Tag Archive for: Grindavík

Borgarhraunsrétt

Á nýlegri landakortum er Sandakravegur sýndur liggja frá Drykkjarsteinsdal í austri, með vestanverðu Fagradalsfjalli til norðurs og síðan niður á Skógfellastíg úr Fagradal um Aura. Veginum var fylgt norður með Borgarfjalli, um Nátthagakrika, framhjá Einbúa og að Kastinu með viðkomu í Selskál, Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsborg.

Sandakravegur

Gengið um Sandakraveg.

Þegar gengið var af gömlu þjóðleiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur vestast í Drykkjarsteinsdal má sjá djúpa gróna holu innan við hraunkantinn. Þarna gæti hafa verið vatnsstæði eða brunnur. Erfitt er að greina götuna að ráði fyrr en komið er inn fyrir Borgarfjallið, en þegar komið er í Nátthagakrika fer að móta vel fyrir henni. Sunnan við Einbúa er gatan mjög skýr. Kastað hefur verið upp úr henni á kafla, auk þess sem hlaðin gerði eru á tveimur stöðum við götuna.

Haldið var inn í Selskálina og hún skoðuð.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ekki var að merkja nein mannvirki í skálinni, enda hefur orðið þarna mikil jarðvegseyðing. Þó er á einum stað vel grasi gróið svæði, en ekki var gott að merkja á bakka, sem þar, hvort hann væri náttúrulegur eða gæti verið hluti af einhverju mannvirki.
Gengið var til suðvesturs með vesturbrún hraunkants. Utan í honum eru grasi grónar brekkur og bollar. Hlaðinn stekkur er þar utan í bakkanum, en við leit fundust ekki önnur sýnileg mannvirki. Þó er líklegt að þau kunni að leynast þarna ef vel væri að gáð.
Stefnan var tekin til suðurs inn á hraunið, að Borgarhraunsréttinni, sem kúrir þar heilleg undir suðurjaðri hraunsins. Sumur hafa viljað nefna réttina eftir Ísólfsskála þar sem hún er í hans landi, en Skálamenn þekkja ekki slíka nafngift.

Borgarhraunsborg

Í Borgarhraunsborg.

Gengið var áfram til suðurs, að Borgarhraunsborg. Um er að ræða stóra fjárborg á grónum hraunhól. Hún er í rauninni í Litla-Borgarhrauni, skammt frá mynni Drykkjarsteinsdal.
Nafnið Selskál bendir til selstöðu og þá væntanlega frá Ísólfsskála. Stekkurinn í hraunkantinum gæti hafa verið hluti af henni. Nátthagakriki er enn ein vísbendingin og einnig Nátthagi skammt austar í Fagradalsfjalli.
Hugsanlega gæti gatan þar sem hún sést svo vel í krikanum og undir Einbúa einnig hafa verið hluti af selsstígnum. En hvað sem öllum vangaveltum líður fæst sennilega seint úr því skorið. Þetta svæði er hins vegar hið ákjósanlegasta göngu- og útivistarsvæði og margt að skoða.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Viðeyjarborg

Í Borgarhraunsborg.

Póstlúður

Í tveimur tölublöðum Faxa áriðð 1978 segir Guðsteinn Einarsson frá Grindavík frá „Einari pósti Árnasyni„:

Einar póstur gekk undir meiri þunga en hann gat lyft með handleggjunum

Guðsteinn Einarsson

Guðsteinn Einarsson.

„Einar Árnason f. 31. des. 1851, skírður 2. jan. 1852 í heimahúsum. Foreldrar hans voru Árni Jónsson og Helga Einarsdóttir búandi hjón í Vesturkoti.
Einar missti föður sinn 4 ára gamall, því að Árni dó 23. apríl 1856 þá talinn 36 ára gamall tómthúsmaður á Miðengi.
Helga giftist aftur 29. jan. 1859 þá 34 ára. Seinni maður hennar var Guðmundur Hannesson bóndi í Breiðagerði,
29 ára. Þau voru gefin saman í Kálfatjarnarkirkju.
Einar Árnason var fermdur á Trinitatis 1867. Og fær þá þessa umsögn hjá presti sínum, sr. Stefáni Thorarensen: „Lestur og kunnátta sæmileg. Skilningur daufur. Hegðun góð“.
Einar fluttist með móður sinni og stjúpa frá Breiðagerði að Vigdísarvöllum árið 1870.
Fyrir og upp úr síðustu aldamótum var hér á landi til nokkuð af fólki sem var talið sérkennilegt, þ.e. að það batt ekki sína bagga þeim hnútum er almennt gerðist.
Vitanlega var þetta mestmegnis það sem kallað er förufólk, þ.e. það flakkar bæ frá bæ og lifði á því sem því var gefið hverju sinni. Á þessu rjátli sínu, einsamalt að jafnaði, hefir það sennilega aldrei náð hugsunarhætti hins almenna borgara og þannig orðið einhvers konar utangarðs-manneskjur.
Mér duttu þessar manneskjur í hug í sambandi við skoðanakönnun „Vikunnar“ nú fyrir skömmu, þar sem segir frá skoðunum ungs fólks. Eitt af því sem þar kemur fram, er orðrétt: „Nú er svo komið, að allir skólar eru orðnir fullir af meðalmönnum.“

Grindavík

Grindavík 1925.

Vonandi verkar þetta þannig að þetta utangarðs-fólk aldamótanna sem ég var að geta um, nái meðalmennskunni, en vonandi standa þó topparnir upp úr. Í þessu sambandi datt mér í hug sérkennilegur maður, sem fyrst og fremst var bundinn við Grindavík, en almenningur nú mun ekki kannast við og gekk undir nafninu: Einar póstur. Það skal tekið fram, að hér er ekki um að ræða ævisögu Einars pósts, heldur minningar mínar eins og þær eru frá barnæsku til fullorðins manns, svo og sögusagnir sem í mér hafa loðað, frá árum Einars hér í Grindavík.
Upphaf Einars pósts mun það, að hann var fæddur á Vatnsleysuströnd, af hjónum sem hétu Helga og Árni. Föður sinn mun Einar hafa misst mjög ungur og stóð þá móðir hans uppi með 6 börn, öll ung.
Krýsuvík 1998
Á þeim tímum þýddi slíkt yfirleitt að fjölskyldum var sundrað og börnin boðin upp til lægst bjóðandi framfærslu, en fljótlega kom til maður sem giftist ekkjunni og tók hann jafnframt að sér framfærslu barnanna. Maður þessi var annálaður dugnaðarmaður, en jafnframt mjög harður við alla sér undirgefna, svo að segja mætti sögur af, en þessi lýsing ætti að nægja til að gera megi ráð fyrir að þessi fósturbörn hafi ekki alltaf átt sjö dagana sæla.
Nú var það Einar póstur, sem ég ætlaði að segja frá og verður þá fyrst að byrja á vaxtarlagi hans. Hann mun hafa verið um 150 cm á hæð, bolurinn eðlilega stór, höfuðið mjög stórt, en sá líkamshluti, er vantaði vöxtinn, var fæturnir. Klofið á Einari var ekki meira en í hné á meðal manni, en aftur á móti var hann svo handleggjalangur að hendurnar virtust koma við hnén á honum er hann bar á börum.
Vöxtur Einars mun kallaður dvergvöxtur nú til dags og efa ég ekki að það hafi verið beinkröm á uppvaxtarárunum sem hefur framkallað þennan vöxt.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1914.

Um tvítugsaldur mun Einar hafa ráðist vinnumaður að Krýsuvík til Árna sýslumanns. Ekkert hefi ég heyrt um vinnu hans þar annað en að vori og sumri hafi hann að mestu gætt engjanna í Krýsuvík. Þrátt fyrir lélegan líkamsvöxt, lítur út fyrir að karlinn í Einari hafi verið fullgildur til kvenna, því í Krýsuvík er sagt að hann hafi verið trúlofaður vinnukonu að nafni Kristín og frá þeim tíma er fyrsta sérkennilega orðatiltækið sem ég hefi heyrt frá þeim tíma, en það átti að hafa verið þegar Kristín sveik hann, að eftir á hafi Einar sagt frá því þannig: „Hún sveik mig á mánudaginn í tólftu, helvítis mellan þessi“, og frá þeim tíma er vísa sem eignuð var Stefáni Stefánssyni, sem lengi gekk undir nafninu „túlkur“. Einhverntíma er Einar kom seinna heim en búist var við, kvað hann:
Nú er hann Einar durgur dauður,
dúkasólin grætur hann.
Kúfur er hinn eini auður
er hún Stína erfa kann.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Um 1880 er svo Einar kominn að Ísólfsskála til móður sinnar og fósturföður, sem þar bjuggu þá. Þá var á Ísólfsskála vinnukona sem Katrín hét, Þorkelsdóttir, og þar hitti Einar sína ektakvinnu, sem seinna varð.
Katrín þessi mun hafa verið ættuð úr Grindavík, en það sérstaka við þessi hjón var, að þau virtust sköpuð í sama farið, hvað hæð og vexti við kom. Með þeim var sem sagt fullkominn hjónasvipur. Ég varð nú ekki svo frægur að sjá uppi klobbann á Kötu, enda pínupilsin ekki komin til sögunnar, en segja mætti mér að fæturnir hefðu ekki haft eðlilega lengd frekar en á Einari.
Árið 1890 strandaði „Fransari“, þ.e. þrísigld skonnorta. Þau fóru í stórum flotum með fram ströndum landsins og fiskuðu á færi. Þetta skip hafði siglt upp í Hraunsand í góðu veðri seint í aprílmánuði. Mannbjörg varð. Leki mun hafa komist að skipinu. Skipshöfnin mun hafa unnið nokkuð að björgun úr skipinu og því verið þar nokkurn tíma.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ. Á kortinu má sjá Hrauntún.

Skipsstrand þótti ætíð athyglisvert og var því mjög fylgst með því frá nærliggjandi stöðum. Einar og Kata munu hafa komið þar á Hraunssand meðan Fransararnir dvöldu þar og frá þeim tíma er þetta haft eftir Einari um Kötu: „Þegar ég og Fransararnir hlupu á eftir henni austur um allan Sand, mikið anskoti var skepnan fljót.“
Eitthvað mun hafa dregist frá því að talið var að Einar og Kata væru að draga sig saman og þar til þau urðu hjón og einhver sem spurt hafði Einar um, hvað giftingu þeirra liði, hafði hann svarað svo: „Ég væri löngu giftur henni, ef ekki væri á henni anskotans hausinn.“. Þetta mun hafa verið í sambandi við að talið var að hún hefði geitur.

Einar póstur

Einar póstur.

Fljótlega eftir þetta munu þau hafa gift sig og hófu búskap í þurrabúð sem þá var kölluð svo, á Hrauni og hét það Hrauntún. Frá þeim tíma er þau bjuggu í Hrauntúni hefi ég heyrt að þá hafi Kata lagst á sæng til að eiga barn og eftir að ljósmóðirin hafði verið sótt og ekkert barnið kom, að þá hafi Einar sagt: „Ætli væri ekki reynandi að gefa henni lútsterkt baunakaffi til að snerpa á henni.“ Hvað sem kaffinu leið mun ekkert barnið hafa komið, en talið var að barnið hefði visnað upp með móðurinni. Í Hrauntúni og Melbæ munu þau Einar og Kata hafa búið hér í Grindavík, en árið 1910 munu þau hafa flutt til Keflavíkur.
Katrín ÞorkelsdóttirFrá búskaparárum þeirra í Grindavík hefi ég heyrt ýmislegt sem farið hefur í millum þeirra hjóna og virðist Einar þá farinn að beita sérstökum orðaforða og að kasta fram vísum. Þau hjón munu hafa haft skap stórt, þótt lítil væru og eitt sinn hafði Einar átt að segja við Kötu sína í orðasennu: „Farðu í hurðarlaust helvíti, hornafullt af skónálum, helvítis árans pístólan þín.“

Á þessum árum, sennilega 1905 eða 1906, gerist Einar póstur frá Keflavík, um Hafnir, Grindavík, Krýsuvík, Selvog, Þorlákshöfn og Eyrarbakka. Það má heita ótrúlegt að hann gæti þetta, þar sem pósturinn var talinn vera um 100 pund með útbúnaði, þegar lagt var af stað frá Keflavík, en það var þó staðreynd að þetta gat Einar og mun hafa byggst á því, að hann var skrokksterkur, þ.e. að hann gat staðið undir og gengið undir meiri þunga en hann gat lyft með handleggjunum. Um þessa eiginleika sagði faðir minn sögu af honum.

Einarsbúð

Einarsbúð t.v.

Pabbi var oft vor og haust við afgreiðslu í búð Einars í Garðhúsum og einhverju sinni hafði Einar póstur komið að fá einn hundrað punda poka af rúgmjöli. Pabbi sagðist hafa tekið pokann úr bing og kippt honum að tunnu sem höfð var til að ganga frá pokunum á bakið, því allt var borið á bakinu þá.
Nú, þegar Einar tók við pokanum gat hann aðeins draujað honum eftir gólfinu, en ekki lyft upp á tunnuna. Hann spurði hvort ekki ætti að skipta pokanum í tvennt og fara með í tveim ferðum. Nei, hafði Einar sagt, ég er góður ef þú hjálpar mér að koma honum á bakið.
Þegar það var búið, dáðist pabbi mikið að, hvað Einar var léttfetalegur með pokann á bakinu, þegar hann labbaði austur garðana, eftir að hafa séð hann glíma við pokann inni.
Einar mun ekki hafa þótt gengur í skipsrúm og segir sig því sjálft að tekjur munu hafa verið af skornum skammti hjá þeim hjónum og fátækt mikil, en til að halda sér uppi í erfiðleikunum mun Einar hafa haft einhverja hörku við tilveruna og er þetta til sannindamerkis um það: Einhverju sinni er Einar kom úr póstferð, hafði Kata farið að telja upp hvað blessað fólkið hafði gefið þeim. Þegar Einar hafði hlýtt á upptalningu Kötu, hafði hann sagt: „Ég held það sé rétt til þess, fyrst það getur það.“ Kata hafði sagt: „Mikil ósköp eru að heyra til þín, maður, en Einar svarað: „Ég sný ekki aftur með það, ég held það sé rétt til þess, fyrst það getur það.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti í byggingu.

Árið 1907 skeður svo það að fólk hér í Grindavík og jafnvel um allan Reykjanesskagann fær peninga í hendurnar fyrir vinnu sína. Þetta var í sambandi við að á því ári var Reykjanesviti byggður. Sennilega hefir þessi nýbreytni leyst úr læðingi það bezta sem í hverjum einstaklingi bjó. Einar póstur var þarna í vinnu á milli póstferða og einmitt þarna komu fram tvær vísur hjá Einari, sem næstar munu því að þola bragarreglur. Sú fyrri var svona:

Þorsteinn hvíti þar með ýtum gengur.
Oft hjá Dísu una kann,
ekki tala ég meira um hann.

Þórkötlustaðir

Einland í Grindavík.

Þessi Þorsteinn var Steini í Einlandi og munu allir eldri Grindvíkingar muna eftir honum, en Dísa var vinnukona á Stað hjá séra Brynjólfi Gunnarssyni.
Önnur vísa Einars frá vitabyggingunni og sú er meiri eftirköst hafði fyrir hann, var um mann úr Höfnum. Sá hét Ketill Magnússon og er vísan svona:

Ketill Magnús kallaður
kempan magtar stinna
Einu sinni á ævinni
hann ætlaði að fara að vinna.

Þetta þótti hitta, þannig að Ketill Magnús þessi hafi þótt heldur sérhlífinn við vinnu, en eftirköstin voru þau, að faðir Ketils Magnússonar var vel hagmæltur og sá gerði brag um Einar póst, svohljóðandi:

Þá Friðrik kóngur sigldi um sæ
og sá til Grindavíkur,
leit hann mann einn, langt frá bæ.
á leið til Keflavíkur.
„Cristiansen minn komdu hér“
kallaði sjóli glaður,
„líttu á hvernig labba fer
líkur dvergi maður.“
Christiansen með kíkirinn
kíminn glotti og sagði:
„Þetta er putti pósturinn
með prakkara látbragði.“
Ólafur með stóran staf
stendur upp úr fönnum,
en putti fer á kolsvart kaf
og kallast burt frá mönnum.
Póststjórninni skrifa skal
og skýra frá því betur,
ég held það mesta heimskuhjal
að hafa putta í vetur.
Eftirlaunin enginn fær
Einar þó að deyi,
en Ólafur í rósum rær,
svo raunum léttir eigi.

„Við köllum þetta hér í Keflavík, hús, en ekki bæ“, sagði Einar póstur við Grindvíkinginn
Keflavík
Ég man fyrst eftir Einari árin 1906 eða 1907, því hann kom alltaf að Húsatóftum þar sem ég er uppalinn. Raunverulega voru það hátíðisdagar, því Einar opnaði alltaf blaðatöskuna og skildi eftir öll blöð í Staðarhverfið, sérstaklega minnist ég blaðanna Lögbergs og Heimskringlu, sem pabba voru send öll póstár Einars, en í þeim voru mjög spennandi neðanmálssögur.
Þegar Einar var í póstferð, var full múndering hans blaðataska úr sverum striga, spennt um axlir og náði niður á rass á Einari, þá tösku mátti opna og skilja eftir blöð á viðkomandi bæi — 2. bréfataska, hana mátti ekki opna nema á bréfhirðingastöðum — 3. var lúður og þótti okkur strákunum það mikill merkisgripur og venjulega fengum við lúðurinn lánaðan til að blása í, en leyfðum okkur ekki að leita eftir að fá hann fyrri en farið var að bera á borð fyrir Einar og helst að hann væri byrjaður að borða.
Ég tel rétt að minnast á eina sérstaka minningu um Einar póst frá þessum árum, sem sýnir hvað lífsbaráttan var hörð, miðað við daginn í dag og einnig að Einar karlinn hefir ekki legið á liði sínu til sjálfsbjargar. Árið 1910 var kirkjan á Stað rifin. Hún var úr timbri og það var allt selt á uppboði. Á uppboðinu keypti Einar 10 eða 12 borð. Þau voru l0 eða 12″ og 8-12 fet á lengd.
Einar póstur.
Sem fyrri er sagt, fluttust þau Einar og Kata til Keflavíkur 1909 eða ’10 og árið 1910 var Einar farinn að byggja í Keflavík og borð þau er hann keypti úr Staðarkirkju, bar hann fyrst upp að Húsatóftum og geymdi þar og bar þau síðantvö og tvö til Keflavíkur, þegar hann var að koma að austan úr póstferðum. Ég og bróðir minn, Jón, minnumst þess, þegar Einar labbaði með borðin norður göturnar á Keflavíkurvegi, frá Húsatóftum. Göturnar voru um hnédjúpar meðalmanni, svo ekkert sást, nema borðin sem vögguðu sitt á hvað.
Niðurstaðan að áreynslu Einars varð svo sú, að hann kom húsi yfir sig og Kötu í Keflavík. Keflvíkingar voru á þeim tímum orðlagðir fyrirnafnagiftir og vitanlega var hús þeirra nefnt „Pósthús“. Með sínu pósthúsi fékk Einar um 3600 ferm. lóð og var eignalóð.
Einn öflugur peningamaður í Keflavík náði lóðinni undir sig, en hún er nú talin á 5-6 hundr. kr. ferm., svo hefði Einar lifað 40-50 árum lengur, hefði hann verið orðinn milljóneri. Í sambandi við hús Einars í Keflavík, hefi ég heyrt þessa frásögn: Grindvíkingur einn hitti Einar hjá húsi sínu eftir að það var byggt. Þeir hófu tal saman og þar kom að Grindvíkingurinn spurði Einar hvort þetta væri bærinn hans. Einar hafði svarað: Við köllum þetta hér í Keflavík hús, en ekki bæ.
Hér kemur svo síðasti kafli minn um Einar póst og hann er um það, þegar ég kynntist honum persónulega. Það gerðist þegar Grindavíkurvegurinn var lagður árin 1914 til 1917. Við vorum þar báðir öll árin, ég stráklingur, en Einar vitanlega fullorðinn.

Einar var ræðinn og laginn

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

Ég var hestasmali fyrsta sumarið, fór á fætur um 5 að morgni og átti að skila hestunum kl 7, þegar vinna byrjaði. Kl. 1 var skipt um hesta aftur. Þá voru morgunhestar fluttir, en kl. 2-3 átti það að vera búið og þá átti hestasmali að vinna til kvölds.
Einar póstur var venjulega látinn bera á börum á móti strákum og hann var sá sem ég bar venjulega á móti í þessum vinnutíma mínum. Einar var ræðinn og nokkuð laginn að segja frá, enda kunnugur langt út yfir það umhverfi, sem ég þekkti þá, en það sem mest sat í mér og gerði það að verkum að ég, stráklingurinn, fékk mig lítið til að gera grín að Einari að einhverju sinni er hann var að segja frá sínum uppvexti, endaði hann frásögu sína með þeim orðum, sem ég gleymi aldrei, en þau voru: „Ég ætla bara að segja þér það, að ég á engan þann óvin, að ég óski honum þess að búa við, það er ég átti í uppvextinum.“

Ég vinn það ekki fyrir heilagan anda…

Grindavíkurvegur

Búðastaður vegagerðarmanna við gerð Grindavíkurvegarins 1918 í Hrossabrekkum.

Öll árin í veginum var Einar í sér tjaldi, sýndist víst ekki heppilegt að hann væri innan um aðra sökum sinna sérkenna, en það vildi svo til, að hann var með í því tjaldi, sem ég var í þrjú seinni sumurin, svo ég vissi þess vegna svo vel hvað Einari leið. Öll haustin í veginum enduðu eins hjá Einari, þannig að þegar fór að gera rigningar, var ekki unnið í fasta rigningu, aðeins þegar gekk á skúrum, en Sigurgeir verkstjóri gekk eftir því, að allir væru í galla, þegar skúraveður var komið, en þá sagði Einar: „Það er enginn verri þótt hann vökni“. En þegar bleytur voru búnar að ganga nokkra daga og einar orðinn gegndrepa og allt í kringum hann í tjaldinu, þá var viðkvæði Einars: „Ég vinn það ekki fyrir heilagan anda að láta drepa mig“, og þar með var hann farinn. Sigurgeir sagði að svona hefði gengið öll sumur í restinni og Einar var alltaf farinn áður en vinnan raunverulega hætti.

Nokkur skáldaandi var yfir
Einari þarna í vegavinnunni, en
því miður man ég ekki nema
tvær vísur hans frá þessum
tíma. Þær eru svona:
Mangi langi, mjór og krangalegur
hleypur Voga horskur til,
hann í sogar veðrið sig.

Hin er svona:
Fjandans eru faularnir,
fullir með svik og pretti,
allir standa aularnir
undir sama kletti.

Stundum rann svona skáldskapur upp úr Einari, en vitanlega sat lítið af því eftir í manni.

Andskotinn hossi þér á hrossherðablaði

Kúadalur

Kúadalur í Grindavík.

Einar kom að jafnaði til að drekka kaffi í okkar tjaldi, því það var hitað fyrir allann hópinn og tvennt sem Einar sagði upp úr eins manns hljóði eða án þess að viðræður hefðu sveigt að því. Annað var að upp úr þögn sagði Einar: „Einu sinni var maður á Skálanum, sem ég réði við“. Við getum gert okkur í hugarlund að á bak við þessi fáu orð, sé raunverulega heil æfisaga lítilmagnans, sem undir niðri hafi fundið sitt getuleysi í sambandi við alla sem hann hafði umgengist. Hitt var eins til komið, að upp úr þögn sagði Einar: „Margt er það í koti karls, sem kóngs er ekki í ranni, og tvenn á ég hnífapörin.“ Þetta sýnir vitanlega takmarkalausa sjálfsánægju með sitt litla og má vera, að það hafi verið eitt af því sem gat haldið svona fólki uppi í lífsbaráttunni.
Síðasta minningin sem ég á af Einari pósti, frá vegavinnunni gerðist i Kúadal, rétt við Grindavík. Þá var Einar að fara vegna rigninga, eins og áður er sagt og hann var að labba af stað með sínar pjönkur á bakinu. Ég var að bera grjót á börum með stráki, sem nokkuð hafði strítt Einari. Þegar Einar fór framhjá, kallaði ég hvort hann ætlaði ekki að kveðja.
Jú, sagði Einar og kom og tók í hendina á mér, með viðeigandi formúlu, en labbaði svo af stað án þess að kveðja hinn, sem spurði þá hvort hann ætlaði ekki að kveðja sig líka, en þá svaraði Einar: „Nei, andskotinn hossi þér á hrossherðablaði helvítis árans kvikindið þitt.“
Þetta eru eiginlega síðustu kynni mín af Einari pósti. Hann mun hafa dáið einhverntíma milli 1920 og 1930, en hans ektakvinna dó á Karlsskála í Grindavík um 1934.“ – Guðsteinn Einarsson

Guðmundur Björgvin Jónsson segir frá Einari og hans fólki í bók hans „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“

Suðurkot í Vogum

Suðurkot

Suðurkot í Vogum.

Eftir aldamótin lét Benedikt [Pétursson] byggja upp gamla bæinn og var sá notaður til ársins 1927. Þá lét hann byggja það Suðurkot er nú stendur. Smiður að því húsi var Þorsteinn Árnason húsasmíðameistari úr Keflavík. Um 1930 fór að draga úr umsvifum Benedikts, enda var hann þá orðinn 63 ára. Þó hafði hann vertíðamenn í skipsrúmi hjá öðrum útgerðarmönnum, m.a. sjómann frá Skagaströnd, Kristmund Jakobsson ekkjumann, 34 ára. Árið 1944 hætti Benedikt búskap og tóku þá Guðrúnu dóttir hans og Kristmundur við og bjuggu þau í sambýli uns Kristmundur lést árið 1976. Guðrún bjó ein í nokkur ár eða þar til hún fór á elliheimilið Garðvang árið 1979 og þar er hún enn. Kristmundur vann síðustu árin, meðan heilsan leyfði, hjá íslenskum Aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli. Húsið Suðurkot var selt aðkomnufólki árið 1980.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Börn Benedikts og Sigríðar: 1) Guðrún Kristín, 2) Jón Gestur (látinn), einnig ólu þau upp Guðmund Marijón Jónsson sem var sonur Jóns Þorkelssonar og Mörtu Sigurðardóttur frá Flekkuvík.
Sigríður, kona Benedikts, var sem áður segir frá Vigdísarvöllum. Þar var selstaða frá fornu fari, en um 1830 var þar reist nýbýli og var það í byggð fram yfir aldamót. Þar var einnig hjáleiga er Bali hét. Um 1870 flutti Guðmundur Hannesson bóndi í Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, að Vigdísarvöllum með konu sinni Helgu Einarsdóttur. Þau voru þá nýgift og hún með 6 börn í ómegð frá fyrra hjónabandi. Eftir ár fluttu þau frá Vigdísarvöllum og að Ísólfsskála. Einar Árnason, sonur Helgu, kallaður Einar póstur, var vel þekktur í Grindavík og víðar um Suðurnes, fyrir dugnað þrátt fyrir að hann var ekki vaxinn eins og fólk er flest, og nokkuð sérkennilegur í háttum.
Að Vigdísarvöllum kom Sigríður Brynjólfsdóttir frá Árbæ í Landssveit, þá 14 ára, til föður síns, er þá bjó þar með þriðju konu sinni, og hafði hann átt dreng og stúlku með hverri. Hversu lengi hann bjó þar er mér ekki kunnugt. Síðasti ábúandi á Vigdísarvöllum mun hafa verið Ívar nokkur. Ég þekkti tvo syni hans, Bjarna, er réri margar vertíðir frá Vogum og víðar og hinn var Oddur, sem var lengi póstmeistari í Hafnarfirði og vel þekktur þar.

Heimildir:
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1978, Einar póstur… – Guðsteinn Einarsson, bls. 16-18.
-Faxi, 2. tbl. 01.03.1978, Við köllum þetta hér í Keflavík hús…-Guðsteinn Einarsson, bls. 16-17.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 40-41.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppu, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 248.
Faxi 1978

Arnarseturshraun

Gengið var um Arnarseturshraun frá megingígnum og stærstu hrauntröðinni fylgt til vesturs. Við hana eru m.a. nokkur hús vegarvinnumanna frá því að Grindarvíkurvegurinn var gerður á árunum 1914-1918.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Arnarseturshraun, sem er apalhraun að mestu, er á leiðinni til Grindavíkur. Efsta bungan á veginum nefnist Gíghæð og er Arnarsetrið, gígurinn, austan við hana. Hraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík eru ca. 2400 ára, en Arnarseturshraun er talið hafa runnið í Reykjaneseldunum árið 1226. Það er því eitt þeirra 12-15 hrauna á Reykjanesskaganum, sem runnu á sögulegum tíma.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur fyrrum – uppdráttur ÓSÁ.

Hraunið hefur komið upp á sprungurein og bráðin bergkvika runnið frá eldstöðinni eftir yfirborði jarðar og storknað. Það hefur hlaðist upp á eldra hrauni, líklega frá Skógfelli. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun flokkuð í apalhraun og helluhraun.
Apalhraun kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður.

Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Afstapahraun, sem einnig rann á sögulegum tíma, líklega á 12. öld. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum. Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. í Arnarseturshrauni, í Gígnum sunnan Þórðarfell, frá Rauðhól undir Vatnsskarði og Búrfelli ofan Hafnarfjarðar.

Helluhraun

Helluhraun.

Helluhraun eru hins vegar slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Nokkrir slíkir hellar eru í Arnarseturshrauni. Þegar hafa fundist um 15 þeirra, misstórir.

Gíghæð

Gamli Grindavíkurvegurinn um Gíghæð – uppdráttur ÓSÁ.

Á síðastliðnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa stjórnvöld bent á ferðamannaþjónustu sem vænlegustu leið okkar til nýsköpunar. Eldfjöllin draga til sín erlenda ferðamenn sem koma til þess að njóta ósnortinnar náttúru og fræðast um jarðfræðilega þróun landsins. Að „gera út á“ íslenska náttúru er meira í anda sjálfbærrar þróunar en að selja eldvörp í erlenda vegi.
Fjölbreytileiki íslenskra eldvarpa er eitt af einkennum landsins. Eldfjallaeyjan Ísland á engan sinn líka hvað varðar landslag, gosmyndanir og bergfræði. Þrátt fyrir ungan jarðfræðilegan aldur og tíða eldvirkni eru margar jarðmyndanir hérlendis mjög fágætar, einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Og þótt Íslendingar telji sig vera ríka af þeim eldvörpum sem skópu landið í aldanna rás þá ber að minnast þess að margar þessar jarðmyndanir eru afar sjaldgæfar og jafnvel einstakar, svo sem hinar mörgu eldborgir á Reykjanesskaganum. Samkæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á Reykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200–300 ár. Síðasta goshrinan gekk yfir á árunum 950–1240 en síðast runnu hraun á Reykjanesskaga árið 1226, þar má nefna Arnarseturshraun, Leitahraun og Eldvarpahraun.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/

Arnarsetur

Hrauntjörn í Arnarsetri.

Drykkjarsteinn

„Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan, er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum og vor fyrr á tímum eða stunduðu þar sjóróðra á vertíðum, lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna.
DrykkjarsteinnVið gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur um Drykkjarsteinsdal, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Liggur annar vegurinn áfram til Grindavíkur, en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa. Þar, sem vegirnir skiptast, er steinn sá, er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár, eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því, að í honum eru holur nokkurar, þar sem vatn safnast fyrir, og er svo sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn, er þarna áttu leið um, þar sem hvergi er vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði, og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta, er að Drykkjarsteini kom, og svaladrykknum sárlega fegnir. Var steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum, og var ekki laust við, að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið, hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestur langviðrum. Þó gat það borið við, að vatnið þryti í steininum, eins og þessi saga sýnir.
Skálar DrykkjarsteinsEinhverju sinni bar svo við sem oftar, að ferðamenn áttu leið um veg þennan. Ekki er þess getið, hvaðan þeir voru eða hvert ferðinni var heitið, en líklegra er, að þeir hafi verið á suðurleið. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið, svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk, er þeir kæmu að Drykkjarsteini. en er þangað kom, bar nýrra við, því að allar holurnar voru tómar, og engan dropa að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög, eons og vænta máti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækjabragðs, að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hann hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við, að holan var jafnan þurr, og það engu að síður, þótt rigningum gengi. Liðu svo nokkur ár, sumir segja aðeins eitt ár, að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan, einn síns liðs, og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans, að hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar, er farið var um veginn, fannst hann dauður undir Drykkjarsteini, og kunni það enginn að segja, hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.
Saga þessi er skráð eftir sögnum gamalla Krýsvíkinga og Grindvíkinga með hliðsjón af frásögn síra Jóns Vestamanns í lýsingu Selvogsþinga 1840 (Landnám Ingólfs III, 108). – Handrit Guðna Jónssonar magisters).“

-Sagan er í Rauðskinnu hinni nýrri, II. bindi, bls. 120-122.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Gunnuhver

Á ferð FERLIRs um svæðið austan Eldborga í Krýsuvík var góða veðrið notað til að staldra við hjá dysjum Herdísar og Krýsu. Konur þær er dysjarnar draga nöfn sín af hafa einungis, svo vitað sé, verið til í þjóðsögum. Útgáfur frásagnanna eru mismunandi, en þó er sumt sammerkt með þeim öllum. Herdís bjó í Herdísarvík og Krýsa bjó í Krýsuvík.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Í sögunum segir að konurnar hafi deilt vegna landamerkja og deilan endað, eftir að hvor um sig hafi lagt á landshagi hinnar, með því að þær drápu hvora aðra neðst í Kerlingadal neðan við Deildarháls. Þar eru nefndar dysjar þeirra. Milli dysjanna eiga að vera hin gömlu landamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.
Minjar og fiskur eiga margt sameiginlegt. Menn róa til fiskjar og skapa úr honum mikil verðmæti. Í framtíðinni verður einnig gert út á minjar sem þessar og úr þeim sköpuð mikil verðmæti. Ferðamennskan er vaxandi atvinnugrein. Á árinu 2003 komu t.a.m. 230.000 erlendir ferðamenn til landsins, með flugi og með Norrænu. Aukning á milli ára er um 12 – 14%. Búast má við að aukningin haldi áfram að öllu óbreyttu.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Ferðaþjónustan skilar nú um 13% útflutningstekna landsins, svipað og ál og kísiljárn. Aðeins fiskafurðir og önnur þjónusta ýmis konnar skilar meiru. Tekjur af ferðamönnum árið 2001 voru um 37.7 milljarðar króna. Aukningin hefur verið stigvaxandi.
Flestir ferðamannanna eru frá hinum Norðurlöndunum, þá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Kynjaskipting ferðamanna er 55% karlar á móti 45% konur. Flestir, eða um 55% að vetrarlagi og 75% að sumarlagi koma vegna náttúru landsins. Langflestir eru í fríi og koma á eigin vegum. Þeir fá upplýsingar um Ísland á Netinu, hjá Ferðaskrifstofum eða í bæklingum. Flestir heimsækja Geysi og svæði í uppsveitum höfuðborgarsvæðisins. Um 75% af þeim fóru í Bláa lónið og um 80% í náttúruskoðun.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Suðurnesin hafa verið vannýtt ferðamannaland þrátt fyrir að flestir ferðamanna koma þangað á leið sinni inn og út úr landinu. Í skýrslu Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu er m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Í skýrslu Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustsvæðum eru markaðssvsæðin skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.

Í skýrslu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
Í skýrslu samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.

Ferlir

Dásemdir í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Í skýrslu samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
Á ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.
Í 14 skýrslum Norrænu ráðherranefndarinnar er gert ráð fyrir mögulegri nýtingu menningarlandslags, búsetulandslags og menningarumhverfis í þágu ferðamennsku framtíðarinnar. Þar er gert ráð fyrir að minjar og saga verði í öndvegi og að líta eigi á minjarnar sem hluta af heild.
Þegar horft er á dysjar þeirra Herdísar og Krýsu annars vegar og til möguleika Reykjanesskagans í þágu ferðamennsku framtíðarinnar hinsvegar er ekki ástæða til annars en að vera bjartsýn.
Frábært veður.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Virki

Eftirfarandi er úr erindi Ómars Smára Ármannssonar um „Tyrkjaránið“ á Sagnakvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Í byrjun sumars 1627, eða fyrir 380 árum síðan, gekk allt sinn vanagang hjá Grindavíkurbændum. Vorverkunum var lokið og fé hafði verið fært til selja. Fólkið var að dytta að húsum og görðum á milli róðra, spjalls og sagna. Útvegsbændurnir voru vanir báts- og skipaferðum enda Grindavík þá einn helsti útgerðar- og verslunarstaður landsins. Þess vegna er kannski ekki svo víst að sigling skips (sumir segja tveggja skipa), sem nálgaðist snemmmorguns þann 20. júní, hafi vakið svo mikla athygli, venju fremur. Grindvíkingar áttu ekki von á neinu nema góðu úr þeirri áttinni, a.m.k. ekki síðustu 95 árin.
Viðburðurinn mikli ofan við Bótina aðfaranótt 11. júni 1532 er Bessastaðavaldið leiddi heimamenn ásamt Njarðvíkingum, Hafnfirðingum og þýskum frá Básendum mót Engendingum og drápu á þriðja tug þeirra hefur eflaust verið flestum gleymdur. Og ekki má telja líklegt að Grindvíkingar hafi reiknað með óvinum í þeim tilgangi, sem raunin varð á, eftir svo langa friðsemd.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir fyrrum.

Hansakaupmenn höfðu haft aðstöðu við þorpið og Grindavík hafði haldið stöðu sinni sem einn helsti verslunarstaður landsins. Hansakaupmenn keyptu hér fjölbreyttari vörur en Englendingar, til dæmis vaðmál, refaskinn, fjaðrir, rafabelti og skötubörð auk skreiðar og mun þetta hafa mælst vel fyrir. Þeir voru fyrst og fremst kaupmenn og má því ætla að þeir hafi kunnað betur að umgangast viðskiptavini en fiskimennirnir ensku. Tilskipun Danakonungs vegna Íslandsverslunarinnar 1602 hafði líka gefið ákveðin fyrirheit um friðsemd: „Svo og skulu þeir halda sig vingjarnliga, saktmóðugliga með góðri umgengni við landsins innbyggjara, bæði andliga og veraldliga, að enginn hafi með réttu yfir þeim að klaga.“
Framangreint er úr íslenskri þýðingu tilskipunar konungs frá 20. apríl 1602 um upphaf einokunarverslunar á Íslandi. Greinin fjallar um erlenda kaupmenn.
Með einokunarversluninni er átt við sérstaka gerð af verslunartilhögun sem var komið á fót á Íslandi árið 1602 og stóð í tæpar tvær aldir, fram til ársins 1787. Á árunum 1620-1662 hafði „Elsta íslenska verslunarfélagið“ Íslandsverslunina undir höndum í umboði Dankonungs. Að vísu varð hagnaður af vöruskiptaversluninni mikill, eða um 60%, en inni í þeirri tölu má telja flutningskostnað og mannahald. Þegar upp er staðið má segja að verslunin fyrir 400 árum hafi verið með svipuðum hætti og nú, að vöruúrvaldinu undanskyldu.
Það var sem sagt þann 20. júní 1627 að skip kom að Grindavíkurströndum. Annað skip gæti hafa haldið sig utar á meðan hitt leið að höfninni. Segir sagan að þá hafi skipverjar áður komið við í Krýsuvík, haldið upp Ræningjastíg í Heiðnabergi, hitt fyrir selsstúlkur í seli ofan við bjargið og síðan fylgt smala eftir upp að kirkju þar sem síra Eiríkur á Vogsósum var við messu. Það var á sunnudegi.
Íbúafjöldinn í Grindavík hefur verið nálægt 180 manns. Búðir kaupmannsins danska stóð þá í Járngerðarstaðalandi, eða fram til 1639 er hann flutti að Básendum eftir að hafís hafði skemmt hafnaraðstöðuna. Áður hafði kaupmaðurinn haldið verslun við Húsatóftir þar sem hann síðan endurreisti búðir sínar ofan Búðarsands að nýju eftir 1664. Verslunarhús var reist á Búðarsandi 1731.
Flestir voru uppteknir við morgunverkin þennan júnímorgun árið 1627. Á Járngerðarstaðasundinu, sennilega utan við Suðurvör (Fornuvör) og Norðurvör frekar en í Stóru-Bót, lá danskt kaupskip. Aðkomumenn sendu þangað bát til að meta aðstæður. Á meðan sendi Lauritz Bentson, Grindavíkurkaupmaður, átta Íslendinga á báti að aðkomuskipinu. Þeir fóru um borð í skipið. Upplýst varð að fátt væri um varnir í landi. Foringi „Tyrkjanna“, Amorath Reis, fór með þrjátíu vopnaða menn í land. Þeir byrjuðu á því að hertaka danska skipstjórann og tvo menn með honum, rændu kaupmannsbúðina, en kaupmaður flúði og með honum aðrir Danir. Þá sneru „Tyrkir“ sér að Grindvíkingunum.

Tyrkjabyrgi

Svonefnd „Tyrkjabyrgi“ í Sundvörðuhrauni.

„Tyrkirnir“ skunduðu eftir sjávargötunni heim að Járngerðarstöðum. Þeim lá á því þeir gátu alveg eins átt von á að kaupmaðurinn snéri aftur með lið manns. Í bænum gripu þeir Guðrúnu Jónsdóttur, konu Jóns Guðlaugssonar. Hún var borin nauðug frá bænum. Í götunni kom þar að bróðir Guðrúnar, Filippus. Þegar hann reyndi að koma henni til hjálpar var hann barinn og skilinn eftir hálfdauður. Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar, bar þá þar að ríðandi. Tóku „Tyrkir“ hestinn af honum og stungu. Lá hann óvígur eftir.
„Tyrkir rændu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, tóku Halldór Jónsson, bróður Guðrúnar og þrjá sonu hennar, Jón, Helga og Héðinn, en bróðir hennar, Jón, hafði verið einn af þeim átta, sem fóru að finna skipið í upphafi. Jón Guðlaugsson, bónda á Járngerðarstöðum ráku „Tyrkir“ til strandar með sonum hans og Halldóri, en vegna þess að Jón var þá orðinn aldraður maður og veikur gáfu þeir hann lausann er hann féll við í fjörunni. Stúlku eina, Guðrúnu Rafnsdóttur, tóku þeir og með húsfrúnni á Járngerðarstöðum og færðu til skips.

TyrkirFólkið hafði ekki talið að ræningjarnir myndu sækja í fólkið heldur einungis að fjárstuldir myndu verða. Raunin varð hins vegar önnur.
Á útleið ginntu „Tyrkir“ hafskip á leið til vesturs til sín með fölsku flaggi. Þeir hertóku það skip, sem var kaupfar er sigla skyldi á Vestfjörðu. Kaupmaðurinn hét Hans Ólafsson. Fólkið var allt rekið ofan í skip, íslenskt og danskt, og sett í hálsjárn með hlekkjarfestum. Áður en „Tyrkir yfirgáfu Grindarvíkursjó gáfu þeir tveimur mönum, sem höfðu verið um borð í skipsbátnum, burtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og réru til lands. Eftir þetta fóru ræningjarnir burt frá Grindavík.
Þennan morgun var 12 Íslendingum, þarf af helmingur Grindvíkingar, og þremur Dönum rænt í Grindavík, auk áhafnarinnar á kaupfarinu utan við víkina. Af Íslendingunum hertóku ræningjanir húsfrúnna á Járngerðarstöðum, bróðir hennar og þrjá syni, auk stúlkubarnsins, allt heimilisfast fólk á Járngerðarstöðum. Afdrif Grindvíkinganna, sem rænt var, urðu með ýmsu móti. Þau Guðrún Jónsdóttir og Halldór bróðir hennar voru aðeins skamma hríð í þrældómi í Alsír. Komust þau til Danmerkur 1628 og heim til Íslands með vorskipunum sama ár.

Sögukort við Járngerðarstaði

Guðrún giftist nokkru síðar síra Gísla Bjarnasyni á Stað, en þá var maður hennar, Jón Guðlaugsson látinn. Halldór, bróðir hennar samdi rit um Tyrkjaránið. Um afdrif Guðrúnar Rafnsdóttur er ekki vitað. Árið 1630 skrifuðu þeir bræður Jón og Helgi foreldrum sínum bréf og vour þeir þá vegnir þrælar. Helgi varð frjáls eftir fjársöfnun 1936. Komst hann heim og kvæntist Guðbjörgu Gísladóttur. Settur þau saman bú á Járngerðarstöðum og bjuggu þar þangað til Helgi lést árið 1664.
Jón bróðir hans, Héðinn og Jón Jónsson, móðurbróðir þeirra, hvíla sennilega í afrískri mold. Sama gildir um bátsverjana fimm, sem reru út að ræningjaskipinu örlagamorguninn 20. júní 1627.
Eftir atburðina í Grindavík, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum urðu Íslendingar mjög óttaslegnir næstu aldir á eftir yfir mögulegri endurkomu ræningjanna.

Grindvíkingar hafa m.a. minnst þessa með því að setja upp söguskilti á vettvangi atburðanna 20. júní 1627. Á því má lesa um atburðarrásina og afdrif þess fólks, sem þar kom við sögu.

Sýnilegar minjar:

-Fornavör (Suðurvör)

Grindavík

Grindavík.

Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir Járngerðarstaðahöfninni. Var sendur frá því bátur að dönsku kaupskipi er þar lá og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.

-Skipsstígurinn
Ræningjarnir hófu að ræna búðirnar og síðan byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólkið, er féll í hendur þeim. Ræningjarnir drógu húsfrúna ásamt þremur börnumhennar og bróður stíginn niður að skipinu og særðu bræður hennar tvo á leiðinni. Eiginmaðurinn, aldraður og veikur, var skilinn eftir í fjörunni.

-Járngerðarleiði
Ræningjarnir hafa líklega gengið framhjá leiði Járngerðar við Sjávargötuna.

-Járngerðarstaðir
Dæmigerð bæjarhús frá byrjun 17. aldar. Útlendingar hafa varla borið mikla virðingu fyrir því sem fyrir augu bar þótt húsin hafi eflaust verið vegleg á íslenskan mælikvarða.

-Staður
„Tyrkirnir“ virðast hafa haft augastað á Stað og Húsatóftum, enda bæirnir sennilega vel greinilegir frá frá. Ræningjasker bendir til þess að þeir hafi a.m.k. reynt landgöngu, en engar heimildir erum um að þeir hafi komist alla leið, enda um drjúgan veg að fara fyrir þá sem reynt hafa.

-Ræningjasker

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Þar sem Staðarberg endar að austanverðu eru Bergsendasker. Litlu austan við þau eru Ræningjasker. Herma sagnir að þar hafi sjóræningjarnir frá Alsír gengið á land.

-Nónvörður
Upp af austanverðu Staðarbergi, ofan og vestan við Húsatóptir eru þrjár vörður, sem kallaðar hafa verið Nónvörður og voru eyktarmark frá bænum. Hermir sagan að þær hafi Staðarklerkur, sem þá var síra Gísli Bjarnason, hlaðið, er sást til ræningjanna. Á hann að hafa mælt svo um, að Staðarhverfi skyldi aldrei rænt á meðan vörðurnar stæðu, auk þess sem hann ku hafa gengið svo frá þeim, að „Tyrkjum“ sýndist þar vera her manns og sneru frá hið bráðasta. Er þarna vitnað í Guðstein Einarsson og Gísla Brynjólfsson.

-Gíslavarða

Gíslavarða

Gíslavarða utan við Stað.

Aðrir segja að varða sú, sem er á hraunhól vestan við Stað og gefur hið ágætasta útsýn, sé varða sú er síra Gísli lét hlaða til varnar „Tyrkjunum“. Mælti hann svo á um að meðan hún stæði óröskuð myndi Grindvíkingum óhætt. Svipuð álög munu hafa verið á Eiríksvörðu á Svörtubjörgum ofan við Selvog og sagan svipuð.
Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.
Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska. (Rauðskinna)

-Sundvörðuhraunsbyrgin

Hraun

Dys við Hraun.

Til eru gamlar sagnir af Staðhverfingum er nýttu Eldvörpin til brauðgerðar. Bæði er að þarna hefur verið miklu mun meiri hiti fyrrum auk þess sem stígurinn í gegnum hraunið að þessum hluta Eldvarpa heitir Brauðstígur. Ummerki inni í hellinum benda og til brauðgerðar.
Í krikanum og upp á hraunöxlinni að sunnanverðu eru um tugur hlaðinna byrgja. Þau fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Sumir segja að byrgi þessi hafi verið aðsetur útilegumanna, en aðrir segja að í þeim hafi fólk dulist um sinn eftir að Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627. Byrgin eru fremur lítil, aflöng og þröng. Eitt kringlótt byrgi er uppi á hraunbrúninni og önnur þar hjá. Hlaðin refagildra er framan við syðstu byrgin.
Ef einhver eða einhverjir hafa viljað dyljast þarna um sinn væri það tiltölulega auðvelt. Fyrir ókunnuga er mjög erfitt að finna staðinn, auk þess sem hann fellur vel inn í landslagið. Þótt mosinn hafi sest á byrgin og hraunið í kring er líklegt að þau hafi engu að síður fallið vel inn í landslagsmyndina þá og þegar þau voru gerð.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðurhrauni.

Eftir að hafa skoðað mörg byrgi á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. ofan við Húsatóttir, í Strýthólahrauni, í Slokahrauni, austan við Ísólfsskála, á Selatöngum, við Herdísarvík og við gömlu Hafnabæina er að sjá sem margt sé líkt með þeim. Svipað lag er á þessum byrgjum og t.d. í Slokahrauni og við Herdísarvík. Því er ekki útilokað að byrgin undir Sundvörðuhrauni hafi um tíma verið ætlað eða þjónað þeim tilgangi að varsla þurrkaðan fisk eða annan varning frá Húsatóttum. Á móti mælir að önnur þurrkbyrgi á Skaganum eru við sjávarsíðuna, en þessi talsvert langt uppi í landi. Hins vegar má geta þess að hreppsstjórinn hafði aðsetur á Húsatóptum og eitt helsta verkefni hans var fátækrahjálp og samtrygging ef eitthvað bar út af. Þarna gæti því hafa verið forðabúr hreppsins. Refagildran við byrgin, sem að öllum líkindum er jafngömul þeim, segir þó sína sögu.
Engin ástæða er til að draga úr tilgátum manna um aðra notkun og tilgang, sbr. framangreint, enda má telja líklegt að fólk hafi dvalið, eða hafi ætlað að dvelja þarna í skjóli hraunsins, ekki síst í ljósi þess að mannvistarleifar hafa fundist þar á öðrum stöðum í nágrenninu.

Hraun

Dys við Hraun.

-Útilegumannahellir Eldvörpum

Brauðhellir

Hleðslur í Brauðhelli í Eldvörpum.

Mannvistarleifar eru í svonefndum „útilegumannahelli“ í Eldvörpum. Þar eru nokkrar yfir 20 metra langar hraunrásir. Á einni þeirra er lítið gat, hleðsla, rásir upp og niður og inni greinilegar mannvistaleifar. Í efri rásinni er steinum raðað skipulega eins og þar hafi verið mynduð tvö fleti. Sjálf rásin er mjög aðgengileg og náði upp hraunið um 15 metra. Hliðarrás er í henni, falleg rás. Niðri er góð hraunbóla og inni í henni hleðslur. Hlaðið hefur verið fyrir op og framan við það er skeifulaga hleðsla. Bólan er um 6 metrar þannig að þessi rás er yfir 20 metrar. Ummerki í þessum helli er svipuð og í Brauðhellinum svonefnda. Hraunhellurnar eru ekki úr hellinum sjálfum. Þær hafa greinilegar verið færðar þangað og raðað upp í einhverjum tilgangi. Eflaust mætti finna fleiri mannvistarleifar á þessu svæði ef vel væri að gáð og hugsanlega komast að því til hvers og hvenær það var notað.

-Skipsstígur
Þjóðleiðin minni Grindavíkur og Njarðvíkur. Þá leið mun kaupmaðurinn danski í Grindavík sem og lið hans að öllum líkindum hafa flúið, enda ókunnugt staðháttum við ofanverða byggðina.

-Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Norðan og vestan við Lágafellið er Dýrfinnuhellir. Segir Tómas Þorvaldsson frá því í einni bóka sinna að sögn hafi verið um að samnefnd kona hafi flúið þangað með börn sín eftir að „Tyrkirnir“ komu að Grindavík og fóru ránshendi um byggðalagið. Á hún að hafa hafst við í hellinum um tíma. Þá er ekki ólíklegt að vegavinnumennirnir á Skipsstíg hafi nýtt hellinn sem skjól. Gegnumgeng braggalaga hraunbóla er þarna skammt norðar, vinstra megin við stíginn. Hleðsla er við annan endann. Ekki er ólíklegt að ferðalangar og vegagerðamenn hafi einnig nýtt sér það sem skjól um tíma.
Dýrfinnuhellir er hins vegar rúmgóður, en ekki mjög hár til lofts. Hann hefur hins vegar veitt ágætt skjól þeim, sem í honum dvöldu. Þykkt lag af sandi er í gólfinu. Skammt frá honum er annar hellir, ekki síður ákjósanlegt skjól. Innhellar hans eru víða lágir. Sandur er í botninum.
Handan við stíginn, skammt frá er hins vegar mjög fallegur hellir, eða m.ö.o. stór hraunbóla. Botninn er alveg sléttur og hlaðið hefur verið upp í kantana. Opið er fremur lítið og að mestu þakið mosa. Mjög góður felustaður. Niðurstigið hefur verið lagað til. Þarna er mjög gott skjól fyrir marga menn. Ef lýsingin hefði ekki verið svo nákvæm af staðsetningu Dýrfinnuhellis væri raunhæft að ætla að þarna hafi fólk getað hafst við um tíma og það með góðu móti.

-Gíslhellir

Gíslhellir

Gíslhellir.

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel.“
Gíslhellir er fundinn.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.
Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.

Grindavík

Bær í Grindavík.

Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir, en nafnið gæti þó hafa breyst, eins og mörg dæmi eru um. Hellirinn gæti heitir eftir prestinum á Stað, Gísla Bjarnasyni, er uppi var á tímunum um og eftir Tyrkjaránið. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins, s.s. væntanlegum felustað ef þurfa þætti. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell, sem er ekki langt frá.

-Efri-Hellir

Tyrkjahellir

Sigurður Gíslason sýnir op Tyrkjahellis á Efri-Hellu.

Segir sagan að í helli þennan hafi Grindvíkingar ætlað að flýja kæmi Tyrkir aftur. Var talið að hellirinn myndi rúma alla Grindvíkinga. Opið, eða öllu heldur opin, eru vandfundin suðvestan Húsafjalls.

-Hraunsdysin / kapellan

Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.

Kapella

Kapellan austan Hrauns.

Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.
Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík. Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Kristján Eldjárn gróf í “dysina” á Hraunssandi 1958. Þar reyndist vera kapella frá 14. eða 15. öld. Hann hafði mikinn áhuga á manngerðum hól vestan við Hraun, en gafst ekki tími til frekari rannsókna.

-Blóðþyrnir

Blóðþyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík.

Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.
Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. um Tyrkina í Grindavík “En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”

-Heiðanberg
-Ræningjastígur
-Selið
-Selstígurinn – varða
-Ræningjahóll
-Ræningjadys
-Krýsuvíkurkirkja
-Eiríksvarða

Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurbergi og gengu upp, þar sem heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu, og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Þá var sunnudagur, og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir, að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara, að hann væri í ræðustól, er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti: “Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað”.
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar, góðir menn?” Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja kom á túninu. Hann mælti til þeirra: “Farið nú ekki lengra, drepið þarna hver annan. Væri annar dagur eða ég öðruvísi búinn, munduð þið éta hvern annan”. Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll, en Ræningjaþúfur, þar sem þeir eru dysjaðir. Eftir það hlóð Eiríkur vöðru á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni (á Svörtubjörgum), að meðan hún stæði, skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn (1859).

Heimildir:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-Öldin okkar – Öldin sautjánda; 1601-1800; 1966.
-Guðsteinn Einarsson – 1960.
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn“, Saga 1995, bls. 110-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Frásagnir Brynjúlfs frá Minna-Núpi.
-Rauðskinna.
-Rit Björns Jónssonar frá Skarðsá um Tyrkjaránið.
-Sagnir, munnmæli, frásagnir og leiðbeiningar elstu núlifandi manna í Grindavík.

Svörtubjörg

Við Eiríksvörðu á Svörtubjörgum.

Hóp

Nú er svo komið að efri innsiglingarvarðan við Hóp þarfast aðhlynningar.
Varðan laskaðist í jarðskjálfta fyrr á árinu og æ síðan hefur grjót Neðri Sundavarðanverið að hrinja smám saman innan úr henni.
Innsiglingarvörðurnar inn í Hópið eru tvær, auk Hópsheiðarvörðu. Þær eru bæði miklar um sig og háar eftir því. Þegar Hópsrifið var grafið inn 1939 svo nota mætti Hópið sem lægi fyrir stærri skip (árabáta og vélbáta) voru vörðurnar hlaðnar. Þær hafa æ síðan verið eitt af meginkennileitum Grindavíkur – gulmálaðar í seinni tíð. Margir nafngreindir Gindvíkingar komu að hleðslunum. Þær er þó einungis ysta lagið, þ.e. það sýnilega, en að innanverðu eru vörðurnar kasthlaðnar. Það er ástæðan fyrir svo skjótri forfáun efri innsiglingarvörðunnar (skammt neðan við Austurveg). Í fyrstu hrundi ysta hleðslulagið og þá var ekki að sökum að spyrja – innvolsið fylgdi á eftir. Nú er svo komið að meir og meir hrinur innan úr vörðunni. Skammt er því að bíða að efri hluti hennar falli niður í heilu lagi – nema eitthvað verði að gert, t.d. með því að endurhlaða sárið og fylla að nýju.
Nokkru eftir að framangreint var skrifað hrundi úr neðri Hópsvörðunni, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.

Hópsvarða

Hópsvarðan neðri.

 

Jónsbásar

Eftirfarandi er úr erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín, sem hún hélt á Sagnakvöldi í Saltfisksetrinu 16. ferb. 2006 og nefndist „Sök bítur sekan„:

Staður

Klukknaportið í Staðarkirkjugarði.

Við strandlengjuna austast í landi Húsatótta skammt utan við Hvalvíkina eru Jónsbásaklettar en þar strandaði breski togarinn Anlaby 14. janúar 1902 og fórust allir sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl August Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899. Af þessum atburðum og af Carl Nilson spunnust margar sögur sem ég ætla að segja ykkur frá hér í kvöld og þá einkum þær sögur sem tengjast Grindavík og lítið hafa verið í sviðsljósinu fram til þessa. Við öflun heimilda styðst ég aðallega við kaflann frá Valahnúk til Seljabótar sem Guðsteinn Einarsson skrifaði í bókina Frá Suðurnesjum og kemur inn á þennan atburð og Staðhverfingabókina, Mannfólk mikilla sæva sem séra Gísli Brynjólfsson skrifaði. Feður beggja þessa höfunda koma við sögu. Faðir Guðsteins var Einar hreppstjóri á Húsatóftum og foreldrar séra Gísla voru séra Brynjólfur á Stað og frú Helga Ketilsdóttir.

Staður

Staðarströndin.

Árið 1999 þegar 100 ár voru liðin frá ódæðisverkinu á Dýrafirði var þess minnst þar og reistur minnisvarði um þá þrjá menn sem fórust í aðförinni. Eins var minnst á þetta ódæðisverk í fjölmiðlum 2004 þegar 100 ár voru liðin frá því að Íslendingar fengu heimastjórn og Hannes Hafsteinn varð fyrsti ráðherra Íslands. En fæstir þekkja söguna eftir að Carl Nilson kemur aftur til Íslands og ætlar að hefna sín á Íslendingum að talið var.Fyrir þá sem þekkja ekki fyrri söguna þá ætla ég í stuttu máli að rifja upp atburðinn á Dýrafirði. Carl Nilson var þá skipstjóri á breskum togara Royalist. Hann var við botnvörpuveiðar innan landhelgi, sem þá var 3 mílur, á miðjum Dýrafirði. Hannes sem þá var sýslumaður Norður-Ísfirðinga fór ásamt 5 öðrum til að ráðast til uppgöngu í togarann. Á þeim tíma voru varnir Íslendinga í landhelgismálum litlar og Englendingar notfærðu sér það. Nilson á að hafa komið til verslunarstjórans á Þingeyri nokkrum dögum áður og tekið út varning og ætlaði að borga síðar sem hann gerði ekki. Hann málaði yfir nafnið á togaranum Royalist svo aðeins sást oyalist til þess að blekkja menn. Skipsmenn á Royalist slepptu togvírnum að talið var þannig að báturinn sem Hannes var á hvolfdi og þeir lentu í sjónum og þrír drukknuðu en Hannesi ásamt tveimur öðrum var bjargað á síðustu stundu. Ekki samt að talið var fyrr en að menn í landi sem að sáu aðfarirnar með sjónauka réru að togaranum komu að. Sjónauki þessi er nú geymdur á Byggðasafninu á Ísafirði og kallaður lífgjafi Hannesar. Báturinn sem þeir Hannes voru á nefnist Ingjaldur og var síðast þegar ég vissi á sjóminjasafninu í Hafnarfirði. Um borð í Royalist var sjómaður frá Keflavík. Eftir atvikið sigldu þeir til Keflavíkur áður en þeir héldu til Englands og talið er að sjómaðurinn hafi tekið með sér fjölskyldu sína og flutt út. Nilson var síðan um haustið aftur tekinn við landhelgisbrot þá við Jótlandsskaga.
Hann var færður til Kaupmannahafnar. Fyrir tilviljun var póstbáturinn Laura sem var í ferðum milli Íslands og Danmerkur þar á ferð og Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri sem var um borð í áttaði sig á því að um sama skipstjóra var að ræða og í atvikinu á Dýrafirði. Nilson var dæmdur í fangelsisvist fyrir atburðinn á Dýrafirði en óljóst er hvort hann sat af sér dóminn eða ekki.

Jónsbásar

Jónsbásar.

Tveimur árum síðar var hann á leið til Íslands á nýjan leik er hann strandar við Jónsbáskletta við Grindavík. Svo sem oft vill vera í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta. Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax. Draumurinn var þannig að henni fannt að knúð væri dyra og 10 menn báðu um gistingu á Stað. Eitthvað leist henni illa á að hýsa svona stóran hóp og færðust undan því. En þeir sóttu fast á og svöruðu henni að Einar Jónsson hreppstjóri á Húsatóftum myndi sjá um þá. En þannig vildi til að Einar hreppstjóri sá um alla björgun og einnig um útför mannanna í Staðarkirkjugarði.

Enginn vissi þegar skipið fór upp. Sá sem fyrstur varð þess áskynja, var Björn, Sigurðsson vinnumaður í Garðhúsum. Hann var að ganga til kinda þegar hann sá rekald og dauðan mann. Talið var að han hafi verið með lífsmarki er í land kom, því hann lá ofan við flæðarmálið. Björn lét Einar hreppstjóra strax vita.

Staður

Jónsbás.

Helgi Gamalíelsson á Stað sagði að eftir ákveðna átt eins og var í þessu tilviki þá höfðu Staðhverfingar það til siðs að ganga á reka. Þennan dag var leiðindaveður og af einhverri ástæðu var það ekki gert en það hefði ef til vill geta orðið manninum til lífs. Höfðu Staðhverfingar það á samviskunni og fyrir vikið var ekki mikið talað um þennan atburð.

Úr skipinu rak 10 lík á rúmri viku en eitt líkið fannst ekki og var það talið vera af Nilson skipstjóra. Líkin voru flutt í Staðarkirkju og búið um þau þar og leitað eftir öllu til að bera kennsl á þau. Einn morguninn kom maður til Einars hreppstjóra, Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, og þótti honum maður koma til sín og biðja sig að fara til hreppstjóra og segja honum að hann vildi fá aftur það sem hafði verið tekið frá sér og hann sé norðast í kórnum. Einar tók drauminn bókstaflega þvi einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum í kirkjunni og var hann látinn á hann aftur.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Eitt fyrirbæri var sett í samband við strand þetta. Tveir ungir menn áttu þá heima á Húsatóftum. Þeir voru vanir að fara á kvöldin til fuglaveiða á báti út í Flæðikletta. Eitt skiptið heyra þeir undarlegt hljóð og þeir veltu því fyrir sér hvort að selir mundu geta hljóðað svona. En varla höfðu þeir sleppt orðinu er upphófst óskaplega langdregið og ámátlegt hljóð. Þeir flýttu sér í land og fóru aldrei út í Flæðikletta að kvöldlagi eftir þetta. Þetta fyrirbæri var sett í sambandi við Anlaby strandið og kallað ”náhljóð”.

Annað fyrirbæri var einnig sett í samband við strandið. Eitt kvöldið var Júlíus Einarsson frá Garðhúsum að fara að finna heitmey sína Vilborgu, dóttur presthjónanna síra Brynjólfs og frú Helgu Ketilsdóttur og var Júlíus ríðandi á þeirri leið. Þegar hann var kominn út fyrir síkið fyrir neðan og vestan túnið á Járngerðarstöðum nam hesturinn staðar, og var ekki unnt að koma honum úr sporunum, hvernig sem hann reyndi. Hesturinn gerði ekki annað en að prjóna og ganga aftur á bak. Hann stökk af baki og teymdi hestinn á eftir sér. Varð honum litið til hægri handar og sá þar gríðar stóran mann sem ógnaði honum eins og hann hygðist reka hann í sjóinn. Júlíus blótaði manninum og stóð honum mikill stuggur af honum. Maðurinn fylgdi honum mest alla leiðina en hvarf svo skammt austan við túnið á Stað. Júlíus var náfölur og brugðið við þennan atburð er hann kom á Stað. Flestum kom saman um að tengja þennan förumann við skipstrandið.

Staður

Klukka Anlaby í klukkuportinu.

Nilson gerði vart við sig á eftirminnilegan en jafnframt gleðilegri hátt. Þennan vetur 1902 eftir skipstrandið var vinnukona á Stað, sem ekki fór ein saman. Hana fór að dreyma Nilson, sem lét það ótvírætt í ljós að hann vildi vera hjá henni. Var ekki um að villast að hann var að vitja nafns. Vinnukonan ól son og hann var látinn heita Karl Nilson og fæddist á Stað 31. júlí 1902 og foreldrar hans voru Jón Tómasson og Guðbjörg Ásgrímsdóttir. Karl hinn íslenski var gæfumaður að því að ég best veit.

Flakið af Anlaby sást lengi út af Jónsbásklettum. Nú er það horfið með öllu nema ketillinn sem kemur upp úr við útsog á stórstraumsfjöru. Við útfarir í Staðarkirkjugarði er ennþá hringt úr skipsklukkunni úr Anlaby. Klukknaportið er nýuppgert og sómir sér vel í garðinum. Eins og þið hafið heyrt þá hafa ótrúlegar margar sögur spunnist út frá Nilson skipstjóra bæði við atburðinn á Dýrafirði og hér við Grindavík ég vona að þið hafið haft gagn og gaman af þessari samantekt.
Nilson átti ekki afturkvæmt til Íslands og má segja að hann hafi fengið makleg málagjöld er brimaldan við Jónsbáskletta söng honum sitt dánarlag og sannast þar máltækið sök bítur sekan í bókstaflegri merkingu.
Í ævisögu Hannesar Hafsteins (eldri útgáfu) vitnar höfundurinn, Kristján Albertsson. til skrifa í Lögréttu 1933 þar sem hann sgeir að „eitt lík rak höfuðlaust, og var talið vera Nilson; „hafði sennilega hákarl klippt af honum hausinn, en almenningur lagði út sem „æ´ðri stjórn“, og með réttu.“
Þessi saga Nilsons varð yrkisefni Jóns Trausta er hann orti kvæðiðVendetta en það þýðir blóðhefnd þ.e.a. vættirnir hefndu fyrir ódæðisverkið.
Að lokum flutti Áki Erlingsson ljóðið Vendetta er fjallar um atburðinn á Dýrafirði.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Sloki

Gengið var um Slokahraun eftir svonefndum Eyrarvegi er náði frá vesturtúngarðinum á Hrauni og með ströndinni út í Þórkötlustaðanes. Sigurður Gíslason á Hrauni, sem nú er orðinn blindur að mestu, lýsti leiðinni nákvæmlega áður en lagt var af stað. Með í för var sonur hans, Gísli Sigurðsson.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar lá Eyrarvegur austan við svonefndar Hrossbeinalágar. Ofan við þær er varða og hóll, Sögunarhóll. Þar undir lá gatan áfram inn á hraunið, yfir að Klöpp og síðan áfram suður í Nes. Bæirnir í Klöpp og Buðlunga stóðu framar í kampinum og var gatan skammt neðan við bæina sjávarmegin sem og Þorkötlustaði. Út frá ströndinni var um 500-600 m sandfjara, sem nú er horfin. Gatan fór síðan upp fyrir kampinn í Bótinni. Þar var nefnt Skarð, sem nú er fyrir neðan Sólbakka. Eftir flóðið 1925 flæddu bæirnir vestast í Þorkötlustaðahverfi og voru bæirnir í framhaldi af því færðir ofar á túnin. Fjörusandinum var síðar mokað í burtu (eftir 1930) og sjórinn hætti að fága steininn í Klapparfjörunni. Eftir það hafði hann einungis berar klappirnar til að leika sér að.
BuðlunguvörUndir kampinum neðan við Buðlungu eru Vötnin, en svo var sjá staður nefndur þar sem ferskt vatn flæðir undan klöppunum. Skiptivöllurinn var skammt austar, upp af Buðlunguvörinni. Næsta lón vestan við vörina hét Svalbarði. Hjálmar á Þórkötlustöðum lenti oft upp í Svalbarði á leið inn í vörina og braut þá skip sín þar meira og minna. Stórgrýti er undan klöppinni.

Byrgin og garðarnir vestan við Hraunstúnið eru minjar fiskverkunar frá Hrauni. Mannvirkin voru líka mikið notuð frá Skálholtsbiskupsstól. Garðarnir suður í Nesi voru einnig allir meira og minna byggðir frá Hrauni. Skálholt var jafnan með eitt eða tvö skip á Hrauni. Þau lentu einnig suður í Nesi eins og Hraunsskipin, en frá bænum voru einnig jafnan tvö skip úti Nesi.

Slok

Varða við Sögunarhól.

Sögunarhóll er þar sem varðan er. Rekaviðurinn úr fjörunni var sagaður þar úr rekanum. Voru menn stundum heilu dagana að saga og vinnan viðinn. Þeir geymdu sýru í vörðunni til að hafa eitthvað að drekka. Hún er hol á innan og þar var sýran geymd.
Þegar komið var að byrgjunum og görðunum austast í Slokahrauni mátti sjá að mannvirkin eru misheil. Hraunið er hins vegar mjög gróft og því hafa hleðslurnar haldið sér nokkuð vel. Þær eru á afmörkuðu svæði ofan við Markabás. Hann er landamerki Þórkötlustaða og Hrauns. Hádegisklettur er austan við Markabás og Hádegistangi fram af honum og út í sjóinn. Þá kemur Skarfaklettur, en hann er sennilega best sýnilega kennileitið í fjörunni. gengur talsvert langt út í sjó.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á strandsstað.

Við Skarfaklett hafa orðið tvö skipsströnd svo sögur fara af. Hinn 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan undir tanganum. Skipverjar björguðust og komust inn í Blásíðubás um síðir. Franski togarinn Cap Fagnet strandaði sunnan undir Skarfatanga aðfararnótt 24. mars 1932. Þá varð einnig mannbjörg, en strandið varð frægt í sögu björgunarsveitarinnar í Grindavík, vegna þess að þá voru í fyrsta skipti notuð fluglínutæki, og tókst notkun þeirra sem best varð á kosið. Þrjátíu og áta mönnu var bjargað í land. Nokkur eftirmáli urðu af strandinu, sum harla spaugileg.

Slok

Slokahraun – fiskbyrgi.

Vestar í hrauninu eru aðrir garðar, sumir verulega háir. Þessir garðar voru notaðir af austurbæjunum í Þórkötlustaðahverfi, en auk Klappar, Buðlungu og Þórkötlustaðabæjanna þriggja má þarna telja Einland, Móa og nokkur kot, s.s. Hraunkot. Þessir garðar voru einnig notaðir til fiskverkunar.
Til er lýsing á flóðinu mikla árið 1925. Þá urðu bæirnir við ströndina umflotnir vatni, fiskur og þang flutu langt á land upp og hús brotnuðu í atganginum. Á einum bæjanna rifnaði fjósið frá og sjá mátti þarfanautið fljóta baulandi á brott út í iðuna á bás sínum. Eftir þetta voru bæjarhúsin færð lengra á land upp, sem fyrr segir í lýsingu Sigurðar.

Eyrargata

Eyrargata.

Út af Slokanum er talið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Þá fórst Þuríður formaður þar með allri áhöfn. Slokin draga nafn sitt af slokrhljóðinu er sjórinn skellur undir hraunhellunni, sem hann hefur safnað lábörðu grágrýtinu upp á í háan kamp.

Þegar Eyrarvegurinn var genginn til vesturs, í eins líkum farvegi og unt var, mátti vel gera sér í hugarlund hvernig sjómennirnir gengu þessa leið árla morguns fyrr á öldum, hljóðlega og án óþarfa skrafs, sem einkennir suman nútímanninn, í einfaldri röð og sá fremsti haldið á lukt með kolu í. Lagt hefur verið af stað um kl. 4 að morgni og gangan út í Þórkötlustaðanesið varaði í u.þ.b. klukkustund. Þegar staldrað var við á Slokatá, austast á Slokanum, og litið til baka mátti næstum því sjá sjómennina líða þar um veginn, hægt og hljóðlega.
Frábært veður. Birtan var ógleymanleg. Þetta var eitt af þeim augnablikum lífsins, sem aldrei gleymast.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

S-ið

Haldið var í S-ið, helli í Núpshlíð, upptökum Ögmundarhrauns í vestri. Ekki er langt síðan að sást niður í myrkur um þröngt gat á hálsinum. Snjór var í botninum, en hvergi veggi að sjá. Nú var stigi með í för og var ætlunin að fara niður um opið og kanna innihaldið.

S-ið

Í S-inu.

Björn Hróarsson, hellafræðingur nr. 1, fór fyrstur niður í hellinn. Hann er sennilega fyrstur núlifandi af u.þ.b. 6 milljarða manna á þessari jarðkringlu til að líta hann augum. Hann fetaði öruggum skrefum niður um opið og hvarf.
Þegar niður var komið blasti við litardýrð og mikil klakalistaverk niður úr veggjum. Þarna var greinilega hvelfing undir gosgíg, vel rúmgóð. Kannað var um hugsanlegar rásir út úr henni, en engar fundust að þessu sinni. Þess bera að geta að hvelfingin var rúmlega hálffull af snjó og því erfitt að leita utan í veggnum undir opinu.

Núpshlíð

Núpshlíð – gígar.

Gígurinn er dæmigerður gjallgígur á sprungurein. Reinin liggur samhliða landrekssprungunni og er hluti af u.þ.b. 25 km langri spungurein er nær alla leið að Gvendarselsgígum í norðri. Hið sérstæða við hellinn er það að hægt er að komast undir gíginn sjálfan og skoða innihaldið, þ.e. það sem öðrum er hulið þegar þeir berja gígin sjálfan augum.
Þessi hellir er ágætt dæmi um hvelfingar undir eða við gígop. Litirnir voru aðallega rauðir og brúnir. Áhugavert væri að setja stiga niður um opið og leyfa honum að vera þar svo vegfarendur gætu kíkt þarna niður og dáðst að jarðfræðifyrirbærinu.
Frábært veður.

S-ið

S-ið.