Færslur

Reykjanes

Sagt er að ysti hluti Suðvesturkjálkans nefnist Reykjanes, þ.e. svæðið vestan línu er dregin er á milli Stóru-Sandvíkur í norðri og Sandvíkur í suðri.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Allt er svæðið mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri. Eldfjöll eru þar mörg en öll fremur lág. Þau eru einkum tvenns konar, hraundyngjur, s.s. Skálafell og Háleyjarbunga og gossprungur eða gígaraðir s.s. Stampar og Eldvörp. Gígaraðir tvær eru miklum mun yngri en dyngjurnar og sennilega orðnar til á sögulegum tíma. Nokkuð er og um móbergsfjöll þarna og ber einna mest á Sýrfelli. Utan í því er fallegur gígur, Hreiðrið (Stampur)
Mikill jarðhiti er víða á Reykjanesskaganum. Reykjanestáin er þar ekki undanskilin. Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er land þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpittum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Lokst var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í Gunnu.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Viti er á Reykjanesi, sá fyrsti sem byggður var á Íslandi árið 1879, Hann var reistur upp á Valahnúk, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og komur þá þrjár stórar sprungur skammt frá honum, bær vitavarðarins skemmdist og enn meira rask varð á jörðu og mannvirkjum. Var vitinn endurbyggður þar sem hann er nú á árunum 1907-1908. Hann stendur í 78 m.y.s.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Guðrún var ódæll draugur, sem olli usla. Galdraprestur var fenginn til að koma henni fyrir í hvernum. Rétt þar hjá er saltvinnsla og fiskþurrkun og þar mun líklega rísa magnesíumverksmiðja í framtíðinni. Árið 2003 var hafin bygging stórs varmaorkuvers á Reykjanesi í tengslum við stækkun Norðuráls á Grundartanga við Hvalfjörð.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn fyrri.

Fyrsti viti landsins var reistur uppi á Valahnjúki árið 1878. Árið 1887 ollu jarðskjálftar miklu hruni úr hnjúknum, þannig að nýr viti var reistur á árunum 1907-08, þar sem hann stendur enn þá 73 m yfir sjó. Skammt undan Reykjanestá er 52 m hár drangur í sjónum. Hann heitir Karl. Utar sést til Eldeyjar í góðu skyggni. Hún er 77 m há og á henni er mesta súlubyggð í heimi, u.þ.b. 70 þúsund fuglar. Eldey hefur oft verið klifin, en til þess þarf sérstakt leyfi, þar sem hún er á náttúruverndarskrá. Á Eldeyjarsvæðinu hefur líklega gosið a.m.k. 10 sinnum og þrisvar hafa orðið til eyjar, sem hurfu nokkurn veginn jafnskjótt og þær urðu til.
Gengið var frá Gunnuhver, suðurmeð austanverðu Skálafelli og niður á Krossavíkurbjarg, öðru nafni Hrafnkelsstaðaberg. Bergið er 10 – 40 metra hátt. Undir því fórst bátur í marsmánuði 1916 með 10 eða 11 manna áhöfn. Skipshöfnin komst í land, að sagan segir fyrir dugnað Kristjáns Jónssonar frá Efri-grund, sem hélt skipinu föstu í klettunum meðan skipshöfnin var að komast úr því. Skipið dróst síðan út og brotnaði. Undir berginu eru Skemmur – básar inn undir bergið á kafla. Eitt mesta björgunarafrek, sem unnið hefur verið undan ströndum landsins, var unnið þarna fyrir utan er kútter Ester frá Reykjavík bjargaði áhöfnum fjögurra báta, eða 40 manns. Undir berginu þarna stendur bergstandur úti í sjó, líklega leifar af steinboga. Heill og stór steinbogi er í borginni skammt vestar og sést hann vel þegar staðið er inni á bjargbrúninni.

Reykjanes

Litliviti.

Nýjasti Reykjanesvitinn, stundum nefndur Litli viti, er á Tánni. Hann er staðsettur þarna vegna þess að stóri vitinn á reykjanesi er í hvarfi við Skálafellið á kafla nokkuð austur í grindavíkursjó. Vestan við hann er Blásíðubás. Í óverðinu í mars 1916, mestu hrakningum í sjóferðasögu grindavíkur, bjargaðist einn bátanna upp í básinn og áhöfnin bjargaðist. Blásíðubás er stærstur básanna við Grindavíkurstrendur og einn sá fallegasti. Vitað er að þrisvar hafi skipshafnir lent og bjargast þar á síðustu stundu frá því að lenda í Reykjanesröstinni og sogast þannig til hafs.

Valbjargargjá

Valbjargargjá.

Áður en komið er út að Valbjargargjá mótar fyrir bás. Ofan við hann er varða. Þarna varð eitt af stærstu sjóslysum, sem orðið hafa á þessum slóðum, þegar olíuskipið Clam strandaði og 27 menn drukknuðu. Eitthvert ofboð hljóp í skipshöfnina eftir að skipið strandaði. Björgunarbátar voru settir út í brimið, en það velti þeim á svipstundu. Ekki voru nema 20-30 metrar í land. Þremur mönnum skolaði lifandi á land. Þegar björgunarsveitin úr Grindavík kom á vettvang voru enn 24 menn um borð í skipinu. var þeim öllum bjargar á línu milli skips og lands.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valahnúkamölin er fyrsta örnefnið í Grindavíkurlandi vestan megin. Þar eru landamegi Hafna, eða Kalmanstjarnar í Höfnum og Staðar í Grindavík. Mörkin hafa ekki verið krýsulaus. Hafnamenn nefndu t.d. básinn ausanvið Valbjargargjá Kirkjuvogsbás, svona til að koma Hafnalandinu örlítið austar, en Grindvíkingar hafa ekki sætt sig við það.
Fallegt útsýni er af berginu yfir að Valahnúk. Draugshellirinn í miðjum hnúknum sést vel, efst í grasbrekku. Við hann eru tengdar rammar draugasögur (sjá Rauðskinnu).

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Gengið var vestur eftir Valahnúksmölum og niður að Keldutjörn. Reykjanesvitinn speglaðist fagurlega í vatninu. Vestan við tjörnina eru hleðslur eftir hina gömlu sundlaug Grindvíkinga, en í gjánni innan þeirra lærðu margir Grindjánar að synda á fyrri hluta 20. aldar. Líklega hefur verið hitavermsl í gjánni þótt hún sé nú kulnuð.
Gengið var vestur að flóruðum stíg er lá á milli Valahnúks, þar sem fyrsti vitinn hér á landi var reistur, og vitavarðarhússins. Vestan við Valahnúk er lægð í hellulandið. Í henni er flóraður vegur niður undir helluna. Þangað var efnið í gamla vitann og vitavarðahúsið m.a. sótt. Leifar gamla vitans liggja undir Valahnúk og bíða endurnýjun lífdaga. Það voru danskir er höfðu hönd í bagga við byggingna á sínum tíma sem og gerð brunnsins í túninu neðan við Bæjarfell.

Karl

Karlinn.

Karlinn stendur teinréttur utan við ströndina, 52 m hár móbergsdrangu. Eldey ber í sjónarrönd.
Reykjanesið, svonefnda, býður upp á ótrúlega mikla útivistarmöguleika. Minjasvæðið tengt vitagerð nær frá Kistu að Hrafnkelsstaðarbergi. Þar má sjá grunn gamla sjóhússins, lendinguna neðan þess, gerði, stíg, flóraðagötu niður að sjó vestan Valahnúks, flóraðan stíg milli hans og vitavarðahússins gamla, brunninn undir Bæjarfelli, leifar gamla vitans undir Valahnúk, vitann á Vatnsfelli og Litla vita á Reykjanestá svo eitthvað sé nefnt.

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Berg- og jarðmyndarfræðin (sköpunarsagan) eru þarna allt um kring, fugla- og gróðurlíf er með fjölbreyttara móti, auk þess sem landslagið er bæði hrikalagt og fagurt í senn. Og ekki skemmir fyrir að svæðið er einungis spölkorn frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu (Grindvíkingar gætu hæglega gengið þangað líkt og í sundlaugina fyrrum).
Frábært veður – sól og afar hlýtt – Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-natmus.is
o-Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson – 1960.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesviti

“Reykjanesið er undarlegur skapnaður”, sagði Jón Trausti. En þrátt fyrir svartsýni hafa miklar vonir verið bundnar í gegnum tíðina við þennan útskaga, nýjasta hluta landsins.

Háleyjar

Tóft á Háleyjabungu.

Gengið var frá Sandvík. Mikill reki er á sandorpnum köflum með ströndinni. Innan um rekann ber margt forvitnilegt fyrir augu. M.a. var þarna hluti úr síðu gamals árabáts. Byrðingurinn var negldur saman með koparnöglum.
Hátt bergið gapið við. “Það er eitthvað hrikalegt og seiðmagnað yfir þessari strönd sem enginn mun gleyma”, sagði séra Gísli Brynjólfsson þegar hann hafði gengið leiðina um 1980. Austast í urðinni undir Háleyjarbungu fannst lík óþekkta sjómannsins, sem nú hvílir í Fossvogskirkjugarði. Það var vorið eftir Skúlastrandið fógeta á Staðarmölum.

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.

Nokkru vestar heitir Hrafnkelsstaðaberg. Undir þessu bergi strandaði Jón Baldvinsson 31. mars 1955. Þar gat nú að líta dauðan búrhval í fullri stærð. Utar heitir Skarfasetur. Þar fyrir utan er eina mannvirkið á þessum slóðum, lágur viti til leiðbeiningar sjófarendum þegar ljósið úr Reykjanesvita hverfur bak við Skálafell. Frá vitanum blasir Eldey við sem og karlinn úti með ströndinni austan Valahnjúka.
Í norðurhlíð Skálafells og þar norður af er hverasvæði það sem gefið hefur nesinu öllu nafn. Einn hveranna mun áður hafa verið nefndur Reykjanes-Geysir, en hann var breytilegur, hvarf um lengri tíma en tók sig upp á ný sem goshver 1918. Þá var hverinn einfaldlega nefndur 1918. Í kringum 1960 varð hann hreyfingarlítill, en við jarðskjálftann haustið 1967 tók hann að gjósa ákaflega, en það stóð ekki lengi. Nú er hann tær atkvæðalítill vatnshver með söltu vatni.

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúksmöl.

Rétt norðan við Reykjanestána, sem er 78 metra há, skerts smávík inn í bergið, Blásíðubás. Þetta er falleg náttúrusmíð. Oftar en einu sinni hefur lífum sjómanna verið borgið í Blásíðubás þótt þar sé alldrei kyrr sjór.
Vestar er Valahnjúkamölin. Þar fyrir utan strandaði Clam 28. febrúar 1950.
Á skipinu voru 50 manna áhöfn. Af þeim fórst um helmingur er þeir reyndu að komast á land á skipsbátum. Hinum náðu björgunarsveitir.
Á syðri Valahnjúknum var reistur fyrsti viti landsins árið 1878. Hann skemmdist í jarðskjálfta 10 árum síðar. Leifar hans sjást nú neðan við hnúkinn.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Árið 1908 var núverandi Reykjanesviti byggður á Bæjarfelli. Hann blasti nú við göngufólkinu frá Valbjargargjá, en þaðan séð er hann eins og klipptur út úr landslagsmálverki.
Endað var með því að skoða hlaðna sundlaug í sprungu skammt ofan við Valahnjúkamalir. Þar lærðu Grindavíkurbörn sund um og í kringum 1930. Þá rann volgt vatn um gjána er blandaðist köldum sjónum. Mannvirkið er enn nokkuð heillegt.

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Jón Baldvinsson

Í Morgunblaðinu árið 1955 er fjallað um strand togarans Jóns Baldvinssonar undir fyrirsögninni; “Undan þessu bjargi verður engu skipi bjargað“.  Á gömlum kortum er bergið það skráð sem Krossavíkurberg, en Hrafnkelsstaðaberg ku hafa verið nafnið á því að vestanverðu, en Krossavíkurberg á milli þess og Háleyjabergs.
Í fyrirsögn blaðsins segir: “Togarinn Jón Baldvinsson fórst í fyrrinótt – Áhöfn 42 mönnum bjargað. Togarinn fór á flullri ferð upp í stórgrýtisurð á Reykjanesi.”

Jón Baldvinsson
“Enn var unnið mikið björgunarafrek í gærmorgun, er hópur vaskra Grindvíkinga bjargaði áhöfn Reykjavíkurtogarans Jóns Baldvinssonar, er strandaði undir bröttum hömrum kippkorn fyrir austan gamla vitann á Reykjanesi. Sigldi togarinn þar í land með fullri ferð um klukkan 4 í fyrrinótt. Togarinn var á saltfiskveiðum og voru á honum 29 Íslendingar og 13 Færeyingar. — Sjópróf í máli þessu hefst í dag, en ástæðan til strandsins er ókunn. Veður var stillt en allþétt þoka. Björgun togarans er með öllu vonlaus.
Fregnin um strand nýsköpunartogarans Jóns Baldvinssonar flaug um bæinn árla í gærmorgun. Fólk varð þrumulostið yfir þessum illu tíðindum, og minntist þess, að fyrir um tveim mánuðum síðan fórst fyrsti nýsöpunartogarinn Egill rauði. En þungu fargi var af mönnum létt, er fregnir bárust um að björgunarstarfið hefði gengið framúrskarandi vel.

Hraðið förinni!

Egill rauði

Egill rauði á strandstað utan Vestfjarða. Eitt frækilegasta björgunarafrek síðustu aldar hér á landi var unnið þegar 29 mönnum úr áhöfn togarans Egils rauða var bjargað 27. janúar 1955. Þrjú mikil sjóslys urðu við Vestfirði miðvikudaginn 26. janúar 1955. Í áhöfn Egils rauða voru 34, 19 Færeyingar og 15 Íslendingar. Komust allir upp í brú skipsins utan fjórir Íslendingar sem horfnir voru í hafið. Fimm af áhöfninni létust þennan dag, 29 var bjargað.

Tíðindamenn Mbl. fóru á strandstaðinn í gær og áttu þeir stutt samtal við Sigurð Þorleifsson formann Slysvarnafélagsins í Grindavík, um björgunina. — Skrifstofustjóri SVFÍ, Henrý Háldánarson ræsti mig um kl. 4 og sagði mér af strandi togarans. Lét hann þess getið, að skipbrotsmenn hefðu lagt áherzlu á að björgunarsveitin hraðaði för sinni sem mest hún mætti, vegna mikilla ólaga, sem riðu yfir skipið Sigurður náði fljótlega saman 18 mönnum úr björgunarsveitinni og byrjað var að undirbúa bílana, sem flytja skyldi menn og áhöld. En vegurinn, sem er líkari troðningum út á Reykjanesið, er svo mjór að taka varð ytra afturhjólið undan hverjum vörubílanna.

Undir 40—50 metra háu bergi

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson á strandsstað.

Í þetta umstang fór eðlilega nokkur tími, sagði Sigurður, en um kl. 7 var björgunarsveitin komin fram á bergið, sem togarinn hafði strandað undir. Heitir það Hrafnkelsstaðaberg og m á þessum stað um 40—50 m. hátt. Á berginu hittu björgunarmenn Sigurjón Ólafsson vitavörð á Reykjanesi, sem komið hafði á strandstaðinn um kl. 5. Frá togaranum hafði hnu verið skotið upp á bergi, svo undirbúningur að sjálfu björgunarstarfinu tók skamma stund.

Flestir á hvalbak

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson á strandsstað.

Skipverjar á Jóni Baldvinssyni voru þá flestir komnir fram á hvalbak skipsins, enda náðu ólögin ekki þangað, er þau brotnuðu á reykháf og yfirbyggingu, því skipið sneri framstafni að landi. Nokkrir skipsmenn höfðust þó enn við í brúnni, sem ólög gengu yfir. En mönnum þessum gekk vel að kornast fram á hvalbakinn og sættu lögum.

Bjargað á 1,40 klst.

Tómas Þorvaldsson

Tómas Þorvaldsson.

Þokuslæðingur var, og stundum bar svo þykka bólstra fyrir, að björgurarmenn á berginu sáu tæplega mennina á hvalbaknum.
Björgunarstarfið gekk þó vel, sagði Sigurður enda er formaður sveitarinnar hinn traustasti maður, Tómas Þorvaldsson. Kl. 20 mín. fyrir 9, var síðasta manninum af 42 manna áhöfn togarans bjargað. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifssson, fór síðastur frá borði. (Nöfn skipbrotsmanna má sjá hér aftar).

Góðar móttökur
Á heimili Sigurjóns vitavarðar í Reykjanesvita og konu hans Sigfríðar Konráðsdóttur, var skipbrotsmönnnum borin hressing, en þeir voru blautir og nokkrir höfðu hlotið minniháttar meiðsl, og var gert að sárum þeirra þar af lækni, sem fór með björgunarsveitinni. Einn mannanna var nokkuð meiddur á fæti.
Frá Reykjanesvita voru mennirnir fluttir til Grindavíkur og voru allir komnir þangað laust fyrir hádegi. Þar snæddu þeir hádegisverð í boði kvennadeildar SVFÍ þar. Að miðdegisverði loknum héldu skipbrotsmenn för sinni áfram til Reykjavíkur.
Það sem bjargaði mönnum Björgunarsveitarmönnum brá í brún, er þeir komu að togaranum og sáu að báðir björgunarbátarnir voru horfnir af skipinu eða brotnað á bátapalli. Annan bátinn höfðu skipverjar reynt að setja út, en til allrar hamingju munu togaramenn hafa misst bátann út úr höndunum í ólögunum, sagði Sigurður Þorleifsson, því ella hefði manntjón orðið. — Hvorki var hægt að lenda báti í stórgrýtinu undir bjarginu, né heldur björgunarfleka, enda lá báturinn brotinn í spón í urðinni skammt frá. Hinn báturinn mun hafa brotnað á bátapallinum.
En víst er um það, að ekki hefði björgunarmannanna mátt dragast öllu lengur, sagði Sigurjón vitavörður í stuttu samtali við tíðindamenn blaðsins, því togarinn hafði strandað um fjöru, en nokkuð var byrjað að falla að er björguninni var lokið og stórsjóar teknir að ganga yfir skipið stafna á milli.

Flakið sem klettur
Jón Baldvinsson
Er tíðindamenn blaðsins voru þar syðra um hádegisbilið og háflæði var, gengu ólögin stöðugt yfir allt skipið og í þeim mestu fór yfirbyggingin og reykháfurinn á kaf. En þrátt fyrir hin ægiþungu brot haggaðist flakið ekki í stórgrýtinu frekar en klettur, en háir skellir kváðu við gegnum brimgnýinn er trollhlerarnir lömdu síður skipsins, sem þarna bíður þess eins að liðast í sundur, jafnvel á svipstundu, ef snýst til suðaustan brims.

Vonlaust um björgun

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson á strandsstað.

Um björgun er ekki að ræða. Annar togarinn í hinum glæsilega togaraflota Íslendinga, horfinn, „því undan þessu bjargi verður engu skipi bjargað”, sagði gamal Grindvíkingur við tíðindamenn blaðsins er þeir á heimleiðinni stöldruðu við litla stund í þorpinu. Þar stóðu menn niður við beitingarskúrana og horfu á bátana sæta lagi við að komast inn á höfnina úr róðri, því þó ekki hafi verið mikið brim á mælikvarða staðarmanna, þá urðu formenn bátanna þó að hafa fulla gát á.

Sjópróf

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson á strandsstað.

Það er ekki vita? hvað olli því, að Jón Baldvinsson sigldi með fullri ferð upp að Hrafnkelsstaðabergi, það mun væntanlega koma fram við sjóprófin. Togarinn hafði verið á saltfiskveiðum um tveggja vikna skeið og var nú síðast á Selvogsbanka. Mun hann hafa ætlað á vestlægari mið, Eldeyjarbankann, eða jafnvel vestur undir Jökul. Skipstjórinn Þórður HjörJeifsson var ekki á vakt, og var fyrsti stýrimaður Indriði Sigurðsson yfirmaður á stjórnpalli.

Pétur Halldórsson

Pétur Halldórsson.

Jón Baldivinsson var 3 ára og 9 mánaða. Hann sigldi fánum skreyttur inn á Reykjavíkurhöfn 25. júní 1951. Hann var af sömu gerð og t.d. togarinn Pétur Halldórsson. sem einnig er eign Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Var Jón Baldvinsson tæpl. 700 lesta skip. Er hann strandaði var hann með á annað hundrað tonn af saltfiski og nokkuð af fiskimjöli.
Alla tíð var togarinn aflasælt skip. Hann var heitinn eftir Jóni Baldvinssyni alþingismanni og forseta Alþýðusambands Íslands.

Mikið tjón

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson. B.v. Jón Baldvinsson RE 208. Hinn nýi togari Bæjarútgerðarinnar kom í gær.
Mikill mannfjöldi var saman kominn á hafnarbakkanum til þess að fagna nýjasta togara Bæjarútgerðar Reykjavíkur, “Jóni Baldvinssyni”, er hann sigldi fánum skreyttur inn á Reykjavíkurhöfn um kl. 6 síðdegis í gær, eftir fljóta og góða ferð frá Englandi.
“Jón Baldvinsson” er 680 brúttósmálestir að stærð og af sömu gerð og togarinn Þorsteinn Ingólfsson. Vél skipsins er olíukynt gufuvél, og í reynsluförinni sigldi það 13 sjómílur. Skipstjórinn, Jón Hjörtur Stefánsson, lét mjög vel af skipinu á leiðinni heim, en þeir fengu mjög gott veður. Farið var gegnum Pentlandsfjörðinn í svarta þoku, en skipið er búið ratsjá, svo að förinni seinkaði ekki vegna þokunnar. Í hinu vistlega herbergi skipstjórans voru saman komnir ásamt nokkrum gömlum vinum og samstarfsmönnum Jóns heitins Baldvinssonar, Gunnar Thoroddsen borgarstjóri og Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur, sem einnig var einn af vinum , og samstarfsmönnum Jóns Baldvinssonar, og buðu þeir skipið velkomið og árnuðu því og skipshöfninni heilla. í þessum hópi var einnig Baldvin Jónsson, lögfræðingur, Baldvinssonar, og átta ára gamall sonur hans, Jón Baldvinsson. Skipstjóri á “Jóni Baldvinssyni” er Jón Hjörtur Stefánsson, 1. stýrimaður Páll Björnsson, 2. stýrimaður Ólafur Marínó Jónsson, 1. vélstjóri Jónas Ólafsson. Ekki er enn ráðið, hvort skipið verður fyrst sent á karfaveiðar eða það veiðir í salt. “Jón Baldvinsson” er 7. togari bæjarútgerðarinnar; en nú eru liðin 4 ár síðan fyrsti togarinn, “Ingólfur Arnarson” kom til Reykjavíkur. Bæjarútgerðin mun væntanlega fá einn togara í viðbót af þeim, sem nú er verið að smíða í Bretlandi.
Alþýðublaðið. 26 júní 1951.

Slíkur togaraskaði verður vart metinn í krónum, því svo afkastamikil atvinnutæki eru togararnir og svo mikla vinnu skapa þeir.
Það er því sannarlega stórtjón fyrir þjóðarbúið, er Jón Baldvinsson er nú horfinn. Hann var tryggður hjá Samtryggingu ísl. botnvörpuskipa fyrir rúmlega 10 milljónir króna.”

myndir:

Mbl. bls. 2 og 5:

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson var tæpl. 700 lesta skip. Er hann strandaði var hann með á annað hundrað tonn af saltfiski og nokkuð af fiskimjöli. Alla tíð var togarinn aflasælt skip. Hann var heitinn eftir Jóni Baldvinssyni alþingismanni og forseta Alþýðusambands Íslands.

Skipshöfn Jóns Baldvinssonar skv. upplýsingum frá lögskráningarskrifstofu skipshafna, var skipshöfn togarans Jóns Baldvinssonar, skipuð þessum mönnum:
Bv. Jón Baldvinsson RE 208
Þórður Hjörleifsson skipstjóri
Indriði Sigurðsson I. stýrimaður,
Jóhann Jónsson II. stýrimaður,
Símon Símonarson I. vélstjóri, Barmahlíð 12,
Agnar Hallvarðsson, II. vélstjóri,
Agnar B. Aðalsteinsson, III. vélstjóri, Haðarstíg 18
Stefán Ágústsson loftskeytam., Langholtsveg 183,
Guðm. H. Guðmundsson, brm., Ásyallagötu 65,
Þorlákur Hálfdánarson, kyndari, Langholtsveg 192,
Halldór Bjarnason, mjölv.m., Neskaupstað,
Þorsteinn Jónsson háseti, Ísafirði,
Steinn Þorsteinsson, háseti, Laugaveg 87
Ólafur Guðmundsson, háseti, Vesturgötu 9,
Héðinn Vigfússon, háseti, Brekkustíg 7,
Svavar Björnsson, mjölvinnslum., Suðurlandsbraut 15,
Sveinn Stefánsson, bátsmaður, Hofsósi,
Thorhallur Andreasen háseti, Færeyjar,
Eli Petersen, háseti, Færeyjum,
Samal J. Petersen, háseti. Fær.,
Sören Olsen, háseti, Færeyjum,
Hans J. Hansen, háseti, Færeyj.,
PaJl J. Djurhus, háseti, Fær.,
Edmund Vang, háseti, Fær.,
Eyðálfur Jóhannessen, hás., Fær.,
Theodor Johannessen, hás.. Fær.,

Jón Baldvinsson

“Togarinn Jón Baldvinsson RE 208 sStrandaði við Reykjanes í fyrrinótt. Öllum skipverjum 42 að tölu bjargað en óttast að skipið sé gersamlega ónýtt
Togarinn Jón Baldvinsson strandaði í fyrrinótt undan Hrafnkelsstaðabergi austan á Reykjanesi. 42 manna áhöfn var á skipinu, þar af 13 Færeyingar. Var öllum bjargað. En óttazt er, að skipið eyðileggist.
Togarinn Jón Baldvinsson var einn af 10 nýjustu togurunm og kom til landsins í júní 1951. Hann var tæp 700 tonn að stærð. Togarinn var að koma af veiðum í salt á Selvogsbanka og var að fara vestur úr “Húllinu”, eins og kallað er, vestur á Eldeyjarbanka eða vestur undir Jökul. Veðri var svo háttað er það strandaði, að þokuslæðingur var yfir og dimmt af nóttu. Sjólítið mun hafa verið úti fyrir. en mikið brim við ströndina, eins og mjög oft er við Reykjanes. Skipið tók niðri um kl. 3,45. Mun fyrsti stýrimaður hafa verið þá á vakt, en kallað á skipstjóra, rétt um það leyti sem skiplð tók niðri.
Sent var út neyðarskeyti, og kom loftskeytastöðin því til Slysavarnafélagsins, sem símaði til Grindavíkur, og lagði björgunarsveitin þaðan strax af stað með björgunarútbúnað. Var björgunarsveitin komin á strandstað um kl. 6.50. Einnig voru send upp neyðarblys. Sá vitavörðurinn á Reykjanesi þau, og kom hann fyrstur á strandstað. Lét hann í té upplýsingar um, hvar skipið hefði strandað, en um það var ekki vitað nákvæmlega áður. Skipverjar höfðu, áður en björgunarmenn komu á vettvang, skotið línu í land, og tók vitavörðurinn á móti henni og setti hana fasta.
Sjór gekk yfir skipið aftanvert, svo að illvært var í stjórnpalli en skipverjum tókst að komast fram á hvalbak, þar sem betra var að vera. Lágsjávað var, er skipið strandaði, en með hækkandi sjó var óttast, að farið gæti að brjóta á skipinu framan til, og þá voru mennirnir í bráðum háska.
Vegna þess að skipverjar höfðu sjálfir komið línu á land, var fljótlegt að koma björgunarútbúnaði fyrir. Björgunin gekk líka mjög rösklega, þótt aðstaðan væri allerfið. Um 150 m vegur var út í skipið, en bergið 30-40 m hátt þverhnípi, sem sjór fellur að, svo að björgunarmenn urðu að draga strandmenn úr skipinu upp á bergið. Fyrsti maðurinn var kominn í land rétt fyrir kl. 7 og öllum hafði verið bjargað kl. 8.45. Jafnótt og strandmenn komu á land fóru þeir heim í íbúð vitavarðar og fengu hressingu. Biðu þeir þar uns bifreiðar komu og sóttu þá. Þeir mötuðust í Grindavík, en voru komnir til Reykjavíkur um kl. 3 í gær.
Auk björgunarsveitaririnar í Grindavík komu á strandstað menn frá Bæjarútgerð Reykjavíkur með lækni með sér. Þá komu þar fáeinum mínútum, eftir að Grindvíkingarnir komu, Baldur Jónsson formaður björgunarsveitarinnar í Reykjavík og Guðmundur Pétursson fulltrúi Slysavarnarfélagsins og læknarnir úr Keflavík og Njarðvíkum. Höfðu þeir með sér talstöð. Unnt var að hafa samband við strandstað allan tímann. Eftir að ljósavél skipsins stöðvaðist notaði loftskeytamaðurinn neyðarsendi, er gengur með rafhlöðum, mjög hentugt tæki. En skeytum var komið til Reykjavíkur með því að láta togarann Kaldbak senda þau en hann lá fyrir utan. Skipstjóri á togaranum þessa ferð var Þórður Hjörleifsson, sem lengi var með togarann Helgafell.” – Alþýðublaðið. 1 apríl 1955.

Erik Olsen, háseti, Færeyjum,
Marne Olsen, háseti, Færeyjum,
Einar Olsen, háseti, Færeyjum,
Jörvan A. Poulsen, háseti, Fær.,
Haraldur Erlendsson, háseti, Laugaveg 87,
Þórarihn Hailvarðsson, netam., Langholtsvegi 184,
Sigursteinn Sigurðsson, háseti, Blesugróf,
Daði Guðmundsson, háseti.
Friðrik L. Fanring, háseti, Smyrilsvegi 29,
Karl H. Björnsson, kyndari,
Jón Jónsson. I. matsveinn, Miðtúni 70,
Óskar Guðjónsson, netam, Stórholti 32,
Jón Guðmundsson, háseti, Flateyri,
Bragi Guðmundsson, háseti, Hveragerði,
Rafn Thorarensen, háseti, Fálkagötu 14,
Nikulás Jónsson, II. matsveinn, Sviðnum á Breiðaf.,
Jóhann Steinþórsson, háseti, Flatey.

Heimild:
-Morgunblaðið, 76. tbl. 01.04.1955, “Undan þessu bjargi verður engi skipi bjargað” – Togarinn Jón Baldvinsson fórst í nótt, bls. 16. Einnig á bls. 2 og 5 í s.bl.

Reykjanes

Reykjanes – kort 1952.