Færslur

Hafnarfjarðarhöfn

Byggð í Hafnarfirði varð til í kringum sjósókn, verslun og siglingar, enda þótti skipalægi sérlega gott í firðinum alla tíð. Bærinn varð snemma á öldum einn helsti verslunar- og hafnarbær landsins og á tímabili var Hafnarfjörður aðal verslunarhöfn á landinu.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn 2022.

Byggðin stóð við sjóinn og mestallt mannlíf í bænum byggðist á virkni í kringum höfnina. Svæðið við Flensborgarhöfn er staðsett í einum elsta hluta hafnar- og athafnasvæðis, í “hjarta” bæjarins, og á sér því langa og mikilsverða sögu. Tengsl við sögu og arfleifð er þýðingarmikill þáttur í umhverfi fólks og er því mikilvægt að gera sögunni skil þegar hugað er að framtíðarskipulagi á þessum stað. Hér verður skyggnst í það helsta í sögu og þróun gömlu hafnarinnar og svæðisins við Flensborgarhöfn.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – hafskipabryggjan; stálþilið komið.

Hafnarfjörður hefur lengi verið talinn vera ein besta höfn landsins frá náttúrunnar hendi, enda er heiti fjarðar og byggðar kennt við höfnina. Englendingar gerðu Hafnarfjörð að bækistöð sinni upp úr aldamótunum 1400, en þá byrjuðu þeir að stunda fiskveiðar og verslun við Ísland.

Flensborgarhöfn
Flensborgarhöfn er innan jarðarmarka Jófríðarstaða, sem upphaflega hétu Ófriðarstaðir.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum. Hvaleyrarlónið var lengi notað til geymslu á skipum, nú er lónið friðað, meðal annars vegna varpstöðva fugla og fuglalífs og er lítið notað. Talsverðar landfyllingar og uppbygging á Suðurhöfninni hafa breytt landslagi mikið við Hafnarfjarðarhöfn. Auk Suðurhafnar er Straumsvíkurhöfn starfrækt í dag og í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 er svæði vestan Straumsvíkur til skoðunar til framtíðarþróunar fyrir höfnina. Á suðursvæðinu er umfangsmikil löndunar- og flutningsþjónusta, þar eru vörugeymslur fyrir frosnar, þurrar og blautar vörur og einnig viðhaldsþjónusta bæði í flotkví og slipp. Á Suðurhöfninni stendur Fiskmarkaðurinn, sem hefur starfað þar í tæp 30 ár (Már Sveinbjörnsson, viðtal 1, 2014; Hafnarfjarðarbær, 2014a).

Með tímanum var Jófríðarstaðalandi skipt upp í nokkur smærri lönd (Katrín Gunnarsdóttir, skv. tölvupósti, 28.3. 2014).

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn 2022.

Fyrsti verslunarstaðurinn í firðinum reis á Háagranda, þar sem nú er norðurhorn smábátahafnarinnar við Óseyrarbryggju. Hann hét Fornubúðir og talið er að Englendingar hafi valið verslunarstaðnum þennan stað eftir að þeir fóru að koma til Hafnarfjarðar snemma á 15. öld, því við grandann var gott skipalægi (Ásgeir Guðmundsson, 1983).
Talið er að þýsku Hansakaupmennirnir hafi reist fyrstu lútersku kirkjuna á Íslandi á svipuðum slóðum. Þýska kirkjan er fyrst nefnd í heimildum 1537, þá sennilega nýbyggð. Kirkjan var tekin niður í kjölfar þess að danskri einokunarverslun var komið á. Álitið er að kirkjan hafi staðið við Óseyri (Sigurður Skúlason, 1933).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1902.

Þýskir kaupmenn stofnuðu Flensborgarverslun undir lok 18. aldar og reistu verslunarhús við sunnanverðan botn Hafnarfjarðar. Kaupmennirnir voru frá Flensborg í Slésvík og nefndu verslunina eftir heimaborg sinni (Sigurður Skúlason, 1933). Verslunarbyggingin Flensborg stóð á svipuðum slóðum og Íshúsið stendur nú.
Farið var um Illubrekku eða sætt fjöru til að komast fyrir klettinn að Flensborg. Heimild: Byggðasafn Hafnarfjarðar Árið 1877 var gamla verslunarhúsinu breytt í skóla, sem nefndur var Flensborgarskóli. Önnur bygging reis við hliðina á gamla verslunarhúsinu árið 1906 og Flensborgartún var sunnan við húsin. Flensborgarskóli var upphaflega barnaskóli, síðar gagnfræðaskóli og kennaraskóli og einnig var þar heimavist. Gamla verslunarhúsið brann árið 1930, en skólahaldi var haldið áfram í nýrri byggingunni. Flensborgarskóla var fundin ný staðsetning á Hamrinum árið 1937 og lagðist þá skólahald af á þessum stað (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Sigurður Skúlason, 1933).

Flensborgarverslun

Flensborgarhöfn

Fyrsta skipsmíðastöð landsins var í Hafnarfirði, athafnamaðurinn Bjarni Sivertsen kom henni upp árið 1805. Talið er að hún hafi verið staðsett á sömu slóðum og slippurinn við Flensborgarhöfn stendur nú. Árið 1918 tók Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar til starfa á sama stað, en flutti sig um set nokkrum árum síðar. Skipasmíðastöðin Dröfn var sett á stofn árið 1941 og hóf upp úr því að byggja skipasmíðastöð og slippinn sem enn stendur við Flensborgarhöfn. Þar fór fram bæði nýsmíði á bátum af ýmsum stærðum og gerðum og einnig bátaviðgerðir (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Jón Pálmason, á.á.).

Fyrsti hluti Íshúss Hafnarfjarðar við Flensborgarhöfn reis árið 1918, og byggðist það síðan áfram upp í áföngum. Elsti hlutinn hefur verið rifinn, en núverandi byggingar eru frá því um eða rétt fyrir miðja 20. öld allt fram til 1992, er nýjasta viðbyggingin reis. Upphaflega var þar aðallega fryst beitusíld og geymsla á kjöti. Í gegnum árin hefur ýmis konar starfsemi verið í byggingunum, en lengst af fiskvinnsla (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Haraldur Jónsson, viðtal 8, 2014).

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – smábátahöfnin 2024.

Upphaf smábátahafnarinnar má rekja til ársins 1969 þegar flotbryggja var gerð við Óseyri. Óseyrarbryggja var síðan fullgerð árið 1976 og trillubátabryggja, rampi sem hallaði út í sjó, var byggð 1977. Árið 1989 varð mikil breyting á allri aðstöðu í smábátahöfninni þegar ráðist var í umbætur á henni, höfnin var dýpkuð og settar voru upp flotbryggjur fyrir allt að hundrað báta. Þá fékk smábátahöfnin nafnið Flensborgarhöfn og dró nafn sitt af Flensborgarskólanum, sem áður stóð skammt frá flotbryggjunum (Björn Pétursson & Steinunn Þorsteinsdóttir, 2012).

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón – bygð smábátaeigenda.

Löng hefð er fyrir smábátaútgerð í Hafnarfirði og þykir aðstaða trillueigenda mjög góð í Flensborgarhöfn frá því henni var komið upp. Grásleppukarlar voru þarna og seldu afurðir sínar beint til viðskiptavina við höfnina. Þeir áttu margir netaskúra skammt frá flotbryggjum sem voru fjarlægðir (Björn Pétursson & Steinunn Þorsteinsdóttir, 2012), en í þeirra stað risu verbúðir um og upp úr miðjum níunda áratugnum. Verbúðirnar voru ætlaðar smábátaeigendum í útgerð, þar var aðstaða fyrir veiðarfæri, beitningu og fleira (Már Sveinbjörnsson, viðtal 1, 2014). Verbúðirnar eru staðsettar á Flensborgarhöfn og hýsa nú lítil fyrirtæki og starfsemi af ýmsum toga.

Þytur

Siglingaklúbburinn Þytur.

Siglingaklúbburinn Þytur fékk lóð sunnan Drafnarslippsins og byggði húsnæði þar, sem var tekið í notkun árið 1999. Þar er bátaskýli, verkstæði og félagsaðstaða klúbbsins (Siglingaklúbburinn Þytur, 2014). Umræða um framtíðaruppbyggingu á Flensborgarhöfn hefur staðið lengi. „Ef vel tekst til getur Flensborgarhöfn orðið perla Hafnarfjarðar“ segir í umfjöllun í Morgunblaðinu árið 1989 og um leið var því sjónarmiði lýst að „Flensborgarhöfn verði staður sem allir Hafnfirðingar og gestir þeirra hafi gaman af að heimsækja“ (Morgunblaðið, 1989). Þetta var um það leyti sem umbætur á smábátahöfninni voru gerðar og hún stækkuð. Síðan hefur umræða haldið áfram og fjöldi frumhugmynda verið unnar fyrir svæðið, ýmist að beiðni bæjaryfirvalda, lóðahafa eða hafnaryfirvalda (Bjarni Reynarsson, 2009;

Heimild:
-https://www.hafnarfjordur.is/media/flensborgarhofn/Soguagrip_Hafnarfj.+Flensborgarhof

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – í sögulegu samhengi,

Hafnarfjarðarhöfn

Á Norðurbakka Hafnarfjarðarhafnar er upplýsingaskilti með eftirfarandi fróðleik:

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarsjóður Hafnarfjarðar var stofnaður formlega 1. janúar 1909 sjö mánuðum eftir stofnun Hafnarfjarðarbæjar, sem sjálfstæðs bæjarfélags. Strax var mikill hugur í Hafnfirðingum í uppbyggingu hafnarinnar og var hafskipabryggja tekin í notkun árið 1913 og má geta þess að Gullfoss, flaggskip HF Eimskipafélags Íslands, lagðist í fyrsta sinn við bryggju á Íslandi, þegar hann lagðist við hafskipabryggjuna í Hafnarfirði árið 1915.
Næstu hafnarframkvæmdir voru bygging Nýju bryggjunnar, 190 m. langrar trébryggju árið 1930 og síðar var farið í að verja innri höfnina með byggingu tveggja stórra hafnargarða að norðan og sunnanverðu í Firðinum. Norðurgarðurinn var byggður á árunum 1941-48.
Fyrsti stálþilskanturinn í höfninni var Norðurbakkinn, 173 m. langur sem kom sunnan við gömlu hafskipabryggjuna árið 1960 og hann var síðan lengdur í um 250 metra árið 1969.

“Frá náttúrnnar hendi var Hafnarfjarðarhöfn ein besta höfn suðvesturlands og var hún ein aðalhöfn landsins um aldaraðir. Þar gátu skip legið örugg í flestum veðrum, auk þess sem innsiglingin var hrein, dýpi gott og haldbotn góður.

Upphaflega var varningur úr skipum ferjaður í land í litlum árabátum en upp úr aldamótunum 1900 óx bærinn hratt og jókst þá bæði útgerð til mikilla muna svo og vöruflutningar um höfnina. Var þá orðið aðkallandi að bæta úr vandanum með því að smíða hafskipabryggju. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908 var bæjarfélaginu skipaður grundvöllur til að hefja framkvæmdir við höfnina með hafnarreglugerð sem samþykkt var í desember sama ár.

Hin 10. ágúst 1909 var lögð fram tillaga í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um smíði hafskipabryggju og hófust framkvæmdir í nóvember 1911. Um veturinn var unnið að gerð vörupalls og undir vor var hafist við að steypa upp hús og bólverk við hina fyrirhugðuðu hafskipabryggju. Bryggjusmíðin sjálft hófst í maí 1912 og var það í febrúar árið eftir að hafskipabryggjan í Hafnarfirði var vígð við hátíðlega athöfn. Bryggjan var úr timbri en uppistöðustaurar allir járnklæddir til varnar sjávarmaðki. Landálman var 8.3 m á breidd og 53 m á lengd en bryggjuhausinn var 12.4 m á breidd og 50 m á lengd.

Hafnarfjarðarhöfn

Gullfoss, flaggskip HF Eimskipafélags Íslands, lagðist í fyrsta sinn við bryggju á Íslandi, þegar hann lagðist við hafskipabryggjuna í Hafnarfirði árið 1915.

Útgerðin í bænum óx jafnt og þétt og þegar líða tók á þriðja áratug 20. aldar varð ljóst að skortut á bryggjurými í höfninni var orðinn tilfinnanlegur. Við þessu var fyrst brugðist með því að lengja bryggjuna árið 1925 og í kjölfarið með byggingu nýrrar bryggju, innan við þá sem fyrir var. Sú bryggja var tekin í notkun árið 1931 og var hún um 190 m löng og 12 m breið.

Sumarið 1959 hófust framkvæmdir að nýju við höfnina þegar hafist var handa við að reka niður stálþil á milli gömlu og nýju bryggunnar og mynda þannig nýjan hafnarbakka en í kjölfarið var gamla bryggjan rifin.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – hafskipabryggjan; stálþilið komið.

Tíu áruð síðar var ákveðið að lengja viðlegurýmið um 90 metra og árið 1975 var “Nýja bryggjan” rifin og var þá Norðurbakkinn kominn í endanlega mynd. Á fyrstu árum 21. aldarinnar urðu miklar breytingar á norðurbakka hafnarinnar þegar frystihús Bæjarútgerðarinnar var rifið og uppbygging íbúðabyggðar hófst á svæðinu.”

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Norðurbakki 2023.