Færslur

Járngerðarstaðir

Skoðað var þyrnasvæðið (þistilssvæðið) við Sjólyst í Grindavík. Sagan segir að (blóð-)þyrnir hafi vaxið þar sem blóð heiðinna (Tyrkja) og kristinna (Grindvíkinga) blandaðist en alkunna er að heiðingjarnir réðust á þorpið friðsæla anno 1627.

Grindavík

Blóðþyrnir í Grindavík.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. um Tyrkina í Grindavík “En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”
Því hefur löngum verið haldið fram að þessi þyrnir vaxi einungis að tveimur stöðum á landinu, þ.e. í Grindavík og á Djúpavogi,þar sem Tyrkirnir stigu einnig á land og rændu fólki. Raunin er hins vegar sú að þyrnir þessi vex núorðið víðar, t.d. í Elliðaárdal.
Lítið er eftir af þyrnasvæðinu í Grindavík. Það er nú einungis á litlu svæði við gatnamótin neðan við Sjólyst, skammt ofan við gömlu Einarsbúðina. Hestur hefur verið beitt á svæðið, en þótt þeir reyni ekki að leggja sér þyrnana til kjafts þá hafa þeir náð að traðka þá niður innan girðingarinnar. Svo er að sjá sem Grindvíkingar séu svo naumir með bitbletti að þörf sé að nýta þennan eina bleðil, sem sagnfræðilega merkilegan og frómum áhugaverðan má telja á þessu svæði. Það hefur reyndar lengi loðað við heimamenn hversu notadrjúgir þeir þyki um nýtingu gróðurbletta, jafnvel þótt þeir tilheyri öðrum en þeim sjálfum.
Nokkrir þyrnar ecru enn næst veginum og í jöðrum girðingarinnar á þessu annars litla svæði. Mikilvægt er að huga vel að þessu svæði, ekki einungis sögunnar vegna, heldur og jurtarinnar.

Grindavík

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Gengið var með gömlu húsunum ofan við bryggjuna og rifjuð upp saga sjósóknar og sjóslysa fyrri tíma, bæði á Járngerðarstaðarsundi og Þórkötlustaðasundi. Þá var haldið í rólegheitum yfir á Hópsnes og gengið með ströndinni, skoðaðir gamlir þurrkgarðar og staldrað við hjá Hópsvita, sem reyndar er innan landamerkja Þórkötlustaða, og síðan haldið að gömlu bryggjunni á sunnanverðu nesinu. Bryggjan var steypt um 1930, en velar voru fyrst settar í árabáta Grindvíkinga um 1927. Mikil umsvif voru þarna fyrir ofan og utan með, s.s. lifrabræðsla og íshús, auk ískofa, fiskibyrgja og þurrkgarða er liggja þvers og kurs á grónu hrauninu ofan við bryggjuna. Pétur Guðjónsson, skipstjóri, sem fæddur var í Nesinu, lýsir ágætlega mannlífinu þar á þessum árum í Sjómannablaði Grindavíkur árið 2003. Notkun bryggjunnar og aðstöðunnar í Nesi lagðist fljótlega af eftir að opnað var inn í Hópið í Járngerðarstaðarhverfi og bryggja reist í lóninu, á núverandi hafnarsvæði.
Fornminjarnar á Þórkötlustaðanesi hafa naumt verið skráðar. Þarna eru t.d. fiskbyrgi og þurrkgarðar frá fyrri öldum í Strýthólahrauni og auk þess manngerður hóll eða haugur, sem lítt eða ekkert hefur verið rannsakaður.
Loks var gengið um Herdísarvík og yfir Kónga áður en haldið var vestur yfir nesið á ný.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Sundhnúkur

Gengið var um Svartsengi og með Svartsengisfelli að Sundhnúk. Sást vel hvernig hraunið hefur komi upp úr suðuröxl Svartsengisfels og runnið bæði til austurs og vesturs.
Vesturræman sést mjög vel frá Orkuverinu í Svartsengi þar sem það kemur sem foss niður vesturhlíð fellsins, ekki ólíkt því sem gerðist í Kálfadölum norðan Vegghamra.

Norðan Sundhnúks er Sundhnúkagígaröðin að segja má ósnert. Gígarnir mynda röð út frá Sundhnúk og er hið mikla hraun vestan við þá runnið úr þeim, niður í Svartsengi. Auðvelt er að ganga upp að Gálgaklettum sunnan Sundhnúks. Gálgakletta er getið í þjóðsögunni um Ræningjana í Ræningjagjá (Þjófagjá) í Þorbjarnarfelli, handtöku þeirra á Baðsvöllum norðan fellsins og aftöku þeirra í klettunum. Þá var gengið upp á Svartsengisfell, er nefnist Sýlingafell frá sjó. Þaðan er ágætt útsýni yfir umhverfið, m.a. yfir að Gálgaklettum og Hagafelli í suðri og Húsafell, Fiskidalsfjall, Festisfjall, Hrafnshlíð (Siglubergsháls) og Fagradalsfjall í austri. Í toppi fjallsins er allstór gígur. Haldið var niður norðurhlíð Svartsengisfells ofan við Svartsengi þar sem fjölmennir dansleikir voru haldnir hér áður fyrr. Sagan segir að engið heiti eftir Svarti, hrúti Molda-Gnúps, þess er fyrstur nam land í Grindavík (að því að talið er).
Sundhnúksröðin er á náttúruminjaskrá, þ.e. Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól í vestur að hraunkantinum sunnan Þorbjarnarfells, með honum vestur og norður fyrir fellið, að háspennulínu sem er u.þ.b. 200 m vestan þjóðvegar. Mörkin fylgja síðan línunni til norðurs að stað 2 km norðan Arnarseturs og þaðan austur í horn landamerkjalínu við norðausturhorn Litla-Skógfells, síðan beina línu sem hugsast dregin til norðausturs í Kálffell. Þaðan liggja mörkin í Fagradals-Vatnsfell og því næst um beina línu sem dregin er til suðvesturs um Fagradalsfjall, Sandhól, Vatnsheiði og að lokum í Melhól. Í heildina er tæplega 9 km löng gígaröð kennd við Sundhnúk.
Fallegar hrauntraðir eru í suðvesturhlíð Hagafells, en Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni. Skammt austar er Vatnsheiðin, þrjár dyngjur, en úr þeim rann t.d. það hraun er nú myndar Þórkötlustaðanesið/Hópsnesið. Í því miðju er stór og mikil hrauntröð. Ein dyngjanna, sú syðsta, opnaðist er jarðýtu var ekið um hann. Nefnist opið nú K9. Stiga þarf til að komast niður um gígopið, en fróðlegt væri að fara þangað niður og skoða hvað er í boði þar niðri.
Arnarseturshraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík.
Suðvesturlandið einkennist af Reykjanesskaganum, en það er hér sem Atlantshafshryggurinn gengur á land. Mikið af hraunum eru á Reykjanesskaganum, sem bera vott um hina miklu eldvirkni. Atlantshafshryggurinn gengur í gegnum mitt landið og heitir hér Reykjaneshryggur, en fyrir norðan land nefnist hann Kolbeinseyjarhryggur. Þetta undur heimsins hefur mótað Ísland, ýtt Ameríku frá Afríku og um leið myndað Atlantshafið. Ísland stendur á flekaskilum en vesturhluti landsins tilheyrir Ameríkuflekanum, en austurhlutinn Evrasíuflekanum. Sumir vilja halda því fram að Grindvíkingar fylgi Evrópuhlutanum, en Keflvíkingar fylgi Ameríkuhlutanum.
Í Svartsengi, þarna skammt frá, er orkuver Hitaveitu Suðurnesja á háhitasvæði sem nýtir heitan jarðsjó. Í þessum jarðsjó er mikið um efnaupplausnir sem tæra málma og því er honum ekki veitt beint inn á veitukerfin, heldur látin hita upp ferskt vatn fyrir veituna í varmaskiptum. Við þetta fellur til mikill jarðsjór sem streymir út í hraunið og myndar Bláa Lónið, sem frægt er sem heilsubað fyrir fólk með húðsjúkdóma. Svífandi kísilagnir og fleiri efni eru ástæða þess að vatnið litast blátt.
Á Reykjanesi er einnig annað háhitasvæði sem er vestur undir Skálafelli og svokölluðum Stömpum sem brunnu fyrir yfir 1000 árum. Bjarmar jarðeldsins lýstu upp haf og land, en talið er að slíkt muni gerast aftur þó ekki sé hægt að segja til um tímsetningu.
Í ferðinni gaf Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja, ágætt yfirlit yfir jarðsögu Svartsengis, tilurð og þróun orkuvers Hitaveitunnar. Fram kom m.a. í máli hans að undir hraununum er gífurlegt vatnsmagn, undir því er mikið magn sjávar er seitlast hefur inn undir bergið. Ferska vatnið flýtur ofan á og því hefur verið dælt upp til neyslu og heitavatnsnotkunar. Gufan, um 240 °C heit, sem kemur fram er vatnið minnkar og leitar jafnvægis, er notuð til að hita kalda vatnið. Hún kemur um 160°C heit inn í orkuverið þar sem súrefnið og óæskileg efni eru unnin úr vatninu áður en það er leitt hæfilega heitt inn í hús neytenda á Suðurnesjum.
Æðar og sprungur í jarðskorpunni eru nokkurs konar svitaholur jarðar og út um þær leitar gufa og glóandi hraun er þannig stendur á. Eina slíka „svitaholu“ má sjá í toppi Svartengisfells og aðrar í Sundhnúkagígaröðinni, þarna skammt frá.
Fram kom í máli Alberts að við uppbyggingu orkuversins hafi mikil reynsla orðið til, m.ö.o. mörg mistök verið gerð er takast þurfti á við ný og óvænt vandamál, en án þeirra hefði ekki orðið nein þróun. Neysluvatnsnýtingin hafi þróast í heitavatnsnýtingu, hún í raforkunýtingu og heilsunýtingu og enn biðu ónýttir möguleikar, s.s. varðandi nýtingu umframorku og affalls, t.d. til líftækniðnaðar, vetnisiðnaðar og súrefnisiðnaðar. Affallsvarma væri t.d. hæg að nota til að hita upp golfvöll eða annað er þurfa þykir. Miklu máli skiptir að menn séu frjóir í hugsun er kemur að hugsanlegri nýtingu þess ónýtta. Ljóst væri að við Reykjanesvirkjunina væri um 100 sinnum meiri vandamál að etja en þá sem fyrir er í Svartsengi, m.a. vegna útfellinga og sjávarseltu.
Albert taldi miklar framfarir hafa orðið í viðhorfi virkjunaraðila til umhverfismála. Nú væri jafnan reynt að samræma sjónarmið verndunar og nýtingar s.s. kostur væri. Umhverfi orkuversins bæri þess glöggt merki.
„Með Alberti fer maðr með reynslu“, hefði Molda-Gnúpur sagt ef hann hefði verið uppi nú á dögum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Staðarhverfi

Á miðöldum og fram á 20. öld voru bændur og búalið langfjölmennustu stéttir hér á landi. Engar borgir né þorp svo heitið gæti voru hér fyrr en kom fram á 19. öld. Um 1850 voru íbúar í Reykjavík rúmlega 1000 og rúmlega 300 hundruð í Hafnarfirði. Landbúnaður og sjósókn voru aðalatvinnugreinar. Fram um 1400 var vaðmálið aðalútflutningsvaran en upp frá því lengi vel skreið og lýsi og dálítið af brennisteini til púðurgerðar.

Fiskbyrgi

Fiskbyrgi ofan Húsatófta.

Árið 1271 voru gömlu þjóðveldislögin, Grágás, felld úr gildi en ný lögbók, Járnsíða, lögtekin. Endurbætt útgáfa, Jónsbók, var svo lögtekin 1280-1281 þótt refsiákvæði hennar þættu ströng og gilti hún hér á landi öldum saman.
Refsingar á þjóðveldisöld voru þrenns konar: Útlegð, þ.e. sekt. Fjörbaugsgarður, þ.e. þriggja ára útlegð úr landinu. Skóggangur, þ.e. ævilöng útlegð og útskúfun.
Þessar refsingar voru niður felldar með nýjum lögum nema sektirnar en í staðinn komu líflátsrefsingar, húðlát og brennimerkingar. Jarlsembættið, sem hér var stofnað, hvarf fljótt úr sögunni en við tók embætti hirðstjóra og síðar höfuðsmanns. Sýslumenn komu til sögunnar og stýrðu sýslum. Lögrétta varð í senn löggjafarsamkoma og dómstóll. Embætti lögsögumanns var lagt niður en í staðinn kom lögmaður/menn sem stjórnuðu þingstörfum. Tíund hélst en til viðbótar kom konungsskattur.

Um miðja 14. öld tók konungur upp á því að leigja hirðstjórum landið um hríð. Þóttu þeir harðskeyttir í innheimtum. Landsmenn þoldu þetta illa samanber Grundarbardaga þar sem Smiður Andrésson og Jón skráveifa voru drepnir.

Grindavík

Einarsbúð í Grindavík.

Norðurlöndin urðu eitt ríki er Hákon Magnússon ríkisarfi í Noregi kvæntist Margréti dóttur Valdimars atterdag Danakonungs. Þau eignuðust son sem var réttborinn erfingi krúnu Noregs og Danmerkur. Hann erfði bæði hásætin kornungur en dó á unglingsaldri. Margrét móðir hans var þá kjörin ríkisstjóri í Danmörku, Noregi og loks Svíþjóð. Norðurlönd voru svo sameinuð undir eina krúnu 1397 með Kalmarsamþykktinni. 1520 voru Stokkhólmsvígin framin og í kjölfarið klufu Svíar sig úr Kalmarsambandinu undir forystu Gústafs Vasa. Noregur var áfram í danska ríkinu, svo og Ísland og Færeyjar um langa hríð.

Svarti dauði barst hingað árið 1402. Varð manndauði mikill líkt og í Evrópu áður og afleiðingar sambærilegar. Menn ákölluðu guð og góðar vættir sér til hjálpar en stoðaði lítt.
Um 1400 tóku Englendingar að sækja Íslandsmið og versla hér á landi. Lentu þeir í illindum við hérlend yfirvöld og Hansakaupmenn út af skreiðarverslun og studdi Danakóngur Hansakaupmenn. Hleypti þetta illu blóði í Englendinga sem gripu oft til ofbeldis og rána. M.a. drápu þeir Björn hirðstjóra Þorleifsson vestur á Snæfellsnesi 1467.

Saltfiskur

Saltfiskur.

Jóni biskupi Gerrekssyni var drekkt í Brúará af íslenskum bændum árið 1433 fyrir afskipti sín af skreiðarverslu bænda við Englendinga. 15. öldin er oft nefnd ,,enska öldin.” Er fram í sótti höfðu Hansamenn betur í þessu verslunarstríði.
Kapphlaup var þó enn um verslunarhafnirnar hér á landi, einkum á Reykjanesskaga og við Faxaflóa.

Björgvin stendur nærri miðju Hörðalandi á skaga úti við ströndina. Björgvin er gamall bær og á sér margar sögulegar minjar. Bærinn er talinn hafa orðið til á 11. öld og segir sagan að Ólafur kyrri hafi stofnað hann. Á 13. öld var þar lengstum konungasetur. Sátu þeir þar að jafnaði Hákon gamli og Magnús lagabætir, sonur hans. Það var skreiðarverzlun, sem fyrst kom fótum undir Björgvin. Þaðan var flutt út skreið frá Vestur- og Norður-Noregi.
Í fyrstu var skreiðin aðallega flutt til Englands en á 14. öld náðu Hansakaupmenn skreiðarverzluninni að mestu undir sig. Mátti heita, að þeir réðu lögum og lofum í Björgvin í tvær aldir eða fram á 16. öld. Margir Hansakaupmenn fluttust til bæjarins eða dvöldust þar um hríð. Á vissu tímabili var Hansakaupmönnum í erlendum bæjum bannað að kvænast og voru þeir nefndir piparsveinar vegna þess, að þeir verzluðu einna mest með krydd.

Þótt Íslendingar hefðu meiri skipti við Niðarós en Björgvin, dvöldust margir Íslendingar með Noregskonungum í Björgvin, og má segja, að flestir stórhöfðingjar á Íslandi hafi dvalizt þar lengri eða skemmri tíma.

Pakkhús

Pakkhús í Keflavík.

Upphafið af lokum verslunar erlendra kaupmanna varð 1532 er er Þjóðverjar og Íslendingar sóttu að Englendingum við Grindavík og drápu um tuttugu þeirra, þ.á.m. foringja þeirra Jóhann Breiða. Eftir það herti Danakonungur tök sín á versluninni og kom henni smám saman í hendur sinna manna.

Einokunarverslun Dana var komið á 1602 og stóð hún fram til 1787. Árið 1699 varð Hólmfastur hýddur fyrir að versla við kaupmanninn í Keflavík, en átti samkvæmt þeirra reglum að versla við kaupmanninn í Hafnarfirði.
Slæmt árferð, skepnur drápust og fiskur lagðist frá landi. Fólk át jafnvel hrafna og refi. Fátæklingar við sjóinn lifðu á þangi og þara. Flakkarar fóru í hópum um landið.
Á einokunartímabilinu voru fiskveiðar aðalatvinnuvegur í verslunarumdæmi Hafnarfjarðar. Afkoma manna var þar nær eingöngu háð sjósókn. Mikill fiskur barst til Hafnarfjarðar, þegar vel veiddist, því að ekki var verslað í Straumsvík eða Vatnsleysuströnd á einokunartímabilinu.

Árið 1809 var verslun við Englendinga bönnuð með öllu. 1855 öðluðust Íslendingar verslunarfrelsi.

Nú er meira flutt en af varningi til landsins en frá því – jafnvel meira en landmenn hafa not fyrir.

Gerðavellir

Gerðavellir í Grindavík, virki Jóhanns Breiða – kort ÓSÁ.

Hóp

Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson er nam Selvog og Krýsuvík. Í Landnámabók segir svo frá Moldar-Gnúpi að hann hafi verið sonur Hrólfs höggvandi, sem bjó í Moldartúni á Norðmæri í Noregi. Þeir Gnúpur og Vémundur bróðir hans voru vígamenn miklir og vegna drápa þeirra fór Gnúpur til Íslands. Hann nam land á milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann uns byggðin spilltist af hraunstraumi en þá hélt hann vestur til Höfðabrekku og reisti sér skála, þar sem nú heita Kaplagarðar og dvaldist þar um veturinn. Þar lenti hann enn í ófriði og hélt um vorið ásamt sonum sínum vestur til Grindavíkur og tóku þeir sér þar bólfestu.

Grindavík

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

(Þessi saga er rituð í Sturlungabók, en í annarri gerð Landnámu, Hauksbók, segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir, Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík. Sérfræðingar geta ekki fullyrt hvort er rétt en telja meiri líkur á að Molda-Gnúpur hafi komist alla leið.)
Erfitt er að tímasetja landnámið nákvæmlega. Nýlegar rannsóknir jarðfræðinga sýna að hraun hefur runnið yfir Álftaver og þau svæði sem Moldar-Gnúpur settist fyrst að á um og eftir 934. Þessu ártali kann að skeika um 1 eða 2 ár til eða frá, en ef það er notað til viðmiðunar hefur Moldar-Gnúpur og fólks hans komið til Grindavíkur um og eftir árið 940.
Fólkinu virðist hafa gengið vel að koma sér fyrir eins og fram kemur í hinni frægu sögu um Hafur-Björn: “Björn hafði nær ekki kvikfé; hann dreymdi að bergbúi kæmi at honum og byði að gera félag við hann, en hann játti. Þá kom hafr til geita hans litlu síðar; því var hann Hafr-Björn kallaðr. Hann gerðist bæði ríkr og stórauðigr. Þat sá ófresk kona, at allar landvættir fylgdu Hafr-Birni þá er hann fór til þings en Þorsteinn ok Þórði bræðrum hans þá þeir fiskuðu”.
Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Moldar-Gnúpi og sonum hans og ekkert er vitað með vissu um byggðina og sögu hennar næstu 300 árin eftir landnám. Engu að síður verður að telja líklegt að flestar bújarðirnar hafi byggst þegar á 10. og 11. öld og með því að gefa hugarfluginu lausan tauminn til þess að reyna að lesa milli línanna í

Grindavík

Minjar í túninu á Hópi.

Landnámu og þætta saman frásögn hennar og alþekktrar þjóðsögu má geta sér til hvernig hin fyrsta byggð í Grindavík hefur risið.
Hvergi kemur fram hve margt fólk fylgdi Moldar-Gnúpi á ferð hans austan úr Álftaveri, en varla hafa það verið færri en 20-30 manns, fjölskylda og fylgdarlið.
Þegar landnemarnir voru komnir á áfangastað hafa þeir vafalaust byrjað á því að velja sér stað til vetursetu og reist þar skála. Sá staður hefur að öllum líkindum verið í námunda við Hópið, trúlega á einhverjum þeirra staða sem síðar risu bæirnir Húsatóftir, Hóp og Járngerðarstaðir. Hópið var ákjósanlegur staður til að setjast að og reisa skála. Þar var öruggt vatnsból, stutt sjávargata, góð lending fyrir báta og mikil fjörugæði. Hinn fyrsta vetur hafa landnemarnir vafalítið notað til að kanna landkosti í nýjum heimkynnum og ekkert var eðlilegra en þeir Molda-Gnúpssynir tækju að svipast um eftir löndum fyrir sjálfan sig. Að sögn Landnámu voru þeir allir fullorðnir er hér var komið sögu og frumbyggjasamfélagið krafðist þess að menn staðfestu ráð sitt og hæfu búskap eins fljótt og auðið var.

Grindavík.

Tóft á túninu á Hópi.

Við vitum ekki í hvaða röð þeir bræður giftust né hvar hver þeirra reisti sér bú. Við vitum að bræðurnir fjórir; Gnúpur, Björn (Hafr-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi. Við vitum líka að Gnúpur (yngri) giftist Arnbjörgu Ráðormsdóttur og að Hafr-Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrollleifssonar. Björn og Jórunn bjuggu í Grindavík, en óvíst er hvort Gnúpur og Arnbjörg hafi gert það líka.
Flestir kannast við þjóðsöguna um þær Járngerði og Þórkötlu, sem bjuggu á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Þjóðsögur geyma oft löngu gleymda vitneskju. Það er því ekki ólíklegt að konur með þessum nöfnum hafi í fyrndinni búið í Grindavík á þessum tveimur jörðum og jarðirnar dragi nöfn sín af þeim. Er þá ekki hugsanlegt að þær hafi verið tengdardætur Molda-Gnúps, giftast Þorsteini hrugni og Þórði leggjanda, og þá fyrstu húsfreyjur á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Hafi svo verið hafa þeir bræður verið fyrstir til að búa á þessum tveim bæjum og á sama hátt getum við hugsað okkur Moldar-Gnúpur hafi búið á Hópi (Hofi), en Gnúpur eða Björn á Stað og hinn á Húsatóftum.
Þetta er aðeins tilgáta en skemmtilegt að velta þessu fyrri okkur. Það er staðreynd að allar stærstu jarðirnar í sveitinni hafa byggst strax á landnámsöld og hverfin 3 vaxið út frá höfðubólunum.
Í Krýsuvík er landnámsmaður talinn Þórir haustmyrkur. Hann hafi búið í á bæ, sem Hlíð hét og lagt veg yfir svonefnd Grindarskörð. Þar átti þá að hafa verið svo mikill skógur að hann hafi tekið börkinn af nokkrum trjám og búið til grind og sett á skarðsbrúnina vestanverða til að merkja hvar fara ætti þegar ferð lá yfir fjallið. Er ekki ósennilegt að sú skýring að örnefninu Grindavík og Grindarskörð séu dregin af veggrindum á fjöllum uppi eigi rætur að rekja til þessarar sögu.

Úr Þættir um átthagafræði Grindavíkur – Jón Gröndal tók saman 1992.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavíkurvegur

Tómas Snorrason, útvegsbóndi í Grindavík, skrifaði eftirfarandi grein í sjómannablaðið Ægir árið 1929:

Staðhættir

Grindavíkurvegur

Búðir vegavinnumanna við Grindarvíkurveg.

Grindavík er ysta byggð sunnan á Reykjanesinu. Það er í raun og veru þrjár víkur og sitt hverfi hjá hverri vík, auk þess nokkrar einstakar jarðir milli hverfa. Alls voru 26 grasbýli og 6 eða 7 þurrabúðir í sveitinni um 1890. Byggðin öll nær yfir ca. 14 km langa strandlengju; frá ystu byggð eru ca. 10 km út á Reykjanestá. Landrými sveitarinnar er allmikið og víðast mjög hrjóstrug hraun og blásin og ber eldfjöll. – Aðdýpi er all mikið, þó eru nokkur sker og boðar á öllum víkunum, þess vegna er brimasamt, þó aldrei landbrim í lendingum, nema flóðhátt sé.

Atvinnuvegir
Frá landnámstíð hafa fiskveiðar og landbúnaður verið aðal atvinnuvegir hér, eins og allstaðar annars staðar á landinu, þar sem svipað er í sveit komið.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðaðferð notuð, nfl. handfæri. Á vetrarvertíð munu mest hafa verið notuð 8 og 10 róin skip, en tveggja og fögurra manna för voru aðallega notuð þar fyrir utan. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Þar sem veiðistöðvar liggja fyrir opnu hafi, er eðlilega brimasamt í hafáttum og því aðallega gæftir þegar aflandsvindur er, það var því eðlilegt að menn hættu sér ekki langt frá landi, síst meðan eingöngu var treyst á árarnar, til að komast um sjóinn, en ekki í annað hús að venda, ef ekki náðist lending. Í fiskigöngum gengur fiskur hér venjulega inn í boða, það var því sjaldan þörf að sækja langt á vetrum. Það kemur oft fyrir á vetrum, að sjór verður albrima á mjög skömmum tíma, jafnvel þó logn eða hægviðri sé og útsjór vel fær, mun það m.fl. hafa valdið því að hvert hverfi sótti sín mið öldum saman, jafnvel þó betra fiskirí væri í öðrum hverfum. Á sumrin og síðari hluta vorvertíðar var stundum róið langt á ýmis mið, frá Krýsuvíkurbjargi og vestur á Reykjanesröst.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Lengst af var allur fiskur hertur hvort heldur vera skyldi verslunarvara eða til heimilsnota. Aflinn var vel hirtur, hausar hertir til matar, sundmagi, kútmagi og svil sömuleiðis, allt var þetta góð og gild verslunarvara innanlands, hrygnir voru þurrkaðir til eldsneytis og annar úrgangur hirtur til áburðar. Fiskur og hausar voru hertir á þar til gerðum grjótgörðum, sömu garðar fygldu sömu jörðum eins og sömu tún eða sömu uppsátur.
Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) hingað. Sá sem fyrstur varð til þess hét Jón Guðmundsson, hann bjó lengi í þurrabúð, sem heitir Akrakot (fyrstu þurrabúðinni í Járngerðarstaðahverfi), en í daglegu tali kallað Kofinn. Hann fékk 2 strengi af línu inn á Vatnsleysuströnd og kom með þá um vor, þá var tregur fiskur á færi, en hann mokfiskaði á línuna. Það hefði mátt ætla að honum hafi verið þökkuð framtakssemin, en það varð öfugt farið. Þegar í land kom mættu honum ónot, hrakyrði og jafnvel haft í hótunum við hann, ef hann legði ekki þessa skaðlegu veiðiaðferð niður. Þó fór svo, að skömmu seinna fer það að tíðkast að nota lóðir á vorin, en stuttar voru þær. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. – Það má segja að með 20. öldinni breyttist hér veiðiaðferðirnar. Þá var byrjað að nota net. Sá sem fyrstur lagði þau mun hafa verið Gísli sál. Hermannsson á Hrauni. Hann lagði 3 net, en tapaði þeim, að mig minnir, áður en hægt var að vitja um þau. Næstu vertíð fóru fleiri að reyna og heppnaðist betur. Upp frá því fara allir að koma sér upp netum, en lítill útvegurinn til að byrja með. Um líkt leyti, eða aðeins seinna, er hætt að beita á sjó, en línan lengd að sama skapi og hefur haldið áfram að lengjast til þessa.
Árið 1925 var fyrst gerður út mótorbátur hér. Það var Gísli silfursmiður Gíslason í Reykjavík, sem kom með hann og gerði hann (dekkbát) út í Staðarhverfinu. Gísli gerði hann út í tvær vertíðir. Árið eftir voru settar vélar í tvö róðraskip í Járngerðarstaðahverfi. Árið eftir bættist eitt vélskipið við, en í fyrra (1928) voru settar vélar í níu róðraskip og þrjú ný smíðuð með sérstöku tilliti til þess að þau yrðu knúin vélum, en ekki árum, en allt eru það opin skip (dekklaus). Á næstkomandi vertíð er gert ráð fyrir að allt verði vélskip. Það mun mega telja sögulegan viðburð í Grindavík, að þar gangi ekkert róðraskip á vetrarvertíð.
Einhverjir kunna nú að spyrja: Hvernig stendur á að öll skip í Grindavík eru lítil og opin? Það er af því að skipin verður að setja á land eftir hvern róður, hvergi hægt að leggja þeim nema í Staðarhverfi, þar geta fáir bátar legið, en þar er útgerð minnst og hefur um alllangt skeið fiskast minnst. Skipin eru dregin á land með gangspili, en sett niður af handafli.

Samgöngur

Grindavíkurvegur

Búðir vegagerðarmanna við Grindavíkurveginn.

Sökum hafnleysis hefur aldrei verið um samgöngur á sjó að ræða, er teljandi séu, þær urðu því að vera á landi. – Um nokkur ár síðast á 19. öldinni gekk lítill gufubátur (Oddur) milli Eyrarbakka og Grindavíkur á vorin öðru hvoru og sumrin, hann var eign Lefolisverlsunar og aðallega ætlaður til að draga kaupskipin út og inn á höfnina þar, en þess á milli var hann notaður til flutninga hafna á milli, þar sem verslunin hafði viðskipti. Að síðustu bar Oddur beinin hér, þ.e.a.s. strandaði.
Þó um eiginlega fjallvegi í venjulegri merkingu sé ekki hér að ræða sveita á milli, þá voru samgöngur mjög erfiðar og hættulegar í slæmri tíð á vetrardegi, enda var það stundum að slysi. Hvert sem farið var lá leiðin meira eða minna um ógreiðfær hraun, víða holótt og sprungin, sumstaðar lá örmjó gata yfir hyldjúpar gjár og var það ekki glæsilegt að vera þar á ferð er ekki sást til vegar fyrir snjó eða myrkri. Víðast voru djúpar götur, allvíða voru djúpar holur í götunum og stigu hestar ofan í þær, en á milli þeirra voru sumstaðar allt að hné há höft. Hve fjölfarið hefurverið til verstöðvanna á Reykjanesskaganum sést best á hinum djúpu og mörgu götum og troðningum, jafnvel í hinum tiltölulega hörðu helluhraunum. Sennilega hafa fleiri en ég horft með undrun á götunar í helluhraununum, er þeir sáu þær í fyrsta sinn og fundist óskiljanlegt hvernig menn hafa getað farið svo nákvæmlega sömu slóð ára eftir ár að götur gætu myndast, þar sem ekkert er sjáanlegt að væri til leiðbeininga nema stefnan.

Samgöngubætur

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Það var ekki fyrr en eftir að akvegurinn var lagður milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur að menn hér fóru almennt að vakna til meðvitundar um hve hagkvæmt það væri að fá akveg hingað. Tvö slys vildi til um sama leyti (tvo menn kól til örkumla), sem hvöttu menn til framkvæmda og voru óhrekjanleg sönnun fyrir nauðsyn á fullkomri vegabót, einkum voru slys þessi sterk meðmæli með vegi í augum þeirra, er um málið urðu að fjalla áður en til framkvæmda kæmi, en voru lítt kunnir staðháttum. Var nú farið að vinna að því að fá vegarálmu frá Keflavíkurveginum til Grindavíkur. Vegarstæðið var mælt og kostnaðaráætlun saman af Sigurgeiri Gíslasyni verkstjóra í Hafnarfirði, sem síðan hafði umsjón verksins á hendi. Helstu hvatamenn þess, að hrinda verkinu í framkvæmd, voru Einar G. Einarsson kaupmaður í Garðhúsum og síra Brynjólfur Magnússon á Stað. Hreppurinn tók að sér að greiða ¼ af kostnaðinum. Til þess að standast þá fjárframlög tókst helstu hvatamönnum fyrirtækisins að fá loforð flestra formanna og útvegseigenda um ½ hlut af hverjus skipi er út voru gerð á vetrarvertíð meðan verið væri að leggja veginn. Einstöku maður mun hafa verið tregur til að lofa ½ hlutnum og jafnvel neitað, þóttust tæplega hafa heimild til þess gagnvart hásetum sínum, en allir munu þó hafa látið hann, eða sem honum svaraði, áður en lyki. Þetta var hið mesta heillaráð og til heiðurs fyrri alla, er hlut áttu að máli. Með þessu komu þeir í veg fyrir að binda sveitinni erfiðar og dýrar skuldabyrðar, en sýndu um leið hve almenn samtök, því í litlu sveitafélagi sé, geta miklu til vegar komið. Sýslunefnd Gullbringusýslu lagði fram ¼ kostnaðar og Landssjóður helming kostnaðar, fyrir drengilega framgöngu þingmanna héraðsins og fleiri góðra manna, er það mál studdu.

Þórkötlustaðanes

Gamla bryggjan á Þórkötlustaðanesi.

Einn af merkari þingmönnum komst á þá eið að orði, að Grindavík hefði ekkert við veg að gera, því þar ætti enginn hest sem lið væri í. Þeim þingmanni hefur ekki komið til hugar, fremur en öðrum þá, að vegur mundi létta ferðalögum af hestum.
Á vegarlagningunni var byrjað vorið 1914 og lokið 1918. Alls mun framlag hreppsins hafa orðið rúmar 20 þúsund krónur, fór það langt fram úr áætlun sem vonlegt var, því áætlunin var gjörð áður en stríðið skall á, en verkið framkvæmt á stríðsárunum. Kauphækkunin, sem var aðalorsök þess hve vegurinn varð dýr, kom þó ekki beint hart niður á hreppsbúum, því fiskur hækkaði í verði fullkomlega í hlutfalli við hækkun vinnulauna.
Allar þessar fjórar vetrarvertíðir aflaðist vel, enda hafði ½ hluturinn þá líka borgað hreppstillagið að fullu, er vegurinn var kominn í Járngerðarstaðahverfið.

Úr Ægir 1929 – grein eftir Tómas Snorrason, útvegsbónda í Grindavík.

Grindavíkurvegir

Grindavíkurvegir – kort ÓSÁ.

Þórkötlustaðanes

Farið var í Kynnisferð um Vatnsleysustrandarhrepp og Grindavík. Meðal leiðsegjenda voru Viktor, sonur Guðmundar í Brekku, Kjartan, nýlega fyrrverandi forstöðumaður Saltfiskssetursins í Grindavík, og Sigfrjón.

Grindavíkurvegur

Vegavinnubúðir við Grindavíkurveg.

Hér á eftir er getið um helstu punkta, sem annað hvort var minnst á eða átti að minnast á í ferðinni. Auk þess voru allnokkur tilfallandi atriði tekin upp og heimfærð á vettvangi. Stapadraugurinn, sem birtist á Vogastapa, var t.d. óundirbúið atriði í ferðinni sem og það að hitta óvænt bæjarstjórann í Grindavík, Ólaf Örn, á göngu um Þórkötlustaðanesið. Hann var gripinn og fenginn til að kynna möguleika og vilja Grindvíkinga á sviði ferðaþjónustunnar. Svo er að heyra og sjá að bjartsýni og mikill áhugi sé einkennandi fyrir vilja Grindvíkinga til að styrkja og efla þjónustu við ferðamenn í umdæminu. Hellaferð í Dolluna var einnig óvænt uppákoma, en slíkar eru eitt einkenni FERLIRsferða um Reykjanesið.
Auk þessa verða síðar birtir nánari punktar um Kálfatjarnarkirkju, um fyrirtækið Sæbýli og fleira, sem fyrir augu bar og kynnt var í ferðinni.

Vatnsleysuströnd
1. Vesturmörk Vatnsleysustrandarhrepps er við svonefnda Kolbeinsvörðu ofan við Innri-Skoru á Vogastapa. Varðan er horfin, segja menn, en landamerkin standa enn. Aðrir segja Kolbeinsvörðuna hér nær Keflavíkurveginum, en slíkt getur ruglað landamerkjum, svo ekki verður fjallað nánar um það. Sökkull slíkrar vöru er þar vel greinanlegur, en úr Kolbeinsvörðu eiga lendamerki hreppsins að liggga í Arnarklett vestan við Snorrastaðatjarnir, en hann sést vel frá Háabjalla, miklu misgengi á hægri hönd. Undir bjallanum er skógrækt þeirra Vogabúa.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

2. Stapagatan – gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur og framhald Almenningsvegarins sem liggur úr Hafnarfirði og suður úr – Alfararleið. Annar armur götunnar er Sandakravegur (nú Skógfellavegur) liggur suður og upp heiðina í átt til Grindavíkur. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur. Ári seinna var byrjað á bílvegi frá Stapa áleiðis til Grindavíkur. Þeirri vegagerð lauk árið 1918 og munum við síðar í dag á leiðinni til Grindavíkur m.a. skoða hlaðin byrgi vegavinnumanna á Gíghæðinni í Arnarseturshrauni. Slík byrgi voru á u.þ.b. 500 metra millibili svo til alla leiðina til Grindavíkur, en nýi vegurnn krafðist fórna, eins og svo margar vegaframkvæmdir síðustu ára.
Stapagatan liggur upp Reiðskarð á fjörubökkum Vogavíkur undir Vogastapa og munum við kíkja þangað í bakaleiðinni. Undir Stapanum eru merkar minjar bæjarins Brekku, Stapabúðar, Hómabúðar og Kerlingarbúðar, með elstu minjum á Reykjanesi, en sjórinn hefur nú tekið til sín að mestu. Síðastnefndu búðirnar heita svo vegna þess að sjómenn höfðu þar vinnukonukerlingu í matinn þegar hún neitaði að hlýða boðum þeirra. Gatan upp úr Reiðskarði er djúp og falleg þar sem hún liðast vestur eftir Stapanum, framhjá Grímshól þars em þjóðsagan um vermanninn að norðan á að hafa gerst. Viktor mun segja ykkur nánar frá því er við komum þangað. Á Grímshól er útsýnisskífa þar sem fjallasýnin er tíunduð með sjónrænum hætti. Gullkollurinn lifir m.a. góðu lífi undir Vogastapum við Reiðskarðið.

Slokahraun

Fiskgarðar í Slokahrauni.

3. Hreppsgarður á vinstri hönd – einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19. aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einhverskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan hjalla, sem nefndur er Kálgarðsbjalli.
4. Um 140 sel og selstöður eru á svæðinu milli Suðurlandsvegar og Reykjanestáar, sem og öll mannvirki sem þeim tengdust, s.s. fjárskjól, stekkir, vatnsstæði, kvíar, húsatóftir, fjárborgir, réttir, vörður og selgötur. Þessi sel voru í notkun á mismunandi tímum, en líklet er talið að haft hafi verið í seli hér á þessu svæði allt frá því að land byggðist fram upp undir 1890, en síðasta selið, Flekkuvíkursel, lagðsit þá af. Síðasta selið, sem notað var hér á Reykjanesskaganum var Hraunsselið undir Vesturhálsi, en það var í notkun til 1914.
Venjulega var haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Ærnar voru þá værðar í selið og hafðar þar og mjólkin nýtt til smjör og skyrgerðar m.a. Afurðir voru færðar heim til bæja ca. 3. Hvern dag, en vistir færðar upp í selin í staðinn. Þar var venjulega matselsdama og smali og stundum fleira fólk frá bæjunum. Dæmi eru og um að erfiðir unglingar hafi verið hafðir þar til ögunar. Segja má að lífið hér fyrr á öldum hafi meira og minna snúist um sauðkindina, þ.e. maðurinn lagði rækt við sauðkindana og reyndi allt hvað hann gat til að halda í henni lífi því hún hélt lífinu í manninum. Allmörg mannvirki og búskapaleifar á skaganum bera þessa glöggt vitni.

Þórkötlustaðanes

Minjar á Þórkötlustaðanesi.

Síðar í ferðinni munum við skoða minjar útvegsbændanna, en fjárhald og útvegur við ströndina hafa verið samofin um langan aldur; naust, varir, sjóbúðir, þurrkgarðar, verkunarhús, skiparéttir og þurrkvellir gefa okkur nokkra hugmynd um hvernig þeir lifnaðarhættirnir við sjávarsíðuna hafa verið.
Sem dæmi um sel okkur á hærgi hönd má nefna Snorrastaðasel, Nýjasel, Gjásel, Vogasel, Brunnastaðasel (sést uppi í heiðinni), Knarrarnessel, Hlöðunessel, Hólssel, Fornasel, Flekkuvíkursel og Hvassahraunssel. Flest seljanna á Reykjanesskaganum eru í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, suðaustanáttinni. Best er að finna þau með því að koma að þeim úr norðvestri, einkum á vorin þar sem þau grænka fyrr en umhverfið vegna fyrrum áburðar fjársins, sem þau njóta enn þann dag í dag. Og svo er sagt að sauðkindin nagi allan gróður. Reyndar eykur hún grasvöxt, en dregur úr kjarrvexti. Framvegis verður þessari fyrrum lífsbjörg markaður bás í afmörkuðum beitarhólfum – ófrjáls og án villibráðabragðsins (G. Þorsteinsson frá Hópi).
5. Kálffell – í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldarmótin 1900. Frægasti sauðamaðurinn var án efa Oddur Stefánsson frá Gærnuborg (d. 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt sunnan við gígsskálina. Hóllinn dregur nafn sitt af lögun hellsins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop. Til þess að komast niður þarf maður að stökkva niður á nokkra hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan við. Líklega hefur Oddur frá Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.

Staðarborg

Staðarborg.

6. Hrafnagjá er hér rétt handan á hægri hönd. Hún liggur næst okkur þeirra gjáa sunnan vegarins, en við sjáum m.a. upp í Huldugjá, Aragjá og Stóru-Aragjá, en undir henni er Gjásel, sennilega eitt eista raðhús hér á landi.
Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Vatnsleysu og er tilkomumikil á köflum. Hér ofan við voga er hún tilkomumikil með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Undir gjánni er fjölskrúðugur gróður, s.s. burknar, blágresi og brönugrös. Í gjánni verpir t.d. hrafn þar sem bergið er hvað hæst. Syðsti hluti Hrafnagjár er á Náttúruminjaskrá.
7. Þráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefnt Arnstapahraun. Eldra hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því). Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun rann við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000-12000 ára).
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Stöðugar og hægfara hreyfingar hafa valdið miklum sprungum í þeim. Nýrri hraun ofan á fela líka eldri sprungur.
8. Refagildra – hlaðin refagildra í vörðu. Til skamms tíma var talið að slíkar gildrur væru einungis á norðausturlandi, en a.m.k. 60 slíkar eru enn sjáanlegar hér á Reykjanesskaganum, þ.a. 4 á Vatnsleysuströndinni.

Stapabúð

Stapabúð.

9. Breiðagerðisslakki – í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarherflugvél niður í þennan slakka skammt norðaustan við Knarrarnessel eftir að hafa orðið fyrir skotárás bandarískrar orrustuflugvélar.Þrír fórust en loftskeytamaðurinn komst lífs af í fallhlíf lítið meiddur. Hann var fyrsti þýski flugliðinn sem bjargðaist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandarríkjamenn tóku höndum í seinni heimsstyr

jöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi að Saurbæ á Kjalarnesi en eftir stríðið flutt í Fossvogskirkjugarð.
Nokkuð sést enn eftir af brotum úr flugvélinni og eru þau dreifð um stórt svæði um miðja vegu milli narrarnessels og Auðnasels.
10. Þarna fyrir ofan eru Eldborgir, um 900 metra röð 11 gíga, sem gosið hafa litlu gosi á takmörkuðu svæði, einkennandi þó fyrir hin mörgu sprungureinagos á skaganum. Við þær eru nokkur greni, svonefnd Edborgagreni og hlaðin byrgi fyrir refaskyttur. Mörg slík mannvirki má sjá á Strandarheiðinni.
11. Þyrluvarðan á vinstri hönd – Í maí 1965 hrapaði Sikorsky bjrögunarþyrla frá varnarliðinu niður í lægðina en hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar varnarliðsins, og var varðan reist í minningu þeirra.
12. Keilir – einkennisfjall Reykjanesskagans og víðfrægt mið af sjó. Í lýsingu Kálfatjarnarsóknar frá árinu 1840 eftir séra Pétur Jónsson segir að sjópfarnedur kalli Keili Sykurtoppinn. Líklega er þetta samlíking við keilulaga sykurstykki sem menn kölluðu sykurtoppa og voru á marjaðnum áður en strásyrkurinn kom til sögunnar. Keilri varð til við gos undir jökli og strýtumynduð lögunin kemur til af gígtappa íhonum miðjum sem ver hann veðrum. Fjallið er tiltölulega auðvelt uppgöngu ár sem farið er upp austanverða öxlina. Af fjallinu er ótrúlega víðsýnt.
13. Stóri Hafnhóll (nær) á vinstri hönd og Litli Hafnhóll fjær – sagt er að í eina tíð hafi verið löggilt höfn í Vatnsleysuvík og af henni beri hólarnir nöfnin.

Borgarkot

Stórgripagirðingarsteinn ofan Borgakots.

14. Vatnaborg á hægri hönd – fyrrum fjárborg, ein af u.þ.b. 80 á Reykjanesskaganum. Borgin er hirnglaga. Líklega hefur verið stekkur þartna eftir að borgin lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnuð Vatnaborg það rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu sem þarna er. Ofar í heiðinni er Gvendarborg, hlaðin af Guðmundi Hannessyni er seinast bjó á Ísólfsskála, en hann var fæddur árið 1830 og bjó m.a. í Breiðagerði á Ströndinni. Guðmudnur er sagður hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesskagnum um aldamótin 1900. Enn ofar Rauðhólssel, Oddafellssel og Sogasel. Fundum nýlega rústir neðan við Kolhóla, en þær virðast vera af enne inu selinu, sem ekki hefur verið skráð.
15. Almenningsleiðin – sjá má hana liggja frá Kúagerði og framhjá Vatnsleysu.
16. Akurgerði og Kúagerði – hraunið, Afstapahraun, sem rann á sögulegum tíma (1226), færði Akurgerði í kaf. Vegurinn var lagður yfir Kúagerði, fallega tjörn og áningarstað á ferðum fólks milli Útnesja og Innesja. Hægt að ganga upp hraunið um svonefndar Tóur.
17. Gamli Keflavíkurvegurinn eða Strandarvegurinn – lagður á árunum 1906-12 og lá hluti hans allfjarri byggðinni á sunnanverðri Vatnsleysuströnd, skammt vestan Kálfatjarnar, en um 1930 var sá hluti færður neðar. Gamli vegurinn var í upphafi hestvagnavegur, en um 1917 tóku bílarnir völdin. Almenningsvegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltöluelga stutt frá byggðinni og þó yfirleitt ofan við Gamla keflavíkurveginn. Í lýsingu séra Péturs Jónssonar af Kálfatjarnar- og Njarðvíkursókn frá árinu 1840 er þessari leið lýst þannig: “Vegur liggur gegn um heiðina frá Stóru-Vogum og beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarðinn inn fyrir Kálfatjörn. Eftir þaðan frá gegn um heiðina inn hjá Vatnsleysu.”

Keilir

Keilir.

18. Staðarborg – borgin er stór og listilega velhlaðin fjárborg frá Kálfatjörn og virðist hún vera óskemmd með öllu. Hún er um 8 m í þvermál að innan og vegghæðin um 2 metrar. Þjóðsaga er til sem segir að hleðslumaðurinn hafi ætlað að hlaða borgina í topp en þá hafi prestur komið og stöðvað verkið svo borgin yrði ekki hærri en turn Kálfatjarnarkirkju. Staðarborgin er talin nokkur hundruð ára gömul og var friðlýst árið 1951. Þórustaðastígurinn liggur upp heiðina vestan borgarinnar, í gegnum Þórustaðafjárborgina, framhjá Keili og upp á Vigdísarvelli. Ein af mörgum leiðum upp heiðina. A.m.k. 7 fjárborgi eru í heiðinni milli Strandarvegar og núverandi Reykjanesbrautar.

Grindavík
1. Grindavíkurvegurinn – horft frá Grímshól – útsýnisskífa – vegur til framtíðar.
2. Velkomin til Grindavíkur. Alltaf sól á Suðurnesjum – stundum á bak við skýin. Hér er súrefnið hvað ferskast og ónotað er það kemur með vindum og golfstraumnum sunnan úr höfum. Hef farið um 750 ferðir um Reykjanesskagann, en einungis þrisvar fengið kærkomna rigningu á þeim ferðum. Reykjanesskaginn er sennilega ónýttasta útivistarsvæði landsins – í nálægð við u.þ.b. 200.000 neytendur, auk annarra áhugasamra Íslendinga, að ekki sé talað um nýtinguna skammstoppandi útlendingum til handa. Svæðið hefur upp á alt að bjóða, sem önnur fjarlægari svæði gætu boðið upp á – jarðfræðina, náttúruna, fegurðina, fjölbreytina, minjarnar, söguna og þjóðtrúna, helsta sérkenni okkar Íslendinga.
3. Mikilvægt fyrir leiðsegjendur að vera jákvæða og uppbyggjandi – vera innblásturshvetjandi, frumlegir og leitandi að einhverju áður ókunnu.

Dollan

Dollan á Gíghæð.

4. Mörkin að norðanverðu – Í Arnarklett við Snorrastaðatjarnir og þaðan yfir í Setjörn (Selvatn) – í Þórðarfell og áfram niður í Valahnúkamalir við Reykjanestá. Austurmörkin eru í Seljabót þannig að landið, einkum ströndin, er víðfeðm.
5. Áður fyrr lágu fimm meginleiðir til Grindavíkur, sem um tíma var eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls þegar fiskurinn varð að útflutnings- og söluvöru og stóllinn lagði undir sig flestar sjávarjarðir á Reykjanesskaganum. Austast var leiðin frá Krýsuvík um Ögmundarhraun, þá Skógfellaleiðin frá Vogum, Skipsstígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum. Reyndar á enn ein leið að hafa legið frá Rosmhvalanesi um svonefndan Gamlakaupstað ofan Ósabotna og áfram áleiðis til Grindavíkur um Sandfellshæð, en ekki sést móta fyrir henni í dag. Þó má merkja vörðubrot ofarlega á Hafnasandi.
6. Sagan – Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Við munum í ferðinni m.a. skyggnast fyrir um mögulega landsetu höfðingjans á tilteknum stað á mörkum Járngerðarstaða- og Þórötlustaðahverfis.
Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin síðustu voru íbúar 357 talsins. Grindavík er öflugt sveitarfélag á suðurströnd Reykjanesskaga um 50 km frá Reykjavík. Íbúar voru 2.382 þann 1. desember sl. (nú um 2.500). Fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægð við gjöful fiskimið, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláalónið sem og öflugt íþróttastarf með ungu fólki, allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Nú hefur verið bætt við menninguna hérna í Grindavík og reist Saltfisksetur Íslands í Grindavík þar þar með hafa grindjánar eignast stórt og mikið menningarsetur sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt sem annarra venjulegra Íslendinga. Talandi um sérkenni grindjána mun Sigrún fræða ykkur um einstaka þeirra þegar nær dregur fyrrum híbýlum þeirra.
7. Njarðvíkursel sunnan við Selvatn. Rústir og sennilega eitt nærtækasta sel á Reykjanesi – ekki nema u.þ.b. 50 mertar frá veginum. Skammt frá er hlaðin rétt og stekkur.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

8. Eitt af viðfangsefnum góðra leiðsegjenda er að kynna sér vel sögu og örnefndi viðkomandi staðar. Í bók Guðfinns Einarssonar, “frá Valahnúk til Seljabótar” má lesa fjölmörg örnefni með allri strandlengjunni sem og sagnir af atburðum tengdum tilteknum stöðum. Þannig má þar lesa um Clamstrandið við Kirkjuvogsbás, Alnabystrandið utan við Jónsbás sem og aðra helstu sjóskaða fyrri tíma.
9. Helsta sögueinkenni Grindavíkur er útgerðarsagan, vertíðir og vermennska, en jafnframt útvegsbændamennskan, tilfærska byggðarinnar frá einum stað til annars eftir því sem ölög og aðstæður gáfu tilefni til og hið einkennandi viðhorf til náungans. Þannig var hver landbleðill nýttur til einhverra nota. Ef bóndinn þurft ekki endilega á honum að halda gat einhver annar, t.d. vermaður, fengð hann til afnota. Þannig byggðust upp þurrabúðir og grasbýli í hverfunum er síðar urðu að kotum og endurgerðum húsum.
10. Útgerðarsagan er nátengt útlendingsversluninni, einkum Þjóðverja og Englendinga er endaði með bardaganum mikla í júní árið 1532 er á annan tug Englendinga voru drepnir á einni nóttu í Virkinu ofan við Stóru-Bót. Þangað munum við fara og rifja upp þennan örlagaríka atburð fyrir sögu lands og þjóðar. Þar skammt frá er Junkaragerði er þjóðsagan segir frá. Þjóðsagan er oft tengd tilteknum stað. Reynsla okkar Suðurnesjamanna er sú að yfirleitt er hægt að finna þeim tilvist, sbr. sagan af Herdísu og Krýsu, Þórkötlu og Járngerði, Tyrkjavörðunni, Silurgjá, ræningjunum í Ræningjagjá í Þorbjarnarfelli og fleirum.
Gíghæð – vegurinn lagður á árnum 1913 – 1918. Vegavinnubúðir með ca. 500 m millibili. Hestshellir og hús. Arnarseturshraunið rann 1226. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi er ca 2400 ára.

Dollan

Í Dollunni.

11. Dollan – kíkja í u,þ.b. 300 metra langan helli. Dæmigerður fyrir u.þ.b. 400 slíka á Reykjanesskaganum. Stærstir í Klofningum, neðan Grindarskarða og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir hellar við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn og Arnarseturshellir. Dátahellir skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.
12. Skógfellahraun (ár) – Arnarseturshraun (1226). Hraun á söglegum tíma, sem og nokkur hraun nálægt Grindavík. Hópsnesið er t.d. myndað af gosi í Vatnsheiði (ár), en án þess væri varla svo góð höfn í Grindavík, sem raun ber vitni.
13. Baðsvellir – sel Grindvíkinga um

tíma – ofbeit – selstaða flutt uppá Selsvelli undir vestanverðum Vesturhálsi. Margar tóftir og minjar. Djúpt markaðir stígar. Hópssel við veginn.
14. Þorbjarnarfell – Misgengi í gegnum fjallið – Sagnir um þjófa er herjuðu á íbúana. Ræningjagrá í fjallinu, Baðsvellir norðar og Gálgaklettar austar.
15. Hafið og Grindvikingar samofið í gegnum aldir. En fiskur var ekki hið eina, sem hafið gaf. Af því höfðu menn margvíslegr annað gagn, svo sem fjörugróður ýmiss konar, sem notaður var til mann- og skepnueldis, en ekki síst til eldneytis. Flest árin bar brimið og reka á fjörður Grindvíkinga, matreka jafnt sem viðreka, og sést gagnsemi hans best á því, hve mikil sókn var í kvers kyns rekaítök.
16. Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627 – hertóku allmarga íbúa, en drápu engan skv sögunni. Þó segir sagan að tveir Tyrkir hafi látið lífið í atlögunni – sagan af Rauðku – dys á Hrauni.

Dollan

Í Dollunni.

17. Skipsstígur milli Njarðvíkur og Grindavikur – lýsa leiðinni um Rauðamel – Árnastígur vestar. Gíslhellir á leiðini sunan Rauðamels.
18. Sögufrægir staðir, s.s. Selatangar og Húshólmi.
19. Kóngsverslunin neðan Húsatófta – kítarpípur – Festasker utar. Staðarvör, Stóra-Gerði, Staðarbrunnurinn (1914) sem verið er að endurgerða. Klukkan af Alnaby er strandaði um aldamótin 1900 í klukknaportinu í kirkjugarðinum. Ofar er Nónvarða eða “Tyrkjavarða”. Á meðan hún stendur mun ekkert illt henta Grindvíkinga. Ofan við Húsatóftir eru hlaðin þurrkbyrgi.
20. Sýlingarfell af landi (Svartsengisfjall – nefnt eftir sauði Molda-Gnúps).
21. Hópssel – tóftir.
22. Selsháls – Þorbjarnarfell – misgengi í gegnum mitt fjallið. Bækistöð Breta uppi á fjallinu.
23. Gálgaklettar ofan við Hagafell.

24. Skipsstígur utan í Lágafelli – Endurgerður á u.þ.b. 300 m. kafla utan við Lágafellið – Dýfinnuhellir. Við Skipsstíg er Gíslhellir.
25. Fornavör – sjávargatan – Járngerðarleiði.

Skírnarfontur

Skírnarfontur við Hraun.

26. Stóra-Bót – Junkaragerði.
27. Einisdalur – áning.
28. Hópsnesið – (1928-1942) – Guðjón Pétursson, skipstjóri, lýsti mannlífinu á Nesinu í Sjómannablaðinu 200 – Strýthólahraun – sandfuglinn (egg)
29. Þórkötlustaðahverfi – dys Þórkötlu – Sloki – byrgi – garðar. Hraun – kapellan – Gamlibrunnur – Tyrkjadys – refagildrur – Tyrkjahellir.
30. Eldvörpin – útilegumannabyrgi – hellar með mannvistaleifum í – refagildra.

Tyrkjaránið – Grindavík
Í júlí 1627 segir í Öldinni okkar:

Víkingar frá Algeirsborg ræna fólki og myrða – námu brott allt að fjögur hundruð manns, myrtu fjörutíu og rændu miklum fjármunum. Brenndu auk þess og eyðilögðu mikil verðmæti.
“Geigvænlegir atburðir hafa gerst: Víkingar frá Norður-Afríku hafa gengið á land í Grindavík, Vestmanneyjum og víða á Austfjörðum, rænt fólki og fémæti og drepið fjölda manna. Meðal þeirra er sér Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ í Eyjum. Minnstu munaði að víkingar þessir réðust einnig til atlögu að Bessastöðum, og tálmaði það fyrirætlan þeirra, að eitt skip þeirra tók niðri á boða á Skerjafirði.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Víkingar þessir, sem flestir voru frá Algeirsborg, komu hingað til lands á fjórum skipum. Það er talið að þeir hafi drepið hér um fjörutíu manns, flesta í Vestmannaeyjum, sært nokra og haft á brottmeð sér hátt á fjórða hundrað Íslendinga og nálega tuttugu Dani, þar á meðal tvo Vestfjarðarkaupmenn. Fjögur kaupskip hremmdu þeir og höfðu tvö þeirra á brott með sér.
Í Grindavík voru teknir tólf Íslendingar og þrír Danir og þar að auki áhöfn duggu þeirrar, sem áti að fara til Skutulsfjarðar.
Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir höfninni. Var sendur frá því bátur, að dönsku kaupskipi, er þar lá, og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.

Fiskeldi

Fiskeldi á Reykjanesi.

Grindavíkurkaupmaðurinn, Láritz Bagge, mannaði þá bát og lét róa út í skipið. Voru sendimenn þegar gripnir. Þessu næst greiddu víkingar atlögu, hremmdu kaupskipið og réðust til uppgöngu í kaupstaðinn.
Flúði kaupmaður á land upp með öllum þeim, sem hjá honum voru í kaupmannshúsunum, en víkingar hófu að ræna búðirnar og byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólk, er féll í hendur víkingum. Engan drápu víkingar þó í Grindavík og ekki hirtu þeim um að hafa þá á brott með sér, er lasburða voru og einskis verðir sem þrælar á markaði.
Þegar víkingar létu út frá Grindavík, sáu þeir kaupfar danskt á leið vestur með landinu. Var þetta Skutulsfjarðarduggan. Tókst þeim að blekkja skipstjórnarmenn á henni með danskri veifu og ná henni á sitt vald. Sigldu þeir síðan á tveimur skipum fyrir Reykjanes og Garðskaga og inn Faxaflóa og huguðst ganga þessu næst á land á Álftanesi.
Fréttir af ráninu í Grindavík bárust þegar til Bessastaða, þar sem hirðstjórinn, Holgeir Rósinkrans, var fyrir á herskipi, sem lá á Seylunni. Lét hann undir eins safna liði um Nesin og halda vörð nótt og dag. Kaupför þau, sem komin voru, sendi hann inn á Leirvog í Mosfellssveit, en bændur voru kvaddir til virkishleðslu í Bessastaðanesi og þangað dregnar fallbyssur, sem heima voru á Bessastöðum. Aðkomumenn komu, voru kyrrsettir, og vildi svo til, að meðal þeirra voru þrír Frakkar, sem kunnu með skotvopn að fara, og hinn íslenski ævintýramaður, Jón Indíafari, sem hefur verið skytta á herskipum Danakonungs.

Skarfur

Skarfur í Saltfisksetrinu.

Víkingaskipin lögðu inn á Skerjafjörð laugardaginn 23. júní og stefndu á Seyluna. Steig þá hirðstjóri á hest með sveit manna, og reið flokkurinn fram og aftur með langar stengur, sem smíðaðar höfðu verið. Var það gert í því skyni, að víkingum virtist þar sveit altygjaðra hermanna.
Víkingar tóku að skjóta úr fallbyssum sínum, er þeir nálguðust, og var þeim svarað með fallbyssuskotum úrvirkinu og af hirðstjóraskipinu á Seylunni. Véku þá víkingar skipum sínum undan norður á fjörðinn, en við það tók stærra skipið niðri, þar sem heita Löngusker, og stóð þar fast.
Lét hirðstjóri þá hætta skothríðinni, því að honum þótti ekki vogandi að egna víkingana til bardaga, ef vera kynni, að þeir létu sér strandið að kenningu verða. Hófu víkingar að flytja fanga og þungavarning úr hinu strandaða skipi yfir á hitt, en fleygðu því í sjóinn, er torveldast var viðfangs. Tókst þeim loks eftir hálfan annan sólarhring að ná skipinu af grynningunum og færðu skip sín þá utar, þar sem þeir voru óhultari. Þar selfluttu þeir fólk og varning á ný á milli skipanna, sigldu síðan brott og létu í haf með feng sinn.”

Árið 1628 komu nokkrir þeirra handteknu aftur heim. Þar á meðal voru tvo systkin frá Járngerðarstöðum við þriðja mann. Það var hollenskur kaupmaður sem leyst hafði Grindvíkingana út. Fólk þetta sagði þær fréttir að hinir herteknu væru flestir í ánauð í Algeirsborg, þeir sem ekki létust skömmu eftir komuna til Norður-Afríku.

Stóru Vogar.

Stóru-Vogar.

Á Suðurnesjum eru nokkrar minjar og sagnir tengdar komu Tyrkjanna. Má þar nefna Ræningjastíginn í Heiðnabergi í Krýsuvík, komu Tyrkjanna í Krýsuvíkurselið ofan við bjargið, samskipti séra Eríks á Vogsósum við þá og Ræningjadysin austan við Ræningjahól, Eiríksvarðan á Svörtubjörgum ofan við Selvog, „Tyrkjavarðan“ vestan við Stað í Grindavík, sem ekki má raska, Fornavörin neðan við Járngerðarstaðahverfi, en þar er talið að Tyrkinn hafi varpað akkerum, blóðþyrnirinn (þistill) neðan við Sjólyst í Grindavík, hellir við Húsfjall ofan við Hraun, en þangað ætluðu Þórkötlustaðabúar að flýja ef Tyrkinn kæmi á ný, Dýrfinnuhellir, en sagan segir að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín og dvalið meðan Tyrkir höfðust við í plássinu, byrgin undir Sundvörðuhrauni, en ein tilgátan er sú að þau hafi verið hlaðin til að veita fólki skjól ef Tyrkinn kæmi aftur til Grindavíkur og dysin á Hrauni, en þar eiga Tyrkir er Rauðka drap að hafa vera verptir skv. sögunni, svo eitthvað sé nefnt.
Við Bessastaði má enn sjá Skansinn og minjarnar umhverfis hann, auk fallbyssu í kjallara Bessastaðastofu.

Tyrkir í Grindavík – saga
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir áðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Minningarsteinn

Minningasteinn við Stóru-Vogaskóla.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.
Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

Lok ensku aldarinnar
Aðdragandi – kritur enskra og þýskra og illindi við íbúana – Aðfararnótt 11. júní 1532. Forsaga Grindavíkurstríðsins og atlagan að Virkinu – um 20 dauðir – Junkaragerði utan við Gerðisbrunna.

Grindavíkurvegur

Í byrgi vegavinnumanna á Gíghæð.

Þórkötlustaðanesið
Þórkötlustaðanesið í Grindavík er áhugaverður staður. Minjarnar, sem þar eru ofan við Nesvörina, eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Þar eru m.a. gamlir þurrkgarðar, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og tóttir frá fyrri tíð, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, varar, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, beitningaskúra og innsiglingamerkja frá fyrri hluta síðustu aldar. Fróðlegt og friðsælt er að ganga um svæðið á góðum degi, anda að sér sjávaranganinni og skoða og rifja upp söguna. Pétur Guðjónsson, skipsstjóri fæddist í Höfn. Hann lýsir Nesinu svo:
„Á Þórkötlustaðanesinu voru auk Hafnar, húsin Arnarhvol og Þórshamar. Í Arnarhvoli, sem var vestan við Höfn, bjuggu Engelbert Jónsson og Jóhanna Einarsdóttir. Hafliði Jónsson og Gíslína Guðmundsdóttir bjuggu í Þórshamri, en húsið stendur að hluta til enn sunnan við Flæðitjörnina. Vatninu var safnað af húsþökum, en í þurrkatíð var dæmi þess að vatn væri sótt alla leið upp í Seltjörn. Kom þó sjaldan fyrir, sem betur fer. Hvergi var vatn að fá í hrauninu, en á veturnar og þegar mikið rigndi var vatn stundum sótt í polla handa fénu.
Útgerðaruppgangurinn byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum. Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí. Sumir réru líka héðan svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi. Á sumrum var venjulega róið á minni bátum. Aflinn var bæði þurrkaður og saltaður. Stundum var seldur slægður og jafnvel óhausaður fiskur til Reykjavíkur. Það fór bara eftir aðstæðum á hverjum tíma. Sími var í Höfn, en símstöðin í Sólbakka uppi í hverfi. Öll verslunin fór í gegnum símann, einkum eftir að vörubílar fóru að fara á milli staða.
Fólk kom víða að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Þetta fólk bjó á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Áður lentu bátanir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður út á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum. Fyrsti skúrinn var byggður um 1928, sennilega af fólki frá Einaldi. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Á meðan ég átti heima í Nesi var mest um að fiskurinn væri saltaður, enda bera saltþrærnar þess glögg merki. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar voru sem dæmi beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.
Bryggjan, um 70 metra löng og 10 metra breið steinbryggja, var síðan byggð um 1933 enda vélar þá komnar í flesta báta. Fiskinum var eftir það kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Gamall Fordbíll var til í Höfn um tíma, en hann grotnaði síðar niður undir húsgaflinum. Þá var keyptur bíll í félagi útgerðarmannanna, nefndur “félagsbíllinn”. Á honum var fiskinum ekið upp í fiskhúsin.
Þegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar, en þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.
Áður en bryggjan var byggð voru bátanir drengir á land upp á kambinn norðan hennar. Síðan, þegar stokkarnir voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, sá um það. Það var bensinvélarknúið með Ford-vél. Vélarhúsið við það er horfið. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetninguni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.

Grindavík

Grindavík.

Þegar bryggjan var lengd voru ker forsteypt uppi á kambinum og þeim rennt niður stokkana og síðan sökkt ofan á sandpokahleðslur, sem búið var að raða undir þau af kaförum.
En eftir að grafið hafði verið inn í Hópið úti í hverfi árið 1939 og alvöru hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út hérna. Segja má að útgerðin hafi verið aflögð árið 1946. Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvol var svo flutt þangað árið eftir, en húsið hafði verið byggt í Nesinu um 1930. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.
Jóhann vitavörður Péturssson bjó um tíma í Þórshamri, en húsið var byggt laust eftir 1930. Eftir að flutt var úr hinum húsunum í Nesinu var Jóhann eitthvað að breyta veggjum hjá sér. Varð það til þess að einn þeirra féll á hann og slasaði hann talsvert.
Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu áður en ég fæddist. Ekkert var þurrkað þar í minni tíð í Nesinu. Strýthólaranir eru syðst í hrauninu, en Leiftrunarhóll austast, suðaustan við Þórshamar.
heim aftur á kvöldin.
Helsti hlífðarfantaður sjómanna voru stakkar, sjóhattar og klofstígvél. Ullavettlingar voru á höndum. Alltaf þurfti að eiga slatta af þeim því þeir þófnuðu og urðu fljótt of litlir, auk þess þeir áttu það til að harðna. Konurnar sátu við og prjónuðu á karlana. Sums staðar þurftu húsbændurnir að skaffa sjómönnunum vettlinga og jafnvel annan fatnað sem og kost. Útgerðarmennir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgana þegar gaf og fóru síðan fótgangandi Flestar minjar í Nesinu eru gömlu hlöðnu ískofarnir, fiskhúsin, lifrabræðslan og grunnar beitningaskúranna. Lifrabræðslan var að mig minnir byggð um 1934-35. Öll lifrin var brædd. Guðmann Guðmundsson í lifrabræðslunni keypti alla gotu. Hann bjó í bræðslunni, í skúr nyrst í bræðslunni, kölluð kompan. Þar svaf karlinn á einum bedda. Seldi malt og appelsín.
Grútartjörnin eða Grútarskotti var norðan við lifrabræðsluna. Hún þornaði á sumrum þegar ekkert var verið að vinna þar. Þá kom fyrir að grúturinn væri skorinn upp og hann notaður í eldinn. Hann var reyndar ekki notaður af fólkinu í Nesinu, en fólk kom utan úr hverfi og sótti grút í eldinn. Ég man sérstaklega eftir einum karli, sem það gerði.

Stapadraugur

Stapadraugurinn.

Vegurinn náði að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan út að vörðunni Siggu á vestanverðu Hópsnesi. Vitinn hafði verið byggður á fyrstu árum aldarinnar. Ruddur slóði var út að honum, en hann var síðar lagaður. Nú er kominn hringvegur um Nesið.
Innsiglingavörðurnar voru fyrir framan við Buðlungu, þar sem steypti veggurinn er nú, og önnur upp í heiðinni. Eftir þeim var siglt inn í djúpsundið. Síðan var vent til vesturs þegar komið var á móts við innsiglingavörðurnar ofan við Nesbryggjuna. Á þeirri siglingu braut yfirleitt á hlið á bátnunum, sem gat stundum verið slæmt. Að jafnaði var ekki mikið um brim inni á Bótinni. Hins vegar braut oft talsvert sitt hvoru megin, einkum ef eittvað var að veðri. Auðvitað komu hér líka mjög slæm veður. Ég man þó ekki eftir að bátur hafi brotnað á siglingu inn, en í miklum veðrum gekk sjórinn upp á og inn yfir kambinn. Og það kom fyrir að skip, sem þar stóðu, brotnuðu. Ég man eftir því er sjórinn braut hliðar í skúrum næst sjónum í afar vondu veðri.
Mikil hleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíl, líkt og aðrar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Við hann var dæla, sem notuð var til að dæla sjónum upp upp úr. Nú er búið að sturta yfir brunninn.
Allir urðu að hafa eitthvað fyrir stafni. Erfitt gat verið að sækja sjóinn, en þau voru líka mörg handtökin í landi. Þegar grafið hafði verið inn í Hópið breyttist allt. Þá lagðist allt af í Þórkötlustaðanesinu og atvinnulífið færðist út í Járngerðarstaðahverfið.
Þegar gengið er um Þórkötlustaðanesið og út á Hópsnesið má víða sjá upplýsingarskilti um strönd og skipsskaða og jafnvel brak úr bátum.
Þurrkgarðar eru frá fyrr tíð ofar á Nesinu sem og gömul þurrkbyrgi í Strýthólahrauni, skammt vestan við Þórshamar.
Nú standa minjarnar hér eftir sem tákn hins liðna – en eftirminnilega.“

ÓSÁ tók saman.

Þórkötlustaðanes

Gengið um Þórkötlustaðanes.

Grindavík

Tillaga að nokkrum stuttum gönguleiðum í umdæmi Grindavíkur:

Staðarhverfi

Staðarhverfi – kort ÓSÁ.

a. Staðarhverfi; Kóngsverslunin – Staður – Stóra-Gerði – Staðarvör – Staðarbrunnur – Hvirflar
b. Stóra-Bót: Virkið – Skyggnir – Junkaragerði – Fornavör – Sjávargatan – Járngerðardys
c. Sundvörðuhraun; “Tyrkjabyrgi” – “útilegumannahellir”
d. Eldvörp; jarðfræði – klepragígar – fagurt landslag – hrauntröð
e. Þorbjörn; Ræningjagjá – Baðsvellir – Gálgaklettar
f. Hópsnes; Hóp – sjóbúðir – Sigga – skipsströnd
g. Þórkötlustaðanes; Strýthólahraun – fiskibyrgi – Leiftrunarhóll – saga útgerðar á fyrri huta 20. aldar – tilfærsa byggðar – minjar ískofa – lifrabræðsla – spil – fjaran
h. Þórkötlustaðahverfi; Buðlunga – Klöpp – Slokahraun – þurrkgarðar – byrgi – varir
i. Hraun; dys – Gamlibrunnur – kapella – krossrefagildra – Guðbjargarhellir– forn skírnarfontur – Hraunssandur
j. Vatnaheiði; K9 – Skógfellavegur – vatnsstæði – myllusteinagerð – hellir (skjól fyrir Tyrkjum)
k. Hópsheiði; Jónshellir – Skógfellavegur – Gálgaklettar – Eldborgir
l. Arnarseturshraun; Arnarseturshellir – vegavinnubúðir – Dollan – Kubbur – Hestshellir – Hnappur
m. Skipsstígur; Dýrfinnuhellir – Gíslhellir – forn þjóðleið – Rauðhóll
n. Ísólfsskáli; Hrauntangi – þurrkgarðar – byrgi – Hraunsnes – Rekagata
o. Selatangar; forn verstöð byrgi – hús – garðar – refagildrur – Katlahraun – fjárskjól
p. Húshólmi; fornar minjar – garðar – selstaða – fjárborg – grafreitur
q. Litlahraun; selstaða – rétt – fjárskjól – tóftir
r. Klofningar; Argrímshellir (Gvendarhellir) – Bálkahellir
s. Seljabót; Herdísarvíkursel – gerði – Keflavík – Bergsendar

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Hér á eftir er fjallað um nokkur áhugaverð atriði er varða Grindavík. Fólk á leið í og um bæinn gæti nýtt sér þennan fróðleik til að upplifa hluta af sögu hans því flest það, sem minnst er á má sjá með berum augum ef vel er að gáð.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

1. Það er alltaf sól í Grindavík – stundum að vísu á bak við skýin. Hér er súrefnið hvað ferskast og svo til ónotað er það kemur með vindum og golfstraumnum sunnan úr höfum. FERLIR hefur farið um 1310 ferðir um Reykjanesskagann, en einungis þrisvar fengið kærkomna rigningu á þeim ferðum. Reykjanesskaginn er sennilega ónýttasta útivistarsvæði landsins – í nálægð við u.þ.b. 200.000 neytendur, auk annarra áhugasamra Íslendinga, að ekki sé talað um nýtingu skammstoppandi útlendingum til handa. Svæðið hefur upp á allt að bjóða, sem önnur fjarlægari svæði gætu boðið upp á – jarðfræðina, náttúruna, fegurðina, fjölbreytina, minjarnar, söguna og þjóðtrúna, eitt helsta sérkenni okkar Íslendinga.
2. Mikilvægt er fyrir leiðfarendur að vera jákvæða og uppbyggjandi – vera innblásturshvetjandi, frumlega og leitandi að einhverju áður ókunnu. Nægan eldivið fyrir slíkt er að finna í Grindavík og nágrenni.
3. Mörk Grindavíkur að norðanverðu – Í Arnarklett við Snorrastaðatjarnir og þaðan yfir í Seltjörn (Selvatn) – í Þórðarfell og áfram niður í Valahnúkamalir við Reykjanestá. Austurmörkin eru í Seljabót þannig að landið, og ekki síst ströndin, er víðfeðmt.
4. Áður fyrr lágu fimm meginleiðir til Grindavíkur, sem um tíma var eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls þegar fiskurinn varð að aðalútflutnings- og söluvöru landsins og stóllinn lagði undir sig flestar sjávarjarðirnar á Reykjanesskaganum, ekki síst til að geta brauðfætt áhangendur biskups og skólasveina hans. Austast var leiðin frá Krýsuvík um Ögmundarhraun, þá Skógfellaleiðin frá Vogum, Skipsstígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum. Reyndar á enn ein leið að hafa legið frá Rosmhvalanesi um svonefndan Gamlakaupstað ofan Ósabotna og áfram áleiðis til Grindavíkur um Sandfellshæð, en ekki sést móta fyrir henni í dag. Þó má merkja vörðubrot ofarlega á Hafnasandi.

Grindavík

Járngerðarstaðavör.

5. Sagan segir (Landnámabók) að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Afritum Landnámu ber þó ekki saman um fjölda sona Molda-Gnúps – meira um það á eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Við munum í ferðinni m.a. skyggnast fyrir um mögulega landsetu höfðingjans á tilteknum stað á mörkum Járngerðarstaða- og Þórötlustaðahverfis.
6. Njarðvíkursel er sunnan við Selvatn. Rústir má sjá þar glögglega og sennilega er það eitt nærtækasta selið á Reykjanesi – ekki nema u.þ.b. 50 metra frá veginum – þó utan umdæmis Grindavíkur. Skammt frá er hlaðin rétt og stekkur.
7. Eitt af viðfangsefnum góðra ferðamanna er að kynna sér vel sögu og örnefndi viðkomandi staðar. Í bók Guðfinns Einarssonar, “frá Valahnúk til Seljabótar” má lesa fjölmörg örnefni með allri strandlengjunni sem og sagnir af atburðum tengdum tilteknum stöðum. Þannig má þar lesa um Clamstrandið við Kirkjuvogsbás, Alnabystrandið utan við Jónsbása sem og aðra helstu sjóskaða fyrri tíma. Þá tekur Saga Grindavíkur eftir Jón Þ. Þór á flestu hinum markverðasta um sögu og staðhætti í Grindavíkurumdæmi.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðsla á Þorkötlustaðanesi.

8. Helsta sögueinkenni Grindavíkur er útgerðarsagan, vertíðir og vermennska, en jafnframt útvegsbændamennskan, tilfærsla byggðarinnar frá einum stað til annars eftir því sem örlög og aðstæður gáfu tilefni til og hið einkennandi viðhorf til náungans. Eimir af því enn þann dag í dag í samskiptum fólksins. Hver landbleðill var nýttur til einhverra nota. Ef bóndinn þurfti ekki endilega á honum að halda gat einhver annar, t.d. vermaður, fengð hann til tímabundinna afnota. Sumir ílengdust. Þannig byggðust upp þurrabúðir og grasbýli í hverfunum er síðar urðu að kotum og endurgerðum húsum.
9. Útgerðarsagan er nátengt útlendingsversluninni, einkum Þjóðverja og Englendinga er endaði með bardaganum mikla í júní árið 1532 er á annan tug Englendinga voru drepnir á einni nóttu í Virkinu ofan við Stóru-Bót. Þangað er áhugavert að fara til að rifja upp þennan örlagaríka atburð fyrir sögu lands og þjóðar. Þar skammt frá er Junkaragerði og minjarnar þar er þjóðsagan segir frá. Þjóðsagan er oft tengd tilteknum stað. Reynsla Suðurnesjamanna er sú að yfirleitt er hægt að finna þeim tilvist, sbr. sagan af Herdísu og Krýsu, Þórkötlu og Járngerði, Tyrkjavörðunni, Silurgjá, ræningjunum í Ræningjagjá í Þorbjarnarfelli og fleirum.
10. Á Gíghæð má sjá nokkur hús vegavinnumanna frá því að Grindavíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 – 1918. Vegavinnubúðirnar hafa verið með ca. 500 m millibili. Hestshellir er þar í leiðinni sem og nokkur heilleg og hús. Arnarseturshraunið rann árið 1226. Mörg hraun, stór og smá, eru ofan og utan við byggðina í Grindavík. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi ca 2400 ára.

Staðarkirkjugarður

Klukkuport í Staðarkirkjugarði.

11. Dollan er um 130 metra hraunhellir – rás, er myndaðist er hraunskelin hrundi undan vegavinnutæki er nota var við vinnu nýja vegarins. Stuttan stiga þarf til að komast niður í hann um jarðfallið. Dæmigerður fyrir u.þ.b. fjöldann af slíkum hraunhellum á Reykjanesskaganum. Stærstir eru þeir í Klofningum, neðan Grindarskarða, ofan Stakkavíkurfjalls, í Bláfjöllum og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir fleiri hellar eru við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn og Arnarseturshellir. Dátahellir er skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.
12. Skógfellahraun er eldra en Arnarseturshraun. Hraun á sögulegum tíma eru nokkur hraun nálægt Grindavík. Hópsnesið er hins vegar eldra. Það er myndað af gosi í Vatnsheiði, en án þess væri varla svo góð höfn í Grindavík, sem raun ber vitni.
13. Á Baðsvöllum voru sel Grindvíkinga um tíma, en voru færð á Selsvelli vegna ofbeitar. Þar eru margar tóftir og minjar, djúpt markaðir stígar og vatnsstæði. Hópssel er hins vegar við veginn, visntra megin, rétt áður en komið er að Selhálsi milli Þorbjarnarfells og Svartsengisfjalls.
14. Þorbjarnarfellið er ekki síst merkilegt fyrir misgengið er liggur í gegnum fjallið. Sjá má hvernig miðja fjallsins hefur fallið niður og bergveggir stannda eftir beggja vegna. Sagnir um þjófa er héldu til í fjallinu og herjuðu þaðan á íbúana. Ræningjagja er í fjallinu, en Baðsvellir norðan þess og Gálgaklettar austar. Allir tengjast þessir staðir sögunni.
15. Hafið og Grindvikingar samofið í gegnum aldir. En fiskur var ekki hið eina, sem hafið gaf. Af því höfðu menn margvíslegt annað gagn, svo sem fjörugróður ýmiss konar, sem notaður var til mann- og skepnueldis, en ekki síst til eldneytis. Flest árin bar brimið og reka á fjörur Grindvíkinga, matreka jafnt sem viðreka, og sést gagnsemi hans best á því, hve mikil sókn var í kvers kyns rekaítök. Fátt er heilsusamlegra en að ganga rekann eða ráfa um fjörurnar í góðu veðri, anda að sér sjávaranganum og skoða aðfallslífið.

Grindavíkurvegur

Búðir vegavinnumanna við Grindavíkurveginn.

16. Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627 – hertóku allmarga íbúa, en drápu engan skv. sögunni. Þó segir sagan að tveir Tyrkir hafi látið lífið í atlögunni – sagan af Rauðku er skildi eftir sig dys á Hrauni.
17. Skipsstígur liggur milli Njarðvíkur og Grindavikur, um Rauðamel og áfram þar sem hann klofnar í Árnastíg er liggur niður að Húsatóftum. Við Skipsstíg er m.a. Gíslhellir, skjól eða athvarf einhverra, sem þar vildu dvelja.
18. Sögufrægir staðir eru í umdæminu, s.s. Selatangar og Húshólmi. Á Selatöngum er gamalt útver með öllum þeim minjum, sem þeim fylgja, og í Húshólma eru með merkustu fornleifum landsins, líklega frá upphafi landnáms hér á landi.
19. Kóngsverslunin var neðan Húsatófta. Þar má í dag m.a. sjá kítarpípur koma undan tóftunum, sem sjóinn er óðum að brjóta iður – Festasker eru utar. Þarna er hin flóraða Staðarvör, bærinn Stóra-Gerði, Staðarbrunnurinn (1914), sem nú er verið að endurgera, og Hvirflarnir, rústir ofan við gömlu bryggjuna í Staðarhverfi. Bjallan af Alnaby er strandaði um aldamótin 1900 við Jónssíðubás utan við Húsatóftir er í klukknaportinu í kirkjugarðinum. Ofar er Nónvarða eða “Tyrkjavarða”. Sagt er að á meðan hún stendur mun ekkert illt henta Grindvíkinga. Ofan við Húsatóftir eru hlaðin þurrkbyrgi.
20. Sýlingarfell er mið af sjó. Annars heitir það Svartsengisfjall – nefnt eftir sauði Molda-Gnúps. Á kolli þess er fallegur gígur.
21. Hópsselið er við veginn skömmu áður en komið er upp á Selháls.
22. Á Þorbjarnarfelli var um tíma bækistöð Breta. Enn má sjá grunnam hleðslur og vegi uppi á fjallinu sem minjar þessa.
23. Gálgaklettar eru ofan við Hagafell. Þeir tengjast sögunni um ræningjana í Þorbjarnarfelli.
24. Skipsstígur hefur verið endurgerður að hluta utan í Lágafelli –Við hann er Dýfinnuhellir er tengist sögu af samnefndri konu er þangað flúði með börn sín eftir að Tyrkirnir stigu á land í Grindavík.

Sundvörðuhraun

Byrgi í Sundvörðuhrauni.

25. Fornavör er neðan Járngerðarstaða. Frá bænum lá sjávargatan framhjá Járngerðarleiði, er nú má sjá í eitt hornið af undir veginum gegnt Hliði.
26. Stóra-Bót geymir Virki Jóhanns breiða og samlanda hans og stendur sem minnisvarði um lok ensku aldarinnar hér á landi. Þar er og Junkaragerðið, sem fyrr segir.
27. Einisdalur er fallegur áningastaður vestan Járngerðarstaða.
28. Hóp hefur af sumum verið talið vera landnámsjörð Molda-Gnúps. Hann átti þrjá sonu sbr. Hauksbók, en fjóra sbr. Sturlubók. Þeir hétu a.m.k. Björn (Hafur-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi, sem Þórðarfell er kennt við. Fjórði bróðirinn á að hafa verið Gnúpur er Gnúpshlíðarháls er kenndur við. Talið er jafnvel að landnámið hafi verið þar sem Hóp er nú. Getið er jarðarinnar Hofs í rekamáldaga Skálholtskirkju frá árinu 1270. Engin jörð við Grindavík hefur borið það nafn á síðari öldum. Um misritun gæti hafa verið að ræða. Hof gæti líka hafa breyst í Hóp eftir að kristni af innleidd. Við Hóp er öruggt vatnsból, stutt sjávargata, góð lending og mikil fjörugæði. Þar er tóft, sem nefnd er Goðatótt og ekki hefur mátt hrófla við.
29. Í Þórkötlustaðahverfi má m.a. finna dys Þórkötlu, fiskbyrgi og -garða í Slokahrauni og við Hraun er 14. aldra kapella, Gamlibrunnur, Tyrkjadys, refagildrur og Tyrkjahellir.
30. Þórkötlustaðanesið er lifandi minjasafn um útgerð sjávarþorps á fyrri hluta 20. aldar, semnú er horfið. Eftir standa íshúsin, fiskkofarnir, garðarnir, uppsátrið, rústir lifrabræðslu og grunnar húsa, sem fjarlægð hafa verið og flutt í önnur hverfi – meira lifandi.

Grindavík

Grindavík.

Grindavík

Sagan
Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast.

ískofi

Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin síðustu voru íbúar 357 talsins. Grindavík er öflugt sveitarfélag á suðurströnd Reykjanesskaga um 50 km frá Reykjavík. Íbúar voru 2.382 þann 1. desember sl., en eru nú um hálft þriðjaþúsund. Fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægð við gjöful fiskimið, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláalónið sem og öflugt íþróttastarf með ungu fólki, allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Nú höfum við bætt við menningu okkar hérna í Grindavík og reist Saltfisksetur Íslands í Grindavík þar höfum við eignast stórt og mikið menningarsetur sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt sem Íslendinga.

Atvinnulífið
Gamlar verbúðirGrindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Meðal stærstu fyrirtækjanna má telja Þorbjörn-Fiskanes hf, Stakkavík,Vísir og Samherji/Fiskimjöl og Lýsi. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna sem mestum afla skila á land á hverju ári. Þótt Grindavík hafi lengst af byggt afkomu sína á sjávarútvegi hefur á síðustu árum orðið verulegur samdráttur í vinnu landverkafólks og það ýtt undir leit að nýjum atvinnutækifærum. Aukin vinna við þjónustu kom með byggingu glæsilegrar langlegudeildar í Víðihlíð, dvalarheimili aldraðra í Grindavík. Deildin tilheyrir Sjúkrastofnun Suðurnesja í Keflavík. Þá varð mikill uppgangur í þjónustu við ferðamenn með uppbyggingunni við Bláalónið og tilkomu Saltfiskseturs Íslands í Grindavík. Þar er verið að byggja hótel og meðferðaraðstöðu við Lónið á nýjum stað þar sem baðgestir eru alveg öruggir og öll aðstaða verður eins og best verður á kosið. Nú er hótel við Bláalónið, veitingastaður og einnig fer þar fram vinnsla á heilsuvörum sem unnar eru úr efnum úr Lóninu. Í bænum er öll nauðsynleg þjónusta heilsugæsla, tannlæknir, verslanir, löggæsla, skrifstofa Sýslumanns.

Ferðamenn velkomnir 
TómasUndanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík, en það er aðallega ört vaxandi þjónustu að þakka. Hér eru nokkur veitingahús, gistihús, hótel og tjaldstæði, ný útisundlaug með heitum pottum, heilsuræktarsal og gufubaði, verslanir, bankar, bílaleigur og öll nauðsynleg þjónusta. Margt er hægt að gera sér til afþreyingar. Hér er hestaleiga, silungsveiði, góður 13 holu golfvöllur í skemmtilegu umhverfi við sjóinn. Hægt er að fara í sjóstangaveiði eða útsýnissiglingu. Þá spyr fólk gjarnan eftir Sólarvéinu sem staðsett er milli íþróttahússins og Félagsheimilisins Festi. Það er heiðið listaverk tileinkað sólinni. Margar merktar gönguleiðir eru í nágrenni Grindavíkur fyrir þá sem hafa gaman af göngu í fallegu og stórbrotnu landslagi. Í klettunum meðfram ströndinni á Reykjanestá er mjög fjölbreytt fuglalíf. Þaðan er gott útsýni að Eldey, en þar er einmitt mesta súlubyggð í heimi. Einnig er margt að skoða með ströndinni og tilvalið að ganga fjörurnar út frá höfninni.

GömulBláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi, enda tilvalið að slaka á í ylvolgu lóninu en lækningamáttur þess hefur reynst vel á ýmsa húðkvilla. Saltfisksetur Íslands í Grindavík er tilvalið fyrir ferðamanninn að stoppa og kynna sér sögu saltfiskverkunnar í gegnum tíðina, er þetta eitt af þeim söfnum sem ferðamaðurinn getur ekki sleppt, þar kemst hann í nálægt við allt sem tengist verkunninni, lykt, hljóð og sjón.

Grindavík er skammt frá Keflavík og í aðeins 50km. fjarlægð frá Reykjavík. Grindavík er tilvalinn staður að heimsækja hvort heldur sem menn vilja fjölbreytta afþreyingu, eða njóta þess að slaka á í skemmtilegu umhverfi.

Upplýsingaskrifstofa fyrir ferðafólk er rekin allt árið í Saltfisksetri Íslands í Grindavík.

Umdæmið
Nær frá Valahnúk í vestri að Seljabót í austri.

Nokkrir atburðir
VirkiðGrindavíkurstríðið 1532
Tyrkjaránið 1627
Bátasendaflóðið 1799
Skipsskaðar; Alnaby, Clam, Skúli fógeti
Byggðaþróun – Staðarhverfi – Þórkötlustaðahverfi – Járngerðarstaðahverfi

Sagnir.
TYRKJAR Í GRINDAVÍK
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síð

an tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.
(Jón Árnason)

ÞORKATLA OG JÁRNGERÐUR

Grindavíkursjór

Grindavíkursjór.

Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af.
Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.
(Jón Árnason)

FESTARFJALL
FestisfjallAustarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
(Ruðskinna)

SILFURGJÁ

Básar

Refagildra á Básum ofan Staðarbergs.

Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur.
Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.
(Rauðskinna)

Gamla Kirkjan
Gamla Kirkjan hefur fengið nýtt hlutverk með nýjum tímum. Hún var reist árið 1909 og var byggingarefnið fengið að mestum hluta til úr gömlu kirkjunni að Stað sem hafði staðið frá 1858. Kirkjan þjónaði Grindvíkingum allt til 1982, frá árinu 1988 hefur verið starfrækt barnaheimili í kirkjunni. Í næsta nágrenni kirkjunnar eru mörg sögufræg hús, s.s. Krosshús en þar skrifaði Halldór Laxnes Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns, læknis og tónskálds, Garðhús heimili Einars G. Einarssonar athafnamanns og fyrsta kaupmanns Grindavíkur, en þessi þrjú hús voru miklar menningarmiðstöðvar fram undir miðja öldina.

Nokkir staðir áhugaverðir staðir
Staðahverfi, Stórabót, Eldvörp, Hópsnes, Selatangar, Húshólmi, Krýsuvík, Klofningar, Krýsuvíurberg, Selalda, Selsvellir, Baðsvellir Gálgaklettar, Hraunsandur og Festisfjall.

Heimildir:
-grindavik.is
-Saga Grindavíkur
-Tómas Þorvaldsson – ævisaga
-Milli Valahnúka og Seljabótar – Guðfinnur Einarsson

Grindavík

Skansinn
Í júlí 1627 segir í Öldinni okkar:
 Víkingar frá Algeirsborg ræna fólki og myrða – námu brott allt að fjögur hundruð manns, myrtu fjörutíu og rændu miklum fjármunum. Brenndu auk þess og eyðilögðu mikil verðmæti.

Skansinn

Skansinn.

“Geigvænlegir atburðir hafa gerst: Víkingar frá Norður-Afríku hafa gengið á land í Grindavík, Vestmannaeyjum og víða á Austfjörðum, rænt fólki og fémæti og drepið fjölda manna. Meðal þeirra er séra Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ í Eyjum. Minnstu munaði að víkingar þessir réðust einnig til atlögu að Bessastöðum, og tálmaði það fyrirætlan þeirra, að eitt skip þeirra tók niðri á boða á Skerjafirði.
Víkingar þessir, sem flestir voru frá Algeirsborg, komu hingað til lands á fjórum skipum. Það er talið að þeir hafi drepið hér um fjörutíu manns, flesta í Vestmannaeyjum, sært nokkra og haft á brott með sér hátt á fjórða hundrað Ísledninga og nálega tuttugu Dani, þar á meðal tvo Vestfjarðarkaupmenn. Fjögur kaupskip hremmdu þeir og höfðu tvö þeirra á brott með sér.
Í Grindavík voru teknir tólf Íslendingar og þrír Danir og þar að auki áhöfn duggu þeirrar, sem átti að fara til Skutulsfjarðar.
Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir höfninni. Var sendur frá því bátur að dönsku kaupskipi er þar lá og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.
Grindavíkurkaupmaðurinn, Láritz Bagge, mannaði þá bát og lét róa út í skipið. Voru sendimenn þegar gripnir. Þessu næst greiddu víkingar atlögu, hremmdu kaupskipiðog réðust til uppgöngu í kaupstaðinn.

Stórabót

Stórabót.

Flúði kaupmaður á land upp með öllum þeim, sem hjá honum voru í kaupmannshúsunum, en víkingar hófu að ræna búðirnar og byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólk, er féll í hendur víkingum. Engan drápu víkingar þó í Grindavík og ekki hirtu þeim um að hafa þá á brott með sér, er lasburða voru og einskis verðir sem þrælar á markaði.
Þegar víkingar létu út frá Grindavík, sáu þeir kaupfar danskt á leið vestur með landinu. Var þetta Skutulsfjarðarduggan. Tókst þeim að blekkja skipstjórnarmenn á henni með danskri veifu og ná henni á sitt vald. Sigldu þeir síðan á tveimur skipum fyrir Reykjanes og Garðskaga og inn Faxaflóa og huguðst ganga þessu næst á land á Álftanesi.
Fréttir af ráninu í Grindavík bárust þegar til Bessastaða, þar sem hirðstjórinn, Holgeir Rósinkrans, var fyrir á herskipi, sem lá á Seylunni. Lét hann undir eins safna liði um Nesin og halda vörð nótt og dag. Kaupför þau, sem komin voru, sendi hann inn á Leirvog í Mosfellssveit, en bændur voru kvaddir til virkishleðslu í Bessastaðanesi og þangað dregnar fallbyssur, sem heima voru á Bessastöðum. Aðkomumenn komu, voru kyrrsettir, og vildi svo til, að meðal þeirra voru þrír Frakkar, sem kunnu með skotvopn að fara, og hinn íslenski ævintýramaður, Jón Indíafari, sem hefur verið skytta á herskipum Danakonungs.
Víkingaskipin lögðu inn á Skerjafjörð laugardaginn 23. júní og stefndu á Seyluna. Steig þá hirðstjóri á hest með sveit manna, og reið flokkurinn fram og aftur með langar stengur, sem smíðaðar höfðu verið. Var það gert í því skyni, að víkingum virtist þar sveit altygjaðra hermanna.
Víkingar tóku að skjóta úr fallbyssum sínum, er þeir nálguðust, og var þeim svarað með fallbyssuskotum úr virkinu og af hirðstjóraskipinu á Seylunni. Véku þá víkingar skipum sínum undan norður á fjörðinn, en við það tók stærra skipið niðri, þar sem heita Löngusker, og stóð þar fast.

Lét hirðstjóri þá hætta skothríðinni, því að honum þótti ekki vogandi að egna víkingana til bardaga, ef vera kynni, að þeir létu sér strandið að kenningu verða. Hófu víkingar að flytja fanga og þungavarning úr hinu strandaða skipi yfir á hitt, en fleygðu því í sjóinn, er torveldast var viðfangs. Tókst þeim loks eftir hálfan annan sólarhring að ná skipinu af grynningunum og færðu skip sín þá utar, þar sem þeir voru óhultari. Þar selfluttu þeir fólk og varning á ný á milli skipanna, sigldu síðan brott og létu í haf með feng sinn.”

Árið 1628 komu nokkrir þeirra handteknu aftur heim. Þar á meðal voru tvo systkin frá Járngerðarstöðum við þriðja mann. Það var hollenskur kaupmaður sem leyst hafði Grindvíkingana út. Fólk þetta sagði þær fréttir að hinir herteknu væru flestir í ánauð í Algeirsborg, þeir sem ekki létust skömmu eftir komuna til Norður-Afríku.
Á Suðurnesjum eru nokkrar minjar og sagnir tengdar komu Tyrkjanna. Má þar nefna Ræningjastíginn í Heiðnabergi í Krýsuvík, komu Tyrkjanna í Krýsuvíkurselið ofan við bjargið, samskipti séra Eríks á Vogsósum við þá og Ræningjadysin austan við Ræningjahól, Eiríksvarðan á Svörtubjörgum ofan við Selvog, „Tyrkjavarðan“ vestan við Stað í Grindavík, sem ekki má raska, Fornavörin neðan við Járngerðarstaðahverfi, en þar er talið að Tyrkinn hafi varpað akkerum, blóðþyrnirinn (þistill) neðan við Sjólyst í Grindavík, hellir við Húsfjall ofan við Hraun, en þangað ætluðu Þórkötlustaðabúar að flýja ef Tyrkinn kæmi á ný, Dýrfinnuhellir, en sagan segir að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín og dvalið meðan Tyrkir höfðust við í plássinu, byrgin undir Sundvörðuhrauni, en ein tilgátan er sú að þau hafi verið hlaðin til að veita fólki skjól ef Tyrkinn kæmi aftur til Grindavíkur og dysin á Hrauni, en þar eiga Tyrkir er Rauðka drap að hafa vera verptir skv. sögunni, svo eitthvað sé nefnt.
Við Bessastaði má enn sjá Skansinn og minjarnar umhverfis hann, auk fallbyssu í kjallara Bessastaðastofu.

Sjá einnig Tyrkir í Grindavík og Tyrkjaránið I og Tyrkjaránið II.Tyrkjaránið