Tag Archive for: Húsatóftir

Húsatóftir

Í Faxa árið 1958 fjallaði Jóhanna Kristinsdóttir um „Skátaskólann“ að Húsatófum við Grindavík.

Húsatóftir„Eins og flestir Keflvíkingar vita, réðist Skátafélagið Heiðarbúar í Keflavík í það stórræði í sumar, að starfrækja skátaskóla að Húsatóftum í Staðahverfi í Grindavík. Jörðin Húsatóftir, sem löngu var komin í eyði, er ríkisjörð. Húsið er myndarlegt, eins og meðfylgjandi mynd sýnir, en eftir að skátarnir höfðu fengið umráðarétt yfir því, endurbættu þeir það mikið og gerðu hið vistlegasta. Forstoðukona var frú Jóhanna Kristinsdóttir, sam góðfúslega varð við þeim tilmælum blaðsins, að segja í stuttu máli frá starfseminni í sumar.
Fer frásögn hennar hér á eftir:
„Skátaskólinn að Húsatóftum, tók til starfa 28. júní í sumar, og komu þá 4 telpur og 13 drengir, sem voru fyrstu vikuna, strax næstu viku á eftir varð fullskipað, eða 12 telpur og 18 drengir.
Sunnudaginn 5. júlí var svo vígsla skátaskólans, og var það sambandi við afmæli kvenskátasveitarinnar, en hún átti 15 ára afmæli 2. júlí, í því tilefni komu 50 skátastúlkur í útilegu svo og nokkrar af þeim elztu og nokkrir gestir. Séra Björn Jónsson messaði, úti, skátar og gestir sungu, síðan var staðurinn sýndur og loks almenn kókódrykkja, var þetta hinn ánægjulegasti dagur.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Starfsfólk við skátaskólann auk mín voru, frú Hera Olafsson, matráðskona, Rakel Olsen, sveitarforingi, Rut Lárusdóttir, Ragnhildur Árnadottir, Sveinbjörn Jónsson, Svan Skúlason, flokksforingjar og síðustu 3 vikurnar Gunnar Guðjónsson, því hinir hættu.
Börnunum var skipt niður í flokka og var þeim stjórnað af flokksforingjum, t. d. eldhúsflokk, hann þvoði upp, lagði á borðið og þvoði borðsalinn. Í þessum flokki var starfað í einn dag. Skálaflokkur, hreinsaði til innan húss, þvoði gólf og fl. Sorp- og AraBínuflokkur, brenndi rusli, dældi vatni og þvoði AraBínu, en svo nendist kamarinn.
Út á AraBínu, okkar skari fer,
að hitta annað þeirra, erindið oftast er
Bína syngur hátt, og brosir blítt,
en Ari raular og hlær á víxl
og okkur líður vel.
HúsatóftirÚtivinnuflokkar voru tveir, þeir hreinsuðu til í kringum húsið, brutu spýtur í eldinn, og sóttu kol, og löguðu girðinguna umhverfis.
Þessi vinna var yfirleitt unnin fram að hádegi, annars var dagskráin á þessa leið:
Kl. 8.00 Vakið, morgunleikfimi þegar veður var gott.
Kl. 8.45  Skálaskoðun, foringjar skoðuðu í töskur og kojur.
Kl. 9.00 Hafragrautur, brauð og mjólk.
Kl. 10.00 Fáni dreginn upp.
Kl. 10—12. Flokkar við störf.
Kl. 12.00 Hádegismatur.
Kl. 1.00 Hvílt. Þá máttu börnin leggja sig.
Kl. 2.00 Flokksfundir.
Kl. 3.00 Kókó, brauð, kringlur, kex.
Kl. 3.30 Gönguferðir, leikir o.fl.
Kl. 5.00 Þvottur.
Kl. 6.00 Kvöldverður.
Kl. 7.00 Fylkst.
Kl. 8.00 Fáni dreginn niður.
Kl. 8.15  Varðeldur eða kvöldvaka.
Kl. 9.00 Kvöldbænir.
Kl. 9.15  Kyrrð, og voru þá flestir sofnaðir.
Varðeldur var yfirleitt tvö kvöld í viku, eða kvöldvaka, e£ veður var vont, svo var lesin framhaldsaga í hverju herbergi hin kvöldin.
HúsatóftirGönguferðir voru farnar um nágrennið, t. d. tvisvar gengið á „Þorbjörn“ einu sinni farið út í Þórköllustaðarhverfi, oftast var þó farið út í hraun og út að Stað. Fjaran var líka könnuð og mikið týnt af skeljum og kuðungum.
Börnin fengu ekki að fara út fyrir girðingu nema í fylgd með foringja.
Þá höfðum við þann sið að gefa kross, ef einhver braut reglurnar, t. d. fór út fyrir girðinguna, lék sér í vatnsdælunni, blótaði og fl. fl. Krossarnir voru svo lesnir upp á varðeldum á föstudögum, og þótti það mikil hneisa að hafa fengið kross, sum fengu nokkuð marga krossa en önnur engan, t. d. var einn drengur hjá okkur í þrjár vikur og fékk níu krossa, hann kom svo aftur seinna og var í viku og fékk þá engann, og það gladdi okkur mikið því þá fundum við einhvern árangur af starfinu.
Á flokksfundum voru kennd atriði úr skátahreyfingunni, t. d. hnútar, leynimerki, armbendingar, teikna ísl. fánann og þekkja meðferð hans, skátasöngvar og leikir og fl. Einnig voru búin út hnútaspjöld sem börnin fóru svo með heim.

Húsatóftir

Húsatóftir – skátasamkoma.

Einn drengur tók nýliðapróf og vann skátaheitið, var það Margeir Margeirsson, og var hann einnig skipaður flokksforingi yfir drengjunum. Hann sat við borðsendann og hélt reglu við borðið, flautaði ef einhver hávaði var. Þessi vísa var búin til um hann:

Hann Maggi Magg er flokksforingi
og stjórnar litlu strákaþingi.
Þegar hann flautar borðið við
þagna strax ólætin.

Einnig tóku 7 drengir ylfingapróf og unnu yfingaheitið, eru þetta fyrstu ylfingar í félaginu. Þá tóku ljósálfar mörg sérpróf.
Það bjargaði okkur alveg hvað veðrið var dásamlegt í allt sumar, en það hefði orðið nokkuð þröngt hjá okkur ef mikið hefði ringt, því ennþá á eftir að gera við útihúsin, setja þar upp rólur og fleira sem hægt er að una við í leiðinda veðri.
Að síðustu vil ég láta í ljós þá von að skátaskólinn á Húsatóftum fái að starfa af krafti næstu ár, því þetta er mikill menningarauki fyrir bæjarfélagið í heild.
Þetta var allt á byrjunarstigi hjá okkur í sumar, og mjög dýrt að setja húsið í stand og koma þessu í gang, en ef allir standa saman um að hlú að þessu starfi, megum við líta björtum augum á framtíðina.“ – Jóhanna Kristinsdóttir.
Faxi

Húsatóftir

Í bókinni „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók„, sem gefin var út árið 1975, skrifuð af Gísla Brynjólfssyni, má lesa eftirfarandi um horfnu þurrabúðirnar í landi Húsatófta; Vindheima, Blómsturvalla, Dalbæjar og Hamra:

Vindheimar

Húsatóftir

Vindheimar.

Það var árið 1911, að Árni Jónsson á Húsatóftum seldi Magnúsi syni sínum í hendur þriðjunginn af sínum patri í Tóftum.
Á einum þriðja reisti hann sjáfstætt býli, sem hann nefndi Vindheima, og bjó þar með Vilborgu konu sinni og tveim börnum þeirra til vorsins 1919, að þau hjón fluttust til Reykjavíkur ásamt syni sínum Sigurði, mállausum.
En það er af Vindheimum að segja, að eftir að Árni fluttist þaðan 1919, að næsta ár er Jódís dóttir hans talin þar til heimilis með ungum syni sínum, Árna Vilberg.
Síðan stendur húsið autt – og þó.

Húsatóftir

Vindheimar – tóftir.

Austur í Járngerðarstaðahverfi er Templarahúsið sameiginleg miðstöð hverfanna þriggja fyrir mannfagnaði hvers konar. En þangað er klukkutíma gangur úr Staðarhverfi, Og ósjaldan um hraun að klöngrast, sé Rásin óvæð. Staðhverfingar bregða því á það ráð um sinn að fá Vindheimahúsið léð til samkomuhalds.
Að lokinni álfabrennu á þrettándanum og dansi kringum hana uppi á barðinu austur af Stað, er hlaupið við fót heim að Vindheimum. Ljós eru tendruð, nikkan tekin á kné og danssporin stigin af ungum og öldnum.

Húsatóftir

Vindheimar (Kristinn Reyr).

Á stundum er polkinn eða rællinn svo heillandi á Vindheimaballi, að pörin leiðast ekki til síns heima, fyrr en mál er að skinnklæðast, hrinda fram skipi og róa út á mið í skímu komandi dags.
Fleira verður og til tíðinda á Vindheimum þau ár. Þangað kemur ekki ómerkari „list um landið“ en sjálfur Ingimundur fiðla. Segist ætla að halda samkomu, fyrst húsið sé falt – aðgangur 10 aura, takk. Auglýsingin berst eins og eldur í sinu frá manni til manns, bæ frá bæ. Og snillingurinn stillir sína strengi og strýkur þá töfraboga. Hann syngur sumpart með eða leikur aðrar listir fyrir troðfullu Vindheimahúsi.

Húsatóftir

Vindheimar – sjávargatan. Bærinn (tóftirnar) efst t.h.

Líkt og himneskur sendiboði með sakramenti snillinnar inn í fásinnið eitt vökubjart vor.
Að öðru leyti eru Vindheimar í eyði til 1925, að þangað flytur Sveinn Ásmundsson með ráðskonu, Gíslínu Jónsdóttur. Þau voru þar í eitt ar.
Tvær vetrarvertíðir – 1924 og 1925, reri Gísli silfursmiður Gíslason skipi sínu frá Húsatóftum og hafði bækistöð á Vindheimum.
Næst er getið um fólk á Vindheimum árin 1933 og 1934. Þá búa þar hjónin Benedikt Benediktsson og Anna Jónsdóttir. Þau fluttust til Reykjavíkur.
Þar með er sögu Vindheima lokið.

Dalbær

Húsatóftir

Dalbær.

Á árunum 1906 til 1964 voru byggð ekki færri en fimm tómthús í landi Húsatófta. Ber það í raun og veru ljósan vott um það, hve atvinnuástandið í plássinu var gott og hve björtum augum menn litu á framtíðarmöguleikana í Staðarhverfinu allt fram á fjórða áratuginn.
Fyrsta þurrabúiðin, sem hér verður nefnd, – Dalbær – reist árið 1906 af þeim Ingvari Hólmsteinssyni og Eydísi Þorsteinsdóttur. Dalbæ fylgdi tæpl. tveggja dagslátta land, tún og garður, sem gaf 15 tunnur af kartöflum árið 1916.

Húsatóftir

Dalbær – tóftir.

Þau Ingvar og Eydís eignuðust fjögur börn, sem upp komust; Guðrún, húsfreyja í Merki, Eydís á heima í Keflavík, en tveir synir dóu á besta aldri. Eyjólfur andaðist 31 árs úr lungnabólgu austur á Eskifirði 13. ágúst 1923 og Sveinn drukknaði 28 ára gamall þegar Björgvin fórst á Jángerðastaðasundi með allri áhöfn 14, mars 1926.
Ingvar Hólmsteinsson lést 14, sept. 1917, en Eydís ekkja hans bjó áfram í dalbæ næstu sjö árin. Þá fluttist hún til Guðrúnar dóttur sinnar í Merki þar sem hún var til dauðadags. Hún andaðist 30. des. 1936 og var þá komin yfir hálfnírætt.

Húsatóftir

Dalbær – tóftir.

Eftir Eydísi komu að Dalbæ Gunnsteinn Einarsson frá Húsatóftum með sinni ungu konu, Elsie Jónsdóttur, Helgasonar frá Hömrum. Þau byggðu steinhús það sem enn stendur í Dalbæ og mega heita þar síðustu ábúendur. Þau fluttust inn í Járngerðarstaðahverfi 1946. Guðsteinn Einarsson tók við hreppstjórastarfinu af föður sínum og hafði það á hendi til dauðadags. Einnig var hann oddviti hreppsnefndar um tíma. Hann var fróður um sögu Grindavíkur og minnugur á liðna atburði, eins og ritgerð hans í bókinni „Frá Suðurnesjum“ ber með sér.
Eftirlifandi ekkja Guðsteins er Sigrún Guðmundsdóttir frá Ísólfsskála. Hún varð hreppstjóri að manni sínum látnum og er eina konan á Íslandi, sem gegnt hefur því embætti.

Blómsturvellir

Húsatóftir

Blómsturvellir.

Til forna var hjáleiga frá Stað, nefnd Blómsturvellir. Þegar úttekt var gerð á Grindavíkurhöndlun árið 1783, átti þar heima Jón nokkur Knútsson, en ekki er af honum önnur vitneskja en sú, að hann skuldaði versluninni 3 ríkisdali og 64 1/2 skilding. Og Blómsturvellir þeir fóru í eyði um aldamótin 1800 vegna sandágangs. Svo liðu rúmlega hundrað ár.
Þá gerðist það, að reist var þurrabúð með þessu fallega nafni í landi Húsatófta. Hún er fysrt nefnd í manntali árið 1914. Þá eru þeir einir taldir þar til heimilis bræðurnir Ólafur og Árni, synir Vilborgar og Árna á Húsatóftum. Þeir drukknuðu báðir með Magnúsi bróður sínum þann 8. apríl 1915.
Næsta ár er enginn talinn eiga heima á Blómsturvöllum.

Húsatóftir

Blómsturvellir (Kristinn Reyr).

En árið eftir, 1916, flytjast þau hjónin, ágústa systir þeirra bræðra og Pétur Jónsson frá Hópi, Grindavík, í Þessa þurrabúð ásamt sínu sínum Kristni, þá á öðru ári. Þau hófu búskap að Hæðarenda í Járngerðarstaðahverfi, fluttust skömmu síðar í Akrakot, en komu nú þaðan út í Hverfi, eins og kallað var, og tóku Blómsturvellina á leigu.
En með afsalsbréfum, dagsettum 17. nóvember 1917, gefur Árni Jónsson á Vindheimum dóttur sinni, Ágústu, Blómsturvallalóðina, 900 ferfaðma – en selur Pétri húsið, sem á henni stendur fyrir 810 krónur.

Húsatóftir

Blómsturvellir – útihús.

Næstu árin er Pétur formaður á áraskipi, sem hann gerir út á vetrarvertíð. Hann fluttist með fjölskyldu sína til Keflavíkur árið 1922.
Stóð húsið autt um skeið, en var síðan rifið og efniviður þess fluttur sjóleiðina með mótorbát til Keflavíkur. En ekki varð úr, að húsið yrði endurbyggt þar.
Eftir það er ekki talin byggð á Blómsturvöllum, í fagurnefndu þurrabúð úr landi Húsatófta.
En líta má nánar á grunn Blómsturvallahússins.
Hann var 4.60×5.20 metrar að meðtalinni veggjaþykkt 40 cm eða um 24 fermetrar. Auk þess anddyri eða viðbyggður skúr 3.30×3.30 – rúmir 10 fermetrar.
Að sögn var húsið úr timbri, alþiljað að innan í kross.

Húsatóftir

Blómsturvellir – tóftir.

Á lofti voru geymd skinnklæði. Í anddyri stóð olíufat með drykkjarvatni, er borið var í fötum úr brunni í Dalbæjartúni. Úr anddyri var gengið í eldhús – en þar inni eldavél. borð og skápar. En úr eldhúsinu mátti fara hringinn um herbergin þrjú. Eitt þeirravar stofa með kommóðu í horni, borði og stólum. Á vetrarvertíð bættust fjölskyldunni nokkrir vermenn – nefndir útgerðarmenn í daglegu tali. Og urðu þá tveir að deila með sér rekkju.
Um haustnætur var Blómsturvallakjallarinn – sem enn má greina rústir af, næstum fullur af eldilviði til vetrarins. matmæli voru einnig geymd þar.

Hamrar

Húsatóftir

Hamrar.

Svo lét sr. Brynjólfur magnússon um mælt í líkræðunni yfir Jóni vitaverði helgasyni, að hann hefði tekið sér það allnærri að fara frá Reykjanesi, „en þó bar hann harm sinn vel og í hljóði“.
Og eflaust hefur honum gengið betur að sefa særða lund sína vegna þess, að hann fékk ærið verk að vinna við að byggja yfir sína stóru fjölskyldu og koma sér fyrir á nýjum stað. Jón fékk útmælda 900 ferfaðma lóð hjá Einari á Húsatóftum og byggði sér þar lítið, pappaklætt timburhús og kallaði á Hömrum. Það var aðeins 28 fermetrar að falatarmáli. Fyrsta árið voru þar 11 manns í heimili. En hjartarúmið á Hömrum var nóg, ekki stóð á því. Aldrei leið Jóni betur, segir sr. Brynfólfur, „en er hann hafði hóp vina sinna kringum sig og var þá jafnan fremstur í gleðinni og skemmtilegur viðræðum“.

Húsatóftir

Hamrar – útihús.

Á Hömrum voru litlar sen engar landsnytjar utan kartöflugarður. Þó hafði Jón oftast nokkrar kindur en ekki aðrar skepnur. En hann stundaði sjóinn af kappi, var formaður á skipi, sem hann átti með öðrum, og aflaði vel og mun afkoman því hafa verið eftir hætti allgóð, a.m.k. eftir að börnin fóru að komast upp.
Árið 1930 fékk Jón Stað til ábúðar og fluttist þangað. Eftir hann kom enginn að Hömrum og eru þau Agnes og Jón því einu húsráðendur í þessari þurrabúð á Húsatóftum.

Heimild:
-Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók, 1975, Gísli Brynjólfsson, bls. 92-110.

Grindavík

Grindavík 2024.

 

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um „Þróun byggðar í Grindavík“ í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

„Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Staðhverfingabók

Í bókinni „Mannlífi mikilla sæva – Staðhverfingabók„,  er m.a. lýst hungurástandi því sem ríkti í Grindavík og á Suðurnesjum um miðja 18. öld – á tímum einokunarverslunar Dana.

Tyrkjabyrgi

Eitt byrgjanna.

Ekki verður, í ljósi þess, hjá því komist að skoða tilvist „Tyrkjabyrgjanna“ svonefndu í Sundvörðuhrauni neðan Eldvarpa, en þau virðast fyrst og fremst hafa verið byggð sem fiskbyrgi – og þá mögulegar vistgeymslur til að bregðast við ríkjandi tímabundnu ástandi. Ekki er vitað um aldur þeirra, en hafa ber í huga að fyrr á öldum voru allflestir Grindvíkingar leiguliðar og þurftu því á stundum nauðráð til bjargar. Byrgin gleymdust, en voru uppgötvuð sem minjar í lok 19. aldar. Ekki er ólíklegt að ætla að Grindvíkingar á árabátum Skálholtsstóls hafi stungið undan einum og einum fiski, borið hann upp í hraunið og hlaðið þar byrgi sem geymslur með það fyrir augum að geta sótt hann þangað síðar þegar hungur svarf að fjölskyldunni. Síðar, með breyttum breytanda, urðu byrgin óþörf og gleymdust, enda úr alfaraleið. Byrgin bera öll einkenni fiskibyrgjanna í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni vestan Hrauns, við Nótarhól austan Ísólfsskála og á Selatöngum.

Einokunin
„Með tilskipun 20. apríl 1602 gaf konungur þegnum sínum einkaleyfi til verslunar á Íslandi. Með því hófst Einokunarverslun Dana hér á landi, sem stóð í 185 ár. Versluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingaeyrar. Kom Grindavík, ásamt Keflavík og fjórum öðrum höfnum, í hlut höfuðstaðarins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Þótt Danir ættu að taka við versluninni að fullu árið 1602 var svo ekki í raun. Til þess skorti bæði kapítal, skipakost og mannafla. Hlutu þeir því að semja um það við Þjóðverja að annast verslunina að svo miklu leyti, sem þeir ekki komust yfir hana sjálfir. Stóð svo a.m.k. 2 fyrstu áratugi einokunar. Á þessum tíma átti Skálholtsstóll nánast allar jarðir í Grindavík og nágrenni.

Aðeins tvær ýsur

Húsatóptir

Minjar konungsverslunarinnar við Húsatóptir.

Hér skal brugðið upp einni mynda, sem lýsir nokkuð vel ástandinu og afkomunni í Grindavík þegar harðindin, aflaleysið og verslunaráþjánin fylktu liði gegn þessari örbjarga þjóð með þeim afleiðingum, að á árunum 1756 og ’57 dóu 2500 manns í Skálholtumdæmi.
Árið 1756 voru búsettir í Grindavík 28 fjölskyldur eða 196 manns, segir í umfjöllun Guðmundar sýslumanns Brynjólfssonar þann 12. febrúar, um ástandið á Suðurnesjum; „sem ei hafa annað af að lifa en litla mjólk vel flestir en sumir aldeilis ekkert nema það hjá öðrum skrármegandi betla. Hér fyrir utan er heill hóp margt sjófólk í þessa sveit komið matarlítið, sem ei verður matur lánaður, svo fyrir því bíður ei annað en vísast aftur til baka heim í sveitir, hvað þessa hreppa innbyggjurum, sem sjálfu því, er hin mesta skaða von. Og orsakast þessi bágindi mest af fiskleysi og stórri óveðurháttu, sem lengi hefur viðhaldist og enn nú yfir dynur.

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

Því er vor þénustusamleg begjæring til hr. sýslumannsins, að hann láti þess hrepps innbyggjara fá hjálp og styrk til lífs uppihalds í soddan nauðsynjum frá Básendabúðum ei síður en aðra utan districtsmenn þar eð vér byggjum Grindarvíkurhafna matvöru fyrirliggjandi í nefndum búðum og þykjumst því eiga þar frekara tilkall en þeir, hvað ef ekki nægir, óskum vér í undirgefni að hann komi hingað hið snarasta og opni hér kaupmannshúsin til frekari hjálpar þeim nauðlítandi, sem ómögulega geta sótt mjöl eður brauð til Bátsenda, því vér meinum hér fyrirliggja um eða yfir 10 tunnur matar.“
Átta dögum síðar – þ. 19. febrúar er sýslumaður kominn til Járngerðarstaða; „Kemur þar allt hið sama fram og hér að framan er lýst. Í sveitina hafa aðeins fengist 14 tunnur matar frá Bátsendum. Hins vegar telja þeir sig vita „nokkurn mat fyrirliggja í Companiniens handelshúsum hér í Grindavík“. Það sé því lífsnauðsyn, að þau sömu séu af sýslumanninum, sem næsta yfirvaldi með fyrstu hentugleikum, opnuð nauðlíðandi fólki í sveit þessari til lífsbjargar svo ei af hungri út af deyi eða ófært verði sér næringar leita á sjónum, hvar af sjófólksins heimavísan hangir, oss og því til óbætanlegs skaða“.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Aðspurði sýslumaðurinn samankomna þingmenn hvort þeir vissu engin önnur ráð, meðöl eður útvegi þessu nauðlíðandi fólki til lífsbjargar en Companiens handels húsa opnan í Grindavík, hvar til einlæglega og sameiginlega svaraða var: NEI“.
„Svo og undirréttast sannferðulega, að næstliðinn dag hafi nær alskipa róið í sveit þessari, og allan dag í temmilegum makindum úti verið, djúpt og grunnt að leita. Hafi þó einasta tvær ýsur á land komið en varla orðið vart við aðra drætti. Sanni þessa best, hve algjört fiskleysið sé.“

Ein tunna bygg, en brennivín nóg

Húsatóftir

Húsatóftir – leifar konungsverslunarinnar.

En hvort sem Grindavíkurverslunin hefur verið opnuð á þessari vertíð og eitthvað hefur verið gert til að seðja sárasta hungur útróðrarmanna eða ekki, þá er svo mikið víst, að vorið fyrir var þar ekki um auðugan garð að gresja, hvað matvöruna snerti, aðeins tvær tunnur af skonroki og ein af af bygggrjónum. Hins vegar voru vínbirgðirnar 878 pottar af kornbrennivíni, 92 pottar af öðru víni, 4 tunnur af öli og 68 pottar af mjöð.“

Sjá meira um „Tyrkjabyrgin“ HÉR og HÉR.

Heimild:
-Mannlíf mikilla sæva – Staðhverfingabók, séra Gísli Brynjólfsson, Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1975-, bls. 107-113.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Húsatóftir

Í „Staðhverfingabók“ Gísla Brynjólfssonar segir m.a. um „Blómsturvelli„, fyrrum þurrabúð við Hústóptir í Grindavík:

Staðhverfingabók

Staðhverfingabók.

„Til forna var hjáleiga frá Stað, nefnd Blómsturvellir. Þegar úttekt var gerð á Grindavíkurhöndlun árið 1783, átti þar heima Jón nokkur Knútsson, en ekki er af honum önnur vitneskja en sú, að hann skuldaði versluninni 3 ríkisdali og 64 1/2 skilding. Og Blómsturvellir þeir fóru í eyði um aldamótin 1800 vegna sandágangs. Svo liðu rúmlega hundrað ár.
Þá gerðist það, að reist var þurrabúð með þessu fallega nafni í landi Húsatófta. Hún er fyrst nefnd í manntali árið 1914. Þá eru þeir einir taldir þar til heimilis bræðurnir Ólafur og Árni, synir Vilborgar og Árna á Húsatóftum. Þeir drukknuðu báðir með Magnúsi bróður sínum þann 8. apríl 1915.
Næsta ár er enginn talinn eiga heima á Blómsturvöllum.
BlómsturvellirEn árið eftir, 1916, flytjast þau hjónin, ágústa systir þeirra bræðra og Pétur Jónsson frá Hópi, Grindavík, í þessa þurrabúð ásamt sínu sínum Kristni, þá á öðru ári. Þau hófu búskap að Hæðarenda í Járngerðarstaðahverfi, fluttust skömmu síðar í Akrakot, en komu nú þaðan út í Hverfi, eins og kallað var, og tóku Blómsturvellina á leigu.
En með afsalsbréfum, dagsettum 17. nóvember 1917, gefur Árni Jónsson á Vindheimum dóttur sinni, Ágústu, Blómsturvallalóðina, 900 ferfaðma – en selur Pétri húsið, sem á henni stendur fyrir 810 krónur.
BlómsturvellirNæstu árin er Pétur formaður á áraskipi, sem hann gerir út á vetrarvertíð. Hann fluttist með fjölskyldu sína til Keflavíkur árið 1922.
Stóð húsið autt um skeið, en var síðan rifið og efniviður þess fluttur sjóleiðina með mótorbát til Keflavíkur. En ekki varð ur, að húsið yrði endurbyggt þar.
Eftir það er ekki talin byggð á Blómsturvöllum, í fagurnefndu þurrabúð úr landi Húsatófta.“

Pétur Kristinsson

Pétur Kristinsson.

Pétur Kristinsson er afkomandi Blómstursvallafólksins. Hann sendi vefsíðunni eftirfarandi fróðleik:
„Blómsturvellir: 17. teigur á Hústóftavelli – Saga af mannfólki mikilla sæva:
Eyðibýlið Blómsturvellir í Staðarhverfi í Grindavík, 3116 fm lóð með um 100 ára gömlum hlöðnum húsgrunni. Land þetta hef ég leigt Golfklúbbi Grindavíkur og er þar nú rauður 17. teigur Hústóftavallar.
Á þriðjudaginn, 16. júlí 2013, fórum við Sonja ásamt vinahjónum okkar, Ingibjörgu og Óla, á Húsatóftavöll til að leika þar golf – og við Sonja þar í fyrsta sinn í þeim erindagjörðum.
Í móttökunni í golfskálanum kynnti ég mig sem Pétur frá Blómsturvöllum – og var það eins og um var samið; ég boðinn velkominn til leiks ásamt gestum mínum. Hitti ég þar fyrir Harald varformann Golfklúbbsins og gat ég frætt hann nokkuð um lands- og atvinnuhætti þar á staðnum á fyrri hluta síðustu aldar.

Húsatóftir

Húsatóftir fyrrum – efri bærinn (Austurbærinn). Teikning Kristinn Reyr.

Hófst nú leikurinn á 1. teig þar sem fyrstu 9. teigarnir og brautirnar raða sér uppeftir og inneftir hrauninu, snyrtilega aðlagaðir hrauninu. Þó þessi ferð ætti að heita golfleikur þá fór fljótlega á stað annar leikur í höfðinu á mér: Minningar. Hér höfðu forfeður mínir í föðurætt lifað og starfað. Þarna á Húsatóftum stóð ég væntanlega á tóftum húsa langafa míns og ömmu, Árna Jónsonar (f. 1850) og Vilborgar Guðmundsdóttur (f. 1852), sem fluttu að Húsatóftum árið 1907 með sjö börnum sínum, 13-25 ára, en þau fluttu frá Krýsuvík þar sem þau höfðu búið sjö árin þar á undan og verið með allt að þúsund fjár þar. Þar áður höfðu þau búið að Sperðli í Landeyjum þar sem Ágústa amma mín fæddist (f.1891) og systkini hennar.

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurkot um 1900; tilgáta.

Það sem lokkaði langafa í Staðarhverfið frá rolluskjátunum í Krýsuvík var útræðið þaðan; útgerðin heillaði – og nóg var af sonunum til að gera út – en það varð langafa og ömmu dýrkeypt.
Kristinn Pétursson ReyrGolfið hélt áfram með góðum tilþrifum á stundum og minningarnar hlóðust inn sem truflaði einbeitinguna í sveiflunni – en hvað með það: Var ég ekki á ættargrund og þarf maður alltaf að fara í gegnum lífið sem þota hugsandi aldrei um úr hverskonar efnivið maður er sorfinn ?
Þannig að ég lét hugann áfram reika samhliða sveiflunni.
Í Arfavík, á 13. og 14. braut, þar sem brimaldan brotnar var útræði mikið og sjórinn stundaður af miklu kappi í tíð langafa. Þarna stóð hún langamma mín þann 8. apríl 1915 og horfði út í gráðið þar sem veðrið gekk upp smám saman og él setti niður um kring. Þar úti á sjó átti hún þrjá syni sem allir fórust þar ásamt sjö öðrum bátsverjum á tíæringi.
Hann faðir minn, Kristinn Reyr, orti þessi þrjú síðari erindi um frændur sína, þá Magnús, Árna og Ólaf:

„Þann apríldag.
…..Og enginn sá
hvað afa mínum
innifyrir bjó
þann apríldag
– er átti hann
syni tvo á landi
og syni þrjá
í sjó.“

Kristinn Pétursson

Kristinn Pétursson Reyr.

Já, svona er sagan hjá mannfólki mikilla sæva. Maður nánast lítur í sand við þessum örlögum forfeðra sinna.
En eins manns dauði er annars brauð: Þegar á 17. teig er komið hefst saga afa og ömmu, þeirra Ágústu Árnadóttur og Péturs Jónssonar (f. 1889) frá Hópi í Grindavík. Langafi hafði útmælt lóð, 1914, fyrir syni sína, þá Ólaf og Árna sem drukknuðu. Við fráfall þeirra gefur langafi ömmu lóð þessa, Blómsturvellir, þar sem þau hefja búskap með pabba, þá á öðru ári, árið 1916. Við lát ömmu, 1969, eignast ég svo Blómsturvelli. Þarna stóð ég nær hundrað árum seinna með golfkylfu í hönd á ættaróðalinu, húsatóftum, hlöðnum kjallara sem enn stendur að hluta og þar útundan hlaðinn grjótgarður sem afmarkaði kálgarðinn við húsið sem afi reisti á húsgrunninum, 4,60 x 5,20 metrar, krossþiljað þar sem gengið var inn í eldhús úr útiskúr, 3,30 x 3,30.

Blómsturvellir

Blómsturvellir, teikning Kristins Reyrs.

Úr eldhúsinu var gengið í hring í herbergin þrjú. Þessi húskynni voru því alls um 34 fermetrar auk eldiviða- og matvælakjallara og rislofts sem skinnklæði voru geymd. Á vetravertíðum bættust fjölskyldunni nokkrir vermenn – þá nefndir útgerðamenn – og urðu þá tveir að deila með sér sömu rekkju. Ekki veit ég hvernig henni Sonju minni myndi líka þess háttar búskaparlag nú!
Af 17. teig sló ég með fjarkanum mínum vænt högg og er ég viss um að pabbi, afi og amma hafi verið þar með mér í liði.

Blómsturvellir

Húsatóftir – loftmynd.

Húsatóftavöll kvaddi ég svo að sinni, glaður og hreykinn í senn að vera kominn í heimahaga forfeðrana. Á Húsatóftavöll kem ég aftur – og beztu þakkir til Golfklúbbsins þar.
Blómsturvellir, útskorið í kápu á gestabók eftir teikningu pabba. Einnig er þar merki Staðhverfingarfélagsins – einnig áður útskorið af honum.
Staðhverfingarfélagið gaf pabba gestabókina á sjötugsafmælinu hans.

Vindheimar

Vindheimar við Húsatóftir, teikning eftir Kristinn Reyr.

En þar er ekki sagan öll – því næstu hundrað árin fléttast svo saga þessara forvera minna og okkar systur minnar, Eddu, í Reykjavík, á Grettisgötu 49, sem lauk í janúar 2013 með því að það ættaróðal var selt:
Eftir hið mikla sjóslys og sonamissi er langafa og langömmu brugðið; þau höfðu árið 1911 útmælt sér lóð úr Húsatóftalandi, ein þriðja úr sínum parti sem þau nefndu Vindheima þar sem þau höfðu væntanlega ætlað að njóta efri áranna umvafin börnum sínum allt í kring og með útræðið til fengsælla fiskimiða við bæjardyrnar.

Grettisgata 49

Grettisgata 49.

Vorið 1919 flytjast þau til Reykjavíkur og kaupa hús á Grettisgötu 49. Þar búa þau fyrst en síðan í Björnshúsi á Grímsstaðaholti. Þar stundaði langafi grásleppuveiðar ásamt afadrengjum sínum og ók aflanum á hestvagni til sölu í bænum en einnig notaði hann hestvagninn til vöru- og búslóðaflutninga fyrir aðra í bænum. Vorið 1931 bregða þau svo búi sökum hrumleika. Langafi fór til Vilmundar sonar síns á Löndum í Staðarhverfi og lézt þar um haustið en langamma fluttist til Ágústu-ömmu á Grettisgötu 49 og andaðist þar í hárri elli 1940. Ágústa-amma lézt 1969, en hjá henni bjó ég oft í lengri og skemmri tíma á mínum uppvaxtarárum. Eftir lát ömmu tók Edda systir mín við búsforæðum á Grettisgötunni. Segja má að Grettisgata 49 hafi í tæp hundrað ár (1917-2013) verið griðastaður fjölskyldu minnar frá langafa og langömmu, ömmu, pabba, okkur Eddu systur, börnum okkar og barnabarnabörnum Eddu – eða í sjö ættliði samtals. Blessuð sé minning Grettisgötu 49. – Ritað hefur Pétur Kristinsson frá Blómsturvöllum.

Húsatóptir

Húsatóftir – örnefni og minjar; ÓSÁ.

Heimilda var leitað í Staðhverfingabók. Kristinn Reyr og Sigurður V. Guðmundsson komu ásamt Gísla Brynjólfssyni að ritun og hönnun bókarinnar ásamt fleirum.
Hér kemur svo skýringin á því af hverju langafi og hans fjölskylda fluttu frá Sperðli :
Fleiri blaðsíður eru í myndasafni mínu frá 3. sept 2015 og svo bókin sjálf á Bókasafninu í Hveragerði.
Tilurð þessara upplýsinga er að á árunum 2012-14, kynntist ég Stefáni Ólafssyni sem starfar hjá Fasteignum Ríkisins og Framkvæmdasýslunni vegna landamerkjadeilna við Kristinn Björnsson í Grindavík, sem á landskika þarna, en Stefán er frá Eystra Hóli, næsta bæ við Sperðil, og benti hann mér á bókina.
Blómsturvellir mínir eru númer 23 á meðfylgandi uppdrætti:
Þessi landamerkjadeila varð til þess að Fasteignir Ríkisins ákváðu við uppmælingu umdeildra landskika að „rúna af“ um 600 FM og bæta við Blómsturvallarland. Þökk sé Ríkinu fyrir það!“

Heimildir m.a.:
-Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók; Gísli Brynjólfsson, 1975, bls. 97-99.
-Pétur Kristinsson.

Húsatóftir

Staðarhverfi – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ. Blómsturvellir eru nr. 23 á uppdrættinum.

Húsatóftir

Skúli Magnússon, sagnfræðingur, skrifaði í Morgunblaðið 2016 um „Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík„:

Skúli Magnússon„Í gosunum miklu á Reykjanesskaga á 13. öld, er eldur kom upp rétt við bæjardyr Grindvíkinga, er ekki ofsögum sagt að byggð væri þá í Grindavík hættast komin frá landnámi og tvísýnt um tíma hvort hún lifði þær hörmungar af. Þá rann m.a. hraun það úr Eldvörpum, sem hleðslurnar eru í sem fundust 1872 og Þorvaldur Thoroddsen greinir frá. Apalhraunið greindist í tvær kvíslar, Eldborgarhraun og Sundvörðuhraun. Sundvarða er hraunsandur austan í Sundvörðuhrauni. Hraunstandur þessi kom upp í gosunum á 13. öld. Hann ber í austasta taglið á Þórðarfelli, er nefnist Höskuldur.
Höskuldur, Sundvarða og tvær vörður aðrar er hlaðnar voru á sjávarbakkanum austan við svokallað Vatnslón í landi Húsatófta, bar saman og voru leiðarmerki á djúpsundinu þegar bátar lögðu inn Staðarsund.

Húsatóftir

Húsatóftir – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana.

Þessi merki sjást á korti af legunni á Staðarvík frá 1751. Tvær síðarnefndu vörðurnar voru hugsanlega hlaðnar upp eftir 1650 vegna kaupskipa sem þá fóru að sigla á Staðarvík frá Danmörku. Enda sést af hafnarkortinu 1751 að þessi neðstu merki vestan við Vatnslón hafa verið endurbætt eftir að siglingar hófust á víkina frá 1650. Gos urðu líka í sjó undan Reykjanesi á 13. öld og 1210 fann Sörli Kollsson sjófarandi Eldey hina nýju. Sóknarlýsing staðarsóknar frá 1840 greinir frá þessum sundmerkjum inn Staðarsund er lagt var á sundið og bátar lentu ýmist í Staðarvör eða Tóftavör.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

Er bátur kom í mynni Staðarsunds og hugðist leggja þar inn áttu Staðarmalir að liggja á stjórnborða og bera í Eldey er var hæsta og ysta kennileiti í sjónlínunni úr bátnum í sundinu til vesturs. Er komið var inn úr sundmynninu var stýrt á Höskuld í norður og Sundvörðu og neðstu vörðurnar tvær í heimalandi Tófta. Bar Sundvörðu merkilega vel við loft utan af sundinu og var bungan í raun annað lykilmerki við leiðina inn Staðarsund ásamt Eldey. Ljóst er að bæði þessi kennileiti, Eldey og bungan Sundvarða, verða til í gosunum á 13. öld, líklega 1210-1230. Eldey var þá greinilega nýtt merki sem tekið var að miða við eftir uppkomu hennar 1210.

Húsatóftir

Neðri-Sundvarða austan Húsatófta

Sama virðist um upptök Sundvörðu sem leiðarmerkis. Merkin á Staðarsundi virðast því varla eldri en frá fyrrihluta 13. aldar eins og þeim er lýst í sóknarlýsingunni frá 1840. Þau voru síðan notuð allt til loka byggðar í Staðarhverfi um 1946 þegar róðrar þaðan lögðust niður.

En hófust róðrar um Staðarsund fyrst með gosunum miklu á 13. öld eða voru þar notuð önnur og eldri leiðarmerki inn sundið fyrir uppkomu Eldeyjar og Sundvörðu? Voru þessi eldri merki lögð niður í kjölfar hamfaranna á 13. öld. Vart verður fullyrt um það nú en heldur þykir manni ólíklegt að ekki hafi verið róið úr sundinu fyrir þann tíma allt frá landnámi í Grindavík. Eiginlegt prestssetur var ekki á Stað í kaþólskum sið frá því um 1000 til 1540 því prestar voru menn búlausir og bjuggu heima á bæjum hjá bændum og höfðu þar uppihald og bjó Staðarprestur líklega á Járngerðarstöðum fremur en á Húsatóftum.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Aðeins kirkjan stóð ein á graftrasvæði sem var kirkjugarður og átti hún allar eignir sjálf. Prestur var þjónn hennar í kaþólskum sið og prestsheimili með vinnufólki og fjölskyldu þekktust ekki á Stað fyrr en eftir siðaskipti 1550. Þá var byggt prestssetur á Stað. Því var færra fólk sem dvaldi þarna við víkina fyrir siðaskipti og minni þörf að róa þaðan eftir að bústaður reis þar fyrir prest. Aðalbýlið við víkina var því að Húsatóftum sem átti líka uppsátur við Staðarvíkina. Viðeyjarklaustur, stofnað 1227, átti Húsatóftir en Skálholtsstóll aðrar jarðir í Grindavík.

Sundvarða

Sundvarða í Sundvörðuhrauni.

Hvort byggð hófst á Húsatóftum er jörðin komst í eigu Viðeyinga einhvern tíma eftir 1227 er óljóst en hins vegar hófust þá um leið stöðugir róðrar úr Tóftavör við Staðarvík enda þurfti klaustrið jafnan á miklum fiski að halda. Stóðu róðrar þaðan samfellt fram á 20. öld. Því er ljóst að aldur sundmerkjanna við Staðarsund ber greinilega saman við eignarhald Viðeyinga á Húsatóftum. Líklegt er að upptaka sundmerkjanna sem áður var lýst virðist fremur tengjast útvegi klaustursins á Húsatóftum en róðrum frá kirkjunni á Stað, enda óljóst hvort eiginleg Staðarvör var þá til orðin.
Heimræði er því eldra úr Tóftavör en Staðarvör. Hugsanlegt er að örnefnið Höskuldur, nafnið á austasta tagli Þórðarfells sé ekki eldra en frá gostíma 13. aldar og sé dregið af nafni einhvers formanns á þessum tíma, t.a.m. frá Húsatóftum sem lagði leið sína um sundið en nafnið hefur orðið hluti af leiðarmerkjum upp frá því.“

Heimild:
-Morgunblaðið 27. feb. 2016, Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík eftir Skúla Magnússon, bls. 30.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Húsatóptir

Haldið var í hraunið skammt vestan við Húsatóttir, en þar hafði FERLIR nýlega skoðað flak flugvélar, sem sagt var að hefði verið þýskt, sbr. sögu HG um handtöku og skjólsgjöf Staðarmanna til handa þýskum flugmanni.

Húsatóftir

Húsatóftir – kort.

Grafið var í haug, sem þarna er, auk þess sem skoðað var í sprunguna ofan við hauginn, uppi á hraunbrúninni. Þar voru bæði kúlur og skothylki. Við athugun á staðnum kom í ljós að skrúfur og rær voru með tommumáli. Þar með gat vélin ekki hafa verið þýsk.
Við nánari eftirgrennslan er þarna að öllum líkindum um flak amerískrar P-47 flugvélar er hrapaði til jarðar, skv. dagbók hersins, um eina mílu vestur af Grindavík þann 13. júní 1944 kl. 08:55. Flugmaðurinn, annar liðþjálfi Thomas J. Latham, komst út í fallhlíf og komst lifandi frá óhappinu. Hluti af flakinu hefur verið hulið með jarðvegi, en annað er vel sýnilegt.

Húsatóftir

Brak úr vélinni – slidesmynd Viðar Valdimarsson.

Sigurður Viðarson frá Grindavík (býr nú í Hafnarfirði) hafði samband vegna flugvélarinnar.
„Ég hef kíkt stöku sinnum á síðuna www.ferlir.is og haft mjög gaman af. Ég rak augun í lýsingu á FERLIR-493 þar sem þið funduð flugvélaflakið af þýsku vélinni. Faðir minn Viðar Valdimarsson rafvirki í Grindavík fór fyrir um 35 árum síðan með Helga Hjartarsyni fyrrum rafveitustjóra að þessu flaki og tók mynd af byssunum sem stungist höfðu í bergið þegar hún fórst.

Húsatóftir

Húsatóftir – brak.

Ég mundi alltaf svo vel eftir þessari mynd hjá pabba og fann hana í slidesmyndasafninu hans fyrir 3 árum síðan og ákvað í framhaldi af því að reyna að finna flakið, en pabbi mundi nú ekki nákvæmlega hvar þetta var enda langt um liðið og hann var þá tiltölulega nýkominn til Grindavíkur þegar þetta var og áttaði sig ekki almennilega á hvar þetta var. Ég ræddi við Didda rafvirkja og vissi hann hvar það var og benti mér á, fann ég flakið en engar byssur sá ég. Ég ræddi betur við Didda og hann sagði mér að þær væru alveg við flakið þannig að ég fór aftur og fínkembdi svæðið en fann þær því miður ekki.

Húsatóftir

Slysstaðurinn.

Annað hvort hafa þær verið fjarlægðar af einhverjum eða lent undir grjótruðningi, en hruflað hefur töluvert við svæðinu rétt við flakið vegna fiskeldisins. Diddi man vel eftir þeim og sagði að þær hefðu verið svo kyrfilega fastar í berginu að þær yrðu ekki fjarlægðar nema með heilmikilli aðgerð. En faðir minn á allavegna mynd af byssunum og ábyggilega hægt að skanna hana fyrir þig ef þú hefur áhuga.“
Í framhaldi af framangreindu sendi Sigurður meðfylgjandi mynd af byssunum. Þær hafa verið fjarlægðar af einhverjum, en eftir er talsvert smálegt úr vélinni.
Frábært veður.

Húsatóptir

Bark úr vélinni.

Skipsstígur

Um var að ræða í gönguröð um hluta gamalla þjóðleiða á Suðurnesjum undir heitinu „Af stað“ til tengingar loftmyndagönguleiðarkorti Ferðamálasamtaka Suðurnesja er þau gáfu út fyrir trekvart misserum síðan.

Bláa lónið

Bláa lónið – upphaf göngu.

Markmiðið er bæði að hvetja fólk til að nýta sér hina skemmtilegu og fornumbúnu þjóðleiðir á Suðurnesjum til útivistar, fróðleiks og hollrar hreyfingar og um leið rifja upp þær aðstæður er forfeður þeirra buggu við fyrrum – áður en sjálfrennireiðaakvegir og síðar mótorbílaakbrautir tóku við af hinum gömlu þarfaleiðum fótgangandi fólks og skepna á millum bæja, sveita og héraða.
Að þessu sinni var gengið frá Bláa lóninu í boði Grindavíkurbæjar. Ætlunin var að ganga inn á Skipsstíg, fylgja honum til suðurs að Dýrfinnuhelli, síðan Reykjaveginum til vesturs að Árnastíg, skoða hvar B17 (Fljúgandi virkið) nauðlenti árið í apríl 1943, ganga síðan Árnastíg áleiðis að Húsatóftum og skoða m.a. í leiðinni fornar hlaðnar refagildrur og þjóðsögukennda staði.

Bláa lónið

Gengið frá Bláa lóninu.

Til að þurfa ekki að fylgja hinnum nútímalega og afsaltlagða nútímaþjóðvegi milli Bláa lónsins og Grindavíkur í suðri, var ákveðið að ganga um slétt moasahraun samnefnt hinum Illa og um það inn á Skipsstíg sunnan Lats (einn af gígum eldri hluta Eldvarpanna). Þessi hluti er vel greiðfær. Framundan sást vörðuröðin á Skipsstíg þar sem hann liggur millum Njarðvíkna og Grindavíkur. Sólin skein að sunnanverðu, en að norðanverðu virtist dumbungur yfrum.

Skipsstígur

Gengið að Skipsstíg.

Þegar komið var inn á Skipsstíg var augljós og áþreifanlegu meðvindur til Grindavíkur. Hin gamla gata sást vel þar sem hún var mörkuð ofan í hraunhelluna vestan Skipsstígshrauns (Illahrauns) þar sem hún liðaðist vörðumprýdd, fullreistar eða hálffallnar um Bræðrahraun og síðan áfram sem slík með Blettahrauni. Á stöku stað sáust vel mannanna verk á hlöðnum köntum eða brúm stígsins, en þegar nær dró Lágafelli kom atvinnubótavegarkaflinn frá því skömmu eftir aldarmótin 1900 smám saman í ljós. Segja má með sanni að þarna er einn fallegasti kafli vegagerðar frá þessum tíma og sá hluti sem einna helst þarf að varðveita.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Við þennan hluta Reykjavegar má t.d. sjá hraunæðar sem burnirótin hefur náð að nýta sér sem skjól, líkt og tófugrasið.
Þegar komið var að Dýrfinnuhelli var saga hans rifjuð upp. Segir sagan að samnefnd kona hafi dvalið með börn sín eftir að hafa flúið undan Tyrkjunum er herjuðu á Grindavík að morgni 20. júní 1627 Tyrkjasagan. Dvaldi hún þarna um skamman tíma, uns talið var óhætt að halda áný til fyrri híbýla í Grindavík. Opið snýr mót norðri, en botn hellisins er nú sandumorpinn. Í Nágrenninu eru einnig margir ákjósanlegir felustaðir.

Skipsstígur

Gengið um Skipsstíg.

Þá var gengið spölkorn til baka og vent til vesturs inn á Reykjaveginn. Í fljótu bragði virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur og illur yfirferðar og því ekki vel fallinn til gönguferða. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Hann hefur upp á flest að bjóða sem göngufólk leitar að. Hraunið og auðnin hefur aðdráttarafl ekki síður en gróskumikið gróðurlendi þótt á annan hátt sé. Víða leynast fallegar gróðurvinjar og mosinn í hraununum er sérkennilegur. Þar eru líka einstök náttúrufyrirbrigði eins og hraunsprungur og misgengi, eldgígar, hrauntraðir, jarðhitasvæði, hellar og fuglabjörg. Þótt fjölbreytt mannlíf hafi aldrei verið á þeim slóðum sem Reykjavegurinn liggur um eru samt til sögur og minjar um mannlíf á þeirri leið. Gamlar götur líkar Árnastíg liggja víða um Reykjanesskagann og skera eða tengjast Reykjaveginum á mörgum stöðum.

Blá lónið

Helluhraun.

Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum mikla sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 13. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir tólf til fimmtán þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Reykjavegur

Reykjavegur – Þorbjarnarfell fjær.

Reykjavegurinn sem liggur um endilangan Reykjanesskagann var stikaður sumarið 1996. Hann liggur frá Reykjanesi að Nesjavöllum og er um 130 km langur eða meira en tvöföld vegalengd Laugavegarins margfræga á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víða hafa myndast gönguslóðar á leiðinni, sérstaklega þar sem hún liggur um mosavaxin hraun. Á öðrum stöðum liggur leiðin um gamlar götur sem öðlast hafa nýjan tilgang. Einn helsti kostur Reykjavegarins auk þess að vera mjög skemmtileg gönguleið, er hvað hann er nálægt byggð og aðkoma að honum þægileg á mörgum stöðum án þess að fólk verði vart við skarkala þéttbýlisins. Hann liggur um óbyggð svæði og fullnægir því vel þörfum fólks sem vill vera í náinni snertingu við náttúruna og hvíla líkama og sál frá hraða hversdagsins.

Bláa lónið

Gengið um Skipsstíg.

Skömmu áður en komið var inn á aðra forna þjóðleið milli Húsatópta og Njarvíkna var beygt inn á að því er vitist gamall stígur. Um var hins vegar að ræða far eftir snertingu B17 flugvélar er nauðlenti þarna árið 1943. Sjá má á jörðinni brak úr vélinni þar sem neðsti hluti hennar, byssuturninn, varð hrauninu smám saman að bráð.

Skammt norðar má sjá kringlumótt í hrauninu, sem endar skammt norðar. Þar má einnig sjá nokkurt brak. Það er tilkomið vegna aðgerða til að bjarga leifum af flugvélinni (Fljúgandi virkinu) sem varð eldsneytislaus þarna og lenti á hrauninu.

Eldvörp

B-17 vélin í Eldvarpahrauni 1943.

Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943. Mannbjörg varð meðal fimma manna áhafnarinnar, sem verður að teljast gleðilegt af annars fjölþættari flugvélaslysasögu svæðisins, en a.m.k. fimm aðrar flugvélar Bandaríkjamanna fóru niður á sviðuðum slóðum á svipuðum tíma. En má sjá leifar þeirra.

Bláa lónið

Áning.

Götu þeirri er herbílar fluttu sundurskorna flugvélina var fylgt inn á Árnastíg. Sá stígur er ágætt dæmi um aðra forna þjóðleið milli Njarvíkna og Húsatófta, þriðja hverfis Grindavíkur. Skipsstígur lá niður að Járngerðarstöðum, en það þriðja, senn hefur ónefnt verið, Þórkötlustaðahverfið, fékk afleggjara af Skipsstíg.
Þar sem Árnastígur beygir til norðurs inn á hraunhelluna að Eldvörpum eru nokkrir hraunhólar, Vegamótahólar. Þar greinist leiðin, annars vegar að Húsatóptum um Árnastíg og hins vegar að Járngerðarstöðum um Járngerðarstaðastíg. Mosinn er horfinn af þessu svæði, en hann brann um ´56 þegar brottflognir Bandaríkjamenn voru þarna við heræfingar. Eftir svo langan tíma hefur hann enn ekki náð sér á strik sem skyldi, enda tekur mosann u.þ.b. öld að ná jafnvægi þar sem honum hefur verið raskað.

Sundvarða í Sundvörðuhrauni

Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.

Skammt neðan við austanvert Sundvörðuhraun, þar sem er Sundvarðan, klettastandur upp úr hrauninu, fyrrum mið Grindvíkinga. Á hábrúninni eru þrjár vörður; afstaða þeirra vísa veginn á gatnamót, sem þarna eru skammt frá, annars egar áfram um Ánarstíg og hins vegar um Brauðstíg, að Eldvörpum og framfjá svonefndum „Tyrkjabyrgjum“. Þau eru í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, auk hlaðinnar refagildru, en tvær tóftanna eru uppi á hraunbrúninni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstór en stærsta rústin er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Þegar komið var að gatnamótum ofan við sauðfjárvarnargirðingu þótti ástæða til að staldra við. Þvergatan til vinstri nefndist Brauðstígur. Hann fór fólk frá Húsatóftum uppí Eldvörp til að baka brauð við hverahitann.
Skriðdrekaslóði liggur víða ofan á hinni gömlu þjóðleið Árnastígs. Síðan hefur honum verið haldið við með akstri annarra ökutækja. Þó má sumsstaðar sjá gömlu götuna til hliðar við slóðann. Á a.m.k. tveimur stöðum eru hlaðnar brýr á henni.

Árnastígur liggur yfir mjóa apalhrauntungu úr Sundvörðuhrauni og inn á slétt helluhraun Eldvarpahrauns.Fallegar hraunæðar, hraunreipi, katlar og önnur fyrirbæri varða leiðina upp fyrir suðaustanverð Sundvörðuhraunið. Sundvörðuna, hár hraunstöpull í austanverðu hrauninu, var mið sjómanna fyrrum, en vestan við Stekkjartúnskamp við Arfadalsvík eru klettabásar, nefndir Sölvabásar.

Skipsstígur

Við Árnastíg. Þorbjarnarfell fjær.

Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni. Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand [Sundvörðuna í Sundvöðruhrauni] í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Síðasta varðan (nú sýnileg) á Árnastíg er skammt ofan við golfvöllinn. Hægra megin við hana liðast gamla gatan um móann áleiðis að lágri hraunbrekku á vinstri hönd. Lengra til hægri eru þrjár hlaðnar refagildrur. Búið er að rjúfa þakið á einni þeirra, en hinar tvær hafa fengið að halda sér eins og þær voru upphaflega byggðar.
Í stað þess að troða á væntumþykjanlegum grasflötum og grínum golfarana var ákveðið að fylgja striðdrekaslóðanum til austurs og nálgast gamlar hlaðnar refagildrur úr þeirri áttinni. Um er að ræða þrjár slíkar á tiltölulega litu svæði ofan Húsatófta. Vel má enn sjá lögun þeirra og notkunarforn,þrátt fyrir að þær sems líkar hafi ekki verið brúkaðar lengi.

Árnastígur

Árnastígur.

Gengið var að Húsatóptum (-tóftum, -tóttum) um Baðstofu (vatnsforðabúaðargjá Staðhverfinga og Hústóftinga). Hlélaust hefði gangan tekið u.þ.b. 2 klst, en með því að staldra við og skoða það er markverðast getur talist, s.s. jarðfræðifyrirbæri, jurtir, þjóðsögukennda staði og sjáanlegar minjar,tók ferðin tekið nálægt 4 klst.

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður, sem hverfið dregur nafn sitt af. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847).

Húsatóftir

Baðstofa.

Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.
Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“

Túnakort

Húsatóftir – túnakort 1918.

„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“.

Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við núja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.
Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.

Staður

Kengur í Bindiskeri.

Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.
Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á. Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð).

Staður

Staður og Húsatóftir í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur.
Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.

Húsatóftir

Nónvörður.

Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.
Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá.

Árnastígur

Gengið um Árnastíg norðanverðan.

Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg (Skipsstíg) á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.

Árnastígur

Upphaf Árnastígs við Húsatóftir.

Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Baðstofa er djúp gjá ofan Tófta þar sem Staðhverfingar fengu í velþóknun heimamanna að sækja sér ferskst vatn um langa tíð. Það er nú helst notað til handa sandverfu- og silungsrækt og fyrrum laxeldisstöð neðan og austan Tófta.
Þegar komið var að golfvellinum á Húsatóptum mátti sjá Þorbjarnarfellið (243 m.y.s.) í norðaustri, en það var ágætt kennileiti alla gönguna.
Frábært veður.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Húsatóptir

Gengið var frá Markhól austast í landi Húsatópta vestan Grindavíkur, um Stekkjartún, Vörðunes, Arfadal og Kóngshellu út að Hvirflum. Þá var ofanlandið skoðað, s.s. Nónvörður, Hjálmagjá og Baðstofa, auk hinna gömlu tófta á Húsatóptum.

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

Austast í Tóptarlandi eru brunnarnir, s.s. Tóptarbrunnur og Stakibrunnur, en vestast í Járngerðarstaðahverfi eru Gerðabrunnar eða Gerðavallabrunnar. Grindvíkingar kölluðu og kalla ferksvatnstjarnirnar ofan við sjávarkambinn brunna. Sjávarfalla gætir í brunnum þessum sem og í nálægum gjám, s.s. Bjarnagjá, sem er á mörkunum, og Baðstofu.
Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um hið síðastnefnda (fyrri hluti).

Húsatóptir

Húsatóptir -Vindheimar; túnakort.

Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847). Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.

Húsatóftir

Húsatóftir – byggt 1930.

Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“
„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær. Nýja húsið er stendur neðar, var byggt 1930 af Einar Jónssyni og sonum hans. Það hýsir nú Golfklúbb Grindavíkur.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“. Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við nýja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Hjáleigan Garðhús var til 1703. Í Sögu Grindavíkur segir að ekki sé ljóst hvar hjáleigan, sem nefnd var Garðhús, stóð.
Stekkjatún er norðan Jónsbásakletta. Í örnefnaskrá segir að Markhóll, gróinn hóll, sé austast á mörkum, en vestan við hann er Hvalvík. Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður. Vestan Jónsbáss er hár malarkambur, kallaður Stekkjatúnskambur. Tóftabrunnar, sjóvatnstjarnir, eru fast vestan við gamla veginn, vestan við Bjarnagjá, vatnsfyllta gjá fast austan við Markhól. Þá er Stekkjartúnsbarð og þá kemur Stekkjatún vestan þess. Ofan við Stekkjatún er Stakibrunnur.

Húsatóftir

Baðstofa.

Þann 14. janúar 1902 sigldi enski togarinn Anlaby í strand við Stekkjartúnskamp og fórst öll áhöfnin.Vestan við Stekkjartúnskamp eru klettabásar, nefndir Sölvabásar. Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni.  Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Þvottaklappir eru vestan við Vatnslónsvík, vestan við Vatnslónskletta. Á þeim eru daufar uppsprettur. Þær draga nafn sitt af því, að þegar lágsjávað var, rann þarna mikið vatn niður í fjöruna og var farið þangað með þvott frá Húsatóptum og hann skolaður. Var það kallað „að fara í Vötnin“. Vatnslónsvík er fyrir suðvestan fiskeldið.

Húsatóftir

Húsatóftir – fiskibyrgi.

Tóptarklöpp er stærst klappanna. Hún er um 100 metra norðaustur af steyptri bryggju og er vestasti hluti skerjatangans, austan við grónu klöppina, sem steypta sjóhúsarústin stendur á. Á henni voru fiskhjallar áður fyrr. Guðsteinn Einarsson segir að þar hafði lengi staðið sjávarhús frá Húsatóptum, en þau voru farin af fyrir síðustu aldamót (1900) og þá komin upp á bakkann fyrir ofan. Tóptarvör er vestan Tóptarklappar, vestast í Garðsfjöru. Búðasandur tekur við af henni til vesturs. Vörin er á milli Tóptarklappar og grónu klapparinnar, sem steypta rústin er á.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.
Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.

Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð). Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.

Prestastígur

Prestastígur.

Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru Pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.

Húsatóftir

Húsatóftir – ein Nónvarðan.

Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá. Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.

Húsatóptir

Fuglaþúfa ofan við Húsatóptir.

Prestastígur er gömul þjóðleið milli Húsatópta og Hafna. Hrafnagjá er vestur af Grýtugjá undir jaðri Eldborgarhrauns. Yfir gjána er hlaðin brú þar sem hún er um 2 m á dýpt. Hleðslan er úr hraungrýti og mjög heilleg, um 2 m breið og um 4 m löng. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla.
Líklega er þar að finna svonefndan Hamrabóndahelli, sem mikið er búið að leita að. Troðningur þessi er fær öllum þótt slæmur sé, segir í örnefnaskrá. Gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum. Nú er upphaf götunnar sett við þjóðveginn austan Húsatópta, en golfvöllurinn hefur verið lagður yfir hana næst bænum.
Frá túninu túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar. Leiðin er vörðuð svo til alla leiðina og eru flestar vörðurnar miklar og breiðar og vel uppistandandi. Hún er um 12 km.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Skothóll, allhár og gróinn með fuglaþúfi í toppinn, áberandi í landslaginu. Hann er vestast í Tóptarkrókum. Hóllinn er á mörkum Húsatópta og Staðar. Skothólsgjá liggur eftir endilöngum hólnum (um 1 m djúp). Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu.
Útilegumannabyrgi eru í sunnanverðu Sundvörðuhrauni. Um þau er fjallað sérstaklega í annarri FERLIRslýsingu.
Byrgjahólar eru vestan við Tóptartúnið. Eru þar mörg hlaðin byrgi frá þeim tímum er allur fiskur var hertur. Byrgin, sum heilleg, eru ofan við Hjálmagjá. Þau eru yfirleitt kringlótt og hlaðin í topp. Á þeim voru lágar dyr, vafalaust til að stórgripir kæmust ekki inn í þau. Byrgin voru hlaðin úr stórgrýti og blés vel í gegnum þau. Fiskurinn var hengdur upp á slár inni í byrgjunum. Aðeins eitt byrgjanna er enn vel heillegt og uppistandandi að hluta.

Húsatóptir

Fiskbyrgi ofan Húsatópta.

Baðstofa er norðaustur af Tóptartúni, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar um 9 faðmar, segir í örnefnaslýsingu. Baðstofa er um 300 m austur af bæjarhólnum. Í gjána var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Svo sagði Lárus Pálsson hómapat, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestur hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, að Húsatóptarbændur fengju að taka söl í landi Staðar. Gjáin er mjög djúp niður á vatnsborðið, en ekki nema um 3 m breið. Mikill gróður er í henni víða. Brú liggur yfir gjána þar sem vatni er dælt úr henni, en vatnið er bæði notað til vökvunar á golfvellinum og í fiskeldinu sunnan vegarins. Gegnumstreymi er á vatninu í gjánni. Skammt ofan gjárinnar er hlaðin refagildra.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (.þe.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.
Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur
-Fornleifaskráning 2002 – FÍ
-Örnefnalýsing fyrir Húsatóftir

Húsatóptir

Refagildra ofan Húsatópta.

Húsatóftir

Golfvellir á Reykjanes- skaganum eru allir byggðir á sögulegum minjasvæðum. Á, og við þá, eru bæði varðveittar minjar og einnig eyddar minjar.
Athyglin beinist að boltanum, en hvað um umhverfið...Líklega eru golfvellirnir þó nú best vernduðu svæðin á Skaganum því víðast hvar virðast þeir hafa notið betri skilnings og beinlínis forgangs þegar kom að varnargarðagerð vegna ágangs sjávar.
Svo virðist sem í upphafi hafi verið farið af stað með vallargerð á hverjum stað með lítilli fyrirhyggju hvað varðar gildi minjanna, en í seinni tíð má sjá hjá hlutaðeigandi vott af áhuga á merkilegheitunum til framtíðar litið. Dæmi þessa er ferð FERLIRsfélaga á Vallagerðisvöllinn við Sandgerði fyrir örfáum árum. Rétt er að geta þess í upphafi að FERLIR hefur haft það fyrir sið í mörg ár að fara eina golfvallaferð á ári. Flestir gætu látið sér detta í hug að um æfingaferðir væri að ræða, en svo er ekki. FERLIR hefur aldrei æft golf, einungis tekið þátt í mótum – einu sinni á ári. Þannig var því háttað á Vallagerðisvellinum umrætt sinn – holukeppni. Áhuginn beindist þó meira á keppnisleiðinni að nálægum sögulegum minjum en nýlega númeruðum holum, sem golfkúlunni var ætlað. Golfvöllurinn er nefnilega í landi Kirkjubóls, þess staðar er kom svo eftirmynnilega við sögu Jóns Gerrekssonar og síðar banamanna Takmarkinu náð - eða hvað...Jóns Arasonar, biskups (1550). Auk tófta bæjarins, grafreita og hins forna Skagagarðs í vallarfætinum var þar margt annað að sjá, s.s. staðar þess heiðna kumls er nú er undir gleri í gólfi Þjóðminjasafnsins. Hvaða heilvita golfari með snefils- menntun gæti mögulega látið eina litla hvíta kúlu villa sér sýn frá slíku minjasvæði þar sem sagan er svo að segja við hvert fótmál?
Til að gera langa sögu stutta breyttu staðarhaldarar stuttu síðar, eftir massíva ábendingu þátttakenda, nafni golfvallarins í Kirkjubólsvöll, enda betur við hæfi –  sögulega séð.
Vegna náinna tengsla golfvallanna við sögulegar minjar og þjóðsagnatengda staði, og eðlilega kröfu um varðveislu þeirra, hefur FERLIR ákveðið að lýsa nokkrum minjastöðum á hverjum stað – bæði til að auka líkur á varðveislu þeirra og jafnframt til að margfalda ánægju golfiðkanda er þeir fara „hringinn“. Hér á eftir verður lýst áhugaverðum stöðum við og á Húsatóftavelli við Grindavík, en þær verða ekki raktar nákvæmlega með hliðsjón af röð brauta – og þó. Hugmyndin er að einhvern tímann vakni áhugi viðkomandi á að setja upp aðgengilegan yfirlitsuppdrátt af svæðinu, líkt og Grindvíkingar hafa þegar byrjað á innanbæjar, svo upplýsa megi áhugasama golfiðkendur á hvað þar er að finna á leið þeirra um völlinn.
Pústi á HúsatóftarvelliByrjað verður á örnefnalýsingur fyrir Húsatóftir (Húsatóttir/- Húsatóptir): „
Upphaflega skráði Ari Gíslason örnefni samkvæmt upplýsingum Guðsteins Einarssonar hreppstjóra, Grindavík, og sóknarlýsingu frá 1840. Seinna bar Kristján Eiríksson lýsinguna undir bræður Guðsteins og samdi drög að endurskoðaðri lýsingu. Auk þess gerði hann skrá yfir spurningar, sem enn var ósvarað. Þessar spurningar voru seinna sendar bræðrunum, og vorið 1980 bárust svör við þeim, undirrituð af Einari Kr., Jóni og Þórhalli Einarssonum. Svörin voru að lokum felld inn í lýsingu Kristjáns.“
Byrjum austast að sunnanverðu: „
Svolítil vík, Vatnslónsvík, er vestan við Vatnslónskletta. Vestan hennar eru Þvottaklappir. Á þeim eru daufar uppsprettur. Þegar búið var að þvo og sjóða þvottinn, var farið með hann niður á klappir þessar og hann skolaður þar. Efst í Þvottaklöppum voru hlóðir, og var ullin soðin yfir þeim og hún síðan skoluð á klöppunum. Fram undan Þvottaklöppum eru klettar, sem fara í kaf á flóðum, og vildi fé flæða á Tóftir Hamraþeim. Voru þeir nefndir Flæðiklettar.“ Þennan stað má finna skammt austan golfvallarins.
Vestur frá Þvottaklöppum er nokkuð stór vík, sem heitir Arfadalsvík. Vestasti hluti hennar, beint niður undan Húsatóftum, milli Þvottaklappa og Garðafjöru, var í daglegu tali nefndur Vik. Upp af Arfadalsvík er Arfadalur, grasspilda. Vestan við Arfadalsvík er skerjatangi fram í sjó. Hann heitir Garðafjara. Norðan í henni er kúpumyndað sker, sem heitir Selsker. Syðst í Garðafjöru er skerjatangi, sem heitir einu nafni Barlestarsker. Þar munu verzlunarskipin fyrrum hafa tekið barlest. Upp af þeim er stór og mikil klöpp, sem heitir Kóngshella. Í einu af Barlestarskerjum var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar. Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verzlunarskipin á dögum kóngsverzlunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. (Ath. svínbinda: binda skipin bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hliðin lægi að Tóftir Vindheimahenni.) Boltinn í Barlestarskerjum var stór, fleygmyndaður bolti með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóftum, en er nú týndur [en finna má samt jarðlægan í garði í Járngerðarstaða- hverfi, ef vel er að gáð]. Festarboltinn í Bindiskeri er enn á sínum stað.
Í víkinni á milli Garðafjöru og Vatnstanga í landi Staðar var fyrrum aðalverzlunarhöfnin á þessum slóðum. Á einokunartímabilinu kom t. d. öll sigling inn á þessa vík, en mun hafa lagzt endanlega af í tíð Hörmangara. (Ath.: nánar má lesa um þetta í Staðhverfingabók.) Í seinni tíð hafa dekkbátar stundum verið látnir liggja inni á víkinni og hefur lánazt ágætlega. Vík þessi hefur ekki verið nefnd neitt sérstakt i tíð núlifandi manna, en hefur e. t. v. áður verið nefnd Staðarvík, a. m. k. heitir Staðarsund inn á hana. Það er áll á milli Dalboða  að austan og Gerðistanga (í Staðarlandi) að vestan. Vörðunesboði rís upp af grynningunum fram af Vörðunestanga, og er Dalboði rétt utan hans á sama grynningahrygg. Ekki þurfti mikinn Tóftir konungsverslunarinnar fremstsjó til að bryti á boðum þessum, og í stórbrimum brýtur þvert fyrir víkina.
Búðarhella er upp af Kóngshellu og upp af henni Tóftaklöpp. Hún er stærst klappanna. Á henni stóðu fiskhjallar áður fyrr. Vestan hennar er Tóftavör vestast í Garðafjöru. Búðasandur tekur við af henni til vesturs.
Danska verzlunarhúsið stóð á litlum hól u.þ.b. 80 m upp af Tóftavör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess.
Utan (vestan) við Búðasand eru Hvirflar, hæðardrag á mörkum Húsatófta og Staðar. Þar er vindasamt og einnig taka Hvirflar af útsýni á milli Húsatófta og Staðar. Á Hvirflum eru tvær vörður, Hvirflavörður. Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 m ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum milli Húsatófta og Hafna.Nónvarða
Í Hvirflum, austan við Hvirflavörður, var gerð steinbryggja árið 1933. Er hún í landi Húsatófta.
Verður þá aftur lýst austan frá. Skammt fyrir ofan Bjarnagjá er hár hóll eða klettur, sem heitir Hvíldarklettur. Hann er skammt norðvestan við gömlu brautina milli Járngerðarstaða- hverfis og Staðarhverfis. Munu menn hafa lagt byrði sína af sér á klettinn til að hvíla sig.
Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi (þ. e. ytra hluta Staðarsunds). Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftavör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera kominn á Snúning.
Hraunstandurinn, sem áður var nefndur, var alltaf kallaður Sundvarða og hraunið umhverfis hann Sundvörðuhraun.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóftum, eru Pípuklettar. Í frosthörkum urðu óvenjulöng grýlukerti niður úr þessum klettum. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóftum, er lítill klettur eða hóll, sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður í þeim, áður en söltun kom til.
Fimm tómthús voru í landi Húsatófta í línu frá Húsatóftum að Hvirflum: Hamrar, Blómsturvellir, Dalbær, Vindheimar og Reynistaður [leiðr. EKE, var “Reynivellir”]. U. þ. b. 1/2 km var á milli allra þessara húsa. Öll þessi tómthús nema Húsatóftir - gamla bæjarstæðiðDalbær voru byggð eftir 1910 og eru nú ásamt heima-jörðinni öll í eyði og nú aðeins rústir einar.
Reynistaður stendur enn (hús með kastalaþaki) og er nú nýttur sem sumarhús. Bærinn var þurrabúðarfjár- festing, byggður af Kristjáni Halldórssyni og Önnu Vilmundardóttur frá Löndum árið 1934. Bygging Reynistaða sýndi ótvírætt, að við þar framkvæmdir í hafnarmálum Staðhverfinga, sem bryggjan á Hvrirflum var, vöknuðu vonir um að í Hverfinu myndi byggðin ekki leggjast af, jafnvel fara vaxandi og haldast í hendur viuð fólksaukninguna í Grindavík í heild. Menn reiknuðu þá ekki með jafn örum vexti, sem hin góða hafnaraðstaða í Hópinu myndi skapa í Járngerðarstaða- hverfi. Við hana stóðst bryggjukrílið á Hvirflunum vitanlega hvorki samanburð né samkeppni. Og því fór sem fór.
Vindheimar voru reistir um 1911 er Árni Jónsson á Húsatóftum seldi Magnúsi syni sínum í hendur þriðjunginn af sínum parti á Tóftum. Síðar, líkt og Templarahúsið í Fiskibyrgi á Byrgishæð ofan HúsatóftaJárngerðarstaða- hverfið, varð Vindheimahúsið miðstöð Staðhverfinga. Að lokinni álfabrennu á þrettándanum og dansi í kringum hana uppi á barðinu austur af Stað, var hlaupið við fót heim að Vindheimum. Ljós voru tendruð, nikkan tekin á hné og danssporin stigin af ungum og öldnum. Á stundum var polkinn eða rællinn svo heillandi á Vindheimaballi, að pörin leiddust ekki til síns heima, fyrr en má var að skinnklæðast, hrinda fram skipinu og róa út á mið í skímu komandi dags. Vindheimar fóru í eyði 1934.
Dalbær var reistur 1906, fyrsta þurrabúðin að Húsatóftum. Elsie og Guðsteinn Einarsson, síðar hreppstjóri eftir föður sinn, bjuggu um tíma í Dalbæ. Bærinn fór í eyði 1946.
Blómsturvellir, þurrabúð, eru fyrst nefndir í manntali 1914, en samnefnt kot hafði áður verið í landi Staðarlandi. Flsut var úr húsinu 1922 og stóð það autt um skeið, en var síðan rifið og efniviður þess fluttur sjóleiðina með timburbát til Keflavíkur. Ekki varð þó úr að húsið yrði endurbyggt þar.
Húsatóftir - nýjasta húsið - nú golfskáliHamrar voru byggðri af Jóni vitaverði Helgasyni á Reykjanesvita. Hann fékk útmælda 900 ferfaðma lóð hjá Einari á Húsatóftum og byggði sér þar lítið, pappaklætt timburhús og kallaði á Hömrum. Það var aðeins 28 ferfaðma að flatarmáli, Fyrsta árið voru þar 11 manns í heimili. En hjartarúmið á Hömrum var nóg, ekki stóð á því. Árið 1930 fékk Jón Stað til ábúðar og fluttist þangað. Eftir hann kom enginn að Hömrum. Nokkrar sagnir eru til um samskipti Hamrabónda og hreppstjórans á Húsatóftum, en sá fyrrnefndi þótti stoltur mjög.
Vestur af Húsatóftum er landið nokkru hærra og heita þar Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktamark frá Húsatóftum. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda Hjálmagjástanda Nónvörður að nokkru enn.
Sanda heitir hóll upp af Garðafjöru. Hann er skammt austan við hólinn, sem danska verzlunarhúsið stóð á. Er búizt var við brimi og flóðhæð, voru vertíðarskipin sett úr naustum upp á Söndu, sem var um 200 m vestur af naustunum og stóð nokkru hærra en þau.
Tóftakrókar eru heiðarland á svæðinu frá Tóftatúni og vestur að apalhrauninu, á breidd um það bil 2 1/2 km. Miðkrókar eru miðsvæðis i þessari heiði. Þar er Miðkrókagjáin, löng og djúp. Margar fleiri gjár eru í Tóftakrókum og liggja allar eins, frá norðaustri til suðvesturs, flestar djúpar og margar með vatn í botni. Um Tóftakróka lá vegurinn í Hafnir fast með Tóftatúni. Vestast í Tóftakrókum er Skothóll í mörkum milli Húsatófta og Staðar, fast upp undir apalhrauninu (Eldborgahrauni). Skothólsgjá liggur eftir endi-löngum hólnum frá norðaustri til suðvesturs. Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu. Um 1/2 km norður af Skothól er Grýtugjá. Allmikið graslendi er á þessu svæði. Um 1500 m norður af Grýtugjá er Sauðabæli, hár hóll. Landgott og skjólsælt var í kringum hann og hélt fé sig þar mikið. Gamli Hafnavegurinn úr Staðarhverfi liggur milli Sauðabælis og apalhraunsins.
Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins, er Hrafnagjá. Hún liggur frá norðaustri til suðvesturs eins og allar gjár á þessu svæði og reyndar allar gjár á Reykjanesi. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé. Í Óbrennishólum er töluvert graslendi og lyng og ekki eins hraunbrunnið land og í kring. (Ath.: Ekki hafa Jón og Einar heyrt þá nefnda Óbrynnishóla).
Vörðuð þjóðleið að HúsatóftumMiðkrókakriki teygist langt inn í apalhraunið úr vesturjaðri Tóftakróka. Í norðvestur af honum, úti í apalhrauninu, er dálítið sléttlendi og eru þar nokkur grjótbyrgi, er gefa til kynna, að þar hafi fólk hafzt við, er vildi fara huldu höfði. [Byrgin eru 9 talsins, ýmist einhlaðin eða tvíhlaðin [viðb. EKE]]. Byrgin eru vel falin í apalhrauninu, en frá staðnum ber Sundvörðuna í Gyltustíg í Þorbirni. Getgátur eru um, að þangað hafi menn flúið ¬- annaðhvort undan ræningjum eða drepsóttum eða þá að ófrjálsir menn hafi hafzt þarna við, en engar sagnir eru um mannvist þarna. Sléttar klappir eru þarna og er hraunið hátt umhverfis. Á klöppum þessum, nálægt miðju, eru þrjú byrgi í röð frá austri til vesturs. Auk þess er rúst af kofa norðaustast í þessari hvilft, undir hárri hraunnípu. Þröngum og djúpum hraunkrika vestan við rústina hefur verið lokað með grjótgarði og virðist þar hafa verið fjárrétt.
Vestan við Tóftatúnið eru Byrgjahólar. Eru þar mörg hlaðin byrgi frá þeim tímum, er allur fiskur var hertur. Byrgi þessi vHarðhaus og Dalurinn ofan við Húsatóftiroru yfirleitt kringlótt og hlaðin í topp. Á þeim voru lágar dyr, vafalaust til þess að stórgripir kæmust ekki inn í þau. Þau voru hlaðin úr stórgrýti, og blés vel í gegnum þau. Fiskurinn var hengdur á slár inni í byrgjunum. Aðeins eitt þessara byrgja er nú vel uppistandandi.
Vestast (efst) í túni Húsatófta byrjar gjá, grasi gróin í botninn. Vestri hamraveggurinn rís allmiklu hærra en sá eystri, og reyndar er enginn eystri veggur neðst. Gjá þessi heitir Hjálmagjá. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsta með dýrlegum ljósahjálmum, sem báru mjög af lýsiskollunum í mannheimi.
Framhald Hjálmagjár með túninu heitir Túngjá og síðan heitir hún Tóftagjá og er hún eina 2-3 km á lengd. Norðaustur af Tóftatúni er Baðstofa, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar 9 faðmar. Töluverður gróður er á hamrasyllum í gjánni. í Baðstofu var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómópati, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestar hafi fengið að sækja vatn íBrunnur við Húsatóftir Baðstofu gegn því, aö Húsatóftabændur fengju að taka söl í landi Staðar.
Norðan Baðstofu er Baðstofugreni. Norðaustur af Baðstofu er Baðstofuhraun, en norður af því er Bræðrahraun. Það nær niður á milli Sundvörðuhrauns og Blettahrauns, sem er í landi Járngerðar-staða. Norðan við Tóftagjá er hár hóll, Skyggnir. Þar var skipt í leitir, er Tóftakrókar, Baðstofuhraun og Bræðra-hraun og landsvæðið upp af Vörðunesi var smalað.
Vestur af Eldborgahrauni er Sandfellshæð, mikil um sig. Í henni er Sandfellsdalur, gamall eld-gígur, einhver sá mikilvirkasti á Reykjanesi. Í botni hans eru margir stapar og gosop, nú gróin mosa og grasi. Framan við Sandfellshæð eru hólar, sem heita Einiberjahólar. Þeir ná vestur að Haugum við Haugsvörðugjá. Fram af hólunum er Hrossabeinagreni.“
Örnefni í túninu eru eftirfarandi: „Norðaustast í túninu [á Húsatóftum [viðb. EKE]] er lægð, er heitir Dans. Í leysingum á veturna fylltist hún oft af vatni. Þegar frost komu, varð þar ágætt skautasvell. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika þar listir sínar á skautum í tunglsljósinu. Krían var áleitin...Mun lautin draga nafn sitt af því. Sunnan við Dans er Kvíalág og Fjósaskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til þess að fá þurrk. Þessi örnefni eru öll vestan og norðan gamla bæjarins og ná Fjósaskák og Harðhaus alveg heim að gamla bæ. Suðaustan við bæjarhlaðið eru gamlar veggtóftir, er nefndust Þanggarður (sbr. heygarður). Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helzt þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávar-bakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang oft skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli og með flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum upp á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt, að rigndi vel á þangið, svo úr því færi öll selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast ...og eggiðvar þurru þanginu hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt í hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistaflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.
Litlatún er austasti jaðar Tóftatúns. Vestan þess eru lágir hólar, nefndir Hrygghólar. Munu þeir draga nafn af fiskhryggjum, en sjóslang var borið á þá. Vestan þeirra er slétt flöt, nefnd Veita. Ævafornar hleðslur eru sunnan hennar og norðan. Virðast þær hafa verið ætlaðar til að stöðva vatn á Veitu. Vestan Veitu er Hjálmatún, brekkan upp að Hjálmagjá.
Alllangt suðvestur af Tóftatúni, eins og það er nú, eru rústir gamalla grjótgarða. Munu það vera hin gömlu mörk Tóftatúnsins. Innan garðsins hefur myndazt uppblástur í túninu, sem á áratugum hefur teygt sig æ lengra inn í túnið, bar til uppblásturinn var stöðvaður á árunum kringum 1930 með því að gera sneiðingu í bakkann og græða sárið. Við þennan uppblástur í áratugi eða aldir myndaðist þessi lægð, Skipadalur, í suðvesturhorn Tóftatúns. Munu vertíðarmenn löngum hafa sett skip sín að lokinni vetrarvertíð upp í Skipadalinn.
Leifar seinni tíma saltfisverkunnar á KóngshelluÍ Sögu Grindavíkur (JJÞ-1994) segir m.a. um Húsatóftir: „Húsatóttir var eina lögbýlið í Staðarhverfi, að Stað undansyldum. Húsatóttum lýsir séra Geir Bachmann svo í lýsingu Grindavíkursóknar: „Var jörð þessi fyrrum Viðeyjarklausturs jörð, og höfðu Viðeyingar hér útræði. Jörðin er rúm 33 hndr. að dýrleika og 1836 (1837) seld með fleri kóngsjörðum þetta ár til þáverandi landesta þar, Jóns bónda Sæmundssonar… Svo er háttað á Húsatóttum, sem bærinn og túnið væri á afarbreiðum klettastalli, er það umgyrt að austan og vestanverðu með öflugum grjótgarði, en fær ekki frelsað það fyrir töluverðu sandfoki af allri vestanátt, því milli Staðar og Húsatótta eru graslausar sandflesjur á milli lágra hraunklappa. Mörgum þykir fallget á bæ þessym, því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa; eru þau allvel ræktuð. Héðan er og víðsýnast frá bæjum í sókninni, þó ei sé annað að sjá fyrir utan túnið en sand, sjó og brunnin hraun.“
Vindheimar - dæmigerð þurrabúðHúsatóttir komu að sönnu mikið við sögu Grindavíkur á fyrri öldum, ekki síst vegna þess að þar var aðalaðsetur Grindavíkurverslunar á 17. öld, og allt fram til 1742. Heimildir um Húsatóttir fyrir 1700 eru afar fáskúðugar. Viðeyjarklaustur hafði þar ítök í reka og öðrum fjörugæðum þegar á 13. öld, en að öðru leyti koma Húsatóttir lítt við sögu í skjalfestum heimildum fyrr en kemur fram á 18. öld. Jörðin virðist hafa komist að fullu í eigu Viðeyjarklausturs ekki síðar en á 15. öld, og eftir síðaskiptin sló konungur eign sinni á hana eins og á aðrar eigur íslensku klaustranna. Voru ábúendur á Tóttum því landestar klaustursins frá því á 15. öld og fram að siðaskiptum, en eftir það konungslandsetar allt fram til þess, er jörðin var seld 1837.
En þótt Húsatóttir hafi sannanlega verið í byggð frá því á 12. öld, og sennilega frá landnámsöld, er lítið vitað um ábúendur þar fyrir 1700.“ Krían og hreiðurgerð hennar hafa sett svip sinn á Húsatóftir um aldir – og nytin verið eftir því.
Klettar við Húsatóftatún„Merkilegar fornleifar hafa fundist á Húsatóttum. Það var veturinn 1872, að rústir af mörgum smáum kofum, hlöðnum úr grjóti, fundust af tilvilkun í hraunkvos skammt vestur af Sundvörðunni. Þorvaldur Thoroddsen skoðaði tóttirnar árið 1883 og sumarið 1902 kom Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi til Grindavíkur og skoðaði rústirnar. Hann birti lýsingu á þeim í skýrslu sinni í Árbók Fornleifafélagsins árið 1903 og taldi tóttirnar vera alls sjö, en of litlar til þess að menn gætu hafa dvalið þar nema skamman tíma í einu. Löngu síðar rannsakði Ólafur Brieum rústirnar, og taldi hann alls tíu tóttir. Lýsing Ólafs af tóttunum er ýtarleg, en ekki kemst hann, fremur en Brynjúlfur og Þorvaldur, að ákveðinni niðurstöðu um þaðm til hvers kofarnir hafa verið notaðir. Þar virðast einkum tveir möguleikar koma til greina; að þarna hafi útilegumenn hafst við skamma hríð, eða að byggðamenn hafi útbúið þarna fylgsni, sem flýja mætti í ef ófrið eða ræningja bæri að höndum. Væri því trúlegast að kofarnir hafi verið hlaðnir á 17. öld, eftir Vegur að Vindheimum - minjar konungsverslunarinnar fjærTyrkjaránið [1627].“ Þess má geta að um þessar fornleifar er fjallað annars staðar á vefsíðunni, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að minjarnar hafi verið fiskgeymsluhús, sem virðist jú nærtækasta skýringin m.v. stærð, lögun, staðsetningu og samanburð við önnur sambærileg í nágrenni Grindavíkur. Nákvæmlega eins byrgi, algerlega ósnert, fundust í einni FERLIRsferðinni árið 2006.
Ljóst er að verslunarhöfn var við Húsatóttir þegar árið 1665. Ekki þótti kaupmönnum ráðlegt að endurreisa gömlu verslunarhúsin við Járngerðarsund, sem lögðust af á hafísárinu 1639, en fluttu sig þess í stað vestur í Arfadal í landi Húsatótta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir. Verslunarhús var reist á staðnum 1731. Leifar alls þessa má enn sjá yst á golfvellinum, rétt ofan við sjávarbakkann. Árið 1745 hættu Hörmangarar skyndilega að sigla á Arfadalsvík, en stefndu skipum sínum þess í stað á Básenda.

Helga Kristinsdóttir

Helga Kristinsdóttir á Húsatóftum.

Einar Jónsson, hreppstjóri, andaðist 1933. Eftir lát hans bjó ekkja hans, Kristín, áfram með börnum sínum að Húsatóttum, en fluttist inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1944.
Þótt hér að framan sé hlaupið yfir langa sögu margra kotbýla og höfuðbóls, er brauðfæddu fjölmargan manninn um aldir, þrátt fyrir allnokkur þrengsli og mikil takmörk, má vel heimfæra víðáttu hins 18 holna leikvallar til afraksturs þess – þ.e. fjölda afkomenda og blómlegra mannlífs – þar sem stundir gefast til leiks og afslöppunar frá striti hversdagsins.
Til að koma fyrir golfvelli á minjasvæðum verður ekki komist hjá því að eyðileggja sumar minjanna. Á Húsatóftum hafa aðallega hinir gömlu hlöðnu veggir farið forgörðum, gamlar götur og stígar, lending og matjurtargarðar. Þá hafa örnefnin verið að hverfa með tíð og tíma.
Húsatóftir og Staður eiga það sammerkt með nútíðinni að breytingar í atvinnuháttum leiða til byggðaröskunnar. Fólki fjölgaði á tímum verslunarinnar og einnig var verulega byggt í hverfinu þegar bjartsýnin á aukinni útgerð var sem mest, en þegar hún varð að engu flutti fólkið sig um set .
Helga Kristinsdóttir ólst upp á Húsatóftum. Hún gekk með FERLIRsfélögum um tóftir gamla bæjarins á Efri-Tóftum og útskýrði aðstæður þar, eins og þær voru þar í hennar tíð.
Fábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Þ. Þór, Saga Grindavíkur 1994.
-Gísli Brynjólfsson, Mannlíf mikilla sæva – Staðhverfingabók 1975.
-Örnefnalýsing fyrir Húsatóftir – Örnefnastofnun Íslands.
-Óli Gam. frá Stað og Barði á Húsatóftum.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni.