Tag Archive for: Garðabær

Stóra-Kóngsfell

Húsfellsbruni er samheiti nokkurra hrauna umleikis og ofan Húsfells í landi Garðabæjar, s.s. Hólmshraunin, Strípshraun, Rjúpnadyngjuhraun, Eyrarhraun og Kóngsfellshraun. Ekkert hraunanna er komið frá Húsfelli. Fellið það er í rauninni saklaust af nafngiftinni, stóð bara þarna eftir að hafa fyrrum áður fæðst undir jökli samfara hánu sinni Helgafelli og Valahnúkum á millum.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni – upptökin við Stóra-Kóngsfell (Kóngsfell). Ruglingur nafngiftarinnar er vegna þess að Kóngsfell er til ekki víðs fjarri, sem og Litla-Kóngsfell. Þá er „Kóngsfell“ sýnt á kortum fyrrum, en átti að vera „Konungsfell“. Eftir stendur nefnt „Stóra-Kóngsfell“. Örnefnaruglingur þessi hefur verið tilefni til landamerkjadeilna og dómsmála í gegnum tíðina.

Flest eru brunahraunin svonefndu frá mismunandi tímaskeiðum runnin niður að Húsfelli úr gígum vestan við Kóngsfell (Stóra-Kónsgfell) norðvestan Bláfjalla. Stærsti gígurinn þar er Eldborg austan Drottningar.

Húsfellsbruni er örnefni sem nær yfir mörg nútímahraun og tvö söguleg hraun, Mið-Húsfellsbruna og Elsta-Húsfellsbruna, sem talin eru hafa runnið árið 950. Hraunin hafa þó hlotið önnur örnefni. Hraunið er á köflum úfið, brotið og þakið mosa. Í Húsfellsbrununum leynast eldri hraun, eins og Strípshraun og Stampahraun, sem eru oft töluvert meira gróin. Þá er einnig mikið um gjótur og niðurföll á svæðinu sem sjást vel þegar flogið er yfir svæðið.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Í hrauninu austan og sunnan við Helgafell er að finna fjölda gervigíga og kynjamyndir sem að öllum líkindum hafa myndast þegar Hellnahraun rann yfir grunnt vatn á svæðinu í kringum árið 950. Hluti af svæðinu hefur verið nefnt Litluborgir en þar er að finna áhugaverðar hraunborgir og hraunmyndanir. Sunnan Helgafells er Skúlatúnshraun.

Húsfellsbruna er getið í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um „Garðakirkjuland“: „Sunnan Einihlíðar er Húsfellið fyrrnefnda, og kringum Húsfell heitir Húsfellsbruni. Norður af því heita Grænulautir. Vestur frá Húsfelli er gamalt fróðlegt eldfjall, sem heitir Búrfell.“

HúsfellsbruniÍ „Rannsókn á Kóngsfellshrauni með fjarkönnun og landupplýsingum„, sem Tryggvi Már Sigurjónsson gerði í Jarðvísindadeild Háskóla Íslands 2021, segir m.a.:

Kóngsfellshraun
Kóngsfellshraun er er myndað við eldgos í Brennisteinsfjallakerfinu. Kóngsfellshraun er talið hafa orðið til við eldvirkni kringum árið 950. Kóngsfellshraun er partur af stærri hraunbreiðu sem er kölluð Húsfellsbruni II eða Mið-Húsfellsbruni. Ekki er þekkt hvort Kóngsfellshraun hafi myndast í sama eldgosi og Húsfellsbruni eða hvort hraunin sem hafa myndað Húsfellsbruna einni samfelldri eða ósamfelldri goshrinu. Í þessari ritgerð var notast við kort Jóns Jónssonar (1978) sem viðmið fyrir Kóngsfellhraun ásamt korti Helga Torfason (1999).
HúsfellsbruniÁ myndinni má sjá Kóngsfellshraun ásamt Húsfellsbruna eins og var sett fram Helga Torfasyni o.fl. (1999). Jón Jónsson setti ekki fram áætlun á rúmmáli Kóngsfellshrauns, en hann setti fram áætlun á rúmmáli Rjúpnadyngjuhrauns og Eldborgarhrauns sem hann taldi vera 0,36 km3 hvort. Hans nálgun á áætlun á rúmmáli er að miða við 20 metra meðalþykkt og að áætla flatarmál þess hluta hraunanna sem eru huldir öðru hrauni.

Upptök Kóngsfellshrauns er frá gossprungu sem liggur við og er að hluta til í Stóra-Kóngsfelli sem er 1500 m löng og stefnir N40°.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni.

Stærstu gígarnir liggja á hásléttu við suðvesturhlíð Stóra-Kóngsfells en í suður og norður frá gígunum eru aflíðandi hlíðar sem hraunið hefur runnið niður eftir. Frá tveimur stærstu gígunum hefur verið mesta hraunrennslið. Hraunrennslið úr gígunum var í norðurátt meðfram vesturhlíð Stóra-Kóngsfells og í austurátt meðfram suðurhlíð Stóra-Kóngsfells þar sem það rann áfram milli Stóra-Kóngsfells og Drottningar og þaðan dreifði það sér til vestur, norður og austur. Tvö stór hraunflóð runnu í norður og vestur en minni flæddu í austur meðfram Rauðuhnúkum. Á svæðinu í kringum Stóra-Kóngsfell og Drottningu er hraunið úfið og einkennist af hraunrásum, hraunflóðum og hraunsepum sem hafa runnið yfir hvort annað.

Kóngsfellshraun og Húsfellsbruni
HúsfellsbruniÞað hraun sem skoðað hefur verið í þessari ritgerð er Kóngsfellshraun eins og Jón Jónsson (1978) lýsti því. Eftir nánari skoðun á því má vel búast við því að Kóngsfellshraun gæti verið talsvert umfangsmeira en Jón taldi. Hraun það sem Jón telur vera dyngjuhraun og nefndi Rjúpnadyngjuhraun og liggur milli vestur og norðurhraunflóðanna. Það telst líklegt að það sem Jón Jónsson (1978) taldi vera upptök Rjúpnadyngjuhrauns eru aðeins risgjótur og því ekki gosgígur. Síðari kortlagning af svæðinu sem er á vegum Orkustofnunnar hefur breytt skilgreiningu hrauna á svæðinu. Rjúpnadyngjuhrauni var skipt upp í Húsfellsbruna I og II og einnig var Eldborgarhraun skilgreint sem Húsfellsbruni II.
KóngsfellshraunKóngsfellshraun hafi myndast í sama eldgosi og Húsfellsbruni eða hvort hraunin sem hafa myndað Húsfellsbruna einni samfelldri eða ósamfelldri goshrinu. Jón Jónsson (1978) gaf þó vísbendingar um að Rjúpadyngjuhraun (Húsfellsbruni) gæti verið hluti af Kóngsfellshrauni þar sem bergfærði þeirra voru líkar.
Eins og sést er svæðið sem er skilgreint sem Húsfellsbruni gríðarlega stórt. Svæðið sem það þekur er 29 km2 að stærð og lágmarksrúmmál sem var reiknað er 0,3 km3.
Samanborið við áætlanir Jóns Jónssonar á rúmmáli Rjúpnadyngjuhrauns og Eldborgarhrauns sem hann áætlaði vera 0,36 km3 að rúmmáli eru þetta svipuð gildi. Þó menn séu ekki sammála skilgreiningu hraunanna er ljóst að þetta eru rúmmálsstór hraun sem finnast á þessu svæði.
HúsfellsbruniÞað má telja víst að rannsóknir á Húsfellsbruna og Kóngsfellshrauni hafi verið ófullnægjandi og þarfnist frekari rannsókna. Það er meiri þörf á að rannsaka þessi svæði eftir að gos hófst í Geldingadölum. Það eru því auknar líkur á því að það muni gjósa í fleiri eldstöðvakerfunum sem eru í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er því mikilvægt að fá betri mynd á það hvaðan hraunin komu og hversu umfangsmikil eldgosin sem mynduðu þau voru. Það er mikilvægt að vita það til þess að geta áætlað hvert hraun mun geta flætt og hversu langt það getur runnið. Hraun af sömu stærðargráðu og Húsfellsbruni gæti hæglega ógnað byggð.
Eldstöðvar og hraun kringum Stóra-Kóngsfell

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni – Herforingjaráðskort frá 1903.

Stóra-Kóngsfell (596 m) er móbergsstapi sem liggur um 12 km frá Reykjavík og 2 km frá skíðasvæði Bláfjalla. Tvö misgengi ganga í gegnum það. Frá suðvesturhlíð Stóra-Kóngsfells liggur háslétta sem nær vestur til Grindaskarða. Rétt austan við Stóra-Kóngsfell er Drottning (513 m) sem er einnig móbergsstapi en þó töluvert smærri.

Hólmshraun

Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.

Hólmshraunin er að finna í suðaustur átt frá Höfuðborgarsvæðinu. Hraunbreiður þeirra teygja anga sína í Heiðmörk við Reykjavík og hafa runnið yfir hluta af Leitarhrauni.
Hraunin liggja á svæði norður frá Þríhnúkum og Stóra-Kóngsfelli, austan frá Húsfelli að Rjúpnadalshnúka og niður í Heiðmörk. Hólmshraun er ekki eitt hraun heldur nokkur hraun sem eiga upptök sín á svæðinu milli Bláfjalla og Þríhnúka.

Bláfjöll

Bláfjöll – Eldborg er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá fjallinu Kóngsfelli, sem er áberandi fjall í Bláfjallafjallgarðinum.
Þegar þunnt hraun flæðir upp úr gossprungu myndar það smám saman litla gíga úr hraunslettum. Við það verður til glóandi hrauntjörn innan gígveggjanna. Hraunið slettist og streymir jafnvel yfir barmana sem hækka og þykkna. Þannig myndast eldborg. Gígveggirnir verða brattir efst og þunnir. Verði veggirnir mjög háir finnur kvikan sér stundum leið í gegnum þá.

Eldborg er stærsti gígur á 1,5 km langri gossprungu með norðaustur stefnu sem úr rann hraun sem er nefnt Hólmshraun V af Jóni Jónssyni (1972). Eldborg liggur um 0,5 km austan við Drottningu. Samkvæmt jarðfræðikorti er hraunið frá Eldborg partur af hraunbreiðu sem er nefnd Húsfellsbruni I. Það hraun rann vestur að Húsfelli og norðan Selfjalls.

Á hásléttunni sem liggur vestur frá Stóra-Kóngsfelli eru Þríhnúkar sem samanstanda af þrem hnúkum, af þeim eru tveir gjallhnúkar og einn móbergshnúkur. Tvö þekkt hraun hafa komið frá Þríhnúkum, Þríhnúkahraun eldra og yngra. Þríhnúkahraun eldra hefur náð alla leið til Helgafells og hefur líklega runnið að einhverju leyti að Stóra-Kóngsfelli. Bæði hraunin eru talin hafa gosið fyrir meira en 4500 árum .

Eyra

Eyra.

Vestan við Stóra-Kóngsfell og norðaustan frá Þríhnúkum er einn stakur gígur sem Jón Jónsson (1978) nefnir Eyra. Kóngsfellshraun rennur alveg upp að honum og hylur hraunið sem hefur komið frá honum. Samkvæmt Jóni Jónssyni er Strípshraun sem liggur sunnan Elliðavatns komið frá þessum gíg. Um 5 kílómetra vegalengd er þakin yngra hrauni milli Eyra og Strípshrauns. Norðurhluti Kóngsfellshrauns rennur að Strípshrauni og hefur runnið yfir hluta þess.

Heimild m.a.:
-Rannsókn á Kóngsfellshrauni með fjarkönnun og landupplýsingum, Tryggvi Már Sigurjónsson, Háskóli Íslands, 2021.
-Örnefnaskrá, Ari Gíslason; „Garðakirkjuland“.

Stóra-Kóngsfell

Gígur í Stóra-Kóngsfelli.

Búrfell

Guðmundur Kjartansson skrifaði um „Hraunin kringum Hafnarfjörð“ í jólablað Þjóðviljans árið 1954:

Hafnarfjörður

Hraun ofan Hafnarfjarðar – uppdráttur GK.

„Ekki verður komist landveg til Hafnarfjarðar úr öðrum byggðarlögum án þess að fara yfir hraun, því að kvíslar úr hinu mikla hraunflæmi Reykjanesskagans ná út í sjó báðum megin fjarðarins. Auk þess stendur hálfur kaupstaðurinn (þ. e. fyrir norðan eða „vestan“ læk) í hrauni, en hinn hlutinn (fyrir sunnan læk) er hraunlaus. Hraunið í Vesturbænum er í meira lagi mishæðótt og setur einkennilegan og fáséðan svip á þennan bæjarhluta. Hraunhólar og drangar skaga jafnvel hærra upp en húsin; gömlu göturnar laga sig eftir landslaginu, brattar og krókóttar, en hinar nýrri, sem liggja beinna, eru ýmist hlaðnar Hátt upp yfir hraunbolla og gjár eða sprengdar djúpt niður í gegnum hraunkambana. Þarna í Vesturbænum, þar sem hraunið er hvað úfnast, er skrúðgarður Hafnfirðinga, Hellisgerði.

hellisgerði

Hellisgerði.

Að landslagi til, á sá skrúðgarður sér engan líka hér á landi. Þetta hraun, sem hluti Hafnarfjarðarbæjar stendur í, mun ég í þessu erindi kalla Hafnarfjarðarhraun til hægðarauka, því að það er ein heild, upp komið í einu gosi. En raunar heita ýmsir hlutar þess sérstökum nöfnum: Gálgahraun, Garðahraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun o.fl.

Vífilsstaðahraun

Í Vífilsstaðahrauni.

Suðurbærinn í Hafnarfirði stendur í stórri eyju, sem hraun umkringja, og sunnan hennar (sunnan við Hvaleyri) tekur við mikil breiða af mörgum misgömlum hraunum, óslitin suður að Vogastapa. Hér verður aðeins getið þeirra tveggja af suðurhraununum, sem næst liggja Hafnarfirði. Þó að þetta greinarkorn eigi aðallega að fjalla um hraun, þá þykir mér hlýða að fara um það nokkrum orðum, hvernig umhorfs var hér í Firðinum, áður en hraunin urðu til. Ég ætla því að rekja í tímaröð helstu stórviðburði í sköpunarsögu Hafnarfjarðar frá ísöld.

Hvaleyrarhraun

Hvaleyrarhraun – loftmynd.

Röð viðburðanna má heita ljós, en því miður get ég ekki tímasett þá nema heldur ónákvæmt og skal ekki eyða mörgum orðum að því. Tímasetningin stendur þó til bóta við nánari rannsóknir.

Hamarinn

Markaðar klappir á Hamrinum.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar, undirstaðan sem allt annað hvílir á, er grágrýti. Úr þeirri bergtegund er allt það, sem við myndum í daglegu tali kalla fasta klöpp, að undanskildum hraununum. Hamarinn, sem Flensborgarskóiinn stendur á, er úr grágrýti, ennfremur allar þær hæðir í grenndinni, sem hafa „holt“, „hlíð“, „brún, „hæð“ eða „alda“ að endingu í nafni sínu. Ásfjall er ein af rismestu grágrýtishæðunum. Víðast er grágrýtisklöppin hulin lausum jarðlögum, þ.e. ýmiss konar melum eða grónum jarðvegi, En hvar, sem til er grafið, kemur niður á klöppina fyrr eða síðar, og mjög víða liggur hún ber.

Ástjörn

Ástjörn og Ásfjall.

Hér verður ekki frá því sagt hvernig þetta öldótta grágrýtislandslag varð til, heldur hefjum við þar söguna, er það er að verða fullmyndað og hvert holt og hæð hefur fengið núverandi lögun sína í öllum stórum dráttum.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort. Hraunið náði allt að Hraunum ofan Straumsvíkur (sjá Selhraun), en yngri hraun, s.s. Kapelluhraun, Óbrinnishólahraun, Skúlatúnshraun, Stóra-Bolla- og Tví-Bollahraun og Hraunhólshraun (Sandklofahraun) hafa þakið það að mestu leyti.

Einu hljótum við þó að veita athygli um uppruna þessa landslags: Sá, sem þar vann að síðastur hefur rist fangamark sitt skýrum stöfum í klappirnar. En það var jökulskjöldur sá, er lá yfir því nær öllu íslandi á síðasta jökulskeiði ísaldarinnar. Jöklar liggja ekki kyrrir, heldur mjakast undan hallanum og sópa með sér lausagrjóti og lausum jarðlögum; sem verða á vegi þeirra.

Hamarinn

Hamarinn – hvalbök.

Grjótið frýs fast í botnlagi jökulíssins og dragnast með. Með því grópar og rispar jökullinn klöppina líkt og skörðótt hefiltönn. Frostið sprengir nýtt lausagrjót upp úr botnsklöppinni, svo að það gengur meira til þurrðar. Flestar grágrýtisklappir í grennd við Hafnarfjörð eru skýrt rispaðar með þessu móti og rispurnar stefna allar h.u.b. frá SA til NV. Hreyfing jökulsins hefur verið undan hallanum, ofan af Reykjanesfjallgarði út í Faxaflóa. Einkar skýrar og fallegar jökulrispur eru uppi á Hamrinum fast norðan við Flensborgarskóla. Jökullinn hefur mætt fast á þessum grágrýtishnjót á botni sínum og fastast á þeim klöppum, sem hallar til suðausturs gegnt skriðstefnu hans; þar eru rispurnar dýpstar og allar brúnir ávalaðar og máðar.

Hamarinn

Hamarinn – upplýsingaskilti.

Um margar þúsundir ára svarf ísaldarjökull ofan af grágrýtisspildunni, sem þá mun hafa náð óslitin um allt það svæði, sem nú er sunnanverður Faxaflói og sveitir og heiðar upp frá honum allt til Þingvallavatns.
Í ísaldarlokin, sennilega fyrir fullum 10 þúsundum ára, bráðnaði þessi jökull fyrir batnandi loftslagi. En klappirnar bera æ síðan þær minjar hans, sem þegar er getið, og annars staðar eru þær þaktar jökulruðningi, þ.e. leir og grjóti, sem jökullinn ýtti með sér og lá eftir, er hann bráðnaði. Um þessar mundir leysti ísaldarjökla víða um heim, og við það hækkaði í öllum höfum. Fyrir þá hækkun var sennilega mikið af botni Faxaflóa ofan sjávar. Sjórinn hækkaði meir en upp að núverandi sjávarmáli. Mun hann hafa náð mestri hæð skömmu eftir að jökulinn leysti hér í grennd.

Hafnarfjörður

Ásfjall – útsýni yfir Hafnarfjörð.

Enn má glögglega sjá hér á holtunum við Hafnarfjörð og Reykjavík, hvar sjávarborðið hefur legið, er það var hæst. Þau merki köllum við efstu sjávarmörk. Þau liggja í 33 metra hæð yfir núverandi sjávarmál á Hvaleyrarholti sunnan við Hafnarfjörð, en um 10 m hærra á Öskjuhlíð í Reykjavík. Austur í Ölfusi er hæð efstu sjávarmarka um 60 m, uppi í Borgarfirði 80—100 m og Austur í Hreppum allt að 110 m.
Reykjaneseldar
Þessi mismunur stafar vitaskuld ekki af því, að sjávarfletinum hafi hallað, er hann lá sem hæst; heldur af því að þessir staðir hafa lyftst mismikið síðan. En ástæðan til þess, að sjórinn fjaraði aftur af undirlendinu, er sú, að landið tók að lyftast, er jökulfarginu létti af því. Áður hafði jökullinn sveigt það niður.

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

En landið lyftist afar hægt, og því vann sjórinn á í bili og flæddi inn yfir láglendið, er hann hækkaði í ísaldarlokin, Markalínari efstu sjávarmörk kemur einna gleggst fram í því, að neðan hennar er stórgrýtið, sem jöklinum lá þar eftir, orðið að lábörðum hnullungum af að velkjast í brimi; en ofan línunnar verður þetta grjót snögglega með flötum hliðum og lítt slævðum brúnum, eins og jökullinn skildi við það. Þá hafa hnullungarnir einnig víða kastast upp í kamba, sem marka hæstu sjávarstöðuna einkar glöggt og eru í engu frábrugðnir nýmynduðum sjávarkömbum, nema hvað mold og þurrlendisgróður er nú kominn á milli steinanna.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Yzt á holtunum, “ þar sem brimasamast hefur verið, hafa sjóirnir sums staðar klappað bergstáli í þau. Efstu sjávarmörk eru einkar glögg hringinn í kringum Hvaleyrarholt, nema áð austan, þar sem mjótt eiði hefur tengt það við meginlandið. Frá Hvaleyrarholti má rekja þessa fornu fjöru í sömu hæð neðan við túnið á Jófríðarstöðum umhverfis hamarinn hjá Flensborg (sem aftur er fornt sjávarberg) og inn í Lækjarbotna. Þaðan heldur hún áfram, glögg malar- og hnullungafjara, en að vísu grasi gróin, laust neðan við Setbergsbæinn og um hlaðið á Þórsbergi. Loks hverfa þessi efstu sjávarmörk undir Hafnarfjarðarhraun, sem rann löngu eftir að sjórinn fjaraði frá þeim.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Fast sunnan undir Hvaleyrarholti stóð til skamms tíma lítill hóll að mestu úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál í kolli. Hann hét Rauðhóll. Nú er lítið eftir af Rauðhól. Í hans stað er komin stór malargryfja. Um 1940 var farið að taka þarna mikið af rauðamöl í vegi og fleira. Nú er hún upp urin að kalla, svo að undirlag hennar, sem er harðla fróðlegt, kemur í ljós. Eftir stendur þó stabbi í miðju, og sér enn fyrir botni gígskálarinnar uppi á honum. Þessi stabbi, sem er sjálfur hrauntappinn í gígnum, reyndist of fastur fyrir, er rauðamölinni var mokað á bíla, og því var honum leift.

Hraunhóll

Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur undir Vatnsskarði.

Rauðhóll er mjög lítið eldvarp. Þar hefur aðeins kornið upp eitt smágos, sem virðist ekki hafa afrekað annað en hrúga upp þessum gíghól. Ekki er að sjá, að neitt hraun hafi runnið frá honum. En því get ég Rauðhóls hér, að hann hefur að geyma furðu merkilegar og auðlesnar jarðsöguheimildir. Þær komu ekki í ljós fyrr en hann var allur grafinn sundur. Þessar heimildir eru vitaskuld jarðlög, og við lestur þeirra ber að byrja á neðstu línunni og lesa upp eftir. Þessi lög hafa eflaust myndast víðar, en máðst burt aftur, þar sem þau lágu ber en Rauðhóll hefur hreint og beint innsiglað þau og varðveitt með því að hrúgast ofan á þau og liggja þar eins og ormur á gulli.
Dýpst í malargryfjunni liggur einkennilegt leirlag allt að hálfum metra á þykkt. Þetta er svokölluð barnamold. Hún er mjúk og þjál og ljós-gulbrún að lit meðan hún er vot, en verður stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef barnamoldin er látin undir smásjá, kemur í ljós, að hún er því nær eingöngu úr örsmáum skeljum og skeljabrotum, af lífverum þeim, er nefnast kísilþörungar (eða eskilagnir eða díatómeur).

Rauðhóll

Rauðhóll 2020.

Þetta eru örsmáar svifverur, sem lifa víða í mikilli mergð í vatni, og teljast til jurtaríkisins, þó að margar þeirra syndi knálega um í vatninu. Þegar jurtirnar deyja, rotna þær upp, en skeljarnar falla til botns og mynda eðju eins og þá, sem hér var lýst. Danskur sérfræðingur hefur rannsakað fyrir mig lítið sýnishorn af barnamoldinni undan Rauðhól og fann í henni 117 tegundir kísilþörunga. Sú tegundagreining leiddi í ljós, að barnamoldin hefur sest til í ósöltu vatni, a.m.k. að mestu leyti. Af þessu er sýnt, að þarna hefur verið tjörn, oftast eða alltaf með ósöltu vatni, löngu áður en Rauðhóll varð til. Enn fremur sannar barnamoldin, að sjávarflóðið mikla í ísaldarlokin hefur þá verið að mestu fjarað, eða a. m. k. niður fyrir 10 m hæð yfir núv. sjávarmál, því að í þeirri hæð liggur hún.

Rauðamöl

Rauðamöl í Rauðhól.

Yfir barnamoldinni í Rauðhólsgryfjunni liggur fínn ægissandur morandi af skeljum og skeljabrotum. Skeljarnar eru allar af sjódýrum. Ég hef getað greint tíu tegundir af þeim örugglega, og eru allar þær tegundir enn algengar lifandi á sams konar sandbotni hér í Faxaflóa. Þetta lag sýnir, að sjórinn hefur hækkað aftur í bili og flætt inn yfir landið, þar sem tjörnin var áður.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Enn fremur sýna dýrategundirnar, sem eru frekar kulvísar, að þetta hið síðara sjávarflóð var ekki öllu kaldara en Faxaflói er nú, og hefur því ekki getað átt sér stað fyrr en alllöngu eftir ísaldarlokin, er sjórinn var fullhlýnaður. Yfir þessum ægissandi liggur ennfremur þunnt lag af fínni, brúnni sandhellu, sem er miklu fastari í sér og hefur engar skeljar að geyma. Þykir mér sennilegt, að það sé fokmyndun, til orðin á þurrlendi, eftir að síðara sjávarflóðið fjaraði. Ekki hef ég fundið neinar gróðurleifar í þessu lagi, en það sannar engan veginn, að landið hafi verið ógróið. Ofan á þessu móhellulagi stendur loks Rauðhóll sjálfur. Hann hefur hrúgast þarna upp í litlu eldgosi, eins og fyrr segir, ofan sjávar, en. ef til vill nærri sjávarströndu. Rauðhóll er elsta gosmyndun í grennd við Hafnarfjörð — að undanskildu grágrýtinu, sem að vísu er hraun að uppruna, en runnið löngu fyrir ísaldarlok,; enda ekki kallað hraun í daglegu tali.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Nokkur rauðamöl er enn eftir í Rauðhól, en ekki auðvelt að ná henni. Það ber til, að hraunflóð eitt mikið hefur runnið kringum hólinn og ekki aðeins upp að honum, heldur yfir hin ystu börð hans, sem einnig eru úr Rauðamöl. Aðeins háhóllinn, sem stóð upp úr hrauninu, er burt grafinn. Hraunið kringum Rauðhól nefnist nú Hvaleyrarhraun. Það hefur runnið út í sjó sunnan við Hvaleyrarholt og komið að suðaustan, en verður ekki rakið lengra í átt til upptaka en að Stórhöfða. Þar hverfur það undir miklu yngra hraun, Brunann, sem síðar verður getið. í börmum malargryfjunnar í Rauðhól liggur Hvaleyrarhraunið víðast milliliðalaust á rauðamölinni. Það þótti mér lengi benda til, að aldursmunur væri lítill, jafnvel enginn, á hólnum og hrauninu.

Rauðamöl

Rauðamöl.

En þegar gryfjan stækkaði, kom reyndar í ljós á litlum kafla í nýja stálinu örþunnt moldarlag og þar yfir svart öskulag, hvort tveggja á milli rauðamalarinnar og hraunsins. Í öskunni fundust kolaðir lyngstönglar. Þetta þunna millilag með jurtaleifum sínum sannar ótvírætt, að þarna hefur þó verið komin lyngtó með þunnum moldarjarðvegi neðarlega í austurbrekku Rauðhóls, áður en Hvaleyrarhraun rann þar yfir. Askan er sennilega úr sama gosi og hraunið, sem yfir henni liggur.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Hvaleyrarhraun er einna fomlegast hrauna í grennd við Hafnarfjörð, og má vel vera, að það sé elst þeirra allra. En það er helst ellimarka á því, að sjórinn hefur klappað í það nokkurra mannhæða háan bergstall um núverandi sjávarmál, þar sem nú heita Gjögrin sunnan við Hvaleyrarsand.
Ég hef áður getið að nokkru Hafnarfjarðarhrauns, þ.e. hraunsins sem nær út í Hafnarfjörð norðanverðan og kaupstaðurinn stendur að nokkru leyti í. Þetta hraun er auðvelt að rekja til upptaka. Það hefur komið upp í Búrfelli eða Búrfellsgíg skammt norðaustur frá Kaldárseli. Þaðan hafa runnið hraun eitthvað til suðurs og suðvesturs, en þau hverfra skammt frá upptökum undir yngri hraun, og verður eigi vitað, hvert þau hafa komist.

Garðahraun

Í Garðahrauni.

En langveigamesti hraunstraumurinn er Hafnarfjarðarhraun, sem teygist til norðvesturs og nær niður í sjó báðum megin við Álftanes, annars vegar að Lambhúsatjörn, sem er vogur inn úr Skerjafirði, er vogur inn úr Skerjafirði, hins vegar í Hafnarfjörð. Þetta er 12 kílómetra vegur mælt eftir miðjum hraunstraumnum. Minni kvísl úr þessum hraunstraumi hefur runnið sunnan við Setbergshlíð og breiðst þar yfir, sem nú heitir Gráhelluhraun; þaðan hefur hún runnið í mjóum taumi áfram ofan lækjargil og komið saman við meginhraunið aftur niðri á Hörðuvöllum.

Búrfell

Gígur Búrfells.

Í Búrfelli er stór og djúpur gígur, en það er lítið einstakt eldfjall, aðeins 179 m yfir sjó og fáir tugir metra frá rótum. Sennilegast þykir mér, að þar hafi gosið aðeins einu sinni og öll hraunin, sem þaðan hafa runnið, séu því jafngömul, en ekki er þetta óyggjandi, þó að ég ætli nú að gera ráð fyrir því. Hitt er fullvíst, að það sem hér er kallað Hafnarfjarðarhraun, hefur runnið allt í einu lagi.
Reynum nú að gera okkur í hugarlund, hvernig það land leit út, sem Hafnarfjarðarhraun breiddist yfir. Vitaskuld renna hraunflóð æfinlega undan halla og ekki skáhallt, heldur í þá átt sem hallinn er mestur. Það má því t. d. gera ráð fyrir, að hraun, sem lent hefur í árfarvegi, yfirgefi hann ekki úr því, heldur fylgi honum svo langt sem magn þess endist til.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Nú liggur meginstraumur Hafnarfjarðarhrauns — sá sem lengstan veg hefur runnið frá upptökum — norðvestur á milli Setbergshlíðar og Vífilstaðahlíðar. Þá er varla heldur að efa, að vatn, sem komið hefði upp á sama stað og hraunið, hefði einnig runnið sömu leið.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Með þetta í huga er fróðlegt að athuga hinar miklu vatnsuppsprettur skammt frá Búrfelli, þar sem heita Kaldárbotnar. Þar eru upptök Kaldár, eins og nafnið bendir til, og þar er enn fremur hið nýja vatnsból Hafnfirðinga. Kaldá er ólík flestum ám í því, að hún er vatnsmest í upptökunum, en minnkar stöðugt á leið sinni. Hún kemst ekki nema röskan kílómetra frá upptökunum; þá er hún öll sigin í jörð Þessa skömmu leið rennur hún eftir hrauni, sem er ættað úr Búrfelli og virðist helst jafngamalt Hafnarfjarðarhrauni eða með öðrum orðum hluti af því. En einnig í miðri höfuðkvísl Hafnarfjarðarhrauns, hjá Gjáarrétt norðvestur frá Búrfelli, sér í vatn niðri í djúpum gjám, og í því vatni er mjög greinilegur straumur til suðvesturs.

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Áður en Hafnarfjarðarhraun rann, hlýtur allt þetta vatn, sem nú rennur um upptakasvæði þess — bæði ofanjarðar (í Kaldá) og neðanjarðar (í gjám) — að hafa runnið ofanjarðar — sem vatnafall — þá leið, sem hraunið rann síðan. Við getum kallað þetta vatnsfall „Fornu-Kaldá“.  Að líkindum hefur hún verið drjúgum meira vatn en sú Kaldá, sem við þekkjum nú, því að botn hinnar fornu Kaldár lak ekki frá vatninu. Hún rann eftir hraunlausum dal undir Vífilstaðahlíð norður að Vífilsstaðatúni. En hvar rann hún í sjóinn? Hraunið gefur okkur einnig ákveðna bendingu um það: Meginhluti þess féll út í Hafnarfjörð. Og þar sem hraunið er þykkast, þar liggur árfarvegurinn enn undir því.

Kaldá

Kaldá.

Forna-Kaldá hlýtur að hafa runnið í Hafnarfjörð. En þá var fjörðurinn lengri en nú, ekki af því að sjórinn stæði hærra — hann var lækkaður niður að núverandi sjávarmáli, áður en hraunið, rann — heldur styttist fjörðurinn við það, að hraunið fyllti upp í innstu voga hans. Ekki verður vitað með vissu, hvar fjörðurinn endaði. Ef til vill hefur hann náð langleiðina upp að Vífilsstöðum, ef til vill skemmra. Vitaskuld mætti kanna þetta með því að bora gegnum hraunið og finna hvar undirlag þess kemst upp fyrir sjávarmál. Að sjálfsögðu hefur innsti hluti fjarðarins verið grunnur. Hann hefur smám saman verið að fyllast af framburði Fornu-Kaldár. Trúlegt er, að þar hafi verið leirur og mikið útfiri, og ef til vill voru grösugir óshólmar milli árkvíslanna. En nú er þetta allt innsiglað af hrauninu, nema sá leirinn, sem lengst barst út eftir firðinum. Hann stendur út undan hraunbrúninni og þekur þar fjarðarbotninn í þykku lagi. Það leirlag hefur reynst heldur ótraust undirstaða undir hina nýju hafnargarða. Þeir hafa hvað eftir annað sigið og sprungið.

Búrfell

Búrfell.

Af því, sem ég hef nú sagt frá Búrfelli og Hafnarfjarðarhrauni, mætti ætla, að Hafnarfjarðarbæ stafaði nokkur hætta af eldgosum og hraunflóðum: Þá leið, sem hraun hefur áður runnið, gæti hraun runnið aftur! En þessi hætta er miklu minni en ég hef til þessa gefið í skyn: Búrfell, þar sem hraunið kom upp, og stór landspilda hið næsta því öllum megin hefur sigið, eftir að hraunið rann. Hin signa spilda hefur brotnað sundur í rima milli sprungna, sem stefna allar frá norðaustri til suðvesturs. Barmarnir hafa sigið mismikið, svo að stallur er um sumar sprungurnar, eystri barmurinn þá jafnan lægri en hinn vestri, rétt eins og á Almannagjá. Sums staðar eru sprungurnar gínandi gjár, en annars staðar saman klemmdar og koma aðeins fram sem bergveggur. Einn slíkur sigstallur brýtur Hafnarfjarðarhraun um þvert við suðurenda Vífilsstaðahlíðar. Sá er 5—10 m hár og myndi einn sér veita verulegt viðnám nýju hraunflóði. En raunar er sigið meira en nemur hæð þessa stalls.

Búrfell

Misgengi í Helgadal – uppdráttur GK.

Önnur misgengissprunga liggur vestan við Helgadal, sem er sigdalur, og sú klýfur sjálft Búrfell í miðju. Misgengið veldur því, að eystri gígbarmurinn er nú lægri en hinn vestri. En þetta var öfugt, meðan Hafnarfjarðarhraun var að flæða upp úr gígnum. Það rann vestur úr honum, og eru þar mjög fagrar og lærdómsríkar hrauntraðir eftir rennsli þess. Þær nefnast Búrfellsgjá (þótt þær séu raunar engin gjá í venjulegri merkingu) og eru óslitnar um nokkurra kílómmetra veg vestur og norður frá fjallinu. Hraun, sem nú flæddi upp úr Búrfellsgíg, tæki ekki þessa stefnu, heldur rynni austur eða suður af.

Kaldá

Farvegir Kaldár.

Hrakningasögu Kaldár lýkur ekki með uppkomu Hafnarfjarðarhrauns. Það lokaði leið hennar til Hafnarfjarðar, eins og þegar er getið. En það er engan veginn óhugsandi, að hún hafi samt um þúsundir ára eftir allar þær ófarir komist ofanjarðar alla leið til sjávar — og þá fyrir sunnan Hafnarfjörð, litlu innar á ströndinni en þar, sem Straumsbæirnir eru nú. En hvort sem hún hefur nú komist til sjávar eða ekki, þá er fullvíst, að hún hefur um langt skeið náð miklu lengra áleiðis en nú.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Þá kemur enn upp eldgos, hið síðasta, sem orðið hefur í nágrenni Hafnarfjarðar. Að þessu sinni gaus úr sprungu, sem nú markast af gígaröð með fram Undirhlíðum, langleiðina frá Vatnsskarði til Kaldárbotna. Í syðsta og stærsta gíghólnum skammt frá Krýsuvíkurveginum eru nú stórar malargryfjur. Frá þessari sprungu rann hraun það, sem nú er kallað Bruninn í heild, en efri hlutinn Óbrinnishólabruni og fremsta totan, sem komst alla leið niður í sjó, Kapelluhraun.

Kapelluhraun

Kapelluhraun og nágrenni – fornar leiðir og örnefni.

Þetta hraun nær alla leið norður að Kaldá og hefur bersýnilega ýtt henni eitthvað norður á bóginn. Hún fylgir nú jaðri þess ofan á Búrfells- (eða Hafnarfjarðar-) hrauninu, sem fyrr getur. Vatnið úr Kaldá virðist allt hverfa inn undir þennan hraunjaðar. Ekki er nú annað sennilegra en hinn forni farvegur Kaldár liggi undir Brunanum þar, sem hann er þykkastur, og áfram í átt til sjávar undir hinni tiltölulega mjóu álmu Brunans, sem endar í Kapelluhrauni.

Smyrlabúð

Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur GK.

Bruninn (að meðtöldu Kapelluhrauni) er unglegastur að sjá og vafalaust einnig yngstur allra hrauna, sem runnið hafa út í Faxaflóa sunnanverðan. Hann breiddist yfir allan suður- og vesturhluta Hvaleyrarhraunsins, sem fyrr var getið, og féll út í sjó fram af lágu sjávarbergi vestan við Gjögrin og myndaði þar dálítinn tanga út í sjóinn. Ekki hefur sjórinn enn brotið þann tanga að neinu ráði. Í Kjalnesinga sögu er getið hrauns, sem þar er kallað Nýjahraun, og er þar varla öðru til að dreifa en Brunanum. Og í máldaga, sem talinn er vera frá miðri 15. öld, er nafnið Nýjahraun haft alveg ótvírætt um það, sem nú heitir þykir nafnið Nýjahraun (sem nú hefur fyrnst) benda eindregið til, að menn hafi verið sjónarvottar að myndun hraunsins, það hafi ekki runnið fyrr en á landnámsöld eða söguöld. Að vísu hefur engin frásögn um það eldgos varðveist til þessa dags.

Bollar

Tvíbollar.

En annálariturum hefur löngum þótt annað merkilegra til frásagnar en náttúruviðburðir, og þögn þeirra sannar ekkert. Enda er fullvíst, að fleiri eldgos hafa orðið á Reykjanesskaga, löngu eftir að land byggðist, án þess að þeirra sé nokkurs staðar getið í annálum. Hér hlýt ég að enda þetta gloppótta söguágrip, þar sem aðeins stórviðburða er getið, því að síðan Kapelluhraun rann í sjó fram á fyrstu öldum Íslands byggðar, hafa engin þau tíðindi orðið í nágrenni Hafnarfjarðar, er sambærileg séu að mikilfengleika þeim sem nú var sagt frá.“

Heimild:
-Guðmundur Kjartansson, Hraunin kringum Hafnarfjörð. Þjóðviljinn 24. 12. 1954, jólablað, bls. 10-12.
-Náttúrufræðingurinn 19. árg. 1. hefti 1949, Guðmundur Kjartansson, Rauðhóll, bls. 9.-19.

Mygludalir

Búrfell – Kringlóttagjá nær.

Vífilsstaðasel

Árið 2013 var gerð fornleifaskráning vegna deiluskipulags í landi Garðabæjar; „Heiðmörk og Sandahlíð„.
Í inngangi skýrslunnar segir:

Heiðmörk

Forsíða skýrslu um fornleifaskráningu í Heiðmörk og Sandahlíð.

„Að beiðni Arinbjörns Vilhjálmssonar, skipulagsstjóra Garðabæjar, tók ég undirrituð, Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur, að mér könnun á fornleifum í Heiðmörk í Garðabæ og Sandahlíð vegna fyrirhugaðs deiliskipulags, sbr. tillögu að deiliskipulagi dags. 14. febrúar 2013. Svæðið afmarkast af Heiðmörk í Garðabæ auk Sandahlíðar, það er um 907 ha að stærð og telst til Vífilsstaða og Garðakirkjulands. Landið er í eigu Garðabæjar en tilheyrði áður Vífilsstöðum og Garðakirkjulandi.
Aðeins sá hluti jarðanna var skráður á vettvangi sem deiliskipulagið og áformuð breyting á aðalskipulagi ná til. Skráningin fól í sér athugun á fyrri skráningum, heimildasöfnun, vettvangsskráningu og úrvinnslu, mat á minjum innan skipulagssvæðisins, s.s. hættumat, og skýrslu- og kortagerð.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Ragnheiður Traustadóttir og Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur sáu um vettvangsvinnuna og skýrsluskrif. Tilgátuteikningu og uppdrátt af Vífilsstaðaseli gerði Ómar Smári en Ragnheiður annaðist kortavinnuna.
Á umræddu svæði er að finna selsminjar, fornar leiðir, vörður, fjárskjól, kolagrafir, herminjar auk meintra tófta við Grunnuvötn. Skýrsluhöfundar hafa farið nokkra ferðir um svæðið.“

Skýrsluna má sjá HÉR.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

 

Urriðakot

Gengið var um Urriðakot, minjarnar í kringum bæinn skoðaðar og síðan haldið upp á Urriðakotskamp (Camp Russel) og stríðsminjarnar skoðaðar.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

Þaðan var gengið með vestanverðu Urriðakotshrauni að Markasteini og til norðurs yfir í Selgjá. Skoðaðar voru selsminjarnar í gjánni sem og fjárskjólin norðvestan hennar.
Við Urriðakot var m.a. kíkt á leturstein í túninu. Á hann er klappað ártalið 1846 auk upphafsstafa. Það mun hafa verið ábúandinn á bænum er þetta hannaði á sínum tíma. Ofan við hlaðinn túngarðinn er Grjótréttin. Gengið var til austurs með garðinum, að vatnsleiðslu þeirri er hernámsliðið gerði og lá frá steyptum brunni neðst í brekkunni og upp á steyptan vatnsgeymi ofarlega í holtinu. Bækistöð hersins á holtinu nefndist Camp Russel. Þar má enn sjá minjar, t.d. grunna þeirra fjölmörgu húsa og bragga,s em þar voru. Steyptur skorsteinn stendur skammt frá veginum (Flóttamannaveginum), en hann er leifar aðalstöðvanna, sem þarna voru. Þá má sjá vatnsgeyminn í holtinu sem og göturnar, sem lágu á milli húsanna. Til er gamall uppdráttur af kampinum og var hann hafður til hliðsjónar í göngunni.

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn.

Gengið var með vesturjarðri Urriðakotshrauns, framhjá hlaðinni Stekkjartúnréttinni og inn með Fremstahöfða. Við hann austanverðan er stórt og fallegt bjarg, Markasteinn. Steinninn stendur utan í holti og segir til um landamerki Urriðakots og Setbergs. Sagan segir að er Urriðakotsbóndi hafi eitt sinn verið að ganga framhjá steininum hafi hann heyrt rokkhljóð koma innan úr honum. Taldi hann þá að þar byggi huldufólk. Sagnir eru um að allan mátt dragi úr fólki er nálgast steininn.

Selgjá

Rjúpur í Selgjá.

Frá steininum var gengið beina leið í Selgjá og komið þar sem stærsti fjárhellirinn og greinilegustu selsrústirnar eru í sunnanverðir gjánni, en sagnir eru um að 11 sel hafi verið í gjánni þegar mest var um haft þar. Litið var á leturstein með merkinu B í norðanverðir gjánni, komið við í Selgjárhelli, Sauðahellinum syðri (Þorsteinshelli) og síðan litið ogfan í Sauðahellinn nyrðri. Staðnæmst var við op Skátahellis sem og op Norðurhellis áður en haldið var eftir Kúastíg að hlöðnu fjárskjóli norðan undir háum hraunkletti og síðan stígurinn genginn áfram með vestanverðum hraunkanti Urriðakotshrauns, framhjá Stekkjartúnsrétt og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Urriðakot

Friðlýsingu svæðisins sem fólkvangs er ætlað að tryggja aðgengi almennings að náttúru Urriðakotshrauns, sem býr yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og miklum möguleikum til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu, m.a. um göngu- og reiðstíga sem liggja um svæðið.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Guðlaugur þór, Almar og aðrir viðstaddir friðlýsingu Urriðakotshrauns.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag, 10. jan. 2024, friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvangs.

Friðlýsingin er staðfest að beiðni Garðabæjar og landeigendanna, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, og unnin í samstarfi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar.

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8100 árum og er þar nokkuð um hraunhella. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að vernda jarð- og hraunmyndanir sem og menningarminjar Urriðakotshrauns, sem eru fágætar á heimsvísu, sem og náttúrulegt gróðurfar svæðisins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Hið friðlýsta svæði Urriðakotshrauns.

„Það er afskaplega gott þegar hægt er að ljúka verkefnum svona farsællega eins og þessu. Friðun fólkvangsins hefur mikla þýðingu fyrir Garðbæinga, þetta verður til þess að samfella er í þeim svæðum sem eru friðlýst og heildarsýn er að myndast. Mér finnst líka gott í heilsueflandi samfélagi að greiða aðgengi almennings að þessu svæði á sama tíma og við verndum það,” segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri.

Hið friðlýsta svæði er 1,05 km2 að stærð, en samhliða vinnu við friðlýsingu var unnið deiliskipulag fyrir svæðið sem nú hefur verið staðfest og auglýst af Skipulagsstofnun.

Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að í náinni framtíð verði lögð golfbraut sem er hluti af golfvellinum Urriðavelli innan fólkvangsins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Urriðakotshraun og nágrenni.

Fólkvangurinn í Urriðakotshrauni er mikilvægur hlekkur í röð friðlýstra svæða sem nær frá upplandi Garðabæjar nær óslitið til sjávar.

Svæðin sem um er að ræða eru: Reykjanesfólkvangur (friðlýst 1975), Búrfell (friðlýst 2020), Garðahraun efra og neðra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar (friðlýst 2021), Gálgahraun (friðlýst 2009) og innan marka Garðabæjar (friðlýst 2009) og Bessastaðanes (friðlýst 2023) og nú bætist Urriðakotshraun við net verndarsvæða Garðabæjar.

Heimild:
-https://www.gardabaer.is/stjornsysla/utgefid-efni/frettir/urridakotshraun-fridlyst-sem-folkvangur

Urriðakotshraun - friðlýsing

Svæðið, sem friðlýst var í umræddum áfanga.

Garðakirkja

Sigríður Torlavius skrifar í Tímann árið 1965 um endurreisn Garðakirkju:
„Í meira en sex hundruð ár hafði staðið kirkja að Görðum á Álftanesi. Frá kirkjudyrum höfðu menn sýn yfir strönd og nes horfðu vestur um flóa, í sólsetursglóð eða kólgubakka. Þaðan mátti sjá fólk starfa að landbúnaði og við sjófang, báta róa til fiskjar, snúa í höfn — eða hverfa að fullu og öllu. Þar höfðu þjónað 43 klerkar, aðstoðarprestar meðtaldir, þegar ákveðið var árið 1914, að sóknarkirkjan skyldi flutt frá Görðum til Hafnarfjarðar í sjávarþorpið við hraunjaðarinn í botni víkurinnar.
gardakirkja-29Mismargt er ritað um þá klerka, sem staðinn hafa setið frá því þar var séra Ólafur Magnússon, sem árið 1284 gerði för sína til Noregs og andaðist þar ári síðar. Árni biskup Þorláksson sem Biskupa sögurnar segja, að hafi „farið fram sem ljón“ í stríði sínu við veraldlega valdið um eignir þær, sem kirkjunum höfðu verið lagðar, setti á staðinn frænda sinn séra Bjarna Helgason, árið 1285. Ekki undi Rafn lögmaður Oddson því, heldur tók staðinn af Bjarna og fékk í hendur Sturlu Sæmundssyni frá Odda. Fleiri urðu átök um yfirráð staðarins á þeim óróatímum.
Árið 1531 fékk séra Einar Helgason staðinn. Ekki var kært nábýlið með honum og Diðriki af Mynden, fógeta á Bessastöðum. Kvaðst klerkur albúinn að lesa ævisögu fógetans upp á Alþingi og væri honum það mátulegt, því bæði stæli hann og kæmi öðrum til að stela. Eftir að Diðrik var dauður óhreinan sveim, lagði þó ári sá aldrei til við séra Einar. En annan mann átti séra Einar að vini. Það var hinn blindi biskup Ögmundur Pálsson, sem svo hart var leikinn af Gissuri eftirmanni sínum. Hann bað séra Einar að skrifa bréfið til Ásdísar systur sinnar á Hjalla, um afhendingu Slifursins, sem duga átti honum til lausnar. Ekki treystu þeir Hvítfeld og Gissur bréfagerð séra Einars, heldur skrifaði Gissur sjálfur annað bréf og sendi séra Einar með það austur.
Árin 1569—1618 sat Jón Kráksson staðinn. Hann var hálfbróðir Guðbrands biskups Þorláksaonar og var með honum erlendis þegar Guðbrandur tók vígslu. Samtímis fengu þeir staðfesta dóma um endurheimt jarða, sem dæmdar höfðu verið af Jóni afa þeirra Sigmundssyni.
gardar-229Árið 1658 fluttist að Görðum Þorkell prestur Arngrímsson og þar fæddist honum sonur árið 1666, er kunnur varð samtíð og síðari öldum Jón biskup Vídalín. Jón Vídalín var að vísu prestur í Görðum um tveggja ára skeið, 1695—97, en virðist alltaf hafa verið með annan fótinn austur í Skálholti hjá Þórði biskupi Þorlákssyni Þó hafði hann bú á Görðum með móður sinni, en naumast hafa efnin verið mikil. Er að því vikið í Biskupasögunum, að eftir andlát Þórðar biskups, hafi Guðríður ekkja hans veitt Jóni fjárstyrk til að sigla, svo hann næði biskupsembætti og vígsju. Ári eftir að Jón tók vígslu, hélt hann brúðkaup sitt, en ekki sat velgerðarkona hans, biskupsekkjan, þá veizlu. Er sveigt að því, að þá hafi verið tekin að kólna vinátta þeirra. Ó-já, það er svo sem sitt hvað, sagnfræði og slúður!

Garðakirkja

Garðakirkja 1960.

Fleiri Garðaklerkum samdi illa við höfðingjana á Bessastöðum. Björn Jónsson Thorlacius, sem var þar prestur frá 1720—46, átti í miklum brösum við amtmanninn. Dætur átti séra Björn tvær og giftist önnur Halldóri biskupi Brynjólfssyni, en hin, sem var launbarn, varð eiginkona Skúla fógeta.
Á síðari öldum sátu á Görðum margir lærdómsmenn og menningarfrömuðir, eins og Árni biskup Helgason. Helgi lektor Hálfdánarson og Þórarinn prófastur Böðvarsson. Lét séra Þórarinn hlaða steinkirkju að Görðum árið 1879 og stóð hún ofar í brekkunni en hinar fyrri kirkjur höfðu staðið og utan við kirkjugarðinn. Lét hann Jón son sinn, sem þá var við nám erlendis, kaupa marga góða gripi til kirkjunnar.
Síðasti presturinn sem staðinn sat, var Árni prófastur Björnsson. Bjó hann áfram á Görðum til ársins 1928 þó að búið væri að flytja kirkjuna. En eftir að hann fluttist burtu, gerðist Guðmundur Björnsson ábúandi á jörðinni og situr hana enn.
Sem að líkum lætur voru kirkjugripir úr Garðakirkju fluttir í hina nýju sóknarkirkju. Altaristaflan var tekin að mást og fölna og þótti nauðsynlegt að skýra hana upp og hreinsa og var það gert í Reykjavík. Ólafur þingvörður Þorvaldsson hefur sagt mér, að eitt sinn, er hann var á heimleið frá Reykjavík, hafi hann mætt hóp manna, sem kom berandi með altaristöfluna frá Hafnarfirði.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

Að Görðum stóð steinkirkjan eftir, rúin og auð. Veðraðist hún og hrörnaði smám saman og þar kom, að eftir stóð tóftin ein og starði holum gluggaskotum yfir hverfið, en þak féll inn. En þegar liðin voru tæp fjörutíu ár frá því, að guðsþjónustur lögðust af á staðnum, var svarað kalli hins hrunda guðshúss.
Árið 1953 stofnuðu 36 konur Kvenfélag Garðahrepps. Formaður var kosin Úlfhildur Kristjánsdóttir, húsfreyja á Dysjum og gegnir hún nú á ný formennsku í félaginu. Úlfhildur þótti alltaf ömurlegt að líta til kirkjurústanna, frá því fyrst hún fluttist í Garðahverfið. Því taldi hún, sem og aðrir stofnendur kvenfélagsins, að það væri í senn veglegt og verðugt hlutverk að gangast fyrir endurreisn kirkjunnar. Þær fengu Björn heitinn Rögnvaldsson byggingameistara til að athuga kirkjurústina og leggja á ráðin um framkvæmdir. Hann taldi, að steypa þyrfti 15 cm. þykkt styrktarlag innan á veggina og tóku konurnar strax til óspilltra mála. Þær söfnuðu sjálfboðaliðum og voru ósmeykar að leggja sjálfar hönd á þau verkfæri, sem beita varð hverju sinni. Þær grófu fyrir undirstöðum, unnu við múrverk og þaklagningu. Bætt var turni á kirkjuna, svo hún er enn reisulegri en áður var.

Garðakirkja

Garðakirkja 2022.

Við næst síðustu alþingiskosningar var leitað álits sóknarmanna á því, hvort þeir vildu að kirkja yrði á Görðum á ný. Var almennur vilji fyrir því og sóknarnefnd kosin. Er kvenfélagið hafði komið kirkjunni undir þak, afhenti það hana sóknarnefndinni og hafði það þá lagt fram 111 þúsund krónur í reiðufé, auk sjálfboðavinnunnar, sem var afar mikil. Ekki var þó stuðningi félagsins við kirkjuna lokið með þessu. Það heldur áfram að safna til hennar fé með ýmsu móti, hefur árlega kaffisölu og skemmtanir, veitir viðtöku gjöfum og áheitum. Það hefur stofnað minningarsjóð um látna félagskonu og skal verja minningargjöfunum til kirkjunnar. Auk hinna sérstöku fjársafnana leggur félagið árlega fimm þúsund krónur í kirkjubyggingarsjóðinn.
Nú er búið að ganga frá öllu múrverki í kirkjunni, utan sem innan, og lagt hefur verið í hana hellugólf úr íslenzkum steini. Eftir er að smíða bekki, prédikunarstól og altari og tefur það nokkuð framkvæmdir, að panta varð sérstaklega við í þá gripi, því ekki var til nægilega góður viður í landinu. Daginn sem ég kom að Dysjum var verið að ljósmynda kirkjuna að innan, svo að senda mætti myndirnar til útlanda, áður en ráðin væri kaup á ljósaútbúnaði. Allur verður búnaður hinnar endurreistu kirkju nýr, því engum dettur í hug að vilja krefjast aftur þeirra gripa, sem á löglegan hátt voru fluttir í nýja sóknarkirkju. Vonir standa til, að hægt verði að vígja kirkjuna fyrir næstu jól, rösklega hálfri öld eftir að lagðar voru niður guðsþjónustur að Görðum. Þá verður vonandi einnig búið að hlúa að gamla kirkjugarðinum og umhverfi kirkjunnar, en það verk er í höndum fegrunarnefndar sóknarinnar.
Það er full ástæða til að minna á að þakka það merkilega starf, sem Kvenfélag Garðahrepps hefur af hendi leyst við endurreisn kirkjunnar, sem fyrr en varir verður miðdepill þétthýlis, er koma mun í staðinn fyrir smábýlin, sem enn mynda byggðina milli hrauns og hafs. – Sigríður Thorlavius.

Heimild:
-Tíminn 15 apríl 1965, bls. 17 og 31.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Urriðahraun

Gengið var um Kúadali innan við Urriðakotsdali með það að markmiði að reyna að rekja tvær gamlar götur inn á Urriðakotshraunið, þ.e. svonefndan Grásteinsstíg og Kúadalsstíg, og leita staðfestingar á svonefndri „Réttin gamla“ og „Stekkjatúnsstekk“.
Urridakotshraun-2Örnefnin eru tilgreind í heimildum við og í nágrenni við stígana, s.s. Grásteinn, Einbúi og Sprunguhóll, auk þess sem nokkurra minja frá búskapnum á Urriðakotsbænum er getið á svæðinu, t.a.m. fyrrnefna rétt, stekk, fjárhús, skotbyrgi, fjárskjól o.fl.
Að þessu sinni var höfð til hliðsjónar fornleifaskráning Byggðasafns Skagafjarðar fyrir Urriðaholt (nærtækt Urriðakotslandið) frá árinu 2005. Í hluta skráningarinnar er fjallað um svæðið milli Vífilsstaðahlíðar og Tjarnarholts (-holta), þ.e. vestanvert Urriðakotshrauns.
Í nefndri skráningu segir m.a. um heimildir varðandi framangreint og niðurstöður vettvangsleitar: „
Um Grásteinsstíg í Urriðakotslandi segir m.a. í örnefnaskrá frá 1964: „Grásteinsstígur „liggur út á hraunið frá Hraunhorninu hjá Grásteini“, steini „á hrauninu út frá Hraunhorninu“.
Urridakotshraun-4Í örnefnalýsingu 1988 segir: „Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smáhorn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. […] Nokkurn spöl suðaustur af Hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum, gráum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu.“ Stígurinn lá að Kolanefsflöt [þar sem Sauðahellirinn nyrði er].
Skv. örnefnaskrá 1964 var „Réttin gamla“ í hraunbrúninni „í hvammi neðan til við Kúadali“ og „nokkru neðar er svo gamall stekkur, frá stekktíðinni.“
Skv. ódagsettri örnefnalýsingu lá Grásteinsstígur „þvert yfir hraunið frá Hraunhorni sem var nokkru sunnar með hraunbrúninni, en sunnan við það var svo Hraunshornflöt. Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið […]“. Ekki er minnst á stekkinn í örnefnalýsingu 1988, aðeins túnið og réttina sem við hann eru kennd.
Í örnefnaskrá 1964 er Stekkatúnið sagt vera „gróinn hvammur kringum stekkinn“, „Stekkatúnsrétt var þarna, en er nú horfin með öllu. Þarna hafa nú verið byggðir sumarbústaðir þrátt fyrir vatnsleysi.“ Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er gömul rétt sem kölluð var Stekkjartúnsrétt, eða aðeins Stekkjartún. Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: „Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið, hvammur í hrauninu. Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða 

Urridakotshraun-5

Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.“ Í örnefnalýsingu 1988 segir svo: „Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er Stekkjartún. Við hraunið nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus […]“. Skv. örnefnaskránni 1964 virðist sú rétt hins vegar hafa verið kölluð „Réttin gamla“.
Í örnefnaskrá 1964 er auk Stekkatúnsréttar nefnd Réttin gamla sem var „í hvammi neðan við Kúadali […] í hraunbrúninni. Innst í réttinni er lítill skúti“. Í ódagsettri örnefnalýsingu er hins vegar talið að um sömu rétt sé að ræða en eftir að Stekkatún hefur verið nefnt segir: „Þarna var líka
Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.“ Loks segir Svanur Pálsson í örnefnalýsingu 1988: „Við hraunið, nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus, sem byggð var í minni heimildarmanns. 

Urridakotshraun-6

Nánari lýsing: Nafnið Réttin gamla virðist gefa hugmynd um að hún sé eldri en Stekkatúnsrétt. Um aldur hinnar síðarnefndu er ekki getið en hin fyrrnefnda var ekki byggð fyrr en eftir 1906, fæðingarár heimildarmannsins, Guðbjargar Guðmundsdóttur. Af staðsetningunni „í hraunbrúninni“ að dæma er Réttin gamla þó líklega sú sem Guðbjörg mundi eftir „við hraunið“ og taldi nafnlausa.
Þegar Stekkjartúnsrétt og „önnur rétt nafnlaus“ hafa verið nefndar segir í örnefnalýsingu 1988: „Norður af henni er áberandi hóll í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af Einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns. Austur og suðaustur af beitarhúsarústunum er hraunið tiltölulega slétt og lægra en umhverfið og nefnist Flatahraun.“

Urridakotshraun-7

Í örnefnaskrá 1964 segir um Kúadali: „Svo heita hvammar og flatir niður með hrauninu milli þess og Tjarnholtanna. Grónir vel og sléttir.“ Í ódagsettri örnefnalýsingu er Einbúi sagður vera austur frá Stekknum en „hér framar er komið í Kúadali, og liggur Kúadalastígur upp og út í hraunið. Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt.“ Í örnefnalýsingu 1988 segir: „Norð-austur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið.“
Í örnefnaskrá 1964 segir um Kúadali: „Svo heita hvammar og flatir niður með hrauninu milli þess og Tjarnholtanna. Grónir vel og sléttir. „Í ódagsettri örnefnalýsingu er Einbúi sagður vera austur frá Stekknum en „hér framar er komið í Kúadali, og liggur Kúadalastígur upp og út í hraunið. Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt.“ Í örnefnalýsingu 1988 segir: „Norð-austur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið.“

Urridakotshraun-10

Skv. örnefnaskrá 1964 eru Kúadalir hvammar „niður með hrauninu milli þess og Tjarnholtanna“ en út úr stærsta hvamminum liggur“ Kúadalastígur „upp á hraunið út á Flatahraunið yfir í Vífilstaðahlíð“. Í örnefnalýsingu 1988 segir: „Norðaustur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið. Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, Sprunguhóll. Vestur af Byrginu er grýttur hóll, Grjóthóll.“
Í örnefnaskrá 1964 er nefndur Syðridalatroðningur: „Troðningur eða stígur, er lá upp holtið frá dal rétt við Grjóthól suður á Syðri dalinn.“ Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: „[…] milli Tjarnholta og Þverhlíðar er Dalurinn syðri eða eins og hann er stundum kallaður Urriðakotsdalur syðri og líka var hann nefndur Efri-Flatir. Hér um lá troðningur og niður um holtið, nefndist Syðridalatroðningur, hann lá framhjá svonefndum Grjóthól um Grjóthólsflöt niður undan honum, en hér var kallað holtið „Milli dala“ og þá lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir,

Urridakotshraun-8

Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjáarréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls, sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar.“
Í örnefnaskrá 1964 segir um Fjárhústóftina syðri: „Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett.“. Eða: „Nokkru vestan við Skotbyrgið, er stór klettur vestan undir honum er rúst gamals fjárhúss.“. Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: „Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt. Þar vestar er hraunhóll mikill og við hann er Fjárhústóftin nyrðri eða austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem sauðahús.“ Líklega eru þetta sömu tóftir og getið er um í örnefnalýsingu frá 1978: „Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, sem heitir Sprunguhóll. Skammt suðaustur af Sprunguhól eru gamlar fjárhústættur.

Urridakotshraun-9

Í örnefnaskrá 1964 segir um Fjárhústóftina nyrðri: „Nokkru norðar en gamla rústin“, þ.e. Fjárhústóftin syðri, „er fjárhústóft og standa veggirnir enn.“ Eða: „Nokkru vestar er fjárhústóft yngri og standa enn veggirnir. Guðmundur bóndi Jónsson [í Urriðakoti] byggði fjárhúsið. […] Fjárhúsið er eftir sauðahús.“ Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: „Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt. Þar vestar er hraunhóll mikill og við hann er Fjárhústóftin nyrðri eða austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem sauðahús.“ Líklega eru þetta sömu tóftir og getið er um í örnefnalýsingu frá 1978: „Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, sem heitir Sprunguhóll. Skammt suðaustur af Sprunguhól eru gamlar fjárhústættur.
Skv. örnefnaskrá 1964 var Skotbyrgið „gamalt skotbyrgi af grjóti vestan til við“ Kúadalsstíg eða „rétt vestan til við Kúadali“. Í ódagsettri örnefnalýsingu segir: „Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt.“

Urridakotshraun-3

En í örnefnalýsingu 1988: „Vestur af Litla-Tjarnarholti er stór steinn og er annar steinn uppi á honum. Var það kallað Byrgi.“
Af framangreindu má ætla að „Gamlarétt“ hafi ekki fundist við vettvangsleit, en gæti verið sama og nefnt er „Stekkjatúnsstekkur“. Hér kemur uppgötvun þessarar ferðar; leifar af bæði „Gömlurétt“ og „Stekknum“ er að finna á báðum tilgreindum stöðum. Þá er auðvelt að rekja bæði „Grásteinsstíg“ og „Kúadalsstíg“ yfir hraunhöftin. Grónar vörður gefa báða stígana til kynna. Austan hraunhaftanna sjást göturnar mjög vel, enn þann dag í dag. Og „Gamlarétt“ virðist svo augljós.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Fornleifaskráning Byggðasafns Skagafjarðar 2005 – Urriðaholt.
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðah. /Garðahr.: Hafnarf. og Hraunum, bls. 139-40.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, 2001: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III.
-Svanur Pálsson, 1978, bætt 1988: Örnefnalýsing Urriðakots skráð eftir Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti.

Grásteinn

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Selgjárhellir

Gengið var að hellunum í Urriðavatnshrauni. Á litlu svæði eru a.m.k. sex hellar, þar af þrír nokkuð langir, en hinir hafa verið notaðir sem fjárskjól. Í einum þeirra, Þorsteinsshelli (Sauðahellirinn syðri), eru miklar hleðslur er mynda þverskiptan niðurgang í tvískiptan hellinn.

Selgjá

Norðurhellrar í Selgjá.

Annar fjárhellir (Selgjárhellir) er skammt norðaustar, í norðvesturenda Selgjár, sem einnig var nefnd Norðurhellragjá. Hleðslur eru fyrir opi hans. Þá eru fyrirhleðslur í helli skammt norðan hans (Sauðahellirinn nyrðri). Sá hellir hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Einnig eru hleðslur í helli vestan við Þorsteinshelli. Hellar þessir gengu áður undir samheitinu Norðurhellar.
Selgjá hét Norðurhellragjá eða Norðurhellagjá. Í henni eru margar minjar selsbúskaparins fyrr á öldum. Í jarðabókinni 1703 er getið um sel frá átta kóngsjörðum á Álftanesi. Ávallt er getið um selstöðurnar í þátíð svo allnokkur tími virðist hafa verið síðan þær lögðust af. Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður, sem allar eru byggðar upp við gjárbarmanna, a.m.k. um 20 byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar.

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

Sauðahellirinn syðri er hér nefndur Þorsteinshellir, en undir því nafni mun hann hafa gengið um tíma er samnefndur maður Þorsteinsson, þá ábúandi í Kaldárseli, notaði hellana sem fjárskjól um aldamótin 1900. Um hann er fjallað í lýsingu um Kaldársel hér á vefsíðunni. Urriðakotsdalastígur/Gjáarréttarstígur lá þarna skammt frá hellinum um Mið-Tjarnarholt.
Opnað hefur verið inn í langan helli í jarðfalli skammt norðvestan við Þorsteinshelli. Þá er Skátahellir alllangur. Varða er ofan við op hans. Þriðji langhellirinn er skammt norðar. Gróið er í kringum opið. Fara þarf niður undir lágt klapparholt. Þar opnast rás inn undir hraunið. Gömul mosavaxin varða er skammt frá opinu. Því miður gleymdist ljóskerið svo ekki var hægt að fara mjög langt inn eftir rásunum að þessu sinni. Ljósið frá farsímanum dugði þó fyrstu 30 metrana, svona til að skoða hvers konar rásir var um að ræða. Fyrir innan opið á síðastnefndu rásinni er hleðsla, líkt og einhver hafi haft þar bæli um tíma. Augsýnilega hafði þó ekki verið farið þangað niður um allnokkurn tíma.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Urriðavatnshraun er hluti af Búrfellshrauni. Hraunið er komið úr Búrfellsgíg, sem blasir þarna við í enda Búrfellsgjár. Selgjáin hefur verið hluti þessarar hrauntraðar, en vegna misgengis og hreyfingu landsins, er hún nú allnokkru hærri en Búrfellsgjáin. Misgengið gengur þarna áfram við sunnanverðar Smyrlabúðir að vestanverðu og Hjallana að norðanverðu. Hraunið hefur runnið í tveimur kvíslum vestur milli grágrýtishæðanna og allt í sjó úr í Hafnarfirði og Skerjafirði. Á leiðinni heitir hraunið ýmsum nöfnum, s.s. Urriðvatnshraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Garðahraun, Flatahraun, Gálgahraun, Hafnarfjarðarhraun, Gráhelluhraun og e.tv. fleiri nöfnum. Guðmundur Kjartansson (1972) fékk gerða aldursákvörðun á mó undan Búrfellshrauni við Balaklett og samkvæmt því er hraunið um 7200 ára.

Setbergsselshellir

Í Setbergshelli.

Í syðri hraunkvíslinni eru t.d. Hvatshellir, Kershellir og Kethellir (Selhellir). Skammt norðar í nyrðri hraunkvíslinni (sömu og Norðurhellarnir) eru Maríuhellar, öðru nafni Urriðakotshellir og Vífilsstaðahellir.
Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu heldur hrauntröð, þ.e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma. Hraunrennslið þvarr mjög snöggt í Búrfellsgjá og farvegurinn tæmdist nær því í botn. Hellarnir við enda Selgjár eru við enda hrauntraðarinnar
Frá sjónarmiði hellafræðinnar er Búrfellsgjáin merkilegasta fyrirbærið í Búrfellshrauni, en í hrauninu eru einnig nokkrir hellar, m.a. þeir sem hér eru nefndir.

Frábært veður – stilla og hlýtt – Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson – 1990.
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur R. Guðmundsson -2001.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Valahnúkar

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða. Selvogsgata er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs.

Selvogsgata

Selvogsgata á Hellunum.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli. Loks var götunni fylgt niður í Helgadal með viðkomu í Rauðshelli og stefnan tekin þaðan að Kaldárseli.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Þar sem staðið er á upphafsstaðnum við Bláfjallaveg má sjá þessa virkni “ljóslifandi”. Þegar horft er upp í Bollana (Stórabolla, Miðbolla og Syðstubolla), má sjá hvernig hlíðin, sem þeir eru á, hefur opnast og hraunið runnið niður þá í stríðum straumum. Miðbolli er einstaklega fallegur hraungígur. Utan í honum eru tvö önnur gígop og síðan fleiri í hlíðinni norðan hans. Frá honum má sjá fallegar hrauntraðir og í þeim eru nokkir fallegir hellar. Langahlíð, Dauðadalir og Lönguhlíðarhorn eru á hægri hönd en Kristjánsdalir og Kristjánsdalahorn á þá vinstri.

Grindarskörð

Grindarskörð og nágrenni.

Selvogsgatan lá áfram upp um Grindarskörð austan Stórabolla og áfram niður með Litla-Kóngsfelli, um Hvalskarð og niður í Selvog. Einnig liggur gata, vel vörðuð upp Kerlingargil milli Miðbola og Syðstubolla. Ofan þeirra eru gatnamót. Frá þeim liggur Hlíðarvegur niður að Hlíðarskarði fyrir ofan Hlíð við Hlíðarvatn, þar sem Þórir haustmyrkur er talinn hafa búið við upphaf byggðar. Grindarskörð eru nefnd svo vegna þess að Þórir þessi á að hafa gert þar grindur til að varna því að fé hans leitaði norður og niður hlíðarnar.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Selvogsgatan liggur niður Hellurnar um Húsfellsbruna sem eru ágætlega greiðfær, allt suður að hálendinu. Þarna má sjá nokkur hraun, bæði slett helluhran og úfin apalhraun. Austast er hrikalegt Rjúpnadalahraunið úr Drottningu og vestast má sjá Tvíbollahraunið.

Framundan sést Helgafell (vinstra megin – 340 m.y.s) og Húsfell (hægra megin – 278 m.y.s)). Milli þeirra eru Valahnúkar (201 m.y.s). Á þeim trjóna tröllin hæst. Segir sagan að þau hafi verið á leið í Selvog, en orðið sein fyrir og ekki verið komin lengra er sólin reis í austri, ofan við Grindarskörðin. Varð það til þess að þau urðu að steini og standa þarna enn.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Helgafellið er eitt af sjö samnefndum fjöllum á landinu. Þau eru t.d. í Mosfellssveit, vestmannaeyjum, Dýrafirði og Þórsnesi á Snæfellsnesi. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Búrfellið (179 m.y.s) er neðan við Húsfellið. Frá Búrfelli rann hraun það sem Hafnarfjörður stendur að hluta til á fyrir um það bil 7200 árum. Hrauntröðin frá fellinu er ein sú stærsta á landinu, Búrfellsgjá.
Gengið var í gegnum Mygludali, en undir þeim er talið vera eitt mesta ferskvatnsmagn á svæðinu. Dalurinn er talinn hafa verið nefndur eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, Myglu, en aðrir telja að nafnið sé til komið vegna myglu er leggst yfir dalinn er líða tekur á sumarið.

Valaból

Í Valabóli.

Litið var við í Valabóli norðaustan í Valahnjúkum. Þar er Músarhellir sem áður var notaður sem áningastaður en síðar sem gististaður Farfugla eftir að þeir girtu staðinn og ræktuðu upp gróðurvin í kringum hann. Fleiri hellar eru hér austur í hrauninu og reyndar víða á þessu svæði.

Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður. Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin ilmaði enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir. Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu aldrei lengi á sama stað.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Hlaðinn stekkur er skammt frá Rauðshelli. Ekki langt frá, ofan við Helgadal eru fornar tóftir. Jarðfallið, sem gengið er úr í hellinn, er mikið gróið. Set, mold og gróður hafa hlaðist þar upp um aldir. Ekki er ólíklegt að undir þeim kunni að leynast minjar. Þær gætu bæði tengst hinum fornu tóftum í Helgadal, þarna 500 m frá, eða (sels)búskapnum í Kaldárseli. Einnig gætu þær verið frá Görðum á Álftanesi, en landssvæðið tilheyrði þeim fyrr á öldum.
Frá Rauðshelli sést gígurinn í Búrfelli mjög vel. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Þrátt fyrir samheitið Búrfellshraun, bera margir hlutar þess sín eigin nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðahraun. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Margir ganga gjarnan upp eftir hrauntröðinni innan girðingar Heiðmerkur, Búrfellsgjá (u.þ.b. 3,5 km) og Lambagjá. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Helgadalur

Helgadalur – misgengi.

Helgadalur er ágætt dæmi um misgengi, líkt og á Þingvöllum. Hluta þessa misgengis má sjá þegar komið er upp á brúnina að vestanverðu. Það er handan Mosana og gengur í gegnum austanverðar Smyrlabúðir.

Helgadalur hefur verið afgirtur og er svæðið innan girðingarinnar, Kaldárbotnar, hluti af vatnsverndasvæði Vatnsveit Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð 1904.

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins. Fáeinar dælustöðvar innanbæjar sjá þeim bæjarhlutum sem hæst liggja fyrir vatni. Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera þau að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Vatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950. Merkilegasta holan sem hefur verið boruð eftir köldu vatni í nágrenni Hafnarfjarðar er við Kaldársel og varð 987 m djúp. Sú hola var köld (2-5 gráður) niður á 750 m dýpi.
Kaldá er náttúrulegt afrennsli linda sem eru í Kaldárbotnum.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði og fram til ársins 1909 höfðu bæjarbúar notast við vatn úr ýmsum brunnum innanbæjar. Vatnið var oft óhreint og stundum svo mengað að fólk veiktist alvarlega af því að drekka það. Þannig braust út taugaveikifaraldur fyrri hluta ársins 1908 sem rakin var til mengaðs drykkjarvatns.
Árið 1909 var farið að taka vatn úr lindum í svokölluðum Lækjarbotnum, sem eru í austurjaðri Gráhelluhrauns gegnt Hlíðarþúfum þar sem nú eru hesthús, en vegna þess að vatnið þar þraut í þurrkum og reyndist oft óhreint ákváðu menn að reyna að veita vatni úr Kaldá inn á vatnsvið lindanna. Í þetta var ráðist árið 1918. Þannig var byrjað að nota vatn frá Kaldá strax árið 1918 á óbeinan hátt. Enn má sjá undirstöður vatnsleiðslunnar þar sem hún liggur frá Kaldárbotnum og yfir Sléttuhlíð, þar sem vatninu var hleypt niður í hraunið. Það kom síðan upp í Lækjarbotnum, sem fyrr segir. Mest er mannvrikið þar sem leiðslan lá yfir Lambagjá.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum – stíflan.

Árið 1951 var svo tekin í notkun aðveituæð sem náði alla leið upp í Kaldá. Kaldá sjálf var stífluð og vatni úr ánni veitt í gegnum síu og þaðan inn í æðina. Á uppistöðulóninu sem myndaðist ofan við stífluna fóru að venja komur sínar fuglar ásamt því að sandur og allskonar gróðurleifar fóru að berast inn í aðveituæðina. Þess vegna var hlaðin steinþró utan um stærstu uppsprettuna í Kaldárbotnum sjálfum og þaðan lögð pípa sem tengd var beint við aðveituæðina.

Kaldá

Kaldá.

Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun.

Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum.
Bólstrabergið sjálft er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.

Kaldá

Kaldá.

Megin misgengið sem lindirnar í Kaldárbotnum tengjast hefur örugglega hreyfst oftar en einu sinni. Þannig eru yfirvegandi líkur á að opnast hafi gjá, í einhverjum hamförum á ísöld, undir ísaldarjöklinum og hún fyllst af jökulurð. Við gröft vegna framkvæmda árið 1997 komu í ljós setlög sem stefndu ofan í misgengið og núið grjót (sem við köllum héðan í frá hausagrjót ) kom upp af fimm metra dýpi, þegar grafið var niður með borholufóðringu. Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár. Vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Í eldgosi sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá.
Eftir að kemur vestur fyrir meginmisgengið í Kaldárbotnum rennur Kaldá ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Í Kaldárseli eru reknar sumarbúðir á vegum KFUM og KFUK. Frumkvöðull starfs KFUM og KFUK á Íslandi var æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik Friðriksson, en hann hafði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynnst starfi KFUM og tekið virkan þátt í því. Haustið 1897 kom hann heim til Íslands og myndaði eins konar undirbúningsfélag með nokkrum unglingspiltum úr Dómkirkjusöfnuðinum vorið 1898. Þann 2. janúar 1899 var KFUM formlega stofnað og fór starfsemin ört vaxandi er á leið vorið. Þá færðu nokkrar fermingarstúlkur það í tal við sr. Friðrik hvort hann gæti ekki einnig stofnað félag fyrir þær. Fékk sr. Friðrik nokkrar konur til liðs við sig og 29. apríl 1899 hafði KFUK einnig verið ýtt úr vör.

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins sjást enn suðaustan við húsið.

Um það leyti sem starf KFUM og KFUK hófst hér á landi átti íslensk kirkja að ýmsu leyti í vök að verjast og félagsstarfsemi fyrir börn og unglinga var mjög af skornum skammti. Ýmsir höfðu því efasemdir um að slík kristileg félagsstarfsemi gæti átt framtíð fyrir sér, en ekki leið á löngu uns félögin tóku að blómstra í höndum sr. Friðriks. Augu hans voru næm á þarfir ungu kynslóðarinnar og innan félaganna spruttu fram starfsgreinar á borð við kvöldskóla, bókasafn, skátafélag, knattspyrnufélag, bindindisfélag, taflflokk, hannyrðadeild, lúðrasveit, söngflokka, sumarbúðir o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Sífellt leitaði sr. Friðrik nýrra leiða til þess að byggja upp félagsstarf á kristnum grunni sem mætt gæti þörfum æskunnar og skapað heilbrigða einstaklinga til líkama, sálar og anda. Einstakir persónutöfrar, manngæska og vitsmunir gerðu hann nánast að dýrlingi í lifanda lífi og í hjarta borgarinnar, við Lækjargötu, minnir stytta hans á mikilvægi þess að styðja æsku Íslands til bjartrar framtíðar.

Kaldársel

Kalsdársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna eru felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt var við þau til búsetu.

Í Kaldárseli var sel um langan aldur, auk þess sem búið var þar um aldarmótin 1900. Ítarleg lýsing er á Kaldáseli í annarri FERLIRslýsingu (Sjá HÉR og HÉR.)
Sjá MYNDIR.

Frábært veður – sól og milt. Gangan tók 2 klst og tvær mínútur.

-Upplýsingar um Reykjaveginn fengnar af http://www.utivist.is
-Upplýsingar um Vatnsveitu Hafnarfjarðar eru fengnar af http://www.hafnarfjordur.is
-Upplýsingar um Helgafell eru fengnar af http://www.visindavefur.hi.is

Kóngsfell

Kóngsfell.

Vífilsstaðir

Á landnámstíð bjó sá maður, sem Sviði hét, í Sviðholti á Álftanesi.

Álftanes

Sviðholt.

Bær heitir Vífilsstaðir. Hann er einni og hálfri mílu ofar en Sviðholt. Þá jörð hafði Ingólfur Arnarsson gefið húskarli sínum, sem Vífill hét. Svo er mælt, að Vífill og Sviði hafi róið tveir saman á áttæringi og hafi Vífill gengið á Vífilsfell og gáð til veðurs áður en róið var. Bendir það til þess að hann hafi verið formaður. Þótt löng væri sjávargatan, fór Vífill ætíð heiman og heim þá er þeir reru.
Þeir Vífill og Sviði komu sér saman um að búa til mið, þar sem þeir hefðu best orðið fiskst varir. Er þá sagt, að Sviði hafi kastað heiman frá sér langlegg einum. Kom hann niður fjórar sjómílur sjávar frá landi. Heitir þar Sviðsbrún vestri. Vífill kastaði öðrum legg heiman frá sér. Þar heitir Sviðsbrún grynnri. Var vika sjávar milli leggjanna. Bilið kölluðu þeir Svið og mæltu svo um, að þar skyldi jafnan fiskvart verða, ef ekki var dauður sjór í Faxaflóa.

-Þjóðsögur Jóns Árnasonar II – 1961.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðahlíð.