Tag Archive for: Hlöðunessel

Knarrarnessel

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ er fjallað um sel og selstöður bæja á Vatnsleysuströnd. Þar segir m.a.:

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Alls voru skráð átta sel á skráningarsvæðinu. Af þeim reyndust fimm í landi Stóru-Vatnsleysu. Ummerki um sel fundust á öllum stöðunum nema tveimur. Örnefnið Seltó er um 5 km frá bæ á Stóru-Vatnsleysu en engar minjar um sel hafa fundist þar. Líklegt er að nafnið sé til komið af því að fé úr t.d. Rauðhólaseli hafi verið rekið á beit á þessu svæði. Sagnir eru um að sel hafi verið við Ásláksstaðaholt en þar fundust ekki leifar um sel. Mögulegt er að það hafi orðið uppblæstri að bráð. Fjöldi selja í Stóru-Vatnsleysu skýrist m.a. af því að allar minjar í úthaga Stóru- og Minni-Vatnsleysu eru skráðar með fyrrnefndu jörðinni en Oddafellssel var sel frá Minni-Vatnsleysu. Þar er þröngt selstæði á milli Oddafells og úfins afstapahrauns. Þar eru greinilegar hleðslur annars vegar og mjög signar og fornlegar minjar hins vegar.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Í landi Stóru-Vatnsleysu er fornlegt sel sem er við merki móti Flekkuvík og er skammt frá Flekkuvíkurseli. Ekki er útilokað að það sel hafi einnig tilheyrt Flekkuvík. Þar voru skráðar tvær tóftir, þúst, vatnsstæði og varða. Í Rauðhólsseli er ein þúst og ein tóft. Minjarnar eru nokkuð fornlegar. Kolhólasel virðist vera nokkuð gamalt en þar voru skráðar þrjár tóftir. Ekki er útilokað að hjáleigur Vatnsleysubæjanna hafi átt sel í heiðinni en einnig er líklegt að selstæði hafi færst til vegna vatnsleysis og hagaleysis. Gamla-Hlöðunessel er fornlegt en þar sjást tvær signar og grónar tóftir auk einnar vörðu. Selstæðið er illa farið af uppblæstri.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Knarrarnessel er skráð undir Breiðagerði vegna þess að megnið af minjunum í selinu er innan merkja Breiðagerðis og er þeirri meginreglu haldið hér að fylgja þeim landamerkjum sem sveitarfélagið Vogar hefur látið skráningarmönnum í té. Hins vegar er sá háttur hafður á að minjar í úthaga eru skráðar undir heimajörð á hverjum stað, líkt og gert er í Stóru-Vatnsleysu, Ásláksstöðum stærri og Stóra-Knarrarnesi. Seljaþyrpingin er afar stór og greinilegt að á svæðinu hafa verið a.m.k. þrjú sel. Þar eru bæði fremur ungar tóftir og signar og fornar tóftir. Samkvæmt örnefnaskrá áttu Knarrarnesbæirnir tveir og Ásláksstaðir stærri selstöðu á þessum stað.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Þau sel sem skráð voru fyrri ár og fjallað er um í áfangaskýrslu I mátti gróflega flokka í þrennt eftir gerð: Flokkur 1= Fáar, signar og fornlegar tóftir; Flokkur 2= Þrjár eða fleiri tóftir, greinilegar; Flokkur 3= hleðslur í krosssprungum hólum og tóftir. Á skráningarsvæði eru engar seltóftir sem falla í flokk 3. Skipting selja á skráningarsvæðinu í flokka er ekki klippt og skorin.
Í flokk 1 fellur Gamla-Hlöðunessel og Rauðhólasel (þótt það virðist ekki vera jafn gamalt og Gamla-Hlöðunessel). Önnur sel fara í flokk 2, þótt greinilegt sé að eldra byggingarstig sé að finna innan um unglegar tóftir í Knarrarnesseli og Oddafellsseli.“

Hlöðunessel

Hlöðunessel

Hlöðunessel – teikning.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðunesskinn, og eru þar hagir bjarglegar en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu,“ „… þaðan beina línu sunnan til við Ásláksstaðaholt upp í Hrafnhóla og þaðan beina línu sunnan til við Hlöðunessel Gamla, til Fjalls …,“ segir í örnefnaskrá um sama stað. „Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri stóð Gamla-Hlöðunessel eða Hlöðunessel, þar sjáum við tvær mjög gamlar tóftir en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem hefur verið mikill þarna,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Selið er um 7,1 km suðaustan við bæ.
Selið er langt uppi í heiði þar sem uppblástur er nokkuð mikill. Selið er í brekku móti austri og hefur verið ágætt seltún austan við það í skjóli hlíða til suðurs og suðausturs. Nánast allt seltúnið er horfið vegna uppblásturs en enn sést grænn graskragi í brekkurótum til suðurs og suðausturs. Uppblásturinn er kominn mjög nærri tóftunum sem enn sjást á svæðinu og stafar þeim mikil hætta af honum.

Hlöðunessel

Hlöðunessel – uppdráttur ÓSÁ.

Minjar í selinu eru á svæði sem er um 90×10 m að stærð og snýr norður-suður. Á svæðinu fundust tvær tóftir og varða og fær hvert mannvirki fær bókstafi í lýsingu til aðgreiningar. Í norðurenda svæðisins eru tvær fornlegar og grónar tóftir. Tóft A er nyrst. Hún er um 5×4,5 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Tóftin er einföld og hefur líklega verið grjóthlaðin því það finnst fyrir grjóti undir þykku lagi af mosa og lyngi sem hylur tóftina. Dyr eru nærri miðjum suðurvegg. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,3 m en hvergi sést í hleðslur. Tóft B er um 1 m sunnan við tóft A. Hún er tvískipt og grjóthlaðin en tóftin er mjög gróin. Tóftin er um 7×4,5 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Í vesturenda tóftarinnar er óljóst hólf I sem er um 2,5×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Ekki sést op á hólfinu. Hólf II er í austurenda tóftarinnar og er það um 2×1,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Það mjókkar til austurs. Ekki sést skýrt op á hólfinu.

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

Sunnan við tóftirnar virðist vera náttúruleg brún og þar er tóft B greinilegust og veggir hennar hæstir, eða 0,5 m á hæð. Í vesturenda tóftarinnar sjást 3 umför hleðslu en annars eru allar hleðslur hrundar. Syðst á minjasvæðinu er varða C. Hún er á klöpp efst á mosavaxinni en uppblásinni hraunhæð. Varðan er gróin og sigin. Hún er um 0,5 m í þvermál og 0,5 m á hæð. Í henni sjást aðeins 2 umför.“

Knarrarnessel

Knarrarnessel

Knarrarnessel – teikning.

“ Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnumselstöðu í fjarlægð.“ „Þarna voru í eina tíð, og sjást rústir enn, þrjú sel. Fyrst Stóra-Knarrarnessel, Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel,“ segir í örnefnaskrá. Í Knararnesseli áttu þrjú lögbýli sel og enn sjást greinilega þrjú selstæði. Selið er um 5,2 km suðaustan við Knararnes stærra og um 5 km suðaustan við Breiðagerði. Samkvæmt landamerkjum frá Sveitarfélaginu Vogum er meirihluti tóftanna í selinu í landi Breiðagerðis og því er það skráð undir Breiðagerði þó að sá bær hafi ekki átt selstöðu í selinu svo vitað sé.
Selið er hátt uppi í heiðinni í grónu hrauni. Lágir hólar aðskilja selstæðin sem eru þrjú sýnileg. Grösugt er á selstæðinu og virðist rof ekki ógna því. Stórþýft er á svæðinu.

Örnefni og gönguleiðir

Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd…

Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Knarrarnessel er framundan en það liggur nokkurn spöl ofan Klifgjár og þar er flatlendast miðað við önnur selstæði í heiðinni. Selstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni en frá jarðbrúnni yfir hana sveigjum við aðeins til hægri og komum að Leirflagsvatnsstæðinu en í það safnast vatn í rigningartíð. […] Selstæðið er stórt með mörgum tóftum enda höfðu líklega flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað.“
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Selstæðið er stórt með mörgum tóftum. Þar má finna átta slíkar, misjafnlega stórar og margflóknar. Þrjá hlaðna stekki er að sjá í selstöðunni. Fjöldi stekkja benda jafnan til fjölda selja á viðkomandi svæði. Hins vegar má geta þess að stekkir virðast ekki alltaf augljósir. Þannig má ætla að enn einn stekkurinn hafi fylgt austustu tóftunum þremur. Þær eru í grónum krika ofan við hinar tóftirnar. Sjá má móta fyrir hleðslu milli tveggja húsa, en alls eru rýmin í þeim fimm að tölu. Tvær tóftanna eru nokkuð heillegar og jafnvel sjá hversu stór rýmin hafa verið.
Í nyrstu tóftinni mældust innanrýmin 140×280. Það er svipað hlutfall og í öðrum rýmum annarra tófta, ekki einungis í þessu seli heldur og fleirum.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ein tóftin, sú syðsta í vestanverðri selstöðunni, er greinilega stærst umfangs. Hún hefur verið með fleiri rýmum en hinar, líklega einum fjórum, en það er óalgengt í seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hefur þrjú slík, þ.e. eldhúsið með sérinngangi og búr og svefnaðstöðu með sameiginlegum inngangi. Því, sem hér er lýst, er einungis ályktun út frá því sem sést á yfirborðinu, en ef grafið yrði í rústirnar gæti ýmislegt annað komið í ljós, s.s. tengsl einstakra rýma innbyrðis. Stekkirnir eru svipaðir að gerð, tvö hólf. Þó má sjá móta fyrir bogadreginni hleðslu við endann á vestasta stekknum. Hlaðin kví er skammt norðan við selstæðið. Líklega höfðu flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað.“ Selið nær yfir svæði sem er um 115×100 m að stærð og snýr norður-suður. Það skiptist í þrjú svæði og verður hverju þeirra lýst fyrir sig. Svæði 1 er vestast og á því eru fjórar tóftir.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Tóft A er stærsta tóftin í öllu selinu. Hún er um 16x14m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hún skiptist í sjö hólf. Í greinilegri hluta tóftarinnar til norðvesturs eru fimm hólf. Inngangur inn í þennan hluta tóftarinnar er úr norðaustri. Um 4 m löng göng eru frá inngangi til suðvesturs í innsta hólfið, hólf I. Það er um 2,5 x1 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Framan við það til austurs er hólf III sem er um 2,5×1 m að innanmáli, op er 138 á því til norðvesturs. Beint á móti því til norðvesturs er hólf II sem er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr suðvestur-norðaustur. Op er á því til suðausturs. Norðaustan við hólf III er hólf IV sem er um 2×0,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Op er á því til norðvesturs. Norðaustan við það er hólf V sem er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Op er á því til norðausturs út úr tóftinni, en ekki er gengt úr því í önnur hólf tóftarinnar. Í suðausturenda tóftarinnar eru 2 ógreinileg hólf. Í austurhorni er hólf VI sem er um 2×2 m að innanmáli. Op er á því til suðvesturs.

Knarranessel

Knarrarnessel.

Suðvestan við það er hólf VII sem er um 2×2,5 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op virðist vera á því til suðvesturs og suðausturs. Mesta hæð tóftar er um 1,5 m. Hún er gróin en grjót sést á nokkrum stöðum í innanverðum hleðslum. Ekki er þó hægt að greina fjölda umfara. Tóft B er um 6 m ANA við tóft A, fast suðvestan við hólrana. Hún er gróin og einföld. Op er á henni til NNV. Hún er um 4×5 m að stærð, snýr NNV-SSA. Mesta hæð er um 1 m. Tóft C, stekkur, er um 20 m norðvestan við tóft A. Hún er grjóthlaðin og tvískipt. Hún er um 5,5×3 m að stærð, snýr SSA-NNV. Hólf I er í SSA-enda tóftar og er um 2×1,5 m að stærð, snýr NNV-SSA. Hólf II er ógreinilegt og veggir mjög signir. Það er um 1,5×2 m og snýr eins og tóft. Ekki sjást skýr op á hólfunum. Mesta hæð er um 0,4 m og mest sjást 2 umför af hleðslu.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Tóft D, stekkur, er um 16 m sunnan við tóft A. Hún er grjóthlaðin og tvískipt. Hún er um 5×3 m að stærð og snýr VNV-ASA. Hólf I er um 1,5×1,5 að innanmáli, op er á því til NNA. Hólf II er ógreinilegra, er um 2,5×1 m að innanmáli, op er á því til NNA. Mesta hæð er um 0,7 m og sjást 3 umför hleðslu. Ógreinilegt hólf er mögulega SSV við hólf I sem er um 0,5 x1 m að innanmáli, snýr eins og tóft VNV-ASA.
Ætla má að þessu seli hafi aðeins tilheyrt einn stekkur en ekki er augljóst hvaða stekkur tilheyrði hvaða seli. Svæði 2 er um 30 m norðaustan við svæði 1. Þar eru fimm mannvirki. Tóft F er í norðausturhorni þessa svæðis. Hún er þrískipt, er um 8×7 m að stærð, snýr norður-suður. Hólf I er í suðvesturhorni tóftarinnar. Það er greinilegast og er um 2×1 m að innanmáli, op er á því til austurs. Fast austan (suðaustan) við það er hólf III. Það er um 2×1,5 m að innanmáli og snýr ANA-VSV. Veggir þess eru lágir og grónir og ekki sést greinilegt op inn í það.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Hólf II er fast norðan við hólf I. Það er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á því til norðurs. Veggir þess eru fremur lágir. Aðeins sést í grjóthleðslur í hólfi I og eru hæstu veggir um 1 m, ekki sést fjöldi umfara í hleðslum. Um 2 m vestan við tóft F er tóft E. Hún stendur nokkuð hátt á lágum hól sem kann að vera náttúrulegur að einhverju leyti. Tóftin er tvískipt, er um 6,5×6,5 m að stærð. Hólf I er í austurhluta tóftar sem er L laga. Hólfið er um 3×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Inngangur er úr vestri.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Hólf II er fast suðvestan við hólf I, er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á því til norðurs. Mesta hæð veggja er um 1 m og sjást 2 umför hleðslu. Tóftin er grjóthlaðin en nokkuð gróin. Á hólnum vestan við tóftina er mjög þýft og grýtt undir sverði en ekki er hægt að sjá skýrar útlínur mannvirkja. Líklegt er þó að fleiri mannvirki séu á þessum stað. Tóft G er um 15 m sunnan við tóft E. Hún er orðin nokkuð sigin og stendur lágt. Hún er um 5×6 m að stærð, snýr norður-suður. Tóftin skiptist í 3 hólf að því er virðist.

Knarranessel

Knarrarnessel.

Hólf I er greinilegast. Það er í vesturhluta tóftar og er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á því til vesturs. Hólf II er í suðausturhorni tóftarinnar. Það er ógreinilegt, er um 0,5 m í þvermál að innanmáli. Op er á því til austurs. Mögulega hefur verið gengt á milli þess og hólfs III en það er óljóst. Hólf III er fast norðan við hólf II og er einnig um 0,5 m í þvermál að innanmáli. Ekki sést skýrt op inn í það. Dálítill sléttaður blettur er fast norðaustan við tóftina. Hann er um 3×3 m að stærð. Tóft H er um 15 m suðaustan við tóft G. Hún er uppi á hólrana. Hún er grjóthlaðin og skiptist í þrjú hólf; tvö skýr hólf og eitt óskýrt. Alls er tóftin um 7,5×6 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Hólf I er um 2,5×4 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. op er á því til suðausturs.
Hólf II er í norðurhorni tóftar. Svo virðist sem gengt hafi verið á milli hólfa I og II. Hólf II er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr suðvestur-norðaustur.
Hólf III er í suðurhorni tóftarinnar. Það hefur gróna veggi og ekki sést í neitt grjót í þeim. Það er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ekki sést op á þessu hólfi. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m og mest sjást 3 umför. Um 5 m suðvestan við tóft H er hringlaga dæld I sem er um 6 m í þvermál og 0,2-0,5 m djúp. Mikið þýfi er í dældinni. Hlutverk hennar er óljóst.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið neðan selsstöðunnar.

Tóft J er um 50 m austan við tóft F. Hún er á sléttri klöpp í jaðri selstæðisins, einföld og grjóthlaðin. Tóftin er um 4×3 m að stærð, snýr austur-vestur. Nokkuð skýrt op er í suðvesturhorni en óljóst op er í norðausturhorni, líklega rof. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m og sjást 2 umför. Tóft G á svæði 2 er greinilega mun eldri en önnur mannvirki á svæðinu, a.m.k. tóftir E og F. Ef til vill hefur selið verið endurbyggt á nýjum stað innan sama seltúns. Hlutverk tóftar J er óljóst. Ekki er ólíklegt að hlutverk hennar hafi verið stekkur og sem var ef til vill hlaðinn þegar selið var endurbyggt. Hún er hins vegar einföld ólíkt hinum stekkjunum á svæðinu.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Á svæði 3 eru þrjár tóftir og ein varða. Varða K er í VSV-enda svæðisins. Hún er um 1×0,5 m að grunnfleti og um 0,5 m á hæð. Hún snýr austur-vestur. Í henni sjást fjögur umför hleðslu. Tóft L er í ANA-enda svæðisins. Hún er á lágum hól í nokkuð stóru og flatlendu seltúni. Tóftin er grjóthlaðin en gróin og skiptist í tvö hólf. Hún er L laga, er um 6×5 m að stærð og snýr VSV-ANA. Hólf I er um 3×1 m að innanmáli, snýr NNV-SSA. Op er á því til ANA.

Hólf II er um 2×1 m að innanmáli og snýr ANA-VSV. Op er á því til NNV. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 1m og sjást 3 umför hleðslu í innanverðum veggjum. Um 4 m VSV við tóft L er tóft M. Hún er reyndar tvær tóftir en á milli þeirra er grjóthleðsla sem tengir þær saman og því eru þær skráðar saman. Alls eru tóftirnar á svæði sem er um 10×10 m að stærð.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – nálægt selsvatnsstæðið.

Austast á svæðinu er tóft sem er 5×5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Tóftin er gróin en þó sést í einn stein við inngang í hana sem er úr norðri. Hólf I er í suðurenda tóftarinnar. Það er um 1,5×0,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Op er á því til norðurs. Hólf II er afar óljóst, er um 1×0,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Op er á því til austurs. Fast vestan við tóftina er dálítil þúst sem er um 3×3 m að stærð og um 0,2 m á hæð. Mögulega eru mannvistarleifar þar undir sverði. Frá norðvesturhorni þessarar tóftar liggur um 4 m löng grjóthleðsla að annarri tóft sem er um 4×4,5 m að stærð og snýr NNV-SSA. Hún er einföld og op er á henni til ANA. Aðeins sést glitta í grjót á einum stað í tóftinni en annars er hún gróin. Mesta veggjahæð í tóftinni er um 1 m. Að lokum er ógreinileg tóft N um 2 m sunnan við tóft M, norðaustan undir lítilli brekku. Tóftin er gróin og einföld. Hún er um 3×2 m að stærð, snýr ANA-VSV. Inngangur í tóftina úr ANA er skýr en mjór. Mesta hæð hennar er um 0,5 m. Tóftir M og N eru mun fornlegri en tóft L og svo virðist sem selið hafi verið endurbyggt á nýjum stað innan sama selstæðis. Ekki er skráður stekkur innan þessa svæðis en líklegast er að stekkir D eða H hafi tilheyrt þessu seli. Ekki hafa fundist heimildir um það hvaða bær átti hvaða selstæði.“

Oddafellssel

Oddafellssel

Oddafellssel – teikning.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt.“ „Gamall götuslóði eða stígur liggur frá Oddafelli, og fer hann út á hraunið spölkorn vestur með fellinu, frá norðurenda þess vestur yfir hraunið í átt að Keili, og er nefnt Höskuldarvallastígur. Örskammt með fellinu að vestan við hraunbrúnina eru gamlar vegghleðslur. Þar var haft í seli frá Minni-Vatnsleysu,“ segir í örnefnaskrá. Selið er um 9,3 km suðaustan við bæ. Minjarnar eru á mörkum úfins mosagróins hrauns og grösugra hlíða Oddafells sem þó eru uppblásnar á köflum.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Næst skoðum við tóftirnar af Oddafellsseli sem var frá Minni-Vatnsleysu en það liggur í vesturrótum fellsins skammt fyrir sunnan Höskuldarvallastíginn (sjá síðar) þar sem hann beygir út í apalhraunið til vesturs. Þar sjást tvær-þrjár tóftir og einnig kvíahleðslur í hraunjaðrinum rétt sunnan við selið.“

Tóftir sem tilheyrt hafa selinu eru á svæði sem er um 170×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í lýsingunni sem fylgir hér á eftir er hverju mannvirki gefinn bókstafur til aðgreiningar.

Oddafellsel

Oddafellssel I – teikning.

Annars vegar eru tóftir A-F suðvestast á svæðinu og hins vegar eru tóftir G-H norðaustast á svæðinu. Lýsingin hefst suðvestast á minjasvæðinu. Þar er þúst F sem er um 7×3 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hún er grasi gróin en það finnst fyrir grjóti undir sverði. Hún er um 0,3 m á hæð. Þústin skiptist óljóst í tvo hluta. Í norðausturenda er hluti I um 3×2 m að stærð, snýr nálega norður-suður. Í suðvesturenda er hluti II sem er um 3×4 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Tóft E er um 11 m norðaustan við þúst F. Hún er tvískipt, er um 8×5 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin er grjóthlaðin og í norðvesturhluta hennar er hólf I hlaðið fast við hraunvegginn sem myndar að hluta innri veggi þess. Hólfið er um 4×2 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Op er úr því til suðurs. Hólf II er um 7×2 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur, op til suðvesturs. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 1 m en víðast eru hleðslur fallnar og eru 0,2-0,5 m á hæð. Mest sjást 4 umför hleðslu. Frá norðurhorni tóftar liggur hleðsla til norðausturs og beygir svo til norðurs. Er um 4 m á lengd, 0,5 m á hæð og 0,3 m á Oddafellssel. 3 umför sjást í hleðslunni.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Á milli þústar F og tóftar E er grjóthleðsla í hraunbrúninni sem er um 3 m á lengd og um 0,5 m á hæð og breidd. Snýr norðaustur-suðvestur. Mest sjást 3-4 umför en ekki er um stæðilega hleðslu að ræða. Fast norðaustan við tóft E er þúst D. Hún er um 10×4 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Þústin er útflött og hlaupin í þúfur, er um 0,2 m á hæð. Undir sverði finnst fyrir grjóti. Fast norðaustan við þústina er hellisskúti C. Mikið hefur hrunið ofan í hann af grjóti. Líklega hafa verið hleðslur fyrir munna skútans en þær eru grónar og hrundar. Munni skútans er um 3 m á breidd og 1 m á hæð. Hellisskútinn er um 2 m á breidd og 5 m á lengd innanmáls. Mesta lofthæð er um 2 m. Um 2 m norðaustan við hellisskúta C er tóft B sem er mjög sigin og gróin, er um 7×3 m að stærð. Grjót sést í veggjum tóftar sem eru hæstir um 0,3 m á hæð í suðvesturenda. Tóftin er einföld, um 1×5 m að innanmáli. Ekki sést inngangur í tóftina. Tóft A er fast norðaustan við tóft B. Tóftin er um 15×4 m að stærð, snýr norður-suður. Hún er hlaðin úr grjóti upp við apalhraunið og skiptist í fjögur hólf.

Oddafellssel

Oddafellssel norðanverð.

Syðst í tóftinni er hólf I sem er um 4×3 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á því í norðurhorni. Þetta hólf sker sig aðeins frá öðrum hlutum tóftarinnar að því leyti að það snýr ekki norður-suður eins og hin hólfin og hún er einnig mosagrónari en þau. Veggir þess eru um 0,4 m á hæð og sjást 2 umför hleðslu í því. Fast norðan við hólf I er hólf II sem er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr norður-suður. Mögulegt op er í suðurenda þess, samanfallið. Norðurveggur þess stendur vel, er um 1,2 m á hæð innanmáls og eru 6 umför sýnileg. Hólf III er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr Oddafellssel 073, tóftir G og H austur-vestur. Óljóst op er í norðausturhorni. Hólf IV er um 1×3 m að innanmáli. Hleðslur eru signar og grónar.

Oddafellssel

Oddafellssel – tóft.

Mögulega var op í norðausturhorni hólfsins en það er óljóst. Um 110 m norðaustan við tóft A er tóft G fast suðaustan við Höskuldarvallastíg, á milli grasi gróinnar brekku Oddafells og mosagróins hrauns. Hér er mun opnara svæði en þar sem tóftir A-F eru og hlíðar Oddafells ekki eins brattar. Tóft G er grjóthlaðin en mjög sigin og gróin. Hún er einföld, snýr ASA-VNV. Mesta hæð veggja er um 0,3 m. NNA-veggur er ógreinilegur og ytri mörk hans sjást illa. Tóft H er um 3 m norðan við tóft G. Hún er óljós en í henni má greina tvö hólf. Tóftin er um 6×3 m að stærð og snýr NA-SV. Hún er útflött og er aðeins 0,1-0,2 m á hæð, líklega torf- og grjóthlaðin. Tóftin er hlaðin upp við lága hraunbrún. Hólf I er um 1,5 m í þvermál innanmáls og ógreinilegt op úr því til suðausturs. Hólf II er í suðvesturenda og er um 1,5×0,5 m að innanmáli, snýr suðaustur-norðvestur. Óljóst op er úr því til suðvesturs. Hólf II er um 0,3 m á dýpt en hólf I er litlu grynnra. Þessar tvær tóftir tilheyra að líkindum selinu þó að þær séu spöl frá tóftum A-F. Ljóst er að minjarnar eru frá fleiru en einu tímabili og eru þústir F og D allfornlegar en tóft A virðist mun yngri. Frekari rannsókn myndi varpa ljósi á aldur minjanna og breytingar á notkun selsins í gegnum tíðina.“

Rauðhólssel

Rauðhólssel

Rauðhólssel – teikning.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólasel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti.“ „Grasi gróinn halli eða lægt er vestan undir Rauðhól. Þar eru gamlar rústir eftir kofa og fjárrétt. Þar var haft í seli frá Stóru-Vatnsleysu, og heitir þar Rauðhólssel,“ segir í örnefnaskrá. Minjarnar eru um 6,5 km suðaustan við bæ.
Tóftirnar eru á litlu mosavöxnu seltúni vestan við Rauðhól. „Selið er í litlum Hvammi milli brunahóla. Seltún er þarna lítið. Tættur eftir byggingar eru hér líka. Aðalselið hefur verið undir Rauðhól- Nyrðri en fyrir botni er Stóri-Rauðhóll og norðan undir honum eru Kvíarnar og Réttin. Kvíarnar eru hringbyggðar eins og Borg, en Réttin er aflöng, sporöskjulöguð. Þarna var haft í seli fram um sextándu helgi [svo]. Þá gerðist svo magnaður draugagangur, að ekki varð við vært. Við austurenda Stóra-Rauðhóls hefur hraunið runnið niður brekku og þar hefur það myndað Sjálfkvíar eða djúpa laut, sem var hin ágætasta kví,“ segir í örnefnaskrá.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Á heimasíðu Ferlirs segir: „Ofarlega í heiðinni eru nokkrir grónir rauðamelshólar. Rauðhólar standa við vesturjarðar Afstapahrauns, en í kring um þá að hluta hefur hraunið runnið. Þetta eru fjórir hólar eða hæðir og tveir sem standa fjærst hrauninu heita Stóri-Rauðhóll eða Rauðhóll og Litli-Rauðhóll, sem stendur neðan hans. Undir þessum hólum að Rauðhólasel. Það var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsból [svo].
Aðalbláberjalyng er mjög sjaldgæf [svo] jurt í hreppslandinu, en við hólana má sjá það teygja sig upp úr þröngum gjám.“

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ein tóft og ein þúst sjást í seltúninu á svæði sem er um 35×15 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Tóft A er norðvestast á svæðinu. Hún er um 10×8 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er þrískipt, torf- og grjóthlaðin. Hólf I stærst og er í suðurenda tóftarinnar. Það er um 3,5×2 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er inn í það á austurhlið. Úr hólfi I er gengið inn í hólf II til norður sem það hólf er mjög samansigið og óskýrt, sem og opið milli hólfanna. Hólf II er um 1 m í þvermál innanmáls. Hólf III er í norðausturhluta tóftarinnar. Það er um 3,5×0,5 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op inn í það er á suðurgafli. Mesta hleðsluhæð tóftarinnar er um 0,6 m. Ekki sést fjöldi umfara í hleðslum. Þúst B er um 4,5×8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þústin er gróin en hefur líklega verið torf- og grjóthlaðin. Hvorki sést móta fyrir hólfum í þústinni né opi. Þústin er við jaðar seltúnsins og lækkar landið norðaustan við hana. Mesta hæð hennar er 0,3 m.“

Flekkuvíkursel II

Flekkavíkursel

Flekkuvíkusel II – teikning.

“ Lítið sel er um 185 m norðaustan við Flekkuvíkursel og 3 km SSA við bæ 001. Heimildumber ekki saman um hvað ásarnir heita í kringum Flekkuvíkursel en það skiptir miklu máli í þessu tilviki því landamerki Flekkuvíkur á móti Kálfatjörn annarsvegar og Vatnsleysu hins vegar liggja um ása sitt hvorum megin við selið. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir er aðeins talað um Vestari- og Nyrðri-Flekkuvíkurselás eins og gert er í landamerkjalýsingu. Í lýsingum af staðsetningu selsins í sömu heimild er talað um að Selásvarða sé á Vesturásnum. Í örnefnaskrá Flekkuvíkur er hins vegar talað um Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás. Og samkvæmt sömu heimild er Selásvarðan á Mið-Selás.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – tóft.

Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Mið-Selás er suðaustan við Flekkuvíkusel og á honum er stór varða sem að öllum líkindum er Selásvarða en tvær vörður eru á Selásnum vestari sem er vestan við Flekkuvíkursel. Selið sem hér er skráð er á mörkum Vatnsleysu og Flekkuvíkur. Óvíst er hver tengslin eru milli seljanna tveggja en selið í landi Vatnsleysu virðist vera eldra en Flekkuvíkursel og því tilheyra færri sýnilegar rústir. Selið kann að hafa verið frá Vatnsleysu eða eldra sel frá Flekkuvík þó að selstæði Flekkuvíkursels sé mun ákjósanlegra eins og aðstæður eru nú.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Selið er í allgrónu hrauni norðan undir Nyrðri-Flekkuvíkurselási eða Selás eystri. Þar er lítið gróðurlendi og flagmóar eru nærri tóftunum og ógna þeim.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.“ Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um Sel á Reykjanesskaga segir: „Í selinu [Flekkuvíkurseli] sjálfu má vel greina 8 tóttir. Líklega hafa selstöðurnar verið a.m.k. tvær. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóftir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús. Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920).“

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Minjar um selið eru á svæði sem er um 95×85 m að stærð og snýr VNV-ASA. Á svæðinu eru þrjár tóftir, vatnsstæði og varða. Í lýsingunni sem hér fylgir á eftir er hverju mannvirki gefinn bókstafur til aðgreiningar. Seltóftin A er í lítilli gróinni kvos norðan Nyrðri-Flekkuvíkurseláss. Tóftin er þrískipt og er um 6 x 7 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin liggur í hálfhring og er hólf II í horninu. Það er um 1,5 x 1 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur eiins og hólf III sem er norðaustan við það og er jafnstórt. Hólf I er norðvestan við II. Það er um 1 x 0,5 m að innanmáli. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Í hólfum I og II sést í grjót í veggjum. Op er inn í hólf II og III úr norðvestri og inn í hólf I úr norðaustri. Um 12 m norðan við tóft A er ógreinileg grjóthlaðin tóft B sem stendur nokkuð hátt. Hún er einföld, um 5 x 6 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Hæð tóftar er um 1 m en ekki er ljóst hvort hún er hlaðin að öllu leyti eða hvort hún stendur á lítilli hæð eða klöpp. Í báðum endum tóftarinnar eru veggjabrot úr grjóti og dálítil lægð á milli þeirra, snýr norðvestur-suðaustur. Tóftin er mosa og lyngi vaxin en víða sést í grjót. Í grasi grónum bala eða laut er lítil grjóthlaðin tóft, líklega það sem sum staðar er nefnt kví eða stekkur C upp við hraunhellubrún. Tóftin er um 90 m vestan við A og B. Hún snýr suðvestur-norðaustur og er 9×2 m að stærð. Tóftin skiptist í 5 hólf sem öll eru svipuð að stærð, 1-1,5 x 1-1,5 m. Mesta hleðsluhæð er um 1 m en hleðslur víðast hrundar.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – vatnsstæði.

Á milli selstæðanna tveggja, um 60 m suðvestan við tóft A er vatnsstæði D uppi á gróðurlausu holtinu á klapparhellu. Dálítill bolli er ofan í helluna, um 0,6 x 0,4 m stór, snýr norðaustur-suðvestur og er um 0,2 m á dýpt en mold er í botninum. Norðvestan við bollann er dálítill gróðurblettur með mosa, lyngi og grasi, og þar næst bollanum mótar fyrir grjóthleðslu undir gróðri, liggur meðfram bollanum í sömu átt. Fast suðaustan við bollann er lítið vörðubrot E, gróður er undir henni og hún gróin neðst. Hún er um 1×0,8 m, snýr norðaustur-suðvestur, og er um 0,4 m á hæð. Steinar eru mosa- og skófum vaxnir. Varðan hefur vísað á vatnsstæðið. Margar aðrar vörður eru á holtunum umhverfis selstæðin.“

Kolhólasel

Kolhólasel

Kolhólasel – teikning.

„Í graslendinu fast við hólinn eru fimm greinilega afmarkaðar tóftir eða dældir og er sú stærsta 4×3 m. Ekkert grjót sést í tóftunum. Sagnir eru til um kolagrafir þarna, en hólarnir á þessu svæði heita Kolhólar og grasrindarnir Kolhólalágar. Nú er farið að kalla þessar tóftir Kolhólasel en líklega hefur það heitið Vatnsleysusel fyrrum,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í örnefnaskrá segir: „Hér suður í heiðinni Vatnsleysuheiði, var fyrr á tímum sel Vatnsleysusel. Nú munu fáir eða engir vita um þann stað, en nafnið lifir meðal eldri manna.“
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu. Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál. Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli um tíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið. Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um Reykjanesskagann á 19. öld.“

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Seljatóftir eru um 5 km sunnan við bæ og um 1,35 km suðvestan við Gvendarborg. Minjarnar eru í nokkuð flatlendum og grjónum móa innan um hraunhóla sem mynda hring í kringum svæðið, syðst á svæðinu eru minjar undir allháum hól.
Alls eru þrjár tóftir á svæði sem er um 27×18 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í suðvesturenda svæðisins er tóft A. Hún er tvískipt. Tóftin er um 7×4 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf I er í norðausturenda. Það er um 1×3 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Op er á norðvestur-langvegg. Hólf II er upp við brekku og er er suðvesturgafl þess óljós þar sem brekkan myndar vegginn að mestu leyti. Það er um 1×1 m að innanmáli og er op í norðurhorni hólfsins. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,3 m. Allar tóftirnar eru grónar og hvergi sést í grjót. Líklega eru þær torf- og grjóthlaðnar. Tóft B er um 10 m vestan við tóft A. Hún er tvískipt en mögulega er eitt óljóst hólf sem tilheyrir henni að auki. Alls er tóftin 10×7 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hólf I er fast norðvestan við brekku og sést suðausturveggur þess ekki skýrt af þeim sökum. Hólfið er um 3×2 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Op er á hólfinu til norðvesturs.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Hólf II er um 1×3 m að innanmáli og snýr NNA-SSV. Op er á því í SSV-enda, við opið inn í hólf I. Hólf III er afar óskýrt og kann að vera náttúrumyndun. Það er í halla suðaustan við hólf I og er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Mögulega var gengt á milli hólfs I og III í suðurhorni hólfs I en einnig er op í vesturhorni hólfs III. Mesta hleðsluhæð er um 0,3 m. Tóft C er um 2 m norðaustan við tóft B. Það er einföld tóft sem er um 7×5,5 m á stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Op er í norðvesturenda. Suðausturveggur við brekku og er óskýr. Norðvestur-langveggur er 2-3 m á breidd en suðvesturveggur er afar óljós og sést nánast eingöngu innri brún hans. Mesta hleðsluhæð tóftarinnar er 0,5 m.“

Sjá meira undir „Sel á Vatnsleysuströnd III„.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.

Kolhólasel

Í Kolhólaseli.

Gjásel

Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar – Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, fjallar hann um „Selstöður í heiðinni“ – Vogaheiði.

Árni Óla

Árni Óla.

„Seljarústir segja sína sögu um búskaparháttu fyrr á öldum. Landnámsmenn fluttu með sér frá Noregi þann sið að hafa í seli. Og íslenzka bændastéttin var fastheldin á þetta, því að um þúsund ár hafa selin staðið.

Þegar Vatnsleysuströnd byggðist, munu hafa verið mjög góðir hagar í heiðinni. Hver jörð átti þá sitt sel, og sennilega hefir þá verið vatnsból hjá hverju seli. En er gróður gekk til þurrðar, jarðvegur breyttist og uppblástur hófst, þá hverfur vatnið víða. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um 12 selstöður, en viðkvæðið er oftast, að þar sé vatnsskortur til mikils baga, og sum selin sé að leggjast niður þess vegna. Þó er enn haft í seli á flestum eða öllum jörðunum, en sum selin hafa verið færð saman. Selin hafa því upphaflega verið fleiri.
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.

Selhólar

Selhólar.

1. Selhólar heita skammt fyrir ofan Voga. Þar sést fyrir gömlum seltóftabrotum. Vatnsból þess sels hefir verið í Snorrastaðatjörnum.

Nýjasel

Nýjasel.

2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. Þar hafa verið glöggvar seltóftir fram til þessa. (Þegar leitað er Nýjasels verður það ekki auðfundið. Fylgja þarf gjánni  uns komið er að tóftunum, sem eru harla óljósar. Fyrir þá/þau er þekkja til seltófta er þarna þó augljós selstaða, en lítilmátleg hefur hún verið í þá tíð; þrjár litlar tóftir og stekkur – þrátt fyrir allt dæmigerð sem slík á þessu svæði.)

3. Þórusel er skammt austur af Vogum. Er þarna allstórt svæði, sem einu nafni nefndist Þórusel.

Þórusel

Þórusel.

Þar sjást nú engin merki seltófta [sem er reyndar ekki rétt] og ekkert vatnsból er þar nærri. Þjóðsagnir herma, að fyrrum hafi verið stórbýli, þar sem nú heitir Þórusker hjá Vogavík, og hafi þar verið 18 hurðir á járnum.

Þórusel

Þórusel.

Býli þetta var kennt við Þóru þá, er selstaðan dregur nafn af. Þórusker var utan við Vogavíkina og þótti fyrrum vera hafnarbót, enda þótt það kæmi ekki upp fyrr en með hálfföllnum sjó. Alldjúpt sund var milli skersins og lands, en nú er þar kominn hafnargarður, sem tengir skerið við land. Norður af Þóruskeri em 4—5 sker, sem nefnd eru Kotasker, og yfir þau fellur sjór á sama tíma og hann fellur yfir Þórusker. Norðvestur af Þóruskeri eru 2 allstórir boðar, sem nefnast Geldingar. Þar á ábúandi Þóruskers að hafa haft geldinga sína. Geldingarnir koma úr sjó nokkru fyrir stórstraumsfjöru, en í smástraum sjást þeir ekki. Milli þeirra og Þóruskers er fremur stutt sund, sem ekki er bátgengt um stórstraumsfjöru. Á milli Geldinganna er mjótt og djúpt sund og er þar hvítur sandur í botni.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá (Litla-Aragjá er nokkru neðar) og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, en vatn mun þar ekki nærlendis. Túnið var seinast slegið 1917.

Vogasel

Vogasel eldri.

5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum?).

7. Stóruvogasel.

Vogasel

Vogasel yngri.

 Jarðabókinni segir svo um Stóru-Voga: „Selstöðu vissa á jörðin eina nærri, þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.“

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hafa öll þessi sel, sem hér hafa verið talin, verið frá Vogum, færzt til eftir því sem á stóð um vatn og beit. Jarðabókin segir, að Minni-Vogar hafi þá í seli með Stóru-Vogum í Vogaholti. Gera má og ráð fyrir, að hjáleigubændurnir hafi fengið að hafa skepnur sínar þar. Og eftir því sem Jarðabókin telur, hafa þá verið í selinu 21 kýr og 35 ær.

Gjásel

Gjásel.

8. Gjásel er um 3/4 klukkustundar gang frá Brunnastöðum. Þar em glöggar seltóftir, en lítið seltún. Hjá selinu er djúp gjá, nafnlaus. Í gjánni er óþrjótandi vatn, en erfitt að ná því. Benjamín gerir ráð fyrir því, að þar hafi nágrannaselin fengið vatn handa skepnum sínum og til annarra þarfa.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

9. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna em margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. Á Brunnastöðum var stórt bú 1703 og hafa þá verið þar í seli 16 kýr og 34 ær. Þarna eru þó taldir litlir hagar og vatnsskortur tilfinnanlegur þegar þurrkar ganga.
10. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. Í Jarðabókinni segir að hagar sé þar bjarglegir, en vatnsból lélegt „og hefir orðið að flytja úr selinu fyrir vatnsskort“.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

11. Knarrarnessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. Þar eru margar og allglöggar seltóftir. Þar hefir verið sundurdráttarrétt, hlaðin úr grjóti, og sést vel fyrir henni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. í miklum þurrkum hefir vatn þetta þomað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. Ekki er vitað, að mór hafi fundizt annars staðar í allri Strandarheiði.
Það er sízt að undra, þótt selsrústir sé hér meiri en annars staðar, því að 1703 höfðu hér 5 bæir í seli: Stóru-Ásláksstaðir, Litlu-Ásláksstaðir, Litla-Knarrarnes, Stóra-Knarranes og Breiðagerði. Á þessum bæjum öllum voru þá 22 kýr og 45 ær. Réttin mun hafa verið gerð til þess að aðskilja fé bæjanna.

Auðnasel

Auðnasel.

12. Auðnasel er austur af Knarranesseli. Þar em margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. Vatn er þar dálítið í brunnholu, sem ekki lekur. Brunnholan er svo sem metri að þvermáli og er sunnan við háan og brattan klapparhól.

Breiðagerðissel

Í Auðnaseli.

Af hólnum og klöppunum þar um kring rennur rigningavatn í holuna, svo að í vætutíð hefir verið þar nægjanlegt vatn, en í miklum þurrkum þraut vatnið. Vatnsból þetta er ekki í selinu sjálfu, það er norðvestur af því og nokkurn spöl neðar. Munu nú fáir vita, hvar vatnsból þetta er, og varla munu menn rekast á það nema af tilviljun. Sagt er, að Auðnabóndi hafi haft ítak í Knarranesseli, líklega vegna vatnsins þar. Í Auðnaseli munu hafa verið 11 kýr og 32 ær árið 1703.

Kolgrafarholt

Kolgrafarholt.

13. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. Sýnir nafnið, að þar hefir fyrrum verið gert til kola, enda má enn sjá kolgrafir, sem sagðar eru frá Þórustöðum. En allur skógur er horfinn þar 1703, því að þá sækir jörðin kolskóg í Almenninga. Hjá Kolgrafaholti sjást engar seltóftir, en þarna var gerð allstór fjárrétt og gætu seltóftirnar þá hafa horfið. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin (Þórustaðir) þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból svo lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefir því búandinn selstöðu að annarra láni með miklum óhægindum og langt í burtu.“

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

14. Flekkuvíkursel er um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, sem sagt er að nái frá Reykjanesi og í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, með gjárbarminum. Heim að selinu er þröngt einstigi yfir gjárhamarinn. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi og báglegt eldiviðartak.“

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

15. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, undir allháum melhóli, sem nefnist Rauðhóll. Vatn er þar ekkert, en nóg vatn í Kúagerði, og þar mun líka einhvern tíma hafa verið sel.

Oddafellssel

Oddafellssel.

16. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. Þótti þangað bæði langt og erfitt að sækja, en þar voru bjarglegir hagar og vatn nægilegt.

Sogasel

Sogasel

17. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru-Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. Umhverfis seltóftirnar, sem eru greinilegar, og kargaþýft seltúnið er allhá hringmynduð hamragirðing, en lítið op á henni til suðurs. Þar var inngangur að selinu. Þarna er skjól í flestum áttum. Fyrir sunnan selið eru Sog og eftir þeim rennur lítill lækur, sem þó getur þornað í langvarandi þurrki. Ekki er mjög langt frá selinu að Grænavatni, en þar bregzt aldrei vatn. Í þessu seli hafa sennilega verið 15 kýr og 36 ær árið 1703. [Sogasel var selstaða frá Krýsuvík, enda í þess landi, en var látið Kálfatjörn í tímabundið skiptum fyrir uppsátur.]

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

18. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. Þar voru góðir hagar, „en vatnsból brestur til stórmeina“.“

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í framangreinda umfjöllun vantar reyndar nokkrar fyrrum selstöður í heiðinni, s.s. Snorrastaðasel, Kolholtssel, Hólssel, Fornuselin, Hlöðunessel, Selsvallaselin, Hraunssel o.fl.

Heimild:
Strönd og Vogar, Selstöður í heiðinni, Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, Árni Óla, Reykjavík 1961, bls. 242-246.

Ströbnd og Vogar

Strönd og Vogar – Árna Óla.

Gjásel

Haldið var inn á og upp Vogaheiði með það fyrir augum að skoða og rissa upp selin, sem þar eru sunnan Knarrarnessels.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Nýjaselsballi (af sumum í seinni tíð nefndur Níelsbjalli) liggur út úr efstu tveimur Snorrastaðatjörnunum til norðurs. Bjallinn er nokkuð langt grágrýtisholt, sem sker sig svolítið úr umhverfinu, og því í rauninni ekki eiginlegur bjalli. Hann dregur nafn sitt af litlu seli, sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. Þar eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg, sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna. Á efri gjárbarminum þarna rétt við selið eru þrjár „hundaþúfur“ með stuttu millibili. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.
Í Nýjaseli eru þrjár tóftir. Miðtófin er þremur rýmum og er sennilega hluti hennar stekkur eða kví. Tóftirnar sunnan og norðan við hana eru eitt rými hvor, nokkurn veginn jafn stórar. Þarna eru því dæmigerðar selstóftir frá fyrri tíð. Þær eru fremur litlar, en á skjólgóðum stað undir lágum hamrabakkanum, ekki svo langt frá norðurenda Snorrastaðatjarna. Aðskildar tóftirnar, og hversu lítil húsin eru, benda til þess að þara hafi verið kúasel, sem fyrr segir.
Snorrastaðasel er norðvestan tjarnanna. Ein heimild er til um selið sem segir að það hafi verið frá bæjum í Vogum. Í því eru einnig þrjár kofatóftir. Selið er einnig nálægt byggð og við vatn er bendir til að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr. Tóftirnar voru ekki heimsóttar að þessu sinni, en verða rissaðar upp fljótlega.
Huldugjá er næsta gjá ofan við Nýjaselsbjalla. Huldur nefnast svæðið milli Hrafnagjár, sem er næst Reykjanesbrautinni að ofanverðu, og Huldugjár. Tvær skýringar hafa verið gefnar á nafninu. Önnur er sú að vegna þess að Huldur er jarðsig milli Hrafnagjár og Huldugjár (gjáveggirnir snúa andspænis hvor öðrum) er allt á „huldu“ um það sem fjær er, Hitt er þó líklegra að nafnið Huldur komi til af því að austast á svæðinu eru margar litlar, en djúpar sprungur, sem geta verið varasamar ef snjór liggur yfir og því er unnt að tala um „huldar hættur“ á þessum slóðum.
Á Huldugjárbarmi er Pétursborg, fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904), en hann er sagður hafa hlaðið borgina. Hún er sporöskjulöguð og austurveggurinn er hrauninn að mestu. Lengd borgarinnar er 6-7 m, breidd 4-5 m, veggþykkt um 50 cm, hæð um 180 cm og dyr snúa í suðaustur. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárhústóftirnar eru enn nokkuð greinilegar. Grjót hefur verið í útveggjum og sést það vel ó tóftunum. Hleðslurnar gefa vel stærð húsanna til kynna sem og legu þeirra. Efsta tóftin er ofan við borgina og snýr dyraopi til suðausturs. Austasta tóftin snýr dyraopi til suðvesturs og miðtóftin, milli hennar og borgarinnar, virðist hafa snúið dyrum til suðausturs. Allnokkur gróðureyðing er þarna, en tóftarsvæðið hefur haldið sér nokkurn veginn vegna tóftanna.

Norðaustur og upp af Pétursborg, en rétt neðan Litlu-Aragjár, er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru nokkuð heillegar hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu, sem liggur gegnum einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel, enda engar húsarústir sjáanlegar – eða hvað?
Ef vel er að gáð má sjá að þarna gæti hafa verið selstaða um skamman tíma. Hleðslurnar benda til stekks og að öllum líkindum hefur sprungan verið notuð sem skjól, hlaðið til endana og reft yfir. Ólíklegt má telja að selið hafi verið notað um langt skeið.
Næsta gjá fyrir ofan Litlu-Aragjá er Stóra-Aragjá. Þarna er bergveggurinn hæstur. Nefnist hann Arahnúkur. Hann sést vel af Vogastapa og víðar. Undir Arahnúk er Arahnúkssel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðrinn eyddist.
Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn. Þar má sjá tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir. Stór varða er á gjárbarminum skammt sunnan við selið og önnur minni (og nýrri) skammt austar.
Tóftirnar geyma fimm hús með átta til tíu kofa tóftum, sem fyrr segir. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna, sem er nokkurn veginn í beina línu undir veggnum. Eitt húsanna, tvískipt, stendur þá framar, lengra frá veggnum. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór og er líklegt að hann hafi verið samnýttur. Svo er að sjá að þrjú hólf hafi verið í honum, auk safnhólfsins.

Hlöðunessel

Hlöðunessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar er sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Svo virðist sem refurinn lifi þar enn góðu lífi því rjúpufiður á á víð og dreif ofan gjárinnar.
Vogheiði heitir svæðið einu nafni ofan Voga allt frá Gamla-Keflavíkurveginum upp úr og inn að landamörkum grannjarðanna. Vogaholtið er hins vegar á austurmörkum þess.
Í því er Jóhannesarvarða, er vestur undir Holtsgjá, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels. Varðan stendur hátt utan í litlum, en háum, klapparhól. Það eina sem vitað er um Jóhannesarvörðu er að þar hefði maður orðið úti.
Utan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar má sjá þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlega rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel. Norður af selinu er Vogaselsdalsgrenið og inn í „dalnum“ eru þrjú greni sem heita Dalsbotnsgrenin.

Tóftirnar á neðra svæðinu, í jaðri Vogaselsdals, sem nú er að verða jarðvegseyðingunni að bráð, mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það þriðja virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar.
Efri tóftirnar, ofar í holtinu til suðausturs, geyma hús á þremur stöðum. Það nyrsta er tvískipt. Miðhúsið er byggt að hluta til í hól og er erfitt að greina útlínur þess svo vel sé. Efsta tóftin er fast undir háum kletti. Mikið er gróið í kringum hana og er ekki ólíklegt að húsið hafi verið stærra, en virðist. Austan efstu tóftarinnar er hlaðinn tvískiptur stekkur og sést lega hans vel.
Norðan við Gamla-Vogasel er Brunnastaðsel undir Brunnastaðaselsgjá. Um 15. mín. gangur er milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru til um Brunnastaðaselsvatnsstæði ofan ogs unnan selsins, en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.

Nýjasel

Nýjasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr (frá Reykjanesbæ til Voga). Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst bygðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil kví, óskemmd með öllu og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.
Tóftirnar undir hlíðinni, næst gjánni geyma þrjú hús. Tvö þeirra eru tvískipt og virðist kví vera við suðurenda þess efra. Milli þessara húsa er hús með einu rými. Vestan vestasta hússins er stekkur. Ytri tóftirnar eru tvískipt hús og þriðja rýmið er hlaðið reglulega úr grjóti aftan (norðan) við húsið. Lítill hóll er norðaustan við tóftirnar og er hlaðið gerði eða kví vestan undir honum, í skjóli fyrir austanáttinni.
Enn má sjá talsvert grjót í innveggjum húsanna í Brunnastaðaseli. Veggir standa yfirleitt vel og eru u.þ.b. 120 cm á hæð. Kvíin í gjánni er heilleg og hefur varðveist vel.
Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið. Milli Brunnastaðasels og Gamla-Vogasels er Markhóll, sem skiptir löndum Brunnastaða og Voga. Um tvo hóla er að ræða. Sennilega er sá efri (með vörðu á) endamörk, en sá neðri hinn eiginlegi Markhóll. Neðan hans er Markhólsgrenið.
Í Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel er Hemphóll eða Hemphólar, en þar áður fyrr áður smalar úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir. Hemphóllinn er mjög áberandi séður frá Kúagerði og á honum er varða. Heimild frá Grindavík segir hólinn heita Stóruvörðu. Sagt er að prestar Kálfatjarnarsóknar og Staðarsóknar í Grindavík hafi átt sameiginlega hempu og að hún hafi verið sótt á hólinn fyrir messu á hvorum stað og vegna þess sé nafnið Hemphóll tilkomið. Hemphólsvatnsstæðið er lítill mýrarpollur rétt austur af hólnum.

Pétursborg

Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnastaðaselsgjá er efsta gjáin, sem eitthvað kveður að í heiðinni og liggur hún í sveig langt inn úr. Nokkuð inn með gjánni frá Brunnastaðaseli og neðan hennar er Hlöðuneskinn, en aðeins ein heimild er til um þetta örnefni (Jarðabókin 1703). Hlöðuneskinn er nokkuð brött brekka eða brekkur, sem liggja frá gjánni til norðurs og eru þar sundurgrafnar af moldargiljum, sem myndast hafa við framrás vatns.
Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri standa leifar Gamla-Hlöðunessels eða Hlöðunessels. Þar eru tvær gamlar tóftir, en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikil þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðuneskinn sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.
Vestari tóftin virðist hafa verið óskipt hús, sem bendir til þess að hún sé mjög gömul. Austan hennar, samsíða, er tvískiptur stekkur, nokkuð stór.
Enn má sjá móta fyrir grjóthleðslum þátt þær séu nú vel grónar og næstum jarðlægar, líkt og húsatóftin.
Neðan af Vatnsleysustrandarheiði sést vel til Gjásels, austan og sunnan við Knarrarnessel. Síðarnefnda selið er ofan við Klifgjá, en hið fyrrnefnda kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá, stundum nefnd Gjárselsgjá. Óvíst er frá hvaða bæ haft var í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðasels.

Vogasel

Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn, en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs, en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu.
Tóftir húsanna standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum, sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu, en jarðskjálftar á fyrri hluta síðustu aldar hafi eytt þessum eina „fossi“ í hreppnum. Ein heikmild telur líklegt að selin umhverfis Gjásel hafi haft afnot af vatnsbólinu þar en áður fyrr hefur líklega verið vatnsstæði við hvert sel eða tiltölulega stutt frá þeim þó svo þau séu svo til vatnslaus nú.

Um er að ræða fjögur hús í selinu og stekk skammt sunnar. Hann er orðinn nokkuð óljós, en tóftirnar hafa varðveist vel. Húsin er öll í einni röð undir gjárveggnum, sem fyrr segir. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni.

Arahnúkasel

Arahnúkasel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má grjót í innveggjum. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg þegar komið er að henni neðanfrá. Gjáselið er eitt hið fallegasta í heiðinni.
Gjáselsgjá og eins og aðrar gjár í heiðinni opnast þessi og lokast á víxl. Suðvestar er Holtsgjá, sem tengist að einhverju leyti Gjáselsgjá. Frá Gjáseli sést vel yfir til Knarrarnessels norðar í heiðinni.
Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Hún sæist ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.
Í rauninni ætti óvant göngufólk ekki að fara eitt um Vogaheiðina – allra síst að vetrarlagi er snjór þekur jörð – því víða leynast sprungur og djúpar gjár opinberast oft skyndilega framundan, án minnsta fyrirvara. Það er a.m.k. mikilvægt að vera vel vakandi á göngum á þessu svæði. Þarna eru augun mikilvægasta skilningavitið.
Frábært veður. Fuglasöngur í heiði. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.

Brunnastadassel-202

Brunnastaðasel.