Í “Byggðasögu Grafnings og Grímsness” eftir Sigurð Kristinn Hermundarson segir m.a. eftirfarandi um Guðmund Bjarnason, svonefndan Krýsuvíkur-Guðmund:
“Guðmundur hét maður Bjarnason, er bjó á Gljúfri í Ölfusi, en var síðar nefndur Krýsuvíkur-Guðmundur (Krýsuvíkur-Gvendur). Hann var bæði stór vexti og sterkur, hagur til smíða og starfsmaður mikill. Gæfur var hann í byggðalagi, óáleitinn við aðra menn og kom sér í hvívetna vel við alla. Hann var fremur fátækur og var eins og margir aðrir, að hann þurfti að hafa sig allan við að vinna fyrir sér og hyski sínu.
Þá var títt, að menn fóru til afrétta að afla sér fjallagrasa, færu á grasafjall, sem kallað var. Voru það helst skæðagrös, sem sóst var eftir, eða þá klóungur; hann var smávaxnari og þótti ekki eins góð vara, en var þó notaður til grautargerðar og annars fleira.
Sumar það, sem nú var sagt frá, nálægt sláttulokum, fór Guðmundur að heiman í grasaferð og unglingspiltur með honum. Þeir voru báðir ríðandi og höfðu auk þess einn hest með reiðingi, er þeir ætluðu að bera klyfjar á. Fylgdarmaður Guðmundar var lítilsigldur og veikbyggður, einfaldur og áræðalítill, en trúr og vinnuþarfur húsbónda sínum í öllu, sem hann mátti við koma. En til harðræðna var hann ekki vel fallinn.
Þeir Guðmundur riðu nú að heiman snemma morguns, og var veður hið besta. Fara þeir sem leið liggur og ætla vestur í Hverahlíð. En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsaslyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít. Fylgdarmaður Guðmundar vildi þá snúa aftur, sagði, að ferða þeirra myndi ekki verða til neins gagns, ef þannig færi að veðri. Guðmundur kvað veður ef til vill batna, þegar fram á daginn kæmi, og héldu þeir því áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerði þá sólskin og logn og hið besta veður.
Í framhaldinu sagði frá viðureign Guðmundar og Fjalla-Margrétar, útilegukerlingar í Henglinum, þegar hún ásældist nestið hans, sem endaði með því að Guðmundur beit í sundur á henni barkann. Bein Margrétar fann Sogns-Gísli síðar umorpið grjóti í Svínahrauni – að talið er.
Guðmundur Bjarnason var ættaður af Fellsströnd í Dalasýslu og fæddur þar um 1765. Á yngri árum sínum var hann um eitthvert skeið í Helgafellssveit, því að þar gerðist saga sú, er hér fer á eftir, er sýnir að snemma var Guðmundur kjarkmikill og áræðinn.
Þar í sveitinni hafðist við grimmur útileguköttur, sem reif sig inn í hús og hjalla og skemmdi og sleit það, sem hann náði til. Vildu menn gjarna losna við ávætti þessa, en fáir treystust til þess að ganga í berhögg við köttinn, svo grimmur og villtur sem hann var orðinn. Einu sinni var þess vart, að hann hafðist við í fjjárhúsi einu. Fóru einhverjir þá til og lokuðu dyrunum og byrgðu glugga alla vandlega, en enginn þorði að fara inn til högnans. Guðmundur lét þá sauma margfalda ullarflóka um höfuð sér og fór í þykk og sterk föt. Hann tók sér í hönd smíðatöng eina mikla og réðst síðan inn í húsið. Högninn sat þá innst í húsinu fyrir miðju gaflhlaði og horfði til dyra.
En jafnskjótt og Guðmundur kom inn úr dyrunum, hljóp kötturinn í einu bogakasti og upp á höfuð Guðmundar og læsti að honum með klóm og kjafti af mikilli grimmd. Guðmundur tók þá til smíðatangarinnar og brá munna hennar um háls högnans og lagði fast að. Varð það hans bani. Svo hafði Guðmundur sagt frá síðar, að hann fynndi til klónna á kettinum í gegnum alla ullarflókanna, sem voru þó vel þykkir.
Ekki er nú kunnugt, hvenær Guðmundur fluttist suður á land, en á Gljúfri í Ölfusi býr hann á árabilinu 1805-1815 og þó sennilega ekki allt það tímabil. Á þeim árum varð viðureign hans við Margréti, sem fyrr er sagt frá. Árið 1816 býr hann á Miðfelli í Þingvallasveit, en farinn er hann þaðan 1820. Mun hann þá hafa flust að Ási fyrir sunnan Hafnarfjörð, en þar bjó hann í fáein ár.
Um það, sem Guðmundur hafðist að, er hann fór frá Ási, er til glögg og gagnorð frásögn síra Jóns Westmann prest í Selvogsþingum, og er hún á þessa leið: “Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan helli [Gvendarhelli í Klofningi í Krýsuvíkurhrauni, sbr. þjóðsöguna], en þar eð honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með tveim rúmum, í hinum karminum geymsluhús.
Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð að honum þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þótti, bjó til étur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellisins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum, sem verið mun hafa allt að tveimur hundruðum eftir ágiskun manna, flutti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár að baki.”
Eftir dvöl sína í Krýsuvíkurhverfi fluttist Guðmundur inn á Hraunabæi í Garðasókn, en eftir það var hann venjulega kallaður Krýsuvíkur-Guðmundur, og undir því nafni hefur hann gengið síðan. Á elliárum sínum var hann einhvern tíma í Straumi eða Straumsseli. Var hann þá orðinn allhrumur og staulaðist á milli bæja sér til skemmtunar, þegar gott var veður. Hafði hann jafnan prik í hendi og fór mjög hægt. Mannýg kýr, hvít að lit, var þar á næsta bæ. Lagði hún stundum í fullorðna menn og þótti allhvimleið. Einu sinni, þegar Guðmundur fór næja á milli, kom hvíta kýrin að honum að óvörum. Velti hún honum brátt um, og fékk hann ekki rönd við reist, náði þó taki á eyra hennar og gat rekið prik sitt upp í aðra nös kýrinnar. Hljóp hún á burt, en Guðmundur skreið heim. Um kvöldið fannst kýrin með prikið í nösinni. Eftir það fara engar sögur af Guðmundi. Síðast átti hann heima í Lambhaga í Hraunum, og þar dó hann 3. maí 1948, kominn á níræðisaldur.
Tvo sonu átti Guðmundur Bjarnason, er ég heyrði nefnda, og hét hvortveggi Guðmundur. Var annar faðir Guðmundar Tjörva, sem margir kannast við, en hinn átti þrjá sonu; Halldór bónda í Mjósundi í Flóa, er var á lífi fram yfir 1880, og Ólafa tvo. Ólafur eldri bjó á Gamlahliði á Álftanesi. Hann var skurðhagur og skar meðal annars út mörg nafnspjöld á skip fyrir ýmsa menn, og þótti prýðisvel gert. Hann skar t.d. nafnspjald á teinæringinn á Hliði, sem fórst veturinn 1884. Hann hét “Sigurvaldi”. Það skip var aðeins tveggja ára gamalt, og var eigandi þess Þórður Þórðarson á Hliði, sjálfur formaður á því, er það fórst. Ólafur yngri var húsmaður á Hliði. Síðustu ár ævi sinnar var hann húsmaður í Haukshúsum, og þar andaðist hann, að mig minnir 1883. Þóra hét koma hans. Hún var dóttir Einars skans; var hann svo nefndur að því að hann bjó í Bessastaðaskansi. Þau Ólafur og Þóra áttu fjögur börn og voru mjög fátæk.
Ólafur þessi yngri sagði mér söguna um Helgafellsköttinn og hvítu kúna í Straumi. Hann sagði mér líka söguna um viðureign Guðmundar, afa síns, við Margréti.”
(Byggt á handriti Þórðar Sigurðssonar á Tannastöðum – Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur III, 1942)
Í Blöndu, 6. bindi 1936-1939, er fjallað um nefndan Krýsuvíkur-Guðmund. Frásögnunum ber að vísu ekki að öllu leyti saman:
Krýsuvíkur Guðmundur – eftir Friðrik Bjarnason, kennara.
“Guðmundur hét maður og var Bjarnason, ættaður úr Breiðafirði. Hann felldi ástarhug til stúlku einnar, er hann fékk ekki að eiga, og fór þá suður á land og létti eigi fyrri en suður kom í Gullbringusýslu, en þar hafðist hann við alla æfi upp frá því á ýmsum stöðum, lengst af í Krýsuvíkursókn.
Ekki er víst, hvenær Guðmundur kom fyrst suður, en í Krýsuvíkursókn mun hann hafa komið árið 1827. Þar byggði hann nýbýlið Læk frá stofni. Einnig bjó hann í Garðshorni nokkur ár. Á vetrum gætti hann fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju, og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og hakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. (Um Guðmund sbr. einnig Lýsingu Selvogsþinga 1840 eftir síra Jón Vestmann (Landnám Ingólfs III, 99—100).
Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir, að aldrei brugðust.
Eitt sinn, er Guðmundur var í hellinum, kom til hans maður, a nafni Einar og var Sæmundsson, úr Biskupstungum, sem var að fara í verið til Grindavíkur. Guðmundur tók vel á móti Einari og veitti honum hangikjöt og brennivín. Einari leizt vel á fénaðinn og þótti vel um gengið í skemmu hans og helli. — Um þessar mundir flutti Einar að Stóra-Nýjabæ við Krýsuvík, og voru þeir Guðmundur því nágrannar lengi síðan.
Þegar Guðmundur bjó í Garðshorni, færði hann frá ám sínum á vori hverju og flutti lömbin eftir fráfærur inn í Lambatanga við Kleifarvatn. Eitt sinn eftir fráfærurnar sluppu ærnar í þoku og komust inn undir Lambatanga, þar sem lömbin voru. Þau heyrðu þá jarminn í ánum og fóru öll, öll að tölu, út í vatnið og drápust þar öll og rak þau síðan upp úr vatninu. Guðmundur reiddi lambskrokkana heim í Garðshorn, rak í þau fótinn, þar sem þau lagu á túninu og sagði: „Þar fóru þið að fara hægara, nú ræð ég við ykkur.”
Það er enn sagt af Guðmundi, þegar hann bjó í Garðshorni, að hann batt ullina, óþvegna, í bagga og flutti hana þannig til kaupstaðar.
Úr Krýsuvíkurhverfi mun Guðmundur hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldizt við í Gjáarrétt með fé sitt, og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum, og sér þar votta fyrir byrgi, sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta, að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla.
Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan.
Hér kemur að lokum saga, sem sög er af Guðmundi. Kona nokkur [Fjalla-Margrét] hélzt við í Ólafsskarði og á Svínahraunsvegi og stundum í Jósefsdal; þar sást bæli hennar til skamms tíma, segja sumir. Hún; var mannskæð og réðst á ferðamenn, er um veginn fóru og rænti þá, því er þeir höfðu meferðis. Þessu framferði kunnu menn illa, og af því að nauðsyn þótti til að ráða hana af dögum, en enginn vildi reyna, var Guðmundur Bjarnason fenginn og fór hann við annan mann upp að Ólafsskarði. En er þangað kom, legst Guðmundur í leyni, en lætur fylgdarmanninn halda áfram eftir veginum, þar sem illkvendið var vant að hafast við. Að litlum tíma liðnum kom kerling, ræðst á manninn, en þá kom Guðmundur honum til hjálpar, vegur að henni, og varð þa hennar bani. Aðrir segja, að Guðmundur hafi ekki drepið flagðkonuna, en í þess stað afhent hana yfirvöldunum.”
Sjá meira um Blöndufrásögnina HÉR.
Heimildir:
-Grafningur og Grímsnes – Byggðasaga, Sigurður Kristinn Hermundarson, 2014, bls. 38-39.
-Blanda, Krýsuvíkur-Guðmundur, Friðrik Bjarnason, 6. bindi 1936-1939, bls. 187-189.