Tag Archive for: Grindavík

Gunnuhver

Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og s svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.“
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.
Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.

En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.

Gunnuhver

Gunnuhver. Hverinn færist fram og aftur um hverasvæðið.

Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: „Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.“
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.

Jón Árnason I 563

Gunnuhver

Gunnuhver.

Kvarnarsteinar hafa verið notaðir hér á landi frá fyrstu tíð, jafnvel fyrir norrænt landnám ef marka má frásögn Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings v/landnámsskálann í Vogi, Höfnum – sjá umfjöllun í Víkurfréttum 19. mars 2010.
KvarnarsteinnKvarnarsteinn er úr kvörn, sem korn var malað í. Skiptir þá ekki máli hvort kornið, sem malað var með honum, var innflutt eða ekki. Kvarnarsteinar voru tveir, hvor ofan á öðrum, og var smíðaður um þá trékassi. Kornið var látið í gatið í miðjunni og efri steininum snúið. Þá malaðist kornið milli steinanna og sáldraðist ofan í kassann.
Á Efri-hellu ofan við bæinn Hraun í Grindavík, sunnan Húsafells, má enn sjá hraunhellusvæði þar sem kvarnarsteinar Grindvíkinga voru unnir fyrrum (mynd að ofan). Þótt mikið hafi verið fjarlægt af hraunhellum þarna síðari árin í garða og „sólarvé“ má þó enn sjá leifar handverksins á staðnum. Í raun ætti að friða staðinn m.t.t. þessa.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn; kvarnasteinn.

 

Saltfisksetur

Segja má með sanni að Saltfisksetur Íslands sé ein ein mest áberandi skrautfjörður Grindvíkinga um þessar mundir – ljóslifandi saga sjómennskunnar frá lokum hefðbundinnar verbúðarmennsku til þessa Þurrbyrgidags.
Eldri minjar fiskþurrkunar er víða að finna í umdæmi Grindavíkur, s.s. á Seltöngum, við Nótarhól við Ísólfsskála, í Slokahrauni í Þórkötlustaðahverfi, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, við Síkin á Hópsnesi, við Brunnana í Járngerðarstaðahverfi og á Hvirflum í Staðarhverfi.
„Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, vað saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngu verið drjúgir við saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á saltfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegnum tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina, “ segir í kynningu á sýningu Saltfisksetursins í Grindavík, en þar er ekki aðeins farið yfir sögu saltfiskverkunar á Íslandi heldur fléttast saga sjómennsku og þróun skipa og veiða er rakin.

Saltfisksetrið

Sýningin er mjög forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna.
Aðstæður hafa hagað því þannig að ekkert byggðasafn er staðsett í Grindavík. Saltfisksetrið var opnað árið 2002 og kemur því í stað safns og hefur verið miðpunktur margvíslegrar menningarstarfsemi heimamanna og að auki aðdráttarafl og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn sem sækja staðinn heim.

Saltfiskverkun

Sýningarskálinn er 650 m2 að grunnfleti og sýningarsvæði á tveimur gólfum, alls 510 m2. Grindavíkurbær var leiðandi aðili við byggingu setursins í samstarfi við stofnendur þess og aðra styrktaraðila. Bygging hússins var í höndum Ístaks hf, en hönnuðir sýningarskálans voru Yrki s/f arkitektar. 

Salfiskssetur

Í Salfiskssetrinu.

Samningur var gerður við Björn G. Björnsson sýningarhönnuð um hönnun og uppsetningu sýningarinnar. Saga  salfisksins er sögð með stórum myndum, hnitmiðuðum texta og fáum en lýsandi munum. Gínur koma í staðinn fyrir fólk í leikmyndinni. Tæknin kemur við sögu þar sem notast er við sjónvörp á gólfum, sýningartjald á vegg, stærri sjónvörp og DVD spilara. Mörkuð er ákveðin leið í gegnum sýninguna og sagan þannig rakin í tímaröð.
Saltfisketrið er stór framkvæmdaraðili í Sjóarnum síkáta þar sem fjölmörg hátíðaratriði eru haldin í húsinu eins og fram kemur í veglegri dagskrá hátíðarinnar (menningarviðburðarskrá Grindavíkur).“
Segja má með nokkrum sanni að fáir aðfluttir Grindvíkingar virðast gera sér fullkomna grein fyrir þýðingu Salfisksetursins sem sögulegs minjasafns. Til áminningar má geta þess að á árum áður snart verkun þessi sérhvern fingur og sérhverja taug í líkama sérhvers íbúa þorpsins – svo nátengd var tilfinningin búsetunni að ekki var á milli skilið.

Heimild:
-Sjóarinn síkáti – fjölskylduhátíð í Grindavík 1.-3. júní 2007, bls. 4.

Saltfisksetrið

Stefánshöfði

Þann 2. nóvember 1984 birtist æsifengin frétt í DV er bar yfirskriftina „Skrímsli í Kleifarvatni.“ Þetta var í októberlok. Fréttin segir frá tveimur mönnum á rjúpnaveiðum er sáu ókennilegar skepnur í og við vatnið. Þeir sögðu að dýrin, sem voru tvö, hefðu verið dökkleit og hundsleg en bara mikið stærri. Förin eftir þau líktust hesthófum en voru talsvert stærri. Dýrin hurfu sjónum þeirra skömmu síðar.

Kleifarvatn

Stefán Stefánsson, hinn kunni leiðsögumaður, sagði í skrifum sínum fyrrum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.“
Vatnsskarð er nefnd geil í Undirhlíðar er skilur þær frá Sveifluhálsi. Fyrrum var það nefnt Markraki, en Vatnsskarð þar sem Kleifarvatn birtist mönnum á ferð úr Kaldárseli um Dalaleiðina, neðan Vatnshlíðahorns.
KleifarvatnKleifarvatn er stöðuvatn á miðjum Reykjanesskaga milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Vatnið er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, eða um 97 m þar sem það er dýpst. Það hefur lítilsháttar aðrennsli þar sem er Seltúnslækur og Sellækur í Litla-Nýjabæjarhvammi, en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Töluverður jarðhiti er syðst í vatninu og einnig út af Innri stapa vestan við það.
Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn sæmilega, einkum á hraunslóðum að austanverðu þar sem Hvammahraun (Hvannahraun) rann út í vatnið.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sjáist þar endrum og eins, sbr. framangreint. Á þetta að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð. Eldri sagnir eru og til um skrímsli þetta.
Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Þá segir og enn af skrímsli í Kleifarvatni. Árið 1755 sást undarleg skepna, líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um, að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.
Fimm árum fyrr, eða árið 1750, þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
KleifarvatnMaður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi í tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Það er því ekki að furða þótt fólk furði sig einstaka sinnum á furðufyrirbærum þeim er það telur sig verða vart við nálægt Kleifarvatni, líkum þeim er að framan greinir – og eiga eflaust eftir að birtast á ný. Fáir hafa þó trúað slíkum sögnum – jafnvel þótt sannar séu.
Sjá skrímslasögu HÉR.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.reykjanesbaer.is/default.asp?cat_id=261
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-Þorvaldur Thoroddsen – Ferðabók.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Selatangar

Jökull Jakobsson gengur hér með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga, Hraun og Þórkötlustaðanes í Grindavík. Viðtalið var tekið 1973. Um er að ræða úrdrátt.
Magnús Hafliðason„Við erum nú á Selatöngum með Magnúsi Hafliðasyni frá Hrauni. Hér var útræði mikið í gamla daga. Nú sést ekki mikið eftir af því nema búðarrústir, haglega hlaðnar. Það er ákaflega eyðilegt þar sem við erum staddir, en þó fallegt. Við höfum ferðast langan veg um úfið og svart apalhraun og niður að ströndinni þar sem úthafsaldan lemur sandinn. Við erum staddir við Tangarsund.
Þú rerir nú ekki héðan sjálfur Magnús, en þú þekktir menn, sem reru héðan.“
„Ég þekkti aðallega hann Einar Einarsson. Hann var aðkomumaður úr Krýsuvíkurhverfinu. Vermennirnir voru víðs vegar frá en aðallega úr Krýsuvíkurhverfinu. Ég heyrði að hér hafi verið yfir 70 manns mest, þ.a. 26 Jónar og 16 Guðmundar. A.m.k. 14 eða 16 skip gengu héðan, sennilega mest áttæringar. Útgerð lagðist af eftir Básendaflóðið [1799]. Húsin hafa verið vel hlaðin. Menn bjuggu hér á vertíðinni, frá því í febrúar til 11. maí, vetrarvertíðin.
Sennilega hafa verið um 8 menn í hverju húsi og eldhús. Matur hefur mest verið fiskur og skrínukostur. Ekki var mikið skemmtanalíf í þá daga. Fólkið hefur þó ekki þótt leiðinlegt því það þekkti ekkert annað.
Alls staðar átti að vera reimt. Það sagði mér maður, þessi Einar, að vatnskútur hafi verið framan við dyrnar. Guðmundur hafi sofið nær dyrum með höfuð í átt að þeim. Hann rumskaði og snéri sér við. Í því hafi kúturinn tekist á loft og lenti akkúrat þar sem höfuðið hafði verið áður en hann snéri sér við. Hann sagði okkur þetta svona.

Nesið

Þetta var afskaplega meinlaus draugur, hafi það verið einhvör. Þetta átti að hafa verið unglingur sem illa var farið með og menn höfðu verið beðnir fyrir. Einhver maður, sem þóttist vera skyggn, átti að hafa séð hann, hlaðið byssu sína og skorið silfurhnappa af treyju sinni, miðað og skotið í átt að honum. Þá hafi hann séð eldglæringar niður alla heiði og þá á hann að hafa farið hingað.
Einar var formaður hérna, en ég var svo ungur þegar hann var hjá okkur og var að segja okkur þetta. Vermennirnir létu vel yfir sér hér, smíðuðu ausur og klifbera í frístundum sínum.
Misjafnt var hversu róðrar voru langir, fór eftir veðri. Fóru í rökkrinu og komu að landi í myrkri. Allir voru þeir á handfærum. Alltaf var seilað, ef einhver fiskur var. Beinnálar voru á endanum. Ef vel fiskaðist var farið að landi og síðan róið út aftur, kannski einn maður skilinn eftir og hann bar fiskinn á bakinu upp. Fiskurinn var hertur á þessum görðum, sneri upp á morgnana og hvolft á kvöldin. Þeir dysjuðu hann í óþurrkatíð og sneru honum síðan upp þegar þornaði í veðri.
Stundum var seilaBryggjanð útá í vondum veðrum meðan andæft var og síðan sætt lagi til að lenda. Þá var skipið dregið upp á augabragði. Það var ekkert erfitt að seila.
Hér var aldrei saltað, bara hert og allt flutt á hestum. Ég tel ekki ráð að þeir hafi borið fiskinn, ekki að ráði. Vermenn komu allstaðar frá gangandi. Ég man eftir lestarmönnunum þegar þeir komu að sækja hausana í kringum jónsmessuna. Það var aðallega farið að salta þegar ég man eftir. Menn fengu sitt kaup, en það var lítið.“
„Nú erum við komnir heim til Magnúsar Hafliðasonar, heim að Hrauni. Okkur verður starsýnt á myndirnar á veggjunum í stofunni. Á einni myndinni er Magnús og einhverjir fleiri.“
Hraun í Grindavík„Þessi mynd er tekin eftir björgunina á Cap Fagnet. 38 mönnum var bjargað. Ég vaknaði um morgunin um kl. 03:00 við feiknarmikið píp. [Siggi Nonni (Sigurður Gíslason, f: 1923) á Hrauni sagði FERLIR að hann hefði vaknað um nóttina, heyrt flaut og vakið föður sinn, sem hafi barið í þilið hjá Magnúsi. Við það hafi Magnús vaknað og litið út um gluggann.]Þá hafði strandað togari hér úti. Það var látið vita. Þá var komið með björgunartækin og mönnum bjargað með línu. Þetta var í fyrsta skipti sem skotið var af línubyssu á Íslandi. Fyrir það fengum við medalíur.
Þegar bjargað var í Vondufjöru enskur togari fengum við líka medalíur. Þá var aftakabrim. Ég hringdi úti á stöð. Þá var slydduél. Svo fór ég upp eftir og það var ekki neinum blöðum að fletta að þetta var strand. Menn komu í einum hvelli. Allir björguðust nema skipstjórinn, hann drukknaði. [Togarinn Lois, 6. janúar 1947].
Dóttir mín fór út í fjós um kvöldið. Hún kom aftur inn með óvarlega miklu fasi þótt hún væri að jöfnu hæglát. Hún sagðist ekki skilja í ljósi úti á sjó. Ég fór út og sá strax hvers kyns var. Þetta var strand. Ég fór uppeftir með ljós og þá skutu þeir smáragettum í land. Glamrið í skipinu þegar sjórinn var að færa það til á klöppunum, það var mikið. Þegar ég kom heim á tún aftur drapst á ljósavélinni. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef dóttir mín hefði ekki séð ljósið akkúrat þarna.
CapÉg fór fyrst á sjó á sjötta ári. Þá fór pabbi með okkur bræður stutt út. Ég réri alltaf með færi á sumrin þegar róið var. Nú er ég 81 árs og reyni að róa enn. Áraskipin voru tíróin fyrst og síðan áttróin, stundum sexróin. Á Hrauni var um 60 manns, margt sveitarmenn úr öllum sveitum. Þá var gaman að lifa. Nú er af sem áður var.
Eftirminnilegur maður að norðan, Jón Bergmann, var hérna. Hann var lögregluþjónn í Hafnarfirði um tíma. Hann var vel hagmæltur. Haldið var uppi glímum í landlegum. Jón lagði þá alla.
Ég man ekki eftir að hér hafi verið sukksamt. Fólkið bjó í búðum, sjóbúðum svona. Vonda veðrið var 1916. Búið var að róa lengi í blíðuveðri. Svo kom þetta veður, eins og skot. Ekki var um annað að gera en grípa árarnar. Þetta var þegar Ester bjargaði fjórum skipshöfnum. Margir misstu skip. Þetta var voðaveður. Enginn maður fórst.
Haldið var út smávegis búskap samhliða útvegi. Svo komu opnu trillurnar, en mér fannst mest gaman af áraskipunum. Það voru góð skip. En það var öðruvísi að geta látið vélarnar koma sér í land. Og verkaskiptingin var önnur. Félagsskapurinn á áraskipunu var betri og allt miklu skemmilegra. Fiskverðið var svo lágt að ekkert hafðist upp í kostnað, á áraskipunum og trillunum lengi framan af.
Fyrir okkur krakkana var ekkert fyrir okkur að gera. Börnin hjálpuðu til við að snúa heyinu. Ég gekk einn vetur að nafninu til í skóla, 29 börn voru í skólanum og einn kennari. Það var úti í Járngerðarstaðahverfi. Svo gengum við til prestsins úti í Staðarhverfi. Ég lærði nú lítið í skóla, heldur smátt. Kennarinn hét Erlendur.
Á jólunum var lítið um að vera, það var kerti og unglingunum þótti gaman að spila þá. Fólk kom hvað til annars og krakkar ólust allir upp á heimilunum. Pabbi og Sæmundur Tómasson á HrauniðJárngerðarstöðum skiptust á heimsóknum um hátíðarnar sitthvort árið. Mikill kunningjaskapur var þarna á millum.“
„Þá erum við komnir út á Þórkötlustaðarnes. Hér hefur líka verið útræði eins og á Selatöngum. Og hér hefur verið bryggja og hér standa tóftir íbúðarhúsa og sitthvað fleira.“
„Hér reri ég alla mína tíð á vertíð. Þá var engin bryggja, bara lendingin þarna. Fiskurinn var borinn upp á þessa velli, hvör upp að sínum skúr og allur fiskur saltaður. Allir höfðu salthús hér.
Seinna kom hér bryggja og vélarnar komu í bátana. Þá var alltaf lent hér og allur fiskur saltaður. Hér í Þórkötlustaðahverfinu var fleira fólk, 6 eða 7 bátar, aðallega áttæringar og teinæringar. Allt gekk ágætlega. Þegar mótorbátarnir komu var ekki tiltækt að vera með bátana hér. Þeir voru fluttir út í Járngerðarstaðahverfi.
Ég var ekki formaður lengi. Pabbi var hér formaður og mikill fiskimaður, Benóný Benónýsson á Þórkötlustöðum, Hjálmar Guðmundsson sem síðar fluttist af Ísólfsskála, Jón Þórarinsson frá Einlandi, Guðmundur Benónýsson, einn af þeim yngri, og Kristinn Jónsson á Brekku og Árni Guðmundsson í Teigi tóku við af þeim eldri. Þetta voru feiknamiklir sjósóknarar og duglegir menn, stórir og hver með sínu móti, allt almennileika menn. Þeir ólust allir uppi við þessa harðneskju. Það þætti víst skrýtið núna, aðbúnaðurinn sem þá var.
Við beittum línuna austur á hrauni og urðum að bera bjóðin út á Nes á morgnana. Það var beitt hrognum og þau þoldu lítið frostið. Þau rifnuðu þá af krókunum þegar farið var að leggja. Þetta gengum við suðureftir á morgnana og heim á kvöldin.

Aldan

Byggðin lagðist af hér þegar mótorar komust í bátana. Þá fluttist útgerðin út í hverfi. Hér var allt fyrir opnu hafi. Allir vildu heldur vera á góðu bátunum.
Hann var voðalaga leiður hérna í vörinni [neðan við Hraun] ef var norðanrok og hátt í, ef var kvika, stóð upp á. Utan við nesið var Einlandssund, sem kallað var.
Ég man aldrei eftir að hafa verið hræddur á sjónum. Oft hefur kvenfólkið heima verið hræddara en þeir sem á sjónum voru. Það kom aldrei neitt fyrir hérna, nema í eitt skiptið. Þá fórust þrír menn í góðu veðri. Báturinn var lítill og þeir voru fimm á. Það sló í baksegl og bátinn hvolfdi, þrír drukknuðu. Það þótti mikið að missa þrjá bændur héðan.
Ekki verður lengur ýtt bát úr vör héðan.“

Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga og Þórkötlustaðanes í Grindavík frá 1973.

Hans Hedtoft

Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.

Grindavík
Miðvikudaginn fjórtánda desember tvöþúsundogfimm, þremur dögum eftir að fyrsti jólasveinninn kom til bæja (flestir telja að jólasveinarnir dvelji á milli hátíða í Arnarseturshellum nálægt Grindavík, en það er hið næsta, sem tekist hefur að staðsetja þá hingað til), voru samræður við áhugasama Grindvíkinga og aðra höfuðborgarbúa landsins í Saltfisksetrinu um fornar minjar og náttúrufyrirbæri á Reykjanesskaganum frá kl. 20:00 til kl. 22:00.
GrindavíkNæstu daga á undan og allt fram að þeim tíma voru stöðugt sýndar 3233 ljósmyndir af 2005 slíkum stöðum á svæðinu á daglegum opnunartíma setursins.
Þetta tiltekna kvöld bauðst hins vegar tækifæri til að spyrja nánar um einstaka staði og einstök svæði eða koma með ábendingar, fróðleik eða umsögn um hvorutveggja – og allt þar á milli. Boðið var upp á frjálslegar samræður og skemmtan með kaffi- og piparkökubragði.
Sumir myndu telja að Grindavík væri ekki borg í þeim skilningi, þ.e. þessi vinarlegi bær með u.þ.b. 2700 íbúa, en íbúarnir vita að höfuðborgin er jafnan þar sem maður er hverju sinni. Þannig er Grindavík t.a.m. engu minni í sinni þeirra, sem þar búa, en t.d. íbúa eða gesta Reykjavíkur á meðan þeir dvelja í Grindavík.
GrindavíkÁ meðan fólk dvelur við þessa fallegu vík við Suðurströndina, þar sem súrefnið kemur fyrst ferskt og ónotað af hafi, hugsar það ekki einu sinni um víkina með nafni reykjanna í norðri. Og ekki dettur því heldur í hug að hugsa um aðra bæi á Reykjanesskaganum sem höfðuborg hans þá stundina. Hver segir líka að borg þurfi endilega að taka mið af umfangi og fjölda. Af hverju ekki að miða við viðhorf, vit og vitund.
Hér og nú, á þessum stað, er viðeigandi að velta fyrir sér jólasveinunum – jafnvel upplýsa leyndarmál. Þvörusleikir á skv. vísu Jóhannesar úr Kötlum að vera næstur jólasveina að drífa sig í vinnu. Stekkjarstaur, giljagaur og stúfur eiga þegar að hafa látið hendur standa fram úr ermum. Innfæddir Grindvíkingar, hver sem betur getur, vita hvar sveinar þeir hafa vetur- og sumarsetur. Þeir vita að hellar eru hvorki ákjósanlegar né heilsusamlegar vistarverur, jafnvel ekki fyrir jólasveina, þótt aðrir halda að svo sé. Engir þeirra hafa þó nokkru sinni séð rauðklædda karla með hvít skegg og í svörtum stígvélum spássera um á milli hátíða, hvorki í hellum né annars staðar. En hvar dvelja þeir þá frá 6. janúar til 11. desember ár hvert?
GrindavíkMálið er að jólasveinarnir eru einfaldlega meðal annarra Grindvíkinga þennan tíma; þeir klæðast eins og aðrir og eru í útliti ekki ólíkir öðru fólki í þessari litlu höfuðborg Reykjanesskagans. En þegar líða tekur að jólum bregða þeir sér, hver á fætur öðrum, í stígvél og vinnuföt og hverfa hljóðlega út í myrkrið. Grindvíkingar vita – og hafa vitað lengi – að sumir á meðal þeirra sjást þar aldrei í kringum jól og áramót. Þeir hafa sammælst að telja öðrum trú um að þeir fari til annarra landa, sem er að vísu að mörgu leyti rétt. Enginn hefur hins vegar hingað til spurt hvað þeir væru að gera þar.
Einn Grindvíkingurinn tók af allan vafa um framangrein þegar hann þurfti skyndilega að bregða sér í vinnuna, fór afsíðis og klæddist vinnugallanum – jólasveinabúningnum – og hvarf síðan hljóðlaust út í myrkrið.
Eitt stærsta sakamál seinni tíma í Grindavík var „Kjöthvarfið mikla“ – sjá HÉR. Mikið magn af haldlögðu heimaslátruðu kjöti hvarf skyndilega að næturlagi úr frystigámi, sem lögreglan hafði geymt það í, en heimaslátrun varð óheimil þetta árið skv. reglum þótt hún hafi tíðkast þarna allt frá upphafi landnáms. Ekki upplýstist hver eða hverjir tóku kjötið, en eitt er víst; kjötkrókur var lengi á eftir einstaklega vinsæll meðal foreldra hans og bræðra.
Nógu erfitt hefur verið að reyna að sannfæra fólk um að allt það, sem lýst er, sé í rauninni til á Reykjanesskagagnum. Myndirnar af einstökum minjum og náttúrufyrirbærum ættu að taka af allan vafa um að svo sé og undirstrika um leið verðmæti svæðisins, hvort sem er til útivistar, fróðleiks eða ánægju.
Maður er manns gaman – enda var mikið spjallað saman.

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Þegar FERLIR var á göngu um Reykjanesið, þ.e. frá Sandvík um Mölvík, Háleyjar, Krossavíkurberg, Krossavík, Rafnkelsstaðaberg og Reykjanestá áleiðis að Valbjargargjá og Valahnúkamöl var tækifærið notað til að rekja forna rekagötu um svæðið.
Grindavik - rekagata-1Engar heimildir eru til um götuna, en hún hefur af augljósum ástæðum legið frá Stað í Staðarhverfi ofan misgengisins að endimörkum landsins á Valahnúksmöl. Frá henni eru hliðargötur niður í fyrrnefndar víkur austan Háleyja. Gatan hefur s
íðar verið löguð fyrir mjóa vagna til að flytja rekann, unninn og óunninn. Tilvist hennar styrkir þá trú manna að landamerki Staðar og Hafnabæjanna hafi fyrrum verið a.m.k. um miðja Valahnúkamöl. 

Rekagatan er greinileg á köflum, bæði austan við Gunnuhver, ofan við Mölvík, Litlu-Sandvík og milli Staðarhverfis og Járngerðastaðahverfis, og síðan norðan við Reykjanesvita og ofan við ströndina að Stóru-Sandvík. Þá sést hún vel ofan við Gömlu-Hafnir og áfram áleiðis að Höfnum. Ofan við Háleyjar og í hrauninu ofan við Staðarberg.
Gatan hefur verið unnin á köflum, væntanlega sem vagnvegur, og sést þá eldri hluti hennar til hliðar við úrbæturnar. Milli Vatnsfells og Stóru-Sandvíkur er gatan vörðuð og hefur augljóslega verið unnin sem vagnvegur.

Reykjanes

Reykjanes – rekagatan er rauðlituð (ÓSÁ).

Kleifarvatn

„Sum vötn eru dularfull. Þeim er öðruvísi farið en öðrum vötnum, og enginn botnar í afbrigðilegri háttsemi þeirra. Slíkt vatn var og er Kleifarvatn. Um þess konar vötn myndast sögur, og þannig er því líka einmitt farið um Kleifarvatn.
Þar herma gamlar sagnir, að kleifarvatn-321sézt hafi skrímsli, en það hefur líklega ekki verið nógu athafnasamt skrímsli, sem bjó í Kleifarvatni, því að það hefur einhvern veginn lognazt út af í þjóðtrúnni, þó að Lagarfljótsormurinn lifi enn bezta lífi við slíka ástsæld austan lands, að fólk þar vill með engu móti missa hann. Hitt hefur aftur á móti haldið uppi frægð Keilfarvatns, að mikill áramunur er að því, hversu hátt er í því. Þeir, sem kunnugir voru á þessum slóðum, töluðu um tuttugu ára sveiflur. En eins og kunnugt er hefur Kleifarvatn enga afrás, nema hvað áll er í tengslum við litla tjörn (sem ekki hefur heldur neitt afrennsl) & meðan allhátt er í því. En þau árin, sem lágt er í vatninu, þornar þessi tjörn með öllu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Ytri-Stapi.

Með því að við erum öll fædd á öld vísindanna, hafa menn ekki látið sér nægja alþýðlegar skýringar á fyrirbærinu nú hina seinni áratugi. Vísindamenn hafa farið á stúfana til þess að svipta hulunni af leyndardómum Kleifarvatns, svo að naktar staðreyndir geti komið í stað trúarlærdóma um hegðun þess Meðal þeirra, sem hafa gefið sig að slíkri könnun, eru þeir Geir Gígja, Guðmundur Kjartansson og Pálmi Hannesson, svo að nefnd séu nöfn, sem koma í hugann, þegar hann beinist að dulúð Kleifarvatns. Ef ég man rétt, þá er skýring vísindamanna sú, að vatnsborðið hækki þau árin (eða kannski öllu heldur eftir þau ár), er úrkoma er í meira lagi á svæðinu umhverfis Kleifarvatns, en lækki, þegar úrkoma er í minna lagi. Vatnsbúskap Kleifarvatns er með öðrum orðum svo háttað, að halli er á honum, þegar aðrennsli er í minna lagi, því að þá síður meira niður í hraunið, sem undir því er, heldur en í það bætist, en svo mjótt er á mununum, að hraunið hefur ekki undan að fleyta vatninu burt, þegar öllu meira berst að.
kleifarvatn-322Og ætli við verðum þá ekki að hafa það svo, úr því að vísindin hafa talað. En hitt getum við haldið okkur þeim fastar við, að það er ekki neitt fleipur, að miklu getur munað á vatnsborðinu. Það sýna myndirnar tvær, sem þessum línum fylgja, teknar á sama stað með átta ára millibili.
Árið 1931 var lágt í Kleifarvatni, og frá því ári er þessi mynd. Allra lægst mun þó vatnsborðið hafa verið árið 1932. Síðan fór hækkandi í vatninu. Það var ekki kreppan þar á þeim árum.
Svo fór Kleifarvatn að búa betur. Þessi mynd sýnir, að það hefur heldur hækkað vatnsborðið árið 1939. Drangurinn er hinn sami og sést á hinni myndinni, og nú varð ekkl aldeilis gengið út að honum þurrum fótum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indíaninn 2023.

Eins og nú standa sakir er hátt í Kleifarvatni, en ekki skal fullyrt, hvort heldur vatnsborðið fer hækkandi eða lækkandi þessi misserin. En víst er það, að lítið hefur verið lagt inn í bankareikning þess hjá náttúrunni þessar síðustu vikur, er sólskinið hefur oftast bakað brunafjöll Reykjanesskagans. Það kemur einhvern tíma fram sem yfirdráttur, eins og það heitir á bankamáli, nema himininn bæti það upp með því að opna gáttir sínar þeim mun rösklegar, þegar kemur fram á sláttinn, en það er ekki dæmalaust hér á Suðurlandi eins og einhverjir kunna að minnast. (Að minnsta kosti erum við hér sannfærð um, að Benedikt frá Hofteigi er það fast í minni.) Og eftir sumar kemur haust, og svo hressilegar eru haust rigningarnar oft, að þær geta hæglega jafnað metin á skömmum um tíma, ef landsynningarnir leggja sig fram. Þannig eiga veðurguðirnir marga leiki á borði til þess að bæta hag Kleifarvatns.“

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 20 júní 1971, bls. 538-539 – (ljósmyndir; Stefán Nikulásson).

Kleifarvatn

Kleifarvatn 2021.

ísólfs

Gengið var um Selatanga.

Selatangar

Selatangar – fisbyrgi (nú horfið).

Fyrst var haldið til veturs yfir í Katlahraunið. Á leiðinni var nyrsta refagildran skoðuð. Hún líkist vörðubroti, en ef nánar er að gáð má sjá fallhelluna og opið á gildrunni. Hún er ein af fjórum, sem enn má sjá heillegar á Töngunum.
Gengið var eftir Vestari Lestareiðinni í gegnum Borgir (Ketil) yfir að Smíðahelli. Í honum skýldu vermenn á Selatöngum sér í landlegum og dunduðu við að smíða nytjahluti, s.s. ausur, spón og hrífur úr rekavið, sem þeir drógu að sér undan reka Kálfatjarnarkirkju.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Komið var í eldhúshellinn og gengið þaðan yfir að syðstu refagildrunni utan við gerðið. Á leiðinni var komið við í skúta, sem notaður var sem tímabundinn bústaður fyrr á öldum. Efsta refagildran er svo til alveg heil. Lítið vantar annað en að hengja upp fallhelluna og egna fyrir skolla.
Haldið var austur að hesthúsinu og vestasta sjóbúðin síðan skoðuð. Í henni er, auk vistarvera, eldhús og hlóðir. Sjávarmegin við þær er vestasta

fiskibyrgið af þremur. Stendur það mjög heillegt á hæð, en neðan þess er klettur með krossmarki á. Neðan hans eru tveir klettar, alveg niður við fjöruborð. Sá austasti og minnsti, er Dágon, landamerkjasteinn Krýsuvíkur og Ísólfsskála.
Þaðan var haldið um byrgin og búðirnar, hverja á fætur annarri, og staðnæmst við skiptivöllinn, uns komið var að Smiðjunni.

Selatangar

Selatangar – Jón Guðmundsson frá Skála með í för.

Sunnan hennar eru austustu búðirnar á Selatöngum. Í þeim eru einnig eldhús og hlóðir.
Utan í Selalágum, austan tanganna eru fjórir skútar. Hlaðið er fyrir þrjá þeirra. Sá þriðji frá sjó var notaður sem vistarverur. Einnig eru hleðslur fyrir neðan þann fjórða.
Í bakaleiðinni var gengið um byrgin ofan á töngunum og þau skoðuð, uns komið var að Brunninum, en hann var forsenda þess að hægt var að gera út frá Selatöngum. Ofan hans eru tjarnir og gætir sjávarfalla bæði í þeim og brunninum.

Brunnurinn var mannhæða djúpur, að sögn Jóns Guðmundssonar frá Skála, en var fylltur upp er rolla fannst dauð ofan í honum anno 1930. Ekki var vart við Tanga-Tómas á Töngunum að þessu sinni.

Selatangar

Brunnurinn.

Selatangar eru ágætt dæmi um útver. Margar minjanna eru enn heilar, en líklegt má telja að flestar þeirra séu yngri en frá því um 1800. Þó eru sagnir um útver á Selatöngum allt frá því á 12. öld. Krýsuvík og Ísólfsskáli skiptu með sér verinu, en auk þess hafa verið þar uppkomubátar með hlutaskiptum. Verstaða við ströndina kvað á um sérstaka tímabundna menningu, sem vert er að gefa gaum. Hún lítur ekki síst að sagnaskemmtuninni, hefðinni í matarkosti, tignarskipan og fyrirkomulagi róðra og verkunnar.
Á SelatöngumÆgir hefur brotið mikið af ströndinni á umliðnum öldum og árum. Þannig er skiptivöllurinn nú horfinn með öllu, en var vel sýnilegur einungis fyrir nokkrum árum síðan. Líklegt má telja að allar elstu mannvistarleifarnar á Selatöngum séu löngu horfnar og að einungis þær yngstu standi þar nú.
Selatangar eru eitt af merkilegri útverum, sem enn má sjá merki og minjar um, með ströndum Íslands.
Veður var frábært – þægilegur andvari. Gangan tók 2 klst og 2 mín

Selatangar

Á Selatöngum.

Arnarseturshraun

FERLIR fór í sína árlegu jólagönguferð s.l. laugardag, 11. desember. Eins og kunnugt er hefur hópurinn verið duglegur að leita uppi fornar minjar á Reykjanesskagagnum og staði, sem flestum eru gleymdir. Þessi ferð var engin undantekning, nema nú var ætlunin að finna þann stað, sem jólasveinarnir halda sig jafan á milli jólahátíða.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

Hvar búa jólasveinarnir? Sagnir hafa verið um að þeir, móðir og faðir ásamt jólakettinum, búi í einhverju fjallinu á milli hátíða?
Fremstu, og jafnframt hæfustu, rannsakarar sem til eru, voru settir í það verkefni að reyna að staðsetja dvalarstað jólasveinanna. Þeir skoðuðu öll hugsanleg fjöll, sem til greina komu, en niðurstaðan voru vonbrigði. Fullyrt var að hvorki jólasveinar né önnur sambærileg fyrirbæri gætu búið í fjöllum, hvað þá á fjöllum. En hvar þá?
Rannsakararnir komust að því að undirheimarnir væru einna líklegastir. Jólasveinarnir virtust alltaf eiga nóg af gjafadóti, þeir voru hvergi á launaskrá, virtust ekki hafa neinar tekjur, sáust aldrei milli 6. janúar og 12. dag desembermánaðar og notuðu ekki síma, en þurftu að búa við tiltölulegar mildar aðstæður og auðvelt væri um aðdrætti. Auðvitað þyrftu jólasveinar ýmislegt smálegt af og til allt árið auk þess þeir þurftu að geta dregið sér allt efni í gjafir og því var alveg nauðsynlegt að nærliggandi íbúar væru sammála sem einn maður að þegja um dvalarstaðinn. En hvar voru íbúar, sem gátu þagað yfir leyndarmáli?

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hvar lá fiskur undir steini? Þægilegir undirheimar, milt svæði, láglendi, auðvelt með aðdrætti, hreindýramosi og traustsins verðir nágrannar? Rifjað var upp Stóra heimaslátrunarmálið!!! Einungis einn staður gat komið til greina. En svæðið var stórt. En undirheimar þess voru þó á takmarkaðir.
Lagt var af stað inn í norðanvert Skógfellahraun og gegnið áleiðis að Litla-Skógfelli. Fetaður var stígur í gegnum hraunið upp að fellinu. Á því er lítil varða.
Gamla þjóðleiðin um Skógfellaveg liggur sunnan við fellið frá Vogum og áfram áleiðis til G

Jól

Jólasveinn.

rindavíkur. Hún er mikið klöppuð í hraunhelluna. Gæti það m.a. hafa verið eftir hreindýr jólasveinanna til langs tíma?
Gatan var rakin framhjá gatnamótum Sandakravegar og síðan beygt til hægri að Stóra-Skógfelli. Framundan var Arnarseturshraunið, sem er talið hafa runnið í Reykjaneseldunum um 1226. Líklegt er að jólasveinarnir hafi flust á milli svæða, en þetta svæði er enn volgt – undir niðri – og því kjörlendi þeirra, sem vilja dyljast svo til allt árið.
Ef jólasveinarnir væru þarna einhvers staðar væri best að koma þeim á óvart með því að koma úr þeirri átt, sem síst væri von mannaferða á þessum tíma. Gengið var hljóðlega inn á hraunkantinn og áleiðis að mikill hrauntröð austan við eldgígana. Þegar stutt var eftir í tröðina sást hvar rauð húfa stóð upp úr skjannahvítum snjónum. Þegar þátttakendur nálguðust reis skyndilega upp jólasveinn undir húfunni og virtist hann hálf ringlaður og undrandi. Hann, sem er vanur að finna fók, átti greinilega ekki átt von á að fólk finndi hann.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Hikandi gekk hann á móti FERLIRsfélögum, staðnæmdist í hæfilegri fjarlægð og kastaði kveðju á liðið. Það var ekki síður undrandi þótt búast megi nú við hverju sem er í FERLIRsferðum, eins og dæmin sanna.
Eftir svolitla stund hvarf feimnin af honum og hann bauðst til að fylgja FERLIR í hellinn, en einungis inn í anddyrið því annars yrði Grýla alveg brjáluð, eins og hann orðaði það. Auk þess væru hinir bræður hans enn sofandi, en sjálfur ætti hann að leggja af stað til byggða um kvöldið. Þau vildu ekki fá of marga gesti því þá væri hætta á að ekki yrði ráðið við strauminn og því enginn friður lengur.
Í ljós kom m.a., í annars dimmum hellinum, að jólakötturinn var ekki köttur,

Arnarsetur

Jólasveinn í Arnarseturshellum.

heldur hundur. Það er greinilega ekki allt satt sem sagt er.
Stekkjastaur, en það sagðist jólasveinnin heita, bauð upp á góðgæti að hætti jólasveina, sagði sögu, flutti gamanmál og vildi síðan heyra fólkið syngja jólasöngva. Þegar sungið var “Jólasveinar ganga um gólf” þurfti hann að leiðrétta texta mannanna, sem notaður var, því auðvitað er farið upp á hól en engin kanna sett upp á stól. Af hólnum var litið til manna, eins og hann sagðist sjálfur oftast gera.
Þegar sveinki var spurður af því hvers vegna sungið væri: „Jólasveinar einn og átta, ofan koma af fjöllunum…“, svaraði hann því til að auðvitað væri með þetta eins og annað; hreppstjórinn í Grindavík hafi fyrir nokkrum mílárum handtekið fjóra ræningja, sem haldið höfðu til í gjá uppi á Þorbirni og hengt þá í Gálgaklettum þarna rétt hjá. Einhver fjölmiðill hafi síðar talið þá vera „jólasveina“ og sett þá vitleysu á prent fyrir langalöngu, en hún enn ekki fengist leiðrétt. Þess vegna vissi fólk ekki betur og tryði vitleysunni, eins og svo oft vill verða. „En ekki láta þetta rugla ykkur“, sagði hann, „við erum níu og reyndar fjórum betur. Og auðvitað komum við af fjöllum á leið okkar um og yfir þau með gjafirnar. Hjá því verður ekki komist, a.m.k. ekki hérna á Íslandi.“
„En áttu ekki að vera í íslenskri lopapeysu eða rollukápu?“, spurði snáðinn í hópnum.
„Ekki á jólunum. Þá klæðumst við sparifötunum, þessum hérna“, svaraði jólasveinninn og togaði með annarri hendinni í rauðu treyjuna. „Allshvunndags erum við nú bara í lopanum og skinninu“, lambið mitt. Það hefur reynst okkur best hér á þessum slóðum.“

Arnarseturshellir

Í Arnarseturshelli.

„En segið mér eitt“, bætti jólasveinninn við og lækkaði róminn. „Hafið þið heyrt nokkurn tala um rýrnunina á skreiðinni í trönunum hérna rétt hjá?“ Hann benti í suður. Allir komu af fjöllum. Ekkert svar.
„Nú, það er svo. Þá þarf ekki fleiri orð um það – ekki meira um það“, sagði sveinki og leit flóttalega í kringum sig.
Fljótlega þurfti Stekkjastaur að hverfa til skyldustarfa, greip með sér langan lista og stóran hvítan poka, snaraði honum á bak sér, kvaddi þátttakendur og hvarf út í miðhúmið.
Einn úr hópnum, sem virtist nú fyrst vera að átta sig, leit á hina og spurði með undrunarsvip: „Hver var þetta, hver lék jólasveininn?“.
Hinir litu á hann, brostu síðan og svörðuðu einum rómi. „Þetta var sjálfur jólasveinninn, ekta jólasveinn, sástu það ekki, maður“.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – kort.

Einhverjir eltu jólasveininn út úr hellinum til að sjá hvers konar farartæki hann notaði, en allt kom fyrir ekki. Hann var horfinn með það sama. Jólasveinar virðast öðlast einhvern yfirnáttúrlegan mátt þegar að þeirra tíma kemur. FERLIR virðist því hafa verið á réttum stað á réttum tíma, rétt áður en máttur Stekkjastaurs varð virkur – ef ekki ofvirkur.

Auðvitað eiga Grindvíkingar jólasveinana, eins og svo margt annað á Reykjanesskaganum. Þeir eiga líka flest hraunin og svo til öll fjöllin og ef Hafnfirðingar hefðu ekki beitt brögðum til að ná til sín Krýsuvík á sínum tíma, ættu þeir nær allt, sem merkilegt getur þótt á skaganum – eða það segja Grindvíkingar a.m.k. Var ekki alþingismaðurinn kra(f)tlegi sem flutti tillögu um að afhenda Hafnfirðingum Krýsuvík jafnframt bæjarfulltrúi Hafnfirðinga? Hvað gátu hinir hógværu og kurteisu Grindvíkingar gert í þeirri pólitísku refskák á þeim tíma? „Pólitíkin er rúin allri kurteisi“ – eða það viðurkennir Gunnar Birgisson a.m.k. núna.

Kjöthvarfið

„Kjöthvarfið mikla“- myndin er úr eftirlitsmyndavél.

Áður en Stekkjastaur kvaddi var hann beðinn um góðar gjafir þátttakendum og öðrum til handa, einkum þó gnægð kærleika, hamingju, góðar heilsu og nægan tíma, ef hann gæti eða mætti miðla einhverju af því sem hann ætti af slíku. Veraldlegar gjafir voru afþakkaðar (þótt góðir gönguskór komi sér nú alltaf vel).

Til fróðleiks má upplýsa hér að Stóra heimaslátrunarmálið snérist um haldlagningu á miklu magni af heimaslátruðu kindakjöti hjá Grindavíkurbændum. Því var síðan stolið úr fórum yfirvalda og virtist hafa horfið af yfirborði jarðar. Íbúarnir þögðu allir sem einn. Utanaðkomandi sögðu þó að eigendurnir hefðu einungis fært það tímabundið á milli frystigáma og læst á eftir því til að tryggja betur geymslu þess, en aðrir vildu halda því fram að „einhverjir jólasveinar“ hefðu tekið það ófrjálsri hendi. En engin trúði hinum síðarnefndu að sjálfsögðu. Að einu má þó ganga sem vísu; það er löngu búið að eta öll sönnunargögnin.
Frábært veður – stilla og logn. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Arnarseturshellir

Arnarseturshellir.