Tag Archive for: Hafnarfjörður

Árnakirkja á Görðum árið 1840.

Á árinu 2014 kom út þríritið „Helgistaðir við Hafnarfjörð – saga Hafnarfjarðarkirkju og Garðaprestakalls á Álftanesi„, þ.e. ritverk í þremur bindum saman í öskju.

Hafnarfjarðarkirkja

Ritverkið „Helgistaðir við Hafnarfjörð – saga Hafnarfjarðarkirkju og Garðaprestakalls á Álftanesi“.

Í aðfaraorðum ritnefndar, skipuð Jóanatni Garðarssyni, Sigurjóni Péturssyni og Gunnþóri Þ. Ingasyni, segir m.a.: „Ritverk það, sem hér liggur fyrir, er samið að tilhlutan sóknarnefndar Hafnarfjarðarkirkju í tilefni þess að árið 2014 eru 100 ár liðin frá því að hafnarfjarðarkirkja var vígð.
Fyrstu hugmyndir að ritinu komu fram á fundum nefndarinnar á árinu 2003 og var þá skipuð ritnefnd. Gunnlaugur Haraldsson þjóðhátta- og fornleifafræðingur ritaði verkið.
Upphaflega var hugmyndin sú að gefa út mun minna ritverk í tilefni 90 ára afmælis Hafnarfjarðarkirkju árið 2004. Það rit átti einungis að ná yfir tímabilið 1914 til 2004 og fjalla um Hafnarfjarðarkirkju, safnaðarstarfið og bæjarlífið á því skeiði. Fljótlega var horfið frá því að gera eingöngu yfirlitsrit um sögu Hafnarfjarðarkirkju og vinna í þess stað að heildstæðu verki um sögu kristnihalds í Garðaprestakalli hinu forna og helgihald í Hafnarfirði. Það ritverk, sem nú liggur fyrir, spannar því rúmlega 1000 ára sögu, eða allt frá landnámi til samtíðar. Í því er gerð ítarleg grein fyrir rótum og forsendum að sögu Hafnarfjarðarkirkju og þróun kirkjustarfs. Engu prestakalli Íslands hafa verið gerð jafn greinargóð skil í söguriti“.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1846 – teikning Benedikts Gröndahls.

Gránuhellir

Gengið var um Brunatorfur (Brunntorfur/Brundtorfur) með það fyrir augum að koma við í nálægum seljum, Fornaseli og Gjáseli, og reyna að endurfinna Gránuhelli; fornt fjárskjól, sem getið er um í örnefnalýsingu.
GjaselFERLIR fann hellinn fyrir nokkrum árum, en týndi honum síðan aftur. Mjög erfitt er að staðsetja opið, einkum þegar allt er gróið að sumri til, en því auðveldara að vetrarlagi. Landslagið þarna er keimlíkt; mosa- og kjarrvaxnir hraunhólar og – hryggir. Hlaðinn gangur er framan við opið á hellinum og inni er rými fyrir u.þ.b. þrjátíu kindur. Birkihríslur eru við opið og þekja þær innganginn að hluta.
Síðan hefur verið farið tíu sinnum á vettvang með það að markmiði að reyna að staðsetja opið, en án árangurs.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum segir m.a. um selin: „Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnar-holtsvörðu lá landamerkjalínan…

Granuhellir-2

Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.“
Hér er augljóslega um nokkra misvíxlun að ræða. Í fyrsta lagi er nöfnum seljanna ruglað saman, nema hér sé um sannnefni að ræða og aðrar lýsingar séu rangar. Sannanlega lítur Gjáselið út fyrir að vera eldra en Fornasel af ummerkjum að dæma. Litlaholt er suðvestur af Gjáseli en ekki Fornaseli. Rústir kvía eru norðan undan núverandi Gjáseli, en slíkar eru sunnan við Fornasel. Ef tekið er mið af því að Gjásel hafi verið Fornasel ætti Gránuhellir suður og upp af selinu (Fornaseli skv. örnefnalýsingu). Ekki er loku fyrir það skotið að hellir kunni að leynast suður af Fornaseli og að Gránuhellir, sem fannst og leitað var að nú, kunni að vera gleymdur fjárhellir.

Gjasel-3

Ummerki við hann benda frekar til þess. Leitað hefur verið að meintum helli suður af Fornaseli, en hann ekki fundist (fram að þessu a.m.k. hvað sem síðar verður). Mjög erfitt er að finna skjólin í hrauninu vegna þess hversu smáholt eru mörg og sprungin og jarðföll víða.
Eftir u.þ.b. tveggja klst. leit sunnan og vestan við Gjásel, fannst „Gránuhellir“ loks vestnorðvestur af því. Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af hlaðna ganginum niður í hellinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði.

Gránuskúti

Í Gránuhelli.

 

Hafnarfjörður

„Lítið er til af ritheimildum sem varða gamla bæinn Steina við Hamarsgerði í Hafnarfirði og ekki er til túnakort. Þetta stafar sjálfsagt af því að bærinn var lítill með takmörkuð umsvif. Talið er að bærinn hafi verið byggður 1887 eftir að búsetu í Sjóbúðarbæjunum var hætt.  Eldra nafnið á honum er Steinsstaðir.
Steinsstadir-221Fyrsti ábúandi hét Guðmundur Grímsson, fæddur 1828, og bjó hann á Steinum 1887-1904.  Hann mun hafa flust frá Hafnarfirði 1904 og dáið á Neðra-Apavatni 1908. Síðasti ábúandi mun hafa verið Jón Guðmundsson sem fór frá Steinum 1915. Brunabótamat gert árið 1917 greinir frá því að íbúðarhúsið sé notað sem geymsla.
Í óútgefnu riti Gísla Sigurðssonar kemur fram að útveggir og þak bæjarins standi enn. Í afsalsbréfi er sagt að hann sé “7×10 álnir að ummáli. Veggir utan hlaðnir úr höggnu grjóti. Þak og stafnar járnvarið. Allur þiljaður innan með ¾ panelborðum. Bænum var skipt í þrennt. Auk þess gangur. Allt innan dyra málað, tvær fylningshurðir og tvö gluggafög, múrpípa og tvö eldfæri. Bærinn var virtur á 1010, 25 kr. Lóðin á kr.2686,00 og var 5372 ferálnir að stærð. Bærinn var með lágum veggjum og háu risi. Skúr var á suð-vesturhlið og náði þakið upp í miðja þekjuna á bænum. Norður sneru dyrnar. Til vinstri handar er inn var komið voru dyrnar í bæinn, en þar var lítill gangur og dyr í hvorn enda” (Gísli Sigurðsson: bls. 422).
steinsstadir-uppdratturLeifar Steina liggja nú um 3 m NV við núverandi íbúðarhús við Hamarsgerði 17. Veggirnir eru um 6×5 m að utan. Þeir hafa verið steyptir utan um steina, steypa er enn á hálfum innanverðum austurvegg og á vestri vegg sunnan inngangs. Vegghæð er ca. 1.10-1.20 m. Tveir veggir standa uppi, en steinhleðslur marka grunninn í NV og SA enda hússins. Mikið af lausum steinum er inni í húsinu, mest næst veggjunum. Viður er í innanverðum NA vegg að norðan, efst á veggnum.
Utan við húsið að suðvestan er jarðvegurinn upphækkaður svo að þar myndast lítill hóll.  Á honum er meira af illgresi en grasi, og mikið af steinum.  Norðaustan og austan við húsið er einnig illgresi og steinar umhverfis, en ekki þó sýnilega upphækkað.
Leifar útihúss eru ca. 12 m vestan við norðurhorn núverandi íbúðarhúss. Þetta er hár og mjög brattur hóll, um 1.20 m á hæð og um 4 m að ummáli. Tvær syllur eru innan í honum efst; önnur grunn og flöt, en sú fyrir austan um 15 cm dýpri með steinum í botninum.  Þröng rás er út úr henni að norðaustan í gegnum vegginn.

Hafnarfjörður

Steinar/Steinsstaðir – loftmynd 1954.

Svæðið hefur verið raskað þegar nágrannahúsið að Hamarsbraut 14 var byggt og möl og frágangi hrúgað þar ofan á.
Garður er sunnan við steinhúsið, um metri að breidd og ca. 20-25 cm hár. Rennur niður bratta brekku þar sem hann hverfur inn í tré. Næst er hægt að sjá 2 m bút af honum um 10 m NNA við steinhúsið áður en hann hverfur aftur undir tré.
Steinbærinn við Hamarsbraut 17 og fjós og garður sem honum fylgdu eru svo raskaðir auk þess sem hann stendur í miðri íbúðabyggð og er ekki hluti af fornu menningarlandslagi, að ekki þykir nein ástæða til að varðveita hann eða byggja hann upp. Engar heimildir eru heldur til um bæinn sem er hægt að styðjast við ef ráðist yrði í endurgerð. Hann er ekki ýkja gamall, reistur seint á 19. öld, en minjagildi hans varð að engu árið 1998, þegar hann var rifinn.“

Heimild:
-Steinsstaðir í Hafnarfirði/Hamarsbraut 17, fornleifaskráning vegna deildiskipulags, Byggðasafn Skagafjarðar – 2005.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður  um 1920 – Suðurbærinn.

Þorbjarnastaðir

„Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Fuglalíf

Í frétt í MBL, þriðjudaginn 6. júlí, 1999, sagði Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð svæðisins.
Hraun kallast landsvæðið vestan og sunnan Straumsvíkur, en víkin hefur myndast milli Lambhagatanga að austan og Hrauna að vestan. Hraunið sem þekur svæðið er 5000-7000 ára gamalt helluhraun sem átt hefur upptök sín í Hrútagjárdyngju.
Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld. Á svæðinu má sjá fjölda rústa, tóftarbrot býla og gripahúsa, minjar eru um útræði í fjörunni, þurrabúðir, fiskbyrgi, vörslugarðar og fiskreitir eru einnig sýnilegir. Helstu lögbýli í Hraunum voru Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu síðan hjáleigur og þurrabúðir, s.s. Gerði, Péturskot, Litli-Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot. Heimild er um forna kirkju á svæðinu og grafreit.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Árið 1999 fékk Umhverfis- og útivistarfélagið Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing til að grafa prufuholur í Jónsbúð, sem er þurrabúð eða hjáleiga utarlega við vestanverða Straumsvík. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.

Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, segir í fyrrgreindri MBL-frétt 19999 að ekkert hafi verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. „Ljóst er að menn fara sér hægt við að skipuleggja framtíð þess.“ Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði. Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.“

 

Nú, 2008, hefur Samfylkingin í Hafnarfirði uppi áform um að eyðileggja flestar menningarminjarnar á norðanverðu Hraunasvæðinu og þar með hið fjölbreytilega dýralíf sem og hina dýrmætu útivistarmöguleika bæjarbúa.
veggurÍ frétt í Fjarðarpóstinum 11. september (af öllum dögum, en þó vel við hæfi) kom m.a. eftirfarandi fram um þessar áætlanir undir fyrirsögninni: „Nýtt hafnarsvæði á Hraunum? – Hugmyndir eru uppi um nýja stórskipahöfn vestan Straumsvíkur.
„Okkar fyrstu niðurstöður eru þær að fýsilegt sé að byggja nýja höfn vestan Straumsvíkur sem að mestu yrði í landi Óttarstaða,“ segir formaður hafnarstjórnar. „Við höfum einnig kannað möguleikana austan Straumsvíkur, en þar reyndust ekki vera ákjósanlegar aðstæður. Við höfum í samvinnu við Siglingastofnun kannað öldufar og rannsakað botnlög með tilliti til hafnar gerðar vestan Straumsvíkur og virðast aðstæður þar allgóðar. Þetta yrði stór höfn sem þjónað gæti stórum hluta siglinga til höfuðborgarsvæðisins og skapað mikla uppbyggingu og atvinnustarfsemi.“

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Að sögn formannsins eru hugmyndirnar sem hér eru kynnntar hins vegar á frumstigi. Tillögurnar voru kynntar í hafnarstjórn í júní og í skipulags- og byggingarráði á þriðjudaginn. Næsta skref er að sögn formanns að ræða við landeigendur á svæðinu sem eru allmargir. Stefnt er að því að kynna þessar hugmyndir fyrir bæjarbúum og skapa um þær umræðu. Ljóst er að skoðanir verða skiptar um þessar tillögur en við hafnargerðina hverfa margar minjar en gert er ráð fyrir að vernda bæjarstæði Óttarstaðabæjanna í einskonar vin á miðju athafna svæðinu. Einnig yrðu Þýskabúð og Jónsbúð óraskaðar.
Landslagsarkitekt var fenginn til að útfæra þessar fyrstu hugmyndir og aðlaga þær lands laginu þannig að sem best fari, að sögn formanns, „en auðvitað á þetta eftir að fara í umhverfismat og í gegn um skipulagsferil,“ sagði formaðurinn.
HugmyndirSkv. hugmyndunum er gert ráð fyrir að meðfram nýrri legu Reykjanesbrautar verði hafnarsvæði lækkað um 12-14 m en næst sjónum yrðu 6-8 m varnargarðar til að skilja svæðið að en það er um 160 ha. (1,6 millj. m²) sem er svipuð stærð og svæði sem afmarkast af Hjallabraut, Hjallahrauni, Reykjanesbraut, Hvammabraut og Suðurgötu. Hafnargarðurinn yrði gerður úr efni sem þarna fengist en hann yrði skv. hugmyndunum gerður í tveimur áföngum.“

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Segja má með sanni að Samfylkingin hafi tilhneigingu til að vernda minjar og náttúru með vinstri hendinni, en rífa hvorutveggja niður með þeirri hægri. „Vonandi verða hvorki hugmyndir né fulltrúar þeirra langlífir“, varð einum rólyndismanni að orði er hann heyrði tíðindin. Mörg dæmi eru um að vilji til að takmarka verndun minja innan stórra athafnasvæða hafi farið fyrir lítið er á reyndi.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Segja má að einstakir fulltrúar og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafi að undanförnu verið í tómu klúðri – sem virðist það því miður fara vaxandi.
Umhverfi og náttúra í Hraunum er einstök á landsvísu og þótt víðar væri leitað. Hluti þeirra njóta náttúruverndar. Auk þess mynda Hraunabæirnir ofan við ströndina heilstætt og dýrmætt minjasvæði með tilheyrandi útstöðvum ofar í hraununum; seljum, fjárskjólum, nátthögum og aðliggjandi götum. Svæðið sem heild er því einstaklega dýrmætt, ekki síst vegna þess hversu nálægt þéttbýlissvæði það er. Þessu virðist eiga að farga án teljandi hugsunar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Samstarf og samnýting Faxaflóahafna hefur dregið úr þörfinni á hafnargerð sem þessari, enda koma aðrir staðir á höfðuborgarsvæðinu mun betur til greina en landssvæðið þar sem Hraunin eru.
Sjá meira um svæðið HÉR og HÉR. Vefsíðan geymir uppdrætti af u.þ.b. 400 minjasvæðum og yfir 6000 lýsingum á Reykjanesskaganum, auk fróðleiks og frásagna af minjum og örnefnum á svæðinu – fyrrum landnámi Ingólfs. Allt efnið er unnið af áhuga og umhyggju – án ríkisstyrkjar.

Heimildir m.a.:
-Mbl – Þriðjudaginn 6. júlí, 1999 – Smáfréttir
-fjardarposturinn.is – 11. september 2008
http://www.fjardarposturinn.is/images/FP-pdf/FP-2008-34-skjar.pdf

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.

 

Þorbjarnastaðarauðimelur

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum ofan við Straum að Þorbjarnarstöðum. Gamall vegur liggur frá Keflavíkurveginum að þessum gamla bæ í Hraunum.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði.

Þar sem Keflavíkurvegurinn kemur niður og yfir tjarnirnar ofan við Straumsvík (gegnt Gerði) má enn sjá minjar hinnar fyrstu vegagerðar sjálfrennireiðarinnnar er tengdi saman byggðalög hér á landi. Einnig má sjá veglegar veghleðslur yfir gjár og jarðföll í gegnum hraunið vestan við Rauðamel, en eftir það má segja að hið gamla handbragð hinna gömlu vegargerðarmanna á Keflavíkurveginum hverfi. Þetta er því dýrmætur vegspotti þegar horft er til verndunar þessara tegunda minja.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eða þau okkar, sem fyrir alvöru spá og spegulera í gömlum minjum, spyrja sig iðurlega spurninga s.s.: a) hvað eru raunverulegar fornminjar?, b) fyrir hverja eru fornminjarnar? og c) hverjir eiga forminjarnar? Segja má að fornminjar séu áþreifnanleg mannanna verk er tengja okkur nútímafólkið við fortíðina, þ.e. forfeður okkar. Þess vegna eru fornminjarnar fyrir okkur, afkomendur þessa fólks. Og það erum við, sem eigum fornminjarnar. Þær eru okkar verðmætu tengsl við fortíðina. Sú staðreynd að framtíðin byggist á fortíðinni gera minjarnar ómetanlegar nútíðinni.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939). Tóftir Þorbjarnastaða eru ekki einungis meðal verðmæta vegna þess að þær eru einu ummerkin eftir hinn dæmigerða íslenska torfbæ, heldur og vegna þess að þær segja sögu þess fólks, sem þar lifði og bjó. Tóftirnar eru einnig, því miður, ágætt dæmi um þörfina á auknum áhuga og dug fulltrúa fólksins í bænum um gildi og nýtingu fornminja. Nóg um það í bili.

Gengið var frá heimaréttinni, framhjá bæjarstæðinu, hinum dæmigerða íslenska torfbæ með burstum mót suðvestri og matjurtargarði framan við, yfir heimatúnsgarðhleðslurnar og yfir Alfaraleiðina og að Þorbjarnastaðaréttinni, stundum nefnd stekkurinn, undir hraunhól nokkru sunnan við bæinn, austan Miðdegishóls, eyktarmarks frá bænum. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró, sem bendir til þess að hún hafi verið notuð sem stekkur.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Alfaraleiðinni var fylgt spölkorn til norðurs, að Gerði. Gengið var ofan við tjarnirnar. Þar sjást mannvistarleifar, s.s. hlaðin bryggja til ullar og fatalafraþvotta. Vatn leysir þar undan hrauninu. Frá tóftum bæjarins var sveigt til vinstri þar til komið er á Gerðisstíg, sem er merktur með lágum stikum. Stígurinn liggur um Hólaskarð milli Hólanna, sem eru á hægri hönd, og lágrar hraunhæðar á vinstri hönd með strýtumyndaðri vörðu. Leiðin liggur um Stekkjatúnið í áttina að Seljahrauni. Þar breytir stígurinn um nafn og nefnist Seljahraunsstígur þar sem hann liggur í gegnum þunna, illfæra hraunspýju sem hefur tafið för manna og búfjár áður en slóðin var rudd í gegnum hrauntunguna. Gengið er samsíða vestari brún Kapelluhrauns í áttina að línuveginum og farið yfir hann í áttina að Rauðamelsklettum.

Efri-Hellar

Efri-Hellar; hraunkarl.

Gengið er framhjá Neðri-Hellum, ágætum fjárskjólum með hleðslum fyrir. Handan þeirra er námasvæði þar sem Þorbjarnarstaðarauðamelur stóð áður fyrr. Nú er ekkert sem minnir á Rauðamelshóla eins og þetta kennileiti var stundum nefnt. Náman er sem flakandi sár í landinu og umgengnin engum til sóma.

Stígurinn liggur áfram til suðausturs í áttina að Rauðamelsrétt. Auðveldast er einfaldast að taka stefnuna á hús Skotveiðifélags Hafnarfjarðar sem stendur á brún Kapelluhrauns, sem kallast reyndar Bruninn þegar hingað er komið. Vestan hússins gengur lítill hraunrani fram úr Brunanum út á Flárnar. Í þröngum krika norðan ranans stendur lítil fallega hlaðin rétt úr hraungrjóti.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Brún Kapelluhrauns var fylgt til suðurs uns komið var að Efri-hellum, gamlir fjárhellar. Við hraunina gnæfir hraundrangur í mannsmynd. Hann minnir á að við hellana hefur löngum þótt reimt. Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Þar hefur einnig þótt reimt, einkum fyrrum. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast. Getur þá verið erfitt að finna það, auk þess sem hleðslurnar, sem eru allmiklar, falla vel að klettinum.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ef stígnum, sem komið hafði verið inn á og liggur inn í Hrauntungurnar, er fylgt áfram til norðausturs er komið inn á Hrauntungustíginn þar sem hann liggur út úr Tungunum og inn á hraunið. Stígurinn er nú orðinn stuttur þarna því búið er að ryðja svo til allt hraunið þarna fyrir austan og norðan. Þó má enn sjá móta fyrir Hrauntungustígnum beggja vegna Krýsuvíkurvegarins skammt norðvestan aðkeyrslu að námusvæðinu. Skammt vestan vegarins er varða og liggur Hrauntungustígurinn svo til við hana.

Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Með borginni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring. Hana hefur greinilega átt að hlaða hærra en þegar skilið var við hana fyrir rúmlega einni öld.

Vorrétt

Vorréttin.

Kaldársel

Gengið var frá Ásvöllum um Grísanes, um Hádegisskarð yfir Dalinn norðan við Hamranes og skoðuð fjárskjól, sem þar hafa verið. Haldið var áfram yfir Hamranesið, um selhraun vestan Hvaleyrarvatns, upp á Selhöfða, niður í Seldal, um Stórhöfða og síðan áfram áleiðis inn í Kaldársel með norðurbrún Stórhöfðahrauns, beygt til norðurs gegnt Langholti og síðan gengið um Fremstahöfða inn í Gjárnar norðan Kaldársels.

Hádegisskarð

Stekkurinn við Hádegisskarð.

Norðvestan við Grísanesið er lítil rétt. Hlaðið mannvirki er skammt sunnar, sennilega leifar af fjárhúsi. Þegar gengið var frá henni austur um norðanvert nesið mátti sjá tvær tóftir á vinstri hönd, gætu verið sauðakofar frá Ási eða jafnvel frá Hvaleyri eða Hjartarkoti, sem var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.
Um Hádegisholtið, sem er milli Grísaness og Ásfjallsaxlar, lá gamla leiðin frá Ási um Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg. Gengið var suður Dalinn og litið á fallin fjárskjól í grónum dal í honum innanverðum. Enn sést móta fyrir hleðslum við innganginn, en hraunþakið hefru falli að hluta. Drasl hefur síðan safnast fyrir í jarðfallinu.
Gengið var yfir Hamranesið og áleiðis framhjá Hvaleyrarvatni á leið upp á Selhöfða.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Hvaleyrarvatn er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðin mun hafa verið.
Það er fremur létt að ganga upp á Selhöfðann og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Við vesturenda vatnsins blasir Selhraun við í nokkrum fjarska.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur. Sunnan hans er Stórhöfði. Á Selhöfða eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar, en uppi á hálsinum sunnan undir höfðanum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt.

Kaldársel

Hálfhlaðið hús við Fremstahöfða.

Veginum var fylgt framhjá Stórhöfða og síðan stigið út af honum uppi á öxlinni. Gengið var austur með úfnu Stórhöfðahrauninu þangað til komið var á móts við Miðhöfða. Þá var gengið áleiðis að honum, en síðan stefnan sett á Fremstahöfða. Sunnan undir honum er hálfhlaðið fjárhús, sennilega frá Kaldárseli. Þar fyrir austan taka Gjárnar við, merkilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri; hrauntraðir og stöplar. Í þeim má m.a. finna hlaðinn nátthaga þar sem heitir Nátthagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Kapella

Jochum Magnús Eggertsson (9. september 1896 – 23. febrúar 1966) var íslenskur rithöfundur og skáld, alþýðufræðimaður og skógræktarmaður, sem skrifaði jafnan undir höfundarnafninu „Skuggi“.
Skuggi-1Jochum las og rannsakaði allar galdraskræður og fornan fróðleik sem hann kom höndum yfir, og skrifaði meðal annars bókina Galdraskræðu, þar sem hann tók saman ýmsan fróðleik um galdra og galdrastafi. Hann sagðist líka hafa fundið galdrabókina Gullskinnu eða Gullbringu, sem getið er í þjóðsögum, en hún væri í rauninni ekki galdrabók, heldur frumgerð Landnámu og þar væri sögð saga fyrstu alda Íslandsbyggðar eins og hún væri raunverulega. Aldrei vildi Jochum þó sýna neinum Gullskinnu.
Margir telja að Landnáma hafi komið á undan Íslendingabók. Höfundur hennar voru Ari fróði og Kolskeggur hinn vitri.
Samkvæmt kenningum Jochums var Suðurland albyggt þegar landnámsmenn komu og var þar fyrir írskur þjóðflokkur sem naut andlegrar handleiðslu Krýsa (Chrysostomosa eða gullmunna) Skuggi-2og hafi það verið hluti launhelga sem voru til víða um Evrópu og allt suður til Krítar og Egyptalands. Höfuðstöðvar Krýsa voru samkvæmt kenningum Skugga í Krýsuvík. Hann hélt því fram að Krýsar og landnámsmenn hefðu í fyrstu búið saman í friði. Höfuðprestur Krýsa á elleftu öld var Kolskeggur vitri og hafði hann lærisveina sína og ritara á tveimur stöðum, í Krýsuvík, þar sem hann bjó sjálfur, og á Vífilsstöðum undir stjórn Jóns Kjarvalarsonar hins gamla, og voru alls 13 á hvorum stað að meðtöldum lærisveinum. Þeir voru jafnan hvítklæddir.
Þessir fræðimenn sköpuðu menningararf Íslendinga, segir Skuggi. Kolskeggur vitri kenndi Íslendingum að skrifa með latínuletri; hann orti sjálfur Hávamál og skrifaði margar Íslendingasagna, þar á meðal Njálu, Laxdælu, Hrafnkels sögu, Gunnlaugs sögu ormstungu og Bandamanna sögu. En höfðingjum þóttu Krýsar orðnir of voldugir og haustið 1054 söfnuðu þeir miklum her, brenndu Jón Kjarvalarson og menn hans inni á Vífilsstöðum og settust svo um Krýsuvík, sem þeim tókst loksins að vinna þrátt fyrir frækilega vörn. Kolskeggur komst undan á Brimfaxa, arabískum gæðingi, en náðist í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, þar sem hesturinn fótbrotnaði og Kolskeggur var felldur. Eftir þetta var Krýsum útrýmt.
Skuggi-3Mönnum stóð brátt ógn af þeim stað þar sem Kolskeggur hafði fallið og var þar reist kapella og hraunið síðan kallað Kapelluhraun. Hann var sagður galdramaður og djöfull og með tímanum umbreyttist nafn hans í Kölski. Kapellan var reist við fornu reiðgötuna í auðninni þar sem Kolskeggur var veginn; var á miðöldum kölluð „Kölskakapella“ eða „Kölska-kyrkja“. Nýtt hraun hefur runnið á hana og kaffært hana að nokkru leyti, en vegsummerki hennar sjást þó enn greinilega á hraunhryggnum og storkunni, austurgaflinn nokkurnveginn heillegur að innan og innganginn og fyllt hana þeim megin. Hraunið dregur síðan nafn af Kapellunni. Það fylgir fornu sögninni, að bein Kölska hafi verið geymd eða dysjuð þar í Kapellunni.
Fornar fræðibækur Krýsa voru bannaðar og kallaðar galdraskræður. Ari fróði var svo fenginn til að umskrifa söguna og afmá hlut Krýsa, en eftir hvarf þeirra varð nær algjör stöðnun í menningararfi og ritstörfum meðal Íslendinga. Síðustu leifar þessa stórbýlis [Krýsuvíkur] hafa varðveizt á undraverðan hátt, umkringdar og greiptar í hraunstorkuna og bíða þar grasi grónar eins og þær hafa gert síðastliðin 600 ár. Yngsta gólfskánin hefur því tíðindi að segja frá þeim tíma.
Þá má þess geta að í þjóðsögunum segir að Eiríkur galdraprestur í Selvogi hafi áskotnast Gullskinna þessi, en hann ákveðið að urða hana í Kálfsgili í Urðarfelli, enda um að ræða „mestu galdrabók allra tíma“.

Skuggi-4

Jochum var ættaður frá Skógum í Þorskafirði og var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar skálds. Hann sendi frá sér allnokkurn fjölda bóka og ritlinga, bæði stuttar skáldsögur og smásögur, ljóð, þjóðlegan fróðleik og ritgerðir, og þykja mörg ritverk hans nokkuð sérstæð. Hann var einnig góður teiknari og skrautritari og hafði lært það af eldri bróður sínum, Samúel Eggertssyni kortagerðarmanni og skrautskrifara, sem ól hann upp að einhverju leyti. Jochum myndskreytti sumar bækur sínar og handskrifaði aðrar. Á meðal bóka hans má nefna Brísingamen Freyju, Syndir guðanna – þessar pólitísku, Viðskipta- og ástalífið í síldinni og Skammir.
Jochum keypti Skóga í Þorskafirði árið 1951, dvaldist þar meira og minna öll sumur eftir það og stundaði þar allnokkra skógrækt og gerði tilraunir með ræktun ýmissa trjátegunda. Hann var ókvæntur og barnlaus en arfleiddi Baháí-samfélagið á Íslandi að jörðinni eftir sinn dag.

Sjá meira HÉR.
Sjá einnig Brísingamen Freyju.

Heimildir
– (Jochum M. Eggertsson) Skuggi: Brísingamen Freyju: nokkrar greinar. Reykjavík, 1948.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Hvaleyri

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1964 má lesa eftirfarandi um beinafund við Hjörtskot á Hvaleyri undir fyrirsögninni „Lítil saga sunnan af Hvaleyri„:
Hvaleyri - mynd„Nokkru eftir að Pálína gerðist ráðskona hjá Magnúsi í Hjartarkoti, sennilega haustið 1922, fann hún þarna mannabein í rofbakka, höfuðkúpu og hálslið. Tók hún beinin í sínar vörzlur, svo að þau veltust ekki í reiðuleysi í fjörunni. Sjálfsagt hafa henni verið bein þessi hugstæð, enda ekki alsiða, að bústýrur á Íslandi hafi mannabein í fórum sínum. En hvað sem um það er, þá gerðist það þessu næst, að Pálínu birtist sýn í svefni. Þótti henni sem á sinn fund kæmu tveir karlmenn og ein kona og þökkuðu henni varðveizlu beinanna, en báðu hana þó að hlúa betur að þeim. Sungu þau síðan sálm og lauk með því draumnum. Þótti þeim hjónum ráð að grafa beinin sem næst þeim stað, er þau höfðu fundizt á, en þó svo, að þau væru óhult í sjávargangi. Voru þau látin í kistil, sem Magnús gróf í mónum úti á bökkunum, skammt frá fundarstaðnum, þegar klaki var úr jörðu.
En þess var ekki langt að bíða, að meira fyhdist af mannabeinum þarna á Hvaleyrarbökkum. Haustið 1924 veitti Magnús því athygli, að bein voru í fjörunni og fleiri stóðu út úr rofinu. Safnaði hann þeim saman og gróf síðan nokkuð í bakkann fyrir forvitnis sakir. Fann hann þar tvær hauskúpur til viðbótar og mörg bein önnur úr tveim mönnum, ásamt einum hornhnappi.
hvaleyri - tunakort - 1908Nú var fólkinu í Hjartarkoti nóg boðið, er mannabein hlóðust að því með þessum hætti, og varð það fanga ráðið að láta fornminjavörðinn, Matthías Þórðarson, vita um þetta. Skoðaði hann höfuðkúpurnar, sem báðar voru heillegar, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að önnur myndi af manni, sem kominn hefði verið allmjög til aldurs, er hann dó, en hin af miðaldra manni. Tjáði Magnús honum, að glöggt hefði mátt sjá, að eldri maðurinn hefði ekki verið lagður til, því að hann hefði sýnilega verið krepptur í gröf sinni, og öll hefðu beinin verið þétt saman.
Nú leið og beið, því Matthías hafði ekki tök á því að sinni að kanna sjálfur stað þann, er beinin fundust á. Voru beinin því geymd og ráðstöfun þeirra látin bíða betri tíma. Og meðan þess var beðið, að fornminjavörður kæmi á vettvang, skeggræddu menn sín á millí um það, hvernig staðið gæti á þessum beinum í Hvaleyrarbökkum. Það var raunar kunnugt, að á Hvaleyri hafði lengi verið kirkja, sem ekki var tekin af fyrr en árið 1765. Sást þar enn fyrir kirkjugarðinum í túni heimajarðarinnar, og hafði hann ekki verið þar, sem beinin voru. Þá var enn fremur kunnugt, að þýzkir kaupmenn áttu kirkju í Hafnarfirði á 16. öld, og sjálfsagt hafa þeir farmenn þýzkir, er létust í Íslandsferðum, verið grafnir við hana En engin líkindi voru til þess, að hún hefði staðið yzt á sjávarbökkum á Hvaleyri, auk þess sem allt benti til þess, að þeir menn, sem þarna hvíldu, hefðu verið dysjaðir utan garðs, án þess umbúnaðar, er siður var að veita líkum í vígðum reitum. Bar því allt að þeim brunni, að þarna lægju annað tveggja sekir menn eða útlendingar, sem ekki þóttu þess verðir að hvíla meðal annarra kristinna manna, kasaðir af óvinum sínum eða minnsta kosti þeim, er ekki vildu við þá kannast sem bræður í Kristi.
hvaleyri - tunakort 1908 IINú voru uppi ýmsar sagnir um um erjur og bardaga á þessum slóðum, er enskir og þýzkir kaupmenn lögðu hvað mest kapp á að ná hér fótfestu. Þess vegna tóku menn að fletta í gömlum annálum og leita þar frásagna, er gætu leyst þessa gátu.
Biskupaannálar Jóns Egilssonar í Hrepphólum geymdu tvær sögur, sem menn stöldruðu við. Þar var sagt, að ábótinn í Viðey á dögum Magnúsar Eyjólfssonar, sem biskup var í Skálholti 1477-1490, hefði í kringum 1480 ráðizt með liðsafla á Englendinga, er lágu við Fornubúðir í Hafnarfirði, fyrir þær sakir, að þeir höfðu rænt skreið klaustursins. Hefur þessi ábóti verið Steinmóður Bárðarson, harðskeyttur maður og mikill fyrir sér. Hafði hann sigur í orrustunni, en mannfall hefur nokkurt orðið, því að þar lét lífið sonur ábótans, er Snjólfur hét. Í öðru lagi kunni Jón Egilsson að greina frá öðrum bardaga á þessum sömu slóðum milli Englendinga og þýzkra kaupmanna, Hamborgara. Lutu Englendingar í lægra haldi í þeirri viðureign fyrir Þjóðverjum“, sem „rýmdu hinum burt og fluttu sig fram á eyrina og hafa verið þar síðan.“ Þetta gerðist kringum 1518. Leizt mönnum fljótt, að þarna á Hvaleyrarbökkum myndu Englendingar, sem fallið höfðu í öðrum hvorum þessara bardaga, hafa verið heygðir, því að einsýnt var, að bæði íslenzkir menn og þýzkir, er féllu í  þessum bardögum, hefðu verið færðir til kirkju.

Hvaleyri

Hvaleyri – samsett herforingjaráðskort 1903.

Er ekki ólíklegt, að um þetta leyti hafi ýmsum orðið tíðlitið til þeirra staða, þar sem hinir ensku og þýzku kaupmenn höfðu bækistöðvar sínar endur fyrir löngu. Á eyrinni, þar sem nú heitir Skiphóll, voru búðir Hamborgara, en í túnfæti fyrir austan Hjartarkot voru vallgrónar rústir tveggja stórra búða: Fornubúðir, þar „em hinir ófyrirleitnu Englendingar lágu með kaupskip á dögum Steinmóði ábóta. Það mátti að sönnu láta sér til hugar koma, að Jón í Hrepphólum hafi ekki kunnað glögg skil á hinum gömlu erjum í Hafnarfirði — jafnvel, að sitthvað væri missagt í fræðum hans. Hann fæddist sjálfur ekki fyrr en um miðja sextándu öld, svo að margt það, sem um þessi stórtíðindi hafði verið sagt, gat afbakazt, áður en hann nam söguna, einkum hvað varðaði hinn fyrri bardaga, er Viðeyjarábóti átti við Englendinga. En engin ástæða er til þess að rengja það, að þarna hafi mannskæð átök orðið, enda segir Jón Guðmundsson lærði einnig frá því í rtii sínu „um ættir og slekti“, að forfaðir sinn, Magnús Auðunsson hins ríka, hafi fallið á Jófríðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna.“
Bústýran í Hjartarkoti leitaði hófanna um það við sóknarprest sinn, séra Árna Björnsson í Görðum, að hann greftraði beinin, þegar það væri tímabært Hann færðist undan því að jarðsyngja beinin, en Pálína sótti þeim mun fastar á, og þegar hún fékk engu um þokað, sneri hún sér til biskups í þeirri von, að hann vildi taka af skarið. En þegar biskup fékkst ekki til þess að skipa séra Árna að verða við óskum Pálínu, fór málið að vandast.
Þegar hér var komið, mun fólkinu í Hjartarkoti hafa verið orðið mikið kappsmál, að beinin yrðu grafin í kirkjugarði, enda greip það nú til þess ráðs að segja sig úr þjóðkirkjunni og ganga í fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði. Séra Ólafur Ólafsson var prestur fríkirkjusafnaðarins, og hann tjáði sig fúsan að jarða beinin með þeim hætti, er Hjartarkotsfólki mátti vel líka. En ekki var það unnt fyrr en Matthías Þórðarson hafði gert þær athuganir, er hann taldi við eiga.
hafnarfjordur 1955Ekki varð úr því fyrr en í ágústmánuði, að Matthías kæmi suður á Hvaleyri til rannsókna. Gróf hann þá í bakkann, þar sem Magnús Benjamínsson hafði fundið beinin úr mönnunum tveimur. Fann hann þar bein úr neðri hluta annars mannsins, sem önnur hauskúpa var úr, svo sem fimmtíu sentímetra undir grassverðinum. Þessi bein voru heilleg, og mældust lærleggirnir fimmtíu sentimetrar á lengd. Hafði hægri handleggur verið sveigður yfir manninn miðjan, og þótti Matthíasi ekki vafi leika á þvi, að þessi maður hefði verið lagður til líkt og venja var á miðöldum.
Þegar hann hafði tekið upp þessi bein, var grafinn upp kistill sá, er í var hauskúpan og beinin, er Pálína í Hjartarkoti fann í öndverðu. Var hún þar í mónum, er Magnús vísaði til, og reyndist kúpan af ungum manni. Þegar Matthías hafði þetta starfað, seldi hann þeim Magnúsi og Pálínu beinin í hendur, kvaddi og hélt á brott.
Nú var það eitt eftir að neyta þess, að séra Ólafur fríkirkjuprestur vildi syngja yfir beinunum. Og það var ekki látið dragast úr hömlu. Þetta var stutt athöfn, og innan lítillar stundar, er henni lokið. Þegar beinakistunni hefur verið sökkt í gröfina í kirkjugarðinum ofan við Jófríðarstaði og séra Ólafur kastað á hana rekunum, tekur Magnús Benjamínsson skóflu og mokar ofan í. Þá er þessu lokið. Beinunum hefur verið sýnt sú tillitssemi, sem er á valdi fólksins í Hjartarkoti, og fólk aftan úr öldum þarf ekki framar að koma til bústýrunnar í draumi til þess að bera henni tilmæli sín.“

 

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 9. ágúst 1964, bls. 724-725 og 247.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

Hvaleyri

Í Lesbók Morgunblaðsins má lesa eftirfarandi um síðasta ábúandann á Hvaleyri árið 1977:
„Nesið sunnan við Hafnarfjörð hefur heitið Hvaleyri frá fornu farí, ef marka má Landnámu. Þar áttu þeir viðdvöl, Hrafna Flóki og hans menn og fundu rekinn hval eftir því sem sagan segir, og nefndu staðinn Hvaleyri. Sé það rétt, mun það örnefni elzt við Faxaflóa. Síðan fer litlum sögum af landnámi og búskap á Hvaleyri. Þar var grösugast við Hafnarfjörð og kotin urðu mörg og smá. Líkt og víðast annarsstaðar suður með sjó, var fátæktin förunautur þeirra sem kusu sér búsetu þar og nábýlið við Bessastaði var búendum ekki fagnaðarefni.
Túnin á Hvaleyri voru grasgefin og þar var þó ólíkt betra undir bú en suður í Hraunum eða á Vatnsleysuströnd.
sveinskot-1Þannig leið tíminn án sjáanlegra stórmerkja, unz þáttaskil urðu fyrir 10 árum, að Golfklúbburinn Keilir fékk túnin til umráða og þar hefur verið golfvöllur síðan. Það voru undarleg ósköp í augum þeirra, sem höfðu erjað þessa jörð og aldrei litið uppúr puðinu. En tímanna tákn var það aungvu að síður.
Nú hafa kotin verið jöfnuð við jörðu. Eftir standa Vesturkot, sem nú er félagsheimili golfklúbbsins Hvaleyrarbærinn, sem senn mun hverfa — og Sveinskot, neðan við veginn, skammt eftir að komið er inn á Hvaleyrina. Það er eini bærinn, sem eftir er og hefur dálítinn afgirtan túnbJett út af fyrir sig, íbúðarhús og útihús. En einnig þar er allt á síðasta snúningi og meðfylgjandi myndir frá í vor voru teknar til að halda á lofti minningunni um síðasta bæinn á Hvaleyri og bóndann þar, Ársæl Grímsson. Húsið ber svipmót kreppuáranna, klætt bárujárni og lítið á mælikvarða nútíðar. En það ber með sér þokka, sem smiðir þessa tíma gátu laðað fram, þó ekki væri úr miklu að spila. Út um víðan völl voru lambærnar að kroppa grængresið, gular á lagði.
Eins og í hverjum öðrum vorönnum, grípur Ársæll í að verka svo sem eina hjólbörufylli af grásleppu og hengir á rár. Það er eins og vant er, að bóndinn sér ekki út úr verkefnunum og hefur hann þó í fleiri horn að líta en þau, sem blasa við augum innan girðingar í Sveinskoti. Frá stofnun golfklúbbsins hefur Ársæll verið ötull og ómissandi starfskraftur og hefur hann bætt við eigin bústörf lengri vinnudegi á golfvellinum en hægt er að ætlast til að einn maður geri, jafnvel þótt hann væri á bezta aldri.
sveinskot-2Það sýnist þó ekki há Ársæli, að hann er nálega jafn gamall öldinni; 76 ára, og mættu ýmsir aldarfjórðungi yngri, öfunda hann af þrekinu. Sjálfum þykir honum ekki svo mikið til þess koma. Hann þekkir ekki annað en vera fílhraustur og hann hefur aðhyllst þá kenningu um dagana, að vinnan sé guðs dýrð, eins og Halldór Laxness segir einhversstaðar, og guðsdýrðin verður aldrei meiri en á vorin, þegar helzt þarf að gera allt í senn: Bera áburð, hengja upp grásleppu, slá brautir og flatir á golfvellinum og sinna lambfé. Á vorin og sumrin er Ársæll kominn til starfa um sexleytið á morgnana og heldur sínu striki frameftir deginum fyrir því.
Eftir tveggja ára búskap á Tóftum við Grindavík fluttist Ársæll með fjölskyldu sína að Sveinskoti á Hvaleyri, sem hefur orðið honum kærastur samastaður; svo samgróinn er hann eyrinni, að hann er líkt og hluti af ásýnd staðarins.
Um það leyti sem þau hjón fluttu þangað inneftir, voru fimm bæir á Hvaleyri: Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyri, Vesturkot og Halldórskot. Nú var mun landþrengra en á Tóftum, en túnið var og er grasgefið og hann gat haft 7 kýr, 40—50 fjár og einn vagnhest. Ekki var þó alveg heyfengur handa þeirri áhöfn, en hér var Ársæll kominn í tölu mjólkurframleiðenda. Mjólkin var sótt til Hafnarfjarðar og fór í samsöluna í Reykjavík. En jafnframt stundaði Ársæll vinnu hjá Olíustöðinni í Hafnarfirði þegar tími gafst til. Það fór vel um þau í Sveinskoti og þau fundu, að þarna áttu þau heima. Þeim Ársæli og Hansínu varð auðið þriggja dætra og tveggja sona. Annar sonanna drukknaði af Grindvíkingi, en Grímur sonur þeirra er einn af grásleppukóngunum svonefndu við Hafnarfjörð.
Þáttaskil urðu í búskap Ársæls í Sveinskoti urðu þegar Golfklúbburinn Keilir fékk Hvaleyrina til umráða.

Hvaleyri

Hvaleyri – túngarður.

Þegar það var á döfinni, kvaðst Ársæll hafa kviðið fyrir þeim umskiptum, sem hlutu að verða, án þess þó að hafa hugmynd um, hvað þar var á ferðinni. Það fór þó svo, að Ársæll varð nánast ómissandi starfskraftur fyrir þennan félagsskap og óhætt að segja, að hann er tengdur honum sterkum böndum. Það var enda að vonum og verðleikum, að Ársæll var sæmdur heiðursmerki Keilis á tíu ára afmæli klúbbsins á þessu ári.
Fyrir tveimur árum urðu enn þáttaskil. Þá fluttust þau hjónin úr gamla húsinu í Sveinskoti í sambýlishús við Suðurgötu í Hafnarfirði. Þau voru heppin með sambýlisfólk, en þetta voru aungvu að síður mikil viðbrigði og Ársæll kveðst ekki beint geta sagt, að hann eigi þar heima. „Ég á fyrst og fremst heima á Hvaleyrinni,“ segir Ársæll, „af þeim stöðum sem ég hef búið á, hef ég kunnað bezt við mig þar“.
Ársæll lést 23. febrúar árið 1998.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 6 nóv. 1977, bls. 8-9 og 16.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

 

Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson fjallar um „Eldstríð Hafnfirðinga“ í Þjóðviljanum árið 1960. Greinin er sú fyrri af tveimur um sama efni:
gisli sigurdsson„Fyrr á tímum háðu Hafnfirðingar baráttu við eldinn, slíka að henni verður ekki betur lýst er með orðum mannsins er bezt hefur kynnt sér það mál: „Það var heimsstríð“. Maður er nefndur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn í Hafnarfirði. Í tíu ára hefur hann varið hverri frístund til þess að grafa úr gleymsku og forða frá glötun fjölmörgu úr sögu Hafnarfjarðar, sem ella hefði glatazt. Hann segir hér húsmæðrum er nú kveikja ljós og eld með snertingu við rafmagnshnapp (og fá vonandi enn fleiri slíka hnappa og aukna sjálfvirkni í eldhúsin) frá eldstríði formæðra þeirra.
Sögufélag mun ekkert vera til í Hafnarfirði (en örfáir Hafnfirðingar í Sögufélagi Ísfirðinga), en saga Hafnarfjarðar kom út á aldarfjórðungsafmæli Hafnarfjarðar sem kaupstaður árið 1933. Kjartan Ólafsson flutti tillögu í bæjarstjórninni um ritun slíkrar sögu og Sigurður Skúlason magister var ráðinn til verksins og fékk hann ekki nema tvö ár til þessa verks og því ekki að vænta að hann gæti grafið allt upp.
Gísli Sigurðsson lögregluþjónn hefur eytt til þess öllum frístundum sínum í tíu ár að safna til varðveizlu ýmsu er bregður ljósi yfir lífsbaráttu og störf fólksins á þessum stað. Hvort Hafnfirðingar meta þetta starf að verðleikum fyrr en löngu eftir að Gísli er genginn og grafinn skal ósagt látið, en seinni tíma menn verða honum þakklátir. Fyrir tilviljun komst ég á snoðir um þessar rannsóknir Gísla og spurði hann því nánar um málið.
— Ert þú innfæddur Hafnfirðingur, Gísli?
— Nei, ég kom hingað 1911, stráklingur með foreldrum mínum, en fram að þeim tíma voru þau vinnuhjú austur í sveit.
—En samt ert það þú sem reynir að varðveita þætti úr sögu Hafnarfjarðar. Er langt síðan þú byrjaðir á því?
— Það var á miðju sumri 1950 að ég byrjaði á þessu, en síðan hef ég notað allar frístundir í þessu augnamiði.
— Hvernig hefur þú unnið að þessu?
— Ég hef bæði safnað munnlegum heimildum gamals fólks í bænum og einnig farið í gegnum ógrynni af prentuðum heimildum. Ég hef fengið um hálft annað hundrað viðtala við gamla Hafnfirðinga, lýsingu á 50 gömlum húsum og um hundrað gamalla bæja, torfbæja og timburbæja. Ég hef einnig fengið nokkrar lýsingar á lóðum, annars var lóðaskipunin gamla fremur lítið breytt fram til þess að ég kom til Hafnarfjarðar. Nokkuð hef ég fengið af þjóðsögum, en það er ekki mjög mikið af þeim hérna.
moburdur— Hvernig þjóðsögur eru það?
— Huldufólkssögur helzt, en þó eru til nokkurs konar draugasögur, — og nú brosir Gísli kankvíslega um leið og hann heldur áfram: eins og t.d. þegar Ólöf gamla hálfhrakti hann Geira bróður útúr Undirhamarsbænum á gamlárskvöld 1923. Það mun vera ein yngsta fyrirburðasagan hér í bæ. Gamlir menn sögðu mér að þetta hefði ekkert verið og röktu flest slíkt til missýninga. Í þessum viðtölum við gamla Hafnfirðinga hef ég komizt töluvert inn í lífsbaráttu fólksins, t.d. eldiviðaröflun, — það var heimsstríð að hafa í eldinn.
— Já, segðu mér eitthvað frá því stríði.
— Flestir urðu að taka upp mó inni í Hraunsholtsmýri og bera móinn á sjálfum sér suður í Hafnarfjörð. Þar af eru nöfn „Hvíldarklettanna“ við veginn í hrauninu komin. Nú er búið að brjóta þá alla niður í veginn nema einn. Þar settist fólk til að hvíla sig undir mópokunum. Svo var verið að hirða þöngla og allskonar rek í fjörunni. Þá fóru menn líka í hrísmó upp um allt og rifu hrís og mosa svo til landauðnar horfði. En það var líka til fólk sem ekki þurfti að standa í þessu stríði. Kaupmennirnir keyptu t.d. flestir um 40 hesta af mó árlega og létu flytja að sér. Þeir sem áttu skip fóru fyrir Álftanes á haustin og fluttu móinn sjóleiðis. Þeir urðu að velja sér sérstaklega gott veður því bátarnir voru svo hlaðnir. Þeir settu spýtur upp með borðstokkunum og þverslár þar á milli og þannig urðu bátarnir háfermdir. Stundum þurftu þeir því að hleypa upp á Álftanes á heimleiðinni til þess að forða mönnum og bátum frá því að sökkva.
— Var allur mór sóttur í þessa mýri?
— Nei, nokkuð fékkst af mó í Firðinum sjálfum og Hafnfirðingar fóru líka alla leið inn í Nauthólsvík til þess að taka upp mó þar. Á þrem stöðum hér í Hafnarfirði var aðallega hægt að fá mó. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn er nú, þar var mórinn 18 stungur. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu. Og í mýrinni hjá Brandsbæ var einnig mór, þar var hann 6 stungur. – Í Sjávarmýrinni náði mórinn talsvert niður fyrir sjávarmál og upp í hallann hjá Kaldárstígnum gamla, þar man ég eftir mógröfum.
— Já, Kaldá, það varð nokkur saga af henni.
— Já, gamla Kaldá er löngu horfin, en þar var reist fyrsta gosdrykkjaverksmiðja á Íslandi. Jón Þórarinsson skólastjóri lét byggja hana og hún mun hafa starfað í 20 ár, en þegar hann seldi tók Milljónafélagið við.
— Milljónafélagið sem Thor Jensen tapaði minninu hjá?
— Nei, þetta var annað milljónafélag. Pétur J. Thorsteinsson o.fl. voru með það, en þetta milljónafélag fór einnig á hausinn. Jensen missti minnið svo gersamlega hjá hinu milljónafélaginu að hann gat með engu móti rámað í það að hann hefði átt heima í gamla Sívertsenhúsinu í Hafnarfirði í 1 eða 2 ár!
En svo við höldum áfram að tala um móinn þá fékkst sjávarmór vestur í Skerseyri. Ef fjörumölinni var mokað ofan af mátti ná bar í mó um fjöru. (Enn ein sönnun þess hve Suðurnesin hafa sigið). Og vestur í Víðistöðum var víst einhver móvera, en undir Víðistaðahvosinni er móhella — Víðistaðir eru eyja niðri í hrauninu sem það hefur runnið í kringum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

— Það hefur verið erfitt stríð að halda eldinum lifandi.
— Já, t.d. þegar faðir Jóns Einarssonar verkstjóra fór í róðra kl. 2—3 á næturnar fór kona hans jafnsnemma til að sækja mósa í eldinn suður í Bruna, — það mun vera um 5 km gangur hvora leið. Þær fóru í flokkum kerlingarnar og báru sinn tunnupokann hver af mosa til baka.
Í hrísmó upp í Kaldársel var 7 km leið. Fólk fór það aðallega á næturnar, því eiginlega var það bannað — margbannað. Það var stuldur, en einhverju varð fólkið að brenna.
— Einar minn í Gestshúsum — nú er hann orðinn 90 ára — hefur sagt mér, heldur Gísli áfram, að þegar hann var 8 ára var hann látinn bera út mó úr kesti inni í Hraunholtsmýri á móti mömmu sinni. Þegar litlu fingurnir höfðu ekki lengur afl til að halda um börukjálkana var sett snæri um kjálkana, og aftur yfir háls drengsins, og þannig var hann látinn halda áfram unz síðasti hnausinn var kominn til þerris. Þá andvarpaði móðir hans (sem hafði eldiviðarleysi komandi vetrar í huga): Það vildi ég að kominn væri annar köstur!

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

— En þrátt fyrir þetta er hann nú orðinn níræður, blessaður karlinn. Þeir sem höfðu útgerð létu þurrka hvern hrygg og hvern haus til að hafa í eldinn. Jón Einarsson verkstjóri sagði mér að þegar hann og bræður hans voru strákar voru þeir látnir bera allt slíkt frá útgerð föður síns upp í Einarsgerði (var þar sem Herkastalinn var byggður við Austurgötuna) en þar höfðu verið hlaðnir garðar til að þurrka á. Þorskhausar voru hertir til matar en hausar annarra fiska og hryggir til eldsneytis.
— Og hvernig voru svo eldhúsin sem öllum þessum mó, hnausum, mosa og hrísi var brennt í?
— Hlóðirnar í Hjörtskoti standa enn, en Hjörtskot mun vera eini gamli bærinn sem enn stendur að mestu í svipuðu formi og fyrr, nema sett hefur verið á hann járn. Eldhúsið og hlóðirnar standa enn. Vestur á Skerseyri er enn til gömul eldhústóft. Hún er um 2-1/2×2 álnir að flatarmáli.
—Og bæirnir sjálfir lélegir?
— Já, gömlu bæirnir voru margir af vanefnum byggðir. T. d. var bærinn sem Kristinn Auðunsson (kunnur forfaðir margra ágætismanna) þannig að það kom varla svo dropi úr lofti að ekki hripaði inn í bæinn. Það blæs og hripar gegnum veggi sem hlaðnir eru úr hraungrýti (hraðstorknu gosgrjóti) og því var hafður svelgur í gólfinu í mörgum þeirra bæja sem voru með moldargólfi. Þótt þekjan væri úr tvöfaldri snyddu lak í gegnum hana því grasrót tekin í hrauni er allt annað en mýrartorf. Bæirnir voru viðaðir með skarsúð og þar utanyfir var rennisúð. Sumstaðar voru settir listar á samskeytin og tjargað yfir, en annarstaðár var snyddu hlaðið utaná til skjóls. Bæirnir munu flestir hafa enzt illa. Þórnýjár- og Pétursbær voru t.d. báðir byggðir um 1890 en báðir tæplega mannabústaðir um aldamót. Bæir sem gerðir voru af slíkum vanefnum munu yfirleitt ekki hafa enzt nema í 10 ár.
En hvernig var með vatn – annað en lekann?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

— Það var líka stríð að hafa neyzluvatn á hraunbæjunum. Allt vatn var sótt í lækinn, hvar sem menn bjuggu í hrauninu. Þar sem Selvogsgatan er nú uppi á Hamrinum var lind, nefnd „Góðhola“ og sóttu Hamarsbúar þangað vatn sitt. Dý var þar sem Kaldá var byggð og þangað sóttu sunnanbyggjar vatn. En allir sem áttu heima fyrir vestan Læk sóttu vatn í Lækinn. María Kristjansdóttir sagði mér frá því að þegar hún var 8 ára, lítið vaxin og pasturslítil, var hún send vestan frá Sveinshúsi (nú Merkurgata 3) suður í Læk með tvær vatnsfötur. Hún fyllti þær í Læknum og rogaðist með þær vestur eftir, en þegar þangað var komið var oft harla lítið eftir í fötunum, því föturnar voru stórar en telpan lítil og var því alla leiðina að reka þær í og hella niður og utaní sjálfa sig. Konur fóru einnig með þvottinn í Lækinn. Læknar sem hingað komu höfðu orð á bví að hér væri þvotturinn hvítari en í Reykjavík, sem mun hafa stafað af því að þegar þvegið var í Laugunum þurfti að bera þvottinn langa leið í bæinn, en hér var hann líka skolaður úr köldu rennandi vatni. — Já, neyzluvatnið var sótt í sama lækinn og þvegið var í.
— Þú segist hafa fengið lýsingu á 100 bæjum, — og þá líka hvar þeir stóðu?
— Já, mér hefur tekizt að fá töluvert af upplýsingum um bæina og byggðahverfin og töluvert um fólkið sem í þeim bjó.
Það segir betur frá því í síðari grein. -J. B.“

Heimild:
-Þjóðviljinn 10. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.
stríð