Tag Archive for: Grindavík

Árni Guðmundsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1993 skrifar Ólafur Rúnar Þorvarðarson frásögn Árna Guðmundssonar frá Teigi um komu hans í franska fiskiskútu á þriðja áratug síðustu aldar utan við Þórkötlustaðahverfi undir fyrirsögninni „Um borð hjá Frönsurum“.

Ólafur Rúnar

Árni hafði frá mörgu að segja eftir áratuga langa sjómennsku og fer frásögn hans hér á eftir.

„Það mun hafa verið nálægt sumarmálum, að við héldum út á Fasæli síðla dags að leggja línu. Línan var venjulega látin liggja yfir nóttina og dregin næsta dag, ef veður leyfði. Við vorum fjórir á bátnum, sem var opinn vélbátur. Veður var gott, og er við höfðum lagt, héldum við áleiðis til lands. Engir bátar eða skip voru á miðunum í nánd við okkur utan ein skúta sem var á færum og hélt sig nærri þeims lóðum, er við höfðum byrjað að leggja línuna.
Nálguðumst við nú skútuna og sáum að þar var mannskapur uppi. Voru uppi getgátur háseta minna um það hverrar þjóðar þeir menn kynnu að vera, uns við veittum því athygli að frakkaklæddur maður með hatt á höfði byrjaði að veifa og kalla til okkar. Ég hafði á orði að líklega vildi hann okkur eitthvað þessi og rétt væri að athuga það nánar. Ekki leist mínum mönnum meira en svo á það tiltæki, en ég bað þá að bíða rólega á meðan ég færi um borð og lögðum við svo að skútunni.

Árni Guðmundsson

Farsæll GK 56, sem Árni í teigi og bræður hans gerðu út frá Þórkötlustaðahverfi. Um borð er talið frá v: Vilmundur Daníelsson frá Garbæ, Þorkell Árnason frá Teigi og Guðmundur Guðmundsson bróðir Árna formanns.

Sá frakkaklæddi tók á móti mér þegar ég kom upp á þiðjur, tók undir hönd mér og leiddi mig niður í káetu. Þóttist ég vitað að það færi skipstjórinn. Býður hann mér að setjast, og hellir í tvö staup. Gerum við vegunum góð skil og af málfari hans og bendingum ræð ég að þeir séu franskir sjómenn. Ekki var frönskukunnáttu minni mikið fyrir að fara en eftir eitt eða tvö staup til viðbótar vorum við þó farnir að skilja hvor annan nóg til þess að ég þóttir vita erindi hans. Var það í því fólgið að biðja mig um að koma fyrir sig skeyti til franska konsúlatsins á Íslandi. Sem við sitjum í káetunni, kemur þar niður hávaxinn maður, sem ég áleit vera stýrimann skútunnar. Taka þeir skipstjóri tal saman og fer sá fyrrnefndi upp að því loknu. Settist skipstjóri nú við skriftir. Fékk hann mér síðan bréf í hendur og héldum við svo upp á þilfar.

Árni Guðmundsson

Frönsk skúta líkri þeirri er fram kemur í viðtalinu.

Skúta þessi var frekar lítil en tvímastra. Heldur fannst mér aðbúnaður bágborinn um borð. Ég tók eftir því að hásetarnir voru berhentir við færin. Höfðu þeir aðeins skinnpjötlur í lófunum og voru hendur þeirra bólgnar og kaunum hlaðanar eftir langa útivist. En þeir höfðu aldeilis ekki setið auðum höndum á meðan ég var niðri í káetu hjá skipstjóranum. Kom nú í ljós hvert erindi stýrimaður hafði átt niður því þegar ég var að stíga af skipsfjöl, sá ég að búið var að koma um borð í bátinn okkar tveim pokum af kartöflum ásamt talsverðu af kexi og rauðvíni.
Árni GuðmundssonMér þótti nú leitt að geta ekki launað þeim þetta með einhverjum hætti og eftir að hafa rætt málið við drengina mína var ákveðið að gefa þeim sjóvettlingana sem við höfðum meðferðis. Voru það fimm pör, sem þeir þáðu með þökkum. Ég vildi nú bæta þeim þetta upp enn frekar og varð því að samkomulagi með okkur að hittast aftur á svipuðum slóðum næsta dag. Yfirgáfum við síðan skútumenn og héldum til lands. Hafði ég í huga að færa þeim fleiri pör af vettlingum eða einhvern annan ullarfatanð. Færði ég þetta í tal við konu mína þegar heim kom og var það auðsótt mál.
Með birtingu morguninn eftir vaknaði ég við það, að farið var að hvessa af austri. Beið ég þá ekki boðanna, en kallaði á hásetana mína saman í hvelli. Þegar við komum út á miðin fórum við strax að darga. Vindur fór vaxandi og við höfðum ekki verið lengi við línudráttinn er við sáum skútuna koma siglandi austan að fyrir fullum seglum. Stefndi hún í átt til okkar, en sveigði af leið er nokkrar bátslengdir voru á milli og hélt til hafs. Veifuðu þeir frönsku í kveðjuskyni enda ekki tiltök að komast um borð vegna veðursins. Skildi þar með okkur og höfðum við ekki meira af þeim að segja. En skeytinu komum við áleiðis og vonandi hefur það ratað rétta boðleið.
Lýkur hér frásögn Árna Guðmundssonar.
Frösnku skúturnar, er stunduðu víðar á Íslandsmiðum fra á þessa öld, voru einkum frá bæjunum Paimpol og Dunkerque. Þyngst var sókn þeirra hingað á ofanverðri 19. öld og fram að árum fyrri heimstyrjaldar. Voru á því tímabili oftast 150-350 skútur árlega á Íslandsmiðum. Eftir það fór þeim ört fækkandi og samkvæmt heimildum er síðast getið franskrar fiskiskútu að veiðum hér á landi árið 1938.“ – ÓRÞ

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1993, Um borð hjá Frönsurum, Ólafur Rúnar Þorvarðarson, bls. 32-33.

Flagghúsið
Flagghúsið í Grindavík hefur nú verið endurbyggt að hluta. Í hugum núlifandi stóð það sem hálfgerður stakur hjallur ofan við gömlu bryggjuna í Járngerðarstaðarhverfi, en fyrir frumkvæði hjónanna Erlings og Guggu, hefur hann nú gengið í Loftmynd af svæðinu ofan við gömlu bryggjunaendurnýjun lífdaga. Háleitar hugmyndir eru um framtíðarnotkun þessa fyrrum notardrjúga og örumviðarskorna geymsluhúss. Ein hugmyndin er t.d. að nýta það undir krambúð, önnur að þar verði aðstaða fyrir listviðburði og svo mætti lengi telja. Staðsetningin, í hjarta gömlu Grindavíkur, er líka hin ákjósanlegasta fyrir hvað sem er – ekki síst á tímum ferðamennskueflingar sem mótvægi við samdrátt í aflaheimildum, en fiskur og fiskvinnsla hefur verið helsta lífsviðurværi þorps-/bæjarbúa í u.þ.b. 780 ár.  Menningin hefur þó löngum ýmist blundað í Grindvíkingum eða legið „undir steini“ því ekki hefur alltaf verið mikill tími, a.m.k framan af, til að nýta hana sem skyldi, hvorki til afþreyingar né andlegs hugarfóðurs. Þetta er þó óðum að breytast – ekki síst skilningurinn. Það er reyndar kominn tími til að skipulagsyfirvöld í Grindavík staldri við stutta stund, kalli á sinn fund áhugasamt fólk um endurmat og leiti eftir hugmyndum að „vistvæna“ tilögugerð þar sem tekið verði tillit til áþreifanlegra menningarverðmæta. Fá, eða jafnvel engin sveitarfélög á landinu, hafa sýnt af sér slíkt fordæmi – ef af verður.
Í næstu nálægð við Flagghúsið (Olafsenshús) eru gömul hús, þ.e.a.s. þau sem ekki hafa verið rifin, er bæði hafa verið gerð upp að hluta eða verið látin drabbast niður. Sum húsanna, sem þarna voru, mætti endurbyggja með tiltölulega litlum tilkostnaðir (þegar heildarmynd gömlu þorpsmyndarinnar er höfð að markmiði til lengri framtíðar). Öruggt má telja, ef það verður gert, munu bæði íbúarnir sem og aðkomufólkið verða núlifandi ákvörðunaraðilum ævarandi þakklátir fyrir vikið. Eftir því sem tíminn líður munu líkur á endurgerð og enduruppbyggingu þessa kjarnasvæðis minnka og jafnvel að engu verða. Komandi kynslóðir munu þá verða mun fátækari á menningararfinn, auk þess sem vanrækt verður að gefa afkomendunum kost á að kynnast Flagghúsið í endurbygginguhúsakosti og aðstæðum forfeðra Grindvíkinganna – hinna miklu sjósóknara og höndlara.
Flagghúsið er eitt elsta hús Grindavíkur. Það er talið vera byggt árið 1917. Það hefur verið, sem fyrr segir, í endurnýjun árdaga. Erling Einarsson í EP verk h/f, eigandi hússins, og Gugga eiginkona hans, áformuðu af framsýni að koma húsinu í upprunalegt horf og eru framkvæmdir nú komnar vel á veg. Ljóst er þó að mikið verk er enn fyrir höndum. Erling smíðaði sperrur, hálfhandlama, og verkaði panelklæðningu sem fór inn í húsið með ákveðnum aðferðum þannig að nú lítur hann út fyrir að vera a.m.k. hundrað ára gamall (þ.e. panellinn). Gugga kom m.a. með framkvæmanlegar tillögur og annaðist bókhaldið. Verkið hugsuðu þau hjónin sér að taka í markmiðssettum áföngum – ef vonir ganga eftir um viðhlítandi stuðning til mótvægis við eigið framlag. Þau hafa nú þegar náð að loka húsinu með klæðningu, en gluggaásetning, dyraumbúnaður o.fl. eru enn á hugarstreymisstigi.
Flagghúsið fékk viðurnefni sitt af því að það þjónaði sjófarendum á Járngerðarstaðasundi. Dagbjartur Einarsson frá Ásgarði (1876-1944 ) hætti formensku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum leiðbeiningar ú landi um veðurhofur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft hættuleg og illfær. Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um. Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn. Þá var hífður upp einn belgur ef vá Flagghúsloftið að endurnýjun lokinnivar í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddi aðgát á sundi og brim í lendingu. Gifta fylgdi þessu starfi hans og færðu formenn í Járngerðastarhverfi honum silfurskjöld er hann lét af þessum starfa sem viðukenningu fyrir hjálp á hættustundum.
Einungis þetta eina hús er ennþá uppistandandi af verslunarhúsum Einars kaupmanns í Garðhúsum (sjá mynd á vefsíðunni frá því um 1960). Flagghúsið hafði áður verið íbúðarhús í Garðhúsum, byggt 1890 og síðar flutt o gert að pakkhúsi við Einarsbúð. Í dag er þetta hús upphaflegt viðmið skipulagðrar byggðar í Grindavík, enda öll húsnúmer í bænum frá þessu húsi talin. Flagghúsið hefur gegnt margvíslegum verkefnum meðal annars verið íbúðarhús, verbúð, samkomustaður, skemmtistaður, leikhús, andansstaður, stefnumótastaður, athvarf, beitu­skúr, pakkhús, salthús, veiðafærageymsla og netaloft. Auk þess er þarna sögusvið nóbelsverðlaunaskáldsins og leiksvið kvikmyndarinnar “Sölku Völku”. Þarna er uppspretta myndlistar málarans Gunnlaugs Scheving enda miðja margra mynda hans. Nafngift hússins er komin, sem fyrr sagði, af flaggstönginni, sem var á vesturgafli hússins. Þar voru sjómenn, sem fyrr sagði, varaðir við ef aðgæslu var þörf á Járngerðarstaðarsundi. Þá var flaggað lóða­belgjum, einum, tveim eða þrem, Einarsbúð (nú horfin) og Pakkhúsiðeftir því hversu slæmt sundið var. Eins var verkafólk kallað til með flaggi þegar breiða átti saltfisk á nálæga þurrkreiti eða taka þurfti fiskinn saman. Við endurbygginguna var skipt um þak, sperrur, bæði gólfin, fóttré og burðarbita bæði neðri- og efri hæðar. Einnig var skipt um klæðningu og stóran hluta burðarvirkis í gafli og hliðum hússins. Grjóthleðslur sökkuls voru endurhlaðnar svo og framstéttin. Reynt var með sérstakri bæsun að ná lit og áferð nýrra viðarhluta sem líkastan gömlu viðarhlutunum. Húsið var einangrað að utan og klætt bárujárni líkt og áður var. Þannig hafa inn­veggir húss­ins verið gerðir sýnilegir,  en  þeir  geyma byggingarlag  hússins og sögu gengina kynslóða sem skráð er á veggi hússins, bæði með málningu og útskurði. Útlit glugga og gluggaskipan verður upprunaleg þegar upp verður staðið. Sett verður flaggstöng á gafl hússins líkt og áður var.
Eins og áður sagði eru háleitar hugmyndir um að hýsa í Flagghúsi framtíðarinnar krambúð með menningar- og sögutengda starfsemi að markmiði, starfsemi sem sæmir merkri sögu hússins, byggðarlaginu svo og komandi kynslóðum. Þarna er um að ræða ómetanlegar minjar, sem ekki má glata, en öllu heldur gera að lifandi sýningarsal, hvort sem verður á verkum og handbragði forfeðranna eða orðsins látbragði.
Málverk G.S. af Einarsbúð og Pakkhúsinu í tilefni af leiksýninguUm langt skeið hefur mörgu hugsandi fólki verið það vel ljóst að Flagghúsið er veruleg menningarverðmæti sem ekki hefði mátt glata og orðið hefur verið að varðveita í upprunalegri mynd.
Endurbygging Flagghússins hefur hingað til kostað verulegar fjárhæðir og ekki hefur verið á eins manns færi að standa straum að endurbyggingu þess. Herslumuninn vantar þó enn til að klára húsið og gera nothæft til áhugaverðra hluta. Líklegt má telja að í framhaldi af því muni smitáhrifa gæta, þ.e. að áhugi á að vernda og endurbyggja nálæg hús mun fara vaxandi og þau ganga í endurnýjun nýtingardaga. Fylgi mun aukast við að svæðið allt verði jafnvel notað til uppbyggingar og varðveislu „gamalla“ húsa – bæjarkjarna hinnar gömlu Grindavíkur.
Sem lið í sporgöngu þessa fór fram menningar- og sögutengd ganga í boði Grindavíkurbæjar og Saltfiskssetursins laugardaginn 21. okt. 2007. Gangan hófst við nýtt örnefna- og söguskilti af Járngerðarstöðum, sögusviði Tyrkjaránsins 1627. Skiltið er við gatnamót Verbrautar og Víkurbrauta, næstu gatnamót ofan við Pakkhúsið.
Uppdráttur af gamla bæjarkjarnanum á JárngerðarstöðumGenginn var hringur um hverfið, m.a. að þeim stað þar sem að þjóðsagan segir að “tyrkjaþistill” vaxi. Gengið var að dys Járngerðar og Járngerðarstaðabæjunum. Eitt horn leiðisins stóð þá undan beygju í götunni, en við nýlegar úrbætur á henni, var endanlega valtað yfir leiði gömlu konunnar – örnefnatilurð hverfisins. Síðan var gengið til baka meðfram strandlengjunni, með Járngerðarstaðavíkinni og vörunum, að gömlu bryggjunni og ýmislegt skoðað sem  fyrir augu bar á leiðinni. Reynt var að gera gönguna bæði skemmtilega og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Boðið var upp á uppákomur s.s. hákarlasmakk o.fl.. Gangan endaði svo við gamla Flagghúsið, sem þá var í miðjum endurnýjunarkliðum. Það var til sýnis þátttakendum, auk þess sem Erling Einarsson rakti sögu þess og endurnýjunaráform.

Flagghúsið

Flagghúsið, eins og það er í dag (des. 2020).

Til fróðleiks má geta þess að afkomendur Dagbjarts Einarssonar frá Garðhúsum og Valgerðar Guðmundsdóttur frá Klöpp komu um haustið saman í húsi björgunarsveitarinnar Þorbjörns af sérstöku tilefni, m.a. tengt Pakkhúsinu. Þau bjuggu í Ásgarði í Grindavík. Við það tækifæri var stjórn björgunar sveitarinnar færður til varðveislu silfurskjöldur í ramma, en þar má lesa æviágrip og um Flagghúsið í dag (2008) - grunnurinn á Vörum sést v/megintilurð þess að Dagbjarti var færður þessi silfurskjöldur frá formönnum í Járngerðarstaðar hverfi árið 1944.
Dagbjartur Einarsson fæddist að Garðhúsum í Grindavík 18. október 1876. Foreldrar hans voru Einar Jónsson óðalsbóndi og hreppstjóri og kona hans Guðrún Sigurðardóttir frá Selvogi.
Dagbjartur bjó í foreldrahúsum til fullorðinsára, en þá gerðist hann lausamaður og síðar formaður og útgerðarmaður. Kona Dagbjarts var Valgerður Guðmundsdóttir frá Klöpp í Þórkötlustaðarhverfi. Þau reistu sér bú þar sem hét að Völlum. Árið 1925 urðu þau fyrir miklum búsifjum vegna aftakaveðurs og flóðs sem gerði í janúar við suðurströnd landsins. Þá reistu þau hjón framangreint hús ofarlega í kauptúninu og nefndu Ásgarð.

Flagghúsið

Flagghúsið, ein og það er í dag (des. 2020).

Dagbjartur hætti formennsku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum á Járngerðarstaðarsundi leiðbeiningar úr landi um veðurhorfur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft erfið og illfær. Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um. Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg, en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn.  Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddu aðgát á sundi og brim í lendingu. Gifta fylgdi þessu starfi hans.
Heimilisfesta Flagghússins ehf, kt. 6206012090, er að Efstahrauni 27, 240 Grindavík, sími: 4268438. Símtölum frá öllu áhugasömu fólk með nýtingarhugmyndir verður svarað, hvort sem þær lúta að Flagghúsinu eða nálægum húsum, s.s. Bakka, Kreppu, Júlíusarhúsi, Vörum og Sæmundarhúsi eða endurbyggingu horfinna húsa á svæðinu.
(Sjá einnig umfjöllun um Flagghúsið – endurnýjun I).

Flagghúsið 

Grindavík

Loftur Jónsson skrifaði um örnefni í landi Þórkötlustaða í Sjómanndagsblað Grindavíkur árið 1992.

Loftur Jónsson„Nú þegar akfær hringvegur er kominn um „nesið“, fjölgar því fólki sem leggur leið sína þar um á bílum eða fótgangandi. Þá er bærði fróðlegt og skemmtilegt að vita nánari deili á landinu og ýmsum kennileitum.
Loftur Jónsson frá Garðbæ hefur á undanförnum árum safnað saman miklum fróðleik um örnefni hér á svæðinu og skráð skipulega neiður. Hann hefu rátt viðtöl við fjölmarga eldri Grindvíkinga og þannig náð að halda til haga ýmsum fróðleik sem annars hefði fallið í gleymskunnar dá.
Því fólki fækkar óðum sem stundar störf úti í náttúrunni, s.s. við smalamennsku, göngu á reka o.fl. Við þessi störf voru örnefni nauðsynleg til aðhægt væri að staðsetja með vissu, hvar kind hefði sést, hvar fundist hafði reki sem bjarga mátti undan sjá og eins hvar rekafjörur og lönd skiptust. Sjómannadagsblað Grindavíkur birtir með leyfi Lofts Jónssonar eftirfarandi grein um örnefni í Nesinu og Þórkötlustaðahverfi.

„Suður úr Reykjanesskaganum gengur allmikið nes. Að vestanverðu við nes þetta er Járngerðarstaðavík en að austan er Hraunsvík. Nes þetta er allt þakið hrauni og sumt bendir til að hraun það sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornlfél. 1903, 47). Að austanverðu heitir nesið Þórkötlustaðanes og er það í landi Þórkötlustaða en að vestan heitir það Hópsnes og er sá hluti í landi Hóps. Í daglegu tali er það eingöngu nefnt Nesið.

Áframhald af landi Þórkötlustaða nær inn á Reykjanesskagann og er fremur mjótt en langt. Mest allt landið er þakið hrauni. Bæirnir standa austast í landareigninni innan við nesið og niður við sjóinn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefni og kennileiti í landi Þórkötlustaða eru sem hér segir: Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum. Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur. Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá. Norður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Síðan tekur við Vörin stundum kölluð Nesvör til aðgreiningar frá Buðlunguvör. Vararsker er sunnan við vörina, það fer í kaf á flóði. Tveir boðar eru framundan Vararskeri á Þórkötlustaðasundi; Fjósi á bakborða og utar er Lambhúsi á stjórnborða. Sundvarða við Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfnin dregin.

Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll, þar stendur sundvarða. Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar; Hraunsgarðar. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör. Skotti er nokkuð stór pollur ofan kampsins, norðan Vararinnar og þar norður af er hóll, flatur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Fram undan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík; Herdísarvík. Upp af henni við norðurenda eru klettahólar sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun, sandorpið hraun, og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð en mjó frá norðri til suð-suðvesturs sem heitir Gjáhólsgjá. Rétt norðan við Kónga er grasflöt fram við kampinn; Miðmundaflöt og þar framan við eru Miðmundaklettar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en litið markar fyrir henni nú. Önnur gata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi. Norður frá Heimribót er fremsti og vestasti hluti túnsins kallaður Sigla og þar í er Siglulaut.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.

Austur af Heimribót taka við Vötnin. Þar rennur fram ósalt vatn um fjöru og var þar þveginn og skolaður þvottur áður fyrr. Austur af Vötnunum, á klöppunum, er Stóralón og suður af því Kollóttasker. Upp af Stóralóni er Bakkinn; hár grasivaxinn bakki. Nokkuð austan Stóralóns er Buðlunguvör. Vestan hennar er hringmynduð klöpp með lóni í miðju. Hún heitir Svalbarði. Klofi út í Svalbarða skiptir reka og þangfjöru á milli Buðlungu og Þórkötlustaða. Fyrir ofan Buðlunguvör er slétt klöpp kölluð Skiptivöllur. Þaravaxin klöpp vestan og utan við vörina er kölluð Þangklöpp. Austan við vörina er Stóraklöpp og þar fram af er Vararsker. Það kemur upp á stórstreymisfjöru. Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.

Austur af Stóruklöpp eru básar; Vestastibás, Þvottabás, Miðbás og Malarbás. Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt. Vestan Slokatáarinnar er Lágafjara og síðan Vestrimölin og þar ofan kampsins er Klapparmói. Eystrimöl er neðan við kampinn að austan, ofan við Slokatá. Upp af Slokatánni ofan kampsins eru Hrossbeinalágar, nú komnar að mestu undir kampinn. Austan á Slokunum er bás sem heitir Markabás. Hann skiptir löndum og reka á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Upp af honum ofan kamps er hraunhóll með grasþúfu í toppinn. Hann heitir Markhóll.

Randeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.

Eystraleiti (í daglegu tali nefnt Leiti) er smábunga á milli bæjanna. Vestraleiti er aftur önnur bunga í vestur þar sem skiptast lönd Þórkötlustaða og Hóps. Vestan undir há-Leiti er Kúakrókur, nú tún.

BuðlunguvörOfan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.

Vatnsheiði eru þrjár gróðurlitlar, samvaxnar hæðir norður af Húsafelli og nær sú fremsta vestur fyrir og fram fyrir það. Þær heita Fremstahæð, Miðhæð og Innstahæð. Nafnið er dregið af vatnskötlum í Innstuhæð og þornar þar ekki nema í mestu þurrkum. Þar eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða.

ÞórkötlustaðirÍ norðvestur frá Innstuhæðinni, í Vatnsheiði, er hæð eða smáhnúkur; Sundhnúkur og er hann á landamerkjum milli Þórkötlustaða og Járngerðarstaða. Þaðan í norður eru hraunhólar úr brunnu hraungjalli. Heita þeir Lyngrimi. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Skógfellshraun tekur við þar fyrir norðan og er það all úfið í hraunbrúninni að sunnan. Upp úr Skógfellshrauni rís allhátt fell sem heitir Stóra-Skógfell. Litla-Skógfell er þar nokkru norðar en er allmikið lægra og skiptir það löndum á milli Voga og Járngerðarstaða. Stóra-Skógfell skiptir löndum á milli Járngerðarstaða og Þórkötlustaða og eru merkin í næsta hnúk. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi. Mitt á milli Skógfella er svonefndur Hálfnunarhóll (í Járngerðarstaðalandi) og er þar talið hálfnað til Voga frá Þórkötlustöðum.

Kastið

Kastið.

Hraunið á milli Skógfella og Fagradalsfjalls heitir Dalahraun og nær það fram á móts við Kast. Það er lágt og víða sléttar klappir og mosaþembur. Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll sem er vestur af kasti og Fagridalur sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell, sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls, er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða.“

Framangreint var skráð samkv. viðtali við systkinin í Buðlungu Guðbjörgu Eyjólfsdóttur og Jón Eyjólfsson. Þau eru fædd þar og uppalin. Yfirfarið af Árna Guðmundssyni, Teigi, og Jóni Daníelssyni, Garðbæ.- Grindavík 22. nóv. 1976, Loftur Jónsson [sign.].“

Heimild:
-Sjómanndagsblað Grindavíkur, Örnefni í Nesinu og landi Þórkötlustaða, Loftur Jónsson frá Garðbæ, bls. 34-40.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað margan ferðamanninn, auk listamanna. Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Hér ber einna hæst sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn að ógleymdum Sveifluhálsi og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg, stórbrotinn útvörður svæðisins niður við ströndina. Margar gamlar gönguleiðir liggja út frá Krýsuvík, sem áhugavert er að huga nánar að.

Lifandi náttúra
HverKynngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúruöflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola standbergið hvíldarlaust. Þetta er íslensk náttúra í öllu sínu veldi.

Litrík hverasvæði
BaðstofaHelstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverahlíð,  Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi, sem Sveifluháls heitir eftir. Við Seltún er Svunta og stór leirhver sem myndaðist þegar Drottningarhola sprakk haustið 1999. Fúlipollur er austan þjóðvegar og enn austar er Engjahver sem magnaðist við mikinn hverakipp 1924. Hann er líka nefndur Stórihver og svæðið umhverfis hann Austurengjahverir.

Land í mótun
Land í mótunVirka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er milli landreksflekanna sem kenndir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða. Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Fyrir vestan og austan Krýsuvík eru yngri hraun, Litlahraun, Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun sem eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunnan Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.

Sprengigígar kallast á
GrænavatnLandslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Beggja vegna þjóðvegarins eru lítil gígvötn sem kallast Augun.

Krýs og Herdís deila um landamerki
DysjarÞjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr í deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna  þar sem þær mættust. Þegar þær hittust á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kynngimagn Krýsuvíkur.

Fornminjar
TóftÍ landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, sennilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.

Dulúð regnsins
Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð- og austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja
KrýsuvíkurkirkjaKrýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.

Fuglalíf og eggjataka
KrýsuvíkurbjargUm 57.000 sjófuglapör verpa í Krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var eggjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og í nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóa, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellsstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.

Mannrækt í Krýsuvíkurskóla
KrýsuvíkurskóliUm miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur.

Hnignandi gróður

Í Krýsuvík

Gróðri hefur farið mjög aftur í Krýsuvík á síðustu öldum. Talið er að jörðin hafi verið kjarri vaxin milli fjöru og fjalls af birkiskógi og víðikjarri, áður en Ögmundarhraun brann. Í jarðabók Páls Vídalín og Árna Magnússonar 1703 er sagt að skógur til kolagerðar nægi ábúendum. Skógurinn eyddist að mestu á harðindaskeiði sem gekk yfir landið í lok 19. aldar. Þá hófst landeyðing með miklum uppblæstri og vatnsrofi í landi Krýsuvíkur. Sauðfjár- og hrossabeit hafði einnig afdrifarík áhrif. Á Sveifluhálsi eru fáeinir grasbalar sem gefa til kynna að þar hafi verið mun grónara í eina tíð. Svæðið sunnan Kleifarvatns einkennist af miklu mýrlendi, slægjulandinu Vesturengjum og Austurengjum. Austan Arnarfells er Bleiksmýri og sunnan Trygghóla er Trygghólamýri.

Ritháttur Krýsuvíkur
TóftirÞegar gamlar sagnir frá Krýsuvík eru skoðaðar kemur glögglega fram að nafn víkurinnar er ætíð ritað með ý en ekki í eins og oft sést í seinni tíð. Örnefnið Krýsuvík er trúlega dregið af orðinu Crux sem merkir kross og hefur Krossvíkin hugsanlega verið við sjóinn nærri Húshólma í Ögmundarhrauni þar sem munnmæli herma að fyrsti bærinn hafi staðið. Mesta fuglabjarg Reykjaness Krýsuvíkurberg, mesta fuglabjarg Reykjaness, er um 7 km langt frá Bergendum við Keflavík í austri til Heiðnabergs vestan Hælsvíkur og 40 hektarar að flatarmáli. Bergið er um 50 m hátt á löngum kafla en Strandaberg, austasti hlutinn, er um 70 m hátt.
Rauðskriða er áberandi kennileiti á vesturhluta bergsins en neðan hennar var einstigið Ræningjastígur sem var eina gönguleiðin niður í fjöru. Meðan enn var farið á sölvafjöru var jafnan farið af sjó því bergið var ekki árennilegt öðrum en sigmönnum. Ræningjastígur var samt fær þeim sem treystu sér til að feta hann en nú er hann ófær með öllu.

Höfuðból og hjáleigur
KrýsuvíkurbjargKrýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í austanverðu Ögmundarhrauni.  Þar er altént mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.

Fiskisæld undir berginu
Sjósókn var alla tíð mikilvæg fyrir afkomu Krýsvíkinga. Undir Krýsuvíkurbergi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt en þar er engin lending. Líklega hefur góð lending verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík, en eftir að Ögmundarhraun rann tók hana af og eftir það var gert út frá Selatöngum. Biskupsskip frá Skálholti, skip útvegsbænda í Árnes- og Rangárþingum og sjávarbænda í Hraunum gengu frá Selatöngum með leyfi Krýsuvíkurbónda.  Krýsvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir.

Kynlegt er Kleifarvatn
Krýsuvík 1810Kleifarvatn er 10 ferkílómetrar að flatarmáli og stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga. Það er á milli Sveifluháls í vestri og Vatnshlíðar í austri. Aðrennsli í vatnið er takmarkað og ekkert frárennsli er sjáanlegt ofanjarðar. Vatnsborðið fylgir grunnvatnsyfirborði svæðisins sem sveiflast um allt að 4 m á tugum ára. Félagar úr Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar fluttu bleikjuseiði í Kleifarvatn um 1960 og dafnar fiskurinn bærilega í vatninu. Áður fyrr þóttust menn verða varir við kynjaveru líka stórum ormi í vatninu.

Sjá meira undir Krýsuvík – yfirlit HÉR og HÉR.

Heimild:
-visithafnarfjordur.is

Krýsuvík

Krýsuvík.

Sigvaldi Kaldalóns

Minnisvarði um lækninn og tónskáldið Sigvalda Kaldalóns var vígt 10. nóvember 1996 en það er staðsett við Kvennó. Af því tilefni flutti Gunnlaugur A. Jónsson, barnabarn Sigvalda, ávarp í Kvenfélagshúsinu:

Grindavík

Afhjúpun minnisvarðans.

Góðir áheyrendur!
Fyrir hönd Kaldalónsfjölskyldunnar vil ég af heilum hug þakka þá ræktarsemi sem þið Grindvíkingar sýnið minningu afa míns, Sigvalda S. Kaldalóns, læknis og tónskálds, með því að reisa honum fagran minnisvarða og boða af því tilefni í dag til þessarar ánægjulegu samkomu nú á 50. ártíð Sigvalda.
Þessi ræktarsemi ykkar og trúfesti við minningu Sigvalda Kaldalóns er í fullu samræmi við hlýhug Grindvíkinga og velvild í hans garð alveg frá byrjun, og raunar í takt við aðdragandann að því að hann settist að hér í Grindavík þegar hann var skipaður héraðslæknir í Keflavíkurhéraði árið 1929 í óþökk Læknafélagsins. Sú saga er kunnari en svo að hana þurfi að rifja upp.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi ásamt Einari Dagbjartssyni.

En óhætt er að segja að Grindvíkingar hafi tekið hinum nýskipaða lækni opnum örmum með Einar í Garðhúsum í broddi fylkingar sem tók Sigvalda og fjölskyldu hans inn á heimili sitt meðan verið var að reisa honum læknisbústað hér í Grindavík.

Það fer vel á því að minnisvarðinn um Sigvalda skuli reistur hér við Kvenfélagshúsið því með því félagi starfaði Sigvaldi mikið enda lét hann jafnan mikið til sín taka á sviði menningarmála í Grindavík og hefur Einar Einarsson skólastjóri í Grindavík komist þannig að orði að ár Sigvalda hér hafi verið eins og „menningarleg vígsla í héraðinu“ og að áhrifin af veru hans hér verði aldrei þurrkuð út, og víst er um það að lögin „Suðurnesjamenn“ og „Góðan daginn Grindvíkingur“ munu seint gleymast Suðurnesjamönnum.

Í Grindavík bjuggu þau hjónin Sigvaldi og Margrete Kaldalóns í fimmtán ár og voru árin hér að mörgu leyti frjóustu ár Sigvalda á tónlistarsviðinu þrátt fyrir að hann ætti lengst af við heilsuleysi að stríða. Margir hafa orðið til að vitna um þá miklu gestrisni sem einkenndi menningarheimili þeirra hjóna.
Margir af kunnustu listamönnum þessarar þjóðar dvöldu á heimili þeirra lengri eða skemmri tíma. Má þar nefna Gunnlaug Scheving listmálara, Stein Steinarr skáld og Ríkharð Jónsson myndhöggvara að ógleymdum bróður Sigvalda, Eggerti Stefánssyni rithöfundi og söngvara.

Sigvaldi Kaldalóns

Minnisvarðinn.

Í sumum tilfellum var dvöl þessara kunnu listamanna á heimili Sigvalda ekki aðeins lyftistöng fyrir menningarlíf í Grindavík heldur fyrir alla þjóðina. Þannig hafa Grindavíkurár Gunnlaugs Scheving hlotið þann sess að vera sérstakur kapítuli í sögu íslenskrar myndlistar, eins konar óður til íslenskra sjómanna með svipuðum hætti og lag Sigvalda Kaldalóns „Suðurnesjamenn“.
Móðir mín, Selma Kaldalóns, hefur lýst því hvernig faðir hennar samdi lög sín: „Hann samdi þegar hann var í stemmningu,“ hefur hún sagt og bætir við: „Hann samdi stundum úti á göngu, raulaði þá fyrir sér lagstúf og spilaði strax, þegar hann kom heim. Oft samdi hann líka seint á kvöldin eða á nóttunni. Það kom líka fyrir, að hann reis frá matborðinu og gekk að hljóðfærinu til þess að leika það, sem þá sótti á hann. Hann hafði þörf fyrir að láta aðra njóta með sér og stundum fór hann út á götu og mætti kannski sjómanni, sem var að koma upp úr skipi, og sagði við hann: – Komdu snöggvast inn með mér, ég ætla að spila fyrir þig lag, – það er nýtt lag.“
Sigvaldi varð snemma mjög heilsuveill, og þegar þar við bættist að hann gat aðeins lagt stund á tónsmíðar í hjáverkum frá annasömum læknisstörfum er með ólíkindum hve miklu hann fékk áorkað. Það er þó ekki magn tónsmíðanna sem mun halda nafni hans á lofti um ókomin ár heldur sú staðreynd að fjölmörg laga hans urðu svo að segja á svipstundu þjóðareign og eru það enn þann dag í dag.
Jóhanns skáld úr Kötlum komst þannig að orði um tónlist Sigvalda í minningargrein:

Grindavík

Kvenfélagshúsið.

„Vart mun finnast sú sál á Íslandi, að hún hafi ekki einhverju sinni orðið snortin af söngvum hans, vart sú rödd, sem ekki hefur reynt að taka undir þá. Eins og mild kveðja vorboðans hafa þeir borizt efst upp í dali, yzt út á nes, bóndinn hefur raulað þá yfir fé, sjómaðurinn á vaktinni, heimasætan á meðan hún beið unnustan síns. Þetta eru tónar alþýðunnar í upphafningu norræns blóma, yljaðir af hjartaglóð snillingsins. Þetta eru tónar, sem allir skilja og eiga og þess vegna geta þeir ekki dáið.“
Það var ekki ætlun mín að rekja hér æviferil afa míns, Sigvalda Kaldalóns, heldur fyrst og fremst að þakka ykkur Grindvíkingum fyrir þá ræktarsemi sem þeir hafa nú í dag með svo afgerandi hætti sýnt minningu Sigvalda Kaldalóns. Alveg sérstaklega vil ég þakka menningarmálanefnd Grindavíkur fyrir hennar þátt í þessu máli og ánægjuleg kynni af nefndarmönnum meðan á undirbúningi þessarar minningarhátíðar hefur staðið.
Af kynnum mínum af því ágæta fólki er ég þess fullviss að menningarmálin eru í góðum höndum hér í Grindavík sem fyrr.
Enn á ný: Kærar þakkir og til hamingju með minnisvarðann.

Hér má sjá myndband frá athöfninni.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi og Karen Margrethe.

Árið 1929 fluttist til Grindavíkur skáldið og læknirinn Sigvaldi Kaldalóns, með komu hans þurftu grindavíkingar ekki lengur að sækja læknisþjónustu til Hafnarfjarðar eða Keflavíkur.
Hagur bæjarbúa af Sigvalda var mikill, hann hafði mikil áhrif á félags- og mennngarlífið. Leið Sigvalda til Grindavíkur var ekki auðveld. Þegar staða héraðslæknis í Keflavík losnaði árið 1929 upphófst mikið átakamál milli Læknafélagsins og Jónasar frá Hriflu sem þá var dómsmála- og heilbrigðisráðherra.
Læknafélagið sá til þess að einungis ein umsókn bærist um þetta starf en fyrir tilstilli manna í ráðuneytinu og hugsanalega Jónasar barst á borð umsókn frá Sigvalda Kaldalóns. Var Sigvaldi ráðinn til embættisins en Læknafélagið sem var á móti ráðningunni beitti ýmsum brögðum meðal annars að sjá til þess að enginn í Keflavík myndi hýsa hann.
Þrátt fyrir mótlætið þáði Sigvaldi starfið og sá Jónas frá Hriflu um að hann fengi húsaskjól í Grindavík og að bæjarbúar myndu reisa honum bústað sem þeir stóðu við.

Grindavík

Læknishúsið – Hamraborg, Vesturbraut 4. Byggt 1930. Teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Sigvaldi varð vinsæll í Grindavík, átti hann það til að kalla til sín fólk af götunni bara til þess eins að spila fyrir það og gestagangur einkenndi heimilislíf læknishjónanna, þess má geta að nokkrar þjóðþekktir einstaklingar bjuggu hjá þeim hjónum um tíma. Gunnlaugur Scheving listmálari bjó hjá þeim í rúmlega eitt ár og þar urðu til hans merkustu sjávarmyndir. Halldór Laxness bjó hjá þeim hjónum meðan hann vann að Sölku Völku. Steinn Steinar fékk einnig að njóta góðs af gestrisni læknishjónanna og vann við sín hugarefni.
Sigvaldi missti heilsuna mjög skyndilega sumarið 1945 og ári seinna fluttu þau hjón aftur til æskustöðva hans. Þá var starfs- og tónlistardögum hans lokið og einu ári síðar lést hann.
Árið 2004 var stofnað í Grindavík klúbbur til heiðurs Sigvalda Kaldalóns, klúbburinn hefur tvíþætt hlutverk annað er að vera bakhjarl knattspyrnudeilarinnar og hitt er að halda í heiðri verkum Sigvalda Kaldalóns með því að halda tónleika og menningartengda atburði.

Heimild:
-http://www.grindavik.is/listaverk
-http://grindavik.is/felogogsamtok og Jón Þ.Þór 1996,bls.315-320.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi. Læknishúsið er fyrir miðri mynd.

Oddur V. Gíslason

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1991 er frásögn um þegar „minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason“ var afhjúpaður í Staðarkirkjugarði.

Oddur V. Gíslason

Frá athöfninni.

„Minnisvarði um Odd V. Gíslason var afhjúpaður í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík 22. september 1990. Sr. Oddur var prestur í Grindavík og Höfnum 1879-1894 og var mikill forvígismaður um slysavarnir og fræðslu í þeim efnum.
Minnisvarðinn er gerður af listamanninum Gesti Þorgrímssyni, steyptur í brons og stendur á áletruðum steini. Hann er reistur að frumkvæði sóknarnefndar Grindavíkur og Hafna auk ættingja sr. Odds og Slysavarnarfélags Íslands.
Gunnar TómasonOddur beitti sér fyrir fræðslumálum í Grindavík og var á undan sinni samtíð um nýjungar. Þá stofnaði Oddur bjargráðanefndir um land allt sem voru undanfarar slysavarnadeilda sem voru stofnaðar seinna.
Við athöfnina tóku til máls Svavar Árnason, formaður sóknarnefndar, og herra Ólafur Skúlason biskup yfir Íslandi, sem minntust sr. Odds og starfa hans. Eftir athöfnina í Staðarkirkjugarði bauð bæjarstjórn Grindavíkur til kaffisamsætis í félagsheimilinu Festi. Þar rakti Gunnar Tómasson, varaforseti Slysavarnarfélags Íslands, æviferil Odds. Þar kom m.a. fram að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir og var orðinn þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Fræg er sagan af Oddi þegar hann rændi brúði sinni Önnu Vilhjálmsdóttur frá Kirkjuvogi í Höfnum á gamlársdag árið 1870 til að giftast henni.“

Oddur Vigfús Gíslason (8. apríl 1836 – 10. janúar 1911) var íslenskur guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður. Hann barðist lengi vel fyrir því að íslenskir sjómenn lærðu að synda, einnig að sjómenn tækju með sér bárufleyg svokallaðan, sem var holbauja með lýsi í og lak lýsið í sjóinn og lygndi með því bárurnar, og ýmsum öðrum öryggisatriðum fyrir sjómenn. Horft hefur verið til Odds sem frumkvöðuls sjóslysavarna á Íslandi.

Oddur V. Gíslason

Bátur Björgunarsveitar Þorbjörns í Grindavík, Oddur V. Gíslason.

Oddur var prestur, fyrst að Lundi í Borgarfirði frá 1875, svo á Stað í Grindavík var þar frá 1878 til 1894 þegar hann fluttist til Kanada og tók við preststörfum í Nýja Íslandi þangað til hann fluttist til Chicago og fór að læra til læknis á gamalsaldri og útskrifaðist, kominn á áttræðisaldur.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Oddur talaði fyrir því að sjómenn tækju upp að sigla á þilskipum í stað róðrarbáta.

Björgunarskip björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík er nefnt eftir Oddi.

Oddur stóði í mikilli útgáfustarfsemi, gaf meðal annars út fyrstu kennslubókina í ensku hér á Íslandi, gaf út fjölmörg rit tileinkuð sjómönnum og árið 1892 gaf hann út rit sem kallaðist Sæbjörg og fjallaði um ýmis mál sem honum þótti geta farið betur á Íslandi. Hann lést 10. janúar 1911, 74 ára gamall og var jarðsunginn í Brookside cemetery í Winnipeg, Manitoba.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1991, Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason afhjúpaður, bls. 18.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Oddur_V._G%C3%ADslason

Oddur V. Gíslason

Grindavík

Í Sjómannadagsblaðinu árið 1978 er fjallað um „Minnisvarða um drukknaða menn frá Grindavík“.

Grindavík

Upphaflega hugmyndin af minnisvarðanum.

„Í janúar 1952 stofnaði Kvenfélag Grindavíkur „Minningarsjóð drukknaðra manna frá Grindavík“. Tekjur sjóðsins voru ágóði af sölu minningakorta.
Vegna verðbólgunnar varð sjóðurinn aldrei það afl, sem honum hafði verið ætlað að verða, þ. e. að standa undir kostnaði við gerð minnisvarða.
Á 25 ára afmæli sjóðsins, í janúar 1977, var samþykkt á fund í Kvenfélaginu að óska eftir samstarfi við bæjarfélagið og sjómannafélagið um að hrinda málinu í framkvæmd. Fékk málið góðar undirtektir og var skipuð 8 manna undirbúningsnefnd með þátttöku fyrrgreindra aðila og Útvegsbændafélags Grindavíkur, sem óskaði eftir aðild að málinu. Nefndina skipa: Sæunn Kristjánsdóttir, formaður og Ólína Ragnarsdóttir, ritari frá kvenfélaginu; Helga Emilsdóttir, gjaldkeri og Sigurpáll Einarsson frá bæjarstjórn; Kjartan Kristófersson og Haraldur Tómasson frá sjómannafélaginu og Tómas Þorvaldsson og Einar Símonarson frá útvegsbændafélaginu. Kom nefndin saman til fyrsta fundar 31. mars 1977 og hefur síðan unnið að undirbúningi málsins.

Grindavík

Minnisvarðinn „Vonin. Á skildinum stendur; „Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera; Jes. 30.15“. Kjartan Ragnarsson h.m.

Að undangengnum ýmsum athugunum og viðræðum m. a. við ýmsa listamenn var ákveðið að reisa minnisvarða eftir verki Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara og voru 3 tillögumyndir eftir hann sýndar í Félagsheimilinu Festi á sjómannadaginn 1977. Var síðan ein þeirra myndi valin sem fyrirmynd varðans, og undirbúningsnefndinni falið hlutverk framkvæmdanefndar.
Samningur við listamanninn var undirritaður 12. desember s.l. og á hann að skila verkinu tilbúnu til afsteypu í brons um áramótin 1978 —79. Fer nú fram athugun á því hvar muni vera hagkvæmast að fá afsteypu af myndinni.
Gerð þessa minnisvarða er nefndarmönnum sem og Grindvíkingum öllum mikið metnaðarmál, en víst er að hún mun kosta mikið fé.
Fyrsta fjáröflun nefndarinnar fór fram í Festi 3. desember s.l. og vill nefndin þakka þeim mörgu sem studdu þetta málefni þá. Margir einstaklingar hafa gefið fé til minningar um látna ástvini. Verkalýðsfélag Grindavíkur gaf 500.000 kr. og Skipstjóra- og stýrimannafélagið Vísir í Keflavík 300.000 kr. Ýmsir aðrir, félög og einstaklingar, hafa lofað fjárframlögum og þakkar nefndin öllum þessum aðilum höfðinglegar gjafir og góðar undirtektir.“

Grindavík

Skjöldurinn á minnismerkinu.

Á sjómannadaginn 1980 var afhjúpaður minnisvarðinn Von, reistur eftir verki Ragnars Kjartanssonar, myndhöggvara. Minnisvarðinn „Von“ sýnir sjómannsfjölskylduna horfa út á hafið í von um að fjölskyldufaðirinn komist heill í höfn. Á minnisvarðanum stendur ritað: ,,Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera; Jes. 30.15″
Eftir hörmulegt sjóslys í janúar 1952 þar sem Grindvíkingur GK 39 fórst með fimm manna áhöfn við Hópsnes í ofsaveðri, ákvað Kvenfélag Grindavíkur að stofna sjóð til minningar um drukknaða sjómenn og var tekna aflað með ýmsu móti, m.a. með sölu minningarkorta. Sjómannafélag Grindavíkur, Útvegsmannafélag Grindavíkur og bæjarstjórn komu einnig að undirbúningi og framkvæmd málsins.

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1978, Minnisvarði um drukknaða menn frá Grindavík, bls. 41.
-Sjómannadagsblað Grindavíkur árið 2000, 20 ár frá afhjúpun minisvarða drukknaðra manna, bls. 29.

Grindavík

Minnismerkið.

Hæna

Í Bæjarbót árið 1985 er sagt frá „Hænsnahúsinu í Grindavík“. Frásögnin var tekin úr Fálkanum 9. janúar 1932. Þar er sagt frá frumkvöðlastafi Einars Einarssonar í Krosshúsum um hænsnarækt og eggjabúskap. Hafa ber í huga að „frumkvöðlastarf“ líkt þessu hafa jafnan, því miður, fremur hvatt „kjaftakerlingar“ hversdagsins til dáða en aðra áræðnari til varanlegri árangurs.

Hænsnabúið í Grindavík

Hænsnahúsið

Hænsnahús Einars í Grindavík.

Vaxandi trú á land vort og mátt íslensku þjóðarinnar lýsir sjer ekki hvað síst í ýmsum verklegum framkvæmdum íslendinga á síðari árum.
Einn af ötulustu framkvæmdamönnum meðal yngri manna hjer á landi, Einar Einarsson í Krosshúsum í Grindavík (sonur Einars kaupmanns í Garðhúsum) hefir nú ráðist í að setja á stofn hænsnabú, sem er stærra og myndarlegra en áður eru dæmi til á Íslandi.
Hænsnabúið í Grindavík er rúmlega hálfs þriðja árs gamalt, og eru þar nú um 1000 hænur.

Hænsnahús

Í hænsnahúsi Einars.

11. maí 1929 voru fyrstu ungarnir teknir út úr 266 eggja Grand Danois útungunarvjel búsins. Hænsnabúið er í 70 m langri og 6’A m breiðri byggingu með geysistórum gluggum. Stofnkostnaður búsins var 20 þús. krónur.

Til þess að sjá um þetta hænsnabú varð Einar Einarsson að fá sjer útlending, er kunni starf sitt til hlítar. Fyrir valinu varð danskur maður, Einar Tönsberg að nafni. Hann byrjaði að vinna sem aðstoðarpiltur á dönsku hænsnabúi, er hann var 10 ára gamall. Síðar gekk hann í skóla og lauk gagnfræðaprófi 16 ára gamall. Næstu 5 ár vann Tönsberg síðari á vetrum við eitt af stærstu hænsnabúum í Danmörku, en ferðaðist á sumrin, meðal annars til Svíþjóðar og Þýzkalands til þess að skoða þar hænsnabú og kynna sjer hænsnarækt af eigin sjón og reynd. í því skyni var hann einnig á sjerstökum námskeiðum. Í nóvember 1930 kom hann til íslands og var þá ráðinn umsjónarmaður hænsnabúsins í Grindavík. Hefir hann gegnt því starfi prýðilega, en nú eru störf búsins að verða meiri en svo, að hann fái unnið þau hjálparlaust.

Hænsnahús

Í hænsnahúsi Einars.

Á hænsnabúinu í Grindavík hefir varpið aukist mjög upp á síðkastið, vegna þess að hænurnar eru undir vísindalegu eftirliti. Víðast hvar hjer á landi verpa hænur aðeins frá febrúarbyrjun til septemberloka, en hjá Einari í Krosshúsum verpa þær 10-11 mánuði á ári. Þann mánaðartíma, sem hænurnar verpa ekki, fella þær fiður, og er því hagað svo með sjerstökum aðferðum, að þær gera það í júnímánuði, bæði vegna þess,að þá eru egg ódýrust og því minnst markaðsspjöll. En einnig mega hænsnin best við því að vera fiðurlítil í júní vegna veðráttunnar.
í Danmörku og Canada þykir það yfirleitt góð eggjatekja á hænsnabúum að fá daglega í október-, nóvember-, desember og janúarmánuði það mörg egg, að samsvari 20% af fjölda hænsnanna. Það er því eftirtektarvert, að á hænsnabúinu í Grindavík er ekkjatekjan miklu hærri. Núna er hún 45% á dag af fjölda hænsnanna, ef með eru taldir hænuungar, sem ekki hafa enn náð fullum þroska. Sje hins vegar aðeins miðað við hænur, sem náð hafa fullum aldri, verður útkoman 65%.

Hænsnahús

Egg hænsnahússins.

Það fyrsta, sem vekur athygli, þegar maður skoðar hænsnabúið í Grindavík, er það að hænurnaar eru allar drifhvítar og prýðilega aldar og hirtar.
Þær eru allar af hreinræktuðu ítölsku kyni, og keypti Einar Einarsson upphaflega hænsnastofn af besta hænsnabúi í Danmörku. Til þess að hænsnin úrkynjist ekki, er jafnan slátrað í júnímánuði öllum þeim hænum, sem ekki hafa verpt svo miklu, að svari kostnaði. Aftur á móti eru þær hænur, sem verpt hafa 200 eggjum eða meiru, teknar frá og aldar sjerstaklega til þess að láta þær verpa útungunareggjum. Hanar til undaneldis eru ekki teknir úr eggjum annara hæna en þeirra, sem verpt hafa í minnsta lagi 230 eggjum á ári. En auk þess eru annaðhvert ár keypt útungunaregg frá fyrirmyndarhænsnabúum erlendis, til þess að hænsnin verði ekki of skyld og hraustur kynstofn haldist.
Með stofnun fyrsta fyrirmyndar – hænsnabús á íslandi, sem jafnast fyllilega á við samskonar stofnanir erlendis, hefir hann vissulega unnið mikið þarfaverk. Sá, er þetta ritar, álítur, að vel sje vert að skreppa til Grindavíkur til þess eins að sjá þennan myndarbúskap Einars í Krosshúsum, enda hafa þó nokkrir menn gert það.
Til útungunar eru eingöngu notaðar vjelar, og er útungunartíminn 20 dagar. Á sjötta degi eru eggin lýst og tekin frá þau, sem reynast ófrjó. Eggin eru enn lýst á tólfta og átjánda degi og ef þá sjest, að ungar hafa dáið í einhverjum af eggjunum, eru þau tekin burt. Ef loftið í vjelunum verður of þurrt, eru látnir bakkar með vatni undir eggin, og fæst við það nægur raki.
Eggjunum er snúið þrisvar á sólarhring, því að ella mundi rauðan í þeim síga og fóstrin deyja.
HænsnahúsHitinn á eggjunum á að vera 103° á Fahrenheit. Útungunaregg mega aldrei vera eldri en tólf daga, þegar þau eru látin í vjelarnar, því að eftir þann tíma fara rauðan og frjóefni hennar að tapa sjer.
Á tuttugasta og fyrsta degi eru ungarnir teknir úr vjelunum og látnir undir upphitaða skerma, sem nefndir eru fósturmæður. Venjulega koma 75-80% af hraustum ungum úr vjel. Á fyrsta degi er þeim að eins gefinn sandur og vatn, en næsta dag er þeim gefið haframjöl og sjerstakt þurrfóður, sem í eru ýms efni, þar á meðal þurrkaðar áfir.
Nú á tímum, þegar alþjóð manna er orðið ljóst, að Íslendingar eiga umfram alt að búa að sinni eigin framleiðslu og leitast við að fullnægja þörfum sínum með innlendum iðnaði, hljóta menn að líta á þetta framtak Einars Einarssonar með velvild. Með stofnun fyrsta fyrirmyndar-hænsnabús á íslndi, sem jafnast fyllilega á við samskonar stofnanir erlendis, hefir hann vissulega unnið mikið þarfaverk. Sá, er þetta ritar, álítur, að vel sje.’vert að skreppa tíl Grindavíkur til þess eins að sjá þennan myndarbúskap Einars í Krosshúsum, enda hafa þó nokkrir menn gert það.
Samkvæmt verslunarskýrslum hafa á árunum 1918—1928 verið flutt inn egg fyrir verðmagn sem hjer segir:
Ár 1918 2.536 kr.
— 1919 10.656 —
— 1920 15.986 —
— 1921 77.424 —
—’ 1922 105.650 —
— 1923 137.328 —
— 1924 97.060 —
— 1925 144.924 —
— 1926 156.704 —
— 1927 134.856 —
— 1928 149.118 —

Einar Einarsson

Einar Einarsson.

Þar með er talið það verð, sem gefið hefir verið fyrir þurkuð egg frá 1921. Árið 1928 hefir einnig verið byrjað að flytja inn niður soðin egg, en ekki svo að neinu næmi það ár.
Meðan þeim upphæðum, sem hjer er getið, er árlega fleygt út úr landinu fyrir vöru, sem hjer er auðgert að framleiða, er sannarlega ekki alt sem skyldi.
En því er ver, að það eru ekki eggin ein, sem vjer Íslendingar höfum látið útlendinga færa okkur hingað árum saman á erlendum skipum, í stað þess að framleiða vörurnar sjálfir og efla þannig atvinnu og velmegun í landinu.
Einar í Krosshúsum segir, að gömlil „præserveruð“ útlend egg og gömul íslensk egg spilli allmikið eggjamarkaði hjer, því að enn sje fjölda margir, sem ekki geri sjer ljóst, hve geysimikla kosti glæný egg hafi fram yfir gömul, hálfskemd (gg. Einar lætur stimpla öll egg frá hænsnabúi sínu, og merki hans á að tryggja kaupendum góða vöru. Verðið segist hann miða við verð á fyrsta flokks eggjum í Danmörku.
Einar Einarsson segist muni geta selt lifandi hænuunga, svo að þúsundum skiptir, ef markaður bjóðist. Væri vel, ef hann gæti þannig smám saman útvegað sem flestum hænsni af hinu ágæta ítalska kyni. Hann kveðst og liafa sell uin 1000 liaMisni til veislumatar í Reykjavík síðast liðið ár. Framtakssemi Einars og allur sá myndar bragur, sem auðkennir þessa slarfsemi hans, gefur góðar vonir um, að hún geti orðið öðrum athafnamönnum vorum til fyrirmyndar. – Sigurður Skúlason.

Á myndunum sem hjer fylgja er sýnt: Efst á bls. 3 hænsnabúið að utan, en neðar á sömu síðu gangir inni í húsi. Á þessari bls. sjest efst í dálkinum piltur með hænu og  eggjakarfá stendur hjá, en neðst er það sýnt, hvernig umbúðirnar eru, sem eggin koma í á markaðinn.

Heimild:
-Bæjarbót, 11. tbl. 01.12.1985, Hænsnahúsið í Grindavík – Úr Fálkanum 9. janúar 1932, bls. 3-4 – bls. 2.
-Morgunblaðið, 162, Útför Einars Einarssonar í Krosshúsum, tbl. 19.07.1962, bls. 2.
-Einar Einarsson, Krosshúsum látinn, Faxi 7. tbl. 01.09.1962, bls. 117.

Einar Einarsson

Halldór Laxness

Í Faxa árið 1982 birtist hugvekja í tilefni af áttræðisafmæli Haldórs Laxness þar sem hann m.a. mærir Grindavík – og það ekki að ástæðulausu.

Grindavík

Grindavík 1939.

Á árunum 1937—1939 gaf Lestrarfélagið í Grindavík út tímarit, sem nefndist Mímir. Markmiðið með útgáfu ritsins var, eins og segir í 1. tölublaði, að reyna að vekja af dvala Lestrarfélagið Mími, er sofið hafði svefni hinna réttlátu um nokkurt skeið. Var ritið selt til ágóða fyrir félagið, á 10 aura eintakið. Ritstjórar voru Einar Kr. Einarsson, skólastjóri, Jochum Eggertsson og
Einar Einarsson í Krosshúsum. Í 4. tölublaði Mímis frá 1937 er viðtal við Halldór Laxness. Viðtalið hefur Einar Einarsson í Krosshúsum að líkindum átt við skáldið og í tilefni þess að
Halldór Laxness er áttræður um þessar mundir. Þótti við hæfi að fá það birt hér í Faxa nú. Fer viðtalið hér á eftir:

„Tíðindamaður blaðsins heimsótti Halldór Kiljan Laxness þar sem hann dvelur nú [í Krosshúsum] yfir páskana, önnum kafinn yfir ritvél sinni. Þrátt fyrir mikið annríki var skáldið svo vingjarnlegt að svara nokkrum spurningum, sem tíðindamaður lagði fyrir hann.
-Kemur framhald af „Ljósi heimsins“?

Halldór Laxness

Halldór Laxness.

-Já, næsta ár mun koma út ný bók, framhaldssaga af niðursetningnum, sem nú er ekki lengur niðursetningur, eins og þér vitið. Hvers vegna nefnduð þér bókina „Ljós heimsins“? Bókin skýrir frá baráttu skáldsins við heimskuna og tregðuna.
-Þér notið alveg sérstakt mál í bók yðar, haldið þér ekki, að það geti aflagað mál hinnar yngri kynslóðar?
-Ég vona að mál bókarinnar sé auðvelt aflestrar og spilli ekki málsmekk neins.

-Á hve mörg mál hafa bækur yðar verið þýddar?
-Dönsku, þýsku, sænsku, ensku og hollensku og verið að vinna að þýðingu á frönsku.

-Mörgum finnst þér vera svartsýnn í bókum yðar?
-Það er alltaf sagt að raunsæishöfundar séu svartsýnir. Lífið er ströng barátta, og sögur mínar eru raunsæar. Þegar lífsskilyrði alþjóðar batna verður skáldskapurinn ósjálfrátt bjartsýnni.
-Haldið þér ekki að útlendingar geti fengið of slæmar hugmyndir um Ísland við að lesa bækur yðar?
-Það held ég ekki, vesaldómur almennings er í flestum löndum meiri en á Íslandi, svo það er ekkert nýtt fyrir útlendinga að heyra um fátækt fólk. Annars er fólkið allsstaðar eins, aðeins ofurlítið breytt á yfirborðinu. Þegar maður er búinn að tala dálitla stund við mann frá t.d. Buenos Aires er maður óðar kominn inn á sama umræðu etni og í samtali við fólk hér í Grindavík.
-Viljið þér segja ofurlítið frá þessu ferðalagi, sem þið fóruð í sumar?
Ég hefi skrifað ofurlítið um það annarstaðar, og ég er líka ónýtur að segja ferðasögur. Það koma náttúrlega fyrir ýms atvik á ferðalagi, en þeim hef ég mest gaman af þegar ég er búinn að skrifa um þau í skálsögum, kannski í ofurlítið breyttri mynd.

Krosshús

Krosshús.

-Sumir hneykslast á ýmsu í bók yðar „Ljós heimsins“ t.d. 16. kap.
-Það er með bók eins og jólaköku, jólakökur mega ekki vera eintómar rúsínur, en ef engin rúsína er í þeim, er það heldur engin jólakaka.
-Hvernig líst yður á Grindavík?
-Mér líst afar vel á Grindavík. Þar vinn ég betur en víðast hvar annarstaðar, hér skrifaði ég seinni hlutann af „Fuglinn í fjörunni“ og „Napóleon Bónaparte“ og gerði uppkast að „Ljós heimsins“. Eftir kynningu minni af öðrum íslenskum sjóþorpum, held ég, að Grindavík sé með bestu plássum landsins. Húsin eru rúmgóð og falleg, mættu kannski standa skipulegar. Sjáið þér börnin þama úti á túninu, öll vel klædd með höfuðföt og sko. Þið ættuð að sjá pláss eins og Ólafsvík og Bíldudal og Eskifjörðog víðar þar sem fólk varla hefur eldsneyti til að kynda undir pottinum með.
Vér þökkum herra Laxness fyrir samtalið, óskum honum gleðilegra páska og kveðjum.“

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.05.1982, Í tilefni áttræðisafmælis Halldórs Laxness, bls. 92.

Grindavík 1958

Grindavík (Járngerðarstaðarhverfi) 1958.

Festarfjall

Árið 2001 var gerð svæðaskráning um „Menningarminjar í Grindavíkurkaupsstað“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1945.

Kirkjustaður. Samkvæmt Landnámu nam Þórir haustmyrkr Selvog og Krýsuvík. ÍF I, 392-393. 1275; Krýsuvík og Skálholt eiga hálfan allan reka undir fuglabergi í landi Strandakirkju í Selvogi. 1284: Stadur j videy aa fiordvng j hvalreka j [krýss[v]ik) ok skal sa sem býr j kryssvvik senda mann til videyar þegar hvalvr kemvr adur þridia sol sie af himne ok lata skiera hval ok abyrgizt sem seigir j logbok.“ DI II, 124 sbr. DI III, 212. DI II, 246,
sbr. 247, 248 og DI III, 749. 1356 var staðurinn 71 hndr og átti kirkjan allt heimalandið. DI III, 222. 1397: Þá á Krýsuvík fjöru í Keflavík til helminga við Kaldaðaneskirkju. Kaldaðaneskirkjra á „Saudahofn j krysevyk oc hvzrum manne ad geyma þar sauðda. fa kietil oc elldivid oc tvo menn til safna a vorid med þeim er sauda giæter.“ DI IV, 54. 1479: lýste hvn þat. at einginn jtok væri j greinda jord vatzleysv. nema kirkian j kryssvvik ætti þar j Xc.“ DI VI, 185-186.1524 eru þau kaup gerð að Viðeyjarkalustur eignast part Krýsuvíkurkirkju í Vatnsleysulandi og greiða fyrir fjögur hundruð til prests en kirkjunni áttæring. DI IX, 289. 1496 lét Stefán Jónsson Skálholtsbiskup meta byggingarnar á Krýsuvíkurstað, kirkjuna, „og staðinn aalan með hjáleiguhúsum innan garða.“ – DI VII, 324. 1563: „Jtem hefe eg fullt vmmbod gefid mijnumm firrgreinndumm Radsmanne ad byggia Krysewijk fyrst sira Birne ef hann vill med þeirre landskilld sem hann kann af stad ad koma og med þeim leigukugilldumm sem þar kunna til ad setiast svo og med þeim skilmála vmm rekann og allt annad sem addur stendur vmm Grijndavijk.“ DI XIV, 201. Kirkjustaður, eign Skálholtsstaðar, og var jarðardýrleiki óviss 1703.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Sama ár eru hjáleigur jarðarinnar Nýibær, Litli Nýibær, Norðurhjáleiga, Suðurhjáleiga, Austur hús og Vestur hús ásamt eyðijörðinni Gestsstöðum. 1847: 31 1/3 hndr, hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Vigðísarveellir, Bali og Lækur. Árið 1918 eru tvö býli í Krýsuvík en jörðinni ekki skipt á milli þeirra. „Krýsuvík. Svo í Ln (Hauksbók og Sturlubók), og því réttara en Krísuvík (í F og víðar).“ Árbók 1923, 30.
Þórkötlustaðir áttu selför á Vigdísarvelli en Krýsuvík skipsstöðu í Þórkötlustaðanesi – Saga Grindavíkur I, 145.
Ummál Krýsuvíkurlands er á milli 60-70 km og á 300 ferkílómetra að flatarmáli. Gengið var frá afsali vegna kaupa Hafnarfjarðarkaupstaðar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ 1941. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 107.
Austasti hluti Krýsuvíkurlands (Krýsuvíkurhraun) og sá vestasti (Ögmundarhraun og Vigdísarvellir) heyra þó undir Grindavíkurkaupstað.
1703: „Túninu er hætt fyrir skriðum og fje fyrir hrakníngi um vetur, ef ekki er vel gætt.“ JÁM III, 7.
1840: „Í hverfi þessu eru landkostir, hagaganga og heyskapur í meðallagi; ókostir, sérlegir óþerrar og snjókyngi, samt sérlegur uppblástur á öllum högum.“ SSÁ, 219. 1918: Tún 5,4, garðar 420 m2. Svæðið milli Kleifarvatns og Grænavatns er engja svæði. „Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og upp í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hygg, sunnarlega á túninu.“ Ólafur Þorvaldsson: Árbók 1943-48, 87.
Hluti Krýsuvíkurlands tilheyrir nú Hafnarfjarðarkaupstað.

Gvendarhellir (hellir/fjárskýli)

Arngrímshellir

Í Gvendarhelli.

„Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp ad Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík … Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundur nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með suðafé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur.“
„Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, so alltíð má beita fé undir vind, af hvörri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum. Er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum eður máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þenna. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Sysitir hans átti eina á eins lita, og hætti hann ei fyrr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét hönum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gjörði áhlaupsbyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu, tekur hann ána þá og reynir í 3-gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvört sinn við hendur hans, brölti hún upp að hnjám hönum. Loksins gaf hann frá sér og skal hafa sagt löngu seinna, að út af á þessari hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hefi eg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðnalegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst. / Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar hönum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með 2r rúmum, í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellirinn, hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þókti, bjó til étur úr tilgengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200um eftir ágetskun manna), fluti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu eða öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir 7tugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár á baki.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Herdís og Krýs og smali (dysjar)

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

„Norður af því [Krýsuvíkurhrauninu] uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg.
… Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitri Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur , sem Krýsuvíkingar kalla Hvítskeggshvam … Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan …“ segir í örnefnalýsingu. „80 m norðan við malbikaðan veg, SV undir hlíðum Geitahlíðar. Við jaðar hrauns og vestan við þjóðleið.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Dysjar tvær eða vörður („Krýs og Herdís“) austan Kerlingardals, um hálftíma gang fyrir vestan Sýslustein.“ Friðlýst (í Hafnarfriði) 30.04.1964, þinglýst 05.05.1964. – Fornleifaskrá, 12.
1840: „Forntíðarkonur 2, Krýs og Herdís, nafnkenndar af bæjum sínum, Krýsu- og Herdísarvíkum, áttu lönd saman, sem enn liggja þau. Vildi Herdís næstum eiga alla Geitahlíð af hennar landi, en hún vildi ei gefa eftir. Fundust þær á Deildarhálsi. Kom so hart í með þeim, að Herdís drap smala Krýsar, sem með henni var, en Krýs vildi hefna, og lauk svo með þeim, að hvör drap aðra. Eru þar 3 dys, þeirra beggja sunnan við götuna, en smalans uppí brekku fyrir norðan hana. Síðan heitir hálsinn Deildarháls.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „… sögn um tvær konur, Krýs og Herdísi, sem deildu um beit og drápu hvor aðra. Enn eru sýndar rétt við veginn yfir hálsinn dysjar Krýsar og smalamanna, sem voru einnig drepnir.“ Kålund I, 29. 1950:

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu.

„Spölkorn austan Eldborgarskarðs, þar sem hin forna leið liggur þétt við rætur hlíðarinnar, eru tvær fornar steindysjar. Báðar eru þær sunnan vegar, með mjög skömmu á milli. Dysjar þessar heita Kerlingar, og segja fornar sagnir um uppruna þeirra á þessa leið: / Krýs og Herdís, konurnar, sem sagan segir að fyrstar hafi búið á jörðunum Krýsuvík og Herdísarvík og jarðirnar síðan við þær kenndar, voru lengi búnar að eiga í deilum um landamerki jarðanna, eða komu sér ekki saman um hvar vera skyldu. Voru smalar þeirra oft búnir að elda grátt silfur sín á milli, út af fjárbeit, og vörðu oft spildur úr beitilandinu hvor fyrir öðrum og töldu, að með því rækju þeir erindi húsmæðra sinna. Erjur þessar leiddu til fjandskapar, ekki einasta hvað smalana snerti, heldur og millum þeirra Krýsar og Herdísar, sem báðar þóttust ofbeldi beittar. Þegar þóf þetta hafði farið fram um hríð, og óvild og ágengni færzt mjög í aukana, varð það þó að samkomulagi millum þeirra Krýsar og Herdísar, að endir skyldi bundinn á deilu þessa á þann hátt, að báðar skyldu þær fara, þar tilsettan dag, að heiman á sólarupprás og mörk ákveðin millum jarðanna þar sem þær mættust. Á tilteknum degi fara svo konurnar hvor heiman frá sér, Krýs frá Krýsuvík og Herdís frá Herdísarvík. Smala sína höfðu þær mð í för þessari. Ekki segir frá ferðum þeirra, fyrr en þær mættust á hálsi þeim, sem liggur austan Eldborgarskarðs. Umsvifalaust ganga þær til málanna, og sakaði Krýs Herdísi um að hafa brotið samkomulag það, sem þær höfðu áður gert, þar sem hún væri komin svona utarlega í landið, og hefði hún því hlotið að fara fyrr að heiman en tilsett var. Þetta vildi Herdís ekki viðurkenna og stóð fast á sínum rétti, sem hún taldi vera, en líklega hefur Herdís verið eitthvað minni fyrir sér.

Krýsa

Krýsa Sveins Björnssonar í Krýsuvík og ÓSÁ.

Um þetta deildu þær langa stund, og á meðan sú deila stóð gekk Krýs svo fast að Herdísi, að hún varð að láta undan síga, austur af hálsinum og yfir dal þann, sem austur af honum er. Með hverju skrefi, sem Krýs gekk fram, en Herdís aftur, hitnaði skap þeirra, svo að heitingum varð. Tóku þær þá að biðja hvor annarri óbæna, ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvíkina, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi og öfugugga, en báðar þessar fisktegundir taldar baneitraðar. Krýs lagði það á Herdísarvíkina, að ein eða fleiri skipshafni skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn, sem er smátjörn, fyrir túni Herdísarvíkur, innan við sjávarkambinn. / Þegar hér var komið sögu, var Krýs búin að hrekja Herdísi á eystri brún dals þess, sem áður er nefndur. Þar sprungu þær báðar af heift og mæði. Smalarnir, sem fram að þessu höfðu aðeins verið áhorfendur að því, sem fram fór millum húsmæðra þeirra, hugðu nú til hefnda. Ekki segir frá viðuregin þeirra annað en það, að þar féll Herdísarvíkursmalinn, en hinn fór heim og kunni frá tíðindum að segja. Staður sá, þar sem konur sögunnar mættust, heiti síðan Deildarháls, og dalurinn þar austur af Kerlingadalur. Þar, sem úrslitaþátturinn í þessari landamerkjaáreið fór fram, sjást enn hinar fornu grjótdysjar, sem … sagt er að séu kuml þeirra Krýsar og Herdísar. Fram á síðustu áratugi mátti sjá votta fyrir dys smalans, sem þarna féll, og var það neðst í hlíðinni ofan vegar, en er nú að fullu horfið undir skriðuhlaup. Dys Herdíar er talin sú eystri, Krýsar hin vestari. Heyrzt hefur, að til forna hafi sýslumörk verið um Kerlingar, en svo er staður þessi ávallt nefndur, og hefur þá línan sennilega verið milli dysjanna, þannig að hvor kona lægi í sínu landi.“ Harðsporar, 109-111. Bjarni Einarsson lýsir dysinni svo: „Úr hraungrjóti, ca. 5 m í þvermál og 1 m há. Dysin er talsvert mosavaxin og í henni miðri er friðlýsingarhæll (laus). 2 m vestur af [henni] er [Krýs] … Gamla þjóðleiðin liggur austan við dysina og austan við leiðina, gegnt dysunum, er vörðubrot á kletti. … Ljósleiðari hefur verið lagður býsna nærri dysunum, þó ekki nær en 20 m.“

Húshólmi (bæjarstæði/bústaður)

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

„Neðst í hrauninu [Ögmundarhrauni], austast, er Húshólmi, og eru þar allmiklar rústir eftir bæ. Þessi hólmi er niðri við sjó skammt vestan við bergið … Vestur úr útsuðurhorni Húshólma liggur hraunlág milli tveggja hraungarða. Skiptist í hún í tvær lágar, er heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Álitið er, að gamli Krýsuvíkurbærinn hafi staðið í Húshólma, enda er illmögulegt að kenna hann við vík, þar sem hann stendur nú. Bæjarrústin þarna er því nefnd Gamla-Krýsuvík. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og telja sumir, að þar hafi víkin verið, rétt vestan við Húshólmafjöruna. Rétt hjá rústinni heitir Kirkjuflöt.“
Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609 (AM 66a 8vo, 55r-56v) (sbr. Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarharuns, 420). 1755: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ segir í hinni prentuðu Ferðabók Eggerst og Bjarna. Í dagbók þeirra fyrir 31. maí 1755 segir hinsvegar: „Om Effter middagen forloed vi Krisevigen med alle, og Reiste moed NV. först over et Nyt hraun, Ogmundarhraun Kaldet, dette Steenfloed Har for omtrent 200. aar siden, brændt og rundet Ned fra fieldene hen til Söen over 2. miile lang vey og Naar den er Kommen Ned til det Skionne flade land som her har været udvidet sig alleveigne vel over 3. miile langs med Stranden, taget bort Nogle bajer sem her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (som det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene.“ ÍB 8 fol, s. 107v-108r (prentað í Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarhrauns, 420). 1817: „Hús-Hólmi, nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa TóptaBrotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan -vestan-sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallina Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid.“ [afmg. 2: Um Húshólma er einnig getið í þjóðsögum um Ögmund og Ö.hraun] – FF, 227.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.

1840: „Austan til við [Ögmundarhraun] er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niður sokknar, og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalaega. Hefur það verið vel stórt hús. Þó sjást ei tóftirnar allar, því hraunið hefur hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega yfir fullan helfming, því þar hefur vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2r túngarðshringir og hér um bil 20 faðma bil milli þeirra.
Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er og vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.“ Sóknarlýsing Jóns Vestmann. 1883: „Á aðalhólmanum eru glöggir garðar, einn þeirra 300 m á lengd; þar er kallaður Kirkjuflötur. Á dálitlum bletti úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, eru bæjarrústir. Hefir hraunið að nokkru leyti runnið yfir þær, en nokkuð hefir orðið eftir, og standa veggirnir út undan hraunröndunum. Lengsta tóttin er 16 m, breidd hennar sést þar eigi fyrir hrauninu, sem runnið hefir yfir báða hliðarveggina; önnur, við enda hinnar þveran, er 10 m á lengd og 7 m á breidd, og hin þriðja sérstök rétt við, 10 m á lengd og 8 á breidd. Utan um hana, frá aðalrústunum, er boginn garður, líkur húsagörðum, sem fyrr tíðkuðust á Íslandi. Auk þess sjást tveir aðrir garðspottar. Grjótið í tóttum þessum er dólerít, sams konar og það grjót, sem undir hrauninu liggur.“ – ÞT Ferðabók I, 189-90. „Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. … Þar undir hraunjaðrinum [við Húshólma] kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið. Annar garður kemur undan hraunjaðrinum nokkru neðar en hinn og stenfir í suðaustur. hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrra garð skamt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. Er þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata, er hér eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjaðrinum. Liggur þriðji garður þar ofan frá neðra garðinum að neðra hraunjaðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskildar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefur tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjaðra. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm löng og 2 fðm. breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið þil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endar hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur fr´anorðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjaðarinn að sunnanverðu. Vestanvið hana dýpkar lágin að mun, en er þar ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lítur út fyrir að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískift. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið alt að kalla. Miðtóftin nál. 2 1/2 fðm. löng og 1 1/2 fðm víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 1/2 fðm., ennál. 5 fðm á lengd. Hún er merkileg að því, að með báðum veggjum, eftir henni endilangri, eru 1 al. breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyri vegjgjum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin.

Húshólmastígur

Húshólmastígur.

Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kring um þessa rúst, og ekki veriður komizt að henni nema á hrauni. Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurin Krýsuvík verið. Getur vel verið, að sú tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rúsin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg ég að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan verið hjá Fremri-bænum. Eftir afstöðu að dæma hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hrauni hulin.“
Bjarni Einarsson skráði fornleifar í Húshólma sumarið 2000. Hann getur þess að fjórar samsíða línur sem Brynjúlfur Jónsson sýnir þvert yfir hólmann ofanverðan séu „sennilega gamlar reiðgötur sem ekki sjást í dag.“ Á svipuðum slóðum skráir hann rúst (nr. 2300:4.4) „Ca. 35 m NNV af hæl 17 250, í blásnum móa. … Nánast hringlaga, 8-9 m í þvermál. Veggir ógreinilegir, en úr torfi og grjóti, ca. 1,5 m breiðir og 0,1 – 0,5 m háir.
Talsvert rof er í kringum rústina og sjá má líklega hleðslusteina. Engar dyr sjást. Gólf er grasi og lyngi vaxið. Rofabarð við rústina var kannað og kom í ljós að rústin er eldri en 1226.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.22 N 022°09.52 W. Önnur rúst í Húshólma er „Sunnan við jaðar hrauns í móa. … 6 x 11 m (A – V). Veggir úr grjóti ca. 0,5 – 1 m breiðir og 0,2 – 0,8 m háir. Tvö hólf eru á rústinni (A og B). Dyr eru á hólfi A til suðurs. Hólf B er ógreinilegt og dyr ekki sjáanlegar. Veggir á hólfi A eru mosavaxnir en á hólfi B eru þeir grasi- og mosavaxnir. Gólf er grasi gróið. Í norðurhluta hólfs A er einskonar skúti í veggnum. Er hann hlaðinn úr mun stærra grjóti en veggirnir.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.26 N 022°09.34 W. Enn önnur rúst er „Ca. 4 m vestur af jaðri hrauns, í móa. … 2,5 x 3 m (A – V). Veggir úr grjóti, 0,3 – 0,5 m breiðir og 0,2 – 0,5 m háir. Dyr snúa til austurs eða norðausturs. Gólfið er vaxið lyngi.“ Þessi rúst hefur hnitið 63°50.25 N 022°09.44. Ennfremur gerinir Bjarni frá túnagrði í Húshólma: „Við austur jaðar Ögmundarhrauns í Húshólma. Í móa. Garðurinn er úr torfi, 1,5 – 2 m breiður og 0,2 – 0,6 m hár. Garðurinn gengur ca. 50-60 m út undan hrauninu í dálitlum boga. Beygir hann síðan til suðurs og er þar mjög ógreinilegur. Þessi hluti liggur rétt vestan við mikið rofabarð. Að endingu gegnur hann inn í annan garð (ca. 60 m sunnar) sem einnig gengur út úr hrauninu. … Grafið var í rof á garðinum skammt austur af þeim stað þar sem hann kemur undan hrauninu og því haldið fram að hann væri eldri en landnámsgjóskan frá 871-72. Landnámsgjóskan lá í pælunni, en ekki garðinum sjálfum.“

Óbrennishólmi (fjárskýli)

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

„Þá er þar vestar og ofar [en Húshólmi] niður undan Latsfjalli annar grashólmi í hrauninu, Óbrennishólmi.“ segir í örnefnalýsingu. „Í [Ögmundahrauni] spölkorn hér frá [þ.e. Húshólma] er og óbrunninn hólmi og ófært hraun allt í kring nema einn lítill stígur, sem síðan hefur verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennirshólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisféð, meðan hraunið hljóp yfir heila plátsið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir), og að hann hafi ei getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi,“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg.“ segir Brynjúlfur Jónsson í skýrslu frá 1903. „Þessi rúst er enn greinileg. Hún er á hól syðst í hólmanum.“ segir Jón Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.

Óbrennishómi

Óbrennishólmi – fjárborg eða virki.

Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg. Og þar litlu vestar liggur langur og digur garður þvert uppeftir. Slitin er hann sundur sumstaðar nú, en eigi mun svo hafa verið í fyrstu, Á einum stað t.d. hverfur hann undir hraunnef, en kemur undan því aftur hinumegin. Efst hverfur hann undir hraunnef. Tilgangur garðs þessa er mér óljós, nema hann hafi verið landamerkjagarður milli Krýsivíkur og næstu jarðar fyrir vestan.“
8.8.1979: „Efst og austst í hólmanum rakst ég þá á hleðslu úr grjóti, sem hverfur inn undir hraunið. Við nánari athugun kom í ljós að þarna hefur verið – sennilega – fjárbyrgi eða rétt, sem hraunið hefur runnið inn í og yfir.
Það hefur runnið í lækjum yfir hleðsluna og jafnvel smogið inn milli steinanna.“ segir Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.
Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði.

Ögmundastígur (leið)

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661] „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krísuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð. Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftri að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitir hraunið síðan Ögmundarhraun.“

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Frá Borgarhólum heldur leiðin í áttina að Ísólfsskála og áfram til Grindavíkur. Liggur hún þar bæði yfir blásna móa og úfið hraun. Í hinu úfna hrauni er leiðin yfirleitt rudd, ca. 3 m breið. Fornleiðin er vörðuð nær alla leiðina frá Krýsuvík að Ísólfsskála. Alla vega á einum stað er vísir að brú (veghleðsla) þar sem leiðin fellur ofan af stalli niður á hraun skammt vestur af Litlahálsi … Núverandi vegur hefur verið lagður ofan í gömlu leiðina frá Skalla og vestur að Ísólfsskála. Sömuleiðis hefur núverandi vegur legið yfir leiðina á stöku stað vestur af Ísólfsskála.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.

Ögmundarleiði (legstaður)

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661]. „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krýsuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftir að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitri hraunið síðan Ögmundarhraun.“ „Austan við hraunið [Ögmundarhraun] í rótum Mælifells er Ögmundarleiðið, þar sem Ögmundur sá, sem hraunið er við kennt, á að vera grafinn. … Ögmundardysið eða leiðið er vestan undir Krýsuvíkur-Mælifelli …“
1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Hettuvegur (leið)

Hetturvegur

Hettuvegur.

„[Drumbsdalavegur liggur yfir Sveifluháls milli Krýsuvíkur og Vígdísarvalla] Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur. Ekki kann ég að staðsetja veg þennan.“
1883: „Síðan fórum við frá Vigdísarvöllum yfir Sveifluháls að Krýsuvík um Hettuveg (285 m), sem heitir eftir háu fjalli rétt sunnan við námurnar. Vegur þessi er allbrattur og eru hálsarnir báðir örmjóir að ofan, sagyddir og klungróttir, allir úr móbergi.“ – ÞT Ferðabók I, 184.

Ketilstígur (leið)

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

1755: „Hverirnir í Krýsuvík liggja í dalverpi undir háum fjöllum á eldbrunnu landsvæði. Gatan niður af fjallinu í dal þenna heitir Ketilstígur. Hann er stuttur, en allbrattur.“ segir í ferðabók Eggerts og Bjarna. „Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og í gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er  kringlóttur djúpur dalur eða skál niður í fjallið … Framan við Ketilstíg er Bleiksfflöt. Sunnan við Ketilstíg niðri heitir Fagraflöt.“
Henry Holland lýsir leiðinni milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur 1811 – Dagbók í Íslandsferð 1811, 80-82.
William Hooker lýsir Ketilsstíg 1809 – Ferð um Ísland 1809, 141-42. 1840: „Þegar komið er hér um bil í miðjan [Móhálsadal] liggur leiðin suðaustur til fjalla, yfir esytri Móhrygginn, og er þar fast hjá gígur einn í hálsinum, skammt ofan við dalbotninn. Þessi gamli gígur hefur nú að nokkru fyllst upp og gróið, hann er kringlóttur og var eitt sinn mjög djúpur; heitir hann Ketill og tekur vegurinn nafn sitt af honum og kallst Ketilsstígur. Þar er hálsinn nokkuð hár en ekki breiður og þegar kemur yfir hann eru nyrstu brennisteinsnámarnir í Krýsivík rétt við fætur manns.“ Jónas Hallgrímsson, Ritverk III, 366. 1840: „Frá Krýsuvík liggur annar vegur til [Hafnarfjarðar], nefndur Ketilsstígur, 3 partar úr þingmannaleið að lengd, grýttur og brattur sem hinn … Litli-Nýibær í Krýsuvík er næst við Ketilsstíg … Ás í Garðasókn á Álftanesi er næsti bær við Ketilstíg að vestan.“ SSÁ, 222.
1879: „Stuttur fjallvegur, en brattur liggur yfir hálsinn til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Er af honum fagurt útsýni yfir fjörðinn til fjallanna fyrir norðan. Einnig er leiðin sem liggur af hálsinum niður að bænum í Krýsuvík talin mjög eftirtektarverð, því að hún bugðast að nokkru milli sjálfra námanna, og verður að gæta vel að sér að stíga ekki niður úr leirskorpunni, sem er laus og brothætt, en oft leynist undir sjóðandi leðja.“ Kålund I, 29.

Sogasel (sel)

Sogasel

Í Sogaseli.

„Norðan við Grænavatnseggjar [hæð vestan Djúpavatns og er smávatnið Grænavatn á henni.], Engjaháls og Djúpavatn er lægð gegnum fjöllin, sem heitir Sog. … Vestan í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn i Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum.
Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls.
Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: „Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka.“

Selatangar (verbúð)

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lendíng merkilega slæm, heitir plátsið á Selatöngum.“ segir í jarðabók Árna og Páls. 1756: „Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima.“ segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna. „Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar. … Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herzlu á fiski. Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkr. „Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út í Selatanga er]…Veiðbjöllunef…Austan við Veiðbjöllunef kemur Mölvík…þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahaun…Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Nokkuð austan við bæinn á Isólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar.“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Verbúðatóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul ammnvirki í hinni fornu verstöð á Sealtöngum.“ Friðlýst (í landi Ísólfsstaða) 01.09.1966, þinglýst 05.09.1966.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

„Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur. Til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafi orðið mötustuttur í verinu. Buðust þá hásetar á skipum þeim sem þar reru að gefa honum mötu til vertíðarloka, ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu: Tuttugu og þrjá Jóna telja má,/ tvo Árna, Þorkel, Svein./Guðmunda fimm og Þorstein, þá/ Þorvald, Gunnlaug, Freystein. / Einara tvo, Ingimund, Rafn, / Eyvind, tvo Þórða þar. / Vilhjálmur Gesti verður jafn / Vernharður, tveir Bjarnar / Gissura tvo, Gísla, Runólf, / Grím, Ketil, Stíg, Egil. / Erlenda þrjá, Bernharð, Brynjólf, / Björn og Hildibrand til. / Magnúsar tveir og Markús snar / með þeim hannes, tveir Sigurðar. / Loftur, Hallvarður, Hálfdán, senn / þar sezt hann Narfa hjá. / Á Selatöngum sjóróðramenn / sjálfur Guð annist þá. – Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.“ Íslenskir sjávarhættir II, 37-38. Guðrún Gísladóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: „Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla (rúst A á 4. mynd). á næstu nibbu austan við eru rústir sömu leiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka felstar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðatóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast (rúst B á 4. mynd). Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallin, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá. … Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhauni og utan í þeim.“ „Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum er er nú hruninn…Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunefi.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.

Tangadraugur (draugur)
„Á Seltöngum [045] hafðist við um eitt skeið hinn nafnkunni Tangadraugur (Tanga Tumi), sem talinn var hversdagslegur fremur meinlítill, en þá er á hann rann jötunmóður, gat hann orðið svo fyrirferðarmikill, að hann „fyllti út í fjallaskörðin“ að því er Beinteinn gamli í Arnarfelli sagðist frá.“

Vigdísarvellir (sel/bústaður)

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: Hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selstaða frá Þorkötlustöðum. „Selstöðu brúkar jörðin [Þorkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krísuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaðalandi.“JÁM III, 14. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. 1840: Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830 en voru áður selstaða – SSÁ, 220, 221. Var í eyði um 1880 en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 – Saga Grindavíkur II, 86-87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“ “ … 1879 féll sterk baðstofa á Vigdísarvöllum, en … (í) jarðskjálftunum 28. og 29. janúar 1905 … hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.“ – ÞT Ferðabók I, 184.

Bali (bústaður)

Hjáleiga Krýsuvíkur, ekki nefnd í jarðatali 1703. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Þar er fyst getið búsetu árið 1840 og síðast 1850 – Saga Grindavíkur II, 87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“

Ísólfskáli (bústaður)

Isólfsskáli

Ísólfsskáli 1920.

16 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 8. Aðrar orðmyndir nafnsins eru Ísuskáli og Ísiskáli. Saga Grindavíkur I, 142.
1703: „Við til húsabótar hefur ábúandinn af reka þegar hann heppnast…Tún sendið mjög og liggur undir skriðum. Engjar öngvar. Útigángur mjög lakur…Grasa og sölvatekja er í fjörunni að nokkru gagni. Selveiði hefur áður nokkur verið og kynni enn að vera, ef ágreiningslaust væri við Krýsuvíkur ábúendur. En hjer eru misgreiningar nokkrar um landamerki og vita menn óglögt, hvör þessi hlunnindi má með rjettu brúka…Heimræði er af jörðunni vetur og sumar, en lendíng bág og brimasöm…Torftekja til húsaþaks og heytorfs sendin, og mjög bæði gagnslítil og erfið. Vatnsból er erfitt bæði til nautnar fyrir menn og peníng sumar og vetur…“ JÁM III, 8-9.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

1840: „Slétt tún eru á ísuskála, en lítil rækt er í þeim; litlir eru hagar þar og fremur graslítið pláss, því fellin þar um kring að norðanverðu eru ber og graslítil eins og líka hraunið þar strax fyrir sunnan, sem nær allt til og þó langt austur fyrir Selatanga. Er þar líka vatnsskortur mikill nema fjöruvötn, sem bæði eru brúkuð til neyzlu og handa fénaði.“ segir í sóknarlýsingu, Landnám Ingólfs III, 141.
„Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.“, segir í örnefnaskrá.
„Á Ísólfsskála féll eldhús [í jarðskjálftum 28. og 29. janúar 1905].“ – ÞT Ferðabók I, 184. Athugasemd á túnakorti: „Bærinn fluttur frá sjó, bygður að stofni og kálgarðar árið 1916. Jörðin hafði þá verið í eyði 3 ár.“

Selsvellir (sel)

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

„…Hraunsseli, sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík. Þrengslin eru þar innar með hálsinum þar sem hraunið gengur næst hálsinum að vestan. Síðan taka við Selsvellir og þar upp af Selsvallafjall. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn í Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum. Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls.
Staður í Grindavík átti selstöðuna á Selsvöllum, sbr. 1703: „Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum.“ – JÁM III, 22. 1840: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík.“ segir í sóknarlýsingu og ennfremur: „Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér, gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. … Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið.“ Landnám Ingólfs III, 134. 1844:

Selsvellir

Á Selsvöllum.

“ … í bréfi sr. geirs Bachmanns til biskups árið 1844 … segir hann … að hann hafi notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. – Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 nautgripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þetta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestssetursins „leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu“. Ef þessu héldi fram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir „óhemju átroðning og yfirgang“.“ GB Mannlíf, 43-44. 1883: „Selvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju. Er þar ágætt haglendi og vatn nóg, lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunið. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grinavík, en er nú af tekið. Sjást þar enn tvennar eða þrennar seltóttir. Nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt og reka þangað fé og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra en víða þar, sem mikil byggð er. Væri það nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit á hálsinum.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir tóftum á Selsvöllu í skýrslu frá 1993: „Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel greina þær enn. … Þarna eru rústir í hraunjaðrinum sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í seli á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprestsins.“ – Árið 1703 hföfðust útileguþjófar við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár – Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Drykkjarsteinn (þjóðsaga)

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

„…Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga…Norðanvert við Slöguna er Drykkjarsteinn.“, segir í örnefnaskrá AG. „Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drykkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpa skál en litla um sig, og þar stóð oftast vatn í, sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.“, segir í örnefnaskrá.
„Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1840: „… frá Krýsuvík út eða vestur til Grindavíkur, annar [vegur], og til Njarðvíkur sá vestlægari vegur. Skiptast þeir hjá Drykkjarsteini, markverðum þess vegna, að í enni stærstu holu, sem í hönum eru, fæst eður hefur oftast verið vatn, nema máske í allra langvaranlegustu þerrum, til svölunar ferðafólki á þessum langa vatnslausa vegi. En fyrir fáum árum síðan skyldu nokkrir ferðamenn örmæddir af þorsta ekki hafa fundið vatn í steinsholunni og einn þeirra fyrir þann skuld ósæmt í hana, og er sagt, að síðan hafi hún verið jafnan þurr. … Steinn þessi stendur á þurru aurmelsholti.“ segir í lýsingu Selvogsþinga 1840. 1883: „Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls. Á leiðinni er á einum stað, á hálsi nokkru fyrir norðaustan Ísólfsskála, svokallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergssteinn með djúpum holum í. Sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita.“ ÞT Ferðabók I, 180.

Hraunssel (sel)

Hraunssel

Hraunssel.

„Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur, sem Hraunssel heita.“, segir í örnefnaskrá.
„…sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls. 1840: „Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum.“ segir í sóknarlýsingu. 1883: „Komum við fyrst að Hraunsseli (155 m). Það er nú í rústum, en ágætt grras er í kring og dálítil vatnsdeigla í klettunum fyrir ofan.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir Hraunsseli í skýrslu frá 1993: „Veggjarhleðslur uppi standandi þótt þær hafi látið á sjá. Þarna var sel frá Hrauni.“

Hraun (bústaður)

Hraun

Hraun við Grindavík.

26 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 9. 1847: Jarðardýrleiki 25 hdr. JJ, 84. Hjáleigur 1703:
Vatnagarður, Garðhús (í eyði) og ein ónefnd við heimabæinn. JÁM III, 10-11. Hjáleigur í örnefnaskrá: Draugagerði, Bakkar (Litla-Hraun), Sunnuhvoll, Hrauntún. Ö-Hraun LJ, 1.

Hraun

Brunnur á Hrauni.

1703: „Rekavon í betra lagi…Heimræði er árið um kríng en lending voveifleg…Engjar öngvar. Útigángur í lakasta máta hjer í sveit.“JÁM III, 9-10. Heimildir frá 18. öld gefa nokkra hugmynd um bújörðina Hraun, og virðast af þeim sem hún hafi þá verið einna lökust í sveitinni. Saga Grindavíkur I, 135. 1840: „Þar eru falleg tún og vel ræktuð; hefir nefndur hreppstjóri [Jón Jónsson] látið mikið slétta í túni sínu, og er þar þó ekkert illþýfi. … láglendið allt um kring túnið að vestan, norðan og útnorðanverðu er svarta lausasandur og lágar hraunklappir … Vatnsskortur er mikill á bæ þessum … Eigi verður þar höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega fluttir langt í burtu á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni. Bágt er þar og með beiti í fjöru á vetrum, því fjara er þar allsstaðar há, en lítið útgrynni. Gengur því oftast fé og hross í Þorkötlustaðanesi um vetur, hvar, eins og á öllum bæjum í Grindavík, er betri fjara en á Hrauni.“ Landnám Ingólfs III, 140.
„Bærinn stendur við sjó vestanvert við Hraunsvík, rétt utast við hana vestanverða.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Bær þessi er hinn allra reisulegasti í sókninni…uppbyggð nú í seinni tíð þrjú stór og reisugleg timburhús.“SSG

Bænhús (kapella)

Fornleifar

Kapellan á Hrauni – friðlýstar fornleifar.

1840: „Á Hrauni var forðum bænhús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“ segir í sóknarlýsingu. „Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstraumfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er, að það hafi komið upp, þegar bænhús var aflagt á Hrauni (sennil. á 17. öld).“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Enginn vafi leikur þó á því, að kirkja hafi verið á Hrauni á miðöldum og allt fram yfir 1600, og virðist hún hafa gegnt mikilvægu hlutverki. Við vitum að sönnu ekki með vissu, hvenær kirkjan var reist, en…voru líkur leiddar að því, að með „Lónalandi“, sem getið er um í Vilkinsmáldaga, væri átt við Hraun. Fái sú tilgáta staðist, er ljóst að kirkja hefur verið risin á Hrauni árið 1397 og vafalaust allnokkru fyrr, en í Vilkinsmáldaga segir um „Lónaland“ og kirkjuna þar, að Staðarkirkja eigi fjórðung í jörðinni og „…skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Með þessu er átt við það, að til Staðar skyldu renna leigur af jarðarpartinum eftir því sem umsemdist milli þess, er gætti kirkjunnar í „Lónalandi“, og ábúenda þar. Á hinn bóginn kemur ekki fram, hver þar var, sem gæta skyldi kirkjunnar. Hún virðist því ekki hafa verið prestsskyld, engar heimildir eru fyrir því, að til hennar hafi verið goldin neins konar gjöld eða tollar, og er því líklegast, að Staðarklerkar hafi samið um kirkjugæsluna við ábúandann á „Lónalandi“ (Hrauni). Engar heimildir eru um kirkjuna á Hrauni frá 15. og 16. öld. Árið 1602 skýtur henni skyndilega upp í annálum, en við það ár segir Fitjaannáll: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík..og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Þessi útför hefur væntanlega verið ein síðasta kirkjulega athöfnin, sem framkvæmd var í kirkjunni, eða í bænhúsinu, á Hrauni.
Kirkjan mun hafa verið aflögð skömmu eftir þetta og í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: „Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er nú fallin fyrir um 100 árum ongefer (circa vel paulo ante annum 1600).“ Saga Grindavíkur I, 137-38. Í vísitasíu Staðar frá 1642 kemur fram að kirkjan þar átti klukku „sem kom frá Hrauni“ – Saga Grindavíkur I, 108-109.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

1840: „Á Hrauni var forðum bænahús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“SSG.
„Milli Festar [berggangur sem gengur úr Festarfjalli] og Dunkshellis upp með hömrunum með sjó er Hraunssandur. Heldur nær bæ en hellirinn er Hvalhóll. Rétt vestan við Hvalhól er smávík, sem heitir Hrólfsvík.
Upp af henni er lægðardrag, sem nefnt er Kapellulág.“, segir í örnefnaskrá AG. „Skeljabót er næst fyrir norðan Bótina [017]. Þar eru k[l]appir nefndar Skeljabótarklappir. Vondafjara er þar fyrir norðan. Síðan kemur Hrólfsvík, Efri-og Fremri-með skeri á milli…Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn, þegar hann var þjóðminjavörður, og taldi hann að þetta hefði verið enzkur verlsunarstaður.“, segir í örnefnaskrá LJ. „Á Hraunssandi, um það bil einum kílómetra fyrir austan Hraun, er örnefnið Kapellulág.“ Saga Grindavíkur I. „Ca. 8 m SA af malarvegi og 26 m SV af hæl 5150“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Lítil rúst í Kapellulág, við veginn á Siglubergsháls.“ Friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. „Þar er smágrjótrúst. Er til þjóðsaga um rúst þessa.“, segir í örnefnaskrá AG.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Kapellulág heitir lægðardrag nokkurt upp með veginum sem liggur frá Hrauni í Grindavík upp á hálsinn (Siglubergsháls). Í draginu er dálítil grjótrúst, nokkuð grasigróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðast vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir I al. á hæð. Nafnið Kapellulág bendir til þess, að hér hafi verið Kapella, án efa ætluð ferðamönnum til að gjöra þar bæn sína áður en þeir lögðu á Krýsuvíkurhálsa, sem hafa verið álitnir hættulegir eftir að jarðeldar runnu þar ofan. Rústin er raunar lítil til að vera kapellutóft.

Kapella

Kapellutóftin við Hraun eftir uppgröft.

En hafi kapellan verið af timbri og grunnur af grjóti undir, þá mundi rústin svara því, að vera leifar af þeim grunni. Einkennilega munnmælasaga hefir myndast um þessa rúst. Hún er á þá leið: Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjunum elti hann, og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapellulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þá dysjaður, og á rústin að vera dys hans.“ BJ.
Fornleifarannsókn í Kapellulág 1954: „Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið „Húsið“. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni…Það var þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymst minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið; 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út. Veggjarþykktin hefur verið um 1 m, eftir því sem næst verður komizt. Húsið hefur snúið frá austri til vesturs, þó lítið eitt til norðvesturs. Vesturgafl hefur verið úr timbri og dyr á að norðan.
„Fyrir nokkru benti Þórður Tómasson mér á merkilega heimild sem fram hjá mér fór en miklu máli skiptir. Í Biskupaannálum séra Jóns Egilssonar, sem hann skrifaði rétt eftir 1600, segir svo um biskupstíð herra Gissurar Einarssonar (þ.e. 1542-1548): „Á hans dögum slógust þeir Erlendur á Strönd og menn hans við Engelska í Grindavík, og fengu menn Erlends miklar skemmdir. Hann lét og þar um bil drepa tvo menn engelska, saklausa, – þeir lágu eptir, – annan á Bjarnarstöðum í Selvogi, þar í dyrunum, er hét Jón Daltun; hann sendi eptir honum í Fljótshlíð austur. Annan lét hann drepa á sandinum fyrir ofan Hraun í Grindavík, þar sem nú er kapellan; sá hét Nikulás“. – Safn til sögu Íslands I, Kph. 1853, bls. 86…þarna skrifar greinagóður maður um 1600 að Kapella sé á Hraunssandi…Í fljótu bragði mætti þetta virðast ótrúlega lítið guðshús, jafnvel þótt kapella sé, á eyðilegum stað…Lítil bænhús við alfaraveg voru (og eru) víða til í kaþólskum löndum. Hér á landi eru dæmi um slíkt mjög fá. Þess vegna væri mikil um vert að geta með vissu sagt að litla húsið í Kapellulág sé í raun réttri slíkur helgistaður.“ KE. Sumarið 2000 kom Bjarni Einarsson í Kapellulág: „5 x 6 m (NA-SV). veggir úr grjóti, en form á rústinni ekki sýnilegt. Rústin er 0,6 m há og mjög blásin. Friðlýsingarhæll er utan í rústinni að NV verðu.“
Dysin hefur hnitið 63°51.04 N 022°21.45 W.

Dalssel (sel)

Dalssel

Í Dalsseli.

„Rétt innan við Innstadal, norður undir hrauninu, sem hér heitir Dalahraun, eru Nauthólsflatir, og austast á þeim er hóll, sem heitir Nauthóll…Innst með Fagradalsfjalli, eða beint norðan þess, er gamalt sel, sem hét Dalssel, og inn af því undir vesturhorni fellsins, sem heitir Fagradals-Vatnsfell, er Fagradals-Hagafell.“, segir í örnefnaskrá AG.

Sandakravegur (leið)

Sandakravegur

Sandakravegur.

„…norður af Höfða er Sandfellið…Vestan við Leggjabrjótshraun, Fagradalsfjalls. Næst við Kálffell er Eldborgir. Svo tekur við mikið hraunflæmi og afarfornt, sem heitir Dalahraun…Skammt vestur af Fagradalsfjalli er í því tveir hólar með talsverðu millibili, og heita þeir Innri-Sandhóll og Sandhóll, sem er hærri og sunnar. Meðfram fellinu liggur hér gamall vegur, norðan úr Vogum, og heitir hann Sandakravegur. Lá hann um Móhálsa.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Sá norðasti [aðalvegur] kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun …, fram hjá Fiskidalsfelli og Skógfellunum, sem öll eru að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.“ segir í sóknarlýsingu.

Dúnkhellir (hellir)

Dunknahellir

Dúknahellir á Hraunssandi (lengst t.v).

„Fyrir austan hana [Kapellulág] er allmikil hæð, og af henni skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnkhellir. Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til að festa skip…“ KE.
„… hafi Írar fest þar skip sín. Þessir járnhringjar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefður verið þarna.“KE. „Munnmæli eru um það, að í Selskeri, framundan Eystri-Nípu [á merkjum Hrauns og Ísólfsskála], hafi verið annar af tveim festarboltum og að þar hafi forðum verið skipalega. Þetta er þó fremur ólíklegt, vegna þess að á þessum slóðum er sjór sjaldan kyrr og erfitt að athafna sig við út- og uppskipun.“ segir í Sögu Grindavíkur I. Munnmæli um skipshringi Íra í sjávarhömrum við Grindavík pr. í Þjóðsögur og munnmæli 1899, s. 1.

Þorkötlustaðir (bústaður)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

60 hdr 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. JÁM III, 11, 14. Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13. 1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tímthúsið Borgarkot. SSG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…“Eptir þremur afsals bréfum 8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84. Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir.
1703: „Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.“JÁM III, 12, 14.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 1935.

1840: „Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.“ Landnám Ingólfs III, 139. „Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.“Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. „…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.“Saga Grindavíkur I, 129.
21.9.1670: „Áður en Sigmundur [Jónssson] tók við búi á Þórkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornshús“, „hús innar af skála“, eldhús, klefa og anddyri. Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu [000]. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.“ Saga Grindavíkur I.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst framundan þeim vegg svo sem 1/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt að ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var sæmilegur grjótveggur, rúml. I al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart við það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim var öllum eldslitur. Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

En auðséð var að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mestallt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þuml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þuml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tík við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefðir verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum „eldaskdla“. Þrepið ætlað til að sitja á , en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur. Eldfjallaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“BJ.

Þorkötlustaðaviti (viti)

„Í [Þorkötlustaða]nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti.“, segir í örnefnaskrá AG.

Vogavegur / Skógfellavegur (leið)

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

„Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima…Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur. Norðan þess er línan um Skógfellshraun…“, segir í örnefnaskrá AG.
„Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi.“, segir í örnefnaskrá LJ. GK-016:020 er „afleggjari“ af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.

Randeyðarstígur (leið)

Þórkötlustaðir

Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.

„Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.“, segir í örnefnaskrá LJ.

Látragötur (leið)
„Látragötur eru slóðar úr vestur enda Stekkatúns fram í Látur.“, segir í örnefnaskrá LJ. „… úr vesturenda [Stokkatúns] og fram í látrin eru götuslóðar, sem Látragötur heita.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Eyrargata (leið)

Eyrargata

Eyrargata.

„Framundan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun…og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð…sem heitir Gjáhólsgjá….Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiftist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót…Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnaflatir.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Önnur gata [en Eyrargata] er norðar og liggur um kirkjuhóla og fram hjá Hópi.“, segir í örnefnaskrá LJ.

Hóp (bústaður)

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

32 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 14. 1847: 33 1/3 hdr. Seld er hún í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eptir afsalsbréfum 8. August 1787 og 26. Januar 1791. JJ, 84. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öld en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talinn hafa heitið Hof.
1703: „Engjar öngvar…Flæðihætt er fyrir sauð. og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“JÁM III, 15. 1840: „Er jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegleikum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. … Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðzt hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda: þegar fiskur gengur afar grunnt, hefir þar inni þorskur fengizt og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi … á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyzlu.“ Landnám Ingólfs III, 138-39. „Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp. Nú er þar hafnarmannvirki Grindvíkinga.“Ö-Hóp, 1.
„Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1902: „Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgi, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni.“BJ.

Goðatóft (álagablettur)

Hóp

Hóp – Goðatóft.

„Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft…“, segir í örnefnaskrá AG.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Goðahús“ svo nefnt á Vesturbæjarhlaðinu, nú fjós“ – friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. BJ: „Bærinn Hóp í Grindavík er sagt að upphaflega hafi heitið Hof, og að þar hafi verið goðahof. Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgir, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni. Þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota það á hvern hátt sem ábúanda hagar. Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; „goðahúsið“ hefir til skams tíma verið geymslu-skemma, en nú er það haft fyrir fjós.“ Árb. 1903, 46-47
„…gamalt goðahús friðlýst, sem ekki má róta.“, segir í örnefnaskrá AG.

Selháls (sel)

Hópssel

Hópssel.

„Vestan úr Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri, og er gamalt fiskimið Melhóll í Gráageira. Þar vestan í fellinu er svonenfndur Selháls, sem vegurinn liggur yfir…Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Þetta er sunnan við Dagmálaholtið.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Dagmálaholt mun vera kennt við eyktamark frá selinu á Baðsvöllum [sel frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni]. Einnig er Selháls kenndur við það sel [Hópssel]… Fast við veginn eru seltættur, sem virðast yngri en hin selin.“, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerðarstaðir (bústaður)

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

125 hdr. 1847, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir…Hjáleigur: Vallarhús, Lambhús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús, Hlaðhús.
Búðir til forna: Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu Gjáhús.“ JÁM III, 15. 1803: Hjáleiga: Nyrðra-Garðshorn, 1847: Hjáleigur eru: Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. JJ, 84. Stundum talað um Járngerðarstaðahverfi.
1703: „Heimræði er árið um kríng og lendíng í betra lagi…Engjar öngvar.“JÁM III, 16. „Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eisn og önnur býli hér.“ Ö-Járngerðarstaðir SS, 1. 1840: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hvefi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt.- Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utantúns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð.

Jángerðarstaðir

Járngerðarstaðir; Vesturbær, Austurbær og Valdastaðir.

Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóttum.“ Landnám Ingólfs III, 137-138.
1840: „Tvíbýli er á heimajörðinni og fylgja hverjum parti 5 hjáleigur…“ segir í örnefnalýsingu „Nokkur um Dalinn…Þessar „holur“ voru nokkurs konar uppsprettur undir bökkunum. Úr þeim var tekið allt vatn í bæinn, sem kallað var, það var til notkunar fyrir fólkið á Járngerðarstöðum, báðum bæjum…“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa (8×5,5 al.), göng (4×1,5 al.), Bæjardyr (6×2,25 al.), skáli (7×3 al.), eldahús (9×4 al.), búr í norðurenda baðstofu (4×5,5 al.), fjós m. 3 básum, hesthús f. 3 hesta, heyhús (8,5×3 al.), smiðja (7×3 al.), sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd (50 fðm), túngarður 160 fðm og traðargarður 85 fðm og kálgarður – Saga Grindavíkur II, 57-58.

Gerðavellir (búðir)

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

„Frá Stórubót [vik inn í landið við Malarenda] liggur Rásin inn í Gerðavallabrunna, sem eru upp af Gerðavöllum. En sjórinn víkkaði hana og brauzt inn á lægra svæði. Sjórinn gegnur gegnum Rásina um flóð.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG. „Munnmæli um útgerð Þjóðverja í Grindavík herma að þeir hafi haft aðsetur á Gerðisvöllum, skammt norðvestur af Stóru bót í Járngerðarstaðalandi.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 251. „Á þessum slóðum voru aðstæður að ýmsu leyti hentugar aðkomumönnum, sem stunda vildu útgerð og kaupskap, en þurftu jafnframt að hafa vara á sér. Þeir voru utan meginbyggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi, og á Stóru bót var bærileg höfn kaupskipum og þokkalegur útróðrastaður, a.m.k. yfir sumartíman. Aðstaða til fiskverkunar á Hellunum var góð og vestan Stóru bótar rís hóll sá, sem Skyggnir heitir og er með hæstu hólum í nágrenninu. Af honum mátti, eins og nafnið bendir til, hafa gát á mannaferðum.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 240-41. „Heimildir um „Tyrkjaránið“ 1627 herma, að þá hafi danska kaupskipið legið í Járngerðarstaðasundi, og af heimildum um ránið verður ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi búðir kaupmanns staðið í landi Járngerðarstaða. Þar mun verslunin og hafa haft bækistöðvar sínar til árins 1939, en þá hættu kaupmenn að sigla á Grindavík …“ segir þar ennfremur á s. 253. Þegar verslun hófst á ný í Grindavík 1664 var hún færð til Arfadalsvíkur.

Skipstígur (leið)

Skipsstígur

Skipsstígur.

„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Miðvegurinn, sem ýmist kallast Járngerðarstaða- eða Skipstígsvegur, liggur í útnorður fyrir sunnan Þorbjarnarfell, og er þá Þórðarfell, Súlur og Stapafell allt að vestan og sunnanverðu.“ segir í sóknarlýsingu.

Baðsvellir (sel)

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu haga oflitlir og þröngvirr. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.“ segir í jarðabók Árna og Páls. „Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig … Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll.“, segir í örnefnaskrá AG.

Stekkjarhóll (stekkur)
„Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baða sig…Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll [Stekkhóll]“, segir í örnefnaskrá AG. „Þetta með seltóftina og Stekkjarhól getur verið rétt. Þetta var þá víst í Hópslandi.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.

Gyltustígur (leið)

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

„Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni…Vestan í Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr.“, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerður (legstaður)

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

„Eitt örnefnið var við sjávargötu, þegar gengið var (til skips, sem kallað var) austur að lendingum. Á þá leið gengu sjómenn frá Járngerðarstöðum, Garðhúsum, Vallarhúsum, Velli og Gjáhúsum, nú Vík. Það var lítil mishæð, svo sem um 30 fet á lengd og 10 fet á breidd og svo sem 4 fet á hæð, grasi vaxin. Þetta var kallað Járngerður.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
„Þar átti að vera grafin sú merkiskona, sem eitt sinn bjó á Járngerðarstöðum, og mátti ekki við leiðinu hreyfa. En nú er það nú samt horfið fyrir nokkru.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
Rannsókn í Gullbringusýslu og Kjósarsýslu sumarið 1902 eftrir Brynjúlf Jónsson: “ Járngerðaleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum í Járngerðarstaðahverfi. Ég lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.“BJ.

Engelska lág (vígi)

Jángerðarstaðir

Engelska lág.

„Upp af Stórubót, á Hellum, sem kallaðar eru, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns Breiða …“ – „Aðsetur [enskra kaupmanna á fyrri hl. 16. aldar] var nokkuð fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn, þar sem heitir „úti á Hellum“, upp af Stóru bót, og er líklegt, að þar hafi útræði þeirra og verslunarhöfn staðið á þessum slóðum hefur mikið land brotið á síðustu áratugum, og vafalaust einnig á fyrri öldum. Er því erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig aðstæður hafa verið fyrir nær hálfu árþúsundi. Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld.

Jángerðarstaðir

Virkið.

Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið …“ segir í Sögu Grindavíkur I. „… stóðu búðir Jóhanns Breiða og félaga hans skammt upp af Stóru bót, sem er u.þ.b. einn kílómetra fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn. Þar er örnefnið Engelska lág (eða laut), og herma munnmæli, að þar hafi Jóhann Breiði og aðrir Englendingar, sem féllu í átökunum aðfaranótt 11. júlí 1532, verið dysjaðir. Um það bil 5-600 metrum vestar heitir Gerðisvellir … Þar er líklegt, að búðir kaupmannanna frá Lynn hafi staðið.“, segir í Sögu Grindavíkur I, 246-47.
1532: „Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku sig til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.“ Skarðsárannáll.

Þjófagjá (þjóðsaga)

Grindavík

Grindavík – í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

„Stór sprunga klýfur topp [Þorbjarnarfells] og heitir Þjófagjá. Þar herma munnmæli, að flokkur útileguþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað Í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum … Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá, og engar mannvistarleifar hafa fundist þar.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Húsatóptir (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir.

33 hdr. 1840, óviss 1703. Konungsjörð og liggur til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur: Kóngshús og Garðhús. JÁM III, 20. 1836: „Seld með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði.“ SSG, 136. 1847: Jarðardýrleiki 33 1/3 hdr.JJ, 85. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39.
Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946 – GB Mannlíf, 91. 5 tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatófta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamrar (til 1930) og Reynistaður (1934-38).

Húsatóftir

Húsatóftir og Staður – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana 1751.

1703: „Túnið er á næstliðnu vori þann 19. maí virt aldeilis fordjarfað að fjórðúngi sínum. Þeir eftirverandi fjórðúngar mjög spiltir af sandi og enn hætt við meiri skaða. Engjar öngvar. Mestalt land jarðarinnar hraun og sandi undirorpið.“JÁM III, 20. 1840: „…fyrir norðan og útnorðan túnið er víðast hvar náttúrleg gyrðing af lágum hraunhömrum, sem þar gjá er kölluð; líkt er og fyrir sunnan túnið sjálfgerð gyrðing af sama efni, em þeim mismun, að hér liggur túnið fram á klettana, þar sem það að norðanverðu hefir skýli af þeim og liggur upp undir þá…Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa; eru þau og allvel ræktuð.“ Landnám Ingólfs III, 136.
1840: „Bærinn stendur spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti…“ segir í sóknarlýsingu. Á túnakorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar og gætu það verið tveir bæir eða bær og útihúsaþyrping – eru um 20 m á milli.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Aðrar menjar sjást þar ekki. Er líklegt, að kaupmanns“húsin“ hafi verið rifin þegar verzlunin lagðst niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóftum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefir nú.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930 en fram að því hafði verið þar torfbær – GB Mannlíf, 83.
1786 voru heima á Húsatóftum íbúðarhús verslunarmanna, byggt 1777, 10,6 x 7 m að stærð, múrað í binding með torf og grjótveggjum að utan en göflum úr timbri. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, 7,2×4,4 m að stærð m. veggjum úr torfi og grjóti en þak úr timbri – GB Mannlíf, 117-118.

Kóngshús (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóttavör …“ Hjáleiga 1703. JÁM III

Búðasandur (verslunarstaður)

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

„Upp af Kóngshellu er Búðarhella. … Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðafjöru allt frá Tóftavör, sem er vestast í Garðafjöru.“ – GB Mannlíf, 21. „Danska verzlunarhúsið stóð á litlum hól u.þ.b. 80 m upp af Tóftavör.
Ennþá sést móta fyrir grunni þess.“, segir í örnefnaskrá. „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóftum.“ segir í sóknarlýsingu frá 1840. „Á innri klöppinnni [ofan við Kóngshellu], sem er mun hærri, hafði krambúðin síðast staðið. Þar stóð enn fiskisöltunarhús Húsatóftarmanna, er eg reri þar, 1865 og 1866; og þar á klöppinni var aflanum skift eftir róðra og gjört að fiskinum. Þá var þó klöppin umflotin af sjó í stórstraumsflóðum. Nú er hún enn meira umflotin og ekki þykir lengur óhætt að hafa hús á henni. Hefir það nú verið flutt í land, og sjást engin merki eftir byggingu á klöppinni.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903.
„Verzlun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur er nú á. Skipin lágu milli hans og skers, sem heitir Barlest. Í Hólmanum eru enn kengir úr járni, sem skipin voru bundin í. Tangi gekk út að skerinu, og hét Búðartangi, af því verzlunarhúsin stóðu þar, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi.“ ÞT Ferðabók I, 179 „Fyrir mörgum árum var verið að grafa þar fyrir sjóhúsi. Þá fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kóngshöndlunar.“ GB Mannlíf, 85. 1787 voru þar þessar byggingar: Búðin, byggð 1779, 12,5 x 7,5 m að stærð; Eldhús með múraðri eldstó, 6 x 4 m og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð) einnig 12,5×7,5 m að stærð – GB Mannlíf, 117. Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664 en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig nú um set vestur í Arfadal í landi Húsatótta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindavíkurhöfn árið 1751 … má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, þar sem heiti Búðasandur …“ seegir í Sögu Grindavíkur I, 255. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin sem reist var 1731 og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð. Saga Grindavíkur I, 255-56.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745 en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í Grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“ en hann varð endanlega gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806 – Saga Grindavíkur I, 256-65.

Prestastígur (leið)

Prestastígur

Prestastígur.

„Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá…Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.“, segir í örnefnaskrá.
1840: „Sá fjórði og síðasti vegur, sem út úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má nefnast, liggur upp frá Húsatóttum, í útnorður ofan í Hafnirnar, og er hann sá eini, sem héðan verður farinn þangað.“ segir í sóknarlýsingu. = Prestastígur

Byrgi (útilegumannabústaður)

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

„Miðkrókakriki teygist langt inn í apalhraunið [Eldborgarhrauni] úr vesturjaðri Tóftakróka. Í norðvestur af honum, út í apalhrauninu, er dálítið sléttlendi og eru þar nokkur grjótbyrgi, er gefa til kynna, að þar hafi fólk hafzt við, er vildi fara huldu höfði. Byrgin eru vel falin í apalhrauninu, en frá staðnum ber Sundvörðuna í Gyltustíg í Þorbirni.“, segir í örnefnaskrá.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „“Útilegumannabæli“ svo nefnt, í hraunkvos norðvestur af túninu.“ friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. 1883: „Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun … Í því skoðaði ég á einum stað gamlar, mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna, á afskekktum stað í versta brunahrauni. Þar hefir líklega einhvern tíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefir orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir, fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos, á flötum hraunbletti, og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hrunhellum og hleðslan virðist einföld. Gjört hefir verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 5-6 m að lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki; hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennnan kofa var hlaðin tótt, djúp eins og brunnur. Þar fundum við hálffúna, tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraunbrúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi, alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því á þeim var nærri eins þykkt mosalag eins og á hrauninu sjálfu. Enginn veit neitt um þessa kofa; þeir fundust af tilviljun 1872.“ ÞT Ferðabók I, 177-78. „Getgátur eru um, að þarna hafi menn flúið – annaðhvort undan ræningjum eða drepsóttum eða þá að ófrjálsir menn hafi hafzt þarna við, en engar sagnir eru um mannavist þarna. Sléttar klappir eru þarna og hraunið hátt umhverfis. Á klöppum þessum, nálægt miðju, eru þrjú byrgi í röð frá austri til vesturs. Auk þess er rúst af kofa norðaustast í þessari hvilft, undir hárri hraunpípu. Þröngum og djúpum hraunkrika vestan við rústina hefur verið lokað með grjótgarði og virðist þar hafa verið fjárrétt.“, segir í örnefnaskrá.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

Rannsókn Brynjúlfs Jónssonar sumarið 1902: „Útilegumannabæli hafa menn álitið rústir nokkrar í hrauninu fyrir ofan Húsatóftir, svo sem 1 1/2 kl.tíma leið þaðan ef mannavegur væri. En líttfært er að komast þangað nema á einn veg, með því að fara langan krók og þó mjög vandfarið. Má nærri geta, að þar er lítið um mannaferðir, þar eð enginn vissi af rústum þessum fyr en þær fundust af tilviljun litlu eftir 1870….Rústirnar er í kvos, þar sem hraunið hefir klofnað og sinn hraunriminn oltið fram hvorumegin, eftir flötu hrauni, sem áður hefir storknað. Sér að eins á einn veg út úr kvosinni, og á þeim stað er það, sem koma má þangað hesti, ef gætilega er farið. Við fundum 7 tóftir og var hver laus við aðra. Tvær eru afsíðis, suður með austurbrúninni, þær eru litlar og huldar mosa. Inni í kvosinni eru 3 tóftir, sem mynda röð yfirum hana þvera. Hin stærsta þeirra er við vesturbrúnina, nálægt 6 al. löng. 2 fðm. austar er önnur 5 al. löng og þá 7 fðm. austar en hin þriðja, 4 al. löng, og er hún við austurbrúnina. Allar eru þær jafnvíðar: rúml. 2 al.; þær eru bygðar af smáum hraunhellum og aðrar stærri hafa myndað þak, en eru nú fallnar ofan í. Veggirnir standa lítt haggaðir; eru gaflar hæstir og dyr á hliðinni við annan gaflinn, eins á öllum. Vindaugu eru á veggjum og göflum. Eigi snúa þær göflum saman og eigi heldur hliðum, en horfa skáhalt hver við annarri. Ekki virtust okkur þær líklegar til íbúðar, en hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft, svo lág, að veggirnir eru mosa huldir. Það gæti verið niður hrunin fjárrétt. En eigi bendir það þó til þess er Sæmundur [Jónsson á Járngerðarstöðum] sagði: að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni. Inn frá stærstu tótftinni er í hraunbrúninni glufa milli kletta. Sú glufa hefir verið notuð notuð fyrir tóft; hlaðið í skörð og svo reft yfir með breiðum hraunhellum. Þær eru nú fallnar ofan í og hleðslan að nokkru leyti líka. Þetta kynni helzt að hafa verið íveruhúsið. Þar er skjól gott og fylgsni gott. En ólíklegt er að menn hafi getað dvalið til lengdar á þessum stað. Þar hefir víst verið „á flestu góðu mesta óhægð“. Þar hefir ekkert verið til eldiviðar, því þá hefir mosinn ekki verið kominn.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

En gerum ráð fyrir, að íbúar hafi eigi kært sig um eld, hafi eigi viljað láta reyk sjást eða reykjarlykt finnast frá hýbýlum sínum. En þá er einn gallinn þó verstur. Þar fæst ekkert vatn nema regnvatn, eða snjór á vetrum….Ekki er hægt að skilja, til hvers litlu tóftirnar, sem fyrst getur, hafa átt að vera. Þær eru svo smáar, að það er eins og börn hafi bygt þær að gamni. Og trúa myndi ég, að þetta væri alt saman eftir stálpuð börn t.a.m. 10-14 ára gamla drengi ef líklegt væri, að þeir hefðu komið á þennan stað. En það sýnist mér ekki vera.“ Árbók 1903. 1959: „Skammt vestur af Sundvörðunni, sem er við austurbrún þess hluta Grindavíkurhrauns, sem við hana er kennt, er hraunkvos, sem er opin móti vestri. Hefur apalhraunið þar fyrir austan kvíslast í tvennt og þannig myndað kvosina. Í kvosarbotninum er slétt helluhraun, alþakið mosa, en litlum öðrum gróðri. Í kvos þessari eru rústir af mörgum smáum kofum, hlöðnum úr grjóti, og tvær rústir eru uppi á brún apalhraunsins fyrir sunnan kvosina. Rústir þesaar eru mjög vel faldar inni í hrauninu, og þar eiga að jafnaði engir leið um, enda voru þær ókunnar, þar til þær fundust af tilviljun veturinn 1872. … Stærsta tóttin innst í kvosinni hefur verið byggð inni í hraunviki, og að norðanverðu hefur hraunbrúnin verið notuð fyrir vegg.

Eldvörp

Dagbjartur Einarsson í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni.

Þessi tótt er langmest úr lagi gengin af öllum tóttunum, svo að erfitt er að ákveða lögun hennar og stærð. Þó virðist hún hafa verið um 4 m á lengd að innanmáli og 1,50 m á breidd, þar sem hún er breiðust. Í henni hefur verið milligerð, sem skipti henni í tvö herbergi. Bendir Brynjúlfur á, að þessi tótt sé líklegust til að hafa verið mannabústaður. Enn fremur getur Þorvaldur Thoroddsen þess, að bak við þennan kofa sé önnur tótt, djúp eins og brunnur, og þar hafi hann fundið tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Varla getur hér verið átt við aðra tótt en innri endann á sjálfri tóttinni í hraunvikinu, en hann hefur verið aðskilinn frá hinum hlutanum með millivegg og Þorvaldur því kallað hann sérstaka tótt. Þetta eru eunu trjáleifarnar, sem fundizt hada í rústunum, og annars er ekkert, sem bendir til að nokkur spýta hafi verið í þeim. Reft hefur verið yfir allar tóttirnar með hraunhellum, en þakið er allsstaðar dottið niður og hellurnar eru inni í tóttunum eða við þær. Stærstu hellurnar eru um 80 X 90 cm að stærð. Tótt 7 er hringmynduð, og veggir hennar eru miklu lægri en hinna tóttanna. Segir Brynjúlfur eftir Sæmundi bónda á Járngerðarstöðum, að þar hafi hann fundið ösku og skörung úr járni. Ef gert er ráð fyrir að tóttin í hraunvikinu hafi verið aðal-íveruhúsið á þessum stað, liggur næst að halda, að hringmyndaða tóttin hafi verið eldhús eða eldstæði. Tóttirnar nr. 8 og 10 eru mjög litlar og ómerkilegar að sjá. En tótt 9 er einkennilegust allra tóttanna. Eiginlega eru það þrjár tóttir, sem snúa göflum saman, en oðnast hver í sína áttina. Þessar tóttir eru miklu minni en tóttirnar inni í kvosinni. Í einni þessara tótta er ein þakhella enn óhögguð, og eru það einu leifarnar af uppistandandi þaki í rústum þessum. Að lokum skal þess getið, að skammt fyrir norðan kvosina, sem rústirnar eru í, er annað hraunvik, sem gegnur inn af sömu hraunsléttunni. Innst í því hefur verið hlaðið upp í öll skörð, svo að þar hefur myndazt aðhald, sem varla hefur verið gert til annars en að handsama fé. Hraunvik þetta er opið að framan, svo að varla hefur verið um eiginlega fjárrétt að ræða. … öruggt vatnsból er ekki nær en í hraungjá einni um 20 mínútna gang sunnar í hrauninu … Enn fremur er á sumum árstímum hægt að fá vatn rétt við kofana (að minnsta kosti var þar vatn í mái 1950). … Þær eru alþaktar mosa og hljóta því að vera nokkurra alda gamlar.“ segir Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Árnastígur (leið)

Árnastígur

Árnastígur.

„Sunnan við Klifgjá er Árnastígur, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfisins og Keflavíkur liggur um Árnastíg og Klifgjá, þar n-austur af er Þórðarfell. Þá er Stapafell og Stapafellsþúfa sem er mikilvægur punktur um landamerki milli ýmissa jarða á Suðurnesjum.“ GB Mannlíf, 23.

Staður (bústaður)

Staðahverfi

Staður.

Kirkjustaður. 37,3 hdr. 1847. Skálholtskirkjujörð. 1657 voru 7 hjáleigur: Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind auk einnar ónafngreindrar í eyði – Saga Grindavíkur I, 104. 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinrófa hjáleigur, Bergskot 1803. Staður var prestsetur til 1928 en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi – Ö-Staður, 4; GB Mannlíf, 49-50. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39. Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar: Merki (1908-43), Lönd (1911-46), og Melstaður (1936-50).

1840: Á Stað eru mikið slétt og í gróanda yfrið fögur tún; eru þau undirorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn af sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1798, og munu þó aðrar enn yngri vera. … Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegu sandfoki, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabiet á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hér heima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnunm manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í …“ sóknarlýsing, Landnám Ingólfs III, 134.

Staður

Staður. Síðasta íbúðarhúsið – byggt um 1930. Klukknaportið framar.

21.1.1925: „Gekk sjórinn langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold „svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.“ “ GB Mannlíf, 49.
„Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann.“ „Grunnur og tröppur steinhússins [b. 1938] sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð. Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn við NV horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.“ AS Staður, 7. Úttekt af bænum á Stað frá 1657 er pr. í Sögu Grindavíkur I, 101-103 og fylgir tilgátuteikning af húsaskipan.

Kirkjugarður / kirkja

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

„Kirkjugarðurinn er í túninu fast suðaustan við bæinn og ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans. Kirkjan stóð vestarlega í garðinum. – Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.“
Um klukknaportið – GB Mannlíf, 55 og um sögu og skrúða kirkjunnar – GB Mannlíf, 136-44, Saga Grindavíkur I, 108-13. Koparbjallan í klukkuportinu er ú Anlaby, sem strandaði utan við Jónsbása.

Sjávarhús (bústaður)
1840: „Sjávarhús, austur við sjóinn hjá lendingunni; eru þau eyðilögð í mikla flóðinu 1798, og stendur þar nú fiskihjallur á háum, berum kletti; fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ segir í sóknarlýsingu. „Staðarklöpp var umflotin á flóði og mun hér áður hafa verið nefnd Hjallhólmi. Um 1916 mátti sjá tættur hæst á Staðarklöpp, en þeim skolaði síðan burt í flóðum. Tættur þessar hafa líklega verið af gömlum fiskihjöllum … Líklega hefur hjáleigan Sjávarhús áður staðið á Staðarklöpp.“ Í GB Mannlíf, 25-26 er talað um hjáleiguna Sjóhús, norðan við Þvottakletta, en að á Staðarklöppinni hafi verið sjóhús fram til 1930 en á bls. 56 segir: „Sjávarhús. Þau stóðu austur hjá Staðarvör en eyðilögðust í Básendaflóðinu 1799. Var síðan reistur þar fiskhjallur á háum, berum kletti og féll sjór milli hans og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ Guðsteinn Einarsson lýsir þessu svo: „Fiskhjallur eða þeirra tíma söltunarhús var á klöppinni; tóftin að því stóð fram um 1930 og var undir því moldarjarðvegur, ca. 2m á hæð, en er nú öllu skolað í burtu og klöppin ber.“ GE Frá Valahnúk.

Staðarvör (lending)

Staðarvör

Staðarvör.

Fast norðan við Staðarklöpp er Staðarvör, flórlögð upp í sandinn. Á.V. og S.V.G. vita ekki með vissu hvenær hún var gerð, en telja sennilegast, að það hafi verið rétt upp úr síðustu aldamótum.“ segir í örnefnalýsingu.
„Innan við Staðarklöpp er Staðarvör, þar sem bátarnir voru settir á land.“ segir Guðsteinn Einarsson.

Básar (þjóðsaga / býli)
„Þá [utan við Sölvabása] koma Flóabásar (kallast nú Hróabásar), eign Staðarkirkju. Þar skal hafa staðið bær og heitið í Básum.“
ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Háleyjar (þjóðsaga / býli)

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

„Þá koma Háleyjar. Á Staðarkirkja þar hálfan viðreka en Viðeyjarklaustur hálfan, og hefur sá helmingur fylgt Húsatóftum fyrir þá almennilegu leiguna, sem annars af jörðinni gengur. Í Haleyjum skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Á sjálfri Háleyjabungu er grasgróður, en hún er þó minna en 1/3 er gróin og hvergi er bæjarstæði eða sýnilegt vatnsból. Algerlega gróðursnautt er austan og vestan við bunguna. Engar fornleifar eru á þessum stað.
„Fyrir innan Krossvíkur tekur við Háleyjaberg og þá Háleyjar. Þar voru talin góð fiskimið skammt undan landi, og rústir og tóttabrot uppi á kampinum geta bent til þess, að þarna hafi fyrrum verið útræði. Um sjósókn frá Háleyjum eru þó engar öruggar heimildir, en hafi hún verið einhver, er líklegast, að útvegurinn hafi verið frá Húsatóttum. Húsatóttamenn áttu sölvatekju í Háleyjum, og er reyndar alls ekki loku fyrir skotið, að byrgistrústirnar séu leifar eftir þær athafnir. Þeir, sem á sölvafjöruna fóru, hafa að líkindum legið við þarna út frá og sjálfsagt þurrkað sölin, eftir því sem mögulegt var.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Í örnefnalýsingu segir: „Talið er, að á Háleyjum hafi fyrrum verið útræði. Til þess benda m.a. kofarústir framarlega á Háleyjabungu.“ sbr. GB Mannlíf, 30. Hið rétta um þessa rúst kemur fram í skýrslu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903: „Þar er ágætur lendingarstaður. Skammt vestur frá Krossvíkum, en á landi er þar hraun eitt og ekkert einkennilegt. Að eins er þar ofurlítil rúst eftir sjóbúð, sem bygð var seint á 18. öld. Þá gjörði Grindvíkingur einn, er Jón hét, bæ í Vatnsfelli, þar sem nú er bær vitavarðar, og hafði útræði frá Háleyjum. En það er langt frá Vatnsfelli, og gat hann ekki sótt sjó að heiman. Því bygði hann búðina. En honum reyndist ókleyft að lifa á þessu nýbýli sínu, og fór þaðan aftur eftir 2 ár. Síðan hefir Háleyjalenfing ekki verið notuð.“ Árbók 1903, 44. Leitað 1998 en ekkert fannst – starfsmaður í Saltverksmiðjunni sem segist mikið hafa gengið á þessu svæði kannst ekki við þessar rústir.
Um 1860: „Skarfasetur heitir hin yzta tá á Reykjanesi; þa er þar austur frá kallað Rafnkelsstaðaberg, þá Háleygjahæð …“ sgir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Fyrir innan Básinn tekur við mishátt berg, 10-40 metra hátt. Það er oftast nefnt Krossvíkurberg, en Guðsteinn Einarsson kveðst einnig hafa heyrt það kallað Rafnkelsstaðaberg. … Ekki er vitað til þess, að bæjarnafnið Rafnkelsstaðir hafi nokkurntíma  verið til í Grindavíkurhreppi, og reyndar mun engin jörð á Suðurnesjum hafa heitið svo, nema Rafnkelsstaðir í Rosmhvalaneshreppi.“ segir í sögu Grindavíkur I. Einnig er getið um þennan stað í örnefnalýsingu: „… utar tekur við Krossvíkurberg, sem einnig er nefnt Hrafnkelsstaðaberg (Ath.: í frb. var það oft haft Hrakkelsstaðaberg). Bendir nafnið til að þarna hafi einhvern tímann verið bær.“
Gróðurlausir sjávarhamrar.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að þar hafi verið bær nefndur Hrafnkelsstaðir – Árbók 1903, 43-44. Engar fornleifar eru við Hrafnkelsstaðaberg.

Mölvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þá kemur Mölvík, Staðarkirkjueign. Þar skal og hafa verið bær og þar er vatnsból hjá.“ Um 1860: „… þá Mölvík, sem samnefndur bær á að hafa staðið við …“ ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Sandvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þar næst Sandvík, Staðarkirkju eign, skal og hafa verið bær.“ segir í Chorographiu Árna Magnússonar.
Um 1860: „… þá Háleygjahæð og Háleygjar, þá Sandgerði tvö við Sandvíkurnar.“ segir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Þarna er talið að hafi verið verbúð, jafnvel bær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ segir Gísli Brynjólfsson í bók sinni um Staðhverfinga. „Hvorki [Sigurður V. Guðmundsson] né [Árni Vilmundsson] kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.“ segir í örnefnalýsingu. ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Krossvík (þjóðsaga / býli)
„Stóra-Krossvík kemur þá. Hana eignar sér Staðarkirkja í Grindavík, en aðrir eigna hana Nesskirkju á Seltjarnarnesi og hefur nú Þorkell í Njarðvík af Nessmönnum rekann þar. Í Krossvík skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Algerlega gróðursnauð klettaströnd.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að bendi til byggðar áður en hraun runnu þar – Árbók 1903, 44.

Herkistaðir (þjóðsaga / býli)
„Þar næst [utan við Krossvík] eru Herkistaðir. Skal hafa verið bær, eign Staðarkirkju.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Þverhnípti klettaströnd, gróðursnautt. Engar fornleifar eru á þessum stað.

Skarfasetur (þjóðsaga / býli)
„Næst Herkistöðum er Skarfasetur. Skal hafa verið bær. Eigning er þar óviss. Þar er og gagnslaust öldungis, því þar er engin fjara. Á Skarfasetri halda menn hafa verið kirkju Reyknesinga og er það fremst á nesinu. Segja menn kirkjuna þaðan færða til Staðar í Grindavík og Grindvíkinga til forna hafa sótt kirkju til Hrauns. Þessa bæi meina menn til hafa verið alla áður en nesið brann. En nú er ekkert til baka nema brunahraun og sandar og er þar  engum amnni byggjandi.“ hafði Árni Mganússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Skarfasetur er gróðurlaus klettatöng og er á henni lítill viti.
Engar fornleifar eru á þessum stað.

Sundlaug

Reykjanes

Sundlaugin á Reykjanesi.

„… örskammt ofan við [Valahnúka] Mölina er gjá í hrauninu, sem heitir Valbjargargjá. Í henni var ylvolgt vatn, og þar var gerð sundlaug um 1930. Laugin var um 30 fermetrar að stærð, og var börnum í Grindavík kennt þar sund. Sjór mun hafa gengið inn í gjána, því dýpi í lauginni fór eftir því, hvernig stóð á sjó. Nú er sundkennsla í gjánni löngu aflögð, en enn má sjá ummerki eftir hana, hlaðinn steinvegg og tröppur niður í vatnið.“ segir Jón Þ. Þór í Sögu Grindavíkur. 1998: Sundlaugin er syðst og vestast í túni frá vitavarðabústað, um 10 m norðan við Sjólaug, um 250 m SSV við Reykjanesvita.
Í náttúrulegri sprungu. Við austurenda sprungunnar hefur veggur verið hlaðinn upp með hraungrýti og myndar „U“ á móts við sprunguna. Gengið er niður í laugina norðantil á austurvegg. Hleðslan í norðurenda er 1,5 m há en þar er klöpp í botninn en suðurendi laugarinnar er 3m djúpur. Veggurinn í austurenda er um 0,7 m hærri en umhverfið en hefur þó tæplega verið vatnsheldur. Mjög sérstætt mannvirki.

Gunnuhver (þjóðsaga)

Gunnuhver

Gunnuhver.

1841: „Hver er á Reykjanesi, Gunna kallaður, skammt eitt í landnorður af Grasfelli. Bullar hann og sýður í leireðju en ekkert sést tært vatn; er hverinn utan í hól; holan, sem sýður í með mörgum augum, er hér um 12-16 faðmar ummáls og niður að eðjunni fullkomnar þrjár álnir. Fremur líkist hver þessi bullandi feni en nokkrum vatnshver og öldungis ólíkur öllum þeim hverum, ég séð hefi í Borgarfirði, Biskupstungum og Laugardal.“ – „Um Hveravelli, sem eru norðaustur frá vitanum, er Gunnuhver, sem mun vera hérna megin merkjanna. Hann er kenndur við Guðrúnu sálugu Önundardóttur, sem steypti sér þar niður á leið yfir í eilífðina.“ Gunnuhver er vel merktur og auðfundinn. Gert hefur verið bílastæði skammt sunnan við hann og gönguleið að honum og pallur við hann.
1860: „“Hverir eru hér út á Reykjanesi fæstir mjög stórir og gjósa ei hátt. [. . .] Einn hverinn er stærstur; í honum krakkar eins og katli. Sá hver er kallaður Gunnuhver,. . . Í þessum hver endaði afturgangan Gunna eftir að hún var búin að ganga aftur um hríð og valda skaða meðal manna. Upphaf sögunnar var það að prestur nokkur átti í útistöðum við Gunnu sem síðan dó og hóf að ásækja fólk og sérstaklega prest og konu hans. Hún dró bæði hjónin til dauða áður en menn tóku sig saman, fóru til Eiríks í Vogsósum sem gaf þeim hnoða og sagði þeim að láta Gunnu taka í. Það gerðu þeir og Gunna elti hnoðann ofan í Gunnuhver og sást ekki síðar.“ – MG. „… gufuhver einn mikill skammft … frá [Gunnuhver] er kominn þar upp á þessari öld … Rétt hjá „Gunnu“ er töluverð fúlga af hreinni kísilsýru (kísill), sem lengi var kölluð postulínsnáma, af því að menn hugðu það vera postulín, en lítill arður hefir enn orðið af henni.“ Bjarni Sæmundsson: Suðurkjálkinn, ÁFÍ 1936, 40.
Vilhjálmur Jónsson á Kirkjubóli (d. 1706) átti í útistöðum við kerlingu eina, Guðrúnu Önundardóttur, út af potti sem hann átti að hafa tekið hjá henni, líklega upp í skuld. Heitaðist hún við hann. Vilhjálmur var viðstaddur greftrun hennar en fannst dauður, blár og beinbrotinn á víðavangi daginn efti. Var prestur fenginn til að vaka yfir líkinu en þóttist eiga fullt í fangi við að verja það fyrir ágangi kerlingar. Afturgangan magnaðist mjög og næst dó ekkja Vilhjálms en fólk sem fór um þar sem lík hans fannst annaðhvort viltist eða varð vitstola. Þegar afturgangan var orðin svo mögnuð að menn sáu hana fullum sjónum voru sendir menn til séra Eiríks í Vogsósum en þegar þeir fóru af stað aftur frá honum fékk hann þeim hnoða sem þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju. Sendimenn fóru þá heim og gerðu eins og fyrir þá var lagt. Þegar Gunna tók í lausa endann á hnoðanu valt það af stað en hún á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin. Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er. JÁM III, 508-510

Heimild:
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað, Svæðisskráning. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.

Grindavík

Grindavík.

Tag Archive for: Grindavík