Gengið var frá höfninni í Keflavík neðan við Stekkjarhamar sunnan Vatnsness yfir að Grófinni, fæðingarbletti hins gamla bæjarhluta og rót byggðarinnar norðan Njarðvíkur.
Keflavíkurhöfn – 1959-1960.
Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana með tímanum að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Höfuðstaður svæðisins var þó eftir sem áður í Grindavík á sunnanverðu nesinu þar sem fólkið átti sér lengri undangenginn uppruna og betri samsvörun með landinu. Í Keflavík vann fólkið aðallega við sjósókn og fiskveiðar, líkt og í Grindavík þar sem fólkið þekkti auk þess menningu í raun, en faldi hana þó lengst af fyrir öðrum – undir steini. Menningin í Keflavík var af öðrum toga. Hún var lengi vel að mestu tengd versluninni og staupgjafmildi kaupmanna, en síðar barst hún niður í byggðalagið með öldum ljósvakans yfir girðingu umleikis Háaleiti.
Keflavík – Norðfjörðsverslunin.
Rekja má verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnarkaupmönnum. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Sjósókn var þar jafnan mikil, einkum eftir árið 1800 og þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur 1907 markaði það tímamót í þróun staðarins.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.
Vatnsnesviti.
Frá því að Keflavík varð kaupstaður hefur hann verið stærsti kaupstaðurinn á Reykjanesinu. Afkoma bæjarins byggist enn nokkuð á sjósókn og vinnslu sjávarafla en einnig á margvíslegri þjónustu ekki síst í tengslum við Keflavíkurflugvöll, en vægi fiskvinnslu og útgerðar er ekki mikið í atvinnulífi bæjarins í dag.
Keflvíkingar voru mjög framarlega í saltfiskvinnslu og í byrjun 9. áratugarins var Keflavíkurhöfn önnur mesta útflutningshöfn sjávarafurða landsins. En í kjölfar kvótakerfisins fór að síga á ógæfuhliðina í þessari undirstöðuatvinnugrein á svæðinu og hefur bátum fækkað og flest fiskvinnslu- og frystihús hætt störfum.
Sjósókn Suðurnesjamanna á sér langa sögu. Frá Keflavík, Garði, Leiru, Njarðvíkum og Ströndinni var lengst af gert út fremur litla báta, tveggja manna för, fer- og sexæringa, og sóttu þeir mest í Garð- eða Leirusjó. Verslunin H.P. Duus í Keflavík keypti fyrstu skútuna til staðarins árið 1898, en útgerð hennar, og fleiri skipa sem verslunin eignaðist, var að mestu flutt til Reykjavíkur. Vélbátaútgerðin varð fljótlega mun mikilvægari fyrir Keflavík, en fyrsti vélbáturinn, Júlíus, var keyptur til staðarins frá Borgundarhólmi árið 1908, og frá árinu 1910 stækkaði flotinn ört.
Fyrir 1920 komu fáar nýjunar fram í fiskverkuninni, og mestallur afli sem átti að selja var saltaður og sólþurrkaður. Útvegsbændur lögðu fiskinn inn hjá kaupmönnum á ýmsum verkunarstigum.
Í Lesbók Morgunblaðsins, 23. ágúst 2003 er grein um “Hugsunarlaust örlæti hafsins”. Í henni segir m.a. að “Íslendingar hafa átt í aldalöngu, óttablöndnu ástarsambandi við sjóinn. Öldum saman hafði þjóðin framfæri sitt aðallega af jörðinni, hún var bændaþjóð, svo að sjósókn skipti ekki miklu máli fyrir afkomu landsmanna. Bændur reru sumir til fiskjar handa sjálfum sér, en bátar þeirra voru jafnan litlir og leyfðu þeim ekki að róa langt frá landi. Þegar fram liðu stundir, stækkuðu bátarnir og sjósókn efldist verulega og varð sums staðar að álitlegri aukabúgrein meðfram ströndum landsins. Þó urðu ekki umtalsverð brögð að bátaútgerð fyrr en um miðja 19. öld; orðið útvegsbóndi birtist ekki á prenti fyrr en þá. Um þær mundir var vistarbandið enn við lýði. Bændur gátu beitt vinnuhjú sín hörðu og gerðu það margir, enda áttu þau ekki í önnur hús að venda. Vinnumenn voru gerðir út til fiskjar á opnum bátum og beinlínis sendir út í opinn dauðann í stórum stíl. Mannfallið var gríðarlegt: staðtölur sýna, að tíunda hverju karlmannslífi lauk með drukknun talsvert fram eftir öldinni sem leið“.
Keflavíkurhöfn fyrrum.
Halldór Laxness skrifaði magnaða ritgerð um málið lýðveldisárið 1944 og nefndi hana ,,Hvert á að senda reikninginn?” Þar lýsir hann því, hversu ,,mannfólkinu er kastað í sjóinn gegndarlaust eins og ónýtu rusli. Þessi sóun mannslífa er talin nokkurs konar sjálfsagður skattur, sem þjóðin greiðir útgerðinni.” Hann heldur áfram: ,,Upp og ofan er heimsstyrjöld meinlaust grín hjá því að veiða fisk á Íslandi. Hvern er verið að afsaka og fyrir hverjum að hræsna með því að prýða þessa sóun mannslífa með heitinu ,,fórn” og öðrum hátíðlegum nöfnum? Væri ekki nær að spyrja: Hvar er morðinginn?”
Sjósókn á vondum bátum hjó djúp skörð í þjóðlífið. Þess voru ófá dæmi, að feður færu í sjóinn með fullorðnum sonum sínum og skildu ekkjurnar eftir með lítil börn. Það kom fyrir, að sjávarpláss misstu flestar fyrirvinnur sínar í einni og sömu sjóferðinni. Eigi að síður héldu menn áfram að æða til sjós í óhæfum bátum.
Hvers vegna? Ætli skýringin sé ekki sú, að menn þekktu ekki annað. Þessum ósið – að halda til hafs á ófærum bátum – var í fyrstu þröngvað upp á ófrjálsa vinnumenn í krafti vistarbandsins. Mannfallið komst í vana. Og þegar vinnumenn voru loksins orðnir frjálsir að því að velja sér búsetu og verkveitendur á eigin spýtur og vélbátar höfðu leyst skúturnar af hólmi, þá var ósiðurinn búinn að taka sér bólfestu í vinnumenningunni og þjóðarsálinni, nokkurn veginn eins og drykkjuskapur, skuldasöfnun og slagsmál á okkar dögum.
Fiskvinnsla í Keflavík fyrrum.
Sjávarútvegur átti drjúgan þátt í umsköpun íslenzks samfélags á öldinni sem leið, enda þótt forsenda framsóknarinnar í efnahagslífinu væri aukin verkmenning og menntun og fiskivæðing landsbyggðarinnar hæfist ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 1970. Fram að þeim tíma var Reykjavík helzti útgerðarstaður landsins. Gjafir náttúrunnar geta þó reynzt vera blendin blessun. Ofveiði á tækniöld sýnir að örlæti getur snúist upp í andhverfu sína. Mikið mannfall við sjósókn á sinni tíð ýtti undir umburðarlyndi gagnvart þessum atvinnuvegi. Slíkt var hugsunarlaust örlæti hafsins.”
Gengið var framhjá Vatnsnesvita, en hann var byggður 1922 og mun vera 89 metra hár.
Þegar komið var að Stokkavör var rifjuð upp lýsing þess er Hallgrímur Pétursson steig þar á land 1637 ásamt nokkrum öðrum þeim, sem leystir höfðu verið úr haldi Tyrkjanna, þ.á.m. Guðríði Símonardóttur. Þar er og minnismerki um sjómenn þá, sem fórust í lendingu við Stokkavör 6. apríl árið 1930. Þegar komið var að Grófinni voru þátttakendur komnir með saltbragð í munninn og búnir að fá nokkuð góða tilfinningu fyrir aðstæðum sjómanna fyrr á öldum, þótt ekki hafi verið fjallað um verklagið eða fiskvinnsluna að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Heimildir m.a. :
-Lesbók Morgunblaðsins, 23. ágúst 2003.
-Saga Íslands á 20. öld eftir Helga Skúla Kjartansson.
-Saga Keflavíkur, Bjarni Guðmarsson.
Saga Keflavíkur.