Í Andvara 1884 er frásögn Þorvaldar Thoroddsens af ferð hans á Heiðina há ásamt séra Ólafi, presti á Vogsósum, undir fyrirsögninni „Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883„:
Heiðin há – gígurinn (loftmynd).
„Upp af Selvogsheiði er fjarskamikil hraunhunga, sem kölluð er »Heiðin há«. þangað fórum við með sjera Ólafi frá Vogsósum. Heiðin há er 2030 fet á hæð, goysimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lik í lögun og Skjaldbreiður; hún er hlaðin upp úr óteljandi, gömlum hraunlögum suður af Bláfellshlíðum ; hallast hún jafnt og pjett niður að Selvogsheiði (3°), og eru margar og langar gjár í lægðinni, þar sem þær mætast. Efst er Hrossagjá; hún er styzt, og er utan í heiðarhlíðinni sjálfri; þar næst Strandagjá, mjög löng, nær frá Svörtubjörgum upp undir Geitafell; svo er Rjettargjá ; hún byrjar í slakkanum milli heiðanna, og nær upp í Geitafell; og syðst er Götugjá (eða Nesgjá); hún nær frá sjó yfir hlíðina á Selvogsheiði upp í Lambafellshraun fyrir noðan og austan Geitafell; neðri (syðri) brúnin, sem er utan í Heiðinni há, er lægri, svo landið hefir auðsjáanlega sigið í slakkanum milli heiðanna.
Heiðin há – gjár.
Þegar við fórum upp á »Heiðina há«, fórum við upp Grindaskarðaveg upp að Hvalhnúk, og riðum svo þar upp á sjálfa heiðarbunguna. Efst á heiðinni markar fyrir gígnum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr, sem mynduðu heiðina. Gígurinn er nú fullur af hrauni, en hefir verið afarstór, sem sjá má af leifum þeim, sem eptir standa af gígröndinni; það eru dálitlir hraunhnúkar, sem standa í kring; gígurinn hofir verið allt að 100 faðmar að þvermáli; sunnanverðu við þenna gíg er að auki 2 eða 3 bollar miklu minni, hálffullir af hrauni. Sjálf er heiðin mjög stór um sig; eintóm gömul hraun, með holum og gjótum og hallast lítið, 2°, til vosturs, og 3° til austurs.
Heiðin há – jarðfræðikort Ísor.
Heiðasljetturnar milli »Heiðarinnar há» og Brennisteinsfjalla eru einn storkinn hraunsjór; hafa þessi hraun flest fallið ofan úr austurhallanum á Brennisteinsfjöllunum, því þar eru stórir gígir svo tugum skiptir allt norður fyrir Grindaskörð: Úr þessum hraunum hafa straumarnir komið, er fjellu niður hjá Stakkavík og Herdísarvík. Gömlu hraunin í Selvogi, sem víðast eru nú mjög sandorpin, eru flest komin úr Selvogsheiði, og saman við þau hafa að ofan runnið hraun úr Heiðinni há. Austan við Heiðina há, milli hennar og Meitla og Geitafells að austan, tekur við vestri armurinn af Lambafellshrauni. Við fengum bezta veður, og útsjónin var ágætlega fögur; landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum vorum, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa.
Heiðin há – jarðfræðikort.
Sunnanlandsundirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum; Vestmannaeyjar lyptust upp af hyllingunni, og Snæfellsjökull norðan við flóann blasti við eins fagur og hann er vanur; langt upp á landi rís Skjaldbreiður við himin, og jöklarnir með hvítleitum bjarma. Norðan við Heiðina há eru Bláfjöll, eða rjettara sagt; norðurbrún hennar styðst upp að Bláfjöllum. Það er mikill og langur fjallgarður og hár (um 2200 fet); frá þeim gengur hálsarani suður lægðina milli Heiðarinnar há og Brennisteinsfjalla, sem heitir Ásar; Hvalhnúkur er einn af þeim ásum.“
Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Grindarskarðsveginn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943. Frásögn hans tekur við þar sem lýsing Þorvaldar sleppti:
Í Heiðinni há – Bláfjöll fjær.
„Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð.
Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur. Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið.
Efst í Heiðinni há.
Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum.
Fjallið eina.
Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 62 6 m hár. Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t.d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt.
Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll. Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell.“
Sjá einnig HÉR.
Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 23-24.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Ólafur Þorvaldsson, bls. 102-103.
Kerlingarhnúkur – Geitafell fjær.