Færslur

Herdísarvíkurbjarg

Gengið var um Herdísarvíkurberg frá Herdísarvík, eftir Háabergi og yfir á Eystri-Bergsenda þar sem það mætir Krýsuvíkurbergi.

Keflavík

Herdísarvíkurbjarg við Keflavík.

Á leiðinni voru skoðaðar hina fjölbreyttustu bergmyndanir, magnþrungið afl sjávar, sérstakur gróður og fuglalíf. Komið var við í Keflavík. Frá henni vestanverðri liggur rekagata til Krýsuvíkur. Þá var komið við í fjárskjólunum í Fjárskjólshrauni og í Krýsuvíkurhrauni (Arngrímshelli/-Gvendarhelli). Hvorutveggja eru merkirlegir fulltrúar slíkra á Reykjanesskaganum.
Austanvert bergið við Rauðhól er um 5 m.y.s., Háaberg er hæstum 35 m.y.s. og austanvert Krýsuvíkurbergið er um 46 m.y.s.
Frábært veður. Gengnir voru 15 km og tók gangan 4 klst og 4 mín.

Herdísarvíkurbjarg

Í Herdísarvíkurbjargi.

 

 

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.