Tag Archive for: Grindavík

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var niður í Seljabót frá Sýslusteini. Girðing er þar á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, en þau eru jafnframt sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Við girðinguna eru einnig endamörk Grindavíkurumdæmis að austanverðu. Reyndar mætti deila um staðsetningu markanna, en venjulegast er miðað við línu milli Seljabótanefs og Sýslusteins og þaðan í Kóngsfell (Konungsfell), öðru nafni Stóra Bolla. Eldri girðing liggur á ská til norðausturs í gegnum Herdísarvíkurhraun og í Fálkagilsskarð (Fálkageirsskarð) í Herdísarvíkurfjalli. Austan við girðinguna nefnist hraunið (sem reyndar eru nokkur) Herdísarvíkurhraun, en vestan við hana Krýsuvíkurhraun. Sum vestari hraunanna eru komin úr Edborgum (Litlu og Stóru) undir Geitahlíð, en einnig úr fallegum gígum ofan Geitahlíðar, sbr. hraunið er rann niður Slátturdal, oft nefnt Fjárskjólshraun.
Skömmu áður en komið er niður í Seljabót, suður undir syðstu hraunbrúninni, er Herdísarvíkursel, nokkrar tóftir og stekkur. Nokkur austar með ströndinni má enn sjá móta fyrir a.m.k. einni hlaðinni refagildru, sem minnst hefur verið á í gömlum lýsingum af þessu svæði. Sjórinn er búinn að brjóta aðrar undir sig.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Í Seljabót er hlaðið gerði. Ofan þess er gróinn hóll uppi í brunahrauninu, að hluta til manngerður. Girðingin svo að segja frá honum í beina línu til norðurs, að Sýslusteini. Seljabótanefið er fremst en frá því er fallegt útsýni austur eftir Háabergi, stundum nefnt Herdísarvíkurberg.
Haldið var til vesturs með ströndinni. vel má sjá lagskiptinguna á hinum ýmsu hraunum sem og tegundum hrauna, er runnið hafa þarna í sjó fram. Neðst og næst sjónum eru fallegar hraunæðar og rásir, sem sjórinn hefur hreinsað allt laust ofan af. Ofar er gjallmulningur og ofan á því grágrýti og hraungrýti. Allt myndar þetta hina fallegustu hraun- og litasamsetningu þarna á mörkum lands og sjávar.

Herdísarvíkurbjarg

Á Herdísarvíkurbjargi.

Á einum stað, á örlitlu svæði, eru hraunlistaverk, sem myndu sóma sér vel í hvaða stofu sem væri. Fallegust er þau þarna ofan strandarinnar – þar sem þau urðu til er herra Ægir og frú Hraun runnu saman í eitt.
Víða eru mjóar víkur eða básar inn í ströndina og oftlega opnast fallegt útsýni yfir hluta strandarinnar. Vel grói er ofan strandarinnar. Svo til miðja vegu milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur er hóll er ber hæst í landslagið, sama úr hvorri áttinni er komið. Á hólnum er hlaðin beinakerlning eða skilaboðavarða.
Stórir sjávarhellar eru sums staðar inn undir bergið og gatklettar eru nokkrir. Þrír eru þó tilkomumestir. Skammt vestan og neðanundir beinakerlingunni er feiknafallegur og mikill svelgur, opinn með stórri steinbrú til hafs, ótrúleg náttúrusmíð. Ekki er gott fyrir lofthrædda að standa of nærri brúninni. Skammt vestar er fallegt útsýni vestur með berginu, m.a. gatkletti skammt austan Kefavíkur.

Keflavík

Keflavík.

Vestar er Keflavík. Víkin ber nafn með réttu; stórum keflum hefur skolað þar á land. Stígur liggurniður í víkina, sem er gróinn næst berginu, en utar eru stórt ávalt fjörugrjótið. Vestan við Keflavík má slá leifar af gamla berginu. Ofan á því standa nokkrir gulskófnir steinar (fuglaglæða/húsglæða). Nefnast þeir Geldingar. Af grashól vestan við keflavík, austan Geldinga, er fallegt útsýni austur eftir berginu, m.a. að gatklettinum fyrrnefnda.
Haldið var áfram yfir apalhraunið neðan Klofninga. Ofar í þeim er Arngrímshellir, stundum nefndur Gvendarhellir.

Keflavík

Keflavík – gatklettur.

Gengið var niður undir gamla bergið neðan Krýsuvíkurhellis. Þar sést vel hvernig hraunið hefur runnið niður af berginu og fram af því, en skilið hluta þess eftir sem fagurt sýnishorn af því sem var.
Skammt vestar eru Bergsendar, grasi grónir. Af þeim er einn fallegasti útsýnisstaðurinn vestur eftir Krýsuvíkurbjargi, háu og tilkomumiklu. Gengið var upp eftir fjárhólfsgirðingunni ofan Bergsenda og að réttinni undir Stóru Eldborg.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krýsuvíkurbjarg

Á Krýsuvíkurbjargi.

Reykjanes

Sagt er að ysti hluti Suðvesturkjálkans nefnist Reykjanes, þ.e. svæðið vestan línu er dregin er á milli Stóru-Sandvíkur í norðri og Sandvíkur í suðri.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Allt er svæðið mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri. Eldfjöll eru þar mörg en öll fremur lág. Þau eru einkum tvenns konar, hraundyngjur, s.s. Skálafell og Háleyjarbunga og gossprungur eða gígaraðir s.s. Stampar og Eldvörp. Gígaraðir tvær eru miklum mun yngri en dyngjurnar og sennilega orðnar til á sögulegum tíma. Nokkuð er og um móbergsfjöll þarna og ber einna mest á Sýrfelli. Utan í því er fallegur gígur, Hreiðrið (Stampur)
Mikill jarðhiti er víða á Reykjanesskaganum. Reykjanestáin er þar ekki undanskilin. Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er land þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpittum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Lokst var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í Gunnu.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Viti er á Reykjanesi, sá fyrsti sem byggður var á Íslandi árið 1879, Hann var reistur upp á Valahnúk, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og komur þá þrjár stórar sprungur skammt frá honum, bær vitavarðarins skemmdist og enn meira rask varð á jörðu og mannvirkjum. Var vitinn endurbyggður þar sem hann er nú á árunum 1907-1908. Hann stendur í 78 m.y.s.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Guðrún var ódæll draugur, sem olli usla. Galdraprestur var fenginn til að koma henni fyrir í hvernum. Rétt þar hjá er saltvinnsla og fiskþurrkun og þar mun líklega rísa magnesíumverksmiðja í framtíðinni. Árið 2003 var hafin bygging stórs varmaorkuvers á Reykjanesi í tengslum við stækkun Norðuráls á Grundartanga við Hvalfjörð.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn fyrri.

Fyrsti viti landsins var reistur uppi á Valahnjúki árið 1878. Árið 1887 ollu jarðskjálftar miklu hruni úr hnjúknum, þannig að nýr viti var reistur á árunum 1907-08, þar sem hann stendur enn þá 73 m yfir sjó. Skammt undan Reykjanestá er 52 m hár drangur í sjónum. Hann heitir Karl. Utar sést til Eldeyjar í góðu skyggni. Hún er 77 m há og á henni er mesta súlubyggð í heimi, u.þ.b. 70 þúsund fuglar. Eldey hefur oft verið klifin, en til þess þarf sérstakt leyfi, þar sem hún er á náttúruverndarskrá. Á Eldeyjarsvæðinu hefur líklega gosið a.m.k. 10 sinnum og þrisvar hafa orðið til eyjar, sem hurfu nokkurn veginn jafnskjótt og þær urðu til.
Gengið var frá Gunnuhver, suðurmeð austanverðu Skálafelli og niður á Krossavíkurbjarg, öðru nafni Hrafnkelsstaðaberg. Bergið er 10 – 40 metra hátt. Undir því fórst bátur í marsmánuði 1916 með 10 eða 11 manna áhöfn. Skipshöfnin komst í land, að sagan segir fyrir dugnað Kristjáns Jónssonar frá Efri-grund, sem hélt skipinu föstu í klettunum meðan skipshöfnin var að komast úr því. Skipið dróst síðan út og brotnaði. Undir berginu eru Skemmur – básar inn undir bergið á kafla. Eitt mesta björgunarafrek, sem unnið hefur verið undan ströndum landsins, var unnið þarna fyrir utan er kútter Ester frá Reykjavík bjargaði áhöfnum fjögurra báta, eða 40 manns. Undir berginu þarna stendur bergstandur úti í sjó, líklega leifar af steinboga. Heill og stór steinbogi er í borginni skammt vestar og sést hann vel þegar staðið er inni á bjargbrúninni.

Reykjanes

Litliviti.

Nýjasti Reykjanesvitinn, stundum nefndur Litli viti, er á Tánni. Hann er staðsettur þarna vegna þess að stóri vitinn á reykjanesi er í hvarfi við Skálafellið á kafla nokkuð austur í grindavíkursjó. Vestan við hann er Blásíðubás. Í óverðinu í mars 1916, mestu hrakningum í sjóferðasögu grindavíkur, bjargaðist einn bátanna upp í básinn og áhöfnin bjargaðist. Blásíðubás er stærstur básanna við Grindavíkurstrendur og einn sá fallegasti. Vitað er að þrisvar hafi skipshafnir lent og bjargast þar á síðustu stundu frá því að lenda í Reykjanesröstinni og sogast þannig til hafs.

Valbjargargjá

Valbjargargjá.

Áður en komið er út að Valbjargargjá mótar fyrir bás. Ofan við hann er varða. Þarna varð eitt af stærstu sjóslysum, sem orðið hafa á þessum slóðum, þegar olíuskipið Clam strandaði og 27 menn drukknuðu. Eitthvert ofboð hljóp í skipshöfnina eftir að skipið strandaði. Björgunarbátar voru settir út í brimið, en það velti þeim á svipstundu. Ekki voru nema 20-30 metrar í land. Þremur mönnum skolaði lifandi á land. Þegar björgunarsveitin úr Grindavík kom á vettvang voru enn 24 menn um borð í skipinu. var þeim öllum bjargar á línu milli skips og lands.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valahnúkamölin er fyrsta örnefnið í Grindavíkurlandi vestan megin. Þar eru landamegi Hafna, eða Kalmanstjarnar í Höfnum og Staðar í Grindavík. Mörkin hafa ekki verið krýsulaus. Hafnamenn nefndu t.d. básinn ausanvið Valbjargargjá Kirkjuvogsbás, svona til að koma Hafnalandinu örlítið austar, en Grindvíkingar hafa ekki sætt sig við það.
Fallegt útsýni er af berginu yfir að Valahnúk. Draugshellirinn í miðjum hnúknum sést vel, efst í grasbrekku. Við hann eru tengdar rammar draugasögur (sjá Rauðskinnu).

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Gengið var vestur eftir Valahnúksmölum og niður að Keldutjörn. Reykjanesvitinn speglaðist fagurlega í vatninu. Vestan við tjörnina eru hleðslur eftir hina gömlu sundlaug Grindvíkinga, en í gjánni innan þeirra lærðu margir Grindjánar að synda á fyrri hluta 20. aldar. Líklega hefur verið hitavermsl í gjánni þótt hún sé nú kulnuð.
Gengið var vestur að flóruðum stíg er lá á milli Valahnúks, þar sem fyrsti vitinn hér á landi var reistur, og vitavarðarhússins. Vestan við Valahnúk er lægð í hellulandið. Í henni er flóraður vegur niður undir helluna. Þangað var efnið í gamla vitann og vitavarðahúsið m.a. sótt. Leifar gamla vitans liggja undir Valahnúk og bíða endurnýjun lífdaga. Það voru danskir er höfðu hönd í bagga við byggingna á sínum tíma sem og gerð brunnsins í túninu neðan við Bæjarfell.

Karl

Karlinn.

Karlinn stendur teinréttur utan við ströndina, 52 m hár móbergsdrangu. Eldey ber í sjónarrönd.
Reykjanesið, svonefnda, býður upp á ótrúlega mikla útivistarmöguleika. Minjasvæðið tengt vitagerð nær frá Kistu að Hrafnkelsstaðarbergi. Þar má sjá grunn gamla sjóhússins, lendinguna neðan þess, gerði, stíg, flóraðagötu niður að sjó vestan Valahnúks, flóraðan stíg milli hans og vitavarðahússins gamla, brunninn undir Bæjarfelli, leifar gamla vitans undir Valahnúk, vitann á Vatnsfelli og Litla vita á Reykjanestá svo eitthvað sé nefnt.

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Berg- og jarðmyndarfræðin (sköpunarsagan) eru þarna allt um kring, fugla- og gróðurlíf er með fjölbreyttara móti, auk þess sem landslagið er bæði hrikalagt og fagurt í senn. Og ekki skemmir fyrir að svæðið er einungis spölkorn frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu (Grindvíkingar gætu hæglega gengið þangað líkt og í sundlaugina fyrrum).
Frábært veður – sól og afar hlýtt – Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-natmus.is
o-Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson – 1960.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

FERLIR  hefur nú (2023) endurnýjað þrjú af átta sögu- og minjaskiltum Grindavíkur með stuðningi bæjaryfirvalda.

Grindavík

Grindavík – gamla skiltið við Járngerðarastaði.

Skiltin eru við Járngerðarstaði (sögusvið Tyrkjaránsins), Hóp og í Þórkötlustaðahverfi og eru til viðbótar þeim tveimur, sem endurnýjuð voru á síðasta ári (2022), þ.e. við gömlu kirkjuna og ofan við bryggjuna á Þórkötlustaðanesi. Skiltin voru orðin 12 ára gömul og höfðu látið verulega á sjá vegna ágangs ljóss, veðurs og vinda. Illlæsileg skilti eru engum til ánægju og því nauðsynlegt að viðhalda þeim eftir þörfum.

Grindavík

Grindavík – endurnýjað skilti við Járngerðarstaði.

Örnefna- og minjaskiltunum er ætlað að vera bæjarbúum og gestum þeirra til fróðleiks um þeirra næsta mjög svo áhugaverða umhverfi. Gerð þeirra var upphaflega styrkt af Grindavíkurbæ, Saltfiskssetri Íslands og Pokasjóði. FERLIR gaf alla vinnu við undirbúning og gerð þeirra. Vonir standa til að hægt verði að endurnýja þau þrjú skilti er eftir eru, þ.e. á Holuhól í Staðarhverfi, á Gerðarvöllum og við Hraun, næsta vor.

Sjá umfjöllun um endurnýjun fyrstu tveggja skiltanna HÉR.

Grindavík

Grindavík – Örnefna- og minjaskiltið við Járngerðarstaði.

Staðarberg

Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun austan við Staðarhverfi í Grindavík.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli. Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega undan Staðarberginu sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu. Þegar hún var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var heil fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 75. hlaðna refagildran, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesi. Nýlega fannst gömul refagildra austan við Ísólfsskála. Fyrir nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til að Nesinu. Í dag eru u.þ.b. 90 slíkar þekktar á Reykjanesskaganum.
Fyrir skömmu var skoðuð önnur hlaðin refagildra í Básum ofan við Staðarberg (sjá að neðan). Án efa kunna fleiri hlaðnar refagildrur að leynast þarna í hraununum.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Refagildra

Refagildra í Básum.

Klöpp

Þótt tóftir bæjarins Klappar austan Buðlungu í Þórkötlustaðahverfi Grindavíkur gefi ekki til kynna mikil merkilegheit er þar margs að minnast.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur 2018.

Fjallað er um bæjarstæðið í skýrslu um „Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð„. Þar segir m.a. um Klöpp og nágrenni:
„Þórkötlustaða er getið 1270 í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Hjáleigur 1703 voru: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.

Buðlunguvör

Buðlungavör

Buðlungavör 2023.

„Í klapparskoru (bás) við sjóinn framan við eystri Þórkötlustaðabæina er Buðlungavör. Þessi lending var notuð þegar hægt var,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar. „Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni
eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi,“ segir í örnefnaskrá AG.

Buðlungavör

Buðlungavör – för eftir kili árabátanna á klöppinni ofan vararinnar.

Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.“ segir Guðsteinn Einarsson. Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestari-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austur, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austanvið klöppina er lygnara en þar er lendingin í Buðlunguvör. Buðlungavör er um 175 m suðaustan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 70 m beint suður af Buðlungu. Ryðgaðir festarboltar eru á þessum slóðum við sjóinn. Stórgrýttur sjávarkampur og svartar hraunklappir í sjó fram. Vörin er stórt skarð í klettana um 15-20 m langt og 10 m breitt. Samkvæmt Lofti Jónssyni var lent upp við klöpp við vörina vestanverða og síðan var aflinn borinn upp á klöppina fyrir ofan sem nefnd var Skiptivöllur.

Teigur (eldri)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

„Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson (94 ára) við bæjarstæði Klappar.

Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus [Harður]. Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35x 12m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5×5 m að stærð og snýr norður-suður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást.

Öskugarður

Klöpp

Klöpp – Suðurgarður efst. Öskurgarðurinn kominn undir kampinn.

Garðlag sem líklega hefur að hluta til verið varnargarður lá áður frá túninu í Buðlungu/Klöpp og til vesturs alla leið að kálgörðum frá Austurbæjum Þórkötlustaða. Garðurinn hefur einnig markað af suðurhlið túna sem tilheyrðu Buðlungu/Klöpp. Segja má að þetta garðlag og suðurhlið hans austar hafi mögulega tengst en á milli er túnskiki Buðlungu/Klappar auk þess sem suðurhlið fyrrnefnds garðs er alveg horfin í rof. Garðurinn sem hér er skráður hefur upphaflega verið tæpir 110 m á lengd og var fast ofan við fjörukambinn. Á þeim slóðum sem garðurinn var hefur sjórinn þeytt yfir nokkru grjóti og er garðurinn alveg horfinn á löngum kafla.

Verbúð

Klöpp

Hraunreipi neðan sjávargötu Klappar að Buðlungavör. Minjar verbúðarinnar eru nú horfnar, enda segir Árni að „drjúgur hluti Klappartúnsins“ sé kominn undir kampinn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Heimræði árið um kring og gánga þar skip heimabóndans. item áttært skip dómkirkjunnar um vertíðina, og fylgja því staðarins skipi bæði búð og vergögn, sem staðurinn við magt heldur“. Ekki er vitað hvar verbúðin hefur verið en líklegast hefur hún verið neðan við Þórkötlustaði eða á milli bæjarins og Buðlungu. Elsta þekkta lýsing á verbúðum í Þórkötlustaðalandi er í úttekt frá 4, júní 1738 þar sem getið er um tvær „sjómannabúðir. Var önnur þeirra í tveim stafgólfum, en hin í þrem, og báðar sagðar vel stæðilegar. Þessar búðir hafa að líkindum aðeins hýst eina skipsáhöfn hvor, en einnig voru til búðir fyrir tvær skipshafnir.“ segir í Sögu Grindavíkur.
Hafa ber í huga að sjávarkampurinn hefur sífellt verið að færa sig upp á landið ofanvert. Árni Guðmundsson vitnar um það í viðtali á Klapparstæðinu, þá 94. ára.

Buðlunga (elsta staðsetning)

Klöpp

Klöpp og hluti gömlu Buðlungu neðst t.v.

1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram af þeim.

Buðlunga (yngra bæjarstæði) 

Klöpp

Tóftir Klappar og Buðlungu.

1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.“ segir í sóknarlýsingu. „Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,“ segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir:
„Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingu, matjurtagarðar 200 □ faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefa af sér 55 hesta, mætti græða út. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.

Þórkötlustaðir

Gamla-Buðlunga.

Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar
virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu. Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er tihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana. Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp.

Klöpp

Klöpp

Klöpp – sjórinn hefur brotið landið neðanvert í gegnum aldirnar…

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13.
Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930.  Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.

Klöpp (yngra bæjarstæðið)

Klöpp

Klöpp – yngsta bæjarstæðið.

1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,“ segir í sóknarlýsingu. „Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig.

Guðmundur Jónsson og margrét Árnadóttir í Klöpp.

Klapparhjónin Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir.

Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson við gömlu Klöpp.

Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5×21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin framan við bæjardyrnar, beint fyrir utan baðstofugluggann, sem var austan við eldhúsið. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.

Gata

Klöpp

Sjávargatan frá Buðlungavör að Klöpp.

Sjávargatan frá Klöpp lá frá Klapparbænum gamla og niður að sjó í gegnum sjóvarnargarðinn. Gatan er merkt inn á túnakort frá 1918. Túngarður Klappar
myndaði vesturhlið traðanna alla leið að bænum, þar sem var hlið á túngarðinum en hlaðinn var traðarveggur að austan. Umhverfis traðirnar er grasi gróin slétta. Hólfið er nýtt fyrir hross og sést traðk og hrossaskítur víða.
Túngarður Klappar/Buðlungu markar vesturhlið traðanna frá suðurenda þeirra (þar sem hlið hefur verið á sjóvarnargarði) og hálfa leið heim að tóft Klappar eða samtals 28 m löngum kafla. Vesturveggurinn (túngarðurinn) mjög stæðilegur, víða 1 m á hæð en um 1,5 m þar sem mest er. Í veggnum sjást 6-8 umför af hleðslu. Austurhlið traðanna er 1-2 umför af grjóti. Hæð að innri brún allt að 0,5 m en ytri brún er ógreinilegri. Veggurinn er 0,3 á hæð og 0,8 m á breidd.
Austurhliðin er merkjanleg á um 16 m kafla. Um 4 m norðan við suðurenda traðanna hefur verið hlaðið þvert yfir þær, og girðing strengd þvert yfir svæðið. Timburþil hefur einnig verið lagt yfir traðarendann að sunnan.

Klöpp (þriðja bæjarstæði)

Klöpp

Klöpp – eldhúsið.

„Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra bæjarstæðið og er það bæjarstæði skráð undir þessu númeri. Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.

Klöpp

Klöpp – bæjarstæðið.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: „“Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]“ Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Árni staðfesti það síðar í viðtali. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.

Hlaða

Klöpp

Klöpp – hlaðan.

Stæðileg útihúsatóft er um 14 m sunnan við bæjarstæði Klappar. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var heyhlaða á þessum stað sem faðir hans byggði. Guðmundur seldi reif svo húsið og seldi Indriða Guðmundssyni sem flutti það að Auðsholti. Túngarður markar af túnstæði Klappar/Buðlungu. Nú er beitarhólf fyrir hross á þessum slóðum. Tóftin er 11×7 m stór og snýr norður-suður. Hún er grjóthlaðin en gróin og eru veggir alveg yfirgrónir að utanverðu. Hún skiptist í tvö hólf og er það vestara stærra. Það er 6×3 m að innanmálin austur-vestur og virðist hafa verið opið til vesturs þótt þar megi greina lága hleðslu ofan í tóftinni. Aðrir veggir eru stæðilegir og stendur norðurveggur best, í allt að 1,8 m hæð og sjást þar 14-15 umför af börðu sjávargrjóti. Austan við er lítið hólf 3,4×1,7 m að innanmáli sem snýr norður-suður og er opið til suðurs. Ekki er op á milli hólfa en veggurinn sem er á milli hólfanna er mjög mikið hruninn (0,6 m á hæð).

Klöpp

Klöpp – hlaðan.

Tæpum 1 m frá suðvesturhorni tóftarinnar er lítill ferningur um 1 m á kant, líkt og þar hafi grjót verið hlaðið undir e.k. mannvirki. Til austurs frá tóftinni er um 4 m löng hæð sem er 0,5 m hærra en umhverfið og nær hún að túngarði. Þar sem hæðinni sleppir virðist mögulega hafa verið götutroðningur meðfram sunnanverðri tóftinni, samkvæmt túnakorti frá 1918. Ekki hefur þó verið op á túngarðinum á þessum stað og ekki sjást greinileg merki götunnar og hún er því aðeins skráð undir þessu númeri en ekki á sérstöku númeri eins og flestar verulegri götur sem þekktar eru á svæðinu.

Gata

Klöpp

Klöpp – Slokahraun og Hraun. Klapparbændur notuðu Slokahraunið til fiskverkunar.

Götur lágu áður þvert yfir tún Klappar og eru hlið eða op á túngarð Klappar að austan og vestan þar sem göturnar lágu í gegnum hann. Göturnar eru merktar inn á túnakort frá 1918. Götunum er viðhaldið að hestum en svæðið er nú beitarhólf hrossa. Göturnar lágu fyrir sunnan eldra bæjarstæðið en fyrir norðan það yngsta á þessu svæði. Ógreinilegar götur sjást á þessum stað í gegnum túnið, um 20 m langar. Ekki er hægt að merkja framhald þeirra til vesturs (þar sem margvíslegt rask hefur átt sér stað) en hægt er að rekja þær í um 50-60 m um túnið til austurs, þar til komið er að lítilli tjörn sem þar er.

Hrútakofi

Klöpp

Klöpp – fjárhústóft.

Samkvæmt Lofti Jónssyni var hrútakofi neðst eða syðst í túninu hjá Buðlungu/Klöpp. Árni Guðmundsson hafði greint honum frá þessu og Loftur taldi að það hefði verið umræddur kofi sem hefði horfið í flóðið 1925 og Árni greindi frá í viðtali 1986. Á þessum stað er grastó í sjávarkampinum beint niður af Klapparbænum. Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað.
Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað. Samkvæmt frásögn Árna Guðmundssonar (1891-1991) fóru mörg hús við Klöpp/Buðlungu mjög illa í Stórflóðinu 1925. Árni hafði þar hrút í kofa sem var járnklæddur. Þegar Stórflóðið varð þá tók þakið ofan af húsinu og hrútinn og allt. Þegar Árni kom daginn eftir var allt á kafi í sjó. Það varð bið á því að Árni kæmist en um kaffileytið daginn eftir þá sér er byrjað að fjara af túninu og þá fer hann að sjá ofan á kofann. Árni var viss um að hrúturinn væri dauður. Þegar hann loksins kemst að húsunum heyrir hann jarm og þá hafði hrútinum orðið til lífs að smá loftrými virðist hafa verið efst í húsinu. Þótti þetta talsvert merkilegt. Í sama flóði bjargaðist hestur Guðmundar bróður hans sem var í kofa á sömu slóðum.

Upphaf og þróun byggðar í Þórkötlustaðahverfi

Túnakort

Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.

Náttúrufar í Grindavíkurhreppi einkennist af miklum eldshræringum sem hafa mótað svæðið allt frá því á forsögulegum tíma. Landbrot hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið enda er landsig hér á landi hvergi meira en einmitt á þessum slóðum. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál í hreppnum og hafa áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum. Sökum alls þessa er stór hluti hreppsins óbyggilegur. Meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna leynast þó víða grænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. Í mörgum þessara vinja hefur líklega snemma myndast þéttbýli á íslenskan mælikvarða og íbúar reitt sig á sjósókn samhliða skepnuhaldi. Þórkötlustaðahverfið er dæmi um slíkt svæði. Í þessum kafla verður gerð tilraun til að rýna í tiltækar vísbendingar um upphaf og þróun búsetu í Þórkötlustaðahverfi, allt fram á þennan dag.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðatorfan.

Þegar reynt er að ráða í byggðarþróun á tilteknu svæði má nota ýmsar vísbendingar sem finnast við fornleifaskráningu, úr fornum ritheimildum, stærð og dýrleika jarðar, jarðarheiti og landgæði til að setja fram tilgátur um upphaf og þróun byggðar. Kuml eru sjálfstæð vísbending um búsetu fyrir árið 1000 og kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku og vitna því um hið sama. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og
dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi.

Samkvæmt Landnámubók var landnámsmaður í Grindavík Molda-Gnúpur Hrólfsson. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðmæri í Noregi, en bróðir hans var Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann samkvæmt Landnámu þar til landið spilltist af jarðeldum og flúði hann þá vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn. Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar.

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir. Um tímasetningu landnáms í Grindavík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér
stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík.
Hvergi er hins vegar talað um hversu margir fylgdu Molda-Gnúpi. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má geta þess til að þeir hafi byggt fjóra stærstu bæina í Grindavík: Stað, Járngerðarstaði, Þórkötlustaði og þá mögulega Hraun.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)

Haldbetri fornleifafræðileg vísbending um forna búsetu í Þórkötlustaðahverfi er hins vegar að finna í þeim minjum sem komið var ofan í þegar hlaða var byggð á bæjarhól Þórkötlustaða, um aldamótin 1900. Þar komu í ljós leifar skálabyggingar sem líklega er frá fyrstu öldum byggðar og bendir það eindregið til að byggð hafi verið komin á snemma í hverfinu og að sjálft bæjarstæðið hafi verið á svipuðum slóðum allt frá fyrstu öldum.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Á móti vegur sú staðreynd að byggð í Grindavík skiptist snemma í þrjú hverfi sem ætla mætti að hverfðust um elstu og bestu jarðirnar en þau eru kennd við jarðirnar Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Samanlagt verður að teljast líklegt að Þórkötlustaðir sé á meðal elstu jarða í Grindavíkurhreppi og líklegast að hún hafi komist í byggð á 9.-10. öld þótt frekari rannsókna sé þörf til að fullyrða nokkuð um það.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – varða.

Þótt ekki séu ítarlega heimildir tiltækar um Þórkötlustöðum á miðöldum er jarðarinnar getið á nokkrum stöðum í Fornbréfasafni. Athygli vekur að Krýsuvíkurkirkja átti þar landskika a.m.k. frá 13. öld en í máldögum frá þeim tíma og síðar kemur fram að kirkjan eigi „ix mæla land aa Þorkotlustodum“. Mælieiningin „mælir“ lands var notaður um stærðir kornakra og heimildin er því vísbending um akurrækt á svæðinu á fyrstu öldum.
Árið 1534 kemur fram á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi og í heimild frá 1562 er getið um Þórkötlustaði í tengslum við mannsdráp sem þar átti sér stað. Bréf frá árinu 1563 sýnir að jörðin var þá orðin eign Skálholtsstaðar.

Heródes

Heródes – álagasteinn við Þórkötlustaði.

Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.

Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi.

Þórkötlustaðir

Vestari Vesturbær Þórkötlustaða – flugmynd.

Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.
Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum. Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýsluog sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880. Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.

Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.

Í „Fornleifaskráningu í Grindavík, 2. áfanga, 2002“ segir m.a. um Klöpp:

Klöpp

Klöpp – tóftir.

1703: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.“ Um 60 m suðaustan við núverandi íbúðarhús á Buðlungu stendur bárujárnsklædd skemma og suðaustan í henni eru tóftir Klappar. Þar var síðasti Klapparbærinn. Austan skemmunnar er hrossagirðing og lenda tóftirnar að mestu leyti innan hennar. Annars er umhverfis hana sléttað malarplan.

Klöpp

Klöpp – fjárhús.

Svæðið allt er um 50×40 m. Tóftirnar eru tvær, sú syðri minni og væntanlega útihús. Hún er um 9×5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Vestara hólfið er opið til vesturs en hið eystra til suðurs. Fast norðvestan í tóftinni er steypustokkur, e.t.v. einhverskonar þró. Um 10 m norðan við tóftina eru tóftir Klapparbæjarins en skemman hefur rofið norðvesturhluta þeirra. Þær eru mjög greinilegar en ekki er um neinn bæjarhól að ræða. Tóftirnar eru um 22×14 m að stærð og skiptast í sex hólf og gang. Vestasta hólfið er enn undir þaki en mjög sigið. Op eru þrjú, til suðurs, norðurs og vesturs. Báðar tóftirnar eru mjög heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1,3 m en umför allt að átta. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Umhverfis tóftirnar eru grjóthlaðnir túngarðar um 1 m háir. Suðurhluti þeirra liggur alveg í stórgrýttum sjávarkampinum en þó er vel hægt að greina hleðsluna. Norðan í henni miðri er tóftarbrot, mjög ógreinilegt en talsvert er af grjóti í því. Um 20 m sunnan við nyrðri tóftina eru grjóthleðslurnar tvöfaldar og mynda einskonar traðir, um 10 m langar, suður á kampinn.

Klöpp

Árni Guðmundsson í viðtali við ón Daníelsson.

Í myndbandi Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar þar sem Jón Daníelsson í Buðlungu ræðir við Árna Guðmundsson kemur m.a. eftirfarandi fram: Árni: „Hér bjuggu afi minni og amma, Árni Einarsson og Guðrún Árnadóttir, ættuð austan úr Flóa. Hún var frá Gafli í Flóa.“
Í Sögu Járngerðarstaðarættarinnar segir að Árni Einarsson hafi verið fæddur 3. des. 1828 á Þórkötlustöðum, dáinn 14. ágúst 1882 í Klöpp, bóndi í Klöpp og Buðlungu. Kona hans hafi verið Guðrún Gamalíelsdóttir frá Hamri í Gaulverjabæ.
Foreldrar Árna voru Margrét Árnadóttir, f. 29. des 1861 í Hraunkoti í Grindavík, d. 26. ágúst 1947, húsfreyja í Klöpp, og maður hennar Guðmundur Jónsson, f: 19. okt. 1858 á Þórkötlustöðum, d. 3. des. 1936, bóndi og sjómaður. Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi á Þórkötlustöðum og Valgerður Guðmundsdóttir frá Hrauni. Þau eignuðust sjö börn; Einar Guðjón, Guðrúnu, Valgerði, Jón, Árna, Guðmund Ágúst og Guðmann Marel.“

Klapparbletturinn er, skv. framangreindu, merkilegur fyrir margra hluta sakir. Slíkar minjar ber að varðveitta, þótt ekki sé fyrir annað en að minnast sögu fólksins, sem þar bjó…

Heimildir:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Myndband Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar – https://vimeo.com/113794968
-Fornleifaskráning í Grindavík, 2. áfangi, Reykjavík 2002.

Klöpp

Klöpp – skemma í Austurtúninu.

Brimketill

Gengið var að Brimkatli austan við Mölvík. Brimið lék við ketilinn sem og hamraða ströndina. Ægir skellti sér af og til upp í skálina og lék sér þar um stund eða þangað til hann renndi sér úr henni aftur.

Brimketill

Brimketill vestast á Staðarbergi.

Haldið var út með ströndinni til vesturs. Um er að ræða þægilega sandfjöru með smá klappalabbi neðan við misheppnuðu laxeldisstöðina ofan Mölvíkur. Stór steyptur stokkur gengur þar niður í fjöruna, kjörinn myndatökustaður yfir víkina. Ofan við kambinn er fúlatjörn þar sem fuglar undur hag sínum vel. Krían, sandlóan, spóinn og fleiri fuglar gleymdu sér þar í sátt og samlyndi.
Uppi á nefinu milli Mölvíkur og Sandvíkur er stórbrotið útsýni yfir að Háleyjabungu, Krossavíkurbjargi og Hrafnkelsstaðabergi til vesturs og yfir Mölvík og Staðarberg til austurs. Utan við heitir Víkur.

Háleyjar

Tóft undir Háleyjarbungu.

Sandfjörur er með Sandvík, en auk reka er þar að finna mikinn fjölda plantna er setja sérstakan svip á umhverfið. Annars vegar er dökkur sandurinn og hins vegar litskrúðugar plöntur inni á milli steina og sandaldna.
Undir Háleyjabungu er forn tóft. Einhvers staðar segir að tóftin hafi verið útver, nýtt frá Skálholti, líklega sem rekavinnsla eða jafnvel lending undir bungunni. Nýlega hefur verið grafinn þverskurður í tóftina, líklega til að grennslast fyrir um aldur hennar. Neðan hennar er vik inn í ströndina, varin af hraunrana sjávarmegin, Háleyjahlein. Þarna rak m.a. lík óþekkta sjómannsins, sem nú hvílir í Fossvogskirkjugarði.

Háleyjar

Varða á Háleyjabungu.

Á gígbarmi Háleyjabungu er gömul varða, nú orðin gróin. Skammt norðan hennar er önnur nýrri. Gígurinn sjálfur er hin fallegasta náttúrusmíð. Ef hann yrði gerður aðgengilegur hefði hann síður minna aðdráttarafl fyrir ferðamenn en t.d. Kerið í Grímsnesi. Háleyjabunga er í umdæmi Grindavíkur svo það hermir upp á þarlenda að gera hann sýnilegan áhugasömum og forvitnum vegfarendum á leið um svæðið.
Af Háleyjabungu er ágætt útsýni yfir að Sýrfelli og Hreiðrinu (Stampi) í norðri, Skálafelli í vestri og Grindavíkurfjöllunum í austri. Klofningahraun er áberandi þar á milli.

Brimketill

Brimketill (Oddnýjarlaug).

Með alla þessa síbreytilega náttúrufegurð þar sem lýsing og lyndisveður spila sjálfgefna möguleika ætti varla að verða erfitt fyrir ráðendur að nýta sér þá ótrúlega ódýru framkvæmdir er gera myndu svæðið aðgengilegra fyrir ferðalöngum. Annars væri vel þess virði að fara yfir þetta svæði með það fyrir augum að opna það túrhestum á leið um Reykjanesið. Vegagerð þarna er ótrúlega auðveld og kostnaðarlítil.
Á þessari leið eru a.m.k. þrír staðir sem ferðamenn hefðu sérstakan áhuga á að skoða og væru tilvaldir til að staðnæmast við á ferð um Reykjanesið. Tiltölulega auðvelt væri að gera sæmilegan slóða upp að brún Háleyjabungu og upp á nefið milli Mölvíkur og Sandvíkur. Slóði liggur nú þegar að Brimkatlinum.
Veður var frábært – hiti og stilla. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Brimketill

Brimketill.

 

Húshólmi

Gengið var um Ögmundarstíg undir Krýsuvíkur-Mælifelli og áleiðis yfir Ögmundarhraun milli þess og Latsfjalls.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Staðnæmst var við dys Ögmundar, sem er þarna í austurjarðri hraunsins. Þar er eini hluti hins gamla Ögmundarstígs, sem enn er óbreyttur. Öðrum köflum stígsins í gegnum hraunið hefur verið breytt eftir því sem ökutækin hafa tekið breytingum. Þannig var hann endurruddur að nýju í byrjun fjórða áratugs 20. aldar er hann var gerður ökufær á kostnað Hlínar Johnsens í Krýsuvík. Stígurinn ber þess merki, enda orðinn bæði nokkuð beinn og breiður. Nýi akvegurinn liggur svo til samhliða honum skammt sunnar í hrauninu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Dysin er skírskotun til þjóðsögunnar um Ögmund og áhuga hans á að eignast dóttur Krýsuvíkurbónda (aðrir segja Njarðvíkurbónda). Bóndi samþykkti eftirgjöfina gegn því að Ögmundur ruddi stíg yfir hraunið á tilskyldum tíma. Ögmundur hófst handa að vestanverðu, en þegar hann kom austur yfir hraunið sat bóndi fyrir honum, drap hann þar í lægð og dysjaði. Þar er nú Ögmundardys. Enn má sjá hlöðnu dysina við stígkantinn.
Ögmundarhraun er undir Núpshlíðarhálsi, milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Hraunið er talið hafa runnið um 1151 eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið.

Latur

Latur. Latsfjall ofar.

Ögmundarstíg var fylgt yfir að Latsfjalli og síðan gengið suður með því að austanverðu, niður Latstöglin. Franskur ferðamaður, sem leið hafði átt gangandi um Krýsuvíkurveg, slóst með í förina, en hann var á leið til hins mikla og margfræga menningarbæjar Grindavíkur. Þegar hann frétti af fyrirhugaðri göngu FERLIRs vildi hann ólmur slást með í för. Eftir gönguna sagðist hann varla trúa því enn að landið byggi yfir slíkum töfrum sem raun ber vitni. Var honum tjáð að lykillinn að þessum töfrum væri í höndum bæjarstjóra Grindavíkurbæjar.

Sængurkonuhellir

Sængurkonuhellir.

Sunnan við Lat var komið við í sæluhúsi í hraunskúta. Hlaðið er fyrir munnann. Op er á skútanum og hlaðið umhverfis það að ofanverðu. Þarna leituðu ferðalangar skjóls á leiðum þeirra milli Krýsuvíkur og Grindavíkur fyrrum.
Stígur liggur ofan sæluhússins áleiðis í og neðan við Óbrennishólma. Stígurinn heldur áfram til austurs sunnan hólmans, en að þessu sinni var götu fylgt inn í hólmann og staðnæmst þar við stóra forna fjárborg á hæð í honum sunnanverðum. Í lægð vestan við borgina mótar fyrir fornu garðlagi frá norðri til suðurs. Austar er tóft, annað hvort af minni fjárborg er hringlaga topphlöðnu húsi. Hár hraunkanturinn er skammt austan hennar.

Óbrennishólmi

Garður í Óbrennishólma.

Haldið var upp í hólmann og skoðaðir garðar þeir er hraunið hafði staðnæmst við. Greinilega sést hvar þunnfljótandi hraunið hefur runnið yfir hlaðinn garð. Grjótið í honum er úr grágrýti en ekki hraungrýti, sem er allt umhverfis. Líkast til er þarna um tvö hraun, mismunandi gömul, að ræða. Garðurinn hefur verið hlaðinn á eldra hraunið, en það yngra runnið að honum. Grjótið í garðinum er svipað og á holtinu hjá stóru fjárborginni og í borginni sjálfri.

Óbrennishólmi

Skjól eða fjárborg ofan Óbrennishólma.

Ofar í hrauninu er hlaðið hringlaga gerði, líklega nýrra, enda úr hraungrýti. Þá er hlaðið gerði og garður út frá því neðst og syðst í hólmanum. Hann virðist vera nýrri, enda hlaðinn að hraunkantinum, en hraunið ekki yfir honum líkt og efra.

Gengið var austur yfir úfið hraunið áleiðis að Húshólma. Af efstu brún þess er fallegt útsýni yfir hólmann og nærliggjandi hraun. Þaðan sést vel hvernig skipting hraunsins hefur verið, annars vegar þynnfljótandi og hins vegar úfið og seigt. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa að öllum líkindum verið hæðir í fyrrum landslaginu og því staðið upp úr þegar hraunin runnu.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Í suðri sést vel í Brúnavörður, en við þær liggur stígur frá suðurbrún úfna hraunsins áleiðis í Húshólma. Stígurinn er flóraður á kafla.
Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka móta fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells.
Skiptar skoðanir eru um aldur Ögmundarhrauns en nýjustu niðurstöður benda til þess að það hafi runnið 1151. Myndast hafa nokkrir landhólmar í hraunrennslið og kallast þessir hólmar óbrennishólmar.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Húshólmi er þeirra stærstur. Í honum eru varðveittar húsarústir, og er talið að þar hafi Krýsuvík hin forna staðið. Í Kirkjulágum, smáhólmum skammt vestan við Húshólma, eru húsarústir og er ein þeirra talin vera af kirkju og nafnið dregið af því. Leifar einnar byggingarinnar eru nær horfnar en hraunið sem runnið hefur umhverfis hana stendur eftir og mótar útlínur hennar. Er það nær einstakt í heiminum að fornleifar hafi varðveist með slíkum hætti, mótaðar inn í storknaðan hraunstraum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þegar komi er að rústunum í Húshólma, eða öllu heldur í hrauninu skammt vestan við hólmann, má fyrst sjá minjar skála, sem hraunið hefur runnið umhverfis og brennt torfveggina. Eftir stendur stoðholuröð. Í þeim hafa verið stoðir, sem haldið hafa þakinu uppi. Sést vel hvernig hraunið hefur brennt timburverkið svo eftir standa holurnar í hrauninu, í miðri tóftinni. Áhrifaríkt.

Húshólmi

Húshólmi – veggur og tóftir.

Sunnan við þennan skála er annar heillegri. Snýr hann eins og sá efri. Lag hans sést vel, lítillega sveigðir veggir og þverhýsi við austurnendann. Hleðslurnar sjást vel. Grjótið er grágrýti, ólíkt hraungrýtinu umhverfis. Norðaustar móta fyrir tveimur tóftum sem hraunið hefur runnið umhverfis og brennt.

Húshólmi

Skálatóft í Ögmumdarhrauni við Húshólma.

Sunnan við þessar tóftir er bogadreginn veggur, alllangur. Innnan hans er tóft, líklega þriðji skálinn. Garðstubbur er vestan hans og annar bogadreginn út frá honum að austanverðu. Innan hans er skeifulaga tóft. Þar er hin forna kirkja við Kirkjuflöt. Í henni eru m.a. hleðslur úr sjóbörðu grágrýti. Auðvelt er að draga þá ályktun að tóftir húsa í Húshólma, sem enn sjást, hafi verið byggð niður við sjóinn. Þarna gæti hafa verið (og hefur að öllum líkindum verið) vík inn í landið (Krýsuvík, Krossvík eða annað líkt – annars er merking Krýsuvíkur sú að deildur hafi staðið þar, annað hvort um víkina eða annað) og góð lending. Eftir að hraunin runnu hafi þau fyllt upp í víkina.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjustígur.

Kirkjustígurinn liggur til austurs, yfir í Húshólma. Þar mótar fyrir hringlaga mannvirki, nokkuð stóru. Segir sagan að þarna hafi verið forn grafreitur. Lítið sem ekkert hefur verið grafið í Húshólma. Bæði er það vegna þess að talsverður gangur er þangað, auk þess er hætt við að niðurstaðan kunni að breyta í einhverju sögunni um búsetu manna hið fyrsta hér á landi.
Garður liggur frá hraunkantinum, og reyndar inn í hann einnig, nokkuð ofar (móts við efsta skálann) og til suðausturs, en sveigir síðan til suðurs og aftur að hraunkantinum mun sunnar. Á hann liggur beinn þvergarður, skammt sunnan við hringalaga gerðið. Allt hafa þetta verið mikil mannvirki á sínum tíma. Ytri garðurinn er að mestu úr torfi, en þvergarðurinn hefur verið hlaðinn úr grjóti að hluta. Sést það vel miðsvæðis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Samkvæmt rannsóknum er aldur garðsins a.m.k. frá því að landnámsöskulagið lagðist yfir landið því sjá má það í pælunni við garðinn. Líklegt má telja að landnámsmenn þarna hafi fyrst byggt hús og nauðsynlega garða, en síðan tekið til við gerð stærri og fjarlægari mannvirki. Ekki er ólíklegt að hraunið hafi runnið yfir fleiri byggingar, sem hafa staðið þarna lægra. Minjarnar í Óbrennishólma, sem þó eru í nokkurri fjarlægð, og minjarnar í Húshólma, bera með sér að þarna hafi verið talsverð byggð. Fjárborgin í Óbrennishólma virðist hafa verið nokkuð há, auk þess sem ummál hennar er með því meira sem gerist í fjárborgum á Reykjanesi. FERLIR hefur þegar skoðað tæplega áttatíu slíkar. Þá er jarðlægi garðurinn í Óbrennishólma svipaður görðunum í Húshólma.

Húshólmi

Húshólmi – sjóbúð ofan Hólmasunds.

Syðst í Húshólmanum er tóft, skammt ofan við rekastíginn. Líklega tengist hún rekavinnslu í hólmanum. Neðan undir honum er Hólmasundið.
Efst í Húshólma er forn fjárborg og minjar selsstöðu, s.s. stekkur og kví. Þar er og hlaðið byrgi refaskyttu við eitt grenjanna. Stígur liggur út úr Húshólma efst í honum, en hann er sagður hafa verið gerður vegna þess að kirkjan í hólmanum hafi verið notuð eftir að hraunið rann. Aðrir benda á að hann kynni að vera tilkominn vegna selstöðunnar eða annarrar nýtingar, sem verið hefur í Húshólma í gegnum tíðina.

Húshólmi

Útsýni yfir Krýsvíkurbjarg af sjávarstígnum.

Gengið var austur eftir stíg syðst í Húshólma, neðan undir gamla berginu og með stórkostlegt útsýni yfir að Krýsuvíkurbergi. Ofan bergins á þessu svæði vottar einnig fyrir garðlögum innan óbrennishólma.
Með austurjaðri Ögmundarhrauns er hlaðið stórt gerði, líklega fyrir hesta. Ofar, upp undir Borgarhól, er hlaðin fjárborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Brynjólfur Jónsson. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903. Rvk.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson. „Krísuvíkur eldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins.“ Jökull 38, 1988
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ogmundarhraun.htm
-http://www.fornleifavernd.is/2/Fridlystar_fornleifar/Reykjanes%20og%20Reykjavik/husholmi.htm

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

/https://ferlir.is/husholmi/

Klöpp

Eftirfarandi frásögn Ágústs Lárussonar var lesin í Útvarpinu, „Man ég það sem löngu leið“ (rás 1) 4. júní 2023 – á fæðingadegi Árna Guðmundssonar frá Klöpp í Grindavík (var áður á dagskrá 19. febrúar 1985).

Ágúst Lárusson

Ágúst Lárusson frá Kötluholti í Fróðársveit.

Ágúst Lárusson var frá Kötluholti við Hólm, kenndur við afa sinn. Þorsteinn Matthíasson les frásögnina, sem hann skrásetti. Ágúst fæddist í Stykkishólmi 27. ágúst 1902.

Í þessari frásögn segir Ágúst m.a. frá því er hann fór á vetrarvertíð í Grindavík aðeins 18 ára gamall. Hann lýsir mjög nákvæmlega öllum aðbúðnaði vermanna á þessum tíma, ekki síst samskiptum hans við Guðmund bónda Jónsson í Klöpp í Þórkötlustaðahverfi og son hans, Árna Guðmundsson.

Við byrjum þennan texta á frásögn Ágústs þar sem hann er kominn til Reykjavíkur árið 1921 á Breiðafjarðar-Svaninum ásamt félögum sínum, þeim Þorleifi Einarssyni í Hrísakoti og Matthíasi Matthíassyni frá Orrabóli á Fellsströnd í leit að vertíðarplássi. Matthías var ráðinn á bát Dagbjarts Einarssonar á Velli, síðar í Ásgarði, Grindavík. Formaður á bátnum var ráðinn Guðmundur Guðmundsson, Öxney. Við Þorleifur voru óráðnir.

Reykjavík

Reykjavíkurhöfn og Reykjavík 1920.

„Eftir sautján tíma siglingu komum við á Reykjavíkurhöfn, en ekki var farið upp að bryggju um kvöldið. Mér fannst mikið um ljósauppljómun byggðarinnar á landi og ólíkt tilkomumeira en ég hafði áður séð í umkomulitlu þorpunum á Snæfellsnesi. Þegar ég sá tvö ljós sem næstum saman á hreyfingu um göturnar þóttist ég vita að þar væru bílar á ferð. Um þá hafði ég lesið en aldrei séð þá fyrir vestan.

Um morguninn, miðvikudaginn 9. febrúar, var svo lagst upp að bryggju og það leyndi sér ekki hvaða merkisdagur var. Stúlkurnar, sem þarna voru á ferli, tóku mér sem fullgildum öskubera og hengdu utan á mig poka hvar sem þær náðu til. Því er verr að ég lét alveg undir höfuð leggjast að geyma neinn þeirra til minningar um fyrstu kveðjurnar frá höfuðstað landsins.

Hótel ísland

Hótel Ísland – mynd Sigfúsar Eymundssonar.

Við vorum nú orðnir matarþurfi og maður sem ég kannaðist við vísaði okkur Þorleifi á Hótel Ísland. Þar keyptum við svo mat en skammturinn fannst okkur talsvert annar en á bestu bæjum í sveitinni og höfðum ekki áhuga á að heimsækja þann stað aftur.

Í mannþrönginni á götunum missti ég sjónar á Þorleifi og rölti því áleiðis upp á Laugaveg. Þar mætti ég manni, sem vék sér að mér og spurði hvort ég vildi ráða mig í skiprúm. Hann kvaðst vera úr Höfnunum en ég hafði sett mér það takmark að róa frá Grindavík, jafnvel þótt allir staðir á Suðurnesjum væru mér jafn ókunnir. Þessi Hafnamaður vildi líka aðeins taka einn mann á skip sitt og það kom ekki heim við ráðagerðir okkar Þorleifs að vera skipsfélagar.

Nú lagði ég leið mína niður að Herkastala. Þar hitti ég eldri mann sem spyr mig sömu spurningar og Hafnamaðurinn.

Herkastalinn

Herkastalinn í Reykjavík.

Það virtist auðsætt að í ferð í bænum voru útvegsbændur eða formenn þeirraerinda að manna skip sín. Mér leist þessi maður geðfelldur svo ég spyr hvar hann eigi heima og hver hann sé. Hann sagðist heita Guðmundur og eiga heima í Klöpp í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík og sagði að hann vantaði tvo menn á skip sitt. Ég kvaðst fús að ráða mig hjá honum, en lét þess jafnframt getið að með mér væri félagi minn, verkamaður og sjómaður, og við hefðum ráðgert að vera í sama skiprúmi um vertíðina. Ég sagði sem var að ég væri óvanur brimlendingu. Nú kemur Þorleifur til okkar og þá var málið leitt til lykta og við vorum báðir orðnir hásetar á skipi Guðmundar frá Klöpp.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – hús Hjálpræðishersins að Austurgötu 26.

Um nóttina gistum við félagar á Herkastalanum og ákváðum að fara árla næsta morgun áleiðis til Grindavíkur. Eftir gamla veginum suður Vatnsleysuströndina var okkur sagt að vegalengdin myndi vera 56 kílómetrar. Ég bjó mig til göngunnar eins og ég var vanur heima hjá mér með buxnaskálmarnar brotnar niður í sauðsvarta ullarsokka sem merktir voru með Á og L…
Ég axlaði pokann minn við dyr Herkastalans, skóskipti þurfti ég ekki að hafa en félagar mínir röltu á sínum spariskóm með sjópokann á höndunum. Þeir vildu ekki láta sjá sig á Reykjavíkurgötunum með poka á bakinu eins og útgegnir sveitamenn…

Hvaleyri

Málverk sem sýnir Hvaleyrina. Myndina málaði sænskur málarisem bjó á Íslandi og gekk undir listamannsnafninu Thy-Molander. Talið er að myndin sé máluð í kringum 1950.

Þá var næst að spyrja vegfarendur um leið til Grindavíkur og í því efni fengum við greið svör. Félagar mínir settust nú niður við vegbrúnina þegar út úr þéttbýlinu kom og höfðu skóskipti. Síðan öxluðu þeir sína poka á sama hátt og ég og við héldum áfram til Hafnarfjarðar. Þegar þangað kom þurfi Matthías endilega að koma við á Hjálpræðishernum því faðir hans var starfandi foringi í þeim félagsskap. Auðvitað tafði þetta ferð okkar. Stúlkurnar á Herkastalanum ráðlögðu okkur að koma við á Stóru-Vatnsleysu og biðjast þar gistingar, en þessi leiðsögn þeirra dugði skammt því þegar við komum suður á Hvaleyrarholt var orðið nær fulldimmt. Loftið var alskýjað og tröðningarnir suður hraunið illsjáanlegir.

Auðnar

Auðnar á Vatnsleysuströnd.

Loksins sáum við staura þeim megin vegarins þar sem Stóra-Vatnsleysa er. Þar sáum við hlið og ljós bregða fyrir á lukt. Við gengum í þá átt og hittum fyrir mann hjá stóru íbúðarhúsi. Við vörpuðum á hann kveðju og spurðum hvar við værum staddir. Hann kvað bærinn vera Hvassahraun og bóndinn þar héti Sigurður Sæmundsson. Þarna fengum við svo gistingu um nóttina og skömmu eftir að við voru sestir að komu þangað tveir bræður og þáðu einnig næturgriða. Þeir voru af Miðnesinu.

Almenningsvegur

Almenninsgvegurinn um Vatnsleysuströnd.

Næsta morgun var hið ákjósanlegasta veður, en ekki höfðum mikið gagn af samfylgd Miðnesinga. Við sáum heim að Stóru-Vatnsleysu og sýndist okkur bátur fljóta skammt frá landi. Við heldum áfram en svo fór okkur að svengja og sækja að okkur þorsti því við gengum rösklega. Okkur datt þá í huga að fara heim að litlum torfbæ sem stóð nærri veginum. Þar hittum við úti miðaldra mann. Ég hafði orð fyrir félögum mínum og spurði hvort hann gæti selt okkur mjólk og brauð. Nei, hann kvaðst ekki geta það því hann ætti enga mjólk. Svo bætir hann við. „Það fórst bátur í nótt hérna við ströndina. Af honum drukknuðu fimm menn. Einn þeirra var bróðir minn“. Þetta var vélbáturinn Haukur sem stundaði róðra frá Sandgerði. Hann mun hafa lent á grynningum vegna myrkurs. Við fórum síðan heim að Auðnum og fengum þar bestu fyrirgreiðslu sem ég borgaði fyrir sem til stóð enda þótt konan vildi ekkert taka fyrir greiðann. Stefán, bóndi á Auðnum, var ekki heima, en kom um það leiti sem við voru að fara. Hann hafði verið á slysstaðnum.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum 1921.

Við héldum svo áfram suður ströndina og voru samferða manni sem ætlaði út í Leiru. Leiðir okkar skildu á vegamótum Grindavíkur og Keflavíkur. Í hrauninu skammt frá Svartsengi náði okkur vörubíll á leið til Grindavíkur. Á pallinum var staflað vörupokum og á þeim sátu nokkri menn. Okkur var boðið að koma upp á pallinn og sitja þar til Grindavíkur eða ofan í Járngerðarstaðahverfið. Þessu boði tókum við feginshendi og var þetta mín fyrsta ferð á bíl.
Síðasti áfangi ferðarinnar var svo úr Járngerðarstaðahverfinu og austur í Þórkötlustaðahverfi – og þar með var lokið átta daga ferð að heiman.
Mér er minnisstætt þegar ég kom að Klöpp í þetta sinn. Margrét Árnadóttir, kona Guðmundar, tók á móti mér og það var eins og hún rétti mér hlýjar móðurhendur. Hjá þessum hjónum var ég síðan sex vertíðir. Þá hættu þau að hafa sjómann á heimilinu. Bátur Guðmundar í Klöpp hét Lukku-Reynir og formaðurinn á skipinu var Árni sonur hans, sem nú er níutíu og þriggja ára. Við erum tveir eftir lifandi af þeim ellefu mönnum, sem reru á skipinu þessa vertíð, en þá var Árni á þrítugasta árinu.
Guðmundur Jónsson og margrét Árnadóttir í Klöpp.Ég var í fyrstu hálfhræddur að róa úr brimlendingu. Það hafði ég aldrei reynt áður, en eftir eina sjóferð var þeim ótta lokið. Enda fékk ég starx traust á formanninum. Lendingikn, sem við rerum frá, hét Buðlungavör og var klettaglufa fyrir neðan Þórkötlustaði.
Í byrjun vertíðar skipaði formaðurinn hásetunum til rúms eins og þeirra áttu að sitja, tíu saman undir árum. Ég var settur í andófsrúm á stjórnborða. Allar árarnar voru merktar með skorum í árastokk frá eitt til fimm og var númer fimm fremsta árin á hvoru borði.

Sjómenn

Sjómenn í Grindavík.

Allir menn sem ráðnir voru upp á kaup fengu frí skinnklæði og sjóvettinga. Sjóvettlingarnir voru merktir hverjum manni. Minn litur var blár og hélst svo út allar vertíðirnar. Þegar við fórum í aðgerð fengum við aðra vettlinga, en þjónustan tók sjóvettlingana og þvoði þá og þurrkaði eða skipti um vettlinga sýndist henni þess þörf og afhenti svo hverjum manni fyrir næsta róður. Skinnklæði voru sauðskinnsbrækur með kálfskinssetjara og sauðkinsstakkur. Öll voru þau lýsisborin. Sjóskór voru úr sútuðu leðri. Hver maður annaðist sín sjóklæði.

Róðurinn hófst með því að formaðurinn kallaði háseta sína til skips. Hann sótti beituna og skipti henni á milli lagsmanna þeirra er beittu bjóð saman, tveir og tveir. Vanaleg línulengd í hverju bóði voru fimm hundruð krókar.

Seilað

Seilar í vör.

Beitan var geymd í ískassa, sem hafður var í torfkofa sem safnað var í snjó eða klaka þegar færi gafst til. Það var ekkert frystihús í Grindavík og síld til beitar var sótt á hestum til Keflavíkur – stundum jafnvel borin á bakinu. Til að drýgja síldina var notuð svokölluð ljósabeita, þ.e. karfi, steinbítur og ýsa.Þetta var látið í ískassann og fryst með. Einnig var beitt gotu, en hana var ekki hægt að frysta. Á vorin um sumarmál voru lögð grásleppunet og þá vitjað um þau áður en farið var að beita. Ásamt öðru var beitt hrognum og öðru innan úr grásleppunni og var það kallað að beita ræksnum. Oft veiddist vel á þetta.

Buðlungavör

Buðlungavör.

Í Buðlungavör var ævinlega seilað út inn í vörina. Formaðurinn var með stjakann á meðan og sá um að halda skipinu á floti. Bakborðmegin var há klöpp en stórgrýtisurð stjórnborðsmegin. Þegar búið var að seila voru seilarnar dregnar upp að urðinni eins og þær flutu, bundnar þar saman og látnar vera meðan sett var. Hvert skip hafði sitt markaða pláss upp á klöppunum og út af því var aldrei breytt. Eftir að sett hafði verið var fiskurinn borinn upp á klappirnar í burðarólum og þaðan í kassabörum á skiptivöll. Formaðurinn var á skiptivelli og deildi afanum í sjö köst, þ.e. fjórtán hluti; þrjá hluti fyrir skipið og veiðafærin og svo ellefu mannahluti. Þótt einhver væri veikur og gat þess vegna ekki róið fékk hann alltaf sinn hlut.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Þegar skiptum var lokið var farið heim og borðað og svo hófst aðgerðin. Lagsmenn, sem áttu kastið saman, unnu að því í félagi. Allt var hirt.
Fiskurinn var saltaður, sundmaginn tekinn úr hverjum fiski um leið og hann var flattur. lifur og gota lögð inn hjá bræðslumanni, sem alltaf var ósár okkur á lýsissopann. Hausar og hryggir voru þurrkaðir og slorið látið í forina til áburðar. Allt var þetta borðið í kassabörum heim af skiptavelli. Mannshöfnin var eina aflið til allra verka, bæði á sjó og landi. Að lokinni aðgerð var lónan stokkuð upp ef ekki leit út fyrir ræði næsta dag, annars var beitt að kvöldi.

Tíróin áttæringur

Tíróinn áttæringur í Grindavík.

Fyrsti róðurinn minn í Grindavík var 17. febrúar 1921 í góðu veðri og reitingsafla. Þá fannst mér ég hafa verið tekinn í þann skóla sem lífsframi minn byggðist á. Um einkunnina læt ég svo samferðamenn mína dæma. Formennirnir þarna voru snillingar í sinni grein, a sjá út veður og sjólag, oft í náttmyrkri. Ekki voru veðurfregnir útvarpsins til að styðjast við, en þeir voru flestir fluglæsir á rúnir loft og laga.

Árni í TeigiÉg skal hérna nefna eitt dæmi af mörgum. Þeir feðgar Guðmundur Jónsson og Guðmundur sonur hans lágu báðir rúmfastir vegna lungnabólgu. Rúm Guðmundar eldri var langt frá glugga svo hann sá ekki neitt til sjóar. Það var blíðviðri, en brimmikið og allir bátar með net í sjó svo mikill hugur var í mönnum að komast út til að draga. Einn maður úr Þórkötlustaðahverfinu var búinn að kalla menn sína til skips og byrjaður að setja ofan af. Ég kom upp á loftið til Guðmundar sem farinn var að hressast og bað mig um að spila við sig, en það var hans uppáhaldsskemmtun. „Það þýðir ekkert“, sagði ég, „það verður róið. Einn er byrjaður að setja ofan“. Þá segir gamli maðurinn: „Það er alveg óhætt að spila við mig. Það fer enginn út úr Buðlunguvör i þessu brimi. Ég heyri hvernig brýtur í Bótinni“. Þetta reyndist rétt. Sá sem byrjaður var að setja ofan varð að setja upp aftur. Hann hafði aldrei lag til að komast út.
Hann Guðmundur á Klöpp hefur oft verið búinn að hlusta á tóna sjávarins þau fjörutíu ár sem hann hafði verið formaður. Og hann kenndi Árna syni sínum og sú kennsla tókst vel.
Ingveldur og ÁrniÁrni var mikill sjómaður, heppinn aflamaður, öruggur og gætinn formaður. Hann var ljúfmenni í samskiptum við háseta sína og talaði aldrei styggðaryrði til nokkurs manns. Einu sinni hvatti hann okkur til að róa vel. Það var 14. mars 1926. Þann dag var mikið brim. Þá fórst skip Jóns Magnússonar í Baldurshaga í Járngerðarstaðasundi. Þegar við lögðum á leiðina vestur fyrir Nesið sagði Árni: „Róið þið nú vel, piltar mínir“ og ég held að við hefðum hlítt því og ekkert dregið af okkur. Ég þekki Árna vel og er viss um að í þetta skipti hafi hann beðið Guð um að stýra sínu fari heilu heim.

Klöpp

Gamli Klapparbærinn árið 2020.

Vertíðaraflinn var ákaflega misjafn, stundum voru bestur hltir um tólfhundruð, aðrir ekki nema um sexhundruð. En fyrir þessum afla var mikið haft, ekki síst þegar loðnan gekk á miðin og aflahrotan kom á Hraunsvíkina. Þá var svefntími sjómannanna stundum ekki langur. Á lokadaginn 11. maí var oftast búið að taka upp netin og þá var líka fiskurinn horfinn af miðunum. Þá fóru allir aðkomumenn, hver til síns heima. þegar leið á tók heimþráin aðkomumenn föstum tökum.

Buðlungavör

Buðlungavör – för eftir kili bátanna á klöppinni.

Svo næsta vetur þegar kom fram í janúar var hugurinn jafn sterkur að komast í verið. Þetta líkist dálítið farfuglalífi.“

Umfjöllun Ágústs Lárussonar birtist m.a. í Sjómannadagsblaði Snæfjellsbæjar og í Sjómanndagsblaði Grindavíkur árið 1999.

Sjá meira HÉR.

ÓSÁ.

Heimild:
-https://www.ruv.is/utvarp/spila/man-eg-thad-sem-longu-leid/33824/a2i8h0

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)

Grindavík

Grindvíkingar hafa í seinni tíð verið duglegir að farga fortíð sinni á áramótabrennum. Má þar t.d. nefna gömlu árabátanna eftir að notkun þeirra var hætt.

Bátabrenna

Áramótabrenna…

Nú hafa nokkrir samviskubitnir afkomendur, „Hollvinir áttæringsins, látið smíða endurgerð af gömlum tírónum áttæringi með Grindavíkurlagi að tilstuðlan bátasmiða frá Reykhólum og komið honum fyrir utan Kvikuna (fyrrum Saltfiskssetursins) í Grindavík.
Þjóðminjasafnið hafði forgöngu um að láta teikna upp „síðasta Grindavíkurskipið“ á sínum tíma og Lúðvík kristjánsson notaði síðar í stórvirki sínu um „Íslenska sjávarhætti„.

Í nýjasta Sjómannadagsblaði Grindavíkur má lesa eftirfarandi um „Grindavíkurskipið„:

Grindavíkurskip„Allt frá upphafi Íslandsbyggðar var árabáturinn eitt helsta tæki fólks við sjávarsíðuna til sjálfsbjargar. Hann var hluti af daglegu amstri fólks og áhrifavaldur í lífi þess og starfi. Báturinn var forsenda þess að maðurinn gat nýtt sér hafið til framfærslu. Í þúsund ár var hann fiskibátur Íslendinga, oftast knúinn afli mannsins þar sem hver og einn ræðari lagði til orkun af sjálfum sér. Þó að tími árabátanna sé löngu liðinn lifa áfram með þjóðinni ótal tilvitnanir og orðtök frá fyrri tíð sem vitna um mikilvægi hann fyrir líf og störf þjóðarinnar.

Haukur Aðalsteinsson segir m.a. eftirfarandi um fiskibátinn: Þótt uppruni tvíæringsins sé óþekktur er ástæða til að ætla að hann hafi verið algengur fiskibátur við Flóann allt frá fornu fari sbr. lýsingu Skúla Magnússonar: „Sótt var á tveggja manna förum frá ómunatíð í Hafnarfirði og við Stapa“.

Grindavíkurskip

Hollvinir áttæringsins í smiðju bátamiðanna.

Haukur segir að árabáturinn hafi jafnan verið skipt í stærðir og samkvæmt hefðinni voru þeir skilgreindir eins og áratal þeirra gaf til kynna: Tvíæringur, feræringur, sexæringur, áttæringur, teinæringur og tólfæringur. það var mikill munur á stærðum skipa og báta sem gengu til sjóróðra og má segja að þar hafi ólíkar aðstæður ráðið. Miðað við hleðslu batanna var miðað við að eftir stæði eitt borð fyrir báru. Á bátunum var sótt jafnt á handfæri og að net eftir að þau komu til sögunnar, en á færaveiðum var legið við stjóra meðan setið var fyrir fiski.

GrindavíkurskipVið undirritun smíðasamnings um byggingu þessa tíróna áttærings með Grindarvíkurlagi voru m.a. fulltrúar Hollvinafélags Áttæringsins, Ólafur R. Sigurðsson, Óskar Sævarsson og Marta Karlsdóttir.

Á vefmiðlinum Vísi 19. jan. 2023 var viðtal við bátasmiðinn Hafliða Má Aðalsteinsson undir fyrirsögninni „Smíða áttæring forfeðranna úr sunnlenskum skógarvið“:

„Meira en öld eftir að Íslendingar hættu almennt að róa til fiskjar á áttæringum eru menn aftur teknir til við að smíða slíkt skip, og það úr íslenskum skógarvið. Tilgangurinn er að halda upp á menningararfinn. Í fréttum Stöðvar 2 var litið inn í skemmu í eigu Faxaflóahafna í Korngörðum í Sundahöfn. Þar vinnur Breiðfirðingurinn Hafliði Már Aðalsteinsson við þriðja mann við að gera upp gamla trébáta. En núna eru þeir að smíða fornbát, svokallaðan áttæring, sem menn réru á fyrir tíma vélbátanna.

Grindavíkurskip

Hafliði Már Aðalsteinsson, bátasmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði.

„Þú verður að athuga það að þessir bátar eru grundvöllur að útgerð nútímans. Afar þeirra sem gera út núna gerðu út svona báta. Þetta er bara hluti af menningunni okkar og sögunni okkar,“ segir Hafliði.

Þessi verður ellefu metra langur, á stærð við teinæring en samt áttæringur, smíðaður eftir teikningu úr Íslenskum sjávarháttum. Áhugamenn í Grindavík undir forystu Ólafs Sigurðssonar skipstjóra ásamt Sjómannafélaginu í Grindavík standa fyrir smíðinni.

„Það var enginn svona til. Það var búið að henda þeim öllum. Við erum duglegir að brenna þetta á gamlárskvöld. Áttæringar voru ekkert margir. En svo voru sexæringar, það voru bátar sem þeir notuðu mest í sjóróðrana. Áttæringana í hákarlalegurnar og svoleiðis eitthvað stærra, og svo í flutninga. Menn réðu ekkert við stærri báta en sexæringa. Það þurfti að draga þetta upp alltaf undan sjó. Það voru engar hafnir.

Grindavíkurskip

Áttæringurinn á smíðastofunni.

Bátasmíðin fer fram í skemmu Faxaflóahafna í Sundahöfn í Reykjavík. Hafliði er sjöundi ættliður bátasmiða, lærði skipasmíðar af föður sínum í Hvallátrum á Breiðafirði, og þar smíðuðu menn síðast svona bát árið 1904 eða 1906. Þó ekki úr íslenskum við.
„Forfeður okkar notuðu rekavið í þetta. Núna er hann hættur að koma. Þá notum við íslenskt.“
Þannig eru böndin og kjölurinn úr sunnlenskum skógi, íslenskt greni úr Þjórsárdal.
„Þetta eru máttarviðirnir. Eins og kjölurinn, rúmlega sjö metra langur. Þannig að það eru orðin sæmileg tré til.“
-Þannig að það er hægt að treysta íslenskum skógum fyrir bátum?

„Já, já, já. Við getum gert það,“ svarar skipasmíðameistarinn. „Finnsk fura fer þó í byrðinginn en möstrin tvö eru íslenskt lerki.“

En hafa menn áður smíðað bát úr íslenskum skógarviði?

Grindavíkurskip

Grindavíkurskipið í smíðum.

„Ekki svo að ég viti.“
-Heldurðu að landnámsmenn hafi gert það?
„Jaa.. Hvernig voru skógarnir hérna þá? Voru þeir háir? Eins og það sem við þekkjum af þessu er óttalegt kjarr og hefur varla verið mikið nothæft í smíðar, – ekki í báta. En við vitum að fjörurnar voru fullar af við, væntanlega frá Síberíu.“
-En hvenær á svo að sjósetja?
„Sjómannadaginn.“
-Við hátíðlega athöfn í Grindavík?
„Það geri ég ráð fyrir, já. Það er þeirra hlutur. Ég ætla bara að vera við,“ svarar Hafliði Már Aðalsteinsson, bátasmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði.“

Grindavíkurskip

Grindavíkurskipið í smíðum.

Í Vísi 1. júní 2023 er aftur fjallað um bátasmíðina:
„Bátasmiðir voru í dag að leggja lokahönd á fyrsta áttæringinn sem smíðaður hefur verið á Íslandi í meira en öld. Máttarviðir bátsins eru afrakstur íslenskrar skógræktar.
Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá smíði bátsins í skemmu Faxaflóahafna í Sundahöfn. Þar var Hafliði Már Aðalsteinsson að tjarga, þó ekki með biksvartri tjöru heldur blandaðri með línóleum.
„Ef þetta er eintóm tjara þá verður hún lin í sólinni og þá fer fólk að skemma fötin sín á þessu. Af því að þetta verður sýningargripur fyrir fólk í góðum fötum en ekki fyrir sjómenn í skinnfötum, eins og var í gamla daga,“ útskýrir bátasmiðurinn.
Báturinn er ellefu metra langur og nær teinæringi í stærð en áttæringi. Svona bátar voru helstu atvinnutæki landsmanna á nítjándu öld fyrir tíma vélbáta.

Grindavíkurskip

Grindavíkurskipið við Kvikuna í Grindavík 03. júní 2023.

Við sögðum frá bátasmíðinni í fréttum í janúar þegar hún var nýhafin. Verkbeiðendur eru áhugamenn í Grindavík um forna sjávarhætti og er áformað að Grindvíkingarnir sæki bátinn á morgun.
Hafliði heldur að svona skip hafi síðast verið smíðað á Íslandi árið 1910. Þó að báturinn teljist áttæringur er hann á stærð við teinæring, ellefu metra langur.
„Þeir voru ekkert mikið stærri meðan menn voru að nota þetta í alvörunni. Þetta er náttúrlega nítjándu aldar bátur í rauninni. Svona voru þeir áður en vélarnar komu til.“

Grindavíkurskip

Einar Jóhann Lárusson er yngsti iðnlærði bátasmiður landsins.

Yngsti tréskipasmiður landsins, Einar Jóhann Lárusson, var að leggja lokahönd á siglutrén. Þau verða tvö á bátnum, afturmastur og frammastur, smíðuð úr íslenskum við.
„Íslenskt lerki úr Þjórsárdal. Það er mjög gaman að geta byrjað að nota íslenskan við í þetta,“ segir Einar.
„Máttarviðirnir, bönd, kjölur og stefni, eru greni innan úr Þjórsárdal og svolítið af því reyndar úr Heiðmörkinni líka. En furan er finnsk og naglarnir norskir. Þannig að þetta er svona norrænt, samnorrænt,“ segir Hafliði.
Báturinn verður frumsýndur á sjómannadeginum á sunnudag í Grindavík á Sjóaranum síkáta.“
Heimildir:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2023, Grindavíkurskipið, bls. 36-47.
-https://www.visir.is/g/20232366920d/smida-attaering-forfedranna-ur-sunnlenskum-skogarvid
-https://www.visir.is/g/20232422716d/fyrsti-attaeringurinn-fra-batasmidum-i-heila-old

Grindavíkurskip

Grindavíkurskipið í Grindavík í júní 2023.

Teigur

Í skýrslu um „Húsakönnun í Þorkötlustaðahverfi: Verndarsvæði í byggð“ frá árinu 2018 eru teknar saman upplýsingar um hús í hverfinu.

Teigur

Teigur 1988.

Um sambyggðu húsin Klöpp og Teig segir: „Teigur var byggt 1934. Fyrstu eigendur voru Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir. Um er að ræða metnaðarfullt steinsteypuhús frá fyrri hluta 20. aldar. Það er lítið breytt og er hluti af svipmóti hverfisins. Húsið var byggt 1934, sambyggt Klöpp sem byggð var fjórum árum áður. Steinsteypt hús, ein hæð með einhalla bárujárnsþaki. Útveggir suðvesturhliðar og beggja gafla ná upp fyrir þakið. Þeir eru láréttir að ofan með tökkum. Um tvö sambyggð hús er að ræða en þau eru svo keimlík að nær er að fjalla um þau sem eitt hús með tveimur íbúðum.

Klöpp

Klöpp 2008.

Útidyr eru á göflunum. Við suðurgaflinn er lítil viðbygging úr steinsteyptum hleðslusteinum en sambærileg bygging er ekki á Klöpp. Suðausturhluti hússins hefur verið með skeljasandsmúrhúð á suðurhlið sem að mestu leyti hefur máðst af. Lítilsháttar munur er á frágangi við þakbrún húshlutanna tveggja.

Að Teigi er upphleypt, lárétt brík neðan við takkana en á Klöpp er lítilsháttar láréttur stallur í sömu hæð og efri brún bríkur á Teigi. Á norðvesturhliðinni slútir þakskeggið fram yfir útvegginn.

Teigur

Teigur og Klöpp 2023 – Þorbjarnarfell í bakgrunni.

Gluggaskipan er líklega óbreytt frá upphafi en gluggar hafa allir verið endurnýjaðir og póstaskipan líklega breytt. Búið er í Klöpp en ekki á Teigi.
Stíleinkenni sem þessi hafa gjarna verið kennd til gotnesk áhrif. Einar Erlendsson húsameistari teiknaði nokkur hús í Reykjavík með þessum einkennum, meðal annarra hús Sturlubræðra við Laufásveg. Nokkuð sérstætt hús.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

„Húsin byggðu hjónin Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir árið 1934. Þau bjuggu áður í Gamla-Teigi sem var fyrir Austan Buðlungu.“ Teigur var með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur. Ekkert hús er við Teig en fjárhúskofi var áður um 20 m ASA við en er horfinn.“

Teigur

Teigur og Klöpp 2022.

Um Klöpp eða Vestur‐Klöpp segir: “ Byggingarárið er 1930. Fyrsti eigandi var Guðmundur Guðmundsson og Margrét Andreasdóttir. Um er að ræða metnaðarfull steinsteypuhús frá fyrri hluta 20. aldar, hluti af svipmóti hverfisins. Önnur lýsing er sú sama og um Teig.
Húsið var byggt 1930 en fjórum árum síðar var byggð spegluð bygging við það sem nefndist Teigur. „Húsið byggðu hjónin Guðmundur Guðmundsson og Margrét Andreasdóttir árið 1930. Þau bjuggu áður í Gömlu-Klöpp og síðar í Bjarmalandi“. Um 15 m norðaustan við húsið er geymsluskúr, hús 19. Klöpp áttu einnig annað fjárhús sem stóð nálægt þeim stað sem dreifistöðin er nú við Hraðfrystihúsið en það er horfið.“

Klöpp

Gamla-Klöpp.

Klöpp var myndarbýli austan Buðlungu, en nú sjást einungis rústir gamla torfbæjarins, nokkuð heillegar, sem og skemma og útihús. Á túnakorti 1918 er hluti Klappar sagt vera Gerði, sem engar heimildir eru til um. Líklega er þar um að ræða bæinn Vestur-Klöpp. Timburhús, sem byggt var á jörðinni, svolítið austar, flaut upp í stórviðri árið 1925. Eftir það var húsið fært ofar í landið, þar sem það er nú, samfast samnefndu húsi.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson frá Teigi.

Í viðtali við Árna kom fram að „bærinn Teigur var upphaflega kot sem ég fékk að reisa á jörðinni hans pabba. Þar reisti ég timburhús a hólnum Harðhaus, sem stóð í átta ár. Þegar ég byggði þetta hús áttaði ég mig ekki á því að sjórinn var alltaf að brjóta landið og einu sinni í miklu brimi komu sjóarnir alveg upp að bæjardyrunum hjá mér. Þá varð konan hrædd, sem vonlegt var – ég réðst þá í að rífa húsið og notaði timbrið úr því til að byggja steinhús ofar í þorpinu [þ.e. Teig]. Þar átti ég svo heima alla tíð með fjölskyldu minni og síðast einn þar til í sumar sl. að ég fluttist hingað á Hrafnistu í Hafnarfirði“.

Klöpp

Gamla Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Við framangreint má bæta að Ármann Árnason keypti Teig af föður sínum árið 1969. Árni Guðmundsson hafði áður, 1947, keypt hálfa jörðina Klöpp af móður sinni, Margréti Árnadóttur. Sýslumaður setti húsið á uppboð árið 1988 vegna kr. 25.000- bankaskuldar, auk hálfrar jarðarinnar Klappar. Landsbankinn keypti húsið og jarðarhlutann. Ómar Smári, sonur Ármanns taldi gjörning sýslumannsins ólöglegan hvað varðaði hálfa jörðina Klöpp. Eftir áralangan málarekstur samþykkti sýslumaður að afhenta afkomendum Ármanns jarðarhlutann og þar með hlutdeildina í óskiptu landi Þórkölustaðahverfis.

Klöpp

Klapparbærinn vestan Buðlungu.

Eigandi Klappar, Jón Ársæll Gíslason, keypti húseignina Teig af Landsbankanum árið 1992 og nýtti það að hluta til íbúðar uns Sverrir Sverrisson keypti Teig árið 2021 og hefur hann síðan verið að gera húsið upp til heiðurs sæmdarhjónunum er byggðu það upphaflega. Sverrir verður með opið hús fyrir afkomendur hjónanna á afmælisdegi Árna, 4. júní n.k. (2023).

Árni Guðmundsson frá Teigi ­ minning 1991

Þórkötlustaðir

Vestari-Vesturbær (lengst til vinstri), Miðbær (nú horfinn) og Austurbærinn. Árni Guðmundsson segir frá.

Árni fæddist 4. júní 1891 og lést 29. apríl 1991. Lífshlaupi hans spannaði nánast eina öld; rúman mánuð vantaði hann í 100 árin.
Þau voru falleg hjónin Árni og Ingveldur í Teigi, svo sallafín og strokin með höfðingjafasi, ástfangin eins og unglingar frá því ég sá þau fyrst, allt þar til leiðir skildust, þegar hún var komin þétt að áttræðu. Nú hefir hann aftur hitt fallegu stúlkuna sína eftir rúmlega 20 ára aðskilnað, sem oft hefir verið honum erfiður, en því mótlæti mætti hann einsog öðru, sem á hann var lagt, æðrulaus eins og formanni sæmir. Framan af ævinni var hann einmitt formaður og útvegsbóndi í Klöpp og síðan í Teigi í Grindavík. Það fórst honum vel úr hendi eins og annað, sem hann tók að sér.

Teigur

Teigur – minningarskjöldur.

Ég hefi bæði séð í rituðu máli og eins hefir sagt mér gamall háseti hans, að hann hafi verið frábær stjórnandi til sjós, aldrei tapað stillingu á þeim vettvangi, jafnvel á örlagastundum, sem verða svo margar hjá sjómönnum, ekki síst meðan opnu trillurnar voru aðalfarkosturinn, en einmitt slíkum báti stjórnaði Árni.

Klöpp

Gamla Klöpp – flugmynd ÓSÁ.

Þau hjónin, Árni og Ingveldur Þorkelsdóttir, f. 14. des. 1891, eignuðust 11 börn. Úr þeim hópi misstu þau tvo drengi í bernsku.
Árni var maður gleðinnar, naut sín vel þar sem fagnað var, söng bæði mikið og vel og var lengi í kór í Grindavík. Hann var kátur og hlýr í dagfari og mjög spaugsamur. Það væri efni í væna bókað lýsa persónuleika Árna og fer ég ekki út í þá sálma, en það segir dálitla sögu, að hans hefir oftverið getið í rituðu máli og vitnað bæði til hans og heimilis hans. Hinn þekkti þáttagerðarmaður Jónas Jónasson átti við hann ítarlegt viðtal í útvarpinu fyrir nokkrum árum og fór Árni þar á kostum. Höfð hafa verið við hann blaðaviðtöl og síðast eftir að hann var kominn á tíunda áratuginn. Það var opnuviðtal í Morgunblaðinu.

Árni Guðmundsson

Fyrsta skólfustungan fyrir heimili aldraðra í Grindavík.

Hann kom fram í tveimur kvikmyndum, sem sýndar hafa verið í Sjónvarpinu, og hefir þá eflaust þar ráðið vali kvikmyndastjórans, hvað Árni var mikill persónuleiki í sjón, enda sómdi hann sér vel á hvíta tjaldinu. Hann var með hlutverk í auglýsingu frá DAS, sem lengi birtist á sjónvarpsskjánum.
Árni var fljótur að ná sambandi við fólk, sem hann hitti á förnum vegi. Hann hafði mjög gaman af að spila. Hann var sérstaklega barngóður, enda dýrkaður af afkomendum sínum og því meira, sem þeir voru yngri.

Ingveldur Þorkelsdóttir og Árni Guðmundsson – aldarminning 1991

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – tilgáta

Ingveldur var fædd 14. desember 1891 og lést 21. janúar 1970. Árni var fæddur 4. júní 1891 og lést 29. apríl 1991. Í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu Ingveldar, og 4. júní sl. voru liðin 100 ár frá fæðingu Árna, en hann vantaði rúman mánuð til að lifa það afmæli. Ingveldur var fædd í Lambhaga í Hraunum, dóttir hjónanna Ingveldar Jónsdóttur frá Helludal í Biskupstungum [Jóns Guðmundssonar frá Tortu, Bryggju, Álfsstöðum, Hvaleyri og Setbergi) og Þorkels Árnasonar [frá Guðnabæ í Selvogi] bónda í Lambhaga, síðar á Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Árni var fæddur í Klöpp í Grindavík, sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar frá Þorkötlustöðum á sama stað og Margrétar Árnadóttur, Klöpp, Grindavík.

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir ásamt börnum sínum.

Eftir þeim heimildum sem fyrir liggja eru ættir þeirra beggja samansettar af duglegu og umfram allt þrautseigu fólki sem barðist harðri baráttu fyrir tilveru sinni.
Árni og Ingveldur giftust árið 1914 og hófu búskap í Klöpp í Grindavík, síðar í Teigi á sama stað. Þau eignuðust 11 börn á 19 árum. Þau eru í aldursröð: Margrét, fædd 18. febrúar 1915, dáin 9. apríl 1986; Jónína Vilborg, fædd 16. júlí 1917, dáin 24. mars 1968; Dagmar María, fædd 4. apríl 1918; Guðmundur, fæddur 16. janúar 1920; Laufey, fædd 18. júlí 1921; Þorkell, fæddur 3. janúar 1923; Jón, fæddur 25. desember 1925, dáinn 5. janúar 1989; Ingi Ármann, fæddur 18. október 1927, dáinn 4. mars 1934; Unnur, fædd 28. apríl 1929; Vilberg Magnús, fæddur 29. desember 1930, dáinn 27. apríl 1931; Ingi Ármann, fæddur 4. júlí 1934, dáinn 5. desember 1990.

Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir.

Ingveldur Þorkelsdóttir og Árni Guðmundsson.

Af framangreindri upptalningu er ljóst að einhvern tímann hefir þurft að taka til hendi, hvíld hefir verið knöpp, frístundir engar, allir framkrókar hafðir til að afla daglegs brauðs. Árni stundaði sjóinn frá barnsaldri, var mjög ungur formaður á opnum árabáti, seinna á stærri vélbáti. Er rómuð stjórnun hans af fyrrverandi hásetum sem voru hjá honum margar vertíðir. Einn tók þannig til orða að Árni hefði verið snillingur í brimlendingu. Segir þetta töluvert um skaphöfn hans.
Ekki fær Ingveldur síðri umsögn síns samferðafólks. Hún var tiltekin fyrir dugnað og myndarskap og hagsýni hennar var óumdeild. Var stundum eins og hún skæfi brauð af steinum. Var tiltekið hvað hópurinn hennar var alltaf vel klæddur og að sjálfsögðu saumaði hún og prjónaði á þau hverja flík.

Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir.

Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir.

Eins og að framan segir var sjórinn uppistaða afkomunnar. Árni var útvegsbóndi. Með sjónum stundaði hann smávegis búskap, átti nokkrar kindur, eina til tvær kýr og hest. Heyföng voru lítil og erfið, túnið í Klöpp þætti nytjarýrt á nútíðar máta, og til að ná endum saman var hver grænn blettur nytjaður nær og fjær, t.d. heyjuðu þau hjónin nokkur sumur inn á Vigdísarvöllum sem eru milli Hálsa vestur af Krýsuvík. Þangað er löng leið og ekki auðveld frá Grindavík. Þarna sló Árni og Ingveldur rakaði og þurrkaði. Dagsverkið var baggar upp á einn hest. Ef að líkum lætur hefir Ingveldur stundum verið barnshafandi þegar hún var í þessum heyskaparleiðöngrum og geta má nærri hversu örþreytt hún hefir verið að loknu dagsverki. Þetta dæmi er tekið til að gefa okkur allsnægta kynslóðinni smávegis innsýn í lífsbaráttu foreldra okkar.

Árni og Ingveldur

Teigur endurgerður…

Sem betur fer breyttust kjör Árna og Ingveldar til betri tíðar þegar lengra leið á ævina og þau kunnu manna best að njóta þess jákvæða sem hver dagur bar í skauti. Börnin flugu úr hreiðrinu og efnahagurinn batnaði. Þau voru einstaklega samhent og mikið ástríki var á milli þeirra svo til var tekið. Þau nutu þess að taka á móti gestum enda gestkvæmt mjög í Teigi. Mikið og innilegt samband var við börnin og þeirra fjölskyldur, allur frændgarðurinn var aufúsugestir hvenær sem var, svo og tengdafólkið. Teigur var í hugum alls þessa fólks, sannur sælureitur þó húsið væri hvorki hátt til lofts né vítt til veggja rúmaði það óendanlega kærleika húsbændanna, sem allir fundu fyrir sem umgengust þessi elskulegu hjón.

Þessi fátæklegu orð eru sett á blað frá okkur sem nutum ástar þeirra og kærleika og við munum finna fyrir alla okkar daga. Við teljum það mikið lán að hafa átt þessa góðu foreldra sem miðluðu okkur ást sinni og lífsvisku sem hvorki mölur né ryð fær grandað.

Blessuð sé minning okkar elskuðu foreldra.“
Sverrir hefur, auk þess að endurbyggja Teig, komið fyrir í húsinu ættartré þeirra Árna Guðmundssonar og Ingveldar Þorkelsdóttur.  Tréð sýnir 380 afkomendur þeirra hjóna. Þeir eru boðnir velkomnir að Teigi eftir hádegi n.k. Sjómannsdag, 4. júní, þ.e. á fæðingardegi Árna.

Teigur

Teigur – ættartré.

Foreldrar Ingveldar og Árna, sem og systkini voru eftirfarandi:

Lambhagi

Lambhagi.

Ingveldur Jónsdóttir frá Setbergi við Hafnarfjörð, f: 22. okt. 1862. Þorkell Árnason, f. í Guðnabæ 12. des. 1853, bóndi í Lambhaga, á Þorbjarnarstöðum og í Straumi í Garðahreppi, d. 18. nóv. 1943.

Börn: Oddgeir, f. á Ásólfsstöðum 27. maí 1881, bóndi á Ási við Hafnarfjörð. Ingólfur, f. í Reykjavík 18. okt. 1884, Jón, f. í Lambhaga 1. nóv. 1886, Árni Steindór, f. í Lambhaga 24. júní 1888, Vilborg, f. í Lambhaga 17. júlí 1890, Ingveldur, f. í Lambhaga 14. des. 1891, Guðbjörg, f. í Lambhaga 23. jan. 1894, Steinunn, f. í Lambhaga 17. júlí 1895, Katrín, f. á Þorbjarnarstöðum 3. mars 1898, Guðmundur, f. á Þorbjarnarstöðum 21. ágúst 1900, Ástvaldur, f. í Straumi 11. febr. 1902.

Guðnabær

Guðnabær.

Guðmundur Jónsson, f. á Þórkötlustöðum 19. okt. 1858, d. 3. des. 1936. Margrét Árnadóttir, f. 1861, d. 1947.

Börn: Einar Guðjón, f. 1882, d. 1968, Guðrún, f. 1883, d. 1885, Valgerður, f. 1886, d. 1967, Jón, f. 1887, d. 1908, Árni, f. 18891, d. 1991, Guðmundur Ágúst, f. 1894, d. 1963, Guðmann Marel, f. 1900, d. 1936.

Foreldrar Guðmundar voru: Jón Jónsson, f. í Garðhúsum 14. nóv. 1825, d. 13. des. 1882, og Valgerður Guðmundsdóttir, f. á Hrauni 7. feb. 1829, d. í Akurhúsum 25. júní 1895.

Heimild:
-Húsakönnun í Þorkötlustaðahverfi: Verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Minningagreinar um Árna Guðmundsson og Ingveldi Þorkelsdóttur.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – Klöpp og Teigur t.h.