Tag Archive for: Hafnarfjörður

Skátar

Í Foringjanum 1968, blaði skáta, er frétt „Frá Hafnarfirði“ um skátaskálann við Hvaleyrarvatn, Skátalund, eftir Eirík Jóhannesson:
„Frá St. Georgsgildinu hérna í Hafnarfirði er það helzt að frétta, að við héldum árshátíðina okkar um síðustu helgi, ásamt Hjálparsveitinni eins og undanfarin ár. Það sýnir að góð samvinna og vinátta er þar ríkjandi. Þarna munu vera allt að 150 eldri skátar, sem að nokkru leyti starfa saman að hugðarefnum sínum. 30. apríl sl. héldum við í Gildinu aðalfund, en þá um leið voru teknir fimm nýir félagar inn í Gildið, við hátíðlega athöfn. Að því loknu var spiluð félagsvist af miklu fjöri, en á milli þessara atriða var sungið mikið að vanda.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo sem lög mæla fyrir fór fram stjórnarkjör á fundinum og hlutu þessir kosningu: Gildismeistari: Eiríkur Jóhannesson. Varagildismeistari: Frú Ásthildur Magnúsdóttir. Gjaldkeri: Svavar Jóhannesson. Ritari: Kristinn Sigurðsson og meðstjórnandi: Frú Sigurlaug Jónsdóttir.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson.

Í vor sem leið, strax og vegir urðu færir, var hafizt handa að vinna við skálann við Hvaleyrarvatn. Hann hafði ennþá ekki fengið nafn eða hlotið vígslu, en nú var að því stefnt að slíkt gæti farið fram snemma á þessu sumri.
Í allan fyrravetur og fram á sumar var skálinn mikið notaður af skátum þæði frá Hafnarfirði og nágrenni. Okkur er það mikið gleðiefni að skátar vilja leggja leið sína þangað um helgar, og einnig í sambandi við sveitarútilegur á flötunum þar í kring. Einnig finnst bæði ljósálfa- og ylfingaforingjum hentugt að hafa þar áningarstað í dagsferðum.

Að vetrinum, þegar vatnið er ísi lagt, og snjór þekur jörð, má sjá bæði yngri og eldri skáta iðka þar vetraríþróttir af kappi.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo að ég segi ykkur meira um okkar ágæta skála, þá var hann hátíðlega vígður þriðjudaginn 25. júní, að viðstöddum drjúgum hóp gildisfélaga og velunnurum gildisins, og má þar nefna Axel Kristjánsson forstjóra, og fulltrúa B.Í.S. Franch Michelsen, samstarfsmann okkar. Að lokinni þessari hátíðlegu vígslu, þar sem skálinn fékk nafnið: „Skátalundur“, héldu gildiskonur öllum viðstöddum veglega veizlu, sem var þeim góðu konum til mikils sóma.
Til gamans má geta þess, að fleiri komu en boðnir voru, því meðan notið var góðgjörða, kom fönguleg dilkær með tveimur fallegum lömbum og kíkti inn til okkar, öllum til sannrar ánægju.
Að lokinni þessari ágætu veizlu var farið í leiki, sungið og skemmt sér lengi kvölds, unz haldið var heim í hinu fegursta sumarveðri.
Ég læt hér staðar numið, en ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar allra félaganna í St. Georgsgildi Hafnarfjarðar, að senda ykkur, kæru gildisfélagar út um land, okkar beztu gildiskveðjur ásamt ósk um gott vetrarstarf. – Hafnarfirði, 22/11 ’68 / Eiríkur Jóhannesson.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson í miðið; fæddur 9. september 1900 – dáinn 12. desember 1983.
„Við skátarnir í Hafnarfirði munum hann Eirík. Hann var svo snar þáttur í hafnfirsku skátastarfi, einn af hinum traustu hornsteinum sem félagsbragurinn og félagsandinn í Hraunbúum hvíldi á og mun gera enn um langa framtíð. Ljósálfum og ylfingum var hann uppspretta skátaanda og skyldurækni. Skátunum var hann félagi og vinur, alltaf viðbúinn að vekja gleði og góðvild, hlýja hugsun, söng og líf. Hjálparsveitinni var hann tákn hins trausta og trúa skáta, sem aldrei gleymdi kjarna og lífsviðhorfi skátahreyfingarinnar, — brautryðjandans sem ávallt var reiðubúinn að hjálpa öðrum, miðla öðrum og leggja sig fram um að vera alltaf og ævinlega viðbúinn, að bregðast fljótt og vel við hverjum þeim vanda sem að höndum bæri. Þannig var hann sjálfur bæði hreinn og heilsteyptur í orðum og öllum verkum allt til hinsta dags, vakandi og sívinnandi að öllu sem miðaði að meira manngildi, drengskap og dug.  
Við munum hann Eirík með gítarinn við eldinn, syngjandi skátasöngva, stundum að kenna okkur nýjan skátasöng, sem hann hafði búið til. Við munum góðlátlegu gamansemina hans, glettið blik í auga, hlýja handtakið og orð hans við kulnaðar glæður varðeldsins, til þess sögð að efla skátaandann, hjálpsemina, réttsýnina, tilfinninguna fyrir landi okkar, náttúrufegurð þess, gögnum og gæðum og til þess að vekja lotningu og trú á honum sem öllu ræður og allt þetta hefur skapað. Og við munum hann Eirík á vormótunum í Krýsuvík, á skátamótum hérlendis og erlendis, útdeilandi kakói og góðu skapi, hlédrægur og allt að því feimnislegur,
en þó svo nálægur og hlýr.
Já, þessir dagar, þeir koma í huga [mér enn,
já, þessa daga, þá muna fullorðnir [menn.
Sem skátar og vinir við eigum margt yndilegt minningasafn,“ sagði Tryggvi Þorsteinsson, skátaforingi á Akureyri í einum sinna skátasöngva. Þetta á svo víða vel við og kemur í hugann nú þegar við Hraunbúar kveðjum Eirík Jóhannesson hinstu kveðju. Með honum er genginn góður drengur, en eftir lifir minningin um ómetanlegan félaga, vin og mannræktarmann.
Nú eru komin leiðarlok. Eiríkur er farinn heim. 
Með skátakveðju.“ – F.h. Skátafélagsins Hraunbúar og Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði – Hörður Zóphaníasson.

Heimild:
-Foringinn, 5.-9. tbl. 01.12.1068, Frá Hafnarfirði – Skátaskáli við Hvaleyrarvatn, Eiríkur Jóhannesson, bls. IX.

Hvaleyrarvatn

Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson, skipaverkfræðingur og siglingamálastjóri, og eiginkona hans, Else Sörensen Bárðarson, létu eftir sig miklar eignir en þau áttu enga afkomendur. Else lést 28. maí 2008 en Hjálmar tæplega ári seinna 7. apríl 2009. Létu þau eftir sig eignir og fjármuni sem þau ánöfnuðu nokkrum aðilum. Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður hlutu 30% af eigum þeirra hvert um sig, en það sem eftir var skiptist jafnt milli Fuglaverndarfélags Íslands og þriggja safna.

Rögnvaldur R. Bárðarson

Rögnvaldur R. Bárðarson.

Hjálmar óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að fénu sem rann til Landgræðslusjóðs yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“. Stofnaður var minningarsjóður um hjónin sem starfa mun í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og í landgræðsluskógrækt með lúpínu. Jafnframt var Hjálmarssjóður settur á laggirnar sem veitir styrki til landgræðsluverkefna. Hjálmarssjóður hefur m.a. gert samning við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns þar sem áður var berangur en lúpínan hefur breytt svæðinu í vænlegt ræktunarland.

Ætlunin er að útbúa minningarreit um Hjálmar og Else í Vatnshlíðinni og vinnur Þráinn Hauksson landslags arkitekt að hönnun reitsins.

Else Sörensen Bárðarson

Else Sörensen Bárðarson.

Gróðursetning í Vatnshlíð hófst með formlegum hætti laugardaginn 17. september 2011 þegar um 30 sjálfboðaliðar mættu kl. 10.00 að morgni og plöntuðu stálpuðum trjám fram til kl. 14.00 um daginni. Að gróðursetningunni lokinni þáðu sjálfboðaliðarnir kaffi og meðlæti í Selinu í Höfðaskógi. Hjálmar var mikill áhugamaður um náttúru Íslands og kunnur ljósmyndari. Fuglaljósmyndir hans skipuðu stóran sess í lífsstarfinu og þessvegna var lögð sérstök áhersla á að gróðursetja berjarunna, reynitré og fleiri tegundir sem hafa sérstakt gildi fyrir fugla. Næstu sumur verður haldið áfram að planta út fjölbreyttum trjágróðri í lúpínubreiðurnar í Vatnshlíðinni og skapa þar sælureit. Ætlunin er að koma upp ljósmyndahúsi við Hvaleyarvatn með tíð og tíma til að auðvelda fuglaljósmyndurum að ná góðum fuglamyndum og bæta aðstöðuna við vatnið. Svæðið er mjög vinsælt meðal þeirra sem stunda fuglaljósmyndun enda fuglalíf í skóginum við Hvaleyrarvatn sérstaklega fjölbreytilegt.

Vatnshlíð

Minningarreiturinn í Vatnshlíð ofan Hvaleyrarvatns.

Hjálmar Rögnvaldur bjó lengi við Álftanesveg skammt frá norðurbæ Hafnarfjarðar en hann fæddist árið 1918 á Ísafirði og ólst þar upp. Hann tók fjölmargar ljósmyndir á heimaslóðum og gaf út merka ljósmyndabók um Vestfirði sem margir kannast við. Hjálmar fékk fyrstu myndavélina í fermingargjöf frá afa sínum og ömmu en vildi ekki kalla sig ljósmyndara þar sem hann var sjálfmenntaður í faginu. Hann lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1939 og útskrifaðist sem skipaverkfræðingur frá Tekniske Højskole í Kaupmannahöfn árið 1947 en faðir hans var fyrsti menntaði skipaverkfræðingur landsins. Hjálmar fetaði þar með í fótspor föður síns, en hann eyddi meginhluta starfsævinnar sem skipasmiður á Torfnesi á Ísafirði. Hjálmar varð skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri og gegndi starfinu til ársins 1985. Var hann þekktur um allan heim fyrir störf sín á vettvangi öryggismála sjófarenda og vörnum gegn mengun sjávar og hlaut Alþjóða siglingamálaverðlaunin, auk margra annarra viðurkenninga.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er stolt af því að Landgræðslusjóður og stjórn minningarsjóðsins hafi falið félagsmönnum að sinna þessu merka ræktunarstarfi og heiðra þannig minningu hjónanna Hjálmars R. og Else S. Bárðarsonar.

Minningarreitur og hólmar í Hvaleyrarvatni

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – hólmar.

Framkvæmdir við minningarreit um Hjálmar Rögnvald Bárðarson skipaverkfræðing og siglingamálastjóra og eiginkonu hans Else Sörensen Bárðarson í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn gengur vel. Reiturinn er hannaður af Þráni Haukssyni landslagsarkitekt og það eru Kristján Ingi Gunnarsson og Bjarni Sigurðsson sem hafa séð um framkvæmdina. Þeir hafa jafnaframt útbúið þrjá hólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni. Hólmarnir voru rétt mátulega tilbúnir þegar fyrstu farfuglarnir komu til landsins og voru vað- og andfuglar fljótir að átta sig á þessum nýju hólmum. Vatnsstaða hefur verið óvenju há í Hvaleyrarvatni seinni hluta vetrar og setti það aðeins strik í reikninginn en nú er vatnshæðin að ná stöðugleika og það verður spennandi að fylgjast með fuglalífinu í og umhverfis hólmana í sumar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Hjálmar og Else arfleiddu m.a. Landgræðslusjóð af hluta eigna sinna og vildu að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“ . Minningarsjóður var stofnaður um hjónin sem mun starfa í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðslusjóður heldur einnig utan um Hjálmarssjóð og veitir styrki úr sjóðnum sem eru hugsaðir til að efla landgræðsluskógrækt þar sem lúpína hefur breytt gróðusnauðu landi í ákjósanlegt skógræktarland.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gerði samning við Minningarsjóðinn um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns í landi sem var áður örföka en lúpínan hefur breytt landinu þannig að nú er það alveg kjörið til gróðursetningar og trjáræktar.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – Vatnshlíð.

Haustið 2011 var gróðursetning hafin með formlegum hætti í Vatnshlíð og stuttu seinna var hafist handa við að útbúa dvalarflöt þar sem minningarskildi um Hjálmar og Else Bárðarson verður komið fyrir á veglegum steindrangi.

Hjálmar var kunnur áhugamaður um ljósmyndun og lagði sig mjög fram um að ná góðum ljósmyndum af fuglum. Það vill svo vel til að skógræktarsvæðið umhverfis Hvaleyrarvatn er kjörinn vettvangur fyrir fuglaljósmyndara sem hafa margir náð afar merkum ljósmyndum af sjaldgæfum gestum sem og staðbundnum fuglum á svæðinu. Skógræktarfélaginu er umhugað um þessa vængjuðu skógarvini og hefur gert ýmislegt til að laða þá að svæðinu. Skógurinn er dvalarsvæði fjölmargra fugla og stöðugt bætast nýir í hópinn. Má þar til dæmis nefna glókollinn sem er minnsti í hópi nýju landnemanna hér á landi. Glókollahreiður hafa fundist í skógarlundi í Höfðaskógi nokkur ár í röð.

Á skilti í minningarlundinum í Vatnshlíð má lesa eftirfarandi:
Gróðurunnendur

Vatnshlíð

Vatnshlíð – skilti.

„Hjálmar var fæddur og uppalinn á Ísafirði. hann lauk námi í skipaverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole í kaupmannahöfn 1947. Að námi loknu starfaði hann á skipasmíðastöðvum í Danmörku og Englandi, en hóf svo störf hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík 1948. Þar hannaði hann og stóð fyrir smíði fyrsta íslenska stálskipsins, dráttarbátsins Magna. Hjálmar var skipaður skipaskoðunarstjóri ríkisins árið 1954 og síðar siglingamálastjóri til 1985. Hann tók virkan þátt í starfi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) og var forseti stofnunarinnar um þriggja ára skeið. Hann var einn af brautryðjendum í alþjóðlegum aðgerðum gegn mengun heimshafanna og kom að mótun reglna um öryggi í siglingum á heimsvísu og öryggismálum sjómanna. Fyrir störf sín að siglingamálum hlaut hann Höfrunginn, alþjóðleg verðlaun IMO, árið 1983. Hjálmar var afkastamikill og vandvirkur áhugaljósmyndari og höfundur tólf bóka í máli og myndum um Ísland og náttúru þess, auk tveggja bóka um íslensk fiskiskip.

Vatnshlíð

Vatnshlíð – minningarreiturinn 2021.

Else var fædd í Svíðþjóð, af dönskum foreldrum. Hún lauk prófi frá verslunarskóla í Danmörku 1940 og vann á skattstofu Kaupmannahafnar þar til þau Hjálmar fluttu til Íslands 1948. Else var góð tungumálamanneskja, söngelsk, listræn og fróð um listasögu, einkum danska málara. Hún var mikill dýravinur og átti stóran þátt í stofnun Kattavinafélags Íslands og Kattholts. Else hafi unun af ferðalögum og þau Hjálmar ferðuðust mikið bæði innanlands og utan.

Hjálmar og Else voru barnlaus en arfleiddu Landgræðslusjóð, landgræðslu ríkisins, Fuglavernd, Sjóminjasafnið Víkina, Þjóðminjasafn Íslands og Byggðasafn Vestfjarða að eigum sínum. Að ósk gefenda er meginhluta arfs Landgræðslusjóðs varið til langræsluskógræktar á landsvæðum vöxnum lúpínu.
Stofnaður var minningarsjóður, í samvinnu við Landgræslu ríksins, en markmið hans er einkum að styrkja rannsóknir er tengjast notkun lúpínu í landgræðslu og skógrækt.“

Heimild:
-https://skoghf.is/vatnshlidarlundur/

Hvaleyrarvatn

Hólmarnir í Hvaleyrarvatni.

Vigdís Finnbogadóttir

Sú klausa er hér fer á eftir stendur í blaðinu Fjallkonan 19. júní 1908:

Víðistaðatún

Víðistaðatún.

„Hafnfirðingar höfðu það til hátíðarbrigðis á afmælisdag Jóns Sigurðssonar að stofna hjá sér ungmennafélag. Hlaut það nafnið Ungmennafélagið 17. júní. Framkvæmdahugur var mikill í félagsmönnum, enda margvísleg mál er ungmennafélög hafa á stefnuskrá sinni. Þar á meðal að klæða landið skógi.

Hafnfirðingar létu sig ekki vanta í hóp þeirra brautryðjenda. Því til sönnunar stendur eftirfarandi í sama blaði 28. apríl 1909:

Ungmennafélagið 17. júní í Hafnarfirði hefur fengið lofun fyrir landi til skógræktar í nánd við bæinn í Víðistöðum. Félagið er tekið til við að vinna við skógarstæðið – girða það. Vinna flestir félagar að því með eigin höndum, karlar og konur í frístundum sínum og miðar verkinu furðuvel áfram. Hugsað er til að rækta þarna tré í næsta mánuði.

Víðistaðatún

Á Víðistaðatúni.

Lengri eru upplýsingar Fjallkonunnar ekki. En staðreynd er að þarna voru á þessu vori gróursettar um eitt þúsund trjáplöntur. Garðhleðsla og undirbúningur var eins og fyrr segir framkvæmdur af félögum. Stofnuðu þeir um þetta nokkurskonar hlutafélag, þannig að fyrir 5 kr. vinnu fengu menn hlutabréf og mun eitthvað af þeim enn vera til hér meðal gamalla 17. júní félaga.
VíðistaðirÁrið 1910 fór Árni Helgason sem nú er verkfræðingur í Chicago til náms í trjárækt upp að Rauðavatni. Hvernig þessum trjágróðri í Víðistöðum reiddi af er mér ekki kunnugt. En mjög dofnaði yfir starfi þessa ungmennafélags eftir 1910 og það leið alveg undir lok 1913. En margir eru þeir Hafnfirðingar sem harma það að þarna skyldi ekki rísa upp almennur skemmtistaður með trjám og blómstrum.“
Í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðvedisins ákvað Bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bjóða forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, á Víðistaðatún í þeim tilgangi að planta þar nokkrum trjám, bæði í tilefni afmælisins sem og ekki síst af framangreindri ástæðu. Formaður afmælisnefndar var Ómar Smári Ármannsson, bæjarfulltrúi. Lundurinn hefur síðan verið nefndur „Lýðveldislundur“.
Víðistaðatún

Á skilti við lundinn á Vísistaðatúni má lesa eftirfarandi: „Lýðveldislundur – Plantaður 1. júní 1994 af Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands ásamt hafnfirskum börnum í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins.“

Síðan hefur margt gerst til batnaðar. Bæjaryfirvöld Í Hafnarfirði mættu þó gjarnan sýna eftirfylgni framgreindrar hinni táknrænu athafnar meiri virðingu í verki. Vigdís hafði um langt skeið stuðlað að  ræktun, hvort sem um var að ræða æsku landsins eða gróðurs. Þá viðleytni forseta Íslands þarf að hafa í heiðri til langrar framtíðar…

Heimild:
-https://skoghf.is/skogarstaeeie-i-vieistoeeum/

Vigdísarlundur

Vigdísarlundur á Víðistaðatúni. Steinninn fremst ber skjöld af því tilefni.

Gráhelluhraun

Á vef Skógræktarfélags Hafnarfjarðar má lesa eftirfarandi um „Skógrækt í Gráhelluhrauni„:

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – fyrsta gróðursetningin vorið 1947.

Fyrsta verk stjórnar eftir að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 var að útvega hentugt land til skógræktar. Upphaflega hugmyndin var að hefja trjárækt í örfoka brekkunum norðan Hvaleyrarvatns, en vegna kulda vorið 1947 var leitað að skjólsælla svæði. Forvígismenn félagsins töldu nyrsta hluta Gráhelluhrauns henta vel til ræktunar og fengu leyfi bæjaryfirvalda til að girða 7 hektara reit í hrauninu upp af Lækjarbotnum.

Gróðursetning hófst við hátíðlega athöfn 27. maí 1947 og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður. Næsta áratug var aðal starfsemi félagsins tengd skógrækt í Gráhelluhrauni. Sérstakir hakar voru útbúnir til að koma plöntum niður í hraunið sem reyndist prýðilega lagað til skógræktar eins og reiknað hafði verið með. Almennir félagsmenn og nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar tóku mikinn þátt í ræktunarstarfinu og ekki leið á löngu áður en árangurinn kom í ljós. Sígræn barrtré uxu upp úr gjótum og klettahryggjum hraunsins, birki og víðir tóku við sér og hraunið breytti um svip.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

Skógræktargirðingin var stækkuð um 30 hektara 1949 og næstu árin var umtalsverðu magni af birkiplöntum, skógarfurum, rauðgreni, sitkagreni og lerki plantað út, hátt í 100 þúsund plöntum. Furulús lék rauðgrenið og skógarfururnar illa og eftir kuldavorið 1963 var hafist handa við að fella dauð tré. Á tímabilinu 1965-78 var um 30 þúsund stafafurum, bergfurum og birkitrjám plantað út í hrauninu, en eftir það hefur Gráhelluhraunsskógur nánast verið sjálfbær.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Skógurinn endurnýjar sig sjálfur að miklu leyti og töluvert ber á sjálfsánum furutrjám. Birki- og víðirunnar hafa breitt verulega úr sér og lyng og gamburmosi þekja hraunið ásamt fjölbreyttum lággróðri af margvíslegu tagi. Á hverju ári er plantað út í svæðið til að auka tegundafjölda og viðhalda ræktunarsvæðinu.

Allar girðingar hafa fyrir löngu verið fjarlægðar í Gráhelluhrauni og göngustígur lagður til að auðvelda öllum að njóta þessa gróskumikla og fjölbreytta skógarsvæðis.

Minningarskjöldur 4 brautryðjenda á Gráhelluflöt

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – minningarskjöldur.

Laugardaginn 9. ágúst 2008 var fjögurra brautryðjenda skógræktarstarfs í Hafnarfirði minnst með því að afhjúpa minningarskjöld á hraunkletti í norðanverðu Gráhelluhrauni, skammt frá þeim stað þar sem ræktunarstarf á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hófst vorið 1947. Þarna mættu afkomendur þessara manna ásamt fleira fólki til að minnast liðinna tíma.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Þannig vildi til að síðasta dag sumars 1946, nánar tiltekið þann 25. október, mætti 21 Hafnfirðingur til fundar þar sem ákveðið var að stofna Skógræktarfélag Hafnarfjarðar. Mætingin var nokkuð lakari en fundarboðendur reiknuðu með því þá þegar höfðu 100 Hafnfirðingar gerst félagar í Skógræktarfélagi Íslands sem var stofnað á Alþingishátíðinni á Þingvöllum. Skógræktarfélag Íslands hafði sinnt ræktunarstörfum á suðvesturhorni landsins frá stofnun félagsins en vorið 1946 var ákveðið að stofna sérstök félög í Reykjavík og Hafnarfirði í anda þeirra héraðsfélaga sem störfuðu víða um landið.

Gráhelluhraun

Skógrækt í Gráhelluhrauni.

Markmiðin sem lögð voru til grundvallar stofnun nýja skógræktarfélagsins voru háleit eins og kom fram í lögum þess:

Tilgangur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er að vinna að trjárækt og skógrækt í Hafnarfirði og nágrenni og auka skilning og áhuga Hafnfirðinga á þeim málum.

Tilgangi sínum ætlar félagið að ná með því að veita félagsmönnum fræðslu um skógrækt og trjárækt, með útbreiðslu ársrits Skógræktarfélags Íslands, fyrirlestrum, myndasýningum og öðrum leiðbeiningum. Félagið ætlar að greiða fyrir útvegun ýmissa frætegunda og trjáplantna handa félagsmönnum.

Á stofnfundinum var ákveðið að allir hafnfirskir ársfélagar og ævifélagar í Skógræktarfélagi Íslands, skyldu teljast félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, frá og með 1. janúar 1947.

Helmingur þeirra sem sátu stofnfundinn voru kosnir í embætti á vegum félagsins. Þar á meðal voru Jón Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði sem tók að sér starf gjaldkera og sinnti því árum saman. Þorvaldur Árnason skattstjóri var meðstjórnandi til að byrja með en tók við formennskunni af Ingvari Gunnarssyni árið 1948 og gegndi embættinu til ársins 1954.

Jón Gestur Vigfússon

Jón Gestur Vigfússon.

Jón Gestur Vigfússon bókari var fyrsti ritari félagsins og tók síðan við formennskunni af Þorvaldi árið 1954 og sinnti því starfi til 1958, þegar séra Garðar Þorsteinsson tók við formanns embættinu. Hann var formaður til ársins 1965. Þessir fjórir menn lyftu grettistaki og fóru fyrir áhugasömu skógræktarfólki á fyrstu árum félagsins, þegar mest á reyndi að sýna og sanna að skógrækt væri möguleg í upplandi Hafnarfjarðar.

Staðreyndin var sú að ekki höfðu allir bæjarbúar trú á að skógræktaráhuginn ætti eftir að endast lengi. Það blés ekki byrlega til að byrja með og reyndi verulega á þrautsegju og þolgæði þeirra sem stýrðu málum af hálfu Skógræktarfélagsins. Þar munaði miklu um þekkingu og dugnað frumkvöðlanna sem létu ekki deigan síga þó svo að á móti blési. Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri átti sæti í stjórn félagsins fyrstu fjögur árin. Hann var kunnur af störfum sínum við uppgræðslu landsins og þekkti betur til en flestir aðrir. Að ráði hans var leitað til bæjaryfirvalda og óskað eftir landi til ræktunar við Hvaleyrarvatn, í svonefndum Vatnsenda neðan við Beitarhúsaháls og Húshöfða. Þegar til átti að taka vorið 1947 var mikil kuldatíð og útlitið við Hvaleyrarvatn allst ekki nógu gott. Gunnlaugur stakk þá upp á því að reynt yrði að fá leyfi til að girða af nokkra hektara nyrst í Gráhelluhrauni, skammt frá Lækjarbotnum. Hann taldi að þar yrði vænlegt að planta út trjám, þrátt fyrir kuldann, og hann hafði rétt fyrir sér.

Jón Magnússon

Jón Magnússon í Skuld.

Jón Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði var hörkudulegur og vanur að taka til hendinni. Jón hafði fengið úthlutað landi í Smalaskálahvammi í Klifsholti árið 1945 sem hann girti og hófst handa við að stinga niður rofabörð og bera á þann gróður sem fyrir var. Hann breytti á nokkrum árum grýttu holti í ræktanlegt land og plantaði út furu, greni, birkitrjám og fleiri tegundum sem hann komst yfir. Jón breytti þessum ofbeitta hvammi í sannkallaðann sælureit á nokkrum áratugum og sýndi fram á að þetta var kjörið land til ræktunar. Smalaskáli ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni og það er ljóst að hann og ættmenni hans eru með græna fingur, eins og frægt er. Nægir að nefna gróðrastöðina Skuld sem Jón stofnsetti árið 1952. Gróðrarstöðin útvegaði Hafnfirðingum og íbúum helstu nágranna byggðarlaga fjölbreyttan trjágróður um langt árabil og þar ræktað Jón m.a. beinstofna birkitré sem sett hafa svip á garða um allan bæinn.

Jón í Skuld tók að sér að annast girðingavinnuna í Gráhelluhrauni og fékk til liðs við sig þrjá unga menn sem girtu 7 hektara spildu vorið 1947. Gunnlaugur sandgræðlsustjóri útvegaði girðingaefnið, en á þessum tíma var afar erfitt að fá girðingarefni nema til að girða lönd bænda, enda voru höft á öllum innfluttum vörum.

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – skjöldur um fyrstu gróðusetninguna.

Fyrsta gróðursetningaferðin í Gráhelluhraun var farin 27. maí 1957. Bæjarbúar fjölmenntu og meðal þeirra sem tóku þátt í þessari fyrstu gróðursetningu í hrauninu voru kennarar, prestar, læknar, embættismenn, fiskverkafólk, sjómenn, húsmæður og börn. Flestir voru í sínu fínasta pússi enda um helgidag að ræða. Fjölmargir vildu leggja sitt af mörkum til að klæða landið skógi og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður í hraunið. Þetta var erfitt starf og þurfti að útbúa sérstaka haka til að koma plöntunum niður í hrjóstrugt hraunið.

Lautirnar í Gráhelluhrauni reyndust skjólgóðar og vel lagaðar fyrir skógrækt eins og Gunnlaugur sá fyrir. Fyrirkomulag útplöntunarinnar var með þeim hætti að þarna áttu að vera falleg rjóðrur umkringd trjágróðri sem gæti brotið vindinn og skapað skjólsæla unaðsreiti fyrir íbúa bæjarins og aðra sem vildu njóta þess sem skógurinn hefði upp á að bjóða. Vissulega stórfenglegt markmið og þetta vor var sá grunnur lagður að ræktun sem hefur skilað gjörbreyttri ásýnd þessa hluta bæjarlandsins.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Stjórnarmennirnir Þorvaldur Árnason, Jón Gestur Vigfússon og Jón Magnússon voru dugmiklir félagsmenn á upphafsárunum og unnu af miklum krafti að ræktuninni og öflun styrkja frá fyrirtækjum og bæjaryfirvöldum. Þegar Ingvar Gunnarsson ákvað að hætta sem formaður vorið 1949 varð Þorvaldur Árnason sjálfkrafa formaður félagsins. Stjórnarfundir voru haldnir á skrifstofu Þorvaldar á Skattstofunni frá upphafi. Fyrsta verk nýja formannsins var að fá aukið land í Gráhelluhrauni til útplöntunar. Girðingin var stækkuð og náði austur að Hraunsrétt sumarið 1949.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Framkvæmdagleðin var mikil í þessu litla félagi og afar brýnt að halda vel utan um fjármálin. Jón Magnússon í Skuld stóð sig með stakri prýði og var manna duglegastur við að afla nýrra félaga. Á þessum tíma gerði hann út strætisvagna sem gengu milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Sú saga gekk um bæinn að það fengi enginn far með strætó nema vera í Skógræktarfélaginu. Jón gerði lítið úr þessari sögu, enda orðum aukin, en honum fannst sagan góð engu að síður.

Jón í Skuld hélt tryggð við félagið alla tíð og sat í stjórn þess í 40 ár. Hann átti mikinn þátt í að félagið gat útbúið eigin græðireiti í Höfðaskógi sem var mikilvægt framfaraskref. Hann var gerður að heiðursfélaga á 40 ára afmæli Skógræktarfélagsins árið 1986 og var sá fyrsti sem hlaut þann heiður.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Vorið 1954 urðu formannaskipti þegar Jón Gestur Vigfússon tók við af Þorvaldi Árnasyni. Jón Gestur var þekktur ræktunarmaður og hafði stundað landbætur og trjárækt í Sléttuhlíð frá sumrinu 1925. Á aðalfundinum var ákveðið að fjölga í stjórninni úr fimm í sjö manns, því það þurfti að fá fleiri til að sinna starfinu enda stækkaði félagið stöðugt. Árið eftir gat félagið ráðið til sín sumarstarfsmann á launum. Sumarið 1956 voru sumarmennirnir tveir og veitti ekki af enda ætlunin að hefja girðingavinnu við Hvaleyrarvatn árið eftir.

Garðar Þorsteinsson

Séra Garðar Þorsteinsson.

Þegar 32 ha spilda við Hvaleyrarvatn hafði verið girt vorið 1958 hófst gróðursetning með aðstoð félagsmanna Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, sem gróðursettu 7000 plöntur. Almennir félagsmenn gróðursettu annað eins þetta sumar og starfið var blómlegt.

Vorið 1958 óskaði Jón Gestur eftir því að hætta formennskunni og var séra Garðar Þorsteinsson kjörinn í hans stað. Garðar var áhugamaður um trjárækt og hafði m.a. komið sér upp glæsilegum gróðurreit í hvammi ofan við Grænugrófarlæk, sunnan Jófríðarstaða. Þegar hér var komið sögu hætti Jón í Skuld sem gjaldkeri, en Haukur Helgason kennari tók við af honum. Haukur var starfsmaður félagsins sumarið áður og vann við að planta út í Gráhelluhrauni. Hann átti eftir að koma mikið við sögu félagsins næstu árin.

Stóri-Skógarhvammur

Piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógræk í Undirhlíðum undir leiðsögn Hauks Helgasonar.

Séra Garðari fylgdu nýjar áherslur í starfinu. Ráðist var í að grisja rauðgrenið í Gráhelluhrauni fyrir jólin 1958 og bæjarbúum boðið að kaupa hafnfirsk jólatré. Garðar kom því til leiðar að félagi fékk úthlutað 56 hektara landsvæði við Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum. Næstu sumur unnu drengirnir í sumarbúðunum í Krýsuvík að útplöntun í Stóra-Skógarhvammi undir stjórn Hauks Helgasonar.

Haukur Helgason

Haukur Helgason.

Árið 1961 fékkst samþykki bæjaryfirvalda fyrir því að endurnýja girðingarnar við Skólalund í Litla-Skógarhvammi í Undirhlíðum. Ræktunarsvæðið var á sama tíma stækkað um 30 hektara með Kúadalagirðingunni, sem náði langleiðina að Kaldárbotnum. Segja má að ræktunarsvæði í umsjón Skógræktarfélagsins hafi vaxið úr 7 hekturum vorið 1947 í 200 hektara vorið 1961, sem var vonum framar.

Séra Garðar var formaður félagsins til vorsins 1965 en þá tók Ólafur Vilhjálmsson við og sinnti því hlutverki lengst allra, eða næstu tvo áratugina.

Minningarsteinar á vegum félagsins eru orðnir þó nokkuð margir og eru á víð og dreif um ræktunarsvæðin. Það á vel við að minnast þessara fjögurra frumkvöðla í saman enda komu þeir allir að starfinu á umbrotatímum í sögu þjóðarinna. Með áræðni, bjartsýni go umfram allt skýrri framtíðarsýn áttu þeir hver á sinn hátt stóran þátt í að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar varð öflug fjöldahreyfing á upphafsárunum og er enn í dag eitt fjölmennasta skógræktarfélag landsins.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Þessir menn stóðu ekki einir, því þeir áttu maka, börn, ættingja og vini sem skiluðu ekki síður miklu og merku starfi til eflingar skógræktar í bæjarlandinu. Fjöldkyldur þeirra stóðu heilshugar að baki þeim og studdu þá til góðra verka. Minningarsteinar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar eru virðingarvottur við allt það merka fólk sem hefur lagt sig fram um að bæta landið með hag komandi kynslóða fyrir brjósti.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur – minningarskjöldur.

Guðmundur Kristinn Þórarinsson var mikill ræktunarmaður og einstaklega ósérhlífinn í störfum sínum fyrir félagið á meðan heilsan leyfði. Hann plantaði út mörg þúsund trjám, fyrst í Hvaleyrarvatnsgirðingunni og síðan í Gráhelluhrauni og víðar í lendum Skógræktarfélagsins.
Guðmundur fæddist í Hafnarfirði 1913, tók kennarapróf 1939 og stundaði kennslu á Stokkseyri og Eyrarbakka áður en hann gerðist kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar 1956. Hann var ráðinn starfsmaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar sumarið 1949 og sama sumar gróðursetti hann rúmlega 7.000 trjáplöntur. Hann lagði ófáar vinnustundir í að græða blásna mela og stinga niður græðlingum og naut auk heldur aðstoðar félaga sinna í góðtemplarareglunni.

Guðmundur Þórarinsson

Minnismerki – Guðmundur Þórarinsson.

Hann var manna ötulastur við að leiðbeina unga fólkinu sem kom til starfa fyrir félagið á sumrin og lagði félaginu til jeppabíl sinn endurgjaldslaust um árabil. Guðmundur lét ekki þar við sitja heldur gaf félaginu bifreiðina þjóðhátíðarárið 1974, en árið eftir andaðist þessi mikli öðlingur.

Sumarið 1965 hóf Guðmundur gróðursetningu á stafafuru í Gráhelluhrauni og þar er nú þéttur skógur. Minningarskjöldur hans er á stórri hraunhellu við göngustíginn í miðjum skógræktarreitnum í Gráhelluhrauni rétt hjá furuskóginum sem hann plantaði út.

Heimild:
-https://skoghf.is/grahelluhraun/

Gráhelluhraun

Hraun ofan Hafnarfjarðar – ÓSÁ.

Flensborgarhöfn

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna, „Flensborgarhöfnina„, í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi texta um Hansabæinn Hafnarfjörð:

„Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipurnarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerkið við Flensborgarhöfn.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega eiggin frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Ófriðurinn hélt áfram um nokkurra ára skeið en svo fór að upp úr 1480 höfðu Þjóðverjarnir náð að hrekja Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum. Þýsku kaupmennirnir urðu mun vinsælli en þeir ensku, einkum vegna þess ap þeir fóru með friði og buðu ódýrari og fjölbreyttari varning en hinir höfðu gert. Baráttan um Íslandsverslunina sneri ekki nema að litlum hluta að innflutningi, fyrst og síðast var sóst eftir íslenskri skreið til að viðhalda völdum á skreiðarmörkuðum Evrópu. Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá 16. og má segja að hann hafi verið þýskur bær á þessu tímabili.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju. Í frumskýrslum þýsku kaupskipanna má sjá að þeir fluttu töluvert af byggingarvið til landsins til smíði verslunarhúsa og vöruskemma en einnig kirkjuvið til kirkjubyggingar. Þekkt er að þýskir kaupmenn reistur sér kirkjur í erlendum höfnum og það gerðu þeir einnig hér. Kirkjan sem Hansakaupmenn reistur í Hafnarfirði var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“.

Kristján IV. danakonungur gat út tilskipun sína um einokunarverslunina árið 1602 en með henni var öllum öðrum en þegnum danska ríkisins banna að stunda verslun á Íslandi. Liðu undir lok áhrif þýskra kaupmanna í Hafnarfirði og hið beina verslunarsamband á milli Hafnarfjarðar og Hamborgar. Konungur gaf einnig út þá tilskipun árið 1608 að allar byggingar Hansakaupmanna í Hafnarfirði skyldu rifnar.“

Hafnarfjörður

Flensborgarhöfn – skilti.

Á koparskilti áföstu minnismerki um fyrstu lúthersku kirkjuna við Flensborgarhöfn má lesa eftirfarandi:
„Minnismerki þetta var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar. Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Verkið myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti og nær sex og hálfs metra hæð. Hliðið minnist samskipta Íslendinga og Þjóðverja til forna og vísar veginn um ókomna tíð.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hvaleyrarlón.

FERLIR gekk með strandlengju Hafnarfjarðar allt frá Hleinum að Hvaleyrarfjöru. Í sögulegu samhengi bar margt fróðlegt fyrir augu, s.s. leifar útgerðarinnar á Langeyri, lifrabræðslunnar við Gönguhól, fyrrum útvörðinn Fiskaklett, slippstöðina neðan Drafnar, Flensborgarhöfnina allt þar til göngustígurinn endaði skyndilega framan við skilti er á stóð „Hvaleyrarlón“.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Ákveðið var þó að halda áfram eftir fjörunni neðan bátaskýlanna þar sem fyrrum fornfálegar „bryggjurnar“ voru flestar komnar af fótum fram. Hús var tekið á einum eigandanna, sem var að þvo bílinn sinn í góðviðrinu. Hann sagðist hafa haft þarna bát framar fyrrum, en selt hann fyrir nokkrum árum. Skýlið nýttist hins vegar vel áfram sem afrep fyrir gamlan mann.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.

Þegar gengið var með innanverðu Hvaleyrarlóninu vakti athygli að gerður hafði verið sjóvarnagarður innan þess að hluta. Spurningin var hvaða tilgangi hann hafi átt að þjóna þá er gerður var, væntanlega með tilfallandi kostnaði?

Sjóvörn hefur einig verið gerð norðan Hvaleyrartanga, allt að Hvaleyrarfjöru vestan hans. Þrátt fyrir framkvæmdirnar var enginn göngustígur gerður með ströndinni, sem reyndar hefði verið í lófa lagið. Gangandi þurfa því að ganga upp á og með utanverðum golfvellinum í verulegri óþökk golfaranna hverju sinni.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Ofan Hvaleyrartanga er „Flókaklöppin“ með áhugaverðum áletrunum, fimm skotbyrgi frá seinni heimstyrjöldinni auk annarra minja er minna á þá tíð. Allt umleikis eru minjar Hvaleyrarkotanna sem og höfuðbýlisins. Í dag eru þær allar ómerktar á golfvellinum. Golfararnir, sem rætt var við, höfðu enga meðvitund um nýtingu svæðisins fyrrum. Sorglegt er til þess að vita að ákveðin íþrótt skuli vera orðin svo afgerandi að hún þurrkar út nánast allan áhuga þátttakenda á fortíðinni. Kannski skiptir núvitundin það meira máli en arfleifðin?

Oftar en einu sinni hefur því verið haldið fram að golfvellirnir séu einu staðirnir þar sem hægt er að halda „sjúklingum“ innan afmarkaðs svæðis án girðinga. Afstaða til þess verður ekki tekin hér.

Gangan endaði við flakið við leifar Fjarðarkletts GK 210 í Hvaleyrarfjöru.

Hvaleyrarfjara

Hvaleyrarfjara með minjum Fjaðarkletts.

Stóra-Eldborg

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um „Ferðir um Suðurland sumarið 1883„. Skrifin birtust m.a. í Andvara 1884:

„Frá Geitahlíðarenda og vestur að Ögmundarhrauni er hraunlaus kafli og er það fásjeð á Reykjanesi. Þetta hraunlausa svæði nær frá Kleyfarvatni suður í sjó milli Sveifluháls og Lönguhlíðarfjallanna, en undir eins og Sveifluháls sleppur, taka við eilíf brunahraun. Í Geitahlíð, sem er suðvesturhlutinn af Lönguhlíð, eru dóleríthamrar efst, en móberg undir; svo er jarðmyndunin frá Herdísarvík norður að Grindaskörðum.

Grænavatn

Grænavatn.

Nyrzt í dældinni milli Lönguhlíðar og Sveifluháls er Kleifarvatn; fram með því liggur vegur úr Hafnarfirði, en nú var eigi hægt að fara hann, því svo mikill vöxtur var í vatninu. Menn hafa tekið eptir því, að Kleifarvatn vex og þverrar á víxl, og vex jafnvel mest, þegar þurrkar ganga — að því er menn segja — hvernig sem því er nú varið; í því er engin veiði, engin branda nema hornsíli. Sunnar, nálægt Krýsuvík, eru tvö mjög einkennileg vötn, Grænavatn og Geststaðavatn, litlu fyrir neðan námurnar; þau eru bæði kringlótt og mjög djúp; sagt er, að sextugu færi hafi verið rennt í Grænavatn og eigi náð botni. Vötn þessi eru á flötum melum og melgarður eða melbryggja hringinn í kringum þau. Skálar eða katlar líkir þessum, en minni og vatnslausir, eru þar í kring.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns.

Krýsuvíkurnámur eru utan í Sveifluhálsi, norður af Krýsuvík, og dálítið fyrir neðan hann. Móberg er í hálsinum öllum, og brennisteinsblettir og sundursoðinn leir allvíða í honum; en mest kveður þó að því við Krýsuvík. Hinar súru gufur koma upp um sprungur í móberginu; í giljum og vatnsræsum, er ganga niður í fjailið, hefir jarðvegurinn við það soðnað allur í sundur; móbergið er orðið að marglitum leir og gegnumofið af brennisteinssúrum steinsamböndum.

Baðstofa

Hverasvæðið norðan Baðstofu í Krýsuvík.

Víða eru þar stórir, bullandi leirkatlar, sem alltaf sýður í; fremur lítið er þar samt um brennistein, og miklu minna en í námurnar fyrir norðan í Þingeyjarsýslu. Móbergið er víða upplitað og orðið hvítleitt af gufunum, en hraunmolarnir úr því liggja lausir kolsvartir ofan á, af því að soðnað hefir í kringum þá. Undarlegt þykir mjer, ef það getur borgað sig að vinna þær. Ensku fjelögin, sem hafa námurnar, og ætla sjer að taka þar brennistein, kopar og buris, eru byggð í lausu lopti á hlutabrjefum. Englendingur nokkur, J. W. Busby, keypti fyrst Krýsuvíkurnámur 1858 fyrir milligöngu Dr. Jóns Hjaltalíns; sjera S. B. Sivertsen og Sveinn Eiríksson bóndi í Krýsuvík seldu fyrir 1400 dali; eptir kaupbrjefinu mega Englendingar taka allan brennistein í Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkurlandi, ásamt öllum málmiðartegundum, or þar kynni að finnast; auk þess hafa þeir ýms rjettindi önnur. Síðan hafa námurnar farið hendi úr hendi og verið seld í þeim hlutabrjef.

Frá Krýsuvík fórum við snöggva ferð upp í Trölladyngju, sem jeg þá skoðari miklu nákvæmar seinna um sumarið, og síðan niður að Kaldárseli. Vegurinn liggur um Ketilstíg, síðan norður með Sveifluhálsi að vestan og svo fram með Undirhlíðum.

Ketilsstígur

Ketilsstígur – í hlíðinni hægra megin við Ketilinn.

Sveifluháls er allur úr móbergi, og á honum ótal tindar og hnúkar; hvergi hefir gosið í þessum hálsi, og engin eru þar eldmerki, nema mjög gamlir gígir við suðurenda hálsins nálægt Mælifelli. Hálsinn er víða sundursoðinn af súrum eldfjallagufum, og þeir hafa, ef til vill, einmitt þess vegna engin gos komið, af því að gufurnar höfðu þar stöðuga útrás; annars eru öll fjöllin og dalirnir í kring sundurrótaðir af jarðeldum og eintómar gígaraðir fram með hverri hlíð. Undirhlíðar eru nokkurs konar áframhald af Sveifluhálsi, eða þó öllu heldur hjalli, er gengur út undan norðurenda hans, og halda þær áfram norður fyrir Helgafell.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Fram með Undirhlíðum eru margar gígaraðir, og eru sumir eldgígirnir upp á rönd þeirra rjett við Helgafell. Frá gígum þessum hafa mikil hraun runnið. Undir miðjum hlíðunum eru mjög nýlegir gígir; þeir hafa hlaðizt upp úr uppblásnum hraunsteinum, sem er tyldrað hverjum ofan á annan, og eru þeir því fjarska brattir. Aðalgígurinn er 70 fet á hæð og hefir 40—50° halla út á við. Úr pessum gígum hefir Kapelluhraun runnið niður í sjó sunnan við Hafnarfjörð. Þetta hraun hefir eflaust runnið síðan land byggðist; útlit þess bendir til þess, og í fornum bókum er það kallað Nýja-hraun, þannig t. d. í Kjalnesingasögu, og í íslenzkum annálum er sagt frá því, að skip hafi brotnað 1343 við Nýja-hraun fyrir utan Hafnarfjörð.

Kapelluhraun

Kapelluhraun norðanvert – eldvörp og gamlar sprungur.

Kapelluhraun hefir runnið niður með hlíðunum fyrir neðan Kaldársel niður að Stórhöfða, en beygir þar frá þeim til vesturs og norðurs. Sumir eldgígarnir og hraunstraumarnir við Helgafell eru mjög nýlegir. Á einum stað sá jeg þar mjög einkennilegan, sjerstakan hraunblett; hraunið hafði runnið út úr smáholum utan í litlu melbarði og fossað niður í smálækjum eins og uppsprettur; engir gígir höfðu samt myndazt, eins og vant er að vera við hraun, heldur hafði hraunleðjan beinlíns ollið á nokkrum stöðum út úr sprungu í melbarðinu; sprungan sjest eigi, en opin eru í vanalega stefnu, eins og aðrir gígir þar í nánd, frá norðaustri til suðvesturs; kringum uppvörpin er dálítil hrúga af hraunsteinum og svo hraunpípur niður úr; hraunbletturinn, sem komið hefir úr opum þessum, er mjög lítill, á að gizka 300 faðma langur og 10—20 faðma breiður.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Ásarnir, sem ganga niður undir Hvaleyri, eru nokkurs konar álma út úr Undirhlíðum og skilur hún Kapelluhraun frá Hafnarfjarðarhrauni. Hafnarfjarðarhraun er mjög gamalt; það virðist hafa komið úr stórum gömlum gíg norður af Helgafelli og vestur af Húsfelli, en síðan hefir landið milli þess gígs og Setbergshlíðaenda sokkið, og sjest vel í gjábarminum vestri allt norður undir Elliðavatn. Önnur gjá hefst rjett fyrir vestan Húsfell og gengur í suðvestur með Helgafelli suður um hraun þau, er komin eru frá Grindaskörðum; hún heitir Gullkistugjá; yfir hana verður eigi komizt nema á einstöku stað.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir um Suðurland sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 25-28.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Rauðshellir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907“ eftir Brynjúlf Jónsson, segir um minjarnar í Helgadal ofan Hafnarfjarðar:

Helgadalur

Helgadalur – vatnsbólið, þurrt í júlí 2021.

„Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skammt þaðan héti Helgadalur og skoðaði ég því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa.
Helgadalur er skammt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhól] norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefur runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt sig vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftasvæði.

Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Ég dró upp mynd af rústinni. [Myndin sú var ekki birt með frásögninni].
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafi verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nú eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskammt þaðan til Hafnarfjarðar.“

Helgadalur

Helgadalur – selsminjarnar.

Brynjúlfur virðist hvorki hafa áttað sig á staðsetningu minjanna með hliðsjón af öðrum selsminjum á Reykjanesskaganum, þ.e. þær eru í góðu skjóli fyrir austanáttinni, og auk þess eru þær við vatnsból fjarri byggðinni við ströndina. Aðstæður er dæmigerðar fyrir selstöðu; grasi gróinn selshúsahóll, gróinn stekkur og grasgróningar umhverfis. Engin ummerki eru eftir garða er gjarnan fylgja bæjarstæðum.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Skammt norðar í Helgadal er hlaðinn stekkur ofan við fjárskjól. Fyrirhleðslur eru framan við skjólin, sem einnig eru dæmigerðar fyrir selstöður á þessu svæði.
Selið, sem hefur verið frá Görðum á Álftanesi (það er í fyrrum Garðalandi), hefur verið vel mjög staðsett í upphafi á sínum tíma. Tvennt hefur væntanlega komið til eyðingar þess í framhaldinu. Í fyrsta lagi var það við gömlu Selvogsgötuna (Suðurferðarveginn) milli Hafnarfjarðar og Selvogs um Grindarskörð. Leiðin sú hefur orðið fjölfarnari eftir því sem bæjunum Hafnarfirði og Reykjavík óx fiskur um hrygg. Ekki hefur þótt vænlegt að halda úti selstöðu við svo fjölfarna sumarleið. Vatnsbólið hefur verið mjög eftirsóknarvert, enda fáum öðrum slíkum að dreifa á milli Strandardals og Helgadals, og dalurinn hefur auk þess þótt skjólgóður áningarstaður. Í öðru lagi má telja líklegt að vatn hafi þorrið í dalnum um miðsumar í heitum veðrum, mögulega ítrekað á tilteknu tímabili, líkt og gerst hefur nú í sumar (júlí 2021). Ítrekaðir þurrkað hafa hnúið bóndann á Görðum til að færa selstöðuna af framangreindum ástæðum, þ.e. fjær alfaraleiðinni og að öruggari vatnsöflun við Kaldá neðan Kaldárbotna. Sú selstaða hefur dugað vel um tíma, en fékk hins vegar lítinn frið, líkt og sú fyrri, fyrir ágangi ferðamanna í lok 19. aldar. Sjá má allnokkra umfjöllun um Kaldársel á vefsíðunni.

Helgadalur

Helgadalur – selsminjar.

Leifar selstöðunnar í Helgadal eru greinilega mjög fornar, enda mótar vart fyrir mannvirkjum þar, nema sjá má móta fyrir óvenjustórum stekk, tvískiptum, austan tvískiptra óljósra húsaleifanna, sem væntanlega fela í sér eldhús, búr og baðstofu – ef gaumgæft væri.

Helgadalur

Selvogsgata um Helgadal.

Minjarnar eru í landi Garðabæjar þótt skondið sé. Ástæðan er sú að landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar voru miðuð við gömlu Selvogsgötuna. Hún liggur niður í Helgadal norðan vatnsbólsins, í sveig að vatnsbólinu og síðan upp með hlíðinni austanverðri sunnan tóftanna. Þær eru þó naumlega innan vatnsverndarsvæðis Kaldárbotna, en það ætti þó ekki að takmarka möguleika fornleifafræðinga að skoða þær nánar með t.t. aldurs og nýtingar fyrrum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson – Helgadalur, bls. 10-11.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Hafnarfjörður 1554

Í Sjómannadagsblaðinu 1992 eru greinar um tilurð, upphaf og þróunar byggðar í Hafnarfirði, m.a. undir fyrirsögninni „Miklar hamfarir og erfið fæðing„:

Sjómannadagsblaðið 1992
„Það var ekki lítið, sem gekk á fyrir máttarvöldunum að búa til Hafnarfjörð. Í sinni eigin sköpun gekk það svo til fyrir hólmanum, sem fékk nafnið Ísland að á einu sínu aldursstigi var yfir honum blágrýtishella, sem síðan lagðist yfir ís, og ísinn bráðnaði og hólminn varð blómum skreyttur, og enn kom ísinn og lagðist yfir blómin, en ísinn átti sér svarinn óvin. Hann var eldurinn, sem braust um undir blágrýtishellunum og ísnum eins og tröll í fjötrum, og tók að sprengja helluna og bræða ísinn og þá tók hraunið að renna og hraunin kólnuðu í gjallhrúgur og hraunið rann í sjó fram og það tóku að myndast skagar útúr hólmanum og víkur inn í hann.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.

Allt gekk þetta með miklum seinagangi, því að í þennan tíma var ekki til mannskepnan, sem sífellt er að flýta sér og mælir allan tíma í hænufetum, sem hún kallar ár. Hún gefur og öllu sín nöfn, þessi mannskepna. Og þegar gjallhringarnir kólnuðu og urðu blágrýtis- og móbergshrúgur kallaði hún þau fjöll, og eitt fjallið nefndi hún Vífilsfell, en skagann, sem runnið hafði fram úr því fjalli eða þeim fjallaklasa og storknaði í hraunhellu, var gefið nafnið Romshvalanes, og hefur það nafn trúlega tekið til þess skaga alls, sem nú er nefndur Reykjanesskagi.
Vífilfell var heitið eftir fóthvötum náunga, sem bjó á Vífilsstöðum. Sá hafði hlaupið eftir endilangri suðurströnd hólmans í leit að framtíðar búsetursstað fyrir sinn húsbónda. Kannski vilja Hafnfirðingar sem minnst um þennan mann tala. Það var nefnilega hann sem fann Reykjavík. Vífill var svo fótfrár, að þegar hann vildi róa til fiskjar, hljóp hann frá bústað sínum uppá þetta fjall að gá til veðurs áður en hann reri. Hann rann þetta sem hind á sléttum velli, þó á 700 metra bratta væri að sækja og spottinn 10 km. eða svo í loftlínu. Síðan hljóp hann til skips að róa eða heim í rúm til kellu sinnar aftur. Margt barnið hefur orðið til um aldirnar, þegar menn hættu við að róa.

Hvaleyri

Hvaleyrarbærinn 1772 (settur í nútíma samhengi). Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni.

Í fyrrgreindum gauragangi í jarðskorpunni hafði Hafnarfjörður myndast, af Hvaleyrarhöfða á annan veginn, en Álftanesinu á hinn veginn, og varð hin mesta völundarsmíð af firði.
Menn vita að vísu hvernig nafnið Hvaleyri varð til. Þeirri eyri gaf nafn hinn fyrsti fiskimaður hólmans, svo ákafur til veiðanna, að hann gætti ekki að afla heyja, og festist þessi veiðiáhugi með þeim, sem fylgdu í fótspor þessa náunga. Hann hafði í hrakningum rekizt inn á hinn skjólgóða fjörð og fundið þar hval rekinn á eyri, sem hann gaf þá nafnið Hvaleyri. En þótt vitað sé gerla, hvernig nafnið Hvaleyri er tilkomið veit enginn hver gaf firðinum nafnið Hafnarfjörður, en fjörðurinn ber nafn sitt með sóma, hann er lífhöfn í öllum veðrum með góðri skipgengri rennu inná öruggt skipalægi. Það mun áreiðanlega rétt, sem séra Árni Helgason segir að nafngiftin hefir upphaflega átt við fjörðinn milli Hraunsness og Melshöfða.
Það er ólíklegt að víkin eða reyndar bara vogurinn milli Hvaleyrarhöfða og Skerseyrar hefði verið kölluð fjörður, á tíma íslenzku nafngiftarinnar. Það hefur gerzt hið sama með Hafnarfjörð og ísafjörð. Kaupstaðir tóku nöfn sín af fjörðum, sem þeir stóðu við. Fjarðarnafnið festist á þessum vog, þar sem kaupstaðurinn reis. Sigurður Skúlason segir að „gamlar skoðanir séu lítils virði í þessu efni“. Það er undarleg ályktun.

Hafnarfjörður - Hvaleyri
Nafninu bregður fyrir í Hauksbókarhandriti um 1300 í sambandi við nafngift Flóka á Hvaleyri, en síðan ekki fyrr en í annálum á 15.du öld.
Heitið „Fjörðurinn“ er síðara tíma heiti á Hafnarfirði í máli manna, og einkum bæjarbúa sjálfra og Reykvíkinga, og líklega eru engir landsmenn í vafa um um við hvað sé átt þegar sagt er að maður eigi heima í „Firðinum“, það á enginn fjörður nema Hafnarfjörður. Líkt og það tók tímann að búa til Hafnarfjörð, reyndust seint búnir til Gaflarar, enda umhugsunarefni.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum.

Átti yfirleitt að búa til Krata. Það varð að ráði til jafnvægis í náttúrunni. Það er bókstaflega ekkert vitað, hvort í þessum forláta firði var nokkur sála búsett svo öldum skipti.
Hvaleyri er, sem fyrr er lýst, nefnd í Landnámu, og því nafni bregður fyrir, segir Sigurður Skúlason í sinni Hafnarfjarðarsögu, þrisvar sinnum á 14du öld, og þá fyrst árið 1343 í sambandi við skipsskaða. „Kristínarsúðin“ er sögð hafa brotnað við eyrina. Þar næst í kirkjugerningi 1391 og 1394 er sagt í annál að norskt skip hafi tekið þar land af hafi.
Nú er það ekki að efa að skipaferðir hafa verið um fjörðinn frá fyrstu tíð landnáms og eitthvert fólk þó nafnlaust sé, bollokað með rolluskjátur, lagt net í Hvaleyrartjörn og dorgað í firðinum fyrir fisk, en það er ekki svo mjög undarlegt að við fjörðinn festist engin byggð, sem sögur fari af fyrr en það verður að útlendingar gera garðinn frægan.
Fjörðurinn var einangraður, umkringdur hraunkarganum illum yfirferðar og engar búsældarlegar sveitir á næstu grösum og því um langan veg og torfæran að sækja kaupstefnur, ef skip hefði komið af hafi með varning, siglingamenn hylltust til að taka hafnir þar sem þeir lágu fyrir fjölmennum sveitum. Þá hefur og verið svo fámennt við fjörðinn að ekki hefur verið leitað þangað í liðsafnaði og hetjur ekki riðið þar um héruð til mannvíga.

Hafnarfjörður
Það urðu sem sé útlendingar, sem leystu Hafnarfjörð úr álögum einangrunar og færðu staðinn inní landsöguna. Útlendingar hafa alla tíð verið hrifnir af þessarri höfn og komið mikið við sögu staðarins. Þegar útlendingum verður leyft að landa hér afla, væri það ekki undrunarefni að þeir sæktu mikið til Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Það er um það löng saga í Sögu Hafnarfjarðar hinni fyrri, þegar Ríkharður hinn enski valdi sér Hafnarfjörð fyrstur manna svo sögur fari af sem verzlunarstað 1412, en einmitt það ár hófust siglingar Breta hingað til kaupskapar og fiskveiða.
„Sumarið 1415 var mikil erlend sigling til Hafnarfjarðar. Þangað sigldi þá knör sá, er Árni Ólafsson Skálholtsbiskup hafði látið gera erlendis og komið síðan á út hingað. En þetta sumar er einnig sagt, að 6 skip frá Englandi hafi legið í Hafnarfirði. Gæti það bent til þess, að staðurinn hafi þá þegar verið orðinn miðstöð enskra siglinga hér við land.
Skipverjar á einu þessarra ensku skipa rændu nokkurri skreið bæði á Romshvalanesi og í Vestmannaeyjum og var slíkt ekki eindæma um Englendinga, sem hingað komu á þessum tíma. Með einu þessarra skipa sigldi Vigfús Ívarsson, fyrrverandi hriðstjóri til Englands.“ Vigfús sigldi með fullt skip skreiðar en skreiðarverð var þá hátt í Englandi.

Hafnarfjörður
En Englendingum reyndist ekki lengi friðsamt í Hafnarfirði. Bæði Hansakaupmenn og Hollendingar tóku að leita eftir bækistöð uppúr 1471. Stríðið um Hafnarfjörð stóð þá mest milli Þjóðverja og Englendinga og fóru Englendingar mjög halloka í þeim viðskiptum, en létu sig þó ekki, þeirri þjóð er ósýnt en að láta sig, og héldu Englendingar áfram að auka sókn sína hingað til lands og voru fjölmennir víða sunnanlands og vestan allt norður í Jökulfirði og suður í Vestmannaeyjar.
HafnarfjörðurOg ekki hefur Þjóðverjum tekizt að hrekja þá með öllu úr Firðinum fyrr en kom fram undir 1520. Eftir það sátu Þjóðverjarnir að höfninni og bjuggu vel um sig á Óseyri. Alls sóttu Þjóðverjar á 39 hafnir hér við land og er af því mikil saga hversu valdamiklir þeir voru orðnir á 16. öldinni og jafnvel svo að þeir létu orðið til sín taka störf og samþykktir Alþingis. Allt framferði Þjóðverjanna féll landsmönnum miklu betur en Englendinga og miklu betra skipulag var á verzlunarháttum, og var Hafnarfjörður þeirra aðal bækistöð, og þar fastir kaupmenn, sem reistu hús myndarleg og kirkju. Veldi Hamborgara stóð með miklum blóma allt til 1543 að Danakonungur lét gera upptæka alla þýzka fiskibáta 40-50 skip, sem gengu frá Suðurnesjum og aðrar eignir Þjóðverja þar.
Veldi Hamborgara fór að hnigna eftir þetta og með Einokun 1602, misstu Þjóðverjar verzlunarleyfi sitt (1603) í Hafnarfirði. En ekki var að fullu slitið sambandi Hamborgara og Hafnafjarðar fyrr en á þriðja tug 17du aldar.“

Hafnarfjörður
Í framhaldinu tók danska einokunarverslunin við frá 1602-1787. Sigurður Skúlason, skrásetjari, kveður Konungsverzlun með þessum orðum:
„Með þessum hætti varð Hafnarfjörður mesta fiskihöfn Íslands í lok
einokunartímabilsins. Hafngæði og lega fjarðarins gerðu hann enn á ný að þýðingarmestu verzlunar- og fiskistöð landsins. Á uppdrætti af firðinum, sem gerður var um þessar mundir, sjást auk verzlunarhúsanna í Akurgerði, verzlunarhúsið á Langeyri, íbúðarhús stýrimanna og geymsluhús (Fiske Jagternes Huus) á Hvaleyri. Í Hvaleyrartjörn lágu fiskijaktirnar að vetrarlagi, en aðalsaltfiskverkunin fór fram á Langeyri, norðan fjarðarins. Þar lögðust fiskihúkkorturnar fyrir akkerum, meðan skipað var upp úr þeim, en ekki máttu þær liggja utar en svo, að Keili bæri beint yfir Hvaleyrarhöfða, vegna grýtts sjávarbotns.
Hafnarfjörður
Þegar kóngur hafði tapað í fimm árin, 1781-86 á Íslandsverzlun sinni ákvað hann að tapa ekki meiru. Honum þótti nú flest fullreynt um þessa Íslandsverzlun og sá þann kostinn vænstan að gefa hana frjálsa. Ekki tókst þó vel til um byrjunina fyrir Hafnarfjörð sem verzlunarstað.

Hafnarfjörður.

Hafnarfjörður.

Þann 6. júní 1787 var auglýst með tilskipun að verzlunin væri gefin frjáls við alla þegna Danakonungs, en um haustið (17. nóv.) var einnig gefin út tilskipun um kaupstaði í landinu, og fengu þá nokkrir verzlunarstaðir kaupstaðarréttindi, og urðu höfuðverzlunarstaðir í verzlunarumdæmum eða kaupsviðum og hétu þetta „autoseraðir útliggjarastaðir“. Þeir voru: Reykjavík, Vestmannaeyjar, Eskifjörður, Eyjafjörður, Ísafjörður og Grundarfjörður.
Hafnarfjörður varð þarna útundan. Hann var aðeins „autoriseraður höndlunarstaður“ í umdæmi Reykjavíkur, en kaupsvið Reykjavíkur ákveðið Gullbringu- og Kjósarsýsla og Borgarfjarðar- og Mýrasýsla vestur að Hítará.
Með þessari tilskipan var það staðfest af stjórnarvöldum að Reykjavík skyldi sitja yfir hlut Hafnarfjarðar sem verzlunarstaður.
Það átti ekki af Hafnarfirði að ganga, að ráðamenn hefðu litla trú á staðnum sem framtíðar verzlunarstað.

Bjarni SívertsenÁrið 1850 hafði danska innanríkisráðuneytið spurzt fyrir um það hjá stiftamtmanninum hvort Hafnarfjörður ætti að telja til þeirra hafna, sem væru hentugar til að vera meiriháttar verzlunarstaðir, þar sem kaupskip gætu lagzt svo, að vörum yrði skipað upp.
Stiftamtmaðurinn snéri sér til sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu og fól honum að gefa svarið.
í stuttu máli sagt taldi sýslumaður allt úr um Hafnarfjörð, sem gerlegt væri að byggja upp sem stóra verzlunarhöfn. Byggingarsvæðið í Hafnarfirði væri orðið svo þröngt að eins og sakir stæðu væri naumast hægt að reisa þar sæmileg verzlunarhús, hvað þá heldur mörg. Verzlanir þær, sem fyrir eru á staðnum geti ekki látið neitt af sínum lóðum. Ekki sé hægt að knýja Knudtzon stórkaupmann til að láta neitt af sínu landi, sem hann eigi með fullum rétti og samkvæmt eldri ályktun. (Hér mun átt við Akurgerði, eða landið vestan við fjörðinn). Hamarskot mátti heita fullbyggt, þar stæðu tvær verzlanir og búið að úthluta lóð fyrir þriðju verzlunina. í Hamarskotslandi sé því ekki lengur um neina verzlunarlóð að ræða sem geti náð til sjávar, svo sem sjálfgert sé að verði að vera.
Í Ófriðarstaðalandi sé óbyggð landræma meðfram sjónum, að vísu mætti reisa þar nokkrar byggingar eða tvær verzlanir, en slíkt yrði kostnaðarsamt, þar sem landið væri lágt, og verja yrði húsin fyrir sjógangi og ofan við þessa landræmu væri mýri. Loks er það að norðan við verzlunarstaðinn nái hraunið „svo gersamlega niður að sjó, að þar er ekki um neinar byggingarlóðir að ræða“.
Lausakaupmönnum var loks bannað að verzla í Firðinum, en það var um seinan fyrir Hafnarfjarðarkaupmanninn. Hann fór á hausinn í sama mund.
Á rústum þessa þrotabús Hafnarfjarðarverzlunarinnar reisti Bjarni Sívertsen verzlun sína, og í sama mund (1797) verzlun í Reykjavík, reisti þar verzlunarhús sem nefnt var Sívertsenshús. Þar var prestaskólinn síðar til húsa.
Árið 1804 keypti Bjarni bæði Hvaleyri og Akurgerði og 1816 keypti hann Ófriðarstaði og átti þá orðið verzlunarlóðirnar við fjörðinn nema Flensborg.
KnudtzonÁrið 1835 keypti Peter Christian Kudtzon, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn allar fasteignir af dánarbúi Bjarna Sívertsen í Akurgerðislandi á uppboði í Kaupmannahöfn
fyrir 3900 rd. í reiðu silfri.
Árið 1869 fluttist Þorsteinn Egilsson til Hafnarfjarðar og settist að í húsi Matthíasar J. Matthisen, kaupmanns, sem hann hafði reist á Hamarskotsmöl fyrstur manna á því verzlunarsvæði 1841.
Þarna hóf svo Þorsteinn verzlun sína. Hann komst í samband við Norsk-íslenzka Verzlunarfélagið, sem sjálfur Jón Sigurðsson hafði átt aðild að í félagi við norska Íslandsvini. Þorsteinn brá sér til Björgvinjar, og hafði þá orðið að fá lánað fyrir farinu, ekki var auður í garði hjá kaupmanninum, og hann kom upp aftur sem verzlunarstjóri hins nýstofnaða félags í Reykjavík. Hann kom á skonnortu hlaðinni vörum sem sigldi eftir skamma dvöl út aftur og einnig hlaðin vörum og sigldi þá úr fiskhöfninni Hafnarfirði.
Þorsteinn EgilssonSegir nú ekki af þessu félagi annað, en það reisti sér hurðarás um öxl með kaupum á gufuskipi, og ýms dýr mistök urðu í rekstri skipsins og félagið lagði upp laupana 1873. Þá réðst Þorsteinn hið sama ár til verzlunarfélags Álftaness og Vatnsleysustrandarhrepps. Það félag hætti eftir aflaleysisárið 1776.
Samtímamaður Þorsteins í Hafnarfirði var maður, sem þekktur er í landssögunni, sem einn af merkustu mönnum síns tíma, Þórarinn Böðvarsson, sem fyrst var prestur í Vatnsfirði, en síðar í Görðum frá 1868 til dauðadags 1895. Hann var prófastur í Kjalarnesþingi í 21 ár og alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu í 23 ár. Séra Þórarinn kom víða við í félags- og framkvæmdasögu Hafnarfjarðar á sinni tíð og var einnig frumkvöðull þar í útgerð. Segja mætti að engin ráð væru nema séra Þórarinn kæmi þar til.
Áður hefur það verið rakið hér í sögunni, að þrisvar sinnum kom það til að stjórnvöld gerðu uppá milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og héldu fram hag Reykjavíkur og mestu máli skipti í þeim hlutaskiptum að Innréttingarnar voru settar niður í Reykjavík 1752.
August FlygenringÁgúst Flygenring kemur til sögunnar í Firðinum sem skipstjóri. Hann kom til Hafnarfjarðar 1888 til að taka við skipstjórn á litlum kútter, Svend, sem séra Þórarinn átti og var með hann í 8 ár. Þá fer Ágúst til Noregs að kaupa stærra skip fyrir Þórarinn og keypti þá kútterinn Himalaya 1892, og var skipstjóri á því skipi til ársins 1900, að hann hætti skipstjórn og hóf útgerð og verzlun.
Einar Þorgilsson varð aftur á móti fyrstur manna til að bregðast við í verzlunarmálinu, þegar verzlanirnar, Knudtzonaverzlun og Linnetsverzlun voru að hætta rekstri.
Einar stofnaði þá 1895 Pöntunarfélag í Firðinum og veitti því forstöðu í tíu ár, en sjálfur byrjaði hann að verzla á Óseyri, sem hann hafði keypt árið 1900.
Einar ÞorgilssonÁrið 1897 varð Einar hreppstjóri Garðahrepps og þar með Hafnfirðinga og gekkst þá fyrir stofnun útgerðarfélags, þilskipafélags Garðhverfinga, til kaupa á kútter, svo að segja má að Einar brigði hart við, þegar hann sá hvað var að gerast í Reykjavík.
Rétt sem jarlarnir tveir og Pétur J. Thorsteinsson hafa snúið þróuninni í Hafnarfirði við og fólk fór á á ný að flytjast í þennan stað, reis hvert stórfyrirtæki útlendra manna af öðru á staðnum, Brydeverzlun hóf 1902 kútteraútgerð frá Hafnarfirði með fjórum kútterum, þá næst skaut sér inn Íslendingurinn Sigfús Sveinsson með 3 kúttera jafnt og hann reisti fiskverkunarstöðina Svendborg.

Falck konsúll, Norðmaður frá Stavanger kom með tvo litla togara, Atlas og Albatross 1903^4 og það var hann, sem með útgerð þeirra skipa frá Hafnarfirði hóf síldveiðar með herpinót fyrstur manna hér við land og er það ekki lítill atburður í íslenzku fiskveiðisögunni. Enn er að nefna Norðmanninn H.W. Friis, en hann hóf útgerð lóðabáta, og þeir urðu einir fimm um skeið. Og 1904 keypti Ágúst Flygenring gufubátinn Leslie og gerði hann fyrstur Íslendinga út til veiða með herpinót fyrir Norðurlandi.

Coot

Coot.

Þá er það næst að telja að hinn jarlinn, Einar Þorgilsson, tók að gera út frá Hafnarfirði fyrsta íslenzka togarann sem kom til landsins 6. marz 1905, og tæpum tveimur árum áður en fyrsti togarinn, Jón forseti kom til Reykjavíkur. Coot-útgerðin í Hafnarfirði var hins vegar fyrsta togaraútgerðartilraunin, sem lánaðist hérlendis.
Báðir ráku jarlarnir jafnt þessu kútteraútgerð sína 3-4 kúttera hvor og juku fiskkaup sín. Menn í nærliggjandi plássum allt suður til Keflavíkur tóku að verzla við þá og verzlanir þeirra urðu þær stærstu í bænum.
Báðir munu jarlarnir hafa lánað mönnum efni til húsbygginga og gerðu fólki kleyft að koma sér upp ódýrum timburhúsum, járnklæddum, sem kostuðu fyrir fyrri heimsstyrjöldina 700-1200 krónur. Fólk greiddi þessi lán með vinnu sinni.“

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1992, Miklar hamfarir og erfið fæðing – Hafnarfjörður, bls. 59-61.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 2018. Hér má sjá (gul lína) strandlínuna árið 1903.

Leiðarendi

Á bílastæði við hellirinn „Leiðarenda“ við Bláfjallaveg er skilti. Á því stendur:

Jarðfræði

Leiðarendi

Leiðarendi – op.

Hraunhellirinn Leiðarendi er í þjóðlendu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkur innan Reykjanesfólkvangs. Auk þess njóta hraunhellar sérstakrar verndar samkvæmt náttúrverndarlögum (61, gr. laga nr. 60/2013) og allir dropsteinar í hellum landsins eru friðlýstir.

Hraunhellar myndast þegar kvika rennur í hraunrás undir yfirborði, sem síðan nær að tæmast áður en kvikan storknar. Leiðarendi myndaðist í hraungosi úr Stórabolla í grindarskörðum fyrir um 2000 árum. Yfir það hraun rann svo yngra hraun fyrir rúmlega 1000 árum sem kennt er við gígin Tvíbolla. Það hraun hefur náð að brjóta sér leið inn í hellinn á nokkrum stöðum. Leiðarendi er um það bil 900 metra langur, með fjölda viðkvæmra hraunmyndana eins og dropsteina, hraunstráa og hraunsepa, ásamt litríkum útfellingum.

Leiðarendi

Leiðarendi – dropsteinn.

Dropsteinar, hraunstrá og hraunsepar í hellum myndast við kónun hraunsins og eru fullmótuð fljótlega eftir að hraunið myndast. Þau halda ekki áfram að vaxa og t.d. dropsteinar í kalkhellum erlendis. Því er allt rask á þeim varanlegt.

Hraunin tvö við Leiðarenda nefnast eldra og yngra Hellnahraun þegar nær dregur byggð. Þau mynduðu Hvaleyrarvatn og Ástjörn sem eru hraunstífluð vötn.

Umgengisreglur

Leiðarendi

Leiðarendi – uppdráttur ÓSÁ.

-Leiðsögumenn eða fararstjórar skulu útvega sér leiðbeiningar um umgengisreglur hjá Hafnarfjarðarbæ áður en farið ermeð hópa inní hellinn.
-Hámarksstærð hópa eru 8 manns á hvern leiðsögumann.
-Ekki má snerta hraunstrá, dropsteina eða viðkvæmt hellaslím á veggjum og í lofti.
-Fararstjórar bera ábyrgð á að útvega nauðsynlegan búnað eins og hjálma og ljós.
-Ekki má kveikja eld inni í hellinum.
-Öll neysla matar og/eða drykkja er bönnuð.
-Landvörður er starfandi í fólkvanginu og brot á þessum reglum verða kærð til lögreglu.

Leiðarendi

Leiðarendi – texti á skilti.

Búðarvatnsstæðið

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík segir Þorsteinn Bjarnason frá Háholti m.a. frá Búðarvatnsstæðinu:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

„Frá Dagon er landamarkalínan í Núphlíð. Austan í henni, syðst, er Skalli, en austan undir Núphlíð er Sængurkonuhellir. Frá Núphlíð eru landamerki sjónhending í vesturrætur á Trölladyngjum, frá þeim í Markhelluhól við Búðarvatnsstæði. Að norðan eru mörkin sjónhending úr Markhelluhól, norðvestan við Fjallið eina, öðru nafni Eldborgarhellir, í Melrakkagil, sem kemur niður úr Undirhlíðum.“

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík sem Ari Gíslason skráði segir m.a:
„Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur. Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði.“

Merkhella

Markhella – áletrun.

Í skráningu „Menningarminja í Vatnsleysustrandarhreppi“, svæðisskráningu, sem Sædís Gunnarsdóttir skráði árið 2006 segir:
„Búðarvatnsstæði – heimild um vatnsból
Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll.” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata iggur meðfram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum.” “Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einhverskonar “búðir”. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafist við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.”

Markhella

Markhella – áletrun.

Í Örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980 segir m.a.:
„Er þá komið á Dyngjuháls. Austur af honum eru Mávahlíðar, en þar um liggur landamerkjalínan milli Hvassahraunslands sunnanvert og Krýsuvíkur. Austur af Lambafellum eru Einihlíðar, og vex þar einir. Ofan eða sunnan þeirra er Einihlíðabruni. Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri [hellan snýr reyndar við norðvestri]. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti.“

Í Örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði, lýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a.:

Markhella

Markhella – áletrun.

„Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Norður og niður af vatnsstæðinu nefnast Búðarhólar. Mörkin liggja líklega gegnum þá.“

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Búðarvatnsstæðið er á sléttu hrauni undir nýrri hraunbrún. Á brúninni, á svonefndum Markhelluhól, eru tvær vörður, önnur lítil og hin mosavaxin; greinilega fornar. Um vatnsstæðið lá fyrrum sauðfjárveikigirðing og má enn sjá staura hennar við og í nágrenni við það. Girðingin var þá á mörkum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða. Hvers vegna framangreindir stafir hafi verið grafnir á steinvegg Markhellu, í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá Búðarvatnsstæðinu til austurs, hefur aldrei verið skýrð að fullu. Ekki er ólíklegt að ætla að einhver á ströndinni hafi látið sér detta í hug að krota nöfnin þarna, enda í skjóli frá mögulegri umferð Krýsuvíkurbænda um ofanverð fáfarin hraunin. Landamerkjalýsingin um Markhelluna á þessum stað kemur a.m.k. ekki heim og saman við fyrri lýsingar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík – Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, svæðisskráning; Sædis Gunnarsdóttir, 2006.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun; lýsing Gísla Sigurðssonar, víða tekin upp orðrétt. Upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980. Hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikotinu. Guðmundur er fæddur á Hvassahrauni árið 1919.
-Örnefnalýsing – Óttarsstaðir; lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Tag Archive for: Hafnarfjörður