Tag Archive for: Grindavík

Tyrkjarán

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 rekja Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols „Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins„:

Tyrkjaránið

„Margir þekkja til Tyrkjaránsins á Íslandi í júlí 1627 þegar hartnær 400 manns var rænt í Vestmannaeyjum og á Austfjörðum og fólkið flutt á þrælamarkað í Algeirsborg á norðurströnd Afríku. Hér verður fjallað um annan þátt Tyrkjaránsins 1627 þegar sjóræningjar semvoru frá borginni Sale á strönd Marokko rændu verðmætum og fólki í Grindavík. Þessir sjóræningjar, sem Íslendingar nefna oftast Tyrki, sigldu um 3.500 kílómetra vegalengd yfir úfið Atlandshafið og komu fólki í Grindavík algjörlega í opna skjöldu.

Járngerðarstaðir
Á fyrri hluta 17. aldar var Grindavík, eins og bæði fyrr og síðar verslunar- og útgerðarstaður. Í margar aldir skiptist Grindavík í þrjú hverfi eða bæjarþyrpingar. Það eru Staðarhverfi vestast, þar var kirkjustaður, síðan Járngerðarstaðahverfi þar sem þorpið og síðar Grindavíkurbær byggðist upp og austast er Þórkötlustaðahverfi.
TyrkjarániðÖll þessi hverfi voru kennd við aðalbýlin á þessum stöðum og í raun eru það landfræðilegar aðstæður, hraunflákar, sem skipta byggðinni í þrennt. Sjósókn og sjávarnytjar voru alla tíð aðalatvinnuvegurinn. Járngerðarstaðir voru höfuðbýli og besta jörð sveitarinnar. Þar hófst byggð þegar á landnámsöld. Þar var þingstaður sveitarinnar. Járngerðarstaðir komust í eigu Skálholtsstóls löngu fyrir siðaskipti og voru Járngerðarsstaðir mjög mikilvægur útgerðarstaður Skálholtsstóls. Á fyrri hluta 16. aldar þegar enskir kaupmenn höfðu mikil umsvif í útgerð og verslun á Íslandi höfðu þeir aðalbækistöð sína í landi Járngerðarstaða.

Járngerðarstaðir á dögum Tyrkjaránsins

Grindavík

Árið 1627 bjuggu á Járngerðarstöðum hjónin Jón Guðlaugsson, sagður smiður og Guðrún Jónsdóttir frá Stað. Foreldrar Guðrúnar voru Séra Jón Jónsson og Guðrún Hjálmsdóttir. Sr. Jón hafði verið prófastur á Stað á árunum 1582-1602.

Grindavík

Dæmigert sjávarbýli 1627.

Ekki eru heimildir um foreldra Jóns Guðlaugssonar. Guðrún átti fjóra bræður, Filippus, Hjálm, Halldór og Jón. Guðrún og Jón Guðlaugsson áttu þrjá syni sem voru ungir menn og einn þeirra enn á barnsaldri. Líkur eru á að móðir Guðrúnar hafi verið á lífi árið 1627 þar sem Jón sonur Guðrúnar, biður í bréfi sem hann skrifaði úr Barbaríinu (eins og múslimski hluti Norður-Afríku var kallaður) að heilsa ömmu sinni, sé hún enn á lífi, en Jón minnist ekki á afa sinn og því má telja að hann hafi verið látinn árið 1627. Heimildir telja að Jón Guðlaugsson hafi verið nokkuð við aldur en Guðrún hefur verið um fertugt í Tyrkjaráninu. Halldór Jónsson, bróðir Guðrúnar var fæddur um 1590 og því 37 ára þegar þessir atburðir gerðust. Hann var kvæntur Guðbjörgu Oddsdóttur Oddssonar prests á Stað frá 1602-1618, þannig að Oddur tók við Stað af sr. Jóni Jónssyni, föður Guðrúnar.

Grindavík

Grindavík – Tyrkjaskipin.

Þetta dæmi sýnir náin tengls fjölskyldunnar innbyrðis og stöðu hennar í samfélaginu. Halldór og Guðbjörg áttu tvö ung börn, Jón sem var fæddur 1623 og Guðbjörgu sem var fædd 1625. Um aðra bræður Guðrúnar, Filippus, Hjálmar og Jón eru fáar heimildir. Af þessari upptalningu má sjá að Járngerðarstaðafólkið var vel sett og áhrifamikið í samfélaginu sem allar líkur voru að héldi áfram til næstu kynslóða. Jón, sonur Guðrúnar sem var nýútskrifaður úr Skáholtsskóla var líklegur til að taka við Járngerðarstöðum, gerast prestur eða taka við öðru góðu embætti. Járngerðarstöðum tilheyrðu 10-12 hjáleigur þannig að alls bjuggu margir tugir manna á Járngerðarstöðum og hjáleigunum. (Þess má geta að í manntalinu 1703 bjuggu um 70 manns á Járngerðarstöðum og hjáleigunum).

Miðvikudagurinn, 20. júní 1627

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Sjóræningjar frá Norðurströnd Afríku gerðu oftast árásir á mörgum skipum samtímis líkt og úlfahjörð. Þeir voru þekktir fyrir að ráðast á fólk og fénað með öskrum og látum. En svo var ekki um sjóræningjaskipið sem kom til Grindavíkur frá hafnarborginni Salé í Marokkó. Foringi þeirra var gætnari en svo. Sjóræningjarir voru einskipa og hafa því hugsanlega verðið varkárari fyrir vikið. Þegar komið var fram á sumar voru skipaferðir tíðar umhverfis landið.

Grindavík

Grindavíkurhöfn fyrrum.

Bæði verslunarskip og fiskiduggur voru algeng sjón og því var fólk í Grindavík ekki sérstaklega á verði þegar sjóræningjaskipið kom að landi. Sjóræningjarnir beittu brögðum. Danskt kaupskip lá við akkeri fyrir utan ströndina.
Sjóræningjarnir sendu menn um borð í danska skipið til að kanna aðstæður. Þeir þóttust vera danskir hvalfangarar sem villst höfðu af leið. Þegar hér var komið sögu sendi danski kaupmaðurinn bát með átta mönnum innanborðs til að kanna hverjir væru á þessu nýkomna skipi. Þegar þeir klifruðu um borð í sjóræningjaskipið voru þeir yfirbugaðir. Allar líkur eru á að þeirra hafi beðið barsmíðar og ill meðferð. Það voru fastir liðir hjá sjóræningjum þessa tíma. Eftir að hafa gengið í skrokk á þessum átta mönnum er ljóst að sjóræningjarnir hafa fengið allar þær upplýsingar um staðhætti sem þeir vildu fá. Í Tyrkjaránssögu Björns Jónssonar á Skarðsá, sem er ein aðalheimildin um þennan atburð er þess getið að sjóræningjarnir hafi þegar þeir lögðu frá Grindavík gefið tveim íslenskum mönnum af þessum átta frelsi. Ekki er ólíklegt að það hafi verið sem um það samið að þeir fengju frelsi í stað upplýsinga um aðstæður í landi. Hvað sem öllu líður þá urðu sjóræningjarnir mun öruggari með sig eftir að hafa kyrrsett þessa átta menn. Þrjátíu sjóræningjar, vopnaðir byssum, sveðjum og sverðum reru yfir í danska verslunarskipið og yfirbuguðu áhöfnina auðveldlega þar sem aðeins skipstjóri skipsins og tveir úr áhöfninni voru enn um borð.

Jan Janszoon van Haarlem

Tyrkjir

Tyrkir koma.

Sjóræningjarnir réðust nú skjótt til atlögu í landi. Foringi þeirra var hollenskur trúskiptingur (kristinn maður sem snúið hafði til múhameðstrúar), að nafni Jan Janszoon van Harlem, betur þekktur sem Murat Reis (Kafteinn Murat) Hann hóf sinn feril tuttugu árum áður sem sjóvíkingur og siglgdi þá undir hollensku flaggi. Þá rændi hann spænsk skip. Árið 1618 var hann hertekinn á Lanzarote einni af Kanaríeyjum og færður til Algeirsborgar. Þar snérist hann til Múhameðstrúar og varð skipstjóri á sjóræningjaskipi, fyrst frá Algeirsborg og síðan borginni Salé.
Í Salé var hann aðmíráll flotans. Morat Reis var reynslumikill foringi. Hann hafði eytt mörgum árum í sjóræningjaferðum bæði á Miðjarðarhafi og á Atlantshafsströnd Spánar og Portúgals og við strendur Suður-Englands. Hann vissi nákvæmlega hvernig standa átti að árás á strandbæi líkt og Grindavík. Á skipi hans var á milli 60 og 70 manna áhöfn. Líklegt er því að yfir 50 þeirra hafi gert áhlaup á byggðina í Grindavík. Óvopnað fólk í Grindavík var því auðveld bráð.

Tyrkir ráðast til atlögu

Tyrkir

Tyrkjaskip.

Sjóræningjar voru þekktir fyrir takmarkalausa grimmd en markmið árásar sem þessarar í Grindavík var ekki að drepa fólk og eyðileggja verðmæti heldur að ræna fólki og verðmætum og koma í verð. Þegar sjóræningjarnir gerðu atlögu að íbúum Grindavíkur hafa þeir farið um með ópum og látum en fyrst og fremst til að ógna fólki en þeir hafa forðast að særa fólk líkamlega nema það veitti mótstöðu.
Sært fólk eða illa haldið var ekki álitleg söluvara á þrælamörkuðum Norður-Afríku. Þegar sjóræningjarnir komu inn í byggðina réðust þeir á dönsku verslunarhúsin. Danski kaupmaðurinn hafði flúið en hafði falið eins mikið af verðmætum eins og hann gat áður þannig að sjóræningjarnir gripu í tómt. Næst urðu Járngerðarstaðir fyrir sjóræningjunum.
Fyrsta manneskjan sem féll í hendur þeirra var húsfreyjan Guðrún Jónsdóttir.
Bróðir hennar, Filippus reyndi að koma henni til aðstoðar en ræningjarnir slógu hann og skildu hann eftir hálfdauðan.
Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar sem var á hestbaki reyndi einnig að koma Guðrúnu til bjargar. Hann drógu ræningjarnir af hestinum. Hjálmar var óvopnaður fyrir utan písk sem hann hafði í hendi.
Með písknum sló hann til ræningjanna en það dugði skammt. Ræningjarnir slógu hann og meiddu á margan hátt og skildu hann eftir liggjandi í sárum sínum. Þeir settu nú Guðrúnu á hest Hjálmars og færðu hana til skips. Í lok dagsins höfðu þeir ekki aðeins hertekið Guðrúnu og Jón bróður hennar heldur einnig Halldór bróður hennar og þrjá syni, þá Jón, Helga og Héðinn. Samkvæmt Tyrkjaráns-sögu voru Halldór og „aðrir“ auðveldir viðfangs fyrir sjóræningjana þar sem ekki hvarflaði að þeim að þeim yrði rænt þannig að þeir reyndu ekki að flýja. Íslendingar höfðu áður fengið að kenna á sjóræningjum en þeir voru af annari sort, þeir rændu ekki fólki, aðeins verðmætum og fénaði. Maður Guðrúnar, Jón Guðlaugsson var einnig tekinn höndum en Tyrkirnir höfðu lítinn áhuga á honum þar sem hann var nokkuð við aldur og því skildu þeir hann eftir í sárum eftir barsmíðar.

Hollensk heimild um Grindavíkurránið

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – handrit.

Heimildir um ránið segja ekki hvort bræður Guðrúnar, Halldór og Filippus náðu sér af sárum sem þeir hlutu af Tyrkjum. Í bréfi sem Oddur Einarsson Skálholtsbiskup skrifaði haustið 1627 kemur fram að Tyrkir rændu dönsku kaupskipi í Grindavík og 12 Íslendingum, þar á meðal „konu og stúlku“ og að einn íslenskur maður hafi fengið mörg sár og verið rúmliggjandi upp frá því. Hér er greinilega átt við Guðrúnu og bróður hennar. Hvort annar bróðir hennar hafði verið drepinn kemur ekki fram í bréfi Odds biskups. Svo vill til að til er bók sem fjallar um ýmsa atburði á fyrri hluta 17. aldar í Evrópu, Norður-Afríku, Asíu og Ameríku. Höfundurinn var Nicolaes van Wassenaer, læknir í Amsterdam, Hollandi. Bókin, Historisch verhael… ( hefur afar langan titil) var tuttugu og eitt bindi, gefin út á árunum 1622-1630. Í umfjöllun um árið 1627 rekur Nicolaes van Wassenaer ránið í Grindavík og segir að sjóræningjarnir frá Salé hafi hertekið 12 manneskjur, og: „þar á meðal konu ásamt þrem sonum sínum og tveim bræðrum og tveir aðrir bræður hennar voru drepnir.“ Hér er augljóslega verið að vísa til Guðrúnar, bræðra hennar og sona. Það er því nokkuð víst að bæði Filippus og Hjálmar dóu af sárum sínum.

Murat Reis heldur frá Grindavík

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

Þegar Murat Reis hélt með ránsfeng sinn frá Grindavík sigldi hann næstu daga með ströndinni í átt til Bessastaða. Nú hafði hann mannað danska kaupskipið og því voru skipin nú orðin tvö sem hann réði fyrir. Það var ekki tilviljun að Murat Reis hélt til Bessastaða þar sem þar var einna helst von til að finna verðmæti í hirslum dönsku yfirvaldanna þar. Járngerðastaðafólkið var hlekkjað í lest stærra skipsins. En ekki vildi betur en svo til að þegar hann sigldi skipum sínum inn á Seyluna, sem eru grynningar rétt utan við Bessastaði strandaði stærra skipið. Hirðstjórinn á Íslandi, Holgeir Rosinkrans bjóst til varnar en hikaði þó að láta til skarar skríða gegn ræningjaskipunum. Murat Reis tók það til bragðs að hann flutti farm, þar á meðal Járngerðastaðafólkið úr stærra skipinu yfir í það minna og náði stærra skipinu þannig á flot. Síðan sigldu ræningjaskipin í brott og héldu nú undir Snæfellsnes. Allmargar enskar fiskiskútur voru að veiðum út af Vestfjörðum en þeirra var vel gætt af enskum herskipum. Þegar Murat Reis og hans menn fréttu að herskip væru á þessum slóðum ákvað hann að snúa við og tók nú stefnuna á heimahöfn sína. Í lok júlí eftir rúmlega mánaðar siglingu komu bæði skipin til Salé.

Salé á strönd Marokkó
Tyrkjaránið
Fólkið sem rænt var í Grindavík var flutt til borgarinnar Salé sem er á Atlantshafsströnd Marokkó í tæplega 300 kílómetra fjarlægð frá Gíbraltar, nokkru norðar en borgin Casablanka. Í dag er oftast talað um borgirnar Salé-Rabat, sem er höfuðborg Marokkó sem eina heild. Borgirnar eiga sér ólíkan uppruna þrátt fyrir að aðeins áin Regret skilji þær að.
Salé (sem stundum er nefnd Gamla Salé) er á norðurbakka árinnar var stofnuð á 11. öld. Hafnaraðstaða er góð og þar var rekin verslun og landbúnaður. Á fyrsta fjórðungi 17. aldar varð Salé sjálfstætt ríki og víðkunn bækistöð sjóræningja. Jan Janszzon, foringi sjóræningjanna í Grindavík átti þátt í stofnun þess.
Tyrkjaránið
Ástæðan fyrir uppgangi sjóræningja í Salé er sú að þegar múslímar voru reknir frá Spáni í lok 15. aldar fengu margir þeirra að verða eftir á Spáni gegn því að taka kristna trú og siði. En þar sem þeir aðlöguðust ekki vel og Spánverjar sem voru kaþólskir treystu þeim ekki til þess að verða góðir og gegnir Spánverjar. Því voru þessir múslímar reknir frá Spáni í byrjun 17. aldar og fluttir til Norður-Afríku. Þessir múslímar voru nefndir Márar en þeir voru reyndar ekki alls staðar velkomnir í Norður-Afríku. Því settust sumir þeirra að í Salé (Gömlu-Salé) þar sem þeir tóku upp sjórán og gerðust herskáir sjóræningjar.
Tyrkjaránið
Borgin skiptist í Gömlu-Salé og Nýju-Salé. Á þessum tíma var Nýja-Salé mikilvæg miðstöð sjóræningja með mikil tengls við sjóræningjaborgir á Norðurströnd Afríku, sérstaklega Algeirsborg. Nýja-Salé var heimahöfn 30 til 40 sjóræningjaskipa og íbúafjöldi borgarinnar líklega um 15.000, þar af stór hluti þrælar. Murat Reis var foringi þessa sjóræningjaflota sem gerði þaðan út.
Þessi velheppnaða ránsferð Murat Reis til Íslands var tilefni til mikils fagnaðar, hleypt var af fallbyssum, lúðrar hljómuðu og sekkjapípur flautuðu. Þessi ránsferð hafði verið óvenju löng og hættuleg, en þrátt fyrir það vel heppnuð. Ránsfengurinn var danskt kaupskip, allur ránsfengur sem ræningjarnir höfðu komist yfir í landi og ekki síst 50 til 100 manns, Íslendingar, Danir og Englendingar. Þó er erfitt að finna út einhverja nákvæma tölu. Fangaða fólkið var sett á land og rekið upp á „kastala borgarinnar Kyle, að frá tekinni Guðrúnu Jónsdóttur, hennar yngsta syni og lítilli stúlku er Guðrún Rafnsdóttir hét“ segir í Tyrkjaránssögu. Síðan segir í sömu heimild: „Margt landsfólk kom þangað í húsið til fanganna, kristnir menn til að gleðja þá og hugga en Tyrkjar til að skoða þá og spotta. Þar eftir voru þeir leiddir út á kauptorg staðarins, og til settir menn að bjóða þá fram til sölu sem önnur ferfætt kvikindi.“

Tyrkjaránið

Alsírborg og höfnin fyrrum.

Afdrif systkinanna Guðrúnar og Halldórs
Guðrún Jónsdóttir var ekki seld á þrælamarkaðinum eins og aðrir. Hún var leidd ásamt Guðrúnu Rafnsdóttur í hús til Tyrkja nokkurs. Ástæðan fyrir þessu gæti verið að einhver ræningjanna, eða fjárhagslegur bakhjarl leiðangursins hafi sjálfur viljað gera samning um útlausn hennar. En það var ekki síður gróðavegur fyrir sjóræningja og samverkamenn þeirra að heimta lausnargjald fyrir fangana. Halldór Jónsson var seldur Tyrkja nokkrum en síðar eignaðst Beram Reis Halldór. Beram Reis var einn þeirra sem tók þátt í Grindavíkurráninu og var gerður að kapteini á danska kaupfarinu sem rænt var. Halldór átti illa vist í Salé. Hann var skorinn í andlit og á höndum og bar örkuml þessi alla ævi. Oftast er þess getið í frásögnum um Tyrkjaránið að Guðrún og Halldór bróðir hennar hafi verið leyst út af hollenskum manni og þau komið til Íslands innan árs eftir að þeim var rænt. En hvernig má það vera að þau eru leyst úr ánauð svo skömmu eftir að þau koma til Salé? Þessi stutti tími útilokar að Íslendingar hafi samið um lausnargjald fyrir þau. Bréf bárust seint og illa á milli landa. Bréf voru oft jafnvel nokkur ár á leiðinni frá Norður-Afríku til Íslands ef þau á annað borð komust til skila.

Hollenskt kaupfar

Hollenskt kaupfar.

Hér verður því að gera ráð fyrir því að Guðrún sjálf hafi samið um lausnina á einn eða annan hátt fyrir þau systkinin. Það er ekki tilviljun að það var hollenskur kaupmaður sem keypti þau laus eða haft milligöngu um að kaupa þau laus. Hollendingar voru verslunarþjóð og siglingaveldi á þessum tíma og þeir áttu viðskipti víða. Í bók Nicolasar van Wassenaer sem áður er minnst á var danska kaupfarið sem rænt var á legunni í Grindavík í raun hollenskt kaupfar sem hét, Oliifboom, eða Ólífutréð upp á íslensku. Mjög mörg kaupför sem komu til Íslands á þessum tíma voru hollensk. Þess má geta að séra Ólafur Egilsson, prestur í Vestmannaeyjum sem rænt var í Tyrkjaráninu kom með hollensku kaupfari til Íslands sumarið 1628. Það er því hugsanlegt að þessi hollenski kaupmaður sem greiddi lausnargjaldið fyrir Guðrúnu og Halldór hafi þekkt til þeirra. Járngerðarstaðir voru mikilvæg verstöð og verslunarstaður. Guðrún hefur án efa borið það með sér að hún var ekki dæmigerð alþýðukona, heldur húsfreyja sem átti talsvert undir sér og kom frá efnuðu heimili. Því má alveg gera ráð fyrir að hún hafi samið um lausnargjaldið þeirra systkina sjálf.
Hollenski kaupmaðurinn hefur í gegnum sín sambönd greitt götu þeirra og líklega hagnast sjálfur vel á viðskiptunum. Þetta eru ekki tómar getgátur heldur má færa sterk rök fyrir þessu í bréfi sem Jón sonur Guðrúnar skrifaði til Íslands frá Algeirsborg til foreldra sinna árið 1630. Þar segir: „Þakkir séu lifandi guði, að móðir okkar sæl frelsaðist héðan, og ég segi fyrir mig, að þó ég ætti hér í staðinn vera, veit ég vel að ykkar peningur hefir þar til gengið – má vera.“ Með öðrum orðum segir Jón hér að það séu ekki til meiri peningar á Járngerðarstöðum til að leysa hann út og þá bræður. Jón Guðlaugsson maður Guðrúnar lést um svipað leyti og hún snéri aftur til Íslands. Guðrún giftist síðan Gísla Bjarnasyni prófasti í Grindavík en hann var ekkjumaður. Halldór snéri aftur til konu sinnar og barna. Hann var jafnan nefndur Halldór hertekni eftir herleiðinguna. Á meðal afkomenda hans er margt merkisfólk og fólk af hinni þekktu Járngerðarstaðaætt á Suðurnesjum getur rakið ætt sína til hans. Halldór skrifði rit um Tyrkjaránið sem nú er glatað.

Afdrif Járngerðarstaðabræðra
TyrkjarániðJón Jónsson stúdent er þekktastur þeirra bræðra frá Járngerðarstöðum, sona Guðrúnar og Jóns Guðlaugssonar. Vitað er að hann skrifaði nokkur bréf til Íslands og eitt þeirra hefur varðveist í afskriftum.
Það er bréf sem hann skrifaði til foreldra sinna frá Algeirsborg og dagsett er 24. janúar 1630. Helgi bróðir hans skrifar einnig undir það bréf. [Bréfið er varðveitt í Landsbókarsafninu]. Ævi Jóns var í engu frábrugðin annarra þræla í Barbaríinu eins og Íslendingar kölluðu íslamska hluta Norður-Afríku einu nafni. Hann var fljótlega eftir komuna til Salé seldur áfram til Algeirsborgar ásamt Helga bróður sínum. Þegar árið 1630 hafði hann verið seldur fimm sinnum. Ein ástæða fyrir því að hann var ekki keyptur úr ánauð var sú að hann var of dýr eins og hann minnist sjálfur á í bréfi sínu sem varðveist hefur. Um afdrif hans er ekki vitað annað en hann var enn á lífi ári 1635 en gera má ráð fyrir að hann hafi dáið sem þræll í Algeirsborg en þangað var hann kominn ekki löngu eftir að hann var settur á land í Salé.

Héðinn Jónsson
Héðinn varð frjáls maður aðeins sex árum eftir að hann kom til Salé og fékkst við smíðar. Það bendir til þess að hann hafi turnast, kastað kristni og gerst Múhameðstrúar. Það var í raun eina leiðin til að verða frjáls. Um afdrif hans er ekki vitað frekar. Helgi átti litríkan feril í Barbaríinu. Hann var hraustur og hugrakkur og var um tíma á galeiðu undir stjórn sjóliðsforingjans Jairi Mustafa. Þó er ólíklegt að hann hafi verið galeiðuþræll þar sem vitað er að hann kom eitt sinn í land í borginni Salé en hlekkjaðir galeiðuþrælar gátu aldrei yfirgefið skipin. Gera má ráð fyrir að Helgi hafi verið innan við 7 ára gamall þegar hann kom til Salé. Það má ráða af því að hann fylgir fyrst móður sinni eftir komuna til Salé en hefur síðan alist upp sem múslími eins og venja var með unga drengi sem rænt var. Það skýrir einnig hvers vegna hann varð frjáls maður og varð smiður. Það hefði hann ekki getað gert sem kristinn maður.

Helgi Jónsson
TyrkjarániðÞegar loks farið var að kaupa Íslendingum í Barbaríinu frelsi var Helgi einn þeirra. Hann var keyptur úr ánauð í maí 1635, síðastur þeirra 37 Íslendinga sem keyptir voru. Lausnargjaldið fyrir hann var 200 ríkisdalir. Helgi kom til Íslands sumarið 1637 ásamt öðrum Íslendingum sem leystir höfðu verið. Helgi kvæntist Guðbjörgu Gísladóttur og tóku þau við búi á Járngerðarstöðum eftir lát Guðrúnar Jónsdóttur. Helgi lést 1664 eða 1665. Við Járngerðarstöðum tók um tíma Guðbjörg ekkja Helga en Jón Helgason sonur þeirra tók við Járngerðarstöðum 1668.
Þess má geta að í Sögu Grindavíkur, fyrra bindi frá árinu 1994 eftir Jón Þ. Þór er því haldið fram að Guðrún Jónsdóttir frá Stað hafi átt þrjá bræður og þau hafi verið hertekin og öll komið aftur til Íslands. (sjá bls. 114) Þetta er ekki rétt.
Eins og fram hefur komið hér átti Guðrún fjóra bræður, Jón og Halldór sem voru herteknir, og Halldór síðan leystur út með Guðrúnu en Filippus og Hjálmur (Hjálmar) sem dóu líklega af sárum sínum í ráninu í Grindavík.)“

Um höfundana
Karl Smári Hreinsson er ásamt Adam Nichols annar þýðandi Reisubókar sr. Ólafs Egilssonar á ensku. Hann var í mörg ár kennari í nútíma íslensku við Maryland háskóla. Hann er höfundur margra greina um söguleg efni og aðalhandritshöfundur tveggja heimildamynda. Hann á og rekur málaskólann Sögu Akademíu í Keflavík.
Adam Nichols hefur skrifað margar greinar um Tyrkjaránið og skyld efni og er nú að vinna að bók um einn þekktasta sjóræningja 17. aldar, Jan Janszzon. Adam hefur einnig skrifað nokkrar skáldsögur og er liðtækur vatnslitamálari. Hann er prófessor við Maryland háskóla og kenndi á Íslandi af og til í 10 ár. Hann heldur úti bloggsíðu um sjórán og siglingar 17. aldar: corsairandcaptivesblog.com.
Þessi grein birtist upphaflega í Heima er bezt, 10 tbl. 68.árg. 2018.

Helstu heimildir framangreinds:
-Tyrkjaráns-saga eftir Björn Jónsson á Skarðsá. Samin 1643. Reykjavík. 1866.
-Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Sögufélagið gaf út. Reykjavík 1906-1909.
-Jón Þ. Þór. Saga Grindavíkur. Frá Landnámi til 1800. Grindavíkurbær 1994.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins – Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols, bls. 8-17.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.

Grindavík

Í skýrslu um „Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík“ frá árinu 1914 má m.a. lesa eftirfarandi samantekt um byggðasögu Grindavíkur:

Staðhættir

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.

Landnám og byggðaþróun

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
Líklega hefur Molda-Gnúpur búið á þessum slóðum.

Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Hugtakið hverfi var notað yfir þéttbýli sem risu hvort sem er til sjávar eða sveita hér á landi og virðist hafa verið notað eins í Noregi. Orðið þorp var ekki notað hér yfir þéttbýli fyrr en mikið seinna.
Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.

Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Um miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.

Saga Grindavíkur

Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík.

Flagghúsið

Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.

Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.

Grindavík

Grindavík – Norðurvör.

Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.

Hraun

Hraun – minja- og örnefnakort af Hrauni unnið í samráði við Sigurð Gíslason – ÓSÁ.

Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.

Fiskveiðar og útgerð

Grindavík

Grindavík – tíæringur.

Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra… Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhverskonar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.
Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.

Grindavík

Vélbátur.

Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.

Landbúnaður

Grindavík

Grindavík 1930 – heyskapur við Gjáhús og Krosshús.

Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.

Járngerðarstaðahverfi

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.

Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6: „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir. Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var „heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.“
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.

Grindavík

Grindavík – Vorhús fyrir 1925. Gamli barnaskólinn ofar t.v.

Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.
Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.

Skipulagsmál í Grindavík

Grindavík

Grindavík – uppdráttur 1946.

Á fyrstu áratugum síðustu aldar var Grindavík á mörkum sveitar og þéttbýlis. Árið 1942 fór Guðsteinn Einarsson þáverandi oddviti Grindavíkurhrepps þess á leit að skipulagsuppdráttur yrði gerður af þorpinu á vegum félagsmálaráðuneytis. Erindið var sent til skipulagsnefndar ríkisins sem tók málið í sínar hendur og árið 1944 var fyrsti uppdrátturinn gerður af Grindavík. Vegna erindis nokkurra manna um að byggja sjóhús við höfnina í Hópinu, lagði hreppsnefndin það til við skipulagsstjóra að nýtt skipulag yrði undirbúið. Skipulagsstjóri sendi mann til Grindavíkur til mælinga og setti fram skipulagstillögu þann 12. nóvember 1945. Frekar var unnið að tillögu þessari og árið 1946 gerði Páll Zóphóníasson uppdrátt af Járngerðarstaðahverfi.

Heimild:
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík, janúar 2015.

Grindavík

Grindavík.

Ísólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, frá Skálabót að Gvendarvör skammt austar og mannvirkjunum ofan hennar, að Tröntum og áfram um Hattvík og Kvennagöngubása. Haldið var eftir ruddum slóða út í Hraunsnes og hin merkilegu jarðfræðifyrirbæri skoðuð. Þá var haldið áfram ofan við Veiðibjöllunef, framhjá Mölvik og inn í borgirnar (Ketilinn) áður en komið var að Selatöngum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Á Ísólfsskála var gengið að bæjarstæði gamla bæjarins, sem var þar sem nú er sumarhús niður við sjó, ofan við Skálabótina, vestast í túninu. Vestan og neðan við hann var sjóbúð, sem enn sést móta fyrir. Þar sem járnhlið er á girðingunni sjávarmegin var brunnurinn, sem nú er kominn undir sjávarkambinn. Sjóbúðun var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Réttin var undir hamrinum ofan við núverandi íbúðarhus að Ísólfsskála, þ.a.e.s. það íbúðarhús, sem síðast var búið í. Nú er húsið notað sem „fjölskyldurefreshment“ skv. nútímamáli, sem endurspeglar að nokkru nálægð varnarliðsins um nokkurt skeið. Það hafi fjarskiptastöð undir Fiskidalsfjalli/Húsafjalli er lagðist af undir lok sjötta áratugar tuttugustu aldar.
Gengið var austur með Skálabótinni að Gvendarvör. Hún er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála.

Nótarhóll

Nótarhóll.

Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið var hann tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær voru á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast Alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Lending var í Börubót, sem var beint neðan við bæinn. Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli -málverk eftir ljósmynd 1956.

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn.

Gamla lestargatan, eða rekagatan (lestargatan) vestari, liggur frá Ísólfsskála, í gegnum hraunið til austurs og út að Selatöngum. Þangað er um 20 mín. gangur. Gatan er áberandi ígegnum hraunið, en þegar hún kemur út á sandflákana ofan við ströndina (ofanvið Veiðibjöllunef og Mölvík, hverfur hún að mestu. Þó má sjá þar vörðubrot á stangli.
Djúp gjá opnaðist nýlega við götuna skömmu áður en komið er að Smíðahellinum austan við Ketilinn (Borgirnar) í Katlahrauni. Gatan, sem hefur verið löguð til, liggur niður í Ketilinn, gegnum hann og út hann að austanverðu. Þaðan er ágætt útsýni yfir Selatangasvæðið.

Hraunssnes

Hraunsnes – bergsstandur.

Á Selatöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Þar eru verbúðarústir, fiskbyrgi og fiskgarðar auk hraunhella sem voru notaðir til ýmissa hluta. Standa mörg fiskbyrgin og fiskgarðarnir enn að miklu leyti. Svæði þetta var allt friðlýst 1966 af Kristjáni Eldjárn, þáverandi þjóðminjaverði.
Selatangar eru í Ögmundarhrauni á mörkum jarðanna Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Landamerkin liggja um klett (Dágon) í ofan við fjöruborðið. Ljóst er að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld því undir því eru leifar mannvirkja sem greinilegar eru t.d. á svonefndum Húshólma.
Geislakolsaldursgreining á koluðum gróðurleifum dagsettu hraunið til miðrar 12. aldar og annálar nefna eldgos 1151. Óvíst er hvenær útgerð hefst frá Selatöngum en samkvæmt ofangreindu eru minjarnar ekki eldri en frá miðri 12. öld.

Hraunsnes

Í Hraunsnesi.

Víst er að útgerðin lagðist niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu 1884 en það ár var síðast róið frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.
Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi.

Selatangar

Rekagatan.

Fleiri rústir eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast. Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990.
-Ísólfsskáli. Örnefnalýsing. Guðmundur Guðmundsson bóndi Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnastofnun Íslands.
-Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir II. Rvk. 1982, bls. 410-11

Ísólfsskáli

Brimketill utan við Ísólfsskála.

Grindavík

Í Tímanum 1950 fjallar G.Þ. um Grindavík undir fyrirsögninni „Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju„:

Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju“

Grindavík

Grindavík – bræðslan á fullu.

Í haust getur að líta marga tugi síldarskipa við bryggju í Grindavíkurhópi.
Í Grindavík hefir á fáum árum orðið merkileg atvinnuþróun. Fyrir tíu árum var þar aðeins útgerð lítilla trillubáta, vegna slæmra hafnarskilyrða fyrir stærri báta. Nú eru þar á þessu hausti helztu hafnarbækistöðvar síldarflotans við Suðurland. Síld er söltuð á þremur plönum, myndarlegt frystihús vinnur vetraraflann, en ný hverfi af snotrum íbúðarhúsum teygja sig upp um hraunið. Töfrasproti atvinnubyltingarinnar og tækninnar hefir snert Grindavík.

Gömul verstöð

Grindavík

Grindavíkurhöfn 1954 – loftmynd.

Grindavík hefur verið fiskiverstöð svo lengi, sem sögur fara af fiskiveiðum á Íslandi. Þar var stutt að róa á fengsæl mið, og fiskur brást sjaldan, ef gæfitir voru. Fyrr á árum var því blómlegt athafnalíf í Grindavík á þeirrar tíðar mælikvarða. Fjöldi manna komu í verið og fóru heim til sín með vænar klyfjar af skreið í vertíðarlok.
Svo varð Grindavík eftir ein og yfirgefin, þegar tæknin kom til sögunnar, og bæirnir risu fyrst þar sem hafnarskilyrðin voru bezt fyrir stærri báta. Blómleg verstöð var ein og yfirgefin að kalla, á móts við það, sem áður var.

Sjósókn fyrir opnu hafi

Grindavík

Grindavík – innsiglingin.

Þó hafa Grindvíkingar allt af stundað sjóinn af harðfengi og dugnaði, enda oft þurft á karlmennskunni að halda í baráttunni við úfinn sjóinn, úti fyrir ströndinni, þar sem úthafsöldur Atlantshafsins skella á hörðum skerjum í allri sinni tign og veldi. Fáum varð því þörf á stærri og betri bátum til Sjósóknar en einmitt Grindvíkingum, er stunduðu sjóinn eingöngu fyrir opnu úthafinu, og áttu oft allt undir því, að lendingin heppnaðist vel.

Höfnin og hraðfrystihúsið

Grindavík

Grindavík 1957 – loftmynd.

Á árunum fyrir styrjöldina var all mikil útgerð opinna trillubáta frá Grindavík. Hafnarskilyrðin leyfðu ekki notkun stærri báta þaðan. En þegar hafnarbæturnar byrjuðu að koma eftir 1940, stækkuðu bátarnir.
Árið 1942 gerður Grindvíkingar myndarlegt átak til að koma á fót frystihúsi og tókst það. Hraðfrystihús Grindavíkur á áreiðanlega sinn mikla þátt í því, auk hafnarbótanna, að Grindavík er það sem hún er. Jafnhliða hafnarbótum varð að sjá fyrir möguleikum til að hagnýta aflann, sem bezt. Þetta mun frystihúsinu líka hafa tekizt undir hagkvæmri stjórn Guðsteins Einarssonar, hreppstjóra í Grindavík. Það annast saltfiskþurrkun, þegar sú verkunaraðferð kallar að, og hefir með höndum um fangsmikla síldarsöltun, þegar síldin veiðist í Grindavíkursjónum.

Sameiginlegt átak Grindvíkinga

Grindavík

Grindavík – hraðfrystihúsið.

Grindvíkingar eiga frystihúsið svo til allir í félagi. Hreppsbúar tóku höndum saman og komu upp þessu atvinnutæki til að skapa sér betri aðstöðu í lísbaráttunni og lögðu hvorki mefra né minna en 100 manns fé af mörkum til að koma því upp. En hafnarmálin hafa verið erfiðust viðureignar fyrir Grindvíkinga, þó að nú horfi orðið vel um þau. Í fyrstu var unnið að bryggjugerð í Járngerðar- og Þórkötlustaðahverfi. En síðan ákveðið var að legja áherzlu á að gera bátahöfn í Hópinu og gera innsiglinguna í það færa stærstu fiskibátum, hefir hin nýja Grindavík einkum risið upp í Járngerðarstaðahverfinu. En skammt er á milli og öll hverfin þrjú eru Grindavík.

„Skipaskurðurinn“ í Grindavík

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið.

Verulegur skriður komst ekki á hafnarframkvæmdir í Grindavík, fyrr en 1945. En síðan hefur þeim miðað ört áfram, og nú er verið að vinna þar að byggingu rúmgóðrar bátbryggju, sem byggð er innan við sjóvarnargarðinn sem er steinsteyptur og traustur. Bryggjan, sem búið var að byggja út frá varnargarðinum, er nú orðin allt of lítil fyrir þá útgerð, sem nú er þegar orðin af stærri bátum frá Grindavík.
En sérstæðasta verkefnið við hafnargerðina í Grindavík er „skipaskurðurinn“, sem gerður hefur verið inn í Hópið. Þessi skurður er að vísu ekki skurður nema um fjöru, því þegar flóð er, flæðir yfir bakkana og klappirnar í kring, en eigi að síður verða bátarnir að sigla þarna eftir skurðinum, þótt flóð sé. Hefur verið komið fyrir háum stöngum á bökkunum, svo að sjómenn geti áttað sig á leiðinni, þegar hátt er í sjó.

Dýpkun innsiglingarinnar

Grindavík

Grindavík – Dýpkunarskipið Grettir annaðist m.a. dýpkun hafnarinnar.

Þessi miklvægu mannvirki er hvergi nærri lokið ennþá.
Í sumar hefir verið unnið að því að dýpka innsiglinguna, svo að hún er nú orðin það djúp, að stærstu bátar geta farið þar út og inn, hvernig sem stendur á sjó.
Næsti áfangi í framfaramálum Grindvíkinga er að auka hafnarbæturnar, svo að millilandaskipin geti komið þar að bryggju til að sækja afurðir til útflutnings og flytja nauðsynjavörur til atvinnurekstursins. Eins og nú er fara flutningarnir fram á landi til næstu útflutningshafnar, Keflavíkur.

Byrjuðu á áraskipum — en enda kannske á togara

Grindavík

Árabátar.

Gömlu mennirnir í Grindavík muna tímana þrenna í atvinnumálum kauptúnsins. Þeir sóttu sjó á áraskipunum gömlu um aldamótin, á opnum trillubátum fram að síðasta stríði og loks nú á stórum vélbátum.

Þróun bátaútvegsins í Grindavík fylgdi framþróun og endurbótum hafnarinnar
Segja má, að bátarnir hafi stækkað eftir því sem innsiglingin í Hópið dýpkaði. Þegar trillubátunum fækkaði komu í staðinn 4—8 smálesta vélbátar, því næst bátar 10—16 lesta og loks bátar 20—80 lesta. Var þannig skipt um bátastærðir þrisvar sinnum í Grindavík á fáum árum, meðan höfnin var að skapast, því að stóru bátarnir gerðu Grindvíkingum það kleyft að stunda sjóinn úti fyrir hinni brimóttu strönd betur en hægt var áður á litlu bátunum. Vel getur svo farið, að áður en mörg ár eru liðin, verði fyrsti Grindavíkurtogarinn kominn þar að bryggju, ef hafnarframkvæmdir verða jafn örar í Grindavík á næstu árum og þær hafa verið upp á síðkastið.

Gamla og nýja Grindavík á sama blettinum

Grindavík

Grindavíkurhöfn 1968 – loftmynd.

Grindavík hefur skipt um svip, Nú þessa dagana má oft sjá þar inn á höfninni 40—60 stóra og sterkbyggða síldarbáta. Þegar maður kemur þjóðveginn ofan úr hrauninu til Grindavíkur, heilsa manni hverfi fallegra íbúðarhúsa og reisulegur nýr barnaskóli. En niður við sjóinn er gamla og nýja Grindavík á svo til sama blettinum. Himinháum tunnustöflum er ekið eftir þröngum stígum milli gamalla, rauðmálaðra húsa.
Á sjávarbakkanum eru grasigrónar rústir gamalla búða, en gamall bátur brotinn og fúinn liggur undir búðarvegg. Hann er fulltrúi sama tímabilsins, og á bezt heima þarna undir búðarveggnum, og heldur sér við vegginn af gamalli tryggð, þó nú séu þar hænsni í kofa.

Sildarstúlkur og síldarstrákar — kokkurinn hleypur til skips

Grindavík

Grindavíkurbátar 1955.

Niðri á Hópinu liggja við bryggjur 40 — 60 stórir og sterklegir síldarbátar, meðan losaður er aflinn, sem fenginn er úr Grindavíkursjó. Síldartunnubreiðunum fjölgar upp við hraunið, og hraðfrystihúsið gnæfir hátt við rústir gamalla verbúða ofan við myndarleg hafnarmannvirki, sem enn eru í smíðum.
Á bryggjum og götum kauptúnsins er líf og fjör, síldarstúlkur og síldarmenn. Strákarnir af síldarbátunum þykir illt að komast ekki að til löndunar, en þeir kunna líka að meta þann frið, sem þeir fá til þess að ganga upp um götur og hraun. Áður en varir kemur kokkurinn kannske hlaupandi fyrir blint horn með ótal pakka í fanginu. Líklega er báturinn hans að leggja frá, og guð má vita nema hann týni einhverjum pakkanum á leiðinni.“ – GÞ.

Heimild:
-Tíminn, 211. tbl. 26.09.1950, Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju – G.Þ., bls. 7 og 8.

Grindavík

Grindavík 2021.

Kaldársel

Ætlunin var að ganga á Undirhlíðum til suðvesturs, framhjá Stóra-Skógarhvammi, um Móskarðshnúka, framhjá Markrakagili (Melrakkagili), upp á Háuhnúka (262 m.y.s.) og að Vatnsskarði þar sem gengið verður til baka um Breiðdal og Slysadali að upphafsstað.

Markrakagil

Þegar gengið er frá Bláfjallavegi (sunnan við námuna) er fyrst farið um lága melhæð og lágum hæðum síðan fylgt á ásnum. Gil eru í hlíðinni og verður Stóra-Skógarhvammsgil fyrst áberandi. Í Skógarhvammi er skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú eru liðin u.þ.b. hálf öld síðan byrjað var að gróðursetja tré þarna í hlíðunum og hefur af hlotist hinn myndarlegasti skógur, líkt og í Ingvarslundi nokkru norðar með þeim. Utan í gíg neðan og skammt sunnan við Bláfjallaveginn vottar fyrir fornum hleðslum.
Þá var komið að svonefndum Móskarðshúkum. Hauhnukar-2Örnefnið hefur valdið ágreiningi í gegnum tíðina, en hvað sem því líður er þarna um að ræða bæði fallegar og tignarlegar móbergskletta-myndanir, sem verð er að gefa góðan gaum. Myndræn skál er í „Hnúkunum“ og ef gengið er umleikis þá má bæði sjá fallegar myndanir og góð skjól.
Áður en komið var upp á Háuhnúka; efstu hæðir Hlíðarinnar, má sjá steina á stökum móbergsstandi. Þar mun vera um að ræða landamerki Hafnarfjarðar (?) og Krýsuvíkur. Loks var komið á efsta Háahnúkinn. Þar er varða. Staðsetninguna má ráða af hinu fallegasta útsýni í allar áttir; einkum til suðurs og suðvesturs.

Markrakagil

Markrakagil.

Markrakagil er síðan á hægri hönd. Aðrar lýsingar segja Markrakagil og Vatnsskarð vera eitt og hið sama. Landamerki Hafnarfjarðar liggja um gilið og í beina línu í Markraka ofan við Dauðadali suðaustan við Helgafell. Mörkin eru reyndar óviss vegna þessa álitamáls, en samhengi er í nöfnunum á þessum tveimur stöðum. Markraki er eitt af mörgum nafngiftum refsins, melrakkans.
Þá var komið í Vatnsskarð. Ofan við það er varða; líklega hin fornu landamerki, en þarna munu landamerkin hafa legið fyrir aldarmótin 1900 (sjá herforingjakort frá 1919).
VatnsskardOfan í Melkrakagili (Vatnsskarðsgili?) er fallegur berggangur, einn sá fallegasti og aðgengilegasti á Reykjanesskaganum. Hann var barinn augum. Loks var Dalaleiðinni fylgt um Breiðdal og Slysadölum að upphafsstað. 

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1945 lýsir Ólafur Þorvaldsson svonefndri Dalaleið, þ.e. um fyrrnefnda dali að norðanverðu Kleifarvatni: „Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.
Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.“

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þegar komið var að endamörkum var rifjuð upp fyrr ferð um svæðið, líkt og sjá má á eftirfarandi texta: Gengið var frá Krýsuvíkurvegi ofan við Vatnsskarð um Breiðdal, Leirdal og Slysadali, haldið yfir á Skúlatún í Skúlatúnshrauni og síðan niður í Kaldársel framhjá Gvendarselshæðargíga og Kaldárhnúka.
Gengið var niður í sunnanverðan Breiðdalinn og áfram til norðausturs vestan Breiðdalshnúks. Norðan hans var beygt upp á holtin og haldið áfram á þeim til norðausturs, yfir í Leirdal. Þar er Leirdalsvatnsstæðið, annað af tveimur. Beygt var frá því og gengið að Leirdalshöfða og með honum niður í Slysadali. Dalirnir eru vel grónir. Í þeim norðanverðum er nokkuð er líkist tóftum, en Breiddalur-2gæti verið hvað sem er. Dalirnir virðast vera einn, en Bláfjallavegurinn sker nú dalina. Landið þarna er að mestu innan hinna fornu Almenningsskóga Álptaneshrepps, en Slysadalir eru innan lögsögu Hafnarfjarðar. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuv
ík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Áður en komið var upp á þjóðveginn var beygt til austurs, yfir nokkrar klettasprungur. Í þeim óx fallegur burkni. Nokkur jarðföll eru þarna á svæðinu og í nokkrum þeirra litlir og lágir skútar.
Skúlatúnið blasti við í austri. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarssonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúalstaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Gengið var í átt að Skúlatúni. Að sumra áliti gæti þar hafa verið landnámsbær, en þó er það talið ólíklegt. Skúlatún er þúfótt graseyja í Tvíbollahrauni (Skúlatúnshrauni). Ekki skyldi þó efast fullkomlega eða útiloka með öllu að þar undir kynnu að leynast einhverjar minjar. Skúlatúnshraun (stundum einnig nefnt Hellnahraun eldra) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum.
Tvíbollahraun eða Hellnahraun yngra eru frá því um 950. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Gengið var norður hraunið, yfir Gullkistugjá og í beina stefnu að nyrsta hluta Gvendarselshæðargíga. Gígarnir eru tilkomumiklir og er hægt á gönguleiðinni norður með þeim austanverðum að lesa jarðfræði gíganna sem og svæðisins, auk tilkomu hraunsins, nokkuð vel, allt nema kannski aldurinn.
Gengið var niður með Kaldárhnúkum og niður að Kaldá, þar sem gangan endaði.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.
breiddalur

Húshellir

Nafnið Fjallið eina hefur löngum vafist fyrir mörgum. Fjallið eina er ekki aðeins nafn á einu fjalli eins og ætla mætti, heldur þremur, ef fjöll skyldi kalla. Þau eru þessi:

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

1) Móbergshnjúkur (223 m) skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi fyrir sunnan eða suðvestan Óbrinnishólabruna.
2) Ávöl alda (401 m) í Árnessýslu, austan undir Bláfjöllum í Reykjanesfjallgarði.
3) Lágt fell (210 m) í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu. Því er þannig lýst í örnefnaskrá: “Vestan við Höskuldarvelli er norðurendi á frekar lágu felli, sem er mjög langt og mjótt og liggur til suðurs. Heitir það Oddafell, stundum nefnt Fjallið eina.” (Örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu). Sesselja G. Guðmundsdóttir segir í bók sinni, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, að við vesturjaðar Höskuldarvalla sé “Oddafell sem Þ. Thoroddsen kallar Fjallið Eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega hefur verið einhver nafnaruglingur hjá Thoroddsen því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur.”

Hverinn eini

Hverinn eini.

Hér gæti verið komin skýring á staðsetningu útilegumanna á Reykjanesskaganum er kveður á um dvöl þeirra undir Núpshlíðarhálsi sunnan Selsvalla, en þeir færðu sig síðan norður með fjöllunum og fundu sér stað nálægt Hvernum eina. Menn gætu hafa verið að færa fjöllin og jafnvel hverina til eftir því sem þeir best þekktu. Þannig gæti Oddafellið hafa heitið Fjallið eina um stund þar sem Hverinn eini var þar. Menn gætu hafa tengt hann staðsetningu útilegumannanna. Þeir gætu því hafa haldið til í helli við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju, sem reyndar er ekki svo langt í burtu, en þó í öryggri fjarlægð frá þeim stað, sem vitnaðist um þá við Selsvelli. Í Húshelli við Fjallið eina eru hleðslur og mannvistarleifar. Hellirinn er við gömlu þjóðleiðina upp frá Stórhöfða áleiðis til Krýsuvíkur.
Þetta er einungis hugmynd – og ber að virða hana sem slíka.

Húshellir

Op Húshellis.

Jockum Magnús Eggertsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er frásögn Jockum Magnúsar Eggertssonar;  „Einn áfangi á Reykjanesi„. Fjallar hún um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945.

Jockum Magnús Eggertsson„Við höfðum slegið tjöldum austan Festarfjalls undir hlíðarrana. Fellin fallast þar í arma og geiga í hafsuðrið móti útsænum. Hann er þar einvaldur en gjögrin ögra honum. Þar með slævist hann og slöðrast í skútum og bergvilpum og andar djúpt millum þess er hann flæmist og flaðrar um dranga og kletta sem haldið er rígföstum í krepptum hnefum af stálörmum fjallsins.
Hlíðarraninn er gróinn kjarngresi millum grjót rasta og ofanhraps og þar er græn grundin undir. Forbrekkið lykur hálfhring í klettaskjóli af vestri og norðri. Til austurs er úfið hraun, liggjandi í landáttinni, en til suðurs særinn, óendanlegur. Blómsprungin gróðurlænan, ilmandi og marglit, teygist fast í sjávarkampinn, uppausinn og umturnaðan, með slitringi af sjóreknum sprekum og hrakviði ásamt vargétnum ræfrildum og rusli, skeljabrotum og skrani.
Ásýnd Ægis konungs er aldrei smávægileg. Andgufa hans þryngir loftið. Ærið er borðhald hans þjösnalegt, oft og tíðum, og refjar henta honum eigi er hann ryðst um að mat sínum. Skap hans er ætíð mikið og persóna hans fyllir rúmið, hvort heldur hann vakir, dormar eða dreymir. Víst kann hann að kasta mæði og ganga að borði kurteislega. Heitir það hófstilling. En er hann kveður sér hljóðs við bergþil strandarinnar, þá rymur hann og klappar klettinn. Þar ríkir annar höfðingi fastur í sessi, þolmikill og þybbinn og enginn veifiskati.
Kveðjur þeirra stórvelda eru mikilúðugar og oftast kaldar, en þó fjandskaparlausar, og vekja af dvala vætti og höfuðskepnur. Gætir þar geigvænnar alvöru og hráslagalegrar kampakæti: er kyssast klettur og sjór. Konungur hafs og lands!

Ísólfsskáli
Ísólfsskáli
Bær er þarna einn og úrhreppis. Heitir að Ísólfsskála. Telst til Grindavíkursókna. Bærinn situr í fjallskverkinni undir Slögubarðinu, í beygjugjögur olnbogans, á lágsléttu fyrir ögurbotninum, kvíaður milli fjallsins og hraunstorkunnar.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun.

Hraunflóð mikið hefir ollið yfir allt undirlendið og í sjó fram millum Festarfjalls og Krýsuvíkurbergs. Það heitir Ögmundarhraun og er eyðimörk. Aðeins mjó ræma óbrunnin milli hraunjaðra og fjallsróta. Bærinn Ísólfsskáli húkir þarna undir Festarfjallinu út við hafið. Hann er nú ofar en áður fyrr og aukið við túni, sem teygir sig upp á hjallann yfir bænum. Það hefur kostað ærna aðvinnslu í bogri og eigri einyrkjans. Grjóthrúgur miklar auglýsa erfiðið. Lausa grjót liggur hér víða í hálsum og hlíðum á opnum svæðum, þar sem eigi hafa hraun ollið ofaraurum og myldingi, en gróðurmold góð og víða alldjúpt undir. Er það svo upp til hæstu hnjúka. Ennþá eimir þarna eftir af þykkum, kringumblásnum jarðvegstoddum og tyrfum, til og frá í fellum og fjöllum. Forni jarðarfeldurinn er enn ekki að öllu og fullu eyddur og burtblásinn. Bendir þar til mikils gróðurs og skjólsælla skóga áður á öldum. Þarna í eyðimörkinni búa væn hjón og vinnusæl. Góðfús eru þau og gestrisin. Þau eru við aldur. Börn þeirra uppkomin; flest flogin úr hreiðrinu. Barnabörn aftur komin innundir. Ísólfur heitir einn yngstur sonurinn hjónanna. Hann var heima. Álitlegur sveinn og vel líklegur ríkisarfi. Heitir í höfuðið á bólinu.

Hjónin í eyðimörkinni

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn. Sumarbústaður byggður á tóftunum.

Rústir gamla bæjarins eru rétt á sjávarbakkanum. Sá bær var áður ofarlega í túni. Svona sækir sjórinn á landið.
Hrammur hafsins og höggtennur hafa hér brutt og nagað ströndina, hámað í sig mold og mýkindi, grafið og gramsað í landinu, hóstað og hrækt út úr sér brimsorfnum buðlungum og hrúgað öllu saman í hryggi, er verpa ströndina.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

Sá mikildjarfi dögglingur þokast nú þéttskrefa á landið upp í átt til fornu bæjarrústanna. Hann iðjar ekki allsvana. Hann ekur á undan sér hrynhárri upplausnarkempunni, íklæddri byngborinni kyngi. Nú gín hann yfir eina vatnsbóli eyðimerkurinnar, gamla brunninum, og er nú kominn á fremsta hlunn og þegar hafinn handa að hrækja í hann hroðanum.
Hjónin í eyðimörkinni eru, eins og best má vera, brot af íslensku bergi, frumbornir arftakar þess ódrepandi úr þjóðlífinu; uppalin af duttlungum veðurfarsins, hert af óblíðu árstíðanna, viðjuð gróanda vorsins, kynbætt af þúsund þrautum. Þeim hæfði þáttur sérstakur.

Hér er þess varla völ
ÍsólfsskáliNöfn þeirra þarf ekki að nefna. Þau vita sjálf hvað þau heita. Allir þekkja þau, sem eitt sinn kynnast þeim, en ókunnugum mætti segja að þau hétu Agnes og Guðmundur. Hann mun eitthvað hafa fæðst þar austur í fjallgarðinum.
Fólk klekst þetta hvað af öðru, hálfóafvitandi, svo fæðingarstaður hvers og eins verður sjaldan nákvæmlega útreiknaður enda skiptir það minnstu máli. Undirlega landsins er þar aðalatriðið. Vigdísarvellir mun það heitið hafa þar sem foreldrum hans fénaðist drengurinn.
Kotið lá undir Krýsavíkursókn. Nú í auðn komið fyrir áratugum. Svo er og um sóknina alla. Enginn maður er þar uppistandandi. Sá síðasti féll í fyrra (1945), og þó eigi til útafdauða. Einsetumaður. Hafðist við í kirkjuhrófi Krýsavíkur, eina húsi sóknarinnar uppihangandi, í miðjum gamla kirkjugarðinum,
inn á milli leiðanna. Þar voru hans gömlu samherjar og sálufélagar gróðursettir.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Erling Einarsson við steinninn nefnda.

Aftur skal vikið að Ísólfsskála. Ungur fluttist hann þangað, drengurinn. Er hann var 9 ára varð hann fyrir einkennilegu atviki. Hann var að leika sér með öðrum börnum undir klettum í krikanum vestan við túnið. Skúti einn er þar undir bergið, en stuðlaberg slapir yfir. Drengurinn var að bauka þar undir að leik sínum. Losnaði þá og féll á drenginn allstórt brot neðan af einum bergstuðlinum. Kramdist hann þar og klesstist undir og lá sem dauður væri. Börn voru þar önnur, er hlupu heim og sögðu frá. Var þegar farið til af fullorðnum.
Drengurinn var talinn dauður með því blóðlækur mikill rann undan farginu. Var því lyft af og gætt fyllstu varúðar. Sá litli lá þar meðvitundarlaus: höfuðleðrið rifið og flett af hauskúpunni og annar handleggurinn tvíbrotinn. Drengurinn lifnaði við og varð græddur, en vegsummerki ber hann til æviloka.
Bær þessi fór svo í auðn skömmu síðar og ekkert nýttur nokkurt skeið. En þá drengur þessi varð frumvaxta og hafði sér konu festa, keypti hann þetta eyðikot, hefur búið þar síðan, byggt upp og bjargast.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Agnes og Guðmundur með nokkrum börnum þeirra.

Hollvættir staðarins hafa verndað drenginn sem síðar átti eftir að endurbyggja bólið, rækta það og reisa, auka það og uppfylla. Konan mun komin af einhverri ódrepandi ætt, líklega af Vatnsleysuströnd eða Suðurnesjaalmenningum, sem hægt og rólega kljáðist við örlögin og klóraði þeim bak við eyrað. Með fyrirhyggjunni og frumstæðustu amboðum skal það hafast, þó allt annað umhverfist og heimurinn gangi af göflunum.

Guðmundur og Agnes

Guðmundur og Agnes á Skála.

Annars segir ekkert af henni, þessari konu. Engin ógæfa mun að henni komast, svo ágæt er hún. Hún var ekkja með 6 ungbörn er hún ákvað að rugla saman reitunum með núverandi manni sínum og setjast að í eyðikotinu á eyðimörkinni. Hún lét ekki þar við sitja heldur fæddi síðari manni sínum önnur 6 börn. Gerði báðum jafnt undir höfði og sýnir það háttvísi í hegðun. Hún hefur fullkomlega lagt sinn skerf að heill staðarins. Þessi kona er síung þrátt fyrir alla erfiðleika barnauppeldis og búskapar. Um leið og bú hennar blómgaðist og færðist út, óx hún sjálf og þroskaðist. Nótt og nýtan dag hefur hún unnið og annast heimili sitt og haldið þar hlífiskildi. Í skrúðgarðinum hennar hjá hlaðvarpanum voru um 60 jurtategundir og trjáa. Kunni hún ævisögu hverrar plöntu og kvists. Þá stóð hún ekki á gati í ættfræði og kynbætum hundanna, kattanna og kvikfénaðarins.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var ekki komið að tómum kofanum með kartöflurnar, garðjurtirnar og kornakrana, sem rotturnar gengu í eins og þeim væri borgað fyrir það, bitu öxin af stöngunum og báru burt og söfnuðu í kornhlöður handa sjálfum sér. Þetta þurfti sosum að basla fyrir lífinu eins og aðrir, þessi kvikindi.
Heimilið og fjölskyldan: barnabörnin, hænuungarnir, hundarnir, matjurtirnar, kindurnar, kýrnar, eldiviðurinn og taðan, innanhússtörfin, þvottarnir og matreiðslan: Allt í sömu andránni, á einu bretti og í hagsýnum tilgangi. Ekkert mannlegt óviðkomandi, er hagsýni hennar mátti að gagni verða. Vissi margt, en fann sig þó þurfa að vita miklu meira og spurði óspart. Huldufólk umgekkst hún heiðarlega; ættfærði köttinn í átjánda lið, hundinn til heilags anda, en drottni gaf hún dýrðina. Ólukkan forsómaði hún algjörlega. Náttúrubarn. Elskuleg kona.
Ísólfsskáli
Hundurinn auglýsir sál og samvisku hvers heimilis. Þarna standa þeir Tryggur og Móri dinglandi af ánægju meðan við erum að reyra saman baggana og remba á okkur byrðunum. Kötturinn kom líka og vippaði sér upp á garðshornið; setti upp gleraugu, leit á hundana og heiminn og allt sem skaparinn hafði gert og gera látið, reisti kamb og hvarf með úfnu og uppréttu skotti.
„Aumingja strákurinn“, okkar hundur hann var tjóðraður og hafður í bandi til að missa hann ekki út af réttlínunni. Þetta var ungur óvaningur, uppveðraður til skammarstrika.
Svo kveðjum við Ísólfsskála, þennan ágæta bæ, með öllu sem um hann og í honum hrærist.

Jónar og Kristjánar

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ferðinni var heitið austur í ólgandi hraunið í átt til þeirrar upprunalegu Krýsavíkur, er auðvitað situr við sæinn, og var á sínum tíma stærsta höfuðból á Íslandi, en átti sel og hjáleigur víðsvegar upp í Gullbringunum, meðal annars í dalnum góða og grösuga, þangað sem nafnið Krýsavík var flutt, langt upp í land, eftir að sjálft höfuðbólið fórst í því ægilega hraunflóði, er Ögmundarhraun rann. Það mun hafa verið í byrjun 14. aldar, sennilega um 1340. Gamla Krýsavík var, alllöngu fyrir landnám norrænna manna eða austmanna: þ. e. Dan-þjóðflutninga kvíslarinnar, orðin höfuðstöð sægarpa og siglinga og af austrænum uppruna eins og Dankvíslin, (víkingarnir), aðeins stórum mun lengra komnir í vísindum, menningu og siðgæði. Lærðu mennirnir voru nefndir „papar“, þ.e. feður, og skiptust á tvær deildir: Jóna og Kristjóna = Kristjána. Jónarnir skoðuðu Krist sem mann, er hægt væri að líkjast og urðu óumræðilega vitrir og máttugir.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík í Húshólma – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánar trúðu, aftur á móti, eingöngu á Krist sem guð, hafinn yfir allt mannlegt sem aðeins væri hægt að elska og tilbiðja í auðmýkt og lotningu. Þeir urðu óumræðilega heimskir og ofstækisfullir og liggur ekkert eftir þá af viti. Jónarnir tileinkuðu sér lífsskoðun Jóhannesar frá Antiochia Krýsostómas = gullmunnur. Þeir voru því kallaðir krýsar og af þeim dregur Krýsavík nafn, því þar var höfuðbækistöð krýsostomosa, og búinn að vera það full 200 ár, áður en Ingólfur Arnarson kom hér að landi.
Gamla Krýsavík var, fram yfir miðja elleftu öld, eða þar til Krýsar voru drepnir, eitthvert mesta menntasetur veraldarinnar. Kristjónar hötuðu jóna = krýsa og skoðuðu þá sem heiðingja og andskota, en urðu að vera upp á þá komnir, því þá skorti alla þekkingu og manndáð til að geta bjargast án þeirra. Heiðnum mönnum (Ásatrúar) og krýsum kom, aftur á móti ágætlega saman, svo fremi, að ekki væru við höfð mannblót eða annað ódæði.

Einsetumenn, er hér höfðu aðsetur

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Flestir „papanna” voru fæddir hér á landi.
Ísólfsskáli lá áður fyrr undir gömlu Krýsavík, eins og flestar jarðir í „Landnámi Ingólfs”, en féll undir Skálholtsstól er hann var stofnaður (1056), eins og nær allar jarðir á Reykjanesi og Suðurnesjum, og hélst það allan tímann meðan Skálholtstóll var biskupssetur, en þó tókst Danakóngum að krækja í einhver kotin.
Aðförin að Krýsum var gerð, eins og áður er sagt, haustið 1054, og eignum þeirra skipt millum kirkjunnar og höfðingjanna, og fyrsti stóllinn stofnaður. Urðu þar fyrstu þverbrestirnir í þjóðveldið, en hvalreki fyrir erlenda konungsvaldið. Var hér um stóreignir að ræða því Krýsar áttu meðal annars meginpart innlenda kaupskipaflotans, en höfðingjar þurftu að fá vel borgaðan „herkostnað“ allan og ómak sitt og manntjón við aðförina.
Við ferðalangarnir, erum fjórar mannverur, tvennt af hvoru kyni, og hundurinn sá fimmti. Við verðum að bera allan farangur á sjálfum okkur, tjöld vor og útbúnað allan, vistir og vatn. Það er 15-20 km. leið, er við eigum fyrir höndum að fyrir huguðum áfangastað, meginhlutann yfir úfið apalhraun, gróðurlaust af öðru en grámosa, sprengt og umturnað af algjöru handahófi, ófært hestum og öllum farartækjum nema fótum manns og fuglinum fljúgandi. Og vatnsdropa er hvergi að fá á þeirri leið, er við höfum ákveðið að fara.

Reykjanesláglendið

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Meginhluti Ögmundarhrauns, en í það leggjum við, getur vart hafa runnið fyrr en á árunum 1211- 1340. Í og um Reykjaneshálendi eru skógar sagðir hafa verið mestir á landi hér og landskostir bestir, að fornu fari, áður en allt Reykjanes brann og varð eyðimörk, að Gullbringnadalnum undanteknum, en þangað var nafn fornu Krýsavíkur flutt, eftir eyðinguna, og hefur síðar orðið að Krísuvík sem er lítilsháttar afbökun og latmæli, en þó ekki meira en gengur og gerist um eiginnöfn, meðal allra þjóða.
Ævaforn helluhraun hafa víðast hvar verið á Reykjanesláglendinu og nýrri hraunin runnið yfir þau. Allmargir hólmar og tæjutásur af þessum eldri hraunum hafa undanþegist og liggja eins og hrakspjarir hingað og þangað innan um úfnar rastir og storkinn hrákavelling nýju hraunanna. Vegferð allmikil hefur verið um fornu hellurnar, því markast hafa í þær greinilegar götur og troðningar, eftir aðalumferð, og hverfa þessar aðalgötur undir nýju hraunin sem ófær eru yfirferðar. Má af þessu marka, að mjög hefir verið sótt til Suðurnesja á fyrri öldum.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla milli Fremrivalla og Tófubrunna.

Í ísl. annálum er getið 14 mikilla eldgosa á Reykjanesskaga og í Trölladyngjum, efst í fjallgarðinum vestan Gullbringudalsins, en þær dyngjur virðast hafa átt stóra samvisku og nóg á sinni könnu, enda mæður margra hrauna. Ekki er fullvíst að þarna séu meðtalin gos í Eystri Gullbringum, Eldborgum, Brennisteinfjöllum og Heiðinni Há sem öll hafa gosið ákaflega síðan sögur hófust. Hafa þau gos umturnað hálendinu austan Krýsavíkur og hraunfossar steypst ofan af Geitahlíð og austari hamrahlíðinni, allt til Selvogsósa, breiðst þar út yfir láglendið og runnið í sjó fram beggja megin Herdísarvíkur, en það er fornfræg veiðistöð vestast í Selvogi.
Meginrennsli Ögmundarhrauns hefir komið úr þrem sprungum utan undir ystu hlíðunum á Núpshlíðarhálsi, rétt fyrir neðan Vigdísarvelli. Hafa myndast fjöldi smágíga í þessum sprungum, fleiri tugir gíga í hverri sprungu. Eru stærstu gígarnir nyrst í neðstu sprungunni. Heita þar Fremrivellir, en Tófubrunnar neðstu gígarnir. Hinar sprungurnar eru ofar og sunnar. Flestallar gjár og eldsprungur á þessu svæði liggja frá norðaustri til suðvesturs. Er það næsta merkilegt hve ægilegt hraunflóð hefur ollið úr þessum sprungum og síðan breiðst út niður á láglendinu, yfir fornu helluhraunin, bæði til suðurs og vesturs, en til austurs alla leið að Krýsavíkurbergi og á sjó fram á öllu því svæði og vestur að Selatöngum.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Vestari hluti Ögmundarhrauns hefir runnið úr gígum við Selvelli, suður og vestur á við, og í sjó fram milli Festarfjalls og Selatanga. Virðist það hraun vera nokkru eldra en það austara.
Gífurlega er Ögmundarhraun víða úfið og kargað og mismunandi opinmynntar og gapandi gjásprungur óteljandi. Hafa orðið í hrauninu ægilegar gufu og ketilsprengingar, er það dróst saman og kólnaði.
Milli vestur og austurhluta Ögmundarhrauns er nokkurn vegin greiðfær leið, um fornu hraunhellurnar, undan Núpshlíðinni og niður að Selatöngum, en þar var mikil fornfræg veiðistöð og útræði, og er að kalla má, fyrir miðju Ögmundarhrauni. Í Selatöngum eru miklar rústir búða og fiskibyrgja. Útræði var þaðan stundað allt fram á síðari helming 19. aldar. Þar voru eitt sinn, á fyrri öldum, taldir í veri 27 Jónar og eitthvað færri Kristjánar, er sóttu þaðan sjóinn ásamt mörgum öðrum minna algengum mannaheitum.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Nú hefur þaðan í 70 ár ekki verið á sjó farið, en allt bíður síns tíma. Segja mætti mér að sú kæmi tíðin, að hafnarmannvirki yrðu gerð í Selatöngum. Ögmundarhraun á allt eftir að byggjast og verða eitthvert blómlegasta hérað landsins. Öll verðum við þá horfin er nú byggjum landið, en ritsmíð þessi mun ennþá uppi og bera sannleikanum vitni.
Gamla Krýsavík á enn eftir að rísa upp og verða aftur mesta menningarsetur veraldarinnar. Þetta er ekki spádómur heldur lítilsháttar athugun á lögmálum orsaka og afleiðinga. Það er ófrávíkjanleg staðreynd, að allt sem fram á að koma er löngu fyrirfram séð og vitað, planlagt og útreiknað. Þetta virðist næsta ótrúlegt þegar þess er gætt að frelsi mannsandans er ótakmarkað og hann getur allt sem hann vill – ef hann veit að hann getur það.
Allt Ögmundarhraun verður með tímanum molað niður og notað til áburðar. Í því er mikil gnægð jurtanærandi efna, bundin í steininum. Mosafeldurinn mikli, er þekur hraunin á stórum svæðum er einnig mjög dýrmætur. Vatn er undir niðri, ótæmandi, í gjám og sprungum og þyrfti óvíða að bora eftir því. Vatnssvið landsins nægilegt fyrir stórborg og orka jarðhitans takmarkalaus.

Tröll og berserkir

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Þjóðsagnaþrugl er til um það, hvernig nafn Ögmundarhrauns eigi að vera til komið. Á slíkum þjóð sögum er ekkert að græða, allt uppspuni og tilbúningur, þar sem engin tímasetning er við höfð, og allt úr lausu lofti gripið. Þjóðsögur eru marklausar nema þær séu tímasettar og vísað til vegar með raunverulegum atburðum.
Þjóðsagan um vegruðninginn yfir aðal ofanrennslistaum Ögmundarhrauns, vestan við Krýsavíkur Mælifell (Eystra-Mælifell), þar sem beinakerling sem sögð er dys Ögmundar, er undir Fellinu, við veginn, er sama sagan og sögð er í fornsögunum (fyrir 900 árum) um veginn gegnum „Berserkjahraun” á Snæfellsnesi. Það er móðursögnin. Þrjár arfsagnir hafa svo, öldum síðar, sprottið af þessari upprunalegu móðursögn og gróðursettar sín í hverju landshorni.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Afsprengi upphaflegu móðursagnarinnar eru eftirtaldar arfsagnir:
-Sögnin um berserkinn Ögmund = Ögmundarhraun undir Gullbringum í Gullbringusýslu.
-Sögnin um berserkinn Rusta = Rustastígur, í Rustahrauni við Dimmuborgir í Mývatnssveit í Suður-Þingeyjarsýslu.
-Sögnin um berserkinn á Ósi = Ósvör við Buðlungavík (Bolungarvík) í Norður Ísafjarðarsýslu. Allt voru þetta berserkir og tröllmenni, er fyrir sitt líkamlega erfiði, að loknum afköstum, höfðu gefin loforð um fríða og efnilega heimasætu; en sviknir og drepnir að verkalaunum.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

Þess verður ávallt að gæta um þjóðsögur: hvort þær eru móðursagnir eða afsprengi.
Sagan um „lönguna“ er t.d. sögð í þrem samstofna útgáfum, sín í hverju landshorni; Þegar sóknarmenn vildu „plata“ prest sinn, eða reyna „kunnáttuna“ og láta hann jarða löngu í staðinn fyrir sveitakerlingu. – Það eru 3 „galdraprestar“, sinn á hverjum tíma sem eignaður er sami leikurinn, sama vísan eða vísurnar og sömu tilsvörin: séra Jóni gamla á Þæfusteini undir Jökli, ár 1580; Eiríki presti á Vogsósum í Selvogi, dáinn 1716, 49 ára að aldri; og loks Snorra presti Björnssyni á Stað í Aðalvík; prestur þar á árunum 1741-1757, en síðar á Húsafelli og kenndur við þann stað.
Á slíkum samstofna „guðspjöllum” verða menn alvarlega að vara sig. Þess vegna verður að rekja ætt hverrar þjóðsögu til upprunans, og staðfæra hana, á svipaðan hátt og frumhöfundar Íslendingasagnanna gerðu um sögu hetjur sínar og máttarstólpa viðburðanna. Þeir byrja á því að rekja ættir og tildrög til sannsögulegs uppruna. Þeir staðfæra söguhetjurnar raunvísindalega, byrja á byrjuninni og vita endirinn til síðasta orðs um leið og byrjunina. Verk sín byggja þeir á órjúfandi – sannsögulega – raunverulegum grunni. Með því tókst þeim að skapa sannar og lifandi, rólegar og öfgalausar lýsingar og ódauðleg listaverk. Þeir kunnu svo vel á ekju tungu sinnar, að nærri heggur að þeir skáki nornunum í manntafli örlaganna.
Helgi Guðmundsson, safnari „vestfirskra sagna“, skildi hlutverk sitt best ísl. þjóðsagnaritara. Við fráfall hans urðu íslenskar bókmenntir fyrir óbætanlegu tjóni.

Áfram skal haldið

Krýsuvíkurberg

Gamla Krýsuvíkurbergið austan Húshólma.

Leið okkar liggur undir fellum og fjöllum, hálsum og hæðum til landsuðurs meðfram Núpshlíðinni og austurfyrir Núpinn sem er allhár, og teygir sig fram úr fjallrananum út í hraunið. Þetta er afgömul sjávarströnd, fuglabjörg ævaforn og aflóga, frá þeim tíma er sjórinn stóð miklu hærra en nú, undirlendi var ekkert, og þar sem áður voru firðir eru nú fagrir dalir, eins og t.d. Þórsmörk.
Gaman er að lesa land um leið og maður gengur. Þó efst séu hamrar og hengiflug, og enn ákleyft, hækkar ofanhrapið og úrlausnin aftur neðan frá, eftir því sem upp hleðst, uns orðið er bústið og bringu hvelft undir klettakraganum. Fæðast þá geirar grasgrónir, er teygjast svo sem auðið er upp í álkur og hófst foreldrisins og hanga þar góðteit millum aurskriðna og iðrunarbolla framhleypninnar. En sú framhleypni er þó undirstaða annars meira, þótt særist brjóstið og svívirðist gróðurinn. Þarna í geirunum móti suðri og sól, í skjóli hamra hlíðarinnar fyrir norðannæðingum, finnum við fullþroska jarðarber og er þar allmikið af þeim. Þau voru góð, þó villt væru, stór og ljúffeng og merkilega bráðþroska. Enn var júlímánuður ekki afliðinn.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni og Latfjall ofar. Krýsuvíkur-Mælifell á millum.

Leið okkar liggur fram hjá Litla-Lat sem er fjallsrani með hækkandi fellskolli upp að endanum og hömrum framan í að sævarátt, og skagar út í úfna og ólgandi hraunstorkuna.
Við stefnum á Óbrennishólma, en það er allmikill grasgróinn hólmi, umgirtur hrauni á alla vegu. Þarna er aðalniðurrennsli hraunsins frá gígunum við Fremrivelli. Hefur hraunið runnið þar undan brekkuhalla, suður á við, millum EystraMælifells og Núpshlíðarháls. Öll er hraunstorkan úfin þarna og í henni bárur miklar og þversprungur, bognar eftir rennslinu og bramlaðar sitt á hvað. Hallandi hraunbrekkan, úfin, storkin, sprungin og bólgin, er sviplíkust skrið jökli, er sígur og hnígur fram og niður úr þröngum og djúpum dali.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Við köstum byrðum og hvílumst um stund á hæsta hóli Óbrennishólmans, í suðurenda hans, en þar er ævaforn fjárborg sem nú er með öllu jöfnuð við jörðu svo ekki stendur steinn yfir steini. Má þó enn greina hring undirstöðunnar og hefur fjárborg þessi verið allstór eða nálægt 10 metrar að þvermáli; hlaðin úr basalti og grágrýti sem ekki finnst þarna annarstaðar, enda er borgin miklu eldri en hraunið um kring.
Úr Óbrennishólmanum héldum við til suðausturs, í átt til Húshólmans sem var fyrirhugaði áfanga staðurinn, en hittum ekki á bestu leiðina, heldur þá alverstu.
Fórum of nærri sjónum og lentum inn í kolsvart brunahraun, afarúfið, með engum mosagróðri. Byrðarnar voru þungar: 40-50 kg., á þeim er þyngst var. Þegar þarna var komið var hundurinn orðinn svo sárfættur, að bæta varð honum ofan á eina byrðina. Við höfðum þó gert honum skó á alla hans fjóra fætur, en ekkert vildi duga þó sífellt væri verið að reyra og vefja og endurbæta skógerðina. Hann fór margan óþarfa krókinn: „Aumingja strákurinn“, og flengdi af sér skóböslin í eltingaleik við kjóahjón, er hann átti í erjum við, þó enginn yrði árangurinn annar en skóslit og sárir fætur eftir margt vel útilátið vindhögg og mörg misheppnuð frumhlaupin.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóftir.

Steinuppgefin með sprengda skó og rifnar flíkur komum við í áfangastaðinn, Húshólmann. Þar féllum við til jarðar á rennislétta, ilmandi grundina undir úfnum, bröttum hraunjaðrinum skammt frá rústum forna stórbýlisins sem eru þar umluktar og inni bræddar í hrauninu.
Marflöt eins og ormar teigum við angan gróður vinjarinnar, er hvílir þarna innan vébanda eldstorkunnar í hrjósturkufli eyðimerkurinnar. Faðmur móður vorrar, jarðarinnar, er æ reiðubúinn að taka börn sín og hjúfra í friði og farsæld.
Örfá andartök og þreytan er þorrin. Sami töfrailmurinn er hér enn úr grasi og Grelöð Jarlsdóttir hin írska fann, er hún, á fyrstu dögum Íslandsbyggðar, valdi sér bústað eftir angan jarðar og ilman blóma.
Og gamla persneska skáldið Omar Khayyám vissi hvað hann söng, er hann, fyrir meir en 800 árum, kvað um mannsævina og líkti henni við lestargöngu.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Vel var sofið og vært þessa fyrstu nótt í tjaldbúðum vorum í Húshólma, enda aldrei áður tjaldað þarna og sofið svo menn viti til. Miklir voru draumar og mannfróðlegir. Meðal annars þóttist eitt okkar finna allmargar beinagrindur og hirða. Voru þær frá ýmsum tímum og öldum og sín úr hverri áttinni. Þegar farið var að rannsaka kom það upp úr kafinu að beinagrindur þessar voru af draumamanninum sjálfum, frá áður lifuðum og liðnum æviskeiðum. Ein fannst austur í Eyjahafi, nálægt stórri eyju undan Grikklandsströndum; önnur í Atlantshafi í nánd við Hebrides-eyjarnar og tvær, eða fleiri, grófust upp úr kafinu einhvers staðar á voru landi, Íslandi.
Draumamann langaði mjög til að hirða hauskúpurnar og eiga sem minjagripi, því mjög gæti það verið fróðlegt, að eiga vel verkaða hauskúpu af sjálfum sér frá einhverri fyrri jarðvist. En allar hurfu þær draumamanni, að undantekinni einni, er hann vildi ekki fyrir nokkurn mun missa. Og er hann vaknaði hélt hann báðum höndum ríghaldi um hauskúpu þessa og horfði á hana leysast upp og hverfa úr greipum sínum. Dreymanda þótti þetta miður, og það mundi fleirum hafa þótt, svo raunverulegur var draumurinn. Þetta var klukkan 6, að morgni laugardagsins 29. júlí 1944. Fuglar loftsins komnir á kreik og farnir að hefja dagskipan sína. Draumamaður skreið úr svefnpoka sínum og klæddist, skundaði síðan út í glitrandi morgunljómann og fór að rannsaka umhverfið. Hann hafði áður farið hér um sér til angurs og fróðleiks, en rannsóknarefnið er ótæmandi fyrir allflesta sem eitthvað hafa lært að tileinka sér.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólminn er allstór. Aðalhólminn mun nálægt 30 ha. (um 100 dagsl.) að stærð. Uppblásturs gætir þar á nokkrum stöðum. Austan við Hólmann hefur hraunið runnið utan í hliðarhalla og fylgt honum allt í sjó fram. Má vera að þarna hafi verið daldrag sem hafi yfirfyllst af hrauni; öðruvísi verður þetta varla skýrt eða skilið og harla einkennilegt, að hraunið skyldi ekki steypa sér yfir hólmann allan. Millum aðalhólmans og sjávar er mikill og svartur hraunkampur, úfinn og ljótur, en fyrir ofan þennan hraunkraga, þvert yfir graslendi Hólmans, er fornt fjöruborð af brimsorfnu grágrýti.
Vestan megin Hólmans hefur hraunið einnig runnið langt í sjó fram, fyllt alveg víkina og lokað henni. Er glóandi grjótleðjan kom í sjóinn og kólnaði, hlóðst hún upp og stöðvaði framrennslið, svo hraunið hefur sumstaðar runnið til baka aftur.

Rústir í hrauni

Húshólmi

Húshólmi – tóft og garðar í Kirkjulág.

Úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, heitir Kirkjulág. Þar eru rústir mikillar húsaþyrpingar sem hraunið hefur að nokkru leyti runnið yfir, en nokkuð hefir orðið eftir og standa veggir og tóftar brot út undan hraunröndunum.
Kringum eina rústina er garður og hefur hraunið runnið inn í hann, en ekki fyllt hann alveg, svo austurkanturinn og norðurhornið er hraunlaust. Er það sagður hafa verið kirkjugarður, en ekki er víst að svo sé.
Í há norður frá Kirkjulánni, um 100 metrum ofar í hrauninu, eru aðrar rústir miklu heillegri. Þær rústir hafa aldrei verið athugaðar af fræðimönnum. Hefur hraunið hlaðist að þeim á alla vegu en hvergi komist inn fyrir veggina. Hleðslurnar haldast ennþá á pörtum fastar í hraunstorkunni. Sumt af hleðslunum hefur bráðnað, en sumt af steinunum hitnað svo og eldast að þeir bera þess merki. Tóft þessi er um 20 m. á lengd og 8 á breidd og liggur frá austri til til vesturs. Við austurendann hefur verið minna hús áfast en ekki eins breitt og aðalrústin. Í hleðslum húsarústa og garðabrota er mestmegnis grásteinn og margt af honum vatnsnúið eða brim marið, sennilega tekið úr forna fjörukampinum sem verið hefur skammt fyrir sunnan, því víkin hefur náð langt inn að vestanverðu, áður en hún fylltist af hrauni. Bæjarhúsin munu hafa staðið skammt austan við víkurbotninn.

Húshólmi

Húshólmi – forn garður hverfur undir Ögmundarhraun.

Forna fjöruborðið, eða sjávarkampurinn, er mjög merkilegur til fróðleiks. Hans gætir kringum allt land og eins norður á Grímsey sem annarstaðar. Þetta fjöruborð liggur í 4-5 metra hæð yfir núverandi sjávarmál og eigi myndað fyrr en löngu eftir síðustu ísöld. Hlýindatímabil hefur þá staðið yfir, um alllangt skeið, svo jöklar hafa bráðnað á norður hveli, að svo miklum mun að hækkað hefur í höfunum. Hefur þá verið orðið nær jöklalaust á Íslandi. Síðan hefur kólnað aftur og mikil uppgufun bundist. Á aðalhólmanum eru greinilegar fornar garðhleðslur, sá lengsti um 300 metra langur og hverfa báðir endar hans inn undir hraunið.
Margar sagnir eru til á ýmsum tegundum af „galdraletri” um Gömlu Krýsavík og starfhætti krýsa og menningu. Ber öllum þeim lýsingum saman í aðalatriðum. Í tíð Kolskeggs vitra voru þar stórt hundrað manns í heimili og 30 hurðir á járnum. Þar voru miklir akrar og ræktun. Auk korntegunda var þar ræktað lín og hör og einhverskonar korntegund sem Kolskeggur flutti inn frá Vesturheimi og kallað er „hölkn“, og eftir lýsingunni að dæma hlýtur að hafa verið maís. Í Krýsavík var og skipasmíðastöð og mörg hafskip smíðuð. Gjá ein eða klauf gekk upp í landið úr vesturbotni víkurinnar og mátti þar fleyta skipum inn og út um stórstraumsflóð. Mátti hafa þar 1-2 hafskip í vetrarlagi.“

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Einn áfangi á Reykjanesi – Jockum Magnús Eggertsson (1896-1966) fjallar um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945, bls. 20-28.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík hægra megin, nú fyllt af hrauni. Tóftirnar á víkurbakkanum.

Tyrkjabyrgi

Björn Þorsteinsson skrifaði eftirfarandi um „Rústirnar í Grindavíkurhrauni“ í Þjóðviljann og Nýja Tímann árið 1950:

Undarleg mannvirki
Í SundvörðuhrauniÁ síðara hluta síðustu aldar [19. aldar] fundu menn óvænt mannvirki inni í miðju  Grindavíkurhrauni og ollu þau ýmsum nokkrum heilabrotum. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og Þorvaldur Thoroddsen athuguðu þau báðir, og skrifuðu um þau, annar í Árbók fornleifafélagsins 1903, en hinn í, Andvara, en síðan hafa menn ekki veitt þessum fornleifum frekari eftirtekt, þangað til síðastliðið vor. Eins og kunnugt er ritaði Halldór Kiljan Laxness „Litla samantekt um útilegumenn“ í Tímarit máls og Menningar 1949 og komst að þeirri niðurstöðu, „að útilegumenn hefðu sennilega aldrei verið til á Íslandi“, að Fjalla-Eyvindi undanskildum. Unnendum útilegumanna fannst Kiljan gerast ærið stórhöggur í þessari grein  og tala gálauslega um viðkvæmt málefni. Útilegumenn hafa þess vegna komizt aftur á dagskrá, og á næstu árum mun verða úr því skorið, hverju menn eiga að trúa í þessu efni.

Eldvörp

Eldvörp – fiskibyrgi.

Síðastliðið vor tóku nokkrir menn sig til og leituðu rústanna, sem Brynjólfur og Þorvaldur geta um, að séu í Grindavikurhrauni, ef vera kynni að þar leyndust augljós merki um útilegumannabyggð.Eftir árangurslausa ferð fundu þeir rústirnar að tilvísan oddvitans í Grindavík, og nú kom í Ijós, að sízt hafði verið frá þeim logið. Þessar tættur eru þær langmerkustu slnnar tegundar, sem fundizt hafa, og sumar þeirra svo kyndugar, að engum getum er hægt að leiða að því, til hvers þær hafa verið notaðar. Eitt af þessum furðuverkum er rúst, sem minnir einna helzt á skýlin á áfangastöðum strætisvagnanna. Þetta eru þrjár skeifulaga tættur, sem snúa göflunum saman, en um 120 gráðu horn myndast milli opanna. Uppi á hraunbrúninni er rúst af hringlöguðum hrauk, innanmál 75 sm. á lengd og 60 sm. á breidd, mesta hæð 122 sm. Þetta eru ein tvö af þeim tíu undarlegu mannvirkjum, sem þarna getur að líta, og munu margir spyrja, hvers konar fólk hafi verið hér að verki.

Varnir gegn Tyrkjum?

Í Sundvörðuhrauni

Í Ferðabók Þ. Thoroddsens, I. b. Khöfn 1913, bls. 174—’75 segir Þorvaldur frá þessum fundi sínum:
„Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun. Það er mjög nýlegt og fjarska illt yfirferðar. Hesti er ómögulegt að koma við og illfært gangandi manni. Hraunið er grátt af gamburmosa, en mjög lítill jurtagróður er þar annar. Í því skoðaði ég á einum stað gamlar mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna: á afskekktum stað i versta brunahrauni. Þar hefur líklega einhverntíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefur orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos á flötum hraunbletti og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hraunhellum og hleðslan víðast einföld. Gjort hefur verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 15—18 fet á lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki.

Eldvörp

Eldvörp – „Tyrkja“byrgin svonefndu; undanskot Grindavíkurbænda!?

Hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennan kofa er hlaðin tóft djúp eins og tunnur. Þar fundum við hálfúna tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraun brúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því að á beim var nærri eins þykkt mosalag og hrauninu sjálfu.

Enginn veit neitt um þessa kofa. Þeir fundust af tilviljun 1872. Það er mjög ólíklegt, að hér hafi verið mannabyggð að staðaldri; líklegra er, að kofum þessum hafi verið hróflað upp til bráðabirgða á ófriðartímum, og að menn hafi flúið í hraunið úr Grindavík. Þar hefur oft verið agasamt. Englendingar og Þjóðverjar börðust þar 1532, og 1627 herjuðu Tyrkir á byggðina. Gamlar sagnir geta um stigamenn eða útilegumenn á Baðvöllum einhvers staðar nálægt Grindavík, en hvort rústirnar standa í nokkru sambandi við þá illvirkja er efasamt.“

Barnagarðar?

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur veit auðsæilega ekki hvað hann á að halda um þessi mannvirki, og sömu sögu er að segja um Brynjólf frá Minna-Núpi. Þegar hann fór að leita rústanna var Sæmundur bóndi Jónsson á Járngerðarstöðum, sá sem fylgdi Þorvaldi Thoroddsen um Grindavíkurhraun orðinn blindur. Fékk hann þá með sér tvo kunnuga menn, og leituðu þeir „nær heilan dag, en fundu ekki“. Með tilvísan hins blinda manns tókst þeim þó að finna rústirnar í annarri atrennu. Í Árbók fornleifafélagsins heldur Brynjólfur helzt, að tætturnar 3 í kvosinni „hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft svo lág, að veggirnir eru áð mestu mosa huldir. Það gæti verið niðurhrunin fjárrétt, en eigi bendir það þó til þess er Sæmundur sagði; að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni“. Brynjólfur fellst á, að þarna hafi verið gott fylgsni, ,,en ólíklegt er, að menn hafi getað dvalizt til lengdar á þessum stað. Þar hefur víst verið „á flestu góðu mesta óhægð“,“ og bendir á, að þar hafi hvorki verið vatn né eldivið að fá. Kunnugir menn í Grindavík segja, að vatnsból sé sæmilegt í djúpri gjá sunnan við Eldvarpahraun um 20-30 mín. gang frá rústunum, en eldiviður hefur auðvitað verið enginn nema mosi.

Eldvörp

Eldvörp – fiskibyrgi.

Brynjólfur bendir á, að sumar af tóftum þessum em svo smáar, „að það er eins og börn hafi byggt þær að gamni, og trúa mundi ég, að þetta væri allt saman eftir stálpuð börn, t. a. m. 10—14 ára gamla drengi, ef líklegt væri að þeir hefðu komið á þennan stað, en það sýnist mér ekki vera. Á vorum dögum mundu flestir drengir kjósa annað til skemmtunar en að leita leiksviðs í ófæru hrauni, og fyrrum hefur hraunið þó verið enn verra yfirferðar, er það var mosalaust og lítt saman sigið. Hafi drengir fyrri alda haft slíkar glæfraferðir og séu þessar menjar eftir þá, þá eru þær merkilegar fyrir þroskunarsögu vora, og þó þær séu eftir útilegumenn eru þær merkilegar, auk þess sem þær sýna eymdarstöðu slíkra manna og það þrek sem þurfti til að lifa í henni; þá sýna þær einnig það áræði, sem þrátt fyrir hættuna horfði ekki í að vera svo nærri mannabyggðum. „Karlmennskuhugurinn harði“ lýsir sér á sinn hátt í hvoru tilfellinu sem er.“

Junkerar í Grindavík

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur og Brynjólfur vilja ekkert fullyrða um það, hverjir hafi staðið að húsagerðinni í Grindavíkurhrauni, en rústirnar benda ótvírætt til þess, að einihvern tima í fyrndinni hafi menn hafzt þar við. Skammt frá sjálfum tóftunum sér móta fyrir aðhaldi og lítilli rétt, en hverjir áttu að smala á þessum slöðum? Ef einhverjir óbótamenn óbótamenn hafa búið þarna, er harla ólíklegt, að einhver sögn um þá hefði ekki varðveizt, og nú vill svo vel til, að meðal Grindvíkinga hefur varðveizt saga um „útilegumenn“ á Reykjanessskaga. Brynjólfur frá Minna-Núpi skrásetur þessa sögu, og er hún prentuð í Huld, H. b., útg. 1892, bls. 58-60.

Járngerðarstaðahverfi

Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn -— tólf eða átján — hafzt við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavik, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé, og vindur standi af landi. En junkarar reru heldur aldrei nema þar sem vindur stóð af landi, og þá er svo var hvasst að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir í landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn því illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.

Gerðavellir

Gerðavellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Og þó að að menn kæmist í gerði þeirra, þá er þeir voru ekki við, þorðu menn eigi að láta junkara sjá þess merki, þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmissa bragða til þess. Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en júnkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björguðust svo til lands. Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu, þá er í land skyldi róa, því að þá var mótvindi. Þá reru junkarar við hné sér til lands. Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu.

Tyrjabyrgi

Eitt „Tyrkjabyrgjanna“.

Nú reru junkarar, er vindur stóð af landi, en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig: Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi junkarar verið af dögum ráðnir.
Þessari sögu fylgir skýringarklausa frá Brynjólfi á Minna-Núpi: „Þessi munnmæli voru mér sögð í Grindavík 1861. En seinna hefur mér dottið í hug, að þessi sögn kunni að standa í sambandi við tóftarústir þær, er sjómenn frá Húsatóftum í Grindavík — einn af þeim var Guðmundur, bróðir minn — fundu veturinn 1872 norðan í Sundvörðuhrauninu, þar sem á stóru svæði er hvergi stingandi strá strá, og engin umferð af mönnum né skepnum, enda hafði þá enginn heyrt þeirra rústa getið áður. Þorvaldur Thoroddsen fann þær líka, er hann rannsakaði Rekjanesskagann, og áleit eins og hinir, að þar hefði verið mannahýbýli“.

Vafasamt junkaragerði
Junkaragerði ofan við Stóru-Bót í GrindavíkÞetta er eina sögnin, sem hægt er að tengja við tóftirnar í Sundvörðuhrauni, en hún hefur á sér ýmis einkenni góðrar þjóðsögu. Junkararnir eru 12 eða 18, en talan 18 er algeng í þjóðsögum um líkt efni. Í Grindavík lifði einnig saga um 15 þjófa í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli en hún er farandsögn, sem ekkert á skylt við þessar rústir. Þrjár tilraunir eru gerðar til að ráða junkarana af dögum, og heppnast síðasta tilraunin, en slík efnisatriði eru einkenni allra góðra þjóðsagna.
Sannfræði þessarar sögu er því býsna vafasöm, en engu að síður standa rústirnar í Sundvörðuhrauni sem óbrotgjarnt vitni þess, að þar hafa menn verið að verki og sennilega dvalizt einhvern tima. Ef bófaflokkur hefur haft þar bækistöð sína ætti að finnast einhver urmull af beinum eða öðrum úrgangi þar í grendinni, en þess sér engin merki. Útilegumannadýrkendur benda þó rétti lega á, að tætturnar séu mjög gamlar, því að þær eru huldar þykku mosalagi. Fangamark útilegumanna getur því birzt einn góðan veðurdag undir mosalaginu.

Eldvörp

Eldvörp – eitt byrgjanna.

Það er eftirtektarvert við rústirnar, að byggingarlag þeirra bendir til þess, að það sé miðað við þá möguleika, sem hraunhellurnar í nágrenninu skópu byggingameisturunum. Stærstu hraunhellurnar eru um 90 sm. á lengd, en tætturnar eru frá því um 50 sm til 80 sm. á breidd nema ein. Hún er um 150 sm., þar sem hún er breiðust. Þar hefur þó verið hlaðinn milliveggur, svo að þakhellurnar hafa ekki þurft að vera nema um 80 sm. til þess að ná milli veggja, Ef hér er um mannabústaði að ræða, þá er enginn öfundsverður af því að hafa hafzt þarna við.  Mér er ókunnugt, að orðið junkari komi fyrir annars staðar í þjóðsögum. Orðið kemur inn inn í íslenzkuna á ofanverðum miðöldum og er þá oft skrifað jungkæri, og bæjarnafnið Junkaragerði er skrifað Junkæragerði í Jarðabók Árna Magnússonar. Orðið jungkæri var notað um yngissveina af tignum ættum, en hefur festst t. a. m. í Þýzkalandi við landeigendaaðalinn. Inn í íslenzkuna er orðið auðvitað komið úr þýzku eða dönsku, en Þjóðverjar höfðu miklar bækistöðvar á þessum slóðum á 16. öld. Það er dálítið kátbroslegt, að tignarheiti! einnar illræmdustu landeigendastéttar Evrópu skuli tengt við kot eitt suður í Höfnum og þjóðsögn um kvennagull, sem eiga að hafa búið á óbyggðum Reykjanesskaga.

Heimildir m.a.:
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Þjóðviljinn 3. september 1950, bls. 5 og 7.
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Nýi Tíminn 28. september 1950, bls. 3 og 6.

Tyrkjabyrgi - uppdrattur

Í Bálkahelli

Gengið var niður Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með það fyrir augum að skoða Bálkahelli og Arngrímshelli (Gvendarhelli). Þá var gengið upp vestanvert hraunið áleiðis að Stóru-Eldborg, upp í Kerlingadal og staldrað við um stund hjá dysjum þeirra Herdísar og Krýsu.

Gvendarhellir

Gvendarhellir – tóft.

Arngrímshellis er getið í gamalli lýsingu. Þar segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi hafi fé í helli í Klofningum undir aldamótin 1700. Þar hafi hann haft 99 ær og að auki eina frá systur sinni. Sú, þ.e. ærin, nefndist Grákolla. Fénu beitti hann m.a. í fjöruna neðan við bergið. Um veturinn gerði aftakaveður og fannfergi. Varð það svo slæmt að féð hraktist fram af berginu og drapst. Grákolla lifði hins vegar af hrakningarnar og er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið.
Arngrímur var við annan mann við sölvatekju undir bjarginu skömmu eftir aldamótin 1700 og féll þá sylla á hann með þeim afleiðingum að hann lést.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Um 130 árum síðar mun Krýsuvíkur-Gvendur hafa haft fé í fjárhellinum. Nefndist hann þá Gvendarhellir. Tóft er við munnann. Er sagt að þar hafi verið hús úr timbri og hafi það talist til frásagnar að gler hafi verið þar í gluggum. Við og inni í hellinum eru hleðslur.
Bálkahellir er skammt austar. Þegar komið er niður úr efsta opi hans má sjá hraunbálka beggja vegna. Annars er hellirinn um 450 metra langur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Neðan við Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar, er dregur nafn sitt af deilum Herdísar Í Herdísarvík og Krýsu í Krýsuvík, er Kerlingadalur. Neðst í honum eru dysjar kerlinganna, auk smala Herdísar. Þjóðsagan segir að Krýs og Herdís hafi verið grannkonur og “var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Bálkahellir

Við Bálkahelli.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman.

Krýsuvík

Breiðivegur vestan Stóru-Eldborgar.

Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata (Breiðivegur); er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu. Gamla þjóðleiðin lá hins vegar upp á hálsinn milli Geitahlíðar og Stóru-Eldborgar og síðan um Kerlingadal.
Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu.

Grindavík

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er grein Helga Bierings um „Valgerðarhús, næst elsta hús Grindavíkur„:

Valgerðarhús næst elsta hús Grindavíkur

Grindavík

Grindavík – Valgerðarhús.

„Stolt hvers byggðarlags er upphaf byggðar og sú merkilega saga sem varð til þess að byggð hófst. Grindavík á sína verslunar og útgerðarsögu. Saga Grindavíkur hefur ekki verið átakalaus í gegnum aldirnar. Grindavíkurverslun var ein af útstöðvum Kaupsvæðis Reykjavíkur ásamt Hafnarfirði, Keflavík og Básendar. Mikil samkeppni var um verslun á milli Dana, Hollendinga, Hansakaupmanna (Þjóðverjar) og Englendinga, þó svo að Danir hefðu einkaleyfið frá konungi. Samkeppnin hélst lengi þó svo að stundum hafi brotist úr vopnuð átök. Þau átök náðu svo hámarki í svonefndu Grindavíkurstríði árið 1532. Þar unnu Þjóðverjar sigur með tilstyrk Dana og Íslendinga.

Grindavík var fyrst og fremst verstöð

Grindavík

Grindavík – sjóbúðir. Flagghúsið í miðið.

Megin atvinnuvegur bæjarins hefur verið sjávarútvegur Grindvíkinga. Um Jónsmessuleytið 1627 varð atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní.
Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir” rændu en líklega voru þeir um 12 sem hefur verið stórt hlutfall íbúa Grindavíkur á þeim tíma. Að auki féllu nokkrir Grindvíkingar og sjóræningjar í atganginum. Sagan segir að þegar blóð „Tyrkjanna“ og Grindvíkinganna blandaðist á jörðinni hafi orðið til blóðþyrnir sem vex á grasflöt í nágrenni við Valgerðarhús.

Grindavík

Valgerðarhús lengst til hægri.

Grindvíkingar smíðuðu lengi framan af báta úr rekaviði sem svo voru nýttir til róðra á erfiðu en gjöfulu hafsvæði. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900. Þá tók fólki að fjölga í Grindavík, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. Um líkt leyti reis Valgerðarhús. Valgerðarhús var reist út timbri úr strandgóssi stórs seglskips sem strandaði við Hafnir 1881. Ekki er ólíklegt að Einarsbúð hafi verið reist úr timbri úr sama skipi að einhverju leyti. Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Valgerðarhús – sagan

Grindavík

Grindavík – Hér er Valgerðarhús nefnt Júlíusarhús.

Valgerðarhús er staðsett í Járngerðarstaðahverfi og það er í dag eitt af elstu húsum Grindavíkur, hefur sérstaka sögu sem tengist atvinnusögu Grindavíkur. Húsið er skráð hjá Þjóðskrá að það sé byggt árið 1940. En margt bendir til að það sé byggt mun fyrr. Þó húsið sé lítið og lúið á okkar tíma mælikvarða þá var það vel byggt og úr góðu timbri á sínum tíma. Upphaflega húsið er í þokkalegu góðu ástandi fyrir utan ryðgað bárujárn að utan, en heldur lakari timbur er í viðbyggingunni sem byggð er úr gömlu og endurunnu timbri og rekavið. Elsti hluti hússins er á sökkli sem er gerður úr fjörugrjóti sem hlaðið er í múr.
Á gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er Valgerðarhús vel greinilegt og á myndum frá því seint á þriðja áratugnum er húsið nýklætt að utan en á mynd frá því fyrr á þriðja áratugnum sést húsið einnig en þá er það svart að lit og þá líklega vegna tjörgunar. Húsið gæti hafa verið klætt að utan eftir 1927 eða þar um bil eftir að sjávarflóð olli töluverður tjóni í nágrenni Valgerðarhúss.

Grindavík

Grindavík – húsin ofan við fyrstu bryggjuna í Járngerðarstaðarhverfi.

Í upphafi var Valgerðarhús líklega verið nefnt “Sjóbúðin”. Einnig tengist húsið fjölskyldu Einars Jónssonar frá Garðhúsum.
Húsið Valgerðarhús stendur við hlið Verbrautar í Grindavík og er án húsnúmers, var að öllum líkindum byggt einhvern tíman á árunum 1882 til 1889 og því eitt af elstu húsum Grindavíkur.
Burðarviðir hússins eru úr farmi skipsins James Town sem strandaði við Hafnir sunnudagsmorguninn 26. júní 1881. Skipið var hlaðið timbri sem átti að fara til Englands þar sem það átti að notast við lagningu járnbrautarteina. Það var svo 12. og 13. ágúst 1881 sem haldið var uppboð á farminum og skipinu á strandstað við Þórshöfn í Stafnesfjöru. Töluvert af timbri var selt til Grindavíkur, meðal annars á Járngerðarstaði, Garðhús, Klöpp og fleiri bæja innan Grindavíkur.
Líklegast er að timbrið í Valgerðarhús hafi verið keypt af Einari Jónssyni í Garðhúsum, en hann kom einnig að björgunarvinnu við strandið og fékk greitt 6 kr. fyrir leigu á hestum. Einnig keypti hann 162 planka á uppboðinu.
Þeir sem unnu við strandið fengu að eiga ýmsa búta sem notaðir voru við fráganginn á timburfarminum sem var um borð í skipinu. Sagnir eru um að sumir hafi jafnvel getað byggt sér þokkaleg hús úr þessum bútum.

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Ástæða þess að ég tel að Einar eða Dagbjartur, sonur hans, hafi byggt Valgerðarhús, eða í það minnsta átt timbrið sem fór í burðarvirki hússins, er að Einar átti túnið sem var næst Valgerðarhúsi. Einnig átti hann að öllum líkindum beitningarskúrana sem merktir eru inn á túnakortið frá 1918 og voru ekki nema í um 2 metra fjarlægð frá Valgerðarhúsi. Nýlega er búið að rífa beitningarskúrana.
Á túnakortinu er skrifað við hlið skúranna „Fleiri hús“. Hús sem virðast hafa verið á einhverskonar einskismannslandi.
Dagbjartur frá Velli var sonur Einars Jónssonar frá Garðhúsum. Sá sami Einar var einn af björgunarmönnum farmsins úr James Town eins og áður hefur komið fram. Á sama tíma er hann samkvæmt manntalinu frá 1880 “húsb., hreppstjóri, sjávarafli, fjárrækt” þannig að hann hefur verið meiri háttar maður í samfélaginu í Grindavík á sínum tíma. Hann keypti einnig dálítið af plönkum á uppboðinu sem haldið var á farminum úr James Town og flakinu, fyrir utan það timbur sem björgunarmenn fengu að eiga. Eftir að uppboðinu var lokið fengu björgunarmenn að eiga hluta þess viðar sem bjargað var úr skipinu sem þá var komið í eigu H.P. Duus. Sumir fengu fjórðung á meðan aðrir fengu helming þess timburs sem þeir komu í land, mögulega eftir stétt og stöðu hvers björgunarmanns fyrir sig. Eftir að skipið hvarf svo í hafið í haustveðri fannst mikill reki úr skipinu meðfram allri strönd Stafnessins allt frá Garði og út á Reykjanes í töluvert langan tíma.

Niðurstaða

Grindavík

Ég tel að Dagbjartur Einarsson hafi reist Valgerðarhús eftir að hann fer að heiman tvítugur að aldri og þar til hann er sagður húsbóndi í “Sjóbúðinni” árið 1900 í Sóknarmannatali og í sóknarmannatali og manntali 1901. Það er niðurstaða mín að Valgerðarhús var reist einhvern tíman á árunum 1882 – 1889.
Við samanburð á viðnum í Valgerðarhúsi og í Ytri-Ásláksstaðir, elsta uppistandandi íbúðarhús í Sveitarfélaginu Vogum og byggt 1884 úr meðal annars timbri úr James Town, kom í ljós að samskonar burðarviður er í báðum húsunum. Einnig er byggingarstíllinn, gerð sökkuls og stærð mjög áþekk. Þessi samanburður styrkir þá niðurstöðu að Valgerðarhús hafi verið byggt á árunum 1882- 1889.
Til gamans má geta þess að eiginkona Dagbjarts var Valgerður Guðmundsdóttir frá Klöpp og líklega er húsið nefnt eftir henni.
Nöfnin Þorvaldshús og Ólafshús, sem komu í umræðuna á meðan á rannsókninni stóð, skiluðu engu nema að á árunum 1928-1952 og jafnvel síðar var Þorvaldshús prestsbústaður og þar af leiðandi líklega ekki Valgerðarhús.“

Í „Húsakönnun Grindavíkur 2019“ er fjallað um Valgerðarhús:

Sögubrot Grindavíkur
Grindavík
„Stolt hvers byggðarlags er upphaf byggðar og sú merkilega saga sem varð til þess að byggð hófst.
Grindavík á sína verslunar og útgerðarsögu. Saga Grindavíkur hefur ekki verið átakalaus í gegnum aldirnar. Grindavíkurverslun var eina af útstöðvum Kaupsvæðis Reykjavíkur ásamt Hafnarfyrði, Keflavík og Básendar. Mikil samkeppni var um verslun á milli Dana, Hollendinga, Hansakaupmanna (Þjóðverjar)og Englendinga, þó svo að Danir hefðu einkaleyfið frá konungi. Samkeppnin hélst lengi þó svo að stundum hafi brotist úr vopnuð átök. Þau átök náðu svo hámarki í svonefndu Grindavíkurstríði árið 1532. þar unnu þjóðverjar sigur með tilstyrk Dana og Íslendinga.

GrindavíkGrindavík var fyrst og fremst verstöð. Megin atvinnuvegur bæjarins hefur verið sjávarútvegur Grindvíkinga. Um Jónsmessuleytið 1627 varð sá atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní. Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir“ rændu en líklega voru þeir um 12 sem hefur verið stórt hlutfall íbúa Grindavíkur á þeim tíma. Að auki féllu nokkrir Grindvíkingar og sjóræningjar í atganginum. Sagan segir að þegar blóð „Tyrkjanna“ og Grindvíkinganna blandaðist á jörðinni hafi orðið til Blóðþyrnir sem vex á grasflöt í nágrenni við Valgerðarhús.
Grindavík
Grindvíkingar smíðuðu lengi framan af báta úr rekaviði sem svo voru nýttir til róðra á erfiðu en gjöfulu hafsvæði. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900. Þá tók fólki að fjölga í Grindavík, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. Um líkt leiti reis Valgerðarhús. Valgerðarhús var reist út timbri úr strandgóssi stórs seglskips sem strandaði við Hafnir 1881. Ekki er ólíklegt að Einarsbúð hafi verið reist úr timbri úr sama skipi að einhverju leiti.
Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Valgerðarhús
Grindavík
V
algerðarhús er staðsett í Járngerðarstaðahverfi og það er í dag eitt af elstu húsum grindavíkur, hefur sérstaka sögu sem tengist atvinnusögu Grindavíkur. Húsið er skráð hjá Þjóðskrá að það sé byggt árið 1940. En margt bendir til að það sé byggt mun fyrr. Þó húsið sé lítið og lúið á okkar tíma mælikvarða þá var það vel byggt og úr góðu timbri á sínum tíma. Upphaflega húsið er í þokkalegu góðu ástandi fyrir utan ryðgað bárujárn að utan, en heldur lakari timbur er í viðbyggingunni sem byggð er úr gömlu og endurunnu timbri og rekavið. Elsti hluti hússins er á sökkli sem er gerður úr fjörugrjóti sem hlaðið er í múr.
Á gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er Valgerðarhús vel greinilegt og á myndum frá því seint á þriðja áratugnum er húsið nýklætt að utan en á mynd frá því fyrr á þriðja áratugnum sést húsið einnig en þá er það svart að lit og þá líklega vegna tjörgunar. Húsið gæti hafa verið klætt að utan eftir 1927 eða þar um bil eftir að sjávarflóð olli töluverður tjóni í nágrenni Valgerðarhúss.
Í upphafi var Valgerðarhús líklega verið nefnt „Sjóbúðin“. Einnig tengist húsið fjölskyldu Einars Jónssonar frá Garðhúsi.

Valgerðarhús

Í Húsakönnun Grindavíkur 2014 segir: „Sæmundur Sterki átti þetta hús og Guðmundur. Milliloftið í þessu húsi kemur úr skútu sem strandaði við Hafnirnar. Líklega hefur þetta verið geymsla, pakkhús, fiskvinnsla eða beitningaskúr.“

Húsið Valgerðarhús stendur við hlið Verbrautar í Grindavík og er án húsnúmers var að öllum líkindum byggt einhvern tíman á árunum 1882 til 1889 og því eitt af elstu húsum Grindavíkur. Burðarviðir hússins eru úr farmi skipsins Jamestown sem strandaði við Hafnir sunnudagsmorguninn 26. júní 1881. Skipið var hlaðið timbri sem átti að fara til Englands þar sem það átti að notast við lagningu járnbrautarteina. Það var svo 12. og 13. ágúst 1881 sem haldið var uppboð á farminum og skipinu á strandstað við Þórshöfn í Stafnesfjöru. Töluvert af timbri var selt til Grindavíkur, meðal annars á Járngerðarstaði, Garðhús, Klöpp og fleiri bæja innan Grindavíkur.
Líklegast er að timbrið í Valgerðarhús hafi verið keypt af Einari Jónssyni í Garðhúsum, en hann kom einnig að björgunarvinnu við strandið og fékk greitt 6 kr. fyrir leigu á hestum. Einnig keypti hann 162 planka á uppboðinu. Þeir sem unnu við strandið fengu að eiga ýmsa búta sem notaðir voru við fráganginn á timburfarminum sem var um borð í skipinu. Sagnir eru um að sumir hafi jafnvel getað byggt sér þokkaleg hús úr þessum bútum.

Grindavík

Grindavík – framan við Einarsbúð.

Ástæða þess að ég tel að Einar eða Dagbjartur, sonur hans, hafi byggt Valgerðarhús, eða í það minnsta átt timbrið sem fór í burðarvirki hússins, er að Einar átti túnið sem var næst Valgerðarhúsi. Einnig átti hann að öllum líkindum beitningarskúrana sem merktir eru inn á túnakortið frá 1918 og voru ekki nema í um 2 metra fjarlægð frá Valgerðarhúsi. Nýlega er búið að rífa beitningarskúrana. Á túnakortinu er skrifað við hlið skúranna „Fleiri hús“. Hús sem virðast hafa verið á einhverskonar einskismannslandi.
Dagbjartur frá Velli var sonur Einars Jónssonar frá Garðhúsi. Sá sami Einar var einn af björgunarmönnum farmsins úr Jamestown eins og áður hefur komið fram. Á sama tíma er hann samkvæmt manntalinu frá 1880 „húsb., hreppstjóri, sjávarafli, fjárrækt“ þannig að hann hefur verið meiri háttar maður í samfélaginu í Grindavík á sínum tíma. Hann keypti einnig dálítið af plönkum á uppboðinu sem haldið var á farminum úr Jamestown og flakinu, fyrir utan það timbur sem björgunarmenn fengu að eiga. Eftir að uppboðinu var lokið fengu björgunarmenn að eiga hluta þess viðar sem bjargað var úr skipinu sem þá var komið í eigu H.P. Duus. Sumir fengu fjórðung á meðan aðrir fengu helming þess timburs sem þeir komu í land, mögulega eftir stétt og stöðu hvers björgunarmanns fyrir sig. Eftir að skipið hvarf svo í hafið í haustveðri fannst mikill reki úr skipinu meðfram allri strönd Stafnessins allt frá Garði og út á Reykjanes í töluvert langan tíma.

Niðurstaða

Grindavík

Grindavík – Valgerðarhús.

Ég tel að Dagbjartur Einarsson hafi reist Valgerðarhús eftir að hann fer að heiman tvítugur að aldri og þar til hann er sagður húsbóndi í „Sjóbúðinni“ árið 1900 í Sóknarmannatali og í sóknarmannatali og manntali 1901. Það er niðurstaða mín að Valgerðarhús var reist einhvern tímann á árunum 1882-1889.
Við samanburð á viðnum í Valgerðarhúsi og í Ytri-Ásláksstaðir, elsta uppistandandi íbúðarhús í Sveitarfélaginu Vogum og byggt 1884 úr meðal annars timbri úr Jamestown, kom í ljós að um samskonar burðarviður er í báðum húsunum. Einnig er byggingarstíllinn, gerð sökkuls og stærð mjög áþekk. Þessi samanburður styrkir þá niðurstöðu að Valgerðarhús hafi verið byggt á árunum 1882-1889.“

Grindavík - húsakönnunÍ skýrslu Minjasofnunar um húsakönnun Valgerðarhúss  segir m.a.: „Valgerðarhús er hús úr bindingsverki þar sem grindarefnið í það minnsta kemur úr farmi timburflutningaskipsins Jamestown sem strandaði við Hafnir í júní 1881.
Líklegast var húsið byggt milli áranna 1882 og 1889, Í upphafi var það einungis timburklætt að utan en einhverntíman fyrir árið 1920 eða 1930 var húsið klætt með bárujárni eins og sést á gömlum myndum. Á eldri myndum sést að það hefur verið þurkhjallur sjávarmegin á húsinu en hann sést ekki í dag. Hugsanlega hefur húsið skemmst eitthvað í flóðum sem voru 1927 og þá gæti það hafa verið klætt eftir það.
Á einhverjum tímapunkti var byggt við húsið einhverskonar skúrbygging sem er úr mun lakara efni en aðalbyggingin. Valgerðarhús er úr vönduðu unnu sléttu timbri en viðbyggingin úr rekavið og notuðu timbri úr líklega bryggu eða gömlum bát.“
Rétt er að geta þess að umrædd flóð voru árið 1925, en ekki 1927.

Heimildir:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Valgerðarhús, næst elsta hús Grindavíkur – Helgi Biering, bls 56-59.
-Valgerðarhús – Húsakönnun 2019. https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Skyrsla-Valgerdarhuss.pdf
-https://www.grindavik.is/gogn/2020/Grindavik_husakonnun.pdf
-https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Skyrsla-Valgerdarhuss.pdf

Grindavík

Grindavík – Í skýrslu þessari fyrir Járngerðarstaðarhverfi kemur fram á yfirlitsuppdrætti að Valgerðarhús (grænlitað) hafi verið byggt á árunum 1926-1950;  https://www.grindavik.is/gogn/2020/Grindavik_husakonnun.pdf.