Færslur

Lambafellsklofi

Gengið var frá Eldborg austan við Höskuldarvelli að Lambafelli. Ætlunin var að fara um Lambafellsklofa, misgengi og gjá svo til í gegnum fellið.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Eldborgin er ein hinna fallegu gíga á Reykjanesi, sem hafa orðið efnisflutningum að bráð. Aðrir slíkir eru t.d. Moshóll, sem Ísólfsskálavegur liggur nú þvert í gegnum sunnan Núpshlíðarhorns, Litla-Eldborg undir Geitahlíð og Rauðhóll norðn við Stampana á Reykjanesi. Einnig mætti nefna Rauðhól undir Sandfellshæðum norðan Vatnsskarðs, Óbrinnishólagíginn og Rauðhóla norðan Elliðavatns.
Ef þessi merkilegu og tignarleg jarðfræðifyrirbæri hefðu verið látin óhreyfð væri Reykjanesskaginn enn verðmætari fyrir bragðið. En því miður er nú of seint að snúa ofan af því, en hins vegar ættu þessar skemmdir að geta orðið áminning til framtíðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Um 15 mín. gangur er að Lambafellsklofa (sem sumir kalla Lambagjá). Þegar komið er að honum neðan frá opnast gjáin skyndilega og inn eftir henni sést í mjóan gang með háa hamraveggi á báðar hendur. Tófugras vex á brotabergsbörmum og þegar stillt er í veðri í ágústmánuði er gjáin venjulega full af fiðrildum.
Gengið var eftir gjánni og upp úr henni að sunnanverðu. Nokkuð bratt er upp en tiltölulega auðvelt ef rólega er farið. Uppi er fallegt útsýni yfir Dyngnahraunið og yfir að Trölladyngju (380 m.ys.). Sennilega er eitt fallegasta sjónarhornið að henni frá þessum stað.
Gengið var yfir Lambafellið, yfir úfið hraun sunnan þess og inn á jarðhitasvæði norðan Eldborgar. Þar eru hleðslur á einum stað. Munu þær eiga að vera skjól við gufubað í einu gufuuppstreyminu.

Sogin

Sogin. Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

Haldið var eftir slóða austur fyrir Trölladyngju og síðan beygt til hægri inn kvos á milli hennar og Grænudyngju. Kvosinni var fylgt upp aflíðandi hlíðina milli dyngnanna. Þegar upp var komið tók við grasi gróin skjólsæl laut, sennilega hluti af hinum forna gíg, en dyngjunar eru að mestu móbergsfjöll. Jökullinn hefur síðan sorfið sig niður milli kollana.

Sunnan Grænudyngju er einstaklega fallegt klettabelti, sem auðvelt er að ganga upp með þegar komið er upp frá Lækjarvöllum norðan Djúpavatns. Frá því er fallegt útsýni yfir Sogin, Fíflavallafjall, Hörðuvallaklof og Hörðuvelli, Hrútafell og Sveifluháls. Tiltölulega auðvelt er að ganga niður með norðanverðri Grænudyngju og í kvosina, sem fyrr var nefnd.

Sog

Í Sogum.

Gengið var áfram niður hlíðina til vesturs, að Sogaselsgíg. Fallegt útsýni er á Söðul, upp Sogin þar sem litadýrðin ræður ríkjum, yfir að fagurlituðu Oddafellinu, sem myndar þarna sérstæðan forgrunn fyrir Keili, sem og yfir að Selsvöllum vestan við Núpshlíðarháls. Í Sogunum er jarðhiti og eftir Sogadal rennur lækur. Höskuldavellir og Sóleyjarkriki eru meira og minna mynduð úr jarðvegi þaðan úr hlíðunum. Í læknum má finna litskrúðuga smásteina, hvíta, rauða og græna, ef vel er að gáð.
Í Sogaseli eru tóftir þriggja seljahúsa og a.m.k. tveir stekkir. Auk þess er ein tóft utan gígsins.
Slóða var fylgt niður með Trölladyngju og að Eldborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 2 mín.

Grænadyngja

Grænadyngja. Sogin framar.

Skyggnisrétt

Tómas Þorvaldsson, 83. ára gamall, tók á móti FERLIR í Grindavík.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Þegar var haldið að Vergötu í Járngerðarstaðahverfi með það fyrir augum að staðsetja dys Járngerðar, sbr. söguna. Gatan liggur til suðurs gegnt Garðhúsum, sem Einar kaupmaður byggði 1918.
Næsta hús að vestan er Valdabær, síðan Járngerðarstaðir og loks Vesturbær. Gamla sjávargatan lá fyrrum til suðurs frá Járngerðarstöðum, en það var samheitið á torfunni, og yfir þar sem nú er Helgavöllur. Vergatan er yfir gömlu götunni. Þar sem gatan beygir á móts við Garð, á milli Víkur og Hliðs, var Járngerður dysjuð. Í þjóðsögunni segir að dysin hafi verið einn faðmur á breidd og þrír á lengd. Hafi dysin hækkað til austurs. Framhjá henni hafi vermenn gengið til skips. Vergatan hefur verið lögð yfir dysina þarna ú beygjunni, en ef grannt er skoðað má sjá í suðvesturhorn dysjarinnar, sjávarmegin, undan veginum.

Kapella

Kapellan í Kapellulág.

Tómas sagði frá því að Skálholtssúðin hafi farist með 23 mönnum í Hróflsvíkinni (austan við Hraun) árið 1602. Hafi fólkið verið grafið við kapelluna í Kapellulág.
Þá var haldið að Virkinu. Í og við það var Grindavíkurstríðið háð árið 1532. Skærur voru með Englendingum undir forystu Jóhanns Breiða (Joen Breen) annars vegar og Hansamönnum og heimamönnum hins vegar. Enduðu þær með því að hinir síðarnefndu söfnuðu liði (um 180 – 250 manns) eina nóttina ( 10. júní) og réðust að Englendingum í Virkinu (kl. 02:00 að nóttu). Lágu um annar tugur Englendinga í valnum og þar á meðal Jóhann Breiði, sundurhöggvinn. Aðrir reyndu að flýja til skipa sinna. Fjórum enskum skipum tókst að komast frá landi, en eitt strandaði í útsiglingu og fórst þar með allri áhöfn.

Vikri Jóhanns

Tómas við leifar virkis Jóhanns breiða.

Átta Englendingar voru teknir til fanga. Hinir látnu voru dysjaðir austur undir virkisveggnum. Heitir þar nú Engelska lág. Tómas benti á lágina, sem nú er sandorpin, skeifulaga og hefur áður verið nokkurs konar dalur austan við Virkið – á milli þess og Hellanna. Virkið sjálft er nú þarna fremst á kampinum, en sjórinn hefur brotið þarna talsvert af landinu. (Sjá nánar Grindavíkurstríðið undir Fróðleikur).

Tómas sagði frá Skjöldunni, en svo nefndust hús þar sem fátækir fengu að búa vestan við Járngerðastaði. Þar eru nú hlaðin útihús frá bænum.

Grindavík

Skjalda.

Vestan við Skjölduna er graslaut, opin til suðurs. Hún heitir Geldingalaut. Þar voru folöld gelt, stundum mörg á dag. Norðan við Skjölduna er Vatnsstæðið og síðan hraunið. Uppi í því er fallegur gróinn hraunbolli, Einisdalur. Þangað fóru Grindvíkingar oft á góðvirðisdögum og tóku með sér nesti. Austar, norðan Járngerðastaða, er Bóndastekkstúnið. Á því var hlaðin rétt, Bóndastekkstúnsrétt. Hún var síðar notuð sem kartöflugarður. Norðvestan túnsins er gjáin Silfra, sem þjóðsaga er kennd við. Í gjánni á að vera silfursjóður, en þegar menn eru að því komnir að ná honum upp er eins og húsið á Járngerðarstöðum standi í björtum logum.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Norðan við Silfru liggur Skipsstígurinn í átt að fjarskiptastöðinni. Við hann er heil varða, en skammt norðan hennar er önnur fallin, á efstu brún áður en komið er að girðingunni. Hún heitir Títublaðavarða. Þaðan má vel sjá hvar stígurinn liðast innan girðingarinnar, að vörðu norðan hennar, skammt frá gatnamótum götu að Hópi. Einnig sést þaðan í Gyltustíg vestast í sunnanverðum Þorbirni.

Hraunstekkir eru austan við Gerðisvallabrunna. Sunnan við þá er hlaðinn stekkur og tótt undir grónum hól. Þar voru lömbin höfð um vorið þegar ærnar voru reknar í sel innan við Þorbjörn (Baðsvallasel).

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðisvöllum.

Haldið var að Gerðisvallabrunnum að vestan. Þar má sjá vörðu á hægri hönd. Hún stendur við gamla þjóðleið út að Húsatóttum. Sést vel móta fyrir gömlu götunni við vörðuna. Beint niður frá henni, á sjávarkampinum er Markhóll, landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða. Vestar er Stekkhóll. Gamall stekkur er vestan í hólnum, nú að mestu jarðlægur. Þá er komið að Hrafnagjá. Austan hennar eru garðar hlaðnir í ferkantað gerði. Þar er Junkaragerði. Þýskir og heimamenn áttu í gerðinu með sér marga glettuna fyrr á öldum. Innan þess má sjá gamlar tóttir. Eftir að Englendingar höfðu verið hraktir frá Grindavík sátu Hansamenn nánast einir að verslun við Íslendinga um sjö áratuga skeið, eða þangað til Danir tóku að sauma að þeim og einokuðu verslunina. Líklegt má telja að Hansamenn hafi sest að þarna í búðum Englendinga eftir að þeir voru flæmdir á brott.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli – söguslóðir Grindavíkurstríðsins 1532.

Gerðið sést vel og gaman er að ganga um svæðið með hliðsjón af sögunni. Junkarar bönnuðu t.d. heimamönnum að fara inn fyrir gerðið á meðan þeir voru í róðrum, en þeir læddust nú samt þar inn fyrir og náðu sér í ýmislegt nýtanlegt. Junkarar reyndu að hefna sín á Grindvíkingum, en þeir svöruðu fyrir sig með því að saga í sundur árar, gera gat á báta o.s.frv.

Utar á kampinum er rétt, Skyggnisrétt á Skyggni. Í hana voru trippi rekin á vorin og þau klippt áður en þau voru rekin upp á Selsvelli. Vestar eru Hásteinar. Víkin útaf Skyggni, undan Gerðisvallabrunnum, heitir Stórabót.
Frábært veður.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Vigdísarvellir

Haldið var að Herdísarvík. Fengist höfðu greinargóðar upplýsingar um týndan helli þar austan við, en hann á að ná frá Breiðabás upp í mitt Mosaskarð í Herdísarvíkurfjalli. Ef það reynist rétt gæti hellirinn verið um 800 metra langur. Sagnir eru til um að vinnumaður í Herdísarvík hafi eitt sinn farið inn í hellinn og en villst þar inni í sjö klukkustundir.

Þorkell Kristmundsson

Þorkell Kristmundsson við Breiðabás í Herdísarvík.

Tekin voru mið af lýsingunni (Klofaklettur í Hamragerði). Viti menn. FERLIRsfólkð gekk svo til beint að opinu. Á svæðinu er mörg op, en einungis tvö þeirra virðast fela slungnar rásir. Fyrst var farið inn í rás, sem lokaðist eftir 20. metra. Ofan í rásina hafði fallið grjót, sem auðvelt ætti að vera að forfæra. Innan við það heldur rásin áfram. Þegar farið var inn í Breiðabáshelli varð að ganga boginn til að byrja með. Síðan hækkaði rásin. Þá var komið að litlu opi. Innan við það heldur rásin greinilega áfram upp undir hraunið.

Klofaklettur

Klofaklettur.

Einnig eru rásir til hægri og vinstri. Ekki var lagt í langferð að þessu sinni. Hún mun bíða betri tíma. Ef hellirinn er eins og lýst hefur verið gæti hann verið meiriháttar. Einn maður er á lífi, sem farið hefur inn í hellinn, en hann komst ekki langt því það slokknaði á kerti, sem hann var með svo hann varð að snúa við, rataði ekki út aftur, en komst loks upp um þröngt gat í hrauninu. Ætlunin er að fara fljótlega aftur á staðinn með það að markmiði að skoða allan hellinn.
Í leiðinni var skoðaður fjárhellir vestan við Breiðabás. Um er að ræða stóra hraunbólu. Engar hleðslur eru inni í henni.

Vigdísarvellir

Fjárskjól sunnan Vigdísarvalla.

Þá var haldið að Vigdísarvöllum. Á leiðinni var tekið mið af réttinni í Stóra-Hamradal og síðan stöðvað við fjárskjól undir Ögmundahraunsgígum. Hleðslur eru fyrir opi og bekkur inn eftir honum miðjum. Guðmundur Hannesson, bóndi á Bala, sá hinn sami og hlóð Gvendarborg á Vatnsleysuheiði og síðar bjó á Ísólfsskála, gerði hleðslur þessar fyrir fjárhellinn.
Skoðaðar voru tóttirnar á Vigdísarvöllum, en vellirnir sjálfir eru þarna skammt sunnar. Upp frá bænum gengur Bæjargil milli Núpshlíðarháls og Bæjarfells. Austan við Bæjarfell, samtengt, er Vigdísar[valla]háls.

Bali

Bali.

Sunnan undir honum eru tóttir bæjarins Bala. Eftir að hafa skoðað þær var haldið að rétt norðaustan við hálsinn. Þær eru að hluta til hlaðnar utan á náttúrlegan vegg og að hluta til girðingaréttir. Þaðan var haldið yfir að Sveifluhálsi, gengið upp hálsinn eftir Hettustíg. Hann er ruddur upp hlíðina og efst á hálsinum er grópað í bergið eftir hófa, fætur og klaufir. Gengið var suður eftir Bleikinsdal, sem er grasi gróinn og niður að gígaröð austan Vigdísavalla. Þar var komið við í miklu jarðfalli. Rás gæti leynst sunnan í jarðfallinu. Frá henni var gengið yfir að tóttum Vigdísarvalla þar sem uppdekkað kaffihlaðborð beið göngufólks.

Frábært veður.
Vigdísarvellir

Fjárskjólshraun

Neðsti hluti Bálkahellis hefur verið mældur. Hellirinn er nánast flatur, eða með um 1-2° halla og mæld lengd var um 220m.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Að því loknu var gengið sem leið lá, beint frá Bálkahelli, niður að sjó, en á þeirri leið fundust engin op. En þegar fari var að skoða hraunstraumana austan við Bálkahelli, allt frá strönd og upp að vegi, fóru hlutirnar að gerast. Ekki hafði verið gengið lengi þegar komið var að tveimur opum, ekki mjög stórum en opum samt. Létt skönnun á opunum leiddi í ljós að hér var um helli að ræða. Til að gera langa sögu stutta þá fundust ein sjö svæði með hellum. Mörg þessa svæði hafa fleiri en eitt op og allflest eru mjög álitleg hellafræðilega séð.
Á neðsta svæðinu voru tvö op, annað er þröngt og hrjúft, en hitt meira vænlegt.

Fjárskjólshraunshellir

Fjárskjólshraunshellir.

Á næsta svæði voru átta inngangar fundust, margir litlir, en kerfið sem slíkt er mjög álitlegt.
Næst fannst einn inngangur.
Þá lítið op og alveg ókannað.
Á öðrum stað var einn inngangur.
Á þeim næsta voru a.m.k. 5 inngangar. Margir mjög álitlegir hellar.
Og loks fannst lítið op, alveg ókannað, en á svæðinu sáust margar yfirborðsrásir sem gætu legið eitthvað inn.
Hér er um að ræða svæði, sem þarf að skoða gaumgæfilega. Rétt er að geta þess að FERLIR fann fyrir skömmu helli á þessu svæði í grónu jarðfalli. Með lagni var hægt að komast ofan í og bak við rásina. Þar opnaðist falleg rás, algerlega heil. Stutt litskrúðug hliðarrás var í henni til hægri. Við enda aðallrásarinnar var myndarlegur “öfugur” hraunfoss, þ.e. hann virtist koma upp úr gólfinu og myndaði það storknaðan hraungúl. Myndræn bergmyndun, sem fáir hafa barið augum.

Fjárskjólshraun

Hellir í Fjárskjólshrauni.

Brennisteinsfjöll

Gengið var upp Selvogsgötuna um Kerlingaskarð.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.

Áður en komið var efst í skarðið var beygt til austurs að tótt brennisteinsmanna undir hlíðinni. Enn sést móta vel fyrir hleðslum umhverfis húsið, sem þar var. Efst í skarðinu var staðnæmst við drykkjarsteininn, sem er vinstra megin við stíginn. Skálin var full af tæru vatni. Ofan skarðsins var beygt til vesturs ofan Tinda og haldið inn eftir sléttu helluhrauni Stórkonugígs norðan Draugahlíða. Á móti blasti Draugahlíðagígurinn, en rauði liturinn utan á honum gerir hann frábrugðinn öðrum gígum, sem eru fjölmargir, á svæðinu. Vatn er í gíg á hálsinum vestan Stórkonugígs. Gengið var niður hann að vestanverðu, eftir sléttum dal norðan hálsanna þar sem brennisteinsnámurnar eru sunnan undir.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Fast undir þeim að sunnanverðu eru tóttir af húsi námumanna. Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin var um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Þegar komið var í hallann upp að Kistufelli var byrjað að leita að niðurföllum, sem þar áttu að vera. Í ljós komu þrjú op á stórri rás, sem lá NV-SA í brekkunni. Rás er upp í fyrsta opið, en þó ekki nema um 5 metra löng.

Kistufellshellar

Einn Kistfellshellanna.

Þriðja opið er stærst. Niður úr því liggur stór rás, en mikið hrun er í henni. Hún endar í hruni eftir um 20 metra. Í neðsta opinu er einnig rás niður á við, um 15 metra löng. Hún virðist lokast í hurni. Alls virðist rásin vera vel á annað hundrað metra á lengd. Engin merki voru í rásinni.
Skoðaður var hellir norðaustan við Kistufellsgíg. Þar eru nokkar lágar rásir, en ein virtist þeirra stærst. Hún lofaði góðu, en lokaðist stuttu síðar.
Jarðföllin norðvestan við Kistufell voru skoðuð næst. Um er að ræða gríðarstóra katla. Í nokkrum þeirra eru hellar (geimar) og rásir. Í þeim geimum, sem kíkt var inn í, var merki HERFÍ. Á þeim stóð, auk nr. hellanna, “Hér voru á ferð Björn Símonarson og Sverrir P. Símonarson, 30. 08. 1997”.

Kistufell

Jökulgeymir í Kistufellshrauni.

KST-1, sem fékk staðarnafnið “Ískjallarinn”, er í vesturenda efsta jarðfallsins, sem hellar eru í. Gatið liggur um 10 metra niður á við. Hægt er að komast ofan í hellinn með því að fara vinstra megin niður með niðurfallinu og þaðan af stórum steini á botninn. Rásin þar niður í er um 15 metra löng. Á leiðinni þarf að fara yfir ísfoss og síðan niður ísbrekku. Gæta þarf varúðar.
KST-2 fékk viðurnafnið “Jökulgeimur”. Þegar komið er niður í geiminn blasir ísgólf við. Það fyllir gólfið á milli veggja. Dropar falla úr loftinu og hafa þeir mótað bolla í ísinn. Bollarnir eru fullir af vatni og myndar samspil dropanna hljómkviðu í hellinum. Undir niðri heyrist í læk, sem rennur undir ísnum. Um 15 metrar eru á milli veggja og lofthæðin er mikil. Innar í hellinum er talsvert hrun. Inni á milli í hruninu eru glærir ísklumpar. Þegar komið er yfir hrunið tekur við rás áfram. Í henni er einnig allnokkur ís. Innst í hellinum er fallegur rauður litur í lofti. Alls er þessi hellir um 60 metra langur.

Brennisteinsfjöll

Hellisop í Brennisteinsfjöllum.

KST-3 var nefndur “Kistufellsgeimur”. Um er að ræða vítt gat í nýlegra hruni í minna jarðfalli ofan við eldra og stærra jarðfall. Þegar komið er inn og niður er komið í stóra hvelfingu.
KST-4 fékk nefnuna “Loftgeimur. Nafngiftirnar eru aðallega skráningarlegs eðlis m.t.t. GPS-punkta. Hellirinn er austan í miklu jarðfalli. Opið er stórt, en innan við það hefur loftið fallið í einu lagi ofan á hellisgólfið. Innar er grágrýtisgeimir. Hellirinn er ekki nema um 20 metrar.
Norðvestan við jarðföllin er mikil fallin hraunrás. Yfir hana liggur breið steinbrú. Greinilegt er að fallið hefur nýlega úr steinbrúnni beggja vegna. Í rásinni eru einnig mikil jarðföll og höft á milli. Stór op eru sumstaðar, en hellarnir eru stuttir. Þeir lokast yfirleitt með hruni. Gjá þessi er allöng og endar þar sem helluhraun hefur runnið í enda hennar þar sem hún er opin á móti nýja hrauninu.

Brennisteinsfjöll

Einn Kistufellshellanna.

Skammt austan við þessa miklu hraunrás eru nokkur op á rásum. Kíkt var inn um eitt opið, sem nýlega virtist hafa fallið niður. Hellirinn var nefndur Nýhruni, en þessi hluti hans var stuttur. Hann lokaðist í hruni eftir einungis nokkra metra. Hins vegar má sjá hraunrásina liggja áfram til austurs og á þeirri leið eru allnokkur op.
Norðan við Kistufell er alllöng gróin hraunrás. Víða í henni eru op og hellar innundir. Síðast er FERLIR var á ferð á þessum slóðum var gengið fram á a.m.k. tvö göt í hrauninu norðan við þessa grónu rás. Götin voru u.þ.b. 2-3 metrar í þvermál og virtust um 12-15 metra djúp.

Brennisteinsfjöll

Einn Kistufellshraunshellanna.

Opið var þrengst og vítkuðu rásirnar niður. Snjór var í botninum á annarri þeirra. Þessi op sáust ekki fyrr komið var alveg að þeim. Þau urðu á vegi FERLIRs þegar gengið var frá Kerlingagili með beina stefnu á skarðið vestan við austustu hæðina norðan Kistufellsgíg. Þau eru ekki allfjarri brún hinnar nefndu hraunrásar. Opin fundust ekki að þessu sinni, en ætlunin er að ganga síðar sömu leið og fyrrum til að freista þess að finna þau aftur.
Skoðaðir voru á annan tug hella á Kistufellssvæðinu, en enginn var þó öðrum fremri.
Á leiðinni til baka var gengið yfir mikla hraunrás er lá til norðvesturs. Hún var um 10 metra breið og um átta metra há, slétt og gróin í botninn. Hvergi virtist vera þak á þessari rás.
Gengið var ofan hamrana í átt að Hvirfli, síðan niður í dalina og til baka ofan Draugahlíða. Í stað þess að fara niður Grindarskörð var farið niður skarðið vestan Grindarskarðstinda og síðan niður dalinn norðan þeirra. Það er mjög falleg leið. Þrjár rjúpur.
Gengið var tæplega 15 kílómetra. Veður var með ágætum – logn og hlýtt.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Snorri

Gengið var í þoku upp girðingaveg á mótum Árnessýslu og Gullbringusýslu við Sýslustein.

Slóðaketill

Við Slóðaketil.

Veður var að öðru leyti milt og hlýtt. Í miðri hraunhlíð var litið ofan í hraunketil, sem nefndur hefur verið Slóðaketill. Ofan í honum er um 6 metra gat virðist hraunrás liggja þar inn undir. Rás þessa þarf að skoða betur síðar. Slóðanum var fylgt upp á hraunbrúnina og áfram upp grónar hlíðar melhóla uns komið var á efstu brún. Inni í þokunni í austur eru Sandfjöllin og fjær Vesturás og Austurás. Í suðaustur er Herdísarvíkurfjallið og í góðu skyggni sést þaðan inn yfir Svörtubjörg og alveg að Hnúkum. Í suðvestri eru Æsubúðir á Geitahlíð. Í vestri er Sveifluhálsinn, en nær má sjá gíga, bæði austan í Geitahlíð og eins ofan við Kálfadalahraunið, sem rann þarna til vesturs ofan í Kálfadalina. Þar liggur slóðinn til norðurs inn á hraunbreiðu, en beygir fljótlega til vesturs. Vinstra megin er fallegur hraungígur.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufell framundan.

Áð var þegar komið var út úr hrauninu eftir tæplega klukkustundar gang. Þar í austur á að vera hægt að sjá Vörðufell og inn að Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Austan við Vörðufell er Eldborgin, röð fallegra hraungíga og mikilla hraunrása. Þar vestan við rann Hvammadalshraun niður í Hvammadal austan Kleifavatns. Í suðurjaðri þess er m.a. Gullbringuhellir.
Hraunkantinum var fylgt til suðurs. Austan við hraungíga Kálfadalshrauns var haldið til suðsuðausturs inn á mosahraunið og þar fylgt háum hraunkanti á hægri hönd. Þegar komið var út úr hrauninu var komið í gróið hraun úr eldborgunum austan Geitahlíðar. Þeim kanti var fylgt til suðausturs þangað til hann mætti eysti hluta Geitarhlíðar. Þar rann hluti gróna hraunsins niður svonefndan Sláttudal, á milli hlíða. Hallar þar undan til suðurs. Hlíðin er nokkuð brött efst, en jafnar sig fljótlega. Neðar er hraunið mjög gróið. Hamrar eru á vinstri hönd og mikil hraunrás á þá hægri.

Slóðaketill

Slóðaketill.

Þegar komið er niður á þjóðveginn er hlaðið hrossaskjól undir hraunkantinum handan hans. Þar var áð uns haldið var að bílunum. Eða eins og einn þátttakenda sagði þegar niður var komið:
“Flestum þykir eigi miður,
komin niður,
um gil,
sem reyndar virtist ekki til
og að hafa sloppið heil,
um geil,
í fjalli
úr margra alda gömlu gjalli.
Þokan reyndist óvenjuþétt,
en gangan létt,
enda vanir menn,
sem þekkja og rata þetta enn.
Förum síðar aftur sömu leið,
gatan er greið.”

Gangan var um 7.7 km og tók um 3 klst. Ætlunin er að fara aftur upp girðingaslóðann, yfir hraunið ofan melhólanna og fylgja síðan hraunkantinum til austurs, í stað vesturs eins og nú var gert, og koma niður við suðaustanvert Kleifarvatn, þar sem bílar munu bíða göngufólks. Sú ganga mun líklega taka um 4 klst, en á þessu svæði er hægt að líta eitt mikilfengslegasta eldgosasvæði landsins.
Frábært veður.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Slóðaketill

Farið var aftur inn í hraunið austan Geitahlíðar til að leita að Snorra, jarðfalli sem upplýsingar höfðu fengist um að ætti að vera þar inni í hrauninu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Smali hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á mikið jarðfall, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.

Snorri

Á leið í Snorra.

Svarta þoka var á fjallinu þegar að var komið, en milt veður. Haldið var fyrst í um kílómetra til vesturs yfir hraunið, að brún Kálfadalahraunsins, síðan til suðausturs og loks til austurs. Jarðskálftinn 17. júní árið 2000 hafði greinilega leikið hraunhólana þarna illa. Margir þeirra voru klofnir, aðrir maskaðir. Ekki er ólíklegt að seinni skjálftinn þennan dag hafi átt upptök sín einhvers staðar þarna undir hrauninu. Þegar um 500 metrar voru eftir í vestari melhólinn birtist jarðfallið fyrirvaralaust framundan, djúpt og mikið um sig. Steinboginn var fallinn niður í jarðfallið, en hann hefur verið nokkuð stór.

Snorri

Leitin að Snorra.

Gríðarlegt gat var inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir voru sléttir og virtist rásin hafa verið nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”. Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu. Þá var farið inn í eystri rásina, sem eiginlega liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Á leiðinni til baka var aftur litið á Slóðaketilinn austan Geitahlíðar. Ekki verður hjá því komist að nota stiga til að komast ofan í neðri rásina í katlinum sjálfum til að kanna hvort og hversu löng neðri rásin kann að vera.
(Framhald í annarri lýsingu – Snorri sigraður – óvæntur fundur).

Snorri

Snorri – kort.

Óbrennishólmi

Gengið var frá Ísólfsskálavegi til austurs vestan við Lat.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

Gengið er yfir úfið mosahraun og inn á stíg er liggur áfram til austurs sunnan við Latshornið. Skammt austan við hornið, þar sem úfna hrauninu sleppir liggur hraunbakki til suðurs. Ef honum er fylgt spölkorn er komið að fallegum dyrahleðslum fyrir skúta. Hurðarhellan stendur enn vinstra megin við dyrnar. Inni má sjá mannvistaleifar. Á skútanum er op og hlaðið í kringum það. Líklegt er talið að skútinn hafi verið notaður sem sæluhús á ferðum manna um stíginn frá Húshólma, ofan Seltanga, að Ísólfsskála og áfram, annað hvort norður um Sandakraveg að Skógfellastíg eða til Grindavíkur. Þá gæti hann einnig hafa verið notaður af vegagerðarmönnum er lögðu Ísólfsskálaveginn á sínum tíma. Sæluhús þetta er fáum kunnugt.

Óbrennishólmi

Fjárborg (virki) í Óbrennishólma.

Tiltölulega stutt er í Óbrennishólmann, þangað sem ferðinni var heitið. Hægt er að ganga inn í hólmann vestast í honum eða fylga stígnum uns komið er að þvergötu til vinstri. Hún liggur í gegnum hraunið og inn í suðaustanverðan hólmann.

Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Erfitt er að mynda hringinn vegna afstöðu hans á hólnum. Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er önnur minni fjárborg. Einnig gæti þarna hafa verið um topphlaðið hús að ræða að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum.  Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess.
Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu skammt, neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma.

Arnarhæð

Arnarhreiður á Arnarhæð í Ögmundarhrauni.

Ögmundarhraun, sem umlykur Óbrennishólma, kom úr gígaröðum austan í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Það hefur runnið til suðurs á milli Latfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells – allt niður í sjó – og gjörbreytt ströndinni. Hefur hraunið runnið yfir bæ, eða bæi, og önnur mannvirki sem þarna voru. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa þá væntanlega staðið hátt í landinu, en hraunið runnið með hlíðum og lægðum. Eldra hraunið inni í Óbrennishólma og Húshólma hefu runnið áður en Ögmundarhraun rann. Virðist það hafa komið úr gígaröð suðaustur af Krýsuvíkur-Mælifelli.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði einn gíginn þar, einn þann merkilegasta hér á landi, en sá hefur nú að mestu verið eyðilagður vegna efnistöku.
Sagnir eru til um að á þessu svæði hafi verið blómleg byggð áður en Ögmundarhraun rann um 1150. Ströndin hafi verið lík og nú er á Selatöngum, neðan við Húshólma og við Skála. Þar hafi verið góð lending og kjörstaða, bæði til lands og sjávar.

Veður var með ágætum – hlýtt og lygnt. Gangan tók 2 klst og 43 mín.

Óbrennisbruni

Forn garður í Óbrennisbruna.

Brúnavörður

Ætlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því. Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir hólmann, eins og ein tillagan af þremur kvað á um.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Með í för var m.a. hinn áhugasami bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns, litið á gróið gerði utan í hrauninu og síðan haldið yfir í hólmann eftir Húshólmastíg. Skoðaðar voru hleðslur í norðausturhluta hólmans þar sem fé hefur haldið til haga, gróið gerði og forn fjárborg. Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestur verið úr torfi. Þá var haldið að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vestur inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt hann á kafla. Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála, auk þess sem komið verður við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem rann 1151. Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera eldri en norrænt landnám hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Að minnsta kosti er hér um að ræða einar “verðmætustu” fornleifar hér á landi. Í skálanum mátti til dæmis sjá holur eftir miðstoðir (stoðarholur). Bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg og síðan gengið út á Kirkjulágina, skoðaður þvergarður þar sem og jarðlægt gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðina syðst í hólmanum, á rekagötuna niður að Hólmasundi og síðan gengin sjávargatan út úr hólmanum til austurs. Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring.
Frábært veður.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/

Húshellir

Eftirfarandi er tekið af vef Hellarannsóknarfélagsins eftir ferð í Ginið:

Ginið

Ginið.

“Eftir fund Ginsins hafa félagar í HERFÍ iðað í skinninu og beðið þess að berja undrið augum. Af þessu varð í dag.
Föngulegur hópur hellaáhugamanna, undir leiðsögn FERLIRs, þrammaði um Hrútagjárdyngjuna með það eitt að markmiði að skoða 2 “nýja” hella og einn vel þekktan. Fyrsta stoppið var við sprungu sem liggur rétt sunnan við Dyngjuna sjálfa. Hér er á ferð þröng sprunga (engar bjórvambir leifðar í þessum) sem liggur um 10-15m niður í hraunið. Það merkilega við þessa sprungu er að bráðið hraun hefur fundið sér farveg í sprungunni og myndað fossa, kvikutauma og 8-10cm kvikuhúð um alla sprunguna. Þessi kvikuhúð er sumstaðar laus eða að losna og er því nauðsynlegt að vera með hjálm og passa vel upp á hrun. James, Jakob og Fernando skriðu niður og fullkönnuðu alla afkima hellisins. Hann heldur áfram bæði að ofan og neðan, en vegna þess að við erum allir komnir á gamals aldur og búnir að ná fullri stærð þá tókst okkur ekki að troða ofvöxnum líkömum okkar áfram.

Húshellir

Í Húshelli.

Á leiðinni í Ginið stoppuðum við í Húshelli. Eftir að hafa skoðað hleðslunar í Húshelli og beinin héldum við yfir hraunið og út í auðnina. Hraunið hér er slétt helluhraun, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við okkur og öskraði á okkur “komið niður”. Þó við höfum verið allar að vilja gerðir þá gafst ekki tími til að skoða undrið því við höfðum aðeins 30 mín eftir af dagsbirtu og héldum því fljótlega niður að bílunum. Hellirinn er um 15 m djúpur og snjór er í botninum. Varla sést marka fyrir gjalli eða kleprum á yfirborði og því er hér um að ræða 15 m niðurfall sem birtist í hrauninu eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Þetta op verður næsta viðfangsefni HERFÍ – jafnvel þó að ekkert sé þarna niðri er þetta eflaust “töff” hellafundur.”

Ginið

Ginið.