Tag Archive for: Hellisheiði

Hellulofinn

Í Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008 má m.a. lesa eftirfarandi:

Ölkelduháls

Á Ölkelduhálsi.

Í norðvestri liggur Hengilssvæðið nokkuð vestur fyrir Marardal. Þaðan í suður um Bolavelli, vestan Húsmúla. Suður fyrir Húsmúla í átt að Sleggjubeinsdal. Þá suður með Stóra-Reykjafelli að vestanverðu og milli Stakahnjúks og Lakahnjúka.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.

Áfram í suður um Stóra-Meitil, Eldborg og Litla-Meitil og að norðurhlíðum Krossfjalla. Þaðan til vesturs að Lönguhlíð. Sveigir síðan aftur til norðurs um Sanddalahlíð, Stóra-Sandfell og Lakakróka. Þá til austurs um Hverahlíð í átt að Kambabrún. Frá Kambabrún í suðaustur milli Hveragerðisbæjar og bæjarhúsanna í Vorsabæ. Um land jarðanna Sogns og Gljúfurs að Kaga í Ingólfsfjalli norðaustanverðu. Mörk sveitarfélaganna Ölfus og Grímsnes- og Grafningshrepps liggja um Kaga. Rannsóknarsvæðið fylgir sveitarfélagamörkunum til norðvesturs sunnan Stórahálsfjalls, um Efjumýri, Klóarfjall og á Tröllháls. Þá til vesturs norðan Ölkelduhálshnúks og loks í norðvestur að Hengli og í Marardal.
Svæðið tilheyrir þremur sveitarfélögum, Sveitarfélaginu Ölfusi, Hveragerðisbæ og Grímsnes- og Grafningshreppi. Landfræðilega er það tvískipt, Hellisheiðin og fjalllendið norðan og norðvestan við Hveragerði og láglendið þar sem Hveragerðisbær og bújarðirnar austur af Hveragerði liggja. Jörðin Reykir í Hveragerðisbæ er innan svæðisins. Stórir hlutar jarðarinnar Sogns og nyrsti hluti Gljúfurjarðarinnar í Sveitarfélaginu Ölfusi eru einnig innan svæðisins.

Marardalur (afrétt)

Marardalur

Marardalur.

Marardalur er vestan í Henglinum. Dalurinn hefur einnig verið nefndur Maradalur eða Marárdalur. Talið hefur verið að annað hvort væri nafnið skylt orðinu marflatur, þ.e. flatur eins og sjórinn, eða þá að átt sé við mar = hestur.

Marardalur

Marardalur.

Réttir þessar voru í dal, er Marardalur heitir. Hann er vestan undir Henglinum, þar sem hann er hæstur. Dalur þessi er einkennilegur: hömrum girtur á alla vegu og aðeins eitt einstigi eða öllu heldur þröngt hlið inn í hann, sem fært er stórgripum. Í botni dalsins er slétt harðvellisgrund, algróin fíngerðum vallargróðri, á að giska 5-6 hektarar að stærð. Þarna er því að mestu leyti sjálfgerð girðing. Aðeins hefir þurft að hlaða upp í nokkur smáskörð, til að tryggt væri, að engin skepna slyppi út, sem inn var komin. Víða sér glöggt fyrir þessum hleðslum enn, þó að það hafi aldrei verið mikið mannvirki. Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn í dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttarmönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði. Í dalnum hefir ekki verið tiltök að tjalda, þegar þar voru margir tugir nauta eða jafnvel hundruð, þegar flest var. Norðast í dalnum er lækur, ekki alllítill, og rennur hann suður eftir dalnum nokkurn spöl og hverfur svo niður smátt og smátt. Lækur þessi kemur út úr berginu, að mestu leyti í helli nyrst í dalnum austan megin. Í læknum er tært bergvatn, og þrýtur hann aldrei og frýs ekki, því að þetta er kaldavermsl.
Talið er að hætt hafi verið að hafa naut í Marardal laust fyrir 1860. Ásttæður þeirrar ákvörðunar eru ekki þekktar og ekki vitað um annan stað sem tók við af dalnum í þessum tilgangi.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Fornleifarnar sem skráðar voru í Marardal eru þær sem nefndar eru í tilvitnunni hér að ofan, fyrirhleðslur þar sem skepnur gátu komist út úr dalnum og hellisskútar þar sem sjá mátti mannaverk. Í textanum er talað um helli skammt frá götu og fyrir framan hann hlaðinn garð til skjóls. Þessi hellir fannst ekki. Hellirinn er sagður vera austanmegin í Marardal, um 200 m norðan við einu verulega greiðfæru leiðina upp úr dalnum, austanmegin fyrir miðjum dal. Hellirinn fannst þá um 30 m frá merktri gönguleið og um 3 m uppi í hlíðinni.

Hengill

Hengill – Marardalur.

Grasi gróin brekka er upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.
Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (vörslugarður)

Marardalur

Marardalur – vörslugarður.

Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.

Marardalur

Marardalur – skjól.

Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (hellir/útilegumannaminjar)

Marardalur

Marardalur – hellisskúti.

Neðan við hellinn er aflíðandi móbergsklöpp. Auðvelt er að komast að hellinum. Hellirinn er um 3 m að dýpt, um 2 m á breidd þar sem hann er breiðastur og um 1,2 m á hæð þar sem hann er hæstur. Fyrir honum er hleðsla sem talsvert hefur hrunið úr og liggur grjótið framan við hellinn. Eftir standa einungis tvær steinaraðir.

Innstidalur (hellir/útilegumannaminjar)

Lýður Björnsson segir frá helli í Innstadal í ársriti Útivistar 1986. Segir hann hellsimunnan blasa við ef gengið er yfir Sleggjubeinsskarð frá skálanum innan við Kolviðarhól og í dalinn. Hellirinn er allhátt í klettunum rétt hjá stórum gufuhver. Leifar af hleðslu eru fyrir hellsimunnanum sem þó er nær alveg hruninn. Lýður fann talsvert af beinum undir hellum í hellinum. Hann dregur þá ályktun að líklegast sé um útilegumannahelli að ræða. Því til staðfestingar bendir hann m.a. á að klettarnir neðan hellismunnans séu verulega torfærir og ræður óvönum klettamönnum frá að freista uppgöngu nema þeir séu vel búnir og í fylgd með sæmilegum klifurmönnum.

Innstidalur

Innstidalur – skúti.

Í Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939 skrifaði Þórður Sigurðsson frá Tannastöðum grein um útilegumenn í Henglinum. Frásögnin hefur verið tengd við hellinn í Innstadal. Segir þar frá skipshöfn, 6 eða 7 mönnum, sem dvöldu í hellinum ásamt tveimur huldukonum eftir að hafa framið eitthvert níðingsverk sem ekki er þó vitað hvað var. Stálu þeir sauðfé Ölfusinga og Grafningsmanna sér til matar. Söfnuðu sveitamenn 50 til 60 manna liði og sátu fyrir hellismönnum eitt sinn er þeir komu úr ránsferð. Hellismenn flúðu en voru allir drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða niður á Mosfellsheiði.
Í Innstadal er hellir upp í bergi. Mjög bratt er upp í hellinn og illkleift upp í hann. Sögur eru til um að útilegumenn hafi hafst við í hellinum um tíma. Sögur þessar eru frá 18. öld og jafnvel fyrr. Ólafur Briem lýsir hellinum í bók sinni Útilegumenn og auðar tóftir og hefur lýsinguna að hluta eftir frásögn Lýðs Björnssonar á hellinum. Hellirinn er tveggja til þriggja metra djúpur og manngengur að framanverðu. Breiddin er rúmlega tveir metrar. Hleðslur eru fyrir munnann beggja vegna dyra. Þykkar hellur sem kunna að vera úr hleðslunum eru á gólfi og undir þeim hafa fundist bein, mest af stórgripum. Í öðrum dyraveggnum er sögð vera hella sem rís upp á rönd og á henni rista sem líkist galdrastaf. Við vegg hellisins, innan við munnann, er ferstrend hola sem vatn stendur í. Ekki lítur út fyrir að hún hafi verið löguð af mönnum. Engar leifar af eldstæði eða ösku eru í hellinum. Ólafur telur að hellisbúar hafi soðið mat sinn í hvernum neðan við hellinn áður en þeir drógu hann upp til sín. Hellirinn var ekki skráður að þessu sinni.

Draugatjörn (sæluhús)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Sæluhús var á leiðinni milli Ölfuss og Mosfellssveitar við Draugatjörn sunnan Húsmúla.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhústóft.

Varðveitt er heimild um þetta sæluhús frá 1703 í lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdan á Reykjum. Þegar líður fram á 19. öldina er sæluhúsið við Draugatjörn orðið hrörlegt auk þess sem reimt þótti í því svo að margir veigruðu sér við að gista þar. Sæluhúsið var flutt upp á Kolviðarhól árið 1844 eða 1845. Á svæðinu eru nú leifar eftir sæluhúsið, rétt og túngarður. Í nágrenninu eru vörður og þar markar einnig fyrir gömlum götum.
Tóftin er enn sýnileg austan Draugatjarnar á hrauntungu sem þrengir að Bolavöllum og nær norður undir Húsmúla… Þarna fundust merkar minjar við fornleifauppgröft 1958, járnvar af reku til að moka snjó, járnfleygur til að gera vök í tjarnarísinn, flatstein til að kveikja á eldspýtu og bóluglas undir brjóstbirtu, varðveitt í Byggðasafninu á Eyrarbakka.
Það mun hafa verið Skúli Helgason sem gróf í rústir sæluhússins árið 1958. Hann greinir frá uppgreftrinum í bók sinni Saga Kolvirðarhóls. Segir þar að haustið 1958 hafi verið grafið í rústirnar og tóftin hreinsuð. Voru þá liðin 114 ár frá því húsið hafiði verið í notkun. Auk þess sem áður er upptalið af því sem fannst við uppgröftin telur Skúli upp tvo bindinga úr blaði reku; járnfleyga ferkantaða, 9 cm langa; hnapp úr látúni, skreyttan fjögra blaða rós og brot úr brúnu leirkeri, með fagurlega gerðum upphleyptum rósum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhús.

Í bókinni Gráskinna hin meiri er frásögn, sem Skúli Skúlason ritstjóri skráði, um draugagang í sæluhúsinu. Segir þar af Grími bónda á Nesjavöllum í Grafningi. Grímurbjó á Nesjavöllum eftir aldamótin 1800. Hann var skytta góð og stundaði rjúpnaveiðar. Fyrir jólin var hann vanur að fara til Reykjavíkur til að selja rjúpur og draga ýmislegt smávegis að heimilinu fyrir hátíðarnar. Fór hann oftast einn í slíkar ferðir og gisti ekki á leiðinni. Í einni slíkri ferð var orðið áliðið þegar Grímur lagði af stað úr Reykjavík. Þegar upp á Hellisheiði kom lenti hann í aftaka veðri og varð því að gista í sæluhúsinu. Honum var þetta þvert um geð því aðbúnaður var slæmur í húsinu og svo var hitt að Grímur var myrkfælinn en reimt þótti í sæluhúsinu. Höfðu þrír menn orðið úti þar skammt frá nokkrum árum áður og sóttu þeir að mönnum sem leituðu þar húsa svo illfært þótti að gista þar nema þá margir saman. Grímur gekk frá hesti sínum og fór inn í húsið. Lokaði hann hurðinni og lagði trédrumb að henni. Hundur hans lagðist fram á lappir sér innan við hurðina. Grímur lagðist síðan í bálka í suðurenda kofans með byssu sína sér við hlið.Um síðir tókst honum að sofna en hrökk svo upp við mannamál sem heyrðist utan úr ofviðrinu. Hélt hann fyrst að þar væru komnir ferðamenn og varð félagsskapnum feginn. En þegar raddirnar færðust nær sæluhúsinu kannaðist Grímur við málróm þeirra. Heyrði hann að þar voru komnir mennirnir, sem höfðu orðið úti. Grímur hafði þekkt þá alla. Grímur þeif til byssu sinnar og tók fingrum um gikkinn. Var þá hurðinni hrundið upp svo að hundurinn sem við hana lá flaug vælandi í vegginn andspænis henni. Grímur sá engan koma inn úr dyrunum en áður en varði fannst honum samt sem fullt væri orðið af fólki í kofanum. Virtist Grími sem fólkið væri komið til að sækja gleðskap því mikið var talað og dátt hlegið. Grímur sá þó engan og fann ekkert.

Draugar

Draugaaugu.

Eftir að hafa starað í myrkrið langa stund sá Grímur tvo lýsandi depla í einu kofahorninu, líkasta glóðarkögglum. Urðu þeir brátt sem mannsaugu sem færðust nær Grími og störðu á hann mjög illkvitnislega. Þegar augun voru komin að bjálkabrúninni hjá Grími hleypti hann af byssu sinn og miðaði á augun. Hvarf þá sýnin og var eins og kofinn tæmdist. Grímur reis á fætur og fór að dyrunum. Hurðin var óbrotin en hundurinn lá steinrotaður inn við vegg. Varð nú allt kyrrt um sinn en ekki gat Grímur sofnað. Eftir alllanga stund heyrði Grímur mannamál í fjarska sem fyrr og sama atburðarás endurtekur sig. Nú var Grími nóg boðið. Eftir að hafa aftur skotið af byssu sinni náði hann til hests síns í flýti og reið á brott. Hann komst við illan leik Tóft sæluhússins er uppá hól. Hún er 7,4 m á lengd og 6 m á breidd, op (dyr) snýr í suðvestur. Tóftin er úr torfi og grjóti og er grasi- og mosavaxin. Nokkuð hefur hrunið úr hleðslum inn í tóftina. Upp við tóftina, norðaustan við hana, er ógreinileg dæld nokkur sem hugsanlega er gerð af manna völdum, og gæti jafnvel verið leifar lítillrar byggingar, geymslu eða eitthvað þess háttar. Um 60 m vestan við sæluhúsið hefur legið vörðuð leið NV-SA og voru mældar upp sex vörður á þessari leið.

Draugatjörn (rétt)

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Um 140 m í NNV frá sæluhúsinu er grjóthlaðin rétt, utan í hraunhól. Mosi og skófir er á steinum í hleðslunum. Réttin er ferhyrnd, 21 m á lengd og 16 m á breidd. Í suðaustur horni réttarinnar er lítið hólf, 7 x 7 m. Op á rétt og hólfi snýr í norðvestur. Um 8 m langur veggur liggur frá NV-horni réttarinnar. Upp á hraunhólnum er grjóthlaðin varða, um 0,7 m á hæð, nokkuð hrunin. Varðan er nokkuð úr hinni vörðuðu leið sem liggur við sæluhúsið og því sú ályktun dregin að hún eigi fremur að leiða menn að réttinni.
Á milli sæluhússins og réttarinnar liggur um 60 m grjóthlaðið garðlag í N-S. Garðlagið er ógreinilegra en réttin en líklegt verður að teljast að þessar minjar tengist á einhvern hátt.
Annar grjóthlaðinn garður, um 430 á lengd liggur vestan og norðan með Draugatjörninni. Þessi garður er öllu greinilegri enda fer hæð hans upp í 1,2 m á hæð á köflum. Réttin og stóri garðurinn virðast yngri en sæluhúsið og því sett hér upp sem önnur minjaheild en auðvitað gætu ábúendur á Kolviðarhóli hafa viðhaldið réttinni og garðlögum í kring eftir að sæluhúsið leið undir lok.

Kolviðarhóll  (býli/sæluhús)

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á 19. öld var gert átak í því að bæta samgöngur á Hellisheiði. Fyrsta skrefið var að flytja sæluhúsið úr Svínahrauni og upp á Kolviðarhól. Er talið að þetta hafi verið gert á árunum 1844-1845. Þessi flutningur var gerður til þess að menn ættu auðveldara með að finna sæluhúsið og þar með fækkaði slysum á mönnum. Spýtur voru nýttar úr gamla kofanum við mismikinn fögnuð manna því sumir trúðu því að þeim fylgdi eitthvað óhreint enda talið mjög reimt í gamla sæluhúsinu. Húsið var timburhús á hlöðnum sökkli. Í því mun hafa verið svefnpláss fyrir 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta sæluhús á Kolviðarhóli var í notkun í um 30 ár.
Árið 1877 hófst bygging á nýju sæluhúsi á Kolviðarhóli. Nokkuð hafði verið kvartað yfir því að eldra húsið væri orðið lélegt. Ferðamenn töluðu um að slæmt væri að vera þar í vondum vetrarveðrum “því hríðargusurnar geyfi inn um gátt og rjáfur.” Hugmyndin með nýja húsinu var einnig að bæta þjónustuna við ferðamenn, þ.e. að reka gistiaðstöðu og greiðasölu og skyldi gestgjafi búa á staðnum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Húsið var að mestu fullgert um haustið 1877. Stærð þess var 10×11 álnir að utanmáli. Veggir voru tvíhlaðnir (utan og innan) úr höggnu grjóti, er lagt var í steinlím, sem þá var reyndar kalk. Á því var port um eina alin á hæð og gott ris. Herbergjaskipan var þannig: Fyrst var komið inn í rúmgóða forstofu, og úr henni lá stiginn upp á loftið. Þá voru 2 herbergi og eldhús með eldavél; ofn var í öðru herbergi. Uppi á lofti voru 2 herbergi, annað fyrir ferðamenn, en hitt notað fyrir geymslu. Húsið var að innan klætt timbri í hólf og gólf. Á því voru 6 gluggar, 4 á veggjum og 2 á lofti; voru þeir allir í 6 rúðu fagi. Mjög var til byggingarinnar vandað á allan hátt, eftir því sem föng voru á á þeirri tíð.
Búskapur var tekin upp á Kolviðarhóli jafnframt því sem þar var rekin gistiaðstaða og greiðasala. Skepnum fjölgaði og útihús voru reist. Um árabil var rekið myndarlegt bú á Kolviðarhóli. Jón nokkur Jónsson bjó á Kolviðarhóli á árunum 1883-1895. Hann hóf að rækta tún á Kolviðarhóli og girti með hlöðnum grjótgarði. Guðni Þorbergsson, tengdasonur Jóns, tók við búskapnum og bjó á Kolviðarhóli til ársins 1906. Guðni stóð í töluverðum framkvæmdum á staðnum, hann stækkaði og sléttaði túnin og viðhélt túngarðinum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhús 1844.

Með betri vegum og hraðskreiðari farartækjum minnkaði þörfin á slíkri ferðaþjónustu á þessum stað. Veitingarekstur á Kolviðarhóli lognaðist út af fyrir 1950 og árið 1977 lét Reykjavíkurborg jafna húsin á Kolviðarhóli við jörðu. Bæjarstæði Kolviðarhóls stendur norðan Reykjafells, neðan við Hellisskarð. Leifar síðustu húsanna á Kolviðarhóli eru enn sýnilegar, nokkuð sérstakar að gerð en þar ægir ýmsu byggingarefni saman; torfi og grjóti, tilhöggnu hleðslugrjóti og steinsteypu. Veggir minna norðvestur-hólfsins eru steinsteyptir en einnig má finna steinsteypu milli gangsins og miðjuhólfsins í suðaustur-hlutanum. Efri hluti hússins (SA-hlutinn) er 22,5 m x 16 m að stærð og liggur NA-SV. Neðri hlutinn (NV-hlutinn) er um 19 m x 10 m og liggur NV-SA. Að öllum líkindum er sá hluti yngri viðbygging.
Um 4,5 m SA af húsarústunum er að finna leifar ferkantaðar byggingar, um 7 m x 7 m að stærð. Minjarnar eru mjög ógreinilegar en það mótar fyrir hlöðnu, tilhöggnu grjóti. Vegghæð er lítil, einungis um 10 cm. Spurning hvort hér séu ekki leifar sæluhússins frá 1844.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1957.

Fast upp við þessar húsaleifar, suðvestan megin, eru tvær dældir sem hugsanlega eru leifar einhverra mannvirkja sem tengjast húsaleifunum. Þetta eru grunnar, grónar dældir um 10 cm á dýpt. Um 12,5 m SA af húsarústunum er illgreinanleg, gróin tóft, um 4,5 m x 3,5 m að stærð og liggur NV-SA. Þetta hefur verið einhvers konar kofi, kannski geymsla eða eitthvað þess háttar. Vegghæð er lítil, einungis um 20 cm. Um 19 m ANA frá þessari tóft er leifar steinsteyptrar byggingar. Veggir og þak hafa hrunið og því erfitt að gera sér grein fyrir lögun hússins, sérstaklega innra formi. Stærð hússins hefur verið um 6 m x 7 m og liggur NV-SA. Um 50 m suður af megin húsarústum er heimagrafreitur með steinsteyptum garði í kring. Garðurinn er um 5 m x 5 m að stærð og veggir um 30 cm að þykkt. Grafreitur þessi er 20. aldar mannvirki. Grjóthlaðinn túngarður liggur frá NV-hluta húsarústa, niður með götu og myndar þannig heimtröð að hluta. Svo liggur garðurinn utan um túnin. Engan garð var þó hægt að greina norðan megin, þ.e. austan við götuna. Garðurinn er í ágætu ástandi og vegghæð fer upp í 1,2 m á kafla. Þó er greinilegt að farið hefur verið í gegnum garðinn með einhverja lögn á suðaustur hlið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Útihúsin frá Kolviðarhóli liggja um 220 m NA frá bæjarstæðinu, norðan við bílveginn. Nyrðst er garðlag um 23 m á lengd sem liggur A-V. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1,3 m á hæð þar sem hann er hæstur og um 0,7 m á breidd. Mosi og skófir eru á steinum.
Austarlega á garðinum er lítil tóft utan í (norðan við) garðlaginu. Tóftin er um 4,5 m x 4,5 m að stærð, ferhyrnt með op í vestur. Hún er að mestu grjóthlaðin ogmosi og skófir á steinum. Vegghæð er mest um 0,4 m. Beint suður (um 40 m) af þessri tóft er önnur nokkuð stærri. Tóftin er um 14 m x 9,5 m að stærð og liggur NNV-SSA, op snýr í SSA. Hún er að mestu grjóthlaðin en nýlegt hrun má sjá úr veggjum. Um 30 m vestar er tveggja hólfa tóft. Tóftin er að mestu úr torfi og grjóti en nyðra hólfið er með steinsteypta innri veggi. Hún er um 7 m x 5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op snýr í SA.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – tóftir.

Um 16 m sunnar er lítil tóft, um 4 m x 3,5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op í SSV. Tóftin er úr torfi og grjóti með 30 cm breiða steinsteypta innri veggi.
Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell. Norðan í því er Dauðidalur; í honum er fjárrétt. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal. Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kringum hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við dældina og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Búasteinn (sögustaður)

Búasteinn

Búasteinn.

Búasteinn er um 500 m austnorðaustur af bæjarstæði Kolviðarhóls. Hér átti Kolviður frá Elliðavatni að hafa fallið ásamt 11 öðrum fyrir Búa frá Esjubergi. Segir frá þessum atburðum í Kjalnesinga sögu. Hér er um að ræða stóran stein, norðan megin í Hellisskarði, upp í hlíðinni. Engin eiginleg mannvirki er þarna finna með tilvísun í söguna. En um 20 m norðar eru leifar palls sem tengist skíðaiðkun á staðnum á 20. öld.

Hellurnar (sæluhús/vörður)

Hin forni vegur milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá að Kambabrún, austan við Hurðarásinn, sjónhending á skarðið við norðaustur enda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með húsmúla, niður með norðurbrún Svínahrauns, hjá Lyklafelli og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti (Helliskoti) og Vilborgarkoti (nú eyðijörð) í Mosfellssveit.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi. Að þeirri framkvæmd stóð Gísli hreppstjóri Eyjólfsson á Vötnum í Ölvesi, d. 1866. En kofann reisti Þórður Erlendsson, síðast bóndi á Tannastöðum, d. 1872. Bygging þessi var með nokkuð sérstæðum hætti, enda unnin af manni, sem var orðlagður byggingamaður og snillingur í öllum handtökum.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Kofinn er að innanverðu niður við gólf ferhyrndur og jafn á allar hliðar, 1,85 m. Á hvern veg og 2 m undir loft, mælt af miðju gólfi. Þegar veggir taka að hækka, hringmyndast hleðslan og gengur að mestu saman í þakinu, en því er lokað með geysistórri hraunhellu. Þakið er mosagróið mjög, og hafa vaxið upp úr því puntustrá á víð og dreif. Dyrnar eru 60 cm. Breiðar og 1 m á hæð. Þröskuldurinn er hár, því upp á hann að innanverðu eru 40 cm. Veggir eru svo þykkir, að kofinn er hringmyndaður séður að utan, og að norðanverðu er hann sem hraunhóll, enda hlaðinn allur úr fallegu hellugrjóti. Engin spýta er í byggingu þessari, og má hún heita einstæð í sinni röð. Kofinn var byggður á áratugnum 1830 -1840 og hefur nú staðið óhaggaður á aðra öld. Hann stendur á bungumyndaðri hraunklöpp, á hægri hönd, örskammt frá hinum forna vegi, þegar farið er suður, við fertugustu og fimmtu vörðu, talið austan að.
Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiðina eru friðlýstar fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti þessar minjar.
Gatan er víða sýnileg á heiðinni, bæði norðan núverandi þjóðvegar en einnig sunnan hans þegar austar dregur. Hún þverar þjóðveginn nærri þeim stað þar sem háspennulínur fara yfir hann. Þar sem rásin er greinanleg í klöppinni er hún víðast um 30 – 40 cm breið og 5 – 10 cm djúp. Sumsstaðar má sjá tvær og jafnvel þrjár samsíða rásir í klöppinni. Sunnanvert á miðri heiðinni var á árunum 1830 – 1840 byggður steinhlaðinn kofi til skjóls fyrir þá sem leið áttu um heiðina í vondum veðrum. Kofin fékk nafnið Hellukofinn. Vörður eru við götuna frá Hellukofanum og í austur. Þær fylgja götunni í fyrstu en víkja frá hinni sýnilegur rás til norðurs þegar austar dregur. Ástæður þessa munu vera þær að fyrir nokkrum áratugum voru vörður meðfram leiðinni enduhlaðnar og nýjum bætt við en svo virðist sem menn hafi ekki vitað hvar gamla gatan lá þegar austar dró.

Eiríksbrú (vegagerð)

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur).

Árið 1875 voru sett lög um vegi á alþingi. Landssjóður átti að sjá um og annast útgjöld af vegum sem lágu milli byggða og sýslna. Vegur var lagður um Svínahraun á árunum 1877 og 1888. Í reglugerð var sagt að að vegurinn skyldi vera 10 feta breiður (3,13 m), upphlaðinn og púkkaður með grjóti.

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

Lestir áttu að geta mæst á veginum en hestvagnaumferð var ekki höfð í huga við hönnun hans. Eiríkur Ásmundsson frá Grjótá sá um vegagerðina. Hann tók einnig að sér að leggja veg um Kamba árið 1879.
Vegurinn um Kamba þótti of brattur og því lítið notaður. 15 árum síðar var lagður annar vegur um Kambana. Árið 1880 hélt Eiríkur áfram vegagerð og lagði þá veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar. Þessi vegur var um 4-5 km, beinn og vel gerður. Vegurinn var kenndur við hann og kallaður Eiríksbrú.
Samkvæmt heimildarmanni, Birni Pálssyni, má finna leifar hestaskjóls suðaustan undir þjóðvegi 1 og sunnan Eiríksbrúar og gömlu þjóðgötunnar. Hestaskjól þetta var notað þegar Eiríksbrú var gerð árið 1879. Vegurinn var víða upphlaðinn og púkkaður með grjóti, um 2-3 m breiður. Leifar hans eru sýnilegar á nokkurm stöðum á heiðinni og í Kömbum.
Grjóthlaðin tóft er um 50 m suðaustan undir núverandi þjóðvegi ofan við Hamarinn og er hér líklega um hestaskjólið eða aðhaldið sem Björn Pálsson nefnir. Það er byggt úr hraungrýti ofan á litlum hraunhól, um 19,8m x 9,3 m að stærð og liggur sem næst A-V. Inngangur hefur verið við vesturenda tóftarinnar. Mosavaxin að mestu að austanverðu en hleðslan er sýnileg að vestanverðu. Lyngvaxnir móar í kring.

Þjóðleið frá lokum 19. aldar

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Nýr vagnfær vegur var lagður niður Kamba árið 1894 og sama ár hófst lagning vegar fyrir Hellisheiðina. Þeirri vegagerð lauk árið 1895. Komst nú talsverður skriður á vegagerð, einkum á flutningabraut nr. 1, austur í Rangárvallasýslu. Fór og að gæta áhrifa landsverkfræðings, Sigurðar Thoroddsen. Hann hafði, að loknu námi í Kaupmannahöfn 1891, fengið ferðastyrk frá alþingi til þess að fara til Noregs og kynna sér vega- og brúargerðir, og dvaldist hann þar til vors 1893.

Kambar

Gamli Kambavegurinn sem var lagður um 1895-1896.

Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjarfell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu, leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar.
Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð úr að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 „hárnálarbeygjur“ á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. Þótti ýmsum sem vegur þessi væri undur mikið. Brautin frá Reykjavík og austur í Svínahraun hafði verið lögð á árunum 1886-1892, og vegurinn um Ölfusið að mestu lagður 1892, sem áður segir. Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir. Árið 1895 var því kominn að kalla óslitinn vagnfær vegur úr Reykjavík austur yfir Ölfusárbrú. Vegurinn er hvergi sýnilegur í upprunalegri mynd enda notaður til 1972 og því marg endurbættur. Leifar vegar í þessari sömu legu má þó sjá, bæði uppi á heiðinni og eins austan við hana. Hlykkjóttar beygjur í Kömbunum sem eiga uppruna sinn í þessum vegi voru færðar inn á loftmynd.

Þrengslavegur

Þrengslasevegur

Þrengslavegur.

Þrengslavegur lá frá Neðri Hveradalabrekku suður með Gráuhnúkum að vestan, vestan Meitla og suður að Meitiltagli syðst í Litla-Meitli. Leiðin hefur verið greið og ekki hætt við að menn villtust á henni enda fylgir hún fjallshlíðunum.

Þrengslasevegur

Þrengslavegur.

Þrengslavegurinn gamli lá út af þjóðveginum neðan við Neðri-Hveradalabrekku og áfram suður með Gráuhnúkum að vestan. Er Þrengslahnúkur á vinstri hönd, þegar sú leið er farin austur í Ölfus. Skarðið milli Gráuhnúka og Lambafells heitir Þrengsli þar sem þar er þrengst.
Í desember árið 1921 varð Guðbjartur Gestsson frá Hamri á Múlanesi úti á þessari leið. Hans var leitað um veturinn og einnig sumarið eftir en fannst ekki. Sextán árum síðar fann Valdimar Jóhannsson líkamsleifar Guðbjarts ásamt smíðatólum hans og peningum við bjarg undir Gráhnúk. Vegurinn er sýnilegur á grónum grundum í nágrenni Þorlákshafnarsels og eins í kverkinni milli Svínahrauns og Gráuhnúka þar sem hann er troðin slóð í mosavöxnu hrauninu. Leiðin var rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni.

Lágaskarðsvegur (Sanddalaleið)

Lakastígur

Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur lá frá Hveradalaflöt um Lágaskarð og Sanddali til Þorlákshafnar og í Selvog. Annað afbrigði þessa vegar lá um Lakadal norðan Stóra-Sandfells. Leiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði allt þar til akvegur var gerður yfir heiðina.
Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágaskarði. Eftir skarðinu liggur Lága-skarðsvegur. Vestan við veginn er Stóri-Meitill, hjá honum er Meitilflöt.

Lágaskarðsvegur

Kort af svæðinu – Lágaskarðsvegur fyrir miðju.

Lágaskarðsvegur liggur austan við Stóradal, um Hellur og Lágaskarð, skarðið milli StóraSandfells og Stóra-Meitils. Það er sennilega sama leiðin sem Hálfdan Jónsson [1703] nefnir Sanddalaveg. Meðfram Lágaskarðsvegi. Þar sem hann liggur norður frá Hellum, er klettabrík eða „gangur“ sem kallast Lákastígur, nýlegt nafn. Svo virðist sem svokölluð Sanddalaleið hafi greinst frá Lágaskarðsvegi suðaustan við Lágaskarð og legið til suðausturs í átt að Hjalla.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd og skoðuð á korti. Hún er merkt inn á loftmyndina í samræmi við legu hennar á korti frá dönsku kortastofnunni sem gert var af dönskum landmælingamönnum á fyrstu áratugum 20. aldar. Leiðin var vandlega skoðuð af Birnu Lárusdóttur starfsmanni Fornleifastofnunar Íslands árið 2007 og grein gerð fyrir þeirri athugun í skýrslu um fornleifakönnun vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana við Litla-Meitil og Gráuhnúka. Í skýrslunni kemur fram að lítið sjáist til götunnar fyrr en norðan Lágaskarðs. Eftir að komið er fram hjá Þrengsla- og Lágaskarðshnúkum fundust merki um tvær leiðir að Lágaskarði. Önnur lá upp að rótum Stóra-Meitils að norðvestanverðu, um djúpan dal sem þar er. Þar vottar fyrir götuslóða og eins er greinilegur troðningur í malarbakka upp úr dal sem Birna telur sennilegast að sé syðsti hluti Stóradals. Hin leiðin lá austar. Slóð sést austan í malarhrygg sem liggur út frá Stóra-Meitli. Þessi slóði liggur beint að slóðinni í Hellunum svonefndu í Lágaskarði.

Lágaskarðsvegur

Lágaskarðsvegur.

Leiðirnar sameinast í Lágaskraði. Þar er leiðin skýr og í skarðinu eru fimm vörður. Norðan við nyrstu vörðuna er rás í klapparhelluna sem bendir til að þarna hafi verið farið um í langan tíma. Slóðin er einföld, 10 – 15 cm breið og mest um 5 cm djúp. Slóðin er ekki samfelld en sést hér og þar á löngum kafla. Þar sem ekki eru rásir er leiðin engu að síður greinileg því þar er enginn mosi né annar gróður sem þó þekur hraunið allt í kring.
Leiðin er gott dæmi um veg sem væntanlega hefur verið notaður í nokkrar aldir. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna. Leiðin er á kafla mótuð í klöpp. Slíkar götur sýna svo ekki verður um villst að um þær hafa hestar og menn farið um aldir og hafa því í mörgum tilfellum meira upplifunargildi en troðningar sem myndast hafa í grónu landi. Mikilvægt er að varðveita þá hluta leiðarinnar sem enn eru sýnilegir.
Leiðin Milli Hrauns og hlíðar lá um Hellisskarð, austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli að sunnanverðu, um Hengladali og áfram austur í Grafning.
Austur frá Hellunum er Orrustuhólshraun og Orrustuhóll. Hraunið er sunnan undir StóraSkarðsmýrarfjalli. Austur með fjallinu er vegurinn milli hrauns og hlíðar. Leiðin virðist hafa verið notuð fram á 20. öld. Vitað er er Hagavíkurmenn í Grafningi létu bílsenda vörur að Kolviðarhóli um 1940 og báru þær þaðan á sjálfum sér milli hrauns og hlíða til Hagavíkur sem mun vera um 17 km leið.

Lágaskarðsvegur

Lágaskarðsvegur.

Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni. Í skýrslu Fornleifastofnunar Íslands er leiðinni vel lýst. Þar segir að gatan sjáist enn nokkuð víða en yfirleitt ekki nema sem einfaldur stígur, nú kindatroðningur. Gatan virðist víðast hvar horfin undir yngri veg. Hún sést norðan við Skarðsmýri þar sem hún liggur yfir hálsa sem eru samfastir Litla-Skarðsmýrarfjalli. Hún er óglögg í mýrunum norðan Hengladalaár en sést glöggt í Svínahlíð austast í Fremstadal. Þaðn má svo rekja hana næstum alla leið á Brúnkollublett nyrðri.

Vörðuð leið

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leið.

Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, til suðausturs að þeim stað þar sem neyðarskýli stóð áður við þjóðveg 1. Þar kemur leiðin inn á hina fornu leið, Hellurnar, sem gengur yfir heiðina frá vestri til austurs. Vörðurnar, sem liggja með leiðinni, voru hlaðnar árið 1983 af skátum úr Reykjavík. Eftir að þjóðvegurinn var færður norðar á heiðinni um 1970 varð þetta gönguleið þvert yfir heiðina.
Leiðin er slóði sem markast hefur í mosavaxið hraunið undan fótum manna. Vörður eru með um 50 m millibili meðfram leiðinni. Þær eru flestar um 1,5 m í þvermál og um 1-1,5 m á hæð.

Skógarmannavegur (leið)

Hellisheiði

Hellisheiði – götur.

Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910. Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar. Leiðinni var ekki fylgt á vettvangi en lega hennar skoðuð á loftmynd.

Orrustuhóll (rétt)

Orrustuhóll

Orrustuhóll – minjar.

Í bókinni Göngur og réttir er fjallað um réttir við Orustuhól. Þar segir að gömul munnmæli hermi að Mosfellssveitarmenn og Ölfusingar hafi haft sameiginlega rétt á Helluheiði eins og hún er kölluð. Þegar Mosfellingar vildu ekki lengur sækja réttir í land Ölfusinga kviknaði fyrst rígur en síðan fullur fjandskapur milli manna í sveitarfélögunum sem endaði með því að þeir börðust í réttunum. Heitir þar Orustuhóll og Orustuhólshraun frá þessum tímum og voru réttirnar kallaðar Orustuhólsréttir upp frá því. Í bókinni segir jafnframt að rústir réttanna sjáist ekki lengur enda hafi Hengladalaáin gegnum aldir borið sand og möl upp á bakka sína og þannig flýtt fyrir því að leifar af réttum þessum hyrfu í jörðu. Svo er þó að sjá sem réttirnar hafi verið sýnilegar árið 1878. Þórður Sigurðsson, sem ritar um Orustuhólsrétt í Göngur og réttir, segir í frásögn sinni frá því að það ár hafi honum verið sýndar rústir réttanna. Hafi þá séð vel fyrir þeim þó skröð væru komin í vegghleðslur. Bæði mátti greina almenning og dilka, suma allstóra. Almenningsdyr snéru í átt að Hengli.
Suðvestan við Orrustuhól er hraungjá. Þar er ætlað að meint rétt hafi verið. Í gjánni er grjóthrúga, 10,6m x 3,2m, liggur NNV-SSA. Líklega er þetta veggur sá sem talin er hafa myndað aðhald í gjánni en erfitt er, ef ekki ómögulegt, að segja um hvort mannaverk sé þar á, þetta gæti allt eins verið hrun.

Áveita

Áveita

Áveituskurður.

Í örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar fyrir Hellisheiðina segir að um margra ára bil eða áratuga skeið, í kringum aldamótin 1900, hafi Hengladalaá verið veitt vestur í hraun um sláttinn til að koma í veg fyrir heyskaða af völdum flóða úr ánni. Stífla var gerð í ána sunnan við Smjörþýfi og Orustuhólshraun og henni veitt vestur á Hellisheiði. Brú var gerð yfir farveginn sem kölluð var Loft.
Um 480 m austur af Orustuhól eru áveituskurðir sem liggja austur í Hengladalaá. Hér er um 20. aldar mannvirki að ræða. Stóri skurðurinn sem er um 278 m á lengd, 12 m á breidd og 0,5m á dýpt er án vafa vélgrafinn. Einn skurður sem er 82m á lengd og 6m á breidd liggur norður úr þeim stóra. Annar minni skurður, 36m á lengd og 2m á breidd, liggur suður úr þeim stóra. Líklega eru þessi minni skurðir eldri og gætu verið handgrafnir.

Innbruni (byrgi)

Innbruni

Innbruni – byrgi.

Engar heimildir hafa fundist um þessi byrgi.
Milli Litla-Meitils og Sanddalahlíðar liggur hraunbreiða sem nefnist Innbruni. Í hrauninu, nær Sanddalahlíðinni eru tvö byrgi. Syðra byrgið er grjóthlaðið, 3m x 2,7m að stærð og liggur NV-SA með op í NV. Breidd veggja er um 0,8m. Um 38 m NV af fyrrnefndu byrgi er önnur álíka grjóthlaðin tóft. Hún er um 3m x 2,1m, skeifulaga með op í vestur.
Þessi staður verður að teljast undarleg staðsetning fyrir fjárskýli, smalakofa og þess háttar. Ekki er að finna stingandi strá né vatn við þennan stað. Mögulega gæti því veriðum einhvers konar skotbyrgi að ræða fyrir t.d. refaskyttur en nánari heimildir vantar til að skera úr um það.

Litli-Meitli (rétt/aðhald)

Litli-Meitill

Litli-Meitill – aðhald.

Eiríkur Einarsson skrifaði grein í 1. tbl. Farfuglsins árið 1975 sem hann nefndi Örnefni á afrétti Hjallasóknar í Ölfusi. Þar segir hann frá fjárrétt í svoköllðum Kvíum sem notuð var við vorsmalanir. Kvíar eru hvilft í hrauninu austan Meitilflatar sem er stór grasflöt suðaustan undir Syðra-Meitli sem væntanlega er sama fjall og Litli-Meitill.

Eldborgir

Eldborgir – loftmynd.

Þór Vigfússon skrifar um Árnesþing vestanvert í Árbók Ferðafélags Íslands 2003. Þar talar hann um grjóthleðslurnar í Kvíum og að mannvirkið hafi verið notað til rúnings í vorsmalamennsku.
Vestan við hraunbreiðuna Innbruna, og austan við Litla-Meitil er stór náttúruleg skál eða sprunga með grasi grónum botni. Myndar afar hentugt aðhald og hefur verið góður áfangastaður. Suðvestan í sprungunni, utan í klettavegg er lítill, L-laga veggur sem myndar aðhald eða litla rétt. Veggurinn er 4,2m x 6 m með op í suður. Breidd veggja er um 1m. Mannvirkið er ekki fornlegt að sjá og hefur augljóslega verið viðhaldið á síðari tímum. Meira að segja má sjá að sums staðar hefur froðueinangrun verið sprautað á milli steinanna.
Um 82 m SSV er hringlaga eldstæði, úr einfaldri steinaröð sem Fornleifastofnun Íslands hefur skráð sem fornleifar. Hér er dregið í efa að eldstæðið sé það gamalt að það flokkist til fornleifa, enda megi sjá nýlega brenndar spýtur þar.

Þorlákshafnarsel (sel)

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel undir Votabergi.

Sagt er að frá fornu fari hafi jörðin Þorlákshöfn átt selstöðu á jörðinni Breiðabólstað sem á móti hafði skipsuppsátur í Þorlákshöfn í vertíðum. Ekki er ljóst hversu gamalt selið er en minnst er á það í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem tekin var saman í byrjun 18. aldar.

Þorlákshafnarsel

Í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli).

Í Sögu Þorlákshafnar sem kom út 1988 er selinu lýst svo: Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd. Fyrir sunnan aðalhúsið er sérstakt hús, um 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi.
Rústirnar voru friðlýstar af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni, 21. janúar 1976. Friðlýsingunni var þinglýst 16. júní árið eftir.
Vestan undir Votakletti, austan við akveg, eru friðlýstu fornleifarnar. Syðst er grjóthlaðinn veggur sem liggur utan í móbergskletti (austan í honum). Veggurinn er um 8,5m x 2,9 m að stærð, liggur N-S með op í suður, breidd veggja um 1,5 m. Eflaust er hér um einhvers konar aðhald fyrir skepnur að ræða.
Um 65 m NA af þessu aðhaldi eru megin-seltóftirnar. Þær liggja vestan undir Votakletti.
Um 570 m NNV af seltóftunum, við Hrafnaklett, er lítil steinhleðsla um 1,5 m x 1,4 m að stærð. Líklega er um vörðubrot að ræða, hlaðin úr sandsteini. Smá mosi er á steinum en hleðslan virðist yngri en seltóftirnar.

Ölkelduhálsrétt (rétt)

Ölkelduháls

Ölkelduháls – rétt.

Á skilti sem sett hefur verið upp við réttina eru upplýsingar um hana. Ölkelduhálsrétt var byggð vorið 1908 og var í notkun eitthvað fram yfir 1930. Hún mun hafa verið notuð til vorsmölunar.

Ölkelduháls

Rétt á Ölkelduhálsi.

Þrisvar var smalað í réttina á hverju vori. Fyrst var geldfé smalað, þá var smalað til mörkunar og síðast til rúnings.
Ölkelduhálsrétt liggur vestarlega í lægð á milli Ölkelduhálss og Ölkelduhnúks, svolítið vestar en Ölkelduhnúk sleppir. Um 100 ma austan við réttina er stór leirhver og í honum ljósgrár bullandi leir. Akfær vegur liggur upp í skarðið milli Ölkelduháls og Ölkelduhnúks. Hann sveigir til suðurs þegar niður úr skarðinu kemur. Réttin er um 100 m sunnan og austan við veginn þar sem hann hlykkjast niður hlíðina. Á veginum í hlíðinni er hlið sem myndað er af tveimur járnstólpum. Réttin er um 100 m austur af hliðinu. Réttin stendur á grýttum bala sem hallar til vesturs. Gras og mosi er á milli steina. Hún er 25,8 m x 18,4 m að stærð og liggur NV-SA. Réttin skiptist í þrjú hólf. Eitt hólfanna er lang stærst. Minni hólfin eru byggð utan í stóra hólfið, annað við suðaustur horn stóra hólfsins en hitt norður af stóra hólfinu. Réttin er hlaðin úr grágrýtissteinum sem eru 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslan er að mestu hrunin og víðast standa aðeins 1 – 3 hleðsluraðir. Inni í minni hólfunum er gras og mosi en stóra hólfið er að mestu moldar eða leirflekkur. Veggir aðalhólfisns og austurhólfsins eru 40 – 80 cm háir en veggir norðurhólfsins nokkru lægri eða 10 – 30 cm. Ekki er opið milli hólfanna og engin sýnilegur inngangur er í litlu hólfin. Inngangur hefur verið í norðvestur-hlið stóra hólfsins.

Öxnalækjarsel (sel)

Öxnalækjarsel

Öxnalækjarsel.

Öxnalækjar-Seldalur liggur austan i Hellisheiðinni. Dalurinn er rétt ofan við þjóðveginn þar sem hann liggur ofan af heiðinni og niður að Hveragerði. Vegurinn liggur í fyrstu til norðurs en síðan er á honum u-beygja og stefnir hann eftir það til suðurs á kafla. Dalurinn er ofan við veginn á þessum kafla. Dalurinn, eða gilið, er vaxið grasi og lyngi. Hann er um 50 m breiður. Neðarlega í honum liggur grasivaxinn hraunhryggur þvert fyrir dalinn. Sunnan megin í dalnum eru tvær stakar tóftir og aðrar tvær norðan megin.
Austur af Þjóðveginum niður Kamba, suðvestan svokallaðra Árhólma eru örnefnin Neðrasnið og Efrasnið. Þar mun hafa legið gata sem tengdist ferðum til Öxnalækjarsels og ferðum að Hengladalaá.

Öxnarlækjarsel

Öxnalækjarsel.

Dalurinn liggur í austur-vestur, tvær tóftir liggja utan í norðurhlíð dalsins og tvær í suðurhlíðinni. Nyrst og vestast er lítil tóft, um 5,3m x 4,7m að stærð, grasi gróin og mosavaxin. Tóftin liggur utan í mosavaxinni hraunbrún sem myndar eitt vegg mannvirkisins. Op í austur. Glittir í hleðslusteina i veggjum. Um 4m austar er önnur tóft, 7,4m x 5,6m að stærð. Hún liggur NA-SV með op á NV-langhlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin. Það glittir í stöku steina í veggjum. Vegghæð er um 50 cm. Um 27 m í NNA, hinum megin í þessum litla dal er þriðja tóftin og sú stærsta. Hún er 9,5 m x 6,5 m að stærð, liggur sem næst A-V, með inngangi á suðurhlið. Greina má þrjú hólf. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin.
Vestan við dalinn má greina götubút, um 58m á lengd sem liggur A-V og hefur vísast legið að selinu. Ekki er ólíklegt að finna megi fleiri vísbendingar um þessa götu.

Lambabyrgi (fjárskjól)

Lambabyrgi

Lambabyrgi.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar eru leifar lambabyrgis á Hraunbrúninni, “norðaustan við Nikulásar-tóft.” 46 Lambabyrgi er byggt í ofanverðri hraunbrún sem er um 3 – 4 m há. Niður undan byrginu er grasi gróin brekka.
Tóftin er staðsett um 80 – 100 m suður af malarvegi sem liggur inn að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Hún er rúma 100 m SA við Nikulásartóft. Tóftin er 10 m x 6 m, liggur V-S. Vegghæð er um 1 m og inngangur í A-enda. Nokkrum trjáhríslum hefur verið plantað í mólendið neðan við hraunbrúnina. Hlaðið úr hraungrjóti sem er 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslurnar standa vel.

Nikulásartóft (fjárskjól)

Nikulásartóft

Nikulásartóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar er Nikulásartóft leifar af sauðahúsi Nikulásar Gíslasonar, bónda í Vorsabæ. Tóftin stendur upp á Hraunbrúninni en svo var brúnin á hrauninu vestan Vallarins kölluð.
Nikulás Gíslason var fæddur á Kröggólfsstöðum árið 1833. Hann giftist Ragnheiði Diðriksdóttur árið 1872. Þau bjuggu á Krossi frá 1874 til 1881 og í Vorsabæ 1883 til 1900. Nikulás dó 1. ágúst 1905.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt – tóft.

Nikulásartóft stendur ofan á hraunkanti, nærri brún hans, um 100 m suðvestan við malarvegi sem, liggur að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Umhverfis tóftina er hraun vaxið mosa og lyngi. Furutrjám hefur verið plantað í nágrenni tóftarinnar. Tóftin er hlaðin úr hraungrýti. Inngangur hefur verið á SA-gafli. Vegghæð er um 60 cm. Botn tóftarinnar er grasi vaxin en veggir vaxnir mosa og lyngi.

Hofmannaflöt (fjárskýli)

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Hofmannaflöt slétt flöt sem var slegin en þar voru fjárhús í seinni tíð.
Hofmannaflöt er norðan við Hengladalaá skammt vestur þar af sem Grændalsá rennur í hana. Flötin er nokkuð stór, rennislétt og hallar svolítið til suðurs. Á henni miðri er ferhyrnd grjóthlaðin tóft sem minnir meira á gerði en fjárhús. Tóftin er 10,4 m x 8,8 m að stærð og snýr NA-SV. Ekki er mikið eftir af grjóthleðslunni. Inngangur er austan megin á suðvesturgafli. Í suðurenda tóftarinnar, til hliðar við innganginn er hrúga af steinum og gamall gaddavír.

Stekkatún (fjárskýli)

Stekkatún

Stekkatún – tóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Stekkatún grónar brekkur austan í litlu gili. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti sem enn megi sjá leifar af. Til eru frásagnir um að á þessu svæði hafi verið býlið Grændalsvellir en það hafi verið komið í eyði árið 1703. Leifar Grændalsvalla hafa aldrei fundist en sú tilgáta hefur verið uppi að Stekkatún og Grændalsvellir séu sami staðurinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að Grændalsvellir hafi verið hjáleiga frá Reykjum. Þar hófst búskapur í lok 17. aldar en stóð aðeins í fjögur ár. Eftir að jörðin fór í eyði var hún notuð fyrir stekkatún frá Reykjakoti. Landskuld af hjáleigunni var Sunnan úr Dalfelli gengur rani sem liggur með fram Grændalsá í um 50 – 100 m fjarlægð frá ánni. Raninn mjókkar mikið í endann. Ofan á rananum er grasi vaxinn bali en bæði norðan og sunnan megin eru brattar brekkur út af rananum, um 5 – 10 m háar. Fremst á rananum þar sem hann er því sem næst láréttur eru þrjár tóftir. Engin þessara tófta né aðrar á svæðinu líkist bæjarhúsatóftum svo hafi bær einhvern tíma staðið á Stekkatúni þá eru rústir hans horfnar.

Stekkatún

Stekkatún – tóftir.

Löng og mjó tóft liggur fremst á rananum. Vesturendi hennar og hluti suðurhliðar er horfinn en við tekur snarbrött brekka. Tóftin er algerlega vaxin grasi. Brekkan er grasi vaxin svo ekki sér í rof og virðist því langt síðan brotnaði af tóftinni. Hún er 9,6m x 6,4m að stærð, liggur NA-SV, op í SV. Vegghæð er mest 40 cm. Um 1,7 m norðaustar er önnur tóft, ferhyrnt, 6,8 m x 5,1 m að stærð og liggur NA-SV. Engin inngangur er greinanlegur en greina má hvilt í miðju tóftarinnar. Hún er mjög grasi gróin.
Um 2 m NV er þriðja tóftin. Hún er 6,8 m x 6,8 m að stærð, nánast hringlaga. Enginn inngangur er greinanlegur. Tóftin virðist yngri en hinar tvær, t.d. er vegghæð hennar nokkuð meiri eða 1m og greina má steinahleðslu að innanverðu.

Vesturmúli

Vesturmúli – tóft.

Um 28,6 m í NA er fjórða tóftin, 13,6 m x 7,6 m að stærð og liggur NNA-SSV. Eitt hólf og með inngangur á SSV-hlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinhleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð um 0,8-1 m. Um 10,6 m SAA er fimmta tóftin. Hún er 11,4 m x 7,5 m að stærð, liggur sem næst N-S. Inngangur hefur verið vestan megin á langhlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinahleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð 0,8-1 m.

Vesturmúli (fjárskýli)

Engar heimildir hafa fundist um þessar tóftir.
Undir Vesturmúla sem er vestan í Tindum eru tvær tóftir sem byggðar hafa verið inn í grasbrekkuna. Nyrðri tóftin er um 80 m suðaustur af Grændalsá en sú syðri um 300 m NNA af hesthúsahverfi Hvergerðinga. Um 340 m eru á milli tóftanna.
Tóft sem er norðar liggur í graslendi neðst í brekkufætinum undir múlanum. Hún er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurlanghliðina. Þar ofan á liggur reiðvegur. Tóftin er 11 x 7 m að utanmáli. Veggir hennar eru útflattir, um 3 – 4 m á breidd. Um 4 m breitt op snýr í vestsuðvestur. Um 340 m SSA er önnur tóft. Hún liggur líkt og hin í brekkufætinum og er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurhlið hennar. Tóftin er beint undir kletti sem er sá neðsti í þessari hlíð múlans. Rafmagnsgirðing liggur vestan við rústina, meðfram hlíðinni og alveg við tóftina. Tóftin er á kafi í grasi. Tóftinni er skipt í tvö hólf. Eitt aðalhólf en út frá því liggur langt og mjótt hólf til suðurs. Hún er um 12 m x 7,4 m að stærð og inngangur í suðurenda.

Reykjafjall (fjárskýli)

Reykjafjall

Reykjafjall – tóftir.

Undir vesturhlíð Reykjafjalls eru nokkrar tóftir útihúsa sem ekki virðast mjög gamlar. Engar beinar heimildir hafa fundist um þessar tóftir en þær tengjast örugglega búskap á svæðinu á 19. og jafnvel 20. öld. Nyrsta tóftin er í grasi gróinni brekku undir hlíðum Reykjafjalls, um 100 m fyrir ofan skólahús garðyrkjuskólans. Kringum tóftina eru timburraftar og bárujárn. Tóftin er 14,3 m x 5 m, liggur SV-NA og er með tvö hólf. Inngangur er á SV-skammhlið en einnig á langhlið. Hún er grasi gróin en hreinsað hefur verið utan af steinhleðslum að innanverðu. Nýleg klömbruhleðsla er í vesturenda tóftarinnar og virðist hún notuð við kennslu eða æfinga í hleðslutækni.

Stórkonugil (fjárskýli)

Stórkonugil

Stórkonugil – tóftir.

Neðst í fjallshlíðinni, við Stórkonugil, sem liggur upp frá húsum Náttúrulækningafélags Íslands eru þrjár tóftir. Syðsta tóftin (nr. 780) er á milli reiðstígs og göngustígs. Tvö afhýsi eða hólf eru byggð utan í þessa tóft. Tóftin er 11,7 m x 10,4 m að stærð og vegghæð um 1,4 m. Sérinngangur eru inn í öll hólfin, sem sagt tveir inngangar að SV og einn á NV-hlið.
Um 40m NV, vestan gilsins, stendur tvíhólfa tóft. Hún er 10,3 m x 7.9 m að stærð og vegghæð um 1 m. Göngustígur liggur við hana að austanverðu. Gengið er inn í bæði hólfin að suðvestanverðu. Syðri langveggurinn á syðra hólfinu er byggður úr tveimur stórum steinum, um 1 m í þvermál. Þriðja tóftin liggur um 10 m norðar og ofar í brekkunni. Hún er 11 m x 6,8 m og liggur NA-SV. Inngangur er á SV-hlið, vegghæð um 1m. Göngustígurinn liggur milli tóftanna. Ofan við þriðju tóftina og til hliðanna vaxa grenitré. Greinar þeirra eru vaxnar yfir veggi tóftarinnar. Allar eru tóftirnar hlaðnar úr grágrýti og grasi vaxnar þó vel sjáist í steinhleðslurnar.

Leið og minjar í kringum Stekkjarhól austan Hveragerðis

Stekkjarhóll

Stekkjarhóll – tóftir.

Eftirfarandi upplýsingar um Múlagötu eru fengnar úr gögnum frá Birni Pálssyni skjalaverði á Hérðasskjalasafni Árnesinga. Múlagata er forn leið sem fer af götunni milli Sogns og Reykja í Múla-kvos. Gatan er í austurjaðri Eystri-Múla, um 25-30 m frá merkjum. Gatan krækir fyrir suðurenda Eystri-Múla, aðeins til norðurs yfir Vallagil. Líklega hefur verið ein aðalgatan en einnig eru merki um aðra götu. Gatan er greinileg skömmu áður en komið er nyrst á Stekkjahól og þaðan að Miðhól en nyrst í honum er hún grópuð í móbergið. Liggur niður með vesturjaðri Miðhóls og hefur mætt, neðan hans, götu frá Klifinu til Torfeyrar.

Eystri-Múli

Eystri-Múli – fjárhústóft.

Í örnefnaskrá er einnig minnst á þessar götur en auk þess er minnst á stekk við Kross-Stekkatún og Grænutættur sem er þýfður mót vestan Kliflækjar. Leiðin er mælanleg frá veginum að Ölfusborgum, skammt norðan vegamóta hans og þjóðvegar nr. 1. Leiðin er austan við vegin að Ölfusborgum. Hún var mæld frá þessum stað og upp að götunni milli Sogns og Reykja. Nokkur hluti þeirrar leiðar, í átt að Sogni, var einnig mældur inn. Sú leið liggur meðfram nýlegum reiðstíg undir Mið-Múla og Eystri-Múla en hverfur undir reiðstíginn þegar kemur nær Sogni. Múlagata liggur að miklu leyti í votu graslendi og víða eru 3-4 samhliða rásir á henni. Á völlunum suður af Vallagili eru þústir sem hugsanleg gætu verið leifar mannvirkja.

Eystri-Múli (fjárskýli)

Sunnan Eystri-Múla er Vallagil og Krossstekkjatún. Í gilinu austanverðu er stekkjartóft. Vestan tóftarinnar er lækur en austan hennar klettur. Tóftin er ferhyrnd, hlaðin úr grjóti. Hún er 4,6m x 5,5m að stærð og liggur N-S. Gras hefur gróið yfir hana en þó sést víða í steina í hleðslunni sem er um 50 – 70 cm há. Dyr hafa verið í suðausturhorni. Garðlag (nr. 740) gengur norður úr tóftinni. Garðlagið er 4,2 m á lengd og 0,4m á breidd. Vegghæð um 20-40 cm. Það er einnig hlaðið úr grjóti og nú vaxið grasi.
Á þýfðum grasbala rétt suðaustan við Múlagötu þar sem hún liggur austan við suðurenda Eystri-Múla er tóft. Tóftin er 8,3 m x 5,7 m að stærð og liggur NA-SV. Hún er með tvö hólf og inngangur á suðurhlið. Tóftin er á kafi í grasi en þó sést móta ágætlega fyrir veggjum hennar og formi enda vegghæð mest um 0,6 m.

Sogn i Ölfusi (býli)

Sogn

Sogn – fornleifar.

Ekki er vitað hvenær Sogn byggðist en til eru heimildir um jörðin frá 1542. Þann 11. janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að árið 1708 var jarðardýrleiki Sogns tuttugu hundruð. Eigandi jarðarinnar var þá Andrés Finnbogason lögréttumaður en ábúandi Hávarður Þórðarson. Landskuld var 100 álnir og greiddist í gildum landaurum til landsdrottins. Leigukúgildi voru 5 og voru greidd í smjöri til Kröggólfsstaða þar sem eigandi jarðarinnar bjó. Búfénaður var nokkur þar á meðal 7 kýr, 30 ær, 26 sauðir og 28 lömb. Þá átti bóndi 4 hesta og eitt folald.
Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni.55 Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn.
Samkvæmt örnefnaskrá og Kristjáni Einarssyni starfsmanni á Réttargeðdeildinni á Sogni, sem ólst upp á Gljúfri, eru eftirfarandi minjar að finna á rannsóknarsvæðinu innan landamerkja Sogns: Stóri-Hellir er hellir fyrir ofan Hellisbrekku sem var notaður sem fjárhús og rétt. Gat tekið um 100 kindur í innrekstri. Litli-Hellir var lítill hellir undir stóru bjargi sem notaður var sem fjárhús. Á austurbakka Trippalækjar var kofi sem kallaður var Trippakofi.

Sogn

Sogn – Stóri-Hellir.

Hesthús stóðu á gilbarmi, norðvestur af Hesthúsflöt. Stekkatún er lítill hóll austan við götuna á syðri gilbarminum en þar eiga að vera leifar stekks. Stóri-Einbúi eða Einbúinn er klettahóll í Einbúamýri. Þar var gott skjól fyrir skepnur en þar bjó einnig huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er þessi frásögn: Einhverju sinni gekk maður frá Hjalla í Ölfusi upp að Gljúfri. Gekk hann hjá steini þeim enum háa er stendur fyrir vestan Sogn. Heyrir hann þá söng í steininum og er þar sunginn sálmur úr Grallaranum „Á guð alleina“. Heyrir hann sálminn sunginn til enda og eigi meira og fer hann þá leiðar sinnar. Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni.
Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 4 5 m í þvermál.
Um 33 m vestur af bæjarhólnum eru leifar hesthúss, um 5,8 m x 3,9 m að stærð og vegghæð um 1,3 m. Rústin snýr NV-SA með op í SA-horni, á langhlið. Hesthúsið hefur verið byggt inn í gilbarminn vestan við Trippalæk. Tóft þess sést enn. Hún er nokkurn vegin á móts við veg sem liggur niður að læknum frá heimreiðinni að húsi Réttargeðdeildarinnar. Veggirnir eru hlaðnir úr gjóti og má víða sjá steinsteypu á milli steinanna.
Um 68 m NNV af hesthússrústunum er lítil kofatóft, um 3,2 m x 2,5 m að stærð, liggur NV-SA, skeifulaga með op í SA. Líklega er hér um Trippakofann að ræða sem nefndur er í örnefnalýsingunni. Tóftin stendur á smá grasbala í gili sem Trippalækur fellur um. Kofinn stendur alveg við lækinn. Hún er grasi vaxin og lækurinn er farinn að naga svolítið af henni.
Um 95m ofar (NV) í brekkunni er leifar nýlegrar byggingar. Um er að ræða mosavaxna dæld með helðslu í kring úr vikursteini. Rústin er um 10,7 m x 5,3m að stærð og liggur ANA-VSV.

Sogn

Sogn – Litli-Hellir.

73,5 m SV af þessari byggingarrúst og um 95,5 m vestur af Trippakofanum er tóft upp í grasi gróinni brekku, vestan við Trippalæk. Lýsingin passar við ærhúsið. Mosa- og grasivaxin tóft. Greina má stalla meðfram veggjum sem líklega eru garðar. Veggir hafa verið úr torfi og grjóti og greina má vel um sex raðir hleðslusteina í veggjum. Tóftin er 11,2 m x 11,3 m að stærð og liggur NV-SA og vegghæð mest um 1,2 m. Tvö hólf eru á tóftinni með sitthvorum innganginum sem snúa báðir í SA. Ekki fundust leifar lamhúsanna sem getið er um í örnefnalýsingu að hafi átt að vera fyrir neðan þessa tóft.
Litli-Hellir er um 80 sunnan við þessa þyrpingu. Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4 m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli. Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð. Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.
Um 140m SV (í loftlínu), við enda múlans/fjallsins er tóft. Hér er, miðað við lýsingu, um stekk að ræða en gæti allt eins verið um skepnuhús ef horft er á lögun tóftarinnar. Hún er grasi gróin, á litlum hól norðan við lítinn læk. Vegur eða reiðstígur hefur verið lagður utan í hólinn. Tóftin er 11,4m x 10,8m að stærð, tvö hólf og inngangur á NA-hlið. Vegghæð um 1m. Svo virðist sem veðrast hafi af austurenda tóftarinnar.
Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn. Hann er um 70 m x 50 m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið.

Kot í landi Sogns (býli)

Sogn

Sogn – kot.

Bærinn Kot stóð undir fjallshlíðinni um 170 m vestan við bæjarhól Sogns. Þar bjó Eyjólfur Símonarson. Vitað er að bærinn var í byggð árið 1896. Þar má sjá leifar heyhlöðu. Í brekkunni, norðan við Kot stóðu ærhús en neðar, við brekkufótinn, voru lambhús.
Greinilegustu fornleifarnar er lítil tóft, 6,6m x 6,4m að stærð, eitt hólf og inngangur á SA-hlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin en greina má enn hleðslugrjót í veggjum. Vegghæð er mest 0,8 m. Fast upp við tóftina, rétt fyrir ofan hana er ógreinileg, grasi gróin, þúst með smá hvilft í miðju. Hugsanlega náttúrulegt fyrirbæri. Engir steinar greinanlegir. Þústin er um 5,8 m x 5,2 m að stærð. Um 10 m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7 m x 9 m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.

Bakkárholtssel (sel)

Bakkárholtssel

Bakkárholtssel.

Samkvæmt örnefnaskrá fyrir Sogn er selstaða frá Bakkárholti, norðvestan við Sogna, í Seldal. Selstöðu höfðu ábúendur Bakkárholt í skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur þessi virðist vera fallin niður í byrjun 18. aldar vegna “vannota” ábúenda Bakkárholts.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að jörðin Sogn eigi engjaítak í Bakkárholtslandi, austan og vestan við gamla farveg árinnar Varmár. Ekki er minnst á selstöðu Bakkarárholts í landi Sogns.
Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina. Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa. Syðri tóftin er 7,2 m x 5 m að stærð, liggur NV-SA, með einu hólfi og inngangi á NV-hlið. Við SA-horn tóftarinnar er lítil þúst, 3,6 m x 2 m að stærð, sem annað hvort er lítið útskot eða hólf.
Um 2-3m NV er önnur tóft. Tengt henni er hólf eða garður sem gengur í boga út frá suðurenda rústarinnar. Við norðurenda rústarinnar er bil milli garðisns og hennar og gæti þar hafa verið inngangur í hólfið. Inngangur hefur verið í rústina sjálfa í norðurendanum.

Sognsel (sel)

Sognsel

Sognsel.

Samkvæmt örnefnaskrá er gróið dalverpi, suðaustur af Selás og suður af ármótum Gljúfurár og Selár. Heitir dalverpið Sognsseldalur vestan Gljúfurár en Gljúfursseldalur að austanverðu. Sogn átti þarna selstöðu en einnig eru frásagnir til af því að heyjað hafi verið þar upp frá.
Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá flöt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin er 8,5 m x 4,1 m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2 m í NV er önnur tóft á litlum grasi vöxnum hól. Hún er 9,2 m x 7,3 m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8 m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6 m x 6 m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.
Milli bæjarins Gljúfar og selsins, nánar til tekið um 600 m SA af selinu, er lítil grjóthlaðin varða upp á móbergshæð. Hún er um 0,8 m á hæð. Greina má mosa og skófir á steinum. Ekki er gott að segja hvort varðan sé í tengslum við ferðir upp í selið en ekki er ólíklegt að hún tengist fremur ferðum ábúenda á Gljúfri upp á afréttinn.

Heimild:
-Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Gígahnúkur

Neðan við Gígahnúk á Hellisheiði er umferðarmerki á staur, „Þjónustumerki fyrir upplýsingar og áhugaverða staði„.

Hellisheiði

Hellisheiði – virkjunarsvæði.

Frá merkinu liggur brattur göngustígur upp á svonefndan Gígahnúk. Þegar upp er komið blasa við tvö skilti. Milli skiltanna er steyptur stöðull fyrir GPS-mælistöð.
Þegar skiltin efst á Gígahnúk eru skoðuð kemur í ljós að bæði hafa þau að geyma sömu upplýsingarnar. Það vestara er öllu greinilegra; tvö kort af Hellisheiðarvirkjunarsvæðinu, annað með örnefnum og borholum og leiðslum. Gangan upp á Gígahnúk er ekki fyrirhafnarinnar virði.
Merkilegra er þó að berja augum allt jarðraskið á og umhverfis hnúkinn að vestanverðu. Þarna hefur verið efnistaka, en frágangurinn getur ekki talist til fyrirmyndar.

Gígahnúkur

Gígahnúkur – skilti.

Hellisheiðarvegur

Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Hellisheiði

Hellisheiði – gömul gata.

Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst „snillingur í öllum handtökum“. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.

Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.

Hellisheiði

Gata um Hellisheiði.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að „upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.

Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.

Eiríksbrú

Eiríksbrú á Hellsiheiði.

Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.

Búasteinn

Búasteinn neðan Hellisskarðs.

Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.

Lákastígur

Varða við Lákastíg.

Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið „frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).

Skógargata

Skógargatan.

Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.

Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Eldborgir

Í Andvara 1973 er grein eftir Finnboga Guðmundsson; „Gripið niður í fornum sögum – og nýjum„:

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Þar segir m.a. annars: „Hvað er það í fornum frásögnum, er hrífur oss einna mest? Eru það ekki hinir einföldu drættir og skýru myndir, sem þar er tíðum brugðið upp?
Vér skulum líta á t.a.m. örfáar frásagnir af jarðeldum eða öðrum náttúruhamförum“.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Í Landnámabók segir svo frá: „Allir kannast við frásögn Kristnisögu af því, er menn deildu sem fastast um hinn nýja sið á alþingi sumarið 1000 og maður kom „hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða [er þá hafði tekið kristni].
Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í, að goðin reiðist tölum slíkum.“

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eftir það gengu menn frá lögbergi.
Jarðfræðilegar athuganir á Eldborgarhrauni og hraunum Hellisheiðar hafa leitt í ljós, að frásagnir Landnámabókar og Kristnisögu af fyrrnefndum jarðeldum fá að öllum líkindum staðizt, að Eldhorgarhraun hið yngra hafa raunverulega runnið á landnámsöld og hraun hafi teygt arma sína af Hellisheiði ofan í byggð sumarið 1000.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1973, Gripið niður í fornum sögum – og nýjum – Finnborgi Guðmundsson, bls. 100-101.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Kristnitökuhraun

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 fjallar Gísli Sigurðsson um „Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið„.

KristnitökuhraunVegna þess að Kristnisaga hefur eftir sendiboða að hraunið „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða“ töldu menn að hér væri sagt frá framrás Þurárhrauns eða Eldborgarhrauns, nokkru vestar, sem bæði runnu niður af hlíðinni ofan Ölfuss. En bæði þessi hraun eru eldri en 1000 ára og Kristnitökuhraunið er nú talið vera á öðrum slóðum.

„Á umliðnum öldum og þá ekki sízt nú á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi hafa margsinnis verið rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekizt var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Í nýrri bók, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: „Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sigalfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar eins og hún er almennt þekkt nú á dögum koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnstefið um eldsumbrot í Ölfusi.
KristnitökuhraunÍ núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristnisögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram: Þá kom maður hlaupandi, og sagði, aðjarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.“ Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á“.

KristnitökuhraunBer tvímælalaust að skilja atvik þetta sem eitt af þeim stórmerkjum sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita og sýndu að kristnitakan fól í sér úrslitaátök illra og góðra afla tilverunnar.
Athyglisvert er að í þetta sinn er sú túlkun sett fram út frá sjónarhorni heiðinna manna. Hér er á ferðinni eina atvik kristnitökusögunnar sem mögulegt er að styðja ytri rökum, en Kristnitökuhraun á vestanverðri Hellisheiði rann einmitt um þetta leyti. Því kann hér að vera um forna sögn að ræða.“

Kristnitökuhraun

Hellisheiðarhraun.

Bókarhöfundurinn fer frjálslega með staðhætti þegar hann segir Kristnitökuhraun vera á vestanverðri Hellisheiði, að minnsta kosti teygir hann Hellisheiði lengra vestur á bóginn en gott og gilt getur talizt.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.

Ég hygg að sú skilgreining hafi verið til lengi og ekki breytzt neitt nýlega, að Hellisheiði nái frá Kambabrún að austan að Hveradölum og Reykjafelli að vestanverðu. Hverahlíð sé í suðurmörkum heiðarinnar, en Skarðsmýrarfjöll að norðanverðu. Það er fyrst þegar komið er niður úr brekkunum við Hveradali og hálfa leið að vegamótunum suður í Þrengsli að komið er út á Svínahraunsbruna, sem fullvíst má nú telja að sé Kristnitökuhraunið. Þjóðvegurinn liggur síðan á þessu hrauni 10-12 km. Þetta er hluti þeirra hrauna sem tíðkast hefur að nefna Svínahraun, en jarðfræðingar nefna það Svínahraunsbruna. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000 árum.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Ekkert annað hraun rann á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Það hefur hinsvegar verið nokkuð frjálslega með farið, en þjónað tilganginum, að gefa til kynna hættu á bæ Þórodds goða, hvort sem hann bjó á Hjalla eða Þóroddsstöðum. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi suður í Ölfus og á bæ goðans.

Leiti

Gígurinn Leiti (á miðri mynd) austan Bláfjalla. Lambafellshnúkur fjær.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurnveginn samhliða Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.

Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vesturs, nokkurnveginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Þeim sem ekki eru með einstök fjöll og örnefni á hreinu skal bent á að vegamótin suður í Þrengsli eru við Lambafell og fellið þekkist af stóru sári vegna umfangsmikillar efnistöku sem varla fer framhjá vegfarendum.

Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni og þangað liggur stórgrýttur og illfær vegarslóði, en til hvers skyldi hann hafa verið lagður í svo úfið hraun?

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Það sést þegar komið er nær eldstöðinni. Þar er svöðusár austan í henni eftir efnistöku, hreinn barbarismi og skaði sem ekki er hægt að bæta. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð; svo djúp að í henni eru ennþá fannir.

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Milli Eldborganna tveggja eru á að giska 4 km. Syðri-Eldborg er aðeins um 2 km frá Leitinni; gosið úr henni kom eitthvað örlítið síðar, það sést á hraunstraumnum.
Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum; samt vaxið þykkum grámosa sem tekur oft á sig gulan lit þegar hann vöknar. Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið árið 1000 yfir Leitarhraunið til norðausturs, þó ekki nema 2-3 km austur og norðaustur af veginum í Svínahrauni.
Danski fræðimaðurinn Kristian Kálund ferðaðist um Ísland á árunum 1872-74 og gaf síðan út bók um íslenzka sögustaði, sem Haraldur Matthíasson hefur þýtt. Kálund nefnir frásögn Kristnisögu um jarðeld sem ógnaði Hjalla í Ölfusi. Hann segir þar að hraunið sem stefndi á bæ Þórodds goða hafi verið Þurárhraun, sem runnið hafi út úr þröngu gili og fram af brúninni talsvert austan við Hjalla. Þar hafi það dreift talsvert úr sér á flatlendinu.
Þarna fór Kálund villur vegar, enda hafði hann engar rannsóknir til að byggja á. Þurárhraun er úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni eins og áður er lýst.

Kristnitökuhraun

Eldborg við Meitla.

Að sögn Jóns Jónssonar jarðfræðings hefur gosið fjórum sinnum í Hellisheiðareldstöðinni á nútíma, það er síðustu 10 þúsund árin. Hraunið sem þekur hlíðina í Kömbum er þaðan ættað; annað rann suðvestur með Stóra-Meitli og niður Hveradalabrekkuna, en Þurárhraun er yngst; þó miklu eldra en Kristnitökuhraun eða Svínahraunsbruni. Eins og víðar hafa veruleg spjöll verið unnin á Hellisheiðareldstöðinni vegna efnistöku. Gígarnir, eða það sem eftir sést af þeim, eru austan undir háum rauðamalar- og gjallkollum; hrauntraðir út frá þeim til austurs. Hár gjallkollur, sá þeirra sem næstur er þjóðveginum á Hellisheiði, er þó lítt skemmdur og þyrfti að friða hann.
KristnitökuhraunÞorvaldur Thoroddsen fór um þessar slóðir 1882 og minnist í ferðabók sinni á munnmæli um að Þurárhraun sé það hraun sem Kristnisaga getur um. Þorvaldur efast um að það standist og nefnir, að hafi Þóroddur goði búið að Hjalla sé líklegra að sagan eigi við annað nýlegra hraun, komið úr Meitli. Hér á Þorvaldur við hraunið sem runnið hefur fram af hlíðinni vestan við Hjalla og liggur Þrengslavegurinn á þessu hrauni í brekkunni upp á heiðina.
Ekki er alveg ljóst hvort sá mæti maður, Þóroddur goði, bjó á Hjalla eða á Þóroddsstöðum, lítið eitt vestar, og hvort sá bær sé þá nefndur eftir honum. Hafi hann búið þar og þetta hraun steypst fram af hlíðinni sumarið 1000 hefur það verið mjög áhrifamikil bending um reiði guðanna. En sú guða reiði hafði reyndar orðið löngu áður, og hverju reiddust guðin þá? Þetta hraun sem nefnt er Eldborgarhraun eftir eldstöðinni er miklu eldra en kristni á Íslandi; það er að vísu nútímahraun, en nokkur þúsund ára gamalt. Upptökin eru í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu. Hinsvegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu.

Eldborg

Eldborg í Þrengslum.

Sæmileg jeppaslóð liggur frá Þrengslaveginum sunnan undir hlíð Litla-Meitils og allar götur að eldstöðinni. Hafa menn riðlast á torfærubílum alveg upp á gígbrún, en hlíðarnar eru að utanverðu vaxnar þykkum grámosa sem þolir ekki einu sinni umgang, hvað þá ruddaskap af þessu tagi. Ofan af gígbarmi Eldborgar undir Meitlum sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorlákshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áður nefnd eldstöð ofan Hveradala er í beinni línu. Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi sem átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofaná Þurárhrauni og Eldborgarhrauni. Þessvegna vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristnitökuhraun
Þorvaldur Thoroddsen fer villur vegar í lýsingu sinni; segir bæði hraunin „tiltölulega ný og hafa efalaust runnið síðan land byggðist, en sögur segja mjög sjaldan frá náttúruviðburðum, síst á þessum útkjálka.“ Í gosannál eldfjallasögu sinnar gerir Þorvaldur ekki upp á milli þessara hrauna, en er þó fyrstur til að draga í efa munnmælin um að Þurárhraun sé Kristnitökuhraunið.
Í lýsingu sinni á jarðfræði Árnessýslu 1943 greinir Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá eldstöðvum á Hellisheiði og telur hann þar að bæði Þurárhraun og Eldborgarhraun geti átt við lýsingu Kristnisögu. Fram yfir 1960 héldu menn í þessa skoðun.

Heillisheiði

Heillisheiðarhraun (Þurárhraun) og Eldborgarhraun (Grímslækjarhraun).

Víðtækar rannsóknir fóru fram árin 1947-49 á jarðhitasvæðum í Hengli og Hveragerði og þá kannaði Trausti Einarsson jarðfræðingur meðal annars hraunin á Hellisheiði. Í skýrslu sinni frá 1951 segir hann:

Þurárhraun

Þurárhraun.

„Viðvíkjandi aldri Þurárhrauns, má geta þess, að Eldborgarhraun sunnan við Hjalla, sem er mjög gamalt, hefur verið þakið þykkum jarðvegi, er síðar fauk nær algerlega af því. Þurárhraun er hinsvegar mjög unglegt og yngst Hellisheiðarhraunanna, og eina hraunið, sem komið getur heim við frásögn Kristnisögu um eldgos árið 1000.“ Þessi kenning fær enn stuðning frá Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi 1960. Á sjötta tugnum hafði hann kannað jarðfræði Hellisheiðar og fjallaði hann um niðurstöðurnar í ritgerð sinni til fyrrihlutaprófs í jarðfræði við Kölnarháskóla og síðar einnig í Náttúrufræðingnum.
Kristnitökuhraun
Niðurstaða Þorleifs var svofelld: „Eldstöðvar þær sem best eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km á lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er reyndar stærsti gígur sprungunnar.“
Raunar segir Þorleifur einnig að Svínahraunsbruni hafi runnið út yfir hraunkvíslina, sem rann vestur af Hellisheiði framan við Hveradali, og sé því runnin eftir árið 1000.
Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristnitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson jarðfræðingur birti grein í Náttúrufræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðans, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg hundruð ár áður en land byggðist.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Í sömu grein kveðst Jón hafa fundið öskulagið sem kennt er við landnám í jarðvegi ofan á gosmölinni frá Eldborg undir Meitlum. Því sé ljóst að gosið sem Kristnisaga getur um, sé hvorki komið ofan af Hellisheiði né frá Eldborg undir Meitlum. Þar með er ljóst að böndin hafa borizt að Svínahraunsbruna á svæðinu vestan Hellisheiðar.

Grímslækjarhraun

Grímslækjarhraun – afurð Eldborgarhrauns.

Jón Jónsson skrifaði aðra grein í Náttúrufræðinginn 1979 og er fyrirsögn hennar „Kristnitökuhraunið“. Þar segir Jón frá því að landnámsöskulagið hafi fundizt í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristnisögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein um Krýsuvíkurelda eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstóðvakerfi Brennisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 01.07.2000, Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið, Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Draugatjörn

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kålund

Kålund á efri árum.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Um Hellisheiðarveg segir Kålund m.a.: „Hellisheiðarvegur hefst skammt fyrir ofan Elliðaár og skilst þar frá Seljadalsveginum; er þá stefnt enn meir til hægri og til suðausturs.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Fyrst liggur leiðin yfir gömul hraun og síðan flata og jafnlenda fláka – ef kosið er að sneiða hjá Svínahrauni, sem hefur hingað til verið næstum ófært, mjög brunnið með grængulum mosavöxnum strýtum – og er þá komið upp undir Hengil, þar sem lítið og blómlegt daldrag í hrauninu er innilokað milli fjallsins og hæða Hellisheiðar, þar sem þær ná lengst fram. Innst inni í dalnum liggur mjór vegurinn gegnum skarð eða eftir lægð milli tveggja hraunhæða upp á bratta heiðina, sem lækkar hér í stöllum niður til láglendisins, svo að brekkuferðin verður í tvennu lagi.

Hellisskarð

Hellisskarð ofan Kolviðarhóls – gata.

Uppgönguskarðið heitir nú Hellisskarð. Í Kjalnesinga sögu er það nefnt Öxnaskarð, og á það vel við fyrri aðstæður, því að margt nauta úr Gullbringusýslu og Árnessýslu var látið ganga í sumarhögum á þessum slóðum, og haust hvert smöluðu bændur nautunum og aðskildu í réttum skammt frá þessum stað, og til Árnessýslu voru þau rekin yfir Hellisheiði og ef til vill einmitt í ggenum Öxnarskarð. Nú er hér eins og annars staðar nautaræktin næstum horfin, en áður fyrr er sagt, að hafi mátt sjá þau hundruðum saman á völlunum neðan við Heillisheiði, og heita þeir því enn Bolavellir.

Búasteinn

Búasteinn.

Rétt við uppgönguna er til hægri handar Kolviðarhóll á fremur lágri hæð eða kollóttum hól þar niðri í dalnum í brekkurótum; á þessari hæð er „sæluhús“ („sæluhús“ eiginlega hús sem reist er fyrir göfugmennsku sakir – í þessu tilfelli til að hýsa örmagna ferðamenn – til sáluhjálpar (að skilningi kaþólskra)), mjög mikið notað, fjallakofi, en slíkir eru allt of fáorð á Íslandi, því að næstum á hverjum vetri verða einhverjir úti á fjallvegum.

Kolviðarhóll.Almenn sögn segir, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu. Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkur hundruð fet uppi er stór tenginslaga steinn; þetta er Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu (38 o.áfr.), þar sem Búi, þegar hann kom niður úr Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar. Sjá má við nánari athugun, að steinninn hefur ekki teningslögun nema að framan, að aftanverðu hallar honum nokkurn veginn jafn niður eftir fjallinu, sem hann er í, og er raunar aðeins einn, en hinn stærsti af mörgum framstandandi hraunklettum, sem eru í röð frá efstu fjallabrekku og niður í rætur, en öll brekkan er annars þakin möl og mylsnu.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Yfir þessa heiði, sem er talsvert hærri en Mosfellsheiði, liggur leiðin yfir gamlar hraunbreiður, þar sem nokurra þumlunga djúp gata er komin ofan í hraunklöppina vegna sífelldrar umferðar. Þetta er nefnilega aðalleið bænda í austursýslum, sem versla og veiða í miklum mæli í Gullbringusýslu.
Eftir nokkurra stunda reið hefst niðurleiðin. Er halli nokkrun veginn jafn og brekka alllöng og sýnir glöggt, hve hátt uppi leiðin hafði legið, og nú er útsýn fögur og mikil, því að neðan brekku breiðist suðvesturhluti Árnessýslu. Auk þessarar leiðar liggja nokkrar aðrar yfir heiðina gegnum önnur skörð með sérstökum nöfnum, en frá sama upphafsstað, og eru flestar suðaustar. Þessum leiðum verður að fylgja nákvæmlega, því að ef menn villast getur verið erfitt að komast niður bratta austurhlið heiðarinnar.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 47-48.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.

Hellukofinn

Í Sýslu- og sóknarlýsingum Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1843 og lýsing Ölfushrepps anno 1703, eftir Hálfdán Jónsson, segir m.a. um vegi um Hellisheiði:

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

„Fyrir austan … Bæjarþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.“
Árið 1840 segir: „Hellirsheiði er … vel rudd. Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“
„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“
„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].“

„Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði.
Eirikisvegur-221Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól. …Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum.
hellisheidi-222Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður. Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum… . Síðan lá leiðin eftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.“ 

Hellisskarð

Hellisskarð – gata.

„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur… .
Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjóta tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba.

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.

1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur… . Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim… . Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni.

Hellisheiði

Hellisheiði – skjól við gömlu götuna.

Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95. Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klö

ppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu.

hellukofinn-121

Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp.
Friðlýstur 13.5.1971. – var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa).

Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ „Á þeim stað sem hétu Syðri Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“  Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel.

Hellisheiði

Hellisheiði – hellirinn á Hellisheiði; dágott varðað skjól.

Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.“

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellisheiðargatan. Girðingarvinnugerð hefur hunsað allar fornleifar á stórum kafla á heiðinni.

Í takmarkaðri fornleifaskráningu vegna framkvæmda Hitaveitunnar á Hellisheiði (svo virðist sem nánar engar kröfur hafi verið gerðar til skráninga fornminja á svæðinu þrátt fyrir einar mestu framkvæmdir frá upphafi byggðar) segir m.a.: „Hellukofi, Hellisheiði„- Friðlýst hús, byggingarár: 1830. Hönnuður: Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi. Friðaður 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Í Örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar um Hellisheiði segir: „Gamli hellukofinn var byggður 1830 á grunni krossvörðu sem þarna var fólki og skepnum til skjóls, líklega í hundruðir ára. Gamli vegurinn yfir Hellisheiði var allur varðaður. Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m. í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak. Þar austur á miðri heiðinni eru Þrívörður við veginn, segir Hálfdán Jónsson í Ölfuslýsingu sinni 1703.
Syðri vegurinn var líka vel varðaður, þar stóðu vel hlaðnar, mannháar vörður, með nef út að veginum. Þannig voru þær tölusettar. En tréspjöldin með tölunum fuku og fúnuðu, og nú eru
allar vörðurnar horfnar, fyrir tönn tímans og jarðýtanna“.

Hellisheiði

Ásýnd Hellisheiðar 2023.

Í „Skrá um friðlýstar fornleifar – fyrsta útgáfa 1990„, segir um Hellukofann: „Ölfushreppur; Afréttarland. Gamla sæluhúsið, „Hellukofinn“ svonefndi, er stendur við hinn varðaða veg vestantil við miðja heiði.[(Hellisheiði).] Einnig vörðurnar og vegurinn, troðin hestaslóð sem víða markar fyrir í hrauninu. Skjal undirritað af ÞM 13.05.1971. Þinglýst 03.09.1971.“

Heimildir:
-SSÁ, 238, 205 .
-SK, 1 .
-SB III, 282.
-Ö-Hellisheiði,1 .
-Útivist 6(1980), 82-86.
-Jón Pálsson.
-Austantórur II, 131-2 .
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148.
-Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).
-Íslenzkir sagnaþættir XI, 113-129.
-Morgunblaðið, 26. júní 1980, Gamla gatan á Hellisheiði, bls. 22.
-Hellisheiði – Örnefnaskráning; Eiríkur Einarsson.
-Skrá um friðlýstar fornleifar – fyrsta útgáfa 1990, Hellukofinn.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.

 

Hellukofinn

Þjóðvegur milli Reykjavíkur og Suðurlands hefur lengi legið um Hellisheiði. Gamli þjóðvegurinn lá upp kambana austan meginn, yfir Hurðarás og Hellisskarð. Hellisskarð er fyrir ofan Kolviðarhól.

Hellisheiði

Hellukofinn.

Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Norðan meginn á Hellisheiði milli varðanna, er Hellukofinn svokallaði. Þessi Hellukofi er borghlaðið sæluhús byggt á þessari alfaraleið í kringum 1830. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin er 2 m. Hellukofinn hefur getað rúmað 4 – 5 manns.

Hwellukofinn

Hellukofinn á Hellisheiði.

Talið er að Hellukofinn hafi verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“ . Biskupsvarðan var ævafornt mannvirki, krosshlaðið þannig að menn og hestur gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Þessi varða stóð fram á 19. öld en henni var ekki haldið við og var farin að hrynja. Grjótið úr vörðunni var notað til þess að byggja Hellukofann.

Hellukofinn var friðaður 1.janúar 1990.

Vegur hefur legið um heiðina um aldir. Gamla hraungatan sem liggur yfir heiðina fór niður af henni vestan megin í Hellisskarði upp af Kolviðarhóli. Akvegur var fyrst gerður um heiðina um aldamótin 1900 og lá vegurinn þá niður af heiðinni austanmegin niður Kambana í ótal beygjum og hlykkjum. Vegurinn var lagaður til á fjórða áratugnum og hélst í því vegstæði þar til ákveðið var að fara í að gera fullkominn malbikaðan veg yfir heiðina, sem lagður var á árunum 1970-1972. Vegurinn var þá byggður upp með klifurreinum í brekkum sem þóttu nýstárlegar á Íslandi á þeim árum.

-http://notendur.centrum.is/~ate/hellukofinn%20myndir.htm
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hellishei%C3%B0i

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisskarð
Eftirfarandi er álit Örnefnastofnunnar á nafninu Hellisheiði:
„Hellisheiði er í vestanverðri Árnessýslu. Vestarlega á henni er Hellisskarð (kallað Öxnaskarð að fornu) nálægt Kolviðarhól.“
Í Árbók Ferðafélags Íslands 2003, Í Árnesþingi vestanverðu, eftir Þór Vigfússon er fjallað um nafnið Hellisheiði með eftirfarandi orðum: „Ekki er vitað hví Hellisheiði heitir svo, enginn er hér hellirinn.“ Ennfremur segir í skýringargrein: „Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefir getið sér þess til að Hellisheiði dragi nafn af Raufarhólshelli, en um Þrengsli og fram hjá hellinum kunni að hafa legið ein fjölfarnasta leiðin austur yfir fjall á fyrstu öld byggðar í landinu.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Gosið úr Eldborgum við Lambafell um árið 1000 teppti Þrengslin með Svínahraunsbruna og menn hafi því þurft að velja sér leiðir á nýjum forsendum. Við það kunni örnefnið Hellisheiði að hafa flust um set, norður á bóginn.“  Þessi skýring er alls ekki fráleit. Hugsanlegt er einnig að annar hellir hafi verið áður þar sem nú er Hellisheiði og Kristnitökuhraunið hafi runnið yfir hann.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Sumir hafa talið að nafnið sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli, þ.e. af hella kv., en þar eru miklar sléttar hellur . Nafnið hefði þá átt að vera „Helluheiði“ eða „Hellnaheiði“, en síðan breyst í Hellisheiði. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni (Árnessýsla. Sýslu- og sóknarlýsingar (1979), bls. 238). Samt er það svo að ruglingur getur verið í örnefnum hvort um er að ræða hellu eða helli. Þannig lítur nafnið Hellnar á Snæfellsnesi, á Hellnum, út fyrir að vera af hella kv, ef. Hellna, en er líklega dregið af orðinu hellir. [innskot S.G. : Og þá af hellinum Baðstofu sem liggur við höfnina og er mjög tilkomumikill].

Hellisheiði

Gígar á Hellisheiði.

Svo lýkur Svavar (hjá Örnefnastofnun) ályktun sinni á örnefninu Hellisheið með eftirfarandi orðum: „Niðurstaðan er sú að langlíklegast er að orðið hellir sé í örnefninu en álitamál hvort það er Raufarhólshellir eða einhver annar hellir sem týndur er.“
Við þetta má bæta að „Hellukofinn“ (sjá mynd) er á Hellunum þar sem varðaða leiðin liggur yfir Hellisheiði. Ekki er ekki ólíklegt, ef vel er skoðað, að á þessari leið kunni að leynast „hellir“ sá er hraunið var nefnt eftir, þ.e. ef það hefur ekki verið nefnt eftir helluhrauninu, sem einkennir meginhluta leiðarinnar.
Þegar farið var austur s.l. vetur með Jóni Jónssyni, jarðfræðingi, benti hann á stað á Hellisheiðinni þar sem hann taldi vera hellir undir. Taldi hann það vera hellinn, sem Hellisheiðin hefði nafn sitt frá, en hann væri nú lokaður…

Hellisheiði

Gatan um Hellisheiði fyrrum.

Þorleifur Einarsson

Í Náttúrufræðingnum 1961 eru birt skrif Þorleifs Einarssonar um „Þætti úr jarðfræði Hellisheiðar„:

Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar

Þorvaldur Einarsson

Þorleifur Einarsson (1931-1999).

„Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.“
Vart mun sá maður til vera á Íslandi, að hann kannist ekki við þessa stuttu frásögn Kristnisögu af eldsuppkomu á Hellisheiði árið 1000 og orðræður Snorra goða og heiðinna manna á Alþingi það sumar. En nokkuð hefur það verið á reiki, við hvaða hraun ummæli þessi eiga.
Sumarið 1956 hóf ég athuganir á gossprungum á vestanverðri Hellisheiði og hraunum, sem þaðan eru komin. Rannsókn þessi varð þó víðtækari, tók reyndar tvö sumur í viðbót, 1957 og 1958, svo sem grein þessi ber með sér, og náði til jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins alls, en það takmarkast að norðan af Hengladölum, að vestan af Bláfjöllum, að sunnan af Fjallinu eina, Geitafelli og Krossfjöllum, að austan af Þorleifslæk og Varmá. Um athuganir þessar ritaði ég síðan prófritgerð (Diplom Geologe), sem birtist í vor (Þorleifur Einarsson 1960), og er grein þessi útdráttur úr henni.
Um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins hefur fátt verið ritað. Flestir jarðfræðingar hafa talið mosagráa hraunflákana og lág fellin lítið forvitnileg. Rækilegastar munu athuganir Þorvalds Thoroddsens (1908-11, 1913, 1925) og Trausta Einarssonar (1951) vera. Af öðrum, sem um jarðfræði þessa svæðis hafa fjallað, mætti nefna Guðmund G. Bárðarson, Guðmund Kjartansson (1943), Tékkann M. F. Kuthan og Norðmanninn T. F. W. Barth.

Jarðfræðilegur inngangur

Þorvaldur Einarsson

Þorvaldur Einarsson – rit um jarðfræði Hellisheiðar.

Jarðsaga Íslands nær aðeins yfir síðustu öld jarðsögunnar, nýöld.
Elzta berg hér á landi er að finna á Austfjörðum og Vesturlandi, blágrýti með millilögum úr harðnaðri gosösku, sandsteini og leirsteini með surtarbrandi. Jurtaleifar úr surtarbrandslögum í neðri hluta blágrýtismyndunarinnar benda til þess, að elztu lögin séu ártertier að aldri, þ. e. a. s. allt að 60—70 milljónum ára gömul. Mest ber þar á blaðförum og frjókornum lauftrjáa, sem vaxið hafa við milt loftslag. Er líða tekur á tertier-tímann, kólnar í veðri. Laufskógurinn víkur æ meir fyrir barrskógum. Á síðtertier hylur svo jökull hluta landsins fyrsta sinni, svo sem millilög úr jökulbergi í efri hluta blágrýtismyndunarinnar (gráa hæðin) í Esju, Fnjóskadal, Hornafirði og víðar bera vitni um, en mestur hluti hinnar kulvísu flóru mun hafa lifað þetta kuldakast af. Skeljalögin á Tjörnesi eru einnig síðtertier (pliósen) að aldri.
Á hinum eiginlega jökultíma, sem tók yfir síðustu milljón árin, eru kunnar hér á landi minjar þriggja ísalda og tveggja hlýviðrisskeiða eða hlýalda líkt og á norðanverðu meginlandi Evrópu.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson – Jarðfræði; saga bergs og lands.

Í Ölpunum hafa fundizt ummerki fimm ísalda og í Norður-Ameríku fjögurra. Lítið er kunnugt um það, hve langan tíma framrás og bráðnun ísaldarjöklanna tók, en þó skal hér reynt að gera nokkra grein fyrir bráðnunarsögu meginjökuls síðustu ísaldar suðvestanlands. Þegar jökullinn var hvað stærstur, mun hann hafa hulið allt land umhverfis Faxaflóa nema hæstu fjöll, svo sem Esju og Skarðsheiði.
Jökullinn mun hafa náð allt út undir brún landgrunnsins (Jökulrispur eru t.d. kunnar frá Garðskaga.). Jökulskjöldurinn tók að mesta kuldakasti síðustu ísaldar loknu að bráðna. Nokkrum árþúsundum eftir að hann var stærstur, skaut Suðurkjálkafjallgarðinum og Suðurnesjum öllum upp úr jökulhjarninu. Rétt um það leyti, er Suðurkjálkinn var orðinn íslaus, kólnaði nokkuð í veðri aftur, svo að jökullinn skreið fram að nýju. Ýttust þá upp jökulgarðar á Álftanesi, í mynni Hvalfjarðar, í Melasveit (Skorrholtsmelar) vestan Leirár og líklega víðar. Síðan framskrið þetta, sem nefna mætti Álftanesstigið, átti sér stað, mun vart vera skemmri tími liðinn en 20000 ár.
Enn breyttist loftslag til hins verra, og jökullinn gekk fram. Við þessa framrás mynduðust miklir jökulgarðar, sem rekja má um þvert Suðurlandsundirlendi frá Keldum á Rangárvöllum út í Biskupstungur. Framrás þessi hefur verið nefnd Búðastigið. (Guðmundur Kjartansson 1943). Við bráðnun jöklanna hækkaði mjög ört í höfunum, svo ört, að löndin, sem jökullinn hafði legið yfir og þrýstst höfðu niður undan jökulfarginu, náðu eigi að rísa nógu skjótt, og flæddi því sjór víða yfir láglendi, um leið og það varð jökullaust. Jökull þrýstir landi meir niður til dala en til nesja, svo sem sjá má af því, að hæstu sjávarminjar við Reykjavík eru í aðeins 43 m hæð, í Ölfusi í 55—60 m hæð og í Holtum, Hreppum og á Landi í 110 m hæð.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson skrifaði m.a. kafla í þjóðhátíðartútgáfu af Sögu Íslands.

Fyrir 11—12000 árum, á því hlýviðrisskeiði síðjökultímans, sem kennt er við staðinn Alleröd á Sjálandi, munu jöklar Íslands hafa verið orðnir minni en þeir eru í dag. En vegna loftslagsbreytingar til hins verra fyrir 11000 árum skriðu jöklar víða um heim enn fram.
Loftslag á Íslandi var tiltölulega hlýrra á síðustu ísöld og þó einkum undir lok hennar en um norðanvert meginland Evrópu. Helzta skýringin á því er sú, að landskipan Evrópu var öll önnur en í dag þar til fyrir 7000 árum. Þangað til voru Bretlandseyjar tengdar meginlandinu, en þá brauzt sjór gegnum Ermarsund og flæddi yfir lendur þær, þar sem nú er Norðursjór. Golfstraumurinn komst því ekki upp að ströndum Skandinavíu, og beindi Bretlandseyjaskaginn honum meir til norðvesturs en í dag. Það er augljóst mál, að breytingar þessar á stefnu Golfstraumsins hafa haft mikil áhrif á loftslag hér á norðurslóð.
Brot þetta úr jarðfræði Íslands er nokkru ítarlegra en ætlað var, en þar sem hér er fjallað um ýmislegt úr þessari sögu á annan veg en hingað til hefur verið gert, einkum jökultímann, taldi ég rétt, að svo væri.

Berg frá jökultíma

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti.

Elzta berg Hellisheiðarsvæðisins er að finna í lagskiptri grágrýtismyndun í neðri hluta Kambabrúnar og Núpafjalls, svo og í Hjallafjalli. Á grágrýtismyndun þessari, Kamba- eða Hjallagrágrýti, liggur í Kambabrún þunnt lag af jökulbergi. Á því liggur síðan allþykk móbergsmyndun, Núpafjallsmóberg. Myndun þessi er allóregluleg, lagskipt móberg, þursamóberg, bólstraberg.
Í Þurárhnúk og Kerlingarbergi er einnig ofan til lagskipt grágrýti. Innskot eru mörg og óregluleg, gangar, æðar, kubbaberg og stuðlasveipir. Móbergsmyndun þessa er líka að finna í Núpafjalli og í brún Efrafjalls (í Hesti og Kerlingabergi). Kambagrágrýtið er líklega runnið sem hraun á hinni eldri hlýöld. Jökulbergið og Núpafjallsmóbergið eru líklega mynduð á næstsíðustu ísöld, og er það líkt móbergi í Jórukleif að aldri, en það liggur undir Mosfellsheiðargrágrýti, sem runnið er frá Mosfellsheiði á síðustu hlýöld. Mosfellsheiði er dyngja með tveim gígrústum, Borgarhólum og ónefndum hæðum austur undir Þingvallavatni. Frá Borgarhólum er líka runnið yngsta grágrýtið í nágrenni Reykjavíkur (Reykjavíkurgrágrýti).

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti.

Móbergsfjöll Hengilsvæðisins hafa hlaðizt upp í geilum eða götum, sem bráðnað hafa í jökulinn yfir eldstöðvunum líkt og flest móbergsfjöll á landinu (Guðmundur Kjartansson 1943). Móbergsfjöll þau, sem nú verður getið, eru öll mynduð á síðustu ísöld. Bólstraberg er víða að finna í neðri hluta móbergsfjalla á Hellisheiðarsvæðinu, svo sem í Draugahlíðum, Lakahnúkum, milli Meitla, í Stóra-Skarðsmýrarfjalli og víðar. Hraun rann úr gígunum og barmafyllti geilina og rann jafnvel út á jökulinn. Fjöll, sem náð hafa þessu stigi, eru nokkur á Hellisheiði, t. d. Stóri-Meitill og Geitafell. Slík fjöll nefnast móbergsstapar. Miklu algengari eru þó fjöll, sem byggð eru upp úr lausum gosefnum, sem síðar hafa límzt saman, móbergshryggirnir, t.d. Stóra-Reykjafell og Skálafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Ummyndun lausra gosefna, ösku, í móberg sannar ekki, að móbergsfjöllin hafi hlaðizt upp í eða undir jökli, því að móberg er einnig þekkt sem millilög í tertieru blágrýtismynduninni, t.d. í Esju. Þess skal líka getið, að í fjöllum, hlöðnum upp úr lausum gosefnum á síðustu ísöld, er til gosaska, sem hefur ekki breytzt í móberg, t.d. í Litla- og Stóra-Sandfelli. Í nokkrum móbergsfjallanna mótar enn fyrir gígum, svo sem í Stóra-Meitli. í mörgum fjallanna eru gígtappar úr grágrýti, en þeir standast veðrun betur en móberg og skaga því víða upp úr.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti (jarðfræðikort Ísór).

Bezt dæmi um slíkan bergstand í móbergi er Lambafellshnúkur, en hann setur á fellið keilislögun, enda er Keilir á Reykjanesi eins upp byggður. Gráuhnúkar norðan Þrengsla eru líka bergstandar. Litla-Skarðsmýrarfjall og Orustuhóll eru úr mjög stórdílóttu grágrýti. Er það gangur, líklega gömul eldstöð. Dalkvosir í mörgum fellanna eru ekki gamlir gígar, heldur hafa jökulflikki orðið undir lausum gosefnum, þegar fellin hlóðust upp, og ekki bráðnað fyrr en að gosunum loknum. Þar sem ís var undir móbergi, myndaðist því dæld eða dalur, t. d. dalirnir í Stóra-Reykjafelli eða Innstidalur.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hlutinn (loftmynd).

Í Stóra-Reykjafelli vestanverðu er stór felling í lagskiptu móbergi. Slíkar fellingar mynduðust líklega, ef veggir ísgeilanna hafa haft mikinn fláa eða í þeim verið syllur. Ísveggurinn hefur síðan bráðnað, meðan gosefnin voru enn vatnsósa, og gosefnin fylgt honum. Lík felling, en minni, er einnig í Blákolli vestanverðum. Annað fyrirbæri, sem víða er að finna í móbergsfjöllum, er svokölluð flögun. Lagskipt móberg hefur kubbazt og klofnað án tillits til lagskiptingar undan þrýstingi jökulfargsins. Slík flögun í móbergi er t.d. í Stóra-Reykjafjalli við veginn upp í Hveradali.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hlutinn (loftmynd).

Auk móbergsfjalla eru til á Hengilsvæðinu grágrýtisflákar, sem myndaðir eru á einu af fyrstu bráðnunarskeiðum síðustu ísaldar. Er hér um grágrýtislög að ræða, sem komin eru úr Hengli og hylja suðausturhluta hans, Ástaðafjall og Hamarinn ofan Hveragerðis. Í Húsmúla norðan Kolviðarhóls er og grágrýti. Gæti þar verið sérstök eldstöð. Allt er grágrýti þetta jökulsorfið.
Umhverfis Skálafell er grágrýtisdyngja (Norður- og Suður-Hálsar), sem ég hef nefnt Skálafellsdyngju. Grágrýti þetta er komið úr gíg, Trölladal, vestan Skálafells, og hefur síðan runnið umhverfis fellið og víða fram af brún Efrafjalls og Hjallafjalls. Grá grýtið er jökulrispað austan Skálafells, en vestan þess má enn finna hraunreipi á hraunhólum. Sýnir þetta, að jökullinn hefur aðeins farið yfir austurhluta dyngjunnar. Það, að grágrýtið austan Skálafells skuli renna um gil og dali eldri fellanna líkt og hraun, runnin eftir jökultíma, og fylgja öllum línum landslagsins, bendir til ungs aldurs grágrýtisins. Þó er það eldra en hæsta sjávarstaða, því að í það hafa höggvizt brimþrep. Gosið í Skálafellsdyngju hefur líklega átt sér stað á bráðnunarskeiðinu, sem fór á undan framrás jökulsins að Álftanesröðinni, og hefur sá jökull urið grágrýtið austan Skálafells.
Í ritgerð minni (Þ.E. 1960) gat ég þess, að ljósir blettir í fjöllum á Hengilsvæðinu væru eingöngu myndaðir við hverasuðu. Þetta er ekki alls kostar rétt, því að á síðastliðnu hausti rakst ég á lítil líparít-innskot vestan til í Hengli, rétt norðan Húsmúlans.
Jökulminjar frá síðustu ísöld eru heldur fátæklegar á svæðinu, aðrar en móbergsfellin. Jökulrispur á klöppum eru sjaldgæfar, en sýna þó, að jökullinn hefur skriðið suður heiðina til sjávar. Jökulurð sést óvíða, nema hvað Kolviðarhóll er botnurðarhóll, og annar slíkur er á Krossfjöllum. Á einstöku fjöllum er og stórgrýtt jökulurð og víða, einkum á móbergsfjöllum, jökulbergskápa.

Hæstu sjávarmörk í Ölfusi eru í Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða í 55 m hæð, en í Hveragerði í 60 m hæð. Síðan brimið klappaði þessi hæstu fjörumörk, munu líklega vera liðin um 14000 ár, sem áður segir. Af sjávarminjum ber mest á lábarinni möl og hnullungum. Brimþrep eru og víða greinileg, svo sem í Hjallafjalli og Skálafellsgrágrýti hjá Núpum; bærinn stendur í þrepinu. Einnig eru hlíðar Hamarsins ofan Hveragerðis gamalt sjávarbjarg, sem og Kambabrún og hlíð Núpafjalls. Brimsorfnir hellar eru í Vatnsskarði. Á Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða eru fallegir malarkampar, sem brimið hefur rótað upp. Sjór fjaraði, eða réttar sagt landið hækkaði síðan á 5000 árum, svo að hann var kominn þá a.m.k. 4 m niður fyrir núverandi sjávarmál, svo sem sjá má af myndun fjörumós í Seltjörn, en hann myndaðist ofan sjávarborðs. Á síðustu árþúsundum hefur land síðan lækkað nokkuð.

Hraun frá nútíma – Hellisheiðarhraunin eldri

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Á vestanverðri Hellisheiði eru eldstöðvar, sem gosið hafa a. m. k. fjórum sinnum á nútíma, en nútíminn nær að tímatali jarðfræðinga yfir síðustu 10000 árin, eins og áður gat. Gígar beggja hinna eldri hrauna eru huldir yngri hraunum. Mjög erfitt er að greina eldri hraunin hvort frá öðru. Verða eldri hraunin því rædd í einu lagi. Auðvelt er að greina yngri hraunin frá hinum eldri í landslagi. Einnig ber meir á feldspat-dílum í blágrýti eldri hraunanna en hinna yngri, minnst í yngsta hrauninu, Kristnitökuhrauni.
Eldri Hellisheiðarhraunin hylja syðri hluta Hellisheiðar, og liggur þjóðvegurinn lengstum á þeim. Á norðanverðri heiðinni eru þau horfin undir yngri hraun. Hraunflóðin hafa runnið austur heiðina og fram af Kambabrún niður í Ölfus, allt austur að Varmá, beggja vegna Hamarsins. Tota úr elzta hrauninu nær þó austur yfir ána við þjóðveginn. Varmárbrúin stendur á þessu hrauni, svo og bærinn að Völlum. Bæirnir Saurbær, Þúfa, Kröggólfsstaðir og Vötn utan Varmár standa í jaðri elzta hraunsins. Rétt norðan þessara bæja virðist vera brún næstelzta hraunsins, og standa bæirnir Yxnalækur og Vorsabær í henni. Ein kvísl hraunflóðsins á heiðinni rann suður á milli Hverahlíða og Núpafjalls og niður um skarð í fjallsbrúninni ofan Núpa. Þetta hraun endar rétt ofan bæjarhúsa að Núpum og hefur ekkert breiðzt út á jafnsléttu. Önnur kvísl sama hrauns rann enn lengra til suðausturs og niður gilið norðan Vatnsskarðs og breiddist nokkuð út á láglendi, en síðar hefur Þurárhraun runnið yfir það. Einn hraunstraumur hefur runnið til suðurs frá eldstöðvunum milli Lakahnúka í Lakadal, annar til vesturs niður Hellisskarð. Þetta hraun sést í misgengi í austurbrún skarðsins. Enn einn hraunstraumur hefur líklega runnið vestur úr Hveradölum og allt norður fyrir Draugahlíðar. Sér nú á hraun þetta sem apalhraunskika í Svínahrauni (Leitahrauni) rétt norðan móta gamla vegarins og Þrengslavegar.
Eldri Hellisheiðarhraun eru víðast algróin apalhraun nema elzta hraunið við Varmárbrúna, sem er helluhraun. Um aldur þessara hrauna er það að segja, að elzta hraunið er ekki runnið fyrr en sjór var komin niður fyrir 3 m hæð yfir núverandi sjávarmál og getur því vart verið eldra en 10000 ára gamalt. Næstelzta hraunið er eldra en Leitarhraun, en það er yngra en 5300 ára, svo sem síðar segir. Eldri Hellisheiðarhraunin eru því yngri en 10000 ára og eldri en 5000 ára gömul.

Leitahraun

Leiti

Leiti – gígurinn austan Bláfjalla.

Austan undir Bláfjöllum, sunnan Ólafsskarðs, er óásjálegur gjallrimi, er Leitin nefnist. Að sunnan er hann 30 m hár, að norðan jafnhár Lambafellshrauni. Rimi þessi er eystri barmur gígs þess, sem stærsta hraun Hellisheiðarsvæðisins er komið frá. Leitahraun, eins og það nefnist hér, þekur 75 km2 lands. Gígurinn er um 300 m frá NA—SV og 150 m þvert á þá stefnu. Leysingalækur úr Bláfjöllum hefur fyllt gígskálina með möl og sandi, en þó sést enn 2—3 m hár hraunhjalli og bendir hann til þess, að hrauntjörn hafi staðið í gígnum. Úr norðurhluta gígsins hefur hrauná runnið. Hraunið, sem var mjög þunnfljótandi, breiddist út á flatneskjunni milli Bláfjalla, Heiðarinnar há, Geitafells, Meitla og Lambafells og nefnist Lambafellshraun. Hraunflóð rann þaðan til norðurs milli Blákolls og Lambafells og breiddist út norður til Húsmúla og Engidalskvíslar. Þar heitir nú Svínahraun (helluhraunið). Hraun þetta rann síðan niður um Vatnaöldur, Sandskeið, Fóelluvötn og milli grágrýtisholtanna hjá Lækjarbotnum (Lögbergshúsið stendur á hrauninu.) og út í hið forna Elliðavatn, sem var mun stærra en vatnið er í dag. Þegar hraunið rann út í vatnið, tók að gjósa upp úr því vegna gufuþenslu í hraunkvikunni, og mynduðust þar gervigígar, sem nú nefnast Rauðhólar. Tröllabörn neðan Lækjarbotna eru líka gervigígar í þessu hrauni. Hraunstraumurinn rann síðan niður dal Elliðaánna allt í Elliðavog.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárnar renna um Leitarhraun.

Rétt ofan eystri brúarinnar yfir Elliðaárnar er mór undir hrauninu og reyndar víðar upp eftir árfarveginum. Hraunið hefur runnið yfir mýri. Mór þessi hefur verið aldursákvarðaður með mælingu á geislavirku kolefni, C14, og reyndist efsta lag hans vera 5300 ± 340 ára gamalt (Jóhannes Áskelsson 1953). Leitahraun ætti því að vera rúmlega 5000 ára gamalt.
Tveir hraunstraumar úr Leitahrauni runnu til suðurs, Djúpadalshraun milli Geitafells og Krossfjalla og annar milli Krossfjalla og Lönguhlíðar, sem breiðzt hefur út á láglendi allt suður til sjávar í Hafnarskeið og austur undir Ölfusá. Þar standa bæirnir Hraun og Grímslækur í hraunjaðrinum. Nefnist þar Heiði eða Hraunsheiði.
Leitahraun er helluhraun úr dílóttu (feldspat) blágrýti. Í hrauninu eru nokkrir hellar og niðurföll. Stærsti hellirinn er Raufarhólshellir ofan Vindheima í Ölfusi. Hann er 850 m langur, 10—30 m breiður og 10 m hár að jafnaði (Munger 1955). Norðan Draugahlíða eru einnig hellar í hrauninu, svo og undir húsum að Lögbergi.

Hellisheiðarhraunið næstyngsta

Hellisheiði

Hellisheiðarhraun.

Tvær gígaraðir eða gossprungur liggja um Hellisheiði vestanverða, og eru þaðan komin yngri Hellisheiðarhraunin. Næstyngsta hraunið er komið frá vestari gossprungunni, en hún er 6,5 km löng. Syðstu gígar hennar eru í austurhlíð Hveradala, þar sem nú eru gjallnámur Vegagerðarinnar. Þaðan er komið hraunið, sem þekur Hveradali sunnanverða (Stóradal), og apalhraunið norðan Litla-Reykjafells, en sunnan gamla vegarins við Kolviðarhól. Mikill hluti þessa hrauns hefur síðar lent undir Kristnitökuhrauni í Hveradölum. Gossprungan liggur síðan til norðurs með austurhlið Stóra-Reykjafells. Úr gíg í austuröxl fellsins hefur runnið hraunspýja til suðurs. Frost hefur síðar sprengt hraunskænið upp, svo að nú getur að líta þar einkennilegan straum köntótts stórgrýtis. Úr gígum ofan Hellisskarðs hefur runnið hraunkvísl gegnum skarðið heim undir hús að Kolviðarhóli. Gossprungan liggur síðan norður yfir Stóra-Skarðsmýrarfjall og um Innstadal þveran.

Nesjagígar

Nesjahraun – gígur.

Líklega eru Nesjavallagígar í Grafningi á sömu sprungu. Á norðanverðri Hellisheiði hefur hraun frá sprungunni breiðzt út og runnið austur heiðina og fram af Kambabrún líkt og hin eldri hraun, en stöðvazt í brekkurótunum beggja vegna Hamarsins. Er þar falleg hraunbrún. Vegurinn í Kömbum liggur í þessu hrauni. Á heiðinni er hraunbrúnin nokkuð greinileg norðan vegar. Frá gígunum á Stóra-Skarðsmýrarfjalli runnu hrauntaumar til Hellisheiðar, Sleggjubeinsdals og Innstadals. Úr gígunum í Innstadal er runnið Innstadalshraun fram í Miðdal. Hraun þetta er samkvæmt öskulagsrannsóknum yngra en 2700 ára og eldra en landnám, líklega 1500—2000 ára gamalt, þ. e. runnið um Kristsburð eða skömmu síðar.

Kristnitökuhraun

Skjaldbreið

Skjaldbreið.

Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.“ Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undr í, at goðin reiðist tölum slíkum.“ Þá mælti Snorri goði: „Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?“ (Kristni saga). Hér er sagt frá náttúruviðburði á einfaldan hátt og getið fyrsta sinni jarðfræðiathugunar á Íslandi og hún ekki umvafin blæ þjóðsögunnar, eins og svo oft vildi verða. Íslendingar hafa þegar að fornu skilið myndunarsögu landsins að einhverju leyti, því að Þingvallahraun („er nú stöndum vér á“) eru runnin þúsundum ára fyrir landnámsöld. Hin elztu eru komin frá Skjaldbreið, en hin yngri frá gossprungu á Tindafjallaheiði austan Hrafnabjarga.
Á þeim 130 árum, sem liðin voru frá því, er fyrstu landnámsmennirnir tóku land, og þar til, er kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000, hafa líklega orðið nokkur gos, því að gosið hefur að meðaltali 15 sinnum á öld frá upphafi Íslandsbyggðar fram á vora daga, svo að líklegt er, að Snorri goði hafi séð eldgos eigin augum, kannski gosið í Eldborg á Mýrum, þá er yngra Eldborgarhraun kom upp, eða haft spurnir af því. Þess goss er getið í Landnámu (Jóhannes Áskelsson 1955). Góða lýsingu á eldgosi frá fyrstu öld Íslandsbyggðar er einnig að finna í Völuspá (Sól tér sortna, 57. vísa). Þá er einnig þess að geta, að eldsuppkomuna má tímasetja allnákvæmlega, og er það óvenjulegt um náttúruviðburð, sem gerzt hefur hér á landi fyrir nær 10 öldum. Alþing kom saman á Þingvöllum fimmtudaginn í 10. viku sumars. Gosið á Hellisheiði ætti því að hafa byrjað laugardaginn í 10. viku sumars eða um 20. júní árið 1000.
Eldstöðvar þær, sem bezt eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km að lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er syðsti og reyndar stærsti gígur sprungunnar.

Eldborg

Eldborgarhraun í Þrengslum.

Í fyrsta þætti gossins kom einkum upp hraun úr nyrzta hluta sprungunnar, milli Stóra-Skarðsmýrarfjalls og núverandi þjóðvegar. Hraunið breiddist í fyrstu út á hallalítilli heiðinni austan gossprungunnar. Hraunstraumur rann síðan austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli og sunnan Orustuhóls að Hengladalsá og stöðvaðist þar. Nefnist þar Orustuhólshraun. Annar hraunstraumur rann vestur yfir sprunguna, þar sem nú er þjóðvegurinn, og niður í Hveradali og vestur úr þeim yfir austurjaðar Svínahrauns. Hraun þetta nær ekki lengra til norðurs en í beina línu vestur af suðurhorni Litla-Reykjafells. Ein álma þessa* hrauns rann síðan gegnum Þrengslin allt til Lambhóls. Síðar rann Svínahraunsbruni yfir vesturjaðar þessa hrauns, sem síðar getur. Stærstur og þekktastur er þó hraunstraumur sá, sem nefndur er Þurárhraun. Hann rann í mjórri kvísl austur heiðina norðan Smiðjulautar, austur yfir þjóðveginn og síðan austur með Hverahlíðum og niður á láglendi um Vatnsskarð. Er þar 140 m hár hraunfoss. Hraunið breiddist síðan út yfir mýrarnar austan Þurár allt austur undir Varmá. Þurárhraun er um 11 km að lengd.

Lakastígur

Lakastígur.

Úr miðhluta sprungunnar, milli þjóðvegar og Lakahnúka, hefur einnig komið mikið hraun, sem brotizt hefur í mjórri kvísl milli yztu Lakahnúka niður í dal þann, sem Hellur heitir. Norður úr dalnum er Lágaskarð til Hveradala, en Lakadalur til austurs milli Lakahnúka og Stóra-Sandfells. Dalurinn hefur fyllzt hrauni, sem rann til hans í áðurnefndri kvísl og eins úr syðsta gígnum á þessum hluta sprungunnar í Lakahnúkum. Varð mikil og slétt hrauntjörn í dalnum. Dalurinn var lokaður til suðurs milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells af grágrýtishafti, sem hélt uppi hrauntjörninni.
En vart mun dalbotninn hafa verið orðinn fullur af hrauni, er syðsti hluti sprungunnar opnaðist og hraun tók að streyma þar upp. Grágrýtishaftið brast, og hraunið úr tjörninni fékk framrás með hrauninu, sem upp kom í syðsta hluta sprungunnar. Enn sýna hraunhjallar umhverfis Hellur, að hrauntjörnin hefur staðið allt að 5 m hærra en dalbotninn er í dag. Eldborg undir Meitlum stendur á grágrýtishaftinu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum.

Eldborg undir Meitlum er stærsti gígur á allri gossprungunni, um 50 m á hæð. Eldborgin er að vísu aðeins helmingur gígs, því að hraunið, sem vall upp úr henni og gegnum hana, hefur rifið með sér eystri gígvegginn. Nokkru norðan Eldborgar er önnur eldborg, um 10 m há. Milli eldborganna er greinileg hrauntröð. Eldborgir þessar mega heita einu gígarnir á allri gossprungunni, sem því nafni geta kallazt. Annars staðar gætir mest gjallhrúgalda og óreglulegra rima. Þó eru tvær litlar eldborgir, 5 m að hæð, sunnan Stóra-Skarðsmýrarfjalls. Fell þau, sem sprungan gengur í gegnum norðan þjóðvegarins, eru úr móbergi, en að mestu hulin gjalli.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Hraunið, sem upp kom í Eldborg undir Meitlum, og eins það, sem fékk framrás úr hrauntjörninni í Hellum, breiddist út á heiðinni sunnan Litla-Meitils og Sanddala. Er það úfið apalhraun og nefnist Eldborgarhraun eða Innbruni. Þaðan rann hraun, Frambruni, niður um skarðið milli Krossfjalla og Lönguhlíðar. Hraun þetta breiddist síðan yfir Hraunsheiði (Leitahraun). Einn hrauntaumurinn rann meðfram Hjallafjalli í átt til Hjalla, en annar milli bæjanna Grímslækjar og Hrauns og nefnist þar Hraun (samkv. korti Grímslækjarhraun) til aðgreiningar frá Heiði (Leitahraun). Nær þetta hraun hvergi fram af brún Leitahrauns. Hraunið er 9 km að lengd.
Eins og að framan getur, er líklegt, að nyrðri hluti sprungunnar hafi gosið fyrst og syðsti hlutinn seinast. Nokkuð hefur það verið á reiki, hvaða hraun það var, sem náði láglendi í Ölfusi í gosinu árið 1000. Þorvaldur Thoroddsen telur ýmist, að Þurárhraun eða Eldborgarhraun hafi runnið þá. Guðmundur Kjartansson (1943) bendir réttilega á, að bæði hraunin séu komin úr sömu gossprungu og því líklega jafngömul. Athuganir þær, sem ég hef gert, benda eindregið til þess, að bæði hraunin séu komin upp í sama gosi. Þó er Þurárhraun líklega nokkrum dögum eða vikum eldra en Eldborgarhraun. Bergfræðilega er blágrýti beggja hraunanna líkt, stakdílótt (feldspat) blágrýti. Gróðurfar hraunanna og allt útlit ber merki ungs aldurs. Afstaða hraunanna til annarra hrauna á Hellisheiðarsvæðinu bendir og til hins sama. Segulmælingar, sem Ari Brynjólfsson gerði á hraunum þessum árið 1955, benda einnig til þess, að hraunin séu lík að aldri.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Öskulagsrannsóknir sýna með nokkurri vissu, að Kristnitökuhraunið hafi runnið eftir landnámstíð. Í jarðvegssniðum í hrauninu hef ég ekki getað fundið öskulagið G, en það liggur undir rústum í Þjósárdal (Sigurður Þórarinsson 1944), og í mýrarsniðum, sem frjógreind hafa verið, liggur það rétt neðan hinnar greinilegu gróðurfarsbreytingar, sem varð við landnámið. Öskulag þetta er komið af Torfajökulssvæðinu og er líklega 1100—1200 ára gamalt. Það finnst annars í nær öllum jarðvegssniðum hér sunnan lands, t.d. á næstyngsta Hellisheiðarhrauninu. Þunnt öskulag, sem myndaðist við Kristnitökugosið, er að fínna í jarðvegssniðum vestan eystri gossprungunnar á Hellisheiði, rétt ofan öskulagsins G.

Hellisheiði
Höfundur Kristnisögu leggur sendimanni þau orð í munn, að jarðeldur væri upp kominn í Ölfusi og mundi hlaupa á bæ Þórodds goða. Næsta ólíklegt er, að sendiboðinn hafi borið bæði þau tíðindi, að jarðeldur væri upp kominn, og eins hin, að hraun stefndi á bæ Þórodds goða. Svo greiðlega renna apalhraun ekki á hallalitlum heiðum, og er hér eitthvað málum blandað. Annaðhvort hafa munnmælin, sem sagnritarinn studdist við, brenglazt nokkuð, eða hann breytt þeim, svo að þau hæfðu betur frásögninni, enda hafa þessar orðræður lítið gildi fyrir frásögnina af Kristnitökunni. Sama sumar, dögum eða vikum eftir að þingi lauk, hafa hraun náð láglendi í Ölfusi. Þurárhraun hefur tæplega valdið tjóni á byggðu bóli í Ölfusi, nema bær hafi staðið undir Vatnsskarði, því að hraunið breiddist yfir mýrarfláka austan og norðan Þurár. Eldborgarhraun, sem runnið hefur heim í tún að Hrauni og Grímslæk, hefur líklega valdið einhverjum spjöllum, jafnvel tekið af bæi, hafi þeir staðið í Hraunsheiði, en það gæti vel verið, eða syðst undir Hjallafjalli, því að nyrzti hrauntaumurinn hefur runnið þar í átt til Hjalla, bæjar Þórodds goða, þótt skammt næði.
Þótt Kristnisaga muni um margt vera ónákvæm og hlutdræg heimild, má þó telja, að þessar fáu setningar um eldsuppkomuna séu í meginatriðum réttar.
Kristnitökuhraun þekur um 25 km2 lands.

Svínahraunsbruni

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Í skarðinu milli Lambafells og Bláfjalla standa tvær eldborgir. Nyrðri-Eldborg er þrír samvaxnir gígar. Sunnan hennar eru líka nokkrir litlir gígar á sömu sprungu. Úr nyrzta gígnum, sem er stærstur, 60 m í þvermál, er breið og falleg hrauntröð. Hún er um 2 km að lengd, 5 m djúp og 10—15 m breið. Hrauntröðin endar undir Blákolli. Um hraunfarveg þennan hefur hraun nyrðri og eldri Brunans, Svínahraunsbrunans, runnið og breiðzt út yfir Svínahraun (Leitahraun) allt til Draugahlíða. Syðri-Eldborg hefur gosið nokkrum vikum eða mánuðum síðar en hin nyrðri. Þar er kominn upp yngri og syðri Bruninn. Báðar standa eldborgirnar á sömu landnorðurlínunni, og eru um 2 km milli þeirra. Yngri Bruninn hefur runnið norður með Lambafelli og beygt síðan norðan Lambafellshnúks til austurs og síðan suðurs og náð allt til Þrengsla.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Nyrðri Bruninn er um 5 km að lengd og þekur 6,5 km2 lands, en hinn syðri um 6,5 km að lengd og 4,5 km2 að flatarmáli. Berg hraunanna er olivin-dílótt blágrýti. Yfir hraun þessi liggur nýi Þrengslavegurinn frá Draugahlíðum til Þrengsla. Bruninn, bæði hraunin, er úfið apalhraun og virðist við fyrstu sýn sem hraungrýtið hafi oltið fram án reglu. Við nánari athugun má þó sjá, að það hefur ekizt til í bogadregna hryggi eða hraunsvigður. Svigður eru kunnar frá skriðjöklum, að vísu annars uppruna, en líkar útlits. Hraunsvigðurnar, sem eru 1— 2 m að hæð, sjást einkum vel af fjöllunum í kring eða úr lofti. Þó má greina þær af nýja veginum. Svigðurnar sýna, að hraunið hefur runnið rykkjótt, en ekki jafnt og þétt, og vísar boginn í straumstefnuna og bendir til mestrar hreyfingar og mests hraða í miðjum hraunstraumnum. Hraunsvigður apalhrauna líkjast reipum helluhrauna. Þó mælist það í metrum í svigðum, sem mælt er í sentimetrum í hraunreipum. Hraunsvigður eru víða í apalhraunum, t. d. í Landbrotshrauni (Jón Jónsson 1954).

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Þess var áður getið, að Kristnitökuhraun lægi vestan Hveradala inn undir jaðar Brunans og væri því eldra en hann. Orðið Bruni virðist hér sunnan lands einkum vera notað um hraun, runnin, eftir að land byggðist. Menn hafa séð hraunin brenna. Dæmi um þetta eru Inn- og Frambruni í Eldborgarhrauni (Kristnitökuhrauni).
Yngsta hraun sunnan Hafnarfjarðar heitir og Bruni. Er hraun það komið frá Óbrynnishólum undir Undirhlíðum. Þess er getið í Kjalnesingasögu sem Nýjahrauns. Samkvæmt rannsókn Guðmundar Kjartanssonar (1952) er Bruni þessi runninn á landnámsöld eða litlu síðar. Í Þingeyjarsýslu er nafnið Bruni að vísu notað um úfin apalhraun, Grænavatnsbruni og Út- og Innbruni í Ódáðahrauni, sem runnin eru, áður en land byggðist. Nafn hraunanna frá Eldborgum vestan Lambafells, Bruni, bendir til þess, að þau hafi runnið að mönnum aðsjáandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Í annálum og öðrum rituðum heimildum er þessara hrauna hvergi getið, svo að mér sé kunnugt. En yfirleitt virðast náttúruviðburðir á Suðurkjálka hafa farið fram hjá annálariturum, og þá sjaldan, að þeirra er getið, er þekking á staðháttum harla lítil, svo að jafnvel hraun, komin upp við Trölladyngju á Reykjanesi, eru talin renna niður í Selvog. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur, að einkum hafi eldgos verið tíð um skagann á 14. öld. Þannig geta annálar gosa í Brennisteinsfjöllum 1340 og 1389, og Ögmundarhraun er talið runnið árið 1340. Svínahraunsbruni, bæði hraunin, eru runnin síðar en 1000, en að öllum líkindum fyrir siðaskipti, sennilega á 14. öld.
Norðan Fjallsins eina í Lambafellshrauni er lítið hraun, 0,5 km2 að stærð. Það er komið upp um sprungu, sem er í beinu framhaldi Eldborga. Hraun þetta mun vera líkt Brunanum að aldri.“

Þorleifur Einarsson
Þorleifur Einarsson„Þorleifur Jóhannes Einarsson fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1931. Hann lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi 22. mars 1999. Foreldrar hans voru hjónin Einar Runólfsson verkamaður, f. 1886 í Skálmabæjarhrauni í Álftaveri, d. 1962 í Reykjavík, og Kristín Þorleifsdóttir, f. 1900 í Stykkishólmi, d. 1973 í Reykjavík. Eftir nám í gagnfræðaskóla settist Þorleifur í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi vorið 1952. Að því loknu hélt hann til jarðfræðináms við Háskólann í Hamborg, Þýskalandi, haustið 1953. Hann hélt síðan áfram jarðfræðinámi við háskólana í Erlangen-Nürnberg 1954­56 og Köln 1956­60, þaðan sem hann lauk Dipl.Geol.-prófi í maí og Dr.rer.nat.-prófi í júlí 1960. Þorleifur stundaði framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Bergen í Noregi 1960­61 og háskólann í Cambrigde, Englandi 1970 og 1979. Að loknu doktorsprófi kom hann heim og starfaði sem sérfræðingur í jarðfræði, fyrst á iðnaðardeild atvinnudeildar Háskólans 1961­65, síðar á Rannsóknarstofnun iðnaðarins frá 1965­68 og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands frá 1969­75. Jafnframt var hann stundakennari í náttúrufræði og eðlisfræði við Vogaskóla í Reykjavík 1961­63, í jarðfræði við Menntaskólann í Reykjavík 1963­69, við Tækniskóla Íslands 1965­70 og við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1969­74. Þorleifur var skipaður prófessor í jarðsögu og ísaldarjarðfræði við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1975 þar sem hann starfaði síðan.
Þorleifur Einarsson
Þorleifur var varamaður í Náttúruverndarráði 1972­78, sat í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1964 og var formaður þess 1966­72, sat í stjórn Jarðfræðafélags Íslands 1966­68 og var formaður þess 1972­74, sat í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar 1980­97, var formaður stjórnar Máls og menningar 1979­1991, sat í stjórn Landverndar frá 1971 og var formaður Landverndar 1979­90. Þá var Þorleifur kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1962, Alexander von Humboldt-styrkþegi í Vestur-þýskalandi 1959­60 og Overseas Fellow í Churhill College í Cambrigde, Englandi frá 1970. Þorleifur var einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Íslands, Sögufélaginu og Jöklarannsóknarfélaginu. Hann tók um árabil þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar og þá einkum handbolta. Hann var leikmaður með ÍR, var atvinnumaður í Þýskalandi, landsliðsmaður, þjálfari og sat í dómaranefnd HSÍ. Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands. Jarðfræði sem kom út 1991. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis.“

Þorleifur Einarsson„Þorleifur hóf rannsóknir á jarðfræði Íslands strax á námsárunum í Þýskalandi og snerust prófritgerðir hans um þær. Diplómaritgerðin fjallaði um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins, gerð og aldursafstöðu bæði ísaldarmenja og eftirísaldarjarðlaga, sem nánast eingöngu eru af eldvirkum toga, afrakstur eldvirkni undir bæði ísaldarjöklum og berum himni. Dr. rer. nat.-ritgerð hans fjallaði um veðurfarssögu ísaldarloka og eftirísaldartímans.
Þessi tvö meginviðfangsefni, eldvirkni og veðurfarssaga og tengsl þeirra við ísaldarfræði almennt urðu meira og minna rauður þráður í rannsóknum hans hér síðan.
Þorleifur hafði afar yfirgripsmikla þekkingu á því sem ritað hafði verið um jarðfræði og náttúru Íslands almennt; hafði lesið á námsárunum allt sem hann komst yfir um þessi mál.
Það ritverk Þorleifs sem án efa hefur haft víðust áhrif er svokölluð Þorleifsbiblía, kennslubók hans um jarðfræði (Jarðfræði. Saga bergs og lands). Hún kom út fyrst árið 1968 og braut blað í kennslu í jarðfræði, þar sem bókin var afar góð og leysti af höndum afgamla bók, að stofni til frá 1922. Menn, sem kynntust Þorleifsbiblíu á fyrstu árum hennar, minnast enn þessarar bókar og þeirrar upplifunar sem lestur hennar var, bæði sem skemmtilegur lestur og sem uppljómun í þekkingu. Bókin kom út aftur og aftur og var umskrifuð og aðlöguð eftir hendinni og er reyndar enn á markaði, þrátt fyrir byltingar í fræðunum.
Eitt eftirminnilegasta verk Þorleifs tengist eldgosinu á Heimaey árið 1973.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 01.01.1961, Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar – Þorleifur Einarsson, bls. 151-172.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/459296/
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58246

Eldborg

Horft niður í einn eldborgargíginn, hellinn Trölla, á svæðinu.