Færslur

Grásteinn
Gengið var áleiðis að Grásteini á Álftanesi. Tilraun var gerð til að kljúfa steininn og fjarlægja úr vegstæði, en tæki biluðu og menn meiddust við það verk. Steinninn er því enn á sínum stað. Sumir segjast hafa séð álfa við steininn. Segir sagan að ef farið er rólega framhjá honum farnist mönnum vel, en ef farið er með gassagangi geti eitthvað óvænt gerst.
Sagt er að til séu þrenns konar álfar, þeir sem búa undir jörðinni, þeir sem búa í sjónum og svo þeir sem búa í klettum og hólum.

Grásteinn

Grásteinn á Álftanesi.

Til eru margar álfasögur þar sem álfarnir eru ýmist góðir eða vondir. Góðir álfar gerðu mönnum gott sérstaklega ef menn hjálpuðu þeim með eitthvað og eru til margar sögur um það að menn hafi átt góða ævi eftir að hafa aðstoðað álfa. Aðrar sögur segja að álfarnir séu ekki allir góðir og eigi það til að hefna sín ef illa er látið í kringum heimili þeirra.

Á okkar tímum hefur ekki frést mikið af álfum en þó hefur verið sagt frá því að vegagerðarmenn hafi lent í vandræðum með tækin sín ef þeir þurfa að leggja vegi við heimili álfa.

Kópavogur

Álfhóll í Kópavogi.

Sem dæmi má nefna Álfhól í Kópavogi þar sem reynt var nokkrum sinnum að leggja veg en því var á endanum hætt því það bilaði alltaf eitthvað hjá vinnumönnunum og talið var að álfarnir væru að vernda heimili sín með þessum verkum.
Sögn greinir svo frá, að í upphafi hafi Guð skapað konu af moldu fyrir Adam. En þessi kona var svo ókyrr hjá honum og stygg að hvorki Adam né Guð gátu neinu tauti við hana komið. Fór svo að lokum, að Guð skapaði henni mann eftir hennar eðli og nefndi hann Álf, en hana Alvör og eru af þeim komin öll tröll og álfar.

Álfakirkja

Álfakirkjan.

Svo virðist sem íslensk þjóðtrú geri ekki greinarmun á álfum annars vegar og huldufólki hins vegar, enda þótt þessar tvær nafngiftir hafi verið viðhafðar um huldar verur í hólum og klettum frá öndverðu. Þannig er huldufólkið að mörgu leyti líkara mannfólkinu, og jarðneskt í útliti og klæðaburði. Sagt er að huldufólkið sé ekki meiri álfar en mennirnir. Álfar berast meira á með litklæðum sínum og íburðarmiklum híbýlum sem oft minna meira á sagnaveröld ævintýra en þjóðtrúarsagna.

Grásteinn

Grásteinn.

Álfar geta ýmist verið góðar eða illa innrættar verur. Huldufólk virðist hins vegar hvorki illt né gott að upplagi, heldur sýnir það sínar betri og verri hliðar eftir tilefnum.

Erla Stefánsdóttir, álfafræðingur, sagði einhverju sinni að þessar verur virðast vera á þróunarleið til hliðar við mannþróunina. “Sjálfsagt stefna þær allar að auknum þroska eins og við. Huldufólkið er líkt mannfólkinu að því leyti að það virðist vera miklar félagsverur – ég sé það aldrei eitt sér heldur lifir það alltaf saman í bæjum. Álfar búa hins vegar margir einir sér og eins eru tívarnir, sem eru mjög háþróaðar verur, venjulega útaf fyrir sig.

Hafnarfjörður

Álfaklettur við Merkurgötu.

Ef til vill er auðveldast fyrir menn að komast í snertingu við huldufólkið af öllum þessum verum þar sem því virðist svipa til okkar að mörgu leyti, eins og ég sagði áðan. Huldufólkið virðist þurfa að hafa töluvert fyrir lífi sínu, það stritar eins og við og allmikill munur virðist vera á efnum þess sem ráða má af klæðnaði og híbýlum.
Athyglisvert er að krossinn á öllum álfakirkjum er sérstakrar gerðar og öðruvísi en krossinn sem við notum þar sem þverslárnar eru tvær og vísa í hinar fjórar höfuðáttir.”

Heimildir m.a.:
-Ólína Þorvarðardóttir – Álfar og tröll, Bóka- og blaðaútgáfan sf., Rvík 1995
-http://www.ismennt.is/vefir/ari/alfar/
-http://www.simnet.is/isrit/greinar/alfar.htm

Grásteinn

Grásteinn í Urriðakotshrauni.

Grásteinn

“Grásteinn nefnist klofinn steinn við Vesturlandsveg austan Grafargils og hafa álfar verið sagðir búa í honum.
Grásteinn 1989Vegna vegaframkvæmda á árunum 1970-1971 var hann fluttur þangað sem hann stendur nú, en óhöpp voru sett í samband við þann flutning og álfasögur kviknuðu og fengu byr undir báða vængi.
Af þessum sökum var Grásteinn tekinn með við fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands á svæðinu árið 1983. Af því leiddi að steinninn var talinn njóta verndar þjóðminjalaga. Var Vegagerð ríkisins bannað að færa steininn aftur nema hún fengi samþykki fornleifanefndar fyrir því. Vegna áforma um að breikka Vesturlandsveg óskaði vegagerðin eftir slíkri heimild árið 1998, og fékk hana, en með því skilyrði, að áður skyldi leita allra leiða til að komast hjá því að hrófla við steininum.
Grásteinn 1989Álitamál er hvort steinninn eigi að vera verndaður, en kastljósi fjölmiðla hefur fremur verið beint að deilunni um tilvist álfa í honum. Tilgangurinn með þeirri athugun, sem hér verður greint frá, var að grafast fyrir um hvort Grásteinn tengdist þjóðtrú að því leyti, að hann heyrði með réttu og lögum samkvæmt undir þjóðminjavörsluna.
Segja má að hér kristallist ýmis vandamál sem minjavarslan í landinu stendur andspænis vegna síaukins eftirlits með skipulags- og umhverfismálum.
Elsta heimild um Grástein mun vera ítarleg örnefnalýsing sem Björn Bjarnason í Gröf (síðar Grafarholti) ritaði fyrir jörð sína og gaf Landsbókasafninu 2. maí 1918. Ekki er annað sagt um steininn í þeirri lýsingu en hvar hann stóð.
Grásteins virðist svo hvergi vera getið síðan fyrr en í sambandi við vegaframkvæmdirnar við Vesturlandsveg árið 1971 – og þá í fyrsta sinn í tengslum við huldufólk.

Grásteinn 2008

Greindi frá því á forsíðu Vísis hinn 29. júlí það ár hvernig álfatrú tengd steininum hafði áhrif á vegavinnuna. Hafði hann þá verið fluttur af þeim stað sem hann stóð frá fyrstu tíð:
“Vegavinnumennirnir fullyrða nú, að þeir sem áttu þátt í að flytja steininn um áramótin hafi allir orðið fyrir einhverjum óhöppum og slysum. – Sá kvittur kom upp fyrir skömmu að nú ætti að flytja steinana á nýjan leik, en vegavinnumennirnir eru ekki hrifnir af þeirri hugmynd, og þeir, sem Vísir talaði við, sögðu afdráttarlaust, að þeir myndu neita að koma nálægt því verki.”
Í grein á innsíðum blaðsins segir m.a. að steinarnir séu þrír að tölu: “Klettarnir voru fluttir úr stað um síðustu áramót, en þá voru þeir í vegi fyrir framkvæmdunum. Þrjár kröftugar jarðýtur sáu um um að róta þeim til, en ekki nógu langt, því að nú eru klettarnir fyrir enn einu sinni.”
Fram kemur í vitaði með umfjölluninni að þrír menn hafi slasast eftir að þeir áttu við steinana, þar af einn alvarlega á fæti. Stærsti steinninn hafi heitið Grásteinn 2008Grásteinn en sá minnsti Litli bróðir. Kristín Bæringsdóttir, húsfreyja í Grafarholti í 29 ár kannaðist ekki við að huldufólk tengdist steinunum að öðru leyti en því að fólk hefði sagt að í svona stórum steinum hlyti að vera huldufólk. Í endurminningum Skúla Pálssonar í Laxalóni kemur fram að 90 þúsund laxaseiði hefðu brepist þegar jarðýtustjóri tók í sundur vatnsinntak fiskeldis hans í nóvember árið 1970, daginn eftir að Grásteinn hafði verið færður til. Sumir töldu ástæðuna fyrst og fremst hafa verið að ræða fljótræði ýtustjórans. Ágúst Ólafur Georgsson, þjóðháttafræðingur, hafði sumarið 1980 efir Jóel Jóelssyni, bónda í Reykjahlíð II, að Halldór Laxnes, skál í Gljúfrasteini, teldi að umræddur steinn væri álagasteinn. Â Fornleifadeild Þjóðminjasafnsins setti steininn í svokallaðan A-flokk fornleifa í fornminjaskrá, þ.e. með þeim minjum sem hafa mest minja- og varðveislugildi.
Grásteinn 2008Grásteinn var aftur í fréttum í júní 1994 vegna þess að hann var fyrir áformuðum vegaframkvæmdum, er breikka átti Vesturlandsveginn. Í fréttþættinum 19.19 á Stöð 2 sagði frá því hinn 20. júní það ár að færa þyrfti steininn um 25 m leið, en Erla Stefánsdóttir, sem þjóðkunn sé fyrir tengsl sín við huldufólk, sæi hús í báðum steinunum og í þeim litlar verur glaðlegar. Var haft eftir Erlu að þessar verur hefðu flutt í steininn eftir að hann var síðast færður.
Var nú kyrrt um þetta mál til ársins 1998 að vegagerðin vildi ráaðst í framkvæmdir við Vesturlandsveg. Við mat á umhverfisáhrifum vegna breikkunar vegarins benti Árbæjarsafn á að veglínan færi nærri Grásteini, en taka yrði tillit til hans með því að hann væri á Fornleifaskrá Reykjavíkur.
Verkfræðistofa komst að raun um að færa þyrfti Grástein. Borgarminjavörður féllst á þá niðurstöðu.
Grásteinn varð enn á ný fréttaefni í janúar 1999, þegar leyfi til að flytja hann var fengið. Helgi Hallgrímsson, vegamálstjóri, sagði í Morgunblaðinu að steinninn væri fluttur til af tveimur meginástæðum, annarsvegar þar sem um skemmtilegt og nokkuð áberandi kennileiti væri að ræða, en hins vegar vegna sögusagna um álfabyggð í steininum.
Í sömu grein er haft eftir Sigurði Sigurðssyni, dýralækni, sem býr í grennd við steininn, að þegar hann var færður fyrra sinnið hefði hann klofnað og snúist, þannig að það sem áður sneri upp snúi nú niður.
Grásteinn 2008Málið snýst ekki um hvort álfar búi í Grásteini í Grafarholti, heldur hvort álagatrú á hann eigi rætur sínar að rekja svo langt aftur í tíma að hann skuli telja með fornleifum í skilningi 16. greinar þjóðminjalaga og þar með heyra undir þjóðminjavörsluna. Heimildakönnun bendir eindregið til þess að álfasögur hafi ekki verið tengdar Grásteini fyrr en í lok árs 1970. Af því leiðir að Grásteinn getur hvorki talist til fornleifa fyrr en í fyrsta lagi árið 2070. – þegar álagtrú á steininn á sér að minnsta kosti aldarlanga sögu – , né heyrt undir þjóðminjavörsluna í landinu, nema hann verði friðlýstur skv. 16. og 18. gr. þjóðminjalaga.
Grásteinn er og hefur fyrst og fremst verið áberandi kennileiti í landslaginu frá ómunatíð. Ekkert bendir til að hann hafi tengst trú álfa fyrr en í seinni tíð. Engar sagnir eru þekktar um hann eldri en 30 ára. Steinninn stendur ekki á upphaflegum stað, en hefur verið færður, a.m.k. tvisvar, við lagningu Vesturlandsvegar árin 1970 og 1971. Bjargið er talið vera um 50 tonn að þyngd, en þegar því var bylt klofnaði það.
Grásteinn var fluttur mánudaginn 18. október 1999 um 37 m til norðurs og vesturs. Flutningurinn tók um fjórar klukkustundir. Allt gekk vel utan hvað ein tréskófla brotnaði. Stærra bjargið vóg 35 tonn og hið minna 15 tonn. Álfanna vegna var þeim komið fyrir á sama hátt og þau stóðu síðast, – á hvolfi.”

Heimild:
-Ragnheiður Traustadóttir, Grásteinn í Grafarholti, um minjagildi ætlaðs álfasteins – Árbók fornleifafélagsins 1998, bls. 151-164.

Grásteinn 2008

Gálgahraun

Gengið var um Grástein á Álftanesi, framhjá Selskarði, skoðuð steinbrú yfir Skógtjörn og haldið austur með suðurjarðri Gálgahrauns að Garðastekk.

Gálgahraun

Gálgahraun – skófir.

Garðastekkur

Í Garðastekk.

Skammt frá vegamótum Suðurnesvegar og Norðurnesvegar er sá merki steinn Grásteinn, sem er álagasteinn. Í honum eru för sem sýna að reynt hefur verið að færa steininn úr stað en eitt sinn er það var reynt sýndist mönnum Eyvindarstaðir standa í björtu báli og hættu við flutninginn. Skyggnt fólk segja álfa búa í steininum. Þeim er illa við að fólk fari með gassagangi framhjá honum. Sé það gert reyna þeir að gera því fólki glettu. Þeir láta fólks hins vegar í friði fari með friðsemd.
Gengið var með Álftanesvegi áleiðis að Gráhelluhrauni. Selskarð er þar á vinstri hönd, skammt austan heimkeyrslunnar að Bessastöðum.

Skógartjörn

Skógartjörn – brú.

Á leiðinni var skoðuð gömul göngu- og reiðleið um Álamýri við Skógtjörnina. Leiðin lá fyrrum um steinbrú, “stíflurnar” yfir jarðar tjarnarinnar og stytti það leiðina yfir í Garðahverfi. Brúin var þó hrunin á nítjándu öld, að minnsta kosti þegar Benedikt Gröndal skrifaði Dægradvöl. Benedikt segir brúna “allmikið verk, en illa gert”.

Guðmann Magnússon, bóndi á Dysjum í Garðahverfi, lýsti helstu leiðum, sem farnar voru út á Álftanes um aldamótin. Austur úr hafi tvær leiðir með sjónum í gegnum hraunið. Önnur í vestæga stefnu um Garðastekk, en þaðan hafi sú leið skiptst í tvennt og ein leið legið meðfram sjónum og út á Álftanes (Bessastaðasókn), en önnur í Garðahverfi.

Fógetagata

Fógetagatan um Garðahraun.

Þetta getur vel passað við Fógetagötuna annars vegar og Garðaveg/-götu hins vegar, en hún liggur upp á Garðaholt, svo til í beina stefnu á Garðakirkju. Álftanesgatan gæti síðan hafa tekið við frá gatnamótunum, áleiðis að Bessastöðum.
Selskarði hefur verið mikið raskað, þrátt fyrir viðurkennt fornleifagildi. Það er í rauninni ágætt dæmi um hvernig á ekki að umgangast fornminjar og ætti því að geta orðið víti til varnaðar.
Gísli Sigurðsson nefnir nafnið Selsgarðar. Í jarðabók ÁM og PV segir að Garðar hafi brúkað þar (í landi Hausastaða) skipsuppsátur. Álftanesgata (Fógetagata) hafi legið á vatnaskilum (þurrlendi) sunnan Selskarðsbæjar gamla.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan Álftanesvegar. Þar lá vegurinn til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Gálgahraun þótti mjög gjöfult.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Ólafur Þorvaldsson segir í enduminningum sínum að “þeir , sem fóru til aðdrátta í Gálgahrauni, voru aðallega Garðhverfingar, svo eitthvað Hafnfirðingar, og var það þang og marhálmur, sem þangað var sótt, og ver það bæði rekaþang og skorið þang. Betra þótti rekaþang til brennslu en þang það, sem skorið var, aðallega fyrir það að minna salt virtist í því og þornaði því fyrr.
Þegar þangið var orðið þurrt báru menn það oftast heim á sjálfum sér, í stórum byrðum eða sátum, þar eð fæstir þurrabúðarmenn áttu hesta. Gálgahraun lætur ekki mikið yfir gróðri þeim, sem það býr yfir, en hann er meiri heldur en flesta grunar. Gálgahraun fæddi og fóstraði marga sauðkindina, meðan menn hagnýttu sér útibeit. Þó var beitin þar ekki með öllu áhættulaus. Gálgahraun, sem er nyrsti hluti Garðahrauns, á sér engin ákveðin mörk að sunnan í hrauninu.

Gálgahraun

Gálgahraun – kort.

Gálgahraun býður upp á stórbrotna náttúru. Hraunið, sem kemur úr Búrfelli um Búrfellsgjá, um 10 km leið og er um 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera um 7200 ára. Heitir það ýmsum nöfnum á leiðinni. Í því eru fjölbreyttar tjarnir, fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun með lífauðugum sjávarfitjum.

Hluti þessa svæðis hefur verið friðlýstur. Í matsskýrslu fyrir nýjan Álftanesveg kemur fram að hin forna þjóðleið, Fógetastígur, hafi verið leið um Gálgahraun. Stígurinn þykir mjög óvenjulegur þar sem óvíða hafi umferð á Íslandi verið það mikil fyrr á öldum að rásir hafi klappast í hraun. Stígurinn er þannig minnisvarði um mikilvægi Bessastaða sem miðstöðvar stjórnsýslu á Íslandi og efnahagslífs við Faxaflóa um aldur. Þykir stígurinn “meðal allra merkustu fornleiða á höfðuborgarsvæðinu og hefur ótvírætt varðveislugildi”.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gálgahraun er nefnt eftir Gálgunum nyrst í hrauninu. Þar var aftökustaður. Sakamannastígur liggur frá Álftanesgötu (Fógetastíg/-götu) yfir að Gálgaklettum.
Gengið var að Garðastekk. Garðastekkur er gömul fjárrétt. Mikilvægt er að varðveita stekkinn, enda teljst hann til menningarminja. Í hrauninu, ofan við stekkinn, er gömul fjárborg, sem ekki er getið um í örnefna- eða fornleifalýsingum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanessaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Álftanes

Í þjóðsögunni um “Steinarnir á Álftanesi” er getið um tvo staka stein sunnan og neðan við Grástein á Álftanesi. Grásteinn er þekktur af sögnum, en fáir hafa veitt framangreindum steinum sérstaka athygli. Sagan segir:

“Það vita allir að flestir hólar eða steinar sem nokkuð kveður að eru byggðir af fólki því sem álfar heita. Nú eru álfar misjafnir, sumir góðir, en sumir illir. Þeir góðu gjöra engum mein nema þeir sé áreittir af mönnum að fyrra bragði; hinir þar á móti vinna mörgum manni tjón.

Álftanes

Steinarnir tveir á Álftanesi – Grásteinn fjær.

Góðu álfarnir eru margir ef ei allir kristnir og halda vel trú sína. Mega þeir sín mikils og er það heill mikil að hjálpa álfum og koma sér vel við þá því þeir eru nokkurs konar andar eða verur. Flestir álfar eru alvarlegir og hafa óbeit á öllum gáska og gapaskap. Skyldi maður því forðast allt ósiðsamlegt nálægt bústöðum þeirra því annars getur hlotizt illt af því, því álfar reiðast illa. Þetta hefur og Álfa-Árni tekið fram. Hann varar menn við að ganga í steininn mikla sem stendur fyrir utan Hvamm í Hvítársíðu; þar búa illir álfar og alheiðnir.

Grásteinn

Grásteinn á Álftanesi.

Svo er t. a. m. um steina tvo á grandanum milli Brekku og Lambhúsa á Álftanesi. Þeir standa sunnanvert við götuna skammt fyrir neðan Grástein. Þessir steinar eru sjálfsagt álfabæir því ef maður hleypur af ásetningi á milli þeirra með gáska og hlátri eða ósiðsemi þá hlekkist þeim eitthvað] á sem það gjörði eða hann deyr jafnvel áður en langt um líður. Viti maður ei af þessum álögum á steinunum þá sakar ei þó milli þeirra sé gengið. Ei sakar heldur þó milli þeirra sé gengið með siðsemi og hæversku. Þegar Steindór Stefánsson heyrði sögu þessa þókti honum hún ótrúleg og gjörði hlátur að henni. Bar þá svo vel við að hann gekk frá kirkju þegar hann heyrði hana og hljóp hann þá milli steinanna með öllum illum látum. En álfar láta ei að sér hæða, Steindór drukknaði á SkerjafirÖi stuttu eftir. Við þetta minnkaði nú ekki trúin á steinunum því hefði Steindór ekki hlaupið á milli þeirra, þá hefði hann ekki drukknað. Veturinn 1844 tóku tveir piltar sig saman og ætluðu að reyna steinana; það vóru þeir Magnús Grímsson og Páll Jónsson. Þeir hlupu nú milli þeirra og gjörðu allt sitt til, en ekki hefur það á þeim séð; þeir lifa enn góðu lífi.”

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, Jón Árnason, bókaútgáfan Þjóðsaga, bls. 8-9.

Grásteinn

Grásteinn