Tag Archive for: Grindavík

Hraun

Þann 24. mars 2006 voru 75 ár síðan björgunarsveitin Þorbjörn bjargaði 38 manna áhöfn togarans Cap Fagnets undan Hraunsfjöru. Þá var fluglínutæki fyrst notuð til björgunar hér á landi.

Cap Fagnet

Cap Fagnet.

Fljótlega eftir stofnun Slysavarnafélags Íslands árið 1928 var hafist handa við stofnun slysavarnadeilda og björgunarsveita víða um land og voru fluglínutækin fyrstu eiginlegu björgunartæki margra þeirra. Fluglínutæki er búnaður til bjargar mönnum úr strönduðum skipum og kom fyrst fram á sjónarsviðið í Bretlandi í kringum 1850 í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.
Aðfaranótt 24. mars 1931 strandaði franski síðutogarinn Cap Fagnet á Hraunsfjörum austan Grindavíkur. Um borð var 38 manna áhöfn. Slæmt veður var þegar togarinn strandaði og ljóst að ekki væri unnt að yfirgefa skipið á björgunarbátum togarans.

Cap Fagnet

Björgun við Cap Fagnet.

Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík, sem stofnuð hafði verið tæpum fimm mánuðum áður, brást skjótt við og tókst að bjarga allri áhöfn togarans með hinum nýja björgunarbúnaði. Björgunin markaði ákveðin tímamót og færði mönnum heim sannindi þess hversu öflug björgunartæki fluglínutækin voru og flýtti mjög fyrir útbreiðslu þeirra. Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjunum og björgunarsveitum á Íslandi líf sitt að launa.
Síðast voru fluglínutæki notuð við björgun þegar línuskipið Núpur BA strandaði við Patreksfjörð í nóvember 2001. Björgunarsveitirnar Blakkur og Tálkni björguðu þá 14 manna áhöfn skipsins. Á síðustu árum hefur skipsströndum fækkað mikið, sem betur fer, og fluglínutækin því sjaldnar notuð við björgun. Þá hafa þyrlur og björgunarskip komið oftar að björgun úr strönduðum skipum og bátum, enda öflug björgunartæki.
Þrátt fyrir þetta eru fluglínutækin mikilvægur björgunarbúnaður og langt því frá að vera úrelt. Slæm veður geta gert þyrlur ónothæfar við björgun og þá geta fluglínutækin skipt sköpum.

Heimild:
www.grindavik.is

Áhöfnin

Áhöfnin á Cap Fagnet sem bjargað var.

Fjóla Eiðsdóttir

Í Fjarðarfréttum árið 1969 birtist fróðlegt viðtal við Fjólu Eiðsdóttur undir fyrirsögninni „Af sjónarhóli húsmóður – Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð„. Viðtalið er ekki einungis athyglisvert vegna dugnaðar og elju einstæðrar móður við uppeldi sex barna, sem henni tókst að halda að sér þrátt fyrir mótlæti þar sem lítils stuðnings samfélagsins var að vænta, heldur og vegna þess að í því koma fram gildin um veru barnanna bæði í Vinnuskólanum í Krýsuvík og á Barnaheimilinu Glaumbæ í Hraunum á þeim tíma. Um báða staðina er fjallað ítarlega hér á vefsíðunni.

Fjarðarfréttir

Fjarðarfréttir 1969.

„Fjarðarfréttir rabba að þessu sinni við Fjólu Eiðsdóttur, Hún fluttist til Hafnarfjarðar fyrir átta árum. Hún var þá þegar fyrirvinna sex barna á aldrinum eins til sjö ára. Í þessi átta ár hefur hún barizt ein áfram af slíkum dugnaði og myndarskap, að aðdáun hefur vakið hjá öllum, sem til þekkja.
Hvenær fluttist þú til Hafnarfjarðar?
— Það eru nákvæmlega átta ár síðan, á Jónsmessunni 24. júní, ég man það svo vel. Þá fluttist ég hingað með börnin, sem voru þá á aldrinum 1 til 7 ára.
Mestu erfiðleikarnir voru, að maður hafði ekkert húspláss. Ekkert. Ég kalla það ekki húspláss, eitt herbergi og eldhús fyrir sjö manna fjölskyldu. Það var svo erfitt, að það var ekki hægt að búa við það, þó að við værum tilneydd. Þegar ég svo fékk það húsnæði, sem ég er nú í, fyrir tveimur árum, fannst mér öllum erfiðleikum vera lokið.
Áttir þú ekki við veikindi að stríða fyrstu árin þín hér?
Fjóla Eiðsdóttir— Jú, það voru afleiðingar taugaspennu, ég ætlaði að hafa réttinn mín megin, og ég tel veikindin ekki hafa verið mjög alvarleg, enda náði ég mér strax og ég hafði náð rétti mínum. Það gera sér ekki allir grein fyrir því, að það eru til lög, og ég þurfti að berjast harðri baráttu fyrir rétti mínum og barnanna. Ég var alveg gallhörð á því, að það væru til lög og ég skyldi fara eins langt eins og ég kæmist, og það hef ég gert og skammast mín ekkert fyrir það.
Það hefur oft á tíðum verið erfitt hjá þér og þröngt í búi?
— Já ég gat sjaldan hugsað lengra en að eiga til dagsins, hitt þýddi ekkert. Ég var alveg ánægð, ef ég átti einhvern bita til morgundagsins. Ég vissi alltaf að okkur myndi leggjast eitthvað til. Það voru miklu meiri erfiðleikar að eiga ofan í sig að borða, þegar ég var í Grindavík en eftir að ég flutti í Hafnarfjörð. Grindavík var þá annað verðlagssvæði hjá tryggingunum en Hafnarfjörður og það munaði töluvert miklu, hvað ég fékk meira til að lifa af, þegar ég kom hingað. Fjölskyldubætur fékk ég ekki fyrstu árin. Það eru aðeins rúm tvö ár síðan konur, sem eru einar með börnin sín fóru að fá fjölskyldubætur greiddar.
Fjóla Eiðsdóttir
Ég þurfti að liggja á sjúkrahúsi um skeið nokkru eftir að ég kom til Hafnarfjarðar. Það var að vísu erfitt að skiljast við börnin, en ég vissi, að ég varð að gera það til að jafna mig eftir taugaspennuna. Ég vissi líka, að það væru til lög og gott fólk, svo að það færi ekki illa um börnin þann tíma.
Eftir að þú komst í betra húsnæði og náðir fullri heilsu aftur, hefur þú þá unnið úti?
— Já ég vinn í Reykveri frá kl. 7.20 f.h. til 7 á kvöldin. Ég hef unnið þar síðan fyrirtækið var stofnað.
Er þá ekki geysileg vinna eftir, þegar komið er heim að lokinni vinnu?

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

— Jú, það er nú oft mikil vinna eftir. Ég verð að byrja á því að elda matinn og sameina fjölskylduna yfir einni heitri máltíð á dag. Ég verð alltaf að fara á fætur kl. 6.00 og taka til fötin, sem þau eiga að fara í, og segja þeim alveg hvað þau eiga að gera yfir daginn. Það bregst varla, að þau fari eftir því. Þegar þau voru í Glaumbæ og vinnuskólanum í Krýsuvík lærðu þau að brjóta saman fötin sín og ganga frá þeim. Mér finnst það hafa hjálpað okkur geysimikið allt, sem þau lærðu þar, auk þess, sem það var mikill hjálp að geta komið þeim þangað á sumrin. í hádeginu hef ég oft getað lagt mig, því að þau taka sjálf til hádegismatinn og elzti sonurinn, sem nú er kokkur á bát hefur stjórnað eldamennskunni.
Á kvöldin er föst regla, að hver gengur frá sínu. Þau brjóta fötin sín vel saman og laga til í herberginu. Það verður að vera föst regla og góð samvinna á heimilinu. Það eru margir, sem hneykslast á því, að ég skuli vinna úti og halda, að þetta sé ekki hægt. Já, það hneykslast margir. Fólk heldur, að maður vanræki börnin mikið með þessu, en ég vil meina, að þetta sé bæði skóli fyrir mig og krakkana líka. Þau læra mikið af þessu. Fyrst ætluðu þau að fara að klaga öll í einu, eitthvað sem hafði skeð yfir daginn, en nú kemur það aldrei fyrir, að það sé neitt. Ég þarf aldrei að skipta mér af heimanáminu hjá þeim. Þau eru samvizkusöm, sem betur fer og ég held, að ég fengi þau ekki í skólann, ef þau væru ekki búin að læra.
Hvað ræða börnin um framtíðina?

Glaumbær

Glaumbær í Hraunum.

— Þau náttúrulega ræða um framtíðina. Þessi ætlar að verða þetta og hinn hitt, en maður veit aldrei hvað verður. Ég ætlaði t. d. að verða kennari, en það fór allt á annan veg. Föðurbróðir minn kenndi mér í barnaskóla, og ég og dóttir hans vorum alltaf að keppa. Hún hafði það af að verða kennari, en ekki ég. Ég sagði oft, að það gæti verið, að ég kæmist í skóla, þegar ég væri orðin gömul og hef alltaf huggað mig við það, en krakkarnir verða nú að sitja fyrir, svo að ég kemst sjálfsagt aldrei í skóla,
Nú hefur þú barizt áfram ein með þín sex börn í átta ár. Hvaða hugsun er það, sem grípur þig, þegar þú lítur til baka?
— Ég hugsa bara ekkert um það. Ekki neitt. Það er nokkuð, sem ég forðast alveg að fara að hugsa um. Þá getur maður farið að hugsa margt. Ég hugsa fyrir morgundeginum. Ég set mér mark að keppa að, og þegar ég er búin að ná því, set ég mér annað mark, og svo koll af kolli. Ég hef lögin með mér, og ég hef notfært mér það, en um það, sem liðið er, hugsa ég ekki.“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 3. tbl. 02.06.1969, Af sjónarhóli húsmóður – „Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð“, bls. 9.

Fjóla Eiðsdóttir

Fjóla Eiðsdóttir og börn 1960.

Skógfellavegur

Gengið var um Arnarsetur til austurs, yfir hraunið að Stóra-Skógfelli. Ætlunin var að skoða hvort enn mætti sjá leifar flugvélar, sem þar eru sagðar vera. Flugmaður, sem flogið hefur yfir svæðið nokkrum sinnum, kvaðst stundum sjá sólarljósið endurspeglast þar af glerbrotum á stóru svæði, auk þess sem hann hefði orðið var við brak í suðaustanverðu fellinu. Ekki leggja þó fyrir heimildir um flugslys á þessum stað.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Eftir að hafa skoðað megingíginn í Arnarsetri var haldið eftir stíg í gegnum hraunið. Mikil efnistaka hefur átt sér stað í Arnarsetri, en allt um kring má enn sjá merkar náttúruminjar í Arnarseturshrauni. Stór og mikil hrauntröð er norðan við gíginn og önnur vestan við hann. Í og við þá tröð eru nokkrir hellar. Fallegur hellir er einnig norðan við nyrðri hrauntröðina. Landssvæðið er að hluta til í óskiptu landi Þórkötlustaðabæjanna sex; Þórkötlustaða (Austurbæjar, Miðbæjar og Vesturbæjar), Klappar, Einlands og Buðlungu. Austurmörkin liggja frá mörkum Hrauns í Markarbás, um Húsafjall, Skógfellin og í Arnar

klett sunnan Snorrastaðatjarna, þaðan í Seltjörn og úr henni í beina línu í Markastein í fjöruborðinu u.þ.b. 60 metrum vestan við Hópsnesvita. Talsvert hefur verið ekið af jarðvegi í gryfjurnar, auk þess enn er verið að taka þar efni – í algeru leyfisleysi að því er virðist. Svo er að sjá að eftirlitsaðilar í Grindavík hafi ekki fylgt nægilega vel eftir takmörkunum á efnistökum í gamalli námu sem þessari eða umgengni um svæðið, sem er jú í umdæmi bæjarins.

Skógfell

Stóra-Skógfell – Sandhóll nær.

Hitt er svo annað mál, að sorglegt er til þess að vita, hvernig farið hefur verið með annars verðmætt umhverfið þegar til lengri tíma er litið.
Arnarseturshraun (apal) er á leiðinni til Grindavíkur. Það er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. ISOR telur Arnarseturshraun vera frá Reykjaneseldunum á 13. öld, sennilega frá árinu 1226. Það er því með yngstu hraunum á Reykjanesskaganum.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Frá því að land byggðist er talið að um 12 hraun hafi runnið á Reykjanesskaga eða að meðaltali eitt hraun á öld. Hraunin runnu þó einkum á tveimur gostímabilum: um 1000 og um 1300. Síðara tímabilið gengur undir fyrrnefnda nafninu Reykjaneseldar.
Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.

Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar, líkt og Arnarseturshraunsgígurinn. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur. Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.

Skóf

Skóf.

Í flæðigosum verða hins vegar engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella.

Arnarsetur

Arnarseturshraun.

Arnarseturshraun er í rauninni sambland af hvorutveggja þó einkenni helluhraunsins séu þar meira áberandi.
Nú, 1879, þekja hraungambri og aðrar mosategundir Arnarseturshraunið að mestu. Grámosi eða gamburmosi er þessi mosi nefndur í daglegu tali, en hefur hlotið tegundarheitið hraungambri (Racomitrium lanuginosum). Þetta er einn algengasti og mest áberandi mosinn á öllum suður- og vesturhluta Íslands svo og í strandhéruðum Austurlands. Hann er einn fyrsti landneminn í nýjum hraunum.

Mosi

Mosi.

Við úthafsloftslag á snjóléttum svæðum verður hann einráður á allmörgum áratugum, og myndar samfelldar, mjúkar mosaþembur á 100 ára gömlum hraunum og eldri. Á snjóþyngri svæðum með landrænna loftslagi nær hann ekki að kveða niður keppinauta sína, sem þá verða stundum ráðandi í gróðurfari, einkum hraunbreyskja.

Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi af svipaðri gerð og Sandfell, Stapafell og Súlur. Þegar komið var langleiðina að fellinu var komið í grónara hraun; Skógfellahraun. Skógfellahraun er miklu mun eldra og liggur undir Arnarseturshrauni. Skógfellin, bæði Stóra- og Litla-, eru gamlir eldgígar, sem veður, vindar, vatn og ís hafa náð að „aflaga“. Haldið var upp með fellinu að norðanverðu. Í raun er um að ræða tvo toppa á fellinu, en sá austari er hærri. Milli þeirra er háls. Gígurinn er gróinn. Fjárgata liggur um hálsinn. Í hliðunum erum ýmsar fléttur, kræður og glæður. Blóðberg- og lambagrasskollarnir settu svip á hlíðarnar. Á toppi toppanna eru litlar vörður. Útsýnið af austari toppnum til suðurs yfir Sundhnúkaröðina er einstök, sem og útsýni yfir gíg skammt austar og Sandhólinn, sem í raun er lítill gígur úr eldra hrauni.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Haldið var skáhallt niður með hlíðunum. Á hálsi utan í vestari toppnum sást járnbrak og gulmálað dekk með axlaböndum björgunarsveitargallans. Sólin sendi geisla sína niður á fellið og glytti fallega á blauta smásteinanan. Þarna gæti verið komin skýring á „tálsýn“ flugmannsins.
Ágætt útsýni er af Stóra-Skógfelli. Vestan við það er Gíghæðin, Þaðan sem lagt var af stað. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið þar sem enn má sjá leifar flugvélar þeirrar er Andrews yfirhershöfðingi fórst með.
Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri Sundhnúksgígaröðinni, sem er um 8 km löng, og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gígaröðin er á Náttúrminjaskrá og á að varðveitast sem slík. Utar er Sundhnúkurinn sjálfur í allri sinni reisn.
Norðan Stóra-Skógfells sést vel yfir að Litla-Skógfelli. Skógfellagatan liðast á milli þeirra, sorfin í helluhraunsklöppina eftir hófa og fætur liðinna alda.

Arnarssetur

Arnarssetur – skjól.

Þegar gengið var á ská niður hlíðina á norðanverðu fellinu hljóp lítil aurskriða af stað skammt utar. Áhrifaríkt var að sjá og heyra hvernig skriðan fór af stað, fyrst hægt, en jók síðan hraðann uns hún óx að afli eftir því sem neðar dró – uns hún dó – áður en komið var alveg niður að rótum fellsins.
Skoðaðir voru nokkrir hellisskútar utan í Arnarsetri. Einn þeirra, utan í megingígnum, er yfir 20 metra langur með fallegum hraunmyndunum. Hann hafði ekki verið skoðaður áður. Í öðrum virtist þursmynd vera við opið. Meginhrauntröðin er mikilfengleg. Utan í henni á einum stað eru einstaklega litskrúðugar hraunmyndanir. Fyrir áhugasamt fólk um jarðfræði væri sennilega hægt að dvelja þarna heilan dag án vitundar um tíma og rúm. Litirnir í berginu eru einstakir, auk þess sem finna má þarna ótal hraunmyndanir og jarðmyndanir án mikillar leitar.

Arnarsetur

Arnarsetur – skjól.

Í nyrðri hrauntröðinni eru ótal skútar og lesa á hinar ýmsustu fígurur út úr hraunmyndunum í börmum gjárinnar. Efst á sjálfu Arnarsetrinu er líkt og fuglshöfuð og skammt norðar er þar bergþurs er horfir frjáum augum til vesturs, eftir vestari hrauntröðinni. Eflaust gætu hraunfræðingar, sem gefa sér tíma til að lesa hraunið, sagt talsvert um slíkar hraunmyndanirnar með hliðsjón af myndun þeirra og tilurð. Slíkt gæti orðið hinn áhugaverðasti fyrirlestur.
Frábært veður. Þægileg rigningin lék aðalhlutverkið í fyrstu, en á það ber að líta að um skírdag var að ræða og þá nota Grindvíkingar tækifærið og skíra allt óskírt á einu bretti. Sólin leikur aðalhlutverkið á svæðinu aðra daga, enda náði hún vel í gegn þess á milli.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is/
-http://www.isor.is/

Arnarsetur

Arnarsetur og nágrenni – örnefni.

Hraun

Eftirfarandi frásögn er úr Lesbók MBL 1950:
„Þessi mynd úr ferðabók Charles S. Forbes, er ferðist hjer um land 1859. Henni fylgir þessi lýsing á leiðinni frá Hafnarfirði suður á Ketilstíg: „Áfram, áfram var haldið, reynir vindur og regn mjög á hlífðarföt vor og fótabúnað. En við

Kapelluhraun

Ferðast um Kapelluhraun – teikning frá 19. öld.

höfum vindinn á eftir og það flýtir fyrir okkur. Óhugsandi hefði verið að ferðast á móti honum. – Alls stað er er sama tilbreytingarleysið. Stundum liggur vegurinn yfir helluhraun og stundum yfir holuhraun. Það er hættulegt, einkum vegna þess hvað við förum greitt, því að í gegn um sprungur og gjótur getum við sjeð niður í hella, sem myndast hafa af gufum og er þakið á þeim stundum eitt eða tvö fet á þykt, en stundum ekki nema fáir þumlungar. Um veginn sjálfan er það að segja að hann var eins og gjallhrannir úr járnbræðsluofni, en þar sem hann var eitthvað skárri, var hann krókóttur og sleipur. En litlu, gáfuðu hestarnir okkar gerðu hvorki að hnjóta nje detta. Það var dásamlegt hvernig þeir reyndust. Jeg hefði ekki trúað því að hægt væri að ferðast ríðandi, ef jeg hefði ekki horft á leiðtoga okkar, stiftamtmanninn, sem altaf var á undan. Það hefði ekki verið þægilegt að detta hjer af baki, því að alls staðar er yfirborðið glerhart eins og járn. Á myndinni má betur sjá hvernig höfundi hefur funndist vegurinn. Það er engu líkara en að þeir fjelagar þræði háeggja Sveifluháls. Í baksýn sjer út á flóann og er sólin að setjast við Snæfellsjökul. Er nokkur mótsögn í því og lýsingu hans á veðrinu.“
Líklegra er að myndin sýni Helgafell í baksýn ef leið þeirra félaga hefur legið til Krýsuvíkur.

Heimild:
Mbl. 5. nóv. 1950.

Helgafell

 

Flagghúsið
Menningardagar voru haldnir í Grindavík fyrsta sinni með fjölbreyttri dagskrá.
Í Flagghúsinu voru m.a. haldin fræðsluerindi um eldfjöll og hraunhella. Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur, flutti erindi um Ástaeldfjallagarða og framtíðarsýn. Ómar Smári Ármannsson (FERLIR) lagði upp erindi um grindvíska hella og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur fjallaði um jarðfræði Reykjaness.
Erindi Ástu verður hér gert að aðalumfjöllunarefni. Hinum erindunum verður gerð ítarlegri skil síðar.
Ásta sagði m.a. að á miðhluta Reykjanesskagans þyrfti áhersla að verð á að varðveita einstaklega fjölbreyttar jarðmyndanir og minjar um eldvirkni á úthafshryggnum sem hafa algera sérstöðu á Jörðinni. Þessi hluti Skagans verði gerður sem aðgengilegastur öllum almenningi og ferðamönnum með vegum, stígum, þjónustumannvirkjum og sögu- og upplifunarstöðum og þar verði höfuðgestastofa svæðisins.
ÓmarÁ svæðinu eru Reykjanesfólkvangur og Bláfjallafólkvangur auk a.m.k. 15 svæða sem færð hafa verið á náttúruminjaskrá sem staðfestir að þar er að finna mikil verðmæti. Svæðið frá Stóra-Kóngsfelli suður og vestur fyrir Brennisteinsfjöll eru ósnortin víðerni og enn einstakt tækifæri að halda þeim sem slíkum. Hvergi annars staðar á Jörðunni sést úthafshryggur ,,ganga á land” svo sýnilega og á jafn aðgengilegum stað sem á Reykjanesi. Reykjanesskagi er svo einstakur á heimsvísu að það skortir í reynd alþjóðleg viðmið til að staðfesta alþjóðlegt verndargildi hans.
Á Reykjanesskaga eru fimm háhitasvæði og umtalsverð nýting er þegar til staðar á tveimur þeirra sem eru austast og vestast á skaganum. Á þessum svæðum er skynsamlegt að þróa áfram nýtingu jarðvarmans með orkuverum, heilsumannvirkjum og upplýsingastöðum fyrir ferðamenn jafnframt sem kannaðir verða möguleikar djúpborana sem geta margfaldað nýtingu þeirra.
Kristján
Á Reykjanesskaga eru einstakir möguleikar til að byggja upp eftirsótta ferðamannastaði og nálægð hans við flugvöllinn gefur einstaka möguleika til að gera svæðið eftirsótt af ferðamönnum. Miklar menningarminjar eru á Reykjanesi öllu og má nefna Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík, Húshólma og Selatanga. Staðir eins og Bláa lónið sýna þá miklu möguleika sem náttúra Reykjanesskagans býður uppá. Með því að nýta hin mörgu tækifæri á Reykjanesskaga til útivistar, afþreyingar og ferðamennsku á að vera unnt að skapa mikinn arð fyrir samfélagið sem yrði síst minni en möguleikar orkusölu til stóriðju.
HraunÍ allri mannvirkjagerð innan ,,Eldfjallagarðsins og fólkvagnsins” ber að hafa það að leiðarljósi að halda sjónrænum áhrifum í lágmarki. Ekki hefur verið gert heildstætt skipulag fyrir Reykjanesskaga og hafa ólíkir nýtingarmöguleikar því ekki verið skoðaðir og metnir. Nú er mikil eftirspurn eftir orkuvinnslu á svæðinu og því er brýnt að líta heildstætt á Reykjanesskaga með nýtingu allra auðlinda hans í huga.
Þá lagði Ásta fram nokkrar spurningar og svör um efnið, s.s. Hverjir eru möguleikar eldfjallagarðs á Reykjanesskaga? Hvað höfum við upp á að bjóða?  Er Eldfjallagarður einstakt tækifæri til arðbærrar atvinnusköpunar?
Til að nýta náttúruna þarf hágæða vísindaþjónustu, alþjóðlegt tengslanet, aðgengi að þekkingu heimamanna, rannsóknaaðstöðu þar sem kennslustofan er náttúran.
LitríkiReykjanesskagi sem eldfjallagarður hefur marga kosti; frábær staður fyrir eldfjallagarð, mitt á milli Ameríku og Evrópu, aðeins 30 mín frá flugvelli og borg, plötuskil – land verður til á Reykjanes, hægt að “ganga” milli heimsálfa, gríðarleg fjölbreytni, eldgos undir jökli: Móbergskeilur, -hryggir og –stapar: Aveg einstakt! Litlar og stórar dyngjur. Minni gígar og fleiri tegundir, setströnd – rofströnd: Sandvík – Reykjanestá/ Krísuvíkurbjarg-Selatangar. Flottari og fleiri hrauntraðir og hraunhellar, miklu fjölbreyttari jarðhitasvæði, bullandi leirhverir, litrík gasaugu, útfellingar sem eiga fáa sína líka, lifandi listaverk “audio-visual upplifun: Hver hver með sinn takt! Auðlindagarður;  samspil orku og umhverfis.
Hellir
Reykjanesskagi væri í raun „ótal lyklar að leyndardómum“. Fyrir jarðvísindamenn, stjarnvísindamenn og aðra! Nýtt land myndast: Gliðnun úthafshryggsins, misgengi, gjár og sprungur.  Fjölbreytt eldvirkni: Eldborgir, gjallgígar, stapar, keilur, dyngjur… Undir jökli, í sjó og á þurru. Móberg og bólstraberg. Stuðlar og straumflögun. Frumstætt berg: Lykill að uppruna vatnsins? Jarðhiti með ótrúlegum fjölbreytileika; gufa, vatn og leir. Brennisteinn og aðrar útfellingar: Lykill að uppruna lífsins? Jarðskjálftar, einstakt samspil innri og ytri afla.
Reykjanes væri gósenstaður fyrir ljósmyndara; litríki hverasvæðanna. Krýsuvík er oftar en ekki i í dagskrá slíkra ferða. Reykjanes, brim og klettamyndir
Ómar Smári lýsti og sýndi ljósmyndir af nokkrum af smærri og stærri hellum Grindvíkinga, sem eru nú um 300 talsins. Fyrir síðustu aldamót voru þeir einungis innan við 20. Merkilegastur fyrrum þótti Grindarvíkurhellir, en hann er nú kominn undir veg. Væri það dæmi um vanþekkingu og áhugaleysi þeirra, sem gæta eiga að vermætum þeim er felast í hraunhellunum. En sem betur fer væru til fleiri hellar. Meðal þeirra væru mestu dýrgripir sinnar tegundar í heiminum. Vonandi verða þeir ekki líka eyðilagðir af sömu ástæðum.
Hraunkarl
Kristján rakti myndun Reykjanesskagans frá vestri til austurs, byrjaði á Reykjanestá og endaði í Henglinum. Hann sagði frá misvísandi legu jarðskjálfta- og sprungubeltanna eftir aldri. Þau yngri liggja NA / SV en þau eldri N / S eins og glögglega má m.a. sjá á svæðinu sunnan Kleifarvatns. Þar eru sprengigígar. Glóandi kvikan undir niðri hefur nýtt sér jarðskjálftabeltið og þrengt sér upp með miklum látum. Kristján sagði frá gígskál undir Stóra-Lambafelli, sem erfitt væri að koma auga á, en væri augljós þegar betur væri að gáð. Hann taldi Hrútagjárdyngjuna eitt merkilegasta jarðfræðifyrirbæri hér á landi. Sambærilegt svæði hefði hann einungis séð á einum öðrum stað á landinu, víðsfjarri Grindavík. Um væri að ræða tvær goslotur; þá síðari um 5-7 þúsund ára. Gígurinn væri syðst og vestast í „dyngjunni“. Frá henni liggur hrauntröð til norðurs. Nyrst í „dyngunni“ væri hringlaga hrauntjörn. Hún væri sennilega massívt berg, að öllum líkindum eldri gígtappinn. Í seinna gosinu hefði afmarkað svæði þar er myndaði „dyngjuna“ lyft sér um 10-15 metra, líklega vegna innskots frá kvikuþrónni undir. Þess mætti nú sjá glögg merki allt umleikis „dyngjuna“.
Kristján kynnti gosbeltin og sýndi bæði dæmi um einkenni þeirra og myndanir. Þá rakti Kristján mismunandi jarðmyndanir, en þar er móbergsmyndunin hvað séríslenskust. Auk þess mætti sjá á Skaganum flestar ef ekki allar tegundir eldgosa. Aðspurður kvaðst Kristján um 50% líkur á eldgosi á Reykjanesskaga „innan tíðar“.

Reykjanesskagi

Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.

Sveifluháls

Gengið var upp grunnt gil innan við Hofmannaflöt undir vestanverðum Sveifluhálsi með stefnu inn (suður) eftir miðjum hálsinum, allt að Arnarvatni. Að vestanverðu blasti Móhálsadalur við, millum Sveifluhálsar og Núpshlíðarhálsar.
MiðdegishnúkurUppgangan var auðveld. Þegar upp var komið blasti Miðdegishnúkur við. Annars var þessi ferð á páskum (2008), mestum misbrestum mannsskepnunnar, kærkomin ástæða til að velta svolítið betur fyrir sér hvers vegna þetta nærtæka og ægifagra svæði í nánd við mesta þéttbýlissvæði landsins, skuli ekki njóta meiri athygli en raun ber vitni – allt árið um kring.
Á Reykjanesskaganum eru nokkrir aðilar, sem gefa sig sérstaklega út fyrir að vera upplýsandi um það sem þar ku vera einkar áhugavert að skoða. Þú, lesandi góður, er nú hvattur til að skoða t.a.m. vefsvæði helstu ferðamálasamtakanna á svæðinu og slá þar inn leitarorðið „Sveifluháls“. Segjast verður eins og er að útkoman verður bæði mjög takmörkuð og alls ekki fróðleg – reyndar fælandi. Til uppörvunar má  fara inn á vefsíðuna www.ferlir.is og slá þar inn leitarorðið. Útkoman munbæði reynast áhugaverð og fróðleg. Sveifluhálsinn er í umdæmi Hafnarfjarðar, en í aðalskipulagi Hafnarfjarðar er t.a.m. varla minnst á þetta merkilega landssvæði bæjarins.
Á SveifluhálsiVelta má fyrir sér hvers vegna áhugaleysið virðist umlykja ferðamálaaðila á svæðinu fyrir jafn stórbrotnu náttúrufyrirbæri og hér ber vitni. Tómlætið virðist hins vegar ekki einungis bundið við þetta svæði – ef vel er að gáð. Svo virðist sem áhuga, drifkraft og eftirfylgni (framkvæmd) við að opinbera hina ýmsu möguleika svæðisins fyrir áhugasömu fólki skorti tilfinnanlega.
Jæja, aftur að Sveifluhálsinum. Hann er móbergstapi á gosrein er varð til undir jökli síðasta jökulskeiðs. Ef allur hálsinn er tiltekin (Undirhlíðarnar einnig, enda á sömu gosrein), er hann um 25 km langur þar sem nær frá Borgarhólum í suðri að Kaldárhnúkum í norðri. Að vísu heita hlutar hans ýmsum nöfnum, en jarðfræðilega er um eitt og sama fyrirbæri að ræða, líkt og nálægasti bróðir hans í vestri; Núpshlíðarháls (Vesturháls). Sveifluálsinn var fyrrum nefndur Austurháls til aðgreiningar frá Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).
Hásarnir eru þó ekki eineggja, því bæði urðu þeir til á mismunandi tíma og með mismunandi hætti. Vesturhálsinn er eldri. Það má m.a. sjá á afstöðu hans til landreksins, líkt og gildir um aðrar sprungureinar á Reykjanesskaganum, jafnvel eftir að ísa leysti. Vel mætti áætla aldursmuninn með því að mæla fjarlægðina á milli þeirra, en landrekið hefur verið áætlað að jafnaði um 2 cm á ári. Hafa ber í huga að ísaldarskeiðin eru miklu mun lengri en hlýskeiðin. Nútímahlýskeiðið hófst hér á landi fyrir u.þ.b. 11 þúsund árum – og ætti því að fara að renna sitt skeið á enda m.v. fyrri reynslu af umskiptum jarðar.
Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978). Staparnir miðsvæðis á Sveifluhálsi eru annars konar en bræður þeirra beggja vegna. Annað hvort hafa þeir myndast, hlið við hlið, í tveimur gosum á sömu sprungurein með stuttu millibili, kannski einu eða tveimur árþúsundum og því skilið eftir sig „ósraskaðar“ skálar á millum. Vel má sjá grágrýti á milli þeirra, en uppistaðan í hnúkunum sjálfum er móberg (samanpressuð gosaska).
Fyrirhuguð línuleið yfir hálsinnÞegar gengið var um einn dalinn milli hnúkanna, áleiðis að Arnarvatni, skullu á þátttakendum allhvassir misvindar, nákvæmlega á þeim stað er FERLIRsfélagar voru staddir er jarðskjálftarnir tveir riðu þar yfir 17. júní árið 2000, með u.þ.b. 5 mínútna millibili. Halda mætti að þarna byggju vættir er vildu láta vita af sér svo eftir væri tekið. Einn þátttakenda lagði til að dalurinn yrði nefndur „Huldudalur“.
Annars er Sveifluhálsinn og nærliggjandi svæði einstaklega verðmæt útivistarsvæði. Sú staðreynd virðist þó ekki hafa hlotið hljómgrunn hjá þeim er helst ættu að gæta þeirra. Undantekning er þó þar á.
Sunnudaginn 30. september 2007 skrifaði Reynir Ingibjartsson grein í MBL. Þar reyndi hann að upplýsa lesendur um hvað til þeirra næsta friðar heyrði varðandi þetta svæði: „Fyrirhugað er að bora á Reykjanesskaga í leit að jarðvarma. Verði af framkvæmdum og álver rísi í Helguvík munu háspennulínur verða strengdar í loftlínu til Suðurnesja frá Hafnarfirði með tilheyrandi raski.
Arnarvatn - OAHvað skyldu margir vita hvar Móhálsadalur er? Dalurinn sá liggur um fólkvang flestra sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins sem heitir Reykjanesfólkvangur. Nú eru á borði stjórnar fólkvangsins, tillögur til umsagnar um lagningu háspennulína þvers og kruss um fólkvanginn m.a. um Móhálsadal. Þar um liggur sk. Djúpavatnsleið þvert yfir Reykjanesskagann og gefur þá tilfinningu að allt þéttbýli sé víðs fjarri og ósnortin náttúra tekin við. Og örnefnin lýsa fjölbreytileikanum eins og Fjallið eina, Norðlingaháls, Hrútagjá, Mávahlíðar, Fíflavallafjall, Hofmannaflöt, Lækjarvellir, Djúpavatn, Ketilsstígur, Hattur og Hetta, Krókamýri og Vigdísarvellir og loks er komið að Latsfjalli og Lat við Suðurstrandarveg. Þessi kennileiti hafa vísað veginn í 1.100 ár og gera enn. Í og við Reykjanesfólkvang hefur Hitaveita Suðurnesja sótt um leyfi fyrir tilraunaborunum til að virkja jarðvarmann, ef hann reynist nægur. Þegar hefur verið borað við Trölladyngju við Sog, skammt austur af Keili með tilheyrandi jarðraski á einkar viðkvæmu svæði. Boranir eru að hefjast við Sandfell sunnan Selsvalla og vestan Núpshlíðarháls á svæði fjarri öllum vegum og slóðum og síðan kemur röðin að Seltúni í Krýsuvík, einum kunnasta ferðamannastað á Reykjanesskaganum.

Veðrunarformmótun á Sveifluhálsi

Kannski verður Brennisteinsfjöllum hlíft (nafngjafi Jónas Hallgrímsson), en þar hafa Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun óskað eftir að bora. Í þetta svæði á að sækja orku til að hægt verði að byggja álver í Helguvík og nú stendur stjórn Reykjanesfólkvangs uppi með kvölina og völina og háspennulínurnar.
Tillaga er gerð um jarðstreng frá Seltúni og yfir Sveifluháls hjá svokölluðum Ketilsstíg og áfram yfir Móhálsadal og Núpshlíðarháls að Trölladyngju. Annar kostur er að leggja streng frá Seltúni með Suðurstrandarvegi allt til Svartsengis.
Einnig er boðið upp á jarðstreng þvert yfir Sveifluháls, Móhálsadal og Núpshlíðarháls að Sandfelli. Leggja þarf vegaslóða til að koma strengjunum fyrir og augljóslega mun fylgja þeim mikil rask, einkum í hraununum. Ekki er talið gerlegt að leggja háspennulínuna út á Suðurnes með viðkomu í Trölladyngju og Sandfelli í jörð sökum tæknierfiðleika og kostnaðar. Hér eru engir
kostir góðir og reyndar hver öðrum verri, hugsi menn eitthvað um umhverfið og ósnortna náttúru þessa svæðis.
Reykjanesskaginn er eins og einskis manns land þar sem allt er leyfilegt. Vélhjóla- og jeppamenn hafa sína hentisemi. Gapandi malarnámur bjóða fólk velkomið í fólkvanginn. Gróðurinn á undanhaldi og rusl fyllir lautir og gjótur. Kannski vita fæstir að þeir séu komnir í fólkvang og þá tekur virðingarleysið við. Eina byggingin sem sannarlega stendur undir nafni er litla kirkjan í Krýsuvík, en gönguskálinn á Lækjarvöllum í Móhálsadal var skotinn í tætlur. Er þá nema létt verk fyrir ýtur,
gröfur, bori og önnur stórvirk tæki að klæða landið borholum, stöðvarhúsum, háspennulínum, gufurörum, vegum og öðrum mannvirkjum fyrir álið í Helguvík eða eitthvað annað? Kannski er líka öllum sama?
Veðrunarformmótun á SveifluhálsiBent hefur verið á að í og við Reykjanesskagann búa um 200 þúsund manns og vaxandi þörf er fyrir fjölbreytt útivistarland í nágrenninu. Um Keflavíkurflugvöll fari svo flestir þeir ferðamenn, sem koma til landsins og innan áratugar verða þeir líklega orðnir um milljón talsins, enda fjölgar þeim um og yfir 10% á ári hverju. Miklar samgöngubætur eru að verða á Reykjanesskaganum; annars vegar með tvöföldun Reykjanesbrautar og hins vegar með væntanlegum Suðurstrandarvegi.“
Spurt var; „Hvers vegna þegja hagsmunasamtök um ferðaþjónustu á Reykjanesskaganum um þetta? Hvers vegna taka þau ekki þátt í umræðunni? Hér er greinilega um langmesta hagsmunamál þeirra að tefla.“ Svarið er einfalt; Í fyrsta lagi eru þau og fulltrúar þeirra of nátengd verkefnaaðilum og sveitarstjórnum á svæðinu til að geta æmt hið minnsta um mikilsverð verkefni. Setji þau sig upp á móti framkvæmdum eiga þau á hættu að frjálsar styrkveitingar til þeirra minnki að sama skapi. Í öðru lagi hefur umsjón með vefmiðlum þessara aðila (a.m.k. FSS) verið komið í hendur útgáfufyrirtækjum, s.s. Víkurfrétta, sem jafnan virðist hafa verið málpípa meirihluta sveitarstjórna á svæðinu. Þar liggja augljósir hagsmunir og saman þegar kemur að kostunaraðilum og auglýsingum.

Ketilsstígur

Þessu fyrirkomulagi þarf að breyta. Kippa þarf fulltrúum sveitarfélaga út úr stjórn orkufyrirtækja, aftengja þarf tengsl ferðaþjónustuaðila við hagsmunafjölmiðla og skapa þarf heilbrigðan samstarfsvettvang til að virkja áhugi, þekking uog kraft þekkingaraðila á svæðinu. Þá fyrst munu hin eiginlegu verðmæti Reykjanesskagans fá að njóta sín – svo um munar.
Hafa ber í huga að FERLIR er jafnan ekki gagnrýninn á viðfangsefni, heldur fyrst og fremst leiðbeinandi um verðmæti, en framangreint er vissulega verðugt umræðuefni.
Til baka var gengið um tinda og skörð með það að markmiði að leita leiðar frá Arnarvatni niður á Hofmannsflöt. Að einni torfæru slepptri reyndist þarna vera hin ákjósanlegasta leið fyrir gangandi. Líklega hefur hún þó ekki verið farin nema af kunnugum.
Hér fylgir með vísa frá Eggerti Guðmundssyni Norðdahl frá Hólmi um Sveifluháls:
Funi er þar til frambúðar
og feikna gufusjóðir,
eins og lægi undir þar
allar vítisglóðir.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – Umhverfi og útivist – 20. janúar 2006, lagfært 20. mars 2006.
-Mbl, sunnudaginn 30. september 2007.

Sveifluhálsinn miðlægur

Sandakravegur

Í Mána 1879-1880 er m.a. fjallað „Um fjallvegi, vörður og sæluhús„:
„Þegar lengra er haldið áfram Sandakravegur - kort 1908yfir Suðurlandið, má telja Reykjanesfjallgarðinn; yfir hann liggja 7 alfaravegir, Nyrðstur er Kaldadalsvegur milli Þingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum í Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Grindaskörð milli Ölvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir eru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.“
Í Morgunbalðinu 2006 er getið um Sandakraveg sbr.: „Nefndur Sandakravegur er forn þjóðleið vermanna af Suðurnesi. Þeir komu um Krýsuvíkurveg á leið til Voga eða norður á Nes. Leiðin liggur frá Slögu norður með Borgarfjalli um Nátthagakrika að Kasti sem er suðvesturhluti Fagradalsfjalls, yfir og inn á Skógfellaveg og eftir honum norður til Voga á Vatnsleysuströnd.“
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 má sjá eftirfarandi umfjöllun um Skógfellaveginn: „Á Suðvesturlandi eru margar áhugaverðar gamlar þjóðleiðir og hafa nokkrar þeirra öðlast fastan sess í huga útivistarfólks sem skemmtigönguleiðir svo sem Leggjabrjótur milli Þingvalla og Hvalfjarðar, Selvogsgata milli Hafnarfjarðar og Selvogs og Síldarmannagötur er nýlega voru varðaðar.
Á Reykjanesskaga eru þjóðleiðir sem ekki eru eins nafnkunnar og áðurnefndar leiðir, en munu þó örugglega draga til sín göngufólk í vaxandi mæli.
Sandakravgeur-502Nokkrar þeirra liggja til Grindavíkur og skal hér kynnt ein þeirra, en það er Skógfellavegur, gömul leið úr Vogum sem jafnframt er framhald þjóðleiðarinnar frá Hafnarfirði er nefnist Almenningsvegur. Skógfellavegurinn er kenndur við tvö fell sem eru við leiðina og heita Litla- og Stóra-Skógfell er bendir til að svæðið hafi verið skógi vaxið fyrrum, en í nágrenni Litla-Skógfells er þó kjarrgróður með birkihríslum og víði. Grindvíkingar hafa líklega notað Skógfellaveginn sem alfaraleið um stuttan tíma, en hann lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður milli Vogastapa og Grindavíkur. Af leiðinni liggur Sandakravegur neðan Stóra-Skógfells að Fagradalsfjalli og síðan austur á bóginn, en nafnið hefur upprunalega verið notað um alla leiðina frá Stapa.
Landið sýnist ekki svipmikið á þessum slóðum, en þó leynist þarna margt og ekki síst þegar lengra dregur. Snorrastaðatjarnir eru suðvestan og vestan við leiðina og grilltum við aðeins í þær og einnig skátaskála sem reistur var nærri tjörnunum fyrir nokkrum árum.
Sandakravegur-503Ofan við tjarnirnar er Háibjalli, en hann og næsta umhverfi er á náttúruminjaskrá og þar er nokkur skógrækt, en allt þetta blasti betur við ofan af Litla-Skógfelli sem gengið var á síðar.
Fyrsta spölinn mótar af og til fyrir gömlum götum, en vörður eru fáar og strjálar, en það átti eftir að breytast þegar lengra kom, en það sem sem einkennir leiðina eru gjár. Gjárnar eru ekki farartálmi og auðvelt að ljomast um þær, en sú fyrsta sem varð á vegi okkar nefnist Huldugjá, en austur með henni blasti við okkur fjárborg sem heitir Pétursborg, en ekki var hún skoðuð nánar í þetta sinn. Skammt var að Litlu-Aragjá og gerðum við þar stuttan stans við stóra vörðu á gjárbarmi, en kaffistopp höfðum við hjá næstu gjá, Stóru-Aragjá sem á þessum slóðum nefnist Brandsgjá. Hún heitir eftir Brandi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála er var þarna á ferð á jólaföstu árið 1911, en lenti í ófærð og missti hestana ofan í gjána og þurfti að aflífa þá á staðnum. Brand kól á fótum og var á Keflavíkurspítala einhverja mánuði eftir slysið. Við litum ofan í gjárnar þarna og víðar og reyndust þær mjög djúpar þó vel sæi til botns svo ekki er að undra þó illa geti farið ef lent er utan leiðar að vetrarlagi og snjór gefur sig yfir gjánum.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Eftir góða áningu við Stóru-Aragjá var haldið vel áfram, enda auðveld og vel vörðuð leið eftir helluhrauni, en þar og víðar eru hófaför vel mörkuð í klöppina. Litla-Skógfell er ekki hátt, aðeins 85 m.y.s. en það freistaði uppgöngu og hélt allur hópurinn upp norðvesturhornið og niður af því sunnanmegin. Af fellinu blasir við mestur hluti leiðarinnar, utan þess sem Stóra-Skógfell skyggir á í suðri, en á milli fellanna er þétt röð varða. Stóra-Skógfell er um 100 m hærra en Litla-Skógfellið, en þó freistaði það ekki til uppgöngu í þetta sinn.

Sandakravegur

Á Sandakravegi.

Við Sundhnúkagígaröðin sem mun vera um 8 km löng en frá henni rann hraunið hjá Grindavík fyrir um 2000 árum. Athygli okkar vakti sérkennileg hraunpípa utan í einum gígnum og vantaði lítið upp á að skríða mætti þar í gegn, en ekki hefði það farið vel með fatnað. A þessum slóðum var okkar göngu um Skógfellaveg lokið þar sem áætlaður lokaáfangi góngunnar var Bláa lónið. Leið okkar lá inn á stikaða leið er tilheyrir Reykjaveginum, um Svartsengi norðan Svartsengisfells. Þar við gamlan steyptan pall, líklega undirstöðu danspalls, rifjuðu nokkrir úr hópnum upp minningar frá útisamkomum er þar voru haldnar um skeið á vegum Grindvíkinga..
Eftir tæpra 6 klukkustunda göngu vorum við loks komin að Bláa lóninu nýja sem fellur ótrúlega vel inn í hraunið, en bað í því var kærkomin endapunktur á góðri gönguferð.“

Heimild:
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 5.-5. tbl. bls. 34.
-Morgunblaðið, 28. mars 2006, bls. 19.
-Lesbók Morgunblaðsins, Kristján M. Baldursson, 16. sept. 2000, bls. 19.

Sandakravegur

Skógfella- og Sandakravegur.

Lambhagarétt

Gengið var frá Vatnsskarði og áleiðis umhverfis Kleifarvatn; um Sveifluháls, Hellutinda, Stapatinda, Miðdegishnúk (Hádegishnúk), gengið niður að Kaldrana, elstu minjum í ofanverðri Krýsuvík að talið er, austur með sunnanverðu vatninu ofan við Hvamma, undir Geithöfða, til norðurs vestan Gullbringu og yfir Hvammahraun með viðkomu í Gullbringuhelli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Þá var gengið með vatninu undir Vatnshlíðinni, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegur möguleiki. En skýring er þó á því, eins og flestu öðru. Þá var haldið vestur um Lambhaga, litið á rétt og athvarf smala fyrrum, og síðan gengið áfram eftir eyðinu milli Lambhagatjarnar og Kleifarvatns norðan þess, uns staðnæmst var við hellisskútann undir Hellunni. Fagurt útsýni var yfir Kleifarvatn alla gönguna. Á leiðinni var rifjaður upp ýmiss fróðleikur um vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli, a.m.k. ekki ofanjarðar. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, þannig að veiði (er) var um tíma ágæt. Sumir telja að besti veiðistaðurinn er syðst í vatninu þar sem heitt jarðvatn frá hverasvæðum sytrar út í vatnið, en reyndir veiðimenn vita að besti veiðistaðurinn er undan norðanverðu Hvannahrauni (Hvammahrauni) austan við vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hveravolgrur.

Kleifarvatn er mjög kalt frá náttúrunnar hendi, en volgrur þessar skapa bleikjunni ákjósanleg skilyrði. Eldbrunnið og hrjóstrugt umhverfi vatnsins er bæði sérstakt og fagurt. Í jarskjálftunum 17. og 21. júní 2000 opnuðust sprungur á vatnsbotninum og vatnsborðið lækkaði verulega, en byrjaði að hækka aftur árið 2004.

Krýsuvíkurland sunnan Kleifarvatns tilheyrir landi Hafnarfjarðar, sem í rauninni er forgangssök því í vitund landvætta vorra tilheyrir það umdæmi Grindavíkur. Núverandi ráðstöfun er afleiðing klækja mannanna í valdastöðum þess tíma.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Umhverfisráðuneytið ákvað ekki alls fyrir löngu að veita Náttúrufræðistofu Kópavogs 300.000 kr. styrk vegna fyrirhugaðra lífríkisrannsókna á Kleifarvatni. Ástæðan er sú að Kleifarvatn er afskaplega áhugavert vatn. Það er mjög djúpt og tært, í því er verulegur jarðhiti, það er án afrennslis á yfirborði og í því geta orðið verulegar vatnsborðssveiflur. Þrátt fyrir þetta hafa litlar rannsóknir farið fram á lífríki þess og vistkerfi. Fróðlegt verður að skoða niðursstöðurnar þá og þegar þær liggja fyrir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnsyfirborð 2000-2004 (Vatnamælingar Orkustofnunar).

Vatnið er (var og er þess á milli) þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97 m djúpt. Það hefur lítilsháttar aðrennsli en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Jarðhitinn er einkum syðst í vatninu og einnig út af Innristapa.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sést þar endrum og eins. Á það að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð.

Sveifluháls

FERLIR á Sveifluhálsi 17. júní 2000.

Síðan í jarðskjálftanum mikla (þeir reyndust vera tveir) í júní 200 lækkaði vatnsborð Kleifarvatns um 4 metra. Sprungur í vatnsbotninum opnuðust í Suðurlandsskjálftanum sem svo var nefndur og olli auknum leka úr vatninu. Við lækkaði vatnsborðið og flatarmál Kleifarvatns minnkaði um 20% eða úr 10 km2 í 8 km2, og sandur og leir, sem áður var undir vatnsborðinu, varð nú á þurru. Tanginn norðan í vatninu, undan Lambhagatanga, kom upp úr undirdjúpunum og þurrgegnt varð með vatninu að norðaustanverðu.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

FERLIR var staddur á Sveifluhálsi er jarðskjálftarnir riðu yfir 17. júni 2000 með nokkurra mínútna millibili. Fyrst heyrðist vaxandi hvinur úr suðri og siðan má segja með sanni að Sveifluhálsinn hafi risið undir nafni; hann gekk í bylgjum líkt og um öldugang væri um að ræða. Í kjölfarið fylgdi annar og öflugri jarðskjálfti, beint undir fótum. Þá var eins og lamið væri með sleggju upp undir yfirborðið. Grjót hrundi úr nærliggjandi hlíðum í báðum tilvikum, en þegar einn félaganna horfði niður á skóna sína tók hann eftir að þeir voru hálfgrafnir í sendinn jarðveginn.
Síðastliðið hálft ár hefur vatnshæð Kleifarvatns verið nokkuð stöðugt, en hefur þó sveiflast með veðurfari að venju, hækkað við úrkomu, en lækkað í þurrkatíð.
Ef til vill er Kleifarvatn að ná jafnvægi við grunnvatni en of snemmt er að fyllyrða að ekki lækki meira í Kleifarvatni að sinni. Vatnsborð Kleifarvatns mun smám saman þéttast á ný með leir og öðru seti, og vatnsborððið hækka. Það mun þó taka Kleifarvatn ár eða áratugi að ná þeirri vatnshæð, sem var fyrir Suðurlandskjálftann í júní 2000.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja í sprungustefnu landsins NA-SV. Við vatnsborðshæð 140 m y.s. er meðaldýpi þess 29,1 m, flatarmál Kleifarvatns 10 km2, sem fyrr sagði, og rúmmál þess er 290 Gl. Nú er vatnsborðshæðin 136,3 m y.s., flatarmálið er um 8 km2 og rúmmál þess hefur minnkað niður í um 255 Gl.
Aðrennsli í vatnið á yfirborði er nokkrir smá lækir að sunnanverðu. Auk þess rennur úr hlíðunum í kring í rigningu og er snjó leysir á vorin. Kleifarvatn er að öðru leyti afrennslislaust á yfirborði og gert hefur verið ráð fyrir að vatnsborðið falli saman við grunnvatnsflötinn í umhverfinu og sé háð sömu sveiflum og hann, en rannsaka þarf nánar tengsl þess við grunnvatn í nágrenninu. Kleifarvatn hefur um allnokkurt skeið verið notað sem úrkomumælir á suðvesturlandi. Mælirinn er (var) í litlu húsi vestan við vatnið, undir Hellunni.

Kaldrani

Kleifarvatn.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja. Vatnsbotn Kleifarvatns hefur þéttst í áranna rás með leir og öðru seti. Lekt vatnsbotnsins var því minni en jarðlaganna í kring og því stóð vatnsborðið hærra en grunnvatnið. Þegar sprungur opnast í botni Kleifarvatns þá breytist lekt þ.e. viðnám jarðlaganna og vatnið hripar niður um sprungurnar. Smám saman nær Kleifarvatn á ný jafnvægi við grunnvatnið í kring, sem fyrr segir.
Af nálægum ummerkjum að dæma hefur Kleifarvatn einhverju sinni, jafnvel oftar en einu sinni, risið hærra en þekkist. Þegar grant er skoðað má lesa lækjarfarveg til suðurs frá vatninu. Fremst varð Nýjaland til með tilheyrandi afleiðingum fyrir hinn mikla dyngjugýg norðan Stóra-Lambafells. Farvegurinn hefur legið yfir núverandi Grænavatn og mótað landslagið allt niður á Krýsuvíkurberg.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indjáninn.

Kleifarvatn er án afrennslis á yfirborði. Fyrir jarðskjálftana árið 2000 rann lækur úr vatninu norður í Lambhagatjörn og seig vatnið þaðan í gegnum móbergshryggina og hraunin til sjávar norður í Straumsvík. Sumarið 2000 opnaðist 20-40 cm víð sprunga við norðurenda vatnsins og þar streymir vatnið niður. Tvö hverasvæði hafa síðan komið í ljós suðurenda vatnsins og nú er manngengt í hella í Syðristapa sem áður voru í vatnsborðinu

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í gegnum tíðina hefur Kleifarvatn verið vinsæll köfunarstaður. Í vatninu eru nefnilega góðar aðstæður fyrir þá sem eru að læra eða hafa lokið námskeiði og vilja æfa sig. Vatnið er frekar tært svona 10-15 metrar og skyggnið breytist ekki líkt og það gerir í sjónum. Þess vegna geta kafarar nánast alltaf gengið að aðstæðum vísum. Þó bera að geta þess að í miklum vindum og þá sérstaklega í austanátt getur vatnið átt það til að gára og öldurnar verða þó nokkuð háar í slíkum aðstæðum. Gallinn við vatnið er sá að dýralíf í því er fábreytt. Þarna eru stangveiðar algengar en að sjá fiska undir ydirborðinu er sjaldgæfara. Köfurum finnst það því hálfpartinn skrítið að nokkuð veiðist þarna yfirleitt.
Eflaust er besti köfunarstaðurinn staðsettur við Indjánann en það er auðþekkjanlegur steinstapi sem stendur við Stefánshöfða. Indíáninn fer ekki á milli mála þegar komið er á staðinn því ef hann er grannt skoðaður má sjá andlitsmynd í honum sem svipar til indíána. Piltar á leið í Vinnuskólann í Krýsuvík um og eftir 1960 höfðu jafnan það að venju að reka upp indíánaöskur í rútunni þegar ekið var fram hjá steinstöpli þessum – svona til að minna á að nú væri komið að því að takast á við viðfangsefni sumarsins.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Botn vatnsins er sandbotn og þegar komið er u.þ.b 60 metra frá landi fer þessi botn að breytast í gróðursælan botn allt að brekkunni sem liggur niður á hyldýpi eða um 97 metrana, en hún er aurbrekka sem auðvelt er að þyrla upp.
Fræg skáldsaga ber nafn vatnsins. Kleifarvatn er áttunda skáldsaga Arnaldar Indriðasonar. Bækur hans hafa notið gríðarlegra vinsælda og verið þaulsætnar á mestöluslistum hér heima og erlendis á undanförnum árum og tvö ár í röð hlaut Arnaldur Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina og Grafarþögn. Kleifarvatn gefur bestu bókum hans ekkert eftir. Hún fjallar m.a. um beinagrind, sem fannst í vatninu er lækkaði í því í kjölfar jarðskjálfta.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Um Kleifarvatn gengu þó enn þá fleiri sögur. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni. 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

Kleifarvatn

Kleifarvatn að kvöldi.

Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Stefánshöfði

Stefánshöfði – minningarskjöldur.

Stefán Stefánsson var kunnastur leiðsögumaður útlendra ferðamanna á landi hér. Hann gerþekkti landið af löngum ferðalögum á hestum hvert einasta sumar. Þó mun Krýsuvík hafa verið honum kærari en flestir aðrir staðir. Við Kleifarvatn hefur skjöldur verið felldur í klett til minningar um hann og höfði, áður Innristapi, verið nefndur eftir honum. Á þeim stað var ösku hans dreift út á vatnið að fyrirlagi hans sjálfs.
Kaldrani er talinn elstur bæja í Krýsuvík. Honum tengist þjóðsagan af Herdísi og Krýsu, sem gerð hefur verið góð skil í annarri leiðarlýsingu um svæðið sunnan og austan undir Stóru-Eldborg. Enn má sjá móta fyrir garðlagi og jafnvel tóftum undir lítilli hæð neðan við einn gíganna, sem þarna eru. Í þeim er friðlýsingarmerki Þjóðminjasafnsins.

Kleifarvatn

Ytristapi, öðru nafni Stefánshöfði.

Stefán Stefánsson sagði í skrifum sínum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.
Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði. Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetraræagi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Hellurhellir

Smiðjuhellir undir Hellunni.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.
Leirhver mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Austurnegjahver, eða Stórihver, eins og hann er stundum nefndur, sést vel frá sunnanverðu Kleifarvatni.
Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, við Seltún. Endur fyrir löngu mun hafa þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurengjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.
Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.”

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Árni Óla fjallar um nýja Krýsuvíkurveginn undir Hellunni. Þar segir hann m.a. að “hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.
Hér á Íslandi er vegagerð svo dýr, að nauðsyn er á að hver vegarspotti komi sem flestum að notum. En með þessu vegi virðist sú stefna þverbortin, því að þessi dýri vegur liggur um óbyggðir einar. Á allri leiðinni frá Hafnarfirði og austur í Selvog – um 50 km. – er engin byggð nema Herdísarvík. Frá Selvogi og inn í Ölfus er svo 20 km. Alls verður þá þessi nýja Suðurlandsbraut rúmir 70 km., eða snöggum mun lengri heldur en leiðin yfir Hellisheiði. En þetta á að verða vetrarvegur þegar Hellisheiði er ófær. Sumir hafa ekki mikla trú á því, að það sé miklum mun snjóléttara þarna suður í fjöllunum heldur en á Hellisheiði, og verður reynslan að skera úr því hvort réttara reynist.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

En hitt er öllum ljóst, að þetta verður dýrasta vegargerð hér á landi, þar sem ekki eru brýr á leiðinni. Í Vatnsskarðinu verður vegurinn að Keifarvatni lang dýrastur og örðugast að leggja hann. En þó voru örðuleikarnir ekkert á móts við það, sem tekur við, þegar farið er að leggja veginn meðfram vatninu að vestan.
Rétt innan við norðurlónið hefur verið reistur veitingaskáli, og það er fyrsta framkvæmdin í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Þangað sækir fólk skemmtanir um helgar á sumrin, eða safnast þar saman til að skemmta sér. Þar við vatnsbotninn þrýtur hinn lagða veg.
En þar eru tjöld í brekkunum, og hafast þar við vegavinnumenn þeir, sem vinna að því að halda veginum áfram suður með vatninu. Taka þarna þegar við klettar við vatnið og gangur ekki á öðru en sprengingum. Er klettunum rutt niður í vatnið og hafðir fyrir undirstöðu vegarins. Þetta er erfitt verk og seinlegt, því að það er svo sem ekki að það sé almennilegt grjót þarna.
Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Er það að vísu ekki nema 3 km. Leið, en þarna er eitthvert hið argvítugasta vegarstæði, sem hugsast getur.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Innristapi.

Víðast hvar er hliðhalli og verður að höggva veginn niður í móberg og móhellur, annars staðar verður að hlaða hann upp margra mannhæða háan, svo að hann verður tilsýndar þegar búið er að hlaða grjóti utan að honum, líkastur brimbrjóti eða hafnargarði. Móhellan er ekki lambið að leika sér við. Hún virðist í fljótu bragði ósköp auðunnin þar sem hægt er að tálga hana með hníf og mylja hana undir fæti. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar hún blotnar má hún heita óvinnandi. Það er svo sem sama hvaða verkfæri er þá beitt á hana. Það er eins og hún verði ólseig. Og þess vegna stendur móhellan í vegavinnumönnunum, þar sem grágrýti hefði ekki staðið þeim snúning.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Landnám 2002; Litla Grindavík numin.

Það er von að mörgum ofbjóði þessi dýra vegarlagning, Og það er hreint ekki von að mönnum geti skilist það, að samgönguerfiðleikar yfir “fjallir” á vetrum geti réttlætt það, að ráðist er í svo dýrt og tvísýnt fyrirtæki, sem þetta, allra helst þegar góður vetrarvegur er kominn yfir Mosfellsheiði og frá Þingvöllum niður í Grímsnes.”
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Gullbringa er nafn á “fjalli” austan við Kleifarvatn. Aðrir segja að það sé nafnið á hlíðinni að baki henni, enda er hún er jafnan roðagylt af kvöldsólinni þar sem hún gæist yfir og til hliðar við Miðdegishnúk á fögru sumarkvöldi. Gamla þjóðleiðin lá um Hvannahraun (Hvammahraun). Við hana er Gullbringuhellir, gott skjól í vondum veðrum. Í hellinum er flórað bæli.

Kleifarvatn

Vatnshlíðarhorn.

Í Vatnshlíðinni eru sérstakar jarðmyndanir, s.s. hraunfoss, sem “frosið” hefur efst í einu gili hennar svo undrum sætir. Undir Lambhaga er hlaðin rétt og hvíluskúti smalanna er þeir komu með féð af fjalli. Lambhagatjörni er sérstakt jarðfræðifyrirbæri, sem og skútinn undir hellunni. Hann er til kominn, líkt og skútinn bak við Indíánann, vegna ágangs vatnsins. Þeir, sem og aðrir skúta við norðanvert vatnið, eru ágætir vitnisburðir um fyrrum hærri vatnsstöðu þess, en skútarnir eru tilkomnir vegna ágangs vatns á móbergið til lengri tíma.
Skútinn undir Hellunni er brotabergskenndur, en þar mun Þorsteinn frá Hömrum við Húsatóftir haft smiðju um tíma. Smíðaði hann það fyrir vegavinnumenn og aðra það er þeir þurftu. Þá var skútinn um nokkurt skeið afdrep veghefilsstjóra, er unnu að því að bæta Krýsuvíkurveginn, enda ekki vanþörf á oft á tíðum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 05 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is/
-http://www.reykjanes.is/
-http://www.os.is/
-http://www.natkop.is/
-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Sunnudagsblaði Tímans 25. júní 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Landið mitt er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.
-Dulheimar 97.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – norðurljós.

Hóp

Í 85. kafla Landnámu segir:
„Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:
Ek bar einn af ellifu bana orð. Blástu meir!
Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.

Hof í GrindavíkMolda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.

En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.

hop-234Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.“ Iðunn var og dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.

Í Rekaskrá Skálholtsstaðar um 1270 segir m.a.: „Item þessi rekamörk eru hallden j Grindavik: J millum valagnüpa og Rangagiógurs ad huar sem hualur kiemur j Grindabijk j greindu takmarke skal skiptast j fiðra fiordunga. Skal eirn fiordung hafa Þorkotlustadir. annann stadarstadr. vr jarngerdarstada hlut. hinn fiorda hlut sjal hafa hraun og hof. skal hraun hafa tuo hlute. en hof þridiung. Item a klaustrid i videy. hemlming huers af hrauns hlut.“

Heimild:
-Landnámabók, 85. kafli
-Íslenskt fornbréfasafn fyrir 1270,
Hið íslenzka bókmenntafjelag, 1857, bls. 75-76.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

 

Refagildra

Ekki hefur mikið verið skráð og ritað um hlaðnar refagildrur. Slík veiðaðferð; grjótgildrur, virðast annað hvort hafa fallið í gleymsku eða orðið jarðlægar. Ástæðurnar eru nokkrar.
Í fyrsta lagi þótti Refagildra ofan við Tóftir - 2löngum ekki tiltökumál þótt grjótgildra væri í nánd við bæ, verstöð, geymslustað eða þéttbýli. Það var ekki fyrr en á síðustu öld sem notkun þeirra lagðist af, a.m.k. á Reykjanesskaganum. Í öðru lagi hafa gildrurnar verið í notkun um langan tíma, jafnvel allt frá landnámstíð, svo margar þeirra hafa gleymst og orðið að jarðarinnar ásýnd.
Þegar FERLIR skoðaði svæðið ofan við Stað og Húsatóftir við Grindavík komu í ljós sjö áður óþekktar grjótgildrur. Án efa eru þær fleiri, ef vel væri leitað. Hafa ber í huga að ekki er langt um liðið að FERLIR fann 3 áður óþekktar refagildrur austan Húsatófta.

Refagildra

Refagildra.

Engra þeirra er getið í rituðum örnefnaskrám eða fornleifaskráningum af svæðinu. Þrátt fyrir það eru þekktar refagildrur nálægt þeim bænum orðnar 10 talsins. Nú (í marsmánuði árið 2010) eru þekktar 51 grjóthlaðin refagildra á Reykjanesskaganum og ef að líkum lætur munu finnast fleiri er fram líða stundir. Hafa ber í huga að helmingur þekktra hraunhella á Íslandi hafa fundist eftir aldamótin 2000 – vegna þess að eftir það hefur verið leita skipulegar af slíkum náttúrufyrirbærum í ríkara mæli. Að leita að ummerkjum eftir refagildru krefst mikillar einbeitingar og gerir þá kröfu til leitandans að hann hafi þekkingu á hvar slíkar mannvistarleifar kunni að finnast.
Refagildra ofan við Tóftir - 3Á vefsíðu Fornleifastofnunar Íslands segir eftirfarandi um refagildrur: „Tófugildra: Gildra til að veiða í refi. Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni.“
Páll Hersteinsson fjallar um refaveiðar í riti Landverndar  (nr. 7) árið 1980. Þar segir hann m.a.: “Forfeður okkar höfðu veitt loðdýr öldum saman, áður en þeir fluttust til Íslands fyrir 1100 árum.
Refagildra ofan við Tóftir -4Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar, Gildrunef og Gildrumelar, Byrgisskarð og Byrgismelur, og getur sums staðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Refskinn voru löggiltur gjaldmiðill.
Refurinn var álitinn mikill skaðvaldur.
Í Grágás og Jónsbók er tekið fram að melrakkar séu á hvers mann jörðu óheilagir.
Árið 1295 var samþykkt á Alþingi að hver sá maður sem hefði 6 sauði á vetri í sinni ábyrgð, skyldi veiða einn melrakka gamlan eða tvo unga á ári. Það kallaðist dýratollur.
Alþingissamþykkt þessi var síðan endurnýjuð orðrétt árið 1485, og árið 1680 féll samhljóða alþingisdómur.
Bændum var skylt að stunda grenjaleit á vorin á jörðum sínum og á afréttum á eigin kostnað, en tófuföngurum var greitt úr dýratollssjóði.
Árið 1809 gefa amtmenn út fyrirmæli til hreppstjóra um skyldur þeirra til að fylgja eftir refaveiðum.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Árið 1834 voru veigamiklar breytingar gerðar á reglugerðum. Öll grenjaleit, grenjavinnsla og veiðar voru launaðar úr dýratollsjóði.
Árið 1890 samþykkir Kristján konungur níundi lög þar sem kveðið er á um að kostnað við eyðingu refa skuli greiða úr sveitarsjóði. Tveimur árum síðar var dýratollur innheimtur í síðasta sinn. Lýkur þar 6 alda sögu eins sérstæðasta skatts á Íslandi.
Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á lögum um refaveiðar síðan 1890 nema hvað að ríkið hefur smám saman tekið á sig stærri hlut af kostnaðinum.
Árið 1930 voru sett lög, sem kváðu á um, að sýslusjóður greiði verðlaun fyrir veidda hlauparefi en sveitasjóðir skuli standa undir kostnaði við grenjavinnslu.
Refagildra ofan við Tóftir - 7Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við refaveiðar á Íslandi. Algengast í upphafi byggðar mun hafa verið að bræla refi inni í grenjum á vorin og veiða þá í grjótgildrur á veturna. Notkun grjótgildra virðist hafa lagst niður í upphafi 19. aldar.
Um svipað leyti voru dýrabogar orðnir algengir, en tilkoma þeirra var sennilega aðalástæðan fyrir því, að hætt var að nota grjótgildrurnar. Hætt var að mestu að nota dýraboga við vetrarveiði um síðustu aldamót [1900], en þeir eru enn notaðir við yrðlingaveiðar á grenjum.
Um aldamótin 1700 voru byssur orðnar algengar við grenjavinnslu og í lok 18. aldar voru þær orðnar aðalvopnið við refaveiðar og hafa verið það síðan.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar.
Refagildra ofan við Tóftir - 8Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna hefur verið, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir.  Nú ríkir eitrunarbann.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar.
Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna hefur verið, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir.  Nú ríkir eitrunarbann.“
Refagildra ofan við Tóftir - 9Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, segir frá refagildrum í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1980. Þar skrifar hann m.a.: „Til eru gamlar lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. í Hrappsey 1780.“ Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Í Lærdómslistafélags-ritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson.
Í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær.”
VegvísirGrjótgildrur eru þekktar á Grænlandi.
Grjótgildrur hafa verið notaðar víða um land. Gildrur þessar eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænt hellublað, um 20 sm breitt neðst og um 30 sm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þannig hangið uppi. Í tittinn var síðan bundið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega hefur tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður. Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mátulega fyrir en gæti ekki snúið sér við.

Ummerki í Berghrauni

Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í rauninni einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skorðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og hvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. En í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin, samkvæmt þeim lýsingum, sem síðar verður getið, og lykkju á hinum enda bandsins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.”
LáturÍ Þjóðviljann árið 1964 er skrifað um refagildru á Látrum. Þar segir óþekktur höfundur: „. . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana upp á brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni. Hún er þessi:
1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.
2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.
5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo upp úr þessu opi yfir á minnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og þvi skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
Austan Tófta6) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.
7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrulegu grjótholti.“
Refgildra
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar heldur gömul raunhæf vitneskja. Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu.”
Skammt ofar, í Berghrauni skammt vestan Lynghólshrauns, má sjá ummerki eftir grenjaskyttur; hlaðin skjól. Í örnefnalýsingu fyrir stað er þess sérstaklega getið að „mörg greni eru í Lynghólshrauni“. Þar verður leitað ummerkja fljótlega.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

 

Heimildir m.a.:
-http://www.instarch.is/instarch/ordasafn/r/
-Páll Hersteinsson, rit Landverndar (nr. 7) árið 1980.
-Heimild: Þjóðviljinn 16.02.1964, bls. 53.
-Helgi Gamalíelsson – Stað.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.