Tag Archive for: Hellisheiði

Eldborgir

Í Andvara 1973 er grein eftir Finnboga Guðmundsson; „Gripið niður í fornum sögum – og nýjum„:

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Þar segir m.a. annars: „Hvað er það í fornum frásögnum, er hrífur oss einna mest? Eru það ekki hinir einföldu drættir og skýru myndir, sem þar er tíðum brugðið upp?
Vér skulum líta á t.a.m. örfáar frásagnir af jarðeldum eða öðrum náttúruhamförum“.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Í Landnámabók segir svo frá: „Allir kannast við frásögn Kristnisögu af því, er menn deildu sem fastast um hinn nýja sið á alþingi sumarið 1000 og maður kom „hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða [er þá hafði tekið kristni].
Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í, að goðin reiðist tölum slíkum.“

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eftir það gengu menn frá lögbergi.
Jarðfræðilegar athuganir á Eldborgarhrauni og hraunum Hellisheiðar hafa leitt í ljós, að frásagnir Landnámabókar og Kristnisögu af fyrrnefndum jarðeldum fá að öllum líkindum staðizt, að Eldhorgarhraun hið yngra hafa raunverulega runnið á landnámsöld og hraun hafi teygt arma sína af Hellisheiði ofan í byggð sumarið 1000.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1973, Gripið niður í fornum sögum – og nýjum – Finnborgi Guðmundsson, bls. 100-101.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Kristnitökuhraun

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 fjallar Gísli Sigurðsson um „Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið„.

KristnitökuhraunVegna þess að Kristnisaga hefur eftir sendiboða að hraunið „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða“ töldu menn að hér væri sagt frá framrás Þurárhrauns eða Eldborgarhrauns, nokkru vestar, sem bæði runnu niður af hlíðinni ofan Ölfuss. En bæði þessi hraun eru eldri en 1000 ára og Kristnitökuhraunið er nú talið vera á öðrum slóðum.

„Á umliðnum öldum og þá ekki sízt nú á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi hafa margsinnis verið rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekizt var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Í nýrri bók, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: „Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sigalfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar eins og hún er almennt þekkt nú á dögum koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnstefið um eldsumbrot í Ölfusi.
KristnitökuhraunÍ núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristnisögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram: Þá kom maður hlaupandi, og sagði, aðjarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.“ Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á“.

KristnitökuhraunBer tvímælalaust að skilja atvik þetta sem eitt af þeim stórmerkjum sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita og sýndu að kristnitakan fól í sér úrslitaátök illra og góðra afla tilverunnar.
Athyglisvert er að í þetta sinn er sú túlkun sett fram út frá sjónarhorni heiðinna manna. Hér er á ferðinni eina atvik kristnitökusögunnar sem mögulegt er að styðja ytri rökum, en Kristnitökuhraun á vestanverðri Hellisheiði rann einmitt um þetta leyti. Því kann hér að vera um forna sögn að ræða.“

Kristnitökuhraun

Hellisheiðarhraun.

Bókarhöfundurinn fer frjálslega með staðhætti þegar hann segir Kristnitökuhraun vera á vestanverðri Hellisheiði, að minnsta kosti teygir hann Hellisheiði lengra vestur á bóginn en gott og gilt getur talizt.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.

Ég hygg að sú skilgreining hafi verið til lengi og ekki breytzt neitt nýlega, að Hellisheiði nái frá Kambabrún að austan að Hveradölum og Reykjafelli að vestanverðu. Hverahlíð sé í suðurmörkum heiðarinnar, en Skarðsmýrarfjöll að norðanverðu. Það er fyrst þegar komið er niður úr brekkunum við Hveradali og hálfa leið að vegamótunum suður í Þrengsli að komið er út á Svínahraunsbruna, sem fullvíst má nú telja að sé Kristnitökuhraunið. Þjóðvegurinn liggur síðan á þessu hrauni 10-12 km. Þetta er hluti þeirra hrauna sem tíðkast hefur að nefna Svínahraun, en jarðfræðingar nefna það Svínahraunsbruna. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000 árum.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Ekkert annað hraun rann á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Það hefur hinsvegar verið nokkuð frjálslega með farið, en þjónað tilganginum, að gefa til kynna hættu á bæ Þórodds goða, hvort sem hann bjó á Hjalla eða Þóroddsstöðum. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi suður í Ölfus og á bæ goðans.

Leiti

Gígurinn Leiti (á miðri mynd) austan Bláfjalla. Lambafellshnúkur fjær.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurnveginn samhliða Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.

Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vesturs, nokkurnveginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Þeim sem ekki eru með einstök fjöll og örnefni á hreinu skal bent á að vegamótin suður í Þrengsli eru við Lambafell og fellið þekkist af stóru sári vegna umfangsmikillar efnistöku sem varla fer framhjá vegfarendum.

Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni og þangað liggur stórgrýttur og illfær vegarslóði, en til hvers skyldi hann hafa verið lagður í svo úfið hraun?

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Það sést þegar komið er nær eldstöðinni. Þar er svöðusár austan í henni eftir efnistöku, hreinn barbarismi og skaði sem ekki er hægt að bæta. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð; svo djúp að í henni eru ennþá fannir.

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Milli Eldborganna tveggja eru á að giska 4 km. Syðri-Eldborg er aðeins um 2 km frá Leitinni; gosið úr henni kom eitthvað örlítið síðar, það sést á hraunstraumnum.
Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum; samt vaxið þykkum grámosa sem tekur oft á sig gulan lit þegar hann vöknar. Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið árið 1000 yfir Leitarhraunið til norðausturs, þó ekki nema 2-3 km austur og norðaustur af veginum í Svínahrauni.
Danski fræðimaðurinn Kristian Kálund ferðaðist um Ísland á árunum 1872-74 og gaf síðan út bók um íslenzka sögustaði, sem Haraldur Matthíasson hefur þýtt. Kálund nefnir frásögn Kristnisögu um jarðeld sem ógnaði Hjalla í Ölfusi. Hann segir þar að hraunið sem stefndi á bæ Þórodds goða hafi verið Þurárhraun, sem runnið hafi út úr þröngu gili og fram af brúninni talsvert austan við Hjalla. Þar hafi það dreift talsvert úr sér á flatlendinu.
Þarna fór Kálund villur vegar, enda hafði hann engar rannsóknir til að byggja á. Þurárhraun er úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni eins og áður er lýst.

Kristnitökuhraun

Eldborg við Meitla.

Að sögn Jóns Jónssonar jarðfræðings hefur gosið fjórum sinnum í Hellisheiðareldstöðinni á nútíma, það er síðustu 10 þúsund árin. Hraunið sem þekur hlíðina í Kömbum er þaðan ættað; annað rann suðvestur með Stóra-Meitli og niður Hveradalabrekkuna, en Þurárhraun er yngst; þó miklu eldra en Kristnitökuhraun eða Svínahraunsbruni. Eins og víðar hafa veruleg spjöll verið unnin á Hellisheiðareldstöðinni vegna efnistöku. Gígarnir, eða það sem eftir sést af þeim, eru austan undir háum rauðamalar- og gjallkollum; hrauntraðir út frá þeim til austurs. Hár gjallkollur, sá þeirra sem næstur er þjóðveginum á Hellisheiði, er þó lítt skemmdur og þyrfti að friða hann.
KristnitökuhraunÞorvaldur Thoroddsen fór um þessar slóðir 1882 og minnist í ferðabók sinni á munnmæli um að Þurárhraun sé það hraun sem Kristnisaga getur um. Þorvaldur efast um að það standist og nefnir, að hafi Þóroddur goði búið að Hjalla sé líklegra að sagan eigi við annað nýlegra hraun, komið úr Meitli. Hér á Þorvaldur við hraunið sem runnið hefur fram af hlíðinni vestan við Hjalla og liggur Þrengslavegurinn á þessu hrauni í brekkunni upp á heiðina.
Ekki er alveg ljóst hvort sá mæti maður, Þóroddur goði, bjó á Hjalla eða á Þóroddsstöðum, lítið eitt vestar, og hvort sá bær sé þá nefndur eftir honum. Hafi hann búið þar og þetta hraun steypst fram af hlíðinni sumarið 1000 hefur það verið mjög áhrifamikil bending um reiði guðanna. En sú guða reiði hafði reyndar orðið löngu áður, og hverju reiddust guðin þá? Þetta hraun sem nefnt er Eldborgarhraun eftir eldstöðinni er miklu eldra en kristni á Íslandi; það er að vísu nútímahraun, en nokkur þúsund ára gamalt. Upptökin eru í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu. Hinsvegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu.

Eldborg

Eldborg í Þrengslum.

Sæmileg jeppaslóð liggur frá Þrengslaveginum sunnan undir hlíð Litla-Meitils og allar götur að eldstöðinni. Hafa menn riðlast á torfærubílum alveg upp á gígbrún, en hlíðarnar eru að utanverðu vaxnar þykkum grámosa sem þolir ekki einu sinni umgang, hvað þá ruddaskap af þessu tagi. Ofan af gígbarmi Eldborgar undir Meitlum sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorlákshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áður nefnd eldstöð ofan Hveradala er í beinni línu. Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi sem átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofaná Þurárhrauni og Eldborgarhrauni. Þessvegna vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristnitökuhraun
Þorvaldur Thoroddsen fer villur vegar í lýsingu sinni; segir bæði hraunin „tiltölulega ný og hafa efalaust runnið síðan land byggðist, en sögur segja mjög sjaldan frá náttúruviðburðum, síst á þessum útkjálka.“ Í gosannál eldfjallasögu sinnar gerir Þorvaldur ekki upp á milli þessara hrauna, en er þó fyrstur til að draga í efa munnmælin um að Þurárhraun sé Kristnitökuhraunið.
Í lýsingu sinni á jarðfræði Árnessýslu 1943 greinir Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá eldstöðvum á Hellisheiði og telur hann þar að bæði Þurárhraun og Eldborgarhraun geti átt við lýsingu Kristnisögu. Fram yfir 1960 héldu menn í þessa skoðun.

Heillisheiði

Heillisheiðarhraun (Þurárhraun) og Eldborgarhraun (Grímslækjarhraun).

Víðtækar rannsóknir fóru fram árin 1947-49 á jarðhitasvæðum í Hengli og Hveragerði og þá kannaði Trausti Einarsson jarðfræðingur meðal annars hraunin á Hellisheiði. Í skýrslu sinni frá 1951 segir hann:

Þurárhraun

Þurárhraun.

„Viðvíkjandi aldri Þurárhrauns, má geta þess, að Eldborgarhraun sunnan við Hjalla, sem er mjög gamalt, hefur verið þakið þykkum jarðvegi, er síðar fauk nær algerlega af því. Þurárhraun er hinsvegar mjög unglegt og yngst Hellisheiðarhraunanna, og eina hraunið, sem komið getur heim við frásögn Kristnisögu um eldgos árið 1000.“ Þessi kenning fær enn stuðning frá Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi 1960. Á sjötta tugnum hafði hann kannað jarðfræði Hellisheiðar og fjallaði hann um niðurstöðurnar í ritgerð sinni til fyrrihlutaprófs í jarðfræði við Kölnarháskóla og síðar einnig í Náttúrufræðingnum.
Kristnitökuhraun
Niðurstaða Þorleifs var svofelld: „Eldstöðvar þær sem best eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km á lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er reyndar stærsti gígur sprungunnar.“
Raunar segir Þorleifur einnig að Svínahraunsbruni hafi runnið út yfir hraunkvíslina, sem rann vestur af Hellisheiði framan við Hveradali, og sé því runnin eftir árið 1000.
Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristnitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson jarðfræðingur birti grein í Náttúrufræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðans, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg hundruð ár áður en land byggðist.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Í sömu grein kveðst Jón hafa fundið öskulagið sem kennt er við landnám í jarðvegi ofan á gosmölinni frá Eldborg undir Meitlum. Því sé ljóst að gosið sem Kristnisaga getur um, sé hvorki komið ofan af Hellisheiði né frá Eldborg undir Meitlum. Þar með er ljóst að böndin hafa borizt að Svínahraunsbruna á svæðinu vestan Hellisheiðar.

Grímslækjarhraun

Grímslækjarhraun – afurð Eldborgarhrauns.

Jón Jónsson skrifaði aðra grein í Náttúrufræðinginn 1979 og er fyrirsögn hennar „Kristnitökuhraunið“. Þar segir Jón frá því að landnámsöskulagið hafi fundizt í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristnisögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein um Krýsuvíkurelda eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstóðvakerfi Brennisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 01.07.2000, Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið, Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Draugatjörn

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kålund

Kålund á efri árum.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Um Hellisheiðarveg segir Kålund m.a.: „Hellisheiðarvegur hefst skammt fyrir ofan Elliðaár og skilst þar frá Seljadalsveginum; er þá stefnt enn meir til hægri og til suðausturs.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Fyrst liggur leiðin yfir gömul hraun og síðan flata og jafnlenda fláka – ef kosið er að sneiða hjá Svínahrauni, sem hefur hingað til verið næstum ófært, mjög brunnið með grængulum mosavöxnum strýtum – og er þá komið upp undir Hengil, þar sem lítið og blómlegt daldrag í hrauninu er innilokað milli fjallsins og hæða Hellisheiðar, þar sem þær ná lengst fram. Innst inni í dalnum liggur mjór vegurinn gegnum skarð eða eftir lægð milli tveggja hraunhæða upp á bratta heiðina, sem lækkar hér í stöllum niður til láglendisins, svo að brekkuferðin verður í tvennu lagi.

Hellisskarð

Hellisskarð ofan Kolviðarhóls – gata.

Uppgönguskarðið heitir nú Hellisskarð. Í Kjalnesinga sögu er það nefnt Öxnaskarð, og á það vel við fyrri aðstæður, því að margt nauta úr Gullbringusýslu og Árnessýslu var látið ganga í sumarhögum á þessum slóðum, og haust hvert smöluðu bændur nautunum og aðskildu í réttum skammt frá þessum stað, og til Árnessýslu voru þau rekin yfir Hellisheiði og ef til vill einmitt í ggenum Öxnarskarð. Nú er hér eins og annars staðar nautaræktin næstum horfin, en áður fyrr er sagt, að hafi mátt sjá þau hundruðum saman á völlunum neðan við Heillisheiði, og heita þeir því enn Bolavellir.

Búasteinn

Búasteinn.

Rétt við uppgönguna er til hægri handar Kolviðarhóll á fremur lágri hæð eða kollóttum hól þar niðri í dalnum í brekkurótum; á þessari hæð er „sæluhús“ („sæluhús“ eiginlega hús sem reist er fyrir göfugmennsku sakir – í þessu tilfelli til að hýsa örmagna ferðamenn – til sáluhjálpar (að skilningi kaþólskra)), mjög mikið notað, fjallakofi, en slíkir eru allt of fáorð á Íslandi, því að næstum á hverjum vetri verða einhverjir úti á fjallvegum.

Kolviðarhóll.Almenn sögn segir, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu. Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkur hundruð fet uppi er stór tenginslaga steinn; þetta er Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu (38 o.áfr.), þar sem Búi, þegar hann kom niður úr Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar. Sjá má við nánari athugun, að steinninn hefur ekki teningslögun nema að framan, að aftanverðu hallar honum nokkurn veginn jafn niður eftir fjallinu, sem hann er í, og er raunar aðeins einn, en hinn stærsti af mörgum framstandandi hraunklettum, sem eru í röð frá efstu fjallabrekku og niður í rætur, en öll brekkan er annars þakin möl og mylsnu.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Yfir þessa heiði, sem er talsvert hærri en Mosfellsheiði, liggur leiðin yfir gamlar hraunbreiður, þar sem nokurra þumlunga djúp gata er komin ofan í hraunklöppina vegna sífelldrar umferðar. Þetta er nefnilega aðalleið bænda í austursýslum, sem versla og veiða í miklum mæli í Gullbringusýslu.
Eftir nokkurra stunda reið hefst niðurleiðin. Er halli nokkrun veginn jafn og brekka alllöng og sýnir glöggt, hve hátt uppi leiðin hafði legið, og nú er útsýn fögur og mikil, því að neðan brekku breiðist suðvesturhluti Árnessýslu. Auk þessarar leiðar liggja nokkrar aðrar yfir heiðina gegnum önnur skörð með sérstökum nöfnum, en frá sama upphafsstað, og eru flestar suðaustar. Þessum leiðum verður að fylgja nákvæmlega, því að ef menn villast getur verið erfitt að komast niður bratta austurhlið heiðarinnar.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 47-48.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.

Hellukofinn

Í Sýslu- og sóknarlýsingum Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703, eftir Hálfdán Jónsson, segir m.a. um vegi um Hellisheiði:

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

„Fyrir austan … Bæjarþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.“
Árið 1840 segir: „Hellirsheiði er … vel rudd. Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“
„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“
„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].“

„Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði.
Eirikisvegur-221Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól. …Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum.
hellisheidi-222Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður. Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum… . Síðan lá leiðin eftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.“ 

Hellisskarð

Hellisskarð – gata.

„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur… .
Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjóta tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba.

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.

1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur… . Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim… . Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni.

Hellisheiði

Hellisheiði – skjól við gömlu götuna.

Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95. Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klö

ppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu.

hellukofinn-121

Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp.
Friðlýstur 13.5.1971. – var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa).

Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ „Á þeim stað sem hétu Syðri Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“  Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel.

Hellisheiði

Hellisheiði – hellirinn á Hellisheiði; dágott varðað skjól.

Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.“

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellisheiðargatan. Girðingarvinnugerð hefur hunsað allar fornleifar á stórum kafla á heiðinni.

Í takmarkaðri fornleifaskráningu vegna framkvæmda Hitaveitunnar á Hellisheiði (svo virðist sem nánar engar kröfur hafi verið gerðar til skráninga fornminja á svæðinu þrátt fyrir einar mestu framkvæmdir frá upphafi byggðar) segir m.a.: „Hellukofi, Hellisheiði„- Friðlýst hús, byggingarár: 1830. Hönnuður: Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi. Friðaður 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Í Örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar um Hellisheiði segir: „Gamli hellukofinn var byggður 1830 á grunni krossvörðu sem þarna var fólki og skepnum til skjóls, líklega í hundruðir ára. Gamli vegurinn yfir Hellisheiði var allur varðaður. Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m. í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak. Þar austur á miðri heiðinni eru Þrívörður við veginn, segir Hálfdán Jónsson í Ölfuslýsingu sinni 1703.
Syðri vegurinn var líka vel varðaður, þar stóðu vel hlaðnar, mannháar vörður, með nef út að veginum. Þannig voru þær tölusettar. En tréspjöldin með tölunum fuku og fúnuðu, og nú eru
allar vörðurnar horfnar, fyrir tönn tímans og jarðýtanna“.

Hellisheiði

Ásýnd Hellisheiðar 2023.

Í „Skrá um friðlýstar fornleifar – fyrsta útgáfa 1990„, segir um Hellukofann: „Ölfushreppur; Afréttarland. Gamla sæluhúsið, „Hellukofinn“ svonefndi, er stendur við hinn varðaða veg vestantil við miðja heiði.[(Hellisheiði).] Einnig vörðurnar og vegurinn, troðin hestaslóð sem víða markar fyrir í hrauninu. Skjal undirritað af ÞM 13.05.1971. Þinglýst 03.09.1971.“

Heimildir:
-SSÁ, 238, 205 .
-SK, 1 .
-SB III, 282.
-Ö-Hellisheiði,1 .
-Útivist 6(1980), 82-86.
-Jón Pálsson.
-Austantórur II, 131-2 .
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148.
-Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).
-Íslenzkir sagnaþættir XI, 113-129.
-Morgunblaðið, 26. júní 1980, Gamla gatan á Hellisheiði, bls. 22.
-Hellisheiði – Örnefnaskráning; Eiríkur Einarsson.
-Skrá um friðlýstar fornleifar – fyrsta útgáfa 1990, Hellukofinn.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.

 

Hellukofinn

Þjóðvegur milli Reykjavíkur og Suðurlands hefur lengi legið um Hellisheiði. Gamli þjóðvegurinn lá upp kambana austan meginn, yfir Hurðarás og Hellisskarð. Hellisskarð er fyrir ofan Kolviðarhól.

Hellisheiði

Hellukofinn.

Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Norðan meginn á Hellisheiði milli varðanna, er Hellukofinn svokallaði. Þessi Hellukofi er borghlaðið sæluhús byggt á þessari alfaraleið í kringum 1830. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin er 2 m. Hellukofinn hefur getað rúmað 4 – 5 manns.

Hwellukofinn

Hellukofinn á Hellisheiði.

Talið er að Hellukofinn hafi verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“ . Biskupsvarðan var ævafornt mannvirki, krosshlaðið þannig að menn og hestur gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Þessi varða stóð fram á 19. öld en henni var ekki haldið við og var farin að hrynja. Grjótið úr vörðunni var notað til þess að byggja Hellukofann.

Hellukofinn var friðaður 1.janúar 1990.

Vegur hefur legið um heiðina um aldir. Gamla hraungatan sem liggur yfir heiðina fór niður af henni vestan megin í Hellisskarði upp af Kolviðarhóli. Akvegur var fyrst gerður um heiðina um aldamótin 1900 og lá vegurinn þá niður af heiðinni austanmegin niður Kambana í ótal beygjum og hlykkjum. Vegurinn var lagaður til á fjórða áratugnum og hélst í því vegstæði þar til ákveðið var að fara í að gera fullkominn malbikaðan veg yfir heiðina, sem lagður var á árunum 1970-1972. Vegurinn var þá byggður upp með klifurreinum í brekkum sem þóttu nýstárlegar á Íslandi á þeim árum.

-http://notendur.centrum.is/~ate/hellukofinn%20myndir.htm
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hellishei%C3%B0i

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisskarð
Eftirfarandi er álit Örnefnastofnunnar á nafninu Hellisheiði:
„Hellisheiði er í vestanverðri Árnessýslu. Vestarlega á henni er Hellisskarð (kallað Öxnaskarð að fornu) nálægt Kolviðarhól.“
Í Árbók Ferðafélags Íslands 2003, Í Árnesþingi vestanverðu, eftir Þór Vigfússon er fjallað um nafnið Hellisheiði með eftirfarandi orðum: „Ekki er vitað hví Hellisheiði heitir svo, enginn er hér hellirinn.“ Ennfremur segir í skýringargrein: „Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefir getið sér þess til að Hellisheiði dragi nafn af Raufarhólshelli, en um Þrengsli og fram hjá hellinum kunni að hafa legið ein fjölfarnasta leiðin austur yfir fjall á fyrstu öld byggðar í landinu.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Gosið úr Eldborgum við Lambafell um árið 1000 teppti Þrengslin með Svínahraunsbruna og menn hafi því þurft að velja sér leiðir á nýjum forsendum. Við það kunni örnefnið Hellisheiði að hafa flust um set, norður á bóginn.“  Þessi skýring er alls ekki fráleit. Hugsanlegt er einnig að annar hellir hafi verið áður þar sem nú er Hellisheiði og Kristnitökuhraunið hafi runnið yfir hann.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Sumir hafa talið að nafnið sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli, þ.e. af hella kv., en þar eru miklar sléttar hellur . Nafnið hefði þá átt að vera „Helluheiði“ eða „Hellnaheiði“, en síðan breyst í Hellisheiði. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni (Árnessýsla. Sýslu- og sóknarlýsingar (1979), bls. 238). Samt er það svo að ruglingur getur verið í örnefnum hvort um er að ræða hellu eða helli. Þannig lítur nafnið Hellnar á Snæfellsnesi, á Hellnum, út fyrir að vera af hella kv, ef. Hellna, en er líklega dregið af orðinu hellir. [innskot S.G. : Og þá af hellinum Baðstofu sem liggur við höfnina og er mjög tilkomumikill].

Hellisheiði

Gígar á Hellisheiði.

Svo lýkur Svavar (hjá Örnefnastofnun) ályktun sinni á örnefninu Hellisheið með eftirfarandi orðum: „Niðurstaðan er sú að langlíklegast er að orðið hellir sé í örnefninu en álitamál hvort það er Raufarhólshellir eða einhver annar hellir sem týndur er.“
Við þetta má bæta að „Hellukofinn“ (sjá mynd) er á Hellunum þar sem varðaða leiðin liggur yfir Hellisheiði. Ekki er ekki ólíklegt, ef vel er skoðað, að á þessari leið kunni að leynast „hellir“ sá er hraunið var nefnt eftir, þ.e. ef það hefur ekki verið nefnt eftir helluhrauninu, sem einkennir meginhluta leiðarinnar.
Þegar farið var austur s.l. vetur með Jóni Jónssyni, jarðfræðingi, benti hann á stað á Hellisheiðinni þar sem hann taldi vera hellir undir. Taldi hann það vera hellinn, sem Hellisheiðin hefði nafn sitt frá, en hann væri nú lokaður…

Hellisheiði

Gatan um Hellisheiði fyrrum.

Þorleifur Einarsson

Í Náttúrufræðingnum 1961 eru birt skrif Þorleifs Einarssonar um „Þætti úr jarðfræði Hellisheiðar„:

Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar

Þorvaldur Einarsson

Þorleifur Einarsson (1931-1999).

„Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.“
Vart mun sá maður til vera á Íslandi, að hann kannist ekki við þessa stuttu frásögn Kristnisögu af eldsuppkomu á Hellisheiði árið 1000 og orðræður Snorra goða og heiðinna manna á Alþingi það sumar. En nokkuð hefur það verið á reiki, við hvaða hraun ummæli þessi eiga.
Sumarið 1956 hóf ég athuganir á gossprungum á vestanverðri Hellisheiði og hraunum, sem þaðan eru komin. Rannsókn þessi varð þó víðtækari, tók reyndar tvö sumur í viðbót, 1957 og 1958, svo sem grein þessi ber með sér, og náði til jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins alls, en það takmarkast að norðan af Hengladölum, að vestan af Bláfjöllum, að sunnan af Fjallinu eina, Geitafelli og Krossfjöllum, að austan af Þorleifslæk og Varmá. Um athuganir þessar ritaði ég síðan prófritgerð (Diplom Geologe), sem birtist í vor (Þorleifur Einarsson 1960), og er grein þessi útdráttur úr henni.
Um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins hefur fátt verið ritað. Flestir jarðfræðingar hafa talið mosagráa hraunflákana og lág fellin lítið forvitnileg. Rækilegastar munu athuganir Þorvalds Thoroddsens (1908-11, 1913, 1925) og Trausta Einarssonar (1951) vera. Af öðrum, sem um jarðfræði þessa svæðis hafa fjallað, mætti nefna Guðmund G. Bárðarson, Guðmund Kjartansson (1943), Tékkann M. F. Kuthan og Norðmanninn T. F. W. Barth.

Jarðfræðilegur inngangur

Þorvaldur Einarsson

Þorvaldur Einarsson – rit um jarðfræði Hellisheiðar.

Jarðsaga Íslands nær aðeins yfir síðustu öld jarðsögunnar, nýöld.
Elzta berg hér á landi er að finna á Austfjörðum og Vesturlandi, blágrýti með millilögum úr harðnaðri gosösku, sandsteini og leirsteini með surtarbrandi. Jurtaleifar úr surtarbrandslögum í neðri hluta blágrýtismyndunarinnar benda til þess, að elztu lögin séu ártertier að aldri, þ. e. a. s. allt að 60—70 milljónum ára gömul. Mest ber þar á blaðförum og frjókornum lauftrjáa, sem vaxið hafa við milt loftslag. Er líða tekur á tertier-tímann, kólnar í veðri. Laufskógurinn víkur æ meir fyrir barrskógum. Á síðtertier hylur svo jökull hluta landsins fyrsta sinni, svo sem millilög úr jökulbergi í efri hluta blágrýtismyndunarinnar (gráa hæðin) í Esju, Fnjóskadal, Hornafirði og víðar bera vitni um, en mestur hluti hinnar kulvísu flóru mun hafa lifað þetta kuldakast af. Skeljalögin á Tjörnesi eru einnig síðtertier (pliósen) að aldri.
Á hinum eiginlega jökultíma, sem tók yfir síðustu milljón árin, eru kunnar hér á landi minjar þriggja ísalda og tveggja hlýviðrisskeiða eða hlýalda líkt og á norðanverðu meginlandi Evrópu.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson – Jarðfræði; saga bergs og lands.

Í Ölpunum hafa fundizt ummerki fimm ísalda og í Norður-Ameríku fjögurra. Lítið er kunnugt um það, hve langan tíma framrás og bráðnun ísaldarjöklanna tók, en þó skal hér reynt að gera nokkra grein fyrir bráðnunarsögu meginjökuls síðustu ísaldar suðvestanlands. Þegar jökullinn var hvað stærstur, mun hann hafa hulið allt land umhverfis Faxaflóa nema hæstu fjöll, svo sem Esju og Skarðsheiði.
Jökullinn mun hafa náð allt út undir brún landgrunnsins (Jökulrispur eru t.d. kunnar frá Garðskaga.). Jökulskjöldurinn tók að mesta kuldakasti síðustu ísaldar loknu að bráðna. Nokkrum árþúsundum eftir að hann var stærstur, skaut Suðurkjálkafjallgarðinum og Suðurnesjum öllum upp úr jökulhjarninu. Rétt um það leyti, er Suðurkjálkinn var orðinn íslaus, kólnaði nokkuð í veðri aftur, svo að jökullinn skreið fram að nýju. Ýttust þá upp jökulgarðar á Álftanesi, í mynni Hvalfjarðar, í Melasveit (Skorrholtsmelar) vestan Leirár og líklega víðar. Síðan framskrið þetta, sem nefna mætti Álftanesstigið, átti sér stað, mun vart vera skemmri tími liðinn en 20000 ár.
Enn breyttist loftslag til hins verra, og jökullinn gekk fram. Við þessa framrás mynduðust miklir jökulgarðar, sem rekja má um þvert Suðurlandsundirlendi frá Keldum á Rangárvöllum út í Biskupstungur. Framrás þessi hefur verið nefnd Búðastigið. (Guðmundur Kjartansson 1943). Við bráðnun jöklanna hækkaði mjög ört í höfunum, svo ört, að löndin, sem jökullinn hafði legið yfir og þrýstst höfðu niður undan jökulfarginu, náðu eigi að rísa nógu skjótt, og flæddi því sjór víða yfir láglendi, um leið og það varð jökullaust. Jökull þrýstir landi meir niður til dala en til nesja, svo sem sjá má af því, að hæstu sjávarminjar við Reykjavík eru í aðeins 43 m hæð, í Ölfusi í 55—60 m hæð og í Holtum, Hreppum og á Landi í 110 m hæð.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson skrifaði m.a. kafla í þjóðhátíðartútgáfu af Sögu Íslands.

Fyrir 11—12000 árum, á því hlýviðrisskeiði síðjökultímans, sem kennt er við staðinn Alleröd á Sjálandi, munu jöklar Íslands hafa verið orðnir minni en þeir eru í dag. En vegna loftslagsbreytingar til hins verra fyrir 11000 árum skriðu jöklar víða um heim enn fram.
Loftslag á Íslandi var tiltölulega hlýrra á síðustu ísöld og þó einkum undir lok hennar en um norðanvert meginland Evrópu. Helzta skýringin á því er sú, að landskipan Evrópu var öll önnur en í dag þar til fyrir 7000 árum. Þangað til voru Bretlandseyjar tengdar meginlandinu, en þá brauzt sjór gegnum Ermarsund og flæddi yfir lendur þær, þar sem nú er Norðursjór. Golfstraumurinn komst því ekki upp að ströndum Skandinavíu, og beindi Bretlandseyjaskaginn honum meir til norðvesturs en í dag. Það er augljóst mál, að breytingar þessar á stefnu Golfstraumsins hafa haft mikil áhrif á loftslag hér á norðurslóð.
Brot þetta úr jarðfræði Íslands er nokkru ítarlegra en ætlað var, en þar sem hér er fjallað um ýmislegt úr þessari sögu á annan veg en hingað til hefur verið gert, einkum jökultímann, taldi ég rétt, að svo væri.

Berg frá jökultíma

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti.

Elzta berg Hellisheiðarsvæðisins er að finna í lagskiptri grágrýtismyndun í neðri hluta Kambabrúnar og Núpafjalls, svo og í Hjallafjalli. Á grágrýtismyndun þessari, Kamba- eða Hjallagrágrýti, liggur í Kambabrún þunnt lag af jökulbergi. Á því liggur síðan allþykk móbergsmyndun, Núpafjallsmóberg. Myndun þessi er allóregluleg, lagskipt móberg, þursamóberg, bólstraberg.
Í Þurárhnúk og Kerlingarbergi er einnig ofan til lagskipt grágrýti. Innskot eru mörg og óregluleg, gangar, æðar, kubbaberg og stuðlasveipir. Móbergsmyndun þessa er líka að finna í Núpafjalli og í brún Efrafjalls (í Hesti og Kerlingabergi). Kambagrágrýtið er líklega runnið sem hraun á hinni eldri hlýöld. Jökulbergið og Núpafjallsmóbergið eru líklega mynduð á næstsíðustu ísöld, og er það líkt móbergi í Jórukleif að aldri, en það liggur undir Mosfellsheiðargrágrýti, sem runnið er frá Mosfellsheiði á síðustu hlýöld. Mosfellsheiði er dyngja með tveim gígrústum, Borgarhólum og ónefndum hæðum austur undir Þingvallavatni. Frá Borgarhólum er líka runnið yngsta grágrýtið í nágrenni Reykjavíkur (Reykjavíkurgrágrýti).

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti.

Móbergsfjöll Hengilsvæðisins hafa hlaðizt upp í geilum eða götum, sem bráðnað hafa í jökulinn yfir eldstöðvunum líkt og flest móbergsfjöll á landinu (Guðmundur Kjartansson 1943). Móbergsfjöll þau, sem nú verður getið, eru öll mynduð á síðustu ísöld. Bólstraberg er víða að finna í neðri hluta móbergsfjalla á Hellisheiðarsvæðinu, svo sem í Draugahlíðum, Lakahnúkum, milli Meitla, í Stóra-Skarðsmýrarfjalli og víðar. Hraun rann úr gígunum og barmafyllti geilina og rann jafnvel út á jökulinn. Fjöll, sem náð hafa þessu stigi, eru nokkur á Hellisheiði, t. d. Stóri-Meitill og Geitafell. Slík fjöll nefnast móbergsstapar. Miklu algengari eru þó fjöll, sem byggð eru upp úr lausum gosefnum, sem síðar hafa límzt saman, móbergshryggirnir, t.d. Stóra-Reykjafell og Skálafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Ummyndun lausra gosefna, ösku, í móberg sannar ekki, að móbergsfjöllin hafi hlaðizt upp í eða undir jökli, því að móberg er einnig þekkt sem millilög í tertieru blágrýtismynduninni, t.d. í Esju. Þess skal líka getið, að í fjöllum, hlöðnum upp úr lausum gosefnum á síðustu ísöld, er til gosaska, sem hefur ekki breytzt í móberg, t.d. í Litla- og Stóra-Sandfelli. Í nokkrum móbergsfjallanna mótar enn fyrir gígum, svo sem í Stóra-Meitli. í mörgum fjallanna eru gígtappar úr grágrýti, en þeir standast veðrun betur en móberg og skaga því víða upp úr.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti (jarðfræðikort Ísór).

Bezt dæmi um slíkan bergstand í móbergi er Lambafellshnúkur, en hann setur á fellið keilislögun, enda er Keilir á Reykjanesi eins upp byggður. Gráuhnúkar norðan Þrengsla eru líka bergstandar. Litla-Skarðsmýrarfjall og Orustuhóll eru úr mjög stórdílóttu grágrýti. Er það gangur, líklega gömul eldstöð. Dalkvosir í mörgum fellanna eru ekki gamlir gígar, heldur hafa jökulflikki orðið undir lausum gosefnum, þegar fellin hlóðust upp, og ekki bráðnað fyrr en að gosunum loknum. Þar sem ís var undir móbergi, myndaðist því dæld eða dalur, t. d. dalirnir í Stóra-Reykjafelli eða Innstidalur.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hlutinn (loftmynd).

Í Stóra-Reykjafelli vestanverðu er stór felling í lagskiptu móbergi. Slíkar fellingar mynduðust líklega, ef veggir ísgeilanna hafa haft mikinn fláa eða í þeim verið syllur. Ísveggurinn hefur síðan bráðnað, meðan gosefnin voru enn vatnsósa, og gosefnin fylgt honum. Lík felling, en minni, er einnig í Blákolli vestanverðum. Annað fyrirbæri, sem víða er að finna í móbergsfjöllum, er svokölluð flögun. Lagskipt móberg hefur kubbazt og klofnað án tillits til lagskiptingar undan þrýstingi jökulfargsins. Slík flögun í móbergi er t.d. í Stóra-Reykjafjalli við veginn upp í Hveradali.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hlutinn (loftmynd).

Auk móbergsfjalla eru til á Hengilsvæðinu grágrýtisflákar, sem myndaðir eru á einu af fyrstu bráðnunarskeiðum síðustu ísaldar. Er hér um grágrýtislög að ræða, sem komin eru úr Hengli og hylja suðausturhluta hans, Ástaðafjall og Hamarinn ofan Hveragerðis. Í Húsmúla norðan Kolviðarhóls er og grágrýti. Gæti þar verið sérstök eldstöð. Allt er grágrýti þetta jökulsorfið.
Umhverfis Skálafell er grágrýtisdyngja (Norður- og Suður-Hálsar), sem ég hef nefnt Skálafellsdyngju. Grágrýti þetta er komið úr gíg, Trölladal, vestan Skálafells, og hefur síðan runnið umhverfis fellið og víða fram af brún Efrafjalls og Hjallafjalls. Grá grýtið er jökulrispað austan Skálafells, en vestan þess má enn finna hraunreipi á hraunhólum. Sýnir þetta, að jökullinn hefur aðeins farið yfir austurhluta dyngjunnar. Það, að grágrýtið austan Skálafells skuli renna um gil og dali eldri fellanna líkt og hraun, runnin eftir jökultíma, og fylgja öllum línum landslagsins, bendir til ungs aldurs grágrýtisins. Þó er það eldra en hæsta sjávarstaða, því að í það hafa höggvizt brimþrep. Gosið í Skálafellsdyngju hefur líklega átt sér stað á bráðnunarskeiðinu, sem fór á undan framrás jökulsins að Álftanesröðinni, og hefur sá jökull urið grágrýtið austan Skálafells.
Í ritgerð minni (Þ.E. 1960) gat ég þess, að ljósir blettir í fjöllum á Hengilsvæðinu væru eingöngu myndaðir við hverasuðu. Þetta er ekki alls kostar rétt, því að á síðastliðnu hausti rakst ég á lítil líparít-innskot vestan til í Hengli, rétt norðan Húsmúlans.
Jökulminjar frá síðustu ísöld eru heldur fátæklegar á svæðinu, aðrar en móbergsfellin. Jökulrispur á klöppum eru sjaldgæfar, en sýna þó, að jökullinn hefur skriðið suður heiðina til sjávar. Jökulurð sést óvíða, nema hvað Kolviðarhóll er botnurðarhóll, og annar slíkur er á Krossfjöllum. Á einstöku fjöllum er og stórgrýtt jökulurð og víða, einkum á móbergsfjöllum, jökulbergskápa.

Hæstu sjávarmörk í Ölfusi eru í Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða í 55 m hæð, en í Hveragerði í 60 m hæð. Síðan brimið klappaði þessi hæstu fjörumörk, munu líklega vera liðin um 14000 ár, sem áður segir. Af sjávarminjum ber mest á lábarinni möl og hnullungum. Brimþrep eru og víða greinileg, svo sem í Hjallafjalli og Skálafellsgrágrýti hjá Núpum; bærinn stendur í þrepinu. Einnig eru hlíðar Hamarsins ofan Hveragerðis gamalt sjávarbjarg, sem og Kambabrún og hlíð Núpafjalls. Brimsorfnir hellar eru í Vatnsskarði. Á Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða eru fallegir malarkampar, sem brimið hefur rótað upp. Sjór fjaraði, eða réttar sagt landið hækkaði síðan á 5000 árum, svo að hann var kominn þá a.m.k. 4 m niður fyrir núverandi sjávarmál, svo sem sjá má af myndun fjörumós í Seltjörn, en hann myndaðist ofan sjávarborðs. Á síðustu árþúsundum hefur land síðan lækkað nokkuð.

Hraun frá nútíma – Hellisheiðarhraunin eldri

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Á vestanverðri Hellisheiði eru eldstöðvar, sem gosið hafa a. m. k. fjórum sinnum á nútíma, en nútíminn nær að tímatali jarðfræðinga yfir síðustu 10000 árin, eins og áður gat. Gígar beggja hinna eldri hrauna eru huldir yngri hraunum. Mjög erfitt er að greina eldri hraunin hvort frá öðru. Verða eldri hraunin því rædd í einu lagi. Auðvelt er að greina yngri hraunin frá hinum eldri í landslagi. Einnig ber meir á feldspat-dílum í blágrýti eldri hraunanna en hinna yngri, minnst í yngsta hrauninu, Kristnitökuhrauni.
Eldri Hellisheiðarhraunin hylja syðri hluta Hellisheiðar, og liggur þjóðvegurinn lengstum á þeim. Á norðanverðri heiðinni eru þau horfin undir yngri hraun. Hraunflóðin hafa runnið austur heiðina og fram af Kambabrún niður í Ölfus, allt austur að Varmá, beggja vegna Hamarsins. Tota úr elzta hrauninu nær þó austur yfir ána við þjóðveginn. Varmárbrúin stendur á þessu hrauni, svo og bærinn að Völlum. Bæirnir Saurbær, Þúfa, Kröggólfsstaðir og Vötn utan Varmár standa í jaðri elzta hraunsins. Rétt norðan þessara bæja virðist vera brún næstelzta hraunsins, og standa bæirnir Yxnalækur og Vorsabær í henni. Ein kvísl hraunflóðsins á heiðinni rann suður á milli Hverahlíða og Núpafjalls og niður um skarð í fjallsbrúninni ofan Núpa. Þetta hraun endar rétt ofan bæjarhúsa að Núpum og hefur ekkert breiðzt út á jafnsléttu. Önnur kvísl sama hrauns rann enn lengra til suðausturs og niður gilið norðan Vatnsskarðs og breiddist nokkuð út á láglendi, en síðar hefur Þurárhraun runnið yfir það. Einn hraunstraumur hefur runnið til suðurs frá eldstöðvunum milli Lakahnúka í Lakadal, annar til vesturs niður Hellisskarð. Þetta hraun sést í misgengi í austurbrún skarðsins. Enn einn hraunstraumur hefur líklega runnið vestur úr Hveradölum og allt norður fyrir Draugahlíðar. Sér nú á hraun þetta sem apalhraunskika í Svínahrauni (Leitahrauni) rétt norðan móta gamla vegarins og Þrengslavegar.
Eldri Hellisheiðarhraun eru víðast algróin apalhraun nema elzta hraunið við Varmárbrúna, sem er helluhraun. Um aldur þessara hrauna er það að segja, að elzta hraunið er ekki runnið fyrr en sjór var komin niður fyrir 3 m hæð yfir núverandi sjávarmál og getur því vart verið eldra en 10000 ára gamalt. Næstelzta hraunið er eldra en Leitarhraun, en það er yngra en 5300 ára, svo sem síðar segir. Eldri Hellisheiðarhraunin eru því yngri en 10000 ára og eldri en 5000 ára gömul.

Leitahraun

Leiti

Leiti – gígurinn austan Bláfjalla.

Austan undir Bláfjöllum, sunnan Ólafsskarðs, er óásjálegur gjallrimi, er Leitin nefnist. Að sunnan er hann 30 m hár, að norðan jafnhár Lambafellshrauni. Rimi þessi er eystri barmur gígs þess, sem stærsta hraun Hellisheiðarsvæðisins er komið frá. Leitahraun, eins og það nefnist hér, þekur 75 km2 lands. Gígurinn er um 300 m frá NA—SV og 150 m þvert á þá stefnu. Leysingalækur úr Bláfjöllum hefur fyllt gígskálina með möl og sandi, en þó sést enn 2—3 m hár hraunhjalli og bendir hann til þess, að hrauntjörn hafi staðið í gígnum. Úr norðurhluta gígsins hefur hrauná runnið. Hraunið, sem var mjög þunnfljótandi, breiddist út á flatneskjunni milli Bláfjalla, Heiðarinnar há, Geitafells, Meitla og Lambafells og nefnist Lambafellshraun. Hraunflóð rann þaðan til norðurs milli Blákolls og Lambafells og breiddist út norður til Húsmúla og Engidalskvíslar. Þar heitir nú Svínahraun (helluhraunið). Hraun þetta rann síðan niður um Vatnaöldur, Sandskeið, Fóelluvötn og milli grágrýtisholtanna hjá Lækjarbotnum (Lögbergshúsið stendur á hrauninu.) og út í hið forna Elliðavatn, sem var mun stærra en vatnið er í dag. Þegar hraunið rann út í vatnið, tók að gjósa upp úr því vegna gufuþenslu í hraunkvikunni, og mynduðust þar gervigígar, sem nú nefnast Rauðhólar. Tröllabörn neðan Lækjarbotna eru líka gervigígar í þessu hrauni. Hraunstraumurinn rann síðan niður dal Elliðaánna allt í Elliðavog.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárnar renna um Leitarhraun.

Rétt ofan eystri brúarinnar yfir Elliðaárnar er mór undir hrauninu og reyndar víðar upp eftir árfarveginum. Hraunið hefur runnið yfir mýri. Mór þessi hefur verið aldursákvarðaður með mælingu á geislavirku kolefni, C14, og reyndist efsta lag hans vera 5300 ± 340 ára gamalt (Jóhannes Áskelsson 1953). Leitahraun ætti því að vera rúmlega 5000 ára gamalt.
Tveir hraunstraumar úr Leitahrauni runnu til suðurs, Djúpadalshraun milli Geitafells og Krossfjalla og annar milli Krossfjalla og Lönguhlíðar, sem breiðzt hefur út á láglendi allt suður til sjávar í Hafnarskeið og austur undir Ölfusá. Þar standa bæirnir Hraun og Grímslækur í hraunjaðrinum. Nefnist þar Heiði eða Hraunsheiði.
Leitahraun er helluhraun úr dílóttu (feldspat) blágrýti. Í hrauninu eru nokkrir hellar og niðurföll. Stærsti hellirinn er Raufarhólshellir ofan Vindheima í Ölfusi. Hann er 850 m langur, 10—30 m breiður og 10 m hár að jafnaði (Munger 1955). Norðan Draugahlíða eru einnig hellar í hrauninu, svo og undir húsum að Lögbergi.

Hellisheiðarhraunið næstyngsta

Hellisheiði

Hellisheiðarhraun.

Tvær gígaraðir eða gossprungur liggja um Hellisheiði vestanverða, og eru þaðan komin yngri Hellisheiðarhraunin. Næstyngsta hraunið er komið frá vestari gossprungunni, en hún er 6,5 km löng. Syðstu gígar hennar eru í austurhlíð Hveradala, þar sem nú eru gjallnámur Vegagerðarinnar. Þaðan er komið hraunið, sem þekur Hveradali sunnanverða (Stóradal), og apalhraunið norðan Litla-Reykjafells, en sunnan gamla vegarins við Kolviðarhól. Mikill hluti þessa hrauns hefur síðar lent undir Kristnitökuhrauni í Hveradölum. Gossprungan liggur síðan til norðurs með austurhlið Stóra-Reykjafells. Úr gíg í austuröxl fellsins hefur runnið hraunspýja til suðurs. Frost hefur síðar sprengt hraunskænið upp, svo að nú getur að líta þar einkennilegan straum köntótts stórgrýtis. Úr gígum ofan Hellisskarðs hefur runnið hraunkvísl gegnum skarðið heim undir hús að Kolviðarhóli. Gossprungan liggur síðan norður yfir Stóra-Skarðsmýrarfjall og um Innstadal þveran.

Nesjagígar

Nesjahraun – gígur.

Líklega eru Nesjavallagígar í Grafningi á sömu sprungu. Á norðanverðri Hellisheiði hefur hraun frá sprungunni breiðzt út og runnið austur heiðina og fram af Kambabrún líkt og hin eldri hraun, en stöðvazt í brekkurótunum beggja vegna Hamarsins. Er þar falleg hraunbrún. Vegurinn í Kömbum liggur í þessu hrauni. Á heiðinni er hraunbrúnin nokkuð greinileg norðan vegar. Frá gígunum á Stóra-Skarðsmýrarfjalli runnu hrauntaumar til Hellisheiðar, Sleggjubeinsdals og Innstadals. Úr gígunum í Innstadal er runnið Innstadalshraun fram í Miðdal. Hraun þetta er samkvæmt öskulagsrannsóknum yngra en 2700 ára og eldra en landnám, líklega 1500—2000 ára gamalt, þ. e. runnið um Kristsburð eða skömmu síðar.

Kristnitökuhraun

Skjaldbreið

Skjaldbreið.

Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.“ Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undr í, at goðin reiðist tölum slíkum.“ Þá mælti Snorri goði: „Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?“ (Kristni saga). Hér er sagt frá náttúruviðburði á einfaldan hátt og getið fyrsta sinni jarðfræðiathugunar á Íslandi og hún ekki umvafin blæ þjóðsögunnar, eins og svo oft vildi verða. Íslendingar hafa þegar að fornu skilið myndunarsögu landsins að einhverju leyti, því að Þingvallahraun („er nú stöndum vér á“) eru runnin þúsundum ára fyrir landnámsöld. Hin elztu eru komin frá Skjaldbreið, en hin yngri frá gossprungu á Tindafjallaheiði austan Hrafnabjarga.
Á þeim 130 árum, sem liðin voru frá því, er fyrstu landnámsmennirnir tóku land, og þar til, er kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000, hafa líklega orðið nokkur gos, því að gosið hefur að meðaltali 15 sinnum á öld frá upphafi Íslandsbyggðar fram á vora daga, svo að líklegt er, að Snorri goði hafi séð eldgos eigin augum, kannski gosið í Eldborg á Mýrum, þá er yngra Eldborgarhraun kom upp, eða haft spurnir af því. Þess goss er getið í Landnámu (Jóhannes Áskelsson 1955). Góða lýsingu á eldgosi frá fyrstu öld Íslandsbyggðar er einnig að finna í Völuspá (Sól tér sortna, 57. vísa). Þá er einnig þess að geta, að eldsuppkomuna má tímasetja allnákvæmlega, og er það óvenjulegt um náttúruviðburð, sem gerzt hefur hér á landi fyrir nær 10 öldum. Alþing kom saman á Þingvöllum fimmtudaginn í 10. viku sumars. Gosið á Hellisheiði ætti því að hafa byrjað laugardaginn í 10. viku sumars eða um 20. júní árið 1000.
Eldstöðvar þær, sem bezt eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km að lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er syðsti og reyndar stærsti gígur sprungunnar.

Eldborg

Eldborgarhraun í Þrengslum.

Í fyrsta þætti gossins kom einkum upp hraun úr nyrzta hluta sprungunnar, milli Stóra-Skarðsmýrarfjalls og núverandi þjóðvegar. Hraunið breiddist í fyrstu út á hallalítilli heiðinni austan gossprungunnar. Hraunstraumur rann síðan austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli og sunnan Orustuhóls að Hengladalsá og stöðvaðist þar. Nefnist þar Orustuhólshraun. Annar hraunstraumur rann vestur yfir sprunguna, þar sem nú er þjóðvegurinn, og niður í Hveradali og vestur úr þeim yfir austurjaðar Svínahrauns. Hraun þetta nær ekki lengra til norðurs en í beina línu vestur af suðurhorni Litla-Reykjafells. Ein álma þessa* hrauns rann síðan gegnum Þrengslin allt til Lambhóls. Síðar rann Svínahraunsbruni yfir vesturjaðar þessa hrauns, sem síðar getur. Stærstur og þekktastur er þó hraunstraumur sá, sem nefndur er Þurárhraun. Hann rann í mjórri kvísl austur heiðina norðan Smiðjulautar, austur yfir þjóðveginn og síðan austur með Hverahlíðum og niður á láglendi um Vatnsskarð. Er þar 140 m hár hraunfoss. Hraunið breiddist síðan út yfir mýrarnar austan Þurár allt austur undir Varmá. Þurárhraun er um 11 km að lengd.

Lakastígur

Lakastígur.

Úr miðhluta sprungunnar, milli þjóðvegar og Lakahnúka, hefur einnig komið mikið hraun, sem brotizt hefur í mjórri kvísl milli yztu Lakahnúka niður í dal þann, sem Hellur heitir. Norður úr dalnum er Lágaskarð til Hveradala, en Lakadalur til austurs milli Lakahnúka og Stóra-Sandfells. Dalurinn hefur fyllzt hrauni, sem rann til hans í áðurnefndri kvísl og eins úr syðsta gígnum á þessum hluta sprungunnar í Lakahnúkum. Varð mikil og slétt hrauntjörn í dalnum. Dalurinn var lokaður til suðurs milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells af grágrýtishafti, sem hélt uppi hrauntjörninni.
En vart mun dalbotninn hafa verið orðinn fullur af hrauni, er syðsti hluti sprungunnar opnaðist og hraun tók að streyma þar upp. Grágrýtishaftið brast, og hraunið úr tjörninni fékk framrás með hrauninu, sem upp kom í syðsta hluta sprungunnar. Enn sýna hraunhjallar umhverfis Hellur, að hrauntjörnin hefur staðið allt að 5 m hærra en dalbotninn er í dag. Eldborg undir Meitlum stendur á grágrýtishaftinu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum.

Eldborg undir Meitlum er stærsti gígur á allri gossprungunni, um 50 m á hæð. Eldborgin er að vísu aðeins helmingur gígs, því að hraunið, sem vall upp úr henni og gegnum hana, hefur rifið með sér eystri gígvegginn. Nokkru norðan Eldborgar er önnur eldborg, um 10 m há. Milli eldborganna er greinileg hrauntröð. Eldborgir þessar mega heita einu gígarnir á allri gossprungunni, sem því nafni geta kallazt. Annars staðar gætir mest gjallhrúgalda og óreglulegra rima. Þó eru tvær litlar eldborgir, 5 m að hæð, sunnan Stóra-Skarðsmýrarfjalls. Fell þau, sem sprungan gengur í gegnum norðan þjóðvegarins, eru úr móbergi, en að mestu hulin gjalli.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Hraunið, sem upp kom í Eldborg undir Meitlum, og eins það, sem fékk framrás úr hrauntjörninni í Hellum, breiddist út á heiðinni sunnan Litla-Meitils og Sanddala. Er það úfið apalhraun og nefnist Eldborgarhraun eða Innbruni. Þaðan rann hraun, Frambruni, niður um skarðið milli Krossfjalla og Lönguhlíðar. Hraun þetta breiddist síðan yfir Hraunsheiði (Leitahraun). Einn hrauntaumurinn rann meðfram Hjallafjalli í átt til Hjalla, en annar milli bæjanna Grímslækjar og Hrauns og nefnist þar Hraun (samkv. korti Grímslækjarhraun) til aðgreiningar frá Heiði (Leitahraun). Nær þetta hraun hvergi fram af brún Leitahrauns. Hraunið er 9 km að lengd.
Eins og að framan getur, er líklegt, að nyrðri hluti sprungunnar hafi gosið fyrst og syðsti hlutinn seinast. Nokkuð hefur það verið á reiki, hvaða hraun það var, sem náði láglendi í Ölfusi í gosinu árið 1000. Þorvaldur Thoroddsen telur ýmist, að Þurárhraun eða Eldborgarhraun hafi runnið þá. Guðmundur Kjartansson (1943) bendir réttilega á, að bæði hraunin séu komin úr sömu gossprungu og því líklega jafngömul. Athuganir þær, sem ég hef gert, benda eindregið til þess, að bæði hraunin séu komin upp í sama gosi. Þó er Þurárhraun líklega nokkrum dögum eða vikum eldra en Eldborgarhraun. Bergfræðilega er blágrýti beggja hraunanna líkt, stakdílótt (feldspat) blágrýti. Gróðurfar hraunanna og allt útlit ber merki ungs aldurs. Afstaða hraunanna til annarra hrauna á Hellisheiðarsvæðinu bendir og til hins sama. Segulmælingar, sem Ari Brynjólfsson gerði á hraunum þessum árið 1955, benda einnig til þess, að hraunin séu lík að aldri.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Öskulagsrannsóknir sýna með nokkurri vissu, að Kristnitökuhraunið hafi runnið eftir landnámstíð. Í jarðvegssniðum í hrauninu hef ég ekki getað fundið öskulagið G, en það liggur undir rústum í Þjósárdal (Sigurður Þórarinsson 1944), og í mýrarsniðum, sem frjógreind hafa verið, liggur það rétt neðan hinnar greinilegu gróðurfarsbreytingar, sem varð við landnámið. Öskulag þetta er komið af Torfajökulssvæðinu og er líklega 1100—1200 ára gamalt. Það finnst annars í nær öllum jarðvegssniðum hér sunnan lands, t.d. á næstyngsta Hellisheiðarhrauninu. Þunnt öskulag, sem myndaðist við Kristnitökugosið, er að fínna í jarðvegssniðum vestan eystri gossprungunnar á Hellisheiði, rétt ofan öskulagsins G.

Hellisheiði
Höfundur Kristnisögu leggur sendimanni þau orð í munn, að jarðeldur væri upp kominn í Ölfusi og mundi hlaupa á bæ Þórodds goða. Næsta ólíklegt er, að sendiboðinn hafi borið bæði þau tíðindi, að jarðeldur væri upp kominn, og eins hin, að hraun stefndi á bæ Þórodds goða. Svo greiðlega renna apalhraun ekki á hallalitlum heiðum, og er hér eitthvað málum blandað. Annaðhvort hafa munnmælin, sem sagnritarinn studdist við, brenglazt nokkuð, eða hann breytt þeim, svo að þau hæfðu betur frásögninni, enda hafa þessar orðræður lítið gildi fyrir frásögnina af Kristnitökunni. Sama sumar, dögum eða vikum eftir að þingi lauk, hafa hraun náð láglendi í Ölfusi. Þurárhraun hefur tæplega valdið tjóni á byggðu bóli í Ölfusi, nema bær hafi staðið undir Vatnsskarði, því að hraunið breiddist yfir mýrarfláka austan og norðan Þurár. Eldborgarhraun, sem runnið hefur heim í tún að Hrauni og Grímslæk, hefur líklega valdið einhverjum spjöllum, jafnvel tekið af bæi, hafi þeir staðið í Hraunsheiði, en það gæti vel verið, eða syðst undir Hjallafjalli, því að nyrzti hrauntaumurinn hefur runnið þar í átt til Hjalla, bæjar Þórodds goða, þótt skammt næði.
Þótt Kristnisaga muni um margt vera ónákvæm og hlutdræg heimild, má þó telja, að þessar fáu setningar um eldsuppkomuna séu í meginatriðum réttar.
Kristnitökuhraun þekur um 25 km2 lands.

Svínahraunsbruni

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Í skarðinu milli Lambafells og Bláfjalla standa tvær eldborgir. Nyrðri-Eldborg er þrír samvaxnir gígar. Sunnan hennar eru líka nokkrir litlir gígar á sömu sprungu. Úr nyrzta gígnum, sem er stærstur, 60 m í þvermál, er breið og falleg hrauntröð. Hún er um 2 km að lengd, 5 m djúp og 10—15 m breið. Hrauntröðin endar undir Blákolli. Um hraunfarveg þennan hefur hraun nyrðri og eldri Brunans, Svínahraunsbrunans, runnið og breiðzt út yfir Svínahraun (Leitahraun) allt til Draugahlíða. Syðri-Eldborg hefur gosið nokkrum vikum eða mánuðum síðar en hin nyrðri. Þar er kominn upp yngri og syðri Bruninn. Báðar standa eldborgirnar á sömu landnorðurlínunni, og eru um 2 km milli þeirra. Yngri Bruninn hefur runnið norður með Lambafelli og beygt síðan norðan Lambafellshnúks til austurs og síðan suðurs og náð allt til Þrengsla.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Nyrðri Bruninn er um 5 km að lengd og þekur 6,5 km2 lands, en hinn syðri um 6,5 km að lengd og 4,5 km2 að flatarmáli. Berg hraunanna er olivin-dílótt blágrýti. Yfir hraun þessi liggur nýi Þrengslavegurinn frá Draugahlíðum til Þrengsla. Bruninn, bæði hraunin, er úfið apalhraun og virðist við fyrstu sýn sem hraungrýtið hafi oltið fram án reglu. Við nánari athugun má þó sjá, að það hefur ekizt til í bogadregna hryggi eða hraunsvigður. Svigður eru kunnar frá skriðjöklum, að vísu annars uppruna, en líkar útlits. Hraunsvigðurnar, sem eru 1— 2 m að hæð, sjást einkum vel af fjöllunum í kring eða úr lofti. Þó má greina þær af nýja veginum. Svigðurnar sýna, að hraunið hefur runnið rykkjótt, en ekki jafnt og þétt, og vísar boginn í straumstefnuna og bendir til mestrar hreyfingar og mests hraða í miðjum hraunstraumnum. Hraunsvigður apalhrauna líkjast reipum helluhrauna. Þó mælist það í metrum í svigðum, sem mælt er í sentimetrum í hraunreipum. Hraunsvigður eru víða í apalhraunum, t. d. í Landbrotshrauni (Jón Jónsson 1954).

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Þess var áður getið, að Kristnitökuhraun lægi vestan Hveradala inn undir jaðar Brunans og væri því eldra en hann. Orðið Bruni virðist hér sunnan lands einkum vera notað um hraun, runnin, eftir að land byggðist. Menn hafa séð hraunin brenna. Dæmi um þetta eru Inn- og Frambruni í Eldborgarhrauni (Kristnitökuhrauni).
Yngsta hraun sunnan Hafnarfjarðar heitir og Bruni. Er hraun það komið frá Óbrynnishólum undir Undirhlíðum. Þess er getið í Kjalnesingasögu sem Nýjahrauns. Samkvæmt rannsókn Guðmundar Kjartanssonar (1952) er Bruni þessi runninn á landnámsöld eða litlu síðar. Í Þingeyjarsýslu er nafnið Bruni að vísu notað um úfin apalhraun, Grænavatnsbruni og Út- og Innbruni í Ódáðahrauni, sem runnin eru, áður en land byggðist. Nafn hraunanna frá Eldborgum vestan Lambafells, Bruni, bendir til þess, að þau hafi runnið að mönnum aðsjáandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Í annálum og öðrum rituðum heimildum er þessara hrauna hvergi getið, svo að mér sé kunnugt. En yfirleitt virðast náttúruviðburðir á Suðurkjálka hafa farið fram hjá annálariturum, og þá sjaldan, að þeirra er getið, er þekking á staðháttum harla lítil, svo að jafnvel hraun, komin upp við Trölladyngju á Reykjanesi, eru talin renna niður í Selvog. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur, að einkum hafi eldgos verið tíð um skagann á 14. öld. Þannig geta annálar gosa í Brennisteinsfjöllum 1340 og 1389, og Ögmundarhraun er talið runnið árið 1340. Svínahraunsbruni, bæði hraunin, eru runnin síðar en 1000, en að öllum líkindum fyrir siðaskipti, sennilega á 14. öld.
Norðan Fjallsins eina í Lambafellshrauni er lítið hraun, 0,5 km2 að stærð. Það er komið upp um sprungu, sem er í beinu framhaldi Eldborga. Hraun þetta mun vera líkt Brunanum að aldri.“

Þorleifur Einarsson
Þorleifur Einarsson„Þorleifur Jóhannes Einarsson fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1931. Hann lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi 22. mars 1999. Foreldrar hans voru hjónin Einar Runólfsson verkamaður, f. 1886 í Skálmabæjarhrauni í Álftaveri, d. 1962 í Reykjavík, og Kristín Þorleifsdóttir, f. 1900 í Stykkishólmi, d. 1973 í Reykjavík. Eftir nám í gagnfræðaskóla settist Þorleifur í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi vorið 1952. Að því loknu hélt hann til jarðfræðináms við Háskólann í Hamborg, Þýskalandi, haustið 1953. Hann hélt síðan áfram jarðfræðinámi við háskólana í Erlangen-Nürnberg 1954­56 og Köln 1956­60, þaðan sem hann lauk Dipl.Geol.-prófi í maí og Dr.rer.nat.-prófi í júlí 1960. Þorleifur stundaði framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Bergen í Noregi 1960­61 og háskólann í Cambrigde, Englandi 1970 og 1979. Að loknu doktorsprófi kom hann heim og starfaði sem sérfræðingur í jarðfræði, fyrst á iðnaðardeild atvinnudeildar Háskólans 1961­65, síðar á Rannsóknarstofnun iðnaðarins frá 1965­68 og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands frá 1969­75. Jafnframt var hann stundakennari í náttúrufræði og eðlisfræði við Vogaskóla í Reykjavík 1961­63, í jarðfræði við Menntaskólann í Reykjavík 1963­69, við Tækniskóla Íslands 1965­70 og við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1969­74. Þorleifur var skipaður prófessor í jarðsögu og ísaldarjarðfræði við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1975 þar sem hann starfaði síðan.
Þorleifur Einarsson
Þorleifur var varamaður í Náttúruverndarráði 1972­78, sat í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1964 og var formaður þess 1966­72, sat í stjórn Jarðfræðafélags Íslands 1966­68 og var formaður þess 1972­74, sat í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar 1980­97, var formaður stjórnar Máls og menningar 1979­1991, sat í stjórn Landverndar frá 1971 og var formaður Landverndar 1979­90. Þá var Þorleifur kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1962, Alexander von Humboldt-styrkþegi í Vestur-þýskalandi 1959­60 og Overseas Fellow í Churhill College í Cambrigde, Englandi frá 1970. Þorleifur var einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Íslands, Sögufélaginu og Jöklarannsóknarfélaginu. Hann tók um árabil þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar og þá einkum handbolta. Hann var leikmaður með ÍR, var atvinnumaður í Þýskalandi, landsliðsmaður, þjálfari og sat í dómaranefnd HSÍ. Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands. Jarðfræði sem kom út 1991. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis.“

Þorleifur Einarsson„Þorleifur hóf rannsóknir á jarðfræði Íslands strax á námsárunum í Þýskalandi og snerust prófritgerðir hans um þær. Diplómaritgerðin fjallaði um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins, gerð og aldursafstöðu bæði ísaldarmenja og eftirísaldarjarðlaga, sem nánast eingöngu eru af eldvirkum toga, afrakstur eldvirkni undir bæði ísaldarjöklum og berum himni. Dr. rer. nat.-ritgerð hans fjallaði um veðurfarssögu ísaldarloka og eftirísaldartímans.
Þessi tvö meginviðfangsefni, eldvirkni og veðurfarssaga og tengsl þeirra við ísaldarfræði almennt urðu meira og minna rauður þráður í rannsóknum hans hér síðan.
Þorleifur hafði afar yfirgripsmikla þekkingu á því sem ritað hafði verið um jarðfræði og náttúru Íslands almennt; hafði lesið á námsárunum allt sem hann komst yfir um þessi mál.
Það ritverk Þorleifs sem án efa hefur haft víðust áhrif er svokölluð Þorleifsbiblía, kennslubók hans um jarðfræði (Jarðfræði. Saga bergs og lands). Hún kom út fyrst árið 1968 og braut blað í kennslu í jarðfræði, þar sem bókin var afar góð og leysti af höndum afgamla bók, að stofni til frá 1922. Menn, sem kynntust Þorleifsbiblíu á fyrstu árum hennar, minnast enn þessarar bókar og þeirrar upplifunar sem lestur hennar var, bæði sem skemmtilegur lestur og sem uppljómun í þekkingu. Bókin kom út aftur og aftur og var umskrifuð og aðlöguð eftir hendinni og er reyndar enn á markaði, þrátt fyrir byltingar í fræðunum.
Eitt eftirminnilegasta verk Þorleifs tengist eldgosinu á Heimaey árið 1973.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 01.01.1961, Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar – Þorleifur Einarsson, bls. 151-172.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/459296/
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58246

Eldborg

Horft niður í einn eldborgargíginn, hellinn Trölla, á svæðinu.

Hwellukofinn

Í Morgunblaðinu 1980 fjallar Tómas Einarsson um  „Gömlu götuna á Hellisheiði„:

Hellisheiði
„Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur Hellisheiði verið fjölförnust allra fjallvega á Íslandi. Það er því vel við hæfi að eyða dagsstund til þess að ganga þessar gömlu götur, sem blasir við sjónum, þegar ekið er yfir heiðina, en svo fáir þekkja af raun. Þegar komið er upp á heiðina nokkru fyrir austan Skíðaskálann í Hveragerði kemur í ljós, vestast á heiðinni, fyrir norðan Stóra-Reykjafell, röð af vörðum, sem liggja í beinni röð austur á bóginn. Þessar vörður fylgja gömlu götunni yfir heiðina. Þeim munum við kynnast betur í ferðinni.
Við ökum austur á Hellisheiðina, allt þar til við erum komin á móts við Hurðarás eða Urðarás eins og stendur á kortinu, förum þar út úr bílnum og fylgjum síðan alla leið vestur í Hellisskarð, sem er fyrir ofan Kolviðarhól, en þann stað þekkja flestir. Á meðan við göngum leiðina, skulum við rifja upp brot af þeirri vitneskju, sem kunn er um þessa leið.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Árið 1703 ritaði Hálfdan Jónsson lögréttumaður að Reykjum Ölfusi grein um Ölfushrepp og þar stendur þetta um Hellisheiði: “Vestan Varmár liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn, á Suðurnes og í Kjalarnesþing, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestari partur er víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna, nema þar sem hestanna járn hafa gjört, og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og víða við veginn, hlaðnar til leiðarvísis”.

Hellisheiði

Gatan um Hellisheiði fyrrum.

Þannig hljóðar þessi lýsing, sem rituð var fyrir 277 árum. Við þræðum nú slóðina meðfram vörðunum. Þær standa margar mjög vel, þrátt fyrir lítið sem ekkert viðhald á þessari öld. Ekki er vitað hver var upphafsmaður að þessari vörðuhleðslu, eða hver hlóð fyrstu vörðuna, en líklega hefur það gerst löngu áður en Hálfdan Jónsson ritaði fyrrnefnda lýsingu.
Er vestar kemur á heiðina minnkar mosinn því þar er hún.. “víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna nema þar sem hestanna járn hafa gjört…”. Þar liggja sönnunargögnin er sýna hversu fjölfarin heiðin hefur verið, því víða sjást djúpar götur markaðar ofan í stálharða klöppina, og eru þær dýpstu allt að ökkla djúpar. Þetta er rannsóknarefni sem forvitnilegt er að skoða. En brátt ber okkur að sérkennilegri byggingu, sem stendur á hæð skammt frá götunni hægra megin. Þetta er hellukofinn, gamla sæluhúsið á heiðinni. Hann ber við loft í skarðinu milli Stórareykjafells og Skarðsmýrarfjalls þegar ekið er eftir þjóðveginum og er til að sjá eins og kúptur, stór steinn.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Hellukofinn var gerður á árunum milli 1830 og 1840 og stendur skammt þar frá, sem Biskupsvarðan fyrrnefnda stóð. Var grjótið úr vörðunni notað í kofann. Þórður Erlendsson, sem síðar bjó að Tannastöðum í Ölfusi hlóð kofann og ber hann meistara sínum fagurt vitni. Kofinn er ferhyrndur að lögun, 1.85 m á hvern veg og hæðin upp í mæni um 2 m. Hann er einvörðungu byggður úr hraunhellum. Eftir að fullri veggjarhæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið. Eru sömu vinnubrögð viðhöfð og Grænlendingar nota, þegar þeir byggja snjóhús. Efst er stór hraunhella sem lokar opinu. Dyrnar eru um 60 cm á breidd og 1 m á hæð. Til að þétta veggina var mosa troðið í glufurnar. Kofinn stendur nærri 45. vörðu. Talið austanfrá. Hann veitti oft hröktum mönnum skjól og til er rituð frásögn, er greinir frá því að veturinn 1884 hafi gist þar 6 ferðamenn nótt eina í hríðarbil. Er tekið fram að þeim hafi liðið ágætlega.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – horft frá Hellisskarði 2010.

Frá Hellukofanum hallar vestur af og innan stundar stöndum við á efstu brún Hellisskarðs (eða Uxaskarðs smbr. Kjalnesingasögu). Þaðan sjáum við heim að Kolviðarhóli. Er þá ekki annað eftir en rölta niður brekkuna ofan úr skarðinu heim að Hólnum. Þar endar þessi gönguferð.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 141. tbl. 26.06.1980. Gamla gatan á Hellisheiði, Tómas Einarsson, bls. 22.
-https://www.fi.is/static/files/gongur/a_slodum_tomas_einarsson/gamla-gatna-yfir-hellisheidi.pdf
Hellisheiði

Hellukofinn

Gengið var upp Hellisskarð frá Kolviðarhóli, framhjá Búasteini og eftir gömlu þjóðleiðinni um Hellisheiði. Hellukofinn var skoðaður á heiðinni og þar sem gamla gatan fer undir Suðurlandsveg var haldið út af henni til suðurs og inn á gamla Suðurlandsveginn. Honum var fylgt langleiðina að Kömbum, inn á Skógarveginn er liggur þar sunnan við Urðarás, með Núpafjalli og áleiðis niður að Þurá undir Hnúkum. Veginum var fylgt að Urðarásartjörnum (sumir segja Hurðarásavötnum). Þar var beygt út af honum til vesturs, skoðaðar rústir og síðan haldið áfram vestur með norðurrótum Skálafells. Gengið var með Hverahlíð að Lakahnúkum, um Hveradali og með Reykjafelli að upphafsstað.

Kolviðarhóll

Garður við Kolviðarhól.

Ætlunin var m.a. að leita að hugsanlegum helli á heiðinni er hún kynni að draga nafn sitt af. Jón Jónsson, jarðfræðingur telur sennilegt að stór hellir hafi verið á Hellisheiði, en hraun runnið fyrir opið og lokað því. Orustuhólshraun rann af heiðinni niður með Skálafelli, niður Vatnsskarð og myndaði m.a. svonefnt Þurárhraun. Hellirinn ætti, að hans mati, að hafa verið á sunnanverðri heiðinni, sunnan núverandi Suðurlandsvegar. Þekkt er að hellar, sem lokast hafa, hafi opnast að nýju. Ætlunin var m.a. að gaumgæfa svæðið m.t.t. þessa.
Hellisskað er á vestanverðri Hellisheiði, kallað Öxnaskarð að fornu, nálægt Kolviðarhól. Í Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003 segir m.a.: Í Árnesþingi vestanverðu, eftir Þór Vigfússon, er fjallað um nafnið Hellisheiði með eftirfarandi orðum: „Ekki er vitað hví Hellisheiði heitir svo, enginn er hér hellirinn.“ Ennfremur segir í skýringargrein:
„Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefir getið sér þess til að Hellisheiði dragi nafn af Raufarhólshelli, en um Þrengsli og fram hjá hellinum kunni að hafa legið ein fjölfarnasta leiðin austur yfir fjall á fyrstu öld byggðar í landinu.
Gosið úr Eldborgum við Lambafell um árið 1000 teppti Þrengslin með Svínahraunsbruna og menn hafi því þurft að velja sér leiðir á nýjum forsendum. Við það kunni örnefnið Hellisheiði að hafa flust um set, norður á bóginn.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 2010.

Þessi skýring er alls ekki fráleit. Hugsanlegt er einnig að annar hellir hafi verið áður þar sem nú er Hellisheiði og Kristnitökuhraunið hafi runnið yfir hann*.
Sumir hafa talið að nafnið sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli þar sem miklar sléttar hellur eru og því dregið af kvenkynsorðinu ‘hella’. Nafn heiðarinnar hefði þá átt að vera ‘Helluheiði’ eða ‘Hellnaheiði’ en síðan breyst í Hellisheiði.“
Nú er breytt mynd á heiðinni; stórvirkjunarframkvæmdir í gangi með tilheyrandi mannvirkja- og vegagerð og háspennumastur liggja þvers og kurs um svæðið. Er þetta sýnin, sem vænta má á Brennisteinsfjalla- og Trölladyngjusvæðinu, einum fallegustu náttúruperlum landsins??? Getur verið að fólk með umhyggju fyrir náttúru og umhverfi hafi verið of upptekið af hálendinu, en gleymt því sem stendur því nær??? Virkjanir eru nauðsynlegar í nútíð og framtíð, en varla er til of mikils mælst að við þær verði jafnan gætt eins mikillar tillittsemi við landið og nokkurs er kostur. Fallegt virkjunarmannvirki í „ósnortinni“ náttúru þarf ekki að vera svo afleitt, en fylgimöstrin eru og verða hryllileg. Mun ein slík koma frá Reykjanesvirkjun á næstunni – langsum eftir Reykjanesskaganum. Þótt Reykjanesskaginn hafi hingað til verið eitt vanmetnasta útivistarsvæði landsins er ekki þar með sagt að hver sem er megi „vaða yfir það á skítugum skónum“.

Hellisskarð

Varða efst í Hellisskarði.

Hellisheiðasvæðið er verðmæti, hvort sem litið er til jarðhitans eða mögulegrar ferðamennsku, sem er einn hraðvaxnasta atvinnugrein hér á landi og gefur af sér meiri gjaldeyristekjur en flestar aðrar, að undanskildum fiskvinnslu og stóriðju.

Ljóst er að aðstandendur Hellisheiðarvirkjunarinnar ætla sér að vanda sig og raska ekki meiru en nauðsynlegt er. Hins vegar virðist vera óþarfi að krukka í fleiri gíga til efnisöflunar þegar hægt er að komast að því að eyðileggja einungis fáa.
Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni. Samt er það svo að ruglingur getur verið í örnefnum hvort um er að ræða hellu eða helli.
Niðurstaðan er sú að langlíklegast er að orðið hellir sé í örnefninu Hellisheiði en álitamál hvort það er Raufarhólshellir eða einhver annar hellir sem nú er týndur.
Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið, sem kölluð hefur verið Gamli vegurinn, lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag.

Hellisskarð

Hellisskarð – gata.

Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann. Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Hann er borghlaðinn, 1,85 m á hvern veg og 2 m á hæð. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn.

Gangan hófst neðan við Kolviðarhól. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Vestan og norðan við bæjarstæðið eru sléttar grasi grónar grundir að Húsmúla og Svínahrauni, en að austan er mosagróið hraun. Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.

Hellisskarð

Gemgið um Hellisskarð.

Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. „[Vorið 1883] sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.“ Bærinn hefur staðið framan í hólnum, suðvestantil.

Nýtt hús á Kolviðarhóli var fullgjört 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn.“ Ekki er vitað hvar þetta hús stóð m.v. fyrra sæluhúsið frá 1844, en þegar búskapur hófst á Kolviðarhóli 1883 var búið í þessu húsi og stóð það lengi eftir. Þorvaldur Thoroddsen lýsir húsinu í Ferðabók sinni og frétt birtist um bygginguna í Þjóðólfi 1878: „Sæluhúsið á Kolviðarhóli, sem að mestu var fullgjört í fyrra haust, hefir nú fengið þá aðgjörð, sem þurfa þótti, hefir það verið notað í sumar og fólk haft þar byggð. Húsið er 10-11 álnir á breidd og lengd með samsvarandi hæð, úr límdum steini byggt og allsterkt, í því er og skorsteinn og herbergi til íbúðar, en meiri hluti hússins er ætlaður ferðamönnum. . .. Hið eldra sæluhús er notað fyrir hesthús …“
Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Steinarnir eru allstórir, margir um 60x30x30 sm. Sumstaðar er steypt á þessar hleðslur. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Sunnan við hólinn er lítill heimagrafreitur með steyptum veggjum. Hleðslugrjót og steypuleifar eru á nokkrum stöðum á og utan í hólnum, einkanlega norðantil en ekkert af því svo mikið að talist geti húsaleifar. Upphlaðinn vegur, sennilega frá því snemma á öldinni – mögulega gerður með handverkfærum – liggur upp á hólinn að norðan úr vestri.

Hellisheiði

Hellisheiði – forna leiðin um helluna.

Guðni Þorgergsson fór að búa á Kolviðarhóli 1895. Stækkaði hann túniðs. Grjóthlaðinn garður er um túnið á Kolviðarhóli, alls 753 m langur með hliði á norðurhlið sem veit að Hellisskarði.
Garðurinn er sennilega hlaðinn í tveimur áföngum, annarsvegar er U-laga garður, mjög jafn og fallega hlaðinn suðvestan við bæjarhólinn á sléttri grundinni og er þar gróið upp á garðinn að innan og horn fagurlega sveigð, og gæti þetta verið sá hlutinn sem Jón hlóð. Hinn áfanginn hefur hafist í brekkurótunum beint suður af bæjarstæðinu og liggur svo upp á hjallann og svo norður fyrir hólinn við rætur hans og er hvasst horn að norðaustan, og gæti þetta verið tilkomið seinna og verið stækkun Guðna en ekki er þó óhugsandi að þessu hafi verið öfugt farið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum.
Neðan við Kolviðarhól, „á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) svo kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“, segir í lýsingu af því 1793.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

„Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en hefur verið með torfþaki. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans. Árið 1845 var kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1939.

Sæluhúsið á Kolviðarhóli var að öllu leyti tréhús, en stóð í álnar hárri grjóttóft til beggja hliða og fyrir apturgafli. Það var því „nær 9 álna langt og 4 álna breitt, í þremur stafgólfum og portbyggt; þak, gaflar og hliðar tvöfalt niður fyrir bita; lopt er í öllu húsinu og hurð fyrir og stigi til uppgaungu; glergluggar uppi og niðri og járnrimlar fyrir rúðum niðri; gólfið af tvílögðu hellugrjóti. Á framgafli er hurð, sem gengur út og verður ekki tekin af hjörum, með loku fyrir sem skjóta má frá og fyrir bæði að innan og utan. Í húsi þessu hafa verið í einu 24 menn á loptinu en 16 hestar niðri.“ Ekki er vitað hvar á hólnum þetta hús stóð þó líklegt megi telja að það hafi verið á sama stað og bærinn seinna.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Um 200 m norðvestan við Kolviðarhól, um 30 m vestan við veginn inn í Sleggjubeinsdali er stór grjóthlaðin tóft. Veggirnir eru grjóthlaðnir í gegn, mest 7 umför en mold eða torfi hefur verið hrúgað utan með að neðan og nær mest um 0,7 m upp á grjóthleðsluna. Torfleifar eru einnig ofan á syðri langveggnum. Bárujárnsleifar og fúnir húsaviðir eru inni í tóftinni en þó er sáralítið eftir af þekjunni. Í gólfinu sér í steypu sem líklega er leifar afa garða. Dyr á báðum göflum. Örugglega fjárhús.
„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur.
Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Gengið var á skarðið. Enn má sjá móta fyrir „Eiríksvegi“ Eríks Ásmundssonar frá Grjóta er lagður var yfir heiðina um 1880.
Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ „Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; þetta er Búasteinn.

Búasteinn

Búasteinn.

Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu, þar sem Búi, þegar hann kom niður og Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar.“ Búasteinn er stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
„Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Á þessari leið, sem merkt er með vörðum má víða rekja rás í helluna sem myndast hefur af umferð járnaðra hesta.
Helluhraun. Rásin sést fyrst og fremst þar sem hraunið er slétt og ógróið en á milli er mosagróður og grjóthröngl.

Hellukofinn

Hellukofinn.

„[Hellisheiðar] vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu.“ „Þegar komið er upp á heiðina [úr Hellisskarði], verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana. Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar … Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn.“
Rásin er misgreinileg, yfirleitt um 0,4 m breið (á bilinu 0,25-0,45 m) og víðast 0,05-0,1 m djúp en mest 0,26 m. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðr um djúpar rásir þar sem grjóri hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli klappasvæðanna og helsur ekki alltaf áfram í beinu framhaldi af því sem sleppti.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld. Sumstaðar sést engin rás þar sem þó er klöpp og annarsstaðar sést rásin aðeins sem örlítil dæld sem ekki verður greind nema af því að litamunur er þannig að bergið er ljósara í rásinni en í kring. Rásin sést mjög skýrt um 100 m sunnan við vörðuröðina, skammt vestan við neyðarskýli slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1, en þar skammt vestan við hefur ráisin verið skemmd þar sem rafmagnsmastur hefur verið byggt á klöppinni en auk þess hefur hringvegurinn verið lagður yfir klöppina. Rekja má rásina um 200 m til austurs, sunnan við hringveginn, eða u.þ.b. jafnlangt og vörðurnar ná en þar austan við fer að halla undan fæti auk þess sem þar er minna um berar hraunklappir en meira um mosaþembur.

Hellukofinn

Í Hellukofanum.

Árið 1703 segir í lýsingu að „á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið. Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn, en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður.

Vörður

Vörður á Hellisheiði.

Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, þar sem lækjargil er í fjallinu og allstór hvammur við fjallsræturnar og dæld í fjallið að ofan, beina leið yfir hraunið að neyðarskýli LHS við þjóðveg 1, en þar endar leiðin enda eru þar „gatnamót“ við vörðurnar á Hellisheiðarleið. Vegpóstur vísar á leiðina undir Skarðsmýrarfjöllum.
Vörðurnar eru með 50-60 m millibili, breiðar og lágar, 1,5-2 m í þvermál en fæstar hærri en 1,5 m. Þær eru ekki vel hlaðnar þó mikið grjót sé í þeim og eru margar hrundar að hluta til. Tæplega eru þetta gamlar vörður og gætu staðið í sambandi við starfsemi Slysavarnarfélagsins.
„Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágskarði. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.“ segir í örnefnalýsingu. „[Á Breiðabólstað] hefst Lágaskarðsvegur. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð.“

Lakastígur

Lakastígur.

Leiðin liggur frá Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er gert ráð fyrir. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.
Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið.
Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul.
„Ofarlega í Kömbum er Biskupslaut. Sagt er að Hallgrímur biskup hafi áð í lautinni og í gamni nefnt lautina þessu nafni.“

Orrustuhóll

Orrustuhóll.

Í lýsingu 1703 segir að „fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.“ segir Hálfdan Jónsson í lýsingu sinni. „Austan undir hrauninu er Orustuholl.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Gömul sögn segir, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. Engin mannvirki sjást þar nú.“ segir í örnefnalýsingu. Kolbeinn Guðmundsson telur sig hafa fundið þessar gömlu réttir eftir lýsingu Hálfdanar: „Réttirnar hafa verið fast við hólinn suðvestanverðan. Hefir þar verið að miklu leyti sjálfgert aðhald. Hóllinn annars vegar og hraunbrúnin hins vegar. Hvort tveggja snarbratt, svo að lítið hefir þurft að hlaða. Réttunum hefir verið skipt í tvennt. Vestari hlutinn talsvert minni. Dilkar hafa ekki verið eins og nú tíðkast í réttum. Aðaldyr snúa í austur, og hafa þær verið um 2 faðmar að vídd.“ Suðvestan við Orrustuhól er alldjúp gjá með bröttum veggjum sem liggur í sveig frá austri til suðvesturs. Hún er um 15-20 m breið og alls um 70 m löng og hækkar botninn mjög til vesturs og dregst gjáin þar saman. Austurendinn opnast út á gróið hraunið sunnan og austan við hólinn en að vestan er yngra og úfnara hraun sem gjáin er í. Þar sem gjárbotninn verður ósléttur vestantil og fer að hækka mikið hefur verið hlaðið steinum fyrir og eru þeir mjög mosagrónir. tveir stórir steinar í botninum gætu verið komnir þangað af sjálfum sér en sunnan við þá er greinileg hleðsla, um 1,5 m löng og um 3 umför. Engin önnur mannvirki eru greinileg á þessum stað en gjáin hefur verið mjög gott aðhald af náttúrunnar hendi og hefur þó þurft að hlaða fyrir austurendann en þar sjást engar hleðslur.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Gjáin er gróin í botnin en hrunið hefur ofaní hana, nú síðast allmikið bjarg í jarðskjálfta í júní 1998.
„Eftir bardagann í Orusturhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1.
Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Húsið gerði Þórður Erlendsson, þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr). „Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

„Vestur Ölkelduháls liggja hreppamörki milli Ölfushrepps og Grafnings. Þar er Brúnkollublettur nyrðri á mörkum hreppanna, áningarstaður ferðamanna, sem fóru leiðina milli Hrauns og hlíða.“ segir í örnefnalýsingu. Brúnkollublettur er allstór (um 200×200 m) þýfður grasblettur með grónum götupöldrum sem liggja SV-NA, fast norðan við vatnskilin þar sem hálsinn er lægstur og breiðastur, sunnan undir lágum melhól með grösugum suðurhlíðum. Um 100 m austan við nýjan línuveg sem liggur yfir hálsinn. Nafnið gæti einnig hafa náð yfir grasteyginga í austurhlíðum Hengilsins, um 400 m vestan við þennan móa og er nafnið oftast merkt þar á kortum. „Þýfður grasblettur í breiðri kvos. Þar er mjög skjólgott, a.m.k. í norðanátt.“
Þrívörður vestari/nyrðri heita þar sem neyðarskýli LHS við þjóðveg 1 er nú (neyðarskýlið er reyndar horfið, en sökkullinn stendur enn eftir).
Aðrar Þrívörður eystri voru við gamla veginn í Kömbunum.
Haldið var yfir Suðurlandsveg og yfir á gamla veginn, sem fyrrum var nýr.
Sá, sem fylgir gömlu götunni yfir Hellisheiði, gerir sér grein fyrir nafngiftinni. Gatan er á sléttri hellu svo til alla leiðina, sem er bæði óvenjulegt á svo langri leið og þærgilegt þar sem heiðarveg er að ræða.

Smiðjulaut

Smiðjulaut – Smiðjutóft.

Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: „Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. / Sigurður mældi fyrir veginum upp kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 hárnálarbeygjur á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.“

Skógargata

Skógargatan.

Skógargötunni var fylgt áleiðis til suðurs. Rifjuð var upp sagan af manni einum úr austursýslunni, sem fyrir löngu síðan lagði af stað að heiman og ætlaði til sjóróðra suður með Faxaflóa. … Þetta var um vetur, sennilega í febrúar. Var maðurinn fótgangandi og einn á ferð. Segir eigi af ferðum hans, fyrr en hann kemur á Hellisheiði. Var það að hallandi degi. Veður var kalt og fjúkandi, svo að hann treystist naumlega til að rata rétta leið og allt af gerðist hríðin svartari, eftir því sem lengra leið á daginn. Var þá eigi akvegur kominn yfir heiðina og vörður meðfram veginum mjög af skornum skammti. Loks tekur maðurinn þá ákvörðun að leita sér skjóls þar á heiðinni og helzt með því að grafa sig í fönn, áður en hann færi mikið afvega. Fer hann nú að skygnast um eftir stað, er nota megi í þessu augnamiði, og eftir nokkra leit finnur hann sér fylgsni nokkurt eða skúta og borar sér þar inn. Þá er hann hefir skriðið skammt, finnur hann, að fylgsninu hallar niður á við, og því lengra sem hann kemst, verður ætíð ljósara fyrir augum hans, og getur hann vel greint það, er fyrir augun bar.

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.

Loks kemur hann þar niður á flatlendi, grasi gróið. Var þar fagurt um að litast og hlýtt og bjart, eins og sumar væri. Gengur hann þar um völlu víða og fagra og kemur að vatni einu eða tjörn. Þar á bökkum vatnsins kemur hann auga á stóra lóuhópa, er lágu þar dauðar eða sofandi, og hafði hver þeirra grænt blað í nefinu. Þegar hann hefir virt þetta allt fyrir sér, sezt hann niður og tekur sér hvíld eftir gönguna. Tekur hann síðan nestismal sinn og matast, sem honum líkaði, og að því búnu fær hann sér vænan svaladrykk úr tjörninni. Býst hann nú um þar á hentugum stað að taka á sig náðir. Leggst han nú fyrir til svefns og hagræðir sér eftir föngum og bagaði eigi kuldi. Sofnaði hann þegar og svaf vært um nóttina, og var líðan hans svo góð sem vænta mátti. Næsta morgun vaknar hann hress og glaður eftir næturhvíldina. Fær hann sér nú morgunverð, áður gangan sé hafin, og á eftir góðan svaladrykk úr tjörninni. Lágu lóurnar kyrrar eins og kvöldið áður. Þegar þessu er lokið og hann er ferðbúinn, fer hann að leita upp á yfirborð jarðarinnar. Er eigi annars getið en að honum hafi gengið griðlega útgangan. En þegar út var komið, var hríðinni af lett og komið viðunanlegt veður. Er hann nú glaður yfir því, að svo vel greiddist úr með náttstað kvöldið áður, svo illa sem á horfðist. Setur hann nú nákvæmlega á sig ýmis kennimerki, svo að honum mætti takast að finna staðinn, þegar vora taki og hann haldi heimleiðis að liðinni vertíðinni.

Hveragerði

Hellisheiði – Snjóþyngsli á Hellisheiði, líklega á fjórða áratug síðustu aldar. Oft var Hellisheiði lokuð frá nóvember fram í maí vegna ófærðar. Snjór var mokaður í fyrsta skipti á Hellisheiði vorið 1927, með handskóflum, en ruðningur með stórtækari vinnuvélum hófst ekki fyrr en á árum síðari heimsstyrjaldar.

Þegar hann þykist hafa fest þetta í minni sér svo glögglega, að eigi geti skeikað, leggur hann af stað og heldur ferðinni áfram, eins og leið liggur, og ber nú ekkert sögulegt við. Komst hann þangað, er hann hafði ætlað að róa um vertíðina, og gekk það allt skaplega. … Leið nú vertíðina til enda, og að henni lokinni býst hann að halda heimleiðis, … þegar hann kemur á Hellisheiði, ætlar hann að koma við í hinum einkennilega stað, þar sem hann hafði náttstað haft veturinn áður. Gætir hann nú nákvæmlega að merkjum þeim, er hann hafði sett sér að muna. En hvernig sem hann leitaði og gekk aftur og fram, var honum ómögulegt að finna staðinn, og var sem einhver hula legðist þar yfir. Vera má, að þessi maður hafi ferðazt þessa leið oftar, en staðinn fann hann aldrei síðan, og er því líkast, að hann hafi verið numinn í einhverja huliðsheima, þegar honum lá mest á og tvísýnt var, hvort hann fengi lífi haldið næturlangt sakir illviðris og kulda.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum.
„Þegar nokkuð var liðið fram á næsta vor, tók Margrét að gá til veðurs og líta í kringum sig á nýjan leik. Hljóp hún loks aftur að heiman og hélt þá enn í vesturátt. … Hún lagði nú leið sína vestur yfir Ölfus og vestur á Hellisheiði og hafðist þar við í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á suðuferðaleið manna. var hún þar á slangri um sumarið, og stóð mörgum ógn af henni. Oft greip hún plögg ferðamanna, er þeir voru í tjaldstöðum, einkum þegar þoka var og dimmviðri, og svo gerðist Margrét stórtæk um afla, að hún kippti skreiðarböggum á bak sér og hljóp í burtu með. Tóku menn þá að ferðast margir saman í hóp, og hafði Margrét sig þá minna í frammi. En bæri svo við, að menn færu einir síns liðs eða svo fáir saman, að hún treysti sér til við þá, máttu þeir eiga vísa von á fundi hennar, og hlaut hún þá alla jafnan að ráð sköpum og skiptum þeirra í milli. … [Guðmundur Bjarnason á Gljúfri í Ölfusi fór í grasaferð þetta sumar og unglingspiltur með honum] Fara þeir sem leið liggur og ætla í Hverahlíð.

Hurðarásvötn

Hurðarásvötn.

En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsa slyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít … héldu þeir … áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerir þá sólskin og lokgn og hið bezta veður. Halda þeir nú áfram, unz þeir koma niður í Svínahraun, en þangað vr förinni heitið. Finna þeir þar nægtir fjallagrasa um daginn, svo að fullar klyfjar voru á reiðingshestinum og þó nokkuð um fram, er þeir bundu við söðla sína. Var þá nálægt miðjum aftni, er þeir höfðu lokið við að búa upp á hesta sína og bjuggust til heimferðar. / Er þeir Guðmundur og fylgdarmaður hans voru ferðbúnir, vildu þeir taka sér matarbita, áður en þeir legðu af stað, því að ekki höfðu þeir gefið sér tíma til þess fyrr um daginn. Fór Guðmundur og náði í malpoka þeirra og bjóst til að setja sig niður, meðan hann mataðist, og hélt á malnum í hendinni. Veit hann þá ekki fyrr til en þrifið er í malnum heldur sterklega. Guðmundur víkst við skjótt og sér, að þar er þá komin Margrét sú hin nafnkunna og vill kippa af honum malnum. En hann lá ekki á lausu, því að Guðmundur var vel fær að afli. Sviptast þau nú um stund og hnykkja malnum á víxl, svo að hvorugt vinnur neitt á.

Engidalur

Engidalur – hleðslur fyrir skúta.

Gekk á þessu um hríð, en ekki er getið orða þeirra. Loksins sleppti Guðmundur malnum og réðst á Margréti. Hún sleppti þá líka og tók á móti, og það ekki með mjúkum meyjarhöndum. Áttust þau við um stund, og sparði hvorugt af, unz Guðmundi vili það til, að hann steytti fót sinn við steini. Hrasaði hann áfram og fell við, en Margrét á hann ofan. Guðmundur brauzt þá um, sem hann mátti, en svo var Margrét sterk, að hann gat með engu móti velt henni af sér, og fékk hún jafnharðan hlaðið honum. Loks tók Guðmundur að mæðast og sá nú sitt óvænna. Hét hann þá á fylgdarmenn sinn að veita sér lið. En pilturinn var svo hræddur, að hann þorði hvergi nærri að koma. Leizt honum eigi ráðlegt að hlutast til leiks þeirra, þar sem húsbóndi hans, tveggja manna makinn, lá undir, en Margrét, fjallaflagðið, gein yfir honum, svo grimmileg sem hún var. Duldist piltinum það eigi, að svo ólíklega hafði farið, að Guðmundur hafði beðið lægra hlut í viðskiptum þeirra Margrétar, þótt mikilmenni væri og harðfengur í meira lagi.

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Guðmundur þóttist nú illa kominn, en vildi þó ógjarna griða biðja. Varð hér skjót úrræði að hafa, því að Margrét gerði sig líklega til að sýna honum í tvo heimana. Verður það þá fangaráð Guðmundar, að hann dregur hana af sér og bítur á háls henni fyrir neðan hökuna, allt það er tennur tóku. Vildi hún þá sem skjótast losna úr slíkum faðmlögum, en þess var enginn kostur. Lagði Guðmundur fast að hálsi hennar, og eigi létti hann fyrr en hann hafði bitið í sundur á henni barkann, og varð það hennar bani. Eftir það velti hann Margréti af sér og staulaðist á fætur, dasaður mjög eftir allar þessar aðfarir, en þó óskemmdur að mestu. Þeir félagar drógu síðan Margréti burt þaðan og huldu hræ hennar í hraunskúta nokkrum eða klettagjögri og báru á það grjót og mosa. Eftir það fóru þeir til hesta sinna og stigu á bak og héldu heimleiðis. Guðmundur bauð nú fylgdarmanni sínum mestan varnað á því að segja nokkrum frá atburði þeim, er gerðist í ferð þeirra, því það gæti kostað líf þeirra beggja, ef uppvíst yrði. Hét hann þagmælsku sinni fullkominni …

Engidalur

Tóft útilegumanna í Engidal.

Ferðamenn hættu nú alveg að verða varir við Margréti, eins og við var að búast, og var talið víst, að hún myndi farin heim til sín austur í Flóa. En þegar lengra leið frá og það varð kunnugt, að hún hafði ekki komið heim til sín, kom sá kvittur upp, að Guðmundur á Gljúfri myndi hafa séð fyrir henni … / Það var annaðhvort á síðari árum síra Jóns prests Matthíassonar í Arnarbæli eða á fyrri árum síra Guðmundar Einarssonar þar, að Gísli [Jónsson á Sogni í Ölfusi] fann leifar af mannsbeinum suður í Svíanhrauni, sem höfðu verið hulin grjóti og mosa. Gísli fór þegar er heim kom á fund prests og sagði honum til beinanna og vildi láta sækja þau og jarðsetja í Reykjakirkju. En prestur kvað slíkt engu gegna og hæddist að þessum fundi Gísla, sagði vera mundu hrossbein, sem slátrað hafði verið og eitrað síðan fyrir refi … Talið var, að bein þau, er Gísli fann, mundu hafa verið bein Fjalla-Margrétar.“ Guðmundur banamaður Margrétar var fæddur 1765 en bjó á Gljúfri í Ölfusi 1805-1815 og hefur útlegð Margrétar þá verið á því tímabili. Guðmundur dó 3.5.1848. Önnur sögn er til um viðureign Guðmundar við útilegukonu en það á að hafa verið í Ólafsskarði og með öðrum atburðum.

Núpastígur

Núpastígur.

1703: „Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær allt að Gnúpastíg, hvor eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellirsheiði, þar Hurðarásvötn heita.“
„Núpastígur: Gömul gata, sem lá á ská upp fjallið af Hjallhól. Þar var farið með heyband ofan af fjallinu. Ein kona fór þar niður ríðandi í söðli og þótti það með tíðindum.“
1703: „Upp á [Hverahlíð] er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur.“ 1840: „.. . sunnanvert á [Hellisheiði] er Skálafell – dregur það nafn af skála Ingólfs, sem mælt er þar hafi staðið, þó ekki sjáist menjar hans. svo hér verði greint .. .“

„Í litlum hvammi rétt ofan við Skíðaskálann eru Hverar þeir sem dalirnir eru við kenndir. Móts við þá er allstór grasflöt sem nær að Lakahnúkum. Hún heitir Hveradalaflöt. Þar áðu ferðamenn hestum sínum áður en þeir lögðu á Hellisheiði, og er þeir komu af heiðinni.“ Þjóðvegur 1 liggur þvert yfir Hveradalaflöt, sem er slétt grasflöt sem nær frá skíðaskálanum í Hveradölum norðan við veginn og að hnúkunum sunnan við hann. Flötin er allt að 500 m löng frá norðri til suðurs en innan við 200 m á breidd.
Slétt grasflöt milli hálfgróinna hlíða heiðarinnar að austan og hrauntagla að vestan. Mosi í grasrótinni og grasið ekki þétt.

Hveradalir

Hveradalir.

Fyrir utan þjóðveginn hafa hús verið byggð á flötinni, fyrir utan skíðaskálann og mannvirki í kringum hann, eru sunnan við veginn skátaskáli og allstór braggi og aðkeyrslur að þessum byggingum. Allt að fjórðungur flatarinnar er því horfin undir mannvirki. Á Hveradalaflöt hefur sennilega ekki verið reglulegur áningarstaður fyrr en þjóðvegurinn var lagður sunnan við Reykjafell yfir flötina 1894. Fyrir þann tíma hafa varla margir átt þar leið um nema þá helst þeir sem fóru Lágaskarðsveg.

Vörðuhóll heitir í Vestur-Hálsum, austan við Hrossabotna sem er dalverpi sunnan í Stóra-Sandfelli. Sunnan við Vörðuhól eru Vegarbrekkur og er þetta á Sanddalaleið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.bokasafn.is/
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/
-Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003.
-Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (1979), bls. 238.
-Reykjavíkurpóstur 1847/8, bls.115; Sunnanpóstur III, 95; Ný tíðindi 1851, 9-10; Ingólfur I, 75-76.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók I, 125; Þjóðólfur 25.9.1878, 106.
-Þjóðólfur XXVI, 134-135; XXVII, 27-28; XXVIII, 56, 129-130; XXX, 32.
-Þjóðólfur 25.9.1878, bls. 106.
-Ísafold VI (1879), 128.
-Stjórnartíðindi 1876, 86.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr); SB III, 280-282.
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148; Magnús Grímsson.
-Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88.
-Þórður Ö. Jóhannesson: Nokkur örnefni varðandi landnýtingu og þjóðtrú í Ölfusi, 12.4.1976 (hdr); SB III, 282.Íslenskir sagnaþættir XII, 9-12.
-Íslenskir sagnaþættir III, 6-7.
-Íslenskir sagnaþættir III, 7-13.
-Blanda VI, 187-89.
-E.J. Stardal: „Mosfellsheiði og nágrenni.“ ÁFÍ 1985, 137.
-Farfuglinn 19(1), (1975), 14.
-Lýður Björnsson: „Á slóðum Fjalla-Eyvindar eldri og Margrétar Símonardóttur.“ Útivist 12 (1986), 12-13; ÍA II, 247, 512, IV, 119-120; AÍ VII, 349, 403-405.
-Útilegumenn og auðar tóftir, 146-50; Þórður Sigurðsson, Tannastöðum: „Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.“ Lesbók Mbl. 1939, bls. 30-31.
-Kort Ingólfs Einarssonar 1969.
-Gráskinna hin meiri I, 239-243.
-Jón Pálsson: Austantórur II, 134.
–Örnefnaskrá Núpa, Þórður Ö. Jóhannsson skráði 1968, Örnefnastofnun.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Kolviðarhóll

Í Tímanum 1977 er fjallað um „Kolviðarhól 1877-1977, fyrsta gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…„:

Kolviðarhóll
„Í byrjun júlí síðastliðins var gamla gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er eign Reykjavíkurborgar rifið til grunna.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Fyrsta gistihúsið á þessum stað var reist 1877, en áður var sæluhús á Kolviðarhóli og var það orðið léleg vistarvera þeim, sem þangað leituðu í vondum veðrum. Þetta fyrsta gistihús var lengi eina húsið á staðnum. Oft var þröngt setinn bekkurinn og þúsundir manna munu hafa gist þar. Matthías Jochumson, þá prestur i Odda, kom þar í janúar 1884 og hitti 40 ferðamenn, sem voru veðurtepptir. Og á loftinu í þessu húsi gisti í rúmi með mosadyngju sr. Bjarni Jónsson vígslubiskup, lítill drengur í fyrstu ferð sinni til sumardvalar austur í Ölfus.
Kolviðarhóll
Þriðja og síðasta gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er horfið, reisti Sigurður Daníelsson gestgjafi 1929 og var það með öllu nýtízku þægindum, sem þá þekktust hér á landi, m.a. ljósavél og raflýsingu.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Þjóðvegurinn forni milli Árnessýslu og Mosfellssveitar lá nokkru norðar en nú er farið og skammt frá Kolviðarhóli. Sæluhús var fyrst reist á þessum slóðum 1703 við svonefnda Draugatjörn fyrir framan Húsmúlann, og var það eina vistarveran milli byggða fram til 1844, að sæluhús var reist á Kolviðarhóli. Sumarið 1877 sama ár og fyrsta gistihúsið var reist að Kolviðarhóli hófst vegagerð yfir Svínahraun sem var lokið sumarið eftir.
Hellisheiði var um aldir og er enn einn fjölfarnasti fjallvegur landsins. Við sem ökum þessa leið í upphituðum bílum höfum litla hugmynd um þá baráttusem forfeður okkar háðu hér í vetrarferðum. Mannskaðar voru tíðir á þessum slóðum, þótt engar tölur séu til um hversu margir hafa látið þar líf sitt. Trúlegt er að flestir hafi orðið úti á þessum slóðum á 18. öld, einkum eftir móðuharðindin 1784. Fólk flúðu heimili sín og reikaði allslaust undan hörmungunum í vesturátt.

Hellisheiði

Hellsiheiði – forna leiðin um helluna.

Skjalfestar heimildir eru um manntjón á Hellisheiði á 130 ára timabili frá 1792-1922. Í bók sinni Sögu Kolviðarhóls greinir Skúli Helgason frá 24, sem urðu úti á heiðinni á þessu tímabili, en getur þess að ekki sé víst að þar séu allir upp taldir.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Einn þeirra fyrstu sem vakti máls á að reist skyldi veitingahús á Kolviðarhóli var Sigurður Guðmundsson málari á fundi í „Kveldfélaginu“ svonefnda sem var e.k. leynifélag í Reykjavík árið 1871.
„Þar mætti hafa hvers kyns veitingar. Þar þyrfti að blása í lúðra svo sem þriðja hvérn tíma til að leiðbeina villtum ferðamönnum, sömuleiðis hafa alpahunda og fl.“ Í fundargerðinni, sem virðist rituð af Sigurði sjálfum, er rissmynd af þessu fyrirhugaða húsi. Er á miðju þaki þess turn mikill með gluggum, sem ætlazt var til að ljós logaði í, þá er dimma tæki, en upp af honum var stöng með flaggi. Þar sem Sigurður talar um „alpahunda“, á hann við að þeir gætu orðið til bjargar villtum ferðamönnum, er úti lægju í illviðrum og ekki næðu til mannabyggða.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Hugmynd Sigurðar málara um veitingahúsbyggingu á Kolviðarhóli virðist þó hafa þótt ærið loftkastalakennd, eins og flest annað hjá honum á þeim tíma, og var henni víst lítill gaumur gefinn. Þegar hann lézt þrem árum síðar sá hann ekki votta fyrir framkvæmdum á þessari hugmynd sinni fremur en öðrum hugsjónum sínum, þótt margar ættu þær eftir að verða að veruleika i einhverri mynd.
Fyrsti gestgjafi að Kolviðarhóli var Ebernezer Guðmundsson frá Minna-Hofi á Rangárvöllum, en kona hans var Sesselja Ólafsdóttir frá Geldingaholti. Þau voru þar hálft annað ár, en þá tók við Ólafur Arnason frá Hlíðarendakoti, og heitkona hans Málfríður Jónsdóttir af Vatnsleysuströnd.
KolviðarhóllBjuggu þau við harðindi og fátækt og höfðu sama og engar tekjur af ferðamönnum. Frumburður þeirra fæddist að Kolviðarhóli og var skírður eftir staðnum, en andaðist fimm vikna gamall. Ólafur og Málfríður fóru til Ameríku 1886 og komust þar vel af. Næsti gestgjafi, Sigurbjörn Guðleifsson, var kunnur fyrir lækningar. Sambýliskona hans var Soffía Sveinsd. Þau bjuggu einnig við kröpp kjör að Kolviðarhóli og voru þar aðeins í eitt ár í nábýli við Jón Jónsson, sem tók við Sigurbirni, en þeir eltu grátt silfur saman. Kona Jóns var Kristin Daníelsdóttir. Guðni Þorbergsson tengdasonur þeirra og Margrét dóttir þeirra tóku síðan við, en í tíð þeirra jókst umferð mjög. Nýr akvegur var lagður á svipuðum slóðum og farið er enn í dag. Hestavagnaöldin hófst og samgöngur urðu meiri. Guðni lét reisa nýtt gistihús á Kolviðarhóli aldamótaárið.
Sá gestgjafi sem lengst sat að Kolviðarhóli og varð viðkunnastur þeirra allra var Sigurður Danlelsson 1906-1935. Valgerður Þórðardóttir hafði verið vinnukona að Kolviðarhóli um þriggja ára skeið þegar Sigurður kom þangað ókvæntur maður, og gengu þau í hjónaband ári síðar. Sigurður og kona hans voru mikið fyrirhyggju- og framtaksfólk og unnu margvíslegar framkvæmdir á staðnum.
KolviðarhóllSigurður hafði jafnan margt hesta og var fylgdarmaður og vann oft björgunarstarf í illviðrum. „Það var gömul hefð á Kolviðarhóli, að húsinu var aldrei lokað um nætur. Þar voru opnar dyr allan sólarhringinn, svo að ferðamenn, sem bæri þar að garði um nætur í vonskuveðri, gætu tafarlaust komizt í húsaskjól. Enda var það almenn venja ferðamanna, er komu þar eftir háttatíma að þeir gengu inn og kveddu þar nauðþurfta sinna. Þar var alla jafna allt til reiðu. Þar var matur og drykkur veittur, þó um hánótt væri, og þar var fylgdarmaður og hestur til taks, ef með þurfti, á hvaða tíma sólarhrings sem var, hvort heldur var austur yfir fjall eða suður yfir Svínahraun. Þetta var erilssöm og erfið þjónusta, en hún var álitin næstum sjálfsögð og ekki talin eftir. Hún var ávallt seld við vægu verði og margur var sá, er lítið gat goldið fyrir sig fyrr á árum og sumir ekki neitt. Þannig gekk starfið á Kolviðarhóli ár eftir ár, gestastraumarnir komu og fóru, en mitt í þeirri miklu mannös stóð gestgjafinn sjálfur, Sigurður Danlelsson, alltaf samur og jafn, veitti öllum fyrirgreiðslu og leysti úr vandkvæðum manna, sem gátu verið mörg. Þar komu menn af öllum stéttum þjóðfélagsins og var það stundum hnöttóttur lýður, er hafði á sér litla háttvísi né siðmenningarbrag. Þangað komu oft ölvaðir menn, er höfðu í frammi heimtufrekju og ódámshátt. Slíkum gestum sýndi Sigurður fulla einurð og mælti þá stundum til þeirra ekki með neinni silkitungu. En svo var það búið, og enginn erfði slíkt við hann, enda lá það orð á að hann ætti engan óvildarmann.“ (Úr sögu Kolviðarhóls).
KolviðarhóllSíðasta árið sem Sigurður lifði, sumarið 1935 hófst hann handa um að láta búa til heimagrafreit í túninu á Kolviðarhóli. Það gerði fornkunningi hans Erasmus Gíslason úr Reykjavík. Legstaður þessi er þannig byggður, að grafhvelfing var gerð í jörð niður, steypt í hólf og gólf, með opi á lofti, svo að líkkista mætti komast niður um. Yfir opið var steinhella gerð. Grafhvelfingin er það há undir loftað hún er manngeng. Er þar rúmgott fyrir þrjár líkkistur. Ofanjarðar eru veggir steyptir umhverfis á alla vegu, á annan metra á hæð, og á vesturhlið eru dyr með hurð fyrir. Í grafhvelfingunni hvíla jarðneskar leifar Sigurðar Daníelssonar, Valgerðar Þórðardóttur og sonar þeirra Davíðs Sigurðssonar, járnsmíðs, sem lézt af slysförum 25 ára gamall.
Valgerður kona Sigurðar, var annáluð fyrir hjálpfýsi og margar sögur fóru af viðbrögðum hennar við veikt og hrakið ferðafólk. Hún var mikill dýravinur, og henni var ekki nóg að gera gestunum gott heldur þurftu hestar og hundar þeirra að fá sitt. Valgerður bjó í tæp þrjú ár að Kolviðarhóli eftir að hún missti mann sinn 1935.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll um 1930.

Haustið 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól með öllum mannvirkjum. Hún lét þó ekki af störfum þar heldur veitti gistihúsinu áfram forstöðu næstu 5 ár eða til 1943. Var hún þá orðin 72 ára, hafði hana ekki grunað 40 árum áður, er hún fyrir tilviljun réðst að Kolviðarhóli, að hún ætti þar svo langan starfsdag framundan. Bjó hún síðan í þrjú ár í litlu húsi skammt frá sem Sigurður maður hennar hafði látið byggja og svo 10 ár í Hveragerði unz hún lézt í Landakotsspítala eins og maður hennar.
KolviðarhóllTignir menn og tötrum búnir hafa haft viðkomu að Kolviðarhóli og um síðustu aldamót settu förumennirnir svip á staðinn, svo sem Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjðlfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.
Margar sagnir eru af minnisverðum atburðum á Hellisheiði, svo sem þegar Þuríður formaður átti þar leið um og síðar er Indriði Einarsson skáld lá þar úti, eða barnsfæðing, sem átti sér þar stað sumarið 1890 og loks eru allar draugasögurnar.
KolviðarhóllÍþróttafélag Reykjavíkur ætlaði að gera Kolviðarhól að miðstöð vetraríþrótta og eftirsóttum hvíldarstað á sumrin. Félagið átti einnig að halda uppi greiðasölu fyrir ferðamenn. Áhugamenn unnu að ýmsum framkvæmdum, byggður var pallur framan við húsið, upplýst og hituð skíðageymsla, skíðabrekkur lagfærðar og byggðir stökkpallar.
Þegar Valgerður Þórðard. fór frá Kolviðarhóli var sem brotið blað í sögu Kolviðarhóls.
Veitingamennirnir, sem komu eftir hana urðu ekki „mosavaxnir“ á staðnum. Í nóvember 1951 kemst Kolviðarhóll á síður Reykjavíkurblaðanna vegna veru varnarliðsmanna og íslenzkra stúlkna þar.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á vordögum 1952 var svo komið um stjórn og starfsemi Kolviðarhóls, að enginn fékkst til þess að vera þar, og ferðafólk virtist forðast staðinn. Var þá húsunum lokað og enginn maður hafði þar aðsetur lengur. Strax á fyrsta ári fór að bera á því að óheiðarlegir vegfarendur legðu þangað leið sína. Rúður voru brotnar í gluggum, ruplað og rænt úr stofum, og þessi saga endurtók sig æ ofan í æ. Loks var staðurinn viðurstygging og eyðileggingin uppmáluð og var svo síðustu tvo áratugina eða meir.
„Hvort Kolviðarhóll á eftir að rísa úr auðn og niðurlægingu skal engu um spáð“, segir Skúli Helgason í bók sinni 1959. „En eitt er víst: hann verður aldrei aftur það, sem hann einu sinni var. Því valda fyrst og fremst breyttir tímar og allt viðhorf þjóðlífsins.“
Kolviðarhóll
„Guð gaf okkur Hólinn til hjálpar hröktum ferðamönnum af fjallvegum, en ekki til leikaraskapar“. Þessa látlausu setningu mælti Valgerður Þórðardótur, þegar hún var flutt af Kolviðarhóli fyrir fullt og allt. Þessi orð hins síðasta fulltrúa staðarins fela í sér stærri staðreyndir en í fljótu bragði kann að virðast. Líf og starf þeirra gestgjafa, sem lengst og bezt sátu Kolviðarhól var enginn leikaraskapur.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Með þrotlausu starfi, þrautseigju og fórnfýsi unnu þeir sig upp og gerðu þannig „garðinn frægan“. Þeir gerðu jafnan fyrr kröfu til sjálfra sín en annarra. Þeir vissu það, að lífinu varð ekki lifað þar, svo yrði með sæmd á værðarsvæflum við sukk og sællífi. Þess vegna gátu þeir haldið uppi reisn staðarins svo lengi, sem þeirra naut við. En þegar þeir hurfu þaðan á braut, komu „nýir siðir með nýjum herrum.“ Tíminn er búinn að skera úr því, hvernig þau siðaskipti reyndust. Máltækið segir, að „maður komi manns í stað“, og er það að vissu leyti sannleikur. Er þar átt við það að þótt einn hverfi frá athöfn og ævielju, þá komi aðrir og taki við. En svo bezt getur það gengið, að þeir, sem eftir lifa og áfram halda, hafi manndóm til þess að halda í horfinu. Því eins og segir í Hávamálum: „Bautasteinar standa í brautu nær, nema reisi niður að níð.“
Með þeim orðum skal sögunni lokið.“ SJ tók saman.

Í Lesbók Morgunblaðsins 2001 fjallar Gísli Sigurðsson um „Kolviðarhól – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum„:

Kolviðarhóll
„Gistihúsbygging þeirra Sigurðar Daníelssonar og Valgerðar Þórðardóttur á Kolviðarhóli árið 1929 var afreksverk og húsið sjálft byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar. Umsvifin á Kolviðarhóli urðu mest í tíð Sigurðar og Valgerðar, enda bílaöld gengin í garð. Með breyttum Suðurlandsvegi varð Kolviðarhóll ekki lengur í þjóðbraut, þar var ekki lengur þörf á gististað. Hugmyndir og dug vantaði til að finna húsinu nýtt hlutverk. Skemmdarvargar unnu á því tjón, en bæjarstjórn Reykjavíkur gekk í lið með þeim og lét mola húsið mélinu smærra.
Kolviðarhóll
Fáar ljósmyndir eru til frá tímaskeiði lestaferðanna sem vonlegt er. Þó hefur ein verið tekin við Kolviðarhól 1904 og sýnir hún Hannes póst Hannesson, annálaðan ferðagarp, leggja upp í dumbungsveðri af Hólnum. Hann er með sex hesta undir koffortum og sjálfur blæs pósturinn í lúður í nafni embættisins. Á mynd sem tekin er líklega áratug síðar sést að tæknileg umskipti hafa orðið; þá er póstvagnalest á ferð suður með Reykjafellinu; póstvagnarnir með háu þaki og sýnilegt að þeir hafa getað tekið farþega.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Þægindin eru komin til sögunnar, bílaöldin rétt handan við hornið. Þriðja myndin sem varðveizt hefur er tekin á Kolviðarhólshlaði í tíð Guðna og Margrétar um aldamótin 1900. Þetta hefur verið snemma vors og enn mikill snjór norður í Skarðsmýrarfjalli… Ferðamenn hafa brugðið sér inn til að fá sér hressingu og hefur ekki þótt taka því að spenna frá vagnhesta eða taka ofan koffort af baggahestum. Á myndinni sem birtist í síðustu Lesbók er fortíðin að syngja sitt síðasta og millistigið, hestvagninn, er kominn til sögu; fyrsti bíllinn þó ókominn til landsins. Enn er til ljósmynd, tekin tveimur áratugum síðar. Þá hafði verið ekið upp að Kolviðarhóli á virðulegri, svartri drossíu eins og þessi farartæki voru gjarnan kölluð þá. Hún er með bílnúmerið RE 85 og bílstjórinn er Vígmundur Pálsson úr Mosfellssveit. Bíllinn var orðinn þarfasti þjónninn.

Teningunum kastað og örlög ákveðin

Kolviðarhóll

Landpóstur á ferð með lúður sinn.

Gestgjafarnir á Hólnum, Sigurður Daníelsson frá Herríðarhóli og Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti, voru í rauninni fulltrúar nýrrar aldar og gerbreyttra samgangna sem gerðu hvorttveggja, að umferðin að Kolviðarhóli margfaldaðist, en kipptu líka fótum undan þessum rekstri með tímanum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Menn urðu fljótir í förum og sífellt færri þurftu á gistingu að halda. Óhætt er að segja að Sigurður og Valgerður á Kolviðarhóli hafi orðið þjóðkunnar persónur, enda bæði afburðafólk fyrir áræði og dugnað. Þau voru gestgjafar á Kolviðarhóli frá 1906 til 1935 og Valgerður var þar lengur, eða til 1943.
Sigurður Daníelsson var Holtamaður að uppruna, kominn af Torfa sýslumanni í Klofa á Landi. Hálfbróðir hans var Daníel bóndi í Guttormshaga, faðir Guðmundar rithöfundar. Sigurður þótti bráðþroska ungur maður og var fljótt talinn óvenjulegt mannsefni, hjálpsamur og ljúfur og ávann sér alls staðar traust.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Eftir 1902 er Sigurður skráður í Reykjavík og stundar þá ýmsa vinnu til sjós og lands; þar á meðal voru fjárkaupaferðir fyrir ýmsa kaupmenn á haustin. Mikilvægasti vendipunkturinn í lífi hans var hinsvegar þegar hann réðst í að kaupa Kolviðarhól, þá 37 ára og ókvæntur. Um þriggja ára skeið hafði Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti í Stokkseyrarhreppi verið vinnukona hjá Guðna og Margréti á Hólnum. Hún var öllum hnútum kunnug í rekstrinum og Sigurði þótti fengur í að fá hana sem ráðskonu. Raunar voru þau orðin hjón eftir fyrsta árið. Hjónaband þeirra varð barnlaust, en áður hafði Sigurður eignast soninn Davíð.
Kolviðarhóll
Sigurður Daníelsson þótti „réttur maður á réttum stað“ á Kolviðarhóli, öflugur arftaki þeirra Jóns Jónssonar og Guðna Þorbergssonar. Í þau 30 ár sem hann var gestgjafi á Hólnum gerði hann stórfelldar umbætur í ræktun og byggingum; menn kölluðu það þrekvirki.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Hann varð meðal hinna allra fyrstu meðal bænda til að fá þúfnabana til að slétta og brjóta land og jók svo túnrækt á Kolviðarhóli að töðufengur margfaldaðist og fór yfir 400 hestburði um það er lauk. Á síðasta áratugnum sem hann lifði lét hann vinna á fjórða þúsund dagsverk að túnrækt og fénaðarhúsbyggingum og gat þá losað sig við jörð austur í Ölfusi sem hann hafði nýtt til heyskapar.
Sigurður Daníelsson var meðalmaður á hæð en þrekinn. Hann var svipsterkur maður, hærður vel með dökkar og miklar augabrúnir og yfirskegg. Á yngri árum var hann með glóbjart hár. Aldrei kvartaði hann þótt móti blési, æðraðist ekki yfir því sem orðið var, áreiðanlegur í viðskiptum, reglusamur og gerði vel við sitt fólk, höfðingi í lund.
KolviðarhóllValgerður Þórðardóttir var ekki síður framúrskarandi og þótti bera af ungum stúlkum í sinni sveit. Ung fór hún að heiman til vinnumennsku á Háeyri og á Stokkseyri. Þar kynntist hún ungum manni frá Ísafirði og átti með honum tvær dætur. En sambúð þeirra varð ekki til framtíðar. Maðurinn flutti til Noregs og Valgerður átti ekki annarra kosta völ en að koma dætrum sínum í fóstur. Ætlun hennar var að fara í atvinnuleit til Austfjarða og ásamt vinkonu sinni lagði hún af stað fótgangandi til Reykjavíkur. Veður var vont og þung færð á leiðinni yfir heiðina. Þær stöllur náðu samt að Kolviðarhóli og gistu þar. Matreiðslukona sem verið hafði í vinnu hjá Guðna og Margréti var þá á förum og Guðna leizt strax vel á þessa kraftmiklu, ungu konu úr Flóanum og falaði hana umsvifalaust. En Valgerður setti þá upp mun hærra kaup en þekktist og Guðni kvaðst ekki geta gengið að því. „Gott og vel, þá er því sleppt,“ svaraði Valgerður og bjóst til brottferðar með vinkonu sinni. En ekki voru þær komnar lengra en niður af hólnum þegar Guðni kom hlaupandi og vildi ganga að kröfum Valgerðar. Hún sneri við; teningunum hafði verið kastað, örlög ráðin. Upp frá því var hún kennd við Kolviðarhól. Í fjögur ár var Valgerður í þjónustu Guðna og Margrétar og svo tók hún við gestgjafahlutverkinu sem eiginkona Sigurðar Daníelssonar eins og áður var sagt.

Kolviðarhóll

Saga Kolviðarhóls.

Í Kolviðarhólssögu sinni segir Skúli Helgason, að aldrei verði hægt að lýsa ævistarfi Valgerðar á Kolviðarhóli svo að glögg mynd fáist af því: „Allar frásagnir verða eins og veikt bergmál af því sem hún var. Henni er svo lýst, að skapgerðin var sterk, viljaþrekið óbilandi, framkoman uppörvandi og hressileg, hjálpfýsin með afbrigðum og velviljinn einstæður, hver sem í hlut átti. Hún krafðist mikils af starfsfólki sínu og þoldi illa sérhlífni. En hjúum sínum reyndist hún ævinlega hin ágætasta húsmóðir.“ Björgunarstörf Sigurðar fólust í að koma örmagna mönnum inn úr dyrum á Kolviðarhóli. Þar tók Valgerður við þeim, dró af þeim vosklæði, háttaði þá ofan í rúm og hjúkraði þeim eins og með þurfti. Þegar þeir fóru að skjálfa kvaðst hún hafa hætt að óttast um líf þeirra.

Stórvirki á Kolviðarhóli

 

Árið 1929 réðst Sigurður Daníelsson í að byggja 140 fermetra steinhús, kjallara hæð og ris. Megineinkenni hússins voru þrjár svipmiklar burstir. Þetta hús reis tignarlega á Hólnum, byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, sem var einmitt á þessu tímaskeiði að gera athyglisverðar tilraunir til að endurvekja burstabæjarstílinn með nýju byggingarefni, steinsteypunni. Laugarvatnsskólinn er til dæmis frá sama tíma.
Kolviðarhóll
Margir hafa tekið eftir því að burstir fara vel undir fjallshlíðum og sannaðist það bæði á Laugarvatni og Kolviðarhóli. Þetta svipmót fær líka aukinn styrk sé húsið hátt. Sérkennilegt var, að miðburstin var mjórri en hinar og ögn lægri og í öðru lagi það, að kvistur gekk í gegnum burstirnar þrjár. Þá lausn notaði Guðjón ekki annarsstaðar.
Nú varð heldur betur staðarlegt heim að líta á Hólinn; „skýjaborgir“ Sigurðar málara orðnar að veruleika og gott betur. Í húsinu voru 20 vistarverur, 6 herbergi í kjallara, önnur 6 herbergi og 2 stofur á hæðinni og 8 herbergi undir súð í burstunum. Húsið var allt steinsteypt, miðstöðvarhitun frá kolakatli í kjallara og raflýsing frá stórri ljósavél. Byggingarkostnaðurinn nam 70 þúsundum sem var stórfé á árunum 1929–30. Úr ríkissjóði fékkst 12 þúsund króna styrkur; hitt kostuðu þau Sigurður og Valgerður sjálf.

Ekki allar ferðir til fjár

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – grafhýsi Sigurðar, Valgerðar og Davíðs.

Hér var gengið fram af miklu áræði og ekki vissu menn þá að heimskreppan mikla var framundan. Nú var sú aðstaða fengin sem lengi hafði verið nauðsynleg og þau hjón urðu þekkt sem afburða gestgjafar. En ekki voru allar ferðir til fjár og enn sem fyrr var Kolviðarhóll björgunarstöð við alfaraleið í óbyggðum. Fyrir mikla og óhemju erfiða vinnu við hjálparstarf og björgun mannslífa var einskis krafizt.
Þó að vegum sé nú haldið opnum með snjómokstri þekkja margir þann ótrúlega mun sem orðið getur á veðri í Reykjavík og uppi í Svínahrauni. Hæðarmunurinn er þó ekki ærinn. Fyrsti vegurinn upp eftir Svínahrauni var lítið sem ekki neitt upphlaðinn og hann varð ófær í fyrstu snjóum.

Símastaurar

Símastaurar við fjallveg.

Árið 1907 var sími lagður austur yfir Hellisheiði og sími kom þá að Kolviðarhóli. Eftir það varð föst venja Sigurðar að nota símann til að fylgjast með mannaferðum ef illa leit út með veður og færð. Þá hafði hann annarsvegar samband við Lögberg, efsta byggða ból ofan Reykjavíkur og hinsvegar við Kotströnd í Ölfusi. Þegar Sigurður frétti að einhver hefði lagt af stað í tvísýnu veðri og skilaði sér ekki á eðlilegum tíma, fór hann óbeðinn af stað til leitar og aðstoðar þó ekki sæist út úr augum, ýmist einn eða með einhvern með sér. Aftur og aftur kom hann að mönnum sem voru búnir að gefa allt frá sér og lagstir fyrir. Alltaf tókst Sigurði að bjarga þeim. Á verstu snjóavetrunum kom fyrir að hann færi tvær eða þrjár björgunarferðir sama daginn, ýmist upp á Hellisheiði eða fram í Svínahraun Þegar heilsu Sigurðar fór að hraka 1935 lét hann það verða sína síðustu framkvæmd á Kolviðarhóli að útbúa heimagrafreit með steinsteyptu grafhýsi. Þarna vildi hann bera beinin og nú er þetta grafhýsi eina mannvirkið sem uppi stendur á staðnum fyrir utan nokkra grjótgarða. Krabbamein í hálsi dró Sigurð til dauða. Hann var þá 67 ára og fylgdi honum mikill mannfjöldi til grafar.

Frægir menn og flakkarar

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson gat kvartað yfir verðskránni á Kolviðarhóli.

Förumenn, eða flakkarar eins og þeir voru nefndir, áttu vísan næturstað á Kolviðarhóli og ekki gátu þeir borgað fyrir sig. Einn þeirra, sem margoft hafði gist á Hólnum og þegið matarbita, kom þangað aldraður og þrotinn að kröftum með þá ósk eina að hann mætti fá að deyja hjá Valgerði. Honum varð að ósk sinni. „Ég saknaði þessara manna þegar þeir hættu að koma,“ sagði Valgerður, „þó að mér væri alltaf illa við sóðaskapinn sem þeim fylgdi.“ Meðal förumanna sem oft komu að Kolviðarhóli voru Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjólfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.

En þjóðskáld, stjórnmálamenn og frægir erlendir ferðamenn gistu líka á Kolviðarhóli. Á gestalistanum eru ýmis þjóðkunn nöfn: Sigurður Breiðfjörð skáld, Þuríður formaður og séra Matthías Jochumsson.

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

Hann segir frá því í ævisögu sinni, að hann gisti á Hólnum 1884 á austurleið. Ófærð var og hríðarveður og 40 ferðamenn höfðu þá verið hýstir á Hólnum. Þeim gaf séra Matthías öllum staup af brennivíni og síðan gengu menn til náða.
Hannes Hafstein skáld og ráðherra kom oft á Hólinn og gisti þar tvívegis. Í eitt skiptið var hann á ferð þeirra erinda að vígja Sogsbrúna. Þótti heppilegt að skipta þeirri löngu leið austur að Sogi í tvo áfanga og gista á Kolviðarhóli. Annað skáld, Einar Benediktsson, gisti þar ásamt konu sinni þegar hann var sýslumaður í Rangárvallasýslu. Það var ólíkt Einari sem að jafnaði jós út fé, að hann kvartaði yfir háu verði á gistingunni. Gott hjá Guðna, að hann bauðst þá til að gefa honum gistinguna eins og flökkurunum, en ekki þáði skáldið það. Eitt skáldið enn, Grímur Thomsen, hafði sérstaklega stutt húsbygginguna á Hólnum 1877 og gisti þar löngu síðar og bað um tvennt: Þrjú staup af brennivíni og að hestur hans yrði látinn í hús og breitt yfir hann. Grímur átti þá fá ár eftir.
Daniel Bruun.Íslandsvinurinn Williard Fiske gisti á Kolviðarhóli 1879 ásamt séra Matthíasi. Daniel Bruun gisti þar oft og baróninn á Hvítarvöllum hafði þar viðkomu þegar hann fór til að athuga ölkelduvatn í Hengli, sem hann hugðist nýta. Áður var minnst á Friðrik kóng VIII sem kom að Kolviðarhóli í Íslandsförinni 1907.
Hnignun og fall á Kolviðarhóli Eftir lát Sigurðar bjó Valgerður áfram á Kolviðarhóli til ársins 1938 og sinnti gestgjafahlutverki. En 10. apríl 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól ásamt öllum mannvirkjum. Þá var sá skilningur ríkjandi að ÍR ætti að annast áfram greiðasölu og gistingu og Valgerður var ráðin næstu 5 árin til að veita gistihúsinu forstöðu.
Í fardögum 1943 lét hún starf sitt laust, þá orðin 72 ára. Á þriðja ár bjó hún áfram í litlu timburhúsi sem Sigurður hafði byggt norður á völlunum. Þar bjó öldruð kona með henni sem lengi hafði starfað á Hólnum og saman hugsuðu þær um nokkrar kindur og hænsni. Þær fóru alfarnar 1946 og settust að í Hveragerði. Þar bjó Valgerður til dauðadags 13. júní 1946, þá orðin 86 ára. Þá var aðeins eftir síðasta ferðin á Hólinn þar sem kistu hennar var komið fyrir í grafhýsinu.

KolviðarhóllHjá Íþróttafélagi Reykjavíkur voru uppi stór áform um að Kolviðarhóll skyldi verða miðstöð vetraríþrótta. Breyta átti húsinu svo það rúmaði a.m.k. 100 næturgesti. Í sjálfboðavinnu átti að fegra staðinn, planta trjám, hreinsa skíðabrekkur, hlaða stökkpall og undirbúa gott skautasvell á vetrum. Á sumrin átti Kolviðarhóll að vera hvíldar- og skemmtistaður fyrir Reykvíkinga.
Í Alþýðublaðinu sagði svo 1. september 1938: „25 piltar við vinnu og vinnunám á Kolviðarhóli. Miklar framkvæmdir á hinum nýja skíðastað Reykvíkinga. Unglingavinna byrjar að líkindum uppúr næstu mánaðamótum.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – skíðasvæði.

Piltarnir unnu m.a. að því að byggja pall á hlaðinu. „Hefur verið gerð mikil og rammleg upphækkun fyrir framan húsið og hefur það verið mikið verk og vandasamt. Grjót hafa piltarnir sprengt upp í hrauninu og flutt það á bíl þaðan. Þá vinna þeir að gerð skíðastökkbrautar við Búastein þar sem skilyrði eru sögð mjög góð fyrir stökkpall.“
Skemmst er frá því að segja að pallurinn sem gerður var við húsið sumarið 1938 var það eina af þessu sem komst í framkvæmd. Hlaðinn kantur hans að framanverðu er nánast það eina sem ekki var eyðilagt og sést enn. Trjárækt varð aldrei að veruleika; ekki skautasvellið heldur. Talsverð vinna var lögð í lagfæringar á skíðabrekkum og sumarið 1945 lagði ÍR nýja vatnsveitu heim í hús og byggði skíðageymslu. Um 30 manns unnu að þessu í sjálfboðavinnu.

Kolviðarhóll 1910

Kolviðarhóll 1910.

ftir að Valgerður hætti umsjón með veitingarekstri gekk á ýmsu og alls komu níu menn að rekstrinum á tímabili sem lauk 1948, þegar Kolviðarhóll var leigður Rauða krossi Íslands fyrir barnaheimili. Það stóð í ár og eftir það var ekki um neinn samfelldan rekstur að ræða. Síðastur til þess að bjóða gestum veitingar á Kolviðarhóli varð Guðni Erlendsson sem einnig rak veitingaskála við Gullfoss.
Pólitískur hanaslagur varð til þess að flýta fyrir endalokunum á Kolviðarhóli. Hann varð með þeim hætti að dagblöð í Reykjavík, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn, birtu æsifréttir um að bandarískir hermenn hefðu sést með íslenzkum stúlkum á Kolviðarhóli. Þær áttu að hafa verið drukknar. Einkanlega var það Þjóðviljinn sem gerði sér mat úr þessu og var þar talað um Kolviðarhólshúsið sem aðstöðu fyrir „telpnaveiðar hernámsins“. Formaður ÍR lofaði að láta stöðva meintan ósóma, en Morgunblaðið taldi að þessi umræða væri byggð á ýkjum.
Kolviðarhóll
Vorið 1952 var hún Snorrabúð sannarlega orðin stekkur; enginn fékkst þá til að vera á staðnum og um líkt leyti fór að bera á því að skemmdarvargar og bullur legðu leið sína á Hólinn til þess eins að skemma húsið. Rúður voru brotnar, hurðir sprengdar upp og húsbúnaði, sem þar hafði orðið eftir, var stolið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Árin liðu og á síðari hluta sjötta áratugarins leit hin glæsta burstabygging Sigurðar og Valgerðar á Kolviðarhóli út eins og þau hús sem orðið hafa fyrir árásum í stríði. Búið að brjóta allar rúður, jafnvel karmana með og hnullungar lágu um öll gólf, svo stórir að fíleflda karlmenn hefur þurft til að kasta þeim inn af þvílíku afli að þeir moluðu bæði rúður og gluggapósta. Allur húsbúnaður var sömuleiðis í méli og með mikilli fyrirhöfn höfðu miðstöðvarofnar jafnvel verið slitnir frá. Umhverfis húsið var allt í braki, útihúsin fallin og túnið í órækt.
Kolviðarhóll
æjarráð Reykjavíkur samþykkir að brjóta húsið niður Hjá öllu þessu hefði mátt komast með því einu að ráða húsvörð og halda húsinu við. Það hefði kostað einhverjar krónur en við ættum í staðinn hús sem væri byggingarsögulegt verðmæti og því hefði verið fundið nýtt hlutverk við hæfi.. Þar hefði til að mynda getað orðið miðstöð gönguferða um Hengilssvæðið eða safn um samgöngur og flutningatækni fyrr á tímum. Ekkert slíkt safn er til. Þeir tímar þegar ekkert var hægt að flytja nema lyfta því á klakk, svo og hestvagnaöldin, eru ungu fólki jafnfjarlægir og söguöldin og samt er ekki lengra síðan en svo að reiðingar og hestvagnar tilheyrðu daglegum veruleika þegar elzta kynslóðin í landinu var ung. Jafnvel þótt skemmdarvargar brytu allt á Kolviðarhóli sem brotnað gat og fátt væri óskemmt innanstokks, þá stóð þetta sögulega hús eftir sem áður. Það var ekki fyrir neinum.
Einhverntíma hefði komið að því að framsýnir menn tækju til hendinni og þá hefði húsið gengið í endurnýjun lífdaganna. En því miður réð sú skammsýni ferðinni sem telur fara bezt á því að brjóta allt niður sem er gamalt og slétta yfir öll gengin spor.
Kolviðarhóll
Tímanum 22. janúar 1960 segir svo í fyrirsögn: „Aldargamall gististaður lagður undir fallhamar.“ Og í frétt blaðsins er m.a. eftirfarandi: „Sl. þriðjudag kl. 16 gerði bæjarráð Reykjavíkurbæjar samþykkt um að fela bæjarverkfræðingi að fjarlægja húsin að Kolviðarhóli. Þá er lokið langri og litríkri sögu. Þegar starfsmenn bæjarverkfræðings hafa brotið þar gömlu húsin sem eftir standa, mun þögnin geyma Kolviðarhól.
Íþróttafélag Reykjavíkur hafði selt Reykjavíkurbæ húsin á Kolviðarhóli og höfðu áhugasamir menn gert tilraun til endurbóta; skipt um glugga og ýmislegt fleira.“
En það var ekki fyrr en 12. júlí 1977 að menn á vegum bæjarverkfræðingsins komu að Kolviðarhóli með járnkúlu til að mola steinveggina.. Ekki hafa allir verið sannfærðir um réttmæti þess, því málið var borið undir Þór Magnússon þjóðminjavörð, en hann beitti sér að minnsta kosti ekki gegn eyðingunni. Tíminn er eina blaðið sem ýjar að því að þetta sé vafasamur verknaður og segir í fréttinni um niðurbrotið 14. júlí 1977: „Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er í.“
Í Morgunblaðinu er smáfrétt 28. júlí 1977 með ljósmynd sem Ragnar Axelsson hefur tekið og sýnir hún þegar verið er að skófla því síðasta af steinhúsinu upp á vörubíl.
Síðan hefur þögnin ríkt á Kolviðarhóli – og skömmin.“

Í Óðni  1923 er fjallað um „Ebenesar Guðmundsson, gullsmið„, en hann réði húsum á Kolviðarhóli fyrstur ábúenda:

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 2010. Horft frá Hellisskarði.

Vorið 1878 flutti Ebeneser með fjölskyldu sinni á Kolviðarhól og varð þannig hinn fyrsti maður er gerði þann stað að bygðu bóli. En brátt fóru frumbýliserfiðleikarnir að gera vart við sig; hússkrokkurinn bláber og að vetrarlagi mjög kaldur, engar slægjur, erfiðir aðdrættir; engin eldiviður nema grámosi, og það sem verst var, vatnsleysi — að eins regnvatn.
— Veitingarnar miklu rýrari en búist var við, sumpart sökum þess að ferðamenn voru þá óvanir að kaupa greiða, höfðu nóg nesti sjálfir, enda samkvæmt leyfisbrjefinu skylt að hýsa þá og hesta þeirra ókeypis í nokkrum hluta húsanna, og aukakostnaður talsverður að hafa ljós að jafnaði allar nætur að vetri til í gluggum íbúðarhússins, þar að auki voru þau hjónin alt of gestrisin og góðgerðasöm til að geta haft á hendi greiðasölu með nokkrum ágóða, og gestnauðin tafði húsbóndan frá handverkinu.
Loks þreyttist Ebeneser á öllum þeim erfiðleikum er þarna voru, auk þess sem heilsuleysi og óyndi fjölskyldunnar bættist ofan á, flutti hann því frá Kolviðarhóli haustið 1879 og settist að á Eyrarbakka og rak þar iðn sína til dauðadags; hann ljetst af lifrarkrabba 12. des 1921. Mjög voru þau hjón vel þokkuð þegar þau voru á Kolviðarhóli, fyrir greiðvikni sína og góðgerðasemi við þurfandi ferðamenn, og margra góðra gesta myntust þau einnig frá þeim tíma, sjerstaklega Jóns landæknis Hjaltalín, sem þar var tíður gestur sökum ölkelduvatnsins í Henglafjöllum, sem hann notaði allmikið.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1972 er „100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli“:

Kolviðarhóll

Valgerður Þórðardóttir.

„Valgerður fœddist 30. jún i 1871 að Traðarholti í Stokkseyrarhreppi. Foreldrar hennar voru Þórður bóndi Þorvarðsson frá Brattsholti í Flóa og kona hans Guðríður Jónsdóttir, komin af Bergsætt.
Átján ára fór hún í vist til Jóns ríka í Móhúsum á Stokkseyri og var þar um skeið ásamt nokkurri dvöl heima í Traðarholti.
Það var vorið 1902, að hún ætlaði sér að breyta um störf og þá fór hún að heiman. Leiðin lá um Kolviðarhól, sem var gististaður. Gestgjafinn naut þá lítillega fjárhagsstuðnings frá sýslumanni. Það var áskilið að þar væri höfð stúlka, er kynni til matreiðslustarfa.
Guðni Þorbergsson og kona hans Margrét bjuggu þar, er Valgerður og önnur stúlka með henni gistu þar umrætt vor. Guðni hafði haft spurnir af Valgerði og verið bent á að hún hentað í vel í starf þetta. Hann falaði hana því til þjónustu, en hún setti upp óvenju hátt kaup á þeirra tíma mælikvarða. Fór svo, að Guðni veigraði sér við að ganga að kröfu hennar. Lagði Valgerður þá úr hlaði. Ekki var hún langt komin, er gestgjafinn kallaði á eftir henni til frekara viðtals. Sagðist hann ganga að skílmálum hennar og sneri hún þá aftur heim með honum.

Kolviðarhóll - Guðni og Margrét

Margrét og Guðni.

Urðu þau Guðni og Margrét, ásamt börnum þeirra, tryggir vinir Valgerðar alla tíð. Það má með sanni segja að þessi næturgisting varð afdrifarík, því Valgerður átti heima á Kolviðarhóli í nærri hálfa öld, og þar varð hennar lífsstarf.
Nafn hennar er þekkt um land allt. Þessari sérstöku ágætiskonu hefur verið þakkað af almenningi og hinu opinbera. Hennar óvenjulega erfiða starf krafðist mikilla hygginda og framsýni til þess að geta rækt það grundvallaratriði að hlúa að öðrum. Hún sagði: „Guð gaf okkur „Hólinn“ (svo var Kolviðarhóll oft nefndur) til þess að hlúa að hröktum og þreyttum ferðamönnum, en ekki til leikaraskapar.“ Sýna þessi orð að hún hefur tekið starf sitt alvarlega og skilið tilgang veru sinnar í þessum fjallasal, sem svo sannarlega gaf ekki mikinn tíma til frjálsræðis. Geysilega vandasamt verk hvíldi á henni, þegar á það er litið, að hún var í þessari stöðu til sjötíu og tveggja ára aldurs, og mörg ár með fullri reisn eftir að hún missti mann sinn. Til gamans má geta þess, að árið sem Valgerður fæddist var haldinn fundur í Reykjavík um þá nauðsyn að veitingahús væri rekið á Kolviðarhóli. Sigurður Guðmundsson málari bar þá hugmynd fram á fundi 26. janúar 1871 í „Leynifélaginu“ svokallaða.

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson, málari.

Árið 1905 seldi Guðni Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni frá Herríðarhóli í Holtum. Þann 16. apríl 1906 giftust þau Sigurður og Valgerður og hófu þar búskap sama vor, og bjuggu þar til ársins 1935, er Sigurður lézt. Hann var mesti myndar- og ágætismaður og góður gestgjafi.
Varla verður annars þeirra hjóna minnzt án þess að hins sé getið, því að svo var starf þeirra samofið. Sigurður var framkvæmdasamur dugnaðarmaður. Hann byrjaði á því að rækta þar jörðina, sem var mjög erfitt og dýrt, vegna þess hversu hátt hún liggur yfir sjávarmáli, 200 m. Árið 1929 var húsið á Kolviðarhóli byggt og stendur enn. Það var stórt og vandað þriggja hæða hús með miðstöðvarhitun og rafmagni frá olíukyntri ljósavél, sem sérstakt hús var byggt yfir. Vatnsleiðsla var lögð, svo rennandi vatn var þar. Áður var vatni dælt úr brunni með dælu, en síðar með vatnshrút frá uppistöðu. Var þetta mikil hagræðing frá því, er vatni var ekið heim á vagni í tunnum, og þó var erfitt að ná því. Sigurður byggði líka votheysgryfjur með allra fyrstu bændum; var að þeim nokkurt öryggi. Ekki veitti af, fjallaskúrir komu skyndilega og gegnvættu nærri þurrt hey. Um langan veg þurfti að fara til þess, að afla heyfanga; alla leið austur í Ölfus. Þar átti Sigurður jörð, sem nýtt var til slægna.“

Í Vísi 1977 er sagt frá „Veislunni á Kolviðarhól“:

Halldór Laxness

Halldór Laxness.

„Halldór Laxness segir á einum stað um Kolviðarhól: Þar ætti að vera viðboð handa prestum/mikið voðalega er skemmtilegt á Hólnum. Og satt er það, að Kolviðarhóll er kunnur aö skemmtilegheitum. Um mitt sumar árið 1907 kom Friðrik konungur áttundi í heimsókn hingað, og meðal annarra ágætra verka gaf hann út á fyrsta degi heimsóknarinnar konunglega tilskipun, þar sem sagði að samkvæmt óskum forsætisráðherra beggja landanna „höfum vér með allra hæstum úrskurði, dagsettum í dag (þ.e. 30. júlí), skipað nefnd alþingismanna“ og ríkisdagsmanna til þess að undirbúa ráðstafanir til nýrrar löggjafar um stjórnskipulega stöðu Íslands í veldi Danakonungs.“ Að líkindum mun Friðrik áttunda varla hafa órað fyrir því að sú sambandslaganefnd, sem hann var að stofna til, yrði upphafið að lokasprettinum í sjálfstæðismálum Íslendinga. Hins vegar hafði konungur þær artir til landsins, að hann hefði eflaust látið kyrran liggja slíkan grun.
En viðbrögð við frægri ræðu, sem konungur flutti, kominn austan frá Gullfossi og Geysi, benda eindregið til þess að hið danska fylgdarlið hafi um margt talið að einungis væri verið að sinna daglegu nuddi um sífeldar athuganir á réttarstöðu landsins innan veldis Danakonungs.

FriðrikSamtímaheimildir skýra frá því að konungur hafi fengið gott veður í austurreisunni, heiðan himinn og sólskin frá morgni til kvölds. Og ekki skemmdi að töluvert var af kampavíni með í förinni. Svo fóru leikar, þegar komið var að Kolviðarhóli undir kvöld, áður en lagt var upp í síðasta áfangann til Reykjavíkur að Friðrik konungur flutti stutta tölu yfir nærstöddum, hrifinn eftir velheppnaða ferð, hýr af freyðandi veigum, og þess fullviss að allir konungar og keisarar Evrópu mundu öfunda sig af þeirri för, sem var að ljúka.
Í hinni stuttu ræðu talaði hann um ríkin tvö, þ.e. Ísland og Danmörku. Lengi hefur verið deilt um það, hvort konungi hafi orðið á mismæli, eða hvort hann var með vilja að ýta bæði við Íslendingum og Dönum með því að tala um hin tvö ríki. Of seint er að spyrja Friðrik, en eftir þessa ræðu óx Íslendingum ásmegin, enda liðu ekki nema ellefu ár þangað til þessi hugsun Danakonungs var orðin að veruleika með sambandslögunum. En þetta orðalag konungs var merkilegt að öðru leyti, og má Kolviðarhóll vel njóta þess, það benti viðstöddum á, að utanríkismál, eða öllu heldur milliríkjamál, eru flókin og vandasöm og þeirra verður varla gætt sem skyldi yfir glösum af freyðivíni á sólskinsstund. Orðræðan um ríkin tvö var því nokkur kennslustund jafnframt því að vera fagnaðarefni þeim, sem lengi höfðu beðið eftir skilningi á þörfum og vilja eyþjóðarinnar.“

Í Vísi 1976 er sagt að „Húsið á Kolviðarhóli [sé] nær ónýtt vegna vanhirðu og skemmdarverka“. „Ætti að brjóta húsið niður“, segir borgarverkfræðingur.

Kolviðarhóll
„Þeir sem lagt hafa leið sina upp að Kolviðarhóli hin síðustu misseri hafa varla komist hjá að taka eftir því hve hroðalega illa útleikið hið stóra og fyrrum glæsilega húsa þar er. Í öllu húsinu er ekki ein einasta heil rúða, allar hurðir hafa verið rifnar af hjörum, ofnar, kranar, vaskar og annað þess háttar liggur ýmist brotið um öll gólf, eða þá að því hefur verið stolið. Fyrir nokkrum mánuðum kviknaði í efstu hæðinni í austurhluta hússins, og hefur engin viðgerð farið fram ennþá.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Saga Kolviðarhóls er bæði löng og merkileg, og þar var um áratuga skeið rekin veitingasala og gistihús. Er ekki að efa að margur ferðalangurinn hafi rennt hlýjum og þakklátum augum heim að Kolviðarhóli í frosti og kafaldsbyl á ferðum sínum milli þéttbýlisins við Faxaflóa og sveitanna austur í Árnessýslu. Þó Hellisheiði þyki nú ekki erfið yfirferðar né hættuleg ferðamönnum, þá hafa sennilega fleiri orðið þar úti en á nokkrum öðrum fjallvegi á Íslandi. Stafar það trúlega bæði af því hve umferð um hana hefur jafnan verið mikil, og ekki síður vegna þess hve leiðin er stutt. Þá ber allt húsið þess merki, að sauðfé getur gengið þar um að vild sinni, því sum gólfin eru verr útlítandi en mörg fjárhús sem ekki hefur verið stungið út úr lengi.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1957.

Þannig er í stuttu máli útlits í þessu stóra húsi, sem eitt sinn var ein glæsilegasta bygging í allri Árnessýslu, og þó víðar væri leitað.
Jörðin Kolviðarholl hefur verið í eigu Reykjavíkurborgar í nokkur ár, en jörðin er í Ölfushreppi í Árnessýslu. Hjón úr Reykjavík bjuggu þar með börnum sínum fyrir örfáum árum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhústóftin.

Áður en hús var reist á Kolviðarhóli var um langan aldur sæluhús þar skammt frá, við svonefndan Húsmúla, sem dregur nafn af sæluhúsinu sem þar stóð undir múlanum. Eru til heimildir um hús þar allt frá árinu 1703, og vafalaust hefur sæluhús verið löngu áður þó ekki finnist um það skriflegar heimildir.
Fljótlega mun það þó hafa þótt ófullnægjandi að hafa sæluhúsið undir Húsmúlanum, og því var það að menn úr Reykjavik og Ölfusi tóku sig saman um að byggja sæluhús á Kolviðarhóli við, Hellisskarð. Var fyrsta sæluhús á þeim stað reist árið 1844.
KolviðarhóllStarfræksla gistihúss á Kolviðarhóli hófst síðan árið 1878, og var frá þeim tíma rekið þar gistihús og greiðasala með stuttum hléum allt fram til ársins 1952, en síðustu árin var gistihúsið og greiðasalan rekin af Íþróttafélagi Reykjavíkur (ÍR).
Sögu Kolviðarhóls verða gerð nánari skil hér í blaðinu á næstunni, en vert er að hafa það í huga er menn leggja leið sina að Kolviðarhóli að þar var eitt sinn rekið glæsilegt gistihús, og staðurinn er þess alls ómaklegur að hann verði látinn grotna niður eins og nú er að gerast. Betur hefði þá farið að húsið brynni niður á einni nóttu, og hyrfi þar með niðurlægingarlaust af sjónarsviðinu. Það væri vissulega verðugt verkefni fyrir Reykjavíkurborg, Ölfushrepp og Árnesingafélagið að stuðla að því í sameiningu að reisa staðinn til fornrar virðingar að nýju.
Eins og er eru þó ekki miklar líkur á að svo verði, því samkvæmt upplýsingum borgarverkfræðings í gær eru ekki uppi neinar áætlanir um að gera við húsið, enda sé það í lakara ástandi en fokhelt hús. „Ef ég mætti ráða myndi ég láta kúluna á húsið og brjóta það niður“, sagði borgarverkfræðingur.“ -AH

Í Tímanum  segir; „Rifið niður á Kolviðarhóli“:

Kolviðarhóll
„Þriðjudag sl. var hafizt handa um að brjóta niður gamla gistihúsið á Kolviðarhóli, sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Ekki er liðinn nema rétt rúmur áratugur síðan húsið var lagfært mjög, skipt um glugga í því og ýmislegt fleira. Voru þar á ferðinni áhugasamir menn um framtíð staðarins og er nú verk þeirra að engu að verða. Spellvirkjar ýmsir hafa að vísu lagt gjörva hönd á niðurrif hússins, brotið allar rúður og hurðir og jafnvel kveikt í húsinu. Er þetta starf þeirra nú fullkomnað og verið að rifa niður húsið. Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er af. Kolviðarhóll er sögufrægur staður og lá þar gamla þjóðleiðin um Hellisskarð fram til þess að akvegur var lagður yfir Hellisheiði. Leiðin frá Lögbergi að Kolviðarhóli, eða austan úr Ölfusi var hér áður drjúgur spotti, sem menn nú aka á rúmum stundarfjórðungi.
Þegar hin „græna bylting“ hefur lokið sínu verki, mun heimagrafreitur síðustu gestgjafanna á Kolviðarhóli, Valgerðar Þórðardóttur og Sigurðar Danlelssonar, verða einu minjarnar á þessum sögufræga stað.“

Sjá meira um Kolviðarhól HÉR.

Heimildir:
-Tíminn, 158. tbl. 24.07.1977, Kolviðarhóll 1877-1977, fyrsti gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…, bls. 2-3.
-Lesbók Morgunblaðsins 07.04.2001, Kolviðarhóll – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum, – Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.
-Óðinn, 7.-12. tbl. 01.07.1923, Ebenesar Guðmundsson, gullsmiður, bls. 56-57.
-Lesbók Morgunblaðsins, 16. tbl. 30.04.1972, 100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli, bls. 8-9 og 16.
-Vísir, 5. tbl. 07.01.1977, Veislan á Kolviðarhól, bls. 10-11.
-Tíminn, 149. tbl. 14.07.1977, Rifið niður á Kolviðarhóli, bls. 1.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 28. júlí 1977.