Gálgahraun

Gengið var um Grástein á Álftanesi, framhjá Selskarði, skoðuð steinbrú yfir Skógtjörn og haldið austur með suðurjarðri Gálgahrauns að Garðastekk.

Gálgahraun

Gálgahraun – skófir.

Skammt frá vegamótum Suðurnesvegar og Norðurnesvegar er sá merki steinn Grásteinn, sem er álagasteinn. Í honum eru för sem sýna að reynt hefur verið að færa steininn úr stað en eitt sinn er það var reynt sýndist mönnum Eyvindarstaðir standa í björtu báli og hættu við flutninginn. Skyggnt fólk segja álfa búa í steininum. Þeim er illa við að fólk fari með gassagangi framhjá honum. Sé það gert reyna þeir að gera því fólki glettu. Þeir láta fólks hins vegar í friði fari með friðsemd.
Gengið var með Álftanesvegi áleiðis að Gráhelluhrauni. Selskarð er þar á vinstri hönd, skammt austan heimkeyrslunnar að Bessastöðum.

Garðastekkur

Í Garðastekk.

Á leiðinni var skoðuð gömul göngu- og reiðleið um Álamýri við Skógtjörnina. Leiðin lá fyrrum um steinbrú, “stíflurnar” yfir jarðar tjarnarinnar og stytti það leiðina yfir í Garðahverfi. Brúin var þó hrunin á nítjándu öld, að minnsta kosti þegar Benedikt Gröndal skrifaði Dægradvöl. Benedikt segir brúna “allmikið verk, en illa gert”.

Guðmann Magnússon, bóndi á Dysjum í Garðahverfi, lýsti helstu leiðum, sem farnar voru út á Álftanes um aldamótin.

Skógartjörn

Skógartjörn – brú.

Austur úr hafi tvær leiðir með sjónum í gegnum hraunið. Önnur í vestæga stefnu um Garðastekk, en þaðan hafi sú leið skiptst í tvennt og ein leið legið meðfram sjónum og út á Álftanes (Bessastaðasókn), en önnur í Garðahverfi.

Þetta getur vel passað við Fógetagötuna annars vegar og Garðaveg/-götu hins vegar, en hún liggur upp á Garðaholt, svo til í beina stefnu á Garðakirkju. Álftanesgatan gæti síðan hafa tekið við frá gatnamótunum, áleiðis að Bessastöðum.
Selskarði hefur verið mikið raskað, þrátt fyrir viðurkennt fornleifagildi. Það er í rauninni ágætt dæmi um hvernig á ekki að umgangast fornminjar og ætti því að geta orðið víti til varnaðar.

Fógetagata

Fógetagatan um Garðahraun.

Gísli Sigurðsson nefnir nafnið Selsgarðar. Í jarðabók ÁM og PV segir að Garðar hafi brúkað þar (í landi Hausastaða) skipsuppsátur. Álftanesgata (Fógetagata) hafi legið á vatnaskilum (þurrlendi) sunnan Selskarðsbæjar gamla.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan Álftanesvegar. Þar lá vegurinn til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Gálgahraun þótti mjög gjöfult.

Ólafur Þorvaldsson segir í enduminningum sínum að “þeir , sem fóru til aðdrátta í Gálgahrauni, voru aðallega Garðhverfingar, svo eitthvað Hafnfirðingar, og var það þang og marhálmur, sem þangað var sótt, og ver það bæði rekaþang og skorið þang.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Betra þótti rekaþang til brennslu en þang það, sem skorið var, aðallega fyrir það að minna salt virtist í því og þornaði því fyrr.
Þegar þangið var orðið þurrt báru menn það oftast heim á sjálfum sér, í stórum byrðum eða sátum, þar eð fæstir þurrabúðarmenn áttu hesta. Gálgahraun lætur ekki mikið yfir gróðri þeim, sem það býr yfir, en hann er meiri heldur en flesta grunar. Gálgahraun fæddi og fóstraði marga sauðkindina, meðan menn hagnýttu sér útibeit. Þó var beitin þar ekki með öllu áhættulaus. Gálgahraun, sem er nyrsti hluti Garðahrauns, á sér engin ákveðin mörk að sunnan í hrauninu.

Gálgahraun

Gálgahraun – kort.

Gálgahraun býður upp á stórbrotna náttúru. Hraunið, sem kemur úr Búrfelli um Búrfellsgjá, um 10 km leið og er um 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera um 7200 ára. Heitir það ýmsum nöfnum á leiðinni. Í því eru fjölbreyttar tjarnir, fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun með lífauðugum sjávarfitjum.

Hluti þessa svæðis hefur verið friðlýstur. Í matsskýrslu fyrir nýjan Álftanesveg kemur fram að hin forna þjóðleið, Fógetastígur, hafi verið leið um Gálgahraun. Stígurinn þykir mjög óvenjulegur þar sem óvíða hafi umferð á Íslandi verið það mikil fyrr á öldum að rásir hafi klappast í hraun. Stígurinn er þannig minnisvarði um mikilvægi Bessastaða sem miðstöðvar stjórnsýslu á Íslandi og efnahagslífs við Faxaflóa um aldur. Þykir stígurinn “meðal allra merkustu fornleiða á höfðuborgarsvæðinu og hefur ótvírætt varðveislugildi”.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gálgahraun er nefnt eftir Gálgunum nyrst í hrauninu. Þar var aftökustaður. Sakamannastígur liggur frá Álftanesgötu (Fógetastíg/-götu) yfir að Gálgaklettum.
Gengið var að Garðastekk. Garðastekkur er gömul fjárrétt. Mikilvægt er að varðveita stekkinn, enda teljst hann til menningarminja. Í hrauninu, ofan við stekkinn, er gömul fjárborg, sem ekki er getið um í örnefna- eða fornleifalýsingum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanessaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.