Tag Archive for: höfuðborgarsvæðið

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Eldvirkni á nútíma á Reykjanesskaga“ í rit um Skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins árið 1981:

SkiplagsmálÍ inngangi segir m.a.: „Við allt nútíma skipulag og áætlanagerð og þá ákvarðanatöku sem því er tengd er aðgangur að og notkun ákveðinna upplýsinga algert grundvallaratriði. Einn mikilvægasti lærdómur sem við getum dregið af skipulagsstarfi liðinna áratuga er einnig sá, að ráðast ekki í að leysa vandamál fyrr en við vitum nokkurn veginn hvort um sé að ræða vandamál eða ekki – og hvert það sé. Við lifum einnig á tímum mikilla breytinga og því þurfa þeir sem fara með þessi mál einnig að fá sem fyrst upplýsingar um þá þætti sem eru að breytast, hvar þessar breytingar eru að eiga sér stað og hve miklar þær eru, til þess að sem fyrst sé hægt að gera nauðsynlegar breytingar og þá hugsanlega endurskoða skipulagið.“

Eldvirkni á nútíma á Reykjanesskaga

Reykjanesskagi - jarðfræði

Kort Jóns Jónssonar.

„Á Reykjanesskaga hefur á nútíma verið mikil eldvirkni, enda er skaginn hluti af sjálfu gosbeltinu, sem liggur um landið þvert. Þegar talað er um nútíma í jarðfræðilegu samhengi er átt við tímann, sem hann er frá því að jökla síðasta kuldaskeiðs leysti af landinu, en talið er að svo hafi orðið fyrir um 10.000 – 12.000 árum.
Í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafa orðið allmörg gos á þessu tímabili og nokkur á þeim tíma, sem telst sögulegur, eða eftir að norrænt landnám hófst hér árið 874.
Aldursákvarðanir með svo nefndri geislakolsaðferð eða C*4- aðferð hafa gert mögulegt að finna aldur einstakra jarðlaga, sem innihalda gróðurleifar. Á þann hátt má finna aldur hrauns, takist að ná í leifar gróðurs, sem það hefur runnið yfir, en gróðurinn við það kolast, orðið að viðar- mó- eða mosakolum.
Á sama hátt má og finna aldur öskulaga í jarðvegi en þau má síðan oft rekja yfir stór svæði.
Verða nú talin nokkur eldgos, sem orðið hafa á höfuðborgarsvæðinu á umliðnum öldum og sem hafa verið aldursákvörðuð eftir þessum leiðum.

Búrfellshraun við Hafnarfjörð (H-105)

Hraunflæði

Búrfellshraun.

Upptök þessa hrauns er í einstökum gíg, Búrfelli, norðaustur af Kaldárbotnum um 7 km austan við Hafnarfjörð. Það hefur runnið í tveim megin kvíslum allt í sjó út í Hafnarfjörð og sunnanverðan Arnarnesvog. Auk þess hverfur hluti af því inn undir yngri hraun vestur af Kaldárseli. Aldur þessa hrauns er um 7.200 C14 ár (7.240 +_ 130 Cl4 ár). Meginbyggð Hafnarfjarðarbæjar stendur á þessu hrauni.

Leitahraun (D-25)

Hraunflæði

Leitarhraun.

Upptök þessa hrauns er austanundir Bláfjöllum í gíg, sem nefndur er Leitin. Það hefur runnið i mjóum taumum niður um Sandskeið, Fossvelli og alla leið út í Elliðavog. Í þessu hrauni eru Rauðhólar við Elliáavatn. Aldur Leitahrauns er um 4.600 ár (4.630 +_ 90 C^4 ár) . Hólmshraunin fimm (H-156, D-24, H-155, H-153, H-150). Mikill hraunabunki er suður af Elliðavatni og Heiðmörk, og meðal þeirra eru fimm mismunandi hraunstraumar, sem komið hafa frá eldvörpum á svæðinu vestan við Bláfjöll, hlaðist hafa hvert ofan á annað og náð út á Leitahraun. Þau eru því öll yngri en það, þ.e. yngri en 4.600 ára það elsta þessara hrauna hefur náð langleiðina þvert yfir Leitahraun vestan við Hólm. Yngst í þessum hraunbunka er hrauntunga, sem fallið hefur austur með Selgjalli að norðan og niður í Lækjarbotna. Þykir næsta líklegt að hraun það sé frá sögulegum tíma, en komið er það úr Eldborg við Bláfjöll.

Óbrinnishólar (H-99)

Hraunflæði

Óbrinnishólahraun.

Óbrinnishólar vestan undir Undirhlíðum hafa gosið tvisvar og hefur a.m.k. yngra hraunið runnið í sjó út þar sem nú er álverið. Fjórar aldursákvarðanir á því gáfu um 2.140 ár (2.142 +_ 77 cl4 ár) .

Nýjahraun (Kapelluhraun) (H-97)
Þetta hraun er komið úr gígaröð eða gígaröðum vestan við Undirhliðar og Vatnsskarð. Af upprunanlegu nafni þess, sem hér er notað er ljóst að það er frá sögulegum tíma. Hraunið hefur runnið í sjó út við Straumsvík og stendur álverið í heild nú á því þar. Aldur þess er um 910 ár (910 +_ 56 C14 ár).

Gvendarselshraun (H-103)

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Þetta hraun er komið úr gígum, sem byggst hafa upp á misgengi því, sem liggur um Búrfell, Helgadal og Undirhlíðar. Gígaröðin er austan í Gvendarselshæð beint vestur af Helgafelli. Hraunið er lítið, nær aðeins yfir svæðið vestan við Helgafell og lítið eitt vestur fyrir Kaldársel. Aldur þess er 875 ár (875 + 75 Cl4 ár).

Tvíbollahraun (H-139)

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Eins og nafnið bendir til er hraun þetta komið úr gígum tveim, sem samvaxnir eru og standa á hálendisbrúninni við Grindaskörð. Hraunið hefur fallið norður og hverfur undir Gvendarselshraun við vesturenda Helgafells. Aldur þess er um 1.075 ár (1.075 +_ 60 C^4 ár) .

Breiðadalshraun (H-129)
Þetta hraun hefur komið upp í Brennisteinsfjöllum og runnið bæði norður og suður af. Að norðan hefur það endað í Breiðdal austan undir Undirhlíðum. Aldur er um 1.040 ár (1.040 +_ 75 C*4 ár). Kolaðar viðarleifar undir þessu hrauni liggja í landnámslaginu, sem áður hefur verið talið vera frá því um 900.

Rjúpnadyngnahraun (H-154)
HúsfellsbruniÞetta hraun er komið úr Rjúpnadyngjum beint suður af Heiðmörk. Það hefur fallið norðvestur og endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell. Það fellur út á Tvíbollahraun og er því yngra en það. Undir því er landnáms lagið en ofan á svart öskulag frá Kötlu, sem fallið hefur um eða laust fyrir 1500 (1485, 1495). Þarna hefur því gosið einhvern tíma á þessu tímabili.

Kóngsfellshraun (H-149)
Þetta hraun er komið úr gígaröð vestan við Stóra Kóngsfell. Það hefur runnið báðum megin við fellið og svo norður. Það hefur runnið út á Rjúpnadyngnahraun og er því yngra en það. Meira er ekki um aldur þess vitað nú.
HúsfellsbruniLíklegt sýnist að Eldborg við Bláfjöll hafi gosið um líkt leiti og síðast talin eldvörp, en sannanir fyrir þvi vantar. Þau ártöl, sem hér eru gefin upp eru öll miðuð við 1950, þ.e. talin fyrir það ár.
Því má bæta hér við að mörg hraun á þessu svæði eru óbeint aldursákvörðuð, þ.e. lágmarksaldur þeirra er þekktur af því að þau hafa runnið yfir aldursákvörðuð hraun og eru því yngri. – Jón Jónsson, jarðfræðingur

Heimild:
-Skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins, 4. tbl., 2. árg. desember 1981, „Eldvirkni á nútíma á Reykjanesskaga“, Jón Jónsson, bls. 19-20.

Reykjanesskagi - jarðfræðikort.

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; Jón Jónsson.

Eldgos

Sunna Ósk Logadóttir skrifaði þann 20. janúar 2024 í Heimildina (heimildin.is) um „Krýsuvík er komin í gang“:

Reykjaneseldar„Í ljósi sögunnar má ætla að eldgosin verði stærri og fleiri eldstöðvakerfi vakna þegar líða tekur á það gostímabil sem nú er hafið á Reykjanesskaga. Hraunrennsli og sprunguhreyfingar munu þá ógna íbúabyggð og innviðum á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er náttúrlega háalvarlegt,“ segir eldfjallafræðingur.

„Við erum ekki í miðjum atburði, við erum í upphafi atburðar,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um Reykjaneseldana sem nú eru hafnir „alveg á fullu“. Þetta gostímabil gæti staðið í áratugi – jafnvel árhundruð. Í ljósi sögunnar má gera ráð fyrir að fleiri eldstöðvakerfi á Reykjanesinu láti til sín taka. Þau eru sex talsins og í tveimur þeirra hefur þegar gosið og tvö til viðbótar hafa rumskað og tekið þátt í atburðarásinni án þess að gjósa.

Ármann Höskuldsson

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur.

Þá er einnig líklegt, „svona ef maður horfir til fortíðar,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, „að gos muni frekar aukast eftir því sem líður á þessa atburðarás“. Það sýni til dæmis reynslan frá Kröflueldum. Gosin hafi verið lítil til að byrja með en skjálftarnir hins vegar miklir. „En síðan snerist þetta við,“ segir hann. „Eftir því sem á leið þá urðu skjálftarnir alltaf minni og minni en gosin stærri og stærri. Þannig að ef þetta dregst á langinn þá er mjög líklegt að það fari yfir í það.“

Á síðasta gostímabili gaus í öllum eldstöðvakerfum Reykjanesskagans, nema í því sem kennt er við Fagradalsfjall. „Það gaus á Reykjanesi. Það gaus í Svartsengi. Það gaus í Krýsuvík og það gaus í Brennisteinsfjöllum,“ segir Páll.

Í dvala í átta aldir

Eldgos

Geldingadalur; eldgos 2021.

Þegar eldgos hófst í Fagradalsfjalli í mars 2021 höfðu slíkir atburðir ekki átt sér stað á Reykjanesskaga í um 780 ár eða frá því á Sturlungaöld. Um 6.000 ár höfðu þá líklega liðið frá síðasta gosi í Fagradalsfjallskerfinu. Næstu tvö gos, í Meradölum 2022 og við Litla-Hrút 2023, urðu einnig í því kerfi en það fjórða sem varð norðan Sundhnúk í desember síðastliðnum varð í Svartsengiskerfinu, sem stundum er einnig kennt við Eldvörp. Sömu sögu má segja um það sem varð nú í janúar. Ekki hafði gosið í Sundhnúkagígaröðinni í líklega 2.400 ár.

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Síðasta goshrina á skaganum varð í vestari kerfunum og varði í þrjátíu ár. Hún var kölluð Reykjaneseldar og var jafnframt lokahrinan í löngu eldsumbrotatímabili sem stóð yfir í tæpar þrjár aldir, allt frá því um 950 og til 1240.

Almennt er talið að síðasta gostímabil á Reykjanesskaga hafi hafist á Hengilssvæðinu sem stundum er þó undanskilið kerfum skagans. Þar næst gaus í kerfi sem kennt er við Brennisteinsfjöll, þá í Krýsuvík og loks í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum.

Páll Einarsson

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.

„Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur.
Þótt ýmislegt sé vitað um hegðun eldstöðvakerfanna er fjölmargt enn á huldu. Ármann bendir til dæmis á að stærri hraun hylji þau minni og því höfum við ekki „kórrétta atburðarás“ af „syrpunni“, eins og hann orðar það, sem varð á þrettándu öld. „Þannig að við erum bara með grófa mynd.“

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg í Krýsuvík.

Upplýsingar þær sem við höfum séu meðal annars byggðar á lýsingum í annálum og þeirra sem aflað hefur verið með kortlagningu. Miðað við þau fræði gaus í Krýsuvík fyrir rúmum 1.100 árum, aftur fyrir um 900 árum og loks um árið 1150, eða fyrir um 830 árum.

Víti

Víti í Kálfadölum ofan Geitahlíðar í Krýsuvík.

„Það gerist örugglega einhvern tímann,“ segir Ármann spurður um líkur á því að það fari að gjósa í Krýsuvíkurkerfinu sem er fyrir miðju kerfanna sex. „Það er ekkert sem segir að það geti ekki gerst þó að við séum með þessa krísu út á Reykjanesi í kringum Grindavík.“

Spennulosun í Krýsuvík hafin

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Aðdragandi gosa í því kerfi yrði að sögn Ármanns eflaust á svipuðum nótum og við höfum séð við Fagradalsfjall og Svartsengi: Fyrst yrðu jarðskjálftar, þá sprungumyndanir og loks færi hraun að flæða. „Því þetta byrjar með spennulosun,“ útskýrir hann. „Til að koma kvikunni upp verður að byrja á því að brjóta skorpuna. Þannig að það fer ekkert framhjá okkur þegar þetta fer í gang. Og Krýsuvík er komin í gang. Við erum búin að vera að mæla þar landris og sig á víxl í nokkur ár og búin að fá ansi hressilega skjálfta. Þannig að spennulosunin er byrjuð þarna.“

Og það gæti náttúrlega endað í eldgosi?

Sogagígur

Sogagígur sunnan Trölladyngju.

„Alveg klárlega,“ svarar Ármann. „En við gerum okkur vonir um að við sjáum þessi merki stífar áður en við náum því. Það er alveg klárt að það er farin að safnast fyrir kvika í Krýsuvíkurkerfinu.“

Páll tekur undir þetta og minnir á að Krýsuvík hafi verið „óróleg“ undanfarið – ekki síst seinni hluta ársins 2020. Land reis þá í nokkrar vikur. Og risinu fylgdu talsverðir jarðskjálftar, stærstu skjálftar þessara umbrota allra, segir Páll sem telur „frekar líklegt“ að gjósa muni í þessu kerfi í þeirri goshrinu sem nú er hafin.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun og nágrenni.

„Ef að þetta er eitthvað svipað og hefur gerst í jarðsögunni þá er líklegt að gosvirkni verði frekar mikil næstu 200–300 árin eða svo. Þá er nú frekar líklegt að Krýsuvíkurkerfið taki meiri þátt í þessu heldur en hingað til.“

Hann segir það hins vegar ólíklegt að gosin í kerfum Fagradalsfjalls og Svartsengis hafi með einhverjum hætti létt á Krýsuvíkurkerfinu.

Sprungusveimurinn mikli
Hættan af hræringum í því kerfi séu aðallega tvenns konar: Af völdum sprunguhreyfinga og hraunflæðis. Sprungusveimur þess liggi yfir stórt svæði; í gegnum Kaldársel, Búrfell, Heiðmörk, við Rauðavatn og upp í Hólmsheiði – jafnvel alla leið upp í Úlfarsfell. „Þannig að ef við fengjum gangainnskot alla þá leið, sem er vissulega möguleiki, þá er það kannski erfiðasti atburðurinn að fást við,“ segir Páll sem rannsakað hefur sveiminn og skrifað um hann greinar. Ef hreyfing kæmist á sprungurnar yrðu miklir innviðir í hættu. „Aðalmálið væri kannski vatnsbólin og það allt saman. Það er sviðsmynd sem er kannski ein af þeim verri.“

Búrfell

Búrfell ofan Garðabæjar.

Á þessu mikla sprungusvæði er auk þess íbúabyggð. Þótt hraunrennsli ógni henni ekki, meðal annars Norðlingaholtinu og Árbæjarhverfi, gætu sprunguhreyfingar gert það. Páll rifjar upp að í kringum 1980 hafi mikið verið deilt um hvort byggilegt væri í nágrenni Rauðavatns. Málið hafi orðið mjög pólitískt. Sumir sögðu að þetta væri stórhættulegt jarðskjálftasvæði en aðrir að sprungurnar væru gamlar og myndu ekki hreyfast meir.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

„Þeim tókst að deila um þetta og hafa allir rangt fyrir sér,“ segir Páll. Því að á sprungusvæðum sé hægt að byggja, en það er ekki sama hvernig það er gert. „Þarna eru vissulega sprungur en þetta eru ekki jarðskjálftasprungur heldur kvikuhlaupssprungur,“ heldur hann áfram. „Þær hreyfast mikið þegar þær hreyfast en það hreyfist hins vegar eiginlega ekkert á milli þeirra. Þannig að ef þú ert að byggja hús þarna, þá bara passar þú að byggja ekki yfir sprunguna. Þá ertu bara í góðum málum. Þetta er alveg byggilegt en það verður að byggja rétt.“

Norðlingaholt

Norðlingaholt.

Og heldur þú að okkur hafi borið gæfa til þess að byggja á milli sprungnanna?

„Ég er ekki alveg viss um það,“ svarar Páll. „En það var reynt og ef þú spyrð þá sem skipulögðu Norðlingaholtið þá munu þeir segja að þeir hafi tekið tillit til sprungnanna.“ Þegar farið var að grafa fyrir húsum í hverfinu hafi fundist gjár þar undir. Á þeim hafi ekki verið byggt enda megi sjá þrjú skörð í byggðinni. „Húsin sem eru á milli ættu að vera í góðu lagi,“ segir Páll. „Spurningin er bara: Gáðu þeir nógu vandlega?“

Klaufalegt að skipuleggja byggð á Völlunum
Þegar síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu í kringum 1150 runnu meðal annars Kapelluhraun til norðurs og Ögmundarhraun til suðurs. Og þá er komið að hinni vánni sem Páll vill vekja athygli á: Hraunrennsli. Hraun sem koma upp í norðurhluta Krýsuvíkurbeltisins gætu runnið niður í það dalverpi sem Vallahverfið í Hafnarfirði stendur í.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígar vestan Helgafells.

Að mati Páls má segja að vissrar óvarkárni hafi gætt í skipulagsmálum hvað þetta varðar. Óþarfi hafi verið að taka þá áhættu að byggja á Völlunum því annað byggingarland hafi fundist innan Hafnarfjarðar. „Þetta er ágætis byggingarland í sjálfu sér,“ segir hann um Vellina og næsta nágrenni, „en ef hraun kemur upp, á þessum stað, þá rennur það þessa leið, það er óhjákvæmilegt. Það er ekki hægt að beina því neitt. Og það er þá klaufalegt að vera með mikla byggð þar.“

Ógnin komin heim í garðinn

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar ofan Hafnarfjarðar.

Hafnfirðingar þurfa að mati Ármanns að endurskoða sín skipulagsmál, þeir geti ekki byggt „endalaust upp til fjalla“. Gos gæti hafist í Krýsuvík eftir einhver ár, áratugi eða öld. „Þetta er allt farið í gang,“ segir hann. „Reykjanesið sjálft er farið í gang. Og það þýðir þá að menn verða að hugsa um það og breyta skipulagsáætlunum í stíl við það.“

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Hvað Vellina varðar telur hann líkt og Páll að ef Krýsuvík færi að gjósa myndi steðja ógn að hverfinu. „Ég myndi halda að við ættum að hanna þá,“ svarar hann spurður um hvort hefja ætti undirbúning varnargarða við byggðina. „Við þurfum kannski ekki endilega að fara að rusla þeim upp strax en bara um leið og það fara að verða alvarleg merki þá setjum við vinnuna í gang. Þetta er komið heim í garðinn og þá gerir þú allt klárt. Þú ferð kannski ekki strax í framkvæmdirnar en byrjar að teikna og reikna.“

Bollar

Bollar.

Ef til annarra kerfa er litið, kerfa sem enn sofa þótt laust sé, minnir Ármann á Hengilinn sem markar endimörk eldstöðvakerfis Reykjanesskagans í austri. Ef hann færi að ræskja sig alvarlega gætu hamfarir fyrir byggð orðið miklar. „Ef hann fer að dæla hrauni yfir Nesjavelli og Hellisheiðarvirkjun þá yrði lítið heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega háalvarlegt.“

Stóri-Bolli

Stóra-Bollagígur otan í Konungsfelli (Kóngsfelli).

Páll telur það eiga sér vissar skýringar að ákveðið var að byggja á svæðum þar sem vá vegna sprungusveima og hraunflæðis vofir yfir. „Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi,“ útskýrir hann. „Þá var þessi virkni óvenjulega lítil. Ef við horfum til baka, til fyrri alda, þá er 20. öldin framan af steindauð. Hún sker sig úr öllum öðrum öldum. Menn fengu skakka hugmynd um hvers eðlis virknin var. Og við sitjum uppi með þetta svona.“

Selvogsgata

Selvogsgata. Bláfeldur í Brennisteinsfjöllum fjær.

Upp úr 1960 hafi hins vegar hver atburðurinn tekið að reka annan; Surtseyjargos, Heklugos, Heimaeyjargos og hvað eina. Allt hafi svo „keyrt um þverbak“ er hrina hófst í Kröflu um miðjan áttunda áratuginn.

Og ekki er að fara að draga úr virkninni í fyrirséðri framtíð?

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

„Ég held að þetta sé komið í venjulegt og eðlilegt horf,“ svarar Páll. „Svo það er eins gott að við lærum af því. Og breytum því sem þarf að breyta.“

Hvað getum við lært af því og hverju þurfum við að breyta?

„Við þurfum að reikna með að það geti orðið hraunstraumar hér og þar sem þarf að beina annað eða skipuleggja sig í kringum,“ svarar Páll. „Skjálftamálin eru í tiltölulega góðu standi. Jarðskjálftaverkfræðingar hafa staðið sig mjög vel. Þannig að hús á Íslandi virðast standast jarðskjálfta mjög vel. Við fengum reynslu af því árið 2000. Það hrundu engin hús sem skiptir máli því það er það sem veldur manntjóni. Þannig að það er í sæmilegu lagi. En þetta með sprunguhreyfingar og hraungos, þetta mætti alveg laga svolítið.“

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Nú þýðir ekkert að stinga höfðinu í neinn sand?

„Nei, það þýðir ekki. Það verður að læra að lifa með þessu.“

Heimild:
-„Krýsuvík er komin í gang“, Heimildin (heimildin.is) 20. janúar 2024, Sunna Ósk Logadóttir.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur í Brennisteinsfjöllum.

Húsfell

Á Vísindavefnum má lesa eftirfarandi fróðleik Sigurðar Steinþórssonar, prófessor emeritusum, „Virkar eldstöðvar í kringum höfuðborgarsvæðið„:

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

„Þegar spurt er hversu margar eldstöðvar séu á Íslandi kann jarðfræðingum að vefjast tunga um tönn — á til dæmis að telja einstakan gíg sérstaka eldstöð eða goshrinur eins og Kröfluelda 1974-85 eitt eða mörg eldgos. Þess vegna var kringum 1970 tekið upp hugtakið eldstöðvakerfi sem tekur til allra þeirra eldstöðva sem teljast vera samstofna; yfirleitt tengjast þær einni megineldstöð. Á Íslandi eru um 30 slík eldstöðvakerfi, þar af fimm á Reykjanesskaga.
Á Suðvesturlandi liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, eins og þau koma fram í jarðskjálftaupptökum neðan þriggja km dýpis, frá Reykjanestá austur um Suðurland í átt að Heklu. Eftir flekamótunum raðast sprungur á yfirborði í fimm sprungusveima (sprungureinar) með NA-SV-stefnu (sjá mynd hér fyrir neðan).

Húsfell

Húsfell og Húsfellsbruni.

Þar sem sprungusveimur og flekamótin skerast eru merki um mesta eldvirkni á sprungusveimnum — þar er megineldstöð þess sprungusveims, og til samans mynda megineldstöðin og sprungusveimurinn sem hana sker eldstöðvakerfið. Virkum megineldstöðvum tengjast gjarnan háhitakerfi, og eftir þeim eru eldstöðvakerfin fimm nefnd, talið frá vestri til austurs, Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Fyrstnefndu kerfin tvö eru gjarnan talin sem eitt, enda sameinast norðurhlutar sprungusveima þeirra sunnan við Voga á Vatnsleysuströnd. Tvö eldstöðvakerfi, Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfi, hafa lagt til hraun í námunda við Reykjavík.

Á höfuðborgarsvæðinu eru einkum áberandi tvö nútímahraun (það er sem runnið hafa eftir ísöld) og kallast annað þeirra Búrfellshraun einu nafni en hitt Leitahraun. Hið fyrrnefnda rann úr gígnum Búrfelli sunnan við Heiðmörk fyrir um 7300 árum. Ýmsir hlutar þess bera sérstök nöfn, Gálgahraun, Garðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun. Búrfell er í Krýsuvíkurkerfi.

Hraunflæði

Leitarhraun.

Leitahraunið mun vera meðal rúmmálsmestu hrauna sem runnið hafa frá Brennisteinsfjallakerfinu eftir ísöld. Það rann fyrir um 5200 árum frá eldstöð þar sem heita Leitin á Hellisheiði, suðvestan við Eldborgir sem gusu Svínahraunsbruna (Kristnitökuhraun) árið 1000. Frá Leitum rann hraunið annars vegar til suðurs langleiðina til sjávar við Þorlákshöfn; í því hrauni er Raufarhólshellir. Hins vegar rann álma til norðvesturs til sjávar í Elliðavogi. Á þeirri leið myndaði hraunrennslið gervigígaþyrpinguna Rauðhóla og hraunstrompana (hornito) Tröllabörn hjá Lækjarbotnum. Meðal kunnra sérnafna hluta Leitahrauns eru Elliðavogshraun, neðsti hluti Hólmshrauna, Svínahraun (að hluta undir Kristnitökuhrauni), Lambafellshraun, og niðri í Ölfusi Hraunsheiði og Grímslækjarhraun.

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

Frá eldstöð nærri Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum (Brennisteinsfjallakerfi) hafa runnið fimm hraun sem nefnast Húsfellsbruni hið efra en Hólmshraun neðar—Heiðmörk er á þeim hraunum. Hið elsta þeirra er eldra en Leitahraun en hin fjögur þó öll forsöguleg.
Einu hraunin sem segja mætti að nálgast hafi höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma eru sunnan við Hafnarfjörð og komu úr Krýsuvíkurkerfi: Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun kringum 1000 og Kapelluhraun árið 1151. Hengilskerfi hefur ekki látið á sér kræla í 2000 ár en á hinum fjórum hafa mislangar goshrinur hafist á um það bil 1000 ára fresti, fyrst austast (Brennisteinsfjöll) og færst síðan vestur skagann. Hin síðasta hófst fyrir um 1100 árum. Grindavík mun vera sú byggð, sem helst væri ógnað af næstu hrinu.

Klambrahraun

Klambrahraun.

Yfirleitt eru þær eldstöðvar kallaðar „virkar“ sem gosið hafa eftir ísöld, það er síðastliðin 10.000 ár eða svo. Á þeim tíma hafa aðeins þrjár sent hraun í námunda við Reykjavík, Búrfell austan við Hafnarfjörð, eldstöð hjá Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum og Leitin á Hellisheiði.“
Húsfellsbruni er að mestu Klambrahraun. Þau myndast þegar efri skorpa helluhrauna brotnar upp og myndar yfirborðsbreksíu við skyndilega aukinn straumþunga hraunsins eða þegar það flæðir upp að fyrirstöðu sem aftrar framrás þess um tíma. Þótt ásýnd klumpahrauna sé talsvert frábrugðin dæmigerðum helluhraunum, er flutningur kviku eftir lokuðum rásum, myndun hraunsepa og hraunbelging lykilþáttur í myndun þeirra. Vegna yfirborðsbreksíunnar hafa þau oftar en ekki verið flokkuð sem apalhraun, sem hefur leitt til mistúlkunar á flæðiferlum og eðli þessara hrauna.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=62126

Hraunflæði

Helsingi

Í Morgunblaðinu 1986 er fjallað um „Landnema í íslenskri náttúru – 20 tegundir sjaldgæfra fugla hafa reynt varp á seinni árum“ í tveimur greinum:

Fuglalíf er allmikið og fjörlegt hér á landi, einangrun landsins veldur því þó að tegundafæð er nokkur miðað við nágrannalöndin. Miklu væri Ísland fátækara án fugla sinna og má hafa af þeim hreina unun við hin ýmsu skilyrði og kringumstæður.

Ævar Pedersen

Ævar Pedersen.

Landsmenn þekkja ákaflega misvel til íslenskra fuglategunda og þær njóta auk þess ákaflega misjafnra vinsælda. Það er ekki sama heiðlóa og veiðibjalla frekar en Jón og séra Jón. Það sýna dæmin, að fuglar geta verið geysivinsælir þótt fól og fjandar séu í eðli sínu, sbr. krummi gamli, en vandfundnir eru skemmtilegri fuglar hvað þá samviskulausari hreiðurræningjar og ungamorðingjar.
Flestar algengustu fuglategundir landsins munu þó ugglítið vera tiltölulega vel þekktar hjá öllum þorra landsmanna. En til er hópur fugla sem hefur á undanförnum árum verið að þreifa fyrir sér með varp hér á landi. Tegundir þessar hafa ekki náð fótfestu og alls ekki útséð um hvernig þau mál fara. Í sumum tilvikum virðist það næsta vonlítið, en í öðrum tilvikum virðast skilyrði vera fyrir hendi. Í síðarnefndu tilvikunum er spurningunni vandsvarað hvers vegna það gengur illa að hasla sér völl. „Þetta eru yfirleitt flækingsfuglar og það má segja að það detti úr þeim egg,“ sagði Ævar Pedersen dýrafræðingur í samtali við Morgunblaðið um þetta mál. Yfirleitt er hér um spörfuglategundir að ræða, einnig fáeinar tegundir vaðfugla og andfugla. Skrítin nöfn eins og kolþerna og skógarsnípa ber á góma, en við skulum byrja yfirreiðina á spörfuglunum í þessum fyrri hluta, en í síðari hluta verður fjallað um dúfur, vaðfugla, andfugla, auk annars sem hér hefur uppi dagað.

Gráþröstur og svartþröstur

Svartþröstur

Svartþröstur.

Frændurnir gráþröstur og svartþröstur eru návenslaðir skógarþrestinum okkar eina sanna og þeir hafa verið að þreifa fyrir sér hér á landi á seinni árum með varpi. Sérstaklega hefur gráþrösturinn virst ætla að ná fótfestu, en enn um sinn hefur það þó ekki tekist sem skyldi. Fuglar þessir eru auðþekktir, þrastarlagið leynir sér ekki og gráþrösturinn er greinilega grár að ofan og svartþrösturinn allur eins og nafnið gerir ráð fyrir. Þessir fuglar koma hér báðir á haustin frá heimkynnum sínum í Skandinavíu og yfirleitt fylgir varp því að óvenjulega margir einstaklingar hafí komið. Áraskipti eru að því hversu margir þessir þrestir eru.
Um 1950 kom mikið af gráþresti hingað til lands að vetri til og vorið eftir var enn talsvert af fugli sem hafði þraukað. Þá hófst varp nokkurra para á Akureyri og hélst það í nokkur ár og svo virtist sem lítill stofn ætlaði að ná þar fótfestu. En allt kom fyrir ekki. Um 1980 komu svo margir fuglar sömu tegundar að vetrarlagi og upp frá því hófst dálítið varp næstu þrjú árin, þá fundust hreiður bæði á Akureyri og á Selfossi. Mest var þá um gráþrestina á Húsavík, en einhverra hluta vegna varð ekki úr varpi þar eftir því sem menn komust næst.

Gráþröstur

Gráþröstur.

Ævar fuglafræðingur telur að þessi fuglategund ætti að geta lifað við þær aðstæður sem Ísland býður upp á, en sá galli sé hins vegar á gjöf Njarðar, að komutími fuglanna ár hvert er það sem stendur í veginum, þ.e.a.s. mörg ár koma tiltölulega fáir fuglar og þeir sem koma verða að byrja á því að hjara yfir veturinn og það er ekkert auðhlaupið að slíku fyrir lítinn fugl. Margir falla ævinlega. Tilraunir svartþrastarins hafa ekki verið jafn þróttmiklar og hjá frændanum.
Þrisvar hefur svartþröstur vitanlega orpið hér á landi, í Reykjavík, í Skaftafelli og í Svínafelli, en báðir síðast nefndu staðirnir eru í Öræfasveit. Svartþrösturinn hefur það sérkenni fram yfir hina tvo, að hann verpir ævinlega í trjám. Svartþrösturinn er árviss gestur hér á landi eins og gráþrösturinn og eins og með hann, eru áraskipti að því hversu margir fuglar koma hvert haust. Svartþrösturinn virðist ekki eiga neitt verra með að lifa við íslenskar aðstæður en gráþrösturinn, en hvað veldur því að hann hefur ekki ílenst hér á landi? Gefum Ævari Pedersen orðið: „Þetta eru hvort tveggja tegundir sem hafa verið reglulegir vetrargestir í mörg hundruð ár og sennilega enn lengur. Þær hefðu átt að vera búnar að hasla sér völl skyldi maður ætla. En hvað veit maður? Það eru svo voðalega margir þættir sem geta spilað inn í.

Gráþröstur

Gráþrastarhreiður.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að einhver fjöldi fugla reyni varp. Þetta atriði skiptir meira máli meðspörfugla heldur en t.d. vaðfugla, því þeir eru til muna skammlífari. Það var ansi mikil vantrú á kenningum hins breska David Beck rétt eftir árið 1950, er hann lýsti yfir að meðalaldur glóbrystings í Bretlandi væri aðeins hálft ár. Þetta hnekkti að miklu leyti þeirri trú fólks að smáfuglar gætu lifað árum saman, þó trúlega geti einstaklingar orðið mun eldri, e.t.v. nokkurra ára. Hver þekkir ekki þegar fólk talar um það ár eftir ár að „músarindillinn minn“ eða „þrösturinn minn“ sé nú kominn í garðinn? Þetta er ekki einhlítt, en í flestum slíkum tilfellum er hæpið að um sömu fugla sé að ræða. Þetta eru sem sagt skammlífir, en afar frjósamir fuglar sem geta orpið tvisvar til þrisvar á ári ef tíðin er góð. Örfá hreiður eða bara eitt, eru því ekki líklega ein sér til að koma af staðvarpi undir venjulegum kringumstæðum. Það þarf meira til.“

Fjallafinka

Fjallafinka

Fjallafinka.

Fjallafinka heitir smáfugl af finkuætt sem reynt hefur varp hér á landi nokkrum sinnum. Lengi hefur tegundin verið all tíður gestur á haustin og fram eftir vetri. Þetta er lítið kríli, 15 sentimetrar á lengd að meðaltali, en til samanburðar má geta, að meðallengd músarindils er 12 sentimetrar og auðnutittlings 13 sentimetrar.
Það eru áraskipti að því hversu margar fjallafinkur koma hingað ár hvert og þær sem það gera eru taldar eiga uppruna að rekja til Skandinavíu þar sem þær eru algengir varpfuglar í furuskógum.

Fjallafinka

Fjallafinka.

Hér á landi fundust fyrst hreiður fyrir um 10—12 árum og þá var um samfellt varp að ræða í nokkur ár, t.d. í Fljótshlíð. Síðan fjaraði varpið út, en aftur fór að bera á fjallafinkuvarpi rétt fyrir 1980 og aftur hófst samfellt varp sem stóð yfir í fáein ár. Fundust þá hreiður í Reykjavík, í Fljótshlíð og í Öræfasveit. Þetta voru fá hreiður.
Fjallafinkan hefur komið upp ungum á Íslandi og virðist ekki eiga erfitt uppdráttar. Ævar Pedersen fuglafræðingur telur að ein ástæðan sé sú að fjallafinkan sé frææta og eigi því meiri lífsmöguleika heldur en skordýra- og berjaætur. „Þessi tegund á möguleika á því að ílendast hér,“ segir Ævar og getur þess einnig að hugsanleg skýring á því að tekið hafi að bera á fjallafinkuvarpi í vaxandi mæli á seinni árum kunni að vera vaxandi skógrækt sem skapi aukið kjörlendi fyrir þessa fuglategund.

Gráspörvar

Gráspörvi

Gráspörvi.

Gráspörvavarp á Íslandi á sér nokkuð sérkennilegan aðdraganda og má segja að litlu hafi munað að þessi fugl ílentist hér á landi fyrir atbeina eins manns, en orðið undan að láta fyrir atbeina eins kattar. Gráspör er nokkur reglulegur vetrargestur hér á landi, kemur á haustin og dvelur yfir veturinn, en sjaldan eru fuglarnir margir.
Fyrir árið 1970 var þrívegis vitað um tilraunir gráspörva til varps, tvívegis í Reykjavík og einu sinni í Vestmannaeyjum. En undrið sem hlaut hinn sorglega endi byrjaði 1970.
Jón Helgason í Borgarfirði eystri tók þá nöndum tveim hóp af gráspörvum sem tóku sér vetrarbólfestu við hús hans. Jón gaf fuglunum, hlúði að þeím sem mest hann mátti, leyfði þeim m.a. afnot af skemmu sinni til að skýla sér í er veður gerðust köld og ströng. Fyrir vikið voru flestir fuglanna á lífi um vorið og svo vel hafði þeim líkað vistin að þeir ákváðu að fara hvergi, heldur hefja varp. Gerðist það nú, að næstu árin urpu gráspörvar við hús Jóns og þar í grennd og nutu verndar hans í hvívetna.

Gráspörvi

Gráspörvi.

Fuglunum fjölgaði og eftir tíu ára varp voru í Borgarfirði nokkrir tugir fugla og árvisst og öruggt varp.
En allt í einu fóru þeir að tína tölunni og vissi enginn fyrst í stað hvað ylli því. Er allt var um seinan, komst upp um fuglaveiðar flækingskattar, en þá var aðeins einn kvenfugl eftir lifandi. Síðustu fregnir hermdu, að sá fugl hafi verið á lífi enn síðasta sumar, en einn síns liðs réttir hann ekki Borgarfjarðarstofninn við.
Atburðarásin í Borgarfirði var einstæð og athyglisverð, verk eins manns urðu næstum til þess að nýr og fastur varpfugl bættist í fuglafánu landsins. Árangur Jóns Helgasonar bendir til þess að endurtaka mætti tilraunina, næst er liðmargur flokkur gráspörva leitar til landsins frá vetrarhörkum í heimahögum.

Landsvala og bæjarsvala

Landsvala

Landsvala.

Þetta eru algengir flækingsfuglar hér á landi og koma á vorin og sumrin gagnstætt þeim tegundum sem nefndar hafa verið. Í fljótu bragði mætti ætla að þær hefðu því frekar möguleika á því að ílendast, en svo mun vart vera. Landsvölur hafa á seinni árum reynt varp 10—15 sinnum og áreiðanlega hafa fuglarnir orpið nokkrum sinnum án þess að því hafi verið gefinn sérstakur gaumur. Bæjarsvöluhreiður hafa hins vegar aðeins fundist tvisvar síðustu árin í Vestmannaeyjum og í Sandgerði. Landsvalan hefur einni orpið nær eingöngu á Suður- og Suðvesturlandi.

Bæjarsvala

Bæjarsvala.

Báðar tegundirnar hafa komið hér upp ungum. En hvers vegna er ólíklegt að tegundirnar geti fest rætur?
Ævar svarar: „Þessir fuglar lifa eingöngu á skordýrum sem þær veiða á flugi. Þær eru mikið á flugi og bruninn í líkamanum er því örari en ella. Stöðugt skordýralíf er því nauðsynlegt til þess að þessir fuglar geti lif að góðu lífi og í þeim umhleypingum sem hér geta verið að sumarlagi er slíkt alls ekki fyrir hendi. Það getur rignt dögum saman og blásið, þannig að skordýralífið liggur niðri, svölurnar geta þá ekki veitt og þær veslast upp.“

Hettusöngvari, seftittlingur og glóbrystingur

Hettusöngvari

Hettusöngvari.

Hettusöngvari er lítill og fallegur spörfugl og hann er eigi ótíður haustgestur hér á landi. Laust eftir árið 1970 brá svo við að hettusöngvarapar var í garði í Reykjavík um varptíma og lét eins og hreiður væri á staðnum. Það fannst ekki en grunur leikur samt á því að um varp hafi verið að ræða. Talið er að þessí tegund geti lifað hér af veturinn og þá upp á náð mannsins komin með matargjafir.
Sömu söguna má segja um seftittlinginn, skv. fuglabók Landverndar er talið að þessi tegund hafi orpið í Kvískerjum í Öræfum vorið 1972 og komið upp ungum.
Glóbrystingsvarp hérlendis hefur verið óburðugt, tegundin sést hér oft á haustin og veturna, en fyrir 25—30 árum gerðist það að einn kvenfugl gerði sér hreiður í Hvalfirði og verpti, en ekkert varð úr þar sem karlfugl vantaði.

Dvergkráka

Dvergkráka

Dvergkráka.

Það er kannski ekki rétt að hafa dvergkrákuna með, því vitanlega hefur hún ekki orpið á Íslandi. Á hinn bóginn „fylltist all“ af dvergkrákum rétt fyrir árið 1980, „það kom meira af þessum fuglum en við vitum dæmi um áður“, sagði Ævar Pedersen. Þetta voru líklega hundruð fugla og sáust þeir víða á sunnanverðu landinu, ekki síst í Reykjavík þar sem þeir vöktu mikla athygli.
„Innrásin“ var um haustið og margar krákur voru hér enn er tók að vora. Þær fóru að bera í hreiður, stífluðu m.a. skorstein í bænum, margir sáu þær fljúga út í Tjarnarhólmann og koma þaðan með nefin full af hreiðurefni sem þær svo flugu með á tilvalda staði.
Þrátt fyrir allt saman varð ekkert úr varpi og krákurnar smátýndu tölunni, hafa trúlega ýmist drepist eða horfið til síns heima. „Þetta er nær árviss gestur hér á landi og ein af þeim fuglategundum sem gæti allt í einu farið að verpa hér á landi,“ segir Ævar.
Látum þessu svo lokið í bili, þetta yrði of langt mál ef allt kæmi á einu bretti, en það hefur e.t.v. vakið athygli lesenda að saga fuglanna er aðeins rakin til sumarsins 1985, en það er vegna þess að þetta sumar er alls ekki liðið þótt haustið sverfi óðfluga að og því eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi tilraunavarp fugla í sumar ef eitthvað hefur verið.

Hringdúfa og tyrkjadúfa

Tyrkjadúfa

Tyrkjadúfa.

Þessar villtu dúfutegundir hafa báðar orpið hér á landi og komið upp ungum. Fyrir um 20 árum fannst hringdúfuhreiður í Svínafelli í Öræfum, en eggin voru ófrjó og varpið misfórst því. Vorið 1974 fannst svo hringdúfuhreiður í Reykjavík og gekk betur í það skiptið, ungar komust á legg.
Tegund þessi verpir um alla Mið- og Suður-Evrópu og einnig nokkuð í sunnanverðri Skandinavíu. Hún er farfugl heimkynnum sínum og er flækingur hér á landi. Fremur hæpið virðist að tegund þessi ílendist hér þó að hún kunni að geta lifað hér á sumrin.

Hringdúfa

Hringdúfa.

Tyrkjadúfan er náskyld tegund, en hún hefur verið að breiðast út um alla Evrópu síðustu áratugina, varp áður einkum á Balkanskaga. Tyrkjadúfa sást fyrst á Íslandi árið 1968 og vorið 1970 fannst svo hreiður í Reykjavík og komu þar ungar úr eggjum.
Fyrir fáum árum sást svo tyrkjadúfa í Vesturbænum og var hún ein á ferð. Önnur settist um borð í fiskibáti úti fyrir ströndum landsins og var henni sleppt til þeirrar í Vesturbænum. Þar voru þær í um eitt og hálft ár án þess að til varps kæmi og lék grunur á að báðir fuglarnir væru karlkyns. Örlög þessara útvarða urðu þau, að hreinsunardeild Reykjavíkurborgar skaut þá eftir að kvartanir húsmæðra gerðust þrálátar en fuglar þessir voru bæði árrisulir og háværir. Ævar segir: „Tyrkjadúfan er enn að breiðast út, hún gæti alveg komið hingað til lands enn og numið hér land.“

Kolþerna

Kolþerna

Kolþerna.

Eitthvert óvenjulegasta varp flækingsfugla hin síðari ár var er kolþernuhjón urpu í kríuvarpi skammt fyrir vestan vestustu hús Stokkseyrarþorps sumarið 1983. Hreiðrið fannst fyrst 16. júlí og voru tvö egg í því, töluvert stropuð.
Daginn eftir skoðuðu nokkrir fuglafróðir menn hreiðrið, en báða dagana sást aðeins ein kolþerna við hreiðrið. Ekki var vitjað um hreiðrið aftur fyrr en 21. júlí, en þá fannst ekkert við varpstaðinn, hvorki kolþernueggin né egg og ungar kría sem urpu þar í kring. Óveður með háum straum var nýafstaðið og lék grunur á því að allt varp á þessu svæði hefði orðið því að bráð. Við leit fundu athugunarmenn tvær kolþernur og vakti það athygli þeirra, að önnur þeirra virtist tilheyra bandaríska stofninum, en varpstöðvar hans vestra eru miklu mun sunnar á hnettinum en Ísland, t.d. má nefna Flórídaríki.

Kolþerna

Kolþerna.

Það var álitið að þar hafi verið um karlfuglinn að ræða, en hinn fuglinn var erfiðara að ákvarða, því hann var farinn að missa sumarskrúðann. Var það fuglinn sem sást liggja á eggjunum fyrstu tvo dagana.
Kolþerna er heldur sjaldséður flækingur á Íslandi, aðeins 30 sinnum hefur fuglinn sést síðan að sú fyrsta sást árið 1949. í nokkrum tilvikum hefur verið um bandarísku deilitegundina að ræða og vita menn ekki til þess að sú tegund hafi sést annars staðar í Evrópu.
Þessi saga er ekki öll, því kolþernurnar voru mættar aftur til Stokkseyrar sumarið eftir og urpu þar aftur. Að þessu sinni skreið ungi úr eggi, en talið er að hann hafi drepist í óveðri sem gekk yfir nokkru síðar. Í fyrrasumar sáust engar kolþernur, varpið virðist liðið undir lok.

Vepja

Vepja

Vepja.

Fugl þessi er náskyldur heiðlóunni, en varpheimkynni hans liggja yfirleitt sunnar en Ísland. Vepjan er tíður flækingur á Islandi og kemur hingað stundum í stórum hópum á haustin og veturna. Þegar slíkir hópar hafa komið, hefur stundum dregið til varps að vori og vepjan hefur orpið hér á landi nokkrum sinnum og ungar hafa komist á legg.
Fyrst er vitað til þess að vepja varp vorið 1959 og líklega komust 3 ungar á legg. 1963 verpti vepjupar í Kelduhverfi og komst einn ungi á legg að minnsta kosti. Árið eftir urpu vepjur í Eyjafirði og komust 3 ungar á legg. í 2—3 ár í kringum 1980 er talið að vepjur hafi orpið austur á Héraði, en hreiður fundust ekki. 1983 var örugglega vepjuvarp í Meðallandi. Glöggir menn sáu þá fimm vepjur snemma í júlímánuði og voru þrjár þeirra, augljóslega nýlega fleygir ungfuglar.

Vepja

Vepja.

Tvær vepjur höfðu sést á þessum slóðum fyrst um miðjan apríl en ungarnir komu fyrst í Ieitirnar um mánaðamót júní og júlí. Í fyrrasumar er svo talið að vepjur hafi orpið. Tvö pör sáust snemma vors í Eyjafirði, en brátt hurfu tveir fuglar og aðeins tveir urðu eftir. Létu þeir í alla staði eins og varpfuglar væru á ferðinni, en eigi að síður fannst hreiðrið ekki. Það er því óvíst um afdrif þessa varps. Að sögn Ævars Pedersens tekur vepjan sig upp í heimahögum sínum er harðindi sverfa að og fer á flakk í fæðuleit. Því koma þær hingað svo að segja árlega og sem fyrr segir, stundum í stórum hópum. Hvort vepjan verður hér einhverntíma fastur varpfugl er ekkert hægt að segja, hana vantar að því er virðist herslumuninn.

Flóastelkur

Flóastelkur

Flóastelkur.

Um 1960 urðu menn fyrst varir við flóastelk hér á landi að sumarlagi og lék fljótlega grunur á því að tegundin yrpi. Fuglarnir sáust eingöngu við Mývatn, en þó þeir létu „varplega“ fundu menn hvorki hreiður eða unga enda slíkt ekkert grín. Það varð ekki fyrr en eftir 1980 að vissa fékkst fyrir varpi og er því talið að um varp hafi verið að ræða, a.m.k. síðan 1960. „Það er hægt að tala um afar lítinn íslenskan flóastelksstofn. Þeir hafa ekki sést á hverju ári, til dæmist sáust þeir ekki í fyrrasumar, en á hinn bóginn fer afar lítið fyrir þeim og svæðið sem þeir hafa sést á er stórt.
Það er auðvelt að ganga framhjá þeim. Auk þess þarf ekki endilega árvisst varp, þetta eru mun langlífari fuglar en spörfuglar og 1—2 pör geta viðhaldið svona smástofni þó ekki sé orpið á hverju ári,“ segir Ævar um flóastelkinn.

Skógarsnípa

Skógarnípa

Skógarnípa.

Egg eða ungar þessa fugls hafa ekki fundist, en í nokkra áratugi hefur menn grunað að þeir verpi hér, gefum Ævari orðið: „Karlfuglar skógarsnípu haga sér sérkennilega um varptímann og er þeir helga sér óðul á vorin. Þá fljúga þeirum syngjandi að næturþeli. Þetta hefur verið nokkuð árvisst fyrirbæri hér á landi á nokkrum stöðum síðustu áratugi, sérstaklega í Ásbyrgi þar sem varpkjörlendi sem hentar
þessum fugli er fyrir hendi.
Við Egilsstaði hefur þetta einnig borið við, t.d. sást til þriggja karlfugla leika þessar listir í fyrrasumar. Húsafellsskógur er þriðji staðurinn þar sem skógarsnípukarlar hafa sést leika listir sínar. Það er erfitt að finna hreiður og unga þessarar tegundar, sérstaklega þegar fuglafjöldinn er afar lítill og svæðið stórt, auk þess hefur ekki beinlínis verið kíkt eftir þeim. Þó mun hægt skv. framansögðu að tala um mjög lítinn íslenskan skógarsnípustofn og þess má geta, að þetta hefur verið árlegt fyrribæri allra síðustu árin.

Skutulönd

Skutulönd

Skutulönd.

Þessi andartegund er afar fáliðuð á íslandi. Hreiður fannst fyrst 1954 og er hugsanlegt að tegundin hafi orpið þar síðan. Hvort það hafi verið árlegt varp er óvíst, því fá hreiður hafa fundist. Tegundin sést á Mývatni flest ár, aðallega á vorin og sumrin. Í Fuglabók AB er hún talin sjaldgæfur en öruggur varpfugl, en í Fuglabók Landverndar, sem er mun nýrra rit, er hún talin fastur sumargestur, en ekki nefnd í hópi varpanda. Ævar Pedersen sagði skutulandartilfellið vera svipað og með flóastelkinn í sömu sveit, fuglarnir væru fáir og hreiður afar vandfundin. Það væri hins vegar auðvelt að yfirsjást tegundina og hún sæist ef hennar væri leitað. „Þetta eru nokkur stykki,“ sagði Ævar.

Helsingi

Helsingi

Helsingi.

„Það er pínulítill varpstofn í Breiðafjarðareyju, en á þeim slóðum hafa þessir fugla orpið á seinni árum þó engin vissa sé fyrir þvi að varpið hafi verið árlegt. Sumarið 1983 fundust fimm hreiður, 1984 3 hreiður, en í fyrrasumar hins vegar ekkert.“ Ævar sagði það enga sögu segja, því helsingjarnir færðu varpið til og frá um hinar mörgu Breiðafjarðareyjar og það gæti því hæglega hafa verið varp í fyrrasumar þó engin hreiður hafi fundist.
Heimkynni helsingja eru miklu norðar en Ísland, það er því spurning hvort hann sé ekki í hópi með fuglum eins og haftyrðli, snæuglu og þórshana, sem álitið er að fækki á Íslandi vegna þess að það sé ekki nógu kalt hér á landi!

Kanadagæs

Kanadagæs

Kanadagæs.

Það gerðist sumarið 1984, að grágæsarkvendi eitt kom frá vetrarstöðvum sínum í Bretlandseyjum í fylgd karlfugls kanadagæsar. Þetta skrautlega par verpti austur á Héraði, en varpið misfórst.
Síðastliðið sumar var parið enn á ferð á sömu slóðum og komust fjórir ungar á legg. „Það er spurning hvort þessir ungar verða frjóir,“ sagði Ævar Pedersen um fyrirbærið og bætti við að andfuglar væru allra fugla frjálslegastir í kynferðismálum. „Það eru allir með öllum og þetta eru oft svo skyldar tegundir að þær geta átt egg og unga saman,“ bætti hann við. Ævar sagði ennfremur, að kanadagæsin hefði verið flutt til Bretlandseyja fyrir nokkrum árum og hefði henni fjölgað mikið og breiðst út. Hún hefur sést hér á landi nokkrum sinnum. „Þetta er tegund sem gæti farið að verpa hér á landi fyrirvaralaust,“ sagði Ævar.

Bleshæna (eða blesönd)

Bleshæna

Bleshæna.

„Það er ansi lang síðan að bleshæna reyndi hér varp, nokkrir áratugir, en síðasta sumar vorum við að vona að reynt yrði að nýju, þá var par í Húsavíkurhöfn mikinn hluta vetrar og fylgst var með fuglunum um vorið. Þeir fluttu sig á Víkingavatn í Kelduhverfi, þar sem bleshænur hafa einu sinni áður opið, en að þessu sinni varð ekkert úr varpi, fuglarnir voru á vatninu fram eftir sumri en hurfu svo. Bleshænan hefur þrívegis vitanlega reynt varp, hreiður hafa fundist í Borgarfirði, á Víkingavatni í Kelduhverfi og við Mývatn. Engir ungar hafa komist á legg. Þetta er algengur haust- og vetrargestur hér á landi, en virðist eiga erfitt uppdráttar er til lengdar lætur.“

Lokaorð

Seftittlingur

Seftittlingur.

Það hefur verið ríkuleg áhersla á það lögð í þessari umfjöllun, að ekkert er hægt að tjá sig að gagni um horfurnar á því hvort einstakar tegundir sem nefndar hafa verið taki sig til og fjölgi sér og myndi stæðilegan varpstofn. Í nokkrum tilvikum virðist vera um reglulegt varp í afar smáum stíl, (helsingi, flóastelkur og líklega skógarsnípa), í öðrum tilvikum óreglulegt varp sem ræðst helst af fjölda flækingsfugla sem koma til landsins að hausti eða vetri og eru hér enn að bauka á vorin. Í þriðja lagi handahófskenndara varp sjaldgæfra flækinga eins og kolþernu og eru slík fyrirbæri kannski hvað skemmtilegust.
Í fjórða lagi tækifærisvarp vor- og sumargesta eins og landsvölu og bæjarsvölu. Tíminn einn ber svörin í skauti sér og takmarkalaus forvitni áhugamanna fær engu breytt.
Við verðum bara að bíða og sjá hvaða skrítnu gestir verpa næsta vor, og næsta vor og það næsta o.s.frv. Hver veit nema Ísland verði einni, fimm eða tíu varpfuglategundum ríkara um aldamótin. Og verða þá kannski einhverjar gamalgrónar horfnar? – gg.

Heimildir:
-Morgunblaðið, B-07.09.1986, Landnemar í íslenskri náttúru, grein 1 – 20 tegundir sjaldgæfra fugla hafa reynt varp á seinni árum, bls. 4-5.
-Morgunblaðið – B 14.09.1986, Landnemar í íslenskri náttúru, grein 1 – 20 tegundir sjaldgæfra fugla hafa reynt varp á seinni árum, bls. 16-17.

Þórshani

Þórshani.

Flórgoði

Flórgoðinn er fallegur fugl. Hann mætir á vötnin ofan höfuðborgarsvæðisins; Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Urriðavatn, Vífilsstaðavatn, Rauðavatn o.fl., í kringum 15.-20. apríl eftir vetrardvöl s.s. við strendur Islands, Noregs og Skotlands, verpir um miðjan maí og liggur á 3-6 eggjum í u.þ.b. 21-25 daga. Ef varpið misferst getur hann verpt aftur og aftur uns allt um þrýtur. Á síðustu árum hefur flórgoðapörum fjölgað mjög á Reykjanesskaganum og er það vel.

Í Tímanum árið 1991 segir um flórgoðann:

Flórgoði

Flórgoðapar.

„Flórgoði (Podiceps auritus) er andarættar og heldur sig við tjarnir og síki. Höfuðið er gljásvart, fiðurmikið og úfið. Nefið er stutt, rýtingslaga og stélið er örstutt. Fæturnir eru með sundblöðkur á tánum.

Flórgoði

Flórgoði.

Frá höfði um aftanverðan háls, bak og vængi er fjaðurhamur svartur en á flugi koma fram áberandi hvítir vængspeglar. Flórgoðinn er hálsgrannur og búkurinn kubbslegur. Hann fellir fjaðurskúfa að vetri og litauðugt fiðrið tekur á sig dökkan lit. Röddin er lík væli nema á mökunar- og varptíma, þá er hún margvísleg. Flórgoðinn verpir 3-6 eggjum í flothreiður við sefgrónar grynningar. Á veturna dvelur hann á sjávarvogum.“

Í Morgunblaðinu árið 1993 fjallar Guðmundur Guðjónsson um flórgoðann undir fyrirsögninni „Flórgoðinn á „hættulistann““ (kynning á tegundinni í Bæjarbíói og á Ástjörn).

Flórgoði

Flórgoði með unga.

„Flórgoði, eða sefönd, heitir einn af fallegustu og sérstæðustu varpfuglum landsins. Hvergi hefur fugl þessi verið áberandi utan á Mývatni og svo ef til vill á einhverjum einstökum vötnum hér og þar án þess þó að magnið hafi verið mikið. Nú hefur brugðið svo við, að flórgoða hefur snarfækkað síðustu tvo áratugi. Ævar Petersen fuglafræðingur segir að flórgoðinn sé einn af þeim fuglum sem visindamenn hérlendis hafi sett á hættulistann.
Flórgoðinn er tiltakanlega algengur, það hafa verið þetta 300 til 400 pör og rúmlega helmingur þeirra á Mývatni en afgangurinn dreifður um landið.
Ástjörn er eini staðurinn á landinu að Mývatni undanskildu þar sem talandi er um flórgoðabyggð. Þó eru nú aðeins 6 til 8 pör á tjörninni sem er með mesta móti.

Ýmsar orsakir…

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Ástæður fyrir svo mikilli fækkun flórgoða geta verið ýmsar og þeir aðilar sem rætt var við töldu að samspilandi þættir væru hér á ferðinni. Flórgoðinn þarf mjög sérstætt umhverfi. Einungis grunn og gróskumikil vötn með starargróðri henta honum. „Allur fjandinn“ hefur verið gerður við slík vötn hér á landi eins og menn sögðu. Minkur hefur lengi verið skaðvaldur í fuglaríkinu og vitað er að flórgoðinn er ein þeirra tegunda sem á sérstaklega erfítt með að varast minkinn og veldur því sameiginlegt kjörlendi og hættir fuglsins. Aðrir þættir geta og spilað inn í, þannig benti Ævar Pedersen á, að menn vissu lítið um vetrarheimkynni flórgoða. Þau væru talin vera um norðanverðar Bretlandseyjar, Írland, Suðureyjar og Shetlandseyjar. Eitthvað er auk þess af flórgoða við strendur landsins á veturna, að minnsta kosti kemur hann oftast fram í árlegri fuglatalningu sem fram fer nærri áramótum. Aðeins fimm sinnum hafa íslensk merki fundist á dauðum flórgoðum og eru allar heimturnar frá þessum slóðum. Hvernig fuglinum reiðir af á vetrarstöðvunum er lítið vitað og aldrei að vita nema að einhverja fækkunarorsökina sé að finna þar.

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Flórgoði hefur mikla sérstöðu í íslenska fuglaríkinu. Nægir þar að benda á skrautlegt og óvenjulegt útlit fuglsins, en margur álítur hann með fegurstu fuglum þessa lands. Þá er hann eina varptegundin af svokallaðri goðaætt, en goðarnir eru náskyldir svokölluðum brúsum, en himbrimi og lómur eru þekktastir þeirra og þekktir varpfuglar á Íslandi. En fleira er sérstætt en útlit fuglsins. Hann er eina íslenska tegundin sem gerir sér flothreiður. Hreiðurstaðurinn er í stör og öðrum vatnagróðri og hreiðurefnið nærtækur vatnagróður sem fuglinn hleður upp í dyngju. Eggin eru 3 til 5 og tekur útungun um 25 daga, en varptíminn hefst oftast í lok maí eða í byrjun júní og fer það eftir árferði. Kemur þá inn í myndina hvort varpstaðurinn er sunnanlands eða norðan. Þar sem flórgoðar eru á annað borð eru þeir mjög áberandi framan af sumri og er svo fyrir að þakka útliti þeirra og látbragði. Þá þykir mörgum falleg sjón að sjá ný- og nýlega klakta flórgoðaunga sitja á baki móður sinnar. Og það hefur sína kosti að notast við flothreiður þó svo að meinbugir séu þar einnig á. Þannig eru goðarnir næmir á veðurbreytingar eins og önnur dýr og til þeirra hefur sést „leysa landfestar“ og draga hreiðrin á nýja bletti. Hefur þá ekki brugðist að vind hefur hert og nýi bústaðurinn til muna öruggari en sá fyrri.
Það væri sjónarsviptir af flórgoðanum úr íslensku fuglaríki og það er segin saga, að fuglastofn sem er strjáll fyrir þolir illa þegar samverkandi þættir ógna honum.

Flórgoði

Flórgoði – dans tilhugalífsins.

Flórgoðinn hefur aldrei verið áberandi fugl ef Mývatn er undanskilið, en nú fækkar honum þar ár frá ári. Fleiri fuglategundir á Íslandi stefna niður á við þótt almenningur verði ekki var við það þar sem stofnarnir eru enn stórir.
Áður hefur verið getið í fréttum Morgunblaðsins um fækkun steindepils og maríuerlu. Það sama gildir um hávellu og óðinshana. Þeim fækkar stöðugt og sérfræðinga okkar bíða þau verkefni að finna út hver vandinn er og stöðva hina óheillavænlegu þróun.“ – Guðmundur Guðjónsson

Í Morgunblaðinu árið 2013 fjallar Ásgeir Ingi Jónsson um flórgoðan; „Saman á sumrin en óháð að vetri„:

Flórgoði

Úr skýrslu um fugla í Garðabæ 2018.

„Flórgoðar af sama vatninu, pör eða nágrannar sem höfðu búið sumarlangt hlið við hlið, eiga sér vetrarstöðvar hvorir á sínum stað. Þannig kom t.d. í ljós að pör fóru hvort í sína áttina að hausti og dvaldist annar fuglinn í Noregi og hinn við Skotlandsstrendur yfir veturinn. Svo komu þau aftur heim að vori, strengdu sín heit að nýju, gerðu sér hreiður á sama stað og ólu upp unga.“
Þannig greinir Þorkell Lindberg Þórarinsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, frá merkum niðurstöðum rannsóknar starfsmanna stofnunarinnar á vetrarstöðvum íslenskra flórgoða, en þær voru að mestu óþekktar. Niðurstöðurnar hafa nú þegar aukið þekkingu varðandi farhætti og vetrarstöðvar flórgoða.
Þorkell segir að það hafi til að mynda komið verulega á óvart hversu óháðir sambýlisfuglar eru hver öðrum í vetrarorlofinu. Við rannsóknina eru svokallaðir dægurritar (e. geolocator) festir á fætur fuglanna til þess að rannsaka farhætti og vetrarstöðvar. Verkefnið hófst árið 2009 og hafa nokkrir flórgoðar verið merktir á hverju ári.
Alls hafa 46 fuglar nú verið merktir með dægurritum, þar af tíu í fyrrasumar, og hafa 15 merki endurheimst nú þegar.

Nokkuð tryggir varpstaðnum
Flórgoðinn
Dægurritar safna upplýsingum um birtutíma. Út frá þeim er hægt að reikna staðsetningu á hverjum tíma, náist merkið aftur. Þessi tækni hefur einnig verið notuð til að skrá ferðir ritu, skúms og skrofu hér á landi. Fuglarnir voru veiddir og merktir á hreiðrum og er byggt á að þeir komi aftur á sama stað ári síðar. Þorkell segir að flórgoðinn virðist vera nokkuð tryggur varpstaðnum.
Niðurstöður rannsókna Náttúrustofunnar staðfesta vetrarstöðvar við Bretlandseyjar, Noreg og Ísland. Hér sjást flórgoðar í litlum mæli að vetrarlagi á suðvesturhorni landsins og á Austfjörðum.
Út frá upplýsingum sem fengust úr dægurritum má líka sjá hversu lengi flórgoðarnir voru að ferðast til og frá vetrarstöðvum. „Flórgoði hefur ekki þótt sérlega flinkur flugfugl,“ segir Þorkell. „Hann er vatnafugl af guðs náð og hálfankannalegur á flugi, stéllaus, með lappirnar aftur úr búknum. Það vafðist þó ekki fyrir honum að fljúga heim frá Skotlandi á aðeins einum sólarhring. Það finnst okkur vel af sér vikið.“

Fjölgað hratt á síðustu árum

Flórgoði

Flórgoði á flotdyngju.

Flórgoði er eini fulltrúi sinnar ættar, goðaættarinnar, sem verpir hér á landi en tegundin finnst víða á norðurhveli. Eins og aðrir goðar er hann sérstæður að byggingu og sérhæfður að vatnalífi. Hann fer aldrei á land, ekki einu sinni til þess að verpa, því hann byggir sér flothreiður á vötnum sem hann festir yfirleitt uppi í stör eða víðibrúskum sem slúta út í vötn af bökkum.

Flórgoði

Flórgoði.

Nú er talið að um þúsund pör séu í íslenska flórgoðastofninum.“

Heimildir:
-Tíminn, 16.02.1991, bls. 12.
-Morgunblaðið, 146. tbl., 02.07.1993, Flórgoðinn á „hættulistann“ – Guðm. Guðjónsson, bls. 26.
-Morgunblaðið, 59. tbl. 12.03.2013, Saman á sumrin en óháð að vetri – Ásgeir Ingi Jónsson, bls. 16.

Flórgoði

Flórgoði með unga.