Tag Archive for: Gíghæð

Dátahellir

Dátahellir norðan í Gíghæð vestarlega í Arnarseturshrauni ofan Grindavíkur heitir eftir hermönnum sem fundu beinagrind af manni í hellinum 15. júlí 1967. Lögreglan í Hafnarfirði fór með beinin í Fossvogskapellu þar sem þau voru brennd. Lögreglan taldi manninn hafa orðið úti fyrir nokkur hundruð árum síðan. Nokkrum dögum síðar fundu hermennirnir beltisól, sylgju og hnífsblað skammt frá þeim stað sem beinin höfðu legið. Enn síðar fundu þeir svo fataleifar á steini í hellinum sem er um 40 metra langur.

Dátahellir

Sveinn Björnsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði bendir á, að beinagrindin hlýtur að hafa verið af mjög stórum manni. Bandarísku sjóliðarnir eru frá v.: Jeffrey Haughton, Paul Gougeon og Lawrence Hampton. (Mynd: George Cates).

Í Morgunblaðið 19. júlí 1967 er sagt frá beinafundinum undir fyrirsögninni „Lá á bakinu með aðra höndina undir hnakkanum“ —Viðtal við einn Bandaríkjamannanna sem fann beinagrindina í hellinum við Grindavík.

„Beinafundurinn í hellinum skammt frá Grindavík hefur að vonum vakið mikla athygli, og í ráði er, að fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafninu fari þangað innan skamms til þess að kanna hvort þar er einhverjar frekari leifar að finna. Hnífur og belti fundust einnig í hellinum og telur Gísli Gestsson, safnvörður, að þessir hlutir geti verið 4—500 ára gamlir.

Þeir lágu ekki við hlið beinagrindarinnar og því ekki víst að þeir hafi tilheyrt þeim sem þarna lét líf sitt.

Dátahellir

Sveinn Björnsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði skoðar hauskúpuna. Í horninu á myndinni má sjá beltissylgjuna og hnífinn, sem sjóliðarnir fundu. (Mynd George Cates).

Það voru þrír bandarískir sjóliðar sem fundu leifarnar, og Morgunblaðið hafði tal af einum þeirra, Paul Gougeon, í gær: „Við vinnum við radarstöðina hér í Grindavík og okkar besta tómstundaiðja er, að ganga út í hraunið og skoða hella sem við rekumst á. Við höfum farið margar ferðir og skoðað fjöldann allan af hellum og smágjótum. Það er ekki mikið að finna í þessum hellum og þetta er í fyrsta skipti sem við rekumst á eitthvað þessu líkt, en við höfum gaman að því engu að síður“.

„Hvað er hellirinn langt frá stöð ykkar í Grindavík?“

„Hann er eitthvað um sex mílur í burtu, í áttina til Keflavíkur.“

„Hvað er hellirinn stór?“

Dátahellir

Dátahellir.

„Það er erfitt að segja um það nákvæmlega. Við urðum að beygja okkur til að komast inn í hann, ég held að hann sé um fimm metra djúpur. Beinagrindin lá innst í hellinum. Okkur virtist þetta hafa verið mjög stór maður. Hann hafði legið á bakinu, með aðra hendina undir hnakkanum, eins og hann ætti sér einskis ills von. Ég get ekki ímyndað mér hvernig hann hefur fengið þetta gat á höfuðkúpuna, það lá að vísu stór steinn við aðra öxl hans, en okkur var sagt, að hann hefði fallið eftir að maðurinn var dáinn, og beinagrindin ein var eftir.“

„Funduð þið beltið og hnífinn hjá líkinu?“

Dátahellir

Í Dátahelli.

„Nei, hlutirnir voru framar í hellinum, nokkuð frá beinunum. Við erum ekki vissir um, að þetta hafi verið belti en teljum það mjög líklegt. Það var bara sylgja eftir og svo einhverjar druslur, sem við töldum vera belti. Hnífurinn var að sjálfsögðu illa farinn, en þó greinilega hægt að sjá að þetta er hnífur.“

„Sáuð þið nokkur merki um að þarna hafi verið mannabústaður, t.d. eldstæði eða eitthvað slíkt?“

Dátahellir

Dátahellir.

„Nei, við urðum þess ekki varir. Satt að segja leituðum við ekki mjög vandlega eftir að við fundum beinin og hnífinn. Íslenska lögreglan var strax látin vita, og þeir tóku málið í sínar hendur. Við höfum áhuga fyrir að fara þangað aftur og leita betur, en mér skilst að íslenskir fornleifafræðingar hafi hug á að kanna staðinn svo að þá er best fyrir okkur að vera ekki að róta við neinu, við gætum hæglega eyðilagt eitthvað, sem sérfræðingsaugað kynni að meta þótt við.“

Þjófagjá

Þjófagjá.

Af hverjum var beinagrindin? Hvernig voru höfuðáverkarnir til komnir og af hvers völdum? Gæti maðurinn hafa tengst ræningjunum í nálægri Þjófagjánni í Þorbjarnarfelli eða varð hann saklaus fyrir barðinu á þeim? Leitaði hann skjóls í hellinum á flótta eftir að hafa verið veittur áverki? Og þá undan hverju eða hverjum? Var maðurinn kannski fyrrum smali í Hópsseli utan í Selshálsi er gæti hafa orðið fyrir óhappi eða tengdist hann mögulega seljum Járngerðarstaðabænda á Baðsvöllum? Gat beltissilgjan gefið einhverja vísbendingu um manninn?
Hellirinn er í hrauni miðja vegu milli tveggja þjóðleiða fyrrum; Skógfellavegar og Skipsstígs. Langt er þeirra á millum. Vagnvegurinn frá Stapanum um úfið hraunið til Grindavíkur var lagður á þessum slóðum árið 1916. Í nágrenninu eru nokkrir hellar og skútar.
Öllum spurningum um dauða mannsins í Dátahelli er enn ósvarað. Hver var t.d. niðurstaða rannsóknar lögreglunnar í Hafnarfirði á dánarorsökinni og var einhver eða einhverjir grunaðir í málinu? Hver var niðurstaða nefnds fornleifafræðings varðandi aldur, aldurtila og dauðdag viðkomandi? Framangreindar niðurstöður hafa aldrei verið gerðar opinberar.

Dátahellir

Dátahellir – skýrsla.

FERLIR leitaði til Þjóðskjalasafnsins og óskaði eftir afriti af lögregluskýrslum um beinafundinn í Dátahelli. Starfsfólkið staðfesti að lögregluskýrslur frá þessum tíma væru í fórum safnsins, en þrátt fyrir ítrekaða nokkurrra mánaða leit hefðu skýrslur um þetta tiltekna mál ekki komið í leitirnar. Nokkrum mánuðum síðar kom eftirfarandi svar:

„Sæll,
Í viðhengi er afrit úr dagbók lögreglunnar í Hafnarfirði þar sem kemur fram að Lögreglan á Keflavíkurflugvelli tilkynni þeim um líkfund í hrauninu við Grindavík þann 15.7. og sama dag fóru tveir menn til Grindavíkur vegna málsins. Þeir sóttu beinin og fóru með þau í Fossvogskapellu. Daginn eftir tilkynnir varðsjórinn á Keflavíkurflugvelli að hermennn á vellinum hafi fundið belti, sylgju og hníf í sama helli og beinin fundust í. Varðstjórinn ætlar að koma mununum á varðstöðina um kvöldið, sem er svo gert, samkvæmt dagbókinni.

Dátahellir

Dátahellir – skýrsla 2.

Við erum búin að leita að lögregluskýrslu um málið bæði í skjalasafni frá lögreglunni í Hafnarfirði og Keflavík/Keflavíkurflugvelli. Einnig athuguðum við hvort að Ríkissaksóknari hafi fengið gögn um málið en svo sáum við ekki. Þá var leitað í mannskaðaskýrslum sem höfðu verið sendar Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Hagstofunni en án árangurs. Ekki fannst heldur dánarvottorð í gögnum frá Hagstofu.

Því miður verð ég að tilkynna þér að við finnum engar frekari gögn um málið en það sem er í viðhengi.“
kv. Helga Hlín

Svar:
Sæl Helga Hlín; „Þakka þér kærlega. Dáist af dugnaði þínum og eftirfylgni“.

Heimild:
-Morgunblaðið miðvd. 19. júlí 1967, bls. 28 og 20.

Dátahellir

Dátahellir – loftmynd.

Gálgaklettar

Gengið var um hraunin ofan Grindavíkur, þ.e. Illahraun, Arnarseturshraun, Skógfellshraun og Dalahraun. Síðastnefnda hraunið er um 3000 ára gamalt, en Arnarseturshraun er yngst, mun hafa runnið á sögulegum tíma, eða árið 1226.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Gangan hófst við vestanvert Þorbjarnarfell, við svonefndan Gyltustíg. Stígurinn er náttúruleg læna upp fellið vestast í því sunnanverðu. Annars er Þorbjarnarfell í daglegu tali nefnt Þorbjörn. Það er stakt móbergsfell (243 m.y.s). Af því er gott útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Sá misskilningur hefur komist á spjöld að á Þorbjarnarfelli hafi farist í flugslysi í síðari heimstyrjöldinni C. Andrews, yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafssvæðinu, ásamt fleiri háttsettum foringjum.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Brak úr vélinni er í Kastinu utan í Fagradalsfjalli. Aðeins einn maður komst lífs af úr þessu flugslysi og beið hann björgunar á annan sólarhring. Á fellinu hafði herinn hins vegar aðstöðu á styrjaldarárunum og má þar sjá leifar hennar, s.s. grunna, hleðslur, ofn og slóða.

Fyrrnefnd þjóðsaga segir að „skammt ofan við byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, oftast nefnt Þorbjörn.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Í toppi þess er hamragjá sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar sem lögðust á fé Grindvíkinga.
Eigi sáu byggðamenn færi á að vinna þá fyrr en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri sem er á Baðsvöllum, norðan undir fjallinu.

Einn gætti klæða þeirra meðan þeir voru í baðinu og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan sem fætur toguðu til bæja og sagði hvernig komið væri.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Það fór eins og hann ætlaðist til: þjófunum varð tafsamt að komast í fötin og ekki fóru þeir í önnur föt en nærklæðin og eltu hann síðan en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.

Nú þustu byggðamenn að þeim og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonur varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.“ Um vettvang sögunnar, þ.e. Baðsvelli og minjarnar á þeim, laugina og Gálgakletta, er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Gengið var vestur með suðurkanti Skipsstígshrauns yfir á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Þarna vestan við Lágafellið hefur stígurinn verið lagaður á um 300 metra kafla. Þetta hefur sennilega verið á fyrstu árum 20. aldar er gera átti stíginn vagnfæran. Svo er að sjá að hætt hafi verið við framkvæmdina, en framkvæmdir við gerð gamla Grindavíkurvegarins frá Stapanum, að Seltjörn, um Skógfellshraun og Arnarseturshraun, um Selháls og niður í Grindavík hófust árið 1913.
Við Skipsstíginn er Dýrfinnuhellir, hraunskúti með hleðslum fyrir. Sagan segir að þangað hafi samnefnd kona úr Grindavík flúið með börn sín eftir komu Tyrkjanna og dvalið þar um sinn.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Skipsstíg var fylgt spölkorn til norðurs, en síðan beygt af honum til austurs. Gengið var yfir Illahraun að Sýlingafelli (Svartsengisfelli). Hraunið er að vísu illt yfirferðar næst Þorbirni, en þegar komið er inn í það er auðvelt að komast í gegn. Vestan Grindavíkurvegarins var komið að hlöðnu hringlaga gerði, ein af mörgum minjum eftir vegagerðina forðum.

Tvö hlaðin hús eru í lægð handan vegarins. Inni í krika Svartsengis liggur stígur vegagerðarmanna inn á Arnarseturshraunið og áleiðis upp á Gíghæð, þar sem fyrir eru meginbúðir þeirra er enn sjást.  Svartsengi er talið hafa verið nefnt eftir hrútnum Svarti, sem þar mun hafa unað sér vel.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Þegar komið var að Arnarsetri var genginn stígur austur yfir hraunið, að Stóra-Skógfelli. Þar var beygt til suðurs og Skógfellastígnum fylgt í gegnum Dalahraun að Eldborgunum og Sundhnúkunum. Stígurinn, sem er gömul þjóðleið milli Voga og Grindavíkur, er vel klappaður í bergið þar sem hann liggur á milli Skógfellanna. Sundhnúkarnir eru falleg gígaröð utan í Vatnsheiði, en þaðan mun meginhraunið, sem Grindavík stendur á, vera komið, um 2400 ára gamalt. Eldborgirnar eru enn ósnertar og sýna vel hvernig gos á sprungureinum hefur myndast, en þau eru allnokkur á Reykjanesskaganum.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Gengið var upp með Hagafelli og að Gálgaklettum þeim, sem þjófarnir forðum eiga að hafa endað lífdaga sína. Haldið var niður eftir Selhálsi þar sem Hópsselið er undir hlíðinni og síðan gamla Grindavíkurveginum fylgt suður með austanverðu Þorbjarnarfelli um Klifhólahraun að upphafsstað. Suður hraunið liggur greinilega gömul gata áleiðis að Járngerðarstöðum, en bæirnir þar höfðu m.a. í seli á Baðsvöllum áður en selstaðan var færð upp á Selsvelli, auk þess sem aðrar nytjar hafa eflaust verið hafðar af völlunum fyrrum.

Heimild um Þorbjarnarfell:
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_thorbjarnarfell.htm
mÞjóðsagan er af:
-http://www.hs.is/fyrirtaekid/addragandi.asp

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.

Dollan

Þegar FERLIR hitti Ellert Skúlason, verktaka, vakti hann athygli á eftirfarandi lýsingu af „Tanahelli“ eða Dollunni svonefndu:
Dollan„Allt fram til ársins 1970 var hellirinn hulinn mönnum en það ár var unnið að endurbótum á Grindavíkurveginum og hafði Ellert Skúlason verktaki úr Njarðvík það verk með höndum. Dag einn þegar þungavinnuvélamaðurinn Jónatan Einarsson var að ryðja stóru og miklu efnishlassi frá vegalögninni, varð hann var við að hlassið, sem hann hafði rutt á undan sér, hvarf skyndilega ofan í jörðina. Vönum vélamanninum var nokkuð brugðið við þetta og stökk út úr jarðýtunni til að kanna aðstæður. Blasti þá við honum stærðarinnar gat í hrauninu en hlassið hvergi sjáanlegt. Við nánari skoðun tók hann jafnframt eftir því að jarðýtan, sem var stór og sýr vél á þeirra tíma mælikvarða, stóð að því er virtist á þynnri skán á þaki hellsis sem þar var undir. Til að bjarga ýtunni hentist Jónatan því uppí hana og bakkaði á fullri ferð góðan spöl til baka. Hafði Jónatan á orði þegar hann sagði frá þessu atviki að hefði hann haft meiri tíma til að hugsa sig um og skoða aðstæður, hefði hann sennilega ekki tekið þessa áhættu.
Fálagi hans við verkið, Gunnar Mattason, bar skjótt að og furðaði hann sig með Jónatan á þessum nýuppgötvaðasta helli veraldarinnar. Bundu þeir spotta í jeppa Gunnars og seig hann niður í myrkrið. Þar var þó enga viðspyrnu að finna heldur hékk hann í lausu lofti. Var því nokkuð bras að koma honum upp aftur þó það tækist að lokum með því að setja lykkjur á spottann. Enda kom síðar á daginn þegar Jónatan fór í könnunarleiðangur um hellinn ásamt félögum sínum í Björgunarsveitinni Stakk frá Keflavík, að hann var bæði djúpur og stór. Sigu þeir niður í hellinn og skoðuðu hann að dýpt og lengd. Í þeirri ferð skriðu þeir eins innarlega og þeir komust og settu þar inn flöskuskeyti sem þeir voru búnir að útbúa með nafni Tana en það var gælunafnt Jónatans, eftir það var hellirinn ávallt kallaður „Tanahellir“.
SteinninnSíðar voru gerðar tilraunir til þess að fylla hellinn og brjóta af hellisþakinu þar sem það var þynnst til þess að koma í veg fyrir að fólk slasaðist af hans völdum. En hann var svo stór að efnið sem sett var í hann hafði lítið að segja.
Fleiri minjar urðu til um vinnu þeirra við Grindavíkurveginn. Eftir sprengingu við vegarlögnina var einn stór og mikill steinn sem skar sig úr er stærðar varða. Dunduðu þeir félagar sér við það í tvö kvöld við þriðja mann, Sigurð að nafni, að reisa steininn upp með jarðýtum og stóð til að setja á hann skjöld þar sem tilurð hans væri lýst. Af því varð ekki, en steinninn er vel sjáanlegur frá veginum norðanmegin á móti tanknum við Þorbjörn.
Sólveig Þórðardóttir, eiginkona Jónatans, skrifaði þess lýsingu eftir sögu hans.“
Tanahellir er á Gíghæðinni og er sami hellir og nefndur hefur verið „Dollan“. Hellirinn er fast við hlið áningarstaðar (plans), sem lagður hefur verið bundnu slitlagi vestan vegarins. Beggja vegna hans má slá leifar gamla malarvegarins til Grindavíkur sem lýst er hér að framan. Hægt er að komast niður í rásina um tréstiga, sem komið hefur verið þar fyrir.
Tanahellir

Dollan

Farið var í Dolluna, sem er rétt við gamla Grindavíkurveginn, við bílastæðið á Gíghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um tvær mannhæðir og hallar síðan undir á alla vegu. Þarna hefur Grindavíkurbær komið fyrir góðum stiga fyrir ferðafólk enda var ástæða til að gera hellinn aðgengilegan svona ofurnálægt vegi. Fyrst þurfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hafði neðan við opið.

Dollan

Dollan.

Þegar haldið er inn í hellinn til vesturs opnast undrið. Hellirinn er kannski ekki með víðustu, hæstu eða lengstu hellum landsins, en í heild uppfyllir hann hins vegar öll skilyrði til að geta flokkast góður hellir.
Dollan er í heildina um 130 metra hraunhellir – rás, er myndaðist er hraunskelin hrundi undan vegavinnutækinu. Hellirinn er í raun dæmigerður fyrir fjöldann af slíkum hraunhellum á Reykjanesskaganum. Stærstir eru þeir í Klofningum, neðan Grindarskarða, ofan Stakkavíkurfjalls, í Bláfjöllum og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir fleiri hellar eru við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn, Hestshellir og Arnarseturshellir. Dátahellir er skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.

Dollan

Í Dollunni.

Vesturhluti Dollunnar er um 80 metra lönd rás sem stækkar í stóra og myndarlega hvelfingu eftir að innar er komið. Rásin er lægst og síðan þrengst fremst, en hækkar og víkkar snarlega. Þá lækkar loftið á ný, en hækkar síðan er opnast inn í allstóra hvelfingu. Botninn er hrjúfur, en í neðri hutanum sést vel hvernig síðusta deig hraunárinnar hefur staðnæmst og storknað. Í lofti má sjá sepa er myndast í hitanum, gljáa á veggjum og lítil hraunstrá, ef vel er að gáð.
Hellirinn er opinn öllu áhugasömu fólki með góð ljós. Næg bílastæði eru til staðar. Nú standa yfir úrbætur á bílastæðinu og mun það verða orðið „formlegt“ og afsaltlagt innan skamms tíma. Leiðin að hellinum er greið og hentar öllum aldurshópum.

Gíghæð

Vegavinnubyrgi á Gíghæð.

Á Gíghæð, gegnt Dollunni (handan vegarins), má sjá nokkur hús vegavinnumanna frá því að Grindavíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 – 1918. Vegavinnubúðirnar hafa verið með ca. 500 m millibili frá Stapanum til Grindavíkur, einkum í gegnum hraunin. Hestshellir, sem er þar í leiðinni, hefur verið nýttur. Þá má enn sjá nokkur heilleg hús og húsaþyrpingar. Arnarseturshraunið rann árið 1226 (-1240). Mörg hraun, stór og smá, eru ofan og utan við byggðina í Grindavík. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi ca. 2400 ára. (Kunnugir eru fljótir að koma auga á aldur hrauna ef þurfa þykir).

Vegavinnubúðirnar á Gíghæð eru sennilega frá því um 1916, en byrjað var á Grindavíkurveginum 1913 og þá á Stapa. Sjá má ummerki eftir vegavinnumennina á u.þ.b. 500 metra millibili frá gatnamótunum. Líklegt má telja að þeir hafi reist nýjar búðir að jafnaði ár hvert. Njarðvíkursel við Seltjörn (Selvatn) hefur að öllum líkindum verið nýtt, sjá má götu og búðir skammt sunnar, skammt vestan við Hestshelli má sjá hús sem og á Gíghæð.

Grindavíkurvegur

Hús við Grindavíkurveginn.

Sunnan hæðarinnar er stígur og hús nálægt honum. Síðustu búðirnar 1918 voru við Hesthúsbrekkuna skammt fyrir ofan Grindavík. Um er að ræða skemmtileg og heilleg mannvirki um ákveðið verklag og mikilvægan þátt í samgöngusögunni, sem ástæða er til að varðveita. Fjarlægja þarf girðingu, sem hindrar aðgang að svæðinu, en jafnframt að ganga þannif grá því að gestir feti tiltekna slóð að svæðinu til að minnka líkur á skemmdum. Til marks um nauðsyn þessa má benda á að þegar FERLIR kom fyrst að búðunum fyrir u.þ.b. sex árum var mosinn í „þorpsgötunni“ algerlega ósnortinn. Nú er hann vel troðinn. Fólk hefur almennt gengið vel um svæðið, en þó hefur mátt sjá þar umbúðir utan af ýmsu góðgæti er gestir hafa fleygt frá sér – um leið og þeir hafa notið innihaldsins. Hver er jú sjálfum sér næstur í þessum efnum, eins og konan á virkjanasvæðinu sagði fyrir stuttu. Reynt hefur verið að fjarlægja það jafnóðum, en best væri að fólk, sem skoðar svæðið, láti ógert að fleygja þarna rusli frá sér (jafnvel þótt enginn sjái til), enda sýnir það með því þessum merkilegu minjum áanna ákveðna óvirðingu. Og það viljum við ekki – eða er það?
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson (1990).

Dollan

Í Dollunni.

Skógfellavegur

Gengið var um Arnarsetur til austurs, yfir hraunið að Stóra-Skógfelli. Ætlunin var að skoða hvort enn mætti sjá leifar flugvélar, sem þar eru sagðar vera. Flugmaður, sem flogið hefur yfir svæðið nokkrum sinnum, kvaðst stundum sjá sólarljósið endurspeglast þar af glerbrotum á stóru svæði, auk þess sem hann hefði orðið var við brak í suðaustanverðu fellinu. Ekki leggja þó fyrir heimildir um flugslys á þessum stað.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Eftir að hafa skoðað megingíginn í Arnarsetri var haldið eftir stíg í gegnum hraunið. Mikil efnistaka hefur átt sér stað í Arnarsetri, en allt um kring má enn sjá merkar náttúruminjar í Arnarseturshrauni. Stór og mikil hrauntröð er norðan við gíginn og önnur vestan við hann. Í og við þá tröð eru nokkrir hellar. Fallegur hellir er einnig norðan við nyrðri hrauntröðina. Landssvæðið er að hluta til í óskiptu landi Þórkötlustaðabæjanna sex; Þórkötlustaða (Austurbæjar, Miðbæjar og Vesturbæjar), Klappar, Einlands og Buðlungu. Austurmörkin liggja frá mörkum Hrauns í Markarbás, um Húsafjall, Skógfellin og í Arnar

klett sunnan Snorrastaðatjarna, þaðan í Seltjörn og úr henni í beina línu í Markastein í fjöruborðinu u.þ.b. 60 metrum vestan við Hópsnesvita. Talsvert hefur verið ekið af jarðvegi í gryfjurnar, auk þess enn er verið að taka þar efni – í algeru leyfisleysi að því er virðist. Svo er að sjá að eftirlitsaðilar í Grindavík hafi ekki fylgt nægilega vel eftir takmörkunum á efnistökum í gamalli námu sem þessari eða umgengni um svæðið, sem er jú í umdæmi bæjarins.

Skógfell

Stóra-Skógfell – Sandhóll nær.

Hitt er svo annað mál, að sorglegt er til þess að vita, hvernig farið hefur verið með annars verðmætt umhverfið þegar til lengri tíma er litið.
Arnarseturshraun (apal) er á leiðinni til Grindavíkur. Það er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. ISOR telur Arnarseturshraun vera frá Reykjaneseldunum á 13. öld, sennilega frá árinu 1226. Það er því með yngstu hraunum á Reykjanesskaganum.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Frá því að land byggðist er talið að um 12 hraun hafi runnið á Reykjanesskaga eða að meðaltali eitt hraun á öld. Hraunin runnu þó einkum á tveimur gostímabilum: um 1000 og um 1300. Síðara tímabilið gengur undir fyrrnefnda nafninu Reykjaneseldar.
Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.

Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar, líkt og Arnarseturshraunsgígurinn. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur. Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.

Skóf

Skóf.

Í flæðigosum verða hins vegar engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella.

Arnarsetur

Arnarseturshraun.

Arnarseturshraun er í rauninni sambland af hvorutveggja þó einkenni helluhraunsins séu þar meira áberandi.
Nú, 1879, þekja hraungambri og aðrar mosategundir Arnarseturshraunið að mestu. Grámosi eða gamburmosi er þessi mosi nefndur í daglegu tali, en hefur hlotið tegundarheitið hraungambri (Racomitrium lanuginosum). Þetta er einn algengasti og mest áberandi mosinn á öllum suður- og vesturhluta Íslands svo og í strandhéruðum Austurlands. Hann er einn fyrsti landneminn í nýjum hraunum.

Mosi

Mosi.

Við úthafsloftslag á snjóléttum svæðum verður hann einráður á allmörgum áratugum, og myndar samfelldar, mjúkar mosaþembur á 100 ára gömlum hraunum og eldri. Á snjóþyngri svæðum með landrænna loftslagi nær hann ekki að kveða niður keppinauta sína, sem þá verða stundum ráðandi í gróðurfari, einkum hraunbreyskja.

Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi af svipaðri gerð og Sandfell, Stapafell og Súlur. Þegar komið var langleiðina að fellinu var komið í grónara hraun; Skógfellahraun. Skógfellahraun er miklu mun eldra og liggur undir Arnarseturshrauni. Skógfellin, bæði Stóra- og Litla-, eru gamlir eldgígar, sem veður, vindar, vatn og ís hafa náð að „aflaga“. Haldið var upp með fellinu að norðanverðu. Í raun er um að ræða tvo toppa á fellinu, en sá austari er hærri. Milli þeirra er háls. Gígurinn er gróinn. Fjárgata liggur um hálsinn. Í hliðunum erum ýmsar fléttur, kræður og glæður. Blóðberg- og lambagrasskollarnir settu svip á hlíðarnar. Á toppi toppanna eru litlar vörður. Útsýnið af austari toppnum til suðurs yfir Sundhnúkaröðina er einstök, sem og útsýni yfir gíg skammt austar og Sandhólinn, sem í raun er lítill gígur úr eldra hrauni.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Haldið var skáhallt niður með hlíðunum. Á hálsi utan í vestari toppnum sást járnbrak og gulmálað dekk með axlaböndum björgunarsveitargallans. Sólin sendi geisla sína niður á fellið og glytti fallega á blauta smásteinanan. Þarna gæti verið komin skýring á „tálsýn“ flugmannsins.
Ágætt útsýni er af Stóra-Skógfelli. Vestan við það er Gíghæðin, Þaðan sem lagt var af stað. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið þar sem enn má sjá leifar flugvélar þeirrar er Andrews yfirhershöfðingi fórst með.
Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri Sundhnúksgígaröðinni, sem er um 8 km löng, og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gígaröðin er á Náttúrminjaskrá og á að varðveitast sem slík. Utar er Sundhnúkurinn sjálfur í allri sinni reisn.
Norðan Stóra-Skógfells sést vel yfir að Litla-Skógfelli. Skógfellagatan liðast á milli þeirra, sorfin í helluhraunsklöppina eftir hófa og fætur liðinna alda.

Arnarssetur

Arnarssetur – skjól.

Þegar gengið var á ská niður hlíðina á norðanverðu fellinu hljóp lítil aurskriða af stað skammt utar. Áhrifaríkt var að sjá og heyra hvernig skriðan fór af stað, fyrst hægt, en jók síðan hraðann uns hún óx að afli eftir því sem neðar dró – uns hún dó – áður en komið var alveg niður að rótum fellsins.
Skoðaðir voru nokkrir hellisskútar utan í Arnarsetri. Einn þeirra, utan í megingígnum, er yfir 20 metra langur með fallegum hraunmyndunum. Hann hafði ekki verið skoðaður áður. Í öðrum virtist þursmynd vera við opið. Meginhrauntröðin er mikilfengleg. Utan í henni á einum stað eru einstaklega litskrúðugar hraunmyndanir. Fyrir áhugasamt fólk um jarðfræði væri sennilega hægt að dvelja þarna heilan dag án vitundar um tíma og rúm. Litirnir í berginu eru einstakir, auk þess sem finna má þarna ótal hraunmyndanir og jarðmyndanir án mikillar leitar.

Arnarsetur

Arnarsetur – skjól.

Í nyrðri hrauntröðinni eru ótal skútar og lesa á hinar ýmsustu fígurur út úr hraunmyndunum í börmum gjárinnar. Efst á sjálfu Arnarsetrinu er líkt og fuglshöfuð og skammt norðar er þar bergþurs er horfir frjáum augum til vesturs, eftir vestari hrauntröðinni. Eflaust gætu hraunfræðingar, sem gefa sér tíma til að lesa hraunið, sagt talsvert um slíkar hraunmyndanirnar með hliðsjón af myndun þeirra og tilurð. Slíkt gæti orðið hinn áhugaverðasti fyrirlestur.
Frábært veður. Þægileg rigningin lék aðalhlutverkið í fyrstu, en á það ber að líta að um skírdag var að ræða og þá nota Grindvíkingar tækifærið og skíra allt óskírt á einu bretti. Sólin leikur aðalhlutverkið á svæðinu aðra daga, enda náði hún vel í gegn þess á milli.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is/
-http://www.isor.is/

Arnarsetur

Arnarsetur og nágrenni – örnefni.

Arnarseturshraun

Gengið var um Arnarseturshraun frá megingígnum og stærstu hrauntröðinni fylgt til vesturs. Við hana eru m.a. nokkur hús vegarvinnumanna frá því að Grindarvíkurvegurinn var gerður á árunum 1914-1918.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Arnarseturshraun, sem er apalhraun að mestu, er á leiðinni til Grindavíkur. Efsta bungan á veginum nefnist Gíghæð og er Arnarsetrið, gígurinn, austan við hana. Hraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík eru ca. 2400 ára, en Arnarseturshraun er talið hafa runnið í Reykjaneseldunum árið 1226. Það er því eitt þeirra 12-15 hrauna á Reykjanesskaganum, sem runnu á sögulegum tíma.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur fyrrum – uppdráttur ÓSÁ.

Hraunið hefur komið upp á sprungurein og bráðin bergkvika runnið frá eldstöðinni eftir yfirborði jarðar og storknað. Það hefur hlaðist upp á eldra hrauni, líklega frá Skógfelli. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun flokkuð í apalhraun og helluhraun.
Apalhraun kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður.

Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Afstapahraun, sem einnig rann á sögulegum tíma, líklega á 12. öld. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum. Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. í Arnarseturshrauni, í Gígnum sunnan Þórðarfell, frá Rauðhól undir Vatnsskarði og Búrfelli ofan Hafnarfjarðar.

Helluhraun

Helluhraun.

Helluhraun eru hins vegar slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Nokkrir slíkir hellar eru í Arnarseturshrauni. Þegar hafa fundist um 15 þeirra, misstórir.

Gíghæð

Gamli Grindavíkurvegurinn um Gíghæð – uppdráttur ÓSÁ.

Á síðastliðnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa stjórnvöld bent á ferðamannaþjónustu sem vænlegustu leið okkar til nýsköpunar. Eldfjöllin draga til sín erlenda ferðamenn sem koma til þess að njóta ósnortinnar náttúru og fræðast um jarðfræðilega þróun landsins. Að „gera út á“ íslenska náttúru er meira í anda sjálfbærrar þróunar en að selja eldvörp í erlenda vegi.
Fjölbreytileiki íslenskra eldvarpa er eitt af einkennum landsins. Eldfjallaeyjan Ísland á engan sinn líka hvað varðar landslag, gosmyndanir og bergfræði. Þrátt fyrir ungan jarðfræðilegan aldur og tíða eldvirkni eru margar jarðmyndanir hérlendis mjög fágætar, einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Og þótt Íslendingar telji sig vera ríka af þeim eldvörpum sem skópu landið í aldanna rás þá ber að minnast þess að margar þessar jarðmyndanir eru afar sjaldgæfar og jafnvel einstakar, svo sem hinar mörgu eldborgir á Reykjanesskaganum. Samkæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á Reykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200–300 ár. Síðasta goshrinan gekk yfir á árunum 950–1240 en síðast runnu hraun á Reykjanesskaga árið 1226, þar má nefna Arnarseturshraun, Leitahraun og Eldvarpahraun.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/

Arnarsetur

Hrauntjörn í Arnarsetri.