Tag Archive for: Gapi

Vörðufell

Á leið að Strandarhæð var komið við í tóttum bæjarins Fell í Krýsuvík. Tóttirnar eru í gróinni kvos skammt sunnan við Grænavatn, í hæðinni þar sem hún halar til vesturs.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Á Strandarhæð var byrjað á því að skoða Bjargarhelli, helli þann er Selvogsbúar ætluðu að dyljast fyrir Tyrkjum, ef þeir snéru aftur. Skammt austan hans er Gapið, rúmgóður fjárhellir. Umhverfis hann er gerði, Gapstekkur, en umhverfis gerðið er annað ytra gerði. Frá Gapinu var gömlu þjóðleiðinni fylgt þangað til komið var á móts við Strandarhelli. Hann er í norður frá götunni. Hellirinn er gamall fjárhellir, stærstur þeirra, í stóru fjarðfalli. Umhverfis jarðfallið hafa verið hlaðnar miklar hleðslur og umhverfis þær eru vítt hlaðið gerði. Þegar komið er ofan í gróið jarðfallið eru hleðslur fyrir hellismunnanum. Skammt norðan af hellinum er hlaðið stórt gerði umhverfis hól. Þaðan blasir Vörðufellið við. Haldið var í átt að því, en skammt sunnan fellsins er Ólafarsel, mjög gamalt sel í grónum hraunkrika Vörðufellshrauns. Skammt austan við selið er hlaðinn stekkur utan í kletti.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Á Vörðufelli er Markavarða, landamerkjavarða. Undan henni er fornt krossmark á jarðföstum steini. Marks þessa er getið í mjög gömlum heimildum, en þá sem stafurinn „M“. Ástæðan er sprungur í steininum beggja vegna krossins. Ofar eru Smalavörðurnar, en þeim fylgdi sú þjóðtrú að hlæði smali vörðu á fellinu myndi hann umsvifalaust finna það sem týnt væri.
Á Vörðufelli er líka stór hlaðinn rétt, Vörufellsrétt. Norðan út af henni er hlaðinn leiðigarður. Réttin var lögð af seint á fjórð áratug 20. aldar og önnur nýrri þá hlaðinn ofan við Hellsholtið nokkru ofar í heiðinni.

Eimiból

Eimuból – hleðslu í helli.

Austan við Vörðufell eru þrjú sel. Fyrst er komið að Vindásseli, miklum tóttum á hól. Ofar er Eimuból á bakka jarðfalls. Hefur hellir, sem þar er verið nýttur sem fjárhellir, enda má sjá hringlaga hleðslur á og ofan við opið. Skammt sunnar, í grónu ílöngu jarðfalli, er forn tóft. Við það er fjárhellir. Í honum er hlaðinn stekkur.
Skammt austar er Skyrhellir í hraunhól, en þar var skyr seljafólks geymt fyrrum.
Frábært veður.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Eimuból

Gengið var í fylgd Guðmundar Óskarssonar upp frá Hásteinum eftir að tóttirnar undir þeim höfðu verið skoðaðar sem og LM-merkið á landamerkjasteini er skipti löndum Bjarnastaða og Þorkelsgerðis.

Bjarnastaðasel

Í Bjarnastaðaseli.

Komið var í Bjarnastaðaból og skoðaðar tóttirnar þar sem og hlaðinn stekkur vestan við selið. Selið hefur verið nokkuð stórt. Haldið var til vesturs að Þorkelsgerðisseli, en þar er m.a. að finna tóttir fimm húsa og hlaðinn stekk í hraunhól norðan við selið. Þá var lagt í ´ann til norðvesturs um Selvogsheiði, upp í Eimuból þar sem selið var skoðað, eldri tóttir í grónu jarðfalli sem og Eimuhellir. Einn hluti hans hefur verið notaður sem fjárskjól og í öðrum hluta eru miklar hleðslur. Sá hluti hellisins gæti hafa verið notaður við fráfærur og einng sem stekkur. Skammt austan við Eimuból eru tóttir Vindássels. Norðan þess er hlaðinn stekkur.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt.

Gengið var til suðurs á Vörðufell þar sem hin mikla Vörðufellsrétt var skoðuð. Þá var litið á Smalavörðurnar og krossmarkið í steini sunnan undir stóru Vörðufellsvörðunni. Strikið var loks tekið niður á Strandarhæð og komið við í Strandarhelli. Á leiðinni bættist tvennt í hópinn. Hringlaga hleðsla er allt í kringum jarðfallið á Strandarhelli og er hellirinn þar ofan í. Hlaðið gerði er í kringum hól norðvestan við hellinn og einnig er hlaðið stórt hringlaga gerði vestan og sunnan við jarðfallið. Norðan þess eru tveir stórir skútar í hraunhól.

Strandarhellir

Strandarhellir.

Strandarhellir var skoðaður vel og vandlega. Fyrirhleðslur eru á tveimur stöðum inn í honum. Hægt er að fara yfir hleðslurnar og skríða áfram inn eftir rásunum. Hægri rásin virðist vera vænlegri, en vegna bleytu á gólfum var ekki farið þangað innfyrir nú. Þægilegra er að gera það þegar gólfið verður orðið frosið í vetur. Hægra megin í hellinum er hleðsla fyrir mjórri hraunrás. Innan við hleðsluna beygir hún til hægri og stækkar. Hægt er að fara inn eftir rásinni, en eftir um 10-15 metra þrengist hún alveg og lokast. Í suðvestanverðu jarðfallinu virðist hins vegar hægt að komast inn undir hraunið og eitthvað áfram. Skríða þarf þar inn, en hvað tekur við þar fyrir innan er ómögulegt að segja. Þetta þarf einnig að skoða nánar.

Gapi

Gapi.

Strandarhellir er í um 15 mín. gangi frá þjóðveginum svo auðvelt ætti að vera að kíkja í hann aftur við tækifæri og þá með viðhlítandi búnað.
Komið var við í Bjargarhelli og hann skoðaður. Fyrirhleðslur eru í honum innanverðum á tveimur stöðum.
Loks var gengið niður á þjóðveg, framhjá Árnavörðu.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Ekki var komið við í Gaphelli að þessu sinni, en hann er u.þ.b. 300 metrum vestan við Bjargarhelli. Suðvestan við Bjargarhelli er hola í gróinn hraunhól og þar ofan í er skúti. Við opið er hraunhella. Sagan segir að í þennan skúta hafi Selvogsbúar ætlað að flyja ef Tyrkir létu sjá sig. Einnig eru tveir litlir skútar suðvestan af hólnum – Litli Skolli og Stóri Skolli.
Ljóst er að bæði Selvogsheiði og Strandarheiði hafa upp á fjölmarg forvitnilegt að bjóða þeim, sem það nenna að skoða.

Strandarhellir

Strandarhellir – uppdráttur ÓSÁ.

Selvogsgata

Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.

Selvogur

Selvogur – Þorkelsgerði.

Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.

Selvogur

Selvogur – Útvogsvarða.

Hestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.

Strandarhæð

Strandarhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.

Lestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.

Árnavarða

Árnavarða.

Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.

Selvogsgata

Selvogsgata – ÓSÁ.

Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.

Selvogsgata

Selvogsgata á Strandarhæð.

Kökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni ogmeð góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:

Strandardalur

Strandardalur.

Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar fjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.

Hlíðardalur

Tóft í Hlíðardal.

Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við. Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.

Dísurétt

Dísurétt.

Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað. Tilgangur vörðubyggingarinnar hefu vafalaust verið slá að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.

Sælubuna

Sælubuna í Standardal.

Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum.
Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.

Selvogsgata

Selvogsgata um Leirdali.

Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.

Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum.

Selvogsgata

Selvogsgata við Litla-Kóngsfell.

Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn.
Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar haf verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.

Selvogsgata

Selvogsgata – syðri hluti.

Hestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.

Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna. Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell. Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.

Selvogsgata

Selvogsgata vestan Setbergshlíðar.

Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.

Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu.

Selvogsgata

Selvogsgata – nyrðri hluti.

Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.

Þegar lest okkar er komin á norðurbrún Grindarskarða rétt ofan við Kerlingarskarð blasir við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell.

Kerlingarskarðsvegur

Efst í Kerlingaskarði. vegur sést vel neðra sem og drykkjarsteinninn í efra.

Og enn nær okkur hið mikla helluhraun sem verður illþyrmislega úfið neðan undir Kerlingarskarði. Það er í fyrsta sinn sem nú við 12 ára aldur lít augum hina kvöldfögru strandbyggð Faxaflóans og óraði ekki fyrir því að þar myndi um hálfraraldar skeið æfi minnar renna. Á háskarði höfðum við verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð.

Fyrir niðurgöngu Kerlingarskarðs er litið eftir klyfburði á hestum og gjarðir enn hertar. Við niðurgöngu var sýnt að gatan var vel valin í sveigum og nú vel rudd og vel tókst hinum vönu burðarhestum að spyrna framfótum sínum til móts við aðstæður. Lestinni farnaðist því vel niður aðalbrattann. En þá tók við úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Hér er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð, þar til mesti hallinn er að baki og við taka sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu á Strandartorfur.

Selvogsgata

Selvogsgatan – Hellur.

Þegar komið var niður Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í norðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Vífilsfelli.
Vel gekk lestarferðin niður Hellurnar og við taka lágholt eða hrauntungur með grasgeirum og moldarrofum. Hér eru því bithagar og væntanlega þess vegna kallaðir Kaplatótur (þunnar torfur). Af landslagi þessu taka við Strandartorfur sem taldar eru hafa tengst ítökum þeirra höfðingja er sátu Strönd í Selvogi fyrr á öldum.
Lestragatan liggur nú bugðótt yfri allvel gróið, gamalt helluhraun með Húsfellið reista á hægri hönd ó norðausturátt. Austanmegin þess liggur úfið, þykk hraunbreiða og sveigist suður fyrir fellið allt niður undir Mygludali þar sem það stöðvast í húm hraunkambi.

Mygludalir

Mygludalir.

Nú er kausptaðalestin komin niður úr gamalgróna hrauninu og niður í hina grösugu Mygludali er teygjast á átt til Búrfellsgjár. Þeir einkennast af nær sokknum hraunhólum niður í grassvörðinn. Hér var gjarnan áð á austurleið og klyfjar stundum teknar ofan en nú talin tímaeyðsla þar sem skammt var til ferðaloka. Þess vegna hélt lestin rakleitt áfram yfir dalina út á rauðamelinn slétta í átt til Valahnúka.
Valahnúkar eru norðaustur af Helgafelli og eru gróðurlausar svartmelhæðir með bergstrýtum uppúr. Norðan þeirra hefur fyrr verið gróið land í átt til Mygludala en er nú uppblásið. Norðan í vestasta Valahnúknum er vinalegur grashvammur er nær upp að helli inn í móberg og nefnist Músarhellir.

Valaból

Valaból.

Kaupstaðalestin er nú komin framhjá Valabóli og eftir nokkra hlykki á hestagötunni er hún komin á lágan melás er liggur til norðurs með grösugum brekkuhalla að sunnan sem endar niður í djúpum sérkennilegum dal. Þetta er Helgadalur með vinalegri tjörn vestast er nær upp að gjáarbergvegg. Hestagatan liggur niður brekkuna nyrst ú dalnum og kemur að nefndum bergveggofan við tjörnina. Þar liggur gatan upp hið illfæra klif upp á gjáarbergsbarminn. Þegar upp er komið tekur við slétt greiðfært helluhraun, Slétthraun.
Innan við stundarfjórðung var burðarlestin að komast yfir Séttuhraun sem markaðist vestanvert af Folaldagjá, ljótri sprungu í misháum gjáarvegg er lá í átt til Gjáarréttar í norðaustri. Þar allnokkru norðar Selogslestargötu reis upp allhár bergkambur vestan við gjána og ber nafnið Smyrlabúðir. Þar verptu smyrlar í áraraðir. Þegar burðarlestin var komin norðvestur yfir Folaldagjá tóku við uppblásin melholt og vel grónir lágmóar sunnan þeirra, ásamt kjarrbreiðum og nær bithagi þessi fram í átt til háhæðar Sléttuhlíðar.

Helgadalur

Helgadalur.

Brátt fer hið úfna apalhraun á hægri hönd að láta meira til sín taka en hestagatan fær möguleika til þess að liðast eftir vinalegum grasgeirum sunnan undir hrikalegum hraunjarðrinum á hægri hönd. Endaði þessi sérkennilega vegferð í þríhyrndi grasflöt er teygðist suður á vesturbrún Sléttuhlíðar. Þar lá gatan yfir allgróið hraun í átt til austurenda Setbergshlíðar og lá í hallanum niður að hlíðinni fast að Kershelli. Kershellir opnast til suðurs í er bolli með botngróðri er nær upp að lestargötu þeirra Selvogsmanna. Þar var talið að hraktir vegfarendur hafi leitað skjóls fyrr á tímum, sem og í Músarhelli Valabóla.

Setbergssel

Setbergssel.

Fleiri sigbollar með smáhellum eru sýnilegir á vinstri hönd á leið niður hallan frá Kershelli uns komið er niður á jafnlendið móts við austasta hluta Setbergshlíðar. Þar með hefst síðasti áfangi leiðarinnar eftir vel ruddri hestagötu milli hinar fögru kjarrivöxnu Setbergshlíðar á hægri hönd og Gráhelluhrauns á vinstri hönd en það er gamalgróið hraun, lungi og kjarri vaxið og geymir ótal hraunbolla grasi og skógi vaxna. Þar er einnig að finna minjar um sauðfjárbúskap Setbergsbænda.

Gráhella

Tóftir við Gráhellu.

Gráhelluhraun nær frá Setbergshlíð suður ap norðausturhlíðum Ásfjalls en það mjókkar og dulúð þess magnast er nær dregur byggð og á sín endimörk nyrst undir Hádegisholti (eyktamörk frá Setbergi).

Kaupstaðalestin úr Selvogi hefur nú að baki götuna ljúfu undir hinni fögru Setbergshlíð og slakkan norðvestan hennar og er nú undir nyrsta hluta Hádegisholts.
Þar má sjá hinar tæru bergvatns-uppsprettur sem streyma fram undan nyrsta hluta Gráhelluhrauns og verða að straumhörðum læk er hlykkjast milli hrauntungu og láglendis suðaustur af Setbergstúnjarðri uns hann mætir læk þeim sem rennur úr Urriðakotsvatni og fer síðan niður austan við Kaplakrika til suðausturs. Sameinaðir verða þeir að Hamarskotslæk er rennur til sjávar gegnum Hafnarfjarðarbyggð vestan Hamarsins.

Hamarskot

Hamarskot í Hafnarfirði – tilgáta.

Vegferð lestarinnar liggur frá Lækjarbotunum í átt til Mosahlíðar á vinstri hönd og fram hjá Hvíldarbörðum sem svo voru kölluð vegna þess að fyrri tíma Hafnfirðingar settust þar niður á göngu sinni með hrísbagga sína er ætlaðir voru til eldneytis. Síðar varð þarna hinn endanlegi hvíldarstaður þeirra, Kirkjugarður Hafnarfjarðar. Þar rétt neðar komum við að Selvogsgötu sem svo er nefnd vegna hinna fastmótuðu lestarferða Selvogsmanna vor og haust um aldir.

Nú er ljóst að við höfum verið rúma fjóra tíma á leið okkar úr Kerlingarskarði og þar með á tíunda klukkutíma úr Selvogi, að frádreginni áningu í Stóra-Leirdal.“

Tekið saman á síðsumri 1993 af Konráði Bjarnasyni.

Selvogsgata-601

Selvogsgatan við Litla-Kóngsfell.

Gapi

Tvö eru þau örnefni í Þingvallahrauni, sem einna erfiðast er að staðsetja af nákvæmni, þ.e. Gapi og Gaphæðaskjól, öðru nafni Hrauntúnsfjárskjól.
Tvennt kemur til; bæði Þingvellireru Gaphæðir nokkrum öðrum nálægum hæðum líkar og auk þess þarf að standa svo til á barminum á niðurfallinu (jarðfallinu) er nefnt hefur verið Gapi, til að koma auga á það og það þrátt fyrir stærðina. Talið er að hæðirnar dragi nafn af tvennur; annars vegar hinu mikla jarðfalli og hins vegar af því að á þeim hefur skógur aldrei þrifist. Um er að ræða sléttar mosavaxnar helluhraunshæðir. Aðrar slíkar hæðir, keimlíkar, eru skammt suðvestar. Á þeim eru vörður, en engar á Gaphæðum. Þó er varða skammt sunnan þeirra, skammt frá Gaphæðaskjólinu. Framangreint átti allt eftir að koma í ljós við nánari landkönnun á svæðinu, en hún hófst við Klukkuhólsstíg ofan Hrafnagjár.
Gengið var til norðurs ofan Hrafnagjár. Ofar voru Gildrur á Gildruholti, efsta brún Gildruholtsgjáar. Presthóll blasti við framundan. Áður en komið var að efstu brúnum var gengið fram á gat í hraunhól. Innar sást í slétt gólf. Meðfylgjandi ljós fann ekki veggi eða endimörk. Ekki var staðnæmst að þessu inni við þessa uppgötvun heldur mun hún bíða betri tíma. Hinni ókönnuðu rás var gefið nafnið Hrafnagjárhellir.
Stuttu síðar var komið upp að fyrrum þjóðgarðsgirðingarmörkum, austanlægum. Girðingin, sem er sú eldri og innri af tveimur. Hún hafði verið tekin upp fyrir einhverju síðan, en leifar hennar þarna fyrir fótum ferðalanganna – sóðalegt og ótilhlýðilegt að hálfu þjóðgarðsyfirvalda.
Það, sem venjulega er nefnt Þingvallahraun, takmarkast að austan af Hrafnagjá, að norðaustan af Mjóafellshraunum og Ármannsfelli, að norðvestan af Almannagjá og að suðvestan af Þingvallavatni. Þar sem staðið var á hæstu brún Hrafnagjár sást til allra framangreindra kennileita. Að því búnu hallaði götunni til norðurs – í átt að ákvörðunarstað.
ÞingvellirNyrðri Svínhóllinn var þá á vinstri hönd. Auðkenni er há og myndarleg varða efst á kollinum. „Nokkurn spöl suðaustur af Svínhólum eru fyrrnefnd Gildruholt. Þau eru á vesturtakmörkum Hrafnabjargaháls. Hallar frá þeim í allar áttir, nema austur, en eru hærri miklu Svínhólum. Þau eru á austurbarmi Gildruholtsgjár, sem byrjar í Gjábakkahrauni, skammt austur af Hallstíg, og heitir Bæjargjá þangað til vegurinn liggur yfir hana á móts við Gjábakkabæ; svo fær hún hitt heitið norður fyrir Gildruholt. Þar hverfur hún á dálitlum kafla, og heita þar Hlíðarflár. Bilið milli Hrafnagjár og Gildruholtsgjár heitir einu nafni Torfa. Gildruholtsgjá er að því leyti frábrugðin Hrafnagjá og Almannagjá, að vestri barmur hennar hefur sigið rétt niður með þeim eystri án þess að gjáin opnaðist nokkuð að ráði, svo að þar getur fremur kallast berg en gjá. Hlíðarflár eru dálítill blettur vestan í Hrafnabjargahálsi. Norður af þeim opnast gjá mikil, sem heitir Hlíðargjá, sést fyrir henni alla leið inn í Skjaldbreið, og heitir Söðulhólagjá fyrir norðan Prestastíg. Vesturbarmur hennar er að mestu eins og áðurnefndur Hallur, hann er hærri en hraunið að vestanverðu, og heitir Raftahlíð allt að Prestastíg.
Í GapaNorður af Svínhólum hallar hrauninu talsvert til norðurs og norðvesturs. Þar eru Gapahæðir, syðri og innri; á milli þeirra er skógarlítið svæði. Þar er hóll einn sérstakur, holur að innan, sem hæðirnar bera nafn af; ofan í hann er op stórt og heitir því Gapi.“
Gapi er rétt vestan við „girðingargötuna“. Á göngunni þangað var verið að vega og meta hvort hafði komið á undan; gatan eða girðingin. Líklegra var að girðingin hafi verið lögð með gamalli götu því hún liggur frá norðurtúnmörkum Gjábakka yfir að suðausturhorni Ármannsfells, eðlilegasta leið þeirra er þá lieð hafa þurft að fara.
Gapi er allnokkurt jarðfall. Í jöðrum þess eru góð skjól, einkum að austanverðu. Í því voru fúaspítur. Greinilegt var að gengin hafði verið eina leiðin niður í jarðfallið, að slútandi skjólunum. Gapi er í raun hið ágætasta skjól fyrir öllum veðrum á væntanlega fjölfarinni leið fyrrum.
Skammt sunnar eru grónar brekkur utan í lágum hæðum. Í einni þeirra er grunnt fjárskjól; Hrauntúnsfjárskjólið, öðru nafni Gaphæðaskjólið.
Í örnefnalýsingu fyrir Þingvallahraun segir um þetta: „Rétt hjá honum [Gapa] er annar hellir í flötum bala, sem hafður var til fjárgeymslu frá Hrauntúni, þó illur væri. Innri-Gapahæð snýr meira til norðurs og suðurs en sú syðri og er skógarlítil. Að vestan og norðan við Gapahæðir eru flatir hellubalar, mosavaxnir, með lautum og slökkum, og skógarrunnum og hríslum í brúnunum, nema á litlu svæði norður með Raftahlíð eða Hlíðargjá, sem getur fremur heitið heiði eða móar allt norður að Prestahrauni. Það er nokkuð stór brunahraunsblettur með skörpum brúnum. Vestur af Prestastíg, sem er á h. u. b. miðri Hlíðargjá, er Hlíðarstígur.“
Hlíðargjáin er þarna skammt austar. Þá var stefnan tekin til suðurs, milli Svínhóla að austan og Flekkuhóls að vestan. „GaphæðaskjóliðAustur af Flekkuhól, norður frá Selstíg, eru tveir stórir, sérstakir hólar með litlu millibili. Þeir heita Svínhólar. Þar er Þingvallahraun hæst og hallar þaðan í allar áttir, nema austur. Er þaðan víðsýni mikið. Suðaustur af Svínhólum, norðaustur af Hrafnagjárenda, er allstór hóll, sem Rauðhóll heitir. Fyrir norðan Svínhóla kemur Hrafnagjá aftur í ljós, þó miklu sé hún minni en að sunnanverðu, og heitir nú Gaphæðagjá, og í Innri-Gapahæð hverfur hún alveg.“ Sem sagt; ágætt staðfestingarvegarnesti á bakaleiðinni.
„Norður að Ketilhöfða heita Sláttubrekkur. Mosalág er laut stór eða dalur norðan undir Höfðum, vestan undir Sláttubrekkum. Norðan við hana heitir Magnúsarklettsskógur. Vestan við hana er Mosalágarhæð, stór grjótbali, sem snýr h.u.b. í norður og suður.“ Þegar gengið var til baka var einmitt gengið um þessar Sláttubrekkur. Frá þeim liggur greinileg gata til suðvestur, með stefnu á Skógarkot. Þetta getur vel staðist því landamerkjavörðuröð Skógarkots og HMælingarstöpull í Þingvallahraunirauntúns eru einmitt norðan brekknanna. Efsta varðan er á Nyrðri Svínhól. Önnur greinileg gata liggur til suðurs. Henni var fylgt niður á Hellishæð.
„Austan frá Sláttubrekkum, norður af Hellishæð, er Flekkuhóll; er hann stór um sig, með smáhólum og lautum, allt skógi og grasi vaxið. Norður af honum og Sláttubrekkum er Bruni; var þar eyða mikil í skóginn, sem stafaði af því, að kviknað hafði í reiðing á hesti og eldurinn komizt í skóginn. Það mun hafa skeð um 1859 (eða ’60). Var sá blettur þrautbeittur á vetrum; voru þar oft hagar, þótt litlir væru annars staðar, og færð betri, því að þar reif snjó meira, vegna skógleysis. Þrátt fyrir beitina óx þar aftur skógur smátt og smátt; um aldamót voru komnir runnar um allan blettinn, en sást þó mjög greinilega fyrir honum. Um 1930 sást hann tæplega eða alls ekki.“ Ekki var farið í Hellishæðarhelli (fjárskjól) að þessu sinni.
Víða í Þingvallahrauni má sjá uppistandandi steinsteypt skolprör; stein- og steypufyllt. Efst trjónir koparplata, tvígötótt. Þarna mun vera um að ræða mælingarstanda er gefa áttu til kynna bæði landrek og hæðarstöðu svæðisins, en eins og mörgum er kunnugt eru Þingvellir á sprungurein Atlantshafshrygjarins er gengur svo til á ská í gegnum landið. Hvað hefur svo komið út úr niðurstöðum þessara fyrirhafnasömu rannsókna er ekki vitað. Áhugavert væri – ef einhver tilstandandi gæti gefið einhverjar upplýsingar um rannsóknir þessar – myndi hafa samband við
ferlir@ferlir.is.
Rétt áður en komið var að Hellishæð var helsta einkennið sprunginn klapparhóll. Í örnefnalýsingunni segir að „norðvestur frá Litlu-Hellishæð er stór, sundurtættur klappahóll, sem heitir Ketilhöfðaklettur“.
Þegar gengið var að upphafsreit mátti vel sjá Klukkustíginn. „Klukkustígur hverfur í hallinn á vestri barmi Hrafnagjár. HrafnagjáAlla leið þangað frá Hallstíg er gjáin djúp, breið og að öllu hin hrikalegasta. Þar fyrir norðan verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel. Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður frá eru fornar tóftir, sem máske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan hríðum. Við norðvesturhorn Sigurðarsels er Hellishæð.“
Allt gekk framangreint vel upp m.v. lýsinguna. Af grasgróningunum undir Hrafnagjá má telja víst að þar hafi verið nytjar frá Sigurðarseli, en jafnframt má álykta að selstaðan hafi verið þar sem nú er fjárskjólið við Klukkustígshól.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Gaphæðaskjól

Gaphæðaskjól.

 

Sigurveig Guðmundsdóttir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984 segir Sigurveig Guðmundsdóttir frá „Sumri í Hrauntúni“ á Þingvöllum. Lesningin gefur góða mynd af því hvernig umhorfs var á þessum ágæta bæ, fyrrum selstöðu, skömmu eftir aldarmótin 1900.

Hólmfríður Hjaltason

Hólmfríður Hjaltason og Guðmundur eiginmaður hennar ásamt dætrum sínum, þeim Margréti og Sigurveigu.

„Nú sést ekkert eftir af bænum í Hrauntúni í Þingvallasveit nema tóftir. Árið 1919 bjó Jónas hreppstjóri Halldórsson þar enn, og greinarhöfundurinn segir frá því þegar hún dvaldist þar sumarlangt með móður sinni.

Sumarið 1919 var móðir mín, Hólmfríður Hjaltason, ráðin sem ráðskona að Hrauntúni í Þingvallasveit. Faðir minn, Guðmundur Hjaltason, hafði dáið úr spönsku veikinni þá um veturinn. Móðir mín fór eftir auglýsingu í blaði og þekkti því ekkert til væntanlegs verustaðar. Einhver kunnugur bar bænum gott orð og sagði að ekki sæist í hús þar fyrir skógi. Það var mikið tilhlakk fyrir níu ára krakka að eiga að dvelja i slíkri skógarparadís. Ferðin hófst eldsnemma að morgni frá Hafnarfirði og gengum við alla leið til Reykjavíkur. Koffortinu sínu kom móðir mín á hestvagn Guðmundar Magnússonar pósts og gengum við á eftir vagninum. Ansi var nú brekkan erfið upp Öskjuhlíðina og fegin var ég þegar við komumst inn að Tungu, húsi Dýraverndunarfélags Íslands. Þar hittum við Símon bónda í Vatnskoti en hann var búinn að fá sér vörubíl sem flutti bæði fólk og fé. Bíllinn var ekki yfirbyggður og sátu allir á honum undir beru lofti. Fyrir utan okkur mömmu voru tvær danskar stúlkur í bílnum og drengur á mínum aldri.

Tunga

Tunga.

Var nú lagt af stað og ekið inn að Elliðaám. Þá stansaði bíllinn og vildi ekki fara lengra. Símon sagði að hlassið væri of þungt. Lét hann konurnar og strákinn fara úr og gengu þau aftur í bæinn. Ég fékk að sitja í heim í Tungu. Þar biðum við í tvo daga en síðan lagði sama fólkið af stað.
Símon í Vatnskoti var einstaklega kátur og glaður maður, lék við hvern sinn fingur hvað sem á gekk. Við fórum framhjá Geithálsi og þaðan sem leið lá austur Mosfellsheiði.

Hjá Þingvallapresti

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Símon í Vatnskoti skilaði okkur mömmu heim á prestssetrið, sagði að þar myndi hún fá leiðbeiningu um hvert hún ætti að fara. Þá voru á Þingvöllum þrjú hús fyrir utan prestssetrið, Konungshúsið sem reist var handa Friðriki áttunda, veitingahúsið Valhöll, á allt öðrum stað en nú er, og í Fögrubrekku sumarbústaður Péturs Hjaltested kaupmanhs. Bærinn prestsins var nokkuð stór í mínum augum. Mamma barði að dyrum og gerði boð fyrir prest. Hann kom fljótt til dyra og bauð til stofu. Síra Jón Thorsteinsson var lágur vexti og grannur. Hann var í svörtum jakkafötum og víður jakkinn, mjög svo prestslegur. Hann bauð okkur skyr að borða og kaffi á eftir í fallegum postulínsbollum með rauðri rós. Séra Jón var einstakt ljúfmenni, þýður og einlægur í viðmóti. Mamma hafði verið kvíðin að fara í vist hjá ókunnugum, komin um fimmtugt með barn í eftirdragi. Hún hafði átt góða daga sem húsmóðir á sínu heimili svo að viðbrigðin voru mikil. Síra Jón hlustaði á hana af hluttekningu, fór því næst að fræða hana um væntanlegan húsbónda.Jónas Halldórsson
Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni var fæddur árið 1853. Halldór faðir Jónasar hafði komið með einum Þingvallapresta vestan af Snæfellsnesi. Prestur leyfði Halldóri að byggja sér bæ á rústum gamalla seltófta norður í Þingvallahrauni, og gerði hann þar sæmilega bújörð.
Jónas tók við búi föður síns 18 ára gamall og þótti það vel gert af svo ungum manni. Síðar kvæntist hann Hólmfríði Jónsdóttur frá Hæðarenda í Grímsnesi. Þau eignuðust sjö börn en þau sem upp komust voru Halldór, fornbókasali og fjallamaður, Ásgeir, skipstjóri hjá Eimskip, Jónína, fór til Vesturheims, og Elísabet, bjó í Reykjavík, gáfuð kona og skörungur. Son er Jónas hét átti bóndi í elli sinni með ráðskonu.
Jónas tók fljótt við ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína og varð hreppstjóri um langa æfi. Hann þótti einrænn í lund og ekki við allra skap. Mikill gáfumaður að upplagi og áreiðanlega ekki á réttri hillu. Hann var með afbrigðum bókhneigður og lét hvern eyri sem hann átti aflögu ganga til bókakaupa. Enda átti hann að lokum stórmerkilegt og vandað bókasafn sem vakti furðu margra því að slíkur munaður stakk mjög í stúf við fátæklegan búnað torfbæjarins. Sumir virðast hafa lagt Jónasi þessi bókakaup til lasts, þótt slíkt óþarfi mikill. En þá svaraði Jónas: — Ef ég hefði lagt þessa peninga í brennivín, þá hefðuð þið ekki sagt neitt.

Kona Jónasar var mikil búkona og er sú saga sögð að einu sinni hafi bóndi farið með koffortahest til Reykjavíkur að kaupa mat til vetrarins. En þegar komið var heim í Hrauntún, var ekkert nema bækur í koffortunum. Þá mun húsfreyju hafa þótt nóg um bókakaup húsbóndans. Jónas í Hrauntúni mun hafa verið bókasafnari af ástríðu. Af lestri sínum varð hann ágætlega sjálfmenntaður, vel ritfær og glöggur reikningsmaður.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja. Innimynd. Kirkjur Íslands, 4. bindi: 227: Þingvallakirkja að innan í lok 19. aldar. Ekki verður annað séð af þessari mynd en að veggir kirkjunnar að innan hafi verið ómálaðir fram undir 1900, þótt vísitasía 1860 segi annað. Kvistir eru mjög greinilegir í veggklæðningu. Hugsanlega hefur málningin aðeins verið þunn þekja og kvistirnir því sýnilegir. Aftur er greinilegt að innanstokksmunir eru málaðir. Altaristafla Ófeigs Jónssonar frá 1834-35 er enn yfir altarinu en hún var seld til Englands sumarið 1899. […] Ljósmyndari Sophus Tromholt.

Síra Jón bauð mömmu að skoða kirkjuna og fórum við þangað. Ekki man ég eftir öðru þar nema predikunarstólnum og þá vegna þess að síra Jón gekk að honum, klappaði á hann og sagði: Þetta er nú stóllinn minn. — Um leið brosti hann eins og barn. Hann fylgdi okkur út fyrir tún. Þar benti hann mömmu á götuna sem hún átti að fara og sagði henni að leita til sín ef hún þyrfti einhvers með. Kvöddum við síðan þennan góða prest með virktum.

Gengið um Hrauntúnsgötuna

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Gengum við nú sem leið lá inn í Leirur, þar sem söluskálinn er nú. Þar kom á móti okkur hár maður roskinn, grannvaxinn með alskegg, derhúfu á höfði klæddur mórauðum vaðmálsjakka og stuttbuxum með leðurskó á fótum. Hann steig létt til jarðar þó stór væri, höfðinglegur, errilegur.
Hér var þá kominn Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni. Hann hafði rauðan hest í taumi, og með honum rann hundur af hreinu íslensku kyni, svart- og gráflekkóttur. Bóndi tók móður mína tali. Hann var fáorður, talaði í stuttum snöggum setningum og hálfhreytti út úr sér orðunum. Samt var hann vingjarnlegur. Hann sagði okkur að halda áfram götuna því að eftir að hann hefði sótt föggur mömmu á prestssetrið ætlaði hann að hitta Guðrúnu greiðasölukonu í Konungshúsinu.

Konungshúsið

Frá konungskomunni 1921. Konungsfjölskyldan og frú Charlotte Schestel á tröppunum við Konungshúsið á Þingvöllum.

Við mæðgurnar eigruðum nú áfram götuna inn í hraunið. Lágt kjarr óx víða en ekki man ég til að nein hrísla á þeim vegi væri hærri en ég sjálf. En gamburmosinn þakti stórar breiður. — Hvenær kemur skógurinn, þetta var ekkert líkt skógarmyndunum frá útlöndum í myndabókunum, bærinn átti ekki að sjást fyrir skógi.
Eftir alllangan tíma sáum við steingarð rísa á bakvið hraunhól. Þessi garður var mikið hærri en ég, einföld hleðsla svo jöfn og haganleg að hver steinn virtist tilhöggvinn. Ofurlítið skarð var í þennan mikla garð og stungið í það birkilurk. Við gægðumst í gegnum skarðið.

Hrauntúnsbærinn

Hrauntún

Hrauntúnsbærinn. Uppdráttur eftir mynni Sigurveigar; teiknaður af Gísla Sigurðssyni, ritstjóra Lesbókarinnar. Ármannsfell í bakgrunni.

Það var orðið kvöldsett, bjart yfir fjöllum og bláleit sumarmóða brá undursamlegri mýkt yfir umhverfið. Túnið fyrir innan garðinn var allt í mjúkum öldum þar sem hraunhólarnir lágu undir grassverðinum. Mitt í þessu fagra ilmandi grængresi reis bærinn Hrauntún, hlýr og vinalegur eins og torfbæir einir gátu orðið. Tvær burstir sneru til suðurs fram á hlaðið og bæjargöngin á milli. Baðstofan var með einum sexrúðu glugga á stafni og tveggjarúðu glugga til vesturs. Stofan var með þrísettum glugga og klædd bárujárni. Baðstofan með eldhúsið og fjósið afturaf var allt klætt torfi. Vandlega hlaðin stétt úr hraunhellum var fyrir framan bæinn.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.

Hlaða, fjárhús og skemma með þvottahjalli lágu við heimtraðirnar sem lágu í norður í átt að Ármannsfelli. Þrennir fjárhúskofar voru dreifðir um túnið. Austur af túninu var afgirt gerði sem notast var við sem kúahaga. Brunnhola var vestan undir baðstofuveggnum. Var þar sæmilegt drykkjarvatn þó að vatnsmagnið væri lítið. Þegar þvottar voru þvegnir í Hrauntúni varð að fara niður á Leirur og þvo við lækinn sem þar rennur enn. Þar voru hlóðir og þar við soðinn þvotturinn.
Framan við bæinn var kálgarður með grónum vallargarði í kring. Allt var þarna með hinum mesta snyrtibrag, hver hlutur á sínum rétta stað. Upp við bæjarvegginn reis sleggja gerð úr blágrýtishnullungi með gati sem stungið var í vænum birkilurk. Þetta var fisksleggja. Mamma barði að dyrum og út kom dökkhærður maður lágvaxinn með yfirskegg, léttur í hreyfingum og alúðlegur. Þetta var Halldór sonur Jónasar bónda sem bjó hjá föður sínum. Þeir voru menn ekki líkir.

Hrauntún

Hrauntún – nú eyðibýli. Hrafnabjörg fjær.

Halldór fylgdi okkur inn göngin. Hurð lá inn í stofuna til hægri og önnur hurð inn í geymslukompu þar innar af. Gengið var upp tvö þrep inn í baðstofu til vinstri en í eldhús og fjós fyrir enda ganganna. Í baðstofu voru fjögur rúm. Jónas bóndi svaf næst glugga og var borð undir glugganum. Lítil bókahilla, full af rímnakverum og riddarasögum, var yfir fótagafli á þili.
Okkur mæðgum var vísað á rúmið gegnt rúmi bónda. Aftur af okkar rúmi svaf Bjarni Gíslason vinnumaður og Halldór gegnt honum. Ofurlítil kabyssa og tvær hillur fyrir bollapör og diska voru í hinum enda baðstofu.

Konu-Bjarni

Hrauntún

Hrauntún 1929 – Jóhannes Kjarval.

Bjarni Gíslason vinnumaður var vel meðalmaður á hæð, rauðbirkinn með yfirskegg, vel farinn í andliti, reistur í fasi, prúðmannlegur, greindur og skáldmæltur. Ekki veit ég uppruna hans, held þó að hann hafi verið af Norðurlandi vestra. Hann hafði víða verið, kennt börnum á vetrum en í kaupavinnu á sumrum. Hann hafði haft kvenhylli svo mikla að bændur höfðu rekið hann á miðjum vistráðningartíma og þóst heppnir að konur þeirra hlupu ekki að heiman á eftir Bjarna. Vegna þessa hæfileika síns var hann manna á meðal nefndur Konu-Bjarni. Hann var talinn mjög vel hagorður en ekki veit ég með vissu um neina vísu eftir hann, það eru til svo margir Bjarnar Gíslasynir hagyrðingar frá þessum tíma. Bjarni var fremur hlýr við krakka en þó fáskiptinn.

Innanbæjarlíf

Hrauntún

Hrauntún – hellulagða stéttin framan við bæinn.

Að verkalokum og á helgidögum ræddu feðgarnir og Bjarni af kappi um stjórnmál og bókmenntir. Þeir voru ekki alltaf sammála. Halldór og Bjarni voru oft saman á móti Jónasi bónda. Mömmu líkaði ekki alltaf viðmót þeirra við húsbónda heimilisins og þá sjaldan að hún lagði orð í belg hélt hún alltaf Jónasar taum. Gamla manninum þótti áreiðanlega vænt um þessa liðveislu. Mest gekk á þegar blöðin voru nýkomin. Þá sagði Jónas oft upp úr blaðalestrinum og hafði á miklar áherslur: Mikil lifandis ósköp er fólkið vitlaust. — Annars voru rökræður í Hrauntúni með virðulegu yfirbragði. Menn voru prúðir og létu engan hleypa sér upp þó þungt gæti verið undirniðri.

Tóbaksleysi

Hrauntún

Hrauntún – túngarður.

Allir tóku þeir Hrauntúnsmenn í nefið daglega og gött þótti þeim tárið en allt í hinu mesta hófi, ég vissi þá smakka vín í eitt skipti um sumarið og svo í réttunum. Minna gat það varla verið. En tóbaksleysi þoldu þeir ekki. Þar kom að enginn þeirra átti til korn í nös. Þá varð nú ansi hvasst í Hrauntúnsbaðstofu. Þeir urðu ekki sammála um neitt og loks snerist umræðan um kvenfólk, hvað það væri miklir gallagripir, heimskt og svikult. Einkum var það Halldór sem var þungorður í garð kvenna, enda lá orð á að stúlka hefði brugðið heiti við hann.

Söngvar förumannsins

Söngvar förumannsins.

Mamma hafði reynt að vera sem mest frammi í bænum meðan hríð þessi stóð en nú kom hún inn og heyrði stóryrði Halldórs um kvenfólkið. Þá mælti hún: „Hafið þér móður yðar með í þessum vitnisburði sem þér gefið öllum konum?“ Þá steinþagnaði Halldór og þeir allir nokkra stund. Síðan tóku þeir upp annað tal. En ekki batnaði tóbaksleysið. Bjarni Gíslason bjóst til Reykjavíkur og kom brátt aftur með nóg tóbak og eitthvað á pelann. Það var lyfting yfir Bjarna þar sem hann stóð gleiður á baðstofugólfinu, klæddur bláum jakka sem fór vel við koparrautt hárið, hattinn aftur á hnakka, í reiðbuxum og háum stígvélum. Hann hélt á ofurlitlu ljóðakveri sem hann hafði keypt í Reykjavík, Söngvum förumannsins. Bjarni las hátt og með miklum áherslum og rykkti til höfðinu undir lestrinum;
Þú ert enn að greiða gjöldin
gamla skáldið hefur völdin
flytur rímlaus kvæði á kvöldin
kvæðin eru um lífið fróð
eiga draumsins geislaglóð
gæfu þína og hjartablóð.
Þögnin geymir þessi ljóð.
Þú ert skáld á bak við tjöldin.
Þá var nú glatt í Hrauntúnsbaðstofu.

Stofan og bækurnar

Dýravinurinn

Dýravinurinn.

Virðulegasti staður Hrauntúnsbæjar var stofan. Hún var svo virðuleg að fyrstu dagana þorði ég ekki að líta þar inn. Við veggi hinnar blámáluðu stofu stóðu bókaskápar frá gólfi til lofts, bækur á borði, bækur á kistum, allt fullt af bókum, margar í skínandi nýju skinnbandi, gamlar bækur, sögubækur, fræðibækur, tímarit, guðsorð, nýtt og gamalt. En langfallegustu bókina, að því að mér fannst, hafði Jónas bóndi lagt handa mér á borðið. Stór þykk bók í gljáandi skinni gyllt á kili, meira að segja myndir innaní. Þessi bók var tímaritið Dýravinurinn með sögum eftir Þorstein Erlingsson, Þorgils Gjallanda, Guðmund Friðjónsson og marga aðra ágæta dýravini. — Hvar skyldi þessi bók vera núna? —
Fáir kunnu á þeim tíma betur að velja bók í hendur barni heldur en þessi þyrrkingslegi bókasafnari. Svipað mátti segja um þá Halldór og Bjarna. Þeir bönnuðu þær bækur sem ekki þóttu barna meðfæri en bentu á aðrar heppilegri.
En freistarinn lá í leyni og ég stalst til að lesa hina bönnuðu bók, Makt myrkranna um þann rúmenska greifa Drakúla. Afskaplega fannst mér það skemmtileg bók. Ekki get ég fundið að hún hafi skaðað, enda glottu þeir Hrauntúnsmenn þegar upp komst um boðorðabrotið. Jónas hélt að mér ævintýrum og riddarasögum sem var til mikillar skemmtunar. Hafi bændur almennt á þeim tíma látið sér svo annt um lesefni aðkomubarna, þá er ekki að furða þótt íslenskri sveitamenningu sé viðbrugðið.

Gestagangur

Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason 1934.

Oft komu gestir að Hrauntúni, bæði ferðamenn af Kaldadal og úr Borgarfjarðardölum, Grímsnesingar og fólk úr Reykjavík. Jónas vildi að allir fengju góðgerðir, annaðhvort kaffi eða mat. Nógur matur var lagður til en eldamennska var örðug því að allt varð að elda við kalvið á hlóðum.
Einu sinni kom hópur af fólki að Hrauntúni. Þar voru bæði karlmenn og fínar dömur í för. Fyrir hópnum var Guðmundur Finnbogason prófessor og Laufey Vilhjálmsdóttir kona hans. Öllum var boðið til stofu og hófst nú hinn venjulegi pónnukókubakstur við kalviðareldinn.
Prófessorinn fór í eldhúsið og spjallaði við mömmu á meðan hinir gestirnir sátu á tali við bónda. Bestu góðgerðirnar þóttu hveitibrauðið heimabakaða með kæfu úr skinnbelg sem hékk í rjáfrinu í eldhúsreyknum.

Laufey Vilhjálmsdóttir

Laufey Vilhjálmsdóttir.

Eitt kvöld þegar allir voru háttaðir heyrðist spóinn vella ærið grunsamlega. — Það er gestahljóð í honum, sagði Jónas. Stuttu seinna rauk hundurinn upp. Hófadynur heyrðist í tröðum og hringl í beislum. Bóndi snaraðist í föt og gekk til dyra. Hann kom inn aftur að vörmu spori og á hæla honum afarhár maður höfðinglegur með afbrigðum, snar í augum og glettinn á svip. Þetta var Ólafur bóndi í Kalmanstungu, sá sem sagt var um að hefði verið glæsilegastur bænda í konungsveislunni á Þingvöllum þegar Friðrik kóngur 8. kom 1908. Nú kom hann af fjallvegum á leið suður.

Krækiber og bláber
Ekki var mikið af berjum kringum Hrauntún þetta sumar. Helst var nokkuð um krækiber en sáralítið um önnur ber. En í Lágafelli við Hofmannaflöt voru bæði bláber og aðalbláber. Sagt var að aðalbláber væru í Mjóafellinu en þangað kom ég aldrei. Eina engjarós fann ég nálægt Stórkonugili en annars var allt bitið og nagað af sauðfénu.

Eingöngu brennt kalviði

Gapi

Gapi.

Jónas Halldórsson lét sér mjög annt um skóginn. Hann taldi að nauðsynlegt væri að hirða sem mest af kalviði í skóginum til þess að rýma fyrir nýjum viði. Í hlóðaeldhúsinu var eingöngu notaður kalviður. Hann logaði vel en var mjög ódrjúgt eldsneyti. Hrísrif var þó óhjákvæmilegt en Jónas mun ekki hafa fellt lifandi skóg meir en nauðsyn þótti. En stór var hrískösturinn sem dreginn var heim um haustið. Hann var hærri en bæjarhúsin. Jónas fór oft með kalviðarbagga á Rauð gamla til Guðrúnar í Konungshúsinu.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Mestur var skógurinn austur og suður frá bænum. Einu sinni fékk ég fylgja Jónasi í eina af hinum mörgu skógargöngum hans. Við stefndum í áttina að Hrafnabjörgum og gengum lengi þangað til kom að grasigrónu rjóðri eins og dálitlu túni. Þar sást í opið á víðum helli. Jónas hafði þagað alla leiðina en nú sagði hann: Sauðahellir Gapi. Hæðirnar þar austur af heita Gaphæðir og í þeim sagðist Jónas vilja hafa sinn legstað þegar hann dæi. Ekki varð af því og mun Jónas hafa verið grafinn annaðhvort í Þingvallakirkjugarði, sem hann sagði að væri of blautur legstaður, eða þá í Reykjavík þar sem hann dó 1922.

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Bolabás-/Sleðaásrétt.

Við komum að Hrafnagjá. Jónas sagði að niðurhrunið gerði þessa gjá ljótari en Almannagjá sem væri með grónari botn. Hann minntist á jarðskjálftana 1896, hvað gjárnar hefðu breyst og miklu meira niðurhrun í þeim síðan. Hann benti mér á eyðibýlið Litla-Hrauntún sem væri komið úr byggð fyrir langalöngu.
Á þessum tíma fyrir 65 árum var svo sem enginn skógur kringum Hrauntún nema jarðlægar kræklur. Núna er sett skilti við leiðina að Hrauntúni upp frá Bolabás undir Ármannsfelli. Þar er rústin af fjárrétt sveitarinnar og leifar af kerruvegi sem kom seinna en hér er frá sagt.
Á öllu þessu svæði var sáralítið um skóg, sem væri það hár að 9 ára barn gæti ekki séð yfir hann. Við túngarðinn í Hrauntúni sást ekki hrísla en nú er þar víða svo mikill skógur að túngarðurinn er í kafi. Þá hefur skógurinn leitað inn á túnið, bæði birki og víðir. Í staðinn fyrir túngrösin hefir komið mosi og lyng sumstaðar. Hitt er allt í sinuflóka. Þegar farið er Gjábakkaveginn má finna troðninginn heim að Hrauntúni. Þá götu var farið í átt til Þingvalla. Við þann stíg var aðeins lágt skriðult kjarr og sumstaðar aðeins gamburmosi.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Nú er þarna allt í kafi af birkiskógi. Lítið var um beinvaxnar hríslur í skóginum 1919. Helst var það austan undir Gaphæðunum. Götuslóði lá milli Skógarkots og Hrauntúns, mjög ógreinilegur enda sjaldfarinn. Við þennan slóða stóð fallegasta hríslan sem ég man þarna eftir. Hún var að minnsta kosti meira en mannhæð, þráðbein með fagra krónu. Hvítur stofninn sást langt að því að hríslan var einstök. Árið 1934 kom ég að þessari sömu hríslu. Hún var þá skemmd af kali og á henni ellimörk. Hin langa friðun hefir bersýnilega aukið skóginn að miklum mun. Þó eru gamburmosabreiðurnar býsna svipaðar að ummáli og áður var, að minnsta kosti þegar horft er af útsýnisskífunni á barmi Almannagjár.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt undir Meyjarsæti framundan.

Heyskapurinn í Hrauntúni var aðeins á heimatúni og Hofmannaflöt. Halldór faðir Jónasar hafði heyjað á blettum hér og hvar um skóginn en nú var sá siður aflagður. Á Hofmannaflöt heyjuðu þeir Halldór og Bjarni. Þeir voru við slátt allan daginn en var færður matur.
Þegar þokan læddist á loðnum skóm um hraun og hlíðar fengu hólar, klettar og runnar á sig undarlegar myndir og oft ógurlegar. Enginn staður við engjaveginn var eins ógnum þrunginn og Stórkonugil sem skerst inn í Ármannsfellið. Þokuslæðurnar huldu hamrana að mestu en innst inni glytti í svarta vota steina sem stundum glömruðu við, rétt eins og einhver væri þarna í þann veginn að stíga fram úr gilinu þungum skrefum. Þá var gott að eiga von á þeim Halldóri og Bjarna bak við næsta leiti þar sem þeir stóðu blautir við sláttinn fegnir hálfvolgri kaffiflösku í sokkbol. Þeir sögðu alltaf það sama: Farðu ekki út af götunni því þá villistu í hrauninu. — Það var heldur ekki fýsilegt því að þarna úti í hraunhólunum voru fornar rústir, enginn vissi hve gamlar. Þar gat verið reimt og hollast að halda sig sem lengst frá slíkum stöðum.

Meyjarsæti

Meyjarsæti.

Á meðan sláttumenn drukku kaffið var gaman að príla upp í Meyjasæti þar sem fornkonur höfðu setið í dómarasæti yfir íþróttamönnum sem þreyttu kappi á Hofmannaflöt. Norðar var Biskupsflöt þar sem Skálholtsbiskupar tjölduðu fyrrum með sveinum sínum og sátu á tali við tröllkonur um nætur. — Bóndalegt tjald, bóndlegur maður, — sagði ein stórkonan við Brynjólf biskup Sveinsson. En langt norður í hrauninu við rætur Skjaldbreiðar var ungur maður á ferð og lét hestinn lötra en rakki hljóp snuðrandi á eftir. Heiðarbúar, glöðum gesti greiðið för um eyðifjöll einn eg treð með hundi og hesti hraun og týnd er lestin öll. Jónas Hallgrímsson var uppáhaldsskáld móður minnar og hún söng Skjaldbreiðarkvæði hans frá upphafi til enda þegar við vorum einar heima.

Fuglar og ferfætlingar

Rjúpa

Rjúpa.

Þeir Hrauntúnsmenn voru dýravinir. Aldrei var rjúpa skotin heima við bæ en Halldór fór til fjalls á haustin og skaut þar. Rjúpurnar voru líkastar tömdum hænsnum þegar þær komu inn á túnið á kvöldin. Fyrst settust rjúpukarrarnir í garðinn til þess að gá að ferðum kattarins. Síðan komu rjúpurnar með ungahópa sína inn á túnið og jafnvel á stéttina fyrir framan bæjardyrnar hópum saman og Jónas talaði við þær tæpitungu eins og gæludýr. En kisa lá á kettlingum og dró rækilega í bú sitt. Ekki virtust rjúpurnar styggjast verulega við það.
Í fjósinu var bæli kisu og þar var um tíma tófuyrðlingur bundinn á bás. Hann varð gæfur eins og hvolpur og vildi leika sér við mann. En býsna hvassar voru tennurnar í greyinu.
Kýrin var ein á bænum og henni hefir víst leiðst. Hún tók svo miklu ástfóstri við móður mína að hún elti hana hvar sem hún gat og þegar við fórum út í hraun að tína litunarmosa færði kýrin sig meðfram garðinum til þess að vera alltaf sem næst mjaltakonunni. Þessari kú hafði verið strítt af krökkum og hljóp í alla krakka sem hún sá. Hún var stórhyrnd og ekki árennileg. Hundurinn Skrámur var auðvitað sá besti félagi sem hugsast gat, ágæt vörn við mannýgri kú.
Rauður var aðalbrúkunarhrossið en hinir yngri menn áttu reiðhesta. Féð var um allan skóg og mikið treyst á útigöngu á vetrum.

Haustar að í Hrauntúni

Hrauntún

Himininn ofan Hrauntúns.

Senn fór að líða á sumarið og haustaði að með svölum vindum norðan af Kaldadal. Ármannsfell varð grátt í rót. Vistartíminn í Hrauntúni var á enda. Halldór flutti föggur okkar á Rauð gamla til Þingvalla. Við gengum út túnið og kýrin elti móður mína eins langt og hún komst.
Hundurinn Skrámur barðist við tilfinningar sínar. Hann langaði að elta sumarleikfélagann sinn en húsbóndahollustan sigraði. Með lafandi skotti og vesældarsvip sneri hann heim á hæla Jónasi bónda sem gekk sínum löngu léttu skrefum til fjalls, einmana og þögull að vanda.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 22.12.1984, Sumar í Hrauntúni – Sigurveig Guðmundsdóttir, bls. 39-41.

Hrauntún

Hrauntún – garður; minnismerki mannvistar.

Gapi

„Í landnorður frá Vogsósum er hellisskúti í hrauninu, skamt frá alfaravegi; hann er kallaður Gapi. Ferðamenn liggja opt í helli þessum, eins og í sæluhúsi. Í helli þessum leyndi Eiríkur prestur sekum manni heilt sumar. Maðurinn var austan af Síðu, og hafði þar orðið mannsbani, svo það átti að drepa hann. þeir sem um veginn fóru sáu aldrei hellinn Gapa þetta sumar; því Eiríkur hafði brugðið yfir hann hulu, og eins vöröu þá, sem stóð á hólnum hjá honum, og mundu þó margir eptir hvorutveggju. gapi-22Sakamaðurinn hafðist þarna við í hellinum um sumarið, og geingu lýsingar á honum um allar sveitir, og skipun, að taka hann fastan, hvar sem hann næðist. Eiríkur prestur fékk einn af seðlum þessum. Sendi hann þá manninn sjálfan með hann austur á Síðu, en einginn gat þekt hann. Eiríkur lét hann skila því með, að maðurinn heíði náðzt í Selvogi, og sæti hann nú í fjötrum, og væri geymdur í Strandarkirkju. þángað skyldu þeir sækja hann hið allra fyrsta. Maðurinn fór, lauk erindi sínu, og sneri svo suður aptur í helli sinn. En Síðumenn brugðu við, og fóru suóur i Strandarkirkju. þar fundu þeir manninn í fjötrum. Var hann þá fluttur austur, og átti nú aö höggva höfuðið af honum; því svo hafði hann dæmdur verið. En þegar til kom beit ekki öxin, og beyglaðist eggin í hverju höggi. Hættu þá Síðumenn, og fluttu hann á skip, og ætluðu að senda hann til Danmerkur; því þar ætluðu þeir öxunum að bíta. En þegar þeir komu með hann út á skipiö, hvarf hann, og var þar þá steindrángi einn með böndum á. Urðu skipverjar þá æfir við Síðumenn, og ráku þá burtu með sneypu, en vörpuðu sökudólgi þeirra fyrir borð. Síðumenn sáu nú, hversu Eiríkur hafði gabbað þá, og vildu hefna sín. Feingu þeir til þess mann á Vestfjöröum, og sendi hann Eiríki kött. Stóð Eiríkur Þá úti á hlaði, þegar kisa kom, og ætlaði hún að hlaupa um háls honum, og drepa hann. En þá var hjá Eiríki maður sá, sem forðum sókti kverið, og hjálpaði hann Eiríki til að drepa köttinn. Sagt er, að Eiríkur hafi sent Vestfirðingnum draug, sem honum hafi orðið að bana.“

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, Jón Árnason, 1862, bls. 571.

Gapi

Í Gapa.