Færslur

Grótta

Gengið var um Seltjarnarnes umhverfis Bakkatjörn og skoðaðir hringirnir á túninu, sem sjást vel úr flugvél, einkum er sól er lágt á lofti.

Seltjarnarnes

Mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur árið 1700. 

Þarna er um nokkra misstóra hringi að ræða. Á teiknuðu korti af Seltjarnarnesi frá árinu 1802 er einn þeirra nefndur Nesborg. Stekkur er í holtinu vestan Valhúsahæðar og ekki er ólíklegt að sel hafi verið þar áður frá öðrum Reykjavíkurbænum og dragi nesið nafn sitt af því. Hitt var í Ánanaustum og var nefnt Reykjavíkursel. Seltjörn sést ekki lengur, en þó má grilla í umgjörð hennar utan við ströndina milli Suðurness og Gróttu. Mikið landrof hefur orðið þarna á síðustu öldum.
Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547-52. Nafnið þykir fornlegt og benda til þess að þar hafi lengi verið búið. Á fyrri árum stóð bærinn

Grótta ekki á eyju heldur á breiðu nesi. Árið 1703 er talin hjáleiga frá Nesi. Er jörðin alla öldina nefnd meðal átta bestu jarða Framnessins.

Grótta

Grótta.

Í Básendaflóðinu 1799 varð Grótta að eyju og var jörðin talin óbyggileg eftir það. Kveikt var á fyrsta vitanum í Gróttu þann 1. september 1897 og síðan var núverandi viti reistur árið 1947 og hefur lýst sjófarendum æ síðan.
Landslæknisembætti Íslands var stofnað með konunglegri tilskipan árið 1760. Í framhaldi af því var Nesstofa byggð 1761-63, sem læknissetur, lyfjaverslun og vísir að fyrsta læknaskóla landsins. Landlæknar gegndu þá einnig uppfræðslu yfirsetukvenna og tilvonandi læknisefna.

Grótta

Grótta.

Landlæknar og lyfsalar sátu um lengri tíma í Nesi og meðal annars fyrsti apótekarinn, Björn Jónsson. Oddur Thorarensen var síðastur lyfsala í Nesi en hann flutti apótekið með sér til Reykjavíkur árið 1834. Eftir það var Nes í einkaeign fram til 1975 er ríkið keypti húsið og gerði að lækningaminjasafni.
Byggð á Seltjarnarnesi er vafalaust frá þjóðveldisöld, en athafna manna í Seltjarnarneshreppi hinum forna er fyrst getið árið 1851. Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir allt nesið, sem liggur milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Austasta jörðin var Kópavogur.

Elliðarár

Elliðaár 1946.

Elliðaárnar mörkuðu skil við Mosfellssveit. Eyjarnar Örfirisey og Engey voru í Seltjarnarneshreppi árið 1703 og Viðey bættist við seinna. Margar jarðir voru smám saman teknar undir Seltjarnarneshrepp og kom hluti jarðarinnar Reykjavík þar fyrst ásamt Arnarhóli og Örfirisey. Landamörk milli jarða í Seltjarnarneshreppi hinum forna hafa síðan orðið að mörkum sveitarfélaga og má í því sambandi minna á mörk Reykjavíkur og Seltjarnarneskaupstaðar. Þau munu að verulegu leiti markast af landamerkjadómi, sem dæmdur var um 1600 um mörk Víkur annars vegar og Eiðis og Lambastaða hins vegar.

Reykjavík

Seltjarnarnes 1943.

Margir útvegsbændur voru á Seltjarnarnesi og árið 1884 áttu Seltirningar 40 sexæringa og 9 áttæringa, en eiginlegt upphaf þilskipaútgerða hófst 1883-84. Fyrstu þilskipin voru skonnortur og á árunum 1884-85 eignuðust Seltirningar 8 skonnortur. Árið 1897 er tímamótaár í sögu þilskipaútgerðar á Seltjarnarnesi því þá komu tveir fyrstu enskbyggðu kútterarnir í eigu Nesbúa. Skútu- og þilskipaútgerð frá Seltjarnarnesi náði hámarki 1904. Eftir það fækkaði skipum sem gerð voru út frá Seltjarnarnesi og má segja að árið 1908 hafi verið síðasta árið í sögu skútuútgerðar á Nesinu. Ástæður þess, að skútuútgerð Seltirninga fékk svo skjótan endi, eru efalaust ýmsar, en stór verslunarfyrirtæki í Reykjavík keyptu skútur Seltirninga og héldu áfram útgerð þeirra.

Seltjarnarnes

Landamerkjasteinn á Nesinu – áletrun.

Að lokum skal á það minnst að hafnleysi og annað aðstöðuleysi í landi var útgerð Seltirninga ávallt erfitt og erfiðara eftir því sem skipin urðu stærri.
Vegna landsigs á síðari öldum hafði sjór brotið land við Gróttu og árið 1788 segja danskir mælingamenn að 5 álnir séu milli flóðafara á nyrðri grandanum og hafa því náttúruhamfarir á borð við Básendaflóðið átt hægt um vik að eyða landinu við Gróttu á þann hátt að hér eftir varð hún eyja í hafi, að vísu landtengd með granda sem stendur upp úr á fjöru.
Þessu ógurlega sjávarflóði; Básendaflóðinu er lýst svo: Aðfaranótt 9. janúar brá til útsuðuráttar um allt Suður- og Vesturland, með þeim býsnum, sem fæstir höfðu áður lifað. Um öll Suðurnes, allt austur að Eyrarbakka, gerði feikna hafrót og stórflóð sem olli gífurlegum skemmdum.

Seltjarnarnes

Útsýni af Seltjarnarnesi.

Básendakauptún á Miðnesi lagðist af með öllu, því að sjór og veður braut þar öll bæjar- og verslunarhús; fékk kaupmaðurinn með naumindum forðað lífi sínu og fjölskyldu sinnar að Loddu á Stafnesi. Fiskgarðar og túngarðar þar syðra sópuðust heim á tún, sumstaðar tók jafnvel af túnin, skipauppsátur og brunnar. Tvær kirkjur fuku, Hvalneskirkja og kirkjan að Nesi við Seltjörn sem sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum.

Hvalreki

Hvalreki á Seltjarnarnesi 1955.

Á Seltjarnarnesi gerði óveður þetta mikinn usla og olli miklum skemmdum. Um 18 skip og minni róðrarbátar brotnuðu, svo að sum fóru í spón, en önnur löskuðust svo, að ekki gátu sjófær talist. Fyrir innan Lambastaði gekk sjór yfir þvert nesið milli Skerjafjarðar og Eiðsvíkur, svo að ekki var fært mönnum né hestum. Er haft eftir jafnathugulum heimildarmanni og biskupinum á Lambastöðum, að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhníptu máli, en í öðrum stórstraumsflóðum.
Í Örfirisey spilltist land svo af sand- og malarburði, að eyjan mátti lítt byggileg teljast, enda lögðust býli þar úti í eyði.

Hernám

Fallbyssa á verði á Valhúsahæð.

Undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar var farið að huga því að gera skipulagsuppdrætti að landi vestan í Valhúsahæð, þ.e. landi Bakka og Bygggarðs. Var þetta land í eigu Neskirkju og skyldi það selt undir íbúðarhús til fjáröflunar fyrir kirkjuna. Flestir fundir hreppsnefndar vour um þetta leyti haldnir á heimili oddvita i Kópavogi. Um sumarið 1947 gengu undirskriftarlistar um Nesið, þar sem farið var fram á skiptingu hreppsins í tvo hreppi. Sýslunefnd Kjósarsýslu var hlynnt skiptingu hreppsins í tvo hreppi og lá stefnumarkandi ákvörðun Félagsmálaráðuneytis um skiptingu í nóvember 1947 sem tók gildi á áramótum sama ár.

Heimild m.a.:
-http://www.seltjarnarnes.is/

Seltjarnarnes

Brunnur á Seltjarnarnesi.

Grótta

Í Degi árið 2001 segir Freyja Jónsdóttir frá Gróttu:
Grotta-1“Fyrir Básendaflóðið 1799 þótti Grótta góð bújörð og hefur þar komið til að útræði þaðan var gott. Í Seltirningabók eftir Heimi Þorleifsson segir: „Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547 – 52, en nafnið þykir fornlegt og bendir til þess, að þar hafi lengi verið búið”. Grótta er eitt helsta kennileiti og útvörður Seltjarnarness. Hún geymir mikla og merkilega sögu sem ekki verður gerð skil í einni blaðagrein en reynt verður að draga fram það helsta. A átjándu öld var þarna mikil útgerð og segir í lýsingum Skúla Magnússonar að 1780 hafi verið gerðir út þaðan fjórir bátar.
Grótta var lengi hjáleiga frá stórbýlinu Nesi en ábúandi Gróttu mátti hafa sína eigin skipaútgerð. Að hafa sfna eigin útgerð hefur laðað að stórhuga útgerðarmenn þessara tíma. Stutt var á miðin og munaði miklu að róa frá Gróttu eða innan úr Reykjavík. En Grótta á sinn óvin þar sem Ægir gamli er, sem brýtur báru við strönd og sækist eftir landi Gróttutanga. Í aldanna rás hafa menn reynt að verjast landbroti með því að hlaða varnargarða við fjörukambinn.
Fyrsti nafnkunni ábúandinn var Sigurður Erlendsson, hann bjó í Gróttu árið 1696. Fram að flóðinu mikla eru á Gróttu sjö ábúendur fyrir utan það að stundum virðist hafa verið þar tvíbýli.
Í Básendaflóðinu voru ábúendur á Gróttu þau Sigurður Magnússon, fæddur 1751 og Guðrún Guðnadóttir, fædd 1748. Þau hjón virðast hafa búið áfram í Gróttu eftir flóðið þó að Grótta sé í sumum heimildum talin óbyggileg. Líklegt er að Sigurður hafi haft framfæri sitt af sjósókn og eða bátasmíði en hann er nefndur timburmaður í einu manntali (sjá Seltimingabók Heimis Þorleifssonar). Á heimili Sigurðar og Guðrúnar voru yfirleitt fimm til sex manns.
Grotta-2Jörðin hefur sennilega verið í eyði frá 1827 til 1840. En þar áður bjuggu á Gróttu Magnús Sigurðsson, sonur Sigurðar Magnússonar og Guðrúnar Guðnadóttur, fyrri ábúenda. Magnús var fæddur 1789. Kona hans var Ingibjörg Guðmundsdóttir, fædd 1797. Þau hjón fluttust að Bygggarði árið 1827.
Árið 1852 eru Jón Jónsson og Ketilríður Kristjánsdóttir farin að búa á Gróttu, ásamt þremur börnum sínum, Marju 4 ára, Ingjaldi 3 ára og Sigurði 1 árs. Þau bjuggu áður á Hvammi í Kjós, en lifðu á sjófangi eftir að þau fluttu að Gróttu. Jón var fæddur 1823 í Reynivallasókn. Ketilríður var fædd 1822 í Glaumbæjarsókn. Jón bjargaði tveimur mönnum úr sjávarháska út af Gróttutöngum árið 1859, en fórst sjálfur í sjóslysi með Einari í Ráðagerði 2. febrúar 1870. Ketilríður bjó áfram í Gróttu með bórnum sínum og fer ekki á milli mála að hún hefur verið kjarkmikil dugnaðarkona. Við manntal seint á árinu 1870 kemur fram að börn hennar og Jóns sem eftir eru í eyjunni með móður sinni eru: Marja 19 ára, Guðbjörg Dagný 12 ára og Jón 6 ára. En Ingjaldur og Sigurður koma ekki fram í Gróttu við það manntal. Þá er getið um einn vinnumann í Gróttu, Guðmund Helgason 45 ára.
grotta-11Samkvæmt manntali frá árinu 1880 bjó þá í Gróttu, Þórður Jónsson, 44 ára skipasmiður og sjómaður, fæddur í Reykjavíkursókn og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir 30 ára gömul, fædd í Stokkseyrarsókn. Einnig eru á heimilinu þrjú börn Þórðar frá fyrra hjónabandi: Pétur 15 ára, Þórður 13 ára og Guðrún 12 ára. Ennfremur fjögur börn þeirra hjóna: Sigurður 5 ára, Guðrún 4 ára, Þórður 3 ára og Guðbjörg á fyrsta ári. Það er eftirtektarvert að tvö börn af seinna hjónabandi Þórðar heita sömu nöfnum og tvö af börnum hans af fyrra hjónabandi. Þórður flutti í Mýrarhúsaskóla árið 1894 og gerðist þar umsjónarmaður. Þorvarður hefur búskap Árið 1901 er Þorvarður Einarsson, fæddur 1863 í Arnarbælissókn, tekin við búskap í Gróttu ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur, fæddri 1859 á Morastöðum í Kjós. Hjá þeim eru þrjú börn þeirra: Jón Albert 4 ára, fæddur í Saurbæjarsókn, Guðrún 3 ára og Vilborg 2 ára sem báðar eru fæddar í Reykjavíkursókn. Einnig eru á heimilinu Benjamína Sigurjóna Sigfúsdóttir 13 ára, dóttir húsfreyjunnar og Einar Jónsson 72 ára, ættingi sem varð ekkill 1892. Einar lifði á framfæri sonar síns og hefur líklega verið faðir Þorvarðar. Þorvarður mun hafa byrjað búskap í Gróttu árið 1895 en þá gaf Gróttutún ekki af sér nema tæp tvö kýrfóður og var bæði þýft og rýrt. Þorvarður var bæklaður og gekk við hækju en dugnaður hans hefur verið með eindæmum, hann sléttaði túnið og stækkaði og gaf það af sér um 90 hestburði af töðu þegar hann lést árið 1931. Guðrún kona hans lést árið 1929.
Fyrsti vitinn í Gróttu var reistur árið 1897. Kveikt var á vitanum 1. september sama ár. Turninn undir vitanum var 8 metra hár, úr grjóti og steinsteypu. Vitinn var með spegli og snúningsáhaldi, sem tók ljósið af með vissum millibilum. Þessi ljósabúnaður var fundinn upp af Fleischer yfirverkfræðingi í Danmörku.
grotta-12Árið 1912 var skipt um ljósabúnað vitans en upphafleg ljósakróna var notuð. Þá var sett upp blosstæki með dissousgasi. Árið 1918 var aftur skipt um tæki sem voru með gasglóðarnetlum og jókst ljósmagn vitans með því. Vitinn sem nú stendur í Gróttu er mun hærri en gamli vitinn. Kveikt var á honum 11. nóvember 1947. Þorvarður Einarsson bóndi á Gróttu tók við vörslu vitans og gegndi starfinu til dauðadags. Eftir hans dag tók Jón Albert sonur hans við vitavörslunni. Þorvarður varð eigandi að hálfri jörðinni Gróttu 17. maí 1904, sem hann keypti af Runólfi Ólafssyni í Mýrarhúsum. En 16. ágúst árið 1902 selja landssjóði Íslands jörðina Gróttu, þeir Guðmundur Einarsson í Nesi, Sigurður Ólafsson í Nesi, Guðmundur Ólafsson í Nýjabæ og Þórður Jónsson í Ráðagerði. Líklegt er að þarna sé um hálfa Gróttu að ræða því í afsalsbréfi stendur að býlið sé ekki metið til dýrleika og sé jarðarhúsa og kúgildalaust. Í kaupsamningi frá Runólfi Ólafssyni til Þorvarðar Einarssonar kemur fram að Runólfur eignast hálfa Gróttu með afsalsbréfi dagsettu 2 1 . ágúst 1902. Þann 29. apríl 1921 selur og afsalar í hendur landssjóði helming jarðarinnar Gróttu Þorvarður Einarsson og er þá býlið Grótta allt orðið í eigu landssjóðs.
Íbúðarhúsið sem enn stendur á Gróttu byggði Þorvarður 1904. Húsið var ein hæð og ris á hlöðnum kjallara. Byggt af timbri, klætt járni að utan og á þaki. Í kjallaranum er gólfið úr steinsteypu. Seinna var byggt ofan á húsið og er það nú með tveimur þriggja herbergja íbúðum. Gengið er inn í það um bíslag á suðurhlið. Lítill gluggakvistur er á suðurhlið á þaki.
grotta-5Fjögurra kúa fjós og hlaða stóðu skammt frá húsinu sem hvort tveggja var byggt úr timbri og járni. Mjög gestkvæmt var í Gróttu sérstaklega fyrst eftir að vitinn var reistur þar. Í Seltirningabók er þess getið að um 2600 gestir hafi komið í Gróttuvita frá því að hann var reistur og til ársins 1927 en þá var þrjátíu ára afmæli vitans. Eins og að framan greinir tók Jón Albert við vitavörslu að föður sínum látnum. Hann stundaði mest sjóinn en hafði fyrstu árin lítilsháttar búskap. Jón Albert byggði sjóbúð og bætti lendingaraðstöðuna með því að gera bryggju fyrir framan sjóbúðina. Á bryggjunni var braut sem gekk í gegnum sjóbúðina og handspil fyrir ofan sjóbúðina. Við brygguna var pallur sem báturinn var settur á sem síðan rann eftir brautinni, þannig að einn maður gat tekið bátinn upp. Jón Albert hugsaði vel um æðarvarpið í Gróttu og í hans tíð voru yfir hundrað kollur á hreiðrum. Um árabil bjó hann einn í Gróttu. Jón Albert Þorvarðarson drukknaði í róðri 12. júní 1970. Eftir lát hans hefur ekki verið búið í Gróttu.
Árið 1978 fékk Rotarýklúbbur Seltjarnarness sjóbúð Alberts til eignar. Systur Jóns Alberts gáfu Rotarýklúbbnum húsið með þeim skilyrðum að það yrði gert upp, en þá var sjóbúðin komin í niðurníðslu. Suðaustan við sjóbúðina var hjallur og geymslukofi fyrir vestan hana. Þessar tvær byggingar hafa nú verið rifnar. Rótarýmenn hafa gert sjóbúðina upp og nýlega var hún stækkuð til muna. Þeir hafa einnig verið ötulir við að halda fjörum eyjarinnar hreinum.
Seltjarnarnesbær eignaðist Gróttu 8. nóvember 1994. Fyrst var ráðist í að endurgera vitavarðarbæinn að utan og síðan að innan og koma honum í upprunalegt horf, en fjósið, hlaðan og kamar sem stóð þar skammt frá voru rifin. Nýtt hús hefur verið byggt norðan við vitavarðarbæinn sem er fyrirhugað fræðasetur.
Grótta er vel gróið friðland með fjölskrúðugu fuglalífi. Þar er mikið kríuvarp ásamt ótal öðrum fuglategundum. Líklegt er að flestar tegundir fugla sem hafast við á Seltjarnarnesi verpi að einhverjum hluta úti í Gróttu. Þar er einnig talsvert fjölskrúðugur fjörugróður. Frá 1. maí til 1. júlí ár hvert er eyjan alfriðuð og allar mannaferðir um hana óheimilar. Friðunin er til þess að auka fuglavarp í Gróttu en það hefur dregist saman á síðustu árum og þá sérstaklega æðarvarpið.
Nokkuð er um það að fólk virði ekki friðlandið og gangi um eyjuna þegar fuglinn er í hreiðurgerð, sem óhjáhvæmilega hefur í för með sér að fuglinn hrekst í burtu. Það hefur komið fyrir að út í Gróttu hafa komið menn þeirra erinda að tína egg. Þó er svæðið merkt sem friðland og næsta ótrúlegt að fólk skuli ekki virða það.”

Heimild:
-Dagur, 27. janúar 2001, bls. 1-III.

Grótta

Grótta – friðlýsing.

Grótta

“Af Gróttu fara litlar sögur, og ekki er mjer kunnugt um hvenær bygð hefir hafist þar, en upphaflega var þarna hjáleiga frá Nesi, og hefir þó sennilega áður verið útróðrastöð.
Þess er getið í Jarðabók grotta-223Árna og Páls 1703 að kóngsskip, fjögra manna far, hafi fyrrum gengið þaðan, en því hafi ekki fylgt nein verbúð, og hafi skipshöfnin hafst við í sjóbúð, sem Nesbóndi átti þar og goldið leigu fyrir. Í fógetareikningum þeirra Kristjáns skrifara og Eggerts Hannessonar á árunum 1548—1552 má sjá, að greitt hefir verið formannskaup á báti, sem haldið var út frá Gróttu (sem Kristján skrifari kallar Gröthen). Er fyrstu árin talað um sexæring, en seinasta árið um fjögurra manna far.
Nafnið Grótta er kvenkynsorð af nafninu Grótti, sem þýðir kvörn. Er fræg orðin kvörnin Grótti, sem malaði alt er maður vildi og Fróði ljet þær Fenju og Menju mala á gull, en þær mólu salt í staðinn, svo að skipið sökk og síðan varð sjórinn saltur. Hér hefir þótt allmikill brimsvarrandi á fjöruskerjum. Um það ber líka vott hin alkunna draugsvísa:
Dauðinn sótti sjávardrótt,
sog var ljótt í dröngum.
Ekki er rótt að eiga nótt
undir Gróttutöngum.
grotta-222Landslagi á framanverðu Seltjarnarnesi fyrir framan Valhúsahæð, er svo háttað, að það er að mestu sljett. Um mitt nesið er allstór tjörn, sem heitir Bakkatjörn, en margir villast nú á og kalla Seltjörn. Beggja megin við hana eru sjávargrandar, sem tengja Suðurnes við land. Er það sljett og grasi gróið, og þar héldu Reykvíkingar einu sinni þjóðhátíð sína. Á hernámsárunum lagði herinn Suðurnes undir sig, en nú hefir lögregla Reykjavikur þar bækistöð sína og stundar þar æfingar. Inn í Bakkatjörn fellur sjór um ofurlítinn ós út við Suðurnes þegar stórstreymt er. Norðan við nyrðri grandann er dálítil vík, sem verður að lóni með stórstraumsfjöru, því að þá örlar á skerjakögur fyrir utan það. Þetta er Seltjörn sem nesið er kent við. Hefir áður verið land fyrir framan hana, en sjórinn brotið það gjörsamlega, eins og víðar hjer um kring. Smnir halda að nafn tjarnarinnar sje dregið af því, að þarna hafi Reykjavíkurbóndi áður haft í seli, því að alt Seltjarnarnesið var upphaflega land Reykjavíkur. En þessi tilgáta um nafnið er sennilega alröng. Sel voru höfð upp til heiða og fjalla, en ekki á útnesjum. Er og í fornum heimildum getið um það, að Reykjavík hafi átt selstöðu þar sem kallað var Víkursel hjá Undirhlíðum (seinna kallað Gamla Víkursel). Hafði selið þar skógarhogg til eldneytis. Einnig er talið að bóndi (eða bændur) í Örfirisey hafi haft selstöðn undir Selfjalli, þar sem heitir Örfiriseyjarsel og átti það þar hrísrif og lyngrif til eldneytis. Um elstu og stærstu jarðirnar á Seltjarnarnesi er þess líka getið að þær hafi átt sel. Lambastaðir áttu selstöðu undir Selfjalli, þar sem hjet Lambastaðasel, og Nes átti selstöðu í Seljadal undir Grímafelli (nú kallað Grímmanns- eða Grímarsfell) og hjet þar Nessel. Hitt er miklu líklegra að Seltjörn hafi verið kend við sel og að þar hafi upphaflega verið selalátur. Vitað er að selveiði helst hjer við nesið fram eftir öldum, og enn 1703. Er hún í jarðabókinni talin til hlunninda á jörðum báðum megin Skerjafjarðar.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 28. júlí 1946, bls. 309-310.

Grótta

Gróttuviti.