Gvendarhellir

Eftirfarandi frásögn birtist í Blöndu, fróðleikur gamall og nýr, sem Sögufélagið gaf út á árunum 1921-1923.
Í Gvendarhelli“Guðmundur hét maður og var Bjarnason, ættaður úr Breiðafirði. Hann felldi ástarhug til stúlku einnar, er hann fékk ekki að eiga, og fór þá suður á land og létti eigi fyrri en suður kom í Gullbringusýslu, en þar hafðist hann við alla æfi upp frá því á ýmsum stöðum, lengst af í Krýsuvíkursókn.
Ekki er víst, hve nær Guðmundur kom fyrst suður, en í Krýsuvíkursókn mun hann hafa komið árið 1927. Þar byggði hann nýbýlið Læk frá stofni [sem enn má sjá leifar af austan við Vestari læk]. Einnig bjó hann í Garðshorni í nokkur ár. Á vetrum gætti hann fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju, og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á (um Guðmund sbr. einnig Lýsing Selvogsþinga 1840 eftir síra Jón Vestamann (Landnám Ingólfs III, 99-100)).
GvendarbyrgiÚt frá hellinum var veðursæl mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir, að aldrei brugðust.
Eitt sinn, er Guðmundur var í hellinum, kom til hans maður, að nafni Einar og var Sæmundsson, úr Biskupstungum, sem var að fara í verð til Grindavíkur. Guðmundur tók vel á móti Einari og veitti honum hangikjöt og brennivín. Einari leizt vel á fénaðinn og þótti vel um gengið í skemmu hans og helli. – Um þessar mundir flutti Einar að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, og voru þeir Guðmudnur því nágrannar lengi síðan.

Þegar Guðmundur bjó í Garðshorni, færði hann frá ám sínum á vori hverju og flutti lömbin eftir fráfærur inn í Lambatanga við Kleifarvatn. Eitt sinn eftir fráfærurnar sluppu ærnar í þoku og komust inn undir Lambatanga, þar sem lömbin voru. Þau heyrðu þá jarminn í ánum og fóru öll, 50 að tölu, út í vatnið og drápust þar öll og rak þau síðan upp úr vatninu. Guðmundur reiddi lambskrokkana heim í Garðshorn, rak í þau fótinn, þar sem þau lágu á túninu og sagði: “Þar fóru þið að fara hægara, nú ræð ég við ykkur.”

Krýsuvík

Bærinn Lækur í Krýsuvík – Garðshorn nær.

Það er enn sagt af Guðmundir, þegar hann bjó í Garðshorni, að hann batt ullina, óþvegna, í bagga og flutti hana þannig til kaupstaðar.
Úr Krýsuvíkurhverfi mun Guðmundur hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldizt við í Gjáarrétt með fé sitt, og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi á Bakhlíðum, og sér þar votta fyrir byrgi, sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta, að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauðu sína í Bessastaðaskóla.
Ummerki í BúrfellsgjáGuðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu; einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan.
Hér kemur að lokum saga, sem sögð er af Guðmundi. Kona nokkur hélzt við í Ólafsskarði og á Svínahraunsvegi og stundum í Jósefsdal; þar sást bæli hennar til skamms tíma, segja sumir. Hún var mannskæð og réðst á ferðamenn, er um veginn fóru og rænti þá, því er þeir höfðu meðferðis. Þessu framferði kunnu menn illa, og af því að nauðsyn þótti til að ráða hana af dögum, en enginn vildi reyna, var Guðmundur Bjarnason fenginn og fór hann við annan mann upp að Ólafsskarði. En er þangað kom, legst Guðmundur í leyni, en lætur fylgdarmanninn halda áfram eftir veginum, þar sem illkvendið var vant að hafast við. Að litlum tíma liðnum kom kerking, ræðst á manninn, en þá kom Guðmundur honum til hjálpar, vegur að henni, og varð það henar bani. Aðri segja, að Guðmundur hafi ekki drepið flagðkonuna, en í þess stað afhent hana yfirvöldum.“

Heimild:
-Blanda VI, Sögufélagið 1921-1923, bls. 187-189.

Gvendarhellirhttps://ferlir.is/krysuvikur-gudmundur/