Tag Archive for: Herdísarvík

Sængurkonuhellir

Í örnefnalýsingu GS fyrir Herdísarvík segir m.a. af gömlu alfaraleiðinni til vesturs;
„Alfaravegurinn Klifshaedarhellirgamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Áður hafði Klifshæðin verið skoðuð og þá fannst hellir í grónu jarðfalli. Við opið var emileraður koppgjörningur. Nánari skoðun á þessum helli gaf til kynna áhugaverða yfirborðshraunrás með þrengingum og ýmsum sætindum, litadýrð og dropsteinum.
HrutVið nánari leit í Klifhæðinni austanverði kom í ljós tilgreindur hellisskúti er reyndist vera um 30 m hraunrás. Opið er tiltölulega lítið (um 1.00×0.60 cm), nokkra metra austan við götuna og er það greinilega merkt með litlum skófvöxnum vörðum. Skjólið er manngegnt undir opinu, en lækkar er
inn dregur. Þetta skjól virðist hafa verið þekkt fyrrum þótt það sé alls ekki augljóst í dag, þrátt fyrir vörðunefnurnar.
Með í för var Guðni Gunnarsson, núverandi formaður Hellarannsóknarfélags Íslands.

Heimildir m.a.:
Gísli Sigurðsson – Örnefnalýsing fyrir Herdísarvík.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

 

Herdísarvík

Fornar götur eru merkileg fyrirbæri.
Þegar þær eru gengnar nú til dags (2012) má vel greina Fornagata-554áætlaðan aldur þeirra og notkun. Þannig er a.m.k. háttað með göturnar í Selvogi. Í byggðinni sjálfri voru tvær götur; kirkjugatan lá með gömlu bæjunum frá austri til vesturs, að Strandarkirkju og vegurinn lá ofan Fornagarðs, efri endimörk byggðarinnar. Upp frá honum lá Útvogsgatan upp á Strandarhæð þar sem hún mætti Fornugötu (Fornugötum) þvert á hana og Selvogsgötu (Suðurferðagötu), sem var í raun framhald hennar upp heiðina og fjallgarðinn áleiðis til Hafnarfjarðar.
Fornugata lá á millum Ölfuss og Herdísarvíkur í gegnum Vogsósa. Hún, líkt og hinar göturnar, sést enn nokkuð glögglega. FERLIR fylgdi Fornugötu nýlega frá fyrrnefndum gatnamótum á Strandarhæð til vesturs, áleiðis að Vogsósum, en áður hafði götunni verið fylgt til austurs áleiðis að Hlíðarenda.
Fornagata-555Fornagata liggur til vesturs/austurs norðan gamla þjóðvegarins á Hæðinni, nokkuð innan við Skálavörðu. Auðvelt er að rekja hana um grasi gróið sléttlendi áleiðis að Vogsósum uns hún þverar gamla þjóðveginn. Þar liggur hún í beygu niður með háu barði og kemur síðan glögglega í ljós að nýju skammt neðar. Síðan fylgir hún nokkurn veginn suðurmörkum gróins lands Vogsósa, allt niður á Vallabarmi og yfir Vaðið á affalli Hlíðarvatns. Eftir það hverfur hún í síbreytilegar sandöldur Víðisands allt þangað til komið er að vörðu á austanverðum hraunsmörkum Hellunnar. Frá henni skýrist gatan smám saman und hún verður allgreinileg. Á köflum verður gatan allt að 10 cm djúpt mörkuð í hraunhelluna. Hún greinist á tveimur stöðum spölkorn, en verður fljótlega að einni á ný. Þá greinist gatan á ný og nú varanlega. Líklega er nafnið „Fornugötur“ sprottið af því? Stundum hefur gatan á þessum kafla verið nefnd Hellugata vegna framangreindrar staðsetningarinnar.
Fornagata-556Annar leggurinn leggst til vinstri, upp á hærri brúnir nær ströndinni. Þar verður gatan jafn greinilegt í hraunhelluna sem fyrr, allt til syðst að austari Brunabrúninni framundan. Að vísu liggur hún sunnan við sandlág síðasta kaflann, en sést síðan mjög vel þar sem hún liggur inn á úfið apalhraunið áleiðis að Mölvík og Mölvíkurtjörn. Áframhald þeirrar leiðar verður lýst hér á eftir.
Svo segir í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík: „Ofanvert við sjávarkampinn, sem liggur frá Draugagjám austur að Skothellu, er austast Víðisandur, og liggur vestasti hluti hans undir Stakkavík. Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða.  Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar.  Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun.  Svo segja Selvogsingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.“
Fornagata-557Í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík segir ennfremur: „Þá voru hraundrangar þar austur af, síðan tók við vík allbreið, kölluð Mölvík, með Mölvikurkampi. Austast í henni voru klappir, og [var] þar kallað Varir eða Mölvikurvarir.  Í Breiðabás og á Mölvík var rekasvæði ágætt.Ofanvert við kampinn var Mölvíkurtjörn, en vestur úr henni eða lægðinni, sem hún liggur í, er sæmilega bílfær vegur, Mölvíkurstígur upp á alfaraveginn uppi á brunanum. Búðarrúst er austur af Tjörninni, Mölvíkurbúð, frá þeim tímum, er útræði var úr Mölvíkurvörum;  þar er og Mölvíkurfiskabyrgi. Þar upp af framan í brunanum eru svo Grenshólar. Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar.  Á einum stað liggur milli klettanna gjá;  þar svarrar sjórinn fast.
Fornagata-558Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar.  Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn.“
Hinn leggurinn liggur til norðvesturs upp með Brunabrúninni fyrrnefndu uns komið er að vörðu skammt austan hennar. Þaðan liggur þessi forna leið inn á Brunann eftir seinni tíma vagnvegi, líklega frá því á fyrri hluta 20. aldar, allt að Brunabrúninni vestari ofan við Breiðabás á mörkum Stakkavíkur og Herdísavíkur.
Fornagata-559Á kafla (á sléttu helluhrauni ofan Mölvíkurtjörn) má sjá ummerki eftir fornu hestagötuna; „efri leiðina“ leið í gegnum Brunann. Vagnvegurinn virðist augsýnilega hafa verið brotinn ofan í gömlu götuna eftir að neðri gatan var orðin ófær vegna umbrots sjávar. Á stuttum kafla skammt austur þar sem vagnvegurinn kemur niður af Brunanum að austanverðu má slá leifar vegagerðar, líklega tilraun til hins fyrsta akvegar handan hraunbrúnarinnar, en hætt virðist hafa verið þá vegagerð því engin ummerki önnur er um hana þar að finna. Tófugreni er við austurbrún þessarar vegagerðarummerkja.
Nú skal aftur horfið niður á neðri Fornugötu. Þegar komið er inn á Brunann hverfur gatan vegna þess að Ægir hefur etið hana upp til agna á a.m.k. 200 metra kafla. Handan þess, ofan við Drauga (klettadranga er skaga út í sjóinn) kemur gatan aftur í ljós og hægt er að rekja hana að Mölvíkurtjörn.
Fornagata-560Það er mikilfenglegt að ganga um neðanvert apalhraunið vestan vestari Brunabrúnarinnar þar sem berja má augum hina víðfeðmu fiskigarða og fjölmörgu fiskibyrgja austan sjóðbúðanna austan Herdísarvíkur sem og fjárhúsanna „Langsum“ og Þversum“ í Austurtúninu sem og þær sjálfar millum þeirra og heimatúnsins.
Sérstaka athygli vakti á göngunni hversu lyng á það til að vaxa í gömlum götum, hvort sem um var að ræða hesta- eða vagngötu. Allt um kring var grænn eða grá mosinn alsber, en í gatan var jafnan lyngvaxinn svo til enda á millum.
Eins og fyrr segir er sérstök upplifun að ganga þessa tiltölulegu stuttu, en misgömlu, götukafla frá fyrri tíð og fá þannig að sjá þróun vegagerðarinnar, sem virðist hafa verið nánast óbreytt um 1000 ára skeið, uns þörfin hafi allt í einu orðið önnur með tilkomu vagnsins og síðar sjálfrennireiðarinnar – en það er nú önnur saga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stakkavík.

Fornagata

Fornagata.

Herdísarvík

Í Jólablað Alþýðublaðsins 1946 segir Guðmundur Gissurason frá upplifun hans „Við sjóróðra í Herdísarvík„. Frásögnin lýsir vel aðbúnaði í sjóbúðum og verklagi sjómanna á fyrstu áratugum 20. aldar:

Gljúfurárholt

Gljúfurárholt í Ölfusi eftir jarðskjálfta 1896.

„Vetrarvertíðina 1919 var ég ráðinn til sjóróðra í Herdísarvík. Þar sem ég hafði aldrei farið til sjávar fyrr, beið ég þess með mikilli eftirvæntingu að komast i verið, enda svo litið á almennt, að þá fyrst væri hægt að telja unglingana menn með mönnum, er þeir voru orðnir hlutgengir í skiprúm. Frá sjónarmiði unglingsins var útræði í fyrsta skipti ekki einvörðungu tengt við atvinnuna eða von um tekjur, heldur var hún að vissu leyti svölun á ævintýraþrá og eins konar prófraun.

Í byrjun góu lagði ég af stað í verið. Var ég þá hjá foreldrum mínum í Gljúfurárholti í Ölfusi. Nikulás, sonur Jóns í Vorsabæ í sömu sveit, var ráðinn á sama skip og ég, og urðum við samferða. Við vorum báðir fótgangandi og reiddum færur okkar á sínum hestinum hvor. Það var norðankæla og gott færi. Okkur sóttist ferðin greiðlega. Við vorum léttir í spori og höfðum röska og trausta hesta undir klyfjunum.
Við fórum sem leið liggur út Ölfus og fórum fyrsta daginn út á Hlíðarbæi, gistum á Breiðabólsstöðum hjá Ingimundi Ögmundssyni og Sigurlínu systur hans, en þau voru systkini Jóns, föður Nikulásar. Fengum við þar hinar beztu viðtökur. Var svo förinni haldið áfram daginn eftir, sem leið liggur út Selvogsheiði. Var veður hið ákjósanlegasta og hjarn yfir allt. Þegar við vorum staddir utan til á há Selvogsheiði, sáum við tvö seglbúin skip skammt undan landi. Virtust þau mjög tíguleg, og hugðum við þetta skútur vera, en seinna komumst við að raun um, að þetta voru opin áraskip á leið til Herdísarvíkur. Höfðu þau farið leiði frá Eyrarbakka þennan dag. Við létum nú lítið yfir þessari ágizkun okkar með skúturnar, en það vildi ég segja, að tígulegir og fallegir voru teinæringarnir gömlu með fullum seglum (framsegli, aftursegli, safnrokku og klýfir) og alveg ótrúlegt, hversu góðir þeir voru í sjó að leggja, þegar þeim var vel stjórnað.

Vogsósar

Vogsósar 1932.

Að Vogsósum komum við síðla dags og fengum þar fylgd yfir Hlíðarvatn. Það var ísi lagt, en vandratað yfir það. Fylgdi okkur piltur, sonur Vilhjálms bónda á Vogsósum, er Jakob kvaðst heita, rösklegur og myndarlegur piltur.
Frá Hlíðarvatni að Herdísarvík er yfir hraun að fara, en í gegnum það er ruddur vegur, sem er góður yfirferðar með baggahesta. Þegar við komum til Herdísarvíkur, var þar fyrir hópur manna, sem farið hafði leiði um daginn, og voru þeir að koma föggum sinum fyrir og búa um sig. Ég tók að mér að fara með hestana upp í Ölfus aftur. Ég var beðinn fyrir nokkra fleiri hesta frá Ölfusingum, er fluttu sig þennan dag. Í för með mér slóst maður af Eyrarbakka, sem hjálpað hafði til við flutningana út eftir þá um daginn. Hét hann Guðmundur Steinsson. Ætlaði hann austur að Nesi í Selvogi um kvöldið, til Páls Grímssonar, en hann kvaðst vera háseti hjá Páli, en Páll var þá og hafði verið um langan tíma heppnis- og myndarformaður í Þorlákshöfn.

Herd´siarvík

Herdísarvík 1898.

Er við lögðum af stað úr Herdísarvík, var komið dagsetur, tunglskinslaust, en heiður himinn og stjörnubjart. Ferðin gekk greiðlega, en er við vorum komnir út á Hlíðarvatn, brestur ísinn undan hestunum. Við höfðum farið af réttri leið og lent niður undir Vogsósaós, þar sem ísinn var ótryggur. Vatnið náði þarna hestunum nærri í kvið og var því að vísu engin hætta á ferðum. En hestunum kom ég ekki áfram, hvernig sem ég reyndi, og varð ég því neyddur til að fara af baki, og varð ég að brjóta ísinn, sem þarna var mjög veikur, og vaða á undan hestunum til lands.
Fór ég nú heim að Vogsósum og baðst gistingar, en Vilhjálmur kvaðst því miður ekki geta hýst hestana né gefið þeim hey, þar sem allar skepnur væru í húsi og hey farin að ganga til þurrðar, þar eð veturinn hefði verið mjög harður og gjafasamur. Það varð því úr, að ég héldi áfram upp í Ölfus, eftir að ég hafði þegið góðgerðir á Vogsósum, og fylgdi Vilhjálmur mér langt á leið. Er mér það mjög í minni, hversu Vilhjálmur var vinsamlegur við mig, barmaði sér sáran yfir því, að hafa ekki getað hýst mig, og gaf mér ýmsar leiðbeiningar varðandi leiðina yfir Selvogsheiði. Er hann kvaddi mig, bað hann vel fyrir mér og lét svo um mælt, að frá sér hefði aldrei farið neinn í meiri tvísýnu, og bað mig mjög eindregið um það, að koma við hjá sér, er ég færi út um daginn eftir. Ég þakkaði svo fylgdina og fórum við sinn í hvora áttina. Mér fannst, satt að segja, engin hætta á ferðum, og mig furðaði á því, hvers vegna Vilhjálmur var svona óttasleginn yfir þessu ferðalagi mínu, en ég fékk á honum mjög góðan þokka vegna þess, hversu annt mér fannst honum vera um mig. En ég leyndi hann því, að ég var rennvotur upp fyrir hné. Svona geta unglingar verið kærulausir. Vilhjálmur hefði verið fljótur að láta mig hafa þurra sokka og föt, ef hann hefði vitað þetta.

Kvennagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Stinningskaldi var á norðan, en ekki mikið frost. Tunglskinslaust, en heiður himinn. Ég rak klárana og lét þá brokka. Ég varð að hlaupa til að geta haldið á mér hita, því að mér fannst nöpur kólgan á Selvogsheiði um lágnættið. Ég hafði vindstöðuna fyrir vegvísir og löngu eftir að ég skildi við Vilhjálm sá ég að Kvennagönguhól[a] bar við himin á vinstri hönd, og vissi ég þá, að ég var á réttri leið, en brautina okkar frá því um daginn fann ég ekki, og hvergi sá á dökkan díl. Ferðin gekk viðstöðu- og tafarlaust, og að Breiðabólsstöðum kom ég um nóttina og fékk þar góðar viðtökur. Hjá þeim systkinunum, Ingimundi og Sigurlínu á Breiðabólsstöðum, hafði ég áður dvalið, og eru þau með merkasta fólki, er ég hef kynnzt, sakir prúðmennsku sinnar og mannkosta.
Dagin eftir fór Ingimundur með hestana áleiðis upp Ölfus, en ég sný við til Herdísarvíkur. Ég kom að Vogsósum í úteftirleiðinni, eins og ég hafði lofað Vilhjálmi.
Herdísarvík er vestasti bær í Árnessýslu og er í Selvogshreppi. Frá Herdísarvík að sýslumörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu mun vera um hálfs annars tíma lestaferð og út til Krýsuvíkur þriggja tíma ferð.

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

Næsti bær við Herdísarvík að austan er Stakkavík, og mun þangað vera um klukkutíma ferð. Herdísarvík er því mjög afskekkt og stendur fyrir botni samnefndrar víkur. Umhverfið er óblítt en tilkomumikið. Risavaxið fjall skamt frá í norðri, Herdísarvíkurfjall, með svötum skriðum og háum eggjum. Milli fjalls og fjöru úfið hraun, sem runnið hefur fram af fjallinu um skarð, er kallast Mosaskarð. Það hafa verið hrikalegar náttúruhamfarir, er hraun þetta fossaði fram af fjallinu og í sjó fram. Atlantshafsaldan, óbrotin og rismikil, faldar meðfram ströndinni. Ég hef hvergi séð risavaxnari né tígulegri öldur en brotsjóina á hólminum út af Selvogi, séð úr Herdísarvík. Það má með sanni segja, að þar skálmi boðarnir í lest.

Herd´siarvík

Herdísarvík – skipshöfn árið 1918; Efri röð frá vinstri: Guðjón Úlfarsson, Sigurður Tómasson, Jón Úlfarsson, Kolbeinn Jóhannesson, Ólafur Ólafsson, Haraldur Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Sigmundur Jónsson, Guðmundur Guðjónsson, Tómas Sigurðsson, Ívar Geirsson, Jón Árnason, Jónas Einarsson.

Herdísarvík var mjög fiskisæl verstöð og stutt á miðin. Þessa vertíð, 1919, voru fimm skip gerð út frá Herdísarvík. Skipshafnirnar lágu í sjóbúðum, sem voru skammt austur af bænum, og voru 12 og 13 menn á hverju skipi. Í þessari litlu og afskekktu verstöð voru því saman komnir yfir 60 sjómenn úr Árness- og Rángárvallasýslu. Formenn á skipunum voru: Símon Símonarson yngri frá Bjarnastöðum í Ölfusi, Halldór Magnússon frá Klöpp í Selvogi, Gísli Scheving Gíslason frá Stakkavík, Ívar Geirsson frá Eyrarbakka og Ársæll frá Álfhólum í Landeyjum. Ég réri hjá Símoni, og voru skipverjar þessir, auk formannsins: Guðmundur Jónsson frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hafði áður verið heppnis formaður í Herdísarvík, Bjarni, sonur hans, Páll og Torfi, bræður, synir Jóns á Ægissíðu í Holtum, Björgvin Magnússon frá Klausturhólum í Grímsnesi, Elías Símonarson frá Núpum í Ölfusi, bróðir formannsins, Ari Þorsteinsson frá Eyvindartungu í Laugardal, Jón Þorsteinsson frá Miðdal í Laugardal, Árni Árnason frá Hjalla í Landmannahreppi, Nikulás Jónsson frá Vorsabæ í Ölfusi og ég, er þessar línur rita.
Sjóbúðin okkar var með beztu verbúðum. Veggirnir hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, sem lagt var í sement. Þakið járnvarið og klætt innan á sperrurnar með panel. Þrjú rúmstæði voru meðfram hvorum vegg, og voru tveir menn í hverju rúmi og lágu þeir andfætis.

Herdísarvík

Herdísarvík – skipshöfn 1918-1919;
Neðri röð: Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Guðjón Gíslason bóndi í Ásgarði í Grímsnesi.
Efri röð: Albert Jóhannesson frá Eyvík í Grímsnesi; Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Björgvin Sigurjónsson frá Kringlu í Grímsnesi.

Í einu rúminu vorum við þrír unglingar, og var það kallað strákarúmið. — Gólfið milli rúmanna var um einn og hálfur metri á breidd. Var það steypt, en í flestum sjóbúðum þá vou moldargólf, eða réttara sagt sands- og malargólf, og var búðin þrifin með því að moka gólfið. Inn af sjóbúðinni okkar var geymsla, þar sem geymd voru matvæli, fatnaður, skinnklæði og veiðarfæri. Fyrir ofan sig í rúmunum höfðu menn matarskrínur sínar, og snéru menn sér til veggjar og hölluðu sér að skrínunni sinni, er þeir mötuðust. Matarforðinn yfir vertíðina, eða útgerðin, eins og það var kallað, var tveir fjórðungar af smjöri, og var því drepið í annan enda skrínunnar, tveir sauðir, annar í hangikjöti og hinn í kæfu, og var kæfunni drepið í hinn enda skrínunnar á haustin um leið og kæfan var soðin. Auk þess lifðu menn á harðfiski og rúgbrauðum. Að sjálfsögðu var útgerð manna nokkuð misjöfn, og misjafnt entist mönnum forðinn, en það algenga var, að menn lifðu á þeim fæðutegundum, sem ég nú hef nefnt, þ. e. lifðu á skrínukosti, eins og kallað er, smökkuðu aldrei heitan mat eða neina vökvun aðra en svart kaffi og „munaðaraukinn eini og bezti, ögn af sykri“ í sjóvettlingi, sem venjulegast var geymdur í órónum sjóvettlingum.

Herdísarvík - skipshöfn 1919;

Herdísarvík – skipshöfn 1919;
Skipshöfn úr Herdísarvík. Formaður Ívar Geirsson sölkutóft, Eyrarbakka.
Efri röð talið frá vinstri: Guðjón Úlfarsson Fljósdal, Fljótshlíð, Sigurður Tómasson Barkarstöðum, Fljótshlíð, Jón Úlfarsson Fljótsdal, Fljótshlíð, Kolbeinn Jóhannesson Eyvík, Grímsnesi, Ólafur Ólafsson Áshól, Holtum, Haraldur Jónsson Gamla-Hrauni, Eyrarbakka.
Neðri röð talið frá vinstri: Sigmundur Jónsson Syðra-Velli, Flóa, Guðmundur Guðjónsson Nýjabæ, Sandvíkurhreppi, Tómas Sigurðsson Árkvörn, Fljótshlíð, Ívar Geirsson Sölkutóft, Eyrarbakka, Jón Árnason Vatnsdal, Fljótshlíð, Jónas Einarsson Garðhúsum Eyrarbakka.

Í sjóbúðinni okkar var hlýtt og notalegt, þótt ekkert væri eldfærið til að hlýja upp með, og útveggir óeinangraðir, enda voru menn engu góðu vanir hvað híbýli snerti og upphitun í húsum þekktist naumast. En ekki er því að leyna, að mataræðið og fatnaðurinn, ullarfötin, hömluðu mjög á móti kuldanum. Jú, ég man eftir einu eldfæri, sem átti það til að vekja menn eldsnemma á morgnana, þegar ræði var, með sínum sterku drunum og hvissi. Það var prímusinn. Það var Páll á Ægissíðu, sem venjulega hitaði morgunkaffið, eftir bendingu frá formanninum, og lét prímusinn gefa til kynna, að nú skyldu menn vakna, rísa upp við dogg að skrínum sínum, taka sér bita eftir því sem lystin leyfði, og fara svo að tígja sig. Formaðurinn tók alltaf fyrstur skinnklæðin, sótti þau inn í geymslu og gaf með því til kynna, að nú skyldi róið. Hásetarnir fóru að dæmi hans, sóttu hver sín bösl, þegjandi og íbyggnir.

Sjóklæði

Sjóklæði.

Það var oft hráslagalegt að fara í skinnklæðin, og sjóveikir menn fengu velgju, því að af skinnklæðunum lagði venjulega sterkan grútarþef. Skinnklæði voru verkuð með því móti, að maka þau í grút eða lýsi. Bar það vott um hirðusemi og snyrtimennsku að hirða skinnklæði sín vel, þurrka þau vel eftir róður, þegar hægt var, og bera á þau lýsi eða fernisolíu. Þegar skinnklæði voru vel hirt, voru þau pottheld og mjúk og ekki stirt að vinna í þeim. Menn skinnklædu sig hljóðlega; það hvíldi yfir því alvara og lotning. Menn smeygðu fótunum til botns í brókina, löguðu framleistinn, bundu á sig sjóskóna; það var lítt nettur skófatnaður, teigðu brókina upp undir hendur, reirðu hana að sér eftir kúnstarinnar reglum. Sumir signdu sig, áður en þeir smeygðu skinnstaknum yfir höfuð sér, vöfðu ermar að úlnlið, dóru saman í hálsmál, bundu um sig mittisbandið, settu á sig sjóhatt og sjóvettlinga. Skinnklæddur maður var karlmannlegur og fyrirferðarmikill. Skinnklæddur maður var friðhelgur. — Formaður fór fyrir til skips. Hann gengur að afturstafni skipsins, sem snýr að sjó. Hásetarnir raða sér að skipshliðunum, stjórnborðshlið, bakborðshlið, hver að sínum keip. Skorður eru losaðar, skipsmenn taka ofan, signa sig og gera krossmark fyrir rúmi sínu.
Þá er hlunnað og skipið sett fram, numið staðar í flæðarmáli, ef lág var; formaðurinn velur lag og kallar snjallt og ákveðið: „Ýtið.“ Nú þarf allt að gerast í skjótri svipan, ýta á flot, komast upp í skipið, setjast undir árar og taka í og róa sprettróður út fyrir landboðana. Nú er skipinu snúið, því skutur gengur á undan þegar ýtt er. Hásetar leggjast á árar og fá skrið á skipið. Ef skipi var vel róið, sýndist ein ár á borð, þegar séð var framan á skipið, þótt fimm eða sex menn reru. Nú sameinast skipverjar allir í hljóðlátri bæn; það er yfirlætislaus en hátíðleg helgiathöfn. Menn lægja róðurinn, taka ofan, drjúpa höfði og lesa sjóferðarbæn og „faðir vor“ og signa sig að bæninni lokinni. Þetta var gert í hverjum róðri, og eins þótt tví- eða þríróið væri: sama daginn. Þessi þagnar- og tilbeiðslustund skipshafnarinnar var þrungin innleik og hátíðablæ og alvöru.

Skrína

Skrína.

Við róum í hálftíma, klukkutíma. Formaðurinn stýrir. Hann ratar að netatrossunni, því að hann þekkir miðin. Framámennirnir grípa belginn, og stjórafærið er dregið inn. Það er oft erfitt að tosa upp stjóranum. Allir toga í stjórafærið, sem liggur eftir endilöngu skipinu, og formaðurinn er endamaðurinn og tekur af slakann, Nótin eru dregin inn, allt á handafli, auðvitað. Tveir draga netin, sinn hvorn tein, steinatein, kúlnatein. Aðrir skipverjar bera í, greiða úr, blóðga, greiða netin og leggja þau greið niður í barkann, andæfa. Það var stundum erfitt að vera í andófi; þessi látlausi róður, þar sem menn voru alltaf að snúa hver á annan. Skipinu áttu andófsmenn að halda beint í vindinn og sjá um að hafa beina niðurstöðu á netunum. Þetta var nokkuð vandasamt, ef strekkingur var, og þá var alltaf verið að rexa í andófsmönnunum: „betur á stjórn og báðir áfram“. Þegar búið var að taka trossuna, voru netin róin út, og var skipinu þá róið aftur á. Oft var vindstaða hagstæð; var þó siglt og var það kærkomið. Þá urðu menn glaðir og gamansamir, sungu eða kváðu:

Sigla á fríðum súðahæng
segja lýðir yndi.
Blakk að riða og búa í sæng
baugahlínar undir væng.
eða: : ’
Sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi
ítar segja yndi mest
og að teygja vakran hest.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Í Herdísarvík var landtaka ekki góð. Það varð oftast að seila út á vegna þess, að skipinu var ekki haldandi í vörinni fyrir brimi. Voru seilarólarnar svo bundnar saman og fest í þær færi og þær látnar fljóta að boðabaki, meðan hleypt var að og skipið sett.

Seilaról

Seilaról og -nál.

Skipin voru venjulega sett aðeins upp fyrir flæðarmál, en í naust, ef talið var að fárviðri væri í aðsigi. Nú voru seilarnar dregnar að landi á færinu, er fest hafði verið í þær. Þá var fiskurinn þræddur af seilarólinni á birgðarólarnar og borinn á bakinu upp á völl. Er því var lokið, labba menn til búðar. Hafði róðurinn þá staðið yfir frá kl. 6 að morgni til kl. 1—2 eða jafnvel 3—4 að deginum, og höfðu menn á þeim tíma sjaldnast notið nokkurrar hvíldar né smakkað vott eða þurrt. Menn tóku því venjulega hraustlega til matar síns. Gert var að fiskinum á aðgerðarvellinum og var hann saltaður í bingi. Meðan fiskur var hertur, þótti Herdísarvík góður herzlustaður vegna hraunsins, og sáust greinilega er fiskurinn var hertur á???

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Þegar vel fiskaðist var kominn dagur að kvöldi, þegar búið var að gera að; voru menn þá orðnir hvíldarþurfi, og tóku á sig náðir. Er menn höfðu gengið til hvílu, var lesinn húslestur, Passíusálmar eða Péturshugvekjur. Ari Þorsteinsson las lesturinn. Það urðu stundum fáir til að þakka fyrir lesturinn. Svefninn hafði seytt þá.

Þórarinn Árnason

Þórarinn Árnason 1912; 1856-1943.

Landlegur voru nokkuð tíðar. Þegar hafátt var, þá var ekki róandi fyrír brimi, og ekki mátti vera hvasst á norðan svo róandi væri. Menn voru oft á báðum áttum með, hvort róið skyldi, og var það kallað, að standa í vomum, Það var formaðurinn, sem gerði það upp við sig, hvort róið skyldi eða ekki, og aldrei heyrði ég neinn malda í móinn yfir ákvörðun formanns, né mögla yfir því, sem gera skyldi. — Í landlegum var oft glatt á hjalla í búðinni. Menn spiluðu, flugust á, tefldu, sungu. Ekkert útvarp, ekkert bókasafn, engin blöð, enginn sími, samgöngur mjög litlar eða engar. Menn urðu að búa að sínu. Það voru sagðir brandarar, og mikið hlegið, og svo sungið við raust, margraddað, sópran, prímóbassi, bassi, án hljóðfæris, án söngstjóra, og aldrei farið út af laginu. Búðarlífið var verulega skemmtilegt, og þar sem ég þekkti, til, ríkti svo heilbrigður og drengilegur andi í þessum félagsskap, að til fyrirmyndar er. Ég man ekki eftir að menn yrðu sundurorða, eða tækjust á í illu, en þarna sást ekki áfengi, nema á sumardaginn fyrsta, þá urðu allir að finna á sér, þá urðu menn góðglaðir og hlógu að fyndninni hver hjá öðrum, og þeim, sem mjöðurinn sveif mest á.

Ólöf Sveinsdóttir

Ólöf Sveinsdóttir 1910.

Þórarinn Árnason, sýslumaður frá Krýsuvík, var ábúandi Herdísarvíkur. Hann átti mjög margt sauðfé. Þórarinn hafði engin afskipti af sjómönnunum eða samskipti. Ég sá hann aldrei nema tilsýndar. Það var eins og hann forðaðist okkur. Konu hans, Ólöfu, sá óg einu sinni. Var hún fríð sýnum og fyrirmannleg.
Þessa vertíð gerðist ekkert markvert sérstaklega. Veðráttan var mjög köld, fiskirí sæmilegt, þegar gaf, og aflinn í vertíðarlok í góðu meðallagi. Einu sinni urðum við að hleypa austur í Selvog vegna útnyrðings.
Landtaka í Selvogi er slæm; þar hef ég orðið hræddastur um líf mitt. Ég held að margur hafi hlotið að biðja vel fyrir sér á sundinu í Selvogi.
Um lokin tvístrast menn og kveðjast með kossi. Menn halda heim til sín með lýsi, matfisk, skreið, sundmaga o.fl. Hluturinn er gerður upp, þegar aflinn hefur verið seldur.
Áraskipin eru horfin af sjónarsviðinu, og þeirra tími kemur aldrei aftur. Róðurinn er ekki lengur hið -lífsnauðsynlega starf, heldur er hann nú stundaður sem íþrótt. Hesturinn, sem rogaðist með byrgðar sínar, færur, skreið, lýsiskvartél o.fl. o.fl. um óbyggðir og vegleysur, er nú ekki lengur þarfasti þjónninn. Það hafa orðið framfarir, og framförunum fögnum við; en vissan bjarma leggur frá því sem var. Bráðum þeysum við í bílum austur Herdísarvíkurhraun, og austur Selvogsheiðar.“

Heimild:
-Jólablað Alþýðublaðsins 1946, 24.12.1946, Við sjóróðra í Herdísarvík – Guðmundur Gissurason, bls. 37-45.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Gunnuhver

Á ferð FERLIRs um svæðið austan Eldborga í Krýsuvík var góða veðrið notað til að staldra við hjá dysjum Herdísar og Krýsu. Konur þær er dysjarnar draga nöfn sín af hafa einungis, svo vitað sé, verið til í þjóðsögum. Útgáfur frásagnanna eru mismunandi, en þó er sumt sammerkt með þeim öllum. Herdís bjó í Herdísarvík og Krýsa bjó í Krýsuvík.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Í sögunum segir að konurnar hafi deilt vegna landamerkja og deilan endað, eftir að hvor um sig hafi lagt á landshagi hinnar, með því að þær drápu hvora aðra neðst í Kerlingadal neðan við Deildarháls. Þar eru nefndar dysjar þeirra. Milli dysjanna eiga að vera hin gömlu landamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.
Minjar og fiskur eiga margt sameiginlegt. Menn róa til fiskjar og skapa úr honum mikil verðmæti. Í framtíðinni verður einnig gert út á minjar sem þessar og úr þeim sköpuð mikil verðmæti. Ferðamennskan er vaxandi atvinnugrein. Á árinu 2003 komu t.a.m. 230.000 erlendir ferðamenn til landsins, með flugi og með Norrænu. Aukning á milli ára er um 12 – 14%. Búast má við að aukningin haldi áfram að öllu óbreyttu.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Ferðaþjónustan skilar nú um 13% útflutningstekna landsins, svipað og ál og kísiljárn. Aðeins fiskafurðir og önnur þjónusta ýmis konnar skilar meiru. Tekjur af ferðamönnum árið 2001 voru um 37.7 milljarðar króna. Aukningin hefur verið stigvaxandi.
Flestir ferðamannanna eru frá hinum Norðurlöndunum, þá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Kynjaskipting ferðamanna er 55% karlar á móti 45% konur. Flestir, eða um 55% að vetrarlagi og 75% að sumarlagi koma vegna náttúru landsins. Langflestir eru í fríi og koma á eigin vegum. Þeir fá upplýsingar um Ísland á Netinu, hjá Ferðaskrifstofum eða í bæklingum. Flestir heimsækja Geysi og svæði í uppsveitum höfuðborgarsvæðisins. Um 75% af þeim fóru í Bláa lónið og um 80% í náttúruskoðun.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Suðurnesin hafa verið vannýtt ferðamannaland þrátt fyrir að flestir ferðamanna koma þangað á leið sinni inn og út úr landinu. Í skýrslu Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu er m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Í skýrslu Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustsvæðum eru markaðssvsæðin skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.

Í skýrslu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
Í skýrslu samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.

Ferlir

Dásemdir í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Í skýrslu samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
Á ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.
Í 14 skýrslum Norrænu ráðherranefndarinnar er gert ráð fyrir mögulegri nýtingu menningarlandslags, búsetulandslags og menningarumhverfis í þágu ferðamennsku framtíðarinnar. Þar er gert ráð fyrir að minjar og saga verði í öndvegi og að líta eigi á minjarnar sem hluta af heild.
Þegar horft er á dysjar þeirra Herdísar og Krýsu annars vegar og til möguleika Reykjanesskagans í þágu ferðamennsku framtíðarinnar hinsvegar er ekki ástæða til annars en að vera bjartsýn.
Frábært veður.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Grænaflöt

Eftirfarandi er úr viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurlandi.
Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að GrænaflötBrunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.

Rót

Það var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða  Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólrahringa, illa farin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð hjá henni, en hún var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
Opið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þóttu hann rúmgóður.“

MosatáknÍ örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: „Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.“
Í annarri lýsingu eftir Gísla segir: „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“

Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson 1. febr. 2006.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

Grænaflöt

Ætlunin var að reyna að finna svonefndan Sængurkonuhelli þann er Lárus Kristmundsson frá Stakkavík lýsti aðspurður í viðtali fyrir nokkrum árum. Í örnefnalýsingum af svæðinu mun vera annar samnefndur Grænaflöthellir í nokkurra hundruð metra fjarlægð, en huldufólkssagan hér að framan hefur ekki verið eignuð honum. Gæti þarna annað hvort einhverju hafa verið hnikað til eða nytsemdarhellarnir til handa aðframkomnum konum hafi bara verið tveir á annars litlu svæði.
Þá var ætlunin að halda inn um Lyngskjöld og skoða svæðið í honum ofanverðum. Skjöldurinn er eldri hraunskjöldur og í honum gætu leynst op, sem áhugavert væri að staðsetja með seinni tíma rannsóknir að markmiði. Auk þess liggja út frá honum gamlar götur í allar höfuðáttirnar fjórar.

Drykkjarsteinninn

Í nefndu viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhelli í Herdísarvíkurlandi. Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að Brunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben. og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.
TóftÞað var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar inni líkt og í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólarhringa, illa haldin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, forkunarfagran skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð, en stúlkan var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
GerðiOpið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þótt hann rúmgóður.
Í örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: „Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir.  Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.“
GerðiðÍ annarri lýsingu eftir Gísla segir: „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif.  Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Í örnefnalýsingunni segir um Grænuflöt og Herdísarvíkurfjall: „Herdísarvíkurfjall rís hátt yfir hraunbreiðuna með bröttum skriðum og ókleifum hömrum ofan þeirra. Lyngskjöldur er vestast í fjallinu, en hann er nefndur Skjöldur í gömlum landamerkjalýsingum. Þá er Fálkageiri, gróðurtunga í skriðunum, og Fálkahamar. Þar er og Fálkageiraskarðsstígur; Fálkagil er nafn, sem finna má á landakortum. Fálkageiraskarð (er skarðið, sem stígurinn liggur um.

Rót

Breiðigeiri er austar í fjallsbrekkunum. Grænaflöt liggur undir fjallsrótunum, og upp af henni er Grænuflatarskarð, og liggur fjárgata um skarðið. Herdísarvíkurfjallsskriður liggja þar austar allt að Mosaskarði. Þar upp af er Bæjarhamar, og ofan brúna er Geldingatorfa. Þá kemur Klaufhamar og austar Sundhamar. Þar eru bryggjur, sem fé fór eftir, og lenti þá oft í sjálfheldu. Stallar voru þessar bryggjur kallaðar. Varð oft að síga þar eftir fénu. Brúnir voru Herdísarvíkurfjallsbrúnir nefndar. Mosaskarð var austan fjallsins með Mosaskarðsstíg.  Þar rann fé niður, er fjallið var smalað. Austast í Mosaskarði var svo Hamragerði, þar um lá landamerkjalínan úr Breiðabás. Svörtubjörg kölluðu útróðrarmenn fjallið af sjó, var þangað oft dimmt að líta.
Eru þá nefnd örnefni þau, sem Herdísarvík tilheyra, nema uppi á fjallinu, en þau heyra undir afrétt og verða þar talin.“
MosatáknÍ viðtali við bróður Lárusar, Eggert Kristmundsson, segir hann m.a. frá því er þeir grófu gæðinga Einars Benediktssonar í Grænuflöt: „Hlín fór í fjósið í buxum úr strigapokum. Hún hafði tvo hesta, leirljósan og brúnan. Brúni hesturinn var gamall vagnhestur. Sá leirljósi var mikill reiðhestur. Jón Eldon, sonur hennar, átti hann. Hlín vildi ekki eta hestanna og því var farið með þá að Grænuflöt undir Herdísarvíkurfjalli þar sem þeir Jón, Eggert og fleiri grófu niður tvær mannhæðarháar grafir, þar sem voru hægt var að ganga inn í, og þar skutu þeir hestanna, Jón þann leirljósa, en Eggert þann brúna. Eggert tók nærri sér að þurfa að gera þetta því hann hafði unnið mikið með þessum hestum, en hann sagðist alltaf hafa hlýtt Hlín. Hún hefði beðið hann um að annast þetta.“ 
Í leiðinni var drykkjarsteinn skoðaður austan við Grænuflöt. Við þá skoðun fundust Sængurkonuhellirm.a. tóft af húsi og ílangt gerði eða stekkur. Grasgróningar eru umleikis svo líklegt má telja að fé hafi verið haldið þarna eða jafnvel kýr um tíma a.m.k. „Stekkurinn“ gæti því hafa verið stöðull eða jafnvel nátthagi. Mannvistarleifa þessarra er ekki getið í fornleifaskráningu af svæðinu.
Fallegt „mosatákn“ sást skammt frá Grænuflöt; vel við hæfi í tilefni dagsins, þ.e. Valitínusardagsins.
Þrátt fyrir leit fannst fyrrgreint hellisop ekki – að þessu sinni a.m.k.
Spurningar sem vöknuðu voru fleiri en ein: Eru Sængurkonuhellir undir Klifi og Sængurkonuhellir við Grænuflöt einn og sami hellirinn? Innan við 300 metrar eru milli staðanna.
Farið hefur verið um svæðið með stórvirkum vinnuvélum (væntanlega með leyfi Fornleifaverndar)! Við það tækifæri var landinu umbylt, stórum steinum velt við og annað fært í kaf. Við það tækifæri gæti op Sængukonuhellir við Grænuflöt hafa lokast. Tilviljun ein réð því að drykkjarsteininum var ekki raskað.
Var Sængurkonuhellir kannski ekki við Grænuflöt? Hafa ber í huga að búfénaður (kýr, naut og fénaður) hefur að öllum líkindum verið rekinn eftir gömlu þjóðleiðinni milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, áleiðis að Kerlingadal. Hún liggur (lá) skammt frá Sængurkonuhelli undir Klifi. Ef farið hefði verið með fjallinu hefðu viðkomandi þurft að taka á sig krók til að komast fyrir Klifhraunið. Þó er ekki hægt að útiloka þann Nýimöguleika að kunnugir hafi frekar viljað reka búfénað með fjallinu, inn í Lyngskjöld og úr honum til suðurs með hraunkantinum að Klifi. Sú leið er (var) bæði þægileg og greið.
Bæði vestan og austan við Grænuflöt eru gróningar við op sem benda til þess að fé hafi legið þar við. Slík verksummerki má gjarnan sjá við gömul fjárskjól. Því er þörf að gaumgæfa svæðið betur þegar vorar.
Við þetta má bæta svolítilli athugasemd við gerð nýs Suðurstrandarvegar í Herdísarvíkurlandi. Nýi vegurinn hefði átt að leggjast nánast í fyrrverandi vegstæði líkt og sést á myndinni, en því miður fer því fjarri. Gert hefur verið nýtt sár í annars fallegt mosahraunið og á kafla hefur verið farið yfir einn fallegasta kaflann á gömlu Herdísarvíkurþjóðleiðinni. Með svolítilli hugsun hefði verið hægt að varðveita götuna komandi kynslóðum til vakningar og fróðleiks um hina fornu leið millum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók  klst og 4 mín.

Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum), f: 1. febr. 2006.
-Viðtal við Eggert Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum).
-Viðtal við Þorkel Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum).

Herdísarvík

Hér rifjar Páll Sigurðsson upp „Útræði í Herdísarvík í Selvogi„. Frásögnin birtist í Morgunblaðinu árið 2000:
herdisarvik-930„Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar.

herdisarvik 931

Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar). Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norðaustan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í „kös“ sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd. Á svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er. Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.
HerdísarvíkGamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Herdísarvík

Leit var gerð að heimaseli Herdísarvíkur í Selvogi. Í Jarðabók Árna og Páls 1703 segir um hjáleigur og selstöður Herdísarvíkur í Selvogi:
herdisarvik-332„Hjáleiga hefur hjer að fornu verið, ekki var henni nafn gefið nema af bænum; hún hefur undir 30 ár í auðn verið og mikill partur grasnautnar, sem hún hafði, spilltur af sandi, þar er nú stekkur heimabóndans.
Tómthús hefur hjer eitt verið til forna, en í auðn legið undir 50 ár.
Selstöðu eigna menn jörðinni í Krýsuvíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.“
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar segir: „Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu.  Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.
herdisarvikursel - heimasel 1En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni.“
Ólafur Þorvaldsson segir í sinni örnefnalýsingu um Herdísarvík: „
Nyrzt á Seljabót uppi við háa brunabrún, eru nokkrar gamlar húsarústir, og eru það leifar húsa frá þeim tíma, að haft var þarna í seli frá Herdísarvík.
Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö
brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið.
Þá er austarlega kemur herdisarvikursel - heimasel 2á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af sér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann
hafa hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið.“
Eftir að Herdísarvíkurhraunið hafði verið gengið fram og til baka og allir hugsanlegir möguleikar sem staðsetning á fyrrnefndri heimaselstöðu var haldið á líklegasta staðinn með framangreint í huga: „hjáleiga þar sem nú er stekkur heimabóndans“. Þegar komið var á vettvang var það nefndur stekkur, nú grasi gróinn, sem bar fyrst fyrir augu. Umhverfið er einnig grasi gróið og í miðju þess hið ágætasta vatnsstæði, bæði kjörnar aðstæður fyrir smákot sem og augsýnilegar leifar þess.
Þessi selstaða Herdísarvíkurbænda var sú þrjúhundraðasta, sem FERLIR hefur skráð á Reykjanesskaganum.

Heimildir:
-Jarðabók Páls og Árna 1703, bls. 467.
-Örnefnalýsingar Gísla Sigurðssonar, I og II (ÖÍ).
-Örnefnalýsing Ólafs Þorvaldssonar (ÖÍ).

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Herdísarvíkurlandi eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-994„Austasta örnefni í Herdísarvík með sjó er Breiðibás. Hann er að finna með því, að ganga um 8 mínútur austur með sjó frá eystra túninu. Vestar en í miðjum Breiðabás, sem er allvítt malarvik milli hraunflúða, sem ganga í sjó fram beggja megin, er steinn í lögun svipaður saumhöggi á steðja, með sýlingu í miðju. Steinn þessi er á þurru með lágum sjó, og er landamerkjasteinn milli Herdísarvíkur og Stakkavíkur, úr honum bein lína í vörðu á brún Mosaskarðs, austarlega, sem síðar mun getið verða. Af Breiðabás er haldið vestur á bóginn, og verður þá fyrst fyrir eyðibýlið Herdísarvíkurgerði. Þar á túninu stóðu fram á seinustu ár tvö stór fjárhús, Langsum og Þversum, nú sennilega rústir einar. Eystra húsið snéri gaflhlöðum til austurs og vesturs, hitt til suðurs og norðurs. Niður undan miðju túninu eru malarvik í flúðirnar, og heita þau Básar. Vestast í fyrrnefndum flúðum er gömul vör (lending), Skökk. Ekki var hægt að fara í vör þessa nema ládautt væri. Þar má enn sjá kjalarför í klöppunum eftir setningu skipa. Í norður frá Gerðistúninu, ofan garðs, er Sundvarða eystri, og átti hún, þegar sundið var tekið, að bera í Sundhamar, sem er austast í Herdísarvíkurfjalli, og síðar mun nefndur (á austanverðu sundinu er blindsker, sem Prettur heitir og brýtur á í brimi).

Herd-995

Vestan við Gerðistúnið er Dalurinn, gamall skiptivöllur, þar sem formenn skiptu afla í ,“köst“. Norðan við hann voru sjóbúðir, byggðar hlið við hlið. Símonarbúð, þá Bjarnabúð og austast Gíslabúð. Þá vestar og nær sjó Hryggjabúð. Búðir þessar eru víst engar uppi standandi lengur. Vestur af síðast talinni búð var Skiparéttin, umgirt háum og þykkum grjótveggjum á fjórar hliðar. Þar gengu sjómenn frá skipum sínum milli vertíða. Framan undan búðunum er Bótin, aðallending Herdísarvíkur, en upp af henni er hár og þykkur malarkambur, Herdísarvíkurkambur. Liggur hann sem gleiður bogi um Bótina, en svo lágur er hann vestan til, að í aftakaveðrum af hafi gengur sjór yfir hann og fyllir tjörnina, sem er innan við og liggur upp að túninu, svo að stundum fyllti öll hús, sem við tjörnina stóðu, svo að úr þeim varð að flýja með allt, sem komizt varð með, lifandi og dautt. Aldrei mun þetta hafa valdið slysum á mönnum eða skepnum, en tjóni olli það oft bæði á húsum og munum, svo og matbjörg.
Herd-996Nú fyrir nokkrum árum hafa öll hús verið flutt efst á túnið, en þar eru þau í minni hættu. Innan við Kambinn er, eins og fyrr segir Herdísarvíkurtjörn. Milli heimatúns og Gerðistúns er grjótgarður mikill, Langigarður, ætlaður sem aðhald fyrir stórgripi Herdísarvíkur á graslendi því, sem er milli túna. Sá garður mun hafa verið hlaðinn af sjómönnum í landlegum. Við hlið, austur úr heimatúninu, við tjörnina, var sjóbúð, Ólabúð, nú sennilega ekki lengur til. Austarlega í túninu er klettastapi, sem gengur fram í tjörnina, Hestaklettur, austan við hann Hestavik.

Herdísarvík

Sjóbúðir í Herdísarvík.

Vestast og efst í túninu, þar sem nú eru gripahús og heyhlaða, var Krýsuvíkurbúð, en hún var, eins og nafnið bendir til, sjóbúð Krýsuvíkurmanna. Heimajarðarbændur í Krýsuvík gerðu þar (í Herdísarvík) út tvö skip og áttu því sem aðrir útgerðarmenn sína búð. Sunnan undir heyhlöðu og gripahúsum er Urðin. Þar er sem saman hafi verið safnað á lítinn blett mikilli dyngju af lábörðum steinum, nokkuð misstórum, en mest af þeim má teljast björg svo stór, að enginn mun hafa fært þau þar saman nema Ægir karl, en athyglisvert virðist það, að þau skuli hafa hlaðizt þarna upp í mörg lög á smábletti, en sjást hvergi svipuð, fyrr en niður við sjó. Milli Urðarinnar og gamla bæjarstæðisins er smátjörn, Kattartjörn. Þornar hún upp að mestu á sumrin; sést þá, að botninn er að mestu gróinn; vex þar upp þétt og kröftug gulstör, og stingur þessi stararblettur mjög í stúf við annan gróður þar og allt umhverfi. Bendir þessi litli stararblettur á, að þarna hafi starengi verið áður en elzta hraunið rann? Sem fyrr er sagt, stóð gamli bærinn á tjarnarbakkanum, nærri vestast í túninu. Framan undan bænum er smáhólmi í tjörninni, Vatnshólmi. Lítil trébrú var út í hólmann, og var vatn sótt þangað fyrir bæ og fjós, þar sem vatnið bullaði upp undan hólmanum á alla vegu, kalt og ferskt úr iðrum jarðar. Suðvestur af Vatnshólmanum gengur smátangi út í tjörnina, Sauðatangi. Þá eru talin örnefni í næsta umhverfi bæjarins og austan við hann. Suðvestur af Herdísarvíkurtjörn eru nokkrar smátjarnir og heita Brunnar. Milli þeirra og tjarnarinnar er Steinboginn, steinstillur, sem settar hafa verið þarna niður til að stytta leið niður á vesturkambinn, ef hátt var í tjörnunum. Spölkorn suður af Brunnum, nær sjó, er Sundvarða vestri. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísaarvík

Herdísarvík um 1900.

Herdísarvík

Eftirfarandi frásögn Ólafs Þorvaldssonar um jörðina Herdísarvík birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1948:
Herd-991„Jörðin Herdísarvík er vestasti bær í Selvogshreppi og þar með vestasti bær í Arnessýslu með sjó fram. Jörðin liggur fyrir botni samnefndrar víkur, og er hún vestast í vogi þeim, er Selvogur heitir, allvíður og bogamyndaður, gengur inn í landið frá suðri. Takmörk hans eru: Selvogstangar að austan, en Olnbogi, austan Háabergs í Herdísarvíkurlandi, að vestan. Tún jarðarinnar er í suðurjaðri Herdísarvíkurhrauns, hólótt og dældótt, jarðvegur grunnur því að víðast er grunnt á hrauni. Með beztu umhirðu gefur túnið (heimatúnið) af sér um tvö kýrfóður, ca 80 hesta. Fyrir öllu túninu að sunnan er smátjörn, og er dálítil silungsveiði í henni, fáu fólki til smekkbætis og nokkurra búdrýginda, en skynsamlega verður að fara að þeirri ve;ði, ef ekki á að uppræta stofninn, þar sem líka utanaðkomandi, óviðráðanleg atvik geta stórfækkað silungnum á nokkrum klukkutímum, og er það
þegar stórflóð koma í tjörnina af völdum stórviðra af hafi, en þeim fylgir þá ævinlega stórbrim.
Herd-993Annars er saga Herdísarvíkur-silungsins þannig: Fyrir um sjötíu árum lét Árni Gíslason, fyrrv. sýslumaður í Skaftafellssýslum, sem þá bjó í Krýsuvík og átti báðar jarðirnar, flytja um eða innan við 100 silunga, fullþroskaða, sem hann fékk úr Hlíðarvatni, út í Herdísarvíkurtjörn. Voru þeir bornir í bala og fötum með vatni í. Flestir munu þessir silungar hafa komizt lifandi í tjörnina, og kona, sem þá var unglingur í Herdísarvík, sagði þeim, er þetta ritar, að morguninn eftir hefðu nokkrir silungar legið dauðir við landið, þar sem þeim var sleppt í tjörnina, en hinir verið horfnir út í vatnið. Eftir nokkur ár fór að veiðast þarna við og við silungur til matar fyrir heimafólk. Þegar fram liðu stundir, kom í ljós, að þarna náði silungurinn miklu meiri þroska en hann nær yfirleitt í Hlíðarvatni, og mun aðalorsök þess vera meira og betra æti, t. d. er þar um mikla marfló að ræða, svo og mikinn botngróður.
Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkur-gerði, og sjást nú fáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því. Tún þetta mun aðallega hafa gróið upp undan sjófangi; fiskur borinn þangað upp til skipta, kasaður þar áður en upp var borinn til herzlu; þorskhöfuð og hryggir þurrkaðir þar, og öðrum fiskúrgangi kastað þar út, — en undan honum grær jörð fljótast. Útræði var mikið úr Herdísarvík og hafði verið öldum saman, og var talið með beztu verstöðvum austanfjalls, og við og við var gert út þaðan fram á þriðja tug tuttugustu aldar.
Herd-992Fiskisælt var þar í bezta lagi og lending góð; þó var oft nokkur lá í bótinni, þar sem lent var, þótt útsjór væri allgóður. Fiskurinn var yfirleitt hertur til útflutnings, og má enn sjá þurrkgarða á allstóru svæði í brunabelti uppi undir fjalli. Var fiskurinn, eftir að hafa legið í kös, jafnvel í fleiri vikur, borinn á bakinu eða í laupum eða kláfum til þurrkgarða. Þetta, að kasa fisk undir herzlu, var talsvert vandaverk, enda formenn vandlátir þar um, því að ef illa var gert, gat meira eða minna af fiski, sem í kösinni var, stórskemmzt, en þetta er önnur saga og því ekki sögð nánar hér.

Hlunnindi Herdísarvíkur voru talin: Sauðfjárbeit góð, svo að af bar, bæði til fjalls og fjöru. Útræði ágætt, og er þá aðallega átt við góða lendingu og fiskisæld. Viðarreki var, þegar reka-ár komu, oft allmikill, og nú, um síðastliðin 50—60 ár, silungsveiði til skemmtunar og nokkuð til búdrýginda. Fiski og hrognkelsum skolaði þar stundum á land til muna seinni part vetrar, þegar fiskur var í göngu.
Herdísarvík
Flæðihætta við sjó engin fyrir sauðfé, og er það mjög mikill kostur, þar sem fé gekk svo mikið sjálfala allan ársins hring. Fjöruskjögur í unglömbum þekktist ekki, og mun þar um valda, að fjaran er ekki mjög sölt sökum vatna, sem um hana renna, — en sér í lagi þó kjarnamikill gróður til landsins, strax upp frá fjörunni, og í þriðja lagi mætti nefna, að fjörubeitin er fyrir það mesta bitfjara, en ekki rekafjara.
Til galla má helzt telja, að mjög sterk veður af norðri koma þar stundum, og kom fyrir, að skaði hlytist af, ef hey voru á túnum, og máttu búendur illa við, þar eð heyskapur er enginn utan túns, en þau heldur lítil. – Reykjavík, síðasta vetrardag 1948. Ólafur Þorvaldsson.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-1948, bls. 129-139.

Herdísarvík

Herdísarvík um 1950.