Færslur

Herdísavíkursel

Haldið var niður frá Sýslusteini, eftir slóðanum með sýslugirðingunni, og staðnæmst við Gamla veg, er liggur þarna á milli hrauna, þvert á girðinguna. Önnur gömul gata, líklega angi af hinni, er þarna litlu norðar. Gengið var eftir veginum með hraunjaðrinum, líklega Krýsuvíkurhrauns, framhjá vatnsstæði og áfram niður og suður með austanverðum hraunkantinum. Þegar komið var að horni hans var beygt til vesturs og hraunkantinum og veginum fylgt áfram. Einn angi hans liggur þarna áfram til suðurs.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Skammt vestan við hornið eru nokkrar tóttir Herdísarvíkursels. Fyrst er langur stekkur ofan við graslægð, annar minni stekkur vestan hans og ein tótt aðeins lengra til vesturs. Norðan þeirra er meginselið, tóttir með tveimur rýmum, en beggja vegna þess eru minni tóttir.

Seljabót

Í Seljabót.

Skammt vestan við selið, uppi í skjóli, eru hleðslur eða tótt undir steini. Enn vestar, handan gamallar girðingar, eru brunnar og skammt vestan girðingarinnar er skjól undir hraunrana.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – byrgi refaskyttu. Geitahlíð fjær.

Niður við Seljabótanef er hlaðin rétt sunnan og innanundir því. Austan við nefið er skúti og gat ofan hans. Þessi skúti gæti verið svonefndur Seljabótahellir, sem m.a. Gísli Sigurðsson lýsir. A.m.k. passar lýsingin við staðsetningu skútans. Talsverður sandur hefur lekið inn í skútann. Hann virðist nú vera notaður sem greni. Austan skútans er lægð og í henni hraunrani. Í honum er einnig greni. Enn eitt grenið er norðan lægðarinnar, í hraunhól. Þar norðaustanvið er hlaðið skotbyrgi refaskyttu. Sunnan þess er einnig skúti er virðist hafa verið greni. Allnokkru austar með ströndinni má sjá hlaðin refabyrgi, ef vel er að gáð, en ágangur sjávar hefur leikið þær illa.
Gangan frá Sýslusteini niður í Seljabót tekur um 20 mínútur eftir aðgengilegum slóða með girðingunni. Frábært veður.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Sýslusteinn

Gengið var frá Sýslusteini í Seljabót, um 20 mínútna gang eftir greiðfærri götu í gegnum Herdísarvíkurhraun, niður með sýslugirðingunni. Hún er á mörkum Gullbringusýslu og Árnessýslu í línu úr Seljabót um Sýslustein og áfram upp að Kóngsfelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: “Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…”

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í Bótinni var gamla réttin skoðuð og síðan gengið upp í Herdísarvíkursel, sem liggur undir hraunkantinum u.þ.b. 5 mínútum ofan við ströndina í austnorðaustur. Selið er þrjú hús og lambastekkur framar. Hreyfing var á logninu, en þegar komið var undir hraunkantinn varð hreyfingin að engu.
Í örnefnalýsingunni segir að “Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp á Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar.” Gamlavegi var fylgt upp hraunið að upphafsstað.

Herdísarvík

Herdísarvíkurvegir – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið upp Selstíg ofan við Hlíðarvatn. Haldið var upp í Selbrekkur, en þar má enn sjá tóttir Stakkavíkurselsins.

Til að nota góða veðrið var ákveðið að halda áfram upp Stakkavíkurveginn, yfir Dýjabrekkur, að Vestur-Ásum og að Hvalskarði þar sem hann og Selvogsgatan koma saman. Þá var haldið niður Stakkavíkurveginn til baka og komið við í tóftum fjárhúss í Stakkavíkurhrauni skammt fyrir neðan þjóðveginn.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Fornigarður

Gamall slóði. Gamli vegur eða Selsgata, var genginn frá Fjárskjólshrauni niður í Herdísarvíkursel suður undan Herdísarvíkurhrauni ofan við Seljabót.

Herdísavíkursel

Í Herdísarvíkurseli.

Leiðin er mjög falleg í gegnum hraunið og vel greinileg. Selið, sem kúrir undir hraunkantinum mót suðri, hefur verið stórt og eru margar tóttir því tengdu, sem og vatnsstæði vestan við þær. Skoðaðar voru gamlar hlaðnar refagildrur á klöppunum austan Seljabótar og einnig rúningsréttin í sjálfri bótinni.
Þá var hraunsleiðin gengin til baka og haldið að Fornagarði austan Vogsósa, en garðurinn, sem getið er um í heimildum frá árinu 1275, náði frá Hlíðarvatni að Nesi í Selvogi. Um hefur verið að ræða mikið mannvirki í þá daga. Hann var því 7 km langur. Að sjálfsögðu hét hann ekki Fornigarður í upphafi, heldur Strandargarður, en eftir því sem aldirnar færðust yfir hann gerði nafnið það líka.
Lognið var á smáhreyfingu, en hlýtt.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísavíkursel

Sel ofan Selvogs. Byggt á Fornleifaskráningu Hildar Gestsdóttur og Orra Vésteinssonar um sel í Selvogi).

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Um Herdísarvíkursel segir: “Á Seljabót er landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringu- og Árnessýslu. Seljabótanef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…” [Tóftirnar eru undir sunnanverðum hraunkantinum ofan Seljabótar, skammt austan sýslugirðingarinnar. Vatnsstæðið er skammt vestar, í krika svo til alveg við girðinguna. Í Seljabótinni má sjá hlaðið gerði og skammt ofan hennar var selshellir, sem nú er að mestu fylltur af sandi].

Eimuból

Stekkur í Eimubóli.

Fyrir norðan Vörðufell er Eimuból, alveg við mörkin. Þar eru hellar með húsveggjum. [Eimuból er greinilega mjög gömul selstöð. Bæði er tóft á bakka gróins jarðfalls sem og í jarðfallinu sjálfu. Inn úr því er fjárskjól með allnokkrum hleðslum í].
Austan við Strandarhæð eru miklar lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. Norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða –sel. Við Þorkelsgerðissel er Skyrhóll, hellisskúti, þar sem skyrið átti að hafa verið geymt. [Margar tóftir eru í Þorkelsgerðisseli].

Vogsósasel

Vogsósastekkur (heimasel).

Ekki er getið heimilda um Sel frá Vogsósum, en Þórarinn Snorrason sýndi ritgerðarhöfundi það árið 2000. Það sem skammt austan við þjóðveginn, sunnan fjárgirðingarinnar upp frá réttinni, ofan við svonefnda Grænudali. Þar er tóft á hæðinni. Á hæðinni er varða. Seldalur heitir gróin lægð norðan selsins. Vestan hæðarinnar, handan þjóðvegarins, á hól eru þrjár fjárborgir (Borgirnar þrjár). Borgirnar  gætu að hluta verið leifar nýrra heimasels frá Vogsósum, enda bærinn aldagamall – þjónaði m.a. sem prestssetur Selvogsbúa um tíma. Verður því að telja líklegt að þá hafi verið vel búið að Vogsósum.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Í örnefnalýsingu fyrir Selvog, er m.a. fjallað um Ólafarsel. Þar segir m.a.: “ Í örnefnalýsingu fyrir Ölfuss má m.a. sjá eftirfarandi: Ólafarsel er austan og sunnan við Vörðufell í Vörðufellshrauni. Í því er hiti og rýkur úr hólnum. Framan í hrauninu er Ólafarsel, er enn sér fyrir. Það tilheyrði um tíma Eimu.
Ekki er getið um heimildir fyrir sel frá Strönd, þeirri stóru jörð. Selsins undir suðausturhorni Svörtubjarga er heldur hvergi getið og gæti það verið ástæðan. Þar er nokkuð stórt sel með lambastekk, fjárskjóli í helli og vatnsbóli í skúta.
Í heimildum um Nessel segir: “Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhóla eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu”.

Nessel

Nessel.

[Nessel er nú vel gróið. Tóftir eru í selinu og gróið jarðfall. Líklegt er að reft hafi verið yfir það því það er hálffullt].
Litlalandssel er “uppi á fjallinu, ofan Lyngbrekkna og Grislingahlíðar, er hraun austur frá Búrfelli. Það heitir Litlalandshraun. Í því austarlega er Litlalandssel, í stefnu frá Búrfelli á Kerlingarberg. [Selið er utan í grónum hraunhól í hrauninu. Hóllinn er holur innan og á honum dyr. Annars er vel gróið í kringum selið].

Bjarnastaðaból

Bjarnastaðaból.

Um Bjarnstaðasel segir: “Norður eða norðvestur af Klöppinni Fótalaus í Neslandi er Bjarnastaðaból eða –sel. Uppi í heiðinni voru sel eða ból frá flestum bæjum”. [Þrjár hjáleigur voru frá Bjarnastöðum og ber selið þess merki. Margar tóftir eru þar og greinilega verið haft í seli frá fleiri en einum bæ. Þar er og að finna a.m.k. tvo stekki].
Ekki er getið heimilda um sel frá Breiðabólstað, en það er í Krossfjöllum. Ekki heldur er getið heimilda um sel frá Götu, en ekki er ólíklegt að Gata og Eima hafi annað hvort haft saman í seli eða í nálægð.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Hlíðarendasel er “á miðri leið fá Búrfelli inn að Geitafelli, í stefnu af Búrfelli á Hrútagil. [Selið er ofarlega í grónu hrauninu og gengur Ólafsskarðsvegur um það mitt. Þrjár tóftir eru í því auk stekkjar á hraunhól].
Skammt austar er Litlalandssel; þrjár tóftir og stekkur í kringum hraunsskúta.
Ekki er getið heimilda um sel frá Vindheimum (Vindási), en grónar tóftir selsins má sjá vestan við Eimuból [Kristófer Bjarnason]. Vindásselið er gróinn upphækkaður hóll svo telja má að þarf hafi verið selsstaða um alllangt skeið; endurgerð ítrekað.

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvík

Leit var gerð að heimaseli Herdísarvíkur í Selvogi. Í Jarðabók Árna og Páls 1703 segir um hjáleigur og selstöður Herdísarvíkur í Selvogi:
herdisarvik-332“Hjáleiga hefur hjer að fornu verið, ekki var henni nafn gefið nema af bænum; hún hefur undir 30 ár í auðn verið og mikill partur grasnautnar, sem hún hafði, spilltur af sandi, þar er nú stekkur heimabóndans.
Tómthús hefur hjer eitt verið til forna, en í auðn legið undir 50 ár.
Selstöðu eigna menn jörðinni í Krýsuvíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.”
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar segir: “Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu.  Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.
herdisarvikursel - heimasel 1En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni.”
Ólafur Þorvaldsson segir í sinni örnefnalýsingu um Herdísarvík: “
Nyrzt á Seljabót uppi við háa brunabrún, eru nokkrar gamlar húsarústir, og eru það leifar húsa frá þeim tíma, að haft var þarna í seli frá Herdísarvík.
Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö
brunabelti
austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar
umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið.
Þá er austarlega kemur herdisarvikursel - heimasel 2á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af sér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann
hafa hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið.”
Eftir að Herdísarvíkurhraunið hafði verið gengið fram og til baka og allir hugsanlegir möguleikar sem staðsetning á fyrrnefndri heimaselstöðu var haldið á líklegasta staðinn með framangreint í huga: “hjáleiga þar sem nú er stekkur heimabóndans”. Þegar komið var á vettvang var það nefndur stekkur, nú grasi gróinn, sem bar fyrst fyrir augu. Umhverfið er einnig grasi gróið og í miðju þess hið ágætasta vatnsstæði, bæði kjörnar aðstæður fyrir smákot sem og augsýnilegar leifar þess.
Þessi selstaða Herdísarvíkurbænda var sú þrjúhundraðasta, sem FERLIR hefur skráð á Reykjanesskaganum.

Heimildir:
-Jarðabók Páls og Árna 1703, bls. 467.
-Örnefnalýsingar Gísla Sigurðssonar, I og II (ÖÍ).
-Örnefnalýsing Ólafs Þorvaldssonar (ÖÍ).

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.