Genginn var Árnastígur og síðan nyrðri hluti Skipsstígs frá Húsatóftum til Njarðvíkur – 18 km leið. Þar af er Árnastígurinn 12 km að mótum stíganna austan Stapafells. Gangan var með Strandgönguhópnum og liður í leiðsögunámi svæðaleiðsögumanna Reykjaness.
Í Örnefnaskrám Grindavíkur er gefin eftirfarandi skýring á örnefninu Árnastígur: „Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.“ Skipsstígur er gamla þjóðleiðin milli Njarðvíkur og Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfis).
Sólin var ofar skýjum og vætan yfirliggjandi til að byrja með. Á landamerkjum Grindavíkur og Hafna urðu umskipti og sólin varð ráðandi undir niðri.
Gengið var frá upphafsstað við Húsatóftir upp að fyrstu sýnilegu vörðunni við Árnastíginn skammt ofan við golfvöll Grindvíkinga. Eftir það var stígurinn fetaður með vörðurnar á hægri hönd, að einni undantekinni (þ.e. varða við Skipsstíginn skammt ofan gatnamóta Árnastígs nyrst við Rauðamelinn). Með í för voru fræðarar leiðsögumannanema, Ægir og Þorvaldur. Alla leiðina miðluðu þeir af reynslu sinni og þekkingu svo flestir stóðu margfróðari eftir.
Í fyrstu hefur Árnastígurinn verið ruddur slóði, en víða í beygjum má sjá upphafleg einkenni hans.
Skammt sunnan við Sundvörðuhraun m.a. m.a. sjá hlaðið undir stíginn á einum stað þar sem hann liggur á milli jarðfalla. Þegar komið er suðaustan við Sundvörðuhraun liggur frá honum annar stígur (varða við gatnamótin). Sá stígur liggur framhjá svonefndum „Tyrkjabyrgjum“ í krika sunnan undir Sundvörðuhrauni og áfram inn í Eldvörp. Þar eru hleðslur (garðar), auk svonefnds „Útilegumannahellis“ eða „Brauðhellis“. Í honum sjást hleðslur.
Austan Sundvörðuhraun, á hellunni sem er yfirborð Eldvarparhrauns, er stígurinn allsléttur og norðaustan við hraunkantinn sést vel hversu markaður hann er í klöppina eftir hófa, klaufir og fætur liðinna alda. Áður en stógurinn beygir til norðurs má sjá gatnamóti í beygjunni. Úr henni liggur stígur til suðurs niður í Járngerðarstaðahverfis (sem loftskeytastöðin hefur reyndar girt af), að Títublaðavörðu.
Áð var áður en komið var yfir Elvarparhraunið. Þar mátti m.a. sjá „landnemaplöntur“, sem óvíða er að sjá annars staðar en á heitari svæðum. Í áningunni sannaði Vogafólkið enn og aftur að fáir kunna sig betur á ferðalögum. Þeir drukku t.a.m. úr postulíni á meðan aðrir sötruðu ú plastílátum. Áfram liggur stígurinn í gegnum Eldvörpin og inn á Sandfellshæðarhraunið, með jaðri Eldvarparhrauns austan Lágafells og síðan áfram milli þess og Rauðhóls (Gígs), niður misgengi (Klifgjá) vestan Þórðarfells og áfram norður með því austanverðu. Í misgengisberginu, sem þarna er allhátt, er hrafnslaupur, augsýnilegur.
Við Þórðarfellið er sagt að Hafnfirðingar, Njarðvíkingar, Þjóðverjar og Bessastaðavaldið hafi safnast saman hinn örlagaríka júnídag árið 1532 áður en sótt var að Englendingum ofan við Stóru-Bót vestan við Járngerðarstaðahverfið í Grindavík (sumir segja Greindarvík) þar sem 18 enskir voru vegnir og aðrir heftir til skamms tíma. Mun það hafa verið upphafið að lok „ensku aldarinnar“ hér á landi (sjá Grindavíkurstríði I, II, III og IV. undir fróðleikur (Skrár).
Í brekkunni, við stíginn, er ferningslaga hleðsla. Þegar komið er norðvestur fyrir Þórðarfellið vilja flestir halda áfram eftir slóða, sem þar er, en Árnastígurinn liggur þar til norðurs við vörðu og liðast síðan djúpt í móanum í hlykkjum áleiðis að Stapafelli. Áður en komið er að Stapafelli endar stígurinn við vörðubrot, enda bíð að raska svæðinu framundan verulega.
Genginn var slóði norðaustur með Stapafellinu, austur fyrir Hrafnagjá og síðan í námunum norður fyrir það. Þar er einstaklega fallegar bólstrabergsmyndun. Að sögn Ægis er þar einnig „stærsti bólstur í heimi“ og hafði það eftir Sigurði heitnum Þórarinssyni, jarðfræðingi. Ekki verður dregið í efa að hann sé stór. Ægir kynnti myndun bólstarbergsins sem og annarra bergmyndana í fjallinu, s.s. móbergs og gosbergs sem og leik jökuls og sjávar við þau eftir myndun, sbr. Rauðamel og myndun hans sem tímabundins skers.
Haldið var áfram norðaustur eftir Árnastíg undir Stapafellsgjá, þar sem stígurinn er allgreinilegur. Vörðubrot eru víða til hliðar við stíginn. Reynt var að gera vörðurnar greinilegri, en þarna hafr að taka til hendinni og reisa vörðubrotin umm úr sverðinum við tækifæri. Ekki fer á milli mála að sá hluti Árnastígsins, þar sem hann hefur ekki verið yfirkeyrður með jarðvinnuvélum, hefur lítt verið genginn í seinni tíð. Mosinn og gróðurinn bera þess glögg merki.
Þegar komið er að gatnamótum Skipsstígs er stólpi er sýnir með óyggjandi hætti hvar þau eru, en fyrir ókunnuga er erfitt að sjá hvor stígurinn er hvað. Við gatnamótin eru gömul vörðubrot, en nýlegri vörður hafa verið reistar í nánd.
Haldið var áfram norður eftir Skipsstíg. Fallegar, háar og heillegar vörður móta þá leið, flestar „karlskyns“. Á kafla má sjá stíginn vel mótaðan í bergið. Þegar komið var að varnargirðingunni var haldið hiklaust áfram í gegnum hana, yfir varnasvæðið og út hinum megin.
Krókur um hana til austurs hefði kostað u.þ.b. 45 mín. óþarfa göngu til viðbótar, en Skipsstígurinn liggur í gegnum varnargirðinguna á sama stað og hitaveitulögnin. Yfir svæðið er ekki nema u.þ.b. 300 metra gangur. Þetta þarf að bæta, enda notkun svæðisins aflögð að mestu eða að öllu leyti. Ef athygli hins ágæta utanríkisráðherra, sem reyndar hefur gengið með FERLIR, væri vakin á þessu, myndi hann án efa bæta um betur.
Þaðan var strikið tekið eftir hitaveitlínuveginum að Fitjum. Þar er upphafsskilti er segir að þar sé upphaf Skipsstígs (18 km). Reyndar er upphaf Skipsstígs mun austar þar sem hann liðast um móana í átt að Sjónarhól og síðan áfram í átt að vörðunum sunnan varnargirðingarinnar. Stígurinn er þó víða horfinn á því svæði vegna landrofs.
Gangan tók 6 klst. Góð ganga með góðu fólki í góðu og sagnaríku umhverfi.