Færslur

Bieringstangi

Gengið var niður að Halakoti. Þar voru bræðurnir Magnús og Ragnar Ágústssynir úti við. Þeir sýndu þátttakendum gamla bátinn frá Halakoti sem er geymdur þar í skemmu, hann var smíðaður árið 1908 og er vel sjófær. Þaðan var haldið út á Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði í leiðinni. Þar var tvíbýli fyrir 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin.

Bieringstangi

Grund – brunnur.

Við Grund á Bieringstanga tók Magnús aftur á móti þátttakendum og sýndi þeim bæinn Grund og fleiri minjar þar á staðnum. Á Bieringstanga var mikil útgerð áður fyrr. Þar var t.d. mikil sjóbúð og salthús. Magnús bendi einnig á letursteinn í fjörunni þar fyrir neðan. Þar virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa í það að þessu sinni.
Þaðan var haldið að Vorhúsum. Þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.

Bieringstangi

Bieringstangi – tóftir.

Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo haldið áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.

Grænaborg

Grænaborg.

Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg.

Arahólavarða

Arahólsvarða.

Allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.

Gengið á Arahól að Arahólsvörðu. Arahólsvörðuna lét Hallgrímur Scheving reisa árið 1890. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson. Tilgangurinn er ekki ljós nema þá sem prýði fyrir plássið.
Frá Arahól héldu þátttakendur í kaffi að Sólbergi. Þar var borið á borð dýrindis kaffi og nýbakað rúgbrauð.
Veður var einstaklega gott, sól og blíða – gerist varla betra.
Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Refagildra

Gengið var frá Brunnastaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni, um Brunnastaðasund að Hausthús, Vorhús og Hvamm, að Grænuborg ofan við Djúpavog og áfram með ströndinni í Voga.

Bieringstangi

Frá Efri-Brunnastöðum var gengið yfir að Skjaldarkoti, austasta kotinu í hverfinu. Skjaldarkot er nú í eigu Eggerts Kristmundssonar á Efri-Brunnastöðum. Ýmis óvenjuleg nöfn prýða staði á Ströndinni og ofan við hana. Má í því sambandi nefna orðið Kánabyrgi, sem er hóll eða há klettaborg skammt ofan Reykjanesbrautar, þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir “þrjótur, slæpingi; seppi”. Þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.
Gengið var vestur með ströndinni, framjá Naustakoti ofan við Brunnastaðasund og yfir að Halakoti. Vestar var gengið um Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði. Þar var tíbýli fyrir aldamótin 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin. Komið var við tóftir bæjarins Grund á Bieringstanga. Á tanganum var mikil útgerð áður fyrr, þar var mikil sjóbúð og salthús. Í fjörunni er letursteinn. Á honum virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa það.

Halakot

Halakot.

Frá Bieringstanga var haldið að Vorhúsum þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.
Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.

Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881, húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg, allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Frá Grænuborg er ágætt útsýni upp hraunin í Vogaheiði og upp Þráinskjöld. Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjaldarhrauni, er talið hafa runnið til sjávar fyrir um 9000 árum. Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar. Hún er 15 km löng milli Hvassahrauns og Kvíguvogastapa. Líkast til er nafnið dregið af danska orðinu „vandløse”, sem þýðir lauslega lindasvæði, en mikið ferskvatn kemur upp meðfram ströndinni úr beljandi móðum undir hrauninu, þótt ekkert slíkt sé að hafa inn til landsins.

Grænaborg

Í Landnámu er getið um að Steinunn gamla hafi þegið Rosmhvalanes af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, þar með alla Vatnsleysuströnd inn að Hvassahrauni. Eyvindur, frændi Steinunnar og fóstri, fékk að gjöf frá henni landið milli Kvíkuvogabjarga og Hvassahrauns. Hann bjó í Kvíguvogum, sem nú heitir í Vogum, en Kvíkuvogabjörg heita nú Vogastapi, Njarðvíkurstapi eða einungis Stapi.
Gengið var með ströndinni áleiðis í Voga. Byggðahverfið er ört vaxandi kauptún við Vogavík.

Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð úr var Stóru-Vogar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stöpplabryggja og fiskhús reist. Síðan hefur bæði ýmislegt orðið þar til framfara, en annað hefur farið miður, s.s. almennt viðhorf gagnvart sögu og minjum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnastaðasteinninn

Í Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Brunnastaði, Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot, Traðarkot, Hvassahraun og Hvassahraunskot, og nokkrar aðrar merkar minjar í sveitarfélaginu.

Vatnsskersbúðir (verbúð)

Vatnsskerbúðir

Vatnsskersbúðir.

“Yst í Djúpaós er Dýpstiós. Nokkru innar er Vatnasker, þar upp af er Vatnsskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör. Einnig Djúpavogsvör,” segir í örnefnaskrá Voga. Farið var á vettvang árið 2006 og fundust ekki minjar um Vatnsskersbúðir þá.
Aftur var farið á vettvang þegar verið var að skrá Brunnastaði árið 2013 og fundust þá tóftir á Vatnsskeri. Vatnsskersbúðir eru merktar inn á kort af býlum, götum, slóðum og hliðum sem fylgir ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar sjást signar tóftir um 320 m SSV við Hvamm og 780 m NNA við Minni-Voga. Ein tóftin er líklega af herslubyrgi. Vatnssker er lítið sker með jarðvegstorfu ofaná. Það flæðir sjór allt í kringum það á flóði.

Brunnastaðir (býli)

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 123. 1395 er Brunnastaða getið í eignaskrá Viðeyjarklausturs.
Þá eru hálfir Brunnastaðir metnir á 30 hdr. DI III, 597-598. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 124.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 1 hdr. Í fríðu og 2 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
Hjáleigur í byggð 1703, Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð og Skjaldarkot. Í eyði Traðarkot, Vesturhús, Naustakot, Austurhús (að öllum líkindum sama og Austurkot) og Suðurhús (að öllum líkindum sama og Suðurkot). JÁM III, 125-127. Hjáleigur í byggð 1847: Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot og Traðarkot. JJ, 90. Á Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. Þeir voru þessir: Grund eða Trumba, Vorhúsabæirnir, Austurbær eða Bjarnabær og Vesturbær eða Guðjónsbær, Hausthús og Hvammur. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 31. Tvíbýli var um tíma á Efri-Brunnastöðum. Guðmundur Jónsson. Mannlíf og mannvirki, 224-33.
1703: “Tún jarðarinnar spillast af sjáfar og sands ágángi meir og meir. Engjar eru öngvar. Útihagarnir um sumur í lakasta máta, um vetur nær enginn nema fjaran.” JÁM III, 124-5. 1919: Tún alls 5,9 teigar, garðar 2300m2.

Efri-Brunnastaðir (býli)

Efri-Brunnastaðir“Neðri-Brunnastaðir eru allnærri sjávarkampinum, en Efri-Brunnastaðir eru talsvert fjær og standa á allháum hól. Ekki ber hverfisingum saman um hvort býlanna séu hinir upphaflegu Brunnastaðir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1923-1924 [skrifuð 1703], er getið Brunnastaða og Brunnastaðakots, en hvort kotið sé annað hvort núverandi býla skal ósagt látið. Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti telur Neðri-Brunnastaði upphaflega býlið, án þess þó að slá neinu föstu um það. Ályktun sína dregur hann af því, að ýmis býli á Vatnsleysuströnd hafi fyrrum verið byggð alveg niðri við sjávarkampinn, en síðan verið færð fjær sjó, eftir því sem landbrot jókst,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í sama riti segir: “Bæjarhóll heitir sá sem Efri- Brunnastaðir standa á. Hlaðið, eða Brunnstaðahlað er hluti af Bæjarhól.” Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru íbúðarhús á bæjarhólnum og samtengt margskipt útihús sem skráð er með bæjarhúsum á bæjarhólnum. Af afstöðu Bænhúshóls að dæma verður að teljast líklegt að bænhús á honum hafi tilheyrt Efri-Brunnastöðum. Það bendir þá til þess að Efri-Brunnastaðir séu elsta bæjarstæði Brunnastaða.
Efri-Brunnastaðir eru á háum hól um 120 m suðvestan við Brunnastaðatjörn. Tún er í kringum bæjarstæðið sem er enn slegið að hluta og að hluta nýtt til beitar.

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir

Í greininni “Suður með sjó” eftir Björn Þorsteinsson sagnfræðing segir að Jón Breiðfjörð Jónsson sem fluttist að Brunnastöðum um 1870 hafi rekið þar verslun. Að sögn Jóns Hauks Aðalsteinssonar, heimildamanns, sást grunnur verslunarinnar til skamms tíma norðan við íbúðarhúsið á Efri-Brunnastöðum og veginn sem liggur niður að Neðri-Brunnastöðum. Hóllinn sem gamli bærinn var á er um 100 m í þvermál og virðist að mestu leyti náttúrulegur en öruggt má telja að hann sé einnig að stórum hluta uppsöfnuð mannvistarlög. Hóllinn er hæstur um 2 m. Það hús sem nú er á bæjarstæðinu var byggt 1930 og er með niðurgröfnum kjallara. Það er fast suðaustan við eldra íbúðarhús á bæjarstæðinu en það var rifið fyrir fáum árum. Enn sést móta fyrir hleðslum úr grunni þess.

Bænhúshóll (kirkja)

Brunnastaðir

Bænhúshóll.

“Bænhúshóll eða Kirkjuhóll heitir svo því þar á að hafa verið bænhús í kaþólskri tíð,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Bænhúshóll er í landi Neðri-Brunnastaða en virðist hafa tilheyrt Efri-Brunnastöðum 001 ef tekið er tillit til afstöðu hólsins og bæjanna. Hóllinn er um 60 m VSV við Efri- Brunnastaði og um 115 m suðaustan við Neðri-Brunnastaði.
Afgerandi hóll er í túni nærri merkjum milli Efri- og Neðri-Brunnastaða. Túnið hefur verið slegið til skamms tíma en var nýtt til hrossabeitar þegar skráningarmaður var á ferð haustið 2013.
Að sögn Jóhanns Sævars Símonarsonar, heimildamanns, komu upp mannabein og legsteinn við túnrækt á hólnum í kringum 1950. Sléttað var yfir staðinn og beinin látin hvíla áfram á sama stað. Bænhúshóllinn er um 28×24 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er um 2 m á hæð og er kúptur að ofan. Ekki sést til minja um kirkjugarð eða kirkju á yfirborði hólsins en á loftmyndum á GoogleEarth frá 2002 má óljóst greina gerði umhverfis hólinn og dökkan blett á miðjum hólnum þar sem líklegt er að bænhúsið hafi staðið.

Neðri-Brunnastaðir (býli)

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir 1928.

“Neðri-Brunnastaðir eru allnærri sjávarkampinum, en Efri-Brunnastaðir eru talsvert fjær og standa á allháum hól. Ekki ber hverfisingum saman um hvort býlanna séu hinir upphaflegu Brunnastaðir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1923-1924 [skrifuð 1703], er getið Brunnastaða og Brunnastaðakots, en hvort kotið sé annað hvort núverandi býla skal ósagt látið.
Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti telur Neðri-Brunnastaði upphaflega býlið, án þess þó að slá neinu föstu um það.
Ályktun sína dregur hann af því, að ýmis býli á Vatnsleysuströnd hafi fyrrum verið byggð alveg niðri við sjávarkampinn, en síðan verið færð fjær sjó, eftir því sem landbrot jókst,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar segir einnig: “Neðri-Brunnastaðir, gömlu, var oft nefnt Húsið í daglegu tali, vegna þess, að það þótti stórglæsilegt timburhús á sinni tíð, er þar var reist, skömmu eftir síðustu aldamót (1907-8). Stendur þetta hús enn ásamt áföstum útihúsum, hvorttveggja hrörlegt mjög. …

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir.

Núverandi íbúðarhús á Neðri-Brunnastöðum var reist 1957, töluvert fjær sjó en hið gamla.” Neðri-Brunnastaðir eru niður við sjó, um 175 m VNV við Efri-Brunnastaði.
Bæjarstæði Neðri-Brunnastaða er á lágri hæð í túni sem nýtt er til beitar.
Ekki sést afgerandi bæjarhóll en allmiklar breytingar hafa orðið í kringum bæinn vegna húsbygginga, vegagerðar og sjóvarnargarðs. Gamla húsið A sem sýnt er á túnakorti frá 1919 stendur enn. Húsið er bárujárnsklætt milli fjóss og íbúðarhúss. Fjósið sem enn stendur er steypt og verður ekki lýst nánar hér. Jóhann Sævar hefur eftir Símoni Kristjánssyni, föður sínum, að eldra íbúðarhús B í Neðri-Brunnastöðum hafi verið fast norðaustan við fjárhús og um 10 m vestan við húsið sem reist var 1906 og enn stendur. Þar sjást hins vegar engin ummerki um byggingar.

Grund (býli)

Grund

Grund – túnakort 1919.

Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. Þeir voru þessir: Grund eða Trumba,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar kemur fram að tún hafi verið umgirt grjótgörðum og að brunnur hafi verið utan túns. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum kemur fram að húsið í Grund hafi verið byggt upp þegar nýir ábúendur fluttu þangað 1912 en það svo rifið 1920.
Það nýtilegasta úr húsinu var notað í nýtt íbúðarhús, Suðurkot 2. Jón Haukur Aðalsteinsson, heimildamaður, hefur grúskað talsvert í ítarheimildum um Bieringstanga og Brunnastaðahverfið á Þjóðskjalasafni Íslands. Hann hefur fundið heimild um byggð á Grund í Sóknarmannatali Kálfatjarnarkirkju frá 1883. Býlið Grund er um 835 m suðvestan við Efri-Brunnastaði. Sumarhús Magnúsar Ágústssonar frá Halakoti er fast vestan við bæjartóftina og liggur vegur að honum. Á túnakort frá 1919 eru eftirtalin mannvirki teiknuð: bæjarhús, útihús, brunnur, túngarður, kálgarður og fiskreitir.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Tún býlisins er hæðótt og er það komið í órækt og orðið þýft. Utan túns er grónir hraunmóar til austurs.
1919: Tún 0,29 teigar, garðar 540m2. Minjar um býlið sjást á svæði sem er um 95×75 m að stærð og snýr NNA-SSV. Innan þess eru húsgrunnur, tóft, tveir brunnar, brunngata, sjávargata, kálgarður, garðlag, heimild um fiskreit og þúst. Allar minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Lýsingin hefst á húsgrunni A þar sem bærinn Grund stóð. Grunnurinn er á lágum klapparhól, um 20 m suðaustan við norðvesturjaðar túnsins og 30 m norðaustan við suðvesturjaðar þess.
Húsið sem stóð á grunninum var rifið 1920. Alls eru sýnlegar leifar hússins á svæði sem er um 6,5×6 m að stærð og snýr norður-suður. Grunnur hússins er um 4×6 m að stærð og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,6 m á þykkt, grjóthlaðnir úr tilhöggnu grjóti og er sementslím í hleðslunni.

Hvammur (býli)

Hvammur

Hvammur.

“Á Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. … Auk þessara voru í Bieringstanga Hausthús og Hvammur,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í örnefnalýsingu fyrir Bieringstanga segir: “Hvammsblettur er afgirtur með grjótgörðum og gaddavír. Bærinn [A] stendur austarlega í blettinum. Rétt norðaustan við bæinn er brunnur, Hvammsbrunnur [B]. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Syðsti bær í Brunnastaðahverfi var Hvammur. Nú er þar eingöngu rústir að sjá og grjótgarð umhverfis túnið. Þetta var lítið grasbýli á leigulandi og greiddi afgjald til Neðri-Brunnastaða, en var úr óskiptu landi Brunnastaðahverfis.” Jón Haukur Aðalsteinsson, heimildamaður, hefur grúskað talsvert í ítarheimildum um Bieringstanga og Brunnastaðahverfið á Þjóðskjalasafni Íslands. Hann hefur fundið heimild um byggð í Hvammi í Sóknarmannatali Kálfatjarnarkirkju frá 1883. Hvammur er um 1,2 km suðvestan við bæ og um 70 m suðaustan við Hausthús. Býlinu tilheyrir bæjartóft, brunnur, gryfja, túngarður, brunngata, sjávargata, tvær tóftir, tvö mannvirki og þúst. Á túnakort frá 1919 eru eftirtalin mannvirki teiknuð: bær, þró, útihús og túngarður.
Býlið er sunnan við grösuga hæð í grónum klapparmóa.

Kristmundarvarða (varða)

Kristmundarvarða

Kristmundarvarða.

“Tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól.
Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Varðan er um 360 m sunnan við Töðugerðisvörðu og um 1,1 km suðvestan við Efri-Brunnastaði.
Varðan stendur lágt í hraunmóa sem er að hluta uppblásinn.
Varðan stendur vel. Hún er um 1 m í þvermál og 1,1 m á hæð. Í henni sjást 6 umför. Fast norðaustan undir vörðunni er minningarskjöldur um Kristmund. Ekki er vitað hvenær varðan var upphaflega hlaðin en hún var endurhlaðin árið 1993 af Ragnari Ágústssyni frá Halakoti.

Töðugerðisvarða (varða)

Töðugerðisvarða

Töðugerðisvarða.

“Hin varðan, Töðugerðisvarða eða Halakotsvarða stendur rétt ofan eða sunnan við Skipholt. Þar hjá er reiðgata sem notuð var sem þjóðbraut fram til 1912 og heitir Gamlivegur,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Reiðgatan sem nefnd er Gamlivegur í tilvísun hér að framan er að öllum líkindum leið sem lá á milli bæja og til kirkju í Kálfatjörn eftir að hún varð sóknarkirkja fyrir hreppinn. Varðan er um 395 m austan við Grund og um 230 m suðaustan við Töðugerðisbæina.
Varðan stendur allhátt á hól í hraunmóa. Varðan er stæðileg, ferköntuð og vandlega hlaðin. Hún er um 1×1 m að grunnfleti og 1,3 m áhæð. Í henni sjást 8 umför. Hún virðist ekki mjög gömul en getur hafa verið endurhlaðin. Hlutverk vörðunnar er ekki þekkt en hún gæti verið siglingamerki eða varðað Kirkjugötu.

Hemphóll (áfangastaður)
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Í Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel stendur Hemphóll eða Hemphólar en þar áðu smalarnir úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir.
Smalaleiðin lá skammt norðan við Brunnastaðasel og á Hemphól.” Á heimasíðu FERLIRs segir: “Talsvert ofan við selið er hinn sögufrægi Hemphóll, á honum er varða.”
Hemphóll er um 1 km suðaustan við Brunnastaðasel og stendur enn varða á honum. Varðan er á hól í mosavaxinni hraunheiði. Stendur hóllinn mjög hátt í heiðinni og víðsýnt er af honum til allra átta. Efst á hólnum er stór varða úr stóru grjóti. Var mögulega holrými í henni neðst en varðan hefur fallið saman. Hún er um 1,2×1,2 m að grunnfleti og 1,2 m á hæð. Í henni sjást enn 5 umför. Í holrýminu neðst eru gamlar brotnar gosflöskur.

Guðmundarstekkur (stekkur)
“Þar sem lömbum var í eina tíð stíað frá ánum heitir Guðmundarstekkur, en Ragnar Ágústsson nefnir hann aðeins Stekk,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. “Stuttu austur af Þúfuhól er svo Guðmundarstekkur norðan undir Stekkholti,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Stekkjartóftin er um 130 m norðvestan við vörðu á Neðri-Presthól.

Syðri-Brunnastaðalangholtsvarða (varða)

Brunnastaðalangholtsvarða

Brunnastaðalangholtsvarða.

“Skammt frá [Einingavegi] er langt og fremur mjótt klapparholt, Brunnastaðalangholt. Á holtinu eru tvær vörður, Nyrðri- og Syðri- Brunnastaðalangholtsvörður …,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Langholtið er hár malarhryggur skammt frá merkjum Voga og Brunnastaða. Á holtinu er áberandi varða sem sést langt að. Hún er um 340 m sunnan við Nyrðri-Brunnastaðalangholtsvörðu og 2,2 km SSA við Efri-Brunnastaði. Holtið er hálfgróið en umhverfis vörðuna, hæst á holtinu, er ógróinn melur.
Á Langholtinu eru auk vörðunnar tvö önnur mannvirki á svæði sem er um 30×30 m. Í lýsingunni verður hverju þeirra gefinn bókstafur til aðgreiningar. Varðan (A) er um 1,5×1,5 m að utanmáli en hol að innan og því um 1 x 1 m að innanmáli. Hleðslan er einföld og um 1,2 m á hæð. Allt að 6 umför grjóts standa en eitthvað virðist hrunið úr hleðslunni. Upp við vörðuna sunnanverða er einföld grjóthleðsla sem myndar einskonar kró við hana. Króin er um 1×1 m að innanmáli en hleðsluhæð um 0,3 m. Umför eru tvö, en virðast hafa verið a.m.k. þrjú í vesturhluta.

Hringurinn (fjárskýli)

Hringurinn

Hringurinn.

“Hringurinn heitir hringlaga grjótbyrgi, sem notað var fyrir fé, síðast á seinni hluta 19. aldar,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Grjóthlaðin (fjár)borg eða rétt er í grónum slakka austan við Langholtið, um 290 m austur af Syðri-Brunnastaðalangholtsvörðu og 2,3 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Réttin stendur í grasi grónum dal á milli hraunholta.
Réttin er tæplega 10×10 m að utanmáli og er ekki hringmynduð eins og fjárborgir eru gjarnan. Innanmál hennar er um 6×6 m. Hleðslur eru að mestu hrundar út en hafa verið miklar og háar og líklega allt að 2 m breiðar. Hæð þeirra er nú mest um 1,5 m og um 6 umför. Op er á suður-, eða suðausturhlið. Það er um 0,5-0,7 m breitt en breikkar inn á við. Yfir opinu hefur verið hella/hellur en er nú hrunin og er opið hálffullt af hruni. Einfaldar grjóthleðslur, 1 umfar, liggja út frá opinu og mynda einskonar rennu að því. Mikið hrun er innan réttarinnar og erfitt að greina hvort þar hafi verið um hólf eða skilrúm að ræða. Þó er greinilegt mannvirki við innanverðan norðurvegg, þar sem mögulega hefur verið einhverskonar kró eða garði.

Gangnabyrgi (áfangastaður)

Gangnabyrgi

Gangnabyrgi.

“Þá koma Strákar eða Strákavörður sem eru þrjár og greinast í Austurvörðu, Miðvörðu og Syðstuvörðu. Þá er Viðaukur og Kánabyrgi enn réttu nöfnin munu vera Viðuggur og Gangnabyrgi,” segir í örnefnaskrá Voga. Gangnabyrgi er norðan við línuveg, um 220 m suðaustan við vörðu 102 og um 180 m norðan við línuveg. Byrgið er uppi á háum hraunhelluhól og er mosa- og lyngi vaxið í kringum það. Frá þessum hól sést vel til allra átta. Allt í kring eru hraunhólar og mosavaxinn mói á milli þeirra.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Á Kánabyrgi komu leitarmenn úr Brunnastaðahverfi saman áður en lagt var á heiðina og þar átti hver karl sinn stein til að tylla sér á. Rétt neðan við hólinn er svo lítil vatnshola í klöpp en holan var gerð af mannahöndum svo hægt yrði að svala þorstanum á meðan áð var á hólnum.” Tóft byrgisins er um 3,5×3 m og snýr norðvestur- suðaustur. Hleðslur eru almennt signar, um 0,4 m á hæð en í vesturhluta tóftar er grjóthrúga, um 2×1 m að stærð og um 0,6 m á hæð. Mögulega er það hrunin varða sem hlaðin hefur verið ofan í tóftina. Grjótið í hrúgunni er stórt og vaxið skófum og mosa. Að öðru leyti er tóftin vel gróin, grjóthlaðin, en op ekki greinilegt.

Gjásel (sel)

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

“Í Gjáseli, en svo heita gamlar selstöður, má nú sjá átta til níu tóttarbrot. Lítið seltún mun hafa verið þar framanvið. Ofan við selið er Gjáselsgjá, sem sagt var um að í væri óþrjótandi vatn, en erfiðleikum bundið að ná því,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. “Af Einiberjahólum sjáum við vel til Gjásels sem kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá. Óvíst er frá hvaða bæ var haft í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðalands. Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni [Árna Magnússonar og Páls Vídalín] 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu. Tóftir af átta húsum standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli eins og reyndar annarsstaðar. Skipulag húsa á þessu selstæði er gjörólíkt því sem er á öllum hinum stöðunum í heiðinni en þar eru tveggja húsa samstæður á víð og dreif á grasblettinum en í Gjáseli er eins konar raðhúsalengja. … Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu en jarðskjálftar á fyrri hluta 20. aldar hafi eytt þessum eina “fossi” í hreppnum,” segir í Örnefni og gönguleiðir. Gjásel er um 6,4 km suðaustan við Efri-Brunnastaði og 6,4 km suðaustan við Hlöðunes. Þar eru tvær tóftir og varða. Selið er undir gjárvegg og gjá sem er að miklu leyti gróin og full af grjóti austan við seljatóftirnar. Seltúnið er ekki ýkja stórt en er að mestu gróið.
Minjar í Gjáseli eru á svæði sem er 80×25 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.

Ólafsvarða (varða)

Ólafsvarða

Ólafsvarða.

“Nokkurn veg norðaustur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. … Um síðustu aldamót hrapaði í sprunguna Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að gá að fé rétt fyrir jól árið 1900. …
Árið 1931 eða um 30 árum seinna fundust svo bein hans í gjánni,” segir í Örnefni og gönguleiðir.
Ólafsvarða er við Ólafsgjá um 1,2 km VNV af Gjáseli og um 5,4 km suðaustan við Efri- Brunnastaði. Varðan er ekki nógu gömul til að geta talist til fornleifa en hún er skráð engu að síður því auk þess að vera minnisvarði um Ólaf Þorleifsson þá er hún einnig minnisvarði um fjárrekstur í Vogaheiði og Strandarheiði og hætturnar sem því fylgdu.
Varðan er við norðvesturbrún lítillar og mjórrar gjár í mosavaxinni hraunheiði. Varðan er um 1,5 m á hæð og um 1 m í þvermál. Grunnflötur hennar er hringlaga. Hún er vandlega hlaðin úr meðalstóru grjóti sem er orðið skófum vaxið. Lítið sem ekkert hefur hrunið úr hleðslum.

Stapahóll (legstað)

Stapahóll

Stapahóll.

Í ritinu Frásögur um fornaldarleifar segir: “Í Búfjárhögum Brunnastada er Haugur sem þeckjanleg gömul Mannaverk eru á, Stapa Hóll /nefndur/.” Hóllinn er um 430 m suðvestan við Gjásel og um 6,6 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Hóllinn er einnig nefndur Stapaþúfa eða Stapaþúfuhóll eins og fram kemur í bókinni Örnefni og gönguleiðir.
Hóllinn er í mosagróinni hraunheiði og stendur hátt í henni. Grónir flekkir er í kring og grjótbreiður. Mjó hraunsprunga er fáum metrum suðaustan við hann.
“Hann er krínglóttur, 14 Fadmar ummhverfis ad nedan, 3ia Fadma hár, 2ia Fadma umhverfis ad efra, með grióthledslulogum hér og þar nærfelldt í Kríng.” Hóllinn er um 6 m í þvermál og 2-2,5 m á hæð. Hann er strýtulaga og er gróinn efst en þar er hundaþúfa. Mögulega er varða þar undir gróðrinum en engin sýnileg mannaverk eru á hólnum og minnir hóllinn ekki á haug.

Brunnastaðasel (sel)

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga.” Í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi segir: “Brunnastaðasel heita gamlar selstöður frá Brunnastöðum. Þar má sjá allmörg tóttarbrot.” Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Frá Gamla-Vogaseli höldum við austur af Vogaholtinu og að Brunnastaðaseli undir Brunnastaðaselsgjá … Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru til um Brunnastaðaselsvatnsstæði ofan og sunnan selsins. Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir en aðeins norðar og neðar í grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni sjáum við litla kví óskemmda með öllu og hafa gjárveggirnir verið notaðir
sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltatíma.”
Brunnastaðasel er um 1 km suðaustan við Gjásel og 7,4 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Í selinu eru að líkindum tvö selstæði. Selið er norðan undir gróinni brekku í litlu selstæði. Jarðvegsrof umhverfis selstæðið ógnar minjunum.
Minjarnar eru á svæði sem er um 170×55 m að stærð og snýr norður-suður. Þær fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu hér á eftir. Svæðið skiptist í tvö selstæði. Selstæði I sem er umfangsminna og virðist vera yngra er nyrst á svæðinu en þar eru tóftir E og F. Selstæði II er á suðurhluta svæðisins, þar eru tóftir A-D og G. Það hefur tilheyrt Efri-Brunnastöðum. Selstæði I er um 110×110 m að stærð.

Hausabyrgi (herslubyrgi)

Hausabyrgi

Hausabyrgi.

“Inni á landi var einnig svonefnt Hausabyrgi er hlaut nafn sitt af fiskhausum sem í því voru þurrkaðir. Ragnar Ágústsson í Halakoti segir það hafa staðið umhverfis slétta klöpp miðja vegu milli Töðugerðis og Töðugerðisvörðu eða Halakotsvörðu,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Hausabyrgi og þrjú önnur sambærileg herslubyrgi eru 112 m suðaustan við Töðugerðisbæina og og 60 m norðan við Töðugerðisvörðu.
Byrgin eru í allgrónum hraunmóa litlu sunnan við veg sem liggur að sumarbústað í túni Grundar.
“Segir Ragnar, að inn í sjálfu byrginu, sem og öðrum álíka, hafi verið einfaldir grjótgarðar sem vel gustaði um til þess að flýta fyrir þurrkun fiskhausa sem á þá voru settir. Í þessum byrgjum, sem sum hver voru opin, en fjárheld, fékkst skjót og góð þurrkun þess fiskjar sem í þau var lagður,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Fjögur byrgi eru á svæði sem er um 68×42 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Byrgin fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu hér á eftir. Almennt má segja um þau að þau eru grjóthlaðin og eru hleðslurnar í þeim hvergi breiðari en 0,5 m og hæð þeirra 0,2-0,5 m. Í þeim sjást 1-3 umför. Stærsta byrgið A er það sem talað er um í heimildum sem Hausabyrgi. Það er nyrst á svæðinu, er 18×16 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Byrgi A er nokkuð hringlaga en hleðslur meðfram norðausturhlið eru horfnar. Innan gerðisins eru grjótgarðar sem eru jarðlægir og hvergi breiðari en 0,5 m. Í suðurhluta gerðisins liggja garðarnir norðvestur-suðaustur en í norðurhlutanum liggja þeir austur-vestur. Gerði B er um 24 m SSA við gerði A.

Halakot (býli)

Halakot

Halakot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703. JÁM III, 125. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Halakot var ekki sérstök jörð fyrr en á fyrsta tug þessarar aldar. Mætti ætla að í upphafi hafi verið þarna tómthús frá Brunnastöðum og þá að Efri-Brunnastaðir séu móðurjörð Brunnastaðahverfisins. Í lok 16. aldar, eru aðeins nefndir einir Brunnastaðir, einnig um 1700, en þá er talað um Brunnastaðakot og Halakot sem hjáleigu. …. Hefur Halakot verið tómthús á suðurenda aðaljarðarinnar og þá leiguliða leyft að rækta út sem uppbót á landskuld.” “Töðugerðisbæirnir svokölluðu, Suðurbær og Norðurbær (eða Grímsbær) syðst í Halakotstúninu, í Töðugerði, fóru í eyði á síðustu árum 19. aldar.” Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 31.
1919: Tún 2 teigar, garðar 870m2.
“Að sögn heimamanna hefur Halakotsbærinn verið fluttur þrisvar sinnum. Fyrsta húsið stóð rétt við (eða ofan við) sjávarkampinn, skammt norðan við núverandi sjávarhús,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Halakot hefur verið byggt upp að minnsta kosti fjórum sinnum (ný íbúðarhús) og það á fjórum stöðum. Fyrst var Halakot niðri við sjó norðaustur af uppsátrinu og síðan var byggt annað sunnan við sjávargötuna, um það bil mitt á milli uppsátursins og núverandi Halakots.” Elsti þekkti bærinn í Halakoti er um 60 m norðan við bæjarstæði. Að sögn Magnúsar Ágústssonar, heimildamanns, er baðstofugaflinn af elsta bænum í sjávarkampinum rétt innan við nýlegan sjóvarnargarð í norðvesturjaðri túnsins. Þar sjást hleðslur á tveimur stöðum. Grýttur sjávarkampur á milli sjóvarnargarðs og túns.
Bæjarhóll er ekki sýnilegur. Hleðslurnar sem sjást eru á svæði sem er um 25×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.

Halakotsbrunnur (vatnsból)

Halakotsbrunnur

Halakotsbrunnur.

“Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum, Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum …Í (Neðri-) Brunnastaðabrunni gamla, sem af Hverfisingum er talinn elsti brunnurinn, voru steintröppur, og sömuleiðis í gamla Halakotsbrunni,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Brunnur er um 20 m norðan við bæ og um 30 m norðvestan við bæjarstæði. Brunnurinn er í túni, fast norðaustan við malarveg sem liggur að fjöru og gömlu sjóhúsi sem byggt var 1930 eða 1940 og hefur verið endurgert.
Brunnurinn er við brún í túni og lækkar það NNA við hann. Þar sem brunnurinn er hefur verið steyptur upp ferkantaður stokkur og er hleri ofan á honum svo ekki sést ofan í hann. Ætla má að brunnurinn sé grjóthlaðinn og nokkuð heillegur.

Töðugerðisbæir/Suðurbær/Norðurbær (býli)

Töðugerði

Töðugerði.

“Töðugerðisbæirnir svokölluðu, Suðurbær og Norðurbær (eða Grímsbær) syðst í Halakotstúninu, í Töðugerði, fóru í eyði á síðustu árum 19. aldar,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Töðugerði hafi lagst í eyði rétt eftir aldamótin 1900 en ekki er tiltekið hvor bærinn það var eða hvort það voru báðir bæirnir. Bæjartóft Norðurbæjarins er um 20 m norðaustan við Suðurbæinn og um 220 m suðvestan við bæ. Bærinn er fast sunnan við klapparfjöru og eru sjóvarnargarðar sitthvoru megin við hana. Tóftin er í túnjaðri Halakotstúns til norðurs. Tóftin er þrískipt og snýr austur-vestur. Hún er torf- og grjóthlaðin og er um 10,5×10 m að stærð. Vesturhluti tóftarinnar er vel greinilegur og í honum eru þrjú hólf.

Suðurkot (býli)

Suðurkot

Suðurkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703, sennilega sama og Suðurhús þá, í eyði frá því fyrir 1683. JÁM III, 127. Skólajörðin var upphaflega jörð Vesturbæjarins í Suðurkoti. Þar var reistur einn fyrsti barnaskólinn í landinu 1872.
Kothús 012 stóðu í Skólatúni og fóru í eyði skömmu fyrir 1900. Suðaustan við nýja skólahúsið voru Fögruvellir 013. Þar var búið fram yfir 1920. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 27. Tvíbýli var a jörðinni frá 1920 og búskap var hætt 1942. Guðmundur Jónsson: Mannlíf og mannvirki, 214.
1919: Tún alls 2,99 teigar, garðar 1420 m2.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Árið 1871 var Suðurkotsjörðin tvær hálflendur og átti Hafliði nokkur Þorsteinsson … annan hlutann. Þann part seldi Hafliði undir Suðurkotsskólann, eins og Brunnastaðaskólinn var þá kallaður.” Að sögn Jóns Hauks Aðalsteinssonar, heimildamanns, er Suðurkots fyrst getið í búnaðarskýrslu árið 1781 og er þá þegar tvíbýli þar. Bæirnir í Suðurkoti virðast ekki hafa staðið saman og er líklegt að vestari bærinn 004 hafi verið þar sem þrískipt útihús með sambyggðum kálgarði er merkt inn á túnakort frá 1919, 20-25 m vestan við austari bæinn sem hér er skráður.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki kemur fram að timburhús hafi verið byggt á austara bæjarstæðinu árið 1920 sem leysti gamla torfbæinn af hólmi. Sama ár flutti Kristján Hannesson að Suðurkoti og byggði Suðurkot 2 um 30 m suðaustan við gamla bæjarstæðið. Þar var gamli Grundarbærinn settur upp árið 1922 og búið var í honum þar til nýtt hús var reist á sama stað árið 1930. Það hús stendur enn og hefur verið gert upp á smekklegan hátt. Búskap var hætt á austurbæ Suðurkots árið 1942 þegar hreppurinn keypti jörðina. Suðurkot 2 hélst áfram í byggð en var eftir þetta aðeins kallað Suðurkot. Gamla bæjarstæði Suðurkots er fáum metrum norðaustan við malarveg sem liggur að Naustakoti, um 160 m sunnan við Efri-Brunnastaði.
Bærinn var á hæð í gömlu túni sem komið er í órækt að hluta til. Ekki sést afgerandi bæjarhóll en bæjarstæðið nær yfir svæði sem er um 20×20 m að stærð. Á því eru minjar um síðustu húsin sem stóðu þar á svæði sem er um 14×12 m að stærð og snýr nálega norðvestur-suðaustur. Í norðvesturenda er hlaðinn grunnur með sementslími í hleðslum. Hann er um 7×5 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. 0,4 m breitt op er á honum á suðvesturgafli. Þar sem hleðslur standa enn eru þær 0,5-0,7 m á hæð og sjást 4 umför. Hleðslur á norðausturgafli grunnsins hafa hrunið undan halla og er ekki nema ein röð af grjóti á suðausturhlið.

Suðurkotsskóli (skóli)

Suðurkotsskóli

Suðurskotsskóli.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Árið 1871 var Suðurkotsjörðin tvær hálflendur og átti Hafliði nokkur Þorsteinsson … annan hlutann. Þann part seldi Hafliði undir Suðurkotsskólann, eins og Brunnastaðaskólinn var þá kallaður.” “Fyrsta Brunnastaðaskólahúsið var byggt árið 1872 og var þá með íbúð í risi, er ætluð var kennurum eða starfsfólki skólans. Skólanum fylgdi jarðnæði sem lítið var notað af skólaíbúum, en mest leigt til nytjar. … Sami háttur var á þegar nýtt skólahús var reist árið 1907, en þar var íbúð í vesturenda hússins,” segir í bókinni Mannlíf og mannvirki. Þar kemur einnig fram að skólinn var ýmist kallaður Suðurkotsskóli eða Brunnastaðaskóli. Árið 1886 var byggt við skólahúsið frá 1872. Nýr skóli var reistur skammt frá árið 1944 og var hann kallaður Brunnastaðaskóli. Skólinn er nú íbúðarhús sem ber nafnið Skólatún. Grunnur Suðurkotsskóla sést enn um 50 m VSV við bæ og fast suðvestan við Skólakálgarða.

Suðurkotsskóli

Suðurkotsskóli.

Skólahússgrunnurinn er í gömlu túni sem komið er í órækt. Í grein sem birtist í Þjóðólfi 21. janúar 1873 er stofnun og gerð fyrsta skólahúss Suðurkotsskóla lýst: “Upptök skólans eru þessi: Prestrinn síra St. Thorarensen lét ganga boðsbréf um sóknir sínar haustið 1870 um samskot til barnaskóla; gáfust þá innan sóknanna loforð um nálega 700 rd. á einni viku. Árið 1871 var tekið megnið af timbrinu til skólans, en byggingunni var frestað til næsta árs, sökum þess að nokkra máttarviði vantaði til hússins, er þá fengust hvergi. Sama ár (1871) var keyptr jarðarpartr í Brunnastaðahverfi, undir skólann til ábúðar fyrir skólahaldara (framvegis). Sumarið 1872 var húsið bygt af smiðum, er allir eiga heima í hreppnum ; það er 10 álnir á breidd, 14 álnir á lengd og 5 áln. rúmar undir loft; sakir vanefna er húsið hvergi nærri fullbygt; kenslustofan er í öðrum enda hússins, og nær yfir það þvert (10 áln. á lengd og hérum 7 áln. á breidd); í hinum endanum eru tvö herbergi fyrir kennarann; eldhús er í skólanum með eldavél; uppi á lopti er stórt herbergi, einkum ætlað Thorchilliibörnum, og fyrir setulopt sér í lagi, þá börnum er kend handvinna; að öðru leyti er annað óbygt uppi, en í áformi að gjöra í öðrum enda kenslustofu, ef þörf gjörist síðar meir.”
Húsgrunnur gamla barnaskólans er um 7×13 m að stærð og snýr hann norðvestur-suðaustur. Á miðri norðausturhlið eru tröppur og tvö lítil hólf sitthvoru megin við þær. Þar hefur verið anddyri. Alls er því húsgrunnurinn 10×13 m að stærð. Hleðslan í grunninum er hæst í suðausturenda þar sem hún er 0,7 m á hæð. Þar sjást 3-4 umför og er múrlím í hleðslunni. Grunnurinn er gróinn. Hólfin tvö sem er á norðausturhlið grunnsins eru hvort um sig um 2×1 m að innanmáli og snúa norðvestur-suðaustur. Á milli þeirra er um 1 m. Ekki sjást op inn í þau. Á milli þeirra og norðaustan við þau er steypt stétt og grjóthröngl þar norðaustan við.

Suðurkotsbrunnur (vatnsból)

Suðurkotsbrunnur

Suðurkotsbrunnur.

“Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum, Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Á korti sem fylgir ritgerðinni er nafnið Suðurkotsbrunnur gamli. Er það sami brunnur og merktur er inn á túnakort frá 1919. Brunnurinn var 70-75 m ANA við bæ. Hann sést en hefur verið byrgður og er þúst ofan á honum. Brunnurinn er í flatlendum hluta túnsins. Votlent er í túninu sunnan og vestan við brunninn.
Þar sem brunnurinn er sést gróin grjótþúst á yfirborði. Hún er um 3 m í þvermál og 0,4 m á hæð. Ekki var hægt að sjá ofan í brunninn og ekki fengust lýsingar af honum.

Kothús (býli)

Kothús

Kothús.

“Kothús stóðu í Skólatúni og fóru í eyði skömmu fyrir seinustu aldamót,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. “Ofan við hana [Móaflöt] var fram á síðustu ár átjándu aldar tómthúsið Kothús.
Suðvestan við bæinn var kálgarður, Kothúsakálgarður, afgirtur með grjótgörðum, sem nú eru að mestu fallnir,” segir í örnefnaskrá fyrir skólann. Kothúsakálgarður sést enn og er hann 130 m sunnan við Suðurkot. Þrjár þústir eru við kálgarðinn. Minjarnar eru í gömlu túni sem komið er í órækt. Trjágróður er í hluta kálgarðsins. Minjarnar eru á svæði sem er um 26×26 m að stærð og fá þær bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Kálgarður er fyrirferðarmestur. Hann er grjóthlaðinn en gróinn, er 26×16 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Búið er að taka grjót úr hleðslum að því er virðist og eru þær 0,3-0,4 m á hæð en ekki sést fjöldi umfara. Kothúsakálgarður tengist Sveitakálgarði í austurhorni.

Fögruvellir (býli)
“Suðaustan við nýja skólahúsið voru Fögruvellir, kot sem byggt var yfir gömul hjón á fyrstu árum þessarar aldar. Þar var búið fram yfir 1920,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Býlið var þar sem húsið Sunnuhlíð stendur nú (2013). Malarplan á milli hússins Sunnuhlíðar og malarvegar sem liggur að nýbýlum og áfram að Naustakoti. Engar minjar um býlið sjást vegna byggingaframkvæmda og vegagerðar.

Austurkot (býli)

Austurkot

Austurkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703, þá nefnd Austurhús, í eyði frá 1683. JÁM III, 127. Byggt upp fyrir 1847. JJ, 90.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 520 m2.
“Gamli bærinn í Austurkoti stóð þar sem útihúsin eru nú, sunnan við bæinn sem byggður var 1930,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Gamli Austurkotsbærinn var 130 m suðaustan við Efri-Brunnastaði og 70 m suðvestan við Traðarkot. Á túnakorti frá 1919 er hann samtengdur kálgarði sem liggur nánast í kringum allan bæinn. Kálgarðurinn skiptist í Suðurgarð og Vesturgarð eins og fram kemur í örnefnalýsingu og var upphlaðinn stígur á milli þeirra. Kálgarðarnir og stígurinn eru skráðir með bænum. Þar sem bærinn stóð eru enn gömul útihús sem kunna að hafa tilheyrt gömlu bæjarröðinni eða tekið við af eldri húsum. Aftan við (VNV við) húsin er mikið búið að raska með því að ýta jarðvegi upp í mön. Vegur að Brunnastaðabæjunum, Austurkoti og Traðarkoti liggur fast NNA við bæjarstæðið.
Ekki er bæjarhóll sýnilegur á bæjarstæði Austurkots en ummerki um bæinn eru á svæði sem er um 24×12 m að stærð og snýr NNA-SSV. Engin ummerki sjást um kálgarðana eða upphlaðna stíginn á milli þeirra.

Naustakot (býli)

Naustakot

Naustakot.

Hjáleiga Brunnastaða, í eyði 1703. JÁM III, 127. Í eyði frá 1965 en tún nytjuð frá Neðri-Bunnastöðum. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 27.
1919: Tún 1 teigur, garðar 320 m2.
“Í Naustakoti var gamla bæjarstæðið alveg í sjávarkampinum og einn veggur bæjarins hluti af sjávargarðinum sem þar var. Telur Sigurjón Sigurðsson, að þar hafi bærinn margoft verið byggður upp, og síðast 1905. Í honum var búið fram til 1924, en þá var bærinn fluttur 10-15 metra ofar í túnið. Það hús fór úr byggð 1965,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum kemur fram að Naustakot hafi ekki verið í ábúð um aldamótin 1900. Á túnakorti frá 1919 er kálgarður sýndur sambyggður bæjarhúsunum að norðanverðu og er hann skráður með bænum. Hann hét Norðurgarður samkvæmt korti sem sýnir tún og kálgarða og fylgir ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Bærinn í Naustakoti var um 180 m suðvestan við Efri-Brunnastaði og 150 m sunnan við Neðri- Brunnastaði. Mikið rask hefur orðið á gamla bæjarstæði Naustakots vegna landbrots, vegagerðar og byggingar sjóvarnargarðs. Ekki sést bæjarhóll á bæjarstæði Naustakots. Þar sjást hins vegar leifar af Norðurgarði, hleðsla og húsgrunnur. Þessar minjar eru á svæði sem er um 20×20 m að stærð og fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Ætla má að bæjarstæði Naustakots A hafi verið 40×30 m að stærð og sneri nálega norður-suður. Leifar af Norðurgarði B eru norðaustast á svæðinu. Þar afmarkar grjóthlaðið garðlag svæði sem er 3×8 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur. Það er 0,6 m á breidd og 0,3-0,5 m á hæð. Mest sjást 2 umför í hleðslum utanmáls. Stór hluti kálgarðsins er kominn undir malarveg sem liggur meðfram ströndinni á milli Naustakots og Brunnastaðabæjanna. Hleðsla C er 7 m suðvestan við Norðurgarð B og er hún á milli nýlegs sjóvarnargarðs og malarvegar. Hún sést á 11 m löngum kafla og liggur NNV-SSA. Tveir hlykkir eru á hleðslunni sem er úr grjóti og er múrlím á milli steina. Viðarstaur stendur upp úr henni á einum stað. Hleðslan er 0,3-0,5 m á hæð og mest sjást 3 umför í henni.

Skjaldarkot (býli)

Skjaldarkot

Skjaldarkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703. JÁM III, 126-7. Í eyði frá 1958, tún í eigu Efri Brunnastaða og nytjuð þaðan. Gerði 008 var norðaustast í Skjaldarkotslandi. Féll Gerði úr byggð 1905. Tjörn var einnig í Skjaldarkotslandi, að suðaustanverðu. Fór Tjörn í eyði 1918. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 30-31.
1919: Tún 2,8 teigar, garðar 1000 m2.
Bæjarhóllinn í Skjaldarkoti er norðvestarlega í túni, fast suðvestan við nýlegan sjóvarnargarð. Skjaldarkot var um 400 m norðaustan við Efri- Brunnastaði og um 150 m suðvestan við býlið Gerði. Á túnakorti frá 1919 eru sýnd nokkur útihús auk bæjar á bæjarhólnum og tveir samtengdir kálgarðar. Allar þær minjar eru skráðar saman undir númeri bæjarhólsins.
Íbúðarhúsið í Skjaldarkoti var selt og flutt í heilu lagi til Reykjavíkur á síðari hluta 20. aldar. Sléttað tún sem enn er nytjað af Efri-Brunnastöðum.
Vegur, líklega gömul heimreið, liggur yfir bæjarhólinn að suðvestanverðu að sjóvarnargarði. Talsvert rask hefur orðið á og í kringum bæjarstæðið vegna niðurrifs gamalla bygginga og byggingar sjóvarnargarðs.
Bæjarhóllinn er um 24×11 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er um 1,5 m á hæð þar sem hann er hæstur. Hóllinn er gróinn en á stöku stað sést glitta í grjót. Meðfram hólnum að norðaustan og suðaustanverðu en leifar af kálgarði sem eru um 26×25 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Grjóthleðslur sjást í austurhorni á norðausturhlið en garðurinn sést aðeins sem kantur. Mesta hleðsluhæð er um 0,6 m og sjást 2 umför. Suðaustast í bæjarhólnum mótar fyrir litlu hólfi sem er um 1,2×2 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Í suðurhorni þess sést grjót úr hleðslum. Líklega eru þetta leifar af niðurgrafinni þró sem var fast suðaustan við bæinn og sýnd er á túnakorti. Stutt er niður á yngstu minjar á hólnum.

Skjaldarkotsbrunnur (vatnsból)

Skjaldarkotsbrunnur

Skjaldarkotsbrunnur.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur 20- 30 m sunnan við bæ. “Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. Í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum], Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum.”
Brunnurinn er í túni, um 50 m suðaustan við sjóvarnargarð. Túnið er í rækt.
Lítið hús með steyptum grunni hefur verið byggt yfir brunninn. Húsið var læst þegar skráningarmaður var á vettvangi vorið 2013 og var því ekki hægt að skoða hann. Ætla má að brunnurinn sé heillegur.

Gerði (býli)

Gerði

Gerði.

Samkvæmt túnkorti frá 1919 var útihús og kálgarður um 150 m norðaustan við bæ. Þar var býlið Gerði.
“Fyrstan er að nefna tómthúsbæinn Gerði sem var norðaustast í Skjaldarkotslandi. Féll Gerði úr byggð 1905, en við hann eru kenndir Gerðiskálgarðar,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Á kort sem fylgir ritgerðinni er merktur brunnur hjá býlinu og er hann skráður með því. Enn sjást kálgarðarnir, allstór tóft og ummerki um brunninn.
Minjarnar eru á og við hóla í túnjaðri nærri mörkum móti Hlöðunesi. Til austurs eru fjárhús og annað hús. Minjarnar eru á svæði sem er um 50×50 m að stærð og snýr norður-suður. Innan þess er tóft, kálgarður, garðlag og leifar af brunni.

Tjörn (býli)

Tjörn

Tjörn.

“Tjörn var einnig í Skjaldarkotslandi, að suðaustanverðu. Fór Tjörn í eyði 1918,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Í Skjaldarkotslandi nokkru ofan við Skjaldarkot, nálægt tjörninni Gráhellu, var byggður bærinn Tjörn nokkru fyrir aldamótin 1900.” Þar segir að Tjörn hafi farið í eyði 1920. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var býlið um 130 m suðaustan við bæ 001. Því tilheyrðu tvískipt hús og afgirtur blettur sem skiptist í tún og kálgarð. Að sögn Virgils Scheving Einarssonar, heimildamanns, var íbúðarhúsið í Tjörn flutt að Efri-Brunnastöðum 2 á sínum tíma en það er ekki lengur þar. Gamla heimreiðin að Skjaldarkoti liggur yfir bæjarstæðið en enn sést móta fyrir grunni íbúðarhússins og garðhleðslum. Minjarnar eru í túnjaðri fast norðan við Brunnastaðatjörn/Gráhellu.
1919: Tún 0,09 teigar, garðar 560m2. Ummerki um býlið Tjörn sjást á svæði sem er um 30×30 m að stærð. Norðvestast á því sjást óljóst ummerki um húsgrunn. Útflattur og gróinn garður sést syðst á svæðinu. Garðurinn afmarkar svæði sem er 15×30 m að stærð og snýr ASA-VNV. Garðurinn er 1,5-2 m á breidd og 0,3 m á hæð.

Traðarkot (býli)

Traðarkot

Traðarkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703, öðru nafni Fjósahjáleiga, byggð í stað Austurhúsa. Í eyði frá 1693 en byggð aftur fyrir 1847. JÁM III, 127; JJ, 90.

1919: Tún 1,4 teigar, garðar 660 m2.
“Traðarkotsbærinn, gamli, sem byggður var 1904 af Sigurði, föður Sigurjóns, var þar sem nú er hjallur við útihúsin, norðvestan við íbúðarhúsið sem nú er. Það hús byggði Sigurjón 1927. Hvar bærinn stóð áður en faðir Sigurjóns byggði sinn, er ekki gott að segja til um, en nafnið Traðarkot telur Sigurjón vera dregið af heimtröðinni að Efri- og Neðri-Brunnastöðum sem lá þvert yfir
þýfðan móa þar sem nú er Gamlatún í Traðarkoti, og áfram upp eftir, í gegnum Tjarnarhlið eða Heiðarhlið sem þá var. Hafi bærinn staðið nálægt slíkum tröðum er ekki ólíklegt að hann hafi fengið nafn sitt af þeim,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í örnefnalýsingu segir: “Bærinn stendur á nokkuð háum bala, sem endar með lágum hól suðvestan við bæinn, Bæjarhólnum.” Bæjarstæðið í Traðarkoti er uppi á grónum hraunhól í sléttuðu túni 20-30 m suðaustan við brunn. Á túnakorti frá 1919 má sjá húsaröð á bæjarstæðinu sem var um 15 m á lengd og sneri norðaustur-suðvestur. Hlaðið var suðaustan við
húsaröðina.
Talsvert rask hefur orðið á bæjarstæði Traðarkots vegna byggingar nýrra húsa og niðurrifs eldri mannvirkja. Þar stendur eitt íbúðarhús og er búið að slétta allt í kringum það.
Ekki sést afgerandi bæjarhóll í Traðarkoti en hraunhóllinn sem bærinn er á er um 60×25 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann er 2-3 m á hæð. Við norðausturenda hólsins má sjá grjót og steypuleifar sem rutt hefur verið fram af hólnum.

Traðarkotsbrunnur (vatnsból)

Traðarkotsbrunnur

Traðarkotsbrunnur.

“Brunnlaut dregur nafn sitt af Traðarkotsbrunni …, ” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá 1919 og er um 30 m vestan við bæ.
Brunnurinn er í hólóttu túni. Dálítil brekka er frá brunninum upp á hólinn þar sem bæjarstæði Traðarkots er. Brunnurinn er grjóthlaðinn. Hann er 3,5 m í þvermál að utanmáli og 1,5 m í þvermál að innanmáli. Hleðslurnar standa vel og eru 0,5 m á hæð ofan jarðar. Steypt hefur verið ofan á brunninn og sett viðarlok þar ofan á. Gat er á lokinu og hægt að sjá niður um það ofan í brunninn. Hann virðist vera 4-5 m á dýpt og sjást 12-14 umför í innanverðum hleðslum. Ekki sést vatn í brunninum en slanga liggur úr brunninum í fiskikar sem notað er til að brynna skepnum.

Hvassahraun (býli)

Hvassahraun

Hvassahraun – Suðurkot framar.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 155. Um 1234 segir í máldaga Viðeyjarklausturs að Magnús biskup hafi gefið klaustrinu sjöundahlut úr hvalreka og viðreka í Hvallahraunslandi. (DI I, 507). Um 1284. Þá á klausturið í Viðey sjöunda hluta hvalreka á Hvassahraunslandi. (DI II, 247)1397, vitnisburðarbréf um máldag og reka kirkjunnar í Viðey að Hvassahrauni. (DI III, 341). 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 114).
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 6 vættir fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26) Hjáleigur í byggð 1703, Þóroddskot og tvær nafnlausar. JÁM III, 156-7. Hvassahraunskot hjáleiga 1847. JJ, 91 Sönghóll var býli í byggð um 1840. “Við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. …” “Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur.” Ö-Hvassahraun, 3-4, 6. Lengi tvíbýli að Hvassahrauni og fór Hvassahraun 1 í eyði fyrir 1962, Hvassahraun 2 fór fyrr í eyði.
1703: “Engjar eru öngvar. Úthagar, sem áður voru sæmilegir, gánga mjög til þurðar, því hríssrifið eyðist.” JÁM III, 156.
“Hvassahraunsbær stóð á klapparrana. Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær,” segir í örnefnaskrá. Nú stendur bárujárnsklædd timburbygging þar sem gamli bærinn var áður. Guðmundur Sigurðsson, heimildamaður, man eftir eldra húsi (forsköluðu) á nákvæmlega sama stað og það hús sem nú stendur og taldi að þar hefði Vesturbærinn í Hvassahrauni staðið um langa hríð. Húsið sem nú stendur á þessum stað er með steyptum kjallara. Það er á hæð sem virðist að mestu náttúruleg enda túnið allt í hæðum. Víða sjást hleðslur í og við bæinn. Engar leifar um torfbyggingar hafa sést á þessum stað um áratugaskeið. Hóllinn er um 200 m norðan við Reykjanesbraut.

Norðurkot (býli)

Hvassahraun

Norðurkot.

“Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði …” segir í örnefnaskrá. Um 185-195 m norðan við Hvassahraunsbæinn var Norðurkot og sjást merki þess enn greinilega. Norðurkot er um 80-90 m norðaustan við Niðurkot og útihús norðaustan við kotið er um 5 m innan við túngarð. Tóftin er tæpum 400 m neðan við Reykjanesbraut.
Norðurkot er á hæð og allt umhverfis er grasigróið tún, ræktað upp á hrauni. Túnið er allt í hæðum og dældum. Tóftin snýr norðaustursuðvestur. Fast aftan austan við hana er önnur tóft sem snýr þvert á hana og eru þær nú samgrónar. Tóftin er 12,5 X 8 m að stærð. Enginn suðvesturveggur er á tóftinni. Hólfið er grjóthlaðið en gróið að utan. Mikið grjót hefur fallið inn í það. Norðvestan við bæinn er djúp dæld og hlaðið umhverfis hana.
Suðvestan við bæinn má sjá óljósar leifar garðlags sem girt hefur af ræktaðan blett. Suðaustan við bæinn eru einnig nokkrar hleðslur garðlags sem girt hefur af tún.

Niðurkot (býli)

Hvassahraun

Niðurkot – uppdráttur.

“Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, þá var Niðurkot og Niðurkotstún …” segir í örnefnaskrá. Rúma 120 m norðvestan við bæ sjást enn leifar Niðurkots. Kotið er um 80 m suðvestan við Norðurkot og 300-350 m neðan við Reykjanesbraut. Tóftin er á grasi gróinni hraunhæð en allt umhverfis eru dældir og hæðir.
Tóftin er einföld, um 7 m á lengd en 6 m á breidd. Enginn vesturveggur er fyrir tóftinni. Hún hefur verið hlaðin úr grjóti en er alveg gróin að utan. Hæð hleðslna er 1,3 m.

Þorvaldskot (býli)

Hvassahraun

Þorvaldskot.

“Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, þá var Niðurkot og Niðurkotstún, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. Sjást þar alls staðar rústir,” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt lýsingu virðist Þorvaldskot hafa verið nyrsta kotið í túni Hvassahrauns, fremur nálægt sjó. Guðmundur Sigurðsson man ekki eftir þessu heiti en taldi að lýsingin gæti helst átt við tóftir um 300 m norðvestan við bæ. Þar er hringlaga túngarður og tóft í miðjunni. Tóftin er um rúmum 500 m norðan Reykjanesbrautar.
Tóftin og garðlagið umhverfis eru á grasi grónu svæði fast ofan við fjöruborðið. Svæðið samanstendur af einni einfaldri tóft sem er um 16 X 6 m að stærð og er opin til norðurs og túngarði sem liggur umhverfis hana. Tóftin er hlaðinn úr grjóti en er mjög gróinn að utan. Grjóthleðslur eru byrjaðar að falla inn í tóftina og því er hún aðeins 3 X 9 m að innanmáli. Stærð túngarðsins að innan er 35 m X 24 m. Hleðslur tóftarinnar eru mest 1,5 m á hæð en túngarðurinn er 0,3 m á hæð. Tóftin var þaklaus undir það síðasta og var notuð í tengslum við sjósókn.

Kirkjuhóll (huldufólksbústaður)

Hvassahraun

Kirkjuhóll.

“Kirkjuhóll er í Norðurtúni og Kirkjuhólsflöt. Hóllinn er einnig nefndur Álfahóll, því að þar messaði huldufólkið,” segir í örnefnaskrá. Skáhallt (suðaustur) af Norðurkoti er aflöng klöpp eða hóll sem liggur norðvestur-suðaustur og var nefndur Kirkjuhóll. Hóllinn er um 300 m norðan Reykjanesbrautar. Gróinn aflangur hraunhóll í túni (ræktuðu upp á hraunsvæði). Klöppin er mjög löng og í suðausturenda hennar er fjárréttin.

Látur (býli)
“Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur,” segir í örnefnaskrá. Látur er um 800 m vestan við Hvassahraun. Ekki sjást nein merki um bæjarstæði á þessum slóðum. Á svipuðum stað voru hlaðnar 3 tóftir og nokkrar vörður úr grjóti fyrir tökur á kvikmyndinni “Myrkrahöfðinginn”. Látur er um 150 m norðan við Reykjanesbraut. Þröng vík með mörgum skerjum.

Hjallhólaskúti (fjárskýli)

Hjallhólaskúti

Hjallhólaskúti.

“Hellur eru suður og upp frá Tröðunum. Lítið eitt vestar eru Hjallhólar og Hjallhólaskúti þar í. Hann var fjárbyrgi,” segir í örnefnaskrá.
Hjallhóll er rétt suðaustan túns en fast neðan Reykjanesbrautar. Hóllinn er 210-220 m suðaustan við bæ. Frá Reykjanesbrautinni er opið í hellinn greinilegt enda hellirinn innan við 20 m norðan við Reykjanesbraut.
Hraunhóll með jarðsigi. Gengið er ofan í dældina að sunnan og gefur þá að líta klettaveggi sem slúta inn og mynda þannig skjól. Hellar eða skjól eru bæði á austur- og vesturvegg.
Austari hellirinn er líklega sá sem notaður hefur verið sem fjárskýli. Hann er um 10 m á lengd en 4-5 m á dýpt. Hellinum lokar að hluta náttúruleg upphækkun en ofan á hana hefur að hluta verið hlaðið 5-7 m langur veggur.

Loftsskúti (fjárskýli)

Loftsskúti

Loftsskúti.

“Þar suður og upp af [Virkinu] er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla,” segir í örnefnaskrá. “Á einum hraunhólnum er varða sem heitir Grændalavarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum sem heitir Grændalahellir eða Loftsskúti og snýr op þess í suðurátt,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í síðari heimildinni er Loftsskúta og Grændalahelli slegið saman í eitt en Grændalahellir er 1,2 km norðan við Loftsskúta og er um tvo aðgreinda staði að ræða. Fjárskýli eru á þeim báðum. Loftsskúti er um 860 m austan við Virkið og um 1,8 km austan við bæ. Varða 124 er 20 m norðan við skútann. Fjárskýlið er ofan í hringlaga jarðfalli í grónu hrauni ofan Reykjanesbrautar. Skútinn er um 13 m á lengd og snýr austur-vestur. Hann er víðast 4 m á breidd og 0,5-1,5 m á hæð. Lofthæðin í skútanum lækkar eftir því sem innar dregur (til norðurs). Hlaðið er fyrir skútann og er hleðslan úr grjóti. Hún liggur frá austri til vesturs og sveigir lítillega til norðurs, inn undir þak skútans, og liggur í mjúkum boga frá austri til vesturs. Hún er 11 m á lengd og 0,5-1 m á breidd. Hæst er hún um 1,5 m og mest sjást 7-8 umför. Vestast í hleðslunni hefur hraunhellum verið tyllt upp á rönd í hleðslunni og halla þær inn að þaki skútans og ná þannig að loka honum alveg. Op inn í skútann er við austurenda hleðslunnar og er það 1,5 m á breidd.

Öskjuholtsskúti (fjárskýli)

Öskjuholtsskúti

Öskjuholtsskúti.

“Sunnan við Rjúpnahraun tekur við hraunhryggur, er liggur frá vestri til austurs. Heitir það Öskjuholt og nær vestur í Afstapabruna. Þar er að finna Öskjuholtsskúta, Öskjuholtsgjá og Öskjuholtsbruna ofan til,” segir í örnefnaskrá. Hleðsla er fyrir Öskjuholtsskúta og hefur hann þjónað sem fjárskýli. Skútinn er um 1,2 km sunnan við Virki og um 1,4 km suðaustan við bæ. Öskjuholtið er afgerandi í landslaginu og er stór sprunga eftir því endilöngu. Holtið er gróið og eru birkirunnar allt í kringum það og uppi á því. Erfitt er að koma auga á skútann vegna gróðurs en hann er neðst á u.þ.b. miðju sunnanverðu holtinu. Þröngt op er inn í skútann í austurenda sem er 0,5 m á breidd. Skútinn er um 1 m dýpri en umhverfið fyrir utan hann.
Grjóthleðsla er við vestanvert opið inn í skútann. Hún er einföld á breiddina en í henni sjást þrjú umför hleðslu og er hún um 1 m á hæð. Skútinn er allstór, 5×10 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Í vesturenda hans má sjá kindabein. Skútinn er hæstur innan við opið inn í hann en þar er hann um 1,2 m á hæð. Hann lækkar skarpt til vesturs. Ekki sjást önnur mannaverk á eða við skútann en áðurnefnd hleðsla.

Markhelluhóll (áletrun)

Markhelluhóll

Markhelluhóll.

“Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa. – Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða,” segir í örnefnaskrá. Markhelluhóllinn með vörðu og áletrun er um 800 m suðaustan við Búðarvatnsstæði og 7,6 km suðaustan við bæ. Áletrunin hefur einnig verið skráð í landi Krýsuvíkur en þar er vörðunni ekki lýst. Hóllinn er á holti sem er mjög sprungið og margar djúpar gjár eru á því norðvestanverðu. Mosavaxið hraun er allt í kring.
Markhelluhóll er allhár og krosssprunginn. Áletrunin er á flatri hellu á norðausturhlið hólsins. Stafirnir er um 10 sm á hæð og nær áletrunin yfir svæði sem er 0,5×0,6 m að stærð. Hún er enn vel greinileg. Varðan er 10 m sunnan við áletrunina, á hæsta punkti hólsins. Hún virðist ungleg eða hefur verið endurhlaðin. Viðarprik stendur upp úr henni. Varðan er um 1 m í þvermál og 1 m á hæð. Hleðslan í henni er óvönduð en í henni má sjá 3 umför.

Búðarvatnsstæði (vatnsból)

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæði.

“Þaðan [frá Markhelluhól] liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll,” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata [069] liggur með fram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæði. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. … Vatnsstæðið er nokkuð stórt miðað við önnur í hreppnum og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum. … Það er líklegt að þeir sem unnu við kolagerð og hrístöku í Almenningi hafi hafst við tímabundið við Búðarvatnsstæði og af því sé nafnið dregið,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Vatnsstæðið er um 270 m suðaustan við vörðu, 3,7 km suðaustur af Hvassahraunsseli og 6,9 km suðaustan við bæ.
Vatnsstæðið er á mosavöxnum flata í skeifulöguðu viki inn í úfið, mosavaxið apalhraun. Það er innst/vestast í vikinu, næst hraunbrúninni. Staurar úr gömlu sauðfjárveikivarnargirðingunni sjást enn, sem og hleðsla sem var undir henni. Hún liggur frá hraunjaðri, að vatnsstæðinu og yfir það. Vatnsstæðið er um 5×9 m að innanmáli og snýr norður-suður. Af bakka og niður á vatnsborð er um 0,5 m og niður í botn eru um 0,8 m. Lögun vatnsstæðisins er fremur regluleg og því líklegt að mannaverk séu á því. Engar aðrar skýrar minjar sjást hér í kring en óljós tóft er þó mögulega við suðvesturhorn vatnsstæðisins. Meint tóft er um 6×4 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hún er grjóthlaðin en nánast algróin. Það sést í grjót í suðvesturenda og utanverðum suðaustur-langvegg. Mesta hæð veggja er um 0,2 m. Innst í meintri tóft, í norðausturenda er ferköntuð dæld sem er 0,3×0,4 m að innanmáli, snýr eins og tóft, og er 0,1 m á dýpt. Ýmsar mosaþústir eru hér í kring en engin þeirra hefur tóftarlag og óvíst er að hér séu fleiri minjar.

Brugghellir (hellir)

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

“Fast við Strokkamel að suðvestan er djúpur hellir eða jarðfall og til skamms tíma var girðing umhverfis opið svo kindur féllu ekki þar niður. Í hellinum eru hleðslur en niður í hann er aðeins hægt að komast með því að síga eða nota stiga. Sagt er að hellirinn hafi verið notaður til landasuðu á bannárunum og því oft kallaður Brugghellir,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Hellirinn er um 730 m suðvestan við bæ og 1,5 km VSV við fjárskýli í Virkinu.
Hellirinn er í fremur flatlendu og jafnlendu mosagrónu hrauni. Leifar af girðingu eru í kringum hellisopið sem er beint niður í hraunið og tveir uppistandandi staurar.
Hellisopið er um 2 m í þvermál og eru 4-5 m niður úr því ofan á hellisgólf. Ekki sést vel ofan í hellinn sökum myrkurs. Þó sést að vatn stendur í honum (haust 2014).

Grændalahellir (fjárskýli)

Grændalahellir

Grændalahellir.

“Norðaustur af Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir og Grændalavarða,” segir í örnefnaskrá. “Á einum hraunhólnum er varða sem heitir Grændalavarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum sem heitir Grændalahellir eða Loftsskúti og snýr op þess í suðurátt,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í síðari heimildinni er Loftsskúta og Grændalahelli slegið saman í eitt en Loftsskúti er 1,2 km sunnan við Grændalahelli og er um tvo aðgreinda staði að ræða. Fjárskýli eru á þeim báðum. Grændalahellir er norðan í hólnum sem Grændalavarða er á og gengið er inn að norðan til suðurs. Hellirinn er um 100 m suðaustan við steyptan stöpul frá Landmælingum sem sést greinilega frá Reykjanesbraut. Hann er um 2 km ANA við bæ.
Gróið hraun. Fjárskýlið er að mestu náttúrulegt. Hellirinn er 11-12 m á lengd og 3-4 m á breidd. Hæstur er hann 1,6-1,8 m en hallar mikið inn á við. Fyrir framan hellinn er náttúruleg hraunbrún sem afmarkar hann en ofan á henni er grjót og hleðslur á stöku stað. Skarð er í hraunbrúnina á einum stað.

Suðurkot (býli)

Hvassahraun

Hvassahraun – túnakort 1919.

“Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði,” segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað hvar Suðurkot var. Suðaustan við Hvassahraunsbæinn voru tún nefnd Suðurtún og því eðlilegt að álykta að á þeim slóðum hafi Suðurkot verið. Hins vegar ber að hafa í huga að Sjávargata er sögð liggja frá bænum (Hvassahrauni) og niður að sjó og Suðurkot er sagt austan hennar.
Samkvæmt því ætti því Suðurkot að vera norðan bæjar! Ef svo hefur verið má vera að hringlaga garðlag sunnan Norðurkots gæti hafa kallast Suðurkot. Garðlagið sem enn sést er a.m.k. sunnar en önnur kot sem þekkt eru í túninu. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.
Grasi gróið hraunsvæði þar sem skiptast á hæðir og dældir.

Hvassahraunssel (sel)

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir, en vatnsból brestur til stórmeina.” “Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnan nokkur Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásnum. Veggir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af selinu og er erfitt að finna það,” segir í örnefnaskrá.” Á heimasíðu FERLIRs segir: “Í austurátt frá Haugrúst og langan veg suðaustur af Bennhólum sjáum við Selásinn eða Selhæðirnar og þar norðvestan undir er Hvassahraunssel.
Selstæðið er nokkuð stórt og þar eru tveir rústahólar en kvíin er vestarlega í seltúninu,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Hvassahraunssel er um 3,1 km suðaustan við bæ 001 og 215 m VNV við vörðu 065 á Selásnum.
Selið er vestan og norðan við Selás sem er afgerandi í landslaginu og veitir skjól. Selstæðið er fremur flatlent næst ásnum en svo taka lágar hraunhæðir við og lautir á milli enn fjær er mosagróið hraun. Gras vex enn á selstæðinu en mikill mosi er í því.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir ennfremur: “Jón Helgason frá Litlabæ segir í sendibréfi árið 1984: “Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráðskona þegar hún var ung að árum en hún lifði líklega fram á annan tug þessarar aldar.” … Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans sem hófst árið 1856 en þá var allt fé skorið niður hér um slóðir … .” Fjórar tóftir eru sýnilegar á selstæðinu.

Hraunsnesskjól (fjárskýli)

Hraunsnesskjól

Hraunsnesskjól.

“Frá [Hraunsnefs-]tjörnunum blasir við Hraunsneshellir eða Hraunsnesskjól, og tekur þá Hraunsnes við,” segir í örnefnaskrá. Hraunsneshellir er skúti sem hlaðið hefur verið fyrir og notaður sem fjárskjól. Hann er um 280 m norðan við meint skotbyrgi 030, 90 m suðaustan við vörðu 131 og um 2,1 km norðaustan við bæ.
Fjárskýlið er norðan við Hraunsnefstjarnir í litlu viki inn í hraunhóla sem eru krosssprungnir. Grösugt er í kringum tjarnirnar en þar fyrir utan er hraunmói í næsta nágrenni.
Grjóthleðslur eru bæði framan við skútann og uppi á þaki hans og eru þær á svæði sem er 10×5 m að stærð og snýr norðvestur- suðaustur. Skútinn er um 10×2 m að innanmáli og er rúmlega 1 m á hæð þar sem hann er hæstur. Hlaðinn veggur liggur í sveig framan við skútann. Um 2 m norðvestan við suðausturenda veggjarins er op sem er 0,6 m á breidd. Veggurinn er um 1 m á breidd en hrunið hefur úr honum, sér í lagi úr innri brún norðvestan við opið en suðaustan við opið er veggurinn alveg útflattur. Mesta hleðsluhæð er um 1,2 m og mest sjást 5 umför hleðslu. Inni í skútanum og utan hans er spýtnabrak og annað rusl. Frá suðausturenda veggjarhleðslunnar framan við skútann liggur önnur hleðsla upp á þak hans. Hún er um 6 m á lengd og liggur í sveig til norðvesturs. Hleðslan er 1 m á breidd og 0,5 m á hæð. Í henni sjást 3 umför í innri brún en ytri brún sést ekki og er gróin.

Hvassahraunskot (býli)
Hjáleiga Hvassahrauns 1847. JJ, 91.
Norðurkot, Niðurkot og Suðurkot voru oft einu nafni nefnd Hvassahraunskot, einnig getur verið að Hvassahraun 2 hafi verið nefnt Hvassahraunskot en ekkert verður um það sagt.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.