Tag Archive for: Hafnir

Gamli Kirkjuvogur

Í botni Ósabotna liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Hún var einkar falleg í kvöldsólinni. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels.

Stafnessel

Stafnessel.

Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. Vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna. Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur.

Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.
Kirkjuvogssel er skammt sunnan þjóðvegarins að Höfnum, vestan undir hól inni á sprengisvæði varnarliðsins. Fékkst þó góðfúslegt leyfi til að fara inn á svæðið s.l. sumar og skoða selið. Það hefur verið látið óhreyft.

Ósar

Ósar – uppdráttur ÓSÁ.

Gömlu þjóðleiðinni var fylgt aftur til austurs. Þegar komið er upp lága brekku sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kafl í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi. Skammt austar er önnur tótt, mun stærri. Þarna er Gamli Kirkjuvogur sagður vera skv. fornleifaskýrslunni. Í henni segir m.a.: “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn. Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.

Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – manngerður hóll (dys?).

Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi. Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.
Gengið var eftir stígnum upp Illaklif, eftir rudda götuhlutanum og áfram götuna fyrir Djúpavog. Þaðan var haldið beint yfir holtin, stystu leið.
Í leiðinni var gert kort af öllu svæðinu þar sem tóttir og einstakir staðir eru merktir inn á.
Frábært veður.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Hafnir

Eftirfarandi frásögn af húsum og fólki í Höfnum eftir aldarmótin 1900 birtist í Faxa árið 1968:

Hafnir

Í Höfnum.

„Lengst til vinstri sést burst á útihúsi. Önnur burst er yfir bæjardyrum vestan Vesturbæjar, sem kemur þarna næstur í röðinni. Árið 1907 hófu þar búskap Sigríður Bergsteinsdóttir og Ingvar Eiríksson, foreldrar Ólafs Ingvarssonar í Keflavík. Í þessum sama bæ bjuggu þá einnig Vilborg Sveinsdóttir og Jón Snorrason. Þó húvsakynni væru ekki stærri, var samkomulagið hjá fjölskyldunum eins og bezt varð á kosið. Má m. a. marka það á því, að Ólafur lét dóttur sína heita eftir fyrrnefndum húsfreyjum. — En víkjum nú aftur að myndinni. Næstu tvær burstirnar eru á austari Vesturbænum. — Á þessum árum bjuggu þar hjónin Sigríður Björnsdóttir og Ketill Magnússon, foreldrar Magnúsar Ketilssonar bifreiðastjóra í Keflavík, sem lézt fyrir skömmu.
Næsta hús í röðinni lét Olafur heitinn Ketilsson byggja og bjó þar fyrst sjálfur, en síðar var það keypt og endurbyggt af „templurum“ í Höfnum, sem notuðu það til samkomuhalds fyrir góðtemplararegluna í hreppnum.

Kotvogur

Kotvogur.

Næsti bær gekk alltaf undir nafninu Rönkubær. Þar bjó um þessar mundir Guðbjörn Björnsson, með aldraðri móður sinni, sem Rannveig hét. Þaðan mun bærinn hafa fengið Rönkunafnið.
Síðasti burstabærinn á þessari mynd hét Miðbær. Þar bjuggu þá ung hjón, Guðbjörg Þorsteinsdóttir og Jón Olafsson frá Garðbæ í Höfnum.
Þegar hér er komið upptalningunni, færumst við yfir í nútímann. Stóra húsið, sem við blasir, var laust eftir aldamótin í eigu Vilhjálms Ketilssonar. Hús þetta var nefnt Glaumbær og brann það árið 1910 eða 1912. — Kvöldið áður en það brann mun hafa verið haldinn dansleikur í húsinu, í endanum sem snýr að kirkjunni. Í þessu sama húsi bjó Vilhjálmur Hákonarson lengi miklu rausnarbúi og var reyndar þjóðkunnur maður. Hús þetta með tilheyrandi jarðnæði, hét Kirkjuvogur. Var sú jörð ávallt til stórbýla talin.
Næsta bygging er hús Friðriks Gunnlaugssonar, er hann síðar flutti til Keflavíkur, en á það var minnst í löngu viðtali við Friðrik í jólablaði Faxa 1965. Næstur á undan Friðrik bjó í þessu húsi Magnús Guðmundsson, faðir Guðmundar Ingvars Magnússonar, Hafnargötu 70 í Keflavík. Síðar byggði þessi sami Magnús sér íbúðarhús vestan við þessa bæjaröð, lengra til vinstri. Í því húsi býr nú fyrrverandi oddviti Hafnahrepps, Eggert Ólafsson. Turninn á milli húsanna er reykháfur á hlóðareldhúsi, sem tilheyrði fyrrnefndu íbúðarhúsi Friðriks heitins Gunnlaugssonar. Lengst til hægri skartar svo Kirkjuvogskirkja eins og hún er í dag. Engin teljandi breyting mun hafa verið á henni gerð nú á síðari árum.
Upplýsingar þessar hefi ég fengið hjá Ólafi Ingvarssyni, sem eins og fyrr segir, er fæddur og upp alinn þarna í þessu hverfi og því gagnkunnugur allri húsaskipan þar. – H.Th.B.“

Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, 2. tbl. bls. 17.
Hafnir

Prestastígur

Farið var Prestastíginn frá Höfnum að Húsatóftum – 16 km leið.

Prestastígur

Varða við Presthól.

Lagt var af stað úr Hundadal og haldið yfir Presthól, um Haugsvörðugjá og Eldvörp. Útsýni yfir að Reykjanesvita og Eldey var stórkostlegt í kvöldsólinni. Komið var við í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni, litið á fiskibyrgin ofan við Húsatóftir og gengið að Kóngshellu og Búðarsandi, skoðað í brunn við Vaðla og litið á brunninn á Stað, sem er einn sá stærsti og fallegasti á Reykjanesi.
Prestastígurinn er bæði þægileg og falleg gönguleið. Í fyrstu, þegar farið er frá Höfnum, er hún svolítið á fótinn, sendinn og gróðursnauð, en þegar komið er yfir Haugsvörðugjá verða skörp gróðurskil. Þar taka við mosar og mógróður. Sandfellshæðin, dyngja, er á vinstri hönd, en í henni er stór gígur.

Prestastígur

Prestastígur í Eldvörpum.

Reykjavegurinn kemur inn á Prestastíginn vestan Eldvarpa, en skilur við hann er sá síðarnefndi beygir til suðurs skammt vestan þeirra. Gangan í gegnum Eldvörpin gefa tilefni til að rifja upp Reykjaneseldana 1226 og allar hamfarirnar, sem þær höfðu í för með sér. Verksummerkin má bæði sjá þarna og þreifa á.

Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Haugur

Prestastígur – Haugur framundan.

Stampahraun

Ætlunin var að ganga upp eftir Tjaldstaðagjá og Haugsvörðugjá að Haug á Reykjanesi og síðan til baka um Hörsl og eldri Stampa. Óvíða eru ummerki skorpuskila Ameríku og Evrópu augljósari en einmitt þarna auk þess sem auðvelt er að staðreyna umbreytingu landsins, bæði gliðnun og misgengi. Einnig var ætlunun að kíkja upp í Hreiðrið, fallegan klepragíg á Rauðhólum milli Sýrfells og Sýrfellsdraga á mörkum Hafnahrepps og Grindavíkur. Mörkin liggja um Haugsvörðugjá.

Í Sýrfellshrauni

Fyrirhuguð er lagning háspennulínu með tilheyrandi möstrum milli Svartsengislínu og Reykjanesvirkjunnar um Haugsvörðugjá og niður með Sýrfelli með tilheyrandi sjónspillingu. Ferðamálasamtökin og Fornleifavernd ríkisins lögðust ekki gegn línulögninni vegna þess að „hún hefði ekki áhrif á ferðamenn og að engar fornleifar væru að finna á svæðinu“. Ætlunin var m.a. að meta staðreyndir þessa.
Byrjað var á því að klifra upp í Hreiðrið og skoða gíganna. Sýrfell er einungis 96 hæst m.y.s. Austan við það er Sýrfellshraun, Stampahraun sunnan þess og Klofningahraun enn austar Stampahraun er einnig suðvestast á Reykjanesinu.
Haldið var eftir landamerkjalínu Hafna og Grindavíkur. Ljóst er að allar borholur Reykjanesvirkjunar nema tvær eru í Grindavíkurlandi.

SýrfellÞann 8. febrúar 1954 var gerður samningur annars vegar milli eigenda og umráðamanna Kirkjuvogshverfisjarða í Hafnarhreppi og hins vegar eigenda Húsatópta í Grindavíkurhreppi. Þau mörk sem samið var um eru þessi: “Lína dregin úr haugum á norðvesturbarmi Haugsvörðugjár beina stefnu á
Stapafellsþúfu á norðausturenda Stapafells, eins og sú þúfa er dregin á korti Zóphóníasar Pálssonar, gerðu 22. september 1953.
Þegar kemur suður undir Sýrfell hafa yngri hraun runnið yfir það, sjá mynd 4.3. Nálægt þeim stað þar sem línuleiðirnar greinast liggur línan yfir Tjaldstaðagjárhraun sem er talið vera 1500 – 1800 ára (Ari Trausti Guðmundsson 2001) og hefur runnið upp að móbergsfjallinu Sýrfelli. Hraunið er úfið og gróft apalhraun, en nokkuð sandorpið þar sem línan fer yfir það. Línan liggur einnig yfir smá totu af Klofningahrauninu sem er sambærilegt apalhraun einnig talsvert sandorpið. Við vesturenda Sýrfells er gígur sem yngra Sýrfellshraun hefur runnið úr (Jón Jónsson 1978).
Reykjanes - kortÞað kom á óvart hversu Stampahraunið er greiðfært eins og það virðist annars illúðlegt við fyrstu sýn. Frá efsta gígnum, stundum nefndur Hörsl, er ágætt útsýni upp að Haugsvörðugjá sem yfir allt undirlendið. Hvorugkynsnafnorðið hörsl er einnig tilgreint í Íslenskri orðabók Eddu og gefin merkingin: ójöfnur, örður á frosnum snjólausum vegi eða annars staðar þar sem farið er. Ásgeir Blöndal Magnússon telur í Íslenskri orðsifjabók (1989:413) að karlkynsorðið hörgull ‘skortur, hörsl, hrjóstur; útjaðar, ystu mörk’ og lýsingarorðið hörgull, sem virðist ungt í málinu, í merkingunni ‘naumur, sem lítið er af’ séu líklega skyld hörgur. Upphaflega merkingu orðsins hörgull telur Ásgeir þá vera ‘grýtt land, hrjóstur’ en að merkingarnar ‘útskikar’ og ‘skortur’ séu afleiddar.

Hreiðrið

Gígurinn Hreiðrið.


Hörsl eru líka til á Stapanum. Erlendur Magnússon á Kálfatjörn Þarna – hjá Grímshól er Vogastapi hæstur, lækkar aflíðandi. Til landsins er er standberg í sjó fram. Vegur liggur suðvestur niður Hraun á sögulegum tíma á ReykjanesskagaGrynnriskoru, í gömlum ritum nefnd Kolbeinskora – Þar eru mörk milli Vatnsleysustrandar og Njarðvíkurhrepps. – Úr Grynnriskoru var farið yfir hæðarbungu og yfir í Dýpriskoru, sem skerts lítið undir?? Stapann. Bilið milli Skoranna heitir Hörsl?? Á því eru 3 smáhæðir, sem eru kallaðar Grynnsta-hörsl? Miðhörsl og Dýpsta hörsl og voru notaðar fyrir mið úti á fiskislóðum.
Stampagígaraðirnar eru a.m.k. fjórar. Elsta gosið er yngra en 8000 ára og það yngsta frá 1226, eins og síðar kemur fram. Svæðið allt er á Náttúruminjaskrá. Skráningin hljómar eins og hér segir: “Reykjanes, Eldvörp og Hafnaberg, Grindavík, Reykjanesbæ, (áður Hafnahreppur), Gullbringusýslu. Mörk liggja úr Mölvík, um 2 km austan við Háleyjabungu, í Þorbjarnarfell og um Lágar og Vörðugjá í Stapafell. Þaðan er bein lína í vestur að eyðibýlinu Eyrarbæ við norðurenda Hafnabergs. Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna. Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn. Hafnaberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar.“
Stampahraun á Reykjanesi (KS)

Orðið stampur er líklega tökuorð í íslensku, sbr. þýska mállýsku, þar sem stampf merkir ‘kornmælir’. Það merkir í íslensku ‘bali, bytta’, ‘smájarðfall, pyttur’ en einnig ‘hóll, klettur eða sker’ eitthvað sem líktist stampi. Stampur er grasi gróin hvilft eða skál í Hofi í Mjóafirði, en í Snæhvammi í Breiðdal er Stampur sker og í Sandvík í Norðfirði er nafnið um klett í sjó, sem er stamplaga. Flt. Stampar á við graslausa öxl í Vestmannaeyjum, hóla í Hrauni í Ölfusi, gígaröð á Reykjanesi í Gull. og Stampar eru í Stampamýri á Þórisstöðum í Svalbarðsstrandarhr. í S-Þing.
Mest áberandi kennileitið á svæðinu núna er nýtilkomin loftlína. Rýrir hún verulega upplifun ferðamanna á gangi um svæðið. Reykjanesbær, Grindavík, Ferðamálaráð, Fornleifavernd ríkisins og Löggildingarstofa töldu framkvæmdina ekki líklega til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja taldi að meta þyrfi sjónræn áhrif framkvæmdarinnar og Umhverfisstofnun lagði til að kannað yrði með frekari umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og bera saman við lagningu jarðstrengs frá suðvesturenda Sýrfellsdraga. Við því var ekki brugðist og mun varla verða úr þessu.

Haugsvörðugjá og Haugur - Þórðarfell fjær

Í umsögn Fornleifaverndar ríkisins var bent á að í skýrslu framkvæmdaraðila komi fram að ekki hafi verið gerð úttekt á fornleifum á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði en það standi til og krefst Fornleifavernd ríkisins að fá þær upplýsingar áður en endanleg umsögn er gefin. Í svörum framkvæmdaraðila kemur fram að fornleifafræðingur hafi skoðað svæðið í júlí 2004 og að hans niðurstaða sé að engar vísbendingar hafi fundist um fornleifar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Fornleifavernd ríkisins var send framangreind niðurstaða fornleifafræðingsins og í frekari umsögn stofnunarinnar kemur fram að stofnunin telji að framkvæmdin skuli ekki háð mati.
Fornleifafræðingurinn, sem á að hafa tekið út svæðið, virðist ekki hafa gengið um Sýrfellshraun og Haugsvörðugjá því þar er bæði að finna gamlar vörður og hleðslur. Auk þess varða landamerkjavörður mörk Hafnahrepps og Grindavíkur. Ein slík er t.a.m. í Haugsvörðugjá, skammt frá einu línumastrinu.
Gengið var niður Tjaldstaðagjána með stefnu á upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Náttúruminjaskrá, 1996.
-Erlendur Magnússon Kálfatjörn.
-Ásgeir Blöndal Magnússon, Sifjaorðabók.
-Örnefnastofnun Íslands.

Tjaldstaðagjá og Stampar

Merkines

Bragi Óskarsson tók viðtal við Hinrik í Merkinesi fyrir Morgunblaðið árið 1984 undir fyrirsögninni „Áður var mér gatan greið“ í tilefni af 85 ára afmæli hans. Hinrik var m.a. spurður um veiðar, sjómennsku, skipasmíðar o.fl.:
Hinrik 221„Hinrik í Merkinesi, er hann nefndur í daglegu tali en heitir fullu nafni Vilhjálmur Hinrik Ívarsson. Vegna þeirra sem ekki eru kunnugir á Suðurnesjum er rétt að taka fram að jörðin Merkines er skammt fyrir utan Hafnir en Hafnir eru vestan Miðnesheiðar — það er því skammt inn í Keflavík, um 15 km, en þó greina annálar að 19 manns hafi orðið úti á þessari leið. Fyrir utan Merkines eru jarðirnar Kalmarstjörn og Junkaragerði, sögufræg býli, en svo tekur við hraun og sandur og verður að fara allt út á Reykjanes til að finna grænan bala. Úti í hafinu trónar Eldey við sjóndeildarhring — Hinrík skírði dóttur sína Eldey, í höfuðið á eynni, og Elly Vilhjálms var um eitt skeið ein kunnasta söngkona landsins. Vilhjálmur heitinn sonur hans, flugmaður hjá Arnarflugi, var einnig kunnur fyrir söng. Maron sonur hans hlaut útþrána í vöggugjöf og hefur farið um víða veröld og er nú búsettur í Ástralíu en þangað fór hann frá Suður-Ameríku um Bandaríkin. Þá eru tveir synir þeirra hjóna ótaldir, þeir Sigurjón og Þóroddur sem báðir eru búsettir hér á landi. Þau Hinrík og konan hans, Hólmfríður Oddsdóttir, hafa lengi átt heima í Merkinesi og ég byrja á því að spyrja Hinrik hvort hann hafi kannski alltaf átt þar heima.

„Kafteinn ör á öldusjó“
Nei, ég er Eyrbekkingur en fæddur í Grímsnesi þar sem foreldrar mínir voru vinnuhjú hjá Jóni Sigurðssyni á Búrfelli. Faðir minn var jafnframt formaður í Þorlákshöfn. Síðar gerðist hann skipsformaður fyrir Lefolii-verzlun, og var með áttæringinn Vonina frá Þorlákshöfn allt til 1913. Þá hvað Einar Sæmundsson þessar formannavísur um hann og skipið: Kafteinn ör á öldujó ívar geiri borinn. Æ með fjöri sækir sjó seigur, eirinn, þorinn. Vonin flýtur ferða trygg faldar hvítu boðinn.
Sundur brýtur báruhrygg byr/ar nytur gnoðin.
Eftir að faðir minn lét af formennsku fyrir Lefolii-verzlun, var hann fenginn til formennsku á teinæring er gera skyldi út frá Herdísarvík. En það var alveg dauðadæmt fyrirtæki frá upphafi þvi landtaka var þar svo slæm. Ég átti að vera landmaður hjá þeim, en lendingarskilyrðin voru svo vond þarna að þeir urðu að gefast upp á þessari útgerð eftir þrjár vertíðar. Ég gerðist þá vinnumaður hjá Þórarni bónda i Herdísarvík og var þar næstu 3 árin.
Jú, Lefollii-verzlunin hafði mikil umsvif á Eyrarbakka — sveitamenn verzluðu svo mikið þar. En svo fór þetta að breytast fljótlega eftir aldamotin, og verzlunin byrjaði að færast til Reykjavíkur — prísarnir voru víst lægri þar. Menn sögðu prísar í þá daga, he, he.
En í minni bernsku var mikil stasjón á Bakkanum. Það voru þarna a.m.k. tveir menn sem stunduðu akstur með hestvögnum: þeir Ólafur í Sandprýði og Loftur í Sölkutóft, og alltaf var nóg að gera hjá þeim við aksturinn.

Vinnumennska
Hinrik-222Þórarinn í Herdísarvík átti um 400 fjár og var fénu þar haldið til beitar allan veturinn. Það var alltaf byrjað á að reka upp úr fjörunni á morgnana þvi féð mátti ekki nærast á eintómum þara. Þarna er gott beitiland víða um hraunið og gott að halda því til haga. Við misstum tvö lömb eitt árið man ég, þrjú annað og ekkert það þriðja, — þannig þú sérð að skepnurnar hafa ekki verið illa haldnar. Þarna er mikið og gott fjárland, féð komst hvergi að sjó nema heim við bæinn, því alls staðar annars staðar er berg með sjó. Jú, jú, þetta kostaði óskaplegar göngur þetta kindarag. Tveggja tíma ganga er út í Krýsuvík og um einn tími út í Vogsósa.
Ég þurfti að fara í allar Krísuvíkurréttir og eins Gjárréttir fyrir ofan Hafnarfjörð. Þá skellti ég mér bara beinustu leið yfir fjallið. Þarna var ég í 3 ár, þar til ég var 19 ára. Já, maður var léttur á sér hér í gamla daga og lét sér ekki muna um að skreppa bæjarleið — ég hef verið að yrkja vísur við hin og þessi tækifæri og eitthvað af því er til prentað. Nú er maður engin göngugarpur lengur og fyrir nokkru setti ég saman þessa vísu: Áður var mér gatan greið, gönguslóðir ýmsar kanna. En nú er orðin lengsta leið að labba á milli herbergjanna. Svo fór ég til Hafnarfjarðar — var vinnumaður á Jófriðarstöðum hjá Þorvarði Þorvarðssyni, en þar var ég aðeins í eitt ár. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem ég lærði trésmíði hjá Bjarna Símonarsyni húsasmið. Þar kynntist ég konunni minni og giftum við okkur árið 1923. Það var nóg að gera f trésmíðaiðninni — þó tók ég ekki að mér nein meiriháttar verk til að byrja með heldur var í viðgerðum og ýmsu snatti.
Við bjuggum í Reykjavík fyrstu árin og fluttum ekki hingað í Hafnir fyrr en 1933. Ég hafði þó unnið hér töluvert í bátaviðgerðum og byggt hér 4 hús, þannig að við vorum vel kunnug hér áður en við fluttum hingað.
Það mun hafa verið árið 1930 að ég smíðaði fyrsta áttæringinn minn, og var svo með hann héðan í 3 vertíðir — eina frá Kirkjuvogi og tvær héðan frá Merkinesi. Um það leyti dó hann Guðmundur sem bjó hér á Vesturbænum og talaðist svo til milli mín og erfingjanna að ég fengi jörðina keypta.

Bátasmíði
Hinrik-223— Var það ekki í töluvert mikið ráðist að byrja í bátasmíði?
Jú, en það fór nú svo að þeir hafa líkað vel þessir bátar sem ég hef smfðað — þetta hafa verið blendingar af árabátum og vélbátum, allir staðið sig vel held ég. Ég lærði aldrei skipasmíðar sérstaklega en á Eyrarbakka voru miklir skipasmiðir eins og t.d. Steinn í Einarshöfn — og ég hafði þetta svona í blóðinu. Ég gerði mér far um að ná laginu hans Hallgríms á Kalastöðum á Stokkseyri — það voru úrvals skip sem hann smíðaði. Annars hef ég farið mikið eftir því sem maður hefur fundið og séð. Ég tel mig hafa haft töluverða tilfinningu fyrir þessu, enda lagði ég mig fram um að glöggva mig á eiginleikum báta, bæði i landi og á sjó. Og ég er ennþá að smiða báta þótt það séu bara smá kríli nú orðið — það eru margir sem vilja eiga eftirlíkingar af gömlu áraskipunum, og ég hef ekki undan að smiða. Sérðu hvernig þetta módel hérna er lagað við stafninn að framan — það skiptir afar miklu hvernig byrðingurinn er lagaður. Smá reiging á bógnum getur gert gæfumuninn hvernig sjóskip báturinn verður. Sé stafninn með réttu lagi fara þeir mjúkt í ölduna framan og setjist hæfilega á skutinn. Ef rétta lagið hefur ekki náðst fara bátarnir að höggva þegar eitthvað er að sjó, og geta það verið hættuleg skip, jafnvel hreinir manndrápsbollar. Alls smíðaði ég niu báta og var sá stærsti 7 tonn og svo eru það ein 9 hús sem ég hef byggt hér í Höfnum.
— Þú varst hreppstjóri hér í Höfnum og stundaðir hér formennsku lengi.
Já, ég var hreppstjóri hér frá því árið 1956, að mig minnir, þar til ég varð áttræður. Þá greip ég tækifærið og lét af starfinu. Ég réri hér á hverri einustu vertíð frá 1931 en hætti 1978. Þá var róið út með Stafnesi eða fyrir Reykjanes, allt inn að Háleyjabungu og Staðarbergi. Þetta gat verið einn vökusprettur ef gott veður hélst marga daga samfleytt og þótti ekki gott nema farnir væru tveir róðrar á
sólarhring að sumrinu.

Sjómennska

Merkines

Merkines – flugmynd.

Þetta er fornfræg veiðistöð hér í Höfnum og héðan hafa róið fræknir formenn. Héðan réri Eldeyjar-Hjalti um eitt skeið, en það var löngu fyrir mína tíð. Þá var Eldeyjar-Hjalti svo fátækur að hann átti ekki heilan stakk og vantaði alveg ermina öðru megin. Þeir sögðu að hann hefði fært stakkinn til eftir því sem hann krusaði og haft heilu ermina áveðurs. Þetta var hörku karl en varð víst rembinn með aldrinum — það hefur sjálfsagt verið tíðarandinn öðrum þræði.

Framanaf voru alltaf einhverjir með mér á sjónum en svo réri ég mest einn siðustu árin. Flugvöllurinn breytti öllu hérna, það fóru allir að vinna þar og menn urðu svo kostbærir að maður hætti að fá nokkurn til að róa með sér. Lengi réri ég héðan úr Merkinesvörinni en svo var gerð bryggja í Höfnum og eftir það fór ég að róa þaðan. Það urðu margar ferðirnar hjá mér á hjóli hér á milli — að athuga með bátinn, maður þurfti alltaf að vera að athuga með bátinn.
Nú er ég fyrir löngu hættur öllu sjógutli en maður gat þetta hér i gamla daga — þá gerðist maður mótoristi þegar vélarnar komu og kunni þetta allt saman he, he,… ég veit ekkert núna hvernig maður fór að þessu. Annars er hafsbotninn hérna útifyrir rannsóknarefni útaf fyrir sig. Það hafa orðið alveg hrikalegar breytingar á landinu hér frá landnámi, og sennilegt að mikið land, sem Hklega hefur náð allt út að Eldey, hafi sigið í sæ. Í íslendingasögum stendur að landnámsmenn hafi siglt vestur með Reykjanesi þar til þeir höfðu opinn Hvalfjörð — og þá sérðu að þeir hafa þá verið langt úti. Þá hefur Reykjanes verið eitt gjósandi krap og mikið gengið á. Það er grunnt hér út með öllu Reykjanesinu töluvert langt út, og er að jafnaði um 12 faðma dýpi. Svo snöggdýpkar, eins og farið sé fram af klettavegg og er þá um 30 faðma dýpi sem helzt langleiðina út í Eldey. Þegar komið er svo sem þrjá fjórðu af leiðinni í Eldey tekur við hraunkargi í botninum og síðan kemur stallur þar sem dýpið er aðeins 6 faðmar, en þar á milli er dýpið aftur um 30 faðmar þar til kemur að Eldeyjargrunninu. Þarna hefur mikil landspilda sigið í sæ og hafa það verið ólitlar náttúruhamfarir.
— Nú varst þú grenjaskytta hér í Hafnahreppi um langt skeið. Já, frá 1948 stundað ég grenjaskytterí og síðar minkaveiði. Ég veit um 14 greni hér á svæðinu og vann mest 4 greni á ári.

Afkvæmi andskotans

Refur

Refur.

Núna seinni árin höfum við ekki orðið vör við tófu hér í Hafnahreppi. Ég vorkenndi alltaf refnum — en minkinn hef ég hatað og minkurinn er sú eina skepna sem ég hef haft gaman af að drepa. Það verður þó ekki borið á móti því sem hann Þórður Halldórsson frá Dagverðará hefur sagt, „að þetta meindýr er til okkar komið í gegn um sali hins háa alþingis“. Minkurinn er grimmdarskepna — hann drepur til þess eins að drepa og nýtir ekki nærri alltaf það sem hann drepur. Drápsgirndin er alveg ótrúleg í honum, hann eyðir öllu fuglalífi og er sannkallað afkvæmi andskotans. Tófan vinnur hins vegar upp sína veiði og drepur ekki nema sér til matar. Ég komst upp í 63 minka mest um árið en nú verður ekki vart við mink hérna.
— Hver heldurðu að sé skýringin á því?
Ég hef tvær teoríur, en hvoruga get ég þó sannað. Sko, núna undanfarin 2 ár hefi ég gaumgæft landsvæðið hér umhverfis, og aldrei séð far eftir mink, hvorki í snjó eða sandi. Svo virðist sem minkurinn sé hér alveg horfinn. Á sama tíma gengur farsótt í minkaverið búunum þannig að þeir þurftu að farga hverjum einasta mink.

Teóríurnar

Merkines

Gengið að Merkinesi.

Gæti ekki verið að villiminkurinn hafi fengið þessa sömu veiki? Því þetta virðist gilda um landið allt, að menn verða lítið varir við mink. Vinur minn, Þór Jónsson í Fljótum, hefur veitt 90 minka mest um árið en í fyrra náði hann aðeins tveim. Hann hefur víst veitt eina 6 í vor þannig að þeim er eitthvað að fjölga aftur.

Svo er það önnur teoria sem ég hef. — Hér á árum áður tóku menn það upp að eitra fyrir refnum og þótti öllum þjóðráð. Upp úr því fækkaði refnum mikið og þökkuðu menn það þessum aðgerðum. En ég er alls ekki á því að þessar eitranir hafi fækkað refnum. Athugaðu að á þessum tíma gekk hér einmitt mikið hundafár svo að heilu sýslurnar urðu hundlausar. Refurinn er mjög skyldur hundinum og hefur að minni hyggju smitast af sömu veiki og fækkað vegna þess.
Ég eitraði einu sinni fyrir ref hér í Hafnahreppi á 38 stöðum — með fjallahringnum allt frá Sýrfelli til Hvassahrauns. Ég merkti staðina alla en hræin höfðu aðeins snert á tveimur, og ég er alls ekki viss um að það hafi verið tófa sem það gerði. Í það minnsta var ég með afar glöggan hund og hann hafði ekki veður af neinu tófuhræi á allri þessari leið. Ég tel því að fækkun refs á þessum tíma hafi stafað af sjúkdómi í refastofninum en ekki af þessum eitrunum.

Veiðisögur
Það er nú svona með það sem maður er hneigður fyrir — það lifa margar minningar frá þessum veiðum í gegnum árin. Það skiptir öllu á minkaveiðum að hafa góðan hund. Ég var alltaf með byssu til taks þegar ég var á ferðinni ef ég rækist á einhvern af þessum andskotum. Bezt reyndist mér haglaskambyssa sem ég hef lengi átt en hef nú lánað frá mér.
Einu sinni vann ég þó mink byssulaus — var þá að koma inn úr Kirkjuvogi og verð var við mink í malarkambi hér á Hnausendunum. Ég var með góðan hund með mér og finnur hann strax hvar minkurinn er undir. Ég var ekki einu sinni með hníf og gat ekki farið heim eftir byssu því þá hefði minnkurinn sloppið á meðan. Þarna er kastmöl og fer ég að róta til nokkrum steinum þar sem hundurinn ólmaðist og sé þá í skottið á minknum. Ég bregð þá við, gríp í skottið og kasta honum í háaloft, en svo mikil var snerpan í hundinum að hann greip minkinn á fluginu og allt að því klippti hann í tvennt með kjaftinum. Nú berst talið að ótrúlegum veiðisögum, og Hinrík segir mér veiðisogu sem hlýtur að teljast verulega ótrúleg.

Þegar ég dró sama silunginn tvisvar

Merkines

Brunnur í Merkinesi.

Ég var einu sinni í heimsókn hjá honum séra Lárusi Arnórssyhi í Miklabæ. Við vorum að tala um veiðar og ég segi sem svo: „Mikið andsk… hefur þetta gengið illa hjá honum Gísla að missa svona þennan stóra fisk.“ Þá segir séra Lárus: „Þegar menn eru að segja þessar veiðisögur ýkja þeir að minnsta kosti til helminga.“ Ég varð reiður við og sagðist skyldi segja ótrúlega veiðisögu sem engu að síður væri sönn, og sagði honum þessa sögu: Sumurin 1922 og 1923 var ég við stangveiði við Kaldárhöfða við Úlfljótsvatn. Þar veiddist oft vel, upp í 111 á einum degi. Þar er bezt veiðin snemmsumars og veiðist þá þriggja punda bleikja, en nú var komið fram í ágúst og veiddist bara depla og dauft við veiðina.
Einhvern daginn fer ég þó út á ána — það þurfti að sperra sig töluvert á móti straumnum til að komast á góðan veiðistað og leggjast þar við dreka. Nú, þarna set ég í allvænan fisk og verð að sleppa drekanum svo hann slít
i ekki fyrir mér. Svo kem ég fisknum alveg að borðstokknum og sé þá að hann er kræktur í gegnum fremri bakuggann. En þegar ég ætla að innbyrða fiskinn sé ég að háfurinn hafði gleymst í landi. Ég reyni þá að ná fisknum með höndunum en hann sleppur frá mér.

Þegar ég kem í land gengur mér auðvitað illa að sannfæra hina um að ég hafi misst þennan stóra fisk. Daginn eftir fer ég svo aftur út — og hvað heldurðu gerist þá. Set ég ekki aftur í vænan fisk á sama stað og i þetta skiptið var háfurinn með i bátnum. Mér brá þó heldur betur í brún þegar ég fór að skoða fiskinn — fremri bakugginn var rifinn að endilöngu, og þarna var kominn sami fiskurinn og ég hafði sett í daginn áður.

Sr. Lárus gapti alveg þegar ég sagði honum þetta — hann sagði ekki eitt einasta orð og ég veit ekki enn hvort hann hefur trúað mér.
— Hefurðu ekki lent í ýmsu misjöfnu til sjós?
Jú, það var nú sitthvað sem kom fyrir. Einu sinni hafði ég næstum álpast fyrir borð — það er ekki segjandi frá því… Jæja, það vildi nú svona til. Það var stýrishús á bátnum, og þilfar út í lunninguna frá því öðru megin. Þarna sem ég var hagar svo til að snardýpkar og var lygnt fyrir innan en tölverð ólga utar enda allmikill straumur. Ég var að kippa inn á lygnuna og ætla að fara að fá mér í nefið, en þá tek ég eftir því að ég hef gleymt bauknum frammi.

„Nú það nú búið lagsi minn“

Merkines

Brunnur í Merkinesi.

Nú ég get ekki á mér setið og ákveð að skjótast fram í bátinn og ná í baukinn. Það var handrið meðfram stýrishúsinu og held ég mér i það en þegar ég ætla að fara niður í pontuna skriplast mér fótur… þá kemur kröpp alda á bátinn og skiptir það engum togum að ég missi fótanna og fer í sjóinn. Svo einstaklega vildi þó til að í fallinu næ ég taki á borðstokknum og gat hangið þar. „F.r það nú búið lagsi minn,“ sagði ég þá við sjálfan mig — ég fór alveg í sjóinn upp fyrir haus, en þegar báturinn rétti sig af og valt yfir á hina síðuna, gat ég vegið mig upp og komist um borð aftur.
— En hvað um refaveiðarnar, á þeim hefur sitthvað borið við er það ekki?
Jú, það er ekki fyrir aðra en vana menn að sjá við tófunni — hún er svo klækjótt og vör um sig. Svo hafa þau svo ólíkt lundarfar þessi dýr, þau eru rétt eins og menn hvað það varðar. Ég hef oft alið yrðlinga hér sumarlangt og þau geta orðið afskaplega gæf þessi dýr, en svo er eins og önnur sé ómogulegt að temja. Ég var einu sinni með högna og læðu eitt sumar. Högninn var alveg forhertur — virkilegt óartarkvikindi, kom aldrei fram
í búrið þegar ég gaf honum og byrjaði aldrei að éta fyrr en ég var farinn. Læðan aftur var afskaplega blíð og vinaleg. Einu sinni ól ég yrðling hérna heimavið og tókst að temja hann. Það var maður sem hét Sólmundur og bjó í Sandgerði sem fékk hann hjá mér og átti hann í tvö ár. Rebbi elti hann um allt eins og hundur og lagðist aldrei í strok. Það er hægt að temja refinn furðanlega, en þeir verða aldrei allra og það er alltaf grunnt á villidýrseðlið í þeim.

Hver grenjaferð saga útaf fyrir sig Oft hef ég tekið það nærri mér að vinna greni og sárvorkennt þessum greyjum. Maður verður að spila á þessar helgustu tilfinningar, móðurástina, og það er heldur óskemmtilegt. En þau mega ekki vaxa manninum yfir höfuð.
Annars er gaman að tilstandinu við þetta, og má segja að hver grenjaferð sé saga útaf fyrir sig. Einu sinni sem oftar var ég búinn að vinna bæði læðuna og yrðlingana á greni. Rebba skaut ég í munanum en hann var það innarlega að ég náði honum ekki. Ekki var hann alveg dauður og gat skreiðst innar í grenið með því að krafsa með löppunum. Nú, ég gat lítið aðhafst og sneri heim við svo búið. Þegar ég kem til hreppstjórans til að fá greitt segi ég honum að ég hafi unnið grenið en misst stegginn inn. „Það er nú venja að sýna þá,“ segir þá hreppstjórinn. Nú, ég fer aftur af stað nokkrum dögum síðar, og þá eru þau í för með mér Maron sonur minn sem var 8 ára og Eldey dóttir mín. Ég hafði með stöng, kerti, band og sitthvað fleira sem að gagni gat komið við að ná refnum. Þegar við komum að grenismunanum sést hvergi til rebba og var þar myrkt innifyrir. Það verður að ráði hjá mér að láta strákinn skriða inn en bind fyrst kaðalinn um lappirnar á honum. Hann skriður svo inn og lýsir fyrir sér með kertinu sem ég hafði fest framaná prikið, en mér er um og ó ef eitthvað líf væri í refnum sem þá gat bitið illa. Nú, ég öskra á strákinn hvort hann sjái nokkuð refinn. Hann öskrar á móti að þarna sé hann og virðist dauður. Ég öskra á strákinn að taka kertið setja það fram á prikið og bera upp að nefinu á rebba — því þá hlaut hann að sýna viðbrögð. Nú stráksi gerir þetta og reynist refurinn steindauður. Nú, ég dreg svo strákinn út úr greninu með kaðlinum og strákurinn refinn. Þannig lauk þeirri viðureign.“ – BÓ

Heimild:
Morgunblaðið 12. ágúst 1984, bls. 26-27.

Merkines

Merkines – flugmynd.

Merkinessel

Gengið var frá Stapafellsvegi með Arnarbælisgjá að Mönguselsgjá, sem sker Hafnaheiðina frá austri til vesturs. Það er um klukkustundar gangur.

Merkinessel

Merkinessel.

Norðan Mönguselsgjár, handan hárrar vörðu (gömul sandgræðslugirðing hefur legið skammt vestan vörðunnar), í dalverpi er opnast til norðurs, kúrði Möngusel. Selið hefur verið fremur lítið og er greinilega komið til ára sinna, en hleðslur voru heillegar. Stekkur er í sunnanverðu dalverpinu.
Þá var haldið til suðurs að Merkinesseli hinu yngra. Selið er undir lágum gjárbarmi og er þar allt, sem prýtt getur fallegt sel. Hleðslur húsa voru að hluta til alveg heilar, sjá mátti meira að segja gluggaop á einum veggnum. Stekkurinn var mjög heillegur og brunnur var greinilegur framan við selið. Það er sjaldséð í seljum á Reykjanesi. Húsin voru hlaðinn utan í gjárvegginn. Þetta er eitt fallegasta selið á svæðinu, sem enn hefur verið skoðað a.m.k.
Nokkur leit var gerð að Merkinesseli hinu eldra. Það fannst þó loks vestur undir Nauthól, skammt ofan við gróðurmörkin, en landið er mikið fokið upp sunnan til á Hafnaheiðinni.

Möngusel

Í Mönguseli.

Um er að ræða mjög gróðið sel og er það greinilega eldra en hið fyrrnefnda. Gróðurinn í selinu hefur haldið sér þrátt fyrir jarðvegseyðinguna. Þar hafa verið ein þrjú hús og stekkur. Að þessu seli fundnu var talin ástæða til að flagga á staðnum – á tóttum eitthundraðasta selsins, sem FERLIR skoðar á Reykjanesi.

Eftir tilbakagönguna var haldið að seli er vera átti við Stampana utar á Reykjanesi. Þar er landið algerlega fokið upp og lítið eftir. Á gömlu korti er selið mert sunnan við þjóðveginn skammt austan Stampa, en á enn eldra korti er það merkt við gömlu þjóðleiðina út á Reykjanes, allnokkru norðar.

Merkinessel eldra

Merkinessel eldra (Miðsel).

Þar eru mun meiri gróður í eldra hrauni. Hlaðið hús er þar skammt frá og virðist það hafa verið hlaðið á eldri grunni. Ekki er ólíklegt að þarna hafi selstaðan verið og um sé að ræða hluta af henni.
Haldið var að Kirkjuvogskirkju og skoðaður gamall letursteinn frá 1830, er liggur flatur við norðvesturhorn kirkjunnar. Á steininum er mikið letur. Loks var litið á Hungangshelluna við Hafnaveginn, en henni tengist þjóðasagan um finngálknið. Finngálknið var loks vegið á hellunni eftir nokkurn aðdraganda, sem flestir þekkja nú orðið. Vörubrot er á hellunni, en gamla þjóðleiðin til Hafna frá Njarðvík liggur svo til alveg við hana.
Annars eru Ósabotnarnir kjörið útivistarsvæði.
Veður var hlýtt og milt – Gangan í selin tók 3 klst og 33 mín.

Merkinessel

Merkinessel – uppdráttur ÓSÁ.

Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var með Ósunum að Gamla-Kirkjuvogi.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – kort.

Áhugi er nú að láta rannsaka rústirnar, en Kirkjuvogur er gamalt höfuðból við norðanverða Ósa. Jörðin virðist hafa verið byggð frá landnámi fram á sextándu öld. Þá var Kirkjuvogur fluttur suður fyrir Ósa, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Til aðgreiningar er eldri staðurinn nefndur Gamli-Kirkjuvogur, en þar hefur ekki verið búið síðan bærinn var fluttur.
Bæjarhóllinn er óspilltur. Skammt vestan hans er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

Við bæjarhólinn má sjá leifar af því er virðist vera kirkjugarður. Kirkjuvogsselið er austar í heiðinni, austan Ósa.
Við Ósana er einnig Stafnessel, en á milli þess og Gamla-Kirkjuvogs fundu FERLIRsfarar mjög gamla tótt og garð, sem hvorki hefur verið minnst á né verið settur á kort. Greinilega er um mjög gamla tótt að ræða. Önnur stærri stendur þar við víkurbotn. Garðurinn liggur út í Ósinn og má sjá í hann undir yfirborði sjávar. Landið hefur lækkað þarna nokkuð og tekið breytingum frá því sem var. Gamla þjóðleiðin frá Hvalsnesi liggur skammt ofan við tóttirnar. Innan við Djúpavog eru tóftir a.m.k. tveggja óþekktra selja.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – gerði.

Brynjúlfur Jónsson segir í lýsingu sinni árið 1902 að „Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Innst skiftast Ósarnir í smávoga og kallast þeir Ósabotnar. Þar sem bærinn var er rústbunga mikil. Þar er allt nú blásið hrauhn, þó er rústin að nokkur leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.“

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupstaðavegurinn

Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum. Hópurinn gekk hins vegar frá því til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda. Ætlunin var að leita að tóftum Stafnessels, sem þar átti að vera ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs.

Stafnessel

Stafnessel.

Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana. Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili.
Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Skammt ofan við voginn er 200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Leiðinni var fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn. Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið hægt suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Frábært veður.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kotvogur

Eftirfarandi sögu um „Eldhnöttinn“ í Höfnum má lesa í Leiftri árið 1915:
„Saga Árna prests Þórarinssonar á Stóra-Hrauni. En samkvæmt bendingu frá honum var leitað umsagnar Ketils bónda Ketilssonar yngra í Kotvogi, er gaf í sumum atriðum fyllri og nánari frásögn, sem bætt var inn í aðalsögnina.
Hafnir-333Sumarið 1886 kom eg að Kotvogi í Höfnum til Ketils dbrm. Ketilssonar, er þar bjó þá. Bað eg hann að segja mér sögu af eldhnetti þeim, sem eg hafði heyrt sjómenn segja frá að hann og fleiri hefðu séð. Var eg austur í Miðfelli í Hreppum í Árnessýslu, þegar eg heyrði söguna fyrst. Ketill varð við þessum tilmælum mínum. Hóf hann þá sögu sína á þessa leið: Eg stundaði refaveiðar á vetrum. Einu sinni var eg að egna fyrir tóur fyrir ofan Kirkjuvogs-túngarðinn. Þetta var árið 1839. Með mér var Jón Halldórsson frá Kirkjuvogi, er druknaði 1852. Hann var í sömu erindagerðum og eg. Þetta var um dagsetursbil. Tungl var í fyllingu og bjart veður. Sá eg þá hvar kom dökkleit hnoða. Líktist hún mest stórum selshaus og valt áfram eftir veginum í áttina til okkar. Eg áleit að þetta hlyti að vera missýning, og hafði þvi engin orð um hana við förunaut minn. Mér þótti þó einkennilegt að sýnin hvarf ekki, en hnötturinn þaut áfram eftir veginum í áttina til okkar. Eg hélt þó áfram þögninni við förunaut minn, til að ganga úr skugga um, hvort hin sama sýn bæri eigi fyrir hann. Við gengum samhliða og hélt eg óhikað áfram, þótt eg sæi að hnötturinn stefndi beint á mig. Alt í einu kipti Jón mér til sín og sagði nokkuð höstugt:
»Ætlar þú að láta þetta helvíti fara á þig?«
»Eg sá það líka, kunningi, svaraði eg.
Hnötturinn hélt svo áfram með sama hraða eftir hinum svonefndu Flötum, er liggja fyrir ofan Kirkjuvogshverfið, svo lengi að sýn eigi hvarf.
Af samtali okkar varð eg þess þá vís, að Jón hafði séð hnöttinn jafn lengi og eg.
Þetta sama kveld var Guðmundur bóndi í Merkinesi á leið úr Grindavík af sáttafundi. En þá voru Hafnir og Grindavík sama sáttaumdæmi, og voru það fram yfir síðustu aldamót. Þegar Guðmundur kom niður fyrir Hauksvörðugjá, en svo heitir gjá, sem er mitt á milli Húsatófta í Grindavík og Kalmannstjarnar, sá hann á veginum fram undan sér eldglæringar eða eldhnött, er fór í sneiðingum eða sitt á hvað eftir veginum, en aldrei beint áfram. Þegar þetta kom á móts við Guðmund stanzar það. Þá ávarpar Guðmundur það og spyr:
»Hvað ertu, eða hver ertu, eða getur þú talað?«
»Já«.
»Hvaðan kemur þú?«
»Frá Merkinesk.
»Hvert ætlar þú að halda?«
»Austur að Skála undir Eyjafjöllum«.
»Hvert erindi er þangað?«
»Brenna þar bæinn«.
»Áttir þú nokkuð að finna mig?«
»Nei!«
»Far þú þá til helvítis«.
Síðan fór hver sína leið, og hnötturinn þaut áfram veginn með miklum hraða. Um fótaferðatíma næsta morgun er eg vakinn og sagt að Guðmundur á Merkinesi sé kominn og vilji finna mig. Lét eg vísa honum inn til mín. Tók hann sér sæti við rúm mitt, og lauk þar erindum sínum. En eigi taka þau til þessa máls. Eftir stundarþögn, að erindi loknu, mælti Guðmundur: »Það bar undarlega sýn fyrir mig í gærkveldi. Eg sá eldhnött koma veltandi hérna neðan úr Höfnunum«. Svo sagði hann mér frá því, sem þegar er fram tekið. Guðmundur á Merkinesi var einn hinn mesti herðimaður og fullhugi, sem eg hefi þekt. Sagði eg honum þá frá því, hvað fyrir okkur félaga hafði borið skömmu fyrr um kveldið. Þótti okkur það bera einkennilega saman. Saga okkar allra breiddist fljótt út, og biðu menn með óþreyju eftir fréttum að austan. Leið svo nokkur tími, að ekkert fréttist, unz vermenn komu undan Eyjafjöllum. Höfðu þeir þær fréttir að flytja, að í vökulok, hið sama kveld og við sáum sýnina, hefði verið barið högg á bæjarhurðina á Skála undir Eyjafjöllum. Var það með þeim undrakrafti að bæjarhurðin fór mélinu smærra, og brotin þeyltust inn í göng.
Einar hét bóndi á Skála. Hann var mikilmenni og ódeigur. Einar mælti, er höggið reið á: »Þetta mun vilja finna mig«. Klæddist hann skjólt, því að hann var nýháttaður. Gekk hann svo út, en sagði áður til heimamanna: »Þið skuluð sofa og ekkert um mig forvitnast.
Eg mun skila mér aftur«. Var því hlýtt. Eigi er þess getið hve rótt menn sváfu um nóttina, en hins er viðgetið að engir veittu Einari eftirför, eða gerðu sig fróðari um það, hvað hann sýslaði þessa nótt. Litlu fyrir dægramót kom Einar bóndi inn. Háttaði hann þegar og sofnaði skjótt. Þá er nokkuð lýsti af degi, sáu heimamenn, að smiðjan hafði brunnið um nóttina. Fundu þeir til þess enga orsök, því að nokkuð var frá því liðið að eldur hafði verið kveyktur þar. Þegar kona Einars vissi um smiðjubrunann, fór hún inn og vakti bónda sinn og sagði honum tíðindin. »Ekki kalla eg þetta mikil tíðindi«, mælti Einar. »Eg held að meira hafi staðið til, en eg vona að þeir komi ekki að tómum kofum hér«. Sofnaði hann svo væran aftur og svaf vel út.
Þeir, Einar á Skála og Guðni Ólafsson á Merkinesi, feldu hugi til sömu stúlku, Kristínar að nafni. Sagt var að báðir þeir bæðu hennar, en svo fóru leikar, að Guðni varð hlutskarpari, og giftist hann Kristínu. Reiddist Einar þessu mjög og var þá talað að hann hefði í heitingum við Guðna, og sagt að hann myndi hefna sín þó seinna yrði.
Rétt eftir að Guðni giftist, varð hann einhvers ónota var, sem hann skildi þó ekki. En þetta, hvað svo sem það var, hafði þau áhrif á konu hans, að hún brjálaðist. Eftir það lifði hún við fásinnu og eymdarskap. En áður var Kristin talin með efnilegri konum á sinni tíð.
Sú saga gekk að Guðna í Merkinesi hefði verið ráðlagt að íinna Jón stúdent á Bæjarskerjum á Miðnesi. Hann var gáfumaður mikill, en sagt var að forneskja væri í eðli hans og háttum. Hafði hann því orð á sér að vita jafnlangt nefi sínu. Talað var að hann hefði lofað Guðna því, að senda Einari þá sendingu, er kæmi fram hefndum og lækkaði rostann í honum.
Sumarið áður en saga eldhnallarins hefst, var það kunnugt að Guðni reið ósjaldan út að Bæjarskerjum til tals við Jón stúdent. Enginn kunningsskapur var þó áðnr þeirra milli, svo vitað yrði. Var því svo alment trúað að Jón á Bæjarskerjum hafi, eftir beiðni Guðna bónda á Merkinesi, sent til Einars bónda á Skála sendingu til þess að vinna honum tjón, og þá helzt með bæjarbruna.
Guðni Ólafsson var fæddur 19. sept. 1798, en deyði 19. júní 1846.
Svo lýkur sögu Ketils.
Ketill dbrm. í Kotvogi var mikill maður vexli, og hinn vænsti að áliti. Hann var trúmaður mikill, vandaður í öllum báttum og þvi manna merkastur að allra dómi, sem þektu. Sjálfur var hann og nokkuð við söguna riðinn. Nær var hann og kominn frétt um þau Merkineshjón. Vermenn, er fréttirnar báru honum frá Skála, voru og snmir básetar hans.
Þetta alt var þess valdandi, að eg lagði fullan trúnað á frásögn Ketils.“

Heimild:
-Leiftur, 1. árg. 1915, 1. tbl. bls. 19-22.

Möngusel

Ofan við Mönguselsgjá er Merkinessel. Þetta eru 4 sérstæðar kofarústir og eru hlaðnar undir gjárbarmi. Þetta er í landi Merkiness og er talið, að haft hafi verið í seli þar fram á 19. öld. Norðan í hæð er kvos, grasi gróin og ofurlitar kofarústir í botni hennar. Þetta er Möngusel.

Möngusel

Möngusel.

Við skoðun á seljunum sumarið 2002 kom í ljós, eftir langan gang, að Möngusel er í bakka gróinar hraunkvosar og virðist vera allgamalt. Merkinessel hið nýrra er suðv við kvosina, undir misgengisvegg. Tóftirnar eru nokkuð heillegar. M.a má sjá glugga á einum vegg einnar húshleðslunnar. Þar er og hlaðinn stekkur og grafið vatnsból. Það var þurrt þegar komið var í selið. Allnokkru norðvestnorður af selinu fannst Merkinesselið eldra. Það var norðaustan undir grónum hól í annars eyðilegu umhverfi. Tóftirnar virtust vera allgamlar. Ekki er auðvelt að finna og staðsetja þetta sel því heiðin þarna er hvert öðru líkt. Gamla-Merkinessel (Miðsel) er í vestur frá Norður-Nauthólum. Augljóst er að landkostir hafa daprast og selið verið fært í Mönguselsgjá.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Hafnavegar er Kirkjuvogssel. Ofan þess er gróin hæðarbunga. Undir henni norðanverðri eru tóftir og kví eða stekkur skammt vestar. Kirkjuvogssel hefur verið allveglegt sel á sínum tíma.

Merkinessel

Merkinessel.

Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir er getið um sel tilheyrandi bæjum þar: „Nú bregðum við okkur þangað, svo sem hálftímagang, og förum upp á miðhólinn og litumst þaðan um. Rétt norðar en við st er býkúpumyndaður hóll. Í honum, með munna mót norðri, er hellisrifa, sperrulöguð. Þetta er refagren og nefnist Suður-Nauthólagren. Norðan við okkur liggur geysilangt og ca. þriggja til fjegra kílómetra landsig, eða neðan frá Stóru-Sandvík norðaustur í heiði. Gjáin er nefnd Mönguselsgjá. Ofan við miðju gjáarinnar má sjá nokkuð stæðilegar kofarústir. Þetta heitir Merkinessel. Þetta eru 4 rústir og eru hlaðnar að suðurbergveggnum. Þetta er í landi Merkiness og er talið, að haft hafi verið í seli þar fram á 19. öld.

Merkinessel

Gamla Merkinessel.

Upp af Lágunum við dálítið skarð í hæðarkinninni í vestur frá Norður-Nauthólum eru mjög gamlar rústir. Það heitir Gamla-Merkinessel. Augljóst er, að landkostir hafa daprazt og selið fært upp í Mönguselsgjána.

Þegar suður fyrir Lágar kemur, hækkar landið og á hægri hönd er geysimikil hæðarbunga með klappahólum. Norðvestan í hæð þessari eru rústir gamlar og heitir það Kirkjuvogssel.“

Merkinessel

Merkinessel – uppdráttur ÓSÁ.