Tag Archive for: Grindavík

Þórkötlustaðarétt

Núverandi Þórkötlustaðarétt í Þórkötlustaðahverfi var hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að að einhverju leyti tekið úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og úr hraunhellunni umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt skömmu fyrir árið 2000. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – loftmynd 1954.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustaðarétt upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Borgarhraunsrétt var réttað frá því fyrir aldamótin 1800.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004):
„Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 2020 – uppdráttur ÓSÁ.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Þórkötlustaðir

Þórkölustaðir – meintur skáli.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.
Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Samantekt; ÓSÁ fyrir ferlir.is

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Prestastígur

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; „Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur„.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

„Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.

Prestastígur

Prestastígur.

Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 1870­1880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.“ Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.“

Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Grindavík

Eftirfarandi frásögn um „Grindavík“ birtist í Alþýðublaðinu 22. mars árið 1964:

„Sunnan á Reykjanesskaganum er Nestota, tvínefnd, heitir Hópsnes vestan megin og Þórkötlunes austan megin“.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Framangreind er þörf ábending því Hópsnesið nær að Svartakletti u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann skv. örnefna- og landamerkjalýsingum á Þórkötlustaðarnesi, með stefnu í Sundhnúk. Þórkötlustaðanesið er skv. framangreindu allt austanvert Nesið með línu í öxl Húsafjalls ofan Hrauns. Höfuðstöðvar 4X4 eru t.d. nyrst á Þórkötlustaðanesi, í óskiptu landi Þórkötlustaðabænda.
Í Náttúrufræðingnum 1973 skrifar Jón Jónsson um sama efni: „Gígaröðin í Sundhnúkum gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist.

Gjáhóll

Gjáhóll og Gjáhólsgjá.

Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið“. Athyglisverðasta náttúrumyndunin á Nesinu er Gjáin (Gjáhólsgjá). Búið er að fylla hana upp með sorpi Grindvíkinga norðan Gjáhóls. Í Gjánni við hólinn var bækistöð hersins á stríðsárunum. Sunnan hólsins er Gjáin, hin forna hrauntraöð, óröskuð. Hún endar við Vatnsgjána á landamerkum Þórkötlustaða og Hóps. Um Gjána liggur nú merktur slóði.
Bara svona til svolítils fróðleiks fyrir fáfróða.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Árnastígur

 Gengið var upp Árnastíg frá Húsatóftum og beygt inna á Brauðstíg skammt sunnan Sundvörðuhrauns. Stígnum var fylgt framhjá “Tyrkjabyrgjunum” svonefndu undir hraunkantinum, og yfir hraunið að Eldvörpum þar til komið var að helli í Eldvörpum. Þar er jafnvel talið að Grindvíkingar hafi bakað sitt braut fyrr á öldum. Mannvistarleifar eru í hellinum.

Brauðstígur

Brauðstígur.

Elstu heimildir um brauðgerð á Norðurlöndum komu í ljós við fornleifauppgröft á Austur-Gautlandi árið 1908. Brauðgerð og neysla virðist hafa verið fremur lítil á Íslandi langt fram á 18.öld ef treysta má heimildum eða réttara sagt heimildarskorti því að lítið er getið um slíkt. Korninnflutningur eða kornrækt virðist ekki hafa verið mikil, en það korn sem fékkst var notað til grautargerðar, ölgerðar og brauðgerðar að vissu marki. Það er líklegt að verkþekking og áhöld, sem snéru að meðferð korns til brauðgerðar, ölgerðar og grautargerðar, hafi flust með norskum landnámsmönnum til Íslands. í Noregi var hefð fyrir brauðgerð á landnámstíð og því ekki óvarlegt að ætla að slík hefð hefði skapast hér á landi þótt litlar heimildir séu til um slíkt. Brauðtegundir er ekkert vitað um en í Noregi voru bakaðar linar kökur og brauðhleifar sem voru með þykkar rendum og hvilft í miðju.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Brauðgerð er ein elsta iðja sem til er. Til eru heimildir um brauðgerð fyrir um 5000 árum síðan, bæði í hinni gömlu Babylon og einnig í Kína. Trúlega hefur þó brauðgerð hafist miklu fyrr eða tiltölulega skömmu eftir að menn fóru að nota korn fyrir fæðu, en það mun hafa gerst á mismunandi tíma á ýmsum stöðum á jörðinni.

Á átjándu öld mun fyrst hafa verið farið að gera lyft brauð hér á landi. Þau voru kölluð pottbrauð. Ekki voru til bakaraofnar á Íslandi eins og fyrr sagði en þess í stað notaðir járnpottar sem hvolft var yfir brauðið. Eins og við flatbrauðsgerð, var heit glóðin að lokinni eldamennsku sléttuð vel að ofan, járnplata lögð á og þar ofan á brauðið. Ofan á allt saman var svo hvolft stórum potti. Síðan var skarað að glóð upp með og ofan á pottinn og breidd yfir aska, moð eða afrak. Brauðið var látið seyðast í sex til tólf tíma. Einnig var pottbrauð bakað þannig að pottur var smurður innan með góðri feiti og deiginu þjappað þar í, hlemmur settur á eða öðrum potti hvolft yfir. Potturinn var grafinn ofan í glóðina, glóð sett upp með og yfir og byrgt vel með ösku.

Hveragerði

Rúslahver / Önnuhver í Hveragerði.

Víkingar munu hafa bakað þrennskonar brauð, þ.e. grófir brauðhleifar bakaðir í ösku, þunnar byggmjölskökur bakaðar á grjóthellu og höfðingjabrauð-hveitikökur bakaðar á skaftpönnu. Á Íslandi á 18. og 19. öld voru engir ofnar til að baka brauð í og því var hverahitinn kærkominn búbót. Hverabrauð eru þekkt hér á landi um allnokkrun tíma. Í stað þess að láta brauðið bakast í potti umvafinn hlóðarösku var hverahitinn notaður til bakstursins.
Brauðstígurinn er vel greinilegur og hefur greinilega verið mikið genginn. Hann liggur út frá Árnastíg skammt sunnan við suðvesturhorn Sundvörðuhrauns. Stígamótin eru merkt með vörðu og frá henni sést Brauðstígurinn liggja inn í hraunið til vesturs. Honum var fylgt framhjá þyrpingu lítilla byrgja í kvos undir hraunkantinum, en ekki er með fullu ljóst hvaða hlutverki þeim var ætlað.

Tyrkjabyrgi

„Tyrkjabyrgi“.

Menn hafa furðað sig á því hversu lítil þau eru, hvert fyrir sig. Sumir segja að þau hafi átt að notast ef Tyrkirnir létu sjá sig á ný við Grindavík, aðrir að þar gætu útilegumenn hafa búið. Enn ein kenningin er sú að þarna gætu Grindvíkingar hafa bakað sín brauð fyrrum, enda yfirborðsjarðhitinn þá verið mun virkari en nú er. Ljóst er að hann hefur farið dvínandi í Eldvörpum og því skyldi hann ekki hafa gert það annars staðar á svæðinu?

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Brauðstígnum var fylgt áfram inn á Sundvörðuhraunið og yfir að Eldvörpum. Þar var farið í helli, sem fyrir eru hleðslur í. Enn er nokkur hiti í hellinum, en þó ólíkt því sem var fyrir einungis nokkrum árum síðan. Þá sást varla handaskil fyrir gufu, en nú fer lítið fyrir henni. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi Grindvíkingar (Staðhverfingar) bakað sín brauð fyrrum.
Til baka var gengið út á Prestastíg og honum fylgt niður að Húsatóftum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.akmus.is/frodleiksmolar.htm

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.

Járngerðarstaðir

Sr. Gísli Brynjólfsson skrifaði um „Grindavíkurhverfin“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1967:
„Fljótlega eftir að fólk tók sér bólfestu í Grindavík, hafa þar byggst einar sex sjálfstæðar jarðir auk Ísólfsskála, sem er drjúgan spöl austan við aðalbyggðina.
thorkotlustadahverfi-229Í rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270 er getið bæði um Járngerðarstaði og Þorkötlustaði. Í landi þriggja þessara jarða hafa svo verið reistar hjáleigur, grasbýli og tómthús, með mjög takmarkaðar landsnytjar enda afkoman svo að segja að öllu leyti byggð á sjónum. Hefur fjöldi þeirra sjálfsagt verið nokkuð misjafn, þeim hefur fjölgað þegar vel fiskaðist, en fækkað svo aftur á móti á aflaleysisárum. Þess vegna mynduðust fljótt 3 hverfi í Grindavík og var nokkurt jafnvægi í byggðinni fram á síðustu ár eins og eftirfarandi tölur sýna:

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðabæirnir um 1960.

Í manntalinu 1703 er getið um 2 tugi lausamanna og marga, sem voru á sveitarframfæri. Auk þeirra, sem áttu lögheimili í plássinu safnaðist svo til Grindavíkur mikill fjöldi útróðrarmanna á vertíðinni eins og gerist enn í dag. Frá Grindavík reru skip Skálholtsstóls eins og úr fleiri verstöðvum, enda átti Skálholtskirkja allar jarðirnar nema Húsatættur. Sú jörð var konungseign. Árni Magnússon getur þess, að frá Þorkötlustöðum rói áttrætt skip Skálholtsstaðar, annað frá Hópi og 3—4 frá Járngerðarstöðum, en á Hrauni lagðist útgerð stólsins niður eftir að „skipið forgekk“ árið 1700. Þann vetur voru veður ofsaleg, segir Espólín, — urðu skiptapar miklir, fleiri en 20 á Suðurnesjum og í Gullbringusýslu. Á þeim týndist hálft annað hundrað manna og 129 af þeim á föstudaginn seinastan í Góu, á einni eykt. Þá hafa verið daprir dagar í Grindavík.
Þegar rituð verður saga Grindavíkur, kemur eflaust sitthvað í leitirnar, sem bregður ljósi á tilveruna í þessari verstöð, þótt lítt hafi hún sjálfsagt verið frábrugðin því sem tíðkaðist í sambærilegum plássum annars staðar. Einni slíkri mynd af landinu og lífinu í Grindavik er brugðið upp í Ferðabók Mackenzie’s er hann kemur þangað á ferð sinni um Suðurnes í ágúst 1810.
stadur-229Honum sýnist landið auðar og ömurlegar eyðimerkur hrauna og sanda, þar sem hvergi sér stingandi strá. Hvergi bregður fyrir neinu, sem gleður augað eða léttir lundina. Loks nálgast þeir byggðina, nokkra kofa á ströndinni. Út úr þeim kemur fólkið — karlar, konur og krakkar, skriðu út úr þessum hreysum eins og maurar úr þúfum. Það glápir á gestina í forundran „enda vorum við fyrstu útlendingarnir á þessum slóðum. Mackenzie hafði meðmælabréf til Mr. Jóns Jónssonar. Spurðu þeir uppi mann með því nafni og fengu honum bréfið. Mr. Jón er síðhærður gráskeggur og þegar hann er búinn að setja upp gleraugun og fer að lesa bréfið, minnir hann helzt á yfirbiskup í rétttrúnaðarkirkjunni.
— En þetta er ekki sá rétti Jón heldur er þeim vísað á annan Jón, — eina mílu í burtu. Þegar þangað var komið, var sá Jón ekki heima, en birtist samt von bráðar og bauð þeim í bæinn, sem þeim var mjög á móti skapi að þiggja og notuðu fyrsta tækifæri til að komast aftur út undir bert loft.

Staður

Staður í Staðarhverfi um 1960.

Kringum tjald þeirra félaga safnaðist fólkið — um 30 manns á öllum aldri, gerðist all-nærgöngult, að því er þeim fannst, og fór ekki fyrr en komið var fram á nótt og regnið og rokið rak það heim. Sökum óþrifnaðar og af ótta við sjúkdóma, vildu þeir ferðalangarnir hafa sem minnst saman við íbúana að sælda.
Það er allt annað en glæsileg mynd, sem þessi erlendi ferðalangur dregur upp af Grindvíkingum, háttum þeirra og híbýlum. Ekki er ótrúlegt, að hann hefði gefið þeim annan og betri vitnisburð, hefði hann kynnzt þeim í starfi þeirra og stríði við Ægi, sjósókn þeirra og siglingum, farið með þeim í einn róður þegar mátulega golaði, kynnst útsjón og áræði farsælla formanna og dugmikilla háseta. Enginn maður í atvinnulífi Íslendinga hefur verið jafn mikilsvirtur og góður, aflasæll formaður. Hann hafði enn meiri völd og virðingu skipshafnar sinnar heldur en húsbóndi á sveitabæ naut hjá hjúum sínum, enda aðstaðan að sumu leyti önnur, þar sem líf hásetanna var ósjaldan í hendi hans.
Hraun-229Hraun var eitt fjölmennasta heimilið í Grindavík á þessum árum. Voru þar 17 manns heimilisfastir. Þar bjó Jón hreppstjóri og dannebrogsmaður Jónsson, 78 ára, frá Járngerðarstöðum. Hann var tvígiftur. Fyrri kona hans var Sigríður Jónsdóttir frá Ásólfsstöðum í Eystrihrepp. Var hún 15 árum eldri heldur en bóndi hennar. Þau voru barnlaus. Sigríður dó á jóladaginn 1839 „af innvortis sjúkdómi“. Næstu tvö árin var Kristin systir Jóns fyrir búi hans, en 1841 fluttist til hans 25 ára gömul stúlka austan undan Eyjafjöllum, Guðbjörg Gísladóttir, fædd á Lambafelli 10. marz 1815. Fyrsta ár sitt á Hrauni var Guðbjörg talin þar vinnukona, því næst bústýra, en haustið 1842 þ. 7. október, Járngerðarstaðarhverfi. gaf sr. Geir Backmann þau Jón hreppstjóra saman í Staðarkirkju. Þá var brúðguminn 54 ára, en brúðurin 27 ára.

Hraun

Hraun í Grindavík um 2000.

Þau Hraunshjón eignuðust þrjú börn: Jón, dó vikugamall, Sigríður, fædd 29. janúar 1851. Hún giftist Hafliða Magnússyni. Bjuggu þau á Hrauni og eignuðast mörg börn. Guðbjörg, fædd 30. jan. 1859, giftist Gísla Hermannssyni frá Buðlungu. Þau bjuggu einnig á Hrauni. Jón á Hrauni var hinn merkasti maður. Bær hans var hinn allra reisulegasti í sókninni, segir sr. Geir í sóknarlýsingu sinni. Hann lét byggja þrjú mikil timburhús, slétta túnið og byggja um það grjótgarð mikinn, grafa afardjúpan brunn, sem úr fékkst all-gott vatn, en vatnsskortur var einn aðalókostur jarðarinnar. Sá var annar, að þaðan var ekki útræði á vetrum og höfðu Hraunsmenn uppsátur á Þorkötlustaðanesi. „En nú er velnefndur hreppstjóri að láta búa til vör fyrir sunnan túnið, vinnur þar að með mikilli atorku og víst þó töluverðum kostnaði að hverju sem verður“ (sóknarlýsing). Hann andaðist á Hrauni, tæplega sjötugur 3. maí 1894.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 15. október 1967, bls. 10-11 og 13.

Grindavík

Grindavík 1963.

Eldborg

Gengið var upp á Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, niður hrauntröð suðaustur úr megingígnum, beygt að Litlu-Eldborg, horft niður um gígopið og síðan gengið niður mikla hrauntröð til suðurs í Krýsuvíkurhraun.

Eldborgarrétt

Gamla Krýsuvíkurréttin (Eldborgarrétt).

Eftir að hafa fylgt tröðinni nokkurn spöl, var gengið yfir hraunið til austurs og síðan norðurs, uns komið var í aðra stóra hrauntröð úr gígunum. Hún var gengin upp að rótum. Svæði þetta er einstaklega áhugavert út frá jarðfræðilegum sjónarmiðum, en ekki síst náttúrulegum því í hrauninu hafa fest rætur hinar margvíslegustu plöntur, auk gamburmosans. Hraunin hafa jafnan verið nefnd undir samheitinu Krýsuvíkurhraun, en í rauninni er um nokkur aðskilin hraun að ræða, sem hvert hefur runnið yfir annað, að hluta til eða í heild.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Á hraunakortum af Krýsuvíkurhrauninu en ljóst er að mjög margir hraunstraumar eru settir undir örnefnið Krýsuvíkurhraun. Sjá má hvernig hraunstraumar hafa runnið niður hlíðarnar, s.s. í Sláttudal, en ofan við þær eru einstaklega fallegir eldgígar, sem fáir hafa barið augum. Þeir eru í góðu göngufæri frá Herdísarvíkurveginum, t.d. upp frá Sláttudal eða upp frá Sýslusteini skammt austar.

Eldborgir eru venjulega túlkaðar í eintölu og eru undir Geitahlíð. Stóra-Eldborg er t.a.m. nokkrir gígar þótt einn þeirra sé sýnum myndarlegastur og reistastur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar staðið er upp á suðuröxl Geitahlíðar sjást gígarnir mjög vel sem og hraunið niður undir þeim. Þetta eru formfagrir gjallgígar á suðvesturenda gígaraðar, sem skildi eftir hraun alla leið til sjávar. Hraunið frá Litlu-Eldborg er talsvert minna. Norðausturhluti gígaraðarinnar sést vel frá Æsubúðum.

Geitahlíð, sem fóstrar eldborgirnar á öxlum sínum, er grágrýtisdyngja. Í suðurhlíðum, ofan við Stóru-Eldborg, er Hvítskeggshvammur, en Æsubúðir efst á hlíðinni.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Við þær er gígur fjallsins, alldjúpur. Hvítskeggsvammi og Æsubúðum tengist þjóðsaga af kaupmönnum, sem í búðunum höfðu verslunarstað fyrrum. Við Hvítskeggshvamm bundu þeir skip sín og “mátti til langs tíma sjá festarkeng þar í klöppunum”. Líklegt er að þá hafi ströndin náð upp að fjöllunum, s.s. Herdísarvíkurfjalli, sem telja má líklegt. Ströndin neðan við fjallgarðinn er nýrra hraun, sem runnið hefur neðan af björgunum og fyllt upp og mótað landið neðan við þau. Ofan Stóru-Eldborgar liggur gamla þjóðleiðin milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, um Deildarháls og Kerlingadal, þar fyrir eru dysjar Herdísar og Krýsu.
Eldborgir undir Geitahlíð eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar 1987, sbr. Stj.tíð. B, nr. 622/1987. Þar s egir m.a. um friðlýsinguna:

Stóra Eldborg

Stóra Eldborg.

”Samkvæmt heimild í 22. gr laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hafa [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefnd Grindavíkur ákveðið að friðlýsa sem náttúruvætti Stóru – Eldborg og Litlu – Eldborg undir Geitahlíð, Grindavík, ásamt næsta nágrenni. Mörk hins friðlýsta svæðis eru eftirfarandi:
Að norðan fylgja þau mörkum hrauns og hlíðar, 200 m austur fyrir nyrstu gíga í gígaröð Litlu – Eldborgar. Þaðan hugsast bein lína í austurhorn hrauntraðar frá Litlu – Eldborg um 225 m sunnan borgarinnar. Síðan bein lína í vestnorðvestur að þjóðvegi, eftir honum að vesturjaðri hraunsins frá Stóru – Eldborg. Að vestan fylgja mörkin hraunjaðrinum.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu.

Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
Gjalltaka og mannvirkjagerð er óheimil, svo og hvers konar jarðrask, sem breytir eða veldur skemmdum á útliti gíganna. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðlýsta svæði umhverfis eldstöðvarnar.”
Eldborg myndast þegar þunnfljótandi kvika kemur upp um kringlótt gosop í fremur stuttum gosum og án kvikustrókavirkni (flæðigos). Umhverfis gosopið hlaðast upp brattir gígveggir úr hraunslettum. Hraunið frá þeim er ýmist hellu- eða apalhraun. Dæmi: Eldborg á Mýrum og þessar eldborgir í Krýsuvík.

Eldborg

Hraun við Eldborgir – kort Jóns Jónssonar.

Hraungos eða flæðigos nefnast þau gos sem nær eingöngu mynda hraun. Slík gos mynda ýmist eldborgir eða dyngjur. Eldborgir myndast við eitt, fremur stutt, flæðigos þegar þunnfljótandi gasrík hraunkvika flæðir upp um eldrás sem verður pípulaga er líður á gosið. Kvikan kraumar í gígskálinni og sýður upp úr henni með nokkru millibili. Við það flæðir kvikan yfir barmana og hlaðast þannig upp mjög reglulegir gígveggir úr nokkurra cm þykkum hraunskánum. Gígveggirnir eru brattir ofan til (40°- 60°) og mynda efst þunna egg og eru þeir aðaleinkenni eldborganna. Eldborgir eru mjög sjaldgæfar utan Íslands.

Þrátt fyrir friðlýsinguna hefur Litlu-Eldborg verið raskað með efnistöku. Svæðið sunnan Stóru-Eldborgar er í sárum eftir stórvirkar vinnuvélar og skammsýni mannanna. Þegar stigið er upp á leifarnar af gígopinu blasir það við, alldjúpt. Stiga eða band þarf til að komast niður. Barmarnir eru allsléttir.

Eldborgarhraun

Eldborgarhraunin.

Gengið var niður stóra hrauntröð vestast í Krýsuvíkurhrauni. Hraunin nefnast því einu nafni, sem fyrr sagði, en hraunið frá Litlu-Eldborg hefur runnið yfir hraunið frá Stóru-Eldborg og er síðarnefnda hraunið því eldra hraun. Annars greinir menn oft um aldur hrauna. Þannig hefur Ögmundarhraun t.d. verið sagt vera frá 1151, en þó hefur að verið aldursgreint frá árinu 1005 með geislakolsmælingum (C14 945 ± 85 ).
Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hraunanna. Ofar eru þau úfin, en gróin á milli og eftir því sem neðar og austar dregur. Þau hafa runnið fram af gömlu bjargbrúninni, sem sést neðan við svonefnda Klofninga. Ofan brúnarinnar er t.d. Krýsuvíkurhellir og Bálkahellir ofar. Fleiri hellar og rásir eru í hrauninu, en það hefur verið lítt kannað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Litla-Eldborg

Leifar gígs Litlu-Eldborgar.

Sveifluháls

Sveifluháls eða Austurháls er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Það hverasvæði er kennt við Krýsuvík. Nokkrir þekktir móbergstindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur.

Á SveifluhálsiMóberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnir jöklarnir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ.
Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Á SveifluhálsiSurtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.

Í Eimreiðinni árið 1900 birtist grein eftir Þorvald Thoroddsen um móberg á Íslandi. Hér kemur úrdráttur úr greininni er tekur einkum mið af jarðfræði Reykjanesskagans:
Á Sveifluhálsi„Í síðasta hefti Eimreiðarinnar hefir herra cand. mag. Helgi Pétursson skrifað grein, sem hann kallar »Nýjungar í jarðfræði Íslands«, og er aðalefni ritgjörðarinnar hugleiðingar um myndun móbergsins á Íslandi. Með því að grein þessi er stutt og höf. hefir farið nokkuð fljótt yfir sögu, leyfi ég mér að rita nokkur orð til skýringar. Þó get ég ekki, í alþýðlegu tímariti, skrifað eins ýtarlega um þetta mál, eins og þarf, ef það á að skýrast fullkomlega frá öllum hliðum.
Eins og flestum mun kunnugt, nær móberg og þussaberg yfir afarmikið svæði á Íslandi og tekur yfir alt miðbik landsins, að sunnan frá Faxaflóa austur fyrir Öræfasveit, að norðan frá Fnjóskadal austur í Þistilfjörð. Móbergið myndar þannig belti yfir landið þvert; það er mjög mismunandi að gerð og afarþykt, nokkur þúsund fet Á Sveifluhálsisumstaðar. Allir aðrir hlutar landsins eru aðallega myndaðir úr blágrýti (basalti) í þykkum hamrabeltum, sem bezt sjást í dalafjöllum og við sjóinn. Þessi blágrýtislög hallast víðast inn á við, inn undir móbergsbeltið. Í blágrýtis-héruðunum eru víða smáblettir af móbergi, og sumstaðar eru allþykk móbergs- og þussabergslög milli blágrýtislaga, og það sumstaðar djúpt í fjöllum, svo mörg hundruð feta blágrýtisberg liggur ofan á móberginu. Þó eru þessi móbergs-millilög tiltölulega lítil í samanburði við móbergið um miðbik landsins; þar eru aftur blágrýtislög innan um, en þeirra gætir minna, af því móbergið er þar í meirihluta. Af þessu sést, að móbergið er myndað á ýmsum tímum, þó miðbeltið sé auðsjáanlega yngra en hinar stóru blágrýtismyndanir.
Á SveifluhálsiÞetta er líka eðlilegt. Ísland er því nær alt myndað af eldgosum; blágrýtið er gamalt hraun, móbergið eldfjallaaska og gjall og sérhvert eldgos framleiðir hvorttveggja; bráðið hraungrjót rennur úr gígunum og mulið grjót kastast í loft upp, dettur niður og myndar móbergslög. Við öll eldfjöll um víða veröld eru hraun og móbergslög á víxl, en það er mismunandi og komið undir atvikum af hverju er meira á hverjum stað. Í Utah og víðar sunnan og vestan til í Bandarikjum eru 2000 feta þykkar móbergsmyndanir, er ná yfir afarstórt svæði, og móbergs- og hraunlög sjást um alla jörðina, þar sem eldgos hafa orðið, sum ný, sum frá ýmsum tímabilum jarðsögunnar.

Á Sveifluhálsi

Móberg kalla Íslendingar berg það, sem í útlöndum heitir »tuff«, en þussaberg það, sem menn annarsstaðar kalla »breccia«. Í móberginu eru yfirleitt sömu steinefni eins og í blágrýtinu, smámulin og orðin að dusti, en gleraðir og eldbrunnir hraunmolar innan um, stundum vikur, gjall og steinkúlur (bombur), alt þetta rusl loðir saman og er orðið að linu eða hörðu bergi; stundum er móbergið lagskift, stundum er engin skifting sjáanleg. Í hinu íslenzka móbergi eru óteljandi korn af gulleitu eða mórauðu steingleri, sem kallað er »palagonit< og af svörtu gleri (tachylyt); oft er þetta alt bráðið saman við öskuna og gjallið, og alt orðið einn eldbrunninn sori. Þussabergið er samsett af sömu efnum eins og móbergið, en í því eru stórir hraunsteinar á víð og dreif, hornóttir og ólögulegir. Í móberginu eru mjög víða uppskotnir gangar, hraunæðar með ótal greinum, sem hafa brotist gegnum bergið og kvíslast innan um það; í því eru enn fremur blágrýtislög, hnúðar og kleppar með skásettum og hringsettum (koncentriskum) súlum með bráðnu steingleri utan á; sumstaðar er svo mikið af þessu í móberginu, að blágrýtið verður aðalefnið, en móbergið að eins þunt tengiefni, svo sem t. d. í Botnsssúlum, og þar er ísnúið dólerít ofan á, og eins er í mörgum öðrum fjöllum um alt móbergssvæðið. Móbergið ber svo augljóslega með sér, að það er myndað af eldi, að ég gat ekki hugsað mér, að það dyldist nokkrum manni, sem skoðað hefir eitthvert móbergsfell. Ég varð því alveg hissa er ég sá, að höf. byrjar ritgjörð sína með því sannanalaust að fullyrða, að móbergið á Íslandi sé að miklu leyti fornar jökulurðir. Annað mál er það, að vel getur verið, að jökulurðir séu milli Á Sveifluhálsimóbergslaga og hraunlaga; á það munum vér síðar minnast. Um miðbik Íslands, í móbergshéruðunum, eru víðáttumikil grágrýtishraun (dólerít) af svipaðri gerð eins og grjótið í holtunum kringum Reykjavík, þau eru rispuð og ísnúin og auðséð, að jöklar hafa gengið yfir þau; hraun þessi hafa flest hagað sér eftir landslagi því, sem nú er, og runnið sumstaðar ofan dali (t. d. Flókadal), niður af Mosfellsheiði, kringum fellin í Mosfellssveit og í sjó fram, niður hlíðar og skörð á Reykjanesfjallgarði og Snæfellsnesfjallgarði. Það liggur í augum uppi, að þessi miklu hraun hafa ekki runnið öll í einu, heldur en aðrar nýrri hraunbreiður, enda sést það víða, að breytingar hafa orðið á landslagi frá því fyrstu dóleríthraunin runnu, en litlar eftir að hin síðustu mynduðust; það er t. d. algengt að dóleríthamrar eru í efstu brúnum þverbrattra fjalla, en ekkert dóleríthraun fyrir neðan, og hlýtur því mikið að hafa breytst síðan þau hraun mynduðust. Þetta sést á mörgum ritgjörðum mínum og jarðfræðisuppdráttum.
H. P. virðist ætla, að ég haldi öll dóleríthraun jafngömul, en slíkt hefir mér aldrei dottið í hug. Eftir að hin eldri dóleríthraun runnu hafa allvíða myndast ofan á þeim þykk móbergslög, t. d. við Laxárdal hjá Mývatni, við Kálfstinda og víðar; en langoftast liggja þó dóleríthraunin ofan á móberginu.
í móberginu eru hér og hvar hnullungalög (Conglomerat) með vatns- eða jökulnúnu grjóti, leir og sandi; þó þau séu víða allþykk, eru þau þó þunn og hverfandi í samanburði við móbergið alt. Slík hnullungalög hefi ég fundið kringum Suðurlandsundirlendið, við Mýrar, á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og víðar.

Á Sveifluhálsi

Móbergsmyndanirnar íslenzku eru mjög margbrotnar og eflaust myndaðar á ýmsan hátt og á ýmsum tímum, og vita jarðffæðingar enn nauðalítið um það, hvernig þær eru til orðnar; til þess þarf enn langar og miklar rannsóknir og samvinnu milli jarðffæðinga af ýmsu tægi; til þess þarf eldfjallafróða menn, jökulfróða og bergfræðinga; að rannsaka þetta alt til hlítar er einskis eins manns meðfæri. Þó er móbergið aðeins einn lítill liður í jarðfræði Íslands.
Á ferðum mínum varð ég að fást við margbrotin störf, kanna öræfi, landslag og fjallahæðir, undirbúa jarðfræðisuppdrætti, rannsaka jökla, eldfjöll, hraun og hveri, blágrýti, líparít, móberg, surtarbrand, sævarmenjar o. m. fl., til þess að fá yfirlit yfir þetta alt saman og búa svo í haginn fyrir eftirkomendurna. Rannsókn jarðlagaskipunar í hinum einstöku fjöllum tekur mikinn tíma, og gat
ég því miklu sjaldnar, en ég vildi, fengist við slíkt; þetta verður að bíða betri tíma og vona ég, að aðrir taki fyrir sig að kanna einstök svæði og einstaka liði í jarðfræði Íslands, eins og H. P. nú er byrjaður á, þar sem hann sérstaklega hefir lagt fyrir sig rannsókn jökulurða og ísmenja. Á þann hátt getum vér á endanum fengið fullkomna þekkingu um myndun og byggingu vors víðáttumikla og hrjóstruga föðurlands. Athuganir mínar um móbergið og aðrar jarðmyndanir Íslands hefi ég skrásett í ýmsum ritgjörðum, en sjaldan dregið ályktanir af þeim, nema þegar þær hafa verið mjög margar af sama tægi, því annars áleit ég, að þær hefðu ekki nægilegt sönnunarafl, fyr en fleiri bættust við.

Á Sveifluhálsi

Hér er ekki rúm til þess að geta um ýms málefni, er snerta jarðfræði móbergsins; en svo mikið er víst, að aldur ýmsra móbergslaga er mismunandi og að það er til orðið á öllum tímabilum, frá   því   snemma á hinum »tertíera« tíma fram á vora daga; en varla er enn byrjað að greiða sundur hinar einstöku deildir. Sumstaðar hefir eflaust myndast móberg og hraun milli ísalda. Það væri undarlegt, ef eldfjöll þá hefðu hætt að gjósa, og eins meðan jökull lá yfir öllu eða mestöllu landi, og hefir aska sú blandast saman við frammokstur jöklanna. I öðrum löndum hafa menn fundið rök fyrir nokkrum ístímabilum með tiltölulega hlýju loftslagi á milli, og svo hefir eflaust líka verið á Íslandi, enda hefir enginn efast um það.

Í framangreindri grein Helga Péturssonar „Nýjungar í jarðfræði Íslands“ í Eimreiðinni árið 1900 segir m.a.: „Helzta nýjungin er skjótt aö segja sú, að móbergið á Íslandi er að nokkru leyti, eða ef til vill að miklu leyti, fornar jökulurðir, nú orðnar að einum  steini  og  talsvert umbreyttar á ýmsan hátt. Oss hefur kent verið um móbergið, að það hafi í upphafi verið eldfjallaaska, en innanum ýmislega lagaðir basaltmolar og hraunmolar«. Að því er mér skilst, hafa þó verið miklir erfiðleikar á að skýra nánar, hvernig sumt móberg hafi farið að myndast við gos. En ýms einkenni þessara móbergstegunda, sem erfiðleikana gera, verða auðskilin, þegar það er séð, að þetta grjót er í raun réttri undan jöklum, og má rekja þetta ýtarlega, þó að ekki verði það hér gert.

Á Sveifluhálsi

Frá tveim hliðum má skoða þetta mál. Að öðru leytinu sjáum vér, að bergtegund ein er alls annars eðlis, en talið hefur verið, og skal lítið farið út í það hér. En um hitt ætla ég að fara nokkrum orðum, hvers vér getum orðið vísari af þessari bergtegund, þegar hún er rétt þýdd.
Vitringur einn hefur komist svo að orði, að atburðirnir semji sína eigin sögu um leið og þeir verða, og á það ekki sízt heima í sögu jarðarinnar; hraunin segja frá eldgosum, einkennilega skafið og rispað grjót frá skriðjöklum o. s. frv. Hlutverk jarðfræðinganna er nú bæði að taka sem bezt eftir, hvernig jörðin fer að skrásetja sögu sína, og eins að finna og þýða rétt þau skjöl og skilríki, sem til eru.
Þar sem er móbergsmyndanin íslenzka, má nú svo að orði komast, að vér höfum auðugt skjalasafn, er lýtur að ýmsum atburðum í jarðsögu landsins, ekki ómerkum. En lykilinn að þessu safni hefur vantað, og þar af leiðandi hlýtur því yfirliti yfir jarðfræði íslands, sem fengist hefur enn sem komið er, að vera talsvert áfátt, ámóta og vera mundi þekkingu vorri á sögu þjóðarinnar, ef sagnfræðingarnir hefðu ekki haft neina vitneskju um Sturlungaöldina t. a. m. Nú er þessi lykill fundinn, og þó að lítið sé að gert um rannsóknir á þessu skjalasafni enn, þá er samt svo mikið séð, að stórum verðum vér að breyta skoðunum vorum á íarðfræði lands vors, og að ísland er ólíkt öllum öðrum löndum — að því er ég bezt veit —, hvað ísaldarmenjarnar snertir.

Á Sveifluhálsi

Enginn þeirra jarðfræðinga, sem ferðast hafa á Íslandi, minnist á, að hann hafi séð ísnúna steina í móberginu; en í tölu þessara manna hafa þó verið nafnkendir ísaldarfræðingar eins og t.a.m. dr. K. Keilhack frá Berlín. En Keilhack virðist hafa komist lengst í áttina að þessari uppgötvun, eins og nú skal greina. Keilhack fann fyrstur eitthvað af þessu hnullungabergi 1883 og getur þess, að sér hafi þótt það mjög sviplíkt íslenzkum jökulurðum. Ekki leyfir hann sér þó að ætla, að þetta séu jökulurðir mjög fornar, heldur álítur hann, að hnullungaberg þetta sé árgrjót frá tertieröldinni. Dr. Thóroddsen rannsakar þessi svæði 10 árum seinna en Keilhack, og ber þeim á milli um aldur þessara laga:
»Þessi jarðmyndun hefir myndast af rennandi vatni og er ekki ólíklegt, að hér á landi, sem í öðrum löndum, hafi úrkoma verið mjög mikil rétt á undan ísöldinni; af því varð vatnsrennsli miklu meira en áður og þá hafa hnullungalög þessi orðið til«. (Thóroddsen: s. st).
Ég hef ekki séð þetta hnullungaberg og þori því ekki að segja neitt með vissu um, hvað það muni vera; en síðan í sumar eð var, er ég fann ísnúna steina í móberginu, hefur mér dottið í hug, að eitthvað muni búa undir þeirri líkingu, er Keilhack sýndist vera milli þessa hnullungabergs og jökulurða, og að því muni ef till vill vera ísnúnir steinar. En ef svo væri, og hefði Keilhack komið auga á þessa steina, væri líklega margt óskráð af því, sem nú má lesa um jarðfræði íslands, eða á annan veg ritað.
Á SveifluhálsiÍ einu af síðustu ritum þess manns, sem vér eigum fyrst og fremst að þakka það, sem vér vitum um jarðfræði Íslands, stendur, að hann — og þá auðvitað heldur ekki aðrir — »hafi hvergi fundið jökulurðir eða ísrákaðar klappir undir ísnúnu hraununum«.
(Thóroddsen: Explorations in Iceland during the years 1881 — 98. From »The Geographical Journal« for March and May 1899, bls. 23).
Ég nefni þetta atriði vegna þess, að á því byggir dr. Thóroddsen mikilsvarðandi ályktanir í jarðfræði landsins. »Hraun þessi, sem runnið hafa rétt fyrir ísöld, sýna bezt, að aðallögun yfirborðsins hefur þá verið svipuð eins og nú, og flestir dalir myndaðir áður en ísöldin gekk yfir«. (Thóroddsen: Jarðskjálftar o. s. frv., bls. 13). Og á líkum ástæðum byggjast þessi orð: »Seint á »tertiera« tímabilinu er líklegt, að Suðurlandsundirlendið hafi myndast« (s. st, bls. 21).
Á SveifluhálsiÞað er enginn efi á því, að grjótið í fjöllunum, sem að Suðurlands-undirlendinu liggja, brotunum úr hálendinu, er forðum náði frá Reykjanessfjallgarði austur undir Eyjafjöll (Thóroddsen), er eldra heldur en undirlendið sjálft. Nú er það eins víst og að hraun hafa runnið úr Heklu, að ýms af þessum fjöllum eru að nokkru leyti bygð upp af hörðnuðum jökulurðum. Má nefna Hellisheiði, Hagafjall og Búrfell. Með öðrum orðum: Suðurlandsundirlendið, langstærsta dældin á landi voru, er ekki eldra en ísöldin.
En undirlendið er heldur ekki yngra en ísöldiu; hraun, sem hafa runnið ofan á það, eru fáguð og rispuð af jöklum. Hraun þessi geta ekki hafa runnið meðan land alt var undir ís, og verður þá niðurstaðan sú, að Suðurlandsundirlendið sé til orðið milli »ísalda«.
Á SveifluhálsiSíðan dóleríthraunin runnu hafa ekki orðið stórvægilegar breytingar á landslagi (Thóroddsen), en þareð landið hefur stórum breyzt eftir þá ísöld, sem fór á undan dólerítgosunum, liggur sú ályktun beint við, að sá tími, sem landið var >íslaust«, — en var alhulið jöklum áður og síðan, — hafi verið miklu lengri en sá tími, sem liðinn er frá því, að jöklarnir hurfu af Suðurlandsundirlendinu síðast.
Er þetta mjög vægt í farið. Því að nokkrar, eða jafnvel miklar, líkur eru til, að fyrir þetta »millijöklatímabil« hafi landið bæði verið stærra, en það er nú, og landslag mjög ólíkt. Þar sem svo er til orða tekið, að landið hafi verið »íslaust«, þá verður að geta þess, að engin sönnun er fengin fyrir því, að að alls ekki hafi verið jöklar til á Íslandi á þessu tímabili; en öll líkindi eru til, að miklu minna hafi verið um jökla, en nú er á landinu.
Þetta byggist á því, að ísnúin Norlingahálsdóleríthraun liggja sumstaðar inn undir Vatnajökul, að því er dr. Thóroddsen segir; en þessi ísnúnu hraun, sem, eins og rannsóknir Thóroddsens hafa sýnt, taka yfir svo stór svæði á landinu, eru ekki runnin fyrir ísöld, heldur milli »ísalda«, eins og áður er að vikið.
Það er alkunnugt jarðfræðingum, að Suðurlandsundirlendið hefur verið í sjó, um það er jökullinn (þ. e. síðasti jökullinn) var að hverfa og síðar. En hitt hafa menn ekki haft neina vitneskju um, að sjór hefur gengið upp á undirlendið áður en þessi síðasti jökull kom yfir.
Hingað til hafa náttúrufræðingar, eins og við er að búast, einkum veitt eftirtekt eldfjallamyndunum lands vors. Vonandi er að upp frá þessu snúi menn sér ekki síður að ísaldamenjunum, sem landið er að nokkru leyti hlaðið úr, og er það nú þegar séð, að slík athugun muni geta kent oss ýmislegt merkilegt um myndunarsögu Íslands — og líklega stærri svæða.“

Heimild m.a.:
-wikipedia.org
-Eimreiðin, Þorvaldur Thoroddsen, 3. tbl. 01.09.1900, bls. 161-169.
-Eimreiðin, Helgi Pétursson, 2. tbl. 01.01.1900, bls. 52-60.

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

Reykjanes

Í Alþýðublaðinu árið 1926 er fjallað um vegi og vegagerð á Reykjanesi:
„Umhverfis Reykjanessvita eru, eins og mörgum er kunnugt, mestmegnis hraun og sandar. Reykjanesvegir-221Götutroðningarnir þangað úr Grindavík og Höfnum hafa og lengi lélegir verið. Nú hefir Ólafi Sveinssyni vitaverði tekist að fá 500 kr. af fjallvegafé til að ryðja veg til Grindavíkur, og hafa orðið ótrúlega mikil not af þeim krónum í höndum hans. Hann hefir í sumar gert akfæran veg eftir sandinum austur á móts við vík þá, er Mölvík heitir. Var þar áður talin hálfnuð leið að Stað í Grindavík, en ruddi kaflinn er nú allmiklu styttri, því að hann er ólíku beinni en gamla gatan og liggur miklu lengra frá sjó. Því er honum og óhætt fyrir sjávarágangi, þar sem sjór flæðir í hafróti á köflum yfir gömlu götuna. Þó hefir ólafur enn eigi notað nema 300 kr., en býst við að koma brautinni nokkuð austur í Grindavíkurhraunið fyrir þær 200 kr., sem eftir eru, — austur fyrir svo nefnda Hróabása. Er ólíkt að ferðast ríðandi eftir rudda kaflanum eða hinum, sem óruddur er, ellegar gömlu götunni- vestur frá Mölvík, svo sem þeir, er ferðast þar um, geta komist að raun um.
Reykjanesvegir-222Þeir, sem fara út á Reykjanes nú næstu daga Grindavíkurleiðina, ættu að skygnast eftir brautinni þegar aðalhrauninu lýkur. Hún er lengra upp til heiðarinnar en gamla gatan, en blasir við í nokkrum fjarska. Er hestum fært þangað upp eftir frá Mölvíkinni, ef gætni er við höfð, þó að ógreitt sé, eins og víða á þeim slóðum, og ekki verra en sums staðar eftir gömlu götunni. Ólafur býst við, að geta gert veg að Stað í Grindavík, svo að fær sé bifreiðum, fyrir 2 þúsund krónur, þ. e. 1500 kr. í viðbót við þá fjárveitingu, sem þegar er fengin. Væri það mikið hagræði ferðamönnum, sem fara til Reykjaness, og þeir eru talsvert margir, að komast alla leiðina í bifreið í stað þess að verða að ganga langa leið eða fá hesta og ferðast á þeim eftir ógreiðum hrauntroðningi.

Reykjanesvegur

Vagnvegurinn millum Reykjaness og Grindavíkur forðum.

Sá hlutinn, sem nær er Grindavík, er næstum óslitið hraun, og því er seinlegra og erfiðara að ryðja þar braut en eftir sandinum, þó að miklu grjóti hafi orðið að ryðja þar burtu; en Ólafur Sveinsson hefir sýnt, að honum er trúandi bæði fyrir verkinu og peningunum. Alt of seinlegt er að draga vegarbótina í fjögur ár, með einna 500 kr. fjárveitingu á ári. Þær 1500 kr., sem eftir eru, þurfa að fást að vori, svo að brautin verði fær alla leiðina haustið 1927. Það eitt er hagkvæmt í þessu máli. —

Reykjanes

Reykjanesvegur áleiðis að Kerlingabás.

Enn fremur hefir Ólafur Sveinsson gert akfæra braut frá vitavarðarhúsinu út að svo nefndum Kerlingarbási, sem er nálægt sjávarklettinum Karli —, og niður í básinn, og lagað þar svo til við sjóinn, að þar má lenda báti. Hygst hann að nota básinn fyrir vör. Annar lendingarstaður, sem áður hefir verið lagður vegur að, — á Kistu —, er miklu lengra burtu, og einnig hagar svo til, að Ól. Sv. býst við, að oft megi lenda á öðrum þeim stað, þótt ófært sé á hinum.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 20. ágúst 1926, bls. 2.

Reykjanesvegir

Gamli-Reykjanesvegurinn til Grindavík; loftmynd 1954.

Grindavík

Eldgos hófst af miklum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu Stóra-Skógfelli ofan Grindavíkur um klukkan 23.14 þann 20. nóv. 2024. Starfsmenn HS Orku urðu fyrst varir við merki í borholum um yfirvofandi eldgos rétt áður en það hófst. Starfsmenn voru á svæðinu og fluttu þeir sig strax upp á Reykjanes.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrstu fréttir af hraunrennsli benda til þess að hraunstraumur renni í vestur og liggi sunnanvert í Stóra-Skógfelli, að því er fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar. Enginn hraunstraumur sést í átt að Grindavík, heldur hefur hann leitað lengra til vesturs en áður hefur verið – að bílastæði Bláa lónsins. Þar mætir hraunstraumurinn annars vegar hárri hraunbrún Illahrauns að sunnanverðu og Arnarseturshraunsbrúninni að austan. Eini möguleikinn er að meint hrauntunga teygi sig í átt að Lat, syðsta gíg hinna eldri Eldvarpahrauna.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Gosmökkurinn var mikill í upphafi goss. Sást hann greinilega í kvöld- og næturskímunni. Sprunga opnaðist á annars miðri gosrásinni á um 2.5-3.0 km kafla milli Sundhnúks og austur fyrir sunnanvert Stóra-Skógfell. Umfangs hraunsins gæti orðið um 6 ferkílómetrar. Væntanlega mun draga úr gosinu fljótlega. Fyrsta sólahrringinn kom upp tæplega helmingur þeirrar kviku sem hafði áður safnast upp undir svæðinu.

Þetta er tíunda hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021. Þrjú hinna fyrstu áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst og þetta nýjasta 20. nóv., sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Líklegt er að þessi hrina verði litlu langlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á hólminn er komið.
Náttúruöflin eru ólíkindatól. Þótt þetta eldgos, líkt og hin fyrri, hafi virst óálitlegt tilsýndar, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og óvænta möguleika. Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður…

Sjá MYNDIR úr eldgosunum sex við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Grindavík

Grindavík – eldgs 20. nóv. 2024.