Færslur

Leiran

Gengið var um Leiruna og Stóra-Hólm.
“Leiran liggur við sjávarsíðuna, miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála. Hún var eitthvert það besta fiskiver því þar mátti sækja sjó á báðar hendur, eins og segir í sóknarlýsingu frá árinu 1839. Nú mun hins vegar langt síðan nokkurri fleytu hafi verið róið til fiskjar úr Leirunni, enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn hina síðari áratugi.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru, en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík. Árið 1880 voru nákvæmlega jafn margir íbúar í Keflavík og Leiru, eða 154. Nú býr engin í Leirunni, en íbúar í Keflavík eru nú nálægt 10.000 (Íbúar í Reykjanesbæ, sem Keflavík er nú hluti af, eru um 11 þúsund talsins en bæjarfélagið er meðal þeirra fimm stærstu á landinu).
Þótt Leiran væri ein minnsta sveit Suðurnesja var þar hæst metna jörðin í Rosmhvalaneshreppi árið 1861.

Það var Stóri-Hólmur með 7 hjáleigum, metin á 51,9 hundruð. Bæði var að jörðin var landmikil, en hitt hafði þó mest að segja, að þar var ein sú besta lending, rudd vör með miklum tilkostnaði og skipaleiðin eða sundið svo gott að sagt var, að þá mundi útsjór ófær ef það tæki af.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur.

Þess vegna var mikil sjósókn úr Leirunni. Og þó enn meiri í Garð- og Leirusjó úr öðrum plássum. T.d. var sagt að eitt sinn í vetrarvertíðinni 1879 hefðu verið talin 400 skip, sem sáust sigla inn fyrir Hólmsberg og inn á Vatnsleysuströnd. En háan skatt varð Leiran að gjalda Ægi og ekki síður en önnur byggðarlög við sjóinn. Í annálum Suðurnesja eru talin 6 skip með 27 mönnum, sem fórust úr Leiru á árunum 1830-1879. Vestan við núverandi (fyrrverandi) íbúðarhús í Hólmi er bátslaga fornmannaleiði og hlaðinn brunnur, auk fleiri minja um fyrrum bústetu á þessu forna höfuðbýli. Slíkum minjum er einnig fyrir að fara á Leiru þótt sumar þeirra hafi nú verið “sléttaðar” út.

Leiran

Leiran – Gamli barnaskólinn.

En lífið í Leirunni var ekki bara sjósókn og saltfiskur heldur líka fræðsla og félagsmál. Þar var stofnað til barnaskóla fyrir aldamót (1900) og þar starfaði stúka í eigin húsnæði. Golfklúbbur Suðurnesja hefur nú lagt Leiruna undir starfsemi sína, ræktað þar golfvöll og byggt tilheyrandi skála. Sú ræktun hefur gengið fljótar fyrir sig en í gamla daga þegar sjómennirnir báru slorskrínur á öxl sér neðan úr vör til að drýgja áburðinn og fjölga þar með grasstráunum handa skepnunum.
Þótt Leira sé búin að fá annað hlutverk í lífi Suðurnesja en hún áður hafði er enn ástæða fyrir fólk að staldra þar við og skoða sig um niðri við sjóinn í þessari fornu útgerðarstöð, virða fyrir sér Hrúðurinn og Leiruhólmann og virða fyrir sér það sem enn minnir á liðinn tíma. Og þá er ekki heldur úr vegi að leita uppi Sigurðarvörðuna (Prestsvörðuna), sem er fyrir ofan Leiruna.

Litla-Hólmsvör

Litla-Hólmsvör.

Það var laugardaginn 22. janúar 1876 að séra Sigurður Sívertsen á Útskálum var að koma frá barnsskírn í Keflavík. Stórrigning datt á upp úr útsynnings éljagangi og síðan frysti. Sigurður skýrði svo frá: “Varð ég viðskila við samferðarmann minn við Bergsenda, en af því að ég sá ekki lengur til vegar, fór ég áleiðis suður fyrir veginn fyrir ofan Leiru… Var og hesturinn hlaupinn frá mér. Lagðist ég þá niður og ætlaði að láta fyrirberast, en um nóttina var gjörð leit að mér… leið svo hin óttalega nótt, að enginn gat mig hitt, þar til um morguninn, að tveir heimamenn mínir hittu mig, og var ég enn með rænu og nokkru fjöri, en mér leið vel og mér fannst eins og yfir mér hefði verið tjaldað, og vissulega var ég undir hlífðartjaldi með föðurlegri varðveislu. Guði sé lof fyrir þessa lífgjöf. Þetta tilfelli í lífi mínu vil ég ekki gleyma að minnast á og gefa guði dýrðina.”

Í þakklátri minningu um björgun þessa lét séra Sigurður hlaða vörðu á þeim stað sem hann fannst og fella í hana hraunhellu með Biblíuáletrun.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild;
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.

Keflavík

Keflavík.

Gufuskálar

“Gufuskálar, Miðskálar og Útskálar eru nefndir í fornum rekaskrám Rosmhvalaness, svo og Miðskálaós og Útskálaós.
Miðskálar eru einnig nefndir Miðskálagarður, sem mun eiga að merkja heimajörð með Gufuskalar-222hjáleigum. Í óprentuðu riti eftir séra Sigurð B. Sívertsen á Útskálum hefi eg séð það, að bærinn á Miðskálum heiti nú í Vörum og Miðskálaós Varaós, en Útskálaós Króksós. Sr. S. B. S. getur þess til, að þessir þrennir »-skálar«, svo skamt hver frá öðrum, hafi í fyrstu verið eitt land með einu nafni (Gufuskálar), en skifzt fyrst í 3 jarðir, er allar hafi haldið nafninu, en hinar yngri verið aðgreindar með afstöðuorði framanvið nafnið (Mið-Gufuskálar, Út-Gufuskálar), en svo hafi nöfnin verið stytt í framburðinum er frá leið. Þessi tilgáta gerir ráð fyrir því, að bygð á Gufuskálum hafi eigi lagzt niður, þó Ketill gufa færi þaðan, heldur hafi landeigandi þá sezt að í »skálum« hans, og er ekkert á móti því. Það gerir tilgátuna sennilegri, að samskonar tilfelli hefir átt sér stað með Arnarbæli undir Eyjafjöllum. Úr þeirri jörð hafa verið bygðar jarðirnar: Mið-Arnarbæli og Yzta-Arnarbæli, en nöfnin síðar orðið að: Miðbæli og Yztabæli. Fleiri dæmi lík þessu mun mega finna. Eg vil nú bæta þeirri tilgátu við, að Miðskálagarður hafi í fyrstu verið haft um Miðskála sem höf-ból, en smámsaman verið látið ná yfír alt það hverfi, sem þar myndaðist. Nafnið hafi svo í daglegu tali verið stytt og að eins nefnt: Garðurinn. Miðskálanafnið hafi síðan týnzt, en nafnið: »Garðurinn« haldist, og loks náð bæði yfir Miðskálahverfi (nú Inn-Garðinn) og Útskálahverfi (nú Út-Garðinn). — Rit séra Sigurðar er að mörgu fróðlegt, sem von er af slíkum fræðimanni. Ætti Landsbókasafnið að eignast það.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, bls. 35.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Garður

Ætlunin var að skoða MIð-Garð, þ.e. miðhluta sveitarfélagsins Garðs. Áður hafði verið litið á minjar í Út-Garði og Inn-Garði. Svona til upprifjunar má geta þess að á Rosmhvalanesi og jafnvel víðar var hugtakið “út” var jafnan notað fyrir höfuðáttina norður og hugtakið “inn” að sama skapi fyrir suðurstefnuna.
GarðurÁ landakortum af Mið-Garði má sjá Útskála í vestri, þá Miðhús, Krók, Sólbakka, Krókvelli og Gerðar. Þegar örnefnalýsingar af svæðinu voru skoðaðar mátti sjá sem fyrr Útskála, Miðhús og Krók, Krókvöll, Nýlendu, Akurhús, Lónshús og Gerðar. Þegar jarðabækur og sóknarlýsingar voru skoðaðar komu hins vegar í ljós bæjarnöfnin Útskálar, Teigur, Vegamót, Bali, Smærnavellir (Smærnavöllur), Lykkja, Settubær, Einarshús Vorhús, Miðengi, Gerðar, Valbraut, Fjósin, Glaumbær, Unuhús, Skúlhús, Auðunnarbær, Nielsarbær, Bakki, Sólbakki, Garðar, Vatnagarðar og Grund. Við þessa bæi voru útihús, brunnar, garðar og annað er til þurfti.
Ákveðið var að ganga svæðið bæði m.t.t. skráðra og óskráðra minja. Segjast verður eins og er að Vegamótfjölmargt óvænt bar þá á fjörur leiðangursmanna.
Í örnefnalýsiingu fyrir Gerðar segir Ari Gíslason m.a.: “Býli það, sem hreppurinn dregur nafn af, er næst sunnan við Krók og Smærnavöll. 1703 eru þar tvær hjáleigur í byggð, og Skúlahús eru þar þá nýbyggð úr eyði. Upplýsingar um örnefni gaf Sveinn Árnason.
Árið 1840 er talað um, að Gerðar séu falleg jörð og mikið útræði. Fram af Gerðum er hólmi sá, sem Gerðahólmi heitir. Hann er nú sker, en er álitið, að hann hafi fyrr verið gróið land. Innan við hólmann er svonefnd Gerðaröst. Vestan hólmans er Biskupsós. Þar upp frá eru Gerðabakkar. Frá landi er hér Króksrif, er nær út að Gerðahólmanum. Þá kemur beygja á ströndina, og gerist hún meira suðlæg. Þar heitir Gerðaurð. Fyrir um 60 árum var hún að nokkru grasi gróin.
BaliFyrir ofan kampinn og Gerðabakkana tekur við síki, sem er framhald af Krókasíki, og eru hér sem tvö smávötn, Innrasíki og Ytrasíki. Neðan við síkin móti Króki heitir Jaðar.”
Hér er einungis getið um að Síkin hafi verið tvö. Í dag eru þau hins vegar þrjú.
“Í túninu næst sjávargarði utan heimagötu heitir Nýjatún. Það er útgræðsla. Nær bæ heim að vír [vör?] er Kirkjuflöt. Milli þeirra var svæði, sem nefnt var Laut, en landmegin við þetta allt var nefnt Undirlendi. Sjávarmegin var svæði, sem kallað var Skákir, þar sem nú eru fiskihús og athafnasvæði fiskútgerðarinnar. Þar upp af eru bæði Vorhús og Mjósund, sem hvort tveggja var býli, en nú í eyði. Upp af þeim er skólinn í Gerðum nú reistur. Svæði frá bæ og upp að vegi er það, sem einu nafni er nefnt Gerðar. Ofan við þjóðveginn að sjá í Ósvörðuna frá bæ heitir Gerðastekkur.”
SmærnavellirNæstu bæjarleifar við Vorhús eru Miðengi og Einarshús. Líklegt má telja að nöfn bæjanna hafi breyst í gegnum tíðina; allt eftir ábúendum á hverjum tíma. Þannig gæti framangreint Mjósund hafa um tíma heitið Miðengi. Við tóftirnar er Miðengisbrunnur. Á honum er steypt lok svo ætla má að Miðengisnafnið hafi komið á eftir Mjóhúsanafninu. Annars má lengi velta þessum hlutum fyrir sér – þ.e. hvort hafi komið á undan; hænan eða eggið. Einarshús virðist hafa verið seinna tíma ábrúkun.
Gerðarbrunnurinn er með steyptu loki líkt og Miðengisbrunnurinn. Líklega eru þeir frá svipuðum tíma. MiðhúsabrunnurÁ hinum síðarnefnda er þess getið að hann hafi verið gjörður 1937.
Þann 3. júní 1978 bar Sigríður Jóhannsdóttir lýsingu Ara Gíslasonar undir Halldór Þorsteinsson í Vörum, og gerði hann þá fáeinar athugasemdir, sem hér fara á eftir. “Skúlahús kallar hann Skúlhús. Þau voru skammt þar frá, sem gamli skólinn er, þó fjær honum en Fjósar (hús). Skólahús þetta var hið fyrsta á Suðurnesjum. Þórarinn prófastur Böðvarsson í Görðum hafði gert sr. Sigurði B. Sívertsen orð um að safna fé til skólabyggingar og ætlaðist til, að húsið yrði reist á Álftanesi. En þess í stað lét sr. Sigurður reisa það í Gerðum. Þetta hefur líklega verið kringum 1880. Seinna var skólinn fluttur að Útskálum. Þá keyptu góðtemplarar gamla skólahúsið í Gerðum og hefur það því verið nefnt „Gamli templarinn“.
Og þá aftur að Síkjunum, sem eru Skólabrunnureinkennisstaðir Garðs: “Nöfnin Innrasíki og Ytrasíki þekkir Halldór ekki, en vel getur verið, að heimamenn hafi haft þau nöfn um Síkið svonefnda, sem liggur frá Gerðum að Útskálum. Venjulega er það greint í Gerðasíki, Krókasíki og Útskálasíki. Gerðabakkar eru sjávarbakkinn fyrir neðan Síkið. Þar var áður bær, sem líklega hefur heitið Bakki. Aðeins utar var Vatnagarður, stór jörð, nú komin í eyði, en bærinn stendur enn uppi.”
Og þá aftur að Gerðum: “Af hverju heitir Garðurinn Garður? Á seinni hluta 18. aldar myndast þéttbýliskjarni á sjávarkampinum fyrir neðan Útskálasíki. Þessir bæir hétu; 1890 alls: Vatnagarður, Garðurinn, í Görðunum, Garðsauki alls manns 28. Þessi þéttbýliskjarni var kallaður í Görðunum. Innnesjamenn, sem fóru út á Skaga, sögðu, að þeir færu út í Garð eða út í Garða. Af þessu held eg að nafnið Garður hafi komið.
VatnagarðurAuk þessa var grjót- og malarrif vestanmegin við Útskálaós. Þetta rif var grasi gróið og hátt. Það var kallað Garður á 13. öld, og mun sjórinn hafa verið kallaður Garðsjór af því nafni, enda mikill fiskur oft þar fyrir framan.
Heitið Biskupsós hefur valdið vangaveltum. Í örnefnalýsingu segir um það: “Árið 1340 býr á Útskálum Bjarni Guttormsson og kona hans, Ingibjörg. Hinn 17. desember árið 1340 er Bjarni staddur í Skálholti. Hefur hann komið þangað á fund Jóns biskups Indriðasonar til að gera við hann samning. Leggur Bjarni til Skálholtsstaðar fjórðung úr Útskálalandi með hlunnindum og öllum akurlöndum, er Bjarni hafði keypt til Útskála, og til viðbótar einn karfa með akkerum, rá og reiða og báti.
SpilSömuleiðis gefa þau hjón, Bjarni og Ingibjörg, annan fjórðung nefndrar jarðar til kirkju og hinum heilaga Pétri postula og heilögum Þorláki til ævinlegrar eignar með öllum þeim hlutum og hlunnindum, er þar til liggja og legið hafa að fornu og nýju. Þar með er Skálholtsbiskupi veitt aðstaða til útgerðar frá Útskálum. Það er vitað, að mannskaðar hafa verið í ósnum, og kannski hefur það verið nokkur vörn að skíra hann Biskupsós. Hann hefur líka verið kallaður Útskálaós og siðar Króksós.”
Um Krókvöll skrifaði Kristján Eiríksson: “Heimildarmaður: Þorbergur Guðmundsson, f. 18. sept. 1888 á Valdastöðum í Kjós og alinn þar upp fram undir tvítugt. Þorbergur flytur í Auðunsbæ á Gerðabakka vorið 1911 og var þar eitt ár. Síðan flutti hann í Jaðar, tómthús á Gerðabakka, í landi Gerða. Þar var Þorbergur þar til hann flutti að Bræðraborg rétt fyrir 1940. Þar bjó hann til 1961, en þá flutti hann til Reykjavíkur.
SvæðiðKrókvöllur er næst fyrir utan Smærnavöll og næst fyrir ofan Krók.
Íbúðarhúsið stendur sem næst neðst í túninu, en túnið nær upp að vegi og austur að Smærnavallatúni. Íbúðarhúsið er nær því á sama stað og gamli bærinn stóð áður.
Fjós og hlaða voru örskammt norðaustan við íbúðarhúsið, og fiskhús voru upp við veginn, alveg suður við merki milli Smærnavallar og Krókvallar. Þar var einnig stakkstæði.
Smærnavallatún tók við neðan við tún Krókvallar nema alveg yzt, þar lá það að Krókstúni. Grjótgarður skildi þessi tún að.
Krókvöllur á óskipt land við aðrar jarðir í Garði ofan vegar, í Heiðinni.
Krókvallarmenn reru af Bakkanum, þ.e. Gerðabakka (sjá lýsingu Smærnavallar).”
VindmyllaUm Miðhús og Krók segir: “Sjálfstæð býli næst sunnan við Útskálahverfið, tvær jarðir, sem taldar eru með Útgarðinum. Þar var með Krókshjáleiga og svo tvær hjáleigur, sem eru nafnlausar 1703. Upplýsingar eru hér frá Torfa í Miðhúsum og svo frá Gísla Sighvatssyni á Sólbakka. Sólbakki er nýtt nafn á Króki.
Naustarif er hér fyrir neðan, og lendingin er inn úr Króksós. Þar eru tvær varir, sem heita Miðhúsavör og Króksvör, sem er innst undan Útskálum. Króksós er mjór, en lónið sjálft er allbreitt og nær út að Naustarifi. Neðan bæjar, ofan við kampinn, er nefnt Miðhúsasíki, og áframhald af því er Krókssíki. Neðan við bæinn á merkjum móti Útskálum er Miðhúsahóll. Krókur var gamla býlið, en svo var Sólbakki byggður úr því. Hér fyrir ofan Krók er býli, sem nefnt var Króksvöllur. Þar fyrir neðan og innan var býlið, sem nefnt var Lykkja, en þar hafa ekki fundizt merki eftir býli.
GerðabrunnurNeðan við síkið niður. Við sjó er nefnt Gerðabakkar. Býlin hétu eftir mönnum. Sólbakki var færður vegna sjávarágangs. Fyrir ofan Krók heitir Grund. Þar var býli áður; nú er þar steinahrúga.
Við innri enda Króksóss er Manntapaflúð. Þar innar er mjó renna, sem heitir Biskupsós. Svo er rif áfram inn undir Gerðahólma, sem nefnt er Króksrif. Þar átti Smærnavöllur fjöru. Krókvöllur var byggður úr Króki. Þar er í móa hús, sem heitir Bræðraborg. En Krókvöllur nær upp að vegi. Innan við veg eru Grundargerði.
Þorbergur Guðmundssongaf upplýsingar um að land þetta hét Vegamót. Þar ofar var Bali, og neðst niðri á Gerðabökkum fyrrnefndu voru býli. Þar voru svo merkin þvert yfir móti Gerðum.” Annað nafn á Smærnavöllum virðist hafa verið UnuhúsBræðraborg.
Miðhús og Krókur eru skráð sem önnur býli sbr. “athugasemdir Torfa Sigurjónssonar við skrá Ara Gíslasonar. Miðhús er nálægt miðjum Gerðahreppi, en þaðan telst Útgarður og út úr. Smærnavellir hét það, sem nú heitir Bræðraborg. Útskálavör er niður undan skúrum nokkrum, aðeins innan við Útskála. Fara þurfti inn um Króksós til að komast í hana.
Síkin (Miðhúsasíki og Krókssíki) eru tjarnir eða lón, sem þorna mikið til upp að sumrinu. Miðhúsahóll er þar sem fjósið er nú. Þar var gamla húsið, mikið og stórt, sem rifið var nærri aldamótum.
Gísli Sighvatsson kallaði húsið sitt Sólbakka, en býlið hét áður Krókur. Krókvöllur var byggður úr Króknum nærri aldamótum. Gerðabakkar (-bakki) eru milli Króks og Gerða.”
MinnismerkiUm Nýlendu, Akurhús og Lónshús skrifaði Ari Gíslason: “Jarðir eða býli næst sunnan við Lambastaði. Upplýsingar um þetta svæði eru frá Þorláki Benediktssyni í Akurhúsum. Lónshús og Akurhús eru 1703 talin með Útskálum sem hjáleigur.
Engan mann hitti ég í Lónshúsum, enda mun þar vera landlítið og fátt örnefna. Frá Lónshúsahliði ræður merkjum að norðanverðu Lambastaðatúngarður. Hjáleigan Lónshús er kennd við Lón, en það var önnur vörin, sem lá fyrir hinu forna Útskálalandi. Á Naustarifi er sagt að hafi verið bær sá, er Naust hét. Var það þríbýlisjörð, er eyðilagðist að öllu leyti 1782. Upp frá Lónshúsum er Nýlenda. Sjávarmegin við Akurhús er svæði, sem nær inn í Útskálaland, og heitir það Sandaflatir. Nýibær er hjáleiga frá Útskálum og er upp við veg upp af Akurhúsum. Undan Akurhúsum strandaði þýzkur togari á gamlaárskvöld 1928. 

Höfnin

Þá var Útskálakirkja uppljómuð. Skipstjórinn hélt þetta annan togara og ætlaði að leggjast upp að honum. Á Sandaflötum voru taldir 13 eða fleiri götutroðningar, sem búizt er við, að hafi legið að hofinu. Gamall grjótgarður er á merkjum, rétt vestur af Akurhúsum.”
Og þá svolítið um sjálfa Útskála: “Kirkjustaður í Gerðahreppi næst sunnan við Akurhús. Upplýsingar eru fengnar hér og þar. Aðallega eru það konur tvær, sem mig vantar nafn á, svo og Þorlákur Benediktsson að Akurhúsum. Einnig Oddur Jónsson í Presthúsum.
Verða nú taldar upp hinar fornu hjáleigur Útskála, er áður voru 12, en 1840 voru þær taldar 7. Svæði þetta er það, sem kallað er Útgarður.
1. Lónshús, nefnd 1703 og æ síðan, er hér fyrr talin sér með Akurhúsum og Nýlendu.
2. Akurhús, nefnd 1703 og æ síðan, er hér talin fyrr með Lónshúsum og Nýlendu.
3. Nýibær, er nefnd 1703 og æ síðan, er upp við veg ofan við Akurhús.
Skúlhús4. Móakot, er nefnd 1703 og æ síðan.
5. Presthús, er nefnd 1703 og æ síðan. Talið er, að þau hafi verið byggð yfir prestsekkjur frá Útskálum.
6. Garðhús, er nefnd 1703 og æ síðan.
7. Nafnlaus hjáleiga heima við bæ, er nefnd 1703, veit ekki um hana nú.
8. Vatnagarðar, er nefnd 1703 og 1861, síðan ekki.
9. Naust, er nefnd 1703, þar var þá þríbýli. Það er þessi jörð, sem talin er að hafa verið á Naustarifi, eða réttara, að Naustarif séu leifar strandarinnar.
Tvær hjáleigur eru enn, sem ekki er vitað hvar voru:
10. Blómsturvellir eða Snorrakot, komið í eyði 1703.
11. Hesthús, í eyði.

FornmannaleiðiNaust hafa fyrr verið nefnd sem býli, en er nú horfið í sjó. Heitir þar nú Naustarif, þar sem bær þessi var, en nú brýtur á því sem þaragarði fyrir framan land og fer í kaf um öll flóð. Fyrr var talað um Lónsós og Lónið, sem er fram undan Akurhúsum. Hér er svo hin lendingin í Útskálalandi landmegin við Naustarif og heitir Króksós. Innan við ósinn er svonefnd Manntapaflúð, sem ekki mun tilheyra Útskálalandi. Þegar kemur svo upp á land, heita þar Sandsflatir fyrir neðan bæ inn með sjó, og svo er þar garður, sem nefndur er Langigarður. Hefur hann verið hlaðinn til varnar. Innan við þessar flatir er Útskálasíki. Neðan síkis á kampinum voru býli, nokkrar hjáleigur. Þar er hlið á garðinum, sem nefnt er Naustahlið. Við það er gamalt kot, nefnt Naustakot. Niður undan kirkjugarðinum eru rústir, sem nefndar eru Vatnagarðar. Upp af Sandaflötum, vestan eða réttara norðan Útskála, eru Fjósaflatir.
SmærnavallabrunnurUpp undir vegi, utan við götuna niður að Útskálum, eru Presthús, sem fyrr var getið, og þar innar var svo Garðhús, ofan við þjóðveginn. Svo er Sóltún, og móti Garðhúsum er Nýjaland. Ofan við veginn austan við Nýjabæ er Steinsholt . Þar eru rústir og kálgarðsrústir.
Þá er komið upp fyrir veg. Má þá geta þess, að Útskálar eiga allt land vestan vegar norður úr. Garðskagi er hið gamla nafn á nyrzta hluta skagans, reyndar alveg þvert yfir. Mun það vera leifar frá því, að hér var afgirt land, akurreinar. Lokaðist það af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert yfir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn. Á Skaganum, sem er flatlendur, eru svo fá merki. Eru þar þó tveir smáhólar, Skagahóll, sem er á merkjum móti Lambastöðum, og sunnan hans er annar hóll, sem heitir Draughóll. Þaðan til suðvesturs eru Skálareykir.
HvönnSkálareykir eru gamlar bæjarrústir fast við miðjan Skagagarð. Þar sér fyrir túngarði og húsarústum (1840). Næsta hús við vitabústaðinn, rétt við Draughól, er býli, er heitir Hólabrekka. Skálareykja finnst ekki getið, hvorki 1703 né 1847. Eru til ýmsar tilgátur um býli þetta, m.a. að Ketill gufa hafi byggt skála,annan að Gufuskálum og annan að Útskálum. Svo var byggður nýr bær, þar sem reykirnir sáust frá báðum hinum skálunum, og því nefndur Skálareykir. önnur segir, að þar sjáist merki og, að þar hafi verið draugagangur, er setti bæinn í eyði, en trúlegra er, að það hafi verið vatnsskortur og fjarlægð frá sjó.

Útskálasíki

Í athugasemdum Sigurbergs H. Þorleifssonar segir m.a.: “Hjá Vatnagarði, líklega í austur þaðan, var hjáleiga, sem nefndist Garðar. Sigurbergur man eftir þessu koti í byggð. Þar bjó ekkja, þegar hann var drengur. Stekkjarkot var fyrir ofan Presthús, en það var komið í eyði, þegar Sigurbergur mundi fyrst eftir. Líklega sjást rústir beggja þessara kota enn. Skálareykir munu vera til suðausturs frá Draughól, en ekki suðvesturs. Yfirleitt er Sigurbergur ekki alveg sáttur við áttamiðanir í skránni.
SettubæjarbrunnurÍ skrána vantar allar upplýsingar um þinghúsið, sem stóð skammt frá Draughól og var notað fyrir hinn forna Rosmhvalanesshrepp. Hins vegar er getið um það í minnisblöðum Dagbjartar Jónsdóttur. Þar segir, að varðan, sem hlaðin var á þinghússtæðinu, eftir að húsið var rifið, hafi alltaf verið kölluð Siggavarða, en ekki Þingvarða, eins og til var ætlazt. En Sigurbergur segir, að hún hafi ávallt verið kölluð Þingvarða í daglegu tali, svo lengi sem hann man.”
Þegar gengið var um miðsvæði Garðs komu í ljós allnokkrar minjar, sem hvergi virðast hafa verið skráðar eða þeirra getið í heimildum. Ljóst er að gera þarf átak í að skrá og korleggja sýnilegar minjar í Garði því þær fela enn í sér löngu, en langa, sögu um búskap í Rosmhvalaneshreppi hinum forna. Í raun má segja að Garður feli sér eitt samfelld búsetuminjasvæði fyrri tíma hér á landi og ætti því að friðlýsa sem ómetanlegt sögusvið horfinna kynslóða.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Útskála, Miðhús, Krók, Gerðar, Nýlendu, Akuhús og Lónshús.
-Jarðabókin 1703.
-Viðtöl við heimafólk.

Garður

Garður – fornleifauppgröftur.

Garðskagaviti

Í Víkurfréttum í septembermánuði 2014 var stutt frásögn um “Garðskagavita” í tilefni af 70 ára afmæli hans:

Garðskagaviti

Garðskagaviti.

“Vitinn var formlega vígður þann 10. september lýðveldisárið 1944 en hann var byggður á þremur mánuðum af 10-15 manna vinnuflokki, undir stjórn Sigurðar Péturssonar frá Sauðárkróki.
Hinn reisulegi Garðskagaviti, sem hannaður er af Axel Sveinssyni verkfræðingi, kom í stað eldri Garðskagavita sem þótti of lágur og einnig í hættu vegna landbrots.
Hinn sívali kóníski steinsteyputurn er 28,6 m að hæð með ljóshúsi sem er ensk smíð. Vitinn var húðaður með ljósu kvarsi í upphafi en var kústaður með hvítu viðgerðar- og þéttiefni árið 1986.
Í fyrstu voru notuð ljóstækin úr eldri Garðskagavitanum en árið 1946 var vitinn rafvæddur. Árið 1960 var skipt um linsu og í stað linsunnar frá 1897 var sett fjórföld snúiningslinsa.
Garðskagi var einn þeirra vitastaða þar sem vitavörður hafði fasta búsetu og stóð svo fram til 1979. Vitavarðarhús stendur enn en það var byggt árið 1933 eftir teikningum Einars Erlendssonar arkitekts.

Garðskagaviti

Garðskagaviti vígður – Svanhildur Ólafía Guðjónsdóttir (Lóa) frá Réttarholti í Garði.

Garðskagaviti var vígður sunnudaginn 10. september 1944, með mikilli viðhöfn. Fór vígslan fram með útiguðsþjónustu. Séra Eiríkur Brynjólfsson, sóknarprestur predikaði, kirkjukórar Útskála- og Keflavíkursókna sungu, en Emil Jónsson, vitamálastjóri flutti vígsluræðuna. þakkaði hann sóknarprestinum, séra Eiríki Brynjólfssyni á Útskálum, sem hafði undirbúið hátíðarhaldið, en það væri í fyrsta sinn sem tekið væri á móti nýjum vita í héraði af slíkum myndarskap, segir í samantekt á vef Sveitarfélagsins Garðs.”

Í blaðinu “Reykjanes” 2013 var fjallað um “Gamla vitann og Garðskagavita”:

Gamli vitinn

Garðskagaviti

Gamli Garðskagaviti um 1940.

“Gamli vitinn var byggður árið 1897. Danska flotamálastjórnin sá um byggingu hans. Bygging vitans var merkisviðburður en í byggðarlaginu þá voru aðallega torfbæir og nokkur timburhús.
Ljós Garðskagavitans sló bjarma á nágrennið, þar sem menn notuðust við ófullkomin olíuljós og lýsislampa, utanhússlýsing var engin. Ég minnist hve gamlir menn lýstu þessu skæra ljósi af miklum fjálgleik.”

Garðskagaviti
Garðskagaviti
“Sigurður Pétursson annaðist byggingu 60 vita hér á landi. Voru þá vitar landsins orðnir 140, þó aðeins væru liðin 66 ár frá því að fyrsti vitinn var reistur (Reykjanesviti). Emil Jónsson, vitamálastjóri, flutti vígsluræðuna.
Þakkaði hann sóknarprestinum, séra Eiríki Brynjólfssyni á Útskálum, sem hafði undirbúið hátíðarhaldið, en það væri í fyrsta sinn sem tekið væri á móti nýjum vita í héraði af slíkum myndarskap. „Minnir það mig á”, sagði Emil í ræðu sinni, „að fyrstu sagnir um leiðarljós fyrir sjómenn á Íslandi, eru tengdar við kirkjuna. Mér hefir verið á það bent, að verið hafi hér til forna, um 1200 og jafnvel fyrr ákvæði um að ljós skyldi loga í ákveðnum kirkjum, allar nætur tiltekin tímabil.”

Garðskagaviti

Gamli Garðskagaviti.

Þegar þessi ákvæði voru rannsökuð nánar kom í ljós, að flestar þær kirkjur, sem hér var um að ræða, voru nálægt sjó, og á þeim stöðum þar sem ætla má að sjófarendur hafi getað notið þeirra.”
Er ræða Emils Jónssonar mjög fróðleg og um margt merkileg. – (Ræða Emils er prentuð í Suðurnesjablaðinu FAXA, nóv.-blaði 1944).”

Heimildir:
-Víkurfréttir, 35. tbl. 11.09.2014, Garðskagaviti, bls. 19.
-Reykjanes, 14. tbl. 08.08.2013, Gamli vitinn og Garðskagaviti, bls. 12.

Reykjanesviti

Garðskagaviti – ræða Emils Jónssonar við vígslu vitans 10. september 1944.

Garður

Árni Óla ritaði eftirfarandi grein um álagasteininn í Garði í Lesbók Mbl. á gamlársdag 1961.
Fornmannahaugurinn í Garði“Sumarið 1960 dvaldist eg um tíma í Hlíðardalsskóla í Ölfusi. Var þar margt annara sumargesta, þar á meðal Una Guðmundsdóttir frá Gerðum í Garði, fróðleikskona og velhygggjandi. Hún gaf sig eitt sinn á tal við mig og mælti:
-Þú ættir að koma suður í Garð. Þar er ýmislegt markvert að sjá og eg er viss um að þér myndi þykja gaman að skyggnast þar um meðal gamalla minja.
Eg spurði hvort ekki væri fremur fátt um fornminjar þar, því að hinn margfróði klerkur, Sigurður B. Sívertsen, hefði eigi getið um annað í sóknarlýsingu sinni 1839 heldur en Skagagarðinn, sem nú væri að mestu horfinn, og letursteininn í Kistugerði hjá Hrafnkelsstöðum, en sá steinn þætti nú ekki merkilegur.
-Ef þig fýsir mest að sjá fornminjar, mælti hún, þá er þarna steinn merkilegur og á sér sína sögu.
Og svo sagði hún mér söguna af þeim steini:
-Skammt frá bænum Vegamótum í Garði, sem nú er kominn í eyði, er stór steinn hellulaga og eru undir honum þrír steinar, sem hann hvílir á. Munnmæli eru um að eitthvert letur hafi verið á honum, en það hefi eg aldrei séð og veit ekki af neinum, sem hefir séð það, og ekki er mér heldur kunnugt um að neinn fróðleiksmaður hafi athugað steininn til að ganga úr skugga um hvort letrið sér þar enn. Má vera að það hafi eyðst af steininum. En sögn er, að undir þessum steini hvíli fornmaður nokkur, og steinninn megi alls ekki hreyfa.
Nú er það á öldinni sem leið, að á Lykkju í Garði bjó Þorsteinn Ólafsson, faðir Björns hafnsögumanns í Hafnarfirði og afi séra Álagasteinn og fornmannahaugur Þorsteins Björnssonar fríkirkjuprests í Reykjavík. Þorsteinn var framkvæmdamaður mikill og kappsfullur. Eitt sinn stóð hann í einhverjum byggingum og vantaði stóran stein. Kom honum þá í hug að steinninn á leiði fornmannsins myndi henta sér ágætlega. Þorsteinn vissi þó hverjar sagnir gengu um steininn, að hann mætti ekki hreyfa, því að þá myndi illt af hljótast. En hann var maður ófælinn og kjarkmikill og lét sér ekki smámuni fyrir brjósti brenna, enda var hann hið mesta karlmenni. Varð það svo úr að hann safnaði saman mönnum til þess að bera steininn heim til sín, og urðu þeir 8 saman. En steinninn var svo þungur, að þeir áttu fult í fangi með hann, aenda þótt þeir væri svo margir. Eftir mikið og langt erfiði komu þeir honum þó á þann stað, er Þorsteinn hafði ætlað honum.
Eftir að þessu stórvirki var lokið var Þorsteinn að vinna eitthvað úti við. Skyndilega syfjaði hann þá svo mjög, að hann mátti ekki halda sér vakandi. Fór hann því heim, gekk upp á baðstofuloft, hallaði sér upp í rúm og var þegar sofnaður. Dreymir hann þá, að upp úr baðstofustiganum kemur maður, stór og aðsópsmikill, og skipar honum harðlega að skila steininum aftur þangað sem hann var tekinn. Þortseinn hrökk upp við þetta og þóttist þá sjá á efyir manninum niður uppgönguna. Var hann nú glaðvaknaður. Ekki setti hann þetta neitt fyrir sig, heldur fór á fætur og gekk út til vinnu sinnar, sem hann hafði frá horfið.
En hér fór sem áðurm að skyndilega sækir hann svefn svo að hann má ekki halda sér vakandi. Lagðist hann þá út af og sofnaði skjótt. Kemur þá sami maður að honum aftur og er nú enn byrstari í bragði er hann skipar Þorsteini að skila steininum. Þorsteinn hrekkur upp í þetta og íhugar draum sinn. En vegna þess Álagasteinninnað hann trúði ekki á neina fyrirburði, ætlaði hann að humma þetta fram af sér. Og enn fer hann til vinnu sinnar.
En það fer sem fyr, að brátt syfjar hann svo að hann má ekki annað en leggja sig til svefns og sofnar þegar. Kemur hinn ókunni maður þá að honum í þriðja sinn og er nú ærið gustmikill. Gengur hann að Þorsteini, tekur um fót hans og kreistir fast, og segir að hann skuli ekki hafa betra af því ef hann vilji ekki skila steininum.
Nú vaknar Þorstienn og er honum þó nokkuð brugðið. Finnst honum sem hinn ókunni maður haldi enn um fót sinn heljartaki. Og rétt á eftir laust æðisverk í fótinn, svo að hann mátti varla bera þær kvalir hljóðalaust.
Hann sagði þá konu sinni frá draumum sínum, en hún sagði að steininn skyldi þegar flytja á sinn stað. Þorsteini var ekki um það, vildi ógjarnan láta undan því, er hann kallaði draumarugl. En nú varð konan að ráða. Voru nú fengnir menn til þess að flytja steininn á sinn stað. Einn af þessum önnum hét Stefán Einarsson og var frá Króskvelli í Garði. Hann sagði mér svo frá, aðþeim hefði virzt steinninn mjög léttur og veist miklu auðveldara fjórum að bera hann, heldur en þeim átta sem höfðu sótt hann. Síðan hefir enginn hróflað við steininum.
En það er af Þorsteini að segja, að hann tók svo mikið fótamein,a ð hann varð að liggja vikum saman.
Þannig var saga Unu og hún lofaði því að sýna mér steininn ef eg kæmi í Garðinn.
Áletrunin á álagasteininumSvo leið sumarið og veturinn að eg hafðist ekki að. En einn góðviðrisdag í vor brá eg mér út í Garð að hitta Unu og steininn. Hún efndi loforð sitt og fór með mér á staðinn.
Utan við Garðinn eru tjarnir, sem nefnast Innrasíki og Ytrasíki. Sunnan við Innrasíki eru rústir bæjarins Vegamót og grjótgarðar um kring. Norðan við grjótgarðana er kirnglóttur grjíthóll og mannvirki á. Má vera að þarna hafi einhvern tíma verið hringlaga kofi, en hitt getur líka verið, að þarna hafi verið dys eða fornmannshaugur, sem þá hefir verið raskað.
Norðan undir þessum hól er álagasteinninn. Þetta er stór grágrýtishella, burstmynduð. Er hún um 3 fet á breidd að neðam, en 5 feta há og mjög misþykk, líklega allt að fet þar sem hún er þykkust. Hún liggur þarna flöt og eru stórir steinar undir.
Eg athugaði helluna gaumgæfilega, en gat hvergi fundið þess nein merki að ristur væru á henni. Hún er grá og flöt en þó dálítil dæld í hana að ofanverðu, ofan frá burst og niður að miðju. En þótt hún virðist slétt tilsýndar er hún með smábungum og dældum. Talsverðar skófir eru á henni og þekja hana alla. Mér kom til hugar að hellan mydni vera á hvolfi og því gæti veriða ð letur væri á hinum fletinum. Gat það og verið að þeir, sem rogðu henni út að hólnum, hefðu ekki snúið henni rétt. En Una þvertók fyrir það, hún sagði að svo langt sem menn hefði sögur af, hefði hellan snúið þannig.
Letrið eftir forskrift Árna ÓlaEf hellan er bautasteinn og grjóthóllinn skyldi vera gamall haugur, fannst mér sennilegt að hellan hefði átt að standa uppi á hólnum. En Una sagði að hún hefði alltaf legið þarna síðan sögur fara af, en það væri þá gleymt ef hún hefði staðið á hólnum. Og áreiðanlega hefði hún legið þarna þegar Þorsteinn í Lykkju lét sækja hana, enda hefir mennirnir, sem fluttu hana út að hólnum aftir, varla árætt að skilja hana eftir á örðum stað en hún var áður, og þeir hefði áreiðanlega reynt að ganga frá henni eins og hún hagði legið áður. Hellan hlyti því að snúa rétt. [Mér er nær að halda að hóllinn sé forn haugur og styðzt þar vð þjóðsöguna um að hellan hafi staðið upphaflega á fornmannshaugnum. Þar sem hún er nú er enginn haugur undir og ólílegt að þar hafi nokkuru sinni verið legstaður. Má vera að þeir sem rufu hauginn hafi velt hellunni niður fyrir hólinn. Svo getur verið að seinna hafi verið gert eitthvað byrgi á hólnum og þá gleymst að þetta hafi verið haugur].
Hið eina sem eg gat gerð að svo komnu máli, var því að biðja Unu að bera steinolíu nokkrum sinnum á steininn. Og svo ætlaði eg að koma aftur og vita hvort það hefði nokkurn árangur borið.
Þá varð sú breyting á orðin, að glöggt mátti sjá að leturlína hafði verið rist um steininn þveran, neðst í dældinni.
Þjóðsagan hafði þá rétt að mæla, þetta var letursteinn.
Eg hófst þegar handa og ætlaði að hreinsa letrið, en fekk engu áorkað fyrir skófunum. Meðfylgjandi riss af steininum sýnir hvað kom fram, og hvar risturnar eru á steininum. Og enda þótt stafir sé óþekkjanlegir, sýna þessi strik þó að þar er lína þvert yfir steininn. Gæti það ef til vill bent til þess, að steinninn hefði átt að standa upp á endann, og þá var enginn staður ákjósanlegri fyrir hann, en hólkollurinn þar rétt hjá.
Það getur vel verið að fleiri leturlínur sé á steininum, en þá eru þær svo þaktar skóf, að þeirra sést enginn votur.
Viðleytni mín hefir ekki leitt annað í ljós en að ristur eru á steininum. Þessar ristur voru horfnar fyrir löngu. En munnmælin heldur fast í þá fullyrðingu, að þana ætti þær að vera, og einnig hitt, að steinninn hefði staðið á fornmannahaug. Vegna þessa á steinninn og umhverfi hans það skilið, að þetta sé rannsakað betur.”

Heimild:
-Lesbók Mbl., 31. des. 1961, bls. 629-631.

Fornmannasteinn

Ívarshús

Darrastaðir og Straglastaðir (Stranglastaðir) í garði voru þekkt örnefni hér fyrrum, en ekki lengur.
Kothus-1Á vef Árnastofnunar er m.a. fjallað um örnefnið Darrastaðir og Straglastaðir (Stranglastaðir). Bæði bæjarnöfnin munu fyrrum hafa verið á Rosmhvalanesi.
“Mannsnafnið “Darri” kemur hugsanlega fyrir í örnefninu Darrastaðir sem getið er um í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (III, bls. 106). Þar er jörð með þessu nafni sögð hafa verið í byggð áður fyrr í Rosmhvalaneshreppi en ekki var vitað um staðsetningu. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Gullbringu- og Kjósarsýslu (2007), bls. 74, segir að Darrastaðir sé eldra heiti á bænum Kothúsi í Leiru á Suðurnesjum. Bæjarheitið Darrabúðir hefur verið til að fornu í Noregi (sbr. E.H. Lind, Norsk-Isländska personbinamn från medeltiden (1920-1921), dálkur 57).
Kothus-2(E.H. Lind (Norsk-Isländska dopnamn og fingerade namn från medeltiden (1905­-1915), dálkur 198) gerir ráð fyrir að mannsnafnið (og viðurnefnið) Darri sé dregið af hvorugkynsorðinu darr sem merkir ʻspjótʼ á sama hátt og nöfnin Spjóti og Sverði eru dregin af orðunum sverð og spjót).
Ekki er ólíklegt að hvorttveggja mannsnafnið og örnefnið dragi nafn sitt af sverðsheitinu darr. Bæði Darra við Aðalvík og Derri er lýst sem hnjúkum eða hyrnum og jafnvel líkt við píramída. Líkingin við spjótsodd er því nærtæk. Darra upp af Rekavík er hins vegar lýst ýmist sem hárri klettaöxl eða heilu fjalli. Hugsanlegt er að nafnið hafi í því tilfelli upphaflega aðeins átt við öxlina og hún þótt líkjast spjótsoddi. Síðar færðist nafnið yfir á allt fjallið í munni þeirra sem bjuggu vestan við það.

Kothus-3

Ýmsar aðrar merkingar darra-orðanna geta líka átt við fjallsheitið, t.d. eitthvað sem er ʻháreistʼ eða ʻmikið með sigʼ. Valgarður Egilsson bendir t.d. á það í kaflanum Strandbyggðir Mið-Norðurlands (Árbók FÍ 2000, bls. 158) að fjallið Lútur (eða Lútin) hafi nafn sem sé andstætt Darra og á þá við að Lútur sé lágreistur (eitthvað sem ʻlýturʼ) en Darri sé væntanlega að sama skapi háreistur (ʻdarralegurʼ).”
Á snara.is má lesa eftirfarandi: “Í bæjarnafninu Darrastaðir, en sést ekki í manntölum eða skírnarskýrslum fyrir 1950. Í þjóðskrá 1982 báru 25 karlar nafnið, þar af 19 sem síðara nafn, en í þjóðskrá 1989 var 51 karl skráður svo, þar af 32 karlar að síðara nafni.”
Í Náttúrufræðingnum 1947 bregður nöfnunum fyrir í umfjöllun um flóðahæð: “Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum oIvarshus-2g hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið. Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.”
Í Frjálsri verslun 1971 má lesa eftirfarandi: “Árið 1550, þegar allar beztu plógjarðir, sem höfðu útróðrarmenn, voru látnar ganga undir Skálholtsstól. Voru Kothúsin þeirra á meðal. Um 1890 keypti faðir hans jörðina, sem þá var orðin konungseign, Kothús munu áður hafa heitið Darrastaðir.

Kothus-4

Ólafur Lárusson, gefur þá skýringu á nafnabreytingunni, að sennilega hafi Darrastaðir farið í eyði, en seinna byggt á tóftunum. Hvenær það gerðist er ekki vitað, en 1550 var Kothúsanafnið komið á jörðina.”
Í Vöku 1929 kemur þetta fyrir: “Það er þannig líkleg tilgáta, að Kothús og Ívarshús í Garði séu gamlar jarðir, er þar voru og hétu Straglastaðir og Darrastaðir. Að lögbýli bera hjáleigunöfn sannar því eigi, að þau nöfn séu gömul. Hitt, að sýnt verður, að mörg þessara býla hafa fengið nöfn þessi tiltölulega seint, er vottur þess, að hjáleigunöfnin tilheyri yfirleitt yngra stigi í byggingarsögu landsins, og það bendir aftur til þess, að hjáleigurnar séu flestar byggðar nokkuð seint. En hvernig stendur á þessum nafnbreytinguin lögbýlanna?

Kothus-5

Ég hygg, að þær hafi oftast stafað af því, að býlin hafa lagzt í auðn í bili. Einkum á þelta við um kot-nöfnin. Það hefir verið tíðkað i alþýðumáli, að nefna rústir „kot”, jafnvel rústir af öðru en býlum, t. d. beitarhúsum og þess háttar.”
Þegar svæðið ofan og suðvestan við Varir var skoðað árið 2012 hitti FERLIR m.a. Guðríði í Kothúsum. Hún er fædd og alin upp á bænum. Sagði hún að fyrrum hafi allnokkur kot verið umhverfis bæinn, 6-7 talsins. Hvert kot hefði haft skika umleikis. Nú væru þessi kot hins vegar horfin, en þó mætti enn sjá leifar Ívarshúss. Sjálft íbúðarhúsið (grænt) hefði verið flutt inn frá Noregi og byggt árið 1896. Efra húsið (hvíta) væri frá árinu 1898.
Aðrar minjar í nágrenninu væru frá því að afi hennar hafði Kothus-6útihús norðvestan við bæinn. Kothúsbrunninn mætti enn sjá skammt vestan við hann, en hann hefði verið byrgður. Áður var ofan á honum kjálki og vinda, enda jafnan gott vatn upp úr honum að hafa. Vindmyllustandur í nágrenninni var minnismerki þess tíma er vindmylla var við hvurn bær í Garði. Þessi vindmylla var öðruvísi en aðrar því spaðinn sneri jafnan undan vindi en ekki upp í hann líkt og aðrar.
Nú hafa minjar eldri kota og bæja verið sléttar út á umræddu svæði svo erfitt er að greina hvar þau hafa verið staðsett nákvæmlega.

Heimildir m.a.:
-http://snara.is/s4.aspx?sw=b%u00e6jarnafn&start=30&action=search
-Náttúrufræðingurinn, 17. árg. 2. tbl (01.06.1947), Ólalur við Faxafen: Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, bls. 62.
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3155283&issId=232905&lang=4
-Frjáls verslun, 31. árg. 1971-71, 9. tbl. (01.09.1971), viðtal við Sevinbjörn Árnason í Kothúsum í Garði, bls. 58.
-Hallgrímur J. Ámundason (júlí 2010).
-http://arnastofnun.is/page/ornefni_darri.
-Vaka, 3. árg. 1929, 3. tbl. (01.12.1929), bls. 363.
-Guðríður í Kothúsum.

Garður

Garður.

Leiran

Njáll Benediktsson skrifar um “Mannlíf í Leiru” í Faxa árið 1991:

“Kæri lesandi Faxa, ég undirritaður hef verið beðinn um að rifja upp manntal í Leiru um aldamótin 1900 og hef ég tekið árið 1901 og byrja í Inn-Leiru eins og hún var kölluð.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Innsta húsið hét Bergvík, þar stóð tveggja hæða hús á steinhlöðnum kjallara sem var íbúðarhæfur. Í Bergvík bjuggu fjórar fjölskyldur. Í 1. býli bjó Pétur Pétursson húsbóndi og sjómaður 52 ára, Hallbera Sveinsdóttir kona hans 69 ára, Helga Guðmundsdóttir hjú þeirra 52 ára. f 2. býli Guðrún Guðmundsdóttir húsráðandi 48 ára, Pétur Pétursson sonur húsmóður 17 ára, Sveinsína Pétursdóttir dóttir húsmóður 21 árs, Guðmundur Pétursson sonur húsmóður 14 ára. Í býli 3 þar bjó Árni Sæmundsson húsbóndi og sjómaður 54 ára, Margrét Bjarnadóttir bústýra 59 ára, Hlaðgerður Bjarnadóttir tökubarn 8 ára. Í 4. býli bjó Ólafur Erlendsson húsbóndi og sjómaður 61 árs, Þuríður Eyjólfsdóttir kona hans 51 árs, Kristín Bjarnadóttir tökubam 14 ára.

Leiran

Bergvíkurbrunnur.

Nú höldum við í vestur og komum að Grænagarði, þar býr Jóhann Sigmundsson húsbóndi og sjómaður 37 ára, Þuríður Sigmundsdóttir kona hans 24 ára, Sigmundur Jóhannsson sonur þeirra 4 ára, Pétur Jóhannsson sonur þeirra á fyrsta ári, Kristín Brandsdóttir gestur 63 ára.
Við höldum áfram í vestur og komum í Melshús, þar býr Guðmundur Símonarson húsbóndi og sjómaður 42 ára, Margrét Símonardóttir húsmóðir bústýra 44 ára, Símon Guðmundsson sonur húsbænda 13 ára, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Brynjólfur Magnússon leigjandi bamaskólakennari 40 ára.

Leiran

Hrúðurnesbrunnur. Stóri-Hólmur að handan.

Við komum svo að Lindarbæ þar býr Björn Sturlaugsson húsbóndi og sjómaður 49 ára, Guðrún Erlendsdóttir húsmóðir og bústýra 53 ára, Kristinn Árnason tökudrengur 12 ára.
Nú förum við í austur niður í dalinn eins og hann var kallaður og komum að vatnsbrunni. Hann var hringhlaðinn úr tilhöggnu grjóti átján feta djúpur, mikið meistaraverk. Nú hafa félagar úr Golfklúbbi Suðurnesja byggt yfir þennan brunn, gott verk sem ber að þakka.
Við höldum áfram í norður meðfram sjónum og komum á Melbæjarbakka, þar býr Jóhann Jónsson húsbóndi og sjómaður 33 ára, Ragnhildur Pétursdóttir kona hans 23 ára, Guðrún Oktavía Jóhannsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jenný Dagbjört Jóhannsdóttir á fyrsta ári.

Leiran

Leiran – örnefni á loftmynd.

Við höldum áfram í norður og komum að Melbæ, þar var mikið mannlíf. Þar býr Jón Bjarnason húsbóndi og sjómaður 33 ára, Margrét Ingjaldsdóttir kona hans 29 ára, Sólmundur Jónsson sonur hjónanna 7 ára, Bjarni Pétur Jónsson sonur þeirra 5 ára, Guðrún Jónsdóttir dóttir þeirra 2 ára, Jónína Margrét Jónsdóttir dóttir þeirra á fyrsta ári, Þuríður Jónsdóttir 79 ára lifir af styrk frá ættingjum sínum, Þuríður Bjarnadóttir 41 árs hjú þeirra.
Við höldum áfram í suðvestur og komum að neðra Hrúðurnesi. Þar býr Helgi Árnason húsbóndi, sjómaður og trésmiður 40 ára, Þorbjörg Sigmundsdóttir kona hans 23 ára, Björg Einarsdóttir hjú þeirra 19 ára, Gísli Jónsson sjómaður 66 ára.

Leiran

Leiran 2005 – loftmynd.

Við komum að Efri Hrúðurnesi, þar býr Sigmundur Jónsson húsbóndi og sjómaður 53 ára, Guðríður Ólafsdóttir kona hans 55 ára, Sigurjón Jónsson skjólstæðingur þeirra 11 ára.
Við höldum áfram í norðverstur og komum í Garðhús, þar býr Guðni Jónsson húsbóndi og sjómaður 55 ára, Ástríður Gísladóttir kona hans 54 ára, Sigurður Sigurðsson skjólstæðingur þeirra 11 ára, Þorsteinn Bjarnason sjómaður 71 árs.
Fyrir neðan Garðhús stóð Ráðagerði, stórt timburhús með háu risi, þar býr Jón Jónsson húsbóndi 54 ára, Jóhanna Jónsdóttir kona hans 44 ára, Jóhannes Jónsson 12 ára sonur þeirra, Rannveig Jónsdóttir 10 ára dóttir þeirra, Jóhann Jónsson hjú þeirra 22 ára, Þuríður Jónsdóttir hjú þeirra 21 árs, Vilmundína Lárusdóttir tökubarn á fyrsta ári, Elsa Dórothea 61 árs húskona lifir á eigum sínum, Gísli Halldórsson sjómaður 61 árs.
Leiran
Nú höldum við vestur og komum að býlinu Kötluhól, þar býr Jóhann Vilhjálmsson húsbóndi og sjómaður 50 ára, Margrét Steinsdóttir kona hans 52 ára, Svandís Vigfúsdóttir 14 ára tökubarn, Hallmundur Eyjólfsson 8 ára uppeldissonur.
Fyrir norðan Kötluhól stóð Stór-Hólmsbaðstofan að falli komin, þar býr Sveinn Helgason húsbóndi og sjómaður 46 ára, Þórey Guðmundsdóttir kona hans 49 ára, Helgi Sveinsson sonur þeirra 16 ára, Anna Sveinsdóttir dóttir þeirra 14 ára, Jón Helgason Sveinsson sonur þeirra 10 ára, Guðrún Helga Sveinsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Þórunn Kristín Sigríður Antonsdóttir tökubarn 2 ára, Jón Oddsson húsbóndi 46 ára, Guðleif Oddsdóttir bústýra 28 ára, Jónína Guðleif Jónsdóttir dóttir þeirra 4 ára.
Leiran
Við höldum áfram og komum að bænum Nýlendu, þar býr Einar Eyjólfsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 49 ára, Valgerður Jónsdóttir kona hans 54 ára, Gústaf Gíslason uppeldissonur þeirra 9 ára.
Fyrir ofan Nýlendu stóð bærinn Rófa, þar býr Einar Jónsson húsbóndi, háseti á opnum bát, 46 ára, Helga Jónsdóttir húsmóðir, bústýra 49 ára, Guðbjörg Einarsdóttir dóttir þeirra 23 ára, Jakobína Rögnvaldsdóttir tökubarn 5 ára. Næst eru það Steinar, þar býr Ólafur Bjarnason húsbóndi, formaður á opnum bát, 50 ára, Hallbera Helgadóttir húsmóðir, bústýra 55 ára, Bergsteinn Bergsteinsson tökudrengur 13 ára.
Nú förum við í austur niður að sjó, þar stóð Bakkakot, stórt timburhús á tveimur hæðum, þar býr Eiríkur Torfason húsbóndi og formaður á opnu skipi, tré- og járnsmiður 42 ára, Sigríður Stefánsdóttir kona hans 33 ára, Leifur Eiríksson sonur þeirra 3 ára, Guðrún Jónína Lilja Eiríksdóttir dóttir þeirra 1 árs, Helga Högnadóttir hjú þeirra 44 ára, Guðrún Einarsdóttir hjú þeirra 17 ára, Jón Högnason leigjandi, háseti á fiskiskipi 24 ára, Stefán Sigurfinnsson sonur húsfreyju 13 ára, Stefán Pálsson leigjandi lifir af eigum sínum 62 ára.
Litli-Hólmur
Þá höldum við í vestur og komum að Litla-Hólmi, þar var hlaðinn vararkampur úr stóru grjóti sem var einn og hálfur meter á hæð. Það var hægt að landa fiski við vararkampinn við hálffallinn sjó, það var mikil framför í gamla daga. Á Litla-Hólmi býr Geir Guðmundur Guðmundsson húsbóndi og vefari 57 ára, Ingunn Vigfúsdóttir kona hans 40 ára, Helga Geirsdóttir dóttir þeirra 10 ára.
Þá komum við að Litlahólmskoti, þar býr Halldóra Þorleifsdóttir húsmóðir, lifir á handavinnu 59 ára. Það má geta þess að árið 1890 eru skráðir heimilisfastir menn í Litla-Hólmskoti 14 menn.
Nú höldum við í norður og komum í Gufuskálaland, það var kallað Út-Leira.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Við komum í Gufuskála, þar býr Eyjólfur Eyjólfsson húsbóndi 51 árs, Sigrún Halldórsdóttir kona hans 47 ára, Halldóra Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 16 ára, Björn Eyjólfsson sonur þeirra 12 ára, Ingibjörg Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 5 ára, Sigrún Oddleif Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 3 ára, Guðjón Jónsson hjú þeirra 27 ára, Sigurður Guðmundsson hjú 65 ára, Elín Magnúsdóttir hjú þeirra 55 ára, Eyjólfur Eyjólfsson sonur hjónanna 13 ára.
Þá er haldið í norðvestur og komið að Vesturkoti, þar býr Eggert Einarsson húsbóndi og sjómaður 56 ára, Þóra Þorsteinsdóttir kona hans 63 ára, Þorsteinn Eggertsson sonur þeirra 33 ára, Björn Eggertsson sonur þeirra 30 ára, Þorgerður Eggertsdóttir dóttir hjónanna 22 ára, Jón Jónsson leigjandi, sjómaður 64 ára, Eiríkur Þorsteinsson sjómaður 59 ára, Guðmundur Guðmundsson sjómaður 39 ára.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Nú höldum við niður að sjó, þar stóð Hausthús, fallegur bær með blóm í haga. Þar býr Jósep Oddsson húsbóndi og sjómaður 46 ára, Gróa Jónsdóttir kona hans 33 ára, Jósepína Jósepsdóttir dóttir hans 11 ára, Jónína Halldóra Jósepsdóttir dóttir þeirra 7 ára, Ólafur Jósepsson sonur þeirra 3 ára, Oddný Jósepsdóttir dóttir þeirra 1 árs.
Fyrir vestan Hausthús er Kóngsgerði, þar býr Þórarinn Eyjólfsson húsbóndi 39 ára, Sigríður Arnadóttir kona hans 43 ára, Ingibjörg Þórarinsdóttir dóttir hans 11 ára, Guðrún Þórarinsdóttir dóttir hans 10 ára, Guðbjörn Þórarinsson sonur þeirra 8 ára, Katrín Árnea Þórarinsdóttir dóttir þeirra 6 ára, Eyjólfur Þórarinsson sonur þeirra 4 ára, Helgi Þórarinsson sonur þeirra 1 árs.
Þá höfum við gengið Leiruna á enda.” – Heimildir eru kirkjubækur Útskála; Njáll Benediktsson, Garði, skráði.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.06.1991, Mannlíf í Leiru- Njáll Benediktsson, bls. 126-128.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Keflavík

Í Faxa 1991 er birt ritgerð Skúla Magnússonar um “Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð“:

Skúli MagnússonHér á eftir mun verða brugðið nokkru Ijósi á híbýli Suðurnesjamanna á 18. og 19. öld, eftir því sem aðgengilegar heimildir leyfa. Reynt hefiir verið að leita í gögn samtímamanna og sjónarvotta, stuðst við lýsingar þeirra. Heimildirnar mega því yfirleitt teljast trúverðugar. Að visu rituðu þrír sögumenn frásagnir sínar á gamals aldri en ekki er þó ástœða til að rengja þœr að svo komnu. Þessir menn voru: Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924), Kristleifur Þorsteinsson frá Stóra-Kroppi (1861-1952) og Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (f. 1869, á lífi 1941).
Sjálfri ritgerðinni er skipt í tvo megin þœtti. Sá fyrri fjallar nokkuð um torfbæi og þurrabúðir á 18. öld. Síðari hlutinn segir einkumfrá upphafi timburhúsa og lítillega er minnst á steinhús á 19. öld. Kirkjum er sleppt. Eingöngu verður fjallað um híbýli til íbúðar.

Bæir og þurrabúðir á 18. öld – lýsingar húsa 1740
Jarðeignir á Suðurnesjum eyddust mjög er aldir liðu. Olli því geysilegt landbrot og foksandur sem bitnaði jafnt á býlum ríkra sem fátækra. Þess ber þó að geta að á sama tíma, frá 1300-1600, hækkuðu jarðirnar í verði vegna þess að gildi fiskveiða óx í hlutfalli við landbúnaðinn. Ríkismenn sóttust því eftir að koma ár sinni fyrir borð þar syðra.
Í byrjun 18. aldar átti konungur flestar jarðir frá Kirkjuvogi að Garðskaga og þaðan inn Vatnsleysuströnd allt að Sundum við Kollafjörð.
Þar sem jarðir þessar urðu mjög illa úti vegna eyðingar kvaddi amtmaður til 4 bændur á Miðnesi til að skoða þar 5 jarðir. Það var 1735. En ítarlegust var skoðunin 1740. Þá skoðuðu 6 menn 25 jarðir frá Stafnesi að Skaga og þaðan inn í Keflavík.
Gallinn á þessum úttektum er þó sá, að hjáleigum var að mestu sleppt, en stærri jarðir og höfuðból komust á blöð skoðunarmanna.

Bær

Innan við bæjardyr.

Alls staðar byrjuðu skoðunarmenn lýsingar sínar í bæjardyrum. Á flestum bæjum var skálinn þar fyrir innan, þá búr og eldhús, en baðstofan aftasta húsið að baki hinum. Þessi húsaskipan var á öllum bæjum sem skoðaðir voru, nema á Meiðastöðum í Garði. Þar var enginn skáli. Þar hafði um vorið 1740 verið reist nýtísku baðstofa sem var næst bæjardyrum. Á Stafnesi virðist baðstofan hafa verið á svipuðum stað.
Á þessum tíma var venja að gefa upp lengdir húsa í stafgólfum, þ.e. lengd á milli sperra eða bita, sem jafnvel gat verið ein rúmlengd í baðstofu. Svo einfalt var þetta byggingarlag í raun. Þetta bil var mælt í álnum og var hvert stafgólf 2-3 álnir, oftast 3 eða örlítið minna.

Bær

Þiljuð baðstofa.

Á mörgum bæjum voru bæjardyr ekki nema eitt stafgólf að lengd, en tvö til þrjú á sumum og fjögur á stærsta bænum. Skálar voru 3 eða 4 stafgólfa (8-10 álna langir) nema á Másbúðum á Miðnesi. Þar var skálinn 9 stafgólf og var trúlega ætlaður sjómönnum. Skálinn á Kirkjubóli virðist hafa verið að baki tveimur stofum er næstar voru taldar bæjardyrum. Á stöku bæ var og ein stofa. En bærinn á Kirkjubóli var þó bæði stærri og frágangur og efniviður í húsum þar mun betri en á öllum hinum bæjunum. Þar voru t.d. báðar stofur þiljaðar innan, 3 stafgólf hvor og með gluggum, sem voru á mjög fáum bæjum. Í fremri stofu var gluggi á hlið með karmi, en tveir á innri stofunni. Þar var líka háborð með sæti og pílárum. Enn fremur bekkir eins og hjá heldri mönnum. Á Kirkjubóli bjó þá Kort Jónsson lögréttumaður.
En skjótt bregður sól sumri. Árið 1837 var bærinn á Kirkjubóli færður af heimajörðinni á eina hjáleiguna. Svo mikið var landbrotið að þessi höfuðjörð Suðurnesja var að engu orðin.

Reykjavík 1835

Bær 1835.

Árið 1740 voru stofur og baðstofur yfirleitt óþiljaðar að innan að nokkru eða öllu leyti. Raftar en ekki súð var á þekjum. Þó var á nokkrum bæjum svokallað milliþil og á fáeinum bæjum alþiljaður endi í baðstofu.
Að Kirkjubóli frátöldu voru best húsakynni á Stóra-Hólmi í Leiru og á Bæjarskerjum á Miðnesi. Á síðari bænum var þiljuð stofa með glugga og tvær baðstofur.

Eggert og Bjarni lýsa þurrabúð

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Árið 1755 ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Gullbringu-sýslu. Samkvæmt frásögn þeirra voru húsakynni við sjávarsíðuna yfirleitt „lélegri en í meðallagi”, en „lang lélegust og sóðalegust” voru húsakynnin í verstöðvunum sunnan- og suð-vestanlands, þ.á m. á Suðurnesjum.
Meðal annars kvarta þeir Eggert og Bjarni undan ólykt sem hafi verið í þessum húsum, „einkum á vertíðinni…”. Eiga þeir félagar greinilega við fiskilykt sem gjarnan fylgir sjósókn og fískvinnslu. Hér, og að ofan, birtast m.a. hleypidómar og andúð þeira Eggerts og Bjarna gagnvart sjávarbændum. Viðhorf sem voru aldagömul og komu víða fram í hinu forna bændasamfélagi.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Í verstöðvunum voru víða verbúðir þar sem menn bjuggu á vetrarvertíðum, en á öðrum árstímum stóðu búðirnar auðar. Verbúðirnar voru oft í eign stórbænda er bjuggu á höfuðbóli þaðan sem útræði var stundað. Ennfremur fylgdu heimajörðunum oft kot eða hjáleigur. Ef hjáleigurnar höfðu ekki grasnyt voru þær kallaðar þurrabúðir. Þær voru víða á Suðurnesjum. Íbúar þeirra lifðu af afla er fékkst úr sjó. Ennfremur mikið á innfluttum vörum sem þeir fengu í skiptum fyrir fisk. Einnig á landbúnaðarafurðum er guldust með fiskmeti.
Þeir Eggert og Bjarni geta þess að þurrabúðir á Snæfellsnesi og á Suðumesjum hafi stundum verið 5 húsa. Göng í miðju en íveruhús út frá þeim til beggja handa. Næst dyrum voru skálar karlmanna og sjómanna, þá búr og eldhús. Innst og aftast var baðstofan. Hér er trúlega átt við þurrabúðir efnabetri manna en stærð búðanna fór að sögn eftir fátækt íbúanna.

Lýsing Skúla fógeta á betri býlum

Bær

Bæjargöng.

Á betri býlum í Gullbringusýslu voru bæjarhús oft 5 að tölu að sögn Skúla Magnússonar landfógeta. Göng voru í miðju á þeim bæjum, líkt og í þurrabúðum, en til beggja handa voru stofa og skáli, búr og eldhús, aftast var baðstofa.
Stundum var gler í gluggum en oftast líknarbelgir. Gler tíðkaðist einungis hjá mjög efnuðum bændum. Baðstofan var aftasta húsið svo þar héldist hiti, en göngin löng. Ofnar voru óþekktir. Hér er verið að lýsa eins konar gangabæ, forvera burstabæja, eins og þeir tíðkuðust síðará 19. öld.

Bæir og timburhús á 19. öld

Bær

Í bæjargöngum.

Árið 1880 skrifaði hinn aldurhnigni sveitarhöfðingi, Sigurður B. Sívertsen, þegar hann rifjar upp hvernig hfbýli manna voru 1830 er hann kom sem ungur prestur til Suðurnesja: „Húsakynni voru hörmuleg og engin herbergi í þeim er inn í væri bjóðandi. Allt torfbæir með löngum göngum og mjóum, eins og nú aumustu kotum (þ.e. árið 1880.).  Óþrifnaður átti sér víða stað og var eigi hægt annað, eins og átti sér stað í moldarkofum þessum. Voru forir þá víða fyrir utan bæjardyr hvar hellt var í skólpi og mykju undan kúm, einnig slori úr fiski. Í bæjardyrum var flórlagt gólf með hellum sem lagðar voru yfir forarræsi, sem lágu út í forina. Skinnklæði og færi voru látin hanga í bæjardyrum. Aðeins á Stafnesi var hreinlegur bær. Ekkert sást þá timburhús hjá bændum.”.

Grindavík

Bær

Timburhús.

Í Grindavík virtust ekki komin timburhús á helstu jarðirnar 1840-41 nema á Hrauni. Þar hafði Jón Jónsson hreppstjóri og eigandi hálfrar jarðarinnar „uppbyggt í seinni tíð þrjú stjór og reisuleg timburhús”. Rekaviður var mest notaður til húsagerðar en einnig borðviður úr kaupstað.

Hafnir

Bær

Samstæður bær frá 19. öld.

Þar virðast ekki komin timburhús 1839 þegar sr. Sigurður B. Sívertsen ritaði lýsingu Útskálaprestakalls.
Á höfuðbólinu Kirkjuvogi var þríbýli: Austur-, Mið- og Vesturbær. Sá austasti var næstur kirkjunni. Þar höfðu búið ríkir landsetar. Þarna var „reisulegur og vel húsaður bær”, segir sr. Sigurður. Fyrrum bjó þar Guðni Sigurðsson, (1714-80) sýslumaður og settur landfógeti 1749.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Árið 1859 kom Finnur Jónsson, fræðimaður, í Hafnirnar í fyrsta sinn, þá 17 ára. Þóttu honum hús þar reisuleg og einhver þau bestu er hann þekkti í sveitum hér á landi.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson (1812-1869) bjó þá í „stóru og vönduðu tvílyftu timburhúsi, og annað minna timburhús var þar, sem var geymsluhús hans, enda var fjáður vel…”.”, en Vilhjálmur bjó í Austurbænum í Kirkjuvogi. Ekki verður sagt hvenær Vilhjálmur reisti þetta stóra timburhús, en hann hóf sjálfur búskap þarna 1841. Ekki er fjarri lagi að áætla að hann hafi reist húsið á árunum 1845-55.
Ketill Jónsson (1793-1869) flutti suður í Hafnir um 1829 og bjó lengst af í Kotvogi í „stórum torf- eða grjófbæ, en á hlaðinu var snoturt timburhús með málaðri stofu, voru í henni sum húsgögn dýrmæt..”.
Gunnar Halldórsson (1824-76) hreppstjóri hóf búskap í Kirkjuvogi 1848. Hann reisti „stórt tvíloftar timburhús…” og bjó þar til dánardægurs. Í þessu húsi bjó Gunnar 1859.
Á Kalmanstjörn var þá hjá Stefáni Sveinssyni (d. 1864) „reisulegur torfbær og allstórt timburhús við, með stofu laglegri í öðrum enda þess”.

Rekatimbur til húsa

Valahnúkur

Valahnúkamöl.

Eins og víðar á Suðurnesjum nýttu bændur í Höfnum rekavið til húsa. Ráku t.d. oft stór tré á fjörur Kalmanstjarnar. Þótti sá reki „allarðsamur til húsabóta…”.
Um nýár 1836 gerði ofsaveður á Suðurnesjum. Rak þá á Valahnjúkamöl syðst við Reykjanestá, svo mikið timbur að fáheyrt þótti. Var talið að farmur þessi væri úr þrímöstruðu skipi sem fórst suður af Indinu. Ekki er þess getið í heimildum að viðurinn hafi verið almennt notaður til bygginga, en mjög trúlegt er það.

James Town strandar

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Að morgni 26. júní 1881, rak á land norðanvert við Ósabotna, stórt skip. Var það amerískt og hér James Town. Skipsstrand þetta markaði þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum og því er þess getið hér. James Town var upphaflega þriggja mastra, og allt úr timbri. Lestar og þrjú þilför voru full af alls lags viði. Heimildum ber ekki saman um stærð skipsins. Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum, segir að skipið hafi verið 360 feta langt en 65 fet á breidd. (Gullfoss yngri, sem kom 1951, var 355 fet stafna á milli, en 47 1/2 fet á breidd.) SigurðurB. Sívertsen segir aftur á móti að James Town hafi verið 256 fet, en 54 fet á breidd jafnvel nokkru breiðari.™ Talið var að í skipinu væru alls um 100.000 plankar af öllum stærðum og gerðum. Auk plankabúta og borðviðar.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Björgun hófst strax og veður leyfði. Þann 10. ágúst var mikið selt á uppboði af timbri er á land var komið. En 9. september gerði SV-ofsaveður sem braut skipið og bar timbrið um allar fjörur. Mest af timbrinu kom í hlut Hafnamanna. Þeir reistu úr því a.m.k. 9 hús. En mikið timbur barst um allt Suð-Vesturland. Þorvaldi Thoroddsen fannst hús Hafnarmanna „mjög vönduð”, er hann var þar á ferð 1883.
Sama ár getur sr. Sigurður B. Sívertsen þess í annál sínum, að mörg hús væru í smíðum hjá bændum um haustið. „Þeirra mest í Sandgerði hjá Sveinbirni bónda.

Miðnes
Sandgerði
Árið 1859-60 bjó Ketill Ketilsson (1823-1902) á Hvalsnesi. Þar reisti hann „timburhús og stóra steintóft við sjóinn fyrir sjávarafla, sömuleiðis heim við bæinn stórt fjós úr steini”. Þá var á Stafnesi „reisulegur torfbær nokkuð forn, með timburhúsi”.
Óvíst er að þetta hafi verið fyrstu timburhúsin á Miðnesi, en ekki er það ólíklegt. Ketill reisti síðar steinkirkju á Hvalsnesi.
Eins og áður sagði reisti Sveinbjörn Þórðarson (1817-93) veglegt hús í Sandgerði 1883. Líklega af timbrinu úr James Town. Þarna fékk Sveinbjörn efnivið fyrir lítinn pening. en sjálfur var hann svo auðugur að aðeins Hafnamenn stóðu honum framar. Sandgerðishúsið stendur enn í dag.

Garðurinn

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Ekki getur Sigurður B. Sívertsen um timburhús á bæjum í Garði og Leiru í lýsingu Útskálaprestakalls 1839. Líklega hafa þau hvergi verið komin þá. Þó segir klerkur að að Útskálum sé „all snotur timburkirkja og vel húsaður bær”. En 1859 voru komin timburhús í Garðinum „á stöku stað…”.
Árið 1871 var reist í Gerðum skólahús fyrir almenn samskot. Og árið 1878 var húsið endurbyggt úr grjóti með kalklími. Líklega er skólahús þetta fyrsta steinhús á Suðurnesjum.
Athygli vakti 1873, þegar Einar Sigurðsson, bóndi í Vörum, reisti sér „mjög vandað timburhús með prýðilegum herbergjum, eins og best mátti verða…”. Þrátt fyrir hátt verð á timbri.

Meiðastaðir

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.

Árni Þorvaldsson (1824-1901) á Meiðastöðum lengdi timburhús sitt 1874 og setti á það kvist „í gegn”. Um svipað leyti létu margir bændur í Garðinum endurnýja baðstofur. Þrifnaður fór þá vaxandi. Þeir Árni og Einar í Vörum voru meðal ríkustu bænda á Suðurnesjum. Hjá Árna voru t.d. 50 manns í heimili á vertíðum.™
Árið 1879 reisti Einar í Vörum „mikla og vandaða bekkbaðstofu úr tilhöggnu grjóti lukt í kalk…”.
Var talið að kostnaðurinn hefði numið nærri 2000 kr. Alls var talið að Einar hafi lagt a.m.k. 7000 kr. í byggingar í Vörum.

Keflavík
Keflavík
Keflavík hafði sérstöðu, þar var döns verslun og timburhús komin þegar á 18. öld. Tómthúsfólk þar bjó í litlum torfbæjum.
Árið 1839 voru í Keflavík fjögur verslunarhús „og hefur fjölgað þar timburhúsum á seinni árum. Þau eru nú 16″.
Árið 1859 voru auk þriggja verslana komin þar 5-6 lítil einlyft timburhús, en þorri fólks bjó í bæjum.
Árið 1871 byggði Skotfélagið í Keflavík samkomuhús er kostaði 900 dali. Svendsen byggði pakkhús. (Líklega svonefnt Miðpakkhús, sem nú er horfið.) Hans Duus byggði nýja sölubúð, er enn stendur endurbyggð eftir bruna. Húsið er sennilega fyrsta portbyggða húsið í Keflavík. Skammt frá reisti Duus tvílyft pakkhús 1877. Kostaði það a.m.k. 16.000 kr. Stendur það enn og er það fyrsta tvflyfta húsið í Keflavík, að höfundur þessarar ritgerðar telur.
Keflavík
Alls var talið að H.P. Duus hefði varið um 30.000 kr. fram til ársins 1880 til húsabóta á lóð sinni í Keflavík.
Sumarið 1881 lét Fischer kaupmaður reisa stórt tvflyft verslunarhús á lóð sinni. Talið eitt vandaðasta timburhús sunnanlands á þeim tíma. Kostaði það a.m.k. 20.000 rk. Stendur húsið enn í dag. Árið 1888 reisti Knudtzon kaupmaður nýtt einlyft verslunarhús á sinni lóð. Lét hann þá rífa gamalt verslunarhús, er líklega var reist snemma á 19. öld og því komið til ára sinna. Segir í Suðurnesjaannál að 1888 sé íbúðarhús Duus kaupmanns eina húsið í „fornum stíl” sem eftir sé í Keflavík. Það er: Með háu risi og lágum veggjum. Um leið getur hann þess að nú séu öll hús í Keflavík „byggð í nýju formi eins og í Reykjavík”.
Keflavík
Ljóst er að mikið hefur verið byggt í Keflavík á 8. og 9. tug síðustu aldar. Þrjár aðalverslanir þorpsins endurnýjuðu húsakost sinn að mestu leyti.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn 1987.

Í sóknarlýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsókna 1840 getur sr. Pétur Jónsson á Kálfatjörn þess að sléttun túna og hleðsla grjótgarða hafi smám saman aukist í sóknunum, svo og byggingar timburhúsa.
Mest notuðu bændur innflutt timbur til húsagerðar enda reki lítill á Ströndinni.
Munur ríkra og fátækra var mikill þar syðra á 19. öld. Kristleifur Þorsteinsson fullyrðir að allt fram á sjöunda tug 19. aldar hafi þar eingöngu verið búið í torfbæjum.
Brunnastaðaskóli
Finnur frá Kjörseyri segir að 1859-64 hafi timburhús í sveitum inn með Faxaflóa verið tiltölulega fá. Ágúst Guðmundsson staðhæfir að fyrsta timburhúsið hafi verið reist á Kálfatjörn, en getur ekki hvenær. Faðir Ágústs, Guðmundur Ívarsson, reisti á Neðri-Brunnastöðum, timburhús 1865 og annað jafnstórt” 1869. Segir Ágúst að þessi hús hafi verið næst í röðinni á eftir húsinu á Kálfatjörn. Kristleifur segir að eftir 1865 hafi stöku bændur reist lítil og íburðarlaus timburhús.
Sumarið 1872 var reist skólahús úr timbri á Brunnastöðum. Lárus Pálsson, hómópati, reisti nýbýlið Hellur 1873. Varð það „loftbyggður bær úr grjóti og sementi…”.

Fyrsta húsið af því tagi á Ströndinni

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Um 1880 reisti Ari Egilsson frá Minni-Vogum fyrsta steinhúsið á Vatnsleysuströnd til íbúðar. Stóð það á hraunklöpp rétt inn við Vogabæina. Hét húsið Grænaborg. Það brann 1882 og urðu af því hörmuleg eftirmál sem ekki verða rakin hér. Líklega var þetta fyrsta húsið úr steini sem búið var í á Suðurnesjum.

Lokaorð

Bær

Þiljaður gangnabær með baðstofustiga.

Á 18. öld voru algengir svokallaðir gangabæir, forverar burstabæja á 19. öld. Báðar þessar húsagerðir tíðkuðust á Suðurnesjum. Á
milli 1835-40 komu fyrstu timburhúsin ef frá eru talin timburhúsin í Keflavík sem komin voru þegar á 18. öld. Um 1860-70 birtust fyrstu steinbæirnir. Á árunum 1880-90 náðu húsbyggingar á Suðurnesjum hámarki, ekki síst eftir að James Town strandaði við Ósabotna 1881. Það skipsstrand markar þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum. Þaðan fékk almenningur ódýrt timbur. Um þetta leyti endurnýjuðu kaupmenn í Keflavík húsakost sinn að mestu leyti. Farið var að reisa tveggja hæða timburhús. Á sama tíma var reist fyrsta steinhúsið til íbúðar. Tvær veglegar steinkirkjur voru reistar. Hér höfðu einstakir efnamenn oftast forystu, einkum í Höfnum og Garði. Virðist sem metnaður hafi ríkt á milli þeirra um að byggja sem veglegast. – Samið á Nýja-Garði (okt. 1990).

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.09.1991, Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð – Skúli Magnússon, bls. 142-146.

Bær

Ljár ofan við hlóðir í eldhúsi.

Draughóll

Sæmundur Einarsson (1765-1826) var ættaður af Suðurlandi. Hann vígðist 1790 og gegndi preststörfum á Kjalarnesþingum. Stóradal og Ásum, en 1812 fékk hann Útskála, sem hann  hélt til æviloka.

Garður

Letursteinn.

Í Fornleifaskýrslu 18. júlí 1817, nr. 4, lýsir hann Útskálum. Nefnir hann til sögunnar Másleiði við Hvalsnes, Flankaleiði, Kistugerði og leturstein þar hjá.  Auk þess nefnir hann rúnastein norðanhalt við landamerkin milli Kirkjubóls og Útskála þar sem standa tilteknir stafir. Auk þess ferhyrndan stein við túngarðshliðið á Stóra-Hólmi.

FERLIR leitaði lengi að og skoðaði framangreinda rúnasteina. Steinninn á mörkum Kirkjubóls og Útskála var löngum álitinn tengjast eftirmálum af drápi Jóns Arasonar árið 1550. Var talið að þarna hafi einhverjir aðfararmanna hans verið drepnir og síðan komið fyrir. Tveir hólar eru á Garðskaga, Draughóll og Skagahóll. Er steinninn utan í þeim fyrrnefnda og með þeirri áletrun er Sæmundur lýsir 1817. Nokkurn tíma tók að finna staðinn. Mörkin liggja þarna skammt vestar um gamlan hlaðinn garð. M er klappað á stein í fjörunni þar sem garðurinn endar. Letursteini þessum, líkt og 80 öðrum letursteinum á Reykjanesskaganum, hefur lítill sómi verið sýndur þrátt fyrir væntanlega merkilega sögu – hver svo sem hún er.

Heimild:
-Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823, fyrri hluti, Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. SÁM 1983, bls. 235.

Garður

Garður.

 

Garður

Farin var kynnisferð um Sveitarfélagið Garð undir leiðsögn Ásgeirs Hjálmarssonar.

Prestsvarða

Prestsvarðan.

Í Garðinum var m.a. fylgst með Prestsvörðunni ofan við Leiru, sagði frá mannlífinu þar, Gufuskálar kynntir til sögunnar sem og Ellustekkur, komið við í Kisturgerði, bent á hinar 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, kíkt inn í keramikfabrikuna, fornmannleiðið barið augum og letursteinninn þar, staldrað við Skagagarðinn og minjasafnið á Garðskaga skoðað.
Í Sandgerði var m.a. saga Skagagarðsins rakin, atburðirnir að Kirkjubóli, bæði er varðaði Jón Gerekkson og Kristján skrifara í framhaldi af aftöku Jóns Arnasonar, biskups, kumlin á Hafurbjarnarstöðum kynnt, Vikivakakvöld á Flankastöðum.

Sandgerði

Sáðgerði (Efra-Sandgerði).

Efra-Sandgerði er elsta uppistandandi hús í bænum – 1883.  Komið var við í Fræðasetrinu, einstök hús einblínd, fjallað um uppbyggingu miðbæjarins, Sandgerðisvita 1908 og viðbót ofan á hann 1944, komið við í kertagerð og keramikgalleríum, Sandgerðishverfin sjö tíunduð (Kirkjubólshverfið, Flankastaðahverfið, Sandgerðishverfið, Býjaskerjahverfið, Fuglavíkurhverfið, sagt frá skipssköðum og mannfórnum til sjós, Hvalsneshverfið og Stafneshverfið), komið við í Hvalsneskirkju og saga kirkjunnar rakin, haldið að Stafnesi og saga þess sögð ásamt lýsingum á umhverfi Básenda, Gálga, Þórshafnar og Ósabotna. Þá var sagt frá Hvalsnesgötunni til Keflavíkur, villum fólks á Miðnesheiðinni og helstu mannvirkjum á henni, svo eittvað sé nefnt.

Saga Garðs

Garður

Garður.

Byggðarlag á nyrsta odda Reykjanesskagans, þó aðeins með austurströndinni sem veit inn að Faxaflóa. Garðurinn nær frá Rafnkelsstaðabergi að innanverðu og út á Skagatá þar sem vitinn stendur. Í daglegu tali er honum skipt í inn- og út-Garð en milli þeirra er Gerðahverfið. Þar er allstór þéttbýliskjarni er tók að myndast skömmu eftir síðustu aldarmót. T.d. má telja 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðaskaga, s.s. Kópu og Vararós.Garðurinn er í Sveitarfélaginu Garði. Mörkin liggja frá Garðskagatá um Skálareykjar að flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli. Eystri mörk liggja frá flugstöðvarbyggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Garðurinn dregur nafn af Skagagarði.

Garður

Strönd við Garð – kort.

Það var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.
Gegnum aldirnar hefur óefað verið mikið útræði í Garði enda stutt á fengsæl fiskimið. Þaðan munu venjulega hafa gengið 50-60 skip á vetrartíð en yfir 100 skip úr allri Útskálasókn þegar best lét. Margt aðkomumanna stundaði sjó úr Garðinum og komu þeir úr öllum landshlutum. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 manns heimilisfastir í Útskálasókn. Á vertíðinni þetta ár voru gerðir út í skókninni 9 sexæringar, 25 fjögurra manna för og 21 tveggja manna far, alls 55 skip auk þess tveir aðkomubátar.
Hafnarskilyrði voru slæm rétt eins og í dag. Það fórust 76 manns úr Garðinum á árunum 1664-1695 í sjólslysum.

Árnarétt

Árnarétt.

Á fyrri hluta þessarar aldar tóku opnir vélbátar að ryðja áraskipunum úr vegi. Fyrsti trillubáturinn kom í Garðinn 1922. Þegar þilfarsbátarnir komu til sögunnar minnkaði atvinnan í Garðinum því Garðmenn áttu ekki nógu stóra og góða bryggju fyrir slíka báta. Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélgið á Suðurnesjum með 647 íbúa en minnkaði niður í 396 á fjórum áratugum.

Með bættum samgöngum tóku Garðmenn að flytja fisk af bátum sínum, sem gerðir voru út í öðrum byggðarlögum, til verkunar heima fyrir. Á kreppuárunum eftir 1930 jukust fiskflutningar í Garðinn og var hann verkaður þar til útflutnings. Alls var þurrkað á um 30 reitum þegar best lét og á árunum 1938-1939 var þurrkuð um 9 þúsund skippund af fiski í hreppum.

Garður

Garður – vindmyllustandur.

Þrátt fyrir þetta fækkaði fólki í Garðinum á þessu tímabili, en það var ekki fyrr en árið 1943 að fólksflóttinn stöðvaðist þegar Hraðfrystihús Gerðabátanna tók til starfa og eftir það kom hvert frystihúsið af öðru til starfa og á árunum 1950-1960 voru yfir 20 fiskverkunarstöðvar.
Rafvæðing hófs í Garðinum 1933 og var orka fyrst frá ljósavélum. Vindstöðvar urðu mjög algengar um tíma en rafmagn frá Sogsvirkjunum var leitt um Garðinn 1946. Holræsi var leitt um byggðina á árunum 1950-1960.

Garður

Gerðaskóli – minnismerki.

Gerðaskóli er einn elsti skóli á landinu en hann var stofnaður 1872 af séra Sigurði Sívertsen.
Stúkan framför var stofnuð1889 og reistu félagar hennar samkomuhúsið í Garði. Kvenfélag var stofnað í Garðinum 1917. Ungmennafélagið Garðar var stofnað 1932 en það hefur ekki verið starfandi um langa hríð. Íþróttafélagið Víðir var stofnað 1936. Verkalýðsfélagið í Garðinum var stofnað 1937. Tónlistafélag Gerðahrepps var stofnað 1979.

Garðskagaviti

Garðskagaviti

Garðskagaviti.

Ysti hluti skagans sem gengur til norðurs af vestanverðu Reykjanesi. Viti var fyrst reistur á Garðskagatá 1897 en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884. Nýr viti var byggður 1944. Gamli vitinn var notaður sem flugathugunarstöð á vegum Náttúrufræðarstofnunar Íslands á árunum 1962-1978.

Sunnudaginn 17. ágúst sl. var haldið upp á 100 ára afmæli Garðskagavita. Siglingastofnun og Gerðahreppur stóðu sameiginlega að því að bjóða almenningi að koma og skoða vitana og Byggðasafn Gerðahrepps.

Garðskagaviti

Garðskagaviti nýrri.

Gefinn var út bæklingur af þessu tilefni um vitana og í honum er einnig umfjöllun um byggðasafnið. Talið er að um 600-700 manns hafi komið þennan dag út á Garðskaga í ágætu veðri. Slysavarnarfélagskonur buðu gestum upp á kaffi og meðlæti í vitavarðarhúsinu. Aðsókn var fram úr björtustu vonum aðstandenda.

Starfsmenn Siglingastofnunar eru nýlega búnir að gera upp eldri vitann. Einnig er búið að helluleggja göngustíga á svæðinu. Svæðið er því allt til fyrirmyndar og Garðskagavita sómi sýndur á aldarafmælinu.

Útskálakirkja

Útskálakirkja

Útskálakirkja.

Kirkjan að Útskálum var reist árið 1861 að frumkvæði sóknarprestsins síra Sigurðar B. Sívertsen (1808-1887). Árið 1907 heyrðu Hvalsnes-, Njarðvíkur- og Kirkjuvogssóknir til Útskálaprestakalls og hélst sú skipan fram til ársins 1952.
Útskálakirkja er byggð úr timbri og járnvarin. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.

Aðrir staðir áhugaverðir staðir:
-Kistugerði
-Draughóll
-Fornmannaleiði
-Gufuskálar
-Vatnagarður
-Leiran
-Prestsvarða
-Skagagarðurinn

http://www.gerdahreppur.is

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.