Umhverfi Grindavíkurvegarins er miklu meira en bara hraun og gamburmosi eða fjöll og gufustrókar tilsýndar. Á leið um veginn, frá gatnamótum Reykjanesbrautar til Grindavíkur, er fjölmargt að sjá um aðdraganda hans – ef vel er að gáð.
Áður fyrr, reyndar um árþúsund, voru
Skógfellastígur.
helstu samgönguæðar til Grindavíkur um Skógfellaveg frá Vogum, Skipsstíg og Árnastíg frá Njarðvíkum og Keflavík og Prestastíg frá Höfnum. Hafa ber í huga að sama gildir um Reykjanesbrautuna sem og alla aðra þjóðvegi landsins.
Skömmu eftir aldamótin 1900 var svo byrjað á því að gera Skipsstíginn vagnfæran frá Grindavík og með Lágafelli, en svo virðist sem horfið hafi verið frá því, en þess í stað ákveðið að ryðja nýja þjóðbraut frá Stapa milli Skógfellavegar og Skipsstígs. Líklega hafa þessar umbætur verið liður í atvinnubótavinnu hreppsins á þeim tíma. Uppgerði kafli Skipsstígsins vestan undir Lágafelli sést enn vel og er einstaklega fallegt mannvirki, sem ekki hefur verið raskað. Við hann er Dýrfinnuhellir. Segir sagan að í honum hafi dulist samnefnd kona með börn sín meðan „Tyrkirnir“ fóru með ófriði á hendur Grindvíkingum. Hellirinn er ekki auðfundinn, en hið sæmilegasta skjól fyrir veðrum og þáverandi illmennum.
Grindavíkurvegur – vegavinnubyrgi á Gíghæð.
Enn má sjá skjól vegavinnumanna atvinnubótahlutans við Skipsstíginn, sbr. ofangreinda ljósmynd, sem tekin var úr því árið 2006.
Gamli Grindarvíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 til 1918. Aðdraganda hans er m.a. getið í fundargerðum Grindavíkurhrepps þar sem skorað er á stjórnvöld að leggja akfæran veg til Grindavíkur í framhaldi af gerð þjóðvegarins til Keflavíkur um Stapa, samþykktum Alþingis um fjárveitingar til vegagerðarinnar, árlegum skýrslum vegavinnuverkstjórans, Sigurgeirs Gíslasonar, athugasemdum við reikningshaldið, svörum hans sem og úttektarnótur í Einarsbúð í Grindavík er hafa varðveist í höndum Erlings Einarssonar, þess sjaldgæfa varðveisluhaldara.
Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.
Vegurinn var greiddur að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af Grindvíkingum. Grindvískir formenn samþykktu, flestir, að láta lifrina ganga upp í kostnaðinn þeim megin. Verkstjórinn við vegagerðina var nefndur Sigurgeir frá Hafnarfirði, reyndur vegagerðarmaður. Hann segir m.a. í skýrslu sinni 11. nóv. 1917 að vegurinn hafi alls verið 16 km og 120 m frá Vogastapa að verslunarhúsum við Járngerðarstaðavík í Grindavík. Við vinnuna voru 35-48 menn að jafnaði frá vori að hausti með 13-16 hesta. Til eru listar með nöfnum vegagerðarmannanna sem og hvað þeir fengu í þóknun fyrir verkið. Þá má vel sjá hvað tekið var út úr Einarsbúð til verksins. Vegna alls þess er hér bæði um merkilega sagnfræðilegar heimildir að ræða og ekki síst fornfræðilegar því minjarnar standa víða enn – óhreyfðar, vegna þess að þær hafa hingar til verið „ósýnilegar“ í hraununum.
Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.
Vegurinn sést enn frá Vogastapa, niður í Selbrekkur (Sólbrekkur) og áfram austan við Seltjörn. Þá sést hann einnig á kafla vestan vegarins vestan Svartsengisfells (Sýlingafells) að Selhálsi og yfir hálsinn.
Meðfram veginum, frá Seltjörn að Grindavík, í Skógfellshrauni, Arnarseturshrauni, Illahrauni og Klifhólahrauni, eru fjölmargar minjar vegavinnuframkvæmdanna, þ.e. búðir og skjól vegavinnumanna. Búðirnar eru á nokkrum stöðum og hafa hlaðin hús á þeim verið svipuð að stærð. Ein ástæðan var sú að vegavinnumenn voru með fjögur þök í fórum sínum og færðu þau á milli búða.
Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.
Því miður varð svæðið meðfram Grindavíkurveginum mjög illa leikið þegar nýi vegurinn var lagður með stórvirkari tækjum. Ekki er ólíklegt að þá hafi margar minjar hreinlega verið eyðilagðar. Sýnilegar minjar enn þann dag í dag eru á u.þ.b. 500 metra millibili meðfram gamla veginum. Ef vegavinnumenn hafa sett að jafnaði upp búðir með því bili vantar nokkrar þeirra nyrst í Skógfellahrauni og Arnarseturshrauni þar sem jarðýtur hafa við umbótagerð farið um langt út fyrir vegstæðið. Helst er að sjá að búðir, sem reistar voru í skjóli við hraunhóla og hæðir eða í hrauntröðum hafi sloppið við eyðileggingu. Í dag hefði verið bæði gaman og fróðlegt að hafa allar búðirnar, en saman mynduðu þær heilstæðasta mynd frumstæðrar vegagerðar um og eftir aldamótin 1900 – þegar allt var enn unnið á höndum með aðstoð hesta.
Grindavíkurvegur – búðir við Bláalónsveginn.
Þegar FERLIR fór í sína 395. ferð um Reykjanesið voru minjarnar við Grindavíkurveginn skoðaðar. Hér á eftir verða taldir upp staðir, sem skoðaðir voru á leiðinni frá Seltjörn að Járngerðarstaðahverfi í Grindavík, en áður höfðu verið skoðaðar minjar allt frá gömlu vegamótum Grindavíkurvegar og Keflavíkurvegar uppi á Stapanum. Þar mótar enn fyrir hleðslum vestan við gatnamótin, í sunnanverðri Njarðvíkurheiði og undir Selbrekkum (í skóginum).
Grindavíkurvegur – Búðir í Hesthúsabrekku.
Við nýlega skoðun kom hins vegar í ljós að við gatnamót Keflavíkurvegar og Grindavíkurvegar og Vogastapa höfðu framkvæmdir, sem unnar voru þar á þessu ári (2006) og því síðasta, eyðilagt þessar minjar. Þó má enn sjá hluta af garðlagi er umlukið hefur búðir vegavinnumannanna.
1. Sunnan Seltjarnar (Selvatns) liggur vegur að Stapafelli. Á milli hans og tjarnarinnar er hlaðin rétt upp á hæð svo og gerði.
Njarðvíkursel.
Handan vegarins eru tóftir sels, Innra-Njarðvíkursels. Selstaðan var nýtt sem hluti af búðum vegavinnumanna um tíma.
2. Austan Grindavíkurvegar, nokkuð sunnan gatnamótanna að Seltjörn (Selvatni), er gömul rudd gata inn í hraunið. Lúpínubreiða er við vegabrúnina þar sem gatan byrjar. Hún liggur að búðum um 50 metrum inn í hrauninu. Þar eru hluti af hlöðnum húsum, skjól og rutt svæði fyrir tjaldbúðir. Skammt sunnan götunnar, nær veginum, er hlaðinn hringur, sennilega skjól fyrir tjöld.
Grindavíkurvegur – búðir norðan Gíghæðar.
3. Skammt sunnar, á hægri hönd eru þrír hlaðnir skjólgarðar utan í hraunhól, u.þ.b. 30 metrum frá veginum.
4. Á vinstri hönd er stigi yfir girðingu, sem liggur samhliða Grindavíkurveginum. Stígur er frá stiganum, varðaður, að helli, sem nefndur hefur verið Hestshellir. Hlaðið er fyrir opið, en dyragat á. Inni í hellinum eru hleðslur. Hann liggur til vesturs, undir veginn, og er um 160 metra langur. Hellirinn var notaður sem skjól fyrir vegavinnumenn, en einnig mun hann hafa verið notaður sem skjól bruggerðarmanna um tíma.
5. Á hægri hönd, örskömmu sunnar, eru klettar um 10 metrum frá veginum. Utan í öðrum hólnum er hlaðið hús, heillegt. Inni í því er skúti.
6. Þegar komið er framhjá gatnamótum vegar að Arnarsetri er jarðfall vinstra megin vegar, rétt fyrir innan girðinguna. Norðan í því er Dátahellir. Í hellinum fundust bein og fataleifar, hnífur, beltissilgja o.fl. af bandarískum dáta, sem hvarf þarna í hrauninu. Beinagrindin fannst þarna fyrir innan stein, sem nemur við hellismunnann.
7. Skammt þar frá, sömu megin, einnig rétt fyrir innan girðinguna, er hlaðið hús, hesthús vegagerðarmanna, ofan í hraunrás. Stígur liggur frá því til suðurs og beygir síðan til austurs, að öðru hlöðnu, heillegu húsi, smiðju. Þá blasa við tvö önnur hlaðin hús, svo til heil. Annað var hesthús og hitt var læst verkfærageymsla. Austan við þau er rutt skeifulaga svæði. Það hefur annað hvort, eða hvorutveggja, verið notað undir tjald eða til járninga. Þar má a.m.k. enn sjá steininn, sem notaður var til þeirra verka.
8. Handan vegarins er bílastæði. Í vesturjarðri þess er djúp hola, sem myndaðist er unnið var við nýja veginn. Í holunni er u.þ.b. 60 m langur hraunhellir; Dollan.
Grindavíkurvegur – skjól sunnan Seltjarnar.
9. Í brekkunni á vinstri hönd eru hleðslur, sennilega skjól fyrir hesta.
10. Á hægri hönd, rétt áður en komið er að gatnamótum vegar að Bláa Lóninu, er stór hleðsla skammt frá veginum. Við hana er önnur hleðsla. Þarna gætu vegavinnumenn hafa hlaðið sér skjól, enda hleðslunar svipaðar hinum, en vitað er að menn, sem lögðu símann til Grindavíkur (strengurinn liggur þarna við) hafi nýtt sér þetta sem skjól.
Grindavíkurvegur – skjól gegnt Svartsengi.
11. Þegar komið er framhjá gatnamótunum og aðeins upp á hæðina eru hlaðin hús, hálffallinn, innan við 10 metra frá veginum. Þó er þarna heill hlaðinn veggur og rutt svæði.
12. Hlaðinn hringur er skammt sunnar, hægra megin vegar, ca. 15 metrar frá vegi. Þetta er líkast til skjól.
13. Hlaðinn stallur er vinstra megin vegarins, ca. 10 mertum frá, rétt áður en komið er út úr hrauninu við slóðan að Svartsengisfelli.
14. Upp úr Svartsengi, þar sem grastungan nær lengst til norðurs, liggur stígur upp í hraunið og áfram í átt að búðunum vestan við Arnarsetrið. Hlaðið er í stíginn á nokkrum stöðum. Líklega er um að ræða stíg vegagerðarmanna þar sem farið var með vistir áður en vegurinn náði að Svartsengi, en byrjað var á honum að norðanverðu, á Stapanum. Þarna fyrir ofar við stíginn er klettur, nefndur September, en tekið var mið af honum þegar verkið var látið falla niður eitt haustið.
Grindavíkurvegur – skjól sunnan Seltjarnar.
15. Rétt áður en komið er að Selhálsi er tótt í hlíðinni á vinstri hönd, innan við 10 metra frá veginum. Þetta er tótt Hópssels, en Hóp átti land þangað. Skammt þar sunnan af sést móta fyrir stekk í hlíðinni.
16. Hægra megin vegarins, vestan í Selhálsi, sést móta fyrir tótt í lægð. Líklega er um að ræða hluta af Hópsseli.
17. Á Baðsvöllum var sel frá Járngerðarstöðum. Tóttir selsins sjást í vesturjaðri hraunsins norðan Þorbjarnarfells. Einnig er tótt austar á völlunum, við vatnsstæði, sem þar er. Vegna ofbeitar var Baðsvallarselið flutt upp á Selsvelli, þar sem Grindarvíkurbæirnir höfðu lengi í seli, bæði austan á völlunum og suðvestan í þeim. Enn sést móta vel fyrir tóttum seljanna á S
elsvöllum.
Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.
18. Þegar komið er upp á Selháls (Dagmálaháls) sjást Gálgaklettar vel á vinstri hönd. Þar segir þjóðsagan að hreppsstjóri hafi hengt þjófa eftir að hafa fangað þá við laugar norðan Þorbjarnarfells.
19. Á hægri hönd er Þorbjarnarfell. Efst í því er Þjófagjá. Þar áttu þjófarnir 13 að hafa hafst við á milli þess að þeir herjuðu á bæina fyrir neðan. Uppi á fjallinu eru einnig stríðsminjar.
20. Brekkan, niður að bænum, kallast Hesthúsabrekka. Vinstra megin hennar, áður en komið er að vatnsgeyminum, eru hraunhólar. Þar höfðu vegagerðarmenn búðir sínar áður en vegagerðinni lauk. Skammt norðar er gígur þar sem þeir tóku efni í veginn.
21. Sunnan vatnsgeymisins er Gaujahellir, Jónshellir öðru nafni. Hann lá áður alla leið þangað sem félagsheimilið Festi er nú. Hellirinn er sagður hafa verið notaður sem brugghellir um tíma. Saga er af mönnum, sem lokuðust inni í hellinum í jarðskjálfta, en komust út.
Grindavíkurvegur
Hellirinn er í einni af þremur gjám, sem lágu í gegnum Járngerðarstaðahverfið. Sú austasta heitir Stamphólsgjá. Í henni var Grindavíkurhellir, sögufrægur hellir í árdaga hraunhellafundanna hér á landi, en síðustu leifar hans fóru forgörðum með nýjasta hverfinu, sem nú rís í bænum. Hellinum hafði lítil virðing verið sýnd því við opið hafði verið kastað alls kyns rusli áður en endanlega var fyllt upp í það. Opið er nú undir einu vegarstæðinu, en frá því lá alllöng og greiðfær rás til suðausturs. FERLIR hefur að öllum líkindum farið síðustu förina um hellinn (árið 2006) áður en honum var lokað.
Eins og sjá er fjölmargt athyglisvert við Grindavíkurveginn, sem reyndar mjög fáir vita um. Ef skoða á þessa staði er mikilvægt að ganga vel um og minnug árdaga; að raska ekki minjunum. Þá má ekki skilja eftir rusl eins og fólk er svo gjarnt á að gera að stöðum sem það heimsækir. En að teknu tilliti til umhverfisins getur þetta allt breyst með skömmum fyrirvara – þegar fram líða stundir.