Færslur

Slóðaketill

Farið var aftur inn í hraunið austan Geitahlíðar til að leita að Snorra, jarðfalli sem upplýsingar höfðu fengist um að ætti að vera þar inni í hrauninu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Smali hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á mikið jarðfall, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.

Snorri

Á leið í Snorra.

Svarta þoka var á fjallinu þegar að var komið, en milt veður. Haldið var fyrst í um kílómetra til vesturs yfir hraunið, að brún Kálfadalahraunsins, síðan til suðausturs og loks til austurs. Jarðskálftinn 17. júní árið 2000 hafði greinilega leikið hraunhólana þarna illa. Margir þeirra voru klofnir, aðrir maskaðir. Ekki er ólíklegt að seinni skjálftinn þennan dag hafi átt upptök sín einhvers staðar þarna undir hrauninu. Þegar um 500 metrar voru eftir í vestari melhólinn birtist jarðfallið fyrirvaralaust framundan, djúpt og mikið um sig. Steinboginn var fallinn niður í jarðfallið, en hann hefur verið nokkuð stór.

Snorri

Leitin að Snorra.

Gríðarlegt gat var inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir voru sléttir og virtist rásin hafa verið nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”. Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu. Þá var farið inn í eystri rásina, sem eiginlega liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Á leiðinni til baka var aftur litið á Slóðaketilinn austan Geitahlíðar. Ekki verður hjá því komist að nota stiga til að komast ofan í neðri rásina í katlinum sjálfum til að kanna hvort og hversu löng neðri rásin kann að vera.
(Framhald í annarri lýsingu – Snorri sigraður – óvæntur fundur).

Snorri

Snorri – kort.

Óbrennishólmi

Gengið var frá Ísólfsskálavegi til austurs vestan við Lat.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

Gengið er yfir úfið mosahraun og inn á stíg er liggur áfram til austurs sunnan við Latshornið. Skammt austan við hornið, þar sem úfna hrauninu sleppir liggur hraunbakki til suðurs. Ef honum er fylgt spölkorn er komið að fallegum dyrahleðslum fyrir skúta. Hurðarhellan stendur enn vinstra megin við dyrnar. Inni má sjá mannvistaleifar. Á skútanum er op og hlaðið í kringum það. Líklegt er talið að skútinn hafi verið notaður sem sæluhús á ferðum manna um stíginn frá Húshólma, ofan Seltanga, að Ísólfsskála og áfram, annað hvort norður um Sandakraveg að Skógfellastíg eða til Grindavíkur. Þá gæti hann einnig hafa verið notaður af vegagerðarmönnum er lögðu Ísólfsskálaveginn á sínum tíma. Sæluhús þetta er fáum kunnugt.

Óbrennishólmi

Fjárborg (virki) í Óbrennishólma.

Tiltölulega stutt er í Óbrennishólmann, þangað sem ferðinni var heitið. Hægt er að ganga inn í hólmann vestast í honum eða fylga stígnum uns komið er að þvergötu til vinstri. Hún liggur í gegnum hraunið og inn í suðaustanverðan hólmann.

Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Erfitt er að mynda hringinn vegna afstöðu hans á hólnum. Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er önnur minni fjárborg. Einnig gæti þarna hafa verið um topphlaðið hús að ræða að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum.  Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess.
Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu skammt, neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma.

Arnarhæð

Arnarhreiður á Arnarhæð í Ögmundarhrauni.

Ögmundarhraun, sem umlykur Óbrennishólma, kom úr gígaröðum austan í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Það hefur runnið til suðurs á milli Latfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells – allt niður í sjó – og gjörbreytt ströndinni. Hefur hraunið runnið yfir bæ, eða bæi, og önnur mannvirki sem þarna voru. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa þá væntanlega staðið hátt í landinu, en hraunið runnið með hlíðum og lægðum. Eldra hraunið inni í Óbrennishólma og Húshólma hefu runnið áður en Ögmundarhraun rann. Virðist það hafa komið úr gígaröð suðaustur af Krýsuvíkur-Mælifelli.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði einn gíginn þar, einn þann merkilegasta hér á landi, en sá hefur nú að mestu verið eyðilagður vegna efnistöku.
Sagnir eru til um að á þessu svæði hafi verið blómleg byggð áður en Ögmundarhraun rann um 1150. Ströndin hafi verið lík og nú er á Selatöngum, neðan við Húshólma og við Skála. Þar hafi verið góð lending og kjörstaða, bæði til lands og sjávar.

Veður var með ágætum – hlýtt og lygnt. Gangan tók 2 klst og 43 mín.

Óbrennisbruni

Forn garður í Óbrennisbruna.

Brúnavörður

Ætlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því. Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir hólmann, eins og ein tillagan af þremur kvað á um.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Með í för var m.a. hinn áhugasami bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns, litið á gróið gerði utan í hrauninu og síðan haldið yfir í hólmann eftir Húshólmastíg. Skoðaðar voru hleðslur í norðausturhluta hólmans þar sem fé hefur haldið til haga, gróið gerði og forn fjárborg. Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestur verið úr torfi. Þá var haldið að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vestur inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt hann á kafla. Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála, auk þess sem komið verður við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem rann 1151. Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera eldri en norrænt landnám hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Að minnsta kosti er hér um að ræða einar “verðmætustu” fornleifar hér á landi. Í skálanum mátti til dæmis sjá holur eftir miðstoðir (stoðarholur). Bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg og síðan gengið út á Kirkjulágina, skoðaður þvergarður þar sem og jarðlægt gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðina syðst í hólmanum, á rekagötuna niður að Hólmasundi og síðan gengin sjávargatan út úr hólmanum til austurs. Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring.
Frábært veður.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/

Húshellir

Eftirfarandi er tekið af vef Hellarannsóknarfélagsins eftir ferð í Ginið:

Ginið

Ginið.

“Eftir fund Ginsins hafa félagar í HERFÍ iðað í skinninu og beðið þess að berja undrið augum. Af þessu varð í dag.
Föngulegur hópur hellaáhugamanna, undir leiðsögn FERLIRs, þrammaði um Hrútagjárdyngjuna með það eitt að markmiði að skoða 2 “nýja” hella og einn vel þekktan. Fyrsta stoppið var við sprungu sem liggur rétt sunnan við Dyngjuna sjálfa. Hér er á ferð þröng sprunga (engar bjórvambir leifðar í þessum) sem liggur um 10-15m niður í hraunið. Það merkilega við þessa sprungu er að bráðið hraun hefur fundið sér farveg í sprungunni og myndað fossa, kvikutauma og 8-10cm kvikuhúð um alla sprunguna. Þessi kvikuhúð er sumstaðar laus eða að losna og er því nauðsynlegt að vera með hjálm og passa vel upp á hrun. James, Jakob og Fernando skriðu niður og fullkönnuðu alla afkima hellisins. Hann heldur áfram bæði að ofan og neðan, en vegna þess að við erum allir komnir á gamals aldur og búnir að ná fullri stærð þá tókst okkur ekki að troða ofvöxnum líkömum okkar áfram.

Húshellir

Í Húshelli.

Á leiðinni í Ginið stoppuðum við í Húshelli. Eftir að hafa skoðað hleðslunar í Húshelli og beinin héldum við yfir hraunið og út í auðnina. Hraunið hér er slétt helluhraun, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við okkur og öskraði á okkur “komið niður”. Þó við höfum verið allar að vilja gerðir þá gafst ekki tími til að skoða undrið því við höfðum aðeins 30 mín eftir af dagsbirtu og héldum því fljótlega niður að bílunum. Hellirinn er um 15 m djúpur og snjór er í botninum. Varla sést marka fyrir gjalli eða kleprum á yfirborði og því er hér um að ræða 15 m niðurfall sem birtist í hrauninu eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Þetta op verður næsta viðfangsefni HERFÍ – jafnvel þó að ekkert sé þarna niðri er þetta eflaust “töff” hellafundur.”

Ginið

Ginið.

Húsatóptir

Haldið var í hraunið skammt vestan við Húsatóttir, en þar hafði FERLIR nýlega skoðað flak flugvélar, sem sagt var að hefði verið þýskt, sbr. sögu HG um handtöku og skjólsgjöf Staðarmanna til handa þýskum flugmanni.

Húsatóftir

Húsatóftir – kort.

Grafið var í haug, sem þarna er, auk þess sem skoðað var í sprunguna ofan við hauginn, uppi á hraunbrúninni. Þar voru bæði kúlur og skothylki. Við athugun á staðnum kom í ljós að skrúfur og rær voru með tommumáli. Þar með gat vélin ekki hafa verið þýsk.
Við nánari eftirgrennslan er þarna að öllum líkindum um flak amerískrar P-47 flugvélar er hrapaði til jarðar, skv. dagbók hersins, um eina mílu vestur af Grindavík þann 13. júní 1944 kl. 08:55. Flugmaðurinn, annar liðþjálfi Thomas J. Latham, komst út í fallhlíf og komst lifandi frá óhappinu. Hluti af flakinu hefur verið hulið með jarðvegi, en annað er vel sýnilegt.

Húsatóftir

Brak úr vélinni – slidesmynd Viðar Valdimarsson.

Sigurður Viðarson frá Grindavík (býr nú í Hafnarfirði) hafði samband vegna flugvélarinnar.
“Ég hef kíkt stöku sinnum á síðuna www.ferlir.is og haft mjög gaman af. Ég rak augun í lýsingu á FERLIR-493 þar sem þið funduð flugvélaflakið af þýsku vélinni. Faðir minn Viðar Valdimarsson rafvirki í Grindavík fór fyrir um 35 árum síðan með Helga Hjartarsyni fyrrum rafveitustjóra að þessu flaki og tók mynd af byssunum sem stungist höfðu í bergið þegar hún fórst.

Húsatóftir

Húsatóftir – brak.

Ég mundi alltaf svo vel eftir þessari mynd hjá pabba og fann hana í slidesmyndasafninu hans fyrir 3 árum síðan og ákvað í framhaldi af því að reyna að finna flakið, en pabbi mundi nú ekki nákvæmlega hvar þetta var enda langt um liðið og hann var þá tiltölulega nýkominn til Grindavíkur þegar þetta var og áttaði sig ekki almennilega á hvar þetta var. Ég ræddi við Didda rafvirkja og vissi hann hvar það var og benti mér á, fann ég flakið en engar byssur sá ég. Ég ræddi betur við Didda og hann sagði mér að þær væru alveg við flakið þannig að ég fór aftur og fínkembdi svæðið en fann þær því miður ekki.

Húsatóftir

Slysstaðurinn.

Annað hvort hafa þær verið fjarlægðar af einhverjum eða lent undir grjótruðningi, en hruflað hefur töluvert við svæðinu rétt við flakið vegna fiskeldisins. Diddi man vel eftir þeim og sagði að þær hefðu verið svo kyrfilega fastar í berginu að þær yrðu ekki fjarlægðar nema með heilmikilli aðgerð. En faðir minn á allavegna mynd af byssunum og ábyggilega hægt að skanna hana fyrir þig ef þú hefur áhuga.”
Í framhaldi af framangreindu sendi Sigurður meðfylgjandi mynd af byssunum. Þær hafa verið fjarlægðar af einhverjum, en eftir er talsvert smálegt úr vélinni.
Frábært veður.

Húsatóptir

Bark úr vélinni.

Arnarseturshellir

Leitað var að Hnapp í Arnarseturshrauni. Skv. lýsingu Björns Hróarssonar er hann hafði eftir nafna sínum Símonarsyni átti að leita hans í stefnu frá Hestshelli að Arnarseturshelli, nokkurn veginn miðja vegu, en þó heldur nær hinum síðarnefnda. Þar átti að vera yfirborðsrásakerfi og þar fyrir ofan hóll með lítilli vörðu. Við vörðuna eitt mjög lítið gasútstreymisop – þröngt og bratt, skrið og síðan niður í salinn.

Hnappur

Hnappur – opið.

Þessi lýsing gekk eftir. Nokkrar vörður eru þarna við smáskúta, en á nefndum stað fannst þröngt gat á hraunhæð, utan í annarri hærri. Ekki er auðvelt að koma auga á opið og því auðvelt að ganga þar framhjá. Opið er um 500 metra frá Hesthelli. Ekki er fyrir aðra en granna að renna sér og smeygja sér síðan niður um gatið. Ráðlegt er að skilja nestið eftir uppi, en borða það ekki niðri í hellinum því gera þarfr áð fyrir að þurfa að komast út aftur. Þá er komið í fallegan rauðleitan geymi. Þarna er breið efri rás, en hún virðist enda fljótlega. Rásin liggur inn til norðvesturs, þurr og þarf að ganga þar hálfboginn. Þá þrengist hún og þarf að skríða nokkurn spöl áfram þangað til hún víttkar aftur. Rás til hægri lokast og svo virðist sem vinstri rásin lokist líka, en þegar komið er í enda hennar sér niður um op. Þar fyrir neðan er rúmgóður salur með nokkrum rásum. Rásir þessar liggja svo til allra átta, misjafnlega langar og greiðfærar. Hægt er að komast upp úr a.m.k. tveimur þeirra um op á hraunhellunni.

Hnappur

Í Hnappnum.

Hnappur er með fallegri hellum og alveg heill, en lítið er um myndanir í honum. Þó eru þær til fremst í honum þar sem komið er niður. Um 30 metrar eru að niðurgangnum, en í heildina gæti hellirinn þess vegna verið hátt í hundrað metra langur. Þegar komið er niður í háan og rúmgóðan salinn liggja rásir út frá honum í ýmsar áttir er áhugavert væri að kanna nánar.
Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, upplýsti síðar, að hann hefði farið í þennan helli ásamt félaga sínum Geirdal, sennilega fyrstir manna. Hefðu þeir nefnt hellinn Geirdal og afhenti hann góðan uppdrátt af hellinum því til staðfestingar.

Arnarsetur

Í Flat.

Eftir þessa skoðun var hraunið gengið til norðurs uns komið var að opnum skúta í hraunbólu. Á honum er varða. Rásir liggja til hægri og vinstri, en þar virðist vera um yfirborðsrásir að ræða. Norðan við skútann er áberandi gata í gegnum hraunið. Hún virðist koma frá Seltjörn og í boga í gegnum Arnarseturshraun. Götunni var fylgt langleiðina yfir að Skógfellastíg. Þarna virðist vera um að ræða götu frá Njarðvíkum yfir á stíginn. Hún er lítt áberandi næst Grindavíkurveginum, en þegar komið er u.þ.b. 300 metra austur fyrir hann er gatan mjög greinileg og er þannig áfram í gegnum hraunið.

Hestshellir

Hestshellir.

Á leiðinni til baka var komið að rás norðaustan við Hesthelli. Við opið er varða. Rásin er fremur lág, en liggur til vesturs undir hraunið. Eftir u.þ.b. 20 metra beygir hún til norðurs og lækkar. Síðan beygir hún til norðvesturs og heldur áfram. Skríða þarf hana á þeim kafla. Skoðaðir voru um 50 metrar af henni, eða þangað til skríða þurfti á maganum. Rásinni var gefið vinnuheitið Flatur.
Veður og dagsbirta skipta ekki máli í hellaferðum og verða því ekki tíunduð hér. Gangan tók 2 klst og 3 mín.Uppdrátturinn af svæðinu hefur verið uppfærður.

Arnarsetur

Í Arnarseturshellum.

Arnarsetur

Gengið var um Arnarseturshraun undir leiðsögn Björns Hróarssonar, hellafræðings.

Dollan

Í Dollunni.

Fyrst var farið í Dolluna, sem rétt við gamla Grindavíkurveginn við bílastæðið á Gíghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er svo til alveg vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um mannhæð og hallar undir á alla vegu. Þarna þyrfti að vera góður stigi fyrir ferðafólk því hellirinn er aðgengilegur svona nálægt vegi. Fyrst þyrfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hefur neðan við opið. Björn skellti sér niður og skoðaði hellinn. Hann nær umm 30 metra upp á við til austurs og einnig til vesturs og uppfyllir því öll skilyrði til að geta flokkast sem góður hellir.

Hnappur

Hnappur – opið.

Næst var gengið áfram niður hraunið og hraunrásinni fylgt til vesturs. Eftir u.þ.b. 500 metra endar rásin og við tekur hellir. Hann liggur í hægri boga og endar eftir u.þ.b. 50 metra. Þar er stórt op í gólfinu og sést niður á neðri hæðina. Mannhæða hátt er niður. Eftir að haf rutt niður grjóti til að búa til lendingarpall var hoppað niður. Þar liggur víð og góð rás til austurs, undir gólfið sem áður var gengið. Gólfið í rásinni er alveg hreint og slétt. Þessi hluti endaði eftir u.þ.b. 50 metra. Þar inni var bréfmiði á vegg, en letrið var ólæsilegt. Þó mátti greina dagsetningu og ártalið 1992. Þá var haldið til vesturs. Eftir um 30 metra var komið út í jarðfall. Úr því hélt rásin áfram um 20 metra uns komið var út úr henni á ný. Miðað við lýsingu á Hellinum Kubb gæti þetta vel verið hann. GPS-punktur af hellinum sýndi staðsetningu u.þ.b. 20 metrum norðar, en þrátt fyrir leit þar fannst ekkert op. Miðað við nýjan GPS-punkt, sem tekin var þar, gæti hér verið um misvísun að ræða. Um Kubb segir m.a. í lýsingu: “Kubbur er sennilega í sama hellakerfi og Dollan. Kubbur er á tveimur hæðum”.

Kuppbur

Op í Kubbnum.

Annað op fannst skammt austan við þann stað, næstum mannhæða djúpt. Björn hoppaði þar ofan í. Þarna reyndist vera hellir í sömu stefnu og hinir hellarnir, u.þ.b. 30 metra langur. Þessi hellir hefur ekki verið nefndur, en fær hér vinnuheitið Naddur í merkingunni nálægur. Erfitt er að koma auga á holuna nema ganga svo til beint á hana.

Ekki lágu fyrir GPS-punkt á Hnapp, en um hann er til eftirfarandi lýsing: “Hann er með skemmtilegri hellum, sem hægt er að komast í. Hann er ekki mjög langur, en hefur upp á margt að bjóða. Inngangurinn er í gegnum þröngt gasútstreymi. Strax þegar niður er komið er hægt að fara á efri eða neðri hæð.

Kubbur

Í Kubbnum.

Efri hæðin lokast fljótt, en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfossi. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega. Þá er maður staddur í miðjum hellinum í stórumsal. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring”. Fróðlegt væri að fá nánari staðsetningu eða leiðarlýsingu á Hnapp. (Síðar kom í ljós að Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, hefði farið með félaga sínum Geirdal, í Arnarseturshraun og þá farið niður í Hnapp. Hefðu þeir m.a. rissað hellinn upp og nefnt hann Geirdal).

Gíghæð

Vegavinnubyrgin á Gíghæð.

Haldið var upp að vegavinnubyrgjunum austan Grindavíkurvegar og áfram upp fyrir þau. Þar eru hellar í hraunrás. Rásin er fallin niður á tveimur stöðum og er efri hlutinn öllu lengri, eða um 50 metra langur. Hann endar í hafti, sem aðskilur hann og efsta hluta hinnar miklu hraunrásar úr Arnarsetursgígnum. Í heildina er þessi hallahluti um 100 metrar á lengd. Þeir fá vinnuheitið Gegnumgangur. Á bökkum rásarinnar eru margar stórar og fallegar hraunæðar.

Dátahellir

Dátahellir.

Loks var gengið niður í Dátahelli. Hann nefnist svo vegna þess að í honum fannst beinagrind er talin er hafa verið af amerískum hermanni er týndist í hrauninu að vetrarlagi allmörgum árum áður. Við skoðun reyndist hellirinn vera um 40 metra langur.

Veður var frábært – bjart og hlýtt miðað við árstíma.
Allar staðsetningar voru samviskusamlega skráðar, en þegar heim var komið uppgötvaðist að blaðið með öllum tölunum hafði gleymst við Dátahelli.

Arnarsetur

Arnarsetushraunshellar – uppdráttur ÓSÁ.

Farið var aftur í Arnarseturshraun og GPS-punktar endurteknir. Við það fannst hellir, er nefndur hefur verið Skjóli sem og Kubbur að öllum líkindum.
Farið er inn í Skjóla, sem er nokkuð norðan við Nadda, inn í hraunbólu. Inn úr henni liggja rásir bæði til norðurs og suðurs. Ýmislegt bendir til að þetta séu yfirborðsrásir, en þarna örskammt frá er allnokkurt jarðfall er bendir til að þar undir hafi runnið talsvert hraun. Skjóli var ekki kannaður að þessu sinni, einungis framan við rásirnar er liggja inn.
Á leiðinni til baka var aftur hugað að hraunhól, sem lítil varða stendur á, og skoðaður hafði verið daginn áður. Hóllinn er skammt vestan við Dolluna. Í honum eru tvö gasuppstreymisop. Eystra opið er þröngt, en liggur inn til norðurs og víttkar síðan og hallar niður á við. Þarna gæti vel verið um opið á Hnapp að ræða. Fötin gáfu ekki tækifæri til að elta rásina lengra niður að þessu sinni, en þarna er svolítið skrið til að byrja með.
Ferðin var notuð til að gera uppdrátt af svæðinu og merkja þar inn á alla hellana níu. Skilið var eftir autt pláss fyrir enn ófundna hella þarna.
Sjá meira HÉR.

Kubbur

Kubburinn.

Snorri

Upplýsingar höfðu fengist um jarðfall austan Geitahlíðar. Jarðfallið átti að vera nokkrir metrar í ummál og um sex metra djúpt. Þar ofan í sást í rásir.

Snorri

Haldið upp í Snorra.

Haldið var upp slóða, sem liggur upp með girðingunni vestan Sýslusteins og honum síðan fylgt upp hraunhlíðina. Á slóðanum er einn og einn girðingastaur á stangli, en hann hefur verið ruddur þarna upp með það fyrir augum að leggja girðingu eftir fjallgarðinum. Þegar komið var upp á hæðina heldur slóðinn áfram uns hann beygir til vinstri við beygju á girðingunni. Úr hornstaurnum liggja strengir í henni áfram til norðurs, upp grasbrekkur. Ekið var slóðann upp brekkuna. Þegar komið var upp beygir girðingin og slóðinn enn til vinstri og heldur áfram yfir hraunbreiðu. Þarna vinstra megin, við hornið, er melhóll. Af honum á að taka mið á jarðfallið.

Snorri

Á leið í Snorra.

Ekið var áfram eftir slóðanum, en útsýni er þarna allfagurt; Geitahlíð til suðurs, fjórir fallegir eldgígar til vesturs, Sveifluháls norðar, Sandfell og Vörðufell til norðurs, Austurásar, Vesturásar og Herdísarvíkurfjall til austurs. Inni í hrauninu beygir girðingin enn í nær 45° til vinstri. Litið var á einn gíginn, næst slóðanum, en hann er mosagróinn og opnast til suðvesturs. Þegar komið er út úr hrauninu beygir girðingin til norðausturs með hraunkantinum. Slóðinn liggur þar að mestu í grasi og virðist liðast með honum langleiðina að Vörðufelli. Mikil vinna og mikill kostnaður hefur legið í bæði vegavinnunni og girðingavinnunni, en strengirnir liggja víðast hvar niðri og er girðingin því ónothæf með öllu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Haldið var aftur að melhólnum og gengið út frá honum til vesturs, eins og lýsingin sagði. Þarna er nýtt hraun á eldra hrauni á kafla, en nýja hraunið er mjög mosagróið. Jarðfallið átti að vera þarna í 50-100 metra fjarlægð frá melhólnum, en það fannst ekki þrátt fyrir leit.

Haft var samband við upplýsingagjafann. Hann sagðist hafa farið að rifja staðsetninguna betur upp, en nokkuð er um liðið síðan hann var þarna á ferð. Sagðist hann hafa verið að koma frá Vörðufelli, komið að hæsta melhólnum vestan girðingarinnar og ætlað að stytta sér leið yfir hraunið því hann hafi ætlað niður í Sláttudal á milli Æsubúðar-Geitahlíðar og Geitahlíðar. Hann hafi gengið ofan hraunbrúnarinnar áður en hraunið tekur að halla undan til suðurs. Þegar hann hafi verið kominn 50, 100 eða 200 metra inn í hraunið hafi hann allt í einu staðið á barmi jarðfallsins. Hann hefði ekki séð það tilsýndar. Steinbogi er yfir því. Hann taldi að hægt væri að fara ofan í jarðfallið án búnaðar. Rétt væri því að ganga frá melhólnum með stefnu á Geitahlíð, þ.e. meira til suðvesturs og fara með hraunbrúninni.

Björn Hróarsson

Björn Hróarsson við Snorra.

Á leið til baka sást op vinstra megin við slóðann þar sem hann liggur niður hraunhlíðina. Þarna er um hraunrás í katli að ræða. Í katlinum er gat, ca. 3×4 metrar að ummáli og er um 6 metrar niður á botn. Ekki er hægt að komast þar niður nema á stiga eða síga. Rás virðist liggja þar til suðvesturs. Uppi liggur rás til norðurs, u.þ.b. 20 metra löng. Hún endar í hruni og lausu hrauni. Í katlinum má einnig sjá inn í reglulega fallega, en mjóa rás. Innan hennar sést í þrifalega hraunrás. Neðri rásina þarf að skoða síðar með viðeigandi búnaði.

Ætlunin er að gera aðra tilraun fljótlega með það fyrir augum að finna jarðfallið – FERLIR er þekktur fyrir allt annað en að gefast upp.

Snorri

Snorri – kort.

Sýslusteinn

Gengið var framhjá bæ Einars Benediktssonar, skálds, og Hlínar Johnson í Herdísarvík.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Dyttað hafði verið að húsinu daginn áður og lítur það bara nokkuð vel út núna. Þegar farið var eftir heimtröðinni að gamla bænum mátti sjá gamla netasteina, steinum með mörkum í sem og gamla myllusteina. Framan við gamla bæinn er sjórinn að brjóta bakka og undan honum er smám saman að koma ýmislegt, sem einhvern tímann hefur tilheyrt smiðjunni við bæinn. Sjá má gólfborð undan bakkanum og einstaka málmhlut, s.s. fötuhald, nagla, stangir o.fl. Sjá má móta fyrir útlínum hússins á klöppunum framan við bakann.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Gengið var suður með Herdísarvíkurtjörninni. Sunnan hennar eru góðir beitihagar auk þess sem vatnsbollar eru þar á víð og dreif. Lítið sést þar af minjum.
Haldið var vestur með ströndinni, sem hækkaði smám saman. Gróið er ofan við bakkann, en þar fyrir ofan tekur við lyng og kjarrivaxið Herdísarvíkurhraunið. Gengið var framhjá sandlóuhreiðri með þremur eggjum í, skammt vestar var stelkshreiður auk hreiðra nokkurra annarra fugla. Tófuspor sáust í sandinum ofan við bergið. Á nokkurum stöðum mátti sjá greni og voru sumhver merkt með hefðbundnum hætti; tveir steinar, annar ofan á hinum. Kjói flaug lágt yfir mosahrauninu, greinilega í leit að eggjum eða öðru ætilegu. Kríur sáust svo að sjálfsögðu ýmsar mávategundir. Gata liggur ofan við bergið, en hún er ógreinileg á köflum. Sjá má einstaka heila vörðu á leiðinni ef vel er að gáð, en einnig má sjá vörðurnar á leiðinni að Herdísarvík austan við selið, þá er liggur upp á og sameinast gömlu þjóðleiðinni skammt austan við Sláttudal.

Herdísarvík

Herdísarvík- hnyðja.

Víða var mikill reki ofan rekamarka og mátti innan um sjá fallegar hnyðjur og hnoðja, kúlur og keilur.
Gullkollur hafði skotið upp kollinum á nokkrum stöðum, en hann er eitt af einkennisblómum Reykjanessins. Hrafnaklukka, brjóstagras og smjörgras sáust einnig á stangli. Hluti hrossaleggjar lá í götunni, hauskúpa af selskóp, sakka og sérkennilegir steinar, sem sjórinn hafði kastað hátt á land.

Sjórinn var tiltölulega ládauður og virtist ekki abbast mikið upp á bergið. Gott tóm gafst því til að skoða bergsylluraðirnar, en þær voru sumstaðar allt að sex talsins, hver ofan á annarri. Skiptist á grágrýti og gjall.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg – brotgangur.

Á einum stað hafði sjórinn í einhverju reiðiskastinu brotið gat upp í gegnum bergið, en nú mátti sjá hann leika ljúft við það undir niðri. Á öðrum stað mátti sjá bergþursa ræðast við fyrir opinni vík. Litadýrð bergsins á kafla var einstök. Sjá mátti rautt innan um svart og grátt sem og gula og bleika steina, sem sjórinn hafði brotið úr berginu fyrir neðan og kastað upp á bakkann.

Skammt austan Seljabótar eru leifar af hlöðnum refagildrum. Hafa þær mjög látið á sjá. Einungis ein er nú með einhverju lagi og má vel sjá hlaðinn ganginn og hleðsluna utan um hana.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Haldið var að Herdísarvíkurseli. Ró hvíldi yfir tóftunum undir hraunkantinum. Upp úr einni þeirra stakk sér svartur hyrndur haus. Reyndist það vera rolla með lamb. Hafði hún leitað næðis í stærstu tóftinni. Þegar komið var nær sást þar önnur ær, þríhyrnd, með golsótt lamb. Þriðja hornið stóð svo til beint upp úr höfði kindarinnar og var það kindarlegt á að líta, líkara einhyrningi. Greyin voru ekki það styggar að ekki væri hægt að virða þær fyrir sér nokkra stund. Þá gengu þær í hægðum sínum út með hraunkantinum og fylgdu lömbin á eftir. Ær og lömb í seli tilheyra víst liðinni tíð.

Herdísarvíkurvegir

Herdísarvegir – ÓSÁ.

 Vatnsstæði selsins reyndust tóm, enda varla komið dropi úr lofti í marga daga. Megintóftin er undir hraunbrúninni, einn skammt sunnar, önnur austar og tvær sunnan hennar. Gerði eða kví er í hraunkantinum vestan megintóftarinnar. Herdísarvíkursel hefur verið myndarlegt sel á meðan var.
Gengið var upp með Seljabótagirðingunni að Sýslusteini. Í bakaleiðinni bauð fótgangandi álftapar ferðalöngum að virða fyrir sér tvo unga þess. Mátti varla á milli sjá hvort faðirinn eða móðirin væru stoltara af afkvæmunum sínum.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn var óvenjugrænt og Krýsuvíkurhverirnir skörtuðu sérkennilegri skerpu undir sólstöfunum; rautt, blátt, grænt, grátt, hvítt og svart. Svæðið allt, sem reyndar allt tilheyrir Hafnarfirði nú af einhverjum óskiljanlegum nútímaástæðum (var reyndar ekki heldur skiljanlegar í þá daga er koma átti rauðum kúm þar til mjalta), en ætti með réttu að tilheyra Grindavík, enda í lögsagnarumdæmi þess, býður upp á mikla útivistarmöguleika, enda landslagið bæði fjölbreytt og fagurt. Hafnfirðingar hafa sýnt þessu sagnaríka og mikilfenglega svæði tilsýndaráhuga um nokkurt skeið. Á meðan hefur það slegið í eðlislægum takti við hjarta Grindvíkinga. Nafnið Krýsuvík (Deiluvík) er ekki komið af engu.
Veður var frábært – sólstafir og sætukoppar, en rigning í bænum.
Gangan tók 2 klst og 53 mín.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Reykjanes

Drepið á örnefni:

Landnám

Landnám á Reykjanesskaga.

“Þegar sagt er í veðurfregnum, að djúp og kröpp lægð sé skammt undan Reykjanesi, vita sjómenn, hvað átt er við, en í máli fréttamanna og ýmissa, sem vilja þó fræða um landið, er Reykjanes alloft allur Reykjanesskagi. Ef menn vilja virða mál sjómanna og hefðbundið mál Suðurnesjamanna, segja þeir ekki, að Keflavík sé á Reykjanesi, heldur á Suðurnesjum, og ekki, að Keilir sé á Reykjanesi, heldur á Reykjanesskaga. Ég kom eitt sinn á bæ á Suðurlandi og var settur við borð með ungri konu af næsta bæ. Hún kvaðst vera frá Reykjanesi. Þetta reyndist vera nákvæm kynning; hún var nefnilega dóttir vitavarðarhjónanna á Reykjanesi. Þar undan er Reykjanesröst, og ekkert lamb að leika við fyrir sjófarendur.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Reykjanes í merkingunni Reykjanesskagi fór að tíðkast, eftir að Reykjaneskjördæmi varð til (það var árið 1959). Þá varð svæði þess umdæmi ýmissar opinberrar starfsemi, einnar af annarri. Ég nefni aðeins dómsmál, þar sem heitið varð Héraðsdómur Reykjaness. Heitið Dómur Reykjaneshéraðs á betur við. Brátt heyrir Reykjaneskjördæmi sögunni til, og mætti það vera tækifæri til að virða betur málfar Suðurnesjamanna í tali um Reykjanes.”

Fjölmiðlafólk fer oft villu vega og tala um Reykjanes þegar fjallað er um Reykjanesskagann. Skaginn nær yfir fyrrum landnám Ingólfs, sem úthlutaði síðan vinum og vandamönnum einstök svæði, þ.a. Herjólfi, sem fékk Reykjanes.
Þá er rétt að geta þess að Suðurnes nær einungis yfir norðvestanverðan Reykjanesskaga, en ekki Skagann allan vestanverðan.

-Björn S. Stefánsson
-http://www.simnet.is/bss/oernefni02.htm

Reykjanes

Reykjanes.