum á landinu. Árið 1914 var hún síðan lögð niður og stóð ónotuð og vanrækt í 52 ár.
[Árið] 1953 hóf kvenfélag sveitarinnar endurbyggingu og viðreisn kirkjunnar og 1960 var sérstök sókn mynduð þarna að nýju og leit sóknarnefndin á það, sem höfuðverkefni sitt að endurreisa kirkjuna. Arkitekt við endurbygginguna var Ragnar Emilsson og kirkjusmiður Sigurlinni Pétursson. Ragnar Emilsson arkitekt teiknaði einnig altari, skírnarfont og predikunarstól og smíðaði þau Friðgeir Kristjánsson Selfossi, en Ríkarður Jónsson myndhöggvari skar þau út. Er predikunarstóllinn helgaður minningu meistara Jón Vídalíns og setning úr einni ræðu hans skorinn í hann.
Á hátíðinni í Skálholtskirkju flutti dr. Steingrímur J. Þorsteinsson erindi um Jón Vídalín. Biskupinn las upp úr verkum hans og dr. Róbert A. Ottósson stjórnaði söng Skálholtskórsins og guðfræðistúdenta, forsöngvari var Kristinn Hallsson. Þá var almennur söngur og bænagjörð, sem sóknarpresturinn í Skálholti, sr. Guðmundur Ó. Ólafsson, annaðist.
Þess má geta, að dr. Steingrímur J. Þorsteinsson prófessor, flutti í útvarp erindi í tveimur hlutum um líf og starf meistara Jóns. Fyrri hlutinn var fluttur á sunnudagskvöld og nefndist Ævi og Athafnir. Seinni hlutinn var fluttur í gærkvöldi, og nefndist Kennimaðurinn.”
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl 25.09.1955, Árni Óla, Garðakirkja á Álftanesi fer bráðum að rísa úr rústum, bls. 519-521.
-Fálkinn, Nútíma krossfarar á Álftanesi, Endurbygging Garðakirkju, 26. tbl 05.07.1961, bls. 6-9.
-Morgunblaðið 22. mars 1966, Garðakirkja endurvígð, bls. 21.