Tag Archive for: Grindavík

Rauðhólssel

Hér veður fjallað um „Seljabúskap á Suðurnesjum„. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árin 2004 um úrskurði Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarlands.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1781 er í XI. kafla fjallað um hverja kirkjusókn fyrir sig og m.a. fjallað um tölu og ásigkomulag bújarða. Um Krýsuvík segir m.a.: „Bær þessi er tvær mílur frá lendingarstað sínum og telst því fremur sveitajörð en sjávar. Landrými er mikið; … Jörðin er vel fallin til sauðfjárræktar og til mikils sauðfjárbótabús með yfir 1000 sauðfjár.
Um Staðarsókn í Grindavík segir Skúli Magnússon árið 1781: „Þarna eru býlin fast með ströndinni, og liggur ekkert engi eða slægjuland undir þau nema túnin ein, sem er eigi unnt að auka, … En 2 mílur í norðaustur frá byggðarlaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar selstöður. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli“.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Skúli Magnússon tekur fram um Kirkjuvogssókn árið 1781 að selstöður séu 1 1/2 mílu norðaustur frá bæjunum, en engar selstöður séu í Hvalsness- og Útskálasóknum. Hins vegar eru taldar selstöður í Njarðvíkursókn. Um Kálfatjarnarsókn segir Skúli: „Frá flestum bæjum eru selstöður uppi til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið bezta land til sauðfjárræktar, það er ég hefi séð á Íslandi, á fjögra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur frá sjónum upp að háfjöllunum, sem greina Gullbringusýslu frá Árnesssýslu. Þannig tekur svæði þetta yfir 8. fermílur“.
Geir Bachmann, prestur á Stað í Grindavík, samdi sóknalýsingu Staðarsóknar í Grindavík árin 1840-1841. Þar segir hann eftirfarandi um selstöðu Staðar: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík“.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Geir fjallar síðar nánar um selstöður í Staðarsókn í svari við 31. spurningu sóknarlýsinganna (selstöðum): „Þess er áður getið, að Staður eigi selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er all-grösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhver staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. … 32. Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.

Baðsvallasel

Baðsvallasel.

Síðar átti Geir eftir að kvarta undan ágengni nágranna sinna í sellandi eins og kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sem birtist í afmælisrit Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979. Þar segir: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760“. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis. Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Pétur Jónsson, prestur á Kálfatjörn, fjallar lítið um selstöður í lýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar árið 1840. Hann nefnir selstöðu frá Innri-Njarðvík, sem verið hafi við veginn frá Vogum að Grindavík, en síðar segir Pétur um Hvassahraun: „Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhrepps lögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru“.
Árni Óla blaðamaður samdi bók sem fjallar um Vatnsleysuströnd og Voga, Strönd og Vogar, og kom út árið 1961. Árni víkur þar á tveimur stöðum að seljum á svæðinu en getur ekki heimilda nema hann vitnar í seinna skiptið til frásagnar Benjamíns Halldórssonar: „Um alla heiðina eru rústir af gömlum seljum, … Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið lögð niður fyrir löngu“. …
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.
1. Selhólar heita skammt fyrir ofan. Voga. …
2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. …
3. Þórusel er skammt austur af Vogum. …

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá … og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, … Túnið var seinast slegið 1917.
5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún…
6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum). …
7. Gjásel er um 3/4 klukkustundargang frá Brunnastöðum. Þar eru glöggar seltóftir, en lítið seltún. …
8. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna eru margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. …

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

9. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. …
10. Knarranessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. … Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. Í miklum þurrkum hefir vatn þetta þornað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. …
11. Auðnasel er austur af Knarrarnesseli. Þar eru margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. …
12. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. … [Árni Óla segir engar seltóftir sjást þarna en virðist giska á að þarna sé selstaða Þórustaða, Fornuselshæðir, sem Jarðabók Árna og Páls nefnir].

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

13. Flekkuvíkursel eru um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, … Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, …
14. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, …
15. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. …
16. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu. Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. …

Sogasel

Sogasel.

17. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. …
Í áðurnefndri grein Guðrúnar Ólafsdóttur frá 1979 er gert ráð fyrir að selstöður, sem Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns nefnir og jarðir í Grindavíkurhreppi nýttu, hafi verið innan marka hreppsins. Miðar Guðrún við kort Landmælinga Íslands, blað 27, Reykjavík, útgefið 1977, og blað 29, Krýsuvík, gefið út 1969. Stangast það á við umsögn Geirs Bachmanns í sóknalýsingunni 1840-1841, sem segir Selsvelli í Strandamannalandi, og greinargerð Sesselju Guðmundsdóttur, sem oft hefur verið vitnað til hér að framan.
Guðrún telur hugsanlegt að ásókn Grindvíkinga í selstöðuna á Selsvöllum megi að einhverju leyti skýra með því að þeir höfðu ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öld. Þrjú nýbýli hafi risið í Krýsuvíkurlandi á 19. öld, öll í fyrri seljalöndum. Vigdísarvellir og Bali á Vigdísarvöllum og Fitjar í svonefndri Selöldu [sem er utan kröfusvæðis]. Telur hún ólíklegt að Krýsuvíkurbændur hafi leigt út selstöður eftir að þessi býli byggðust.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Guðrún Ólafsdóttir reynir að tímasetja hvenær selfarir í Grindavíkurhreppi hafi hætt og vitnar til bókar Gísla Brynjólfssonar, „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók” (útgefinni 1973) og Ferðabókar Þorvalds Thoroddsens (útgefinni 1913), en Þorvaldur kom að Hraunseli, Selsvöllum, Baðsvöllum og Vigdísarvöllum árið 1883. Samkvæmt því hefðu selfarir hætt milli 1850 og 1883. En í þjóðháttasöfnun árið 1976, hefði Magnús Hafliðason frá Hrauni (fæddur 1891) sagt foreldra sína haft í seli í Hraunseli og talið að því hefði verið hætt um 1890.
Svo virðist sem Grindvíkingar hafi enn haft í seli um 1870 ef dæma má af bréfum hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps 15. og 21. janúar 1870, sem telur mann, sem sýslumaður segir búsettan á Vigdísarvöllum, heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó að hann flytji sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hafi í seli á Selsvöllum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Eldborgargren

Hér á eftir verður fjallað um „Afréttarnot í Grindavík og Vatnsleysustrandarhreppi“ fyrrum. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar um sveitarfélögin frá árinu 2004.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 segir um Krýsuvík: „Afrjett fyrir jarðarinnar peníng nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð. En Jarðabókin getur ekki annars staðar um afrétt í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum“.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Um afrétt í Krýsuvík segir séra Jón Austmann í sóknarlýsingu sinni frá 1840: „Afréttarlönd í Selvogi er Heiðin háa, en í Krýsuvík fjöllin þar umhverfis.
Í lýsingu Staðarsóknar í Grindavík frá 1840-1841 segir Geir Bachmann prestur á Stað:
„Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.
Áður hefur verið nefnd kvörtun Geirs undan ágengni nágranna sinna í sellandinu sem kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur „Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi” sem birtist í afmælisriti Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979.

Selsvellir

Selsvellir.

Hér verður tekinn upp að nýju dálítill kafli.: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760. … Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …
Pétur Jónsson prestur á Kálfatjörn minnist ekki á afréttarnot í lýsingu sinni á Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknum árið 1840.

Hraunssel

Hraunssel.

Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: „Sumarbeit góð í seli upp til fjalla“ …
Til er upphaf fjallskilaseðils af Vatnsleysuströnd sem ekki verður tímasettur en er væntanlega í sambandi við fjárkláðaskoðun á síðari hluta 19. aldar þar sem fjáreigendum á Vatnsleysum og Flekkuvík er falið að smala Dyngjur og Fíflavallafjall og koma fénu á Selsvelli á fimmtudagskvöldi, þar sem fjáreigendur eiga að mæta það kvöld og smala næsta dag ofan fjallið og heiðina. Ekki er víst að af þessum seðli megi draga nokkrar ályktanir um smalanir á þessu svæði af því tilefnið mun líklega hafa verið sérstakt eins og áður var nefnt, þ.e. fjárkláðaskoðun.

Knarrranessel

Knarrarnessel.

Samkvæmt lýsingum á fáeinum jörðum á Vatnsleysuströnd í fasteignamati 1932 mætti ætla að sveitin hafi þá orðið sér úti um afrétt. Segir um Stóra – Knarrarnes II að það eigi rétt til upprekstrar í afrétt og Stóra – og Minni – Vatnsleysa eiga rétt til upprekstrar í afrétt sem er sveitareign. Hins vegar átti Traðarkot í Brunnastaðalandi ekki afréttarland.
Sveitarbækur Vatnsleysustrandarhrepps frá því um 1930 eru ekki tiltækar á Þjóðskjalasafni svo að ekki hefur verið hægt að ganga úr skugga um hvaða afréttarland geti verið um að ræða og raunar verður ekki séð af afsals- og veðmálabókum að þinglesinn hafi verið nokkur leigusamningur um afrétt á þessu svæði.
Árið 1941 keypti sýslunefnd Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar sem sumarbeitiland að undanskildu landi Hafnarfjarðarbæjar, sem bærinn hafði keypt fyrr á árinu 1941, öðrum afnotum landsins, ítökum, hlunnindum og náma- og hitaréttindum.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Elsta fjallskilareglugerð fyrir Kjósar- og Gullbringusýslu er frá árinu 1891. Þar segir í 1. grein: „Hreppsnefnd hvers þess hrepps, er afrjett á, skal annast um, að geldur fjenaður (hross, naut og sauðfje sje rekinn til afrjetta á þeim tíma, sem hentast er, eptir árferði og öðrum kringumstæðum. Hreppsnefnd hvers þess hrepps, sem engan afrjett á, skal ef unnt er, og hún álítur þess þörf, útvega hreppsbúum sumarhaglendi fyrir geldfjenað þeirra móti hæfilegu endurgjaldi úr hreppssjóði. Skulu þeir fjáreigendur skyldir til að reka fjenað sinn á hið fengna haglendi, sem að áliti hreppsnefndar ekki hafa nægilegt haglendi fyrir fjenaðinn heima“.
Í 6. grein eru ákvæði um að högun gangna skuli boðin með fjallgangnaseðli 3 vikum fyrir fyrstu fjallgöngur.
Næsta fjallskilareglugerð, 1896, kveður svo á í 1. grein: „Að svo miklu leyti sem heimalönd að áliti hreppsnefndar eru eigi nægileg til sumarbeitar, ber öllum, sem geldfjenað eiga, að reka hann til afréttar þar sem hann er, að öðrum kosti koma fjenaði sínum til göngu yfir sumartímann hjá öðrum, sem land hafa. Verði hlutaðeigandi óánægður með ráðstöfum hreppsnefndar, skal hlíta ítölu í landið. Sama gildir um þá, sem fjenað taka, ef þeir ofsetja í land sitt. Hreppsnefndin sjer um, að þetta sje ekki vanrækt“.

Selsvellir

Selsvellir.

Óbreytt ákvæði voru í fjallskilareglugerð frá árinu 1902 en Gullbringusýsla og Hafnarfjörður fengu eigin fjallskilareglugerð árið 1914. Þar segir í 2. grein: „Enginn má heimildarlaust reka sauðfjenað eða hross í land annars manns, nje heldur án leyfis hlutaðeigandi landráðanda eða hreppsnefndar ónáða fje á fjalli eða í annars manns landi“.
Hér virðist ekki gert ráð fyrir afréttum á viðkomandi svæði. Sama má segja um fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar frá árinu 1939, 4. grein: „Skylt er öllum grasbýlismönnum og fjáreigendum að smala sjálfir heimalönd sín og koma fénaði þaðan til allra lögrétta. Fjallskyldur er hver sá, sem fénað á eða hefir til umráða, hvort sem jörð hefir til afnota eða eigi. Hann er og skyldur að sækja fé til rétta innan sýslugirðingar eftir fyrirlagi hreppsnefndar eða bæjarstjórnar“. …

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Allnokkrar breytingar urðu í næstu fjallskilareglugerð Gullbringusýslu og Hafnarfjarðar árið 1965. Þá var fyrst tekið tillit til afréttarlands sýslunnar í Krýsuvík:
„1. gr. Sýslunefnd hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála í Gullbringusýslu og Hafnarfirði. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og framkvæmd mála þessara hver í sínum hreppi eða í samvinnu tvær eða fleiri saman, þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála að einhverju eða öllu leyti.
2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Afréttarnefnd, skipuð einum manni úr hverjum hreppi, hefur með höndum niðurröðun á fjallskilum á afréttarlandi sýslunnar í Krýsuvík. Nefnd þessi skal, eigi síðar en í 20. viku sumars hafa lokið störfum og sent hverju sveitarfélagi eða eftir atvikum fjallskilanefnd tilkynningu um hvað hverju sveitarfélagi (upprekstarfélagi) beri að leggja til fjallskila á þessu svæði. … Árið 1988 voru afréttar- og fjallskilamálefni Hafnarfjarðar aðskilin frá Gullbringusýslu með staðfestingu fjallskilasamþykktar fyrir Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Þar eru eftirfarandi ákvæði:

Kringlumýri

Kringlumýri undir Sveifluhálsi.

1. gr. Sýslunefnd Kjósarsýslu hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar og fjallskilamála í Kjósarsýslu, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ. Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og alla framkvæmd fjallskilamála í sveitarfélögum og í samvinnu þegar fleiri sveitarfélög hafa upprekstur og réttarhald sameiginlega. Verði ágreiningur milli sveitarstjórna út af fjallskilamálum sker sýslunefnd úr. Heimilt er sveitarstjórn að fela öðrum framkvæmd fjallskilamála.
2. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða lönd innan sýslunnar þar sem fé þeirra gengur saman, skulu sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli kjósa fjallskilanefnd til að sjá um fjallskil og vorsmalanir. …
3. gr. Öllum þeim sem jörð hafa til ábúðar eða umráða ber skylda til að smala land sitt á vorin eftir fyrirmælum sveitarstjórnar …
4. gr. Hreppsnefndum er heimilt að greina allt land í hreppum í heimaland og upprekstrarland, ef ástæður þykja til. Telst þá upprekstrarland, þar sem búpeningur gengur á sumrin en notast lítt eða ekkert á vetrum sökum fjarlægðar frá byggð.
5. gr. Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstrarland án leyfis
sveitarstjórnar.

Klofningar

Í Klofningum.

Nú er í gildi fjallskilasamþykkt fyrir Landnám Ingólfs Arnarsonar frá árinu 1996:
1. gr. Samþykkt þessi tekur til allra afréttar- og fjallskilamála í Árnessýslu vestan vatna, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og öllum kaupstöðum í Kjalarnesþingi, þ.e. allra sveitarfélaga eða hluta sveitarfélaga vestan Ölfusár, 2. gr. Hver sýsla er fjallskilaumdæmi sem skiptist í fjallskiladeildir eftir sveitarfélögum. Kaupstaður telst til fjallskilaumdæmis þeirrar sýslu sem kaupstaðarlandið hefur áður legið undir.
Héraðsnefndir hafa á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála, hver á sínu svæði. Sveitarstjórnir annast stjórn og framkvæmd þessara mála, hver í sínu sveitarfélagi, eða í samvinnu tvær eða fleiri saman þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum að fela öðrum, svo sem félögum sauðfjáreigenda, framkvæmd fjallskilamála, að einhverju eða öllu leyti.
3. gr. Eigi fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegt afréttarsvæði eða upprekstarlönd þar sem fé þeirra gengur saman, skulu viðkomandi sveitarstjórnir eða fulltrúar þeirra kjósa fjallskilanefnd til að sjá um lögboðin fjallskil …
5. gr. Upprekstarlönd eru afréttir og þau heimalönd sem leituð eru félagslega samkvæmt ákvæðum um fjallskil, sbr. 11. og 12. gr. V. kafla þessarar samþykktar. Skulu þau eingöngu nýtt til sumarbeitar. … Enginn má hafa til sérnota fyrir sig félagslegt upprekstarland án leyfis sveitarstjórnar. …
Engin umfjöllun er um afréttarmálefni í Gullbringusýslu í bókinni Göngur og réttir.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir – horft af Trölladyngju.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004): „Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990″.

Markhella

Markhelluhóll.

Lögð hefur verið fram lýsing Sæmundar Þórðarsonar á Stóru – Vatnsleysu á smalamennskum á Vatnsleysuströnd og Vogum sem stjórnað var af hreppsnefnd. Lýsingin er dagsett 27. október en án ártals. Segir hann bændur hafa smalað sjálfir heimalönd í Vatnsleysustrandarhreppi í sex einingum:
1. Hvassahraun (Hvassahraunsmenn smöluðu að Markhellu).
2. Vatnsleysubæir og Flekkuvík (í fyrstu rétt smalaðir Höskuldarvellir, farið upp Sog og vestur með Spákonuvatni og sigin norðan í Grænavatnseggjum og niður austan við Driffell og niður með Hrafnafelli, um Kolhól, Einiberjahól og Austari-Hrafnhól. Senda varð tvo menn til að smala tór sem liggja upp eftir Afstapahrauni, allt til Sóleyjarkrika. Með Flekkuvíkurmönnum var farið upp í Flekkuvíkursel og smalaður þríhyrningur, sem myndaðist milli Vatnsleysumanna og Kálfatjarnar- og Þórustaðamanna, milli Hafnhóla og Prestsborgar (Staðarborgar) og Keilisness. Þess hafi verið gætt að vera samsíða Kálfatjarnar-, Þórustaða-, Landakots og Auðnamönnum við smölun).
Kálfatjörn
3. Kálfatjörn, Þórustaðir, Landakot og Auðnar (Sæmundur nefnir það Þórustaðaleit en ekki hve langt þeir hafi smalað).
4. Knarrarnes.
5. Hlöðunes og Brunnastaðahverfi.
6. Vogar. (Sæmundur nefnir ekki hvert menn á svæðum 4 – 6 hafi smalað). Eftir að bílfært varð á Höskuldarvelli og upp í Eldborg og Sog hafi smalar verið fluttir á bílum upp eftir, og hafi allir nýtt sér það nema Brunnastaða- og Vogamenn. Á síðari árum hafi Brunnastaðamenn farið á bílum frá Ísólfsskála að Litla-Hrút og smalað þaðan til Brunnastaðaréttar. Smalamennskur í Krýsuvík hafi verið samstarfsverkefni Vatnsleysustrandarmanna og Grindvíkinga, réttað á Vigdísarvöllum á sumrum en rekið til Grindavíkur á haustum. Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki hafi verið lífæð beitar yfir sumartímann, jafnvel þótt stór hluti hafi verið í rækt og þar heyjað. Þar hafi alltaf verið rennandi vatn.

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – grenið.

Margrét Guðnadóttir frá Landakoti á Vatnsleysuströnd lýsir nýtingu heiðalandins í æsku sinni (8. maí 2004): „Fé hafi verið sleppt í heiðina löngu fyrir sauðburð og gengið þar afskiptalaust fram í júlíbyrjun þegar smalað var til þess að marka lömb og rýja ær. Smalar á Þórustöðum, Kálfatjörn og Landakoti hafi gengið Þórustaðastíg og heiðina langt upp fyrir Keili að hæð sem nefnist Melhól, þaðan sé ekki langt í Grænavatnseggjar á mörkum Þórustaða og Krýsuvíkur. Smöluð hafi verið heiðin frá og með Kálfatjarnarlandi að Breiðagerðis- og Knarrarnesslöndum“.
Enginn fjárbóndi var á Auðnum en bændur á innströndinni máttu nýta þeirra hluta af heiðarlandinu. Margrét segir Krýsuvík hafa verið komna í eyði þegar hún fór að muna eftir sér. Segir hún innstrandarbændur hafa á uppvaxtarárum sínum farið „í fjallið” á hverju hausti og verið viku í þeirri ferð, smalað allt Krýsuvíkurland og komist austur að Herdísarvík.

Klofningar

Klofningar – greni.

Lagt hefur verið fram skjal varðandi tófugreni sem Grindvíkingar hafa legið á um langan aldur eða unnið. Er þar sagt að Grindvíkingar hafi frá alda öðli legið á grenjum í Hraunsseli, Selsvöllum, vestur af Grænavatnseggjum og sunnan við Driffell. Gera má ráð fyrir að grenjavinnsla í Krýsuvíkurlandi hafi færst meir á hendur Grindvíkingum þegar byggð eyddist í Krýsuvík og minni fyrirstaða varð af fé úr Krýsuvík enda landið innan marka Grindavíkurhrepps fram yfir 1940. Hreppurinn hefur væntanlega borið ábyrgð á grenjavinnslu á svæðinu á meðan. Einnig má nefna að samkvæmt framkomnum upplýsingum nýttu Grindvíkingar Vigdísarvallaland til sumarbeitar og því meiri ástæða til þess að þeir legðu til menn til þess að liggja þar á grenjum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki.

Skógfellavegur

Hér verður fjallað um heimildir um svonefndan „Suðurnesjaalmenning„. Umfjöllunin er byggð á skýrslu Óbyggðanefndar um Grindavík og Vatnsleysustrandarhrepp árið 2004.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns Íslands má lesa eftirfarandi: „Í hinni prentuðu gerð Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er aftan við umfjöllunina um Vatnsleysustrandarhrepp neðanmálsgrein sem hefst á þessum orðum: Í Jarðabókinni er seðill og á honum þetta, sem á hjer við: „Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenníng tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur so norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunabæjanna og endast so norðan til, þar sem hann mætir Ásslandi,““ … Eftir orðanna hljóðan virðist sem Almenningurinn takmarkist af landi Hvassahrauns og Trölladyngjum og sé því ekki innan Vatnsleysustrandarhrepps.
Í greinargerð Þjóðskjalasafnsins er vakin sérstök athygli á því hvaða jarðir á Suðurnesjum hafi átt rétt til kolgerðar í „almenníngi” eða „almenningum” og vísað til orðalags í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Í Grindavíkurhreppi séu það Ísólfsskáli, Hraun, Þorkötlustaðir, Hóp, Járngerðarstaðir, Húsatóftir og Staður, þ.e. allar jarðir í hreppnum, hvort sem þær töldust eign Skálholtsstóls eða konungs, nema Krýsuvík, sem hafði eigin skóg en um það segir: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar.“ … Öll hlunnindi jarðarinnar, sem áður eru upptalin, mega hjáleigumenn allir nýta sjer hvör eftir efli og nauðsyn, nema reka einn; …

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel í Miðnesheiði.

Í Hafnahreppi voru byggðar jarðir annað hvort í einkaeign eða eign Kirkjuvogskirkju. Engin þeirra átti rétt til kolagerðar. Í Rosmhvalanesshreppi voru langflestar jarðir í eigu konungs; í byggð voru: Stafnes, Hvalsnes, Bursthús, Lönd, Másbúðir, Fúlavík (nú Fuglavík), Býarsker, Fitjar, Þórustaðir, Kirkjuból, Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Lambastaðir, Miðhús, Gerðar, Skúlahús, Gauksstaðir, Skeggjastaðir, Brekka, Varir, Kothús, Ívarshús, Meiðastaðir, Gufuskálar, Litli-Hólmur, Hrúðurnes, Stóri-Hólmur og Keflavík. Þær eru allar taldar brúka eða hafa skóg í almenningum til kolagerðar, nema Bursthús, Fitjar, Lambastaðir og Skúlahús, þar sem slíkt er ekki nefnt. Hins vegar eru kolskógarréttindi ekki nefnd við þær jarðir sem voru í einkaeign og voru: Uppsalir, Sandgerði, Flankastaðir, Krókur og Rafnkelsstaðir. Útskálar, sem voru staður (beneficium), eru ekki heldur með slík réttindi.

Kolhólssel

Kolhólssel í Vatnsleysuheiði.

Konungur átti allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi, nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík, sem voru eign Kálfatjarnarkirkju. Allar jarðir í hreppnum brúkuðu skóg til kolgerðar í almenningi/almenningum nema Hvassahraun, sem átti skóg: „Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jöðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti“. Raunar höfðu Stóruvogar átt skóg, sem þá var eyddur: „Skóg hefur jörðin átt til forna til kolgjörðar naumlega, nú er hann fyrir löngu so eyddur, að þar er valla rifhrís að fá, sem þjena megi so styrkur heiti til eldiviðar. Og hefur hún að frjálsu kolgjörð í almenníngum“.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll í Vatnsleysuheiði

Jarðir þær, sem konungur átti á Suðurnesjum, höfðu áður verið í eigu Viðeyjarklausturs, sem konungur sló eign sinni á, eða Skálholtsstóls. Hafði Skálholtsbiskup verið látinn skipta á jörðum við konungsvaldið með hirðstjórabréfi 27. september 1563.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes sem og Suðurnesjaalmenningur fyrrum.

Eins og áður var nefnt getur Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þess ekki, að þær fáu jarðir, sem voru í einkaeign á Suðurnesjum, ættu rétt til kolagerðar í almenningi, ekki heldur Útskálar.
Í lýsingu Grindavíkursóknar 1840-1841 telur séra Geir Bachmann Almenning vera mjög víðtækan. Hann segir í lýsingu sinni á hraunum í Grindavík: „Það er að segja um öll þau hraun, sem finnast í Grindavík, að þau eru til samans tekin angar eða afleiðingar af þeim svo kallaða Almenningi fyrir sunnan Hafnarfjörð og ofan Vatnsleysuströnd“.
Síðar segir Geir: „Þess er áður getið, að hraun þau, sem í sókn þessari eru séu afleiðingar af Almenningnum. Hann liggur, sem kunnugt er, milli fjalls og sjóar, suður alla Vatnsleysuströnd, fyrir ofan Vogana, Vogastapa og Njarðvíkur. … [Geir telur hraunin sem liggja vestur í Hafnir og suður í Grindavík til Almenningsins]“. … Þá er ennþá einn angi Almenningsins, sem skerst út úr fyrir sunnan Stóra-Skógfell, milli Svartsengis og Þorbjarnarfells að norðan, en Húsafells að sunnanverðu. Liggur sá armurinn fram í Þorkötlustaðanes.Ekki hefur fundist annar staður þar sem Almenningnum er svo lýst. Geir Bachmann var tiltölulega nýkominn til Staðarprestakalls, fékk kallið árið 1835, en hafði raunar dvalið í Keflavík frá árinu 1832.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í kjölfar þess að stiftamtmaðurinn á Íslandi komst að þeirri niðurstöðu að Almenningsskógarnir á Álftanesi væri ennþá í eigu danska konungsins skipaði hann svo fyrir að farin yrði skoðunarferð um svæðið til þess að kanna hvað af almenningnum væri beitarland og hvað skógland þannig að ákvarða mætti hvaða hluta hans hægt væri að friða. Áreiðin fór fram 2. júní 1848. Samkvæmt henni voru mörk skógarlandsins: „ad nedan byrjar þad nyrdst vid Kolbeinshæd, gengur svo til vesturs nidur ad Markhólum fyrir nordan Lónakotssel, hvar skógurinn endar mót sudri. Þó gengur skógartúnga þríhyrndt nidur frá Alfaraveginum. Hennar botn eda breidd er ad ofan, og gengur frá Laungubrekkum til sudurs ad Markhólum. Spordur skógarspildu þessarar endar í útnordri vid Brunnhólavördu skamt fyrir ofan Lónakot. ad nordan. gengur skógarlandid frá Kolbeinshæd til Landsudurs lángs med Kapelluhrauni og brunanum upp ad Stórhöfdastíg, þadan til sudurs í Fremstahöfda lángs med brunanum sudur ad „fjallinu eina” þadan til vesturs og útnordurs í krókum og hlikkjum alt nidur ad Markhólum. Alt þetta land, sem álítst ad vera 1 ferhyrnings míla ad stærd, vidurkenna allir þeir, sem mætt hafa, ad kallad sé med adalnafni (Generelt) Almenníngur. Landid er alt skógi vaxid, og er skógurinn ad nordann og ad ofan vída ílla högginn… Gjördarmannanna álit og meining er, ad sú nýnefnda skógarspilda upp frá Lónakoti ad alfaraveginum hljóti ad vera beitarland bædi vegna nærlægdar þess vid Lónakot og Ottarstadi, og líka hins, ad þetta skógarland er í sjálfu sér lítilfjörlegt. Þarámóti finna þeir ei ástædu til ad skipta hinu ödru hér ad framan tilgreinda skógarlandi í tvent, … Land þad alt beri ad álíta sem skóg, er frida beri….

Brennisel

Brennisel í Almenningum.

Eigendurnir af jördunum Þorbjarnastödum, Straumi, Ottarstödum og Lónakoti samt af Hvassahrauni athugudu ad selstöður þeirra lægju í því að framan tiltekna skógarlandi, og ad þar hefdi verið frá alda ödli, þótt med millibilum, haft í seli frá tedum jördum einsog þeir hefdu beitt fé sínu í þessu tilgreinda landi og yrkt þar skóg. Þeir geima ser því rett sinn í þessu tilliti um leid og þeir framleggja eitt bréf til Sýsslumannsins [í Gullbringu- og Kjósarsýslu]“ … Bréfið hefst á tilvísun í tilkynningu hans til eigenda Hraunajarða um áreiðina.
Síðan segir: „þar óckur eru ofann nemdar jarder seldar undann tekníngarlaust med öllumm Herlogheitumm gögnumm og gjædumm til ytstu Landa merki, ljka Sagdar ockar kaupenda, fullkomnasta eign þadann í fra – undann fillum vid því ecke hier underskrifader menn, ad begiöra af vidkomande Sýslumanne í sínu lögsagnar ummdæmi ad Seiga ockur enn Hrauna jarda landi Sem bruna Hraun Halda þad land kallast ad ödru nafne Almenníngur alt nidur ad sjó“. …. Einnig var framlagt bréf frá prestinum í Garðaprestakalli þar sem hann minnir á að nokkrum jörðum tengdum því sé í Jarðabókinni frá 1760 eignað skógarhögg í Almenningnum.

Draughólshraun

Í Almenningum.

Stuttu eftir að áreiðargjörðin fór fram voru tveir vitnisburðir um landamerki Hraunajarða skráðir niður. Sá fyrri var saminn þann 5. júní 1848 að beiðni eigenda Hraunajarða en þeir vildu fá upplýsingar um hvað ákveðnir aðilar vissu um eignir Hraunajarða og notkun þeirra. Samkvæmt vitnunum var það land sem afmarkaðist af svokölluðu brunahrauni áður fyrr kallað Hrauna pláss eða Almenningur. Það land höfðu allar Hraunajarðir nýtt sér. Hver jörð hafði sitt svæði samkvæmt ákveðnum landamerkjum.
Seinni vitnisburðurinn var saminn degi seinna að undirlagi Guðmundar Guðmundssonar, bónda í Litla – Lambhaga, eiganda jarðarinnar Straums. Í honum greina vitni frá því hvað þeim hafi verið sagt varðandi landamerki jarðarinnar og notkun ábúenda á henni. Þessi lýsing fer hér á eftir: „Landa mörk höfumm vid heirt ad væru þesse – ad nordann vid sio – úr Briniolfs skarde í Hádeigeshæd frá Straume ur Hadeig<is>hæd í þufu á austur enda midmunda hæd fra Þorbiarnarstödumm þadann beina stebnu uppa Hafurbiarnar Holt af þúfu á Hafurbiarnar Holte í Heimsta Höfda beint upp í bruna – ad sunnann – fra bruna firer ofann raud Hóla í nordasta Hraunhol beinastebnu í þufu á eiólfs hól sem er [sem er verður helzt lesið úr þessu orði] firer ofann steinhus þadann í nordur enda gvendarbrun<n>s Hædar So í nónhól af nonhól í Skip Hól þadann í markhól firer ofann vatna skier vid sjo“.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þann 7. júní samdi Guðmundur Guðmundsson bréf til sýslumannsins í Gullbringu– og Kjósarsýslu. Þar kemur fram að hann hafi haft samband við stiftamtmanninn sem hafi hvatt hann til þess að sýna sýslumanninum vitnisburðina tvo þannig að hann gæti kynnt sér þá áður en hann léti skoðunargerðina frá 2. júní frá sér fara. Í bréfinu kemur einnig fram að eigendur Hraunajarða telja sig eiga landsvæði það sem er afmarkað af brunahrauninu og að þeir vilji að skóglendi þeirra á landspildunni verði friðað.
Þremur dögum eftir að Guðmundur samdi bréfið til sýslumannsins, nánar tiltekið 10. júní, bað sá síðarnefndi stiftamtmanninn um að svara því hvort að fyrirhuguð friðlýsing almenningsskóga Álftaness gæti haft áhrif á nýtingarmöguleika Hraunajarða á því landi sem eigendur þeirra teldu sig eiga þar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þann 19. júní 1848 voru almenningsskógar Álftaness gerðir að friðlýstu svæði og öðrum en ábúendum Hraunajarða bannað nýta landið. Með yfirlýsingunni fylgdi lýsing á mörkum hins friðlýsta svæðis: „að neðan frá Kolbeinshæð alt suður að Markhólum að norðan frá Kolbeinshæð með Kapelluhrauni og brunanum að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs – í Fremstahöfða langs með brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs niður að Markhólum“.

Markraki

Markraki – markavarða.

Þann 21. júní 1849 samdi umsjónarmaður almennings Álftaness greinargerð um umsjónarsvæði sitt. Í henni var m.a. lýsing á þessu svæði: „Fyrst milli Garðakirkju fjall<l>lands, ur steinhusi suður í Markagil á Marraka eður undirhlíðum þaðan á Hæðstaholt, á Dauðadölum á annan vegur Dauðadölum norður í Húsfell af Húsfelli upp á Þríhnjuka þaðan á suðurenda Blafells, á milli afrjetta Alptanes og se<l>tjarnarneshreppa. A milli Gullbríngu og Arnessyslna af Bláfjöllum vestur á Kistufell. A milli Alptaneshrepps og almennings og Krísivíkur lands af Kistufelli niður á syðra Horn á Fagradals-brún þaðan í Marrakagil, so í þúfu á fjallinu eina þaðan í Helguflöt norðaná Buðarhólum. A milli jarðanna Heimalands og afrjettar af Buðarhólum eptir Buðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús“. …
Í yfirlýsingum dagsettum 12. og 24. júní 1865 kemur fram að umboðsmenn Hraunajarða hafi ákveðið að banna notkun á skógi þessara jarða. Samkvæmt yfirlýsingunni frá 24. júní liggur skógurinn fyrir neðan hinn svokallaða Almenning eftir þeim landamerkjum sem voru ákveðin við áreiðargjörð árið 1848. Yfirlýsingin frá 24. júní var þinglesin tveimur dögum síðar.

Snókalönd

Snókalönd – varða.

Hinn 12. september 1874 var, að beiðni Árna bónda Hildibrandssonar í Hafnarfirði, gerð áreið á landamerki Hraunajarða og Almenningsskógana til að ákveða landamerki milli þessara staða. Áreiðarmenn urðu sammála um að: „bein stefna af kletti þeim, er liggur næst fyrir ofan Snókalönd, á Stórasteini, þaðan á Eyólfsbala og þaðan í Háholt sem liggur nálægt landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, [Yfirstrikun] væri sanngjarnlegust og réttust landamerki milli Almenningsskógar og Hraunjarða“. Til glöggvari auðkenningar hlóðu áreiðarmenn vörðu á Eyólfsbala, og aðra ofaná Stórastein. En fremur eru [yfirstrikun] 2 vörður í beinni stefnu milli Stórasteins og klettsins hjá Snókalöndum, er áður var getið. Þá kom og áreiðarmönnum saman um, að bezt væri að hlaða vörðu á þennan stein hjá Snókalöndum, til þess að landamerki yrðu sem glöggvust og lofaði herra Árni Hildibrandsson að sjá um að það yrði gjört.

Litla-Skógfell

Litla-Skógfell.

Þann 29. júní 1875 var áreiðargjörðin á landamerki Hraunajarða, sem farin var í september árið áður, þinglesin á manntalsþingi Álftanesshrepps.
Svo virðist sem Óbyggðanefndinni hafi eitthvað skolast af leið er hún fjallaði um „Suðurnesjaalmenning. Tilgangurinn virtist vera að fjalla um svæðið ofan Grindavíkur og vestan Vatnsleysustrandar, þ.á.m. land Njarðvíkur og svæðið ofan Hafna. Það virðist hafa mistekist, ef marka á framangreinda lýsingu. Nokkur örnefni um skóg eru á því svæði, s.s. Litla- og Stóra-Skógfell og Skóghæð. Aftur á móti eru framkomnar upplýsingar ávallt vel þegnar, þótt þær fjalli ekki beint um upphaflega viðfangsefnið.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Straumssel

Í Straumsseli – tóftum húss skógarvarðarins, sem ætlað var að gæta að Almenningsskógum Hraunajarðanna í Garðalandi.

Festisfjall

Festirfjall (Festarfjall/Festisfjall) er skammt austan við Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála.

Festisfjall

Berggangur undir Festisfjalli.

Um er að ræða einstaklega „myndrænt“ fjall, eða fell öllu heldur ef taka á mið af öðrum nærliggjandi fellum. Það er þverhnípt að sunnanverðu, fram við Hrólfsvíkina, en aflíðandiað norðanverðu, inn til landsins. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag. Önnur saga segir að tröllkonan í Festisfjalli sé systir tröllkonunnar í Katlahrauni og hafi þær tíðum heimsótt hvora aðra. Heimilisaðstæðum sé þó ólíkt saman að jafna þar sem fyrirfast fjallið er annars vegar og Ketillinn hins vegar, með bergstöndum sínum og hellum.
GöngusvæðiðÓfáir eru sagðir hafa séð tröllsystur þessar, en þó hefur lifað sú saga á Ísólfsskála, sem þær hafa þurft að klofa yfir í heimsóknum sínum, að þaðan hafi útsýnið loftleiðis á stundum þótt kynlegt.
Festarfjall er í raun brimsorfin eldstöð þar sem um helmingur móbergsfjallsins er sorfin burt. Ef vel er að gáð á lágsævi má sjá hinglaga bergstanda utar í Hrólfsvíkinni. Þar mun gígur eldstöðvarinnar hafa verið fyrrum. Hafa ber í huga að þarna er um 11.000 ára gamla jarðmyndun að ræða, sem Ægir hefur herjað á jafn lengi með öllum látum. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu ofanvert við bergið og einnig má sjá merki kvikublöndunar í berginu, bæði ofan við Ægissand og í fellinu sjálfu. Bæði í sunnanverðu Festisfjalli og í Lyngfelli má sjá bergganga kvikurásarinnar forðum daga steypta í hlíðar þeirra. Í berginu við Hraunsvík er nokkurt fuglalíf, t.d. lundi, rita og fýll, og á Hraunssandi mikið kríuvarp. Skjólgóð strönd er neðan Festarfjalls.
Festarfjall og nágrannafjöllin eru brimsorfin eldstöð. Í lágfjöru má sjá hringlaga gígstöplana í Hraunsvíkinni. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu undir berginu og einnig má sjá merki kvikublöndunar í því. Í berginu við Hraunsvík er nokkurt fuglalíf, t.d. lundi, rita og fýll og á Hraunssandi er mikið kríuvarp.

Heimild m.a.:
-grindavik.is

Hraunsvík

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík (nálægt Stóra-Nýjabæ) að Vegghamri og áleiðis inn í Kálfadali.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, „Tunglið, tunglið, taktu mig“, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.
Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.

Dágon

Í Alþýðublaðinu árið 1970 skrifar Gestur Guðfinnsson um Dágon; Guð Filista á Selatöngum:
Ögmundadys„Í Selatöngum, hinni fornu veiðistöð Krýsvíkinga, er margt athyglisvert að sjá og skoða. Kannski furðar maður sig þó mest á að hitta þar fyrir sjálfan guð Filista í flæðarmálinu, að vísu niðurbrotinn og næstum því að engu orðinn, en samt sem áður gegnandi þýðingarmiklu embætti.
Gísli Sigurðsson varðstjóri og örnafnasafnari í Hafnarfirði vakti athygli okkar á þessu ekki alls fyrir löngu, en hann hafði sína vitneskju frá dr. Jakobi Benediktssyni málfræðingi, svo og úr Biblíunni. Það hefur lengi verið vitað um stand eða drang í Selatöngum, sem kallaður hefur Verið Dágon eða Dagon, — en flestum hefur þótt nafnið torskilið og ekki íslenzkulegt.
dagon-221Í bókinni Frá Suðurnesjum er að finna ritgerð, sem heitir Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson. Þar er m. a. vikið að þessum kletti í eftirfarandi klausu; „Dágon er hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum og eru í honum landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Kirkjurnar komu víða við með ítök í gamla daga, og þarna fyrir Ísólfsskálalandi, frá Dágon að austan og vestur; um Veiðibjöllunef, átti Kálfatjarnarkirkja allan stórviðarreka, þ. e. ábúandinn mátti sjálfur hirða það sem kallað var morkefli. Ítak þetta var svo keypt af núverandi ábúanda og eiganda Ísólfsskála um 1920, svo það er ekki kirkjueign lengur.“

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840—41 eftir séra Geir Bachmann kemur þessi sami klettur einnig við sögu. Þar stendur m. a.: „Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur.“
Gísli kvað ýmsar tilgátur hafa verið uppi um heitið á klettinum og hefði hann þess vegna hringt til dr. Jakobs Benediktssonar málfræðings og spurt hann um það. Taldi Jakob líklegast, að Dagon væri biblíunafn, enda kom það á daginn, þegar Gísli fór að blaða í Biblíunni. Þetta er einmitt nafn á sjálfum guði Filistanna, að vísu ritað Dagón, en ekki Dagon, eins og í sóknarlýsingunni. Það er bezt að gefa heilagri ritningu orðið, þegar málum er þar, komið að Ísraelsmenn hafa beðið ósigur fyrir Filistum og sáttmálsörkin er komin í hendur óvinanna:

Selatangar

Á Selatöngum.

„En Felistar höfðu tekið Guðs örk og flutt hana frá Ebeneser til Asdód. Og Filistar tóku Guðs örk og fluttu hana í hús Dagóns og settu hana við hliðina á Dagón. En er Asdódmenn risu árla morguninn eftir, sjá, þá lá Dágón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Jahve. Tóku þeir þá Dágón og settu hann aftur á sinn stað. Og þeir risu árla u m morguninn daginn -eftir, og sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Jahve; höfuð Dagóns og báðar hendur voru brotnar af honum og lágu á þröskuldinum: bolurinn einn var eftir af Dagón. Fyrir því stíga prestar Dagóns og allir þeir, sem ganga inn í hús Dagóns, ekki á þröskuld Dagóns í Asdód, og helzt það enn í dag. Og hönd Jahve lá þungt á . Asdód-mönnum, hann Skelfdi þá og sló þá með kýlum — Asdód og héraðið umhverfis. En þegar Asdód-búar sáu, að þetta var þannig, þá sögðu þeir: Örk Ísrels Guðs skal eigi lengur hjá oss vera, því að hörð er hönd hans á oss og á Dagón, guði vorum.“ En það er fleira skemmtilegt við þetta en nafnið.

Selatangar

Á Selatöngum.

Örlög Dagons í Selatöngum urðu nefnilega ekki ósvipuð endalokum nafna hans í Biblíunni. Hann brotnaði í einhverju stórbriminu og lagðist á grúfu í flæðarmálinu. Það er ekki einu sinni eftir af honum uppistandandi bölurinn, hvað þá meira. Kunnugir vita hins vegar nokkurn veginn hvar Dagon var, hann stóð í fjörukampinum rétt utan við svokallaða Vestri-Hlein, ekki langt vestan við verbúðirnar og fiskbyrgin, þar sem dálítil klettasnös skagar fram í fjöruna.
Erfitt er að spá nokkuð í tildrögin að nafngiftinni, líklega er merkingin heldur niðrandi, þó að þarna sé að vísu um háttsetta persónu að ræða, Filistar hafa víst aldrei verið hátt upp skrifaðir í almenningsálitinu á Ísandi. Landamerkjadeilur koma kannski einna helzt í hugann, þar sem þetta var landamerkjaklettur, en kirkjur áttu hagsmuna að gæta á báða bóga. Hins vegar virðist ljóst að nafnið sé tilkomið eftir að kristinn siður og biblíuþekking varð almenningseign á Suðurnesjum.“ — G. G.

Heimild:
-Alþýðublaðið 8. október 1970, bls. 7 og 11.

Selatangar

Á Selatöngum.

Gvendarhellir

 Arngrímur hefir maður heitið Bjarnason, Arngrímssonar hins lærða. Skólagenginn var hann, staðarráðsmaður í Skálholti og síðast lögréttumaður. Hann bjó í Krýsivík frá 1717 til dánardægurs, 9. ágúst 1724.
Arngrímur frá Læk í Krýsuvík hafði fyrir aldamótin 1700 fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni.

Gvendarhellir

FERLIRsfélagar við Gvendarhelli.

„Vestanundir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug. Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. — Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. — Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.

Arngrimshellir-231

Í Arngrímshelli (Gvendarhellir).

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og alþiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Í Blöndu VI 187 segir um þennan sama helli að Guðmundur nokkur hafi gætt á vetrum fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir að aldrei brugðust. Guðmundur var þarna um 1830.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Hellirinn hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði. Í honum má enn sjá hleðslur fyrir munna, tóft við meginopið, flórað gólfið að hluta, hlaðna stíu og fyrirhleðslur. Stígur liggur frá hellinum vestur yfir hraunið, áleiðis til Krýsuvíkur. Neðar er greið leið niður í Keflavík (Kirkjubás), en þangað sóttu Krýsvíkingar löngum rekavið.

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 43. árg., 1930-1931, bls. 76
-Blanda VI 187

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Sjóslys

Í Ægi 1914 er yfirlit yfir „Botnvörpuskip sem strandað hafa við strendur Íslands 1896-1906„:

Ása

Kútterinn Ása 1902.

„Nítján eru þau, skipin sem liggja hingað og þangað með ströndum fram hjer við land, sem strönduðu á 10 árum, og fleiri eru komin síðan. Sum þessara skipa liggja rjett við land, sum eru á þurru landi og af þeim eru mörg óbrotin en sandorpin, og talið ógerningur að ná þeim út. Þau eru sem hjer segir:

Nafn skipsins:  Heimili: Strandár;
1. Thoyetme  Fleetwood  1896.
2. Präsident Herwig   Geestemünde   1898.
3. Richard Simpson  Hull  1899.
4. Oceanic Hull  »
5. Engjanes  Rvík(Vídalín)  »
6. Friedrich  Geestemünde  1900.
7. Spaniel  Hull  »
8. Cleopatra  Hull  1901.
9. Lindsey Grimsby »
10. Aulaby (Anglaby) Hull 1902.
11. Rriton Hull »
12. Jamesia Grimsby »
13. Africa Grimsby »
14. Adeline Hull 1903.
15. Spring Flower Hull »
16. Molops Hull »
17. St. George Grimsby »
18. Friedrich Albert Geestemünde »
19. Würtenberg Nordenham 1906.

Togari
Þetta er það sem liggur ónotað í fjörunum hjer, og vart hægt að færa sjer það í nyt, því flest skipin liggja á þeim stöðum, þar sem björgunartilraunir mundu vera afarörðugar og kostnaðarsamar.
Til skýringar við þessa skipaskrá skal hjer tekið fram, að nr. 4 liggur við Skerjafjörð, nr. 11 við Stapa undir Jökli, nr. 12 við Bervík, nr. 17 við Ásmundarstaðavík á Melrakkasljettu, nr. 18 og 19 við Skeiðarársand, nr. 1, 2 og 6 við Skaftárós, nr. 3 og 9 við Mýrdalssand, nr. 16 við Rangársand, nr. 8 við Stokkseyri, nr. 5 og 10 milli Grindavíkur og Reykjaness, nr. 14 við Hafnarberg, nr. 7, 13 og 15 við Útskálaskaga.“

Í Ægir 1927 segir m.a. um tvö framangreindra sjóslysa:
-„„Engjanes“, botnvörpuskip frá Vídalínsútgerðinni í Hafnarfirði. Strandaði á flúðum utan við Járngerðarstaði, aðfaranótt 3. okt. 1899. Kent um óþektum straum og truflun á áttavita. Menn björguðust allir.“
-„„Anglaby“, enskur togari, strandaði á tanga austan við Karfabás 14. jan. 1902. Drukknuðu þar allir. Skipstjórinn var Nelson, hinn alþekti landhelgislagabrjótur.“

Í framangreindum Ægi 1927 er „Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850-1927“ eftir Einar G. Einarsson, Garðhúsum í Grindavík:

Einar G. Einarsson

Einar G. Einarsson í Garðshúsum.

Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850—1927.
1. „Delphin“, frönsk loggorta, strandaði á Kasalóni laust eftir 1850. Menn björguðust allir. Skip þetta var tekið út sumarið eftir. Keyptu það Sveinbjörn Ólafsson kaupmaður í Keflavík o. fl.
2. „Beta“, dönsk jakt lítil. Rak hún á land í Hrólfsvík, en skipshöfn mun hafa druknað í hafi. Var skipið á leið til Búða með vörur.
3. „Kapracius“, frönsk skonnorta, strandaði á Þorkötlustaðabót. Menn björguðust allir.
4. „Vega“ 30. apríl 1885, þýsk skonnerta, með saltfarm til Reykavíkur, strandaði á Þorkötlustaðnesi. Menn björguðust allir.
5. „Brise“, frönsk skonnerta, standaði á Arfadal. Skip þetta hafði orðið fyrir ásiglingu á hafi úti og sigldi upp vegna leka, um bjartan dag.
6. „Lonaine“, frönsk skonnerta. Strandaði 28. apríl 1885 á Hraunssandi og var leka um kent. Menn björguðust allir.
7. „Petit Jean“, frönsk skonnerta. Rak upp á Hraunsfjörur og varð ekki vart við neinn mann. Hafa því að líkindum allir drukknað áður en skipið kom að landi.
8. „Glitner“, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðvík 11. júlí 1896. Menn björguðust allir.
9. „Fortuna“, dönsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 29. júlí 1897. Allir björguðust.
10. „Flora“, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðavík 7. júlí 1903. Menn björguðust.
11. „Oddur“, gufubátur frá Eyrarbakka. Rak á land á Járngerðarstaðavík. Menn björguðust.
12. „Minna“, þýsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 17. júlí 1906. Mannbjörg.
13. „Henrij Rheid“, mótorbátur frá Hafnarfirði, Rak á land á Járngerðarstaðavík 16. febrúar 1907. Mannbjörg.
14. „Engjanes“, botnvörpuskip frá Vídalínsútgerðinni í Hafnarfirði. Strandaði á flúðum utan við Járngerðarstaði, aðfaranótt 3. okt. 1899. Kent um óþektum straum og truflun á áttavita. Menn björguðust allir.
15. „Rapid“, norskt flutningagufuskip strandaði á sama stað og nr. 14. Strandið kent, að sést hafi ljós í glugga, er yfirmenn álitu að væri Reykjanesviti, einnig skekkju á áttavita. Þetta skeði 15. nóv. 1899, kl.
3 árdegis. Menn björguðust.
16. „Anglaby“, enskur togari, strandaði á tanga austan við Karfabás 14. jan. 1902. Drukknuðu þar allir. Skipstjórinn var Nelson, hinn alþekti landhelgislagabrjótur.
17. „Sheldon Abbey“, ensk skonnerta, strandaði á Þorkötlustaðanesi. Var með salt og tunnufarm til Reykjavíkur. Menn björguðust.
18. „Varonell“, enskur togari, strandaði á flúðum, utan við Járngerðarstaði 20. janúar 1913. Þrír menn drukknuðu, en hinum tókst að bjarga.
19. „Karl Markmann“, þýskur togari. Rakst á sker, líklega Þorkötlustaðanes, en losnaði aftur og sökk skipið skammt undan landi 8. des. 1913. — Menn björguðust á skipsbátnum og náðu landi á Sandvík vestan við Reykjanesvita.
20. „Resolut“, mótorkútter frá Reykjavík, strandaði vestan við Hásteina 10. spet. 1916. Hafði stýri bilað. — Mannbjörg.
21. „Schlutrup“, þýskur togari. Strandaði við Stekkjarnef. Menn björguðust allir.
22. „Anna“, færeyskur kútter, strandaði austan við Staðarberg 3.—4. apríl 1924. Týndust allir menn 15 að tölu; ráku 9 á land og voru jarðsungnir hér í Reykjavík 11. apríl. („Anna“ hét áður „Sléttanes“ og var keypt héðan).
23. „Ása“, togari H. P. Duus-verslunar í Reykjavík. Strandaði á flúðum vestan við Járngerðarstaði. Áttavitaskekkju kent um. Allir björguðust.  (Skipið nýtt).
24. „Hákon“, mótorkútter frá Reykjavík. Strandaði við Skarfatanga 9. maí 1926. Sigldi á land í svörtum bil. Menn björguðust i skipsbátnum.

Þessa skýrslu um skipaströnd hefir hr. kaupmaður Einar G. Einarsson í Garðhúsum tekið saman eftir beiðni, og bætir eftirfarandi við:

Gufuskip

Reykvískt gufuskip.

„Til skýringar skýrslu þessari vil ég taka þetta fram, að hún er skrifuð eftir minni og ekki þar stuðst við nein heimildarrit eða minnisbækur og vegna þess er flestum ártölum slept, samt geri ég ráð fyr að hún sé í öllum aðalatriðum rétt og að ekki sé neitt skip rangtalið, sem hér hefir strandað á þessu timabili. En frekari upplýsingar um þetta má eflaust fá í Þjóðvinafélagsalmanakinu, yfir þann tíma, sem það nær, svo og í bókum Gullbringusýslu, þvi fram til síðustu tíma voru öll skipströnd meðhöndluð af sýslumönnum.
Ása5 skip eða nr. 8—12 í skýrslunni, hafa slitnað upp á Járngerðarstaðavík. 2 skip, nr. 2 og 7 hafa sennilega rekið mannlaus á land, skipshafnir verið búnar að skilja við þau, eða hafa drukknað á rúmsjó, og 2 skipin, nr. 5 og 6, líklega siglt viljandi á land.
Öll hin skipin, 15 að tölu, hafa strandað af einhverjum atvikum, sem menn ekki hafa getað ráðið við, og þá líklega í mörgum tilfellum, að einhverju leyti, af skekkju á áttavitum. Í því sambandi mætti ef til vill geta sér til, að hraunið hér, sem alstaðar liggur út í sjó, kunni að vera mengað þeim efnum (járni), er hafi áhrif á áttavitana. – Garðhúsum 27. júní 1927. (Sign.) Einar G .Einarsson.

Togari

Hákon RE 113, áður kútter Haraldur MB 1 frá Akranesi sem kátir karlar voru á.

Skýrslan og skýringar þessar eru settar í „Ægi“ til þess að benda á, að hér muni eigi vanþörf að vitaverði hið bráðasta komið upp. Síðasta Alþingi hafði þetta með höndum og munu undirtektir hafa verið hinar bestu og að sögn vitamálastjóra, mun viti verða reistur á Hópsnesi á komandi sumri.
Til áréttingar því, sem hr. Einar G. Einarsson segir um áttavitaskekkju á þessum slóðum, sem sjómenn hafa orðið varir við, geta þar einnig verið óreglulegir straumar, sem bera skip úr leið.

Hópsnes

Hópsnesviti/Þórkötlustaðaviti. Vitin sá arna er í landi Þórkötlustaða og þar með á Þórkötlustaðanesi. U.þ.b. 120 metrar eru í landamerki Hóps frá vitanum.

Mönnum er það ekki hulið, að vegna jarðskjálfta, hefir komið fyrir að Reykjanesviti hefir ekki logað þegar hann átti að gjöra það. Er því brýn nauðsyn, að fyrirhugaður viti í Grindavík, sendi frá sér ljós, sem sé vel aðgreint frá Reykjanesljósinu, svo aldrei komi það fyrir, að skip, sem úr hafi koma, geti vilst á þeim. Hafi orðið að slökkva ljósið á Reykjanesvitanum í fyrra vegna jarðskjálfta, getur hið sama orðið í ár og önnur ár.

Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson.

Enginn segir fyrir, hvenær skip þurfi á Reykjanesvita að halda; getur það orðið jafnt í jarðskjálfta, þegar ekki er auðið að sýna ljós, og þegar alt er í lagi; en sökum þessa mikla ókosts Reykjaness fyrir sjófarendur, virðist svo, sem brýn nauðsyn heimti, að Grindavíkurvitinn verði góður viti vegna þess, að svo getur viljað til, að hann verði eini landtökuvitinn á þessum hættulegu slóðum.
(Ég hef bætt ártölum og mánaðardögum inn í skýrslu Einars eftir föngum). – Reykjavík, 15. okt. 1927. Sveinbjörn Egilson.

Í framhaldinu verður hér fjallað stuttlega um strand togarans Kinston Period H 55 sunnan Kalmanstjarnar árið 1934.

Strand utan við Kalmannstjörn 1934

Kalmanstjörn

Kingston – strandið 1934.

„Myndin er líklega tekin 26. febrúar 1934. Maðurinn til hægri er líklega Jón Bergsveinsson, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélags Íslands. Strandaði togarinn er frá Kingston útgerðarfélaginu í Hull. Það strand sem passar best við myndina er strand Kingston Peridot H 55 rétt sunnan Kalmannstjarnar í Höfnum. Togarinn sigldi á land aðfararnótt 24. febrúar 1934 en skemmdist lítið. Jón fór á staðinn með fluglínutæki og hjálpaði ásamt slysavarnarsveitinni í Höfnum áhöfninni í land samdægurs. Varðskipið Óðinn og breska björgunarskipið Henry Lancaster komu og drógu skipið út 26 febrúar.“ (BÞ 2018)

Heimildir:
-Ægir, 9. tbl. 01.09.1914, Botnvörpuskip sem strandað hafa við strendur Íslands 1896-1906, bls. 117.
-Ægir, 10. tbl. 01.10.1927, Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850-1927 – Einar G. Einarsson, Garðhúsum 27. júní 1927, skráð af Sveinbirni Egilssyni, bls. 220-221.
-Sarpur.is

Gufuskip

Gufuskip-Baldur RE 146-1913.

Göngufólk rakst nýlega (apríl 2010) á dauðann hrút á ferð um Berghraun vestan við Grindavík.
Hræið Hræiðvirtist hafa legið þarna um skamma hríð. Afturfæturnir voru bundnir saman, líklega vegna þess að þá er auðveldara að færa hann úr stað. Eflaust er til haldgóð skýring á tilvist hrútsins þarna í hrauninu en eigandinn gæti þekkt hann á eyrnarmerkinu, sem enn er á sínum stað.
FERLIR leitaði til gamalreynds fjárbónda í Grindavík eftir hugsanlegri skýringu á tilvist hrútsins dauða í hrauninu. Svarið var: „
Ég hef ekki komið að þessu hræi og veit ekkert um það. Kindur eiga það til að drepast á öllum tímum árs, jafnt í fjárhúsi sem í haga. Sást í mark eða merki í eyra? Mér þykir líkleg skýring á þessu, að þeir sem stunda vetrarveiðar á refum (og þeir eru nokkrir í Grindavík sem og annars staðar) hafi komið honum þarna fyrir sem útburð fyrir tófu. Það er næsta víst að hann hefur ekki farið þarna af sjálfsdáðun þar sem afturfætur hans eru vel bundnir saman.“

Selsvellir

Gengið var norður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi og upp í Hraunssel neðan við Þrengslin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa skoðað selstóftirnar var gengið á hálsinn og honum fylgt niður að gígaröð syðst á honum austanverðum. Um er að ræða mjög fallega gíga, myndarlegar hraunæðar og hrauntraðir í hlíðinni neðanverðri. Vestan undir sunnanverðu Núpshlíðarhorni var, að sögn Jóns Jónssonar, jarðfræðings, einn fallegasti hraungígur landsins, en hann hefur nú að miklum hluta verið notaður sem ofaníburður í þjóðveginn.
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Slóði liggur nú þvert yfir Leggjabrjótshraunið og áfram upp með Núpshlíðinni, inn á Selsvelli og áfram niður á Höskuldarvelli suðvestan Trölladyngju.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Gamlar vörður eru við slóðann yfir hraunið svo líklega hefur hann verið gerður ofan í eldri götu, sem þarna var, enda liggur gata þarna áfram upp á hálsinn við Línkrók, í móbergsskarð á honum og síðan í sneiðingum niður hann að austanverðu. Gatan sést síðan á ný sunnan Djúpavatnsleiðar skammt ofan við gatnamót Ísólfsskálavegar.
Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tófta sem eru nú minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti. Eftir að hafa skoðað stekkina í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914.

Leggjabrjótshraun

Gígur ofan Höfða – Leggjabrjótshraunsskapari.

Ofan við Hraunsselið eru Þrengslin, sem fyrr sagði. Neðan við Hraunsselið að sunnanverður heita einnig Þrengsli. Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli, u.þ.b. 20 mín. ofar.
Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.

Höfði

Hrauntröð við Höfða.

Núpshlíðarhálsinn er vel gróinn ofan við Hraunssel. Haldið var niður hálsinn og kíkt á hraungígana syðst á honum austanverðum. Þeir eru hver öðrum fallegri. Flestir eru opnir til suðausturs og hefur hraunið, sem rann undan hallanum og niður hlíðina, skilið eftir sig fallegar hraunæðar og traðir.
Moshóll var loks skoðaður niður undan suðvesturhorni hálsins. Jón Jónsson sagði hann merkilegan, ekki síst fyrir það að hægt væri að sjá í honum þversnið af gígrás. Því miður hefur þeirri ásýnd nú verið svipt á brott með stórtækum vinnuvélum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar/

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.