Færslur

Garðakirkja

Á vefsíðu Garðakirkju er m.a. fjallað um kirkjuna fyrr og síðar. Fyrrum var kirkjan sóknarkirkja Hafnfirðinga og þurftu þá bæði bæjarbúar og sóknarbörn Garðaprestakalls, sem bjuggju sunnan bæjarins, að sækja þangað messur. Í þá daga var ekki þyrlum fyrir að fara svo nota þurfti annað hvort tvo jafnfljóta eða þess umfram tveimur fljótari.

Garðavegur

Kirkjugatan – gamla sjávargatan.

Löngum fetaði fólkið austan kirkjunnar fjörugötuna, en fljótlega um og eftir aldarmótin 1900 var farið að huga að því að leggja slóða og götur um hið strjála kofaþyrpingasvæði Hafnarfjarðar ofan strandarinnar. Ein af fyrstu götunum, sem lagðar voru í byrjun aldarinnar var Garðavegur – kirkjugatan, sem þá lá upp frá austanverðu Akurgerði og nefndist Kirkjuvegur.
Garðavegurinn hefur týnst að hluta, einkum þar sem hann lá um Víðisstaði og núverandi byggingarsvæði Norðurbæjar Hafnarfjarðar að ofanverðum Hleinum (þar sem Hrafnista trjónir nú ofan við gamla Allianz fiskreitinn). Í nýlegri fornleifaskráningu fyrir Hafnarfjörð hefur láðst að skrá Garðaveginn þar sem hann lá fyrrum í gegnum Norðurbæinn. Þar er einungis vitnað í þekkta fiskreiti og hlaðna garða (sem flestir eru reyndar frá nútíma).
Hér verður reynt að gefa fólki mynd af legu þessa gamla tímabundna kirkjuvegar, er þjónaði sínu hlutverki allt fram yfir fyrsta áratug 20. aldar.

Garðavegur

Garðavegur 1942.

“Garðakirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í Vilkins-máldaga frá 1397, þar sem skráðar eru allar eignir kirkna í Skálholts- biskupsdæmi, vekur það sérstaka athygli, að eignir Garðakirkju eru þá þegar orðnar ótrúlega miklar, og það svo, að landaeignir hennar munu ekki hafa aukist svo neinu næmi eftir það. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Jón Vídalín

Jón Vídalín.

Í Görðum er fæddur séra Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720), sem var biskup í Skálholti 1698-1720. Jón biskup Vídalín samdi “Guðrækilegar predikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll” og gaf út í húspostillu sinni, sem prentuð var fyrst á Hólum í Hjaltadal 1718-20. Árið 1995 var Vídalínspostilla gefin út í fimmtánda sinn, og hefur sú bók lengst, ásamt Passíusálmunum, dugað íslensku þjóðinni til guðrækilegrar iðkunar, allt þar til að húslestrar lögðust af eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa og útvarpsmessur hófust árið 1930.

Árið 1875 vísiterar Dr. Pétur Pétursson biskup í Görðum. Þá stóð þar gömul timburkirkja í miðjum gamla hluta kirkjugarðsins og svo hrörleg orðin, að hún verður ekki talin nothæf öllu lengur að dómi biskups. Séra Þórarinn Böðvarsson, sóknarprestur í Görðum og prófastur í Kjalarnesprófastdæmi, hvatti til þess, að kirkjan yrði endurreist en ágreiningur varð um hvort byggja skyldi í Görðum eða í Hafnarfirði og náðist ekki samkomulag.

Garðavegur

Garðavegur 1957.

Séra Þórarinn lét því árið 1879 byggja nýja kirkju í Görðum á eigin kostnað. Hann velur kirkjunni nýjan stað ofar og hærra en aðrar Garðakirkjur höfðu áður staðið og ákvað, að þessi nýja kirkja yrði gjörð af steini og var grjót til hennar tekið úr holtinu fyrir ofan kirkjuna. Þórarinn leggur allan sinn metnað í það, að kirkjan verði svo vönduð og vegleg sem verða má. Til marks um hve vel var vandað til alls, sem að kirkjusmíðinni laut, má geta þess, að þegar Garðakirkja var rifin, nær 60 árum síðar, sást hvergi ryðblettur á þakjárni hennar, og hafði þakið þó aldrei verið málað.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

Kirkjuhúsið var hlaðið úr tilhöggnum steini, eins og fyrr er sagt.. Blámálað hvolfþak var í ferhyrndum reitum með gylltri stjörnu í hverjum reit og þótti kirkjan eitt glæsilegasta guðshús landsins á þeim tíma. Ekki hefur fundist skráð hvenær kirkjan var vígð, en trúlega var það á annan í hvítasunnu 1880.

Eftir vígslu nýrrar kirkju í Hafnarfirði hinn 20. desember 1914 er Garðakirkja lögð af sem sóknarkirkja, en kirkjulegar athafnir fóru þó fram í Garðakirkju eftir það, enda sat sóknarpresturinn, séra Árni Björnsson, prestsetrið að Görðum og flutti ekki til Hafnarfjarðar fyrr en um haustið 1928. Séra Árni kom að Görðum frá Reynistað í Skagafirði árið 1913. Hann varð prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1916. og þjónaði Garðaprestakalli til dauðadags 26. mars 1932.

Garðavegur

Garðavegur – loftmynd 1952.

Útfarir fóru fram öðru hverju frá Garðakirkju þegar jarðsett var í Garðakirkjugarði, einnig eftir að kirkjan var seld í nóvember 1917. og fór síðasta athöfnin fram í maí 1937.
Eftir byggingu Hafnarfjarðarkirkju var söfnuðurinn í fjárþröng. Á aðalsafnaðarfundi 31. október 1915 var smþykkt einróma að selja Garðakirkju og í apríl næsta ár er auglýst eftir tilboðum. Þrjú tilboð bárust og voru opnuð á sóknarnefndarfundi 10. maí. Hæsta tilboðið reyndist sautján hundruð krónur. Horfið var frá því að taka nokkru tilboði þar eð fundinum barst eindregin ósk frá herra Þórhalli Bjarnarsyni biskupi, sem lofaði í þess stað tvö þúsund króna láni úr almennum kirkjusjóði með veði í Garðakirkju.

Garðavegur

Garðavegur – loftmynd 1952 m.v. loftmynd 1992.

Sú orðsending fylgdi frá biskupi, “að hann mætti ekki til þess hugsa að hið fornmerka kirkjuhús væri niður rifið, og það því fremur, sem Garðakirkja væri minnisvarði þjóðhöfðingjans, Þórarins heitins Böðvarssonar, sem hafði byggt hana og lagt til hennar mjög stóran skerf úr eigin vasa”. Á safnaðarfundi 29. október 1916 eru á ný flutt eindregin tilmæli frá Þórhalli biskupi um, að frestað yrði enn að selja Garðakirkju. Biskup hafði þá sótt um heimild stjórnarráðsins um að Garðakirkja yrði keypt af Thorchillisjóði er síðar kæmi þar upp “barnauppeldisstofnun”. Áður en stjórnarráðið svaraði þessu erindi lést biskup hinn 15. desember 1916. Hinn 21. maí 1917 ritar sóknarnefnd eftirmanni hans, herra Jóni Helgasyni biskupi langt bréf með beiðni um að málið yrði tekið upp að nýju en sú málaleitan bar engan árangur.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Loks kemur að því, að Garðakirkja er auglýst til sölu öðru sinni. Hinn 11. nóvember 1917 eru tvö tilboð opnuð, hið hærra kr. 2.000 og er báðum tilboðum hafnað. Á fundinn voru komnir þeir Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson og tjá sóknarnefnd að þeir og átta menn aðrir hafi bundist samtökum um að kaupa Garðakirkju, svo að hún yrði ekki rifin niður, og var tilboð þeirra kr. 2.800. Sóknarnefnd samþykkti tilboð þeirra. Þeir aðrir, sem að kaupunum á Garðakirkju stóðu, voru: Carl Proppé, Christian Zimsen, Gunnar Egilsson, Jes Zimsen, Jón Einarsson, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason og Þórarinn Egilsson. Árið 1938 var Garðakirkja orðin mjög illa farin og turn hennar að falli kominn. Hvorki þeir, sem eftir lifðu af eigendum hennar né sóknarnefnd töldu sér fært að gera á kirkjunni bráðnauðsynlegar endurbætur og fór svo að kirkjan var rifin næsta ár.

GarðakirkjaSvo var komið um miðja tuttugustu öldina að eftir stóð af Garðakirkju tóftin ein, þak- og gluggalaus og hinir hlöðnu steinveggir Þórarins Böðvarssonar óvarðir fyrir veðri og vindum. Kom jafnvel til tals að brjóta þá niður og flytja grjótið í fyllingu í Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi varð þó forðað og komu konurnar í nýstofnuðu kvenfélagi Garðahrepps þar til sögunnar og ákváðu að hefjast handa og endurreisa Garðakirkju. Þær máttu ekki til þess hugsa, að þessi forni og merki kirkjustaður legðist af. Garðar höfðu skipað virðingarsess í íslenskri kirkjusögu um aldir. Meðal fyrstu verkefna Kvenfélags Garðahrepps var endurreisn Garðakirkju. Á fundi félagsins hinn 6. október 1953 voru þrjár konur, þær Úlfhildur Kristjánsdóttir, Dysjum, Ásta G. Björnsson, Reynihlíð og Ólafía Eyjólfsdóttir, Hausastöðum, kosnar í nefnd til að vinna að þessu mikla áhugamáli. “

Hátíðarræða flutt í Garðakirkju 6. mars 2016.

Garðavegur

Garðavegur í dag – Fátt markvert að sjá….

Við hátíðarguðsþjónustu, sem haldin var þann 6. mars af tilefni 50 ára vígsluafmæli Garðakirkju, fluttu hjónin Steinar J. Lúðvíksson og Gullveig Sæmundsdóttir afar fróðlega og skemmtilega hátíðarræðu um sögu Garðakirkju.

“Hér erum við stödd í helgu húsi á sögufrægum stað. Senn eru liðin 50 ár frá því kirkjan okkar hér í Görðum var endurreist og endurvígð til þeirra mikilvægu verkefna sem unnin eru í kristilegu starfi í bæjarfélaginu okkar. Garðakirkja er eitt af kennileitum bæjarfélagsins. Kennileiti sem okkur þykir einkar vænt um og vístum til með virðingu og stolti. Að stofni til er kirkjubyggingin senn 140 ára sem telst hár aldur í byggingasögu landsins. Hún var á sínum tíma reist af miklum stórhug og þótti þá ein glæsilegasta kirkjubygging landsins.

Garðavegur

Garðavegur í gegnum Norðurbæinn fyrrum (1952).

Á þeim tímamótum að minnst er 50 ára endurvígslu Garðakirkju er ekki nmea eðlilegt að hugurinn reiki til fyrra tíma og hann sé borinn saman við þann tíma sem við lifum nú. Það er undarlegt að hugsa til þess að það eru ekki nema nokkrir mannsaldrar síðan að næfellt fjórðungur íslensku þjóðarinnar var á flótta. Voru flóttamenn í eigin landi og að á tveimur árum fórst nærfellt fimmtungur þjóðarinnar af fátækt og hungri. Miðað við það alsnæktaborð sem við sitjum nú við er hollt fyrir okkur að minnast þess að hér á þessu svæði bjó kynslóð afa okkar og önnu við það að vita ekki hvort til væri málungi matar næsta dag, – hvort unnt yrði að gefa börnunum eitthvað að borða þótt ekki væri nema þang eða fiskruður.

Garðar

Garðar í nútíma..

Og vert er líka að geyma í minni að það eru innan við hundrað ár síðan hreppsnefnd Garðahrepps sat á rökstólum í þinghúsinu hérna á holtinu og freistaði þess að útdeila mat til nánast allra heimila í hreppnum. Það var ekki auðvelt hlutskipti, ekki síst vegna þess að þá vildi enginn sem átti veraldleg verðmæti lána þau Garðahreppi.

Þótt fátækt og erfiðleikar væru miklir hér á svæðinu hélt kirkjustaðurinn Garðar jafnan reisn sinni. Í gegnum tíðina urðu margir Garðaklerkar nafntogaðir og landsþekktir og höfðu mikil áhrif á samtíð sína. Enginn þó eins og Jón Vídalín sem fæddist og ólst upp hér. Var hér sóknarprestur í eitt ár en lengst af starfsævi sinnar biskup í Skálholti.

Garðakirkja

Garðakirkja 2023.

Hér er ekki staður né stund til að fjalla um þann merka mann en aðeins sagt að enginn einn maður hefur haft eins djúpstæð áhrif á trúarlíf Íslendinga í langan tíma sem hann, auk þess sem hann lagði mikilvæg lóð á vogaskálar menntunar og uppbyggingar landsins á mörgum sviðum. Faðir Jóns, Þorkell Arngrímsson, sonur Arngríms lærða, var prestur hér í tvo áratugi. Hann var sagður lærðasti maður samtíðar sinnar – fyrsti Íslendingurinn sem lauk háskólanámi í læknisfræði og var einnig hámenntaður í jarðvísindum en mun aldrei hafa lokið námi í guðfræði. Marga aðra mætti nefna svo sem séra Jón Kráksson sem sat embættið í 50 ár, séra Guðlaug Þorgeirsson, séra Árna Helgason sem jafnan var nefndur „biskupinn í Görðum.“ Honum margstóð til boða biskupsdómur en afþakkaði jafnan, séra Helga Hálfdánarson sálmaskál, séra Þórarin Böðvarsson og séra Jens Pálsson. Og meðal merkra presta hér má vissulega líka nefna samtímamann okkar, séra Braga Friðriksson.

Garðaholt

Garðaholt 1952.

Fáum sögum fer af kirkjubyggingum í Görðum. Líklega hafa þær verið eins og víðast annars staðar á Íslandi, fyrst byggðar úr torfi og grjóti en síðar úr timbri. Ugglaust hefur það verið timburkirkja sem á sínum tíma fauk í ofvirði alla leið út á Svið. Vildi til að þar sat maður undir árum á báti sínum og sá svarta flyksu stefna til sín. Greip hann flyksunar og reyndist hún vera Garðakirkja. Lét hann sig ekki muna um að hengja hana aftan í bátinn er hann reri til lands og koma henni fyrir á grunninum. Ekki var kannski alveg að marka söguna, þótt góð væri, því sá er hana sagði var Vellygni Bjarni sem sjaldan gerði lítið úr afrekum sínum.

Garðavegur

Garðavegur í dag (2022).

Þegar leið á 19. öldina tók byggðamynstrið hér á svæðinu verulegum breytingum. Með skútuútgerðinni myndaðist þéttbýli í Hafnarfirði og þá fóru að heyrast raddir um að sóknarkirkjan væri best komin þar. Hafnfirðingar þóttu latir að ganga illfæra leið út að Görðum til kirkjulegra athafna. Á sama tíma var kirkjan í Görðum orðin svo hrörleg að endurbygging var nauðsynleg. Þegar ekkert gerðist í málinu bauð séra Þórarinn Böðvarsson sókninni að byggja hér steinkirkju á eigin kostnað. Var það ekki eina stórgjöfin sem séra Þórarinn færði sveitarfélaginu þar sem hann og eiginkona hans Þórunn Jónsdóttur gáfu líka skóla – Flensborgarskólann – til minningar um son þeirra, Böðvar, sem þótti einstakur efnismaður en lést ungur, þegar hann var við nám í Lærða skólanum.

Víðistaðir

Garðavegurinn um Víðistaði.

Nýja kirkjan var reist á árunum 1878-1880. Hleðslugrjótið var tekið hér í Garðaholti en gífurleg vinna var að höggva það til. Kalkið sem notað var til að líma steinana saman var úr Esjunni, unnið í kalkofni sem stóð skammt frá Arnarhól. Ekki hafa fundist heimildir um vígsludag kirkjunnar en séra Bragi Friðriksson taldi líklegt að hann hefði verið hvítasunnudagur árið 1880.

Nú þarf að gera langa sögu stutta.

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja.

Árið 1909 var ákveðið að byggja sóknarkirkju í Hafnarfirði og var hún vígð 20. desember árið 1914. Eftir stóð yfirgefin kirkja að Görðum sem nýbyggð var talin ein glæsilegasta kirkja á Íslandi. Nú laut hún allt í einu lögmálum yfirgefinna bygginga, – að láta smátt og smátt undan veðri og vindum og grotna niður. Árið 1938 var turn kirkjunnar rifinn svo og þak og gluggar. Eftir stóð gapandi steintóft sem enginn vissi hvað átti að gera við. Til stóð reyndar að rífa hleðsluna og nota sem uppfyllingu í hafnarmannvirki í Hafnarfirði en þegar á herti var slíkt ekki talið svara kostnaði. Úr varð að kirkjan var auglýst til sölu og barst í hana tilboð upp á tvö þúsund krónur. Enn átti kirkjan sér velunnara?. Nokkrir menn sem áttu rætur í Garðahverfinu yfirbuðu og keyptu rústirnar á 2.800 krónur.

Garðakirkja

Garðakirkja 2022.

Og árin liðu. Garðakirkja hafði verið traustlega byggð og steinhleðslan stóð eins og hún vildi sýna að hennar tími myndi koma. Og sá tími kom þegar konur í Garðahreppi tóku málin í sínar hendur.  Stórt skref var stigið er Garðasókn var endurvakin árið 1960 en þá tók sóknarnefnd undir forystu Óttars Proppé við framkvæmdum við kirkjuna.

Garðakirkja var endurvígð 20.mars 1966. Var það vel við hæfi þar sem þá var þess minnst að þrjár aldir voru liðnar frá fæðingu Jóns Vídalín.”

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðskort frá 1903. Hér sjást báðir kirkjuvegirnir á milli Garða og Hafnarfjarðar.

Í framgreindum fróðleik kemur ekki fram hvaða veg og torfærur allan ársins hring Hafnfirðingar og útliggjandi Garðhreppingar þurftu að feta til að komast að og frá Garðakirkju til að hlusta á guðspjallið er annað er klerkinum lá að hjarta, þá og meðan kirkjan var við líði. Hér hefur verið úr því bætt…

Heimild:
-http://gardasokn.is/gardakirkja/

Garðakirkja

Garðakirkja.

Vífilsstaðahraun

Lagt var af stað inn í Heiðmörkina til að finna Regnbogann. Fyrst var þó farið í Maríuhellana norðan Dyngjuhóls (Hádegishóls), en þeir eru þrír talsins. Þeir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Urriðakot átti um aldir fjárskjól í hellunum sem oft voru einungis nefndir Fjárhellar. Syðri hellirinn heyrði til Urriðakots og var nefndur Urriðakotshellir, en hinn Vífilsstöðum og því nefndur Vífilsstaðahellir.
Sá hellir, sem er mest áberandi, er næst veginum inn í Heiðmörk (Urriðakotshellir). Hann er stór opin hraunrás í stóru jarðfalli. Gengið var ofan í hana að vestanverðu og síðan í gegnum nálægt 20 metra langa rás uns komið var í stórt, grasi grói, jarðfallið. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í skemmtilegan sal. Innst í honum er gat í háu loftinu þar sem sér til himins.

Draugahellir

Í Draugahelli.

Vestasti hellirinn (Draugahellir) er skammt norðvestar. Farið var ofan í hann um tiltölulega þrömgt op í sprungu. Þegar niður ar komið opnaðist stór hraunrás. Fremst í henni er sver hraunsúla, sem hægt er að ganga í kringum. Rásin heldur áfram um 30-50 metra til norðvesturs – allt eftir því hvað fólk vill beygja sig mikið niður. Út frá henni til norðurs (hægri) liggur önnur rás. Opið inn í hana er tiltölulega lágt, en fyrir innan er rúmgóður hellir. Tilvalinn krakkahellir.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Nyrsti Maríuhellirinn (Vífilsstaðahellir) er í hraunkatli skammt norðar. Kanturinn liggur norðvestur og austur. Hægt er að ganga beint inn í hellinn til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og utan í rásveggnum hins vegar. Þessi hluti er stuttur. Hins vegar er hægt að fara nokkurn spöl eftir vestari hlutanum. Opið er grýtt og nokkuð þröngt, en þegar inn er komið er hægt að ganga eftir rásinni nokkurn spöl niður í hraunið.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Ef einhvern tímann hafa verið fallegar hraunmyndanir í þessum hellum þá eru þær horfnar núna. Hins vegar eru hellarnir mjög aðgengilegir – inni í miðju höfuðborgarsvæðinu – og hægt að fara með börn í þá til að sýna þeim hellafyrirbæri.
Eftir svolitla leit í hrauninu kom göngufólkið auga á Regnbogann. Hann er steinbrú, sem hefur haldið sér þegar umhverfð hrundi niður í hraunhvarf. Þegar gengið var undir Regnbogann óskaði sérhver göngumanna sér í þegjanda hljóði því sagan segir að “sá sem kemst undir Regnbogann öðlist eina ósk og muni hún rætast undantekningarlaust”. Vinsælt er að óska sér huglægra heilla sjálfum sér og öðrum til handa. Það er þó undir hverjum og einum komið.
Frábært veður – bjart og hlýtt, nema í hellunum. Gangan tók 25 mínútur.

Maríhellar

Maríuhellar – uppdráttur ÓSÁ.

Garðaflatir

 Í Gráskinnu er sagt að “Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt þegar hraunið rann. Sagan segir að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Ýmis merki megi sjá þar enn í dag að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma. Skammt fyrir neðan

Garðaflatir er stórt holt, sem nefnt er Smyrlabúð.” Þessa staðs er hvergi annars staðar getið í heimildum.
Smyrlabúð er 125 m há hæð syðst í Smyrlabúðarhrauni. Leitað var í kringum Smyrlabúð. Á einum stað, uppi í hlíðinni að vestanverðu, mótaði fyrir hleðslu. Trúlegra er þó að garðar og hús hafi verið á völlunum fyrir neðan. Þar er talsvert gras og nokkrir vellir, sem hraunið hefur runnið að, en skilið þá eftir hluta þeirra á milli þess og grágrýtisholtanna austan Sléttuhlíðar. Gamla Selvogsgatan liggur þarna með hraunkantinum og yfir þessa velli, sem hugsanlega hafa einhvern tímann heitið Garðavellir, en Garðakirkja átti land þarna fyrrum, skv. sögunni.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.

Garðaflatir eru hins vegar nefndir í örnefnaskrám og öðrum lýsingum ofan og austan við Búrfellsgjá. Þar hefur FERLIR fundið nokkrar tóftir utan í hæð. Þær eru greinilega mjög gamlar. Þeirra er þó ekki getið í örnefnaskrá fyrir Garðabæ.
Þá hefur fundist hlaðið gerði utan í Smyrlabúðarhrauni, utan um slétta gróna kvos. Selvogsgatan gamla liggur með garðinum. Grjótið hefur greinilega verið tekið úr holtinu þar skammt frá og notað í garðinn. Hvort þar sé komið hin gamla Smyrlabúð, sem getið er um og hraunið er nefnt eftir, skal ósagt látið. Dæmi eru þó um að hraun hafi verið nefnd eftir mannvirkjum, sem í þeim hefur risið, sbr. Fjárskjólshraun.
Ekki er ólíklegt að Selvogsbúar og aðrir á leið sinni í Hafnarfjörð hafi staldrað þarna við, slegið upp tjaldi og dvalið yfir nótt með það fyrir augum að komast árla til til að versla við kaupmanninn í kaupstaðnum. Gerðið gæti hafa verið fyrir hesta eða fé.
Þótt aðrir hafi ekki rekið augun í gerðið utan í Smyrlabúðarhrauni(og einnig tóftirnar á Garðaflötum) er ekki þar með sagt að það hafi aldrei verið til.
Frábært veður – gangan tók 1 klst og 11 mín.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Urriðaholt

Að loknum erli dagsins eða í helgarfríum er fátt heilsusamlegra en leita um stund frá umhverfi vanans og hreyfa sig svolítið í fræðandi umhverfi. Í næsta nágrenni höfuðstaðarins eru margir staðir, sem bjóða upp á slíkt. Einn þeirra er Vífilsstaðahlíðin, en svo nefnist hæðin fyrir austan Vífilsstaði og nær allt austur að Búrfellsgjá.
GunnhildurStefnan er tekin á myndarlega grjótvörðu, sem hlaðin hefur verið vestast á hlíðarbrúninni. Brekkan þangað upp hlíðina frá suðvestanverðu Vífilsstaðavatni er auðveld. Hún er vaxin smávöxnu kjarri, en núorðið liggur greinilegur og margfarinn göngustígur upp að henni. Frá vörðunni er víðsýnt. Þaðan gefur að líta víða sýn yfir kaupstaðina fjóra og Álftanesið, með Bessastaði í forgrunni. Beint á móti, handan við Hraunholtslækinn, sem kemur úr Vífilsstaðavatni, eru Vífilsstaðir, heilsuhæli sjúklinga, sem upphaflega var byggt sem sjúkrahús fyrir berklaveikt fólk, meðan sá sjúkdómur var landlægur hér. Vífilsstaðir voru landnámsjörð, því sagan segir að þar hafi fyrsti bóndinn verið Vífill, þræll Ingólfs Arnarsonar. Vífill fann öndvegissúlur hans reknar á land og fyrir þessa dyggu þjónustu gaf Ingólfur honum frelsi og þessa bújörð.

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðakotsholti

En varðan sjálf er athyglinnar verð. Hún hefur áður verið vel hlaðin en nú hefur fólk lagt í vana sinna að kasta grjóti að henni líkt og hún væri dys. Varðan ber nafnið Gunnhildur. Þessi nafngift er á reiki. Sumir segja, að hún hafi verið nefnd í höfuð einhverrar valkyrju, sem bjó á Vífilsstöðum fyrr á árum, en aðrir segja þetta nafn afbökun úr Gun Hill, en á hernámsárunum var öflugt byssuhreiður þarna fremst á hlíðarbrúninni er enn sjást leifar af. En hvernig sem þetta nafn er til komið, þá mun þessi varða hafa haft nokkurt gildi fyrir sjúklingana á hælinu, því sagt er að þeir hafi haft það fyrir reglu, margir hverjir, að ganga upp að vörðunni til að mæla þrek og úthald þegar aðstæður leyfðu. Gunnhildur var einnig nefnd Matthildur, er hét áður Grímssetur (Grímsseta). Þeir sem nefndu hana Matthildi studdust við vísuna:

Gekk ég upp að Grímssetu.
Gettu hvað ég sá?
Mæta konu Matthildu
í möttlinum blá.

Um 250 metrum sunnan við Vífilsstaðavatn er bergrista, sem nú er friðuð.
Skammt frá vörðunni er, sem fyrr sagði, steypt skotbyrgi frá stríðsárunum. Letursteinn við UrriðakotAlþýðuskýringin að nafnið væri afbökun úr ensku (Gun Hill) stenst reyndar ekki því nafnið var þekkt áður en landið var hernumið (1940). Þegar skuggsýnt er  orðið á einum dimmasta degi ársins (12. desember) er ekki svo auðvelt að taka myndir svo skarplegar geta þótt, sbr. sú hér að ofanverðu.
Austan við Vífilsstaðahlíð eru Hjallar, sem eru misgengisbrúnir og norðvestan við þá er hæðin Arnarbæli og Vatnsendaborg. Norðan til á hálsinum er grunn lægð. Þar safnast vatn í vorleysingum og í rigningatíð. Myndast þá tvær tjarnir sem kallast Grunnuvötn. Þurrlendi er á milli þeirra og þar hafa starfsmenn rafveitu gert veg. Af Arnarbælinu sést vel yfir Elliðavatnið, byggðina umhverfis það og austurhlíð Rjúpnahæðarinnar fær ekki dulist. Frá Arnarbæli er stuttur spölur að Vatnsendaborginni, en hún er merkilegt minnismerki um forna búskaparhætti. Áður fyrr urðu menn oft að tefla djarft þegar um stærð bústofnsins var að ræða. Ef ekki var til nægilegt vetrarfóður, settu menn á “guð og gaddinn” sem kallað var. Þá var sauðfénu haldið til beitar eins lengi vetrar og tíð leyfði. Í stað þess að koma því inn í hús til skjóls í slæmum veðrum hlóðu menn oft hringlaga, þaklaus byrgi með háum veggjum.

Heimaréttin að Urriðakoti

Þar var beitarféð geymt meðan óveður geisaði. Í slíkum tilgangi var þessi borg hlaðin, en það mun hafa verið gert snemma á 20.öld. Nú eru komin skörð í veggina á nokkrum stöðum, en meginhluti þeirra stendur enn og gefur glögga mynd af þessu mannvirki, sem er hluti af búskaparsögu landsins. Innan veggja er gott skjól. Gólfið er grasi gróið og slétt. Því er tilvalið að tylla sér þar niður, og halda smá “veislu undir grjótvegg”, svo vitnað sé í þekktan bókartitil.
Að sunnanverðu í Vífilsstaðahlíð hefur verið plantað miklum skógi, sem hefur dafnað vel. Skógræktarmenn hafa unnið við gróðurrækt í hlíðinni og er árangurinn þegar farinn að setja áberandi svip á umhverfið – sumir segja reyndar til hins verra.
Á næstu hæð að suðvestan standa nú yfir miklar framkvæmdir. Nýtt íbúðarhverfi er að rísa þar á jökulleirbornu Urriðaholti (Urriðakotsholti). Á því var kampur á stríðsárunum; Camp Russel. Þótt nú sé búið að umróta holtinu má enn sjá leifar hans á því norðaustanverðu. Á uppdrætti, sem gerður var af kampinum má sjá götur, byggingar og önnur mannvirki. Í dag standa t.d. eftir steyptur arinn og steyptur vatnsgeymir.

Garðar við Urriðakot

Vatnið var sótt í brunn undir hlíðinni sunnanverðri. Úr honum var vatninu dælt stöðugt um leiðslu upp í geyminn. Á uppdrættinum er geymirinn merktur sem og annað, sem þarna var.
Bærinn Urriðakot lá í halla vestan í Urriðakotsholti (Urriðavatnsholti). Í Jarðabók Árna og Páls segir: “Urriðakot, hálfbyli so kallað, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbbýlisjarðir. Áður en hlíðinni var róta upp var þarna heilstætt kotbýlislandslag með hlöðnum túngarði, túnblettum, heimarétt, fjárhúsi, lambhúsi, bæjarhúsum, Snorralaut (að ganga Snorra í merkingunni að ganga örna sinna) heimtröð og brunni svo eitthvað sé nefnt. Í túni er enn letursteinn með áletruninni JTh 1846. Steinninn var í traðarveggnum, en þegar hann var sléttaður fór hann í túnið. Það mun hafa verið Jón Þorvarðarson, bóndi í Urriðakoti, sem hjó áletrunina. Um stafina er hogginn rétthyrndur rammi. Væntanlega er ekki langs að bíða að hann hverfi eins og annað undir jarðraskið, sem er um þessar mundir [2007]. Annars er skondið að lesa lýsingu og rökfærslur framkvæmdaraðila og bæjarstjórnar Garðabæjar fyrir byggðinni á þessum stað; “umhverfisvæn byggð í beinum tengslum við náttúruna!” (Sjá meira HÉR). Í þeim orðum hefur bæði gleymst möguleikinn á  varðveislu á a.m.k. hluta bæjarminjanna, þ.e. tengslin við söguna sem og sú vitund að ekki er langt að bíða að önnur byggð muni rísa allt um kring. Þá mun fátt segjast af 
öllum fyrrum fullyrðingum um “vistvæna byggð í sátt við umhverfið”.

Heimild m.a.:
-Mbl. dags. óviss sennil. 1979.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
-Jarðabókin 1703, bls. 223.
-Sævar Jóhannsson.
Camp Russel á Urriðakotsholti á stríðsárunum

Hjartartröð

Gengið var eftir Hjartartröðinni í Stórabollahrauni og skoðaðir hellastubbarnir á leiðinni. Úr vestasta niðurfallinu heldur rásin, víð og breið, áfram til vesturs undir nýrra hraun. Innan í henni er mikið hrun, en hægt er að komast áfram hægra megin í rásinni, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina.

Þríhnúkar

Þrihnúkar – skjól.

Í Kristjánsdölum fannst hlaðið refabyrgi og greni þar nálægt. Gengið var á hraunrás undir Lönguhlíðum inn af Þjófadölum. Í henni er rás, nokkuð mjó, en mjög falleg. Hún var skoðuð lítillega. Þá var haldið á Þríhnúka og litið ofan í dýpsta helli á landinu, Þríhnúkahelli. Aðalgígur Þríhnúka er á milli hnúkanna, fallega sléttur hraundalur. Sunnan undir austasta hnúknum er hraunhóll, holur að innan og er hurð fyrir opinu. Inni var steinbekkur og borð. Yfir hólinn hafði verið lagður dúkur og hann hulinn. Einnig var hraunhóllinn klæddur plastdúk að innan. Svo virðist sem einhver, eða einhverjir, hafi notað stað þennan sem skjól um tíma. Norðan hólsins er mjög fallegur gervigígur.

Þríhnúkahellir

Sigið í Þríhnúkahelli.

Haldið var austur með sunnanverðu Þríhnúkahrauni, norðan Stórkonugjár, að mjög djúpu jarðfalli við enda mikillar hrauntraðar, milli hennar og Þríhnúkahellis. Ekki er hægt að komast þar niður nema á bandi. Þarna niðri gætu leynst göng til vesturs, í átt að hellinum. Við austurenda hrauntraðainnar er mikill gígur. Norður af honum liggur hrikaleg gjá. Við enda hennar, austanmegin, er hellisop; falleg hraunrás er liggur í beygju til vinstri og hallar niður með hlíðinni. Hún var skoðuð að hluta. Gólfið er grófur brúnleitur hraunfoss.
Á leið niður hlíðina vestan við Eyra var litið á Kristjánsdalahellana. Einn þeirra, sá austasti undir hraunbrún, er sá fallegasti af þeim. Hinir eru fremur lágir.
Dýrindisveður, logn og sól og útsýnið eftir því.

Hjartartröð

Hjartartröð.

Flatahraun

Skoðaður var Gamli-Hafnarfjarðarvegurinn (Flatahraunsgata) í Flatahrauni á bak við Fjarðarkaup.

Garðahverfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

Enn má sjá u.þ.b. 100 metra kafla af honum uns hann hverfur undir veginn að Hraunsholtsbænum. Þarna lá gamla leiðin suðurúr frá gatnamótunum í Engidal. Hraunkanturinn er þarna skammt norðar, en austar er m.a. tóft sauðakofa og síðan rétt og fleiri mannvirki skammt inni í hrauninu ofan við kantinn. Hraunsholtshellir, Arneshellir, er við Hraunsholt. Á milli Hafnarfjarðarvegarins og réttarinnar liggur Hraunsholtsselsstígur í gegnum hraunið, að Hádegishól, þar sem Hraunsholtsselið var sunnan undir fyrrum. Það hefur, því miður, nú verið í auðn lagt.

Arneshellir

Arneshellir við Hraunsholt.

Selgjá
Gengið var um Selgjá og reynt að hafa upp á svonefndum B-steini, sem getið er um í örnafnalýsingu Garðabæjar og frásögn Gísla Sigurðssonar (6403153-2151956).

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað um tilurð stafsins á steininum, en getum leitt að því að smali hafi klappað þar upphafsstaf sinn.
Í Selgjá voru 11 sel frá Görðum og í gjánni eru um 30 ólíkar tóttir, auk Selgjárshellis og Suðurhellis.
Ein kenning FERLIRs er hins vegar sú að hvert sel hafi verið auðkennt með bókstaf og hafi B-ið staðið fyrir B-sel (Bali, Bergshús, Bakki), enda er steinninn á mörkum fyrsta og annars sels talið frá Selgjárhelli innst í gjánni – fyrstu aðkomu Garðbæinga að henni. Hann stendur þar upp á endann eins og nokkurs konar bautarsteinn undir norðurbakkanum. Við hann hefur verið raðað steinhellum. Ef tilgátan reynist rétt ættu fleiri leturssteinar að vera í gjánni. Það verður því eitt af verkefnum FERLIRs að skoða það á vori komanda.

Selgjá

B-steinninn.

Vífilsstaðasel

Til er lýsing af Vífilsstaðaseli í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 1985.

Vífilsstaðasel

Stekkur í Vífilsstaðaseli.

Í Árbókinni stendur m.a. (bls. 34): “Nú sést vegur, sem liggur upp Vífilstaðahlíðina, svokallaður línuvegur. Ef þessum vegi er fylgt upp hlíðina, er innan stundar komið að rústum Vífilstaðasels, norðan vegar (vinstra megin). Eru þær allgreinilegar. Við þetta sel er kenndur Selás þar rétt hjá”.
Hópurinn gekk eftir lýsingunni um Vífilstaðahlíðina, um Ljóskollulág og Grunnuvatnaskarð, þ.e. svæðið norðan línuvegar (vinstra megin). Ekkert fannst, sem gæti hafa verið sel.
Þegar þátttakendur komu hins vegar aftur að upphafsstað á línuveginum blasti selið við, sunnan hans (hægra megin). Það er í kvos í u.þ.b. tveggja mínútna gang frá veginum.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Um er að ræða nokkuð stórt sel með mörgum einingum. Ofan þess blasir Selásinn við, slétt klapparholt. Stekkur er á holtinu austan við selið. Stígur virðist liggja yfir hálsinn og niður að Grunnuvötnum hinum syðri enda ákjósanlegt vatnsstæði. Gróið er í kringum vötnin. Ofan þeirra blasir Arnarbæli við.
Við sjónarrönd, á Hjöllunum, sést í Vatnsendaborgina. Til suðurs er ágætt útsýni yfir Búrfellsgjá, Búrfell, Valahnúka og Helgafell.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Skansinn

Komið við í Bessastaðarstofu og húsakynnin skoðuð hátt og lágt, bæði minjarnar í kjallara svo og sögufrægir munir hið efra. Staðarhaldari fræddi viðstadda um fornleifauppgröftinn á Bessastöðum, er kallaði á sínum tíma á allskyns vangaveltur um álitamál, sýndi afraksturinn undir stofunni og sagði frá húsdraugnum.

Bessastaðir

Undir Bessastaðastofu.

Í Álftanessögu eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson er m.a. fjallað um Skansinn. Þar segir: “Skansinn var hjáleiga frá Bessastöðum og þar var búið til ársins 1927. Bæjarhúsin stóðu við Seiluna, vík sem gengur inn í Álftanes norðanvert. Þar var einnig virki fyrr á tímum.

Þekkt er kvæðið um Óla Skans, Ólaf Eyjólfsson, sem bjó í Skansinum seint á nítjándu öld. Erlendur Björnsson lýsir honum í endurminningum sínum, Sjósókn. Óli var vinnumaður hjá Erlendi á Breiðabólstöðum og móður hans og “liðlegur” sjómaður. Óli Skans var meðalmaður, grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt en allhátt. Hann var með ljósleitt hár, slétt og sítt, skipti í miðju og var alrakaður. Hakan var óvenju breið og hann var lotinn í herðum.

Skansinn

Skansinn.

Hann var óvenjulegur þrifnaðarmaður, kátur og fjörugur en enginn söngmaður. Um hann er þó sungið enn í dag, en yfirleitt farið rangt með vísuna. Rétt mun hún vera svona:

Óli Skans, Óli Skans,
er hér á róli.
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjólið.
Óla er kalt á kinnunum,
Fía vill ei orna honum.
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.

Garður við Skansinn

Garður við Skansinn.

Síðasti ábúandinn í Skansinum var Gísli Jónsson listmálari. Skansinn var þá í eigu Einars Benediktssonar skálds. Gísli var blásnauður en mjög listfengur og eftir hann liggur fjöldi merkra málverka. Árið 1890 var haldin yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni ASÍ. Á meðan Gísli bjí í Skansinum valdi hann oft myndefni af Álftanesi. Ljósmóðir sem sat yfir fæðingu átta barna Gísla og síðari konu hans, Bjargar Böðvarsdóttur, hefur sagt frá þvía ð þau Gísli og Björg hafi haft fjöruþang til upphitunar og búið við bjargneyð og einangrun. En málverk Gísla prýddu veggi og meðal þeirra fegurstu er myndin, sem hér  fylgir af Skansinum, sem Gísli gaf Björgu konu sinni með rósamáluðum ramma utan um.”

Skansinn

Skansin og hús Óla Skans.

Sveinn fræddi viðstadda um stífluna við Bessastaðatjörn og hina hugvitsamlegu einstreymisloku, sem þar var sett til að jafna og halda vatnsyfirborði tjarnarinnar sem jöfnustu. Þá voru skoðaðar stríðsminjar á norðanverðu Nesinu, gamla steinhleðsluhúsið á Breiðabólstað o. fl.
Annars er ganga með strönd Álftanessins bæði ákjósanleg og áhugaverð. Fuglalífið er mikið og fjölbreytt, auk þess sem fjöruborðið býður upp á hinar ýmsustu kræsingar.
Veður var ágætt – Gangan tók 1 kls og 11 mín.

Heimild:
-Anna Ólafsdóttir Björnsson, Álftanessaga, kápa – Þjóðsaga 1996
-Sveinn Erlendsson

Skanskinn

Skansinn.

Helgafell

Gengið var frá Kaldárseli um Gvendarselsgíga, upp með Kastala og þaðan í Kaplatór (Minni-Dimmuborgir/Litluborgir), sem eru einstakt náttúrufyrirbæri.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í bakaleiðinni var komið við hjá Tröllunum á Valahnjúkum, í Músarhelli í Valabóli og í Kaldárbotnum.

Þetta svæði er einstaklega hentugt til gönguferða að vetrarlagi, tiltölulega greiðfært og fögur fjallasýn. Stutt er í áhugaverða skoðunarstaði og auðvelt að snúa við eða hagræða göngunni m.t.t. getu og tíma hvers og eins. Nægilegt er að kynna sér svæðið áður og stefna síðan á það sem áhugavert kann að þykja.

Valaból

Valaból að vetrarlagi.

Þessi ferð var gengin nálægt áramótum, skömmu eftir að sólin tekur að feta sig upp á við, en birtan við slík skilyrði er í rauninni engu lík. Því ætti áhugasamt fólk um útivist að nýta sér þessa miklu nálægð. Tilvalið er t.d. að leggja af stað síðdegis eftir vinnu, ganga frá Kadárseli og umhverfis Helgafell. Á leiðinni er fjölmargt að sjá. Þessi ganga þarf ekki að taka lengri tíma en t.d. 2 klst.

Í bakaleiðinni var komið við í Gvendarseli í Gvendarselshæð, kíkt á Gvendarselsgígaröðina og nyrsta gíg gígaraðar Ögmundarhrauns frá árinu 1151.

Þá er alltaf áhugavert að staldra við jarðmyndanir Kaldárhnúkanna í Kaldárbotnum.

Valahnúkar

Tröllin á Valanúk.