Tag Archive for: Grindavík

Kirkjugata

Í tilefni jólanna var gengið eftir gömlu kirkjugötunni milli kirkjunnar á Stað í Staðarhverfi og Járngerðarstaða.
GamlaKirkja Grindvíkinga var á Stað fram til 1907 og endurreist í Járngerðastaðahverfi 1909. Götuna gengu ungir sem aldnir um aldir.
Staðnæmst var við Ósinn þar sem gatan hélt áfram yfir Hópið og sem leið lá áfram austur að Þórkötlustöðum.
Á leiðinni bar ýmislegt forvitnilegt fyrir augu, bæði mannvistarleifar við Tóftarbrunna, Miðbrunna og Gerðavallabrunna sem og staðsetningar sögulegra atburða, s.s. Anlabystrandið árið 1900.
Í raun var táknrænt að ganga frá Stað að Járngerðarstöðum, ekki síst vegna flutnings kirkjunnar fyrir nákvæmlega einni öld síðan.
Gatan, sem slík, sést nú einungis á litlum köflum, annars vegar ofan við Hvirfla í staðarhverfi og hins vegar suðvestan við Brunnana á Gerðisvöllum.
Þar greinist gatan í tvennt; önnur fer norður fyrir BrakMiðbrunna og Tóftarbrunna og hin suður fyrir þá. Sérstök lýsing á kirkjugötunni í heild sinni er ekki til, en hennar er þó getið í örnefnaskrám. Ástæðan er sennilega sú að gatan var svo sjálfsögð allt þar skömmu áður en fyrsti bíllinn kom til Grindavíkur (akvegurinn var lagður þangað 1918) að ekki hefur verið talin ástæða til að skrifa um hana sérstaklega.
Staður er nú eyðibýli. Prestssetur og kirkjustaður var á Stað frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.
GrindavíkurkirkjaÍ klukknaportinu í kirkjugarðunum á Stað má t.d. sjá skipsklukkuna úr Alnaby, torgaranum er fórst utan við Jónsíðubás skömmu eftir aldamótin 1900. Með honum fórst skipstjórinn, Nilson, sá hinn sami og hafði verið valdur að láti Íslendinga í Dýrafirði er Hannes Hafsteinn ætlaði að koma lögum yfir hann þar fyrir ólöglegar veiðar.
Sú saga hefur gengið á Stað að venja hafi verið að ganga rekann. Vegna veðurs þennan dag var það ekki gert. Daginn eftir fannst stígvéli ofan við fjöruna er benti til þess að einn áhafnameðlima hafi komist lífs af, en orðið úti. Vildu menn að nokur kenna sé rum að hafa ekki gengið rekann að venju og þar með getað bjargað skipsbrotsmanninum. Um söguna af Nilson og strandið í Grindavík hefur Árni Óla m.a skrifað sem og fleiri. Hún er t.d. í Staðhverfingabókinni.
Sjá meira um svæðið (Tóftarbrunna, Anlaby, Jónssíðubás og Bóndastekktún).
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Jónsbásar

Jónsbás – kirkjugatan.

Tyrkir

Í tímaritinu Sögu, 1. tbl. árið 1995, reynir Þorsteinn Helgason að svara spurningunni „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn?“. Eftirfarandi er hluti af umfjölluninni:

„Í fyrri hluta greinarinnar er fjallað almennt um sjórán á 17. öld og nokkur hugtök skýrð. Þá er sagt frá heimildum um sjórán og einkum þau sem stunduð voru á vegum Algeirsborgar og Salé í Marokkó. Loks er yfirlit yfir heimildir um Tyrkjaránið 1627, m.a. hollenskan samtímaannál sem segir frá Grindavíkurráninu.
TyrkirÍ seinni hlutanum er leitað svara við því af hvaða þjóðerni og uppruna ránsmennirnir voru. Niðurstaðan er sú að samsetning hópsins hafi verið fjölbreytt en norður-evrópskir trúskiptingar hafi verið atkvæðamestir.
Tyrkjaránið er alkunnur atburður í Íslandssögunni en þó skal hér í byrjun rakinn söguþráðurinn í fáum orðum: Sumarið 1627 komu ræningjaskip til Íslands frá Norður-Afríku. Annar hópur ránsmanna tók land í Grindavík, hertók þar fólk, felldi tvo menn og tók tvö skip og annað herfang; stefndi síðan til Bessastaða en skip þeirra steytti á skeri. Urðu þeir frá að hverfa og héldu til heimahafnar í borginni Salé í Marokkó. Hinn hópurinn rændi fyrst á Austfjörðum en síðan í Vesrmannaeyjum og var það sýnu mesta ránið; sá hópur var frá Algeirsborg. Alls hertóku ránsmenn um 400 manns, felldu sennilega um þrjátíu og tóku fimm dönsk verslunarskip auk annars herfangs. Fangana seldu þeir mansali í heimaborgum sínum en á fjórða tug þeirra voru keyptir heim með lausnarfé tíu árum síðar.
Tyrkjaránið er minnisstæð hrollvekja í Íslandssögunni að minnsta kosti á þrjá vegu. Í fyrsta lagi er hún þáttur í sögu Vestmannaeyja sem ekki verður gengið fram hjá enda var líklega meira en helmingur íbúanna numinn á brott eða drepinn í þessum voveiflegu atburðum. Í öðru lagi hafa örlög hernumda fólksins orðið mörgum umhugsunarefhi, ekki síst hlutskipti Guðríðar Símonardóttur, Tyrkja-Guddu. Í þriðja lagi lifir ránið sem staðreynd og viðmið sem hægt er að grípa til, t.d. þegar varnarmál eru rædd eða þegar Tyrki ber á góma í nútímanum.
TyrkirSem sagnfræðilegt athugunarefni hefur Tyrkjaránið hins vegar legið að mestu í láginni. Það er þó á margan hátt álitlegt til rannsóknar, ekki síst í alþjóðlegu samhengi. Tyrkjaránið er vissulega einstæður atburður í sögu Islands3 en það er ekki formálalaust í veraldarsögunni.
Í þessari grein er ætlunin að kanna einn þátt Tyrkjaránsins, þ.e. uppruna ránsmannanna og einkum þjóðerni þeirra. Tyrkjaránsmenn voru ekki eins miklir Tyrkir og ætla mætti af orðanna hljóðan.
Þó að meginviðfangsefnið sé þessi þáttur þykir rétt að reifa málið fyrst á víðari grunni, tengja Tyrkjaránið við ýmsar hræringar í samtíma þess og segja frá helstu heimildum og heimildaflokkum sem það varða. Margt af því sem þar er sagt verður tilefni til nánari könnunar og umfjöllunar síðar og sér í lagi.
Um sjóræningja Norður-Afríku, og þar með „Tyrkina“ sem rændu á Íslandi 1627, eru til ærnar og fjölbreyttar heimildir. Það sem kemur á óvart er að þeirra er síst að leita á heimaslóðum, þ.e. í Norður-Afríku. Í Istanbul er hins vegar varðveitt mikið safn skjala frá lendum Tyrkja í Norður-Afríku á þessum tíma enda var stjórn Algeirsborgar reglufestustjórn og hélt fundargerðir en flokkun og útgáfa þessara skjala er stutt á veg komin.11 Þeir sem skildu eftir sig rituð plögg um sjóránastarfsemi í Norður-Afríku voru einkum þessir:
a. Stjórnvöld í Norður-Afríku og Evrópu sem skiptust á orðsendingum,
b. opinberir sendimenn Evrópuríkja í Norður-Afríku,
c. kirkjunnar menn sem komu til að leysa fólk út með fjármunum,
d. skipstjórnarmenn sem héldu dagbækur og
e. herleitt fólk sem skrifaði heim.
TyrkirFrumheimildir um Tyrkjaránið á íslandi 1627 eru fyrst og fremst íslenskar og mega þær teljast allnokkrar að vöxtum og býsna ítarlegar í samanburði við heimildir um viðlíka viðburði erlendis. Og gagnstætt erlendu skjölunum eru þær mestan part persónulegar reynslusögur. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður safnaði þessum heimildum saman, bar saman handrit og gaf út í ritinu Tyrkjaránið á Íslandi 1627 á vegum Sögufélags í byrjun aldarinnar.
Íslensku heimildunum í útgáfu Jóns má skipta í nokkra flokka:
a- Ferðasaga (reisubók) Ólafs Egilssonar prests í Vestmannaeyjum sem herleiddur var 1627 en sleppt um haustið til að hann færi á heimaslóðir að safna lausnarfé. Frásögn Ólafs er á flestan hátt traustust og nákvæmust af þessum heimildum; af henni er oftast
ljóst hvað hann sá og lifði sjálfur og hvað hann hefur eftir öðrum.
b. Aðrar frásagnir sjónarvotta. Hér er um að ræða brot úr ævisögu Jóns Ólafssonar Indíafara sem var settur til varna á Bessastöðum og er því til frásagnar um afmarkaðan þátt viðburðanna. Kláus Eyjólfsson lögréttumaður skráði frásögn af ráninu í Eyjum eftir þeim sem sluppu naumlega á land og e.t.v. fleiri heimildum. Frásaga hans er ónákvæm og einhliða og mætti geta sér þess til að skelfing heimildarmanna hafi verið svo mikil að í skynjuninni og minningunni um atburðina hafi öll blæbrigði þurrkast út. Slíkt mun alkunnugt í vitnasálfræði. Fjögur sendibréf Íslendinga frá Barbaríinu eru varðveitt og eru þau merkilegar heimildir um herleiðinguna og gefa tilefni til samanburðar við erlendar heimildir.
c. Tyrkjaránssaga Björns Jónssonar á Skarðsá frá 1643 er viðleitni til formlegrar sagnaritunar um þennan stórviðburð og þar er stuðst við aðrar heimildir, þ. á m. ferðasögu Ólafs Egilssonar en einnig rit sem týndust í brunanum í Kaupmannahöfn 1728: frásögn Halldórs Jónssonar af Grindavíkurráninu, rit Einars Loftssonar úr Vestmannaeyjum og eitt bréf úr herleiðingunni frá Jóni Jónssyni
Grindvíkingi.
d. Annálar og brot. Hér er um að ræða stutta lýsingu á ráninu á Austurlandi sem austanpiltar í Skálholti skráðu veturinn eftir að atburðirnir gerðust, ennfremur stuttan en sjálfstæðan annál sem greinir m.a. frá öðrum ritum um ránið, loks brot úr Skarðsárannál, grein í Biskupasögum Jóns Halldórssonar, prestasögum hans og Hirðstjóraannál.
e. Nokkur opinber tilskrif eru varðveitt og fjalla flest um eftirleikinn á Íslandi, t.d. erfðamál, eignaskiptingar og giftingar. Þó tæpa sumir á atburðarásinni, svo sem Oddur biskup Einarsson í minnisbók sinni 1630.
TyrkirÓlafur áleit að flestir þeirra manna sem tóku hann sjálfan og fjölskyldu hans höndum hafi verið enskir.53 Líklegt er að Ólafur hafi hér ályktað af málfari ræningjanna. Þegar á skipið kom og Ólafur hafði verið barinn með kaðli „var einn Þýzkur tilsettur að spyrja mig að, hvort eg ætti ekki peninga“. Loks gerir Ólafur grein fyrir því í heild sinni hverninn illþýði þetta er að ásýnd og búnaði. Þá er það af því að segja, að það fólk er misjafnt, bæði til vaxtar og ásýndar, sem annað fólk. Sumir geysi miklir, sumir bjartir, sumir svartir, því það voru kristnir úr ýmsum löndum, enskir, franskir, spánskir, danskir, þýzkir, norskir, og haf þeir hver sitt gamla klæðasnið, sem ei kasta trú sinni. Mega þeir alt vinna, það til
fellur, og hafa stundum högg til… . En Tyrkjar eru allir með uppháar prjónahúfur rauðar….
Ólafur Egilsson greinir þannig í þrjá hópa: upprunalega Tyrki, trúskiptinga og kristna menn. Má ætla að þeir síðastnefndu hafi einkum verið á skipunum og tæpast tekið þátt í strandhöggunum þar sem þá þurfti að hafa undir eftirliti og þeim var skipað fyrir verkum.
Allt sem sagt hefur verið hingað ril á við um ránsmenn frá Algeirsborg sem herjuðu á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum. Þeir sem léru greipar sópa í Grindavík og strönduðu síðan á Seylunni utan við Bessastaði komu hins vegar frá borginni Salé í Marokkó. Ránsmenn í Saléborg voru af svipuðum toga og Algeirsbúar en nokkuð bar þó á milli.
Af framansögðu má ætla að sjóránaskipin frá Salé hafi verið mönnuð márum frá Spáni, evrópskum trúskiptingum og ófrjálsum Evrópumönnum, auk Marokkómanna af ýmsu tagi. Svo vel ber í veiði að til eru upplýsingar um áhöfn skipstjórans, sem var í fyrirsvari fyrir Íslandsferðinni 1627, eins og hún var samsett í árás á Kanaríeyjar 1622. Spænskur trúskiptingur af skipinu var skömmu síðar handtekinn og leiddur fyrir rannsóknarréttinn. Hann sagði að á skipinu hefðu verið márar frá Salé, þar af 18 Moriscos útlægir frá Spáni. Níu flæmska (hér: hollenska) trúskiptinga taldi hann auk 13 ófrjálsra landa þeirra.
TyrkirÞar sem ránsmönnum í Grindavík er lýst í Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá eru þeir aldrei nefndir annað en „Tyrkjar“. Þó er sagt að ránsmenn hafi sent nokkra menn á bát til njósna að danska kaupskipinu og að þeir menn hafi talað þýsku við skipherrann. Ennfremur er talað um hollenskan bátsmann á skipi þegar siglt var til Afríku.
Í hollenska annálnum, sem áður er nefndur, segir að níu Englendingar hafi verið í áhöfn ránsmanna í Grindavík; þeim hafi verið gefið eftir fyrra skipið, sem tekið var, og hafi þeir fengið að fylla það fiski. Síðan sigldu Englendingarnir heim til Englands „og létu sem þeir ættu skipið og héldu því leyndu að sjóræninginn [þ.e. foringi „Tyrkjanna“] hefði látið þá hafa það“. Í íslensku heimildunum er ekki getið um þetta „enska tilbrigði“.
Tyrkjaránsmenn voru sundurleitur hópur. Íslenskar lýsingar fara allvel saman við það sem annars staðar segir af þjóðerni og uppruna þeirra. Segja má þó að minna beri á Hollendingum og márum frá Spáni í íslensku heimildunum en við hefði mátt búast. Þar getur margt komið til:
– að Hollendingar hafi stundum verið taldir með Þjóðverjum; tungumálin voru lík,
– að Íslendingum hafi reynst erfitt að sundurgreina márana; þeir sem Ólafur Egilsson nefnir Tyrki geta einnig verið márar og jafnvel að einhverju leyti evrópskir trúskiptingar,
– að Norður-Evrópumenn hafi raunverulega verið fleiri í íslandsleiðangrinum en í mörgum öðrum ránsferðum vegna kunnugleika þeirra á norðurslóðum.
TyrkirLjóst er að fáir upprunalegir Tyrkir tóku þátt í Tyrkjaráninu og engir þeirra voru í hópnum sem réðst að Grindavík og Bessastöðum þar sem Saléborg heyrði ekki undir Tyrkjaveldi. Þar að auki má minna á að tyrknesku hermennirnir, janissararnir, voru fæstir Tyrkir að uppruna. Það voru því fyrst og fremst Evrópumenn sem frömdu Tyrkjaránið. Er þá nokkur hæfa í því að kalla það Tyrkjarán?
Þessu má svara með nokkrum rökum. Í fyrsta lagi hefur heitið Tyrkjarán alla tíð verið notað um þessa atburði hér á landi og það „er óþægilega fyrirhafnarsamt að skipta um hugtök í hvert skipti sem fræðimenn skipta um skoðun á fyrirbærunum.“ Í öðru lagi tóku Iíklegast einhverjir Tyrkir þátt í ráninu. Í þriðja lagi laut Alsír formlega Tyrkjaveldi á þessum tíma. í fjórða lagi notuðu Evrópumenn þessa tíma heitið Tyrkir iðulega um múslíma (múhameðstrúarmenn) hvar sem þeir bjuggu sunnan Evrópu; menn gátu gerst Tyrkir.
Þó að búið sé með sæmilegum hætti að svara því hverjir Tyrkjaránsmenn voru er ekki hálf sagan sögð. Næst liggur fyrir að leita uppi foringjana og kanna hlut þeirra. Síðan þarf að skilgreina stjórnvöldin sem réðu í heimahöfnum þeirra. Þá er rétt að fara í saumana á lögum, reglum, siðvenjum og fræðilegum rökum sem ná yfir þetta athæfi. Loks má reyna að rekja alla atburðarásina og ástand mála um Miðjarðarhaf og í Evrópu sem leiddu yil þess að Tyrkjaránið átti sér stað. En hér verður látið staðar numið að sinni.“

Heimild:
-Saga – Hverjir voru Tyrkjaránsmenn? – Þorsteinn Helgason, 1. tbl. 1. janúar 1995, bls.111-133.
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=334801&pageId=5279658&lang=is&q=Tyrkjaránið

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

Gengið var um Katlahraun, að fjárskjóli Vigdísarvallamanna, síðar Skála, Smíðahellinum, Sögurnarkórnum, Vestari lestargötunni, Nótahellinum og refagildrunum fremst á brúninni.

Selatangar

Fjárskjól við Selatanga.

Síðan var haldið austur um Tangana, staðnæmst við brunninn og þá gengið að vestustu búðinni í verstöðinni, litið á óninn, síðan verkhúsið og staðnæsmt við Dágon. Jón Guðmundsson frá Skála taldi Dágon merkja djöfull upp á dönsku, en aðrir hafa viljað halda því fram að um geti verið að ræða hljóðbreytingu úr dragon eða dreki. Alls ekki svo ólíklegt heldur.
Þegar fiskur var verkaður á Selatöngum voru sum byrgin, líkt og þau stærstu, notuð til að verka fiskinn í. Þess var vandlega gætt að “kjötið” kæmi hvergi saman og vel var pakkað svo loft kæmist ekki að. Þá var jafnan reynt að halda þessum verkhúsum köldum.

Selatangar

Selatangar – þurrkgarðar.

Í þurrki, eftir að fiskurinn hafði tekið sig, var hann færður á þurrkgarðana, sem eru þarna um alla tangana. Þess á milli var fiskurinn geymdur í minni byrgjunum, sem víðar eru og sum bara nokkuð heilleg, en í þeim loftaði vel um hann.
Gengið var um svæðið og skoðuð mismunandi byrgi. Staldrað var við Smiðjuna og austustu sjóbúðina áður en haldið var upp með Eystri-Látrum, kíkt á skjólin undir austurbakkanum og áð við helli þann er oftast hefur verið vart við Tanga-Tómas við. Rifjuð var upp sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda á sínum tíma.
Farið var yfir uppdráttinn af Selatangasvæðinu og gerðar lítilsháttar lagfæringar á honum. Nú er komin nokkuð heilleg mynd af þessu merkilega útveri.
Frábært vorveður. Gangan tók 1 klst. og 1. mín.

Á Töngunum

Á Selatöngum.

Baðsvellir

Skoðuð voru Baðsvallasel norðan Þorbjarnarfells. Baðsvellir voru notaðir til selstöðu frá Járngerðarstöðum uns hún var færð upp á Selsvelli vegna ofbeitar. Selið, sem greinilega er mjög gamallt, er undir hól við litla tjörn. Innan hennar er skógur. Í honum eru tóftir og urmull af kanínum. Undir hraunkanti vestan við Baðsvellina eru stekkir og fleiri tóftir.

Baðsvellir

Baðsvellir – tóftir.

Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, en menn kvörtuðu um það á 19. öld að þar væru hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar. Járngerðarstaðamenn gerðu og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls. Þetta kemur fram í lýsingu jarðarbókarinnar á Stóru Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. „…aðra [selstöðu] vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, er þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar”. Húsatóftir hafði haft langvarandi selstöðu á Selsvöllum, en þangað var bæði langt og erfitt að sækja. Staður hafði einnig selstöðu á Selsvöllum.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Ef tekið er mið af viðurkenndum, skráðum og lögformlega skráðum landamerkjabréfum má sjá að línan var dregin um Vatnskatla frá Litla-Keili og þaðan í Sogadal, sem fyrir var fyrrum sel frá Krýsuvík, en „eftirlét Kálfatjörn mánaðarselstöðu ár hvert“. Tóftin í dalnum, er slapp við eyðilegginu vegargerðarmanna vegna borsvæðis, er til vitnis um framangreint. Selsvellir eru allnokkru sunnar og þá vel innan landamerkja Grindavíkurbænda.
Það er athyglisvert, að selstöðunum er lýst sem sæmilega góðum, góðum eða merkilega góðum nema Baðsvöllum. Þar er hagar sagðir litlir og vatnsból ófullnægjandi. Þessi lýsing minnir á lýsingar Jarðarbókarinnar á selstöðum annars staðar á Reykjanesskaga, t.a.m. í Vatnsleysstrandarhreppi. Selstöðunum þar er ýmist lýst sem haglitlum eða vatnslitlum nema hvort tveggja sé, enda er þær flestar úti í hraununum norðan fjallgarðsins, sem liggur um skagann sunnanverðan.

Baðsvellir

Baðsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Hins vegar eru selstöðurnar í Grindavíkurhreppi flestar á mörkum hraunanna og móbergshryggjanna sunnan til á skaganum og einkennast af grasigrónum hlíðum eins og við Hraunsel. Vatn skortir ekki af því að lækir koma úr hlíðunum, en hverfa síðan undir hraunin. Þó verður ekki á allt kosið. Því að víða er langt að fara og erfitt að sækja eins og kemur fram í lýsingunum, skemmst á Baðsvelli um 5 km, lengst frá Stað á Selsvelli, um 25 km eftir mjög góðri mælinu.
“Hvenær lögðust selfarir niður í Grindarvíkurhreppi? Í bók sr. Gísla Brynjólfssonar, Mannfólk mikilla sæva, Staðhverfingabók, 1975, er sagt frá seljunum á Selsvöllum og frá sr. Geir Backmann. Sr. Gísli telur líklegt, að prestar á Stað hafi lítið eða ekki notað selið eftir daga sr. Geirs, þ.e. 1850, en færir engar sönnur á það eða rökstyður. “Síðar”, segir hann, þ.e. eftir daga sr. Geirs, “þegar selfarir lögðust með öllu niður, urðu Selvellir smám saman afréttur sveitanna á Suðurnesjum, sem þeir eru enn í dag”.

 

Baðsvellir

Baðsvellir – tóft.

Í þjóðháttasöfnum stúdenta, sem fram fór sumarið 1976 og beindist að fráfærum, var spurt um sel og selfarir. Fyrir svörum í Grindavíkurhreppi var m.a. Magnús Hafliðason frá Hrauni, f. 1891. Magnús sagði frá því, að foreldrar hann hefðu haft í seli í Hraunseli, sem væri um tveggja tíma ganga frá Hrauni. Þar hefðu verið hafðar kýr og kindur og hefði mjólkin verið unnin í selinu og mjólkurvörunar sendar niður eftir. Smali og ein stúlka hefðu verið í selinu, og hélt hann að hætt hefði verið að hafa í selinu um 1890. Þetta stingur nokkuð í stúf við frásögn Þorvalds Thoroddsens, sem fann rústir einar af Hraunseli árið 1883. Vera má, að tímasetning Magnúsar skeiki um rúman áratug eða svo. Selstaðan gæti hafa verið tekin þar upp aftur eftir að Þorvaldur fór þar um.

Baðsvellir

Baðsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Magnús kennir fólksfæðinni á bæjunum um að hætt var að hafa í seli. Menn fóru að búa sjálfir og reyndu að eignast kýr fremur en ær eftir að selfarir lögðust niður. Magnús gefur hér í skyn að bústofn hafi breyst við það, að menn hættu að hafa í seli… Þessar ályktanir virðast vera rökréttar. Selstöður hafa lagst niður þegar fátt var um bæði nautgripi og sauðfé um 1870. Hinn stóraukni fjöldi sauðfjár frá 1879 virðist benda til þess, að fé hafi verið haldið til annarra nytja en mjólkurnytja og um leið til þess að áhugi á afréttarlöndum hefði orðið áhuganum á selstöðum yfirsterkari. Þó er ekki loku fyrir það skotið, að hjónin á Hrauni hafi tekið sig til eitthvert vorið og rekið búsmala sinn í selið, þótt allir aðrir væru hættir slíku tilstandi og selið hefði staðið autt og tómt og hálffallið um nokkurra ára skeið.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Það má spyrja, hvað lifi enn eftir af þessum búskaparháttum, sem lögðust af fyrir um það bil öld. Í huga Magnúsar Hafliðasonar lifir minningin um selfarir foreldra hans. Hann kann einnig að segja frá öðrum seljum en Hraunseli, sem hann álítur að sé á Selsvöllum. Innar á Selsvöllum veit hann um Sogasel. Rétt mun vera, að Sogasel er fyrir norðaustan Selsvelli við Sog, suðvestan við Trölladyngju og Grænudyngju og var í landi Stóru-Vatnsleysu og nytjað frá Kálfatjörn, en ekki frá Stað eða Tóftum eins og haft er eftir Magnúsi.

Hópssel

Hópssel við Baðsvelli.

Magnús þekkir einnig Dalsel og segir það vera frá Húsatóftum, og hann veit um sel á Baðsvöllum. Margrét Daníelsdóttir, f: 1899, og Þorsteinn Ólafsson, f: 1901, bæði frá Grindavík, vissu um tvö sel á Baðsvöllum, það eystra frá Hópi, en hinu vissu þau eingin deili á. Ennfremur vissu þau um sel á Selsvöllum, sem þau þekktu ekki. Gísli Guðjónsson frá Hlíð í Gerðahreppi, f: 1891, hafði drukkið kaffi á Vigdísarvöllum, þegar hann var smákrakki. Hann áleit, að á Selsvöllum hefði getað verið sel. “Það veit enginn fyrir víst”.

Selskogur-222

Minnismerki við Baðsvelli.

Þetta er það sem stúdentar grófu upp um sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sumarið 1976.
Á Alþjóðadegi Sameinuðu þjóðanna um skógrækt, 29. júlí 2011, var gengið um Selskóg norðan Þorbarnarfells. Gangan var liðuðr í „Af stað..:“ gönguhátíð í umdæmi Grindavíkur. Jóhannes Vilbergsson, formaður skógræktarfélagsins gat eftirfarandi upplýsinga: „Skógræktarfélag Grindavíkur var endurstofnað árið 2006. Meðlimir eru í kringum 40 manns. Það er búið að planta rúmlega 20 þúsund plöntum frá 2006 megnið á norður og suðurhlið Þorbjarnar. Árið 2008 vann skógræktarfélagið í samvinnu við Landsvirkjun að átakinu „Margar hendur vinna létt verk“ og þar voru búnir til göngustígar, hreinsað frá ungum plöntum og áburður borin á. Einnig var plantað fleiri plöntum. Árið 2009 sótti Skógræktarfélagið um þátttöku í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands. Við komumst að í því átaki og fengu 10 manns vinnu við það um sumarið, við að setja niður plöntur og bera áburð á eldri plöntur ásamt því að stígar voru lagfærðir o.m.fl.
Árið 2010 endurnýjuðum við samninginn og 20 manns komu að starfinu það sumarið.
Mjög góður árangur sést af þessu starfi í hlíðum Þorbjarnar frá vatnstankinum að eldri skógi sem dæmi.
Skógræktarfélagið sótti um skilti hjá Skógræktarfélagi Íslands, skiltið græna má sjá við aðkeyrslu inn í skógræktina. Árið 2011 vildi Grindavíkurbær ekki taka þátt í atvinnuátakinu svo minna hefur gerst þetta árið.
Fyrsti hluti af grisjun skógarins hefur farið fram, og hefur það verið í höndum fagmanna frá Skógræktarfélagi Íslands.
Hefur Skógræktarfélag Grindavíkur sótt um þetta frá endurstofnun félagsins, og loksins fengum við grisjunina. Grisjun skógarins bætir skóginn og sólarljósið kemst niður í skógarbotninn, og öll trén sem eftir verða fá að njóta sín betur.
Grunnskólinn hefur í mörg ár plantað græðlingum og Leikskólinn Krókur hefur einnig sett niður svolítið af plöntum. Allir eru velkomnir að taka þátt í starfi Skógræktarfélags Grindavíkur því það er okkar allra hagur að Selskógur sé útivistarparadís Grindavíkur.
Í fundargerð Kvenfélags Grindavíkur frá 24. okt. 1956 og síðan í fundargerð 1957 má lesa ýmsan fróðleik um stofnun skógræktar í Selskógi (Baðsvöllum).

Heimild:
-Þjóðháttasöfnun stúdenta 1976.

Baðsvellir

Sel á Baðsvöllum.

Keflavík

Ætlunin var að ganga til suðurs um Fjárskjólshraun undir Geitarhlíð við Krýsuvík með viðkomu í Fjárskjólshraunshelli og Fjárskjólshraunsfjárskjólinu, sem hraunið mun draga nafn sitt af, en halda síðan niður í hina skjólgóðu Keflavík og berja gatklettinn augum. Á loftmynd mátti sjá djúpan gíg norðaustan við Keflavíkina. Austan hennar virðist vera hrauntjörn. Svo var að sjá að hún væri í stefnu neðanvert við enda Bálkahellis, sem gat gefið enn eina von um óvænta aðkomu.

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun.

Til baka var ætlunin að ganga um Klofninga með viðkomu í Bjálkahelli og hinum þjóðsagnakennda Arngrímshelli (Gvendarhelli).
Hraunssvæðið/-in, sem hér um ræðir, hafa freistað fárra, enda á fárra vitorði öll merkilegheitin er berja má augum. Ekki eiungis er svæðið sérstak (séríslenskt) heldur felur það í sér minjar og sögur liðinna alda – ef grannt er skoðað. Eru hvorutveggja ágæt dæmi um hvernig landsmenn nýttu sér efni og aðstæður til að þrauka til núlifandi kynslóða. Hversu lítillátt fólk kann að vera nú til dags verður þetta afrek forfeðra og -mæðra okkar að teljast einhverrar viðurkenningar verðar. Þessi ferð var m.a. liður í slíkri viðurkenningu – síðasti hefðbundi göngudagurinn fyrir jólahátíðina 2007. Hafa ber þó í huga að „jólin“ sem slík hafa gjarnan verið ígildi hátíðar eða veislu af fleiru en einu tilefni.
Ferðin var líka kjörið tækifæri til að léttast svolítið fyrir væntanlegt þungmeti jólahátíðarinnar og líta fyrstu geisla hækkandi sólar augum.
Þegar gengið er um hraunssvæðið kemur fljótt í ljós að afurðirnar, sem myndað hefur það, eru nokkrar. Miðjan er bæði tiltölulega slétt og gróin. Þar er eldra hraunið, sem myndar undirstöður annarra hrauna, en flest eiga þau uppruna sinn í Stór og Litlu-Eldborg, auk gíga ofan Sláttudals í Geitahlíð.

Fjárskjólshraun

Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.

Þegar komið var niður niður í Fjárskjólshraun var gengið að opi Fjárskjólshraunshellis, sem þar leynist í grónu jarðfalli. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess. Niðri er komið í skúta undir berghellunni, en með því að fara til vinstri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er lág í fyrstu, en breið, og um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri. Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnumá einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.

Gatkletturinn

Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Þarna eru nokkur gömul greni á tiltölulega afmörkuðu svæði.
Gengið var áfram niður Fjárskjólshraunið. Sunnan undir lágum hraunhól eru mjög fornar grónar hleðslur fyrir fjárskjóli í hrauninu. Þetta eru í raun miklar hleðslur fyrir rúmgóðum skúta, en vel sést móta fyrir hlöðnum innganginum, sem er alllangur. Hellirinn sjálfur hefur hýst hátt í hundrað kindur. Fyrirhleðslur eru inni í hellinum á þremur stöðum. Mold er í gólfi. Við fyrirhleðsluna, vinstra megin við innganginn er inn er komið hefur verið hleðsla er líkist bæli eða klefa. Þar gæti hugsanlega hafa verið skjól fyrir þann eða þá er sátu yfir ánum í hrauninu. Ekki er ósennilegt að fjárskjólið sé það er hraunið hefur dregið nafn sitt af – Fjárskjólshraun. Ofan við fjárskjólið var vörðubrot.
Þegar fjárskjólið var skoðað betur mátti sjá mjóa fæðurásina innst í því miðju. Hlaðið hafði verið litlum steinum til að varna því að fé færi þar inn. Þar sem gólfið var bæði blaut og þakið mold var ekki ráðlegt að skríða þar inn til að athuga með framhaldið. Þessi hellir hefur orðið til líkt og Strandarhellir og Bjargarhellir í Strandarhæð. Glóandi hraunkvika í lokaðri rás hefur mætt fyrirstöðu um stund, en vegna þrýstings hefur hún hlaðist upp og þakið storknað áður en hún fann sér leið áfram og tæmdi rýmið.

Keflavík

Bergið við Keflavík.

Samkvæmt loftmynd átti að vera gígur nokkru suðvestar. Þrátt fyrir nokkra leit fannst opið ekki, en þess verður leitað aftur síðar.
Á leiðinni niður í Keflavík mátti sjá Skyggnisþúfu nokkru austar. Hún er þar sem hraunið ofan við Krýsuvíkurberg ber hæst mót Herdísarvík. Á þúfunni er varða, Skilaboðavarða. Í hana voru sett boð, sem menn vildu að bærust á milli bæjanna.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Af bjargbrúninni austan við Keflavík blasti við mikill gatklettur, sem skagar út frá því. Brimið lék sér við hann, auk þess sem sólargeislar þessa stysta dags ársins spegluðu sig í haffletinum.
Hraunkaflinn ofan við Keflavíkina er allúfinn. Engu líkara er að þarna hafi verið grunnir pollar ofan á eldra bergi, en þegar hraunið rann þar yfir ýfðist kvikan og safnaðist í hrauka. Fjárgata liggur í gegnum hraunið ofan við bergið. Skammt áður en komið er í Keflavík mátti sjá gróna götu liggja annars vegar upp hraunið og hins vegar áfram að ofanverðri víkinni, sem einnig var nefnd Kirkjufjara.
Keflum hafði verið safnað í hrauk uppi á bjargbrúninni.

Í Bálkahelli

Í Bálkahelli.

Í Kirkjufjöru í Keflavík má sjá hluta af gamla Krýsuvíkurbjargi og fagurt útsýni er úr víkinni austur eftir berginu. Víkin dregur nafn sitt af keflunum, sem nóg virðist vera af, auk plastbelgja. Gatkletturinn sést vel frá víkinni þar sem hann stendur út af berginu að austanverðu. Svonefndir Geldingasteinar eru efst á bjargbrúninni, gulir af fuglaglæðu og öðrum grófari féttum. Vestan þeirra lækkar nýrra hraunið og stallast. (Sjá meira undir Keflavík).
Þá var haldið til baka upp og yfir grófa hraunkaflann. Ofan hans tekur gróna hraunsvæðið við, auðvelt yfirferðar. Stefnan var tekin á Bálkahelli.
Engar sagnir eru til af Bálkahelli aðrar en þær að hann er nefndur nafni sínu í sögunni um Grákollu. Hellirinn fannst þegar einn FERLIRsfélaginn segja má datt niður um eitt snjóþakið opið. Niðri reyndist vera um 250 metra langur hellir, vel manngengur, tvískiptur og dulúðlegur. Dropasteinar á gólfum og hraunstrá í loftum. Hraunbálkar eru með veggjum innan við efsta og stærsta opið. Hellirinn er um 450 metra langur.
Neðsti hluti Bálkahellis er hvað heillegastur. Í henni lækkað rásin nokkuð en hækkar að nýju uns gólf og loft koma alveg saman. Þarna undir vegg eru tvö stór hraundríli. Farið var til baka og niður aðalgönginn. Þau beygja fyrst til hægri og síðan aftur til vinstri. Þessi göng eru um 200 metra löng og ekkert hrun nema svolítið fyrst.

Arngrímshellir

Í Arngríms- / Gvendarhelli.

Hellirinn er mjög breiður og þarna á gólfum eru fjölmargir dropasteinar og hraunstrá hanga í loftum. Fara þarf varlega um göngin. Hraunnálar eru í lofti. Þessi hluti hellisins hefur varðveist mjög vel og full ástæða til að fara þarna mjög varlega. Um er að ræða einn fallegasta helli á Reykjanesi. Neðst beygir hann enn til hægri og þrengist síðan. Í þrengslunum tekur við samfelld dropasteinabreiða.
Skoðað var að nýju upp rásina í neðsta jarðfallinu. Hún er víð og há uns hún lækkar og þrengist. Loks koma gólf og loft saman. Þessi hluti er um 40 metrar. Þá var haldið niður í miðrásina, á móti þeirri, sem skoðuð var áður. Hún lokast loks í þrengslum, en mikið er um fallega dropasteina og hraunnálar. Alls er þessi hluti hellisins um 100 metrar.

Hleðsla við op Gvendarhellis/Arngrímshellis

Op Gvendar- / Arngrímshellis.

Loks var gengið upp úr miðjarðfallinu og upp aðalhellinn. Hann er víður og hár. Skammt fyrir ofan opið skiptist hellirinn í tvennt og hægt að fara umhverfis tvær breiðar hraunsúlur, en meginrásin er til hægri. Ekki er hægt að villast í Bálkahelli.  Haldið var áfram upp rásina og yfir hrun, sem þar er ofarlega. Þá sést í efsta opið og bálkana beggja vegna, en af þeim mun hellirinn draga nafn sitt. Samtals er Bálkahellir um 450 metra langur, sem fyrr sagði, fyrst hár og víður, en nokkuð hrun, síðan hraunsúlur og syllur, dropsteinar og hraunstrá. Neðsti hluti hans þó sýnum fallegastur.

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Að lokum var Arngrímshellir (Gvendarhellir) skoðaður, en frásagnir eru til um hellinn er hann var notaður sem fjárhellir á 17., 18. og 19. öld. Gamlar sagnir eru til af því. Hleðslur eru fyrir opum og er tótt framan við stærsta opið, það nyrsta. Inni í hellinum eru allmiklar hleðslur. Hellirinn er bjartur og auðvelt að skoða sig um þar inni, jafnvel ljóslaus.
Sagan segir að Arngrímur frá Læk í Krýsuvík hafði fyrir aldamótin 1700 fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni. Við hellisopið byggði hann lítið fallegt hús úr rekaviði. Var það talið sérstaklega til frásagnar að rúðugler var í gluggum hússins. Fénu beitti Arngrímur í Klofningana sem og í fjöruna, sem þó er all stórbrotin neðan þeirra. Í hrauninu skammt ofan brúnar gamla bergsins má einnig sjá mannvistarleifar í helli. Arngrímur hélt 99 ær og eina að auki frá systur sinni. Sú kind var grákollótt og nefnd Grákolla. Um jólaleytið gerði mikið óveður á þessum slóðum og hraktist féð fram af berginu. Arngrímur gafst upp á að reyna að bjarga fénu. Grákolla barðist þó gegn óveðrinu og reyndi Arngrímur þrívegis að kasta henni fram af bjarginu eftir hinu fénu. Jafnoft tókst henni að krafla sig upp aftur í snjónum og ákvað Arngrímur þá að láta þar við sitja. Komust þau bæði við illan leik í hellinn. Síðan er sagt að allt fé Krýsuvíkurbænda hafi verið af nefndri Grákollu komið.
Eftir aldamótin var Arngrímur við sölvatöku í berginu undan Klofningum er jarðskjálfti reið yfir Suðurland. Féll bjarg á hann og lét hann lífið. Annar maður, sem með honum var, slapp og varð til frásagnar. Sá stökk undan fellunni í sjóinn og gat bjargað sér.

Gvendarhellir

Tóft við Gvendar- / Arngrímshelli.

Enn er hægt að greina tóftina af húsi Arngríms við hellisopið, sem og hleðslur inni í honum. Engar sagnir eru hins vegar til af Bálkahelli, sem er þar austar í hrauninu, önnur en sú, sem um getur í þessari frásögn af Grákollu. Er hann sagður þar skammt frá og að nafn sitt dragi hellirinn af bálkum innan við opið.
Í Blöndu VI 187 segir um þennan sama helli að Guðmundur nokkur hafi gætt á vetrum fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir að aldrei brugðust. Guðmundur var þarna um 1830.
Hellirinn hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði. Í honum má enn sjá hleðslur fyrir munna, tóft við meginopið, flórað gólfið að hluta, hlaðna stíu og fyrirhleðslur. Stígur liggur frá hellinum vestur yfir hraunið, áleiðis til Krýsuvíkur.
Ekki er vitað nákvæmlega um aldur þessara hrauna. Samkv. upplýsingum Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, er hraunið úr úr Stóru-Eldborg frá fyrri hluta nútíma, þ.e. töluvert eldra en 5000-6000 ára. Hitt úr Litlu-Eldborg er yngra. Það gæti verið kringum 5000-6000 ára.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

 

Langihryggur

Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu.

Langihryggur

Brak í Langahrygg (hefur nú verið fjarlægt af misvitrum).

Fylgt var gömlu leiðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn. Kíkt var í Drykkjarsteininn, sem Símon Dalaskáld orti um á sínum tíma og getið er um í annarri FERLIRslýsingu. Skárnar voru stútfullar af tæru regnvatni.
Haldið var áfram upp með Bratthálsi og Lyngbrekkur og stefnan tekin á Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill.
Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall.

Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stóra Hrút. Stóri Hrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stóra Hrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.
Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.

Dalssel

Dalssel.

Þá var haldið á fótinn, upp Fagradalsfjall og áleiðis upp á Langhól, hæsta hluta fjallsins. Slóð eftir tæki hersins, sem fóru á slysstað á sínum tíma, sjást enn í fjallinu. Hæsta bungan er í 385 m.h.y.s. Efst á henni er landmælingastöpull. Þaðan er fallegt útsýni yfir Þráinsskjöldinn, Keili, Strandarheiði og Vogaheiði.

Gengið var niður af fjallinu að norðanverðu. Þar er einn af fallegri gígum landsins. Hann er þverskorinn, þ.e. hægt er að horfa inn í hann, þar sem hann liggur utan í fjallshlíðinni.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Gígurinn er um 70 metra hár og tignarlegur eftir því. Vel er hægt að sjá þarna hvernig eldgígar hafa orðið til. Þessi hefur opnast til norðurs og hraunið þá runnið út úr honum þar, en skilið gígrásina eftir ófyllta.
Lækjarfarvegi var fylgt niður með norðanverðu fjallinu til vesturs þangað til komið var að Dalsseli. Tóftirnar eru á vestanverðum bakkanum, en lækurinn hefur smám saman verið að narta bakkann undan selinu. Neðar eru Nauthólaflatir. Greiður gangur er eftir þeim niður að Mosadali og áfram niður á Skógfellaveg. Að þessu sinni var hins vegar gengið til vesturs um Fagradal og með fjallinu, framhjá Kastinu og Görninni, um Borgarhraun og að upphafsstað.
Fagradalsfjall er heimur út af fyrir sig. Bæði fjölmargt að skoða og svo er útsýnið óvíða fegurra á Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Dalssel

Í Dalsseli.

Háleyjar

Reynt var enn á ný við “Íslandsklukkuna” í Háleyjahlein undir Háleyjabungu. Háleyjarnar höfðu fyrr sýnt sig bera nafn með rentu. Þegar einn félaganna hafði fetað sig út á eina þeirra í nokkurri stillu tók sig allt í einu upp reið holskefla og skellti sér yfir klettana. Náði hann að beygja sig niður og halda sér uns álagið slotaði, enda maðurinn vanur Skálastrandastórsjóum og með eðlislæg viðbrögð í blóðinu. Þá var hann með FERLIRshúfuna á kollinum, en án hennar hefði getað farið illa.

Háleyjar

Háleyjahlein.

Stórstraumsfjaran dugði þó ekki til að þessu sinni. Ægir vildi ekki sleppa klukkunni. Lét hann bæði himinháar öldur af suðvestan og lúmsklæðandi undiröldu verja hana töku. Braut á skerjum og eyjum, hvítfyssandi særokið fyllti loftið og hellt var úr lárréttum regnhretum þess á milli. Sólin gægðist þó í gegnum sortann að baki liði sínu og var ekki laust við að hún glotti út í annað í öllum látunum, ekki ólíkt og Óli Jó. fyrrum.
Minkur, sem hafði verið að synda í rótinu, neitaði að færa sig. Hann náði að klóra sig upp á stein skammt undan landi og var þaðan vitni að leitinni á milli þess sem Ægir færði hann í kaf. Utar í Háleyjabungu mátti sjá andlit á þurs í berginu. Það var augsýnilega staðið vörð um klukkuna.

Háleyjar

Varða ofan Háleyja.

Einn FERLIRsfélaganna, húfulaus, ætlaði að sýnast djarfari en aðrir, kraflaði sig niður að sjóröndinni, en sleipt þangið slengdi honum um koll. Varð hann aumur allan hringinn eftir, en óstórbrotinn þó.
Helgi Gamalíasson hafði séð þessa klukku af og til síðan hann var smápatti – síðast fyrir 9 árum er hann var þarna á minkaveiðum í fjörunni sem svo oft áður.

Um tíu metra kafli við ströndina kom til greina svo auðvelt ætti að vera að finna hana – þegar færi gefst. Enda á op klukkunnar að vera hátt í 60 cm í þvermál og hæðin eftir því. Klukkan lá, að sögn, á hliðinni síðast þegar hún sást og sneri opið þá mót vestri. Hún á að vera í kvos á milli stórra steina á alla vegu.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Enginn veit hvaða klukka þetta er eða hvaðan hún er kominn. Úr því verður ekki skorið fyrr en tekist hefur að koma henni á þurrt. Talið er líklegt að Skálholtssbiskup hafi gert út frá Háleyjabungu um tíma, a.m.k. látið sveina sína liggja þar við, með von um reka. Hvort þeir hafi reynt að “egna” fyrir skip með ljósum í myrkri og vondum veðrum skal ósagt látið.
FERLIR varð frá að hverfa að þessu sinni, en er þó þrátt fyrir það skrefi nær takmarkinu. “Farin ferð skilar sínu, en ófarin engu”, segir jú máltækið. Og svo tekur það alltaf svolítinn tíma að sefa náttúruöflin.
Frábært veður – a.m.k. voru litbrigðin eftirminnileg.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.

Staðarhverfi

Farið var með Helga Gamalíassyni frá Stað áleiðis út að Héleyjabungu, en þar undir bungunni á að vera gömul klukka. Á leiðinni lýsti Helgi Litluvör og Stóruvöllum, litlum grasbölum suðvestan við farskiptamöstrin ofan við byggðina í Grindavík. Þar eru hleðslur er gætu einhverjar hýst refagildrur og það gamlar.

Staðarhverfi

Óli Gam. sýnir FERLIRsfélögum fornan brunn.

Vestan við kirkjugarðinn á Stað og sunnan við Staðarbrunninn er hóll í túninu. Í hólnum á að vera gamall bær er nefndist Krukka (Krubba). Hann var yfirgefinn í miklum sandstormi er gekk yfir fyrir einhverjum öldum síðan. Gamli Staðarbærinn var hins vegar vestan og fast við kirkjugarðinn. Honum var ýtt um koll þegar farið var að slétta túnin neðan við nýja húsið, sem stóð utan í hólnum norðvestan við garðinn. Helgi hafði gengið með þann draum í maganum að Staðarbrunnurinn, sem hlaðinn var 1914, yrði einhvern tímann hlaðinn upp og hafður áhugasömu fólki til sýnis, enda hið fallegasta mannvirki.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – klukkuport.

Í hól vestan Móakots, nálægt sjónum, voru flestir skipshafnarmeðlima færeyska kúttersins Anne fra Tofte (frá Austurey) lagðir til og síðan jarðaðir í kirkjugarðinum í Reykjavík (Hólavallakirkjugarði). Um tugur ungra manna fórst með bátnum þarna fyrir utan, austan Staðarbergs, flestir úr sömu fjölskyldunum. Atburðurinn var mikil harmsaga.

Í kirkjugarðinum á Stað er klukknaport. Í því er klukka úr Alnaby, sem strandaði austan við Stað, í Jónsbás, árið 1901. Mannskaði varð, en skipstjórinn, Nilson, kom við sögu í Dýrafjarðarmálinu svonefnda þegar Hannes Hafstein, sýslumaður, ætlaði ásamt heimamönnum að handsama þar landhelgisbrjóta í firðinum eins og frægt varð.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – klukkuport.

Þegar komið var út í Háleyjabungu benti Helgi á staðinn þar sem hann hafði síðast séð nefnda klukku. Ekki var nægilega fallið frá til þess að hægt væri að nálgast hana að þessu sinni, en svo til nákvæm staðsetning er komin á hana. Helgi sagðist hafa verið að eltast við mink þegar hann hafi allt í einu rekist á klukkuna í fjörunni. Þá hafi verið mjög lágsjávað. Hún er líkast til um 60 cm á hæð og virðist vera úr járni. “Ef hún hefði verið út kopar hefði einhver verið búinn að hirða hana fyrir löngu”, sagði Helgi og glotti. Brotið er úr henni á einum stað. Klukka þessi gæti verið fjörgömul, en enginn veit hversu lengi hún hefur legið á þessum stað.

Háleyjar

Tóft undir Háleyjarbungu.

Utan í Háleyjabungu er m.a. tóft af hlöðnu húsi. Enginn veit hvaða hlutverk það hefur þjónað. Þó er jafnvel talið að Skálholtskirkja hafi átt reka við Háleyjar og Krossavík, sem er skammt vestar. Ekki er ólíklegt að menn biskups hafi unnið reka og/eða setið um reka því hann þótti mikil hlunnindi áður fyrr. Aðal siglingaleiðin til landsins var þarna fyirr utan og og aldrei var að vita hvað kynni að gerast í vondum veðrum. Gat þá skipt miklu máli að vera til staðar þegar eitthvað bar út af. Hval gat líka rekið fyrirvarlalaust á land og var þá betra að geta brugðist fljótt og vel við.
Farið verður fljótlega aftur á staðinn við hentugri aðstæður og þess freistað að ná klukkunni á land.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

ísólfs

Dágon er klettadrangur á Selatöngum í Gullbringusýslu. Einnig er hóll með því nafni í túni í Stóru-Fellsöxl í Skilmannahreppi í Borgarfirði. Orðið merkir upphaflega „korn“ eða „lítill fiskur“.
Dágon á SelatöngumJón Guðmundsson frá Skála taldi Dágon geta merkt djöfull upp á dönsku er hann var á ferð með FERLIR um Selatanga, en taldi það þó ekki fullreynt. Aðrir hafa viljað halda því fram að um geti verið að ræða hljóðbreytingu úr dragon eða dreki. Alls ekki svo ólíklegt heldur.
Dágon er m.a. nefndur í landamerkjaskrá fyrir Krýsuvík, dags. 14. maí 1890 [og] lesinni á manntalsþingi fyrir Grindavíkurhrepp að Járngerðarstöðum hinn 20. júní 1890, Dágon (Raufarkletti). Hér er kletturinn einnig nefndur Raufarklettur.
Karlmannsnafnið Dágon kemur fyrir í Gamla testamentinu, 1 Samúel 5. Um var að ræða guð lífs og akuryrkju hjá Filisteum.
Hér á landi hefur heitið annars vegar notað um þann sem menn dást að, er í eftirlæti hjá e-m, t.d. „Hann er dágon allra í bænum“, og hins vegar á Orðabókin sunnlensk dæmi um merkinguna „gamall hattur“. Dagón eða dágón getur í ísl. því merkt  ‘karlmannshetta’ og gæti nafnið á Selatöngum verið dregið af líkingu við það fat, sem ekki virðist svo fjarri lagi.
Brim

Eldvörp

Milli Árnastígs og Skipsstígs lá gata til forna.
Þessi leið hefur gleymst eftir að fólk hætti að fara Varða við Langhólfótgangandi milli byggðalaga, auk þess sem hluti af leiðinni var girtur af þegar loftskeytastöðin við Eldborg var reist á Bjarnafangi. Ætlunin var að reyna að rekja götuna frá Árnastíg við Eldvörp, í gegnum Blettahraun, framhjá Langhól og áleiðis niður að Járngerðarstöðum. Gangan endaði við Flagghúsið þar sem skyrgámur (skyrjarmur) tók á móti þátttakendum við hæfi.
Gengið var þegar sólin var hvað lægst á lofti hér á norðurhjaranum; einungis þrír dagar þar til hún átti að byrja upprisu á ný, líkt og hún hefur gert síðustu milljónir ára.
Blettahraun og Bræðrahraun eru systkinahraun austan Eldvarpa. Þau komu undan í sömu goshrinunni, en hið síðarnefnda er ólíkt hinu að því leyti að það er úfnara (apalhraun). Þess mátti Varða við götunasjá glögg dæmi á göngunni.
Gatan liggur frá Árnastíg til suðausturs. Sjá má vörður og vörðubrot á leiðinni. Neðar beygir gatan til suðurs og síðan til suðvesturs, áleiðis að Húsatóftum. Annar angi hennar liggur áfram til suðausturs, áleiðis að Járngerðarstöðum. Tvær vörður eru við austanverðan Langhól. Gatan fer undir girðingu er umlykur loftskeytastöðina og kemur síðan aftur handan hennar.
Í lok göngu fengu ferðalangar góðar móttökur í Flagghúsinu.
Frábært veður í aðdraganda jóla. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Brauðstígur

Brauðstígur.