Tag Archive for: Hafnir

Kirkjuvogssel

Lagt var af stað í hríðarbyl og snjókomu frá höfuðborgarsvæðinu. Á Vatnsleysuströnd birti til. Þegar komið var að Ósabotnum var komið sólskin.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt. Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum. Hópurinn gekk frá selinu til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Ætlunin var að leita að tóttum Stafnessels, sem þar átti að vera, skv. korti, ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs. Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana.

Stafnessel

Stafnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili. Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni. Skammt ofan við voginn er
200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Skv. öðru korti átti Stafnessel að vera þarna skammt sunnar. Það reyndist vera rétt.

Þar suðvesturundir stórum klapparhól kúrði selið – nokkrar tóttir.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – stekkur.

Gengið var niður á Ósaleiðina og henni fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.
Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið í rólegheitum  suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Í því er hópurinn gekk í hlað á Stafnesi um kl. 12:00 byrjaði að snjóa.
Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Jamestown

Í Ægi árið 1930 er m.a. fjallað um „Reykjanesstrandið mikla“ utan við Valahnúksmöl á Reykjanesi og „Stóra strand“ Jamestown við Hvalvík utan við Ósa, gegnt Höfnum:

„Hr. hreppstjóri Ólafur Ketilsson á Óslandi í Höfnum, hefur sent »Ægi« ágæta grein um skipströnd þar syðra. Með því hér er um langt mál að ræða, en rúm í «Ægi« af skornum skammti, er eigi unnt að birta greinina í einu lagi, en þar eð hún er bæði ítarleg og skemmtileg, verður hún að birtast í pörtum eftir því sem rúm leyfir.

Valahnúksmöl (Reykjanesstrandið mikla).

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúskmöl.

Á fyrsta tug 19. aldarinnar, rak á land á svo nefndri Valahnúkamöl á Reykjanesi, geysilega stór timburfloti; var flotinn benslaður með sverum járnböndum þversum og langsum. Í flota þessum voru mörg hundruð ferköntuð tré frá 12—18 álna löng, og frá 12—18 þml. á kant.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Flest voru trén úr furu — Pitch-pine, og svo nokkur eikartré. Um stærð flotans má nokkuð marka af því, að 18 al. löng trén stóðu upp á endann, sem bindingur til og frá í flotanum, og svo haganlega var hann byggður, að hvergi var hægt að fela hönd á millum trjánna, en fleiri þúsund smá eikarbútar frá 1—3 al. voru líka í flotanum, kallaðir tylftarstykki, til uppfyllingar í allar holur millum trjánna. Sagt var að floti þessi hefði átt að fara til Englands frá Ameríku, en að skipið hefði farist, sem hafði hann í drætti en sennilega hefur skipið verið komið upp undir Reykjanes er það fórst, því mikið af fataræflum og öðru dóti var á flotanum, sem sýndi að menn höfðu verið á honum, fyrir skemmstu, áður en hann bar að landi.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Uppboð var haldið á öllum trjánum, eftir að búið var að bjarga öllu undan sjó, en um verð á trjánum er mér ekki vel kunnugt, en dýrasta tréð fór á 12 dali (24 kr.) og keypti það Brandur heitinn Guðmundsson langafi Björns Þórðarsonar kaupmanns á Laugavegi 46.
Tugi ára var svo verið að saga niður í borðvið öll þessi tré, sem keypt voru mestmegnis af Vatnsleysustrandar, Rosmhvalaness, Grindavíkur og Hafnahreppsbúum; var allt reitt á hestum, þegar búið var að koma því í borð. Aðeins Hafnahreppsmenn fluttu flest trén heil sjóveg, höfðu stundum 5—6 tré aftan í skipinu í einu; var þá lagt á stað frá Reykjanesi um stórstraumsfjöru, og norðurstraumurinn svo látinn hjálpa til með róðrinum. Síðustu tré Hafnamanna voru sótt 1852, af Gunnari sál. Halldórssyni, föður séra Brynjólfs sál. mágs mín, sem var prestur að Stað í Grindavík.*

Jamestown (stóra strandið).

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki, var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinum, að það mundi mannlaust með öllu. Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á »Þórshöfn« skammt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverzlun í Keflavík.

Jamestown

Jamestown – ankeri í Höfnum.

Skipstjórinn hét Petersen; sagði hann okkur strax, sem skipið var strandað, að það væri amerískt timburskip, fullt stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra, sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofandekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefur skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hér við land.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist var um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið!

Jamestown

Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.

Og aldrei gleymi ég þeirri stund, þegar ég, þá 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inn á þilfari »Jamestown«, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma langa skipsbákn 1 Set ég hér stutta lýsingu á »Jamestown« hinu stærsta skipi, sem strandað hefur við Ísland, síðan landið byggðist.
»Jamestown« var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man ég ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því.
Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiptur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn þá eftir 50 ár blasir við augum mínum einn óskaplegi geimur, efsta lestin, þegar búið var loks að tæma hana, 60 faðma langa, og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, á af því nokkurn veginn gera sér grein fyrir, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.
Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn Willum aftasta og mið siglutrés, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða réttara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefur að öllum líkindum verið forðabúr skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m. m., og hrannir af spýtnabraki, póleruðu mahoni, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangaðúr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita, og mahoníþiljur voru sums staðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru og minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skipt í svefnherbergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar afborðbúnaði, eða neinu því, sem verðmæti var í.
Af öllu því tröllasmiði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrennt, sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutréð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afarsverumjárngjörðum, annað undirbugtspjótið, sem kallað er, 36 þml. á kant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get ég ekki gert neina ágiskun um, en ég vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hékk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). —

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hana úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brennt bréf hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mélaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæva af landinu, kom um sumarið til þess að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur ! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokk skipsins.
Eftir að »Jamestown« strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem enn þá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir félagar mikið af verkafólki hér, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun, þótti þá óheyrilega hátt kaup, og allt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskvöldi. Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur i uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þekktust ekki tálsnörur núlímans, bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!

JamestownHvað margir »Loggortu«farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man ég ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum flotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft frá 12—20 plankar á hvern mann, í helmingaskiptum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnanstormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600—800 st. í einu!
Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu. í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt í sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10—20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd 6—11 tom. Kristján sál. Jónsson, hæstaréttardómari, var þá sýslumaður i Gullbringusýslu, og hélt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25—50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú. Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr„ en skipið sjáltt með öllu timbri sem í því var í mið og neðstu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 301,00, en hann bauð í það fyrir föður minn og aðra suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.

Jamestown

Grjót úr ballest Jamestown.

Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og allt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Ég minnist þess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hét Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíulesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Allt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kg. til Englands af kopar. Það eina, sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af suðurnesjabændunum söfnuðu að sér af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hafði verið tekið.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir í Hraunu. Húsið var að mestu byggt úr viðum Jamestown.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afar mikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt enn þá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti þessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei séð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Ankeri úr Jamestown. Viktor Guðmundsson stendur hjá.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var ég oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sagast fram í briminu og hvolft þar úr sér á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hins vegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa i þessi 50 ár.

Ólafur Ketilsson

Ólafur Ketilsson í Höfnum.

Það eina, sem mér er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður Ólafsson, bóndi í Merkinesi náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola. Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fékk af silfri veit ég ekki, því ég sá það aldrei.
Eg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótal margt sé enn þá ósagt, en sökum þess að mér er ekki kunnugt um, að nokkur maður, allt til þessa hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi ég ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi.“
Sjá meira um Reimleika í Valahnúkshelli í tengslum við „Reykjanesstrandið mikla og einnig meira um Jamestown-strandið.

Heimildir:
-Ægir – 11. Tölublað (01.11.1930) – bls. 138-140.
-Ægir – 12. Tölublað (01.12.1930) – bls. 273-275.

Ásláksstaðir


Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd eru að mestu byggðir úr viðum Jamestown.

Hinrik í Merkinesi

Rætt við Hinrik í Merkinesi, 85 ára, um veiðar, sjómennsku, skipasmíðar o. fl.

Merkines

Í Merkinesi.

Hinrík í Merkinesi, er hann nefndur í daglegu tali en heitir fullu nafni Vilhjálmur Hinrík Ívarsson. Vegna þeirra sem ekki eru kunnugir á Suðurnesjum er rétt að taka fram að jörðin Merkines er skammt fyrir utan Hafnir en Hafnir eru vestan Miðnesheiðar. Fyrir utan Merkines eru jarðirnar Kalmarstjörn og Junkaragerði, sögufræg býli, en svo tekur við hraun og sandur og verður að fara allt út á Reykjanes til að finna grænan bala. Úti í hafinu trónar Eldey við sjóndeildarhring – Hinrík skírði dóttur sína Eldey, í höfuðið á eynni, og Elly Vilhjálms var um eitt skeið ein kunnasta söngkona landsins. Vilhjálmur heitinn sonur hans, flugmaður hjá Arnarflugi, var einnig kunnur fyrir söng. Maron sonur hans hlaut útþrána í vöggugjöf og hefur farið um víða veröld og er nú búsettur í Ástralíu en þangað fór hann frá Suður-Ameríku um Bandaríkin. Þá eru tveir synir þeirra hjóna ótaldir, þeir Sigurjón og Þóroddur, sem báðir eru búsettir hér á landi. Þau Hinrík og kona hans, Hólmfríður Oddsdóttir, hafa lengi átt heima í Merkinesi og ég byrja á því að spyrja Hinrík hvort hann hafi kannski alltaf átt þar heima.
„Nei, ég er Eyrbekkingur en fæddur í Grímsnesi þar sem foreldrar mínir voru vinnuhjú hjá Jóni Sigurðssyni á Búrfelli. Faðir minn var jafnframt formaður í Þorlákshöfn. Síðar gerðist hann skipsformaður fyrir Lefolii-verzlun, og var með áttæringinn Vonina frá Þorlákshöfn allt til 1913. Eftir að faðir minn lét af formennsku fyrir Lefolii-verzlun, var hann fenginn til formennsku á teinæring er gera skyldi út frá Herdísarvík. En það var alveg dauðadæmt fyrirtæki frá upphafi því landtaka var þar svo slæm. Ég átti að vera landmaður hjá þeim, en lendingarskilyrðin voru svo vond þarna að þeir urðu að gefast upp á þessari útgerð eftir þrjár vertíðar. Ég gerðist þá vinnumaður hjá Þórarni bónda í Herdísarvík og var þar næstu 3 árin.

Merkines

Í Merkinesi.

Jú, Lefolii-verzlunin hafði mikil umsvif á Eyrarbakka – sveitamenn verzluðu svo mikið þar. En svo fór þetta að breytast fljótlega eftir aldamótin, og verzlunin byrjaði að færast til Reykjavíkur – prísarnir voru víst lægri þar.
En í minni bernsku var mikil stasjón á Bakkanum. Það voru þarna a.m.k. tveir menn sem stunduðu akstur með hestvögnum: þeir Ólafur í Sandprýði og Loftur í Sölkutóft, og alltaf var nóg að gera hjá þeim við aksturinn.
Þórarinn í Herdísarvík átti um 400 fjár og var fénu þar haldið til beitar allan veturinn. Það var alltaf byrjað á að reka upp úr fjörunni á morgnana því féð mátti ekki nærast á eintómum þara. Þarna er gott beitiland víða um hraunið og gott að halda fé til haga. Við misstum tvö lömb eitt árið man ég, þrjú annað og ekkert það þriðja, – þannig að þú sérð að skepnurnar hafa ekki verið illa haldnar. Þarna er mikið og gott fjárland, féð komst hvergi að sjó nema heim við bæinn, því alls staðar annars staðar er berg með sjó. Jú, jú, þetta kostaði óskaplegar göngur þetta kindarag. Tveggja tíma ganga er út í Krísuvík og um einn tími út í Vogsósa.
Ég þurfti að fara í allar Krísuvíkurréttir og eins Gjárréttir fyrir ofan Hafnarfjörð. Þá skellti ég mér bara beinustu leið yfir fjallið. Þarna var ég í 3 ár, þar til ég var 19 ára. Já, maður var léttur á sér hér í gamla daga og lét sér ekki muna um að skreppa bæjarleið.
Svo fór ég til Hafnarfjarðar – var vinnumaður á Jófríðarstöðum hjá Þorvarði Þorvarðssyni, en þar var ég aðeins í eitt ár. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem ég lærði trésmíði hjá Bjarna Símonarsyni húsasmið. Þar kynntist ég konunni minni og giftum við okkur árið 1923. Það var nóg að gera í trésmíðaiðninni – þó tók ég ekki að mér nein meiriháttar verk til að byrja með heldur var í viðgerðum og ýmsu snatti.

Merkines

Tóft í Merkinesi.

Við bjuggum í Reykjavík fyrstu árin og fluttum ekki hingað í Hafnir fyrr en 1933. Ég hafði þó unnið hér töluvert í bátaviðgerðum og byggt hér 4 hús, þannig að við vorum vel kunnug hér áður en við fluttum hingað.
Það mun hafa verið árið 1930 að ég smíðaði fyrsta áttæringinn minn, og var svo með hann héðan í 3 vertíðir – eins frá Kirkjuvogi og tvær héðan frá Merkinesi. Um það leyti dó hann Guðmundur sem bjó hér á Vesturbænum og talaðist svo til milli mín og erfingjanna að ég fengi jörðina keypta.
Mönnum hefur líkað vel þessir bátar sem ég hef smíðað – þetta hafa verið blendingar af árabátum og vélbátum, allir staðið sig vel held ég. Ég lærði aldrei skipasmíðar sérstaklega en á Eyrarbakka voru miklir skipasmiðir eins og t.d. Steinn í Einarshöfn – og ég hafði þetta svona í blóðinu. Ég gerði mér far um að ná laginu hans Hallgríms á Kalastöðum á Stokkseyri – það voru úrvals skip sem hann smíðaði.
Annars hef ég farið mikið eftir því sem maður hefur fundið og séð. Ég tel mig hafa haft töluverða tilfinningu fyrir þessu, enda lagði ég mig fram um að glöggvar mig á eiginleikum báta, bæði í landi og á sjó. Og ég er ennþá að smíða báta þótt það séu bara smá kríli núorðið – það eru margir sem vilja eiga eftirlíkingar af gömlu áraskipunum, og ég hef ekki undan að smíða. Sérðu hvernig þetta módel hérna er lagað við stafninn að framan – það skiptir afar miklu hvernig byrðingurinn er lagaður. Smá reiging á bógnum getur gert gæfumuninn hvernig sjóskip báturinn verður. Sé stafninn með réttu lagi fara þeir mjúkt í ölduna framan og setjast hæfilega á skutinn. Ef rétta lagið hefur ekki náðst fara bátarnir að höggva þegar eitthvað er að sjó, og geta jafnvel verið hættuleg skip, jafnvel hreinir manndrápsbollar. Alls smíðaði ég níu báta og var sá stærsti 7 tonn og svo eru það ein 9 hús sem ég hef byggt hér í Höfnum.“
– Þú varst hreppstjóri hér í Höfnum og stundaðir hér formennsku lengi.

Merkines

Merkinesvör.

„Já, ég var hreppstjóri hér frá því árið 1956, að mig minnir, þar til ég var áttræður. Þá greip ég tækifærið og lét af starfinu. Ég réri hér á hverri einustu vertíð frá 1931 en hætti 1978. Þá var róið út með Stafnesi eða fyrir Reykjanes, allt inn að Háleyjabungu og Staðarbergi. Þetta gat verið einn vökusprettur ef gott verðu hélst marga daga samfleytt og þótti ekki gott nema farnir væru tveir róðrar á sólarhring að sumrinu.
Þetta er fornfræg veiðistöð hér í Höfnum og héðan hafa róið fræknir formenn. Héðan réri Eldeyjar-Hjalti um eitt skeið, en það var löngu fyrir mína tíð. Þá var Eldeyjar-Hjalti svo fátækur að hann átti ekki heilan stakk og vantaði alveg ermina öðru megin. Þeir sögðu að hann hefði fært stakkinn til eftir því sem hann krusaði og haft heilu ermina áveðurs. Þetta var hörku karl en varð víst rembinn með aldrinum – það hefur sjálfsagt verið tíðarandinn öðrum þræði.
Framanaf voru alltaf einhverjir með mér á sjónum en svo réri ég mest einn síðustu árin. Flugvöllurinn breytti öllu hérna, það fóru allir að vinna þar og menn urðu svo kostbærir að maður hætti að fá nokkurn til að róa með sér. Lengi réri ég héðan úr Merkinesvörinni en svo var gerð bryggja í Höfnum og eftir það fór ég að róa þaðan. Það urðu margar ferðirnar hjá mér á hjóli hér á milli – að athuga með bátinn, maður þurfti alltaf að vera að athuga með bátinn. Nú er ég fyrir löngu hættur öllu sjógutli en maður gat þetta hér í gamla daga – þá gerðist maður mótoristi þegar vélarnar komu og kunni þetta allt saman.
Annars er hafsbotninn hérna útifyrir rannsóknarefni útaf fyrir sig. Það hafa orðið alveg hrikalegar breytingar á landinu hér frá landnámi, og sennilegt að mikið land, sem líklega hefur náð allt út að Eldey, hafi sigið í sæ. Í Íslendingasögunum stendur að landnámsmenn hafi siglt vestur með Reykjanesi þar til þeir höfðu opinn Hvalfjörð – og þá séðu að þeir hafa þá verið langt úti. Þá hefur Reykjanesið verið eitt gjósandi krap og mikið gengið á.

Merkines

Heimtröðin.

Það er grunnt hér út með öllu Reykjanesinu töluvert langt út, og er að jafnaði um 12 faðma dýpi. Svo snöggdýpkar, eins og farið sé fram af klettavegg og er þá um 30 faðma dýpi sem helzt langleiðina út í Eldey.
Þegar komið er svo sem þrjá fjórðu af leiðinni í Eldey tekur við hraunkargi í botninum og síðan kemur stallur þar sem dýpið er aðeins sex faðmar, en þar á milli er dýpið aftur um 30 faðmar, þar til kemur að Eldeyjargrunninu. Þarna hefur mikil landspilda sigið í sæ og hafa það verið ólitlar náttúruhamfarir.“
– Nú varst þú grenjaskytta hér í Hafnahreppi um langt skeið.
„Já, frá árinu 1948 stundaði ég grenjaskytterí og síðar minkaveiði. Ég veit um 14 greni hér á svæðinu og vann mest 4 greni á ári. Núna seinni árin höfum við ekki orðið vör við tófu hér í Hafnahreppi. Ég vorkenndi alltaf refnum – en minkinn hef ég hatað og minkurinn er sú eina skepna sem ég hef haft gaman af að drepa. Það verður þó ekki á móti borið því sem hann Þórður Halldórsson frá Dagverðar á hefur sagt, „að þetta meindýr er til okkar komið í gegn um sali hins Háa Alþingis“. Minkurinn er grimmdarskepna – hann drepur til þess eins að drepa og nýtir ekki nærri alltaf það sem hann drepur. Drápsgirndin er alveg ótrúleg í honum, hann eyðir öllu fuglalífi og er sannkallað afkvæmi andskotans. Tófan vinnur hins vegar upp sína veiði og drepur ekki nema sér til matar. Ég komst upp í 63 minka mest um árið en nú verður ekki vart við mink hérna.“
– Hver heldurðu að sé skýringin á því?
„Ég hef tvær teoríur, en hvoruga get ég þó sannað. Sko, núna undanfarin tvö ár hefi ég gaumgæft landsvæðið hér umhverfis, og aldrei séð far eftir mink, hvorki í snjó eða sandi. Svo virðist sem minkurinn sé hér alveg horfinn. Á sama tíma gengur farsótt í minkabúunum þannig að þeir þurftu að farga hverjum einasta mink. Gæti ekki verið að villiminkurinn hafi fengið þessa sömu veiki? Því þetta virðist gilda um landið allt, að menn verða lítið varir við mink. Vinur minn, Þór Jónsson í Fljótum, hefur veitt 90 minka mest um árið en í fyrra náði hann aðeins tveim. Hann hefur víst veitt eina sex í vor þannig að þeim er eitthvað að fjölga aftur.

Merkines

Brunnurinn.

Svo er það önnur teoría sem ég hef. – Hér á árum áður tóku menn það upp að eitra fyrir refnum og þótti öllum þjóðráð. Upp úr því fækkaði refnum mikið og þökkuðu menn það þessum aðgerðum. En ég er alls ekki á því að þessar aðgerðir hafi fækkað refnum. Athugaðu að á þessum tíma gekk hér einmitt mikið hundafár svo að heilu sýslurnar urðu hundlausar. Refurinn er mjög skyldur hundinum og hefur að minni hyggju smitast af sömu veiki og fækkað vegna þess.
Ég eitraði einu sinni fyrir ref hér í Hafnahreppi á 38 stöðum – með fjallahringnum allt frá Sýrfelli til Hvassahrauns. Ég merkti staðina alla en hræin höfðu aðeins verið snert á tveimur, og ég er alls ekki viss um að það hafi verið tófa sem það gerði. Ég var með afar glöggan hund og hann hafði ekki veður af neinu tófuhræi á allri þessari leið. Ég tel því að fækkun refs á þessum tíma hafi stafað af sjúkdómi í refastofninum en ekki af þessum eitrunum.
Það er nú svona með það sem maður er hneigður fyrir – það lifa margar minningar frá þessum veiðum í gegnum árin. Það skiptir öllu á minkaveiðum að hafa góðan hund. Ég var allaf með byssu til taks þegar ég var á ferðinni ef ég rækist á einhvern af þessum andskotum. Bezt reyndist mér haglaskammbyssa sem ég hef lengi átt en hef nú lánað frá mér.
Einu sinni vann ég þó mink byssulaus – var þá að koma inn úr Kirkjuvogi og verð var við mink í malarkambi hér á Hnausendunum. Ég var með góðan hund með mér og finnur hann strax hvar minkurinn er undir. Ég var ekki einu sinni með hníf og gat ekki farið heim eftir byssu því þá hefði minkurinn sloppið á meðan. Þarna er kastmöl og fer ég að róta til nokkrum steinum þar sem hundurinn ólmaðist og sé þá í skottið á minkinum. Ég bregð þá við, gríp í skottið og kasta honum í háaloft, en svo mikil var snerpan í hundinum að hann greip minkinn á fluginu og allt að því klippti hann í tvennt með kjaftinum.“

Merkines

Möngutóft.

Nú berst talið að ótrúlegum veiðisögum og Hinrík segir mér veiðisögu sem hlýtur að teljast ótrúleg.
„Ég var einu sinni í heimsókn hjá honum séra Lárusi Arnórssyni í Miklabæ. Við vorum að tala um veiðar og ég segi sem svo: „Mikið andsk . . . hefur þetta gengið illa hjá honum Gísla að miss svona þennan stóra fisk.“ Þá segir séra Lárus: „Þegar menn eru að segja þessar veiðisögur ýkja þeir að minnsta kosti til helminga.“ Ég varð reiður við og sagðist skyldi segja ótrúlega veiðisögu sem engu að síður væri sönn, og sagði honum þessa sögu:
Sumrin 1922 og 1923 var ég við stangveiði við Kaldárhöfða við Úlfljósavatn. Þar veiddist oft vel, upp í 111 á einum degi. Þar er bezt veiðin snemmsumars og veiðist þá þriggja punda bleikja, en nú var komið fram í ágúst og veiddist bara depla og dauft við veiðina. Einhvern daginn fer ég þó út á ána – það þurfti að sperra sig töluvert á móti straumnum til að komast á góðan veiðistað og leggjast þar við dreka. Nú, þarna set ég í allvænan fisk og verð að sleppa drekanum svo hann slíti ekki fyrir mér. Svo kem ég fisknum alveg að borðstokknum og sé þá að hann er kræktur í gegnum fremri bakuggann. En þegar ég ætla að innbyrða fiskinn sé ég að háfurinn hafði gleymst í landi. Ég reyni þá að ná fisknum með höndunum en hann sleppur frá mér.
Þegar ég kem í land gengur mér auðvitað illa að sannfæra hina um að ég hafi misst þennan stóra fisk. Daginn eftir fer ég svo aftur út – og hvað heldurðu gerist þá. Set ég ekki aftur í vænan fisk á sama stað og í þetta skipti var háfurinn með í bátnum. Mér brá þó heldur betur í brún þegar ég fór að skoða fiskinn – fremri bakugginn var rifinn að endilögnu, og þarna var kominn sami fiskurinn og ég hafði sett í daginn áður.

Merkines.

Garður.

Sr. Lárus gapti alveg þegar ég sagði honum þetta – hann sagði ekki eitt einasta orð og ég veit ekki enn hvort hann hefur trúað mér.“
– Hefurðu ekki lent í ýmsu misjöfnu til sjós?
„Jú, það var nú sitthvað sem kom fyrir. Einu sinni hafði ég næstum álpast fyrir borð . – það er ekki segjandi frá því. . . . Jæja, það vildi nú svona til. Það var stýrishús á bátnum, og þilfar út í lunninguna frá því örðu megin. Þarna sem ég var hagar svo til að snardýpkar og var lygnt fyrir innan en töluverð ólga utar enda allmikill straumur. Ég var að kippa inn á lygnuna og ætlaði að fara að fá mér í nefið, en þá tek ég eftir því að ég hef gleymt bauknum frammí.
Nú get ég ekki á mér setið og ákveð að skjótast fram í bátinn og ná í baukinn. Það var handrið meðfram stýrishúsinu og held ég mér í það en þegar ég ætla að fara niður í pontuna skriplast mér fótur . . . þá kemur kröpp alda á bátinn og skiptir það engum togum að ég missi fótanna og fer í sjóinn. Svo einstaklega vildi þó til að í fallinu næ ég taki á borðstokknum og gat hangið þar. „Er það nú búið lagsi minn,“ sagði ég þá við sjálfan mig – ég fór alveg í sjóinn upp fyrir haus, en þegar báturinn rétti sig af og valt yfir á hina síðuna, gat ég vegið mig upp og komist um borð aftur.“
– En hvað um refaveiðarnar, á þeim hefur sitthvað borið við er það ekki?
„Jú, það er ekki fyrir aðra en vana menn að sjá við tófunni – hún er svo klækjótt og vör um sig. Svo hafa þau svo ólíkt lundarfar þessi dýr, þau eru rétt eins og menn hvað það varðar. Ég hef oft alið yrðlinga hér sumarlangt og þau geta orðið afskaplega gæf þessi dýr, en svo er eins og önnur sé ómögulegt að temja. Ég var einu sinni með högna og læðu eitt sumar. Högninn var alveg forhertur – virkilegt óartarkvikindi, kom aldrei fram í búrið þegar ég gaf honum og byrjaði aldrei að éta fyrr en ég var farinn. Læðan var aftur afskaplega blíð og vinaleg. Einu sinni ól ég yrðling hérna heimavið og tókst að temja hann. Það var maður sem hét Sólmundur og bjó í Sandgerði sem fékk hann hjá mér og átti í tvö ár. Rebbi elti hann um allt eins og hundur og lagðist aldrei í strok. Það er hægt að temja refinn furðanlega, en þeir veriða aldrei allra og það er alltaf grunnt á villidýrseðlið í þeim.
Hver grenjaferð saga útaf fyrir sig.

Merkines

Varða.

Oft hef ég tekið það nærri mér að vinna greni og sárvorkennt þessum greyjum. Maður verður að spila á þessar helgustu tilfinningar, móðurástina, og það er heldur óskemmtilegt. En þau mega ekki vaxa manninum yfir höfuð.
Annars er gaman að tilstandinu við þetta, og má segja að hver grenjaferð sé saga útaf fyrir sig. Einu sinni sem oftar var ég búinn að vinna bæði læðuna og yrðlingana á greni. Rebba skaut ég í munnanum en hann var það innarlega að ég náði honum ekki. Ekki var hann alveg dauður og gat skreiðst innar í grenið með því að krafsa með löppunum. Nú, ég gat lítið aðhafst og sneri heim við svo búið. Þegar ég kem til hreppstjórans til að fá greitt segi ég honum að ég hafi unnið grenið en misst stegginn inn. „Það er nú venja að sýna þá,“ sagði þá hreppstjórinn.
Nú, ég fer aftur af stað nokkrum dögum síðar, og þá eru þau í för með mér Maron sonur minn sem var átta ára og Eldey dóttir mín. Ég hafði með mér stöng, kerti, band og sitthvað fleira sem að gagni gat komið við að ná refnum. Þegar við komum að grenismunnanum sést hvergi til rebba og var þar myrkt innifyrir. Það verður að ráði hjá mér að láta strákinn skríða inn en bind fyrst kaðalinn um lappirnar á honum. Hann skríður svo inn og lýsir fyrir sér með kertinu sem ég hafði fest framaná prikið, en mér er um og ó ef eitthvað líf væri í refnum sem þá gat bitið illa. Nú, ég öskra á strákinn, hvort hann sjái nokkuð refinn. Hann öskrar á móti að þarna sé hann og virðist dauður. Ég öskra á strákinn að taka kertið og setja það fram á prikið og bera að nefninu á rebba – því þá hlaut hann að sýna viðbrögð. Nú stráksi gerir þetta og reynist refurinn steindauður. Nú, ég dreg svo strákinn út úr greninu með kaðlinum og strákurinn refinn. Þannig lauk þeirri viðureign.

Bragi Óskarsson tók viðtalið.

Hinrik í Merkinesi

Hinrik ásamt fjölskyldu.

Gömlu-Hafnir

“Það er haft eftir Magnúsi Stephensen, að samkvæmt ævagömlum heimildum hafi mest allur hluti Reykjaness árið 1000 sokkið í sæ, og þá komið upp Geirfuglasker. Ætti þá fyrir þann tíma að hafa verið land langt norðvestur út fyrir Eldeyjar, þannig að Eldey og drangar þeir, sem þar eru, hafi á þeim tíma og fyrr verið fjöll á Reykjanesskaganum.

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gömlu-Hafnir, fiskbyrgi.

Þetta er mjög líklegt, enda kemur það heim við fornsögur vorar, því þar er þess getið, að þegar fornmenn komu siglandi fyrir Reykjanes, þá blasti við þeim opinn Faxaflói. Kemur þetta alveg heim við nútímann.
Árið 1118 er mesta óár, og undur gerast á Reykjanesi. Þá er landskjálfti mikill og eldur þar fyrir; þá farast 18 menn. Svo kemur röðin af óárunum á Reykjanesi og eldgosum, er smátt og smátt eyðileggja allan þann gróður og grashéruð, er hafa verið til forna á Reykjanesi.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – kirkjugarður?

Árið 1206 er eldgos á Reykjanesi, sömulieðis 1210, og ’11 brann Reykjanes. Þá sukku ýmsar eyjar, er voru úti fyrir nesinu. 1222 er einnig eldgos, 1223 líka; það sama á gýs Hekla. Fyrri helmingur 13. aldar á mestan þátt í því að leggja býlin í kringum Skjótastaði í auðn. Myrkur var um hábjartan dag á Suðurnesjum árið 1226.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir.

Elsta handrit um byggð í Höfnum, er máldagi, sem Vilkin biskum gjörði, er hann visiteraði í hafnirnar 1397, eða 5 árum fyrir Svartdauða. Þessi visitazía er elsta og merkilegasta lýsing á Höfnum, eða réttra sagt Vogkirkju. Á þessum máldaga sést að Vogskirkja er helgið Maríu mey, fyrst og fremst, og að nokkru leyti Pétri postula.

Gömlu-Hafnir

Vörslugarður ofan Gömlu-Hafna.

Rosmhvalanes var, samkvæmt gömlum skjölum, frá grófinni hjá Duus í Keflavík í Háleitisþúfu og þaðan í Ósabotna, er þeir ná lengst í austur. Hvað byggt hefir verið sunnar með Ósunum á þessum tímum, er ei vitað, en þó líklegt, að í Kirkjuvogi hafi verið kot eða hjáleiga frá Vogi.
Í Kirkjuhöfn var kirkja á 12. og 13. öld, þótt ekki sé hennar getið hjá Vilkin biskupi.
Talið er víst, að byggð hafi verið á Eyri lengi fram eftir 18. öld, því 1770 býr þar í Eyrarbænum Ormur Þórarinsson (Litla Sandhöfn (Sandhöfn)). Um 1702 er Litla-Sandhöfn skilgreind. Bærinn eyðilagðist 1650 og Eyrarbærinn fór í eyði um 1770. Kirkjuhöfn mun leggjast í afslöppun á næstunni nokkru síðar, 1660, og Eyrarbærinn fór í eyði 1776.
Kirkjan er mjög áhugaverð.“

-Séra Jón Thorarensen
-Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Hunangshella
Þegar gengið er eftir gömlu götunni, alfaraveginum sunnan Ósabotna til Hafna, er slétt jökulsorfin grágrýtishella á hægri hönd, nú orðin nokkuð gróin. Á hellunni, sem nefnd er Hunangshella, er varða.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Gamla gatan er vörðuð, en vörðurnar eru nú flestar fallnar. Á Hunangshellu, segir sagan, var finngálkn unnið fyrrum.
Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.

Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annarra þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki.

Hunangshella

Hunangshella.

Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni. Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta.
Hellan er síðan kölluð Hunangshella sem fyrr segir.

-Jón Árnason I 611

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Kaupstaðagatan

Ljóst er að hjarta landsins slær á Reykjanesi.

Hjartasteinn

Hjartasteinn við Ósa.

Í ferð FERLIRs um norðanverða Ósabotna var gengið fram á meirt, en mjúkt hjarta, þar sem það var grópað litskrúðugt í grjóthart grágrýtið – skammt frá þeim stað þar sem hella með fangamarki Hallgríms Péturssonar, prests í Hvalsnesi, átti að hafa verið til langs tíma, en er nú varðveitt í geymslum Þjóminjasafnsins (engum til ánægjuauka). Umhverfið er sandauðn og berar klappir, óspillt land, en inni á milli þeirra vaxa harðgerar landnámsplöntur. Líkja má aðstæðum við frumbýlið forðum.
Hjartað gæti, einhvern tímann, hafa slegið í suðvestrænum landvættarskrokki griðungsins, en síðan fengið að slá áfram er griðingurinn varð að þjóðsagnakenndum steini. Þannig er hjartað og bein skírskotun til sögunnar, þjóðsagnanna sem og jafnvel allrar tilveru lífsins. Einnig er táknrænt að hjartað skuli vera þarna, inni á Varnarsvæði hersins, á íslensku landi undir erlendum yfiráðum [2003].

Þórshöfn

Þórshöfn.

Annars bjóða norðanverðir Ósar upp á fjölbreytilega möguleika. Þar má sjá gömlu Kaupastaðagötuna; fallega götu er liggur svo til bein á kafla um heiðina, tóftir Gamla Kirkjuvogs, sem taldar eru vera frá fyrstu byggð á svæðinu, tóftir við Djúpavog og gamlan brunn, tóftir Stafnessels, tóftir á Selhellu, garða út í sjó vestan Djúpavogs, verslunina við Þórshöfn og áletranir á klöppum, Gálga (sem engar eru þó heimildir til að hafi verið notaðir sem aftökustaður, en uppi á einum þeirra er manngerð tóft) og Básenda, hinn gamla verslunarstað svo eitthvað sé nefnt. Verndarnir skiptu sér áður fyrr af ferðum fólks um þetta svæði (ofar ströndum), en voru sem betur fer hættir því nokkru áður en þeir hurfu af landi brott.
FERLIR fékk þó margsinnis að ganga óáreittur um þetta svæði meðan á hersetunni stóð – og njóta alls þess, sem það hefur upp á að bjóða, en auk minjanna og sagnanna er dýra- og náttúrufegurð þarna veruleg.

Kaupstaðagata

Kaupstaðagatan ofan við Gamla-Kirkjuvog.

Nýlega (skömmu fyrir brottför verndarana) var gengið fram á þá tvo slíka saman, alvopnaða, en reykspúandi, skammt vestan við Gálga. Þrátt fyrir meint hlutverk sitt gáfu þeir sér góðan tíma til að spjalla við göngufólkið um umhverfið og söguna, sem þeir sýndu verulegan áhuga. Þótt hugur þeirra væri á reiki víðsfjarri var áhuginn þó nærri. Og hann óx í réttu hlutfalli við umræðuna. Við Gálga innanverða er t.d. upplýsingaskilti fyrir göngufólk um aftökusiði og upp á íslenskan máta. Þaðan er ágæt útsýn milli klettastapanna og ímyndaðs aftökustaðar með tré á millum.
Sunnan Ósabotna er Hunangshellan, en henni tengist þjóðsagan af viðureign Hafnarbúa við finngálknið. Þar er einnig gamla gatan (eða réttara sagt göturnar) milli Njarðvíkur og Hafna.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Sunnar er staður er nefndur hefur verið Gamli kaupstaður, sem sumir álíta að hafi verið verslunarstaður eða verslunarsvæði fyrrum. Framhjá honum á Kaupstaðagata að hafa legið áleiðis yfir heiðina til Grindavíkur. FERLIR skoðaði þann stað fyrir nokkru og má vel gera sér í hugalund að þar hafi verið sammerkur áningarstaður á leiðum fyrrum. Þessi leið er a.m.k. bein og greið.
Kirkjuvogssel er sunnan þjóðvegarins og skammt norðvestan Gamla kaupstaðar. Þar eru verulega tóftir húsa og fallega hlaðinn stekkur, auk gerðis og fleiri mannvirkja er tilheyrðu selstöðunni fyrr á öldum. Enn ofar eru Möngusel og Merkinesselin.

Ósar

Ósar.

Af veginum á Þrívörðuhæð sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397.
Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs.
Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Jamestown
FERLIRsmeðlimir hafa ánafnað gönguhópnum brot úr seglskipinu Jamestown er strandaði fyrir utan Hafnir í júnímánuði árið 1881.
Eftirfarandi brot úr frásögn um „Jamestown“ má sjá á vefsíðu Leós M. Jónssonar í Höfnum:

Jamestown

Strandsstaður Jamestown.

”Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes [Hvalvík] á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið unnum borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður. Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.

Í annálum er þessa strands getið . Í jólablaði tímaritsins Faxa frá árinu 1967 er merkilegt viðtal við Friðrik Gunnlaugsson (þá 95 ára) þar sem hann segir ítarlega frá björgun farmsins úr Jamestown. Ennfremur er að finna frásögn Ólafs Ketilssonar, fyrrum hreppstjóra Hafnahrepps, af þessu strandi í bókinni Sunnlenskir sagnaþættir (sem Gunnar S. Þorleifsson safnaði) en þar segir Ólafur frá strandinu, björgun farms og afdrifum skipsins.

Jamestown

Ankeri Jamestown í Sandgerði.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 20 m á breidd (til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90-100 m á lengd). Þetta risaskip átti sér talsverða sögu sem ef til vill skýrir orsök þess að það strandaði mannlaust á Suðurnesjum.
Jamestown var með 3 þilför á sama tíma og flest stærri seglskip voru tveggja þilfara. Það var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Skipið Jamestown var yfirgefið úti á rúmsjó þegar eimskipið Ethiopia bjargaði skipverjum. Það var þá undir stjórn Wm. E. Withmore skipstjóra sem er frá borginni Bath. Hinn 10. nóvember lagði skipið Jamestown af stað undir stjórn Withmore skipstjóra með verðmætan farm sem sigla skyldi með til Liverpool.

Scott skipstjóri á eimskipinu Lake Manitoba skýrði frá því að hann hafi farið um borð í Jamestown frá Boston þar sem það var á reki mannlaust og mikið laskað. Hann segir að 17 feta djúpur sjór hafi verið í skipinu sem var hlaðið timbri. Þrátt fyrir skemmdirnar hafi möstrin verið uppi en mikið skemmd, mest af seglabúnaði hafi verið horfið en lítill hluti lafað útfyrir borðstokkinn. Scott segir að þeir hafi gert ítrekaðar tilraunir til að draga skipið en ekki tekist að festa dráttartaug í það og orðið að hætta við.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Eftir að hafa rekið um á Norður-Atlantshafinu mánuðum saman hefur yfirgefið flakið rekið á land á strönd Íslands“.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins.
Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Island hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.“

Georg H. Wadleigh

Georg H. Wadleigh.

Svo vill til að sumarið 1881 var staddur hér á landi bandarískur sjóliðsforingi og skipstjóri á bandaríska gufuskipinu Alliance sem þá kom til Reykjavíkur, Georg H. Wadleigh að nafni. Hann skýrði svo frá: ,,Skipið Jamestown frá Boston, hlaðið timbri, rak að landi og strandaði þann 26 júní 1881 norðan við Reykjanestá um 30 mílum frá Reykjavík. Hér með greini ég frá öllu því sem ég hef skráð varðandi strand þessa skips og aðstæður. Hafís hefur verið óvenjumikill þennan vetur og náð lengra til suðurs með ströndinni en venjulega. Greinilegt er að áhöfn Jamestown hefur yfirgefið það nokkru fyrir strandið.“

Wadleigh sjóliðsforingi áætlar stærð skipsins um 1200 tonn í skýrslu sinni. Hann getur þess að rannsókn yfirvalda á staðnum hafi leitt í ljós að afturmastrið hafi verið höggvið af niður við dekk og axarför hafi verið sjáanleg á miðmastrinu og greinileg ummerki um að reynt hafi verið að höggva það sundur. Þá hafi allan stýrisbúnað vantað á skipið. Stærstur hluti reiðans hafi hangið út yfir borðstokkinn og illa farinn. Á bógum hafi nafnið Jamestown verið lesanlegt en undir því aðeins mátt greina ,,Boston“.

Jamestown

Jamestown – auglýsing.

Á koparplötu yfir káetu hafi staðið nafnið Jamestown og á einni af þremur þilfarsvindum hafi mátt lesa merkingu. Allar lestarlúgur voru opnar, segir Wadleigh, og allt lauslegt horfið að undanskildu úldnu fleskstykki. Hann segist einnig hafa tekið eftir grasvexti á þilfarinu sem bendi til þess að skipið hafi verið lengi á reki. Timbri sem bjargað hafi verið úr skipinu segir Wadleigh að hafi verið skipt þannig að þriðjungur fór til Þeirra sem unnu að björgun þess en 2/3 hlutar hafi verið boðnir upp á staðnum fyrir um 10 þúsund krónur. Ætla má að einungis um helmingur af farmi skipsins hafi bjargast á land, segir Wadleigh í skýrslu sinni og getur einnig um danskan skipstjóra sem segist hafa farið um borð í Jamestown úti á rúmsjó 21. júní 1881 og þá hafi allt lauslegt ásamt mestu af tréskrauti skipsins verið horfið”.
Sjá meira um strandið HÉR.

Leó M. Jónsson:
Upphaflega birtist þessi grein í heild í tímaritinu Skildi nr. 34. 4tbl. 10. árg. 2001. Skjöldur er gefinn út af Útgáfufélaginu Sleipni í Reykjavík. Ritstjóri: Páll Skúlason.
http://www.leoemm.com/jamestown.htm

Jamestown

Jamestown – saga.

Gömlu-Hafnir

Í „Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember 1996„, framkvæmd af Fornleifadeild Þjóðminjasafnins sama ár má lesa neðangreint um minjar á svæði Gömlu-Hafna, vestan Drauga að Hafnarbergi. Fornleifakönnunin var gerð vegna fyrirhugðrar magnesíumverksmiðju sunnan við Hafnir á Reykjanesi, sem síðan ekkert varð úr – sem betur fer.

Aðdragandi

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir. Horft til vesturs. Austast er bæjarhóll Kirkjuhafnar, vestar eru bæjarhólar Stóru- og Litlu-Sandhafnar og loks leifar bæjarhóls Eyrarhafnar.

Þann 31. október hafði Hallgerður Hreggviðsdóttir hjá Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar samband við Þjóðminjasafn Íslands. Óskaði hún eftir því að safnið tæki að sér fornleifakönnun á svæði sunnan við Hafnir þar sem fyrirhugað er að reisa magnesíumverksmiðju. Áhersla var lögð á að verkið þyrfti að vinna sem allra fyrst.

Gömlu-Hafnir

Hafnarsandur – Herforingjaráðskort 1903.

Svæðið tilheyrir Hafnahreppi og er samkvæmt herforingjaráðskorti frá árinu 1910 í mælikvarða 1:50.000 í Hafnarbergi. Á staðfræðikorti Landmælinga Íslands frá 1989 í mælikvarða 1:25.000 er svæðið nefnt Hafnasandur.
Framkvæmdasvæðið afmarkast í vestur af Eyrarbæ norðan Hafnabjargs að Kirkjuhöfn til austurs. Þrjú gömul eyðibýli eru merkt á landakort á þessu svæði. Vestast er Eyrarbær sem sagður er hafa farið í eyði um 1770 og eru bæjarrústir hans sýndar á korti norðan við Hafnarberg. Annað eyðibýlið Sandhöfn, sem fór í eyði um 1600, skiptist í Litlu og Stóru Sandhöfn. Þar var talin vera besta höfnin. Þriðja eyðibýlið er Kirkjuhöfn sem fór í eyði litlu fyrr en Sandhöfn. Munnmæli herma að þar hafi verið kirkja sem aflögð var á 14. öld. Í Prestatali og prófasta er hins vegar ekki getið um kirkju á þessum stað.
Svonefndar Hafnir í Hafnahreppi voru við Kirkjuhöfn og Sandhöfn.

Vettvangskönnun

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; örnefni (LMÍ).

Vettvangskönnunin var gerð dagana 2. – 3. nóvember. Hún fór þannig fram að skýrsluhöfundar gengu skipulega um svæðið og merktu öll mannvirki sem fundust inn á skannaða loftmynd. Mælikvarði loftmyndarinnar er óviss en mun sennilega vera um 1:1500 – 4500. Um leið og gengið var fram á minjarnar var lausleg lýsing af þeim töluð inn á diktafón. Einnig voru flestar minjarnar ljósmyndaðar. Gert hafði verið ráð fyrir að ljúka vettvangskönnuninni á einum degi, en þar eð mun fleiri minjar komu í ljós en gert hafði verið ráð fyrir tók verkið alls tvo daga. Veður var bjart báða dagana og 4 – 5 stiga frost. Allhvasst var fyrri daginn en logn þann síðari.
Unnið var við vettvangskönnun laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 3. nóvember.
Hér á eftir er lýsing á hverju mannvirki fyrir sig. Númerin vísa í samsvarandi númer á yfirlitskortum aftast í skýrslunni þar sem lega minjanna er sýnd. Kortin eru teiknuð eftir loftmynd af svæðinu.

Mannvirki 1 (fjárétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárrétt?

Grjóthlaðin ferhyrnd rétt um 13 x 15 m að innanmáli. Hún stendur fremst fram á sjávarbakka. Veggjahæðin er allt að 80 cm og veggjaþykkt er um 80 cm. Ofan á vegginn hefur verið settur gaddavír. Innan í réttinni er yfirborðið mjög mishæðótt og hefur hún að hluta fyllst af sandi. Inngangur er við SA hornið. Við austurgaflinn, sem snýr út að sjónum, er yfirborðið allt að 1,5 m hærra en í suðuvesturhelmingi réttarinnar. Að utanverðu er um tveggja metra fall frá gaflinum niður í grýtta fjörnuna. Í NVhorni réttarinnar er lítið byrgi og er SA hlið þess opin. Austurhlið byrgisins er flutningabretti úr tré. Byrgið er jafnhátt og réttarveggirnir og á því er flatt torfþak.
Af hleðslunum að dæma virðist þetta ekki vera mjög gamalt mannvirki. Þær eru í allgóðu ásigkomulagi og virðist hafa verið haldið við. Byrjað að hrynja smávegis úr hleðslunni í suðurveggnum.

Mannvirki 2 (garðbrot)
Þetta eru leifar af garði eða garðbroti sem að mestu er sokkinn í sand. Steinaröð stendur upp úr sandinum á stöku stað og sýnir hvar garðurinn hefur legið. Hann er um 50 m að lengd og liggur í suðvestur úr víkinni austan við mannvirki 1. Breiddin er um 60 – 80 cm.

Eyrarbær

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Samkvæmt merkingu á landakortum ættu rústir Eyrarbæjar að vera um 50 m suður af mannvirki 1. Við gátum ekki séð merki um rústir á þeim stað. Annaðhvort hefur bærinn sokkið í sand, orðið uppblæstri að bráð eða hann hefur ekki verið rétt staðsettur á kortinu. Hugsanlegt er t.d. að mannvirki hafi t.d. verið reist ofan á bæjarrústirnar.

Hafnarbjarg
Gengið var meðfram ströndinni hjá Hafnarbjargi til að kanna hvort þar væru sýnilegar minjar um varir, bátalægi, uppsátur eða fiskgarða. Fjaran er mjög stórgrýtt og brött og ekki varð vart við nein mannvirki á norðvesturhluta Hafnarbjargs.

Mannvirki 3 (túngarður)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Garðhleðsla, hugsanlega túngarður. Garðurinn liggur frá Hafnabergi til austurs og markar sennilega tún eða landamerki Eyrarbæjar og Sandhafnar til suðurs. Vestasti hluti garðsins er sokkinn í sand og að miklu leyti hruninn. Grjótdreif úr hleðslunni er á um 3 m breiðu svæði. Um 50 m frá ströndinni er um 2,5 m breitt rof í garðinn fyrir vegarslóða. Þaðan liggur hleðslan áfram til austurs. Sandur hefur lagst upp að henni beggja vegna þannig að hún er að mestu í kafi. Víða er nokkur grjótdreif og hrun úr hleðslunni, einkum að norðanverðu. Í rofabarði við vegarslóðann virtist veggjaþykktin geta hafa verið um 1 m að breidd, en þar sem sandurinn hefur safnast upp að hleðslunni hefur einfaldri og um 0,3 m breiðri steinhleðslu verið bætt ofan á vegginn. Hæð hleðslunnar ofan sands er allt að 0,5 m.

Mannvirki 4 (tóft?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; refagildra.

Hugsanlegt mannvirki á lágum hól. Að norðanverðu virðist mega greina leifar af einfaldri hruninni grjóthleðslu um 0,2 m breið og um 8 m löng. Innanmálið hefur sennilega verið um 2 m, en ekkert er eftir af suðurhlið og vesturhlið. Hugsanlega eru nokkrir steinar hluti af austurhliðinni. Erfitt var að finna þetta mannvirki á loftmynd og er staðsetning þess e.t.v ekki alveg nákvæm á kortinu.

Mannvirki 5 (garður)
Þetta er garður sem liggur í einfaldri röð. Hlaðinn úr misstórum steinum frá 0,4 – 0,5 m í þvermál niður í 0,05 – 0,1 m í þvermál. Garðurinn liggur í norðvestur-suðaustur.
Austast beygir hann til norðurs? Hann er horfinn á köflum og ekki er alls staðar hægt að sjá hann en til vesturs nær hann alveg niður að sjó. Garðurinn endar við hraunás þar sem mannvirki 6 – 8 eru til staðar.

Mannvirki 6 (byrgi?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Grjóthlaðinn ferhyrningur hlaðinn úr einfaldri steinaröð, í allt að 0,6 m hæð. Hann er um 1,5 x 2 m að utanmáli og grasi vaxinn að innan. Steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Undirstöðurnar eru alls staðar sýnilegar. Suðurhliðin er sennilega verst farin. Mannvirkið stendur uppi á hæð við austurenda garðs nr. 5

Mannvirki 7 (byrgi)
Grjóthlaðið byrgi norðaustan undir klettunum þar sem garður 5 endar. Hleðslan er einföld steinaröð sem er að mestu horfin í sand eða hrunin. Hún er um 4 m að lengd og 1,4 m að breidd um miðjuna og aðeins mjórri við suðurgaflinn. Þar er byrgið aðeins um 1 m að breidd.

Mannvirki 8 (byrgi?)
Um 5 – 10 m austan við mannvirki 7 er um 9 m löng og 4 m breið þúst og allt að 0,4-0,5 m há. Þar virðist vera svipað mannvirki og mannvirki 7, sem er nánast alveg sokkið á kaf í sand. Steinaröð sést á þriggja metra löngum kafla að sunnan eða vestanverðu.

Mannvirki 9 (varða?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða (leifar fiskbyrgis).

Grjóthlaðið mannvirki. Tvær hliðar eru hlaðnar í horn um 1,2 x 1,2 m hvor hlið. Hleðslan virðist vera allt að 0,6 cm há og hlaðin úr 0,3 – 0,4 m stórum steinum sem raðað er saman. Hugsanlega er þetta leifar af vörðu.

Mannvirki 10 (fiskbyrgi?)
Mannvirki 10, 11 og 12 eru leifar af þremur litlum byrgjum, sennilega fiskbyrgjum.
Mannvirki 10 er hlaðið úr einfaldri steinaröð og virðist nánast hafa verið ferkantað. Það er 2 x 3 m að utanmáli og er vestasta hliðin allt að 0,5 m há. Byrgið er talsvert hrunið og á norðurhliðnni stendur aðeins neðsta steinaröðin eftir. Enginn inngangur er sýnilegur. Að innan er byrgið grasivaxið og mosagróið.

Mannvirki 11 (fiskbyrgi?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Grjóthlaðið byrgi um 1,5 x 2 m að innanmáli. Virðist vera hringlaga að utan, að minnsta kosti 1,5 m að hæð. Hleðslan er einföld steinaröð, með 0,3 m breiðum og um 0,4 – 0,5 m háum inngangi á austurhlið. Hleðslan virðast vera tiltölulega nýlega hlaðin eða lagfærð. Tóftin er hálffull af sandi.

Mannvirki 12 (fiskbyrgi)
Sennilega leifar af fiskbyrgi. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr einfaldri steinaröð.
Tóftin, sem er hrunin, er um 3 x 3,5 m að utanmáli. Ekki verður séð af yfirborði hvort hún hefur verið hringlaga eða ferningslaga. Undirstöður virðast þó fremur hafa verið ferningslaga. Hún er allt að 0,5 m að hæð þar sem hún er hæst.

Mannvirki 13 (vegarslóði)

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir. Um svæðið er markaður göngustígur með grjóti og viðardrumbum.

Traðir sem liggja meðfram ströndinni yst frá Eyrarbæ að Sandhöfn. Þetta er um 1,5 m breiður slóði sem varðaður er einfaldri steinaröð beggja vegna. Steinarnir eru að jafnaði um 0,1 – 0,2 m stórir. Sums staðar hafa rekaviðardrumbar verið lagðir í stað steina til að afmarka vegarslóðann. Þetta virðist ekki vera ýkja gömul hleðsla. Hugsanlega er þetta nýleg gönguleið sem gerð hefur verið að hömrunum við Hafnaberg.

Mannvirki 14 (rétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; rétt?

Stór tvískipt grjóthlaðin tóft upp á og utan í dálítilli hæð. Veggirnir að mestu hrundir.
Nú eru þeir ekki nema um 0,2 – 0,3 m háir. Upphaflega virðast þeir hafa verið allt að 0,8 m breiðir. Hugsanlega er þetta leifar af rétt eða fiskreit. Minni reiturinn hallar til norðurs. Hann er 15 x 13 m að innanmáli.
Stærri reiturinn er grjóthlaðinn um 45 x 25 m að innanmáli. Hleðslan er að mestu horfin í sand. Einföld steinaröð stendur upp úr sandinum, allt að 0,5 m há.

Mannvirki 15 (lendingarstaður?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; sjóbúð?

Hér hefur líklega verið lendingarstaður, uppsátur eða vör. Hér er sendin skor þar sem gott hefur verið að draga upp báta. Fyrir ofan lendinguna er grasi vaxinn hóll þar sem hugsanlega eru einhverjar rústir án þess að hægt sé að segja það með vissu. Á hólnum austanverðum er eins og 90° horn sem bendir til þess að þar sé um hleðslur að ræða.

Mannvirki 16 (bæjarhóll, Litla Sandhöfn?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; mannvirki sunnan Stóru-Sandhafnar.

Um 5-6 m hár grasi gróinn hóll sem virðist vera gamall bæjarhóll. Hér og hvar glyttir á hleðslur í hólnum. Hugsanlega eru þetta leifar eyðibýlisins Litlu-Sandhafnar.

Mannvirki 17 (bæjarhóll, Stóra Sandhöfn?)
Mikill og grasivaxinn bæjarhóll, um 30 – 40 m langur og 4 – 5 m hár. Uppi á hólnum sést víða í hleðslur upp úr grasinu. Sunnan undir hólnum er um 10-15 m grjóthlaðið gerði. Hugsanlega er hóllinn leifar eyðibýlisins Stóru-Sandhafnar.

Mannvirki 18 (rústahóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; sjóbúð?

Grasi vaxinn hóll norð norðaustur af hól 16. Hóllinn er alveg niður við fjöruna og virðist sjórinn vera búinn að brjóta stórann hluta af honum. Þetta eru sennilega leifar af rústahól þó nú sjáist ekki móta fyrir rústum á yfirborði hans.

Mannvirki 3 (landamerkjagarður?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; tveir varnargarðar.

Garðurinn beygir og klofnar í tvær áttir skammt suður af mannvirki 17. Annar hluti hans heldur áfram til suðausturs en hinn beygir niður að sjónum til austurs.

Mannvirki 19 (varða)
Varða hlaðin úr grjóti upp á um tveggja metra háum hraunkolli. Varðan er ekki alveg ferningslaga að flatarmáli heldur nokkuð óregluleg. Hún er um 1-1,5 m í þvermál og um 1 m á hæð. Steinarnir eru þaktir stórum skófum sem bendir til þess að varðan sé gömul. Hún er um 100 metrum suðvestur af bæjarhól nr 17. Erfiðlega gekk að finna staðinn á loftmyndinni og er staðsetningin hugsanlega ónákvæm á korti.

Mannvirki 20 (bæjarhóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða ofan fiskbyrgja.

Grösugur sandhóll ósléttur að ofan. Hann er sennilega um 5 – 6 m hár og um 20 – 30 m í þvermál. Gæti verið gamall bæjarhóll þó ekki sjáist lengur móta fyrir minjum á yfirborði. Þær gætu verið komnar á kaf í sand. Hugsanlega er þetta leifar eyðibýlisins Kirkjuhafnar.

Mannvirki 21 (Garðar og reitir)
Niður við ströndina eru leifar af grjóthleðslum fremst á klettunum norðan við hólinn. Þær eru að minnsta kosti 5 m langar og allt að tveggja metra breiðar. Þetta er hluti af lengri hleðslu sem liggur í sjó fram. Fleiri garðar eða reitir eru í framhaldi af henni þarna fremst á bakkanum. Einn er um 8 m langur og annar garður um 4 m breiður. Þetta eru allt hleðslur sem standa fremst á bakkanum.

Mannvirki 22 (tóft og garður)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Grjóthlaðið mannvirkið fremst á sjávarbrún. Veggirnir eru allt að 1,2 m að hæð.
Hleðslurnar eru nokkuð hrundar og engin hvilft er í mannvirkið að ofan. Það er um 8 m að lengd og 3 m að breidd. Grjóthleðslan heldur áfram um 20 metra inn í landið og er á kafi í sandi og grasi. Sunnan við 22 eru garðbrot sem liggja í allar áttir. Ekki verður því lýst nánar að sinni en æskilegt væri að mæla þetta svæði betur upp.

Mannvirki 23 (fiskreitur?)
Þetta er grjóthleðsla sem hefur þrjár hliðar sýnilegar. Lengd og breidd þessa reits var ekki mæld en hleðslan er tvöföld, allt að 0,6 m breið, að mestu leyti hlaðin úr allt að 0,6 m stórum steinum og púkkað upp á milli með smágrýti.

Mannvirki 24 (rétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; Kirkjuhöfn efst t.h. Framar er meintur grafreitur og kirkja, Ofar er hringlaga gerði.

Grjóthlaðin ferköntuð rétt innan í reit nr. 23. Steinarnir í hleðslunni eru minni en í mannvirki 23. Hleðslan er einföld steinaröð allt að 0,8 m há. Réttin er full að innan af sandi. Enginn inngangur í hana er sýnilegur. Þvermál hennar er 15 x 11 m að utanmáli.
Í framhaldi af reit 23 eru fleiri samsíða reitir til austurs.

Mannvirki 25 (fiskreitur?)
Mannvirkið er um 16 m langur reitur, sennilega fiskreitur, sem er í framhaldi af reit 23. Hann er um 4 m norðan vegarslóða og liggur niður að sjó. Umhverfis reitinn er hlaðinn garður úr lábörðu grjóti. Hleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og er allt að 0,5-0,6 m há. Flestir steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Garðurinn hefur þrjár hliðar, vestur-, suður- og austurhlið. Fjaran afmarkar hann að norðanverðu. Reiturinn sem garðurinn afmarkar er um 40 m langur og um 40 m breiður. Á suðurhliðinni er um 50x60x20 cm stór steinn sem stendur upp á endann. Austan við hann er um 1 m breitt rof eða op í garðhleðsluna. Líklega hefur þetta verið inngangur inn í reitinn.
Suðurhliðin nær ekki alveg að næsta reit og endar hleðslan um 15 m áður en komið er að mannvirki 26.

Garðar 23-28

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður ofan Kirkjuhafnar.

Garðarnir 23 – 28 eru framan við hól 20 ofarlega til vinstri. Til hægri í baksýn eru Sandvík og Eyrarvík. Horft til vesturs.
Mannvirki 26, 27 og 28 eru þrír samsíða reitir sem girtir eru af með grjóthleðslum og skipt er niður með einföldum steinaröðum. Þessir reitir eru nánast fullir af sandi og grónir. Innan reitanna eru sums staðar dreifðar grjóthrúgur en ógerlegt er að sjá hvort þær séu leifar frekari mannvirkja. Hugsanlega eru þetta steinar sem brimið hefur kastað upp á land.

Mannvirki 26 (fiskreitur?)
Ferhyrndur reitur, hlaðinn úr hraungrýti með hvössum brúnum. Hann er um 13 m breiður og 15 m langur, 0,6 m hár og víða hruninn. Hann nær ekki niður að fjöru.

Mannvirki 27 (fiskreitur?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Ferhyrndur reitur svipaður að stærð og reitur 26 og samhliða honum. Vesturhlið reits 27 er er einföld steinaröð sem jafnframt er austurhlið 26.

Mannvirki 28 (fiskreitur?)
Reitur sem er um 13 m að lengd og 12 m að breidd, austan við reit 27. Grjóthleðslan umhverfis er fremur sporöskjulaga en ferhyrningslaga.

Mannvirki 29 (bæjarhóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Um 5 – 6 m hár grasi gróinn hóll sem er um 15 m í þvermál. Á yfirborði eru engar hleðslur sýnilegar. Í hjólförum sem liggja upp hólinn sér hins vegar í grjót sem virðist hafa spólast upp og gæti það bent til að þar séu grjóthleðslur undir. Þar sem hóllinn stendur einn og sér er mjög líklegt að þetta sé rústahóll. Hugsanlega eru þetta einhverjar leifar af eyðibýlinu Kirkjuhöfn?
Í fjörunni norður af hól nr 29 er vík. Þar gæti hafa verið lendingarstaður eða vör.

Mannvirki 30 (varða)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint dys við Kirkjuhöfn.

Varða sem er um 1 x 1,5 m í þvermál og allt að 0,8 m há er upp á háum hraunhól sunnan vegarins. Á steinunum eru allmiklar skófir sem bendir til þess að hún sé gömul. Hún er í suðaustur af hól nr 29.

Mannvirki 31 (fiskbyrgi?)
Grjóthlaðið byrgi upp á litlum klettahól, um 10 m austan og neðan við vörðu nr. 30. Utanmál byrgisins eru um 2 x 2 m. Þetta er einföld grjóthleðsla sem er allt að 1 m há. Sandur hefur safnast í byrgið innanvert svo að þar er veggurinn aðeins um 0,5 m hár. Hún virðist hafa verið ferköntuð og inngangur gæti hafa verið á suðurhlið. Steinarnir eru nokkuð stórir að jafnaði, um 0,3 – 0,4 m í þvermál.

Mannvirki 32 (fiskreitir?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; garðar austan Kirkjuhafnar.

Samliggjandi garðar eða fiskreitir. Þeir eru a.m.k. sex talsins en voru nú skráðir á eitt númer. Reiturinn sem er næst veginum er um 15×12 m að innanmáli. Hleðslan er úr hraungrýti og lögð ofan á mjög óslétt landslag. Sandhæðir eru í norður og norðausturhluta reitsins. Þær eru 2-3 metrum hærri en yfirborð í suðurhluta reitsins. Hleðslan er um 0,6 m breið og allt að 1 m há þar sem hún er hæst. Víða er hún hrunin. Reitirnir eru beint upp af eða suður af víkinni sem virðist hafa verið góð til lendingar og nefnd var hér að framan. Svo virðist sem reitasvæðið afmarkist að sunnanverðu og norðanverðu af stökum garðhleðslum sem liggja frá veginum alveg niður að sjó.

Mannvirki 33 (varða)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða við gömlu þjóðleiðina. Junkaragerði framundan.

Varða um 1 x 1,5 m að breidd. Hún er ferstrend og dregst að sér og um 2 m há. Hún er ekki gömul og gæti hugsanlega verið merkjavarða. Steinarnir í vörðunni eru nokkuð misstórir. Þeir minnstu eru um 0,15 – 0,2 m í en flestir eru um 0,3- 0,4 m í þvermál.

Mannvirki 34 (varða?)
Varða eða mælipunktur sem hlaðin er þannig að tveir stórir steinar, um 0,4 – 0,5 m í þvermál eru lagðir með um 0,4 m millibili og stór steinn lagður ofan á. Þar ofan á eru lagðir nokkrir fleiri steinar. Þeir mynda þannig strýtulaga vörðu með gati neðst í gegn. Hún er um 1,3 m að breidd og um 0,4 m breið. Hæðin er um 0,8 m. Þetta virðist ekki vera gamalt mannvirki.
Á hrauntoppunum hér í kring eru ýmsar smávörður sem verða ekki skráðar hér.

Mannvirki 35 (gerði eða reitur?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Leifar af grunnu gerði eða reit, um 8 m að innanmáli. Erfitt er að sjá hvernig gerðið hefur verið í laginu. Að innanverðu er það er á kafi í sandi. Norðvesturhliðin er bein en suðurhlutinn er bogadreginn. Hæð hleðslunnar, sem er mikið hrunin, er um 0,4-0,5 m að utanverðu. Gerðið er rétt sunnan við vörðu nr. 34. Þetta gæti verið mjög gamalt mannvirki.

Mannvirki 36 (byrgi?)

Grjóthleðsla upp á litlum hraunkletti. Hleðslan er um 2 x 2 m í þvermál. Hugsanlega eru hér leifar af borghlöðnu byrgi sem hefur fallið saman. Þar sem hleðslan er hæst er hún allt að 1 m að hæð en að jafnaði er hæð hennar um 0,5 m. Stórar skófir hafa víða náð að myndast á steinunum sem bendir til að mannvirkið sé mjög gamalt. Þetta er um 50 m norðan við hitt.

Mannvirki 37 (garður)

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Stúlknavarða. Varðan er nú fallin.

Grjótgarður, sums staðar sokkinn á kaf í sand. Hann liggur meðfram fjörunni, til suðvesturs frá Kalmansvör. Við endann á afleggjara frá gamla vegarslóðanum beygir garðurinn til norðausturs og er þar sennilega um 150 m að lengd. Hann hverfur á kafla undir vegarslóða og liggur í nokkrum boga austan við veginn. Suðaustur hornið er bogadregið og þaðan stefnir garðurinn til norðausturs niður að afleggjara heim að fiskeldishúsi. Þar hverfur garðurinn undir veg en heldur áfram norðan vegarins til norðausturs eins langt og augað eygir. Honum var ekki fylgt frekar eftir. Aðeins efsti hluti garðsins stendur upp úr sandinum og er þar allt að 0,4 m að hæð. Hann er um 0,6 m breiður og víðast hlaðinn úr 0,2 – 0,3 m stórum steinum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Hlaðið mannvirki úr grjóti innan garðs nr. 37. Það er fimmhyrnt og um 26 m langt. Suðurhluti þess er um 9 m breiður og um 13 m langur. Þar breikkar norðurhlutinn um tvo metra til vesturs. Veggjahleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og allt að 0,7 m há þar sem hún er hæst. Sandur hefur lagst upp að hleðslunni bæði að utan og innan. Suðausturhornið er alveg fullt af sandi upp á veggjabrún. Inni í tóftinni, aðeins norðan við miðbik hennar er grjóthrúga sem virðist vera leifar af grjóthleðslu sem er að mestu horfin í sand. Þar sést í einfalda steinaröð sem liggur í um 2 m langt horn. Ekki er hægt að sjá neinn inngang í þetta mannvirki, þó sums staðar sé veggurinn hruninn. Garðurinn er einföld röð af steinum sem stundum liggja langsum og stundum þversum í hleðslunni. Steinaröðin er efsti hluti af grjótgarði sem sokkinn er í sand. Sums staðar sjást tvö steinalög, en sandurinn hefur lagst upp að garðinum báðum megin. Suðurendi garðsins endar um 10 – 15 m austan við suðurhorn garðs nr. 37 og
liggur síðaan eins langt og augað eygir til aust-norðausturs. Sennilega er þetta gömul hleðsla.

Niðurstöður

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Mun fleiri minjar reyndust vera á svæðinu en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta eru minjar sem tengjast gömlu eyðibýlunum Eyrarbæ, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Greinilegt er að þarna hefur verið útgerð og að flestar minjar á svæðinu tengjast þannig starfsemi, s.s. fiskkarðar, fiskreitir og fiskbyrgi. Einnig eru þarna nokkrir sandhólar. Hleðsluleifar og fl. bendir til þess að hólarnir séu gamlir rústahólar og má ætla að þeir geymi leifar eyðibýlanna Sandhafnar og Kirkjuhafnar. Leifar Eyrarbæjar fundust ekki.
Merkustu minjarnar eru bæjarhólarnir. Sjálfsagt er að varðveita þá, en æskilegast er að varðveita minjasvæðin umhverfis bæina sem heildir.

Umsögn um staðsetningu verksmiðju
Fyrirhugaðri magnesíumverksmiðju er ætlaður staður suður og upp af Sandvík.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; loftmynd.

Afstöðumynd sýnir að verksmiðjan mun fara yfir hluta af tún- eða landamerkjagarði sem merktur er sem mannvirki nr. 3 í þessari skýrslu. Einnig liggur verksmiðjusvæðið alveg upp að hól nr. 17 og virðist honum því stafa nokkur hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum. Eins og fram hefur komið teljum við að að hóllinn sé gamall bæjarhóll og geymi leifar eyðibýlisins Stóra-Sandhöfn. Samkvæmt gögnum úr svæðisskipulagi fyrir Suðurnes 1987-2007 mun Sandhöfn hafa farið í eyði um 1600. Túngarðurinn er sennilega frá sama tíma og bærinn. Hér eru því að öllum líkindum minjar sem eru a.m.k. orðnar 400 ára gamlar og þar með verndaður samkvæmt þjóðminjalögum nr 88. frá 1989. Því má bæta við að bæjarhólar hlaðast upp á löngum tíma. Miðað við umfang bæjarhólanna á þessu svæði má gera ráð fyrir byggingarskeiðum sem ná yfir margar aldir, hugsanlega allt frá upphafi landnáms.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; hringlaga gerði við Kirkjuhöfn.

Verði verksmiðja reist á þessum stað er ljóst að garðhleðslurnar munu hverfa á stórum kafla. Þær eru hins vegar ekki einstakar í sinni röð og ætti fornleifakönnunin sem gerð var að vera nægileg skráning á þeim. Bæjarhóllinn er hins vegar miklu merkilegri og við honum má ekki hrófla nema að undangenginni rannsókn. Fornleifarannsókn á hólnum mundi sennilega taka um 2 – 5 ár og kostnaður við hana gæti numið um 5 – 10 milljónum króna á ári.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint kirkja og bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Ef framkvæmdaaðilar vilja komast hjá þeim kostnaði sem fornleifarannsókn hefur í för með sér þarf að hliðra verksmiðjunni til þannig að svæðið sem þarf að raska vegna verksmiðjunnar sé vel utan ystu marka bæjarhólsins. Best væri að afmarka verndarsvæðið þannig að vinnuvélar fari ekki of nálægt því. Að þessum skilyrðum uppfylltum telur Þjóðminjasafn Íslands ekki ástæðu til að standa í vegi fyrir framkvæmdum á svæðinu, enda séu aðrar minjar en hér hefur verið rætt um ekki í hættu.“ – Reykjavík 19. nóvember 1996, Guðmundur Ólafsson Sigurður Bergsteinsson, deildarstjóri fornleifadeildar fornleifafræðingur. Heimildir:
Sveinn Níelsson (1950). Prestatal og prófasta. Reykjavík.

Heimild:
-Rannsóknarskýrslur Fornleifadeildar Þóðminjasafnsins 1996 XIV – Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember, Fornleifadeild Þjóðminjasafnins – Reykjavík 1996/2008.
-https://www.thjodminjasafn.is/media/rannsoknir/1996-14-Magnesium-verksmidja-fornleifakonnun.pdf

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; kort í skýrslu um Fornleifakönnun 1996. Númerin eru vísun í framanskráðan texta.

Merkinessel

Gengið var frá rótum Prestastígs við Hundadal og haldið í austur með það fyrir augum að finna Miðsel. Hér gæti verið eitt af síðustu „ófundnu“ seljunum á Reykjanesi (nr. 400), en skv. upplýsingum átti það að vera skammt norðvestan Möngusels. Í leiðinni var ætlunin að líta í Möngusel sem og Merkinesselið.

Möngusel

Möngusel ofan Hafna.

Þegar gengið var frá borholusvæði ofan við laxeldisstöðina sunnan Kalmanstjarnar var fljótlega komið að görðum, sumum alllöngum, er lágu þversum um Hafnasandinn. Garðar þessir virðast hafa verið viðleitni til að reyna að hefta sandfokið á sandinum. Talsverð kríubyggð er á svæðinu, en unga var hvergi að sjá. Svæðið er gróðurvana, en þó má sjá blóðberg, gullkoll, gullmuru, geldingarhnapp, melgresi og feiri tegundir vera að reyna að festa þar rætur af veikum mætti.
Þegar komið var nokkurn spöl upp á sandinn sást hvar vörður röðuðu sér upp heiðina frá Höfnum áleiðis til suðausturs með stefnu á Prestastíginn ca. norðan við Sandfellshæðina. Sumar vörðurnar eru bara nokkuð myndarlegar. Þarna gæti verið um gamla leið að ræða, en sandfokið og uppblásturinn leyst upp slóðina, a.m.k. á þessu svæði. Hún gæti hin vegar komið í ljós ofan við gjárnar sunnan við hásandinn, en þar er landið enn gróið.

Merkinessel

Merkinessel.

Uppi á brúnum blasti fjallahringurinn við; Stapafell (eða það sem eftir er af því), Súlur, Þórðarfell, Lágafell, Sandfell og Sandfellshæð. Fyrir neðan (í suðri) var greinileg breið sigdæld í misgengi. Síðast þegar gengið var um svæðið (og reyndar í eina skiptið) var komið að austan frá Stapafelli. Sjónarhornið þaðan er svolítið annað en að koma að því að vestan – úr auðninni. En með því að leggja saman huga og hugleiti frá fyrri ferð mátti áætla að Möngusel væri í hraunhól allnokkru austar. Merkinessel yngra (efra) væri þá sunnan við það.

Merkinessel

Stekkur í Merkinesseli.

Stefnan var tekin og eftir fyrirfram áætlaðan tíma var komið í selið. Það er undir lágu, ca. mannhæðar háu, misgengi og eru rústirnar nokkuð heillegar. Þar sem komið var úr norðvestri var fyrst fyrir hlaðinn tvískiptur stekkur á hæð. Þá var komið að tveimur tóftum undir gjárveggnum. Framan við þær voru tvær holur með hleðslum í, sennilega brunnar. Skammt austar voru einnig tvær rústir. Austan við þær var myndarlega hlaðinn stekkur. Vestan við Merkinesselið er djúp gjá, sem hugsanlega hefði verið hægt að fá vatn úr fram eftir sumri (snjór á botni). Í Merkinesseli eru greinilega tvær selsstöður. Bæði benda húsarústirnar til þess sem og stekkirnir tveir.

Merkinessel

Merkinessel eldra (Miðsel).

Gengið var til norðurs frá selinu, áleiðis að áberandi vörðu á hraunhól. Sunnan undan henni er Mönguselsgjá. Í henni er m.a. nokkuð myndarleg hleðsla undir girðingu, sem sjá má staura af í beina stefnu frá suðri til norðurs (væntanlega gróðurverndargirðingin (Grindavíkurgirðingin)). Norðan hólsins er kvo í hraunhól er opnast til norðurs. Í henni eru tóftir Möngusels, tvískipt hús og stekkur í brekku sunnan þess. Selið er á fallegum og skjólsælum stað.
Þá var haldið áleiðis að Merkinesseli eldra (neðra). Samkvæmt gömlu korti, sem var haft meðferðis, gat afstaða þess passað við svonefnt Miðsel (sem merkt var á kortið sem slíkt). Selið er mjög gróið, en eyðilegt umhverfis. Það er allnokkru vestan við gróðurverndargirðinguna gömlu. Í því eru a.m.k. fjórar tóftir og stekkur skammt vestan þess. Fokið er í hann, en vel má greina hleðslur efst í honum. Vörðurnar fyrrnefndu eru þarna skammt vestar.

Miðsel

Miðsel – uppdráttur ÓSÁ.

Mjög erfitt er að finna þessi sel, einkum hið síðastnefnda.
Í bakaleiðinni var gengið um “eyðisand”. Fuglalífið; kjói, spói og kría, voru ráðandi, en hvergi var unga að sjá. Tófuspor sáust í sandinum, en hvergi spor eftir mann. Svæðið virðist ekki vera fýsilegt til göngu séð neðan frá vegi, en þegar upp á sandinn er komið er bæði víðsýnt og alltaf eitthvað nýtt að sjá. Borist hafa upplýsingar um hlaðnar refagildrur nokkur neðar. Þeirra verður leitað í annarri ferð um neðra svæðið.
Tækifærið var notað og selin rissuð upp og GPS-punktar teknir. Uppdrættirnir af minjasvæðum á Reykjanesi eru þar með orðnir 97 talsins.
Veður var frábært – sól og blíða. Gangan tók 3 klst og 34 mín.

Merkinessel

Merkinessel – uppdráttur ÓSÁ.

Prestastígur

Lagt var af stað inn á Prestastíg ofan við Hundadal vestan Kalmanstjarnar.

Prestastígur

Prestastígur.

Pestastígur er vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, Stígurinn er gömul þjóðleið. Skýringin á nafngiftinni er sögð vera sú að með prestakallalögum frá árinu 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið. Þessi áfangi var farinn frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi. Leiðin er um 16 km.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Fyrsti hluti leiðarinnar, yfir og ofan við Hafnasand, er sendinn og lítið um gróður. Sandurinn mun vera kominn að mestu neðan úr Stóru-Sandvík. Þar var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfokið upp á heiðina, en þaðan rauk síðan sandurinn yfir Hafnabæina þar norður af. Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið langt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum.

Prestastígur

Prestastígur.

Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118.

Prestastígur

Varða við Prestastíg.

Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjannesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum“ árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi.

Prestastígur

Spáð og spegulerað á Prestastíg.

Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.
Skammt áður en komið er upp á sandinn má sjá eina vörðu, sem sker sig frá hinum. Hún er hlaðinn “klofin”, líkt og sumar aðrar vörður á Reykjanesi. Eru þær oft nefndar “stúlkur” eða “bræður”.

Prestastígur

Varða við Prestastíg.

Sjá má eina á hól austan við gömlu Hafnabæina. Systir hennar þar skammt norðar er hins vegar fallin. Láta má sér í hugarlund koma að annað hvort hafi hleðslumaðurinn viljað breyta til og hlaða öðruvísi vörðu en hinar voru, eða hann hafi viljað líkja eftir lagi vörðunnar ofan við Hafnir, sem þá voru. A.m.k. nær hugmyndin og framkvæmdin athygli vegfarenda um stíginn.
Þegar komið var yfir Haugsvörðugjá liggur Reykjavegurinn út af Prestastígnum þar sem hann kemur eftir honumað austan, í áttina að Stóru Sandvík. Þarna gerbreyttist gróðufarið. Nú tóku við mosar, lyng og jafnvel lítil grassvæði í skjóli undir hæðum. Stígurinn er vel greinilegur þar sem hann liggur utan í Sandfellshæðinni og inn á nýlegan bílsslóða frá Svartsengi áleiðis út á Reykjanes.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Slóðanum var fylgt uns stígurinn lá samhliða honum hægra megin, með hraunbrún. Nokkru ofar beygir hann inn á hraunið, áleiðis að Eldvörpum. Þar liggur hann yfir hæð á milli tveggja gíga, áfram niður slétt mosahraun og síðan niður holt og móa áleiðis niður að Húsatóftum og Stað.
Norðan við í Eldvörpum var vent út af stígnum til að berja “útilegumannahelli” þar augum. Hann er örstutt vestan við borholuna í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

“Tyrkjabyrgin” svonefndu er þarna nokkru (u.þ.b. einn km) austar, í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, en tvær þeirra eru uppi á henni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstórar en sú stærsta þeirra er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Á toppi Sandfellshæðar (sem er dyngja) er gríðarlega stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku. Í austri blasa Eldvörpin við og lengra Þorbjarnarfell. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti.

Prestastígur

Prestastígur – frá Höfnum til Grindavíkur.

Í matsskýrslu Línuhönnunar fyrir Hitaveitu Suðurnesja (2003) um mat á umhverfisáhrifum vegna háspennulínu á milli Svartsengis og Fitja segir m.a. í áliti Bjarna Einarssonar, fornleifafræðings, að “fornleiðirnar fjórar; Skipsstígur, Prestastígur, Árnastígur og ónefnd leið, eru taldar hafa talsvert minjagildi í heild sinni, ein einstakar vörður á leiðunum eru taldar hafa lítið minjagildi. Fornleiðirnar, og er þá átt við götunar sjálfar, en ekki vörðurnar, eru taldar vera í mikilli hættu vegna mannvirkjagerðarinnar. Hættan felst einkum í slóðagerð sem fylgir línubyggingunni.
Skipsstígur er talinn hafa að geyma fornleifar sem eru eldri en frá 1550. Aldur götunnar er dreginn af því að hún hefur markað djúpa rás í hraunhelluna á köflum, en slíkt gerist ekki nema eftir mjög langa notkun. Sambærilega rás var ekki að finna á öðrum fornleiðum, sem kannaðar voru.”

Lýsing á aðstæðum er fengin frá Leó M. Jónssyni í Höfnum. Einnig af lýsingu Gunnars H. Hjálmarssonar af Reykjaveginum.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.