Sveifluháls eða Austurháls er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Það hverasvæði er kennt við Krýsuvík. Nokkrir þekktir móbergstindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur.
Móberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnir jöklarnir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ.
Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Surtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.
Í Eimreiðinni árið 1900 birtist grein eftir Þorvald Thoroddsen um móberg á Íslandi. Hér kemur úrdráttur úr greininni er tekur einkum mið af jarðfræði Reykjanesskagans:
„Í síðasta hefti Eimreiðarinnar hefir herra cand. mag. Helgi Pétursson skrifað grein, sem hann kallar »Nýjungar í jarðfræði Íslands«, og er aðalefni ritgjörðarinnar hugleiðingar um myndun móbergsins á Íslandi. Með því að grein þessi er stutt og höf. hefir farið nokkuð fljótt yfir sögu, leyfi ég mér að rita nokkur orð til skýringar. Þó get ég ekki, í alþýðlegu tímariti, skrifað eins ýtarlega um þetta mál, eins og þarf, ef það á að skýrast fullkomlega frá öllum hliðum.
Eins og flestum mun kunnugt, nær móberg og þussaberg yfir afarmikið svæði á Íslandi og tekur yfir alt miðbik landsins, að sunnan frá Faxaflóa austur fyrir Öræfasveit, að norðan frá Fnjóskadal austur í Þistilfjörð. Móbergið myndar þannig belti yfir landið þvert; það er mjög mismunandi að gerð og afarþykt, nokkur þúsund fet sumstaðar. Allir aðrir hlutar landsins eru aðallega myndaðir úr blágrýti (basalti) í þykkum hamrabeltum, sem bezt sjást í dalafjöllum og við sjóinn. Þessi blágrýtislög hallast víðast inn á við, inn undir móbergsbeltið. Í blágrýtis-héruðunum eru víða smáblettir af móbergi, og sumstaðar eru allþykk móbergs- og þussabergslög milli blágrýtislaga, og það sumstaðar djúpt í fjöllum, svo mörg hundruð feta blágrýtisberg liggur ofan á móberginu. Þó eru þessi móbergs-millilög tiltölulega lítil í samanburði við móbergið um miðbik landsins; þar eru aftur blágrýtislög innan um, en þeirra gætir minna, af því móbergið er þar í meirihluta. Af þessu sést, að móbergið er myndað á ýmsum tímum, þó miðbeltið sé auðsjáanlega yngra en hinar stóru blágrýtismyndanir.
Þetta er líka eðlilegt. Ísland er því nær alt myndað af eldgosum; blágrýtið er gamalt hraun, móbergið eldfjallaaska og gjall og sérhvert eldgos framleiðir hvorttveggja; bráðið hraungrjót rennur úr gígunum og mulið grjót kastast í loft upp, dettur niður og myndar móbergslög. Við öll eldfjöll um víða veröld eru hraun og móbergslög á víxl, en það er mismunandi og komið undir atvikum af hverju er meira á hverjum stað. Í Utah og víðar sunnan og vestan til í Bandarikjum eru 2000 feta þykkar móbergsmyndanir, er ná yfir afarstórt svæði, og móbergs- og hraunlög sjást um alla jörðina, þar sem eldgos hafa orðið, sum ný, sum frá ýmsum tímabilum jarðsögunnar.
Móberg kalla Íslendingar berg það, sem í útlöndum heitir »tuff«, en þussaberg það, sem menn annarsstaðar kalla »breccia«. Í móberginu eru yfirleitt sömu steinefni eins og í blágrýtinu, smámulin og orðin að dusti, en gleraðir og eldbrunnir hraunmolar innan um, stundum vikur, gjall og steinkúlur (bombur), alt þetta rusl loðir saman og er orðið að linu eða hörðu bergi; stundum er móbergið lagskift, stundum er engin skifting sjáanleg. Í hinu íslenzka móbergi eru óteljandi korn af gulleitu eða mórauðu steingleri, sem kallað er »palagonit< og af svörtu gleri (tachylyt); oft er þetta alt bráðið saman við öskuna og gjallið, og alt orðið einn eldbrunninn sori. Þussabergið er samsett af sömu efnum eins og móbergið, en í því eru stórir hraunsteinar á víð og dreif, hornóttir og ólögulegir. Í móberginu eru mjög víða uppskotnir gangar, hraunæðar með ótal greinum, sem hafa brotist gegnum bergið og kvíslast innan um það; í því eru enn fremur blágrýtislög, hnúðar og kleppar með skásettum og hringsettum (koncentriskum) súlum með bráðnu steingleri utan á; sumstaðar er svo mikið af þessu í móberginu, að blágrýtið verður aðalefnið, en móbergið að eins þunt tengiefni, svo sem t. d. í Botnsssúlum, og þar er ísnúið dólerít ofan á, og eins er í mörgum öðrum fjöllum um alt móbergssvæðið. Móbergið ber svo augljóslega með sér, að það er myndað af eldi, að ég gat ekki hugsað mér, að það dyldist nokkrum manni, sem skoðað hefir eitthvert móbergsfell. Ég varð því alveg hissa er ég sá, að höf. byrjar ritgjörð sína með því sannanalaust að fullyrða, að móbergið á Íslandi sé að miklu leyti fornar jökulurðir. Annað mál er það, að vel getur verið, að jökulurðir séu milli móbergslaga og hraunlaga; á það munum vér síðar minnast. Um miðbik Íslands, í móbergshéruðunum, eru víðáttumikil grágrýtishraun (dólerít) af svipaðri gerð eins og grjótið í holtunum kringum Reykjavík, þau eru rispuð og ísnúin og auðséð, að jöklar hafa gengið yfir þau; hraun þessi hafa flest hagað sér eftir landslagi því, sem nú er, og runnið sumstaðar ofan dali (t. d. Flókadal), niður af Mosfellsheiði, kringum fellin í Mosfellssveit og í sjó fram, niður hlíðar og skörð á Reykjanesfjallgarði og Snæfellsnesfjallgarði. Það liggur í augum uppi, að þessi miklu hraun hafa ekki runnið öll í einu, heldur en aðrar nýrri hraunbreiður, enda sést það víða, að breytingar hafa orðið á landslagi frá því fyrstu dóleríthraunin runnu, en litlar eftir að hin síðustu mynduðust; það er t. d. algengt að dóleríthamrar eru í efstu brúnum þverbrattra fjalla, en ekkert dóleríthraun fyrir neðan, og hlýtur því mikið að hafa breytst síðan þau hraun mynduðust. Þetta sést á mörgum ritgjörðum mínum og jarðfræðisuppdráttum.
H. P. virðist ætla, að ég haldi öll dóleríthraun jafngömul, en slíkt hefir mér aldrei dottið í hug. Eftir að hin eldri dóleríthraun runnu hafa allvíða myndast ofan á þeim þykk móbergslög, t. d. við Laxárdal hjá Mývatni, við Kálfstinda og víðar; en langoftast liggja þó dóleríthraunin ofan á móberginu.
í móberginu eru hér og hvar hnullungalög (Conglomerat) með vatns- eða jökulnúnu grjóti, leir og sandi; þó þau séu víða allþykk, eru þau þó þunn og hverfandi í samanburði við móbergið alt. Slík hnullungalög hefi ég fundið kringum Suðurlandsundirlendið, við Mýrar, á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og víðar.
Móbergsmyndanirnar íslenzku eru mjög margbrotnar og eflaust myndaðar á ýmsan hátt og á ýmsum tímum, og vita jarðffæðingar enn nauðalítið um það, hvernig þær eru til orðnar; til þess þarf enn langar og miklar rannsóknir og samvinnu milli jarðffæðinga af ýmsu tægi; til þess þarf eldfjallafróða menn, jökulfróða og bergfræðinga; að rannsaka þetta alt til hlítar er einskis eins manns meðfæri. Þó er móbergið aðeins einn lítill liður í jarðfræði Íslands.
Á ferðum mínum varð ég að fást við margbrotin störf, kanna öræfi, landslag og fjallahæðir, undirbúa jarðfræðisuppdrætti, rannsaka jökla, eldfjöll, hraun og hveri, blágrýti, líparít, móberg, surtarbrand, sævarmenjar o. m. fl., til þess að fá yfirlit yfir þetta alt saman og búa svo í haginn fyrir eftirkomendurna. Rannsókn jarðlagaskipunar í hinum einstöku fjöllum tekur mikinn tíma, og gat
ég því miklu sjaldnar, en ég vildi, fengist við slíkt; þetta verður að bíða betri tíma og vona ég, að aðrir taki fyrir sig að kanna einstök svæði og einstaka liði í jarðfræði Íslands, eins og H. P. nú er byrjaður á, þar sem hann sérstaklega hefir lagt fyrir sig rannsókn jökulurða og ísmenja. Á þann hátt getum vér á endanum fengið fullkomna þekkingu um myndun og byggingu vors víðáttumikla og hrjóstruga föðurlands. Athuganir mínar um móbergið og aðrar jarðmyndanir Íslands hefi ég skrásett í ýmsum ritgjörðum, en sjaldan dregið ályktanir af þeim, nema þegar þær hafa verið mjög margar af sama tægi, því annars áleit ég, að þær hefðu ekki nægilegt sönnunarafl, fyr en fleiri bættust við.
Hér er ekki rúm til þess að geta um ýms málefni, er snerta jarðfræði móbergsins; en svo mikið er víst, að aldur ýmsra móbergslaga er mismunandi og að það er til orðið á öllum tímabilum, frá því snemma á hinum »tertíera« tíma fram á vora daga; en varla er enn byrjað að greiða sundur hinar einstöku deildir. Sumstaðar hefir eflaust myndast móberg og hraun milli ísalda. Það væri undarlegt, ef eldfjöll þá hefðu hætt að gjósa, og eins meðan jökull lá yfir öllu eða mestöllu landi, og hefir aska sú blandast saman við frammokstur jöklanna. I öðrum löndum hafa menn fundið rök fyrir nokkrum ístímabilum með tiltölulega hlýju loftslagi á milli, og svo hefir eflaust líka verið á Íslandi, enda hefir enginn efast um það.
Í framangreindri grein Helga Péturssonar „Nýjungar í jarðfræði Íslands“ í Eimreiðinni árið 1900 segir m.a.: „Helzta nýjungin er skjótt aö segja sú, að móbergið á Íslandi er að nokkru leyti, eða ef til vill að miklu leyti, fornar jökulurðir, nú orðnar að einum steini og talsvert umbreyttar á ýmsan hátt. Oss hefur kent verið um móbergið, að það hafi í upphafi verið eldfjallaaska, en innanum ýmislega lagaðir basaltmolar og hraunmolar«. Að því er mér skilst, hafa þó verið miklir erfiðleikar á að skýra nánar, hvernig sumt móberg hafi farið að myndast við gos. En ýms einkenni þessara móbergstegunda, sem erfiðleikana gera, verða auðskilin, þegar það er séð, að þetta grjót er í raun réttri undan jöklum, og má rekja þetta ýtarlega, þó að ekki verði það hér gert.
Frá tveim hliðum má skoða þetta mál. Að öðru leytinu sjáum vér, að bergtegund ein er alls annars eðlis, en talið hefur verið, og skal lítið farið út í það hér. En um hitt ætla ég að fara nokkrum orðum, hvers vér getum orðið vísari af þessari bergtegund, þegar hún er rétt þýdd.
Vitringur einn hefur komist svo að orði, að atburðirnir semji sína eigin sögu um leið og þeir verða, og á það ekki sízt heima í sögu jarðarinnar; hraunin segja frá eldgosum, einkennilega skafið og rispað grjót frá skriðjöklum o. s. frv. Hlutverk jarðfræðinganna er nú bæði að taka sem bezt eftir, hvernig jörðin fer að skrásetja sögu sína, og eins að finna og þýða rétt þau skjöl og skilríki, sem til eru.
Þar sem er móbergsmyndanin íslenzka, má nú svo að orði komast, að vér höfum auðugt skjalasafn, er lýtur að ýmsum atburðum í jarðsögu landsins, ekki ómerkum. En lykilinn að þessu safni hefur vantað, og þar af leiðandi hlýtur því yfirliti yfir jarðfræði íslands, sem fengist hefur enn sem komið er, að vera talsvert áfátt, ámóta og vera mundi þekkingu vorri á sögu þjóðarinnar, ef sagnfræðingarnir hefðu ekki haft neina vitneskju um Sturlungaöldina t. a. m. Nú er þessi lykill fundinn, og þó að lítið sé að gert um rannsóknir á þessu skjalasafni enn, þá er samt svo mikið séð, að stórum verðum vér að breyta skoðunum vorum á íarðfræði lands vors, og að ísland er ólíkt öllum öðrum löndum — að því er ég bezt veit —, hvað ísaldarmenjarnar snertir.
Enginn þeirra jarðfræðinga, sem ferðast hafa á Íslandi, minnist á, að hann hafi séð ísnúna steina í móberginu; en í tölu þessara manna hafa þó verið nafnkendir ísaldarfræðingar eins og t.a.m. dr. K. Keilhack frá Berlín. En Keilhack virðist hafa komist lengst í áttina að þessari uppgötvun, eins og nú skal greina. Keilhack fann fyrstur eitthvað af þessu hnullungabergi 1883 og getur þess, að sér hafi þótt það mjög sviplíkt íslenzkum jökulurðum. Ekki leyfir hann sér þó að ætla, að þetta séu jökulurðir mjög fornar, heldur álítur hann, að hnullungaberg þetta sé árgrjót frá tertieröldinni. Dr. Thóroddsen rannsakar þessi svæði 10 árum seinna en Keilhack, og ber þeim á milli um aldur þessara laga:
»Þessi jarðmyndun hefir myndast af rennandi vatni og er ekki ólíklegt, að hér á landi, sem í öðrum löndum, hafi úrkoma verið mjög mikil rétt á undan ísöldinni; af því varð vatnsrennsli miklu meira en áður og þá hafa hnullungalög þessi orðið til«. (Thóroddsen: s. st).
Ég hef ekki séð þetta hnullungaberg og þori því ekki að segja neitt með vissu um, hvað það muni vera; en síðan í sumar eð var, er ég fann ísnúna steina í móberginu, hefur mér dottið í hug, að eitthvað muni búa undir þeirri líkingu, er Keilhack sýndist vera milli þessa hnullungabergs og jökulurða, og að því muni ef till vill vera ísnúnir steinar. En ef svo væri, og hefði Keilhack komið auga á þessa steina, væri líklega margt óskráð af því, sem nú má lesa um jarðfræði íslands, eða á annan veg ritað.
Í einu af síðustu ritum þess manns, sem vér eigum fyrst og fremst að þakka það, sem vér vitum um jarðfræði Íslands, stendur, að hann — og þá auðvitað heldur ekki aðrir — »hafi hvergi fundið jökulurðir eða ísrákaðar klappir undir ísnúnu hraununum«.
(Thóroddsen: Explorations in Iceland during the years 1881 — 98. From »The Geographical Journal« for March and May 1899, bls. 23).
Ég nefni þetta atriði vegna þess, að á því byggir dr. Thóroddsen mikilsvarðandi ályktanir í jarðfræði landsins. »Hraun þessi, sem runnið hafa rétt fyrir ísöld, sýna bezt, að aðallögun yfirborðsins hefur þá verið svipuð eins og nú, og flestir dalir myndaðir áður en ísöldin gekk yfir«. (Thóroddsen: Jarðskjálftar o. s. frv., bls. 13). Og á líkum ástæðum byggjast þessi orð: »Seint á »tertiera« tímabilinu er líklegt, að Suðurlandsundirlendið hafi myndast« (s. st, bls. 21).
Það er enginn efi á því, að grjótið í fjöllunum, sem að Suðurlands-undirlendinu liggja, brotunum úr hálendinu, er forðum náði frá Reykjanessfjallgarði austur undir Eyjafjöll (Thóroddsen), er eldra heldur en undirlendið sjálft. Nú er það eins víst og að hraun hafa runnið úr Heklu, að ýms af þessum fjöllum eru að nokkru leyti bygð upp af hörðnuðum jökulurðum. Má nefna Hellisheiði, Hagafjall og Búrfell. Með öðrum orðum: Suðurlandsundirlendið, langstærsta dældin á landi voru, er ekki eldra en ísöldin.
En undirlendið er heldur ekki yngra en ísöldiu; hraun, sem hafa runnið ofan á það, eru fáguð og rispuð af jöklum. Hraun þessi geta ekki hafa runnið meðan land alt var undir ís, og verður þá niðurstaðan sú, að Suðurlandsundirlendið sé til orðið milli »ísalda«.
Síðan dóleríthraunin runnu hafa ekki orðið stórvægilegar breytingar á landslagi (Thóroddsen), en þareð landið hefur stórum breyzt eftir þá ísöld, sem fór á undan dólerítgosunum, liggur sú ályktun beint við, að sá tími, sem landið var >íslaust«, — en var alhulið jöklum áður og síðan, — hafi verið miklu lengri en sá tími, sem liðinn er frá því, að jöklarnir hurfu af Suðurlandsundirlendinu síðast.
Er þetta mjög vægt í farið. Því að nokkrar, eða jafnvel miklar, líkur eru til, að fyrir þetta »millijöklatímabil« hafi landið bæði verið stærra, en það er nú, og landslag mjög ólíkt. Þar sem svo er til orða tekið, að landið hafi verið »íslaust«, þá verður að geta þess, að engin sönnun er fengin fyrir því, að að alls ekki hafi verið jöklar til á Íslandi á þessu tímabili; en öll líkindi eru til, að miklu minna hafi verið um jökla, en nú er á landinu.
Þetta byggist á því, að ísnúin dóleríthraun liggja sumstaðar inn undir Vatnajökul, að því er dr. Thóroddsen segir; en þessi ísnúnu hraun, sem, eins og rannsóknir Thóroddsens hafa sýnt, taka yfir svo stór svæði á landinu, eru ekki runnin fyrir ísöld, heldur milli »ísalda«, eins og áður er að vikið.
Það er alkunnugt jarðfræðingum, að Suðurlandsundirlendið hefur verið í sjó, um það er jökullinn (þ. e. síðasti jökullinn) var að hverfa og síðar. En hitt hafa menn ekki haft neina vitneskju um, að sjór hefur gengið upp á undirlendið áður en þessi síðasti jökull kom yfir.
Hingað til hafa náttúrufræðingar, eins og við er að búast, einkum veitt eftirtekt eldfjallamyndunum lands vors. Vonandi er að upp frá þessu snúi menn sér ekki síður að ísaldamenjunum, sem landið er að nokkru leyti hlaðið úr, og er það nú þegar séð, að slík athugun muni geta kent oss ýmislegt merkilegt um myndunarsögu Íslands — og líklega stærri svæða.“
Heimild m.a.:
-wikipedia.org
-Eimreiðin, Þorvaldur Thoroddsen, 3. tbl. 01.09.1900, bls. 161-169.
-Eimreiðin, Helgi Pétursson, 2. tbl. 01.01.1900, bls. 52-60.
Gengið um Sveifluháls.