Færslur

Heiðarvegur

Haldið var eftir slóð upp og austur yfir Bláfjallahorn. Þar blasir við varða á Heiðarveginum, h.y.s 591m. Vörðubrot er sunnar út undir Bláfjallahorninu.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Gengið var austur framhjá stórri vörðu hlaðinni úr hraunhellum. Framundan eru leirsléttur og eru nokkrar grjóthrúgur á þeim (hugsanlega fallnar vörður). Síðan tekur við vörðuð leið austur fyrir Kerlingarhnjúk. Fljótlega kemur stikaða leiðin um Reykjaveg á Heiðarveginn og hafa vörðurnar verið hlaðnar upp á þeim kafla. Við 14. vörðu eða vörðubrot beygir Reykjavegurinn í norð-austur í skarð á milli Bláfjalla og Kerlingarhnjúks. Áfram var haldið þvert fyrir dalkjaftinn milli Bláfjalla og Kerlingarhnjúks og fram á brúnir austan við hnjúkinn. (Taldar voru 7 vörður og vörðubrot á þeim kafla). Vörðubrot er á brúninni.

Heiðarvegur

Varða á Heiðarvegi.

Vegalengd frá Bláfjallahorni er um 2 km. Héðan sést austur til jökla og suður til sjávar. Nokkuð bratt er beint niður brekkuna en meira aflíðandi rétt norðar utan í Kerlingarhjúk og einnig sunnar í hrauninu og er þar hugsanlega gata (steinar ofan á steinum). Mikið úrrennsli er hér og djúpir vatnsfarvegir í þykkum jarðvegi niður dalverpi í aflíðandi halla. Fljótlega sér fyrir götum í grasi og er mikið úrrennsli úr þeim. Lækjarfarvegur er hér með hraunbrún Heiðarinnar há og sjást götur norðan við farveginn. Virðist fylgja honum niður á Hrossahryggi og Hrossaflatir þar sem þær koma á Ólafsskarðsveginn.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Þegar neðar dregur verða göturnar greinilegri, liggja í vallendi á bökkum vatnsfarvegsins sem orðinn er að árfarvegi. Þessi farvegur virðist taka við miklu af leysingarvatni af Heiðini há og Bláfjöllum austanverðum. Nú er komið að vörðu. Gatan virðist skiptast nokkrum sinnum. Önnur fer áfram niður með ánni en hin fer stytting yfir móa og virðist þræða valllendisræmur í gegnum móana. (Getur verið að vallendið hafi myndast við umferðina?). Næst er komið fram á brekkubrún og sést þá klettaborg framundan með þrem vörðum. Tvær eru syðst á klettinum og ein á norðurbrún og er hún stærst. Stór hella er neðarlega í hleðslunni og skagar út úr henni og virðist hún vísa á götuna norðan með klettinum.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – Geitafell fjær.

Í holtinu er fallegt vatnsstæði eða drykkjarsteinn í berginu. Vörðurnar gætu hafa verið merki um það. Framundan sést steinn á kletti (varða) og er gatan sunnan við hana. Enn er varða á leið okkar nærri árfarveginum. Vegamót virðast vera á Hrossaflötum. Beint áfram er lækjarfarvegur sem hefur stefnu á Þúfnavelli austan við Geitafell. Hraun er hér undir og suður í átt að Geitafelli.
(Frá því að gengið var á brúnir í júní virðist eitthvað hafa verið átt við vörðurnar síðan þá).
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 2 klst og 20 mín.

Heiðarvegur

Varða við Heiðarveg.

Heiðarvegur

Gengið var frá Bláfjöllum í vesturátt. Eftir að hafa gengið tæpan kílómetra á helluhrauni og á jeppaslóð, var komið að hraunhól sem á var varða.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Sprunga er í hólnum með gras í botni og líklega gott skjól í henni. Að vestan er líkt og dyraop og er hægtað ganga á jafnsléttu inn í sprunguna. Punktur tekinn. Áfram var gengið í vesturátt í stefnu á Grindaskörð, á helluhrauni nokkuð grónu, með leirsléttum. Á vinstri hönd er eldborg og gróft hraun í kring, á hægri hönd er Strompahraunið og er um 300 metrar á milli hraunanna. Að gengnum 1.655 metrum (í beina loftlínu) var komið að tveimur vörðum sín á hvorum hólnum og er slakki á milli hólanna. Greinileg gata var á milli hólanna. Þegar horft var til baka sást á áframhaldandi vörðu í austurátt. Á leiðinni eftir jeppaslóðinni, var varðaða leiðin á vinstri hönd suður). Varða er einnig sjáanleg héðan í vestur átt og voru tekin hnit á hana. Næsta varða þar á eftir er að mestu hrunin en sést þó enn.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Komið var að hraunbrún. Framundan er úfnara hraun, en mjög stutt er yfir það að hlíðum (Stórkonufells?). Í suður í átt að Litla-Kóngsfelli og var stæðileg varða í þá áttina. Hún gæti verið við vegamót. Önnur leiðin liggur þá suður með hraunbrúninni og suður fyrir Stórkonugjá við Litla-Kóngsfell og hin leiðin liggur áfram í stefnu yfir hraunhaftið.

Gengið var áfram í sömu stefnu yfir hraunhaftið, nokkra tugi metra og kom á Reykjaveginn við hlíðar Stórkonufells og síðan yfir nyrðri enda Stórkonugjár og er greinileg gata þar og nokkuð breið. (Reykjavegurinn stefnir vestur yfir og suður með Stórkonugjá í stefnu á veg í Kerlingaskarð). Síðan var gengið norðvestur með hlíðunum í átt að skarðinu norðan við Stórabolla.
Þegar komið er að þar sem farið er upp í skarðið norðan við Stórabolla er myndarleg varða þar, niður undir jafnsléttu og hálfhruninn varða er rétt þar neðar í stefnu á hraunbrún á hrauninu sem er sunnan við bollana. Þegar horft er úr brekkunni undir Stórabolla og vörðurnar bera hver í aðra, má sjá góðan veg með hraunbrúninni.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – varða.

Þegar komið var neðarlega í brekkurnar norðan skarðs og gengið eftir jeppaslóða, var fyrir varða í 336 m hæð. Punktur tekinn.
Neðst í brekkunum komu saman jeppaslóðinn og reiðvegur og eða fjárgata í 276 metra hæð. Þegar gengið var áfram með hlíðum undir Kristjánsdalahorni, sást greinileg gata upp og bak við smá hnjúk sem sker sig frá fjalllendinu. Þegar komið var norður fyrir hnjúkinn sást gatan greinilega þar sem hún skáskar brekkuna niður á jafnsléttu. Neðar eru vatnsstæði.
Aftur var farið upp að Bláfjöllum og gengið frá þeim í suður. Eftir að hafa gengið um 800 metra frá horninu, var komið að vörðu. Þaðan var gengið í norðvestur og eftir að hafa gengið um 500 metra sást hraunhóll og var steinn á toppi hans.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – vörður.

Hóllinn er holur að innan og er þar sæmilegur skúti og geta nokkrir menn haft þar skjól. Svo virðist sem brotið hafi verið úr munanum niður við jörð og er hægt að ganga inn líkt og um dyraop. Punktur tekinn. Skúti þessi er í beinni línu við næstu vörðu sem komið var að. Um 500 metrar eru frá skútanum að henni. Vestan við vörðuna er grasivaxin dæld og þegar horft er í norðvestur á næstu vörðu blasir við greinileg gata í grasinu, nokkra tugi metra. Þessi gata er ekki fjárgata, einn og hálfur til tveir metrar á breidd þar sem hún er breiðust.

Heiðavegur

Varða á Heiðarveginum.

Síðan var gengið að næstu vörðu sem blasti við. Eru um 220 metrar að henni. Hæð y.s.m. eru 515 m. Þegar nær var komið sást að vörðurnar eru tvær. Sú sem fyrr er komið að, er hálf hruninn en nokkrum metrum frá er stæðileg varða. Vörðurnar eiga líklega að bera hvor í aðra til að fá stefnu á næstu vörðu. (Eða að vísa á sprungna hraunhólinn með vörðunni sem sást í fyrri ferð í um 20-30 metra fjarlægð).
Ekki sást til næstu vörðu í norðvestur eða vesturátt en í vestur er varða sem áður hafði verið komið að og er um 1.600 metrar í hana. Enn styttra er að aðra vörðuna.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – Geitafell fjær.

Hér er ágætis útsýni yfir landið frammundan, það fer lækkandi í norðvestur og vestur og er vegur ágætur um helluhraun.
Í vestur er nokkuð stór nafnlaus eldborg sem áður er getið með grófu hrauni umhverfis en hraunið úr henni nær ekki langt norður fyrir hana. Heiðarvegurinn liggur því norðan við eldborgina, um nokkurskonar hlið á milli úfinna hrauna.
Því miður var ekki hægt að skoða meira í bili en klára þarf að staðsetja vörður á 1.600 metra kafla og athuga hvort gatan greinist austan við Stórkonugjá. Þá er eftir að staðsetja vörður austur um heiðina niður Hrossahryggi eða um Guðrúnarbotna að Ólafsskarðsvegi.
Frábært veður í frábæru landslagi.

Heiðarvegur

Varða á Heiðarveginum – Geitafell framundan.

Heiðarvegur

Rakinn var Heiðarvegur, gömul þjóðleið milli Selvogsgötu ofan Grindaskarða og Ólafsskarðsvegar sunnan við Fjallið eina. Selvogsgatan (Suðurfararvegurinn) var gamla þjóðleiðin millum Selvogs og Hafnarfjarðar og Ólafsskarðsvegur var gamla þjóðleiðin milli Ölfus og Reykjavíkur. Heiðarvegurinn tengdi þessar gömlu þjóðleiðir og lá auk þess áfram niður að Hrauni í Ölfusi, um Selstíginn framhjá Hraunsseli.
VarðaEinn FERLIRsfélaganna “skrapp” til að leita að Heiðarveginum. Hann byrjaði þar sem áður hafði verið merkt “Heiðarvegur við Hraunbólu með einum steini uppá” (sjá Heiðin há – vörður). Í fyrstu gat hann ekki séð neina greinilega götu þarna, en niðri á sléttunni þar sem hallaði niður að Stórkonugjá var eitthað sem gat verið varða. “Þarna niðri koma fyrsta varðan í ljós og síðan var hægt að rekja vörðurnar að Stórkonugjá. Gatan sjálf er hvergi greinileg og væri ekki hægt að rekja hana ef ekki væru vörðurnar.”
Að austanverðu stoppaði FERLIRsfélaginn við klapparhól með 3 vörðum á (hélt að þar væri hann kominn að Ólafsskarðsvegi). Síðar átti eftir að koma í ljós að enn vantaði “spölkorn” inn á gatnamótin sem og framhaldið þvert á þau áleiðis niður að Hrauni.
“Á landakorti LMÍ er Kerlingahnúkur settur á gíg Heiðarinnar (Heiðartopp). Hann er ekki rétt staðsettur (er reyndar undir ellinu í Bláfj… ?  Þannig að þetta er ein samfelld leið er stefnir á Sandfellið”.
Ekki var hjá því komist að fara þrjár ferðir í þessa leit frá VörðurBláfjallaskálanum. “Fyrsta ferðin til austurs tók rúma 5 tíma og fór þá drjúgur tími í að leita að leiðinni eftir að vörðunum sleppti við Kerlingahnúkinn (sem er því miður rangt merktur á landakort [þær eru ekki ófáar klukkustundirnar sem FERLIRsfélagar hafa þurft að eyða í að leita eftir rangt staðsettum landakortum LMÍ)). Hálfa leiðina að vörðunum 3 (sjá fyrrnefna lýsingu) er enga götu að finna, svo kemur greinileg gata að vörðunum en hverfur svo aftur handan þeirra og kemur svo ekki aftur í ljós fyrr en við hólinn þar sem gangan endaði í það skiptið. Ferðin til vesturs tók tæpa 4 tíma og gekk vel eftir að fyrsta varðan var fundin, aðeins á 2 stöðum þurfti að leita að næstu vörðu. Þriðja ferðin var farin til að tengja leiðina saman sem eina heild. Í það sinnið lengdist hún til suðausturs, yfir Ólafsskarðsveginn áleiðis niður í Ölfuss að Hrauni.”
Það þarf bæði þolinmæði og glöggskyggni til að rekja hinar fornu götur. Tíminn (akstur og nesti) er og hefur þó ávallt verið vanræktur þáttur við slíka umleitan.
Frábært veður. Leitin og gangan um Heiðarveginn tók 17 klst. og 17 mín.
Heiðarvegur

Kóngsfell

Gengið var upp frá gígunum í Strompahrauni norðvestan við suðurmörk Bláfjalla.

Kerlingarhnúkur

Göngusvæðið – kort.

Ætlunin var að ganga yfir á Kerlingarhnúk og fylgja síðan Heiðarveginum niður að Grindarskörðum, kíkja á Kóngsfell og fylgja síðan götunni um Kerlingargil niður á Bláfjallaveg (Selvogsötu).
Þegar gengið var upp Strompana í Strompahrauni mátti vel sjá hvernig hraunið hefur breytt úr sér til norðurs. Í hrauninu eru allnokkrir hellar, sem vert er að skoða.
Kerlingarhnúkur var framundan, vestast í Bláfjöllum, 613 m.y.s. Af honum er fagurt útsýni yfir svæðin neðanverð. Stefnan var tekin til vesturs í von um að hitta á Heiðarveginn, sem liggur um Heiðina há vestanverða.

Heiðarvegur

Á Heiðarvegi.

Vegurinn liggur frá Ólafsskarðsvegi ofan við Leitin í austanverðum Bláfjöllum og niður á Selvogsgötu ofan Grindarskarða í vestri. Eftir stutta göngu var komið inn á gamla götu. Vörðubrot mátti sjá á stangli. Götunni var fylgt niður með Stórkonugjá og áleiðis niður að gatnamótum Selvogsgötu. Þar eru vörður. Stefnan var tekin á Kóngsfellið ofan við Stórabolla, það skoðað, og síðan haldið áfram að Kerlingarskarði milli Miðbolla (Litla-Kóngsfells) og Syðstubolla. Eftir að hafa litið á drykkjarsteininn efst í skarðinu var götunni fylgt niður skarðið, skoðuð tóft brennisteinsnámumanna undir því og síðan gengið áfram niður á Bláfjallaveg.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Bollar

Tvíbollar.