Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1964 má lesa eftirfarandi um beinafund við Hjörtskot á Hvaleyri undir fyrirsögninni „Lítil saga sunnan af Hvaleyri„:
„Nokkru eftir að Pálína gerðist ráðskona hjá Magnúsi í Hjartarkoti, sennilega haustið 1922, fann hún þarna mannabein í rofbakka, höfuðkúpu og hálslið. Tók hún beinin í sínar vörzlur, svo að þau veltust ekki í reiðuleysi í fjörunni. Sjálfsagt hafa henni verið bein þessi hugstæð, enda ekki alsiða, að bústýrur á Íslandi hafi mannabein í fórum sínum. En hvað sem um það er, þá gerðist það þessu næst, að Pálínu birtist sýn í svefni. Þótti henni sem á sinn fund kæmu tveir karlmenn og ein kona og þökkuðu henni varðveizlu beinanna, en báðu hana þó að hlúa betur að þeim. Sungu þau síðan sálm og lauk með því draumnum. Þótti þeim hjónum ráð að grafa beinin sem næst þeim stað, er þau höfðu fundizt á, en þó svo, að þau væru óhult í sjávargangi. Voru þau látin í kistil, sem Magnús gróf í mónum úti á bökkunum, skammt frá fundarstaðnum, þegar klaki var úr jörðu.
En þess var ekki langt að bíða, að meira fyhdist af mannabeinum þarna á Hvaleyrarbökkum. Haustið 1924 veitti Magnús því athygli, að bein voru í fjörunni og fleiri stóðu út úr rofinu. Safnaði hann þeim saman og gróf síðan nokkuð í bakkann fyrir forvitnis sakir. Fann hann þar tvær hauskúpur til viðbótar og mörg bein önnur úr tveim mönnum, ásamt einum hornhnappi.
Nú var fólkinu í Hjartarkoti nóg boðið, er mannabein hlóðust að því með þessum hætti, og varð það fanga ráðið að láta fornminjavörðinn, Matthías Þórðarson, vita um þetta. Skoðaði hann höfuðkúpurnar, sem báðar voru heillegar, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að önnur myndi af manni, sem kominn hefði verið allmjög til aldurs, er hann dó, en hin af miðaldra manni. Tjáði Magnús honum, að glöggt hefði mátt sjá, að eldri maðurinn hefði ekki verið lagður til, því að hann hefði sýnilega verið krepptur í gröf sinni, og öll hefðu beinin verið þétt saman.
Nú leið og beið, því Matthías hafði ekki tök á því að sinni að kanna sjálfur stað þann, er beinin fundust á. Voru beinin því geymd og ráðstöfun þeirra látin bíða betri tíma. Og meðan þess var beðið, að fornminjavörður kæmi á vettvang, skeggræddu menn sín á millí um það, hvernig staðið gæti á þessum beinum í Hvaleyrarbökkum. Það var raunar kunnugt, að á Hvaleyri hafði lengi verið kirkja, sem ekki var tekin af fyrr en árið 1765. Sást þar enn fyrir kirkjugarðinum í túni heimajarðarinnar, og hafði hann ekki verið þar, sem beinin voru. Þá var enn fremur kunnugt, að þýzkir kaupmenn áttu kirkju í Hafnarfirði á 16. öld, og sjálfsagt hafa þeir farmenn þýzkir, er létust í Íslandsferðum, verið grafnir við hana En engin líkindi voru til þess, að hún hefði staðið yzt á sjávarbökkum á Hvaleyri, auk þess sem allt benti til þess, að þeir menn, sem þarna hvíldu, hefðu verið dysjaðir utan garðs, án þess umbúnaðar, er siður var að veita líkum í vígðum reitum. Bar því allt að þeim brunni, að þarna lægju annað tveggja sekir menn eða útlendingar, sem ekki þóttu þess verðir að hvíla meðal annarra kristinna manna, kasaðir af óvinum sínum eða minnsta kosti þeim, er ekki vildu við þá kannast sem bræður í Kristi.
Nú voru uppi ýmsar sagnir um um erjur og bardaga á þessum slóðum, er enskir og þýzkir kaupmenn lögðu hvað mest kapp á að ná hér fótfestu. Þess vegna tóku menn að fletta í gömlum annálum og leita þar frásagna, er gætu leyst þessa gátu.
Biskupaannálar Jóns Egilssonar í Hrepphólum geymdu tvær sögur, sem menn stöldruðu við. Þar var sagt, að ábótinn í Viðey á dögum Magnúsar Eyjólfssonar, sem biskup var í Skálholti 1477-1490, hefði í kringum 1480 ráðizt með liðsafla á Englendinga, er lágu við Fornubúðir í Hafnarfirði, fyrir þær sakir, að þeir höfðu rænt skreið klaustursins. Hefur þessi ábóti verið Steinmóður Bárðarson, harðskeyttur maður og mikill fyrir sér. Hafði hann sigur í orrustunni, en mannfall hefur nokkurt orðið, því að þar lét lífið sonur ábótans, er Snjólfur hét. Í öðru lagi kunni Jón Egilsson að greina frá öðrum bardaga á þessum sömu slóðum milli Englendinga og þýzkra kaupmanna, Hamborgara. Lutu Englendingar í lægra haldi í þeirri viðureign fyrir Þjóðverjum“, sem „rýmdu hinum burt og fluttu sig fram á eyrina og hafa verið þar síðan.“ Þetta gerðist kringum 1518. Leizt mönnum fljótt, að þarna á Hvaleyrarbökkum myndu Englendingar, sem fallið höfðu í öðrum hvorum þessara bardaga, hafa verið heygðir, því að einsýnt var, að bæði íslenzkir menn og þýzkir, er féllu í þessum bardögum, hefðu verið færðir til kirkju.
Hvaleyri – samsett herforingjaráðskort 1903.
Er ekki ólíklegt, að um þetta leyti hafi ýmsum orðið tíðlitið til þeirra staða, þar sem hinir ensku og þýzku kaupmenn höfðu bækistöðvar sínar endur fyrir löngu. Á eyrinni, þar sem nú heitir Skiphóll, voru búðir Hamborgara, en í túnfæti fyrir austan Hjartarkot voru vallgrónar rústir tveggja stórra búða: Fornubúðir, þar „em hinir ófyrirleitnu Englendingar lágu með kaupskip á dögum Steinmóði ábóta. Það mátti að sönnu láta sér til hugar koma, að Jón í Hrepphólum hafi ekki kunnað glögg skil á hinum gömlu erjum í Hafnarfirði — jafnvel, að sitthvað væri missagt í fræðum hans. Hann fæddist sjálfur ekki fyrr en um miðja sextándu öld, svo að margt það, sem um þessi stórtíðindi hafði verið sagt, gat afbakazt, áður en hann nam söguna, einkum hvað varðaði hinn fyrri bardaga, er Viðeyjarábóti átti við Englendinga. En engin ástæða er til þess að rengja það, að þarna hafi mannskæð átök orðið, enda segir Jón Guðmundsson lærði einnig frá því í rtii sínu „um ættir og slekti“, að forfaðir sinn, Magnús Auðunsson hins ríka, hafi fallið á Jófríðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna.“
Bústýran í Hjartarkoti leitaði hófanna um það við sóknarprest sinn, séra Árna Björnsson í Görðum, að hann greftraði beinin, þegar það væri tímabært Hann færðist undan því að jarðsyngja beinin, en Pálína sótti þeim mun fastar á, og þegar hún fékk engu um þokað, sneri hún sér til biskups í þeirri von, að hann vildi taka af skarið. En þegar biskup fékkst ekki til þess að skipa séra Árna að verða við óskum Pálínu, fór málið að vandast.
Þegar hér var komið, mun fólkinu í Hjartarkoti hafa verið orðið mikið kappsmál, að beinin yrðu grafin í kirkjugarði, enda greip það nú til þess ráðs að segja sig úr þjóðkirkjunni og ganga í fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði. Séra Ólafur Ólafsson var prestur fríkirkjusafnaðarins, og hann tjáði sig fúsan að jarða beinin með þeim hætti, er Hjartarkotsfólki mátti vel líka. En ekki var það unnt fyrr en Matthías Þórðarson hafði gert þær athuganir, er hann taldi við eiga.
Ekki varð úr því fyrr en í ágústmánuði, að Matthías kæmi suður á Hvaleyri til rannsókna. Gróf hann þá í bakkann, þar sem Magnús Benjamínsson hafði fundið beinin úr mönnunum tveimur. Fann hann þar bein úr neðri hluta annars mannsins, sem önnur hauskúpa var úr, svo sem fimmtíu sentímetra undir grassverðinum. Þessi bein voru heilleg, og mældust lærleggirnir fimmtíu sentimetrar á lengd. Hafði hægri handleggur verið sveigður yfir manninn miðjan, og þótti Matthíasi ekki vafi leika á þvi, að þessi maður hefði verið lagður til líkt og venja var á miðöldum.
Þegar hann hafði tekið upp þessi bein, var grafinn upp kistill sá, er í var hauskúpan og beinin, er Pálína í Hjartarkoti fann í öndverðu. Var hún þar í mónum, er Magnús vísaði til, og reyndist kúpan af ungum manni. Þegar Matthías hafði þetta starfað, seldi hann þeim Magnúsi og Pálínu beinin í hendur, kvaddi og hélt á brott.
Nú var það eitt eftir að neyta þess, að séra Ólafur fríkirkjuprestur vildi syngja yfir beinunum. Og það var ekki látið dragast úr hömlu. Þetta var stutt athöfn, og innan lítillar stundar, er henni lokið. Þegar beinakistunni hefur verið sökkt í gröfina í kirkjugarðinum ofan við Jófríðarstaði og séra Ólafur kastað á hana rekunum, tekur Magnús Benjamínsson skóflu og mokar ofan í. Þá er þessu lokið. Beinunum hefur verið sýnt sú tillitssemi, sem er á valdi fólksins í Hjartarkoti, og fólk aftan úr öldum þarf ekki framar að koma til bústýrunnar í draumi til þess að bera henni tilmæli sín.“
Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 9. ágúst 1964, bls. 724-725 og 247.
Hvaleyri fyrrum – tilgáta.